Húshellir

Spáð var rigningu og hvassviðri, en stjórn FERLIRs hafði áður samið um gott gönguveður á svæðinu. Það gekk eftir.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Gengið var að Fjallinu eina norðan Hrútagjárdyngju. Á norðausturvegg gjáarinnar mátti sjá hversu hrikaleg átök hafa verið þarna í undanför mikillar goshrinu er fyllt hafði innanvert dyngjusvæðið mikilli hraunkviku eftir að landið umhverfis reis. Sjá má landrisið allt umhverfis dyngjuna sem afurðina neðanvert.

Hrútagjá

Í Hrútagjárdyngju.

Skammt frá Fjallinu eina, í Hrútagjár[dyngju]hrauni, eru nokkrir hraunhellar, s.s. Steinbogahellir (Hellirinn eini), Húshellir, Híðið og Maístjörnuna. Hellarnir fundust fyrst, svo vitað sé, árið 1989. Ætlunin var að leita að þessum hellum skv. lýsingum. Um er m.a. um að ræða dropasteinshella, 155-170 m langa. Steinbogahellir dregur nafn sitt af steinboga yfir hrauntröð framan við hellisopið. Híðið er vandfundið því hellismunninn er lítill og þröngur. Það er nyrstur hellanna, en hann er einn fegursti hraunhellir á Íslandi. Í honum eru nokkurra þúsund ára (˜4500) dropasteinar og því þurfti að fara þar mjög varlega.

Innanvert opið á Húshelli

Í Húshelli.

Innan við op Húshellis er hlaðið hús úr hraunhellum. Talið er að hleðslan sé mjög forn. Hellirinn greinist í tvennt er inn er komið. Heimildir eru um að útilegumenn hafi jafnvel hafst við í hellinum um tíma, en líklegra verður að telja að þarna hafi um tíma verið athvarf hreindýraveiðimanna. Til vinstri, þegar inn er komið, eru aðalgöngin og í þeim er talsvert af gripabeinum. Fyrst þegar komið var í hellinn mátti sjá þar hreindýrabein, en nú eru einungist eftir þar nokkur kindabein.

Hrútagjá

Hellir nálægt Selsvöllum.

Sagan segir að útilegumennirnir (á 18. öld) hafi áður verið við Selsvelli, en “flutt sig norður með fjöllunum”. Þar hafi þeir herjað á vegfarendur á leið um þjóðleið, “skammt frá Hvernum eina”, líkt og þjóðsaga og dómar fyrrum kveða á um. Sagt er í heimildum að yfirvaldið hafi lokað hellinum eftir handsömun þjófanna og “hefur hann ekki fundist síðan”. Það er hins vegar ekki allskuldar rétt..

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Væntanlega hefur þakið á húsinu í hellinum verið reft, en fjalirnar forfærst ásamt öðrum verðmætum, sem þar kunna að hafa verið. Gólfið hefur verið þakið mosa, sem nú er orðinn að mold. Þegar á botninn er hvolft gæti þarna líka hafa verið afdrep fyrir hreindýraveiðimenn á meðan þau dýr léku hér lausum hala. Til að botna vangavelturnar um útilegumenninna, staðsetta við gamla þjóðleið, má geta þess að Stórhöfðastígurinn liggur þarna skammt norðar. Við hann, örlítið ofan hellisins er hraunhólshróf. Í miðju hans er hið ágætasta skjól með útsýni yfir þjóðleiðina niður með Sandfelli að Fjallinu eina. Næst götunni hefur verið lagað til í hrófinu, þar sem útsýnið er hvað best. Staðurinn gæti hafa tengst útilegumönnunum í Húshelli?

Maístjarnan

Op Maístjörnunnar.

Maístjarnan er í senn heillegur og stórbrotinn hraunhellir. Hann er sérstaklega viðkvæmur vegna dropsteina og viðkvæmra hraunmyndana, en litadýrðin og hraunrásirnar eru engu líkar. 
Til að gera langa sögu stutta þá fundust hellarnir með þolinmæði og eftir talsverða leit. En hvorutveggja var líka þess virði, enda fundust nokkrir áður óþekktir hellar við leitina, s.s. Aðventan og nokkur önnur op, sem enn hafa ekki verið könnuð. Aðventan hlaut nafn í tilefni dagsins sem og tveimur dropsteinum á stalli, nokkurs konar altari, sem í hellinum eru.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Húshellir

Hleðslur í Húshelli.