Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Sandfelli um Hrútagjádyngju og á hellasvæðið norðan hennar.
Við Sandfell er Hrútfell, sem dyngjan dregur nafn sitt af. Á Dyngjatoppi þess stendur hrúturinn. Hrúthólmi er vestan dyngjunnar og Hrútafell sunnar. Dyngjan sjálf er mikil um sig. Gígurinn er hringlaga og sléttur í henni vestanverðri. Út frá honum liggja myndarlegar hrauntraðir er mynduðust er hraunið rann fyrir u.þ.b. 4500 árum síðan.
Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.

Húshellir

Við Húshelli.

Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir úr helluhraunslögum. Gígbarmarnir rísa venjulega ekki yfir umhverfið en fyrir kemur að hraundrýli rísi meðfram gígbörmunum eins og sjá má á Selvogsheiði (Hnúkum). Í hraundrýlunum og í nágrenni þeirra má oft sjá pípulaga bergmola sem myndast þegar gas brýtur sér leið í gegnum hálfstorknaða kvikuna. Algengt er einnig að hrauntjarnirnar tæmist og myndast þá oft djúpur ketill með bröttum veggjum.
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar, sem er á mörkum eldborgar og dyngju.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Utan Íslands eru dyngjur sjaldgæfar nema á Hawaii-eyjum þar sem þrjár dyngjur eru enn virkar. Úr dyngjunum renna oft mikil hraun, sbr. Sandfellshæðina, Þráinsskjöld, Heiðina há og Hrútargjárdyngju.
Hrútargjárdyngja er einstaklega fallegt jarðfræðifyrirbæri. Barmar meginhraunsins hafa lyfst á gostímanum og myndað veggi og gjár með köntunum. Hrauntraðirnar eru miklar vegna hins mikla hraunmassa og hafa myndað gerðarlega og greiðfæra ganga um hraunið.
Hellunum neðan Hrútargjárdyngju er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, sjá meira HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Árni Hjartarson – JÍ 2003.

Húshellir

Í Húshelli.