Tag Archive for: Hrútagjárdyngja

Maístjarnan

Það var vel við hæfi að kíkja í Maístjörnuna í byrjun maímánuðar. Gengið var…… (má ekki segja því um er að ræða einn af fegurstu, en jafnframt viðkvæmustu hraunhellum landsins). Fyrst var þó komið við í Húshelli til að afhræða þátttakendur.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er bæði víður og hár hellir með a.m.k. tveimur breiðum hliðarrásum og því tilfallinn til að draga hugsanlegan skrekk úr fólki áður en haldið er inn í þrengri hella á svæðinu. Á miðju gólfi hellisins er hlaðið stórt byrgi. Í annarri hliðarrásinni eru bein, sem ekki hafa verið aldursgreind, en ekki er talið ólíklegt að þar geti verið um bein úr hreindýri að ræða. Til eru gamlar sagnir um útilegumenn á Selsvöllum, “sem færðu sig norður með fjöllunum” þegar að þeim var sótt. FERLIR hefur fundið álitlegt skjól við Selsvelli, sem gæti hafa verið fyrra athvarf útilegumannanna, en ekki er óhugsandi að þeir hafi hafst um tíma við í Húshelli eða allt þar til þeir voru handteknir og færðir yfirvaldinu á Bessastöðum. A.m.k. eru miklar heillegar mannvistarleifar í hellinum. Skjólið í hellinum gæti einnig hafa verið athvarf hreindýra- og/eða rjúpnaveiðimanna fyrrum.

Þá var haldið í Maístjörnuna. Hellirinn er tvískiptur og óaðgengilegur á millum. Að þessu sinni var skriðið inn um “augað” í vestari rásinni. Þá var komið í rúmgóða þverrás. Að ofanverðu var dropasteinabreiða á gólfinu og hraunnálar í lofti. Niður liggur rás, sem skiptist síðan í tvennt. Haldið var upp eftir hellinu og fetað varlega í gegnum dropasteinana. Þá var komið í rúmbetri þverrás, sem skiptist síðan í nokkrar aðrar. Litatilbrigðin eru mikil, sem og hraunmyndanir þar sem gangar og op opnast í allar áttir.

Maístjarnan.

Augað í Maístjörnunni.

Rás liggur upp á við, en hún lokast síðan með hruni. Rásin liggur talsverðan spotta niður á við. Þar er fallegur rauðlitaður flór. Rásin þrengist síðan uns loft og gólf koma saman. Fetið var tekið til baka að “auganu” og síðan haldið niður þá rás. Vinstri rásin þrengist og lokast, en sú hægri liggur áfram niður eftir. Á hana kemur þverrás, nokkru lægri. Rásinni var fylgt yfir hana. Hún þrengist svolítið, en opnast síðan aftur í stórum litskrúðugum geimi. Haldið var til baka upp rásina, hoppað niður í þverrásina og henni fylgt til vinstri. Þá var komið út í opnu hellisins utan við “augað”. Þar hafði verið útbúið kertasett veisluborð í tilefni 500. FERLIRsgöngunnar – lifrapylsa og hákarl. Þjóðlegra gerist það nú varla undir yfirborði jarðar. Hvernig verður dagamunurinn í tilefni af 600. göngunni?
Til baka var gengið um tröllvaxið landslag. Þegar gengið var framhjá einum hraunhólnum virtist sem raulað væri inni í honum. Lagt var við hlustir og þegar betur var að gáð heyrði fleiri en einn að kveðið var lágri, en dimmri röddu: “Hóhó og hananú, Halldor ei falli. Híhí og snusnu, Solrun af stalli”. Þetta var endurtekið aftur og aftur. Hvort eða hvað þetta kann að boða verður bara að koma í ljós. (Ferðin var farin viku fyrir alþingiskosningarnar 2002).

Í göngunni fannst enn ein hlaðin refagildra, sú 70. sem vitað er um á Reykjanesi.
Gangan tók um tvær klukkustundir.
Veður var frábært – lygnt og hlýtt.

Maístjarnan

Maístjarnan – uppdráttur ÓSÁ.

Sauðabrekkuhellar

Gengið var niður að gígnum í Hrútagjárdyngju frá Djúpavatnsvegi (Undirhlíðaleið), yfir Hrútagjá og gamalli götu fylgt niður (norður) slétt mosagróið helluhraun austan við úfin hraunkant uns komið var Dyngjugrenjunum nyrst í brúninni áður en hraunið lækkaði til norðurs, í átt að Stóru-Sauðabrekku. Milli hans og brekkunnar eru Sauðabrekkuhellarnir sagðir vera, nokkrir hellar í stórum hraunbólum. Í örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík eru þeir nefndir Moshellar.

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum (gígur).

Nefnt Sauðabrekkuskjól er í Sauðabrekkum, en einungis FERLIR hefur hingað til tekist að staðsetja það [2001]. Að hellunum liggja götur úr þremur áttum. Einni þeirra var fylgt til austurs uns komið var að Skjólinu, fallegu sæluhúsi í mjórri hraunræmu í annars grónu hrauninu. Lítil varða er skammt norðan við sæluhúsið. Þá var haldið upp í Hrútagjárhella og síðan til baka um nyrstu Hrútagjárhrauntröðina, upp í þá austustu og áfram að upphafsstað.

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Undirhlíðaleið hefst við Kaldársel og liggur norðan Undirhlíða yfir Bláfjallaveg að vatnsskarði. Þar er farið yfir Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Ketilsstígur liggur yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni að Seltúni og þar taka heimalönd Krýsuvíkur við.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þegar komið var yfir fyrstu stóru sprunguna efst í Hrútagjá tók við tiltölulega slétt hraun vestan við austurtröð dyngjunnar. þegar komið var að enda hennar blasti dyngjuopið við. Það er hringlaga og reglulegt. Ljóst er að hraunið hefur bullað og kraumað í gígnum eftir að eiginlegu hraungosi lauk.

Hrauntaumurinn í austurtröðinni hefur runnið til baka í átt að gígnum og hraðkólnandi apalhraun hefur hrúgast upp norðan gígsins. Þegar staðið er á brún „hrúgaldsins“ er horft yfir slétt hellurhraunið norðan af því. Það hraun hefur runnið áður og er dæmigert dyngjuhraun. Sérkennileg hrauntota kemur úr suðri, frá Mávahlíðahnúk, þar sem hraunið er allt markbrotið í hellur þvers og kruss. Svo virðsit sem hraun hafi náð aðskríða undir hið elda og brotið það upp á kafla. Norðan og austan viðþað er slétt og greiðfært helluhraunið.

Sauðabrekkuhellar

Sauðabrekkuhellar.

Gömul gata liggur norður hraunið með stefnu á brúna yfir Sauðabrekkugjá sunnan við Stóru-Sauðabrekkur. Hún stefnir beint á Dyngjugrenin. Þau eru í hraunæðum fremst í brúninni. Varða er við grenin þar sem skjól refaskyttunar hefur verið. Frá því er gott útsýni yfir hraunbreiðuna neðanverða, milli brúnarinnar og Stóru-Sauðabrekkna.
Stutt er yfir að Sauðabrekkuhellum, en svo nefnast nokkrir hraunhellar sunnan Stóru-Sauðabrekku. Þar á meðal er Sauðabrekkuskjól, sem smalar Hraunamanna nýttu fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Hellarnir eru fallegar, bjartar og rúmgóða hraunbólur. Ein er sýnum stærst; Sauðabrekkuskjólið. Op þess nýr til austurs. Það hefur rúmað góðan fjárhóp, auk þess sem innan þess er hið ágætasta mannaskjól. norðaustan við skjólið er falleg hraunbóla. Einnig á gjárbarmi norðan þess. Austan skjólsins er hægt að ganga niður um sprunguenda og er þá komið inn í dimmara skjól, en rúmgott. Best er að finna hella þessa með því að koma að þeim úr suðri, líkt og nú var gert.

Híðið

Híðið – op.

Sauðabrekkuskjólið sást vel á loftmynd, sem var meðferðis.
Götu var fylgt til austurs frá hellunum. Var þá, eftir stutta göngu, komið að Skjólinu, gömlu sæluhúsi nálægt Hrauntungustíg. Gengið hefur verið vel um Skjólið. Það er opið til suðurs. Hleðslur hafa verið við opið, en þær eru nú að mestu fallnar niður í það. Einhverju sinni fyrrum hefur meri orðið úti eða endað lífdaga skammt frá skjólinu. Sjá má enn þann hluta beinagrindarinnar, sem refurinn hefur ekki hirt.
Haldið var áfram upp í Hrútagjárhella. Hellarnir er samheiti fjölda hella sem eru í nokkrum hraunrásum vestan við Fjallið eina. Þetta er spennandi hellasvæði, en rétt er að fara varlega því víða leynast sprungur og glufur í hrauninu. Margir hellar eru í hrauninu og sumir þeirra alllangir. Sjá má hvar opnar hafa verið rásir og má fylgja sumum þeirra langar leiðir inn undir hraunið.

Sauðabrekkufjárhellar

Sauðabrekkufjárhellar (Moshellar).

Hrútagjárdyngja er í rauninni heimur út af fyrir sig með sínum stórkostlegu hrauntröðum, hrikalegu gjám og upplyftingum á jöðrum meginsvæðisins. Talið er að dyngjan hafi gosið fyrir u,þ.b. 5000 árum. Hún er því með yngstu dyngjunum á Reykjanesskaganum.
Í Hrútadyngjuhrauni er margir hellar. Í ferðinni var m.a. kíkt á Neyðarútgöngudyrahelli. Steinbogahelli eða Hellin eina, Langahelli, Aðventuna, Húshelli, Híðið og fleiri, sem ekki hafa enn fengið nöfn.
Hraun frá dyngunni hafa runnið frá Hvaleyrarholti vestur í Vatnsleysuvík og austur að Undirhlíðum og niður í Sandfellskola. Til suðurs hafa einnig runnið hraun frá dyngjunni, nú að mestu þakin yngri hraunum. Jón Jónsson telur lágmarksútbreiðslu hraunsins ekki undir 80 ferkílómetrum og rúmmálið um 3,2 rúmkílómetra.

Húshellir

Í Húshelli.

Sumir hellanna eru yfir 100 metra langir. Híðið er a.m.k. 500 m að lengd. Í honum er viðkvæmar dropsteinamyndanir og sumir allháir. Hellirinn eini er um 170 metrar, en hann er víða lágur er innar dregur. Í Húshelli, sem fannst 1988, er hlaðið skjól. Það er fallegt og greinilega gamalt.
Gengið var upp í norðurtröð Hrútagjárdyngju og henni fylgt til suðurs. Leiðin er greiðfær. Í fyrstu liggur hún um helluhraun, en ofar liggur hún um gróna rás. Þá var komið að eystri hrauntröðinni. Gengið var niður í hana norðanverða og henni síðan fylgt til suðurs. Hrauntröðin er tvískipt að austanverðu, en hún hefur rúmað mikla hrauná þegar atgangurinn var hvað mestur.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Dyngjur

Dyngjur og Mávahlíðar.

Tag Archive for: Hrútagjárdyngja