Færslur

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Djúpavatnsvegi um Hrútagjá og Hrútagjárdyngju, kíkt í Kokið, farið um mikla hrauntröð út úr henni að norðanverðu, um hellasvæði norðvestan hennar og síðan norður með austanverðum Almenningum með viðkomu í Gininu og fjárskjóli með fyrirhleðslum og fallega hlaðinni fjárborg við Brunntorfur.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Dyngjan sjálf, fallega löguð, er nokkuð vestar og frá henni liggja myndarlegar hrauntraðir. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Samsetning hraunsins samkv. rannsóknum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, að meðaltali er Plagioklas um 48,4% og Pyroxen um 32,7%. Ólivín er 11,4% og málmur um 7,3%.
Á leiðinni í gegnum dyngjuna, skammt suðvestan hennar var komið að djúpum sprungum, greinilega gasuppstreymi út frá gígnum. Var þeim gefið nafnið Kokið. Föngulegur hópur hellaáhugamanna var með í för og var tilefni ferðarinnar m.a. að skoða niður í þessar “gjár”. Hér er um að ræða 15-20 m djúpa “sprungu” í hrauninu. Ekki er ólíkt því að horfa niður í kok á einhverri furðuskepnu og horfa þarna niður í sprunguna. Búið var að skoða hluta hennar áður með takmörkuðum búnaði, en nú var ætlunin að láta fagmennina líta á fyrirbærið.

Húshellir

Við Húshelli.

Sprungan er þröng og því best að skilja bjórvömbina eftir heima. Þrír hellamanna nudduðu sér niður og telst Kokið því fullkannað. Svo virðist sem bráðið hraun hafi runnið í sprungunni, því nokkuð er um hraunfossa, rennslistauma og 8-10cm hraunskán sem þekur allt yfirborð sprungunar. Hraunskánin myndast jafnt á lofti sem veggjum. Sprungan hefur framhald bæði að ofan og neðan, en vegna ofvaxtar hellamannanna varð ekkert úr frekari landvinningum.
Húshellir er í hraunbrekkunni norðan dyngjunnar. Hleðsla í hellinum hefur verið ráðgáta. Hins vegar kann að vera skýring á henni. Í gömlum sögnum segir af útilegumönnum á Selsvöllum, sennilega á 17. öld.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Í heimildinni segir að útilegumennirnir hafi haldið til við Vellina, nálægt Hvernum eina, en herjað á Vatnsleysuströnd. M.a. hafi þeir stolið frá bóndanum í Flekkuvík. Eftir að þeir hafi flutt sig “norður með fjöllunum, í helli sem þar er”, hafi þeir áreitt og rænt ferðalanga. Yfirvaldið hafi safnað liði, handtekið þá og fært til Bessastaða þar sem dæmt var í máli þeirra. Stórhöfðastígur liggur þarna niður með. Hann sést vel vestan við Hrútargjárdyngju og áfram niður með henni norðvestanverðri, niður með Fjallinu eina og síðan áfram yfir hraunið austan við Sauðabrekkur, niður í Brunntorfur nálægt Bláfjallavegamótum og áfram yfir hraunið að horni Stórhöfða. Stígurinn sést þarna vel á kafla, en mosi og lyng hefur þakið hann að mestu í grónu hrauninu vestan við Fjallið eina.
Önnur skýring á hleðslunum getur verið sú að þar hafi menn á leið um gömlu þjóðleiðina viljað getað leitað skjóls undan verðum. Einnig að menn hafi haldið þar til við refaveiðar, en þarna ekki langt frá er hestshræ (beinin). Bein eru í hellinum og væri fróðlegt að reyna að finna út af hvaða skepnu þau hafi verið.

Húshellir

Í Húshelli.

Þetta er einn möguleikinn á tilvist hleðslanna í Húshelli, en taka þarf honum með þeim fyrirvara að annað kunni einnig að koma þarna til greina. T.d. vantar þarna eldstæði eða önnur merki um að menn hafi haldið til þarna um einhvern tíma.
Önnur saga segir að yfirvaldið hafi lokað helli útilegumannanna eftir handtökuna til að koma í veg fyrir að aðrir settust þar að. Einnig gæti þarna hafa verið athvarf fyrir þá er stunduðu hreindýraveiðar á Reykjanesinu (síðasta dýrið drepið á Hellisheiði 1901 eða 1904) eða annan veiðiskap. T.d. er hlaðin refagildra í Hrútagjáryngjunni. En þetta eru bara vangaveltur – gaman að velta þessu fyrir sér.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er í alfaraleið og er nokkur hundruð metra langur. Eftir að hafa gengið á sléttu helluhrauninu, hoppað yfir sprungur og sokkið í mosa, var komið að Gininu. Það fannst nokkur áður er FERLIRsfélagar voru að koma þarammani niður frá gígaröð norðan við Sauðabrekkur. Blasti opið skyndilega við þeim í annars sléttu hrauninu. Ginið er magnaður hellir og er án efa mest “töff” hellafundur síðan Eldhraunshellarnir fundurst að mati hellaramanna. Ginið er um 10-15m djúpt, trektlaga og snjór er í botni þess. Á yfirborði er ekki að sjá greinileg ummerki um gjall eða klepra, og því stendur þetta gat út í auðninni eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Því miður vannst ekki tími til að skoða Ginið að fullu, en til að það sé hægt þarf að hafa klifurbúnað og góðan tíma. (Sjá aðar FERLIRslýsingu þar sem Ginið var sigrað).

