Brúargjá

Skoðaður var óbrennishólmi inni í Lynghólshrauni (Berghrauni/Rauðhólshrauni) vestan við Grindavík. Áður hafði neðri hluti hraunsins, aðskilið, verið skoðar ofan við Lambagjá. Nú var ætlunin að skoða þennan hólma ofan við Brúargjá, sem Jón Jónsson, jarðfræðingur, lýsir í hraunaritgerð sinni. Þar segir hann m.a. um hraun þetta: “Það þessara hrauna, sem er næst elst kemur fram í viki því er verður milli Eldvarpahrauns að austan og Rauðhólshrauns vestan við Grænabergsgjá í landi Staðar, en auk þess í óbrennishólmum þar norður af. Ekki mun það hafa sérstakt nafn en vikið milli áður nefndra hrauna mun heita Moldarlág.

Svæðið-2

Hraun þetta er afar sérstætt að útliti. Það er nú talsvert gróið en sendinn jarðvegur og foksandslag í öllum lægðum. Aldur hraunsins má nokkuð marka af því að það er brotið um þvert af gjám og sprungum, og hefur því verið til áður en þær mynduðust. Sprungurnar sjást aðeins í tveim elstu hraununum þarna, en hvorki í Rauðhólshrauni né Eldvarpahrauni. Jafnframt er svo að sjá sem litlar eða engar hreyfingar hafi á þessu svæði orðið frá því að Rauðhólshraun rann. Það sem vekur undrun er ytra útlit þessa hrauns, en því verður trauðla með orðum lýst og jafnvel góðar ljósmyndir gera því ekki full skil. Það er þunnt, varla nema 5 – 6 m og auðvelt hefur reynst að grafa gegnum það, en þéttan bergkjarna virðist víðast hvar vanta. Þó sést hann á kafla ofan við Lambagjá. Hraunið samanstendur af misstórum og alla vega löguðum bergbrotum, flestum hellulaga, mest 15-25 cm þykkum og afar blöðróttum.
BrúargjáVíða má greina opnar rásir eftir hraunlænur eða gas. Nú horfa þær í allar áttir „eins og andarvana auga í sjálfs sín tómleik rýni”. Svo hefur þetta ekist saman í hrauka og hóla, sem sumir eru nokkurra metra háir og óreglulega dreifðir um svæðið. Eina skýringin sem mér er tiltæk á þessu útliti hraunsins er eitthvað á þessa leið: Hraunið hefur verið mjög heitt, þunnfljótandi, gasmikið og hefur runnið hratt. Eftir fyrstu og hörðustu goshrinu hefur nokkurt hlé orðið, nóg til þess að skorpa hefur náð að myndast á hrauninu, en það hefur að nokkru leyti runnið í rásum undir yfirborði. Næsta hrina í eldvarpinu verður til þess að skorpan brotnar upp og ýtist saman í hóla og hrúgöld. Sums staðar getur að líta hvernig hraunið úr síðari hrinunni (?) hefur vafist utan um brotin úr fyrstu skorpunni. Í heild er þessi myndun hin furðulegasta, og hef ég engan hennar líka séð. Upptök hraunsins eru ófundin, en hljóta að vera á því svæði, sem nú er hulið Eldvarpahrauni og/eða Rauðhólshrauni og geta ekki verið fjarri. Nyrst sést það í óbrennishólmum röskum kílómetra ofan við Lambagjá. Þar er það stórbrotnast og raunar ekki útilokað að þar séu upptök þess enda þótt ekki séu þar neinir dæmigerðir gígir. 

Gatan

Athyglisvert er að gjár, sem eru margra metra breiðar ganga gegnum þetta hraun, en næst undir því er hraun úr Sandfellshæð, eins og áður segir. Virðist því aldursmunur þessara tveggja hrauna ekki vera ýkja mikill. Í vestari óbrennishólmanum er Sandfellshæðarhraunið yfir 20 metra þykkt og grófstuðlað. Gegnum bæði hraunin gengur gjá, margra metra breið. Ég hef leyft mér að kalla hana Brúargjá sökum þess að yfir hana hefur myndast brú, steinbogi, úr Rauðhólshrauni. Að dæma af þeim staðreyndum, sem hér má lesa í landslaginu hafa gjárnar orðið til á tímabilinu frá því að Sandfellshæð var virk eldstöð til þess að Rauðhóll gaus. Aldursákvörðun þessara eldstöðva getur því varpað ljósi á hvenær gjárnar mynduðust á þessu svæði. Að samsetningu er hraunið dæmigert þóleiíthraun með ámóta miklu af plagíóklasi og pýroxeni, 4% ólivín og aðeins um 1% plagíóklasdíla.”
Ein gjáinÞegar gengið var inn í óbrennishólmann var komið inn á gamla götu, rudda að hluta, í gegnum hraunið beggja  vegna hans. Efst í hólmanum var fyrirhleðsla þar sem gatan fór upp úr honum og inn á nýrra hraunið, sem er allt umleikis hólmann. Brúargjá er neðst óbrennishólmanum. Bæði þar og ofan við hólmann, þegar komið er í Sandfellshæðarhraunið, má sjá hinu stórbrotnu gjár, sem hraunið hefur staðnæmst við á köflum. Efsti hluti gjárinnar heitir Hrafnagjá.
Reykjanesskagi er er allur eldbrunninn enda á milli. Fjallabálkur gengur eftir honum endilöngum og er uppistaðan í honum móbergsfjöll, sem myndast hafa við eldgos undir jökli á síðustu ísöldum. Láglendi eru nokkru meiri norðan á skaganum en sunnan, en þau eru þakin hraunum frá nútíma (frá lokum síðustu ísaldar og fram á sögulegan tíma) og grágrýtishraunum frá hlýskeiðum ísaldar.
GatanÚthafshryggurinn gengur á land á Reykjanestá (Mið-Atlanshafshryggurinn, Reykjaneshryggur) og mun það vera eini staðurinn á jörðinni, þar sem svo háttar til. Gosbelti gengur þaðan austur skagann (Reykjanesgosbeltið), allt austur í Selvog – Ölfus, en þar tengist það gosbelti, sem stefnir norðaustur og nær allt norður fyrir Langjökul (Langjökulsgosbeltið eða Vestara-gosbeltið). Eru Hellisheiði og Hengillinn á því. Gosfylki, eða eldstöðvakerfi, ganga á ská yfir gosbeltið og stefna norðaustur. Þau eru fjögur til átta, eftir því hvernig skilgreint er, og einkennast af móbergshryggja-kerfum og gossprunguknippum. Dyngjur og móbergsstapar frá ísöld (Fagradalsfjall, Langahlíð, grunnurinn undir Heiðinni há) eru tengd gosfylkjunum og eru staparnir mestir um sig af fjöllunum á skaganum. Sprunguskarar fylgja gosfylkjunum, með opnum sprungum og virkum misgengjum.
Þessar sprungur, margar hverjar djúpar og mikilfenglegar, má sjá í Sandfellshæðarhrauninu vestan við Grindavík. Nýrri hraun hafa runnið að og yfir gjárnar að hluta, en á stökum stað má sjá hluta af þeim elstu, stærstu og stórbrotnustu.
Fljótlega er ætlunin að fylgja götu, sem liggur upp úr óbrennishólma Lambahrauns að sunnanverðum Eldvörpum (FERLIR-1487).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Jón Jónsson: Hraunið við Lambagjá, Náttúrufræðingurinn – 56. árg., 4. tbl. 1986, bls. 209-211.

Grindavík

Gengið um Grindavík og nágrenni.