Færslur

Rjúpnahæð

FERLIR var boðið í skoðunarferð um loftskeytastöðina á Rjúpnahæð. Stöðin, þakin möstrum, línum og lögnum, var reist af Bretum á hæðinni ofan og utan við höfuðborgina snemma í Seinni heimsstyrjöldinni.
Sjálf bækistöðin var hýst í Aðkoman að loftskeytastöðinnitveimur bröggum efst á hæðinni, milli tveggja mastra er enn standa. Bandaríkjamenn yfirtóku síðan bækistöðina. Þeir voru rifnir og nýtt hús byggt undir vaxandi og ómissandi starfsemi árið 1952. Það hús stendur enn og hýsir um þessar mundir allar kynslóðir senda, allt frá örfáum vöttum til nokkurra þúsunda. Á næstu mánuðum (þetta er ritað í okt. 2007) verða möstrin felld og húsið jafnað við jörðu. Svæðið er komið á framkvæmd deiliskipulags Kópavogs og þá og þegar að því kemur verður engu þyrmt – ef af líkum lætur. Nú þegar er byrjað að grafa fyrir og leggja götur á svæðinu.

Rjúpnahæð

Í loftskeytastöðinni á Rjúpnahæð.

Umsjónarmaður loftskeytastöðvarinnar, greinilega eldklár á sínu sviði, en fannst greinilega miður, líkt og áheyrendum, að rífa þyrfti hið veglega hús á hæðinni. Skipulagið gerir þar ráð fyrir tvöföldum nútímavegi (sem eflaust verður orðinn úreltur eftir hálfa öld), en með ofurlítilli hugsun og broti af skynsemi hefði auðveldlega verið hægt að gera það að miðstöð svæðisins; annað hvort sem safnhúsi eða einhverju öðru ekki síður merkilegu. En  gróðarhyggjan spyr ekki að slíku – lóðin mun vera verðmætari en húsræksnið, sem þó virðist bara í ágætu ástandi, enda vel vandað til verksins í upphafi.

Loftskeytastöðin á Rjúpnahæð

Vangaveltur koma óneitanlega upp um hvers vegna íbúar Kópavogs hafi ekkert lagt til málanna í þessum efnum. Kannski hafa þeir bara ekki skoðað málið nægilega vel eða velt væntanlegum afleiðingum fyrir sér – sem og möguleikum á nýtingu hússins.
Ætla má að einhver hafi tekið skyndiákvörðun um brotthvarf þessara minja í reykfylltu herbergi án sérstakrar umhugsunar.
Loftnetin utandyra virtust fleiri en eyjarnar á Breiðafirði og hólarnir í Vatnsdal. Víravirkin eru sum að sjálfsögðu orðin úrelt, en þau þjónuðu þó sínum tilgangi á meðan var. Það eitt ætti að kalla á svolítið viðstaldur. Mannsævin er stutt, en ávallt minninga virði. Það finnst a.m.k. afkomendunum. Þeim finnst og mikilvægt að halda í minningu þeirra, öðrum eftirlifandi til áminningar og eftirbreytni. Ákvarðanatakar í bæjarstjórn Kópavogsbæjar virðast allir tröllum gefnir í þeim efnum.
Með elstu minjum stöðvarinnarÞegar inn í sendistöðina var komið birtist fyrst íslenskt karlkyns; Spói. Hann tók fagnandi á móti hálfkvenkynssammyndinni Brá – ætlaði reyndar aldrei að láta af fagnaðarlátununum. Greyið var reynar að koma úr eistaaðgerð og því ekki til stórræðna líklegur.
Inni í sendistöðinni var óendanlega mikið af sendum og öðrum tækjum. Aðallega stuttbylgju og langbylgjusendar fyrir flugfjarskipti. Í kjallaranum voru síðan fm sendar fyrir x-ið og einhverjar fleiri stöðvar. Ekki var þera neitt útvarpstæki, bara símtól sem hægt var að tengja við suma sendana. Í rauninni eru þarna minjar um upphaf fjarskipta hér á landi. Fyrsti sendirinn, “serial no 1”, brann að vísu yfir á sínum tíma, en þarna er enn “serial no 2”, sem verður að teljast allnokkur safngripur. Síðan tekur hver safngripurinn við af örðum – í þróunarröðinni. Sum nöfnin er alkunn, en önnur ekki. Í ljós kom að þekking og reynsla íslenskra sérfræðinga dugðu vel til að betrumbæta sum tækin þeannig að þau dugðu betur en áður þekktist. Það er jú varðveislunnar virði. Ekki er vitað til þess að saga loftskeytastöðvarinnar hafi verið skráð – líklegra er lengra í söguna en eyðileggingu hennar.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Fólk vill víst ekki hafa loftnetin þarna lengur, sem verður jú að teljast eðlilegt. Það verður víst að vera pláss fyrir fleiri blokkir eða einbýlishús í Kópavogi. Þó hefði ekki orðið fráfallssök þótt eitt ef elstu möstrunum hefði verið hlíft, sem minjamastri fyrir það sem var (hugsað fram í tímann).
Einkahlutafélag mun á næstunni hefja rekstur fjarskiptamastra á gamla varnarsvæðinu í nágrenni Grindavíkur samkvæmt upplýsingum blaðsins. “Í dag rekur félagið möstur við Rjúpnahæð í Kópavogi, en á því svæði stendur til að byggja og þurfa möstrin því að víkja. Þau möstur verða þó ekki flutt til Grindavíkur heldur munu Flugfjarskipti nota möstur sem bandaríski herinn skildi eftir við fjallið Þorbjörn. Möstrin á Rjúpnahæð verða tekin niður og gerður hefur verið samningur við Kópavogsbæ um frágang þess máls. Möstrin sem Flugfjarskipti hyggjast taka í notkun í námunda við Grindavík eru um 10-12 talsins, en þau verða notuð til fjarskipta við flugvélar á flugi í íslenska flugstjórnarsvæðinu yfir Norður-Atlantshafi.

Staðfesting á elsta "núlifandi" sendir stöðvarinnar

Í fyrra keypti Flugfjarskipti hluta jarðarinnar á Galtarstöðum í Flóahreppi og hugðust flytja möstrin sem standa á Rjúpnahæð þangað. Stjórn hreppsins hafnaði hins vegar beiðni Flugfjarskipta um að fá að reisa möstrin þar, en hæð þeirra átti að vara 18-36 metrar. Gert er ráð fyrir að flutningurinn frá Rjúpnahæð fari fram í áföngum á þessu ári og næsta, en möstrin á Rjúpnahæð verða í notkun þar til að fyrirtækið er endanlega flutt á nýjan stað. Kópavogsbær reiknar með að hægt verði að hefja byggingar af fullum krafti næsta sumar og að svæðið verði að mestu full byggt 2010-2011.” Hið jákvæða í þessu öllu saman er að starfsemin færist til Grindavíkur, en hið neikvæða felst í niðurrifshugsjóninni.

Loftskeytastöðin

Loftskeytastöðin á Melunum.

Til frekari fróðleiks er rétt að rifja upp að loftskeytastöðin á Melunum tók til starfa 17. júní 1918. Þetta var neistasendistöð með krystalviðtækjum. Tvö 77 metra möstur voru reist fyrir loftnet. Loftskeytastöðin sendi út og tók á móti á morsi fyrsta áratuginn. Síðar annaðist hún einnig talskipti og veitti öllum skipum í námunda við Ísland ómetanlega þjónustu sem stórbætti öryggi sjófarenda.
Elsti sendirinn - sem væntanlega veðrur fargaðFrá örófi alda hafa menn reynt að finna aðferðir til að hafa samskipti við aðra. Sending reykmerkja og trumbusláttur eru meðal þeirra aðferða sem notaðar voru í upphafi en fjarskiptatækni nútímans byggist aftur á móti á eiginleikum rafmagns og rafsegulmagns. Gríðarlegar framfarir urðu í tæknimálum á 19. öld. Þá bjó t.d. Ampére til nálaritsíma og stuttu síðar smíðaði Morse nothæfan ritsímalykil og bjó til sérstakt stafróf. Árið 1876 talaði Bell í síma í fyrsta skipti og Marconi sendi fyrstu loftskeytin árið 1897.
Árið 1906 markar tímamót í fjarskiptasögu Íslendinga. Það ár var sæsímastrengur fyrir ritsíma lagður frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og kom hann á land á Seyðisfirði. Skeyta- og talsími var lagður frá Seyðisfirði um Akureyri og til Reykjavíkur og rauf hann einangrunina innanlands. Margir mótmæltu lagningu símans og töldu loftskeyti vænlegri kost en Hannesi Hafstein ráðherra tókst að sannfæra Alþingi um ágæti símans.

Pósthússtræti 3

Pósthússtræti 3 –
Barnaskóli, pósthús, símahús og lögreglutöð.
Í fyrstu hýsti húsið Barnaskóla Reykjavíkur (1883-1898) en þá var það tekið undir pósthús og stuttu síðar Landsíma Íslands. Árið 1931 var húsið tekið undir Lögreglustöð Reykjavíkur sem var hér til ársins 1965 þegar ný lögreglustöð var opnuð við Hlemm. Í kjallara hússins voru fangageymslur sem gengu undir nafninu „Steinninn“ eða „Grjótið.“

Það liðu þó mörg ár þar til allir landsmenn komust í símasamband en lagningu síma í sveitir lauk í kringum 1960 og voru þá enn margir símar á sömu línunni.

Landssími Íslands var stofnaður sama ár og símtæknin kom til landsins, árið 1906, og var hann til húsa í gamla barnaskólanum í Reykjavík á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Fyrsti yfirmaður Landssímans var Norðmaðurinn Olav Forberg sem hafði stjórnað lagningu símalína um landið. Fyrstu menntuðu íslensku símamennirnir voru símritarar sem höfðu verið í námi hjá Mikla norræna ritsímafélaginu í Kaupmannahöfn.
Eftirsóknarvert þótti að vinna við talsímann og sköpuðust með honum ný atvinnutækifæri fyrir karla og konur. Árið 1935 var síma- og póstþjónustan sett undir einn hatt en árið 1998 skildu leiðir á ný og Landssími Íslands hf. var stofnaður.
Fornfálegheit lofskeytastöðvarinnarLoftskeytastöð tók til starfa á Melunum í Reykjavík þann 17. júní 1918 í því húsi sem Fjarskiptasafnið er nú og kallaðist hún Reykjavík radíó. Sunnan- og norðanmegin hennar voru tvær 77 m háar loftnetsstangir. Fyrsta kallmerki stöðvarinnar var OXR en árið 1919 var Íslandi úthlutað kallmerkinu TF og bar stöðin síðan kallmerkið TFA. Upphaflega var loftskeytastöðin hugsuð sem varasamband til útlanda, viðbót við sæsímann, en aðalhlutverk hennar varð brátt þjónusta við skip og báta og var hún bylting fyrir öryggi þeirra.
Í fyrstu fóru öll fjarskipti við skip fram á morsi en talfjarskipti hófust árið 1930. Fyrsta íslenska fiskiskipið sem fékk loftskeytatæki var togarinn Egill Skallagrímsson, árið 1920.

Rjúpnahæð

Möstur loftskeytastöðvarinnar á Rjúpnahæð.

Tveimur árum síðar var fyrsti loftskeytamaðurinn ráðinn til starfa á íslenskt skip. Þegar skipum með loftskeytatæki fór að fjölga varð hörgull á mönnum sem gátu sinnt þessum störfum og var því efnt til námskeiðs fyrir unga menn sem vildu læra loftskeytafræði. Lauk fyrsti hópurinn námi árið 1923. Á hernámsárunum var Reykjavík radíó undir eftirliti hernámsliðsins. Þá voru loftskeytastöðvar reistar víða um land, t.a.m. á Rjúpnahæð og tvær við Grindavík.
Síminn hefur sinnt radíóþjónustu við flugvélar frá því í lok síðari heimsstyrjaldar. Þeirri þjónustu er sinnt í Gufunesi. Stöðinni á Rjúpnahæð hefur jafnan verið fjarstýrt þaðan.

Landsímahúsið við Austurvöll

Landsímahúsið við Austurvöll.

Árið 1963 fluttist öll starfsemi Reykjavík radíó í Gufunes sem er nú aðalstrandstöð fyrir skip auk þess að veita flugvélum fjarskiptaþjónustu.

Reykvíkingar voru fljótir að taka við sér og fá sér síma. Árið 1912 voru notendur í bænum alls 300 talsins, tíu árum síðar voru þeir nær 1100 og árið 1928 voru um 2400 símnotendur í Reykjavík. Þrátt fyrir að búið væri að byggja eina hæð ofan á gömlu símstöðina voru þrengslin orðin slík að ekkert pláss var fyrir fleiri skiptiborð og voru vinnuaðstæður mjög erfiðar. Ákveðið var að reisa nýtt hús fyrir starfsemi Símans og fékkst til þess lóð við Austurvöll.

Rjúpnahæð

Loftskeystastöðin á Rjúpnahæð – MWL.

Árið 1932 voru fyrstu sjálfvirku símstöðvarnar í Reykjavík og Hafnarfirði teknar í notkun. Þá gátu bæjarbúar hringt hver í annan án þess að fá samband í gegnum “miðstöð” og hafa eflaust einhverjir saknað þess að þurfa ekki lengur að tala við stúlkurnar þar.
Sjálfvirkum stöðvum fjölgaði smám saman á landinu og árið 1976 voru allir þéttbýlisstaðir komnir með sjálfvirkan síma. Árið 1986 voru allir símar landsmanna tengdir sjálfvirkum stöðvum og fréttir sem menn heyrðu óvart í gegnum sveitasímana heyrðu sögunni til.
Símastaurar og línur sáust vart lengur í landslaginu þar sem farið var að plægja strengina í jörðu eða setja upp radíósambönd. (Vonandi mun slík þróun og verða v/jarðvarmavirkjanir hér á landi til lengri framtiðar litið).