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Hraunspilda milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleysuströnd nefnist Almenningur. Var þar fyrrum skógi vaxið en hann eyddist af höggi og beit. Síðan um aldamót 19. og 20 . aldar hefur hraunið lítið verið breitt enda hefur það gróið nokkuð á ný. Norðan í honum er hlaðið fjárskjól í skútum. Norðvestan þeirra er Þorbjarnarstaðaborgin við Brunntorfur. Hún var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna um aldamótin 1900, en stendur enn nokkuð heilleg rúmlega aldargömul. Sennilega hefur fjárskjólið einnig tilheyrt Þorbjarnastaðafólkinu og sennilega verið ástæðan fyrir gerð borgarinnar. Svo virðist sem hún hafi átt að verða topphlaðin, líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi, en heimilsfaðirinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Jarðfræði Hafnarfjarðar – flensborg.is
-speleo.is

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Húshellir

Spáð var rigningu og hvassviðri, en stjórn FERLIRs hafði áður samið um gott gönguveður á svæðinu. Það gekk eftir.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Gengið var að Fjallinu eina norðan Hrútagjárdyngju. Á norðausturvegg gjáarinnar mátti sjá hversu hrikaleg átök hafa verið þarna í undanför mikillar goshrinu er fyllt hafði innanvert dyngjusvæðið mikilli hraunkviku eftir að landið umhverfis reis. Sjá má landrisið allt umhverfis dyngjuna sem afurðina neðanvert.

Hrútagjá

Í Hrútagjárdyngju.

Skammt frá Fjallinu eina, í Hrútagjár[dyngju]hrauni, eru nokkrir hraunhellar, s.s. Steinbogahellir (Hellirinn eini), Húshellir, Híðið og Maístjörnuna. Hellarnir fundust fyrst, svo vitað sé, árið 1989. Ætlunin var að leita að þessum hellum skv. lýsingum. Um er m.a. um að ræða dropasteinshella, 155-170 m langa. Steinbogahellir dregur nafn sitt af steinboga yfir hrauntröð framan við hellisopið. Híðið er vandfundið því hellismunninn er lítill og þröngur. Það er nyrstur hellanna, en hann er einn fegursti hraunhellir á Íslandi. Í honum eru nokkurra þúsund ára (˜4500) dropasteinar og því þurfti að fara þar mjög varlega.

Innanvert opið á Húshelli

Í Húshelli.

Innan við op Húshellis er hlaðið hús úr hraunhellum. Talið er að hleðslan sé mjög forn. Hellirinn greinist í tvennt er inn er komið. Heimildir eru um að útilegumenn hafi jafnvel hafst við í hellinum um tíma, en líklegra verður að telja að þarna hafi um tíma verið athvarf hreindýraveiðimanna. Til vinstri, þegar inn er komið, eru aðalgöngin og í þeim er talsvert af gripabeinum. Fyrst þegar komið var í hellinn mátti sjá þar hreindýrabein, en nú eru einungist eftir þar nokkur kindabein.

Hrútagjá

Hellir nálægt Selsvöllum.

Sagan segir að útilegumennirnir (á 18. öld) hafi áður verið við Selsvelli, en “flutt sig norður með fjöllunum”. Þar hafi þeir herjað á vegfarendur á leið um þjóðleið, “skammt frá Hvernum eina”, líkt og þjóðsaga og dómar fyrrum kveða á um. Sagt er í heimildum að yfirvaldið hafi lokað hellinum eftir handsömun þjófanna og “hefur hann ekki fundist síðan”. Það er hins vegar ekki allskuldar rétt..

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Væntanlega hefur þakið á húsinu í hellinum verið reft, en fjalirnar forfærst ásamt öðrum verðmætum, sem þar kunna að hafa verið. Gólfið hefur verið þakið mosa, sem nú er orðinn að mold. Þegar á botninn er hvolft gæti þarna líka hafa verið afdrep fyrir hreindýraveiðimenn á meðan þau dýr léku hér lausum hala. Til að botna vangavelturnar um útilegumenninna, staðsetta við gamla þjóðleið, má geta þess að Stórhöfðastígurinn liggur þarna skammt norðar. Við hann, örlítið ofan hellisins er hraunhólshróf. Í miðju hans er hið ágætasta skjól með útsýni yfir þjóðleiðina niður með Sandfelli að Fjallinu eina. Næst götunni hefur verið lagað til í hrófinu, þar sem útsýnið er hvað best. Staðurinn gæti hafa tengst útilegumönnunum í Húshelli?

Maístjarnan

Op Maístjörnunnar.

Maístjarnan er í senn heillegur og stórbrotinn hraunhellir. Hann er sérstaklega viðkvæmur vegna dropsteina og viðkvæmra hraunmyndana, en litadýrðin og hraunrásirnar eru engu líkar. 
Til að gera langa sögu stutta þá fundust hellarnir með þolinmæði og eftir talsverða leit. En hvorutveggja var líka þess virði, enda fundust nokkrir áður óþekktir hellar við leitina, s.s. Aðventan og nokkur önnur op, sem enn hafa ekki verið könnuð. Aðventan hlaut nafn í tilefni dagsins sem og tveimur dropsteinum á stalli, nokkurs konar altari, sem í hellinum eru.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Húshellir

Hleðslur í Húshelli.

 

 

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Djúpavatnsvegi vestast í Hrútagjárdyngju. Rétt eftir að lagt var af stað fannst hlaðin refagildra neðan við hraunkant. Gengið var yfir mosahraun í norður. Þá var komið inn á gamla leið er liggur niður norðvestanverðan hraunkant dyngjunnar og með honum í báðar áttir. Reykjavegurinn liggur einnig þarna um.

Húshellir

Í Húshelli.

Áður en farið var ofan dyngjunnar blasti við mikill hraunbolli í austri. Gæti verið einn aðalgígur sjálfrar Hrútagjárdyngju. Fallegur staður. Þar vestan afvar komið að tveimur holum ofan í jörðina, gömlum gígrásum. Þær eru 5-6 metra djúpar. Hægt er að fara ofan í þá vestari. Það var gert og kíkt inn. Þröngur gangur gæti legið þar inn undir hraunið. Hellarannsóknarfélaginu verður eftirlátið að skoða það nánar. Vinnuheiti þessarar holu verður “Kokið”.

