Herstöð

Bandaríkjaher rak á árunum 1953-1968 herstöð (sendistöð) í dalverpi milli Fiskidalsfjalls og Húsafjalla ofan Hrauns í Grindavík. Herstöðinni tilheyrðu tvö hús; sendistöðin, sem og íverustaður starfsmanna og birgðageymsla, auk mannvirkis milli fjallanna skammt ofar. Allnokkur járnmöstur (29) voru umleikis stöðina, en þau sem og byggingarnar eru nú horfnar. Einungis grunnar húsanna og steinstöplafestingar eru til vitnis um tilvist herstöðvarinnar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns um 1960. FE

Í Morgunblaðið 28. des. 1995 er grein eftir Skarphéðinn Hinrik Einarsson undir fyrirsögninni “Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt”. Þar lýsir hann viðskilnaði Bandaríkjahers við fyrrum aðstöðu hans á Suðurnesjum og nágrenni, þ.á.m. í herstöðinni ofan Hrauns: “Umhverfismál hafa aldrei verið ofarlega á blaði hér á landi þegar Bandaríkjamenn hafa átt hlut að máli.
Það þarf að athuga mál í herstöðinni í Grindavík. Bandaríkjaher rak herstöð skammt frá Grindavík, austan Grindavíkur, í landi Hrauns. Þar hefur ekki verið hreinsað, og liggja þar ýmsir hlutir sem minna á þá stöð. Það eina sem hefur verið fjarlægt em möstur. Annað liggur þar.

Herstöð

Svæði herstöðvarinnar 2022. Leifar húsanna sjást efst á myndinni.

Landeigendurnir hafa verið friðaðir með peningum. Samningur hefur verið gerður við þá fram yfir aldamót, til ársins 2002 hef ég heyrt, og þeir fá fulla leigu fyrir það land, þó svo að starfrækslu mastranna hafí verið hætt 1968. Herinn og íslenska ríkisstjómin einfaldlega vilja ekki hreinsa það svæði af ótta við að þar gæti komi fram kröfur um háar bætur sökum hugsanlegrar mengunar, því að hvar sem Bandaríkjaher hefur verið í heiminum virðist hann hafa skilið eftir sig mengun.”…

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal.

Eftirfarandi útdráttur er úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal:

Bandaríski flugherinn byggði á upphafsárum varnarliðsins fjarskipti sín á margskiptu kerfi Bandaríkjahers sem komið hafði verið upp á stríðsárunum og náði vítt um heiminn.
Fjarskiptastöðin Broadstreed við Vogastapa á Reykjanesi var ein slíkra stöðva og þjónaði m.a. flugupplýsingakerfi og öðrum langdrægum fjarskiptum varnarliðsins ásamt móttökustöð
í Camp Garrity skammt norðan við vesturenda austur-vesturflugbrautar Keflavíkurflugvallar.

Herstöð

Leifar húsanna 2023.

Uppbygging langdræga sprengjuflugflotans (SAC) og tuga nýrra bækistöðva hans víða um heim krafðist þess að komið yrði upp nýju, sjálfstæðu fjarskiptakerfi og hófst uppsetning þess árið 1951. Hlaut það heitið U.S. Air Force Global Communications System – GLOBECOM – og byggði á neti öflugra fjarskiptastöðva um heim allan með fjölrásatengingum á helstu tíðnisviðum, þ. á m. langbylgju með háum loftnetsmöstrum sem hentuðu þó illa í námunda við flugvelli.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin.

Var nýrri GLOBECOM-sendistöð því valinn staður við rætur Þorbjarnarfells ofan við Grindavík. Smíði stöðvarinnar hófst árið 1953 og var hún tekin í notkun árið eftir. Stöðin samanstóð af sendistöðvarbyggingu, rafstöð og íbúðar- og skrifstofuskála ásamt stuttbylgjuloftnetum af ýmsum gerðum og tveimur, 183 m (600 feta) og 244 m (800 feta) háum, langbylgjumöstrum sem gnæfðu yfir stöðinni og sáust víða að. Jafnframt var tekin í notkun ný fjarskiptamiðstöð og símstöð á Keflavíkurflugvelli. Var sendistöðinni í Broadstreet breytt í móttökustöð fyrir GLOBECOM-kerfið árið 1955 (USAF Strategic Receiver Station). Við þetta kerfi bættist síðan langdrægt talstöðvarsamband við flugvélar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns – loftmynd 1957.

Bandaríkjamenn unnu um þessar mundir að þróun loftskeytakerfa sem byggðu á svonefndri háloftabylgjuspeglun (e. inonospheric forward scatter) og veðrahvolfsbylgjuspeglun (e.
tropospheric scatter) sem annars vegar nýttu stefnuvirkt endurvarp af frjálsum rafeindum í 70–90 km hæð í jónahvolfinu, og hins vegar hita- eða rakaskilum í 2–5 km hæð í
veðrahvolfinu. Þótti ljóst að beiting háloftabylgjuspeglunar á VHF-tíðni hentaði vel til stuðnings við önnur tíðnisvið á norðurslóðum, t.d. milli herstöðva á Grænlandi, Íslandi og Bretlandseyjum, þar sem truflanir á stuttbylgjusendingum voru algengar.