Loftskeytamöstur á Rjúpnahæð

Lagning ljósleiðara um landið hófst árið 1985. Með honum jukust talgæði til muna en stafræn kerfi eru auk þess öruggari og hagkvæmari en fyrri kerfi. Flutningur annarra gagna en símtala varð mögulegur og var almenna gagnaflutningsnetið tekið í notkun ári síðar. Fyrstu stafrænu (digital) símstöðvarnar voru opnaðar árið 1984 og náði sú tækni til allra símstöðva ellefu árum síðar. Með stafrænu tækninni var unnt að bjóða upp á ýmsa sérþjónustu. Íslendingar eru fljótir að tileinka sér nýjungar og það átti svo sannarlega við um farsímana. NMT-kerfið hóf göngu sína árið 1986 og GSM-kerfið árið 1994. Árið 1998 var breiðbandið tekið í notkun og verður það notað fyrir margvíslegan gagnaflutning í framtíðinni, s.s. síma, sjónvarp, útvarp og tölvur. Það hefur verið kallað upplýsingahraðbraut framtíðarinnar.

Scotice

Fyrstadagsumslag frá árinu 1962.

Talsamband við útlönd á stuttbylgjum var opnað árið 1935 og voru um 250 samtöl afgreidd fyrsta mánuðinn. Gjaldið fyrir útlandasímtal þætti hátt í dag en það var þá 33 kr. fyrir þriggja mínútna símtal sem jafngilti því sem næst heilu ærverði. Til samanburðar má geta þess að áskrift að dagblaði kostaði á sama tíma 2-3 kr. á mánuði. Nýr sæsímastrengur, Scotice, milli Skotlands og Íslands var tekinn í notkun árið 1962 og olli hann enn einni byltingunni í samskiptum Íslendinga og annarra þjóða. Í tengslum við strenginn var komið upp telexþjónustu hér á landi og varð hún mjög vinsæl hjá fyrirtækjum og stofnunum. Ári síðar var Icecan-strengurinn, milli Íslands og Kanada, formlega tekinn í notkun.
Elsta braggahúsið var á millum mastrannaÁrið 1980 kom jarðstöðin Skyggnir til sögunnar og fóru þá samtöl til útlanda um gervihnött. Þá var fyrst hægt að hringja beint til annarra landa. Skyggnir sinnir enn hluta þjónustunnar og er einnig notaður sem varaleið en árið 1994 var nýr sæstrengur, Cantat-3, tekinn í notkun. Hann liggur þvert yfir Atlantshafið, frá Evrópu til Ameríku, en grein frá honum
tengist Íslandi. Um hann fer nú meirihluti símtala frá landinu til útlanda og mikill gagnaflutningur, s.s. Internetið.
Í deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð segir m.a.: “Í tillögunni er gert ráð fyrir nýju íbúðarsvæði vestast í Rjúpnahæð. Nánar tiltekið afmarkast deiliskipulagssvæðið af opnu svæði við fyrirhugaða Smalaholti til vesturs, skógræktarsvæði og golfvelli GKG til norðurs, fyrirhugaðri byggð við Austurkór, Auðnukór og Álmakór til austurs sveitarfélagsmörkum Kópavogs og Garðabæjar til suðurs. Áætlað er að á svæðinu rís 120 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Aðkoma er fyrirhugðu Ásakór um Austurkór.”
Svo mörg voru þau orð…
Beitarhústóft frá Fífuhvammi norðan í RjúpnahæðVið skoðun FERLIRs komu í ljós tóftir norðan við afmarkaða girðingu loftskeytastöðvarinnar. Í gögnum segir að “í norðurhlíðum Rjúpnahæðar ofan golfvallar eru menjar gamals sels. Selið var verndað með bæjarvernd í tengslum við framkvæmdir sem áætlaðar voru á svæðinu. Framkvæmdir þessar voru Landgræðsluskógrækt, lagning reiðstíga og gerð golfvallar.”
Ef grannt er skoðað er þarna um að ræða leifar beitarhúss, væntanlega frá Fífuhvammi. Fífuhvammslækur hefur áður runnið um dalverpið, sem nú hefur verið fylt upp. Ofan við bakka þess hefur nefnt sel að öllum líkindum verið. Erfitt verður að staðsetja það af nákvæmni úr því sem komið er, bæði vegna þess að trjám hefur verið plantað í neðanverða hlíðina auk þess sem verulegt rask hefur orðið neðan hennar vegna undangenginna framkvæmda.
Mannvirkin og söguleg tilvist þeirra mun að óbreyttu hverfa á næstu mánuðum. Reyndar er leitt til þess að vita því áhugafólk um söfnun minja frá stríðsárunum hefur lengi leitað eftir slíku húsnæði fyrir safn. Myndirnar hér að ofan voru teknar í okt 2007, en myndin að neðan ári síðar. Segja má að nú sé Snorrabúð stekkur.

Heimildir m.a.:
-http://siminn/saga_simans/+loftskeytast.is
-http://www.fjarskiptahandbokin.is/
-Kopavogur.is

Loftskeytastöðin haustið 2008

Herstöð

Bandaríkjaher rak á árunum 1953-1968 herstöð (sendistöð) í dalverpi milli Fiskidalsfjalls og Húsafjalla ofan Hrauns í Grindavík. Herstöðinni tilheyrðu tvö hús; sendistöðin, sem og íverustaður starfsmanna og birgðageymsla, auk mannvirkis milli fjallanna skammt ofar. Allnokkur járnmöstur (29) voru umleikis stöðina, en þau sem og byggingarnar eru nú horfnar. Einungis grunnar húsanna og steinstöplafestingar eru til vitnis um tilvist herstöðvarinnar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns um 1960. FE

Í Morgunblaðið 28. des. 1995 er grein eftir Skarphéðinn Hinrik Einarsson undir fyrirsögninni “Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt”. Þar lýsir hann viðskilnaði Bandaríkjahers við fyrrum aðstöðu hans á Suðurnesjum og nágrenni, þ.á.m. í herstöðinni ofan Hrauns: “Umhverfismál hafa aldrei verið ofarlega á blaði hér á landi þegar Bandaríkjamenn hafa átt hlut að máli.
Það þarf að athuga mál í herstöðinni í Grindavík. Bandaríkjaher rak herstöð skammt frá Grindavík, austan Grindavíkur, í landi Hrauns. Þar hefur ekki verið hreinsað, og liggja þar ýmsir hlutir sem minna á þá stöð. Það eina sem hefur verið fjarlægt em möstur. Annað liggur þar.

Herstöð

Svæði herstöðvarinnar 2022. Leifar húsanna sjást efst á myndinni.

Landeigendurnir hafa verið friðaðir með peningum. Samningur hefur verið gerður við þá fram yfir aldamót, til ársins 2002 hef ég heyrt, og þeir fá fulla leigu fyrir það land, þó svo að starfrækslu mastranna hafí verið hætt 1968. Herinn og íslenska ríkisstjómin einfaldlega vilja ekki hreinsa það svæði af ótta við að þar gæti komi fram kröfur um háar bætur sökum hugsanlegrar mengunar, því að hvar sem Bandaríkjaher hefur verið í heiminum virðist hann hafa skilið eftir sig mengun.”…

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal.

Eftirfarandi útdráttur er úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal:

Bandaríski flugherinn byggði á upphafsárum varnarliðsins fjarskipti sín á margskiptu kerfi Bandaríkjahers sem komið hafði verið upp á stríðsárunum og náði vítt um heiminn.
Fjarskiptastöðin Broadstreed við Vogastapa á Reykjanesi var ein slíkra stöðva og þjónaði m.a. flugupplýsingakerfi og öðrum langdrægum fjarskiptum varnarliðsins ásamt móttökustöð
í Camp Garrity skammt norðan við vesturenda austur-vesturflugbrautar Keflavíkurflugvallar.

Herstöð

Leifar húsanna 2023.

Uppbygging langdræga sprengjuflugflotans (SAC) og tuga nýrra bækistöðva hans víða um heim krafðist þess að komið yrði upp nýju, sjálfstæðu fjarskiptakerfi og hófst uppsetning þess árið 1951. Hlaut það heitið U.S. Air Force Global Communications System – GLOBECOM – og byggði á neti öflugra fjarskiptastöðva um heim allan með fjölrásatengingum á helstu tíðnisviðum, þ. á m. langbylgju með háum loftnetsmöstrum sem hentuðu þó illa í námunda við flugvelli.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin.

Var nýrri GLOBECOM-sendistöð því valinn staður við rætur Þorbjarnarfells ofan við Grindavík. Smíði stöðvarinnar hófst árið 1953 og var hún tekin í notkun árið eftir. Stöðin samanstóð af sendistöðvarbyggingu, rafstöð og íbúðar- og skrifstofuskála ásamt stuttbylgjuloftnetum af ýmsum gerðum og tveimur, 183 m (600 feta) og 244 m (800 feta) háum, langbylgjumöstrum sem gnæfðu yfir stöðinni og sáust víða að. Jafnframt var tekin í notkun ný fjarskiptamiðstöð og símstöð á Keflavíkurflugvelli. Var sendistöðinni í Broadstreet breytt í móttökustöð fyrir GLOBECOM-kerfið árið 1955 (USAF Strategic Receiver Station). Við þetta kerfi bættist síðan langdrægt talstöðvarsamband við flugvélar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns – loftmynd 1957.

Bandaríkjamenn unnu um þessar mundir að þróun loftskeytakerfa sem byggðu á svonefndri háloftabylgjuspeglun (e. inonospheric forward scatter) og veðrahvolfsbylgjuspeglun (e.
tropospheric scatter) sem annars vegar nýttu stefnuvirkt endurvarp af frjálsum rafeindum í 70–90 km hæð í jónahvolfinu, og hins vegar hita- eða rakaskilum í 2–5 km hæð í
veðrahvolfinu. Þótti ljóst að beiting háloftabylgjuspeglunar á VHF-tíðni hentaði vel til stuðnings við önnur tíðnisvið á norðurslóðum, t.d. milli herstöðva á Grænlandi, Íslandi og Bretlandseyjum, þar sem truflanir á stuttbylgjusendingum voru algengar.

Fjarskiptatæki

Fjarskiptatæki hersins.

Tæknin byggði á sendingu mjórra geisla sem tvístruðust við árekstur við frjálsar rafeindir í jónahvolfinu og spegluðust m.a. í litlum mæli til jarðar í sömu stefnu og hittu fyrir móttökuloftnet. Var slíkri sendistöð valinn staður við rætur Húsafells og Fiskidalsfjalls við Hraunsvík austan Grindavíkur undir heitinu Grindavik Extension, og móttökustöð skammt sunnan flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli sem hlaut nafnið Picnic.
Tækjabúnaður samanstóð af 30 kW sendi og rafstöð ásamt tveimur stórum hornlaga netspeglum (e. corner reflector) sem héngu á níu stálmöstrum í þremur misháum röðum.

Herstöð

Leifar stöðvarinnar ofan Hrauns.

Skammt frá stóðu lítil vélarhús og íbúðarhús stöðvarinnar og hátt mastur með örbylgjuloftneti til samskipta við fjarskiptamiðstöðina á Keflavíkurflugvelli. Mun það hafa verið fyrsta örbylgjusambandið sem komið var á hérlendis. Tæknimenn bjuggu í stöðinni og önnuðust viðhald og stillingu tækjabúnaðarins en samskonar búnaður var í móttökustöðinni á Keflavíkurflugvelli.
Í árslok 1955 var háloftabylgjuspeglunarsambandi einnig komið á við flugbækistöðina BW-8 í Syðra-Straumfirði á Grænlandi og frá stöðinni austan við Grindavík til Bretlands.

Herstöð

Jarðstrengur við herstöðina.

Langbylgju- og stuttbylgjusendarnir í Globecom-fjarskiptastöðinni í Grindavík voru þá nærri fullbúnir til notkunar en langbylgjustöðin sendi út með 50 þúsund watta styrk.
Fjarskiptakerfi flughersins var tekið til endurskoðunar á árunum 1956–1957. Tæknibreytingar með tilkomu stefnuvirkrar háloftabylgjuspeglunar gerðu það að verkum að minni þörf var á langbylgjusendingum, t.d. fyrir skeytasendingar loftvarnakerfisins. Var móttökustöðin Broadstreet á Vogastapa lögð niður og móttökustöðinni í Camp Garrity á Keflavíkurflugvelli breytt með litlum tilkostnaði til þess að geta einnig þjónað hlutverki hennar. Sendistöð fyrir fjarskipti við flugvélar og milli landa var áfram í stöðvunum við Grindavík og Hraunsvík og móttökustöðvunum Garrity og Picnic á flugvallarsvæðinu.

Stafnes

Ratsjárskermar utan við Stafnes. Tóftir bæjarins á Básendum t.h.

Þegar ráðist var í uppsetningu öflugs trópó-kerfis um Grænland til Íslands, sem fjármagnað var af Bandaríkjunum, og þaðan um Færeyjar til Bretlandseyja. Stóð NATO straum af kostnaði við þann hluta leiðarinnar og nefndi North Atlantic Radio System (NARS). Risu tvær fjarskiptastöðvar með gríðarstórum íhvolfum loftnetsskermum ásamt stöðvarhúsum skammt neðan við Gálgaklett nærri Básendum á Reykjanesi og í ratsjárstöðinni á Stokksnesi. Skermarnir risu veturinn 1961–1962 og var stöðin á Reykjanesi tekin í notkun í júní 1962.

Herstöð

Undistöður eldsneytistanks við herstöðina.

Rekstur fjarskiptakerfis varnarliðsins var á hendi 1971th Airways and Air Communications Service Squadron (1971 AACS) bandaríska flughersins til ársins 1961. Árið 1961 tók Bandaríkjafloti við rekstrinum undir heitinu U.S. Naval Communication Station, Iceland (NAVCOMMSTA Iceland). Verkefni liðsveita varnarliðsins voru þá nokkuð breytt og aukin áhersla á stuðning við vaxandi starfsemi flotans í stað sprengjuflugvéla flughersins. Þjónustan sem flotinn tók við fól í sér rekstur almennra og sértækra fjarskiptaviðskipta og viðhald tækja á fjölbreyttu sviði vegna flugumferðar.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Háloftabylgjukerfinu var lokað fljótlega eftir að trópó-kerfinu var komið á og starfsemi Grindavik Extension lögð niður. Voru loftnetin tekin niður árið 1966 og landinu skilað tveimur árum síðar.”
Sjá meira um herstöðvar við Grindavík HÉR.

