Viðeyjarborg

Fjölmargar fyrirspurnir berast á netfangið ferlir@ferlir.is. Sumir eru að þakka fyrir fróðleikinn og leiðbeiningarnar á meðan aðrir eru að leita upplýsinga um einstaka staði eða tiltekin svæði. Jafnan er reynt að svara öllum fyrirspurnum eftir bestu getu og vitneskju. Í einstaka tilviki hefur þurft að kanna nánar aðstæður til að geta svarað af nákvæmni. Undantekningalaust eru fyrirspyrjendur ánægðir með svörin. Hér skal tekið eitt ágætt dæmi um hið síðastnefnda.

Fjárborgin í Litla-Borgarhrauni

Áhugamaður um vegagerð, sem jafnframt mun vera vel kunnugur á svæðinu, hafði lesið fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar. Þar er m.a. getið um fjárborg (Borg) í Ísólfsskálalandi. Þar segir m.a.: “Vísað er í örnefnalýsingu fyrir Ísólfsskála: Fjárborg – ca. 40 m suður af malarvegi, NA í klettum er heita Litliháls. Ca. 10,5 m í þvermál. Veggir úr grjóti, ca. 1,5 m breiðir og 0,8 – 1,3 m háir. Dyr snúa mót vestri. Út úr borginni suðvestanverðri gengur garður, 4 m langur, 0,5 – 1 m breiður og 0,1 – 0,6 m hár. Við norðvestur horn fjárborgarinnar er hólf. Veggir þess eru úr grjóti, 1 – 1,5 m breiðir og 0,1 – 1 m háir. Dyr gætu verið á hólfinu til NNV. Út úr þessu hólfi gengur garður, 10 m langur, 0,3 – 0,8 m breiður og 0,1 – 0,4 m hár. Beygir hann dálítið til suðurs. Garðurinn er mjög ógreinilegur eftir því sem utar (vestar) dregur”. Meðfylgjandi eru bæði ljósmynd af Borginni og uppdráttur, auk hnita (reyndar í ótilgreindu hnitakerfi – ef það er slegið inn í ´84 verður staðsetningin nálægt Stokkseyri).
BorgarhraunsborginHér vakna eðlilega allnokkrar efasemdir, einkum vegna þess að Borgin er sögð verða í Ísólfsskálalandi og auk þess undir Litlahálsi,. Vísað er í örnefnalýsingu fyrir Ísólfsskála. Hún á reyndar við Borgina í Litla-Borgarhrauni, sbr.: “Ef farið er aftur vestast í landareignina þá eru móklettar vestast (norðaustan í Festi). Austan þeirra er Borgarhraun og austan þess rís Borgarfjall sem er syðsti hluti Fagradalsfjalls. Landamerki Hrauns og Ísólfsskála eru frá Móklettum og í miðja suðuröxl Borgarfjalls. Suður frá Móklettum er Lyngfell og austur úr því er Litliháls. Þar austur af er Litla-Borgarhraun og þar í er hlaðin hringmynduð fjárborg sem kölluð er Borgin”.

Viðeyjarborg

Viðeyjarborg/Borgarhraunsborg.

Borg þessi er á réttum stað skv. örnefnalýsingunni. Hún mun hafa verið frá yfirráðatímum Viðeyjarklausturs, en kirkjustaðurinn Kálfatjörn átti um tíma bæði reka og önnur ítök í Ísólfsskálalandi. Borgarinnar er hins vegar ekki getið í nefndri fornleifaskráningu fyrir Suðurstrandarveg. Sumar aðrar minjar, sem þar er getið (sem betur fer) hafa reyndar ekki réttar tilvísanir. Líklega er um að kenna umfengi og önnum. Erfitt er að halda utan um allar mögulegar upplýsingar um fornleifar á svo stóru svæði sem þessu – frá Ölfusárósum til Grindavíkur. Eingöngu Selvogssvæðið væri ærinn handleggur í þeim efnum. Skrásetjara hefur því verið nokkur vorkunn.
Ef miða ætti við örnefnalýsinguna í fornleifaskrárlýsingunni ætti staðsetningin að vera inni á Tófan hvíta ofanverðum túnum Skála, ofan bjallans, en jafnframt utan þeirra NA við Litlaháls. Þar er bara engin fjárborg, einungis gamla þjóðleiðin til Skála og Krýsuvíkur. Hins vegar er ágætt að gaumgæfa þetta svæði mun nánar því þess er hvergi getið í fornleifaskráningunni. Þarna eru bæði gamla þjóðleiðin, sem fyrr sagði, og ummerki eftir fyrstu vegargerðina árið 1932 og annarrar eldri.  Sú síðarnefna liggur millum Skála og Siglubergshálsar, um Litlaháls. Eldri þjóðleiðin sést enn svolítið ofar utan í Lyngfellinu. Fyrrnefnda leiðin, “Hlínarvegurinn” (fyrsti akvegurinn), liggur út af Skálaveginum sunnan gamla malarvegarins með stefnu inn á Litla-Borgarhaun og Drykkjarsteinsdalsmynnið. Fleira fróðlegt liggur þarna fyrir manna og hunda fótum – ef vel er að gáð.
Þegar hér var komið virtist ekkert koma heim og saman, hvorki staðsetningin né lýsingin á títtnefndri fjárBorg. Viðfangsefnið vafðist þó ekki fyrir staðkunnugum, einkum vegna þess að í forneifaskráningunni bitist bæði ljósmynd og uppdráttur. Af ljósmyndinni að dæma virtist bakgrunnurinn bera keim af syðsta hluta Sveifluhálsar, langt utan landamerkja Ísólfsskála (sem á landamerki að Dágon neðan við Selatanga, allnokkru vestar) og uppdrátturinn bar með sér að umrædd fjárborg væri Krýsvíkinga vestan Borgarhóla.