Fjarskiptatæki

Fjarskiptatæki hersins.

Tæknin byggði á sendingu mjórra geisla sem tvístruðust við árekstur við frjálsar rafeindir í jónahvolfinu og spegluðust m.a. í litlum mæli til jarðar í sömu stefnu og hittu fyrir móttökuloftnet. Var slíkri sendistöð valinn staður við rætur Húsafells og Fiskidalsfjalls við Hraunsvík austan Grindavíkur undir heitinu Grindavik Extension, og móttökustöð skammt sunnan flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli sem hlaut nafnið Picnic.
Tækjabúnaður samanstóð af 30 kW sendi og rafstöð ásamt tveimur stórum hornlaga netspeglum (e. corner reflector) sem héngu á níu stálmöstrum í þremur misháum röðum.

Herstöð

Leifar stöðvarinnar ofan Hrauns.

Skammt frá stóðu lítil vélarhús og íbúðarhús stöðvarinnar og hátt mastur með örbylgjuloftneti til samskipta við fjarskiptamiðstöðina á Keflavíkurflugvelli. Mun það hafa verið fyrsta örbylgjusambandið sem komið var á hérlendis. Tæknimenn bjuggu í stöðinni og önnuðust viðhald og stillingu tækjabúnaðarins en samskonar búnaður var í móttökustöðinni á Keflavíkurflugvelli.
Í árslok 1955 var háloftabylgjuspeglunarsambandi einnig komið á við flugbækistöðina BW-8 í Syðra-Straumfirði á Grænlandi og frá stöðinni austan við Grindavík til Bretlands.

Herstöð

Jarðstrengur við herstöðina.

Langbylgju- og stuttbylgjusendarnir í Globecom-fjarskiptastöðinni í Grindavík voru þá nærri fullbúnir til notkunar en langbylgjustöðin sendi út með 50 þúsund watta styrk.
Fjarskiptakerfi flughersins var tekið til endurskoðunar á árunum 1956–1957. Tæknibreytingar með tilkomu stefnuvirkrar háloftabylgjuspeglunar gerðu það að verkum að minni þörf var á langbylgjusendingum, t.d. fyrir skeytasendingar loftvarnakerfisins. Var móttökustöðin Broadstreet á Vogastapa lögð niður og móttökustöðinni í Camp Garrity á Keflavíkurflugvelli breytt með litlum tilkostnaði til þess að geta einnig þjónað hlutverki hennar. Sendistöð fyrir fjarskipti við flugvélar og milli landa var áfram í stöðvunum við Grindavík og Hraunsvík og móttökustöðvunum Garrity og Picnic á flugvallarsvæðinu.

Stafnes

Ratsjárskermar utan við Stafnes. Tóftir bæjarins á Básendum t.h.

Þegar ráðist var í uppsetningu öflugs trópó-kerfis um Grænland til Íslands, sem fjármagnað var af Bandaríkjunum, og þaðan um Færeyjar til Bretlandseyja. Stóð NATO straum af kostnaði við þann hluta leiðarinnar og nefndi North Atlantic Radio System (NARS). Risu tvær fjarskiptastöðvar með gríðarstórum íhvolfum loftnetsskermum ásamt stöðvarhúsum skammt neðan við Gálgaklett nærri Básendum á Reykjanesi og í ratsjárstöðinni á Stokksnesi. Skermarnir risu veturinn 1961–1962 og var stöðin á Reykjanesi tekin í notkun í júní 1962.

Herstöð

Undistöður eldsneytistanks við herstöðina.

Rekstur fjarskiptakerfis varnarliðsins var á hendi 1971th Airways and Air Communications Service Squadron (1971 AACS) bandaríska flughersins til ársins 1961. Árið 1961 tók Bandaríkjafloti við rekstrinum undir heitinu U.S. Naval Communication Station, Iceland (NAVCOMMSTA Iceland). Verkefni liðsveita varnarliðsins voru þá nokkuð breytt og aukin áhersla á stuðning við vaxandi starfsemi flotans í stað sprengjuflugvéla flughersins. Þjónustan sem flotinn tók við fól í sér rekstur almennra og sértækra fjarskiptaviðskipta og viðhald tækja á fjölbreyttu sviði vegna flugumferðar.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Háloftabylgjukerfinu var lokað fljótlega eftir að trópó-kerfinu var komið á og starfsemi Grindavik Extension lögð niður. Voru loftnetin tekin niður árið 1966 og landinu skilað tveimur árum síðar.”
Sjá meira um herstöðvar við Grindavík HÉR.

Heimildir:
-Morgunblaðið 28. des. 1995, bls. 43, “Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt”, Skarphéðinn Hinrik Einarsson.
-Útdráttur er úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal.

Herstöð

Leifar herstöðvarinnar ofan Hrauns 2023.