Heimildir:
-Morgunblaðið 28. des. 1995, bls. 43, “Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt”, Skarphéðinn Hinrik Einarsson.
-Útdráttur er úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal.

Herstöð

Leifar herstöðvarinnar ofan Hrauns 2023.

NRTF-varnarstöðin

Naval Radio Transmitter Facility Grindavik” er sendistöð bandaríska sjóhersins í Grindavík, sem N62 deildin er sögð halda utan um. Hún er virk á stuttbylgju og langbylgju undir kallmerkinu TFK á 37,5 kHz.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin.

NRTF Grindavík átti upphaflega við um tvo turna fyrir langbylgjuþjónustuna – vesturturninn sem var 243,8 metrar á hæð og austurturninn 182,9 metrar á hæð. Þeir voru þá hæstu manngerðu turnhlutar á Íslandi. Árið 1983 var austurturninum skipt út fyrir nýjan turn af sömu hæð. Í stað vesturturnsins kom nýtt 304,8 metra (1.000 fet) mastur, sem þá varð hæsta mannvirkið á Íslandi.

Áður en framangreindar endurbætur voru gerðar, um 1976, var stöðinni falið að reka 600 feta (180 m) loftnet sitt á mjög lágri tíðni, nokkurri lægri tíðni sem það hafði nokkru sinni áður verið starfrækt á. Það voru nokkrar áhyggjur af því að keyra styttra loftnet á svo lágri tíðni, en 800 feta (240 m) loftnetinu var þegar falið verkefni með hærri forgang. Þegar 600 feta (180 m) loftnetið og sendistöð þess voru stillt á æskilega tíðni og aflgjafa sendisins var aukið í tilskilið stig, bognaði stærsti spólinn í sendistöðinni og eyðilagðist.

Herstöð

Sendistöðin ofan Grindavíkur.

Takmarkaður fjöldi varaspóla var fáanlegur í veitukerfinu og var einni þeirra komið fyrir að nýju. Vandamálið var að lág tíðni og samsvarandi hátt viðbragð sem þarf til að enduróma loftnetið leiddi til óeðlilega hárrar spennu við úttak sendistöðvarinnar sem olli því að síðasti og stærsti póllinn bognaði innvortis og eyðilagðist. Lausnin á vandamálinu var að hanna og setja upp annan lokaspólu í sendistöðinni með innleiðni og línulegri lögun sem þurftitil að veita nauðsynlega viðbragð án myndunar ljósboga. HQ hófu nauðsynlegar aðgerðir til að útvega slíka spólu. Capt. Ralph L Spaulding, útskrifaður frá Naval Post Graduate School í fjarskiptaverkfræði, hannaði bráðabirgðaspólu með viðeigandi eiginleikum og áhöfnin í Grindavík smíðaði hana. Fullbúna spólan var um 6 fet á lengd og 2 fet í þvermál, með þurrum valhnetuviði sem notað var til að búa um spóluna. Fullbúinni spólu var komið fyrir á viðarstól í spóluhúsinu, tengda við upprunalegu spólukeðjuna og úttakstengi sendistöðvarinnar. Þetta fyrirkomulag virkaði vel.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin 1958.

NRTF Grindavík var 1999 sigurvegari Defence Information Systems Agency (DISA) Outstanding Transmission Facility Award (Category II), og var í öðru sæti í sama flokki árið 1997. Nýja hærra loftnetið og sendistöðin voru hannað af Donald W. Anderson, PE sem stjórnaði auk þess hönnunar- og byggingaráætlunum á meðan hann starfaði hjá Naval Facilities Engineering Command (NAVFAC), Atlantic. Lokahönnun stöðvarinnar fól í sér marga nýja og endurbætta hluti sem kröfðust samþættingar rafrænnar- og byggingarhönnunar, þar á meðal sendistöð með koparhlífðarhönnun og nýrri uppsetningaraðferð. Allur árangur í hönnuninni bætti til muna fyrri hönnun og hafði að hluta til áhrif á áðurnefnd verðlaun.

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1954.

N62 deildinni er skipt í þrjár undirdeildir: N62A, Loftnetsviðhald; N62B, langbylgjubúnaður og ISABPS viðhald; og N62C, stuttbylgjubúnað og viðhald á aukabúnaði.

Í nóvember 2019 var formlega skipaður framkvæmdastjóri til að stýra stöðinni, sem fékk nafngiftina U.S. Naval Computer and Telecommunications Area Masters Station Atlantic Detachment Grindavík, Iceland (NCTAMS LANT DET GRINDAVIK IC).

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1922.

Loftskeytastöðin sunnan Lágafells ofan Grindavíkur var sett á stofn skömmu eftir að Bandaríkjaher kom hingað til lands árið 1941. Aðstaðan hefur síðan gefið af sér arð til Félags Jángerðarstaðabænda, en svæðið verið undir stjórn bandaríska flotans. Óljóst er um fasteignaskattgreiðslur til Grindavíkurbæjar þau ár, sem stöðin hefur starfað.
Eflaust hafa verið skiptar skoðanir um staðsetningu stöðvarinnar á sínum tíma. Nú, u.þ.b. 80 árum síðar, er líklegt að deilur um tilvist hennar verði fyrirferðameiri en áður hefur verið því stöðin er á mikilvægu framtíðaríbúðauppbyggingarsvæði bæjarins. Um tíma stóðu grindvísk verkalðsfélög vörslu um stöðina er hún varð að tímabundnu bitbeini.

Grindavík

Grindavík – herforningjakortið 1903.

Eftir að Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa árið 2008 varð eitt af meginhlutverkum hennar að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.

Helghóll

Helghóll við Skipsstíg innan varnarsvæðisins.

Kögun hf. gerði samning um rekstur fjarskiptastöðvar Bandaríska flotans í Grindavík árið 2006. Fjarskiptastöð bandarískra flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti – allt suður til Azoreyja.

Skipsstígur

Skipsstígur ofan Grindavíkur liggur um athafnasvæði sendistöðvarinnar.

Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989.
Loftskeytasvæðið er afgirt með hárri girðingu og vel fylgst með að óviðkomandi villist ekki inn fyrir hana. Viðvörunarmerki eru á girðingunni þessa efnis. Svæðið er ekki girt af að ástæðulausu því hættulegt er fyrir ókunnuga að fara um það vegna rafmagnsstrauma nálægt fjarskiptamöstrunum.

NRFT-varnarstöðin

NRTF-varnarstöðin ofan Grindavíkur – möstrin tvö.

Strangar umgengisreglur gilda þarna innvortis. FERLIRsfélagi fékk þó aðgang að svæðinu með það að markmiði að hnitsetja Skipsstíginn, sem liggur þvert um svæðið, auk þess að reyna að staðsetja Kirkjuhólinn, þjóðsagnakenndan álfhól innan þess. Sækja þurfti um leyfi með góðum fyrirvara, fá heimild og mæta hjá framangreindum jakkaklæddum hæstráðanda.

Sá varð reyndar bæði áhugasamur um verkefnið sem og félagsskapinn. Sýndi hann FERLIRsfélaganum upphaflegu “blueprint-inn” af stöðinni, sem þar eru varðveitt, auk þess þeim hinum sama var leyft að fara frjálsum um svæðið með ákveðnum fyrirvörum umleikis áhættusvæðin nálægt möstrunum.
Landssvæðið, sem loftskeytastöðin er á, var fyrrum nefnt “Eldvörp” og það ekki af ástæðulausu. Fjölmörg eldvörp voru þarna ofan Járngerðarstaða, en þau voru nánast öll jöfnuð við jörðu með tilkomu athafnarýmis loftskeytastöðvarinnar. Svo virðist um sem um gervigíga hafa verið að ræða.

Hafa ber í huga að fyrrihlutinn að þessum texta er “transleitaður” af engelsku yfir á íslensku. Þar gæti einhverju “skipað að sköpluðu”.
Sjá meira um loftskeytastöðvar við Grindavík HÉR.

Heimildir:
-https://en.wikipedia.org/wiki/Naval_Radio_Transmitter_Facility_Grindavik
-Wikimedia Commons has media related to Grindavík transmission towers. References Donald W. Anderson, PE
-https://www.secnav.navy.mil/doni/Directives/05000%20General%20Management%20Security%20and%20Safety%20Services/05-400%20Organization%20and%20Functional%20Support%20Services/5400.2305.pdf[bare URL PDF]
-http://www.globalsecurity.org/military/facility/grindavik.htm
-https://ferlir.is/skipsstigur-um-loftskeytastodina-ofan-grindavikur/

Skipsstígur

Skipsstígur innan svæðis loftskeytastöðvarinnar.

Skipsstígur

Haft var samband við Varnarmálastofnun og leitað eftir heimild til að fá að skoða svæðið innan afgirtrar loftskeytastöðvarinnar undir Lágafelli ofan (norðan) Grindavíkur með það fyrir augum að leita og skoða Skipsstíg, hluta hinnar fornu þjóðleiðar milli Grindavíkur og Njarðvíkur. Vegna starfseminnar hefur svæðið ekki verið aðgengilegt síðustu áratugina. Bent var á Kögun [nú Advania], sem rekur loftskeytastöðina. Þar var leyfi góðfúslega veitt til könnunarleiðangurs um svæðið.

Títublaðavarða

Loftskeytastöðin var eign og undir stjórn bandaríska flotans, en eftir að Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa árið 2008 varð eitt af meginhlutverkum hennar að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.
Skipsstígur innan girðingarKögun hf. gerði samning um rekstur fjarskiptastöðvar Bandaríska flotans í Grindavík árið 2006. Fjarskiptastöð bandarískra flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti – allt suður til Azoreyja.
Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989.
Loftskeytasvæðið er afgirt með hárri girðingu og vel fylgst með að óviðkomandi villist ekki inn fyrir hana.  Viðvörunarmerki eru á girðingunni þessa efnis. Svæðið er ekki girt af að ástæðulausu því hættulegt er fyrir ókunnuga að fara um það vegna rafmagnsstrauma nálægt fjarskiptamöstrunum. Strangar umgengisreglur gilda því þarna.
Þegar götur voru raktar innan girðingarinnar var byrjað að sunnanverðu, við Títublaðavörðuna. VarðaÞar sést gatan glögglega. Varða er við hana áður en gatan fer inn á raskað svæði (mastur). Gatan sést við strýtulagaðan hraunhól suðvestast í Eldvörpum, en svo heita gígaþyrping á suðausturhorni svæðisins. Vestan hennar liggur svo til bein gata áleiðis upp heiðina, samhliða gömlu hlykkjóttu götunni. Þarna er um að ræða hestvagnagatan, sem sést svo glögglega vestan í Lágafellinu, áfram um Lágar og upp í Blettahraunið, þar sem hætt hefur verið við endurbæturnar á gamla Skipsstígnum.

Skipsstígur

Varða er við götuna suðvestan húsa loftskeytastöðvarinnar. Þá hverfur gatan vegna fyrrum framkvæmda, en kemur síðan í ljós að nýju skammt norðar. Þar er varða á grónum strýtumynduðum hraunhól, Helghól. Sú trú var manna fyrrum að þar væri álfakirkja. Helghólslág eða Helghólslautir, grasi grónar, eru umhverfis hólinn. Frá honum liggur gatan upp með aflöngum berangurslegum hraunhól að austanverðu og beygir síðan til vinstri upp gróninga áleiðis að vörðu innst á honum (handan girðingarinnar). Hestvagnagatan liggur að sömu vörðu, en vestan í aflanga hraunhólnum (í beina línu). Þarna eru og gatnamót því önnur gata liggur frá vörðunni til suðausturs. Gatan sést skammt austar, hverfur síðan vegna framkvæmda (mastur), en kemur síðan aftur í ljós þar sem hún her yfir óraskað hæðardrag. Þar er varða. Frá henni liðast gatan niður hæðardragið að handan, hverfur í rask, en kemur síðan aftur í ljós á órsökuðu svæði (móa) austast á svæðinu. Þar eru tvö vörðubrot með stuttu millibili. Þarna fer gatan síðan undir girðinguna og er allgreinileg þar sem hún liðast áleiðis upp á hraunhaft á leið hennar í Kúadal (við innkomuna á þjóðveginum til Grindavíkur).
Sjá má legu gatnanna innan loftskeytastöðvarinnar á loftmyndinni hér að neðan.
Starfsmönnum loftskeytastöðvarinnar er þökkuð jákvæð viðbrögð og góða aðstoð við verkefnið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Götur innan loftskeytastöðvarinnar ofan Grindavík

Loftskeytastöðin

Í Morgunblaðinu, hátíðarblaði 26.06.1930, er grein eftir Gísla J. Ólafsson, landssímastjóra, um upphaf “Landsíma Íslands“:

Gísli J. Ólafsson“Árið 1906 gerðust þau stórtíðindi, sem áreiðanlega hafa valdið aldahvörfum í sögu Íslendinga. Það ár komst Ísland í ritsímasamband við önnur lönd, þá komu hingað tveir fyrstu íslensku togararnir (Jón forseti og Mars) og þá var stofnuð hin fyrsta al-innlenda heildverslun (Ó. Johnson & Kaaber). Það er einkennilegt, að þessir þrír viðburðir fóru saman, því að fátt er vissara en aldrei hefði botvörpungaútgerðin og þó ennþá síður hin innlenda heildverslun getað þrifist svo, sem raun hefir á orðið, ef ritsímans hefði ekki notið við. Þetta sama ár kom líka fyrsta fullkomna talsímalínan innanlands. Að vísu voru hjer fyrir 2 eða 3 talsímaspottar, sem voru eign einstakra manna, t. d. símalínan milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, sem lögð var 1890, aðallega fyrir forgöngu Jóns Þórarinssonar, sem þá var skólastjóri í Flensborg.
Það var að sjálfsögðu miklum vandkvæðum bundið að finna heppilega leið fyrir símann frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. —
LandsíminnÞurfti margs að gæta og þó einkum þess, að kostnaðurinn yrði sem allra minstur. Sumarið 1905 ferðuðust þeir hjer um landið F. Hansen mælingamaður og O. Forberg, til þess að athuga línustæðið. Ráku þeir sig fljótt á það, að ekki var landakortunum treystandi. Vegalengdum yfir fjallvegi, hlíðar og dali gat skakkað um marga kílómetra á tiltölulega stuttu svæði. En þeir komu sjer saman um það hvaða leið skyldi valin og þá um haustið og veturinn eftir voru símastaurar fluttir á línuna og sumarið eftir var síminn lagður. Gerðu það útlendingar, aðallega Norðmenn, undir yfirumsjá O. Forbergs. Þótti þetta hið mesta þrekvirki, en síðan hafa þó Íslendingar sjálfir lagt síma yfir miklu verri leiðir. —
LandsíminnFramsókninni á fyrstu símaleiðinni var að vísu í mörgu ábótavant og kom það fljótt í ljós, en tvennt var það þó, sem menn vöruðu sig ekki á í upphafi.
Annað var það, að staurar standa illa; þótt þeir sjeu grafnir 1.5 m. í jörð niður, lyftir frostið þeim upp og þegar klaka leysir úr jörð á vorin, taka staurarnir að hallast. Hitt var ísingin. Hefir hún verið versti vágestur símans öll þessi ár og valdið mestu tjóni á símalínunum. — Stundum hefir ísingin orðið svo n ikil, að vírarnir hafa orðið álíka gildir og sjálfir símastaurarnir og hefir þá þungi þeirra (venjulega samfara veðurhæð) brotið staurana hrönnum saman, eða þá að vírarnir sjálfir hafa kubbast sundur. Hefir ísingin valdið flestum og mestum símabilunum á landi, og hleypt þannig gríðarlegum viðhaldskostnaði.

