Grindavík

Í Sjómannadagsblaðinu 1976 er fjallað um “Grindavík – hina dæmigerðu verstöð”.

Grindavík“Ef maður ætti að stinga upp á dæmigerðri sunnlenskri verstöð að fornu og nýju, kæmi nafn Grindavíkur fljótlega upp í hugann. Haugabrim, grýtt lending og saltur stormurinn vælir í hraunum og gjótum. Manneskjurnar, stórhentir menn, svipmiklar konur og glaðvær börn, og búsmalinn nagar sölt stráin sem þar eru sverari í rótina en annarsstaðar, eins og hann Jón í Möðrudal orðaði það. Svo koma umskiptin. Stór og falleg hús, höfn, viðlegupláss fyrir hundrað skip, félagsheimili og hitaveita og þegar vindurinn blæs og hann hífir upp sjó, er skjól í höfninni fyrir næðingnum, skjól í húsunum og búfé sést naumast lengur.
Saga Grindavíkur er líklega jafnlöng sögu íslensku þjóðarinnar eftir að land byggðist. Það kemur af sjálfu sér. Til þess þarf engar bækur, aðeins heilbrigða skynsemi. Fiskur fyrir landi og útræði voru vandfundin; annars segir svo í Landnámu: „Maður hét Hrólfur Höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir.
Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.
Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu og gerðist þar fjölbyggt, áður en jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldvelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn.”

Hóp

Líkleg bólfesta fyrsta landnámsmannsins í Grindavík.

[Frá Hrossagarði sigldu þeir til Grindavíkur og settust þar að, Molda-Gnúpur og fylgdarlið.]
Það fylgir ekki sögunni hvaða búskaparhættir voru stundaðir í Grindavík [fyrrum], en maður getur sér þess til að þeir hafi verið með líkum hætti og annarsstaðar við sjávarsíðuna, sjóróðrar og kvikfjárrækt. Sé á hinn bóginn gripið til þess að geta í eyðurnar, tekur varla betra við. Stöðum eins og Grindavík, mannlífi fornmanna þar yrði betur lýst í tónverki eða ljóði. Einu má þó slá föstu, að þar hefur fólk búið allar götur síðan og þvílíku ástfóstri hafa menn tekið við þennan stað, að búseta hefur aldrei niður fallið [utan jarðeldisáranna 1150-1270].
Til er örstutt lýsing á Grindavík, rituð fyrir meir en fjórum áratugum af norðlenskum bónda, Jóni Sigurðssyni á Ystafelli en hún hljóðar svo: „Grindavík er sunnan á (Reykjanes) skaganum vestanverðum og mjög langt er til næstu byggða. Þar er haglendi nokkurt, en engjar eru litlar. Hraun ganga allsstaðar í sjó fram, með smáhöfðum og vogum á milli, en ofan við byggðina mörg smáfell og núpar. Þykir fagurt í Grindavík. Bæir standa hér í þorpum margir saman, þar sem helst eru lendingar. Er útræði aðalbjargræði manna, þó að brim séu mikil og nægð af skerjum og boðum fyrir landi. Þó eiga Grindvíkingar allmargt sauðfjár.
Oft rekur dauðan fisk í Grindavík. Eru brimin svo sterk, að fiskar ráða ekki ferðum sínum á grunnsævi, og rotast á boðum og skerjum. Eitt sinn t.d. urðu fjörur rauðar af karfa eftir stórbrim. Slíkur reki var algengur víða sunnanlands.
Skálholtsbiskupar höfðu öldum saman aðalútræði úr Grindavík. Svo voru þeir voldugir, að þeir fengu þar kaupstað settan vegna skreiðar sinnar, þó að afskekkt væri og hafnlaust að kalla.”
Svona kemur hinum greinda norðlenska bónda Grindavík fyrir sjónir og má aetla að svipuð hafi myndin verið í huga landsmanna fyrr á tímum.
En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var ritað. Grindavík, einsog hún er í dag, er nýtískubær, malbikaður vetur um Suðurnes og til Reykjavíkur, banki, sýsluskrifstofa og hvaðeina, sem þarf til þess að reka nýtísku bæjarfélag og höfnin er bæði stór og fullkomin, þótt skip ráði nú ekki alltaf ferðum sínum inn og út, eins og fiskurinn forðum.
En þrátt fyrir allt, þá er nú ekki lengra síðan en svo að menn báru fisk upp úr skipum [á baki] við klappir og garða að menn á góðum aldri réru í sínu ungdæmi úr grýttri vör.