Borgarhólsborgin

Þar um lá fyrrum gata frá Krýsuvík áleiðis inn á Húshólmastíg (sem reyndar er sagður Ögmundarstígur í Fornleifaskráningunni). Á  landakortum mun þar og skammt vestar vera Litliháls. Þegar leitað var í örnefnaskrá (AG) fyrir Krýsuvík mátti lesa eftirfarandi: “Austur af Latsfjalli, norðan vegarins um hraunið, er fell það, sem heitir Krýsuvíkur-Mælifell, og suður af því, við suðurenda Sveifluháls, eru Borgarhólar. Norðaustur frá Borgarhólum fer svo hálsinn að myndast. Nokkuð þar austur með hálsrótunum er smáhnúkur einstakur, sem heitir Einbúi”.  Ekkert um Litlaháls og Borgina, sem þar er. Í annarri örnefnalýsinu (Gísla Sigurðssonar) segir hins vegar: “Framundan eru móbergsklettar, nefnast Borgarhólar og eru á vinstri hlið við leiðina. Hér sér enn til gamla troðningsins og hér eru vörðubrot að sjálfsögðu mikið gömul.

Borgarhólaborg

Borgarhólaborg.

Fram undan Borgarhólum er Borgin, Fjárborgin eða Borgarhólafjárréttin, því bæði var þetta fjárskjól og einnig var rekið að þarna fé úr Vesturheiðinni”. Ekkert er minnst hér á Litlaháls.
Af einhverri ástæðu er örnefnið Litliháls komið inn á landakort vestan Borgarhóls. Í umsögn er Borgin þar skammt vestar sögð heita “Borgarhólsborg”. Frá henni er hið ákjósanlegasta útsýni yfir að Húshólma. Varða er við leiðina neðar í Krýsuvíkurheiðinni, áleiðis að Húshólmastíg. Jarðvegseyðingin í heiðinni hefur afmáð stíginn að hluta, en ef vel er gengið má enn sjá legu hans undan hallandanum frá fjárborginni.
BorgarhólsborginVið umfangsstaðfestingarleit á landssvæðinu birtist skyndlega hvít tófa, stór og stæðileg. Hún brást við forvitninni, skaust upp undir Skalla í Núpshlíðarhorni, og fylgdist þaðan með neðanferðum.
Fjárborgin vestan Borgarhóls er sú er getið er um í fornleifaskráningunni (í Krýsuvíkurlandi). Reyndar er, skv. seinni tíma ranglætislöggjörningum, Borgin rétt vestan marka þeirra (Grindavíkurmegin) er ákvörðuð var af Alþingi sem gjafréttur til handa Hafnfirðingum (Borgarhóll og austur að Bergsendum).
Hér að framan er lýst, að því er virðist, litlu dæmi um rangfærslu í fornleifaskráningu. T.a.m. er Sængurkonuhellir er nefndur er í örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík er sagður “fjárskjól”.
Hafa ber í huga að allri framkvæmdarvinnu er ætlað að taka mið af þessum gögnum. FERLIR hefur áður gagnrýnt slíka vinnu, bent á margar meinsemdir og tiltekið dæmi um óvönduð vinnubrögð. Samt sem áður hafa framkvæmdaráætlanir verið keyrðar áfram á grundvelli fyrirliggjandi “gagna” og fornleifayfirvöld hafa byggt ákvarðanir sínar á þeim – með tilheyrandi afleiðingum. Ef ekki verður hugað betur að þessum málum munu æ fleiri minjar fara forgörðum í framtíðinni, bæði vegna þekkingarleysis og kæruleysis viðkomandi.

Fjárborgin

Fjárborgin í Borgarhólum.