Landsíminn

Stækkun kerfisins.

Á hverju ári hefir talsímanetið verið stækkað stórum eins og sjá má á eftirfarandi línuriti. En aldrei hafa þó á einu ári verið eins miklar framkvæmdir um það, síðan 1906, eins og í fyrra. Þá var t.d. unnið það þrekvirki, að tengja saman símalínurnar sunnanlands — lögð ný lína milli Víkur í Mýrdal og Hornafjarðar. Er það 260 kílómetra vegur og afar erfiður, yfir sanda og jökulár þar sem árlega eru jökulhlaup, meiri og minni. Á 10—15 km. kafla varð að hafa símalínuna fast uppi undir Skeiðarárjökli, til þess að henni væri minni hætta búin af jökulhlaupum, og mun síminn hvergi hjer á landi hafa verið lagður yfir jafnvondan veg. Miklum erfiðleikum var það einnig bundið að kema honum yfir jökulvötnin, t.d. Skeiðará. En síminn komst þó alla leið á þessu sumri og þar með var komið talsímasamband hringinn í kring um landið. Er símanetið nú orðið svo víðfeðma, að talsími er í hverju þorpi, og svo að segja í hvérri einustu sókn á landinu. Þess verður þó sjálfsagt alllangt að bíða, að sími verði kominn heim á hvern bæ, en hver veit nema það verði eftir svo sem 25 ár, eða þegar Landsíminn er fimmtugur.
Í öllum kaupstöðum landsins og flestum þorpum eru bæjarsímar og langstærstur er auðvitað bæjarsíminn í Reykjavík. En hann mundi vera miklu miklu stærri en hann er, ef alt að hefði verið hægt að fullnægja þörfinni og eftirspurn að talsíma. Í miðstöðinni eru ekki nema 2400 númer, og eru þau öll fyrir löngu leigð. En þrátt fyrir það, að menn vita, að fleiri geta ekki að komist, liggja þó fyrir hjá símanum 400 talsímapantanir, sem menn hafa sent í þeirri von, að einhver númer kunni að losna. Þegar litið er á símafjölda hjer á landi, í samanburði við fólksfjölda, og það aftur borið saman við samskonar skýrslur frá öðrum löndum, verður að taka tillit til þessa hörguls á símum, því að ef hann hefði ekki verið, mundum vjer áreiðanlega hafa verið framar í röðinni. Þrátt fyrir það skipum vjer á þessu sviði allveglegan sess meðal menningarþjóða.

Landsíminn
Að ári komanda verður bætt úr símaskortinum, því að þá verður komin upp hin nýja landsímabygging, sem nú er verið að reisa við Austurvöll (Thorvaldsenstræti). Þar verður sett upp hin nýja sjálfvirka miðstöð, sem keypt hefir verið af A/B L. M. Ericsson í Stokkhólmi. Er hún gerð fyrir 4000 símanotendur, en þó má fjölga númerum smám saman, eftir því sem þörf krefur, og um meira en helming. —
LandsíminnÖnnur sjálfvirk miðstöð verður einnig sett í Hafnarfirði og nægir hún fyrir 900 símanotendur ef vill. Þegar þessar miðstöðvar eru komnar mun símanotendum brátt fjölga stórkostlega. Nú sem stendur eru 344 talsímastöðvar í landinu, og 4500 einkasímar, eða 4.3 símar á hverja 100 íbúa.
Af endurbótum sem gerðar voru á símanum síðastliðið ár, má nefna, að ritsímastöðin í Reykjavík, hefir fengið sjer Creed-móttökuvjelar. Munurinn á þeim og móttökuvjelum þeim, sem til þessa hafa verið notaðar, er sá, að í staðinn fyrir að skrifa á pappírsband hvern staf með punktum og strykum (Morse-stafróf), skrifa þessar nýju vjelar venjulega bókstafi og skipa þeim í orð. Þarf því ekki annað en klippa pappírslengjuna sundur og líma bútana á skeytaeyðublöð. Áður þurfti að afskrifa hvert skeyti til þess að viðtakendur, sem ekki kunna Morse-stafróf, gæti lesið það.
Önnur endurbót er það, að fjölsímatæki hafa verið fengin og með þeirra hjálp er hægt að hafa tvö sambönd samtímis á einni símalínu, í stað þess að ekki var hægt að hafa nema eitt samband áður.
RauðaráFyrstu 3 árin var dálítill halli á rekstri hans, en síðan hefir altaf verið beinn ágóði af honum, minstur 5% árið 1909, en mestur 14.6% árið 1924. Seinustu 3 árin hefir hinn beini ágóði orðið um 10%. En þessar tölur eru enginn mælikvarði á það stórkostlega gagn sem síminn gerir öllum atvinnugreinum landsmanna óbeinlínis, því að það verður aldrei tölum talið.
Hitt er víst, að síminn hefir orðið lyftistöng allra framfara hér á landi seinasta aldarfjórðunginn.
Á eftirfarandi línuriti má sjá samanburð á tekjum og gjöldum Landsímans frá upphafi. Sýnir það betur en mörg orð vöxt og viðgang símans.
Landsíminn er nú orðinn stærsta ríkisfyrirtæki á Íslandi. Þar eru nú 180 fastir starfsmenn, auk 327 stöðvarstjóra á smástöðvum út um land.

Loftskeytastöðvar
LandsíminnÞegar það hafði verið afráðið, að koma Íslandi í skeytasamband við umheiminn, risu þegar deilur um það hvort heldur skyldi velja síma eða loftskeyti. Og sumarið 1905 kom hingað verkfræðingur frá Marconifjelaginu í London, W. Densham að nafni, og reisti bráðabirgða loftskeytastöð innan við Rauðará, þar sem nú er Hjeðinshöfði. Og 26. júní bárust fyrstu loftskeytin hingað frá Englandi. Ljetu blöðin „Ísafold” og „Fjallkonan” prenta þau á fregnmiða og dreifa út um allan bæ. „Og ös var liðlangan daginn í afgreiðslustofum blaðanna af fólki, utan bæjar og innan, sem þurfti að ná í fregnmiðana. Allir fundu að hjer hafði gerst hinn sögulegasti atburður, sem dæmi eru til á þessu landi margar aldir.
Hólmanum alt í einu kipt fast að hlið heimsins höfuðbóli, hinni frægustu bygð og blómlegustu á öllum hnettinum. Fagnandi kvöddust þeir, sem hittust á strætum og gatnamótum, ókunnugir sem kunnugir” (Ísafold, 1. júlí 1905).
Stjórnarblöðin gerðu fremur lítið úr skeytunum og loftsambandinu og komust hinar fáránlegustu sögur á loft um það. Til dæmis var sagt, að einu loftskeytinu, sem fara átti til stöðvarinnar hjá Rauðará, hefði slegið niður upp á Mýrum og legið við að það dræpi þar mann.
LandsíminnDeilurnar um ritsíma og loftskeytastöðvar urðu afar svæsnar, en þeim lauk svo að Hannes Hafstein hafði sitt fram og Stóra norræna tók að sjer að leggja sæsíma til Íslands. Loftskeytastöðin hjá Rauðará starfaði þó fram á haust 1906, en þá var hún tekin niður. Síðan var ekki minst á loftskeyti fyr en á Alþingi 1911, að rætt var um að koma á loftskeytasambandi milli Vestmannaeyja og lands, en það fjell um sjálft sig. Seinna fór franska stjórnin eða franskt fjelag fram á það að fá að reisa hjer loftskeytastöð vegna þess,að margir franskir togarar, sem veiddu hjer við land, væri útbúnir loftskeytatækjum. — Sú málaleitun strandaði. Árið 1915 lætur Eimskipafjelagið setja loft skeytatæki í ,Goðafoss’ og ,Gullfoss’ og það mun mikið hafa ýtt undir að loftskeytastöðin á Melunum var reist. Hún tók til starfa hinn 17. júní 1918. Er það 5 kw. Marconistöð. Var hún fyrst aðallega ætluð til þess, að taka við skeytum frá skipum, og koma skeytum til skipa, en í hvert skifti sem sæsíminn hefir bilað, hefir hún hlaupið undir bagga og haldið uppi sambandi við umheiminn. Tveimur árum eftir að loftskeytastöðin í Reykjavík tók til starfa, var byrjað að reisa loftskeytastöðvar í Ísafirði og á Hesteyri; stöðin í Ísafirði var svo síðar flutt að Kirkjubæjarklaustri, en á síðastliðnu sumri, þegar Skaftafellslínan var bygð, var loftskeytastöðin á Klaustri lögð niður, og nú eru loftskeytastöðvarnar hjer á landi orðnar sjö, að þessum tveimur meðtöldum. —

Landsíminn

Loftskeytahúsið á Melunm.

Hinar stöðvarnar eru í Vestmannaeyjum, Flatey á Breiðafirði, Flatey á Skjálfanda, Grímsey nyrðra og Húsavík. Fyrstu stöðvarnar voru gneistastöðvar, en þeim hefir öllum verið breytt í lampastöðvar, og mun Ísland vera fyrsta ríki í heimi að segja algjörlega skilið við gneista stöðvar.
Loftskeytastöðvarnar í Vestmannaeyjum og Reykjavík, eru aðallega ætlaðar til þess að halda uppi sambandi við skip í hafi, og hinar loftskeytastöðvarnar, sem vinna sín á milli. Árið sem leið afgreiddi loftskeytastöðin í Reykjavík 30 þúsund skeyti (um V2 miljón orða) og fer starf hennar stöðugt vaxandi, vegna þess að altaf fjölgar þeim skip um, sem loftskeytatæki hafa. Af 70 íslenskum skipum hafa nú 50 móttökutæki og senditæki, hin hafa móttökutæki, og eins margir vjelbátar.
Tilraunir voru gerðar þegar haustið 1920, að talast við þráðlaust milli loftskeytastöðvanna, og gengu þær ágætlega, og hafa gengið vel síðan.

Útvarp

Vatnsendahæð

Hús langbylgjunnar á Vatnsendahæð.

Nú er verið að reisa hina margumtöluðu útvarpsstöð á Vatnsendahlíð í Mosfellssveit. Verður hún hálfu kraftmeiri heldur en útvarpsstöð Dana í Kalundborg, eða 15 kw. Hún á að senda á 1200 metra bylgjulengd. Það er Marconifjelagið í London, sama fjelagið, sem reisti fyrstu loftskeytastöðina hjer á landi, er hefir tekið að sjer að koma upp vjelum stöðvarinnar.
Var í fyrstu ætlast til þess, að stöðin gæti tekið til starfa fyrir Alþingishátíðina, en vegna þess hvað veðrátta var óhagstæð í vetur sem leið, verður hún því miður ekki tilbúin fyr en seinna á sumrinu.”

Í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands fjallar Guðmundur J. Hlíðdal einnig um “Landssíma Íslands” árið 1930:
Landsíminn
“Hér á landi voru nálega engir símar fyr en Ísland komst í símasamband við umheiminn, en það var árið 1906. Áður var til sími milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar (lagður 1889), og árið 1905 hóf innanbæjarsíminn í Reykjavík starfsemi sina. Var það einkafyrirtæki fram til ársloka 1911, að Landssíminn tók við honum.
Saga Landssímans hefst með sæsímalagningunni 1905 og lagningu landlínunnar milli Seyðisfjarðar og Reykjavíkur, það sama ár. Sú lína var um 615 km. Er þeim, sem þá lifðu, enn í fersku minni sú harða og mikla barátta, sem háð var á Alþingi árinu áður, til þess að fá málinu hrundið áfram. Hefir Landssíminn síðan stöðugt fært út kvíarnar, þótt ekki tækist að girða hólmann fyr cn 23 árum seinna, eða seint á árinu 1929. Er nú svo komið, að síminn er kominn i nálega alla sveitir landsins, jafnvel sumar þær allra afskektustu. Öll kauptún hafa fengið síma og allmargir sveitabæir hafa á síðari árum fengið einkasíma. Í árslok 1929 var lengd landlínanna (stauraraðir) um 3600 km., lengd víra 11000 km. og tala landssímastöðvanna um 344. Alls hefir verið varið til landssímalagninga um 5% milj. króna.

Rjúpnahæð

Loftskeytastöðin á Rjúpnahæð rifin. Svo virðist sem takmarkaður áhugi sé að varðveita söguna alla, en þakka ber þó fyrir það litla sem gert er…

Símalagningar hér á landi eru fremur auðveldar á láglendi til sveita, en örðugar víða á fjallvegum. Hefir á allmörgum stöðum reynst ómögulegt að fá ofanjarðarlínur til að standast, og því orðið að leggja þar jarðsíma. Lengd jarðsímanna er nú alls um 26 km., og er lengsti jarðsíminn (um 7,5 km.) á fjallgarðinum milli Vopnafjarðar og Hálsfjalla.
Altítt er að símalínurnar hverfa alveg í snjó sumstaðar á fjallvegum á vetrum og koma stundum ekki upp úr snjónum fyr en komið er fram á vor eða sumar. Oft granda snjóflóð símanum og sópa þá stundum öllu á burt með sér, bæði staurum og vírum. En versti vágestur símans er ísingin. Er hún miklu tíðari og meiri hér á landi en nokkursstaðar annarsstaðar sem mér er kunnugt um, og símar eru starfræktir. Hefir hún stundum valdið mjög miklum truflunum og tjóni. Mest hefir hún verið mæld á Tunguheiði veturinn 1927—28; þar varð ummál víranna 103 cm. eða 33 cm. í þvermál.
Fjárhagslega hefir Landssíminn yfirhöfuð borið sig vel, betur en flestar aðrar ríkisstofnanir. Hefir tekjuafgangurinn oft nægt fyrir því, sem lagt hefir verið í nýlagningar og stundum langt fram yfir það. En betur má ef duga skal. Mikið er enn ólagt af nauðsynlegum símalínum, og takmarkið verður að vera það, að koma símanum heim á hvern bæ í landinu, enda virðist það sem betur fer alls ekki ógerningur.” – Guðm. J. Hlíðdal.

Heimildir:
-Morgunblaðið, hátíðarblað 26.06.1930, Landsími Íslands eftir Gísla J. Ólafsson, landssímastjóra, bls. 17, 18 og 23.
-Tímarit Verkfræðingafélags Íslands, 1.-3. tbl. 01.06.1930, Landssími Íslands, Guðm. J. Hlíðdal, bls. 21-24.
-https://www.visir.is/g/20151623024d

Landsíminn

Árið 1015 undirrituðu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, samning um að Þjóðminjasafn Íslands afhendi Háskóla Íslands gömlu Loftskeytastöðina við Brynjólfsgötu 5 til afnota.
Með gjafasamningi og afsali gaf Landssími Íslands ríkissjóði Loftskeytastöðina. Húsið var síðan afhent Þjóðminjasafni Íslands 1. mars 2005 til umráða og umsýslu og skyldi safnið frá þeim tíma sjá um rekstur og ráðstöfun þess samkvæmt nánara samkomulagi við Háskóla Íslands. 
Að tillögu Þjóðminjasafns Íslands féllst forsætisráðherra á að Háskóli Íslands tæki við ábyrgð Loftskeytastöðvarinnar til afnota í þágu starfsemi skólans. Við undirritun samningsins tekur Háskóli Íslands við ábyrgð hússins, viðhaldi og viðgerðum auk þess að velja húsinu viðeigandi hlutverk sem hæfir sögu þess og byggingarsögulegu gildi, s.s. á sviði skipulags-, umhverfis- og menningarfræða og tæknigreina.
Loftskeytastöðin var byggð árið 1915 og er með árinu 2015 friðuð á grundvelli laga um menningarminjar. Samkvæmt samningnum mun Háskóli Íslands sjá til þess að saga hússins á sviði fjarskipta verði þar sýnileg.

 

Útvarp

Á RÚV þann 28. október 2021 ræddi Arnar Björnsson við Sigurð harðarsson, rafeindavirkja, um nýuppsett útvarps-  eða viðtækjasafn á Skógum. Saga útvarps á Íslandi er að verða eitt hundrað ára, en lítill áhugi annarra en örfárra áhugamanna hefur verið að viðhalda þeirri merku sögu til framtíðar:

Sigurður Harðarson
“Sigurður Harðarson rafeindavirki er áhugamaður um útvarp. Tólf ára gamall smíðaði hann sitt fyrsta útvarpstæki. Um síðustu áramót fór hann ásamt fleirum að safna gömlum útvarpstækjum. Draumur hans er að koma á laggirnar útvarpstækjasafni, sams konar safni og talstöðvarsafnið sem hann byggði upp og er á Skógum undir Eyjafjöllum.

Útvarp

Eitt fyrsta viðtækið.

„Eftir því sem ég best veit var fyrsta útvarpstækið flutt inn til landsins 1924 en ári áður smíðaði Þorsteinn Gíslason á Seyðisfirði fyrsta lampatækið sem vitað er. Hann var búinn að smíða sér viðtæki áður til að hlusta á erlendar stöðvar sem þá voru að senda út á morsi á neistasendum. 1923 heyrist fyrst í útvarpi talað mál eftir því sem ég best veit,“ segir Sigurður þegar við Karl Sigtryggsson kvikmyndatökumaður setjumst niður með honum í talstöðvasafninu í Skógum. „Eftir því sem ég kemst næst voru 475 tæki til í landinu þegar Ríkisútvarpið hóf starfsemi sína 1930.“

Útvarp
„Þau einföldustu kostuðu 175 krónur og upp í 550 krónur. Þetta voru hátalaralaus tæki þannig að þú þurftir að kaupa hátalara fyrir 90 krónur og rafhlöður fyrir 30 krónur. Þannig að ódýrasta tækið kostaði rúmlega 300 krónur. Þá hafði verkamaður um eina krónu á tímann þannig að hann var 3 mánuði að vinna sér fyrir útvarpi.“ Þannig að það hefur aðeins verið á færi ríka fólksins að kaupa sér útvarpstæki?. „Já bóndi þurfti að selja 7-800 kíló af gæða nautakjöti til þess að eiga fyrir útvarpi.“

Útvarp

Vestri og Sindri.

„Fyrsta gerðin sem var smíðuð var tveggja lampa einfalt tæki sem náði sendingum Ríkisútvarpsins. Sendingarnar komu frá Vatnsenda og náðust í Reykjavík og nágrenni en ekki úti á landi. Í framhaldi var tækið betrumbætt, gert næmara og einum lampa bætt við. Það tæki fékk nafnið „Vestri“ og eldri gerðin kölluð „Suðri“. Sigurður segir að 8 gerðir útvarpstækja hafi verið smíðaðar hjá Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins sem sett var á laggirnar 1933. „Þar voru framleidd einföld og ódýr útvarpstæki.”

Grunnurinn er alltaf sá sami í raun og veru? „Alltaf sá sami, það er það sem við höfum séð með því að opna þessi tæki og rífa þau í sundur og gera við þau. Tækin eru öll í lagi og virka eins og þau eiga að gera.”

Útvarp

Austri.

Draumur þinn er að búa til safn hér í Skógum? „Já til dæmis. Það er eiginlega ekkert húsnæði á landinu sem hýst safnið því þetta er svo mikið magn. Við erum búnir að vera að vinna í því ég og félagar mínir í upp undir ár að flokka þetta eftir ártölum og sögu tækjanna. Sum eru ómerkileg og önnur merkileg. Það hefur farið í þetta mikill tími og næsta skref er að finna einhvern stað undir safnið, við þurfum 3-400 fermetra húsnæði.”

Hefði það ekki verið agalegt að vita til þess ef þessu hefði ekki verið sinnt? „Jú það var nú ástæðan fyrir því að við fórum í þetta ég og félagar mínir. Þetta eru verðmæti sem eru ómetanleg. Það eru víða til í heiminum svona útvarpssöfn en ég held að án þess að geti alveg fullyrt það í þessu tilfelli núna sennilega nokkurn veginn þróunarsögu Íslendinga í útvarpstækjum. Alveg frá fyrstu gerðum sem voru þá kristaltæki notuð hérna og upp í þessar lúxusbublur eins og þetta var víða á heimilum,” segir eldhuginn Sigurður Harðarson.”

Heimild:
-Arnar Björnsson; https://www.ruv.is/frett/2021/10/28/verkamadur-thrja-manudi-ad-vinna-ser-inn-fyrir-utvarpi

Útvarp

Suðri.

Vatnsendahæð

Sendistöðin á Vatnsendahæð” hefur verið aflögð og rekstri Útvarpsins hætt. Stöðin var upphaflega byggð árið 1929 og tók til starfa 20. desember 1930.

Guðjón Samúelsson

Guðjón Samúelsson.

Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsið, sem nú er áætlað að rífa til að rýma til fyrir nýrri byggð á hæðinni.
FERLIRsfélagi tók vettvangshús á Sigurði Harðasyni, rafeindavirkja. Hann sýndi þann búnað, sem þar er enn til staðar og lýsti því sem fyrir augu bar, enda þrælkunnugur öllum tækjabúnaði og staðháttum sem og rekstri hússins. Húsið sjálft er margbrotið. Þar var íbúð stöðvarstjórans og kjallari þar sem m.a. annað starfsfólk bjó í kojum í neyðartilvikum. Gert var ráð fyrir öllum mögulegum skakkaföllum; varatækjalampar t.d. tilbúnir upphitaðir til notkunar í sérstökum gerðum ef út af myndi bregða svo sem minnsta röskun yrði á útsendingum o.s.frv.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið á Vatnsendahæð – teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Hér á eftir verður fjallað svolítið um þetta merkilega hús og margþætta starfsemina þar í gegnum tíðina. Ljósmyndarnar voru margar hverjar teknar í framangreindri húsvitjun.

Í Morgunblaðinu 15. sept. 2020 segir í fyrirsögn; Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins:

„Húsið verður rifið, það er ekkert flóknara en það. Húsið er enda ónýtt, það lekur og þetta er asbestbygging,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, um fornfrægt hús sem kennt er við Ríkisútvarpið og stendur á Vatnsendahæð.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Neyðarlínan tók nýverið við mannvirkjum á Vatnsendahæð eftir að sendibúnaður RÚV þar var fluttur á Úlfarsfell. Húsið er nú í eigu ríkisins en óvissa hefur skapast um framtíð þess eftir að hlutverki þess lauk. Þórhallur segir aðspurður í samtali við Morgunblaðið að GSM-sendir verði áfram á svæðinu en stefnt sé að því að stóru fjarskiptamöstrin verði tekin niður á næsta ári. Ekki séu áform um nýtingu hússins. Kópavogsbær áformar íbúabyggð á svæðinu á næstu árum.

Vatnsendahæð

Langbylgjustöðin á Vatnsendahæð – inngangur.

Útvarpsstöð Íslands var reist á árunum 1929-1930 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins og hefur alla tíð hýst tæknibúnað útvarpsins, að því er fram kemur í fundargerð húsafriðunarnefndar um stöðu mála þar sem áhyggjum af stöðu mála er lýst.

„Húsið tengist stofnun og sögu Ríkisútvarpsins auk þess að vera áberandi kennileiti á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar fyrirspurnar til Neyðarlínunnar um framtíðarnot hússins fóru fulltrúar Minjastofnunar í vettvangsskoðun þann 11. ágúst sl. Unnið er að því að fjarlægja úr húsinu tæki og muni sem eru í eigu RÚV og hafa verið geymdir þar undanfarin ár. Er sú vinna gerð í samráði við Þjóðminjasafnið. Viðræður eru hafnar milli ríkisins og Kópavogsbæjar um framtíðarnýtingu Vatnsendahæðar undir íbúðarbyggð. Húsafriðunarnefnd tekur undir sjónarmið Minjastofnunar um sögulegt gildi útvarpshússins á Vatnsendahæð og mikilvægi þess að varðveita það og ætla því verðugan stað í nýju skipulagi,“ segir í fundargerð húsafriðunarnefndar.

Í Verslunartíðindum 1935 er fjallað um “Talsamband við útlönd“:

Vatnsendahæð“Þann 1. ágúst s. 1. var opnað talsímasamband það við útlönd, sem hefur verið í undirbúningi all-lengi undanfarið. Hófst sú athöfn á því, að fyrst var opnað sambandið við Danmörku og síðan við England, en samband við önnur lönd verður fyrst um sinn aðeins hægt að fá gegnum þessar dönsku og ensku stöðvar.
Talsímaopnunin fór fram með talsvert hátíðlegum blæ og var allmörgum gæstum boðið að vera viðstöddum við þetta tækifæri.
Þessi nýja talsímastöð, sem vandað hefur verið til eftir föngum, er tvískift. Er sendistöðin á Vatnsendahæðinni, en móttökustöðin í Gufunesi, en þaðan liggja jarðsímar til landsímastöðvarinnar hjer í bænum.
Eftir því, sem ráða mátti af þeim opinberu samtölum, er áttu sjer stað, er stöðin var opnuð, er sambandið í besta lagi og voru samtölin svo skýr og greinileg, sem best varð á kosið.”

Í Útvarpstíðindum árið 1938 fjallar Gunnlaugur Briem, verkfræðingur um “Stækkun útvarpsstöðvarinnar“:

Vatnsendahæð“Útvarpsstöðin á Vatnsendahæð tók til starfa 21. des. 1930. Afl hennar var þá 16 kílówött í loftneti og öldulengdin 1200 metrar. Alþjóðaráðstefna í Prag 1929 hafði úthlutað þeirri öldulengd til Íslands. Útvarpið heyrðist þá um allt landið.
Í fjárlögum 1935 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til þess að láta auka og endurbæta senditæki útvarpsins svo, að þau fullnægðu þörfum landsmanna. Þessi heimild var svo endurtekin í fjárlögum, síðari ára.
Fyrri hluta árs 1937 ákvað ríkisstjórnin að leysa málið þannig, að afl útvarpsstöðvarinnar skyldi aukið upp í 100 kv.”

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – viðtæki.

Í fyrstu voru útvarpsviðtæki mjög dýr hér á landi og ekki á allra færi að eignast slík tæki. Venjulegt viðtæki kostaði ca. kr. 150, en þá voru daglaun verkamanns u.þ.b. 1 króna. Brugðið var á það ráð að framleiða einfaldari tæki hérlendis undir ýmsum nöfnum eftir styrkleika, s.s. Suðri, Austri o.fl.