Atvinnuvegir Grindvíkinga
Grindavík
Í ágætri grein sem Eiríkur Alexandersson, bæjarstjóri, ritaði um Grindavík í Sveitarstjórnarmál árið 1974 segir hann þetta um atvinnu Grindvíkinga; „Upp úr síðustu aldamótum færðist landbúnaðurinn frekar í aukana, og var þá farið að auka ræktun túna. Eftir 1920 þótti t.d. sjálfsagt að nota landlegudaga, sem oft voru margir, til að skera ofan af ræktanlegu landi og gera úr því tún. Verkfæri voru ristuspaði, skófla og haki. Til sömu tíðar jókst og útgerðin, og um 1920 munu 24 bátar hafa verið gerðir út frá Grindavík frá hinum 3 aðallendingarstöðum í hreppnum, sem þá voru í Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi.
Sem áður er sagt, voru árabátar notaðir frá landnámstíð allt til ársins 1926. Þá fyrst voru vélar settar í 2 báta, sem notaðir voru á vetrarvertíð, og hétu þeir eftir það trillubátar. Þetta lánaðist svo vel, að í árslok 1927 var búið að setja vélar í alla báta í hreppnum nema einn. Á vetrarvertíð árið eftir mátti segja, að trillubátaöldin væri gengin í garð í Grindavík, þar sem þá voru allir bátar komnir með vél.
Eins og allir vita, liggur Grindavík fyrir opnu hafi, þar sem brimaldan gengur óbrotin á land. Stærð og þyngd bátanna takmarkast þess vegna löngum af því, að hægt væri að setja þá á land. M.a. af þeirri ástæðu komu vélar mun seinna í báta í Grindavík en víða annars staðar á landinu, þar sem hafnarskilyrði voru betri frá náttúrunnar hendi.
Fljótlega upp úr aldamótunum komu spil til sögunnar til að draga bátana á land. Spil þessi voru smíðuð úr tré, og gengu menn umhverfis þau og sneru þeim þannig, að dráttartaugin vatst upp á lóðrétt kefli. Spil þessi voru seinna endurbætt, svo að hægt var að nota þau við setningu trillubátanna, og síðan voru þau látin duga til að draga dekkbátana, sem voru 7-8 lestir að stærð.

Húsatóftir

Húsatóftir og Grindavík – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana. Enn má sjá minjar dönsku verslunarinnar neðan við Húsatóftir.

GrindavíkSem sögur herma, mun kóngsverzlun hafa verið í Staðarhverfinu fram til ársins 1745, en hana tók af í náttúruhamförum. Þessi staður mun því frá upphafi hafa verið talinn líklegust lega fyrir báta. Af þeim sökum mun útgerð dekkbáta fyrst hafa verið reynd frá Staðarhverfinu, og á árunum 1920-24 voru 2 dekkbátar gerðir út þaðan, en sú útgerð lagðist þó niður af ýmsum ástæðum.
Upp úr 1930 er svo farið að dekka síærri trillubátana og olli það vaxandi erfiðleikum við að setja þá með þeim frumstæðu spilum, sem áður er lýst. Varð það til þéss, að menn fóru að gera þvi skóna að grafa ós í gegnum rifið, sem lokaði Hópinu í Járngerðarstaðahverfi, og menn sáu að gæti orðið gott skipalægi, hvernig sem viðraði.
Á árinu 1939 er svo ráðizt í að grafa ósinn með handverkfærum og eftir þá framkvæmd gátu þeir bátar, sem þá voru til, komizt inn í Hópið á hálfföllnum sjó og fengið þar örugga legu. Árið 1945 var fengið dýpkunarskip, sem Reykjavíkurhöfn átti til að grafa ósinn, og má þá segja, að útgerðarsaga Grindavíkur í nútímastíl væri hafin. Síðan hefur nær óslitið verið unnið að endurbótum í Hópinu og hamarmannvirki verið byggð, svo að nú er Grindavíkurhöfn orðin ein öruggasta bátahöfn á landinu. Innsiglingin (sundið) er þó enn eins og á dögum Molda-Gnúps, erfið og varasöm. Gengur úthafsaldan óbrotin inn á grynningar í víkinni, og verður hún stundum ein samfelld brimröst, sem engri fleytu er fært um. Með stærri og betri skipum verða landlegudagar vegna brima þó sífellt fátíðari.
Á árunum 1939-1942 varð mikill afturkippur í athafnalífi og þróun Grindavíkur. Voru þar að verki áhrif frá heimsstyrjöldinni síðari 1939-1945, sem þá geisaði. Markaðir lokuðust fyrir fisk í Miðjarðarhafslöndum Evrópu þegar í byrjun stríðsins, svo að saltfiskurinn, sem var aðalframleiðslan, lá óseldur fram eftir ári 1939. Þegar svo úr rættist í árslok og Bretar fóru að kaupa allan saltfisk af Íslendingum og síðan alla okkar fiskframleiðslu til stríðsloka, var hin svokallaða setuliðsvinna komin til sögunnar. Mannaflinn fór í hana, en útgerð dróst mjög saman. Ýmsir fluttu þá í burtu og fólkinu fækkaði. Þetta lagaðist þó aftur fljótlega upp úr 1945 með tilkomu betri hafnarskilyrða í Hópinu, sem áður er getið.

Grindavík

Grindavík – Málverk Lindu Oddsdóttur.

Landbúnaður var lengst af annar aðalatvinnuvegur Grindvíkinga og stundaður af kappi fyrst og fremst sem hliðargrein við sjávarútveginn.
Upp úr síðustu aldamótum færðist svo nýtt fjör í búskapinn með aukinni ræktun túna, eins og fyrr er sagt. Samkvæmt landbúnaðarskýrslum er búfjáreign Grindvíkinga árið 1930 63 nautgripir, 2781 sauðkind og 67 hross. Árið 1940 eru samsvarandi tölur 92 nautgripir, 2857 sauðkindur og 51 hross, og virðist búskapur þá vera í hámarki.

Eftir að höfn er byggð í Hópinu og grundvöllur skapaðist fyrir útgerð stærri báta, má segja, að mikil breyting verði á atvinnuháttum hreppsbúa. Fleiri og fleiri fara að byggja afkomu sína eingöngu á útgerð og fiskiðnaði, en landbúnaði hrakar til sömu tíðar. Árið 1945 virðist þessi neikvæða þróun vera hafin, en þá eru 80 nautgripir, 2386 sauðkindur og 78 hross til í hreppnum. Nautgripum fækkaði mjög á næstu árum, og 1963 er síðustu kúnni fargað. Enn er þó sauðfjárrækt nokkuð stunduð, en aðallega af eldri mönnum í hjáverkum. Nú eru 1429 sauðkindur og 26 hross í hreppnum og fækkar með hverju ári.”
Ennfremur hefur bæjarstjórinn þetta að segja um byggðaþróun í Grindavík, í sömu grein:

Íbúa- og byggðaþróun
GrindavíkGrindavík er talin frá ómunatíð hafa verið í 3 hverfum: Staðarhverfi vestast, Járngerðarstaðahverfi í miðið og Þorkötlustaðahverfi austast. Milli þessara hverfa voru svo taldir einstaka bæir: Húsatóftir milli Staðar- og Járngerðarstaðahverfis. Hóp milli Járngerðarstaðaog Þorkötlustaðahverfis og Hraun rétt austan við Þorkötlustaðahverfi, en Ísólfsskáli nokkru austar. Krýsuvíkurhverfi var einnig tilheyrandi Grindavíkurhreppi allt til ársins 1936, að hluti af Krýsuvíkurlandi var lagður undir Hafnarfjarðarbæ.
Sögur herma, að í öndverðu hafi helztu jarðir í hreppnum verið Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir og Hraun. Með nýjum og nýjum kynslóðum í aldanna rás skiptust heimajarðimar, og bændum, þ.e.a.s. jarðeigendum, fjölgaði, og jarðir urðu fleiri og smærri. Einnig hafa jarðirnar gengið kaupum og sölum, ýmist verið konungs-, kirkju- og síðar ríkisjarðir eða bændajarðir. Nú eru lóðir og lendur í hreppnum ýmist í eigu ríkis, sveitarfélags eða hinna ýmsu landeigenda.
Frá landnámstíð og allt framá þessa öld var íbúunum gjarnan skipt eftir því, hvort þeir áttu land eða voru landlausir. Þeir, sem land áttu, nefndust bændur, en hinir þurrabúðar- eða tómthúsmenn. Eftir að þéttbýliskjarnar fóru að myndast fyrir alvöru, leið þessi skilgreining undir lok.
GrindavíkByggðin var frá upphafi í þremur hverfum, eins og oft hefur verið að vikið. Risu þessi hverfi umhverfis lendingarstaðina. Tók enginn lendingarstaðurinn öðrum fram, svo að nokkra úrslitaþýðingu hefði fyrir byggðaþróunina. Ibúafjöldinn hefur því ráðizt af öðrum ástæðum, s.s. framtaki fólksins, húsakosti o.s.frv.
Árið 1890 er tekið manntal í Staðarprestakalli, þ.e.a.s. í Grindavíkurhreppi að Krísuvík undanskilinni. Þá eru samtals 302 íbúar í sókninni. I Staðarhverfi búa þá 63 íbúar, í Járngerðarstaðahverfi 145 og í Þorkötlustaðahverfi 94 íbúar.
Með byggingu hafnar í Hópinu í Járngerðarstaðahverfi skapast fyrst þær breyttu aðstæður, sem valda því, að útgerð leggst með öllu niður frá Staðar- og Þorkötlustaðahverfunum og hefur fljótlega þau áhrif, að byggðin dregst saman á þessum stöðum og þó sérstaklega í Staðarhverfinu, sem er fjær. Enda fór svo, að Staðarhverfið fór fljótlega í eyði.
Grindavík
Lengst var búið á Stað eða til ársins 1964. Örlög Þorkötlustaðahverfis urðu nokkuð á annan veg. Byggð hefur að vísu ekki aukizt síðan höfnin var gerð, en heldur ekki minnkað verulega, sumpart mun þetta stafa af tiltölulega lítilli fjarlægð frá höfninni og sumpart af því, að hraðfrystihús var reist þar árið 1946 og veitti mikla atvinnu, einmitt um sama leyti og róðrar lögðust niður frá hverfinu sjálfu.
Eins og áður er getið, stóðu atvinnuvegir með nokkrum blóma á fyrstu áratugum þessarar aldar og fjölgaði íbúunum þá nokkuð. Árið 1900 eru íbúarnir 357, og árið 1938 eru þeir orðnir 553. Á stríðsárunum kom svo afturkippurinn, sem áður er lýst, svo að árið 1945 er íbúatalan komin niður í 489. Það er svo ekki fyrr en 1950 sem íbúatölunni frá 1938 er aftur náð eða því sem næst. Eftir það heldur fjölgunin áfram jafnt og þétt, þannig að árið 1960 eru íbúamir 734, fimm árum síðar eru þeir orðnir 913, og árið 1968 fara þeir yfir 1000. Árið 1970 voru þeir 1169, hinn 1. desember 1973 voru Grindvíkingar 1456, og nú, hinn 1. desember 1974 munu þeir vera alveg um 1600.
Einsog sést af framansögðu fer íbúatala Grindavíkur nú ört vaxandi og aðkomumenn eru þar margir svo að segja allt árið, því höfnin er mikið notuð til fisklöndunar á öllum árstímum, skip vilja spara sér siglingu til Faxaflóahafna með fisk sem fenginn er fyrir sunnan Reykjanes.
Sjómannadagurinn hefur ávallt verið hátíðisdagur í Grindavík. Það er ekki nein sérstök tilviljun að Sjómannadagsblaðið minnist Grindvíkinga sérstaklega. Það hefur staðið til lengi. Grindvíkingar hafa haldið uppi merki sannrar sjómennsku í þessu landi og ritnefndin sendir þeim sérstakar árnaðaróskir þennan dag.”

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 11. tbl. 01.06.1976; Grindavík – hin dæmigerða verstöð, bls. 9-17.
Sjómannadagsblaðið