Híðið

Í Híðinu.

Skoðað var í Híðið, um 140 metra langan helli, sem er í Hrútadyngjuhrauni skammt sunnan við fjallið, í hæðinni sem þar er. Inngangurinn er lágur. Þegar inn er komið þarf að fara til vinstri. Þar er lágt gat, en fyrir innan það tekur meginrásin við. Mjög fallegir dropasteinar og strá eru í hellinum. Fara þarf varlega þarna um til að skemma ekki neitt. Híðið er með fallegustu hraunhellum landsins. Leggja þarf hverja leið vel á minnið til að minka líkur á að villast í hellinum. Ekki var farið alla leið í botn að þessu sinni því talsvert er um að skríða þurfi hér og þar.

Í suður frá Híðinu er Húshellirinn. Inngangur hans er í vestanverðri fallinnar hraunbólu. Þegar inn er komið blasir við mikill geymur og eru gangar í allar áttir. Á miðju gólfinu er hlaðið hús, ca. 2×2 metrar í ummál. Bein eru í einum gangnanna, þeim er liggur í suður. Ekki er vitað af hverju beinin kunna að vera.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Ekki er heldur vitað hvers vegna húsið var hlaðið í hellinum. Þarna gætu hreindýraveiðimenn hafa haft aðstöðu um tíma, eða einhverjir aðrir, einhverra hluta vegna. Húsið er sennilega hlaðið til að halda hita á þeim er þar gistu svo og forðast vatn er lekur úr loftum eftir rigningar. Botn hússins hefur verið fóðraður með mosa.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Maístjarnan er í vestur frá Húshelli. Opið snýr á móti suðaustri. Á milli þessarra hella er a.m.k. þrír aðrir hellar, þar af tveir nokkur hundruð metra langir. Annað opið er á milli Húshellis og Maístjörnunnar, en hitt er norður af Húshelli. Þegar komið er niður blasir “augað” við, hringlaga slétt op, rúmlega meters langt. Innan opsins er komið í hraunrás er liggur þvert á opið. Að ofanverðu eru margir dropasteinar á gólfi. Ofan þeirra er þverrás, mjög falleg. Þegar gengið er niður rásina og litið aftur sést í þrjú op. Leggja þarf rétta opið á minnið.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Mikil litadýrð er í hellinum, fallegir dropasteinar og ýmis jarðfræðifyrirbrigði. Í Maístjörnunni eru svo til öll fyrirbrigði er prýða hraunhella á Íslandi. Skammt neðan við opið var farið niður eftir hraunrás. Á hana kemur þverrás, um 60 cm neðar en hin. Haldið var áfram og var þá komið í geymi, en engin rás virðist vera úr honum. Haldið var spölkorn til baka, að þverrásinni, og síðan til vinstri upp eftir henni. Hún þrengist en ef haldið er áfram er komið að opi Maístjörnunnar, utan við “augað”. Hægt er að fara fram og aftur um hellinn eftir ýmsum rásum, en gæta þarf vel að því að villast ekki í göngunum.
Neyðarútgöngudyrahellirinn var skoðaður, en hann er um 90 metra langur, víð hraunrás er liggur í hálfboga og opnast síðan að nýju.
Frábært veður.

Neyðarútgöngudyrahellir

Neyðarútgöngudyrahellir.

Húshellir

Gengið var upp með Fjallsgjá að Fjallinu eina og inn á hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju. Ætlunin var að skoða nokkra hella, s.s. Steinbogahelli, Híðið, Húshelli og Maístjörnuna. Nokkrir aðrir hellar eru þarna á svæðinu og sumir nokkuð langir.

Hrútagjárdyngja

Jarðmyndun í Hrútargjárdyngjuhelli.

Op Híðisins lætur lítið yfir sér. Þegar inn var komið sést einungis í fljótu bragði lág hraunbóla með sléttu gólfi. Hægt er þó að halda áfram niður í meginrásina á tveimur stöðum. Auðveldara var að fara til vinstri þegar inn var komið og láta sig síðan síga á aftur bak niður í rásins. Þá tók við greið leið til suðurs, með beygjum og bugðum, dropsteinum, hraunstráum og öðrum fallegum hraunmyndunum. Hellirinn lækkar og hækkar, stuttir hliðargangar liggja út frá meginrásinni og stundum þurfti að skríða á maganum um tíma. Híðið er alllangt með viðkvæmum helladýrgripum.
Húshellir er skammt ofar. Þegar inn var komið tók við stór salur með stuttum rásum til tveggja átta. Á miðju gólfi var hlaðið byrgi. Bein lágu á gólfinu. Erfitt reyndist að ákvarða úr hvaða skepnu þau gætu hafa verið. Jafnvel var talið að þau hafi verið úr hreindýrskálfi. Húshellir hefur alla burði til að geta talist til tímabundinna mannabústaða.

Híðið

Í Híðinu.

Gömul þjóðleið lá upp með Fjallinu eina og skammt frá opi hellisins áleiðis að norðurbrún Hrútagjárdyngju. Sagnir eru af útilegumönnum á þessum slóðum, en í þeim frásögnum er ýmist getið um Hverinn eina eða Fjallið eina. Ein sagan segir að þeir hafi fundið skúta “skammt sunnan Selsvöllu og hreiðrað þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina.” Þar voru þeir handteknir og dæmdir á Bessastöðum.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Sunnan við Selsvelli er hellir, en ekki er fulljóst hvar nefndur hellir hafi verið nálægt Hvernum eina. Þó er þar nálægt gróið jarðfall með lóðréttum veggjum. Auðvelt hefði verið að refta yfir það og fá þannig hið ákjósanlegasta skjól. Þrátt fyrir sagnir af útilegumönnunum við Selsvelli er alls ekki útilokað að útilegumenn hafi hafst við annars staðar í hraununum í skamman tíma, s.s. í Húshelli. Þá gætu refaveiðimenn hafa haft þar skjól, en a.m.k. tvær hlaðnar refagildrur eru í Hrútargjárdyngju skammt ofar.
Samkvæmt lögum þjóðveldisins forna var skóggangur þyngsta refsing sem sakamaður gat fengið. Skóggangur var ævilangur og voru sakamenn þessir gerðir útlægir úr samfélaginu og voru réttdræpir ef til þeirra sást. Þeir leituðu því oftast skjóls í óbyggðum þar sem enginn varð þeirra var.

Húshellir

Við Húshelli.

Sumir útilegumenn áttu að búa í hellum uppi í óbyggðum við frekar kröpp kjör. Líf þessara manna var erfitt og þar eð þeir gátu ekki lifað einungis á náttúrunnar gæðum þá neyddust þeir oft til þess að stunda gripdeildir í byggð. Og þá var ekki verra að vera tiltölulega nálægt henni, en þó í öruggri fjarlægð.
Maístjarnan er með fallegri hellum. Inngangan í hana er áhrifarík, eða í gegnum auga. Hellirinn er viðkvæmur; mikið af dropsteinum og hraunstráum. Litadýrðin er allnokkur og súlnaverkið skrautlegt. Steinbogahellir er hins vegar æskilegri umgangs. Opið er stórt og hellirinn víður. Hrun er inni í rásinni, en hægt er að fara yfir það og áfram niður rásina. Hellirinn er nefndur eftir steinboga, sem er yfir jarðfallinu þar sem opið er.
Frábært veður. Gangan og skoðunin tók 5 klst og 5 mín.

Híðið

Híðið – op.

Maístjarnan

Gengið var um Sandfellsklofa, með Sandfelli, yfir norðuröx Hrútfells og að Hrútagjárdyngju.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Norðan hennar var staðnæmst og litið yfir hraunin og höfuðborgarsvæðið áður en horfið var niður í Húshelli. Í hellinum, sem fannst 1968, eru húshleðslur og bein. Hann er mjög rúmgóður og alveg sléttur í botninn. Ekkert hrun er í hellinum.
Snjór þakti jörð. Kynntir voru aðrir hellar á svæðinu, s.s. Steinbogahellirinn, Híðið, Langihellir og Maístjarnan, en ekki var farið í þá að þessu sinni því markmiðið er að takmarka umferð í þá svo sem kostur er.
Með í för var m.a. geðþekki ráðherrann, Halldór Ásgrímsson og Örlygur Sigurðsson, blaðamaður MBL o.fl.
Fjallið eina teigði sig upp úr fannbreiðunni og lagði við koll.
Veður var skínandi gott til gönguferðar þennan nýársdagsmorgun.

Húshellir

Í Húshelli.

Hrútagjárdyngja

Gengið var um meginhrauntröð Hrútagjárdyngju, gígtappi dyngjunnar barinn augum og ályktað um jarðfræði myndunarinnar. Ætlunin var að kíkja inn í Steinbogahelli, líta í Húshelli og í Maístjörnuna, Aðventuna og auk þess renna eftir tveimur langrásum nokkur hundruð metra inn undir yfirborðið. Í lokin var svo dáðst að útsýninu að Fjallinu eina og að Sauðabrekkum áður en haldið var til baka um Stórhöfðastíg milli Sandfells og Hrútargjárdyngjubarms.

Fjallið eina

Hrútagjá er sigdalur sem liggur í norðvesturjaðri eldstöðvarinnar Hrútagjárdyngju í Móhálsadal sunnan við Fjallið eina. Gjáin sjálf líkist tröð með mosagrónum hraunbotni á milli klofinna hraunhryggja. Allt svæðið er í umdæmi Grindavíkur.
Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum (leiðréttur aldur ~ 4500). Hraunin ná yfir 80 km2 svæði.
Ef hraungosunum er skipt upp í sprungugos og dyngjugos kemur fram athyglisverður munur á goshegðuninni. Nánast öll hin stærri dyngjugos urðu strax á síðjökultíma í kjölsogi jökulleysingarinnar og framleiðni þeirra var í hámarki fyrir meira en 11.000 árum. Síðan dvínaði hún og á síðustu 4000 árum hafa einungis orðið þrjú dyngjugos.
OpDyngjutímabilið hófst fyrir um 14000 árum spannaði því 10.000 ár. Engin stór sprungugos eru þekkt frá síðjökultíma. Hins vegar komu upp mikil hraun snemma á nútíma og þá náði framleiðni gossprungnanna hámarki. Á tímabili um miðbik nútímans, frá því fyrir 6000 árum og þar til fyrir 4000 árum, urðu engin stór sprungugos en síðan fór eldvirkni og hraunaframleiðsla vaxandi og náði nýju hámarki á sögulegum tíma. Svipað mynstur sést í tíðni súrra, plíniskra gjóskugosa. Á fyrstu árþúsundunum eftir að ísa leysti er vitað um fjögur slík gos. Um miðbik nútímans varð lengsta goshléið en síðan jókst gosvirknin og hefur hún verið mikil á sögulegum tíma.
Meginhrauntröð Hrútagjárdyngjunnar var fylgt að gígrótunum, fallegum hringlaga tappa í henni miðri. Þá var hrauntröðinni fylgt áfram til norðurs út úr “upprisu” hraunsins í kringum og út frá gígnum. Landið hefur risið þarna allnokkuð vegna þrýstings kvikuhólfsins undir niðri og sést það berlega á “upphluta” hennar á jöðrunum.
Þegar komið var út úr tröðinni blasti höfuðborgarsvæðið við – sólbaðað. Fjallið eina var í forgrunni – formlagað sem fyrr.
Hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju tekur við rétt handan við meginformið. Næst er Steinbogahellir. Hann ber nafn sitt af steinboga, sem enn stendur yfir jarðfallinu, sem opið er í. Niðri er hin myndarlegasta rás, en fremur stutt. Hún endar í hruni.
MaistjarnanÞá var litið á op Neyðarútgöngudyrahellis áður en stefnan var tekin á Maístjörnuna. Þegar komið var að opinu sást vel hversu mikinn varma hellar sem þessi geyma í sér fram eftir vetri. Úti var -9°C, en þegar inn var komið var hitinn milli + 10°C-15°C. Hitinn hafði brætt af sér snjóinn fyrir opinu svo inngangan var auðveld. “Augað” í Maístjörninni er alltaf jafn áhrifamikið. Um er að ræða tiltölulega þrönga rás, sléttbotna. Fyrir innan taka við rásir til beggja handa. Þegar farið er til hægri er um formfagra rás að ræða. Hún skiptist fljótlega í tvennt. Sé farið niður eftir vinstri rásinni skiptist hún í tvennt – og þrengist beggja vegna.
Hægri rásin liggur að þverrás, lægri. Ef henni er fylgt til hægri er komið upp þar sem farið er inn í “augað”. Ef haldið er áfram er komið inn í litskrúðugan hraunsal. Úr honum má vel leita leiða til annarra átta. Það var hins vegar ekki gert að þessu sinni.
Þegar haldið er til vinstri er komið er inn úr “auganu” taka við dropsteinar. Sæta þarf lagni til að komast framhjá þeim án þess að valda skemmdum. Ofan við er komið inn í rás. Hún liggur annars vegar upp á við og skiptist þar í tvennt. ÞverhellirSé haldið til hægri niður rás er komið niður í fyrrnefnda rás. Hún leiðir viðkomandi áfram niður einstaklega fallega formmyndun. Í henni er m.a. litskrúðugur flór. Þegar horft er til baka frá þessum stað er að sjá tvískipta rás. Þetta sjónarhorn getur ruglað margan nýliðann í rýminu. Hvaðan kom ég? Hvert á ég eiginlega að fara til að komast til baka? Augnabliks hræðsla getur gripið um sig – en það er óþarfi. Með því að fara til baka með rásvegginn á vinstri hönd er auðvelt að finna útgönguleiðina.
Formfegurðin þarna í rásum Maístjörnunnar er óvíða meiri. Litadýrðin er engu öðru lík. Í rauninni er um slíka gersemi að ræða að sem fyrr er ástæða til að takmarka aðgengi að hellinum. Því miður er reynslan sú að fólk kann yfirleitt ekki að umgangast gersemar sem þessar eins og ætlast er til.
Næst var leitað að helli, sem FERLIR fann fyrir nokkrum árum og var gefið númer í samræmi við hellaskráningarkerfi HRFÍ. Um er að ræða myndarlegt op. Þegar komið er inn tekur við nokkuð víð rás, en stutt. Þarna er galdurinn að fara til hægri um leið og inn er komið. Þar liggur um 400 metra löng rás til norðurs. Henni var fylgt nokkurn spöl. Að þessu sinni settu ljósgráir dropsteinar umluktir svarleitu klakaumleitan skemmtilegan svip á rásina. Gólfið er ljósbrúnt svo gráir veggirnir njóta sín vel í slíku umhverfi. Og ekki skemmdu hin fallegu grýlukerti fyrir stemmingunni.

Húshellir

Í Húshelli.

Kíkt var á opið á Híðinu, einum af fallegustu hellum svæðisins. Þrátt fyrir lengdina er hann fremur lágur og þarf að hafa góðar hnéhlífar við skoðun hans.
Húshellir var næstur. Einnig þar hafði undirliggjandi hitinn brætt snjóinn frá opinu svo inngangan var greið. Hlaðið hús úr grjóti er innan við innganginn. Rásir liggja til beggja hliða. Loftin eru heil og ekkert hrun er á gólfi. Bein eru í vinstri rásinni, bæði kindabein og stórgipabein, líklega af hreindýri.
Við skoðun á mannvirkinu var að sjá sem það hafi verið hlaðið af gefnu tilefni. Stórir steinar, a.m.k. þriggja mann tak, eru neðst. Það grjót hefur væntanlega verið sótt í munnann. Síðan hefur verið hlaðið ofan á með hraunhellum fengnum utan við hellinn.
Ljóst er að húsið hefur ekki verið hlaðið af refaskyttum eða hreindýraveiðimönnum. Líklegasta skýringin er sú að útilegumenn, eða einhverjir aðrir, sem hafa þurft að dvelja þarna um lengri tíma, hafi komið að verkinu. A.m.k. er um að ræða hina vandlegustu hleðslu er standa hefur átt til lengri tíma.
Tjaldað hefur verið yfir veggina og mosi verið settur í gólfið. Fróðlegt væri að aldursgreina beinin og jafnvel athuga nánar gólflagið í húsinu. Þarna er um að ræða eina af óleystum ráðgátum Reykjanesskagans – sem fáir sérfræðingar og fjárveitingahaldsmenn virðast hafa haft áhuga á fram að þessu.
Allt þetta svæði er í umdæmi Grindavíkur – jafnvel þótt sumir vildu staðsetja það annars staðar. Húshellir er algerlega óhreyfður. Loft eru heil og gólf slétt. Stærð hans er umtalsverð í rúmmetrum.
Að þessu búnu var haldið yfir á Stórhöfðastíg og honum fylgt upp með Sandfelli og milli Hrútfells og Hrútagjárdyngju. Stígurinn hefur verið merktur, en stikurnar á honum sunnanverðum hafa eitthvað verið aflagaðar. Þær eiga að vera svolítið vestar og koma inn á Undirhlíðaveginn skammt vestan núverandi staðsetningar. Þar er gatan augljós. Vonandi verður þetta lagað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-www.isor.is

Hrútagjárdyngja

Hrútargjárdyngja

Í Náttúrufræðingnum 1997-1998 er m.a. fjallað um “Hraun í nágrenni Straumsvíkur”:
hrutagjardyngja-222“Það tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun í dag. Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973). Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð. Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram. Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út.
Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvík. Upptök þessa hrauns eru lfklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.

Hrútagjárdyngja
Hrutagja-223Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 1997-1998, 3.-4. tbl., bls. 174.

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Hrútagjárdyngja

Í Hrútagjárdyngjuhrauni er gígur í gígaröð og falleg hrauntröð út frá honum. Heimildir herma að í hrauntröðinni sé lítill hellir eða stór skúti. Í honum er hlaðið undir bæli. Mosagróin hrossabein eru við opið. Ætlunin var m.a. að finna staðinn – og kíkja á gíginn.
Gígurinn og hrauntröðinHrútadyngjuhraun varð til í Hrútagjá fyrir u.þ.b. 5000 árum síðan. Lítið fell suðaustan við Sandfell nefnist Hrútafell. Það gæti hafa dregið nafn sitt af gjánni – eða öfugt.
Annars er Hrútagjár(miðkjarna)svæðið stórbrotið jarðfræðifyrirbæri. Glóandi kvikan hefur þrýst yfirborðinu upp þannig að fyrrum slétt helluhraunið myndar nú líkt og næstum lóðrétta veggi umhverfis hana, einkum að norðaustan- og suðvestanverðu. Gígurinn er nú hringlaga tjörn þar sem kvikan hefur storknað líkt og tappalaga lægð. Í jöðrunum eru djúpar gasuppstreymisrásir. Þegar hraunkvikan leitaði frá uppsprettunni lá leið hennar um traðir, sem nú eru mest greinilegar næst gígnum. Gífurlegur hraunmassi kom upp í gosinu og myndaði hann allt undirlendið, allt að Óttarstöðum í útnorðri (norðvestri) og að jöðrum Þráinsskjaldar (sem einnig er dyngja) í vestri. Nú er Hrútagjárhraunið þakið birki og víði, lyngi, fjalldrapa, grasi og öðrum þeim plöntutegundum er prýtt geta gamalt hraun hér á landi.
Í HrútagjáTil að auka enn á áhrif dyngusvæðisins seig landið vestan við hana og myndaði sigdal á milli misgengja. Um er að ræða sama virknisreinina og sjá má á Þingvallasvæðinu. Svæðið hefur væntanlega sigið einna mest á síðari öldum því nýrri hraun bæði fylla sigdalinn og efri brúnir hans beggja vegna. Um hefur verið að ræða þunnfljótandi helluhraun, nálægt 1/2 meters þykkt, sem nú er nær eingöngu þakið þykkum hraungambra. Þetta hraun kom upp á sprungurein Trölladyngjusvæðisins líkt og önnur hraun á svæðinu eftir að dyngjugosinu sleppti. Vestar er gígaröð utan í Trölladyngju, við Mávahlíðar, en það hraun rann m.a. niður Einihlíðar, og síðan gígaraðir austan við Fíflavallafjall og loks þessi, sem hér var ætlunin að skoða nánar. Að öllum líkindum er hér um að ræða hluta af gígaröðinni er myndaði Ögmundarhraun að sunnanverðu og Kapelluhraun að norðanverðu árið 1150. Hraunið við þennan hluta er ekki óáþekkt þessum hraunum og gróningarstaðan svipuð. Gígaröðin er um 25 km löng og nær frá Núpshlíðarhorni í suðri að Helgafelli í norðri.
Misgengisveggurinn að vestanverðu - Fjallið eina fjærSkammt austan gígaraðarinnar er gjá, sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að fylla að hluta. Útsýni til norðurs er stórbrotið; hamraveggir og kollurinn á Fjallinu eina í fjarska. Til norðvesturs má sjá Mávahlíðahnúk og Mávahlíðar sunnan hans. Norðlingahálsinn skagar útnorður úr Sveifluhálsi. Vestan hans er falleg klettamyndun. Skammt raunsunnar eru Köldunámur.
Í leiðinni var komið við í hluta Hrútagjárinnar og gjáin fetuð með háa bergveggina til beggja handa. Gjáin gefur Almannagjá og Hrafnagjá lítið eftir hvað mikilfengleik varðar.
Eftir að áð hafði verið í stærsta gígnum var röðinni fylgt til norðurs. Víða mátti sjá göt í gjám, en í jarðfalli einu miðlungsstóru var lítið op. Þar undir niðri virðtist vera stór hellir. Ekki varð komist þangað niður nema með aðstoð reipis. Ætlunin er að fara þangað fljótlega og skoða fyrirbærið. Stærðin gefur von um merkilegheit.
Flóraður stígurKlettamyndanir utan í vestari hamraveggnum eru stórbrotnar. Þrátt fyrir nákvæma leit utan í honum fannst hvorki skúti né lítill hellir. Þegar stefnan var tekin upp á austari brún misgengisins tók við úfnara mosahraun, en þó ekki ógreiðfært. Ljóst er að víðast hvar á svæðinu geta verið rásir og skútar, sem nýta hefði mátt sem afdrep eða skjól um tíma, a.m.k. bentu ummerki austan hraunbrúnarinnar til þess. Þar var hlaðið gerði og flóraður stígur að því – sennilega eftir einhvern nútímamanninn.
Hrútagjárdyngjan sem og hraunasvæðin milli Hálsanna eru stórbrotin útivistarsvæði og koma sífellt á óvart hvað fegurð og mikilfengleik varðar. Að þessu sinni var umhverfismyndin einstök á að líta því hitinn frá sólinni náði að endurheimta regnvatnið frá deginum áður. Við það varð fagurgrænn mosinn smám saman grár, auk þess sem gufan steig svo til beint upp af honum í logninu.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur á vettvang og þá skoða hellinn, sem fengið hefur nafnið Ellefuhundruðogfimmtíu, betur með aðstoð hellamanna.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hrútagjá

Maístjarnan

Það var vel við hæfi að kíkja í Maístjörnuna í byrjun maímánuðar. Gengið var…… (má ekki segja því um er að ræða einn af fegurstu, en jafnframt viðkvæmustu hraunhellum landsins). Fyrst var þó komið við í Húshelli til að afhræða þátttakendur.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er bæði víður og hár hellir með a.m.k. tveimur breiðum hliðarrásum og því tilfallinn til að draga hugsanlegan skrekk úr fólki áður en haldið er inn í þrengri hella á svæðinu. Á miðju gólfi hellisins er hlaðið stórt byrgi. Í annarri hliðarrásinni eru bein, sem ekki hafa verið aldursgreind, en ekki er talið ólíklegt að þar geti verið um bein úr hreindýri að ræða. Til eru gamlar sagnir um útilegumenn á Selsvöllum, “sem færðu sig norður með fjöllunum” þegar að þeim var sótt. FERLIR hefur fundið álitlegt skjól við Selsvelli, sem gæti hafa verið fyrra athvarf útilegumannanna, en ekki er óhugsandi að þeir hafi hafst um tíma við í Húshelli eða allt þar til þeir voru handteknir og færðir yfirvaldinu á Bessastöðum. A.m.k. eru miklar heillegar mannvistarleifar í hellinum. Skjólið í hellinum gæti einnig hafa verið athvarf hreindýra- og/eða rjúpnaveiðimanna fyrrum.

Þá var haldið í Maístjörnuna. Hellirinn er tvískiptur og óaðgengilegur á millum. Að þessu sinni var skriðið inn um “augað” í vestari rásinni. Þá var komið í rúmgóða þverrás. Að ofanverðu var dropasteinabreiða á gólfinu og hraunnálar í lofti. Niður liggur rás, sem skiptist síðan í tvennt. Haldið var upp eftir hellinu og fetað varlega í gegnum dropasteinana. Þá var komið í rúmbetri þverrás, sem skiptist síðan í nokkrar aðrar. Litatilbrigðin eru mikil, sem og hraunmyndanir þar sem gangar og op opnast í allar áttir.

Maístjarnan.

Augað í Maístjörnunni.

Rás liggur upp á við, en hún lokast síðan með hruni. Rásin liggur talsverðan spotta niður á við. Þar er fallegur rauðlitaður flór. Rásin þrengist síðan uns loft og gólf koma saman. Fetið var tekið til baka að “auganu” og síðan haldið niður þá rás. Vinstri rásin þrengist og lokast, en sú hægri liggur áfram niður eftir. Á hana kemur þverrás, nokkru lægri. Rásinni var fylgt yfir hana. Hún þrengist svolítið, en opnast síðan aftur í stórum litskrúðugum geimi. Haldið var til baka upp rásina, hoppað niður í þverrásina og henni fylgt til vinstri. Þá var komið út í opnu hellisins utan við “augað”. Þar hafði verið útbúið kertasett veisluborð í tilefni 500. FERLIRsgöngunnar – lifrapylsa og hákarl. Þjóðlegra gerist það nú varla undir yfirborði jarðar. Hvernig verður dagamunurinn í tilefni af 600. göngunni?
Til baka var gengið um tröllvaxið landslag. Þegar gengið var framhjá einum hraunhólnum virtist sem raulað væri inni í honum. Lagt var við hlustir og þegar betur var að gáð heyrði fleiri en einn að kveðið var lágri, en dimmri röddu: “Hóhó og hananú, Halldor ei falli. Híhí og snusnu, Solrun af stalli”. Þetta var endurtekið aftur og aftur. Hvort eða hvað þetta kann að boða verður bara að koma í ljós. (Ferðin var farin viku fyrir alþingiskosningarnar 2002).

Í göngunni fannst enn ein hlaðin refagildra, sú 70. sem vitað er um á Reykjanesi.
Gangan tók um tvær klukkustundir. Veður var frábært – lygnt og hlýtt.

Maístjarnan

Maístjarnan – uppdráttur ÓSÁ.

Sauðabrekkuhellar

Gengið var niður að gígnum í Hrútagjárdyngju frá Djúpavatnsvegi (Undirhlíðaleið), yfir Hrútagjá og gamalli götu fylgt niður (norður) slétt mosagróið helluhraun austan við úfin hraunkant uns komið var Dyngjugrenjunum nyrst í brúninni áður en hraunið lækkaði til norðurs, í átt að Stóru-Sauðabrekku. Milli hans og brekkunnar eru Sauðabrekkuhellarnir sagðir vera, nokkrir hellar í stórum hraunbólum. Í örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík eru þeir nefndir Moshellar.

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum (gígur).

Nefnt Sauðabrekkuskjól er í Sauðabrekkum, en einungis FERLIR hefur hingað til tekist að staðsetja það [2001]. Að hellunum liggja götur úr þremur áttum. Einni þeirra var fylgt til austurs uns komið var að Skjólinu, fallegu sæluhúsi í mjórri hraunræmu í annars grónu hrauninu. Lítil varða er skammt norðan við sæluhúsið. Þá var haldið upp í Hrútagjárhella og síðan til baka um nyrstu Hrútagjárhrauntröðina, upp í þá austustu og áfram að upphafsstað.

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Undirhlíðaleið hefst við Kaldársel og liggur norðan Undirhlíða yfir Bláfjallaveg að vatnsskarði. Þar er farið yfir Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Ketilsstígur liggur yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni að Seltúni og þar taka heimalönd Krýsuvíkur við.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þegar komið var yfir fyrstu stóru sprunguna efst í Hrútagjá tók við tiltölulega slétt hraun vestan við austurtröð dyngjunnar. þegar komið var að enda hennar blasti dyngjuopið við. Það er hringlaga og reglulegt. Ljóst er að hraunið hefur bullað og kraumað í gígnum eftir að eiginlegu hraungosi lauk.

Hrauntaumurinn í austurtröðinni hefur runnið til baka í átt að gígnum og hraðkólnandi apalhraun hefur hrúgast upp norðan gígsins. Þegar staðið er á brún “hrúgaldsins” er horft yfir slétt hellurhraunið norðan af því. Það hraun hefur runnið áður og er dæmigert dyngjuhraun. Sérkennileg hrauntota kemur úr suðri, frá Mávahlíðahnúk, þar sem hraunið er allt markbrotið í hellur þvers og kruss. Svo virðsit sem hraun hafi náð aðskríða undir hið elda og brotið það upp á kafla. Norðan og austan viðþað er slétt og greiðfært helluhraunið.

Sauðabrekkuhellar

Sauðabrekkuhellar.

Gömul gata liggur norður hraunið með stefnu á brúna yfir Sauðabrekkugjá sunnan við Stóru-Sauðabrekkur. Hún stefnir beint á Dyngjugrenin. Þau eru í hraunæðum fremst í brúninni. Varða er við grenin þar sem skjól refaskyttunar hefur verið. Frá því er gott útsýni yfir hraunbreiðuna neðanverða, milli brúnarinnar og Stóru-Sauðabrekkna.
Stutt er yfir að Sauðabrekkuhellum, en svo nefnast nokkrir hraunhellar sunnan Stóru-Sauðabrekku. Þar á meðal er Sauðabrekkuskjól, sem smalar Hraunamanna nýttu fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Hellarnir eru fallegar, bjartar og rúmgóða hraunbólur. Ein er sýnum stærst; Sauðabrekkuskjólið. Op þess nýr til austurs. Það hefur rúmað góðan fjárhóp, auk þess sem innan þess er hið ágætasta mannaskjól. norðaustan við skjólið er falleg hraunbóla. Einnig á gjárbarmi norðan þess. Austan skjólsins er hægt að ganga niður um sprunguenda og er þá komið inn í dimmara skjól, en rúmgott. Best er að finna hella þessa með því að koma að þeim úr suðri, líkt og nú var gert.

Híðið

Híðið – op.

Sauðabrekkuskjólið sást vel á loftmynd, sem var meðferðis.
Götu var fylgt til austurs frá hellunum. Var þá, eftir stutta göngu, komið að Skjólinu, gömlu sæluhúsi nálægt Hrauntungustíg. Gengið hefur verið vel um Skjólið. Það er opið til suðurs. Hleðslur hafa verið við opið, en þær eru nú að mestu fallnar niður í það. Einhverju sinni fyrrum hefur meri orðið úti eða endað lífdaga skammt frá skjólinu. Sjá má enn þann hluta beinagrindarinnar, sem refurinn hefur ekki hirt.
Haldið var áfram upp í Hrútagjárhella. Hellarnir er samheiti fjölda hella sem eru í nokkrum hraunrásum vestan við Fjallið eina. Þetta er spennandi hellasvæði, en rétt er að fara varlega því víða leynast sprungur og glufur í hrauninu. Margir hellar eru í hrauninu og sumir þeirra alllangir. Sjá má hvar opnar hafa verið rásir og má fylgja sumum þeirra langar leiðir inn undir hraunið.

Sauðabrekkufjárhellar

Sauðabrekkufjárhellar (Moshellar).

Hrútagjárdyngja er í rauninni heimur út af fyrir sig með sínum stórkostlegu hrauntröðum, hrikalegu gjám og upplyftingum á jöðrum meginsvæðisins. Talið er að dyngjan hafi gosið fyrir u,þ.b. 5000 árum. Hún er því með yngstu dyngjunum á Reykjanesskaganum.
Í Hrútadyngjuhrauni er margir hellar. Í ferðinni var m.a. kíkt á Neyðarútgöngudyrahelli. Steinbogahelli eða Hellin eina, Langahelli, Aðventuna, Húshelli, Híðið og fleiri, sem ekki hafa enn fengið nöfn.
Hraun frá dyngunni hafa runnið frá Hvaleyrarholti vestur í Vatnsleysuvík og austur að Undirhlíðum og niður í Sandfellskola. Til suðurs hafa einnig runnið hraun frá dyngjunni, nú að mestu þakin yngri hraunum. Jón Jónsson telur lágmarksútbreiðslu hraunsins ekki undir 80 ferkílómetrum og rúmmálið um 3,2 rúmkílómetra.

Húshellir

Í Húshelli.

Sumir hellanna eru yfir 100 metra langir. Híðið er a.m.k. 500 m að lengd. Í honum er viðkvæmar dropsteinamyndanir og sumir allháir. Hellirinn eini er um 170 metrar, en hann er víða lágur er innar dregur. Í Húshelli, sem fannst 1988, er hlaðið skjól. Það er fallegt og greinilega gamalt.
Gengið var upp í norðurtröð Hrútagjárdyngju og henni fylgt til suðurs. Leiðin er greiðfær. Í fyrstu liggur hún um helluhraun, en ofar liggur hún um gróna rás. Þá var komið að eystri hrauntröðinni. Gengið var niður í hana norðanverða og henni síðan fylgt til suðurs. Hrauntröðin er tvískipt að austanverðu, en hún hefur rúmað mikla hrauná þegar atgangurinn var hvað mestur.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Dyngjur

Dyngjur og Mávahlíðar.