Í Fálkanum 1938 segir af “Vígslu útvarpsstöðvarinnar“:

Vatnsendahæð
“Fyrir alla útvarpsunnendur er það mikið gleðiefni að íslenska útvarpsstöðin hefir verið stækkuð úr 16 kilówöttum í 100 kw. Með þessari stækkun er hún komin í tölu sterkustu útvarpsstöðva á Norðuröndum. Stærstar eru Motala í Svíþjóð og Lahti í Finnlandi en svo kemur útvarpsstöðin íslenska sem þriðja i röðinni ásamt tveim stöðvum í Suður-Svíþjóð, sem eru að verða fullgerðar. — Sterkasta útvarpsstöð í heimi er í Moskva (500 kw.)
Vígsla hinnar nýju stöðvar fór fram með allmikilli viðhöfn síðastliðinn mánudag að viðstöddum krónprinshjónunum, ráðherrum, sendiherrum erlendra ríkja og fleiri virðingamönnum. Sjáf vígsluathöfnin fór fram í hinum stóra útvarpssal og voru þar um eitt hundrað gestir. — Útvarpsstjóri og kona hans tóku á móti krónprinshjónunum og afhenti kona útvarpsstjóra Ingrid krónprinsessu blómvönd.
Þegar klukkuna vantaði tvær mínútur í tvö stóð krónprinsessan upp úr sæti sínu í salnum og veitti raforkunni á hinar nýju vjelar með því að þrýsta á hnapp einn. Gestirnir sem staddir voru í útvarpssalnum heyrðu stöðina fara í gang, því að gjallarhorn í salnum höfðu verið sett i samband við hljóðnema í sjálfri sendistöðinni á Vatnsendahæð. Nú kviknaði á rauðu ljósi, en það var merki þess að stöðin var í fullkomnu lagi.
VatnsendahæðFriðrik krónprins gekk nú að hljóðnemanum er var komið fyrir i stúku út frá útvarpssalnum og lýsti yfir því að hin nýja sendistöð væri opnuð. Hann notaði tækifærið að þakka Íslendingum hinar ágætu viðtökur, sem krónprinshjónin hefðu fengið á ferð sinni um landið.
Talaði krónprinsinn á íslensku og þótti honum vel takast, Er krónprinsinn hafði lokið máli sínu hjeldu þeir stuttar ræður Hermann Jónasson forsætisráðherra og Jónas Þorbergsson útvarpsstjóri. En að lokum söng útvarpskórinn undir stjórn Páls Ísólfssonar þjóðsöng Íslendinga. Þar með var dagskrá lokið. Á eftir fóru fram veitingar í útvarpssal, en því næst var ekið með gestina upp að útvarpsstöð á Vatnsendahæð.
Sjerstök útsending á stuttbylgjum fyrir danska hlustendur átti sjer stað af allri athöfninni. Var henni endurvarpað frá danskri útvarpsstöð. Var athöfnin tekin upp á plötur og endurtekin í danska útvarpinu um kvöldið. —
Hin nýja stöð kemur til með að hafa geysimikla þýðingu fyrir allar útsendingar til annara landa, þar eð hún er svo sterk að minni vandkvæði verða framvegis á því að heyra Ísland í nálægum löndum. Auk þess veitir hún íslenskum hlustendum er fjærst búa tryggingu fyrir því að þeir þurfa ekki að fara á mis við dagskrá sakir þess hve útvarpsstöðin sje veik.
Og þegar endurvarpsstöðin, sem nú er verið að byggja á Eiðum á Austurlandi er komin upp, þá ætti Austfirðingum að vera borgið, en þeir hafa ekki notið útvarpsins sem skyldi enn sem komið er.
Sendistöðin nýja mun hafa kostað um 700 þúsund krónur og endurvarpsstöðin á Eiðum 100—200 þúsund krónur væntanlega, svo að ekki verður annað sagt en hin litla íslenska þjóð fórni miklu fje til endurbóta á útvarpsstöð sinni. Mr. Thomas verkfræðingur frá Marconi-fjelaginu sá um uppsetningu stöðvarinnar og hófst verkið um miðjan síðastl. vetur.”

Í Útvarpstíðindum 1939 fjallar Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, “Um veðurfregnir“:

Vatnsendahæð“Útvarpið flytur veðurfregnir þrisvar á hverjum degi, sem virkur er, en tvisvar á helgum dögum. Fluttningurinn tekur 20—25 mín. á, dag, en til samans yfir árið verða þetta hart nær 150 útvarpsklst.
Af þessu er auðsætt, að veðurfregnir eru talsverður liður í dagskrá útvarpsins, enda þótt útvarpið beri enga ábyrgð á þeim efnislega.
Við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til þess að senda héðan veðurfregnir frá 5 stöðum 3—4 sinnum á dag. Þær eru sendar frá stuttbylgjustöðinni á Vatnsendahæð og síðan endursendar frá aflmiklum loftskeytastöðvum í Englandi, Þýzkalandi og víðar.”

Í Sjómannadagsblaðinu 1941 fjallar Friðk Halldórsson um “Drauminn sem rættist“:

“Útvarp&starfsemi hófst hér á landi árið 1926 er h.f. Útvarp undir forustu Ottó B. Arnars loftskeytafræðings, reisti útvarpsstöð sína í Reykjavík. Stöð þessi, sem að vísu var ófullkomin og orkulítil, aðeins 0,5 KW í loftnet, varð þó ástsæl meðal landsmanna þann tíma, sem hún starfaði, en vegna fjárskorts og annara örðugleika lagðist starfsemi hennar niður eftir tveggja ára tímabil.
Á Akureyri var reist um svipað leyti 5 KW útvarpsstöð fyrir atbeina Arthur Gook trúboða.
Höfðu áhugamenn í Bretlandi aflað samskota til stöðvarkaupanna og annazt að öllu leyti uppsetningu hennar. Raunveruleg útvarpsstarfsemi hófst aldrei frá þeirri stöð.

Eiðar

Eiðar – langbygljumastur.

Árið 1930 byrjaði Ríkisútvarpið starfsemi sína, með nýrri og fullkominni stöð, er var reist á Vatnsendahæð við Reykjavík. Afl stöðvarinnar var upphaflega aðeins 17 KW., en var aukið árið 1938 upp í 100 KW, Samtímis var reist að Eiðum endurvarpsstöð fyrir Austfirðinga, vegna truflana, er gætt hafði hjá þeim frá erlendum útvarpsstöðvum.
Með starfsemi Ríkisútvarpsins hefst nýr þáttur í menningarsögu okkar Íslendinga og hefur útvarpsstarfsemin síðan tekið hröðum framförum hér á landi. Útvarpshlustendur eru nú orðnir rúml. 18.200 á landinu og er Ísland í þeim efnum 9. landið í heiminum, í hlutfalli við fólksfjölda, miðað við árslok 1939.
Árið 1935 var að lokum stigið úrslitaskrefið í sambandsmálum okkar við umheiminn, er talsambandið var opnað við útlönd yfir stuttbylgjustöðina að Vatnsenda.
Með þeim atburði má segja, að ræst hafi fullkomlega þær vonir, sem litli fregnmiðinn frá Rauðarárstöðinni hafði vakið hjá þjóðinni fyrir 30 árum síðan.”

Jónas Þorbergsson

Jónas Þorbergsson (1885-1968).
Fyrsti útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins 1930–1953.

Í Útvarpstíðindum 1948 er birt úrdráttur úr ræðu útvarpsstjóra, “Íslendingar að verða fremstir meðal þjóðanna um útvarpsafnot“:

“Í upphafi máls síns gaf útvarpsstjóri stutta lýsingu á vexti stofnunarinnar. Gat hann þess, að haustið 1930, þegar fyrstu dagskrár útvarpsins voru færðar, hefðu talizt vera 450 útvarpsnotendur í landinu. En talan hækkaði fljótt og ört fyrstu árin, og er 1935 orðin rösk 12 þúsundir. Árið 1940 voru útvarpsnotendur orðnir rösklega 1-8 þúsund, 1943 voru þeir orðnir 26 þúsund og við árslok 1946 er tala útvarpsnotenda komin upp í 32 þúsund.
Á styrjaldarárunum seldi Ríkisútvarpið setuliðsherjum Bandaríkjanna nokkur afnot stöðvartækjanna á þeim tíma dags, sem þau voru ekki notuð vegna íslenzkrar dagskrár. Af þessu áskotnaðist nokkurt fé, og var þeim tekjum varið til stofnunar hins svonefnda framkvæmdasjóðs útvarpsins, sem stofnaður var 1944.”

Í Útvarpstíðindum 1949 eru upplýsingar frá skrifstofu útvarpsstjóra, “Endurbætur og aukningar á sendistöðvum Ríkisútvarpsins“:

Vatnsendahð

Vatnsendahæð – hluti tækjabúnaðrins.

“Vegna kaupa á varasendi til Vatnsendastöðvarinnar verður ekki hjá því komist að stækka stöðvarhúsið og umbæta það að öðru leyti. Hefir fjárhagsráð þegar veitt fjárfestingarleyfi til þessara framkvæmda, og standa vonir til að þær geti hafist í sumar, ef aðrar ástæður leyfa.”

Magnús Jóhannsson skrifaði í Iðnaðarmál 1956 um “Fræðslumyndir og segulhljóðritun”. Magnús var útvarpsvirkjameistari og stöðvarvörður við Útvarpsstöðina á Vatnsendahæð á árunum 1933—43.

Í Íslendingaþáttum Tímans 09.03.1974 er minningargrein um Dagfinn Sveinbjörnsson:

Dagfinnur

Dagfinnur Sveinbjörnsson.

“Dagfinnur vann ásamt Englendingum að uppsetningu útvarpsstöðvarinnar á Vatnsendahæð, og var við það þar til því verki lauk. Síðan gegndi hann yfirmagnarastarfinu við útvarpsstöðina í 3 1/2 áratug, þar til hann lét af því starfi fyrir aldurs sakir.”

Í Fálkanum 1951 segir; “Nýr útvarpssendir tekin í notkun“.

“Meðal ýmissa stórtíðinda, sem gerðust á þjóðhátiðardaginn, síðastl. sunnudag, er sérstaklega vert að geta þess, að þann dag var tekinn í notkun nýr sendir á ríkisútvarpsstöðinni á Vatnsendahœð. Með því er stórlega aukið öryggið á tryggum rekstri stöðvarinnar. Því að gamli sendirinn, sem notaður hefir verið alla tíð síðan Vatnsendastöðin tók til starfa, var orðinn úr sér genginn og bilanir ekki fátíðar.
Á föstudaginn var bauð yfirverkfræðingur Ríkisútvarpsins, Gunnlaugur Briem, blaðamönnum og útvarpsráði upp að Vatnsendahæð til þess að skoða hinn nýja sendi. Hann er frá Marconifélaginu, eins og sá gamli, sem notaður hefir verið síðan 21. des. 1930. Miklar framfarir hafa orðið í útvarpstækninni síðan þá, og nýi sendirinn er bókstaflega „allra nýjasta nýtt” í þessari grein, því að hann er sá fyrsti af sinni gerð, sem Marconifélagið setur upp.
Sendirinn er 4 kw. sterkari en sá gamli, en þó svo miku fyrirferðarminni, að hann tekur ekki nema tæpan helming af rúmi gamla sendirsins. Meginmunurinn er sá, að hinn nýi er loftkældur en sá gamli var vatnskældur. Er mikið rekstursörggi og sparnaður að henni.En auk þess eru margar endurbætur á þessum sendi, ekki síst í þá átt að bæta tóngæðin.
Vatnsendahæð
Tveir menn frá Marconifélaginu hafa annast uppsetningu og prófun hins nýja sendis. Fyrst var hann prófaður í verksmiðjunni í tvo mánuði og siðan hafa prófanir farið fram á honum á Vatnsenda álíka langan tíma. Meðal annars var hann látinn starfa samfleytt i 24 tíma fyrir nokkru, einkum til þess að ganga úr skugga um hvort loftkælikerfið stæðist slíkt „Maraþonhlaup”. Hafa verkfræðingarnir A. T. Dunk og Stuart S. Spraggs annast allar þessar prófanir einkum sá síðarnefndi, sem hefir „fylkt” sendinum síðan fyrstu prófanirnar byrjuðu í Chelmsford.
Árið 1930 kostaði útvarpsstöðin á Vatnsenda — hús og vélar — um 750.000 krónur. Það er til dæmis um “tæringu” krónunnar, að nýi sendirinn kostar um 1,4 milljón krónur, en í þeim eru að vísu innifaldar um 300.000 krónur í tolla! Nú verður gagnger viðgerð og endurnýjun látin fara fram á gamla sendinum. Hún mun taka nokkra mánuði og síðan verður hann notaður til vara, ef eitthvað kynni að bjáta á með hinn. Öryggið fyrir útvarpsrekstrinum er þannig orðið hið besta, og Vatnsendastöðin mun framvegis jafnan getað skilað öllu því, sem í hana er látið.”

Í Degi 1960 er rætt við elsta starfsmann Útvarpsins, Davíð Árnason:

DavíðHvenær tók svo Ríkisútvarpið til starfa?
Í október 1930 byrjuðu tilraunaútsendingar frá stöðinni á Vatnsendahæð, en 20. desember um kvöldið, var stöðin hátíðlega opnuð og lýst yfir að Ríkisútvarpið væri tekið til starfa.
Manstu fyrstu dagskrána?
Já, hún er nú hérna, segir stöðvarstjórinn og réttir mér blað með fyrstu dagskránni. Hún var á þessa leið sunnudaginn 21. desember 1930.
Kl. 11,00: Messa í Dómkirkjunni (séra Friðrik Hallgrímsson).
Kl. 14,00: Messa í Fríkirkjunni (séra Árni Sigurðsson).
Kl. 16,10:  Barnasögur (frú Martha Kalman).
Kl. 19,25:  Grammofónn.
KI. 19,30: Veðurfregnir.
Kl.  19,40: Upplestur (Jón Pálsson).
Kl.  20,00: Tímamerki. Orgelleikur (Páll Ísólfsson).
Kl.  20,30: Erindi: Útvarpið og bækurnar (Sig. Nordal).
Kl.  20,50: Ýmislegt.
Kl.  21,00: Fréttir.
Kl.  21,10: Hfjóðfærasláttur (Þórarinn Guðmundsson fiðla, Emil Thoroddsen slagharpa). Leikin verða íslenzk þjóðlög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

En nú í vetur var sunnudagur, 20. desember. Hófst útvarp kl. 9,10 og var samfellt til kl. 23,30.
En þú varst á Eiðum. Hvenær fluttirðu þangað?
Árið 1938. Þá voru miklar framkvæmdir hjá Útvarpinu. — Stöðin á Vatnsendahæð, sem byggð var með 16 kw. orku í loftneti, var stækkuð í 100 kw.”

Á Mbl.is 09.03.2001 segir frá gömlum draug; “Nýting var í samræmi við eignarnámsheimild”:

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – loftmynd.

“Hæstiréttur hefur sýknað Landssíma Íslands hf. af kröfum um að fellt yrði út gildi eignarnám á spildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, sem fram fór árið 1947.

Erfingjar þáverandi jarðareiganda töldu að fullnægjandi lagaheimild hefði skort fyrir eignarnáminu, en jafnvel þótt hún hefði verið fyrir hendi bæri að ógilda eignarnámið þar sem fyrirhuguð nýting á jörðinni hefði ekki gengið eftir.
Ríkissjóður keypti land af bóndanum á Vatnsenda, fyrst árið 1929 og síðar stærri hlut, og var þar reist langbylgjustöð útvarpsins. Árið 1947 var stærri spilda úr jörðinni tekin eignarnámi og á sama tíma voru einnig teknar eignarnámi spildur úr Fífuhvammslandi og landi Vífilsstaða, sem báðar lágu að Rjúpnahæð. Alls var land Landssímans innan lögsagnarumdæmis Kópavogs þá tæpir 160 hektarar.

Vatnsendi

Vatnsendi.

Árið 1997 falaðist Kópavogskaupstaður eftir samningum við Landssímann um kaup á landi hans á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð. Landssíminn hafnaði kauptilboði í landareignina, en í framhaldi af því voru teknar upp viðræður, að frumkvæði Kópavogskaupstaðar, um að hluti landsins yrði tekinn undir skipulagt íbúðarsvæði og voru tilnefndir þrír mats­menn til að gefa álit á verðmæti landsins, ef til skipulagðrar byggðar kæmi. Tók matið til um það bil 100 hektara lands, en eingöngu að hluta til þess lands úr jörð Vatnsenda sem tekið var eignarnámi árið 1947. Samkvæmt matsgerðinni frá 1998 var verðmæti landsvæðisins alls metið 315 milljónir króna miðað við staðgreiðslu.

Vatnsendi

Vatnsendahæð – loftskeytastöðin.

Núverandi eigandi Vatnsenda hélt því fram að ef yrði af sölu á spildunni til Kópavogsbæjar undir íbúðarbyggð væru brostnar forsendur fyrir eignarnáminu, því það hefði verið framkvæmt á þeirri forsendu og með þeim skilyrðum að nota skyldi landið eingöngu í sambandi við lagningu og rekstur fjarskiptavirkja ríkisins. Sala landsins með margföldum hagnaði miðað við eignarnámsbætur fæli í sér grófa misnotkun á eignarnámsheimildinni.

Fyrir héraðsdómi kom fram, að Landssíminn hefði ekki áhuga á að selja landið til Kópavogsbæjar. Hins vegar gerði fyrirtækið sér grein fyrir að heimildir skipulagslaga geti leitt til þess að landið kunni að verða tekið eignarnámi án samþykkis fyrirtækisins, enda óhjákvæmilegt um síðir að þrengt verði að starfsemi þess á Rjúpnahæð og Vatnsendahæð með einhvers konar íbúðarbyggð.

Skilyrðislaus eignayfirfærsla

Vatnsendi

Vatnsendahæð – loftskeytastöðin.

Hæstiréttur bendir á í dómi sínum að í afsalinu frá 1947 komi fram að umræddri landspildu sé afsalað eignarnema, að eignarnámsbætur hafi verið greiddar og að eignarnemi sé þar með lýstur fullkominn eigandi spildunnar. “Með eignarnáminu, eftirfarandi afsali og greiðslu eignarnámsbóta fór fram skilyrðislaus eignayfirfærsla á því landi sem hér um ræðir. Telja verður að sýnt hafi verið nægilega fram á að landið hafi eftir það verið tekið til notkunar í eðlilegu samræmi við tilgang eignarnámsins undir fjarskiptamannvirki eða sem verndar- og öryggissvæði þeim tengt. Verður því ekki fallist á með áfrýjanda að landið hafi ekki verið nýtt til þeirra þarfa, sem ákvörðun um eignarnám var réttlætt með. Eignarnámsþola verður ekki veittur réttur til að endurheimta eignarnumið land nema á grundvelli lagaheimildar eða vegna sérstakra aðstæðna,” segir Hæstiréttur og bætir við að þar sem hvorugs njóti við í þessu máli séu ekki efni til að verða við kröfu um að Landssímanum verði gert að afhenda og afsala landeigendanum spildunni.”

Í Vísi 1965 segir af aðdraganda að komu Sjónvarps Útvarpsins; “Sjónvarpið sendir út“:

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – dyrahúnn frá fyrstu tíð.

“Í dag verður ef til vill gerð fyrsta tilraun með útsendingu kyrrstæðrar myndar frá lánssendi íslenzka sjónvarpsins á Vatnsendahæð. Er þessi kyrrstæða mynd, sem er misbreiðar línur og misdökkir fletir, til þess ætluð að sjá hvort útsending þessi næst á þau tæki sem í notkun eru í landinu.
Sent verður út á rás númer 11 samkv. Evrópukerfi en reglulegur útsendingartími hefur enn ekki verið ákveðinn.”

Í Dagblaðinu Vísi 1982 er umfjöllun um Vatnsendahæðarstöðina eftir rúmlega hálfrar aldar notkun; “Ný Langbylgjustöð kostar 100 milljónir“.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð.

“Ný langbylgjustöð fyrir Ríkisútvarpið kostar 100 milljónir króna. Menntamálaráðherra mun beita sér fyrir því að framkvæmdir við hana hefjist á næsta ári. Ætíar hann að leita fulltings Alþingis og fjárstuðnings úr ríkissjóði.

Gufuskálar

Gufuskálar – langbylgjumastur.

Gamla langbylgjustöðin á Vatnsendahæð er orðin 50 ára gömul og tæknimönnum þykja það mestu undur, að möstur hennar skuli enn hanga uppi.
Þetta kom fram i svari menntamálaráðherra, Ingvars Gíslasonar, á Alþingi. Í gær, þegar hann svaraði fyrirspurn Þorvaldar Garðars Kristjánssonar um málið. Í máli beggja, svo og Eiðs Guðnasonar, bar á miklum ugg vegna hins hrörlega ástands mastranna á Vatnsendahæð. Var vitnað i skýrslur sérfræðinga frá 1978, þar sem talið var furðulegt að möstrin stæðu og því lýst að þau gætu hvenær sem væri fallið í snörpum vindi.
Fyrirspyrjandi og Eiður Guðnason lögðu áherzlu á að ef möstur gömlu stöðvarinnar féllu, myndi taka ófyrirsjáanlegan tíma að koma aftur á langbylgjusendingum. En það myndi svipta marga landsmenn og sjómenn útvarpsnotum á meðan.
Ráðherrann kvað það sína skoðun, að enda þótt FM stöðvar þjónuðu æ stærri hluta landsins, dygði það ekki og langbylgjustöð yrði ómissandi til öryggis í útsendingum útvarps, ekki sízt til sjómanna. Þess vegna teidi hann að ríkissjóður ætti að koma til skjalanna og létta Ríkisútvarpinu byggingu nýrrar langbylgjustöðvar. Tók Eiður undir það, en Þorvaldur Garðar kvað litlu skipta hvaðan fé kæmi, það kæmi að lokum úr vösum skattborgaranna.
Aðalatriðið væri að koma nýju stöðinni upp áður en áföll dyndu yfir.” – HERB

Í Tímanum 1983 er umfjöllun; “Vatnsendastöðin sífellt hrörlegri“:

Langbylgjustödin áfram fjarlægur draumur – Vatnsendastöðin sífellt hrörlegri

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – ljósdarofar.

„Þetta er eitt af þeim þarfaverkum sem bíða síns tíma,” sagði Hörður Vilhjálmsson fjármálastjóri Ríkisútvarpsins þegar Tíminn spurði hann hvað miðaði með byggingu nýrrar langbylgjustöðvar fyrir útvarpið austan fjalls, sem hugmyndir hafa lengi verið uppi um.

Útvarp

Marconi sendirinn frá 1951 á Vatnsendahæð.

„Til að koma á fót þessari stöð þarf gífurlegt fjármagn og við höfum ekki séð hana sem viðráðanlegt verkefni ennþá.
Það hafa farið fram nokkrar undirbúningsrannsóknir, en meira hefur ekki gerst í málinu. Hins vegar er þetta ákaflega brýnt verkefni og sameiginleg þörf sem á það kallar frá mörgu tilliti.
Fyrst er að nefna að þetta myndi opna útsendingarleið ef FM kerfið brygðist, en það byggir eins og kunnugt er á nokkurs konar þrepaflutningi frá einum sendi til annars um landið. Langbylgjustöð yrði hins vegar svo langdræg að hún myndi nýtast öllum landsmönnum ef FM og örbylgjukerfið færi út. Þannig er hún mjög mikilvæg vegna öryggismála þjóðarinnar og eins vegna miðanna í kringum landið.”
Hvernig er ástandið á langbylgjustöðinni á Vatnsenda?
„Stöðin þar var reist árið 1929 og nú hefur ekkert verið gert fyrir hana í mörg ár. Möstrin halda áfram að ryðga og eru orðin mjög illa farin af ryði. Þetta felur í sér vissa áhættu. En ein ástæðan fyrir því að viðhald á möstrunum er í algeru lágmarki er kannske sú að menn eru alltaf að gæla við hugmyndir um nýja langbylgjustöð”. – -JGK

Í Dagblaðinu Vísi 1991 er fyrirsögnin; “Sá mastrið liggja lárétt í loftinu“:

Annað stórmastrið á Vatnsenda féll til jarðar – dæmt til falls fyrir 20 árum

Vatnesndahæð
“Mér var litið upp á Vatnsendahæðina skömmu eftir hádegi og skyndilega sá ég annað stórmastrið feykjast af undirstöðunni og liggja eins og lárétt í loftinu. Síðan endastakkst það með miklum látum er það féll til jarðar. Þetta var ansi tilkomumikil sjón,” sgði Guðjón Hilmar Jónsson, íbúi við Yrsufell; í samtali við DV. Annað stórmastrið, langbylgjumastrið á Vatnsenda, féll til jarðar í verstu rokunum eftir hádegi í gær. Féll mastrið klukkan 13.20. Stóð aðeins neðsti hluti þess eftir og stögin í hann.

Vatnsendi

Vatnsendahæð 1967.

Mastrið var reist fyrir 1930 og því orðið rúmlega 60 ára gamalt. Að sögn Eyjólfs Valdimarssonar, framkvæmdastjóra tæknideildar Ríkisútvarpsins, voru menn í mörg ár búnir að búast við falli Vatnsendamastranna. Fyrir 20 árum varaði verkfræðiskrifstofa alvarlega við ástandi þeirra og lagði til að þau yrðu tekin niöur. Uppfylltu möstrin engan veginn kröfur um styrkleika og burðarþol. Með mastrinu er langbylgjustöð Ríkisútvarpsins óvirk þannig að á afskekktum stöðum og úti á sjó, þar sem eingöngu er notuð langbylgja, heyrist Ríkisútvarpið ekki lengur.
„Við munum kanna uppsetningu bráðabirgðasendis strax í dag en hann mun ekki senda út með sama styrkleika. Þá munum við senda út á stuttbylgju, þeirri sömu og fréttasendingar til útlanda hafa farið um. Langbylgjusendirinn á Eiðum er enn virkur og sinnir Austurlandi áfram.”
Eyjólfur sagði að bygging nýrrar langbylgjustöðvar tæki 2-3 ár og yrði hún sennilega reist austur í Flóa. Hann sagði Vatnsenda löngu úreltan stað fyrir langbylgjustöð og hefði aldrei staðið til að byggja þar nýja stöð.” -hlh

Í Morgunblaðinu 1991 er fjallað um “Langbylgjustöðina á Vatnsendahæð“:

Vatnsendahæð“Talið er að það muni kosta um fimm til fimmtán milljónir að gera við langbylgjustöð Ríkisútvarpsins á Vatnsendahæð til bráðabirgða. Ákveðið hefur verið að byggja nýja langbylgjustöð á næstu árum.
Svavar Gestsson menntamálaráðherra lagði í gær fyrir ríkisstjórnina hugmyndir um hvað gera þurfi til að koma langbylgjusendinum í samt lag.

Undirbúa þarf kostnaðaráætlun
vegna byggingar nýrrar langbylgjustöðvar. Fara þarf yfir forsendur lánsfjárlaga fyrir árið 1991, en þar er gert ráð fyrir því að fella niður fastan tekjustofn sem Ríkisútvarpið hafði til 1986, og sjá til þess að þessar tekjur gangi aftur til Ríkisútvarpsins í stað ríkissjóðs. Einnig er áætlað að grípa til ákveðinna bráðabirgðaráðstafana á Vatnsendahæð á meðan beðið er eftir að endanleg úrlausn fáist, en það er talið taka nokkur ár.
Svavar sagði að ekki hefði verið kannað hvort hagkvæmara væri að leigja rás í gervihnetti og útvarpa þannig á langbylgju. „Ég held að þjóðir sem eru mjög gervihnattavæddar séu allar með langbylgjumöstur af þessu tagi þannig að ég hygg að það verði ekki hjá því komist að reisa nýja langbylgjustöð,” sagði menntamálaráðherra.

Býður hættunni heim” – segir starfsmaður „Skyldunnar
Hrun langbylgjustöðvarinnar hefur skapað erfiðleika enda ná örbylgjusendingar útvarpsins (FM) ekki út á miðin. Að sögn Arna Sigurbjðrnssonar, starfsmanns Tilkynningaskyldunnar, er ástandið slæmt, þótt sjómenn geti nálgast veðurfregnir með öðrum hætti. Erfitt væri að lýsa eftir bátum sem ekki gefa upplýsingar til Tilkynningaskyldunnar.
„Ástandið er ekki alvarlegt núna enda meirihluti flotans í landi,” sagði Árni. Hann sagði að ástandið gæti orðið alvarlegt ef skyndilega gerði óveður. „Þetta býður hættunni heim og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að koma upp langbylgjustöð,” sagði Árni.

Gunnlaugar H. Jónsson skrifar grein í Morgunblaðið 1991 undir fyrirsögninni “Langbylgjusendir, fortíð eða framtíð“:

Vatnsendahæð

Hús langbylgjunnar á Vatnsendahæð.

“Rúm sextíu ár eru liðin síðan íslenska þjóðin réðst í það stórvirki að reisa langbylgjustöð á Vatnsendahæð austan Reykjavíkur. Það var upþhafið að þeirri fjölmiðlabyltingu sem við nú upplifum.
Í áratugi var „Útvarp Reykjavík” (nú rás 1) eini ljósvakafjölmiðill Íslendinga og mörg kvöld sátu landsmenn sem límdir við viðtækin og hlustuðu á upplestur á sögum eins og „Bör Börson” eða á spennandi framhaldsleikrit, svo sem „Með kveðju frá Gregory”.
En nú er öldin önnur. Landsmenn geta flestir valið úr einni eða fleiri FM-steríó-rásum, einni eða tveim sjónvarpsrásum og sumir hafa gervihnattamóttakara, sem tekur á móti tugum sjónvarpsrása. Fæstir hafa þeir hlustað á langbylgju á viðtækinu sínu svo árum skiptir. Raunar er vafamál að þeir eigi viðtæki með langbylgju. Síðustu tíu árin hef ég keypt stereó-viðtæki í bílinn, útvarpsvekjara í svefnherbergið, stereó-græjur í stofuna og lítið útvarp í eldhúsið, auk þeirra viðtækja sem börnin hafa eignast. Öll eiga þessi viðtæki það samgeiginlegt að það er engin langbylgja á þeim.
VatnsendahæðÉg vaknaði því upp við vondan draum þegar ég uppgötvaði að helsta öryggistæki landsmanna, langbylgjusendirinn á Vatnsendahæð, sem hafði verið helsta skemmtun mín í æsku, var hrunið. Þá skildi ég að ég hafði stofnað mér og mínum í verulega hættu árum saman með því að kaupa ávallt viðtæki án langbylgju. Eina huggun mín er sú að í gamla bílnum er enn viðtæki með langbylgju. Sá bíll er hins vegar ávallt skilinn eftir heima því einu stöðvarnar sem hægt er að hlusta á í þeim bíl eru „gamla gufan” og „kaninn”.
Þegar Íslendingar reistu langlínusendinn á sínum tíma voru þeir að fjárfesta í framtíðinni, sendirinn hefur dugað í rúm sextíu ár, enda þótt mikilvægi hans fari ört minnkandi. Spurning dagsins er hvort 700-1.000 milljóna fjárfesting í nýjum landbylgjusendi er fjárfest

Öryggistækni fortíðarinnar eða framtíðarinnar
Á þeimn 20 árum sem rætt hefur verið um að endurnýja langlínusendinn hefur fjarskiptatækni breyst ótrúlega mikið hér á landi. Í stað koparvíra á staurum og langbylgjusenda, sem fluttu lágtíðni rafsegulbylgjur, hafa komið ljósleiðarar í jörðu og gervihnattasendar. Þessi nýja tækni bíður upp á margfalda flutningsgetu, sem öll nýrri viðtæki eru gerð til að nýta með steró-hljómi og/eða sjónvarpi. Það er skoðun mín að enda þótt enn megi finna framleiðendur sem geta framleitt langbylgjusenda þá sé þess ekki langt að bíða að almenningur í landinu geti ekki hlustað á langbylgjuna vegna þess að viðtækin sem seld eru í heiminum í dag eru almennt ekki gerð fyrir langbylgju. Hvers virði er almannavarnakerfi sem almenningur hlustar ekki á?

VatnsendahæðÍ Dagblaðinu Vísi 6. febrúar var birt viðtal við skipstjóra á millilandaskipi þar sem fram kom að eftir að langbylgjan datt út hafi stórbatnað skilyrði til þess að hlusta á veðurfregnir, sem sé nú útvarpað á stuttbylgju. Bandaríkjamenn eru mjög áhugasamir um öryggi og almannavarnir og búa í landi sem er nær 100 sinnum stærra en Ísland. Þeir hafa valið að nota svo til eingöngu miðbylgju og FM-bylgju til útvarpssendinga, enda er vandfundið viðtæki í því landi sem hefur langbylgju.
Áður en íslenska þjóðin leggur fram 1.000 milljónir, eða sem samsvarar milljón á hvert skip í flotanum, ættu Íslendingar að staldra við og íhuga hvernig öryggi í fjarskiptum verður best tryggt næstu 60 árin. (Þetta samsvarar 16.000 kr. á hverja vísitölufjölskyldu og má fá fyrir þann pening vandað stereó-viðtæki með FM-bylgju, miðbylgju og stuttbylgju, sem blaðamenn nota á ferðalögum til að hlusta á stuttbylgjusendingar úr öllum heimshornum.) Á næstunni verður lokið við að hringtengja ljósleiðara um landið.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – fornleifar…

Þróun á sjálfvirku tilkynningakerfi fyrir skip er að ljúka. Næsta skref er að koma því upp hringinn í kringum landið ef það er tæknilega og fjárhagslega hagkvæmt. Mörg skip hafa aðstöðu til að taka á móti upplýsingum, þar á meðal veðurkortum og GPS-staðsetningum frá gervihnöttum.

Útvarp

LW Vatnsendi 1965 – stjórnborð.

Fyrir 1.000 milljónir má gera mikið í öryggismálum þjóðarinnar bæði til sjós og lands og til að styrkja ljósleiðara- og FM- og sjónvarpsdreifikerfið. Hægt væri að koma upp stuttbylgju- eða miðbylgjusendi á hverju landshorni (kannski í tengslum við radarstöðvarnar.)
Í guðana bænum landar, ekki taka ákvörðun daginn eftir fall langlínumasturs, sem enginn hefur nennt að halda við í 20 ár með þeim afleiðingum að ein festing ryðgar í sundur niðri við jörð. Það má vera að alþingismenn hafi móral yfir því að hafa á undanförnum árum haft fé af ríkisútvarpinu, og vilji nú bæta úr fyrir kosningar. Hafi Alþingi nú úr digrum sjóðum að spila, skulum við nýta þá peninga í þágu framtíðarinnar, þannig að þeir komi að sem bestum notum, að bestu manna yfirsýn, næstu 60 árin. Leggjumst undir feld í þrjá daga að minnsta kosti og tökum ákvörðun að íhuguðu máli.” – Höfundur er eðlisfræðingur og rekstrarhagfræðingur, starfar hjá Háskóla Íslands.

Nokkur atriði úr sögu Útvarpsins:

1928 Lög um heimild handa ríkisstjórninni til einkarekstrar á útvarpi.
1929 Fyrsta útvarpsráð skipað.
1930 Jónas Þorbergsson skipaður útvarpsstjóri. Ný lög um útvarp ríkisins.
Settur upp langbylgjusendir á Vatnsendahæð við reykjavík (16 kW), og dagskrársending Ríkisútvarpsins hafin.
1931 Ríkisutvarpið flytur úr Hafnarstræti 10 í Reykjavík í hús Landssímans við Austurvöll.
1934 Ný útvarpslög.
1938 Tekinn í notkun nýr sendir á Vatnsendahæð (langbylgja – 100 kW).

Vatnsendahæð

Stálþráðsupptæki útvarpsins á Vatnsendahæð.

1947 Ríkisútvarpið eignast stálþráðatæki, sem breytti mjög aðstöðu til upptöku útvarpsefnis.
1950 Enn gagngerðari varð þó breytingin þegar segulbandstækin komu til sögunnar 1950.
1952 Hafði endurvarp frá sendi á Hornarfirði (miðb. 1 kW).
1953 Vilhjálmur Þ. Gíslason skipaður útvarpsstjóri.
1958 FM-útsendingar hafnar frá Vatnsendahæð.

Vatnsendahæð

Landssímahúsið við Austurvöll.

1959 Ríkisútvarpið flytur úr húsi Landssímans í hús Rannsóknarstofnunnar sjávarútvegsins að Skúlagötu 4 í Reykjavík.
1964 Ríkisútvarpinu falið að hefja undirbúning að íslensku sjónvarpi.
1965 Nýr langbylgjusendir (100 kW) settur upp á Vatnsendahæð.
1966 Ríkisútvarpið kaupir meginhluta húseignarinnar Laugavegur 176 í Reykjavík fyrir sjónvarpsrekstur. Hafin útsending sjónvarpsdagskrár (30.09.).
1970 Stofnaður Framkvæmdarsjórður Ríkisútvarpsins.
1971 Ný útvarpslög.
1974 Birt ný almenn reglugerð um Ríkisútvarpið.
1975 Útvarpslögunum breytt.
1977 Hafnar útsendingar í lit.
1978 Gengið frá samningum um lóð fyrir útvarpshús við Efstaleiti.
1980 Hafnar víðómsútsendingar í útvarpi.
1981 Fyrsta fréttasending Sjónvarpsins um gervitungl.
1982 Fyrsta móttaka knattspyrnuleiks í gegnum gerfitungl.
1985 Markús Örn Antonsson skipaður útvarpsstjóri.
1986 Ný reglugerð sett um Ríkisútvarpið.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið við Efstaleiti.

1987 Útvarpið flytur í eigið húsnæði í Efstaleiti 1.
1991 Heimir Steinsson skiðapur útvarpsstjóri.
1994 FM-sendum Útvarps og Sjónvarps fjölgað til muna.

Nánast allt framangreint, utan skipan útvarpstjóra, hefði sennilega aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstuðlan langbylgjustöðvarinnar á Vatnsendahæð?

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – loftmynd.

Rekstri langbylgjustöðvarinnar á Vatnsendahæð hefur nú verið hætt. Hluti starfseminnar hefur verið flutt í aðra senda, s.s. á Úlfarsfelli, en meginstarfsemin verður áfram rekin á Gufuskálum. Um afdrif fyrirliggjandi uppsafnaðs tækjabúnaðar er óljós. Ýmis söfn munu þó njóta góðs af, s.s. Herminjasafnið í Hvalfirði, Minjasafnið á Skógum, Þjóðminjasafnið og safn Rafniðnaðarsambandsins. Þá mun leik- og kvikmyndageirinn njóta góðs af ýmsum heimilistækjabúnaði, sem safnað hefur verið í gegnum tíðina.
Húsnæðið á Vatnsendahæð er ekki eins illa farið og Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar, vill vera láta. Vandað var til byggingarinnar í upphafi og hún er alls ekki asbestbygging. Hliðarbyggingar; geymslur og skúrar, voru reyndar byggðar af vanefnum.
Húsnæðið geymir ekki einungis sögulegar minjar, sem ástæða er til að varðveita. Það er í raun vitnisburður um þróun samfélagsins frá nýlegri fortíð til nútíðar. Vonandi verður byggingunni fundið nýtt og viðeigandi hlutverk í framtíðinni er endurspeglar merkilega sögu þess í íslensku samhengi.

Heimildir:
-Mbl.is 09.03. 2001 – https://www.mbl.is/frettir/innlent/2001/03/09/nyting_var_i_samraemi_vid_eignarnamsheimild/
-Dagblaðið Vísir, 81. tbl. 07.04.1982, Ný Langbylgjustöð kostar 100 milljónir, bls. 3.
-Morgunblaðið, 30. tbl. 06.02.1991, Langbylgjustöðin á Vatnsendahæð, bls. 18.
-Dagblaðið Vísir, 29. tbl. 04.02.1991, Sá mastrið liggja lárétt í loftinu, bls. 33.
-Morgunblaðið, 42. tbl. 20.02.1991, Langbylgjusendir, fortíð eða framtíð. Gunnlaugur H. Jónsson, bls. 34.
-Tíminn, 119. tbl. 27.05.1983, Vatnsendastöðin sílefflt hrörlegri, bls. 2.
-Vísir, 293. tbl 22.12.1965, Sjónvarpið sendir út, bls. 16.
-Fálkinn, 31. tbl. 06.08.1938, Vígsla útvarpsstöðvarinnar, bls. 14
-Fálkinn, 24. tbl. 22.06.1951, Nýr útvarpssendir tekin í notkun, bls. 2.
-Íslendingaþærrir Tímans, 9. tbl. 09.03.1974, Dagfinnur Sveinbjörnsson, bls. 10.
-Útvarpstíðindi, 4. tbl. 07.11.1938, Stækkun útvarpsstöðvarinnar, Gunnlaugur Briem, verkfræðingur, bls. 56-57.
-Verslunartíðindi, 7. tbl. 01.07.1935, Talsamband við útlönd, bls. 76-77.
-Útvarpstíðindi, 21. tbl. 06.03.1939, Um veðurfregnir, Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, bls. 320-321.
-Útvarpstíðindi, 1. tbl. 12.01.1948, Íslendingar að verða fremstir meðal þjóðanna um útvarpsafnot, Úrdráttur úr ræðu útvarpsstjóra, bls. 5-6.
-Útvarpstíðindi, 10. tbl. 13.06.1949, Endurbætur og aukningar á sendistöðvum Ríkisútvarpsins, Frá skrifstofu útvarpsstjóra, bls. 220.
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 08.06.1941, Draumurinn sem rættist, Friðrik Halldórsson, bls. 30.
-Iðnaðarmál, 1. tbl. 01.01.1956, Fræðslumyndir og segulhljóðritun, Magnús Jóhannsson, bls. 6.
-Dagur, 14. tbl. 23.03.1960, Rætt við elsta starfsmann Útvarpsins, Davíð Árnason, bls. 2.
-Morgunblaðið 15.09.2020, Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – einn af sendunum…