Útvarp

Á RÚV þann 28. október 2021 ræddi Arnar Björnsson við Sigurð harðarsson, rafeindavirkja, um nýuppsett útvarps-  eða viðtækjasafn á Skógum. Saga útvarps á Íslandi er að verða eitt hundrað ára, en lítill áhugi annarra en örfárra áhugamanna hefur verið að viðhalda þeirri merku sögu til framtíðar:

Sigurður Harðarson
“Sigurður Harðarson rafeindavirki er áhugamaður um útvarp. Tólf ára gamall smíðaði hann sitt fyrsta útvarpstæki. Um síðustu áramót fór hann ásamt fleirum að safna gömlum útvarpstækjum. Draumur hans er að koma á laggirnar útvarpstækjasafni, sams konar safni og talstöðvarsafnið sem hann byggði upp og er á Skógum undir Eyjafjöllum.

Útvarp

Eitt fyrsta viðtækið.

„Eftir því sem ég best veit var fyrsta útvarpstækið flutt inn til landsins 1924 en ári áður smíðaði Þorsteinn Gíslason á Seyðisfirði fyrsta lampatækið sem vitað er. Hann