Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Djúpavatnsvegi um Hrútagjá og Hrútagjárdyngju, kíkt í Kokið, farið um mikla hrauntröð út úr henni að norðanverðu, um hellasvæði norðvestan hennar og síðan norður með austanverðum Almenningum með viðkomu í Gininu og fjárskjóli með fyrirhleðslum og fallega hlaðinni fjárborg við Brunntorfur.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Dyngjan sjálf, fallega löguð, er nokkuð vestar og frá henni liggja myndarlegar hrauntraðir. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Samsetning hraunsins samkv. rannsóknum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, að meðaltali er Plagioklas um 48,4% og Pyroxen um 32,7%. Ólivín er 11,4% og málmur um 7,3%.
Á leiðinni í gegnum dyngjuna, skammt suðvestan hennar var komið að djúpum sprungum, greinilega gasuppstreymi út frá gígnum. Var þeim gefið nafnið Kokið. Föngulegur hópur hellaáhugamanna var með í för og var tilefni ferðarinnar m.a. að skoða niður í þessar “gjár”. Hér er um að ræða 15-20 m djúpa “sprungu” í hrauninu. Ekki er ólíkt því að horfa niður í kok á einhverri furðuskepnu og horfa þarna niður í sprunguna. Búið var að skoða hluta hennar áður með takmörkuðum búnaði, en nú var ætlunin að láta fagmennina líta á fyrirbærið.

Húshellir

Við Húshelli.

Sprungan er þröng og því best að skilja bjórvömbina eftir heima. Þrír hellamanna nudduðu sér niður og telst Kokið því fullkannað. Svo virðist sem bráðið hraun hafi runnið í sprungunni, því nokkuð er um hraunfossa, rennslistauma og 8-10cm hraunskán sem þekur allt yfirborð sprungunar. Hraunskánin myndast jafnt á lofti sem veggjum. Sprungan hefur framhald bæði að ofan og neðan, en vegna ofvaxtar hellamannanna varð ekkert úr frekari landvinningum.
Húshellir er í hraunbrekkunni norðan dyngjunnar. Hleðsla í hellinum hefur verið ráðgáta. Hins vegar kann að vera skýring á henni. Í gömlum sögnum segir af útilegumönnum á Selsvöllum, sennilega á 17. öld.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Í heimildinni segir að útilegumennirnir hafi haldið til við Vellina, nálægt Hvernum eina, en herjað á Vatnsleysuströnd. M.a. hafi þeir stolið frá bóndanum í Flekkuvík. Eftir að þeir hafi flutt sig “norður með fjöllunum, í helli sem þar er”, hafi þeir áreitt og rænt ferðalanga. Yfirvaldið hafi safnað liði, handtekið þá og fært til Bessastaða þar sem dæmt var í máli þeirra. Stórhöfðastígur liggur þarna niður með. Hann sést vel vestan við Hrútargjárdyngju og áfram niður með henni norðvestanverðri, niður með Fjallinu eina og síðan áfram yfir hraunið austan við Sauðabrekkur, niður í Brunntorfur nálægt Bláfjallavegamótum og áfram yfir hraunið að horni Stórhöfða. Stígurinn sést þarna vel á kafla, en mosi og lyng hefur þakið hann að mestu í grónu hrauninu vestan við Fjallið eina.
Önnur skýring á hleðslunum getur verið sú að þar hafi menn á leið um gömlu þjóðleiðina viljað getað leitað skjóls undan verðum. Einnig að menn hafi haldið þar til við refaveiðar, en þarna ekki langt frá er hestshræ (beinin). Bein eru í hellinum og væri fróðlegt að reyna að finna út af hvaða skepnu þau hafi verið.

Húshellir

Í Húshelli.

Þetta er einn möguleikinn á tilvist hleðslanna í Húshelli, en taka þarf honum með þeim fyrirvara að annað kunni einnig að koma þarna til greina. T.d. vantar þarna eldstæði eða önnur merki um að menn hafi haldið til þarna um einhvern tíma.
Önnur saga segir að yfirvaldið hafi lokað helli útilegumannanna eftir handtökuna til að koma í veg fyrir að aðrir settust þar að. Einnig gæti þarna hafa verið athvarf fyrir þá er stunduðu hreindýraveiðar á Reykjanesinu (síðasta dýrið drepið á Hellisheiði 1901 eða 1904) eða annan veiðiskap. T.d. er hlaðin refagildra í Hrútagjáryngjunni. En þetta eru bara vangaveltur – gaman að velta þessu fyrir sér.

Húshellir

Í Húshelli.

Húshellir er í alfaraleið og er nokkur hundruð metra langur. Eftir að hafa gengið á sléttu helluhrauninu, hoppað yfir sprungur og sokkið í mosa, var komið að Gininu. Það fannst nokkur áður er FERLIRsfélagar voru að koma þarammani niður frá gígaröð norðan við Sauðabrekkur. Blasti opið skyndilega við þeim í annars sléttu hrauninu. Ginið er magnaður hellir og er án efa mest “töff” hellafundur síðan Eldhraunshellarnir fundurst að mati hellaramanna. Ginið er um 10-15m djúpt, trektlaga og snjór er í botni þess. Á yfirborði er ekki að sjá greinileg ummerki um gjall eða klepra, og því stendur þetta gat út í auðninni eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Því miður vannst ekki tími til að skoða Ginið að fullu, en til að það sé hægt þarf að hafa klifurbúnað og góðan tíma. (Sjá aðar FERLIRslýsingu þar sem Ginið var sigrað).

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Hraunspilda milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleysuströnd nefnist Almenningur. Var þar fyrrum skógi vaxið en hann eyddist af höggi og beit. Síðan um aldamót 19. og 20 . aldar hefur hraunið lítið verið breitt enda hefur það gróið nokkuð á ný. Norðan í honum er hlaðið fjárskjól í skútum. Norðvestan þeirra er Þorbjarnarstaðaborgin við Brunntorfur. Hún var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna um aldamótin 1900, en stendur enn nokkuð heilleg rúmlega aldargömul. Sennilega hefur fjárskjólið einnig tilheyrt Þorbjarnastaðafólkinu og sennilega verið ástæðan fyrir gerð borgarinnar. Svo virðist sem hún hafi átt að verða topphlaðin, líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi, en heimilsfaðirinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Jarðfræði Hafnarfjarðar – flensborg.is
-speleo.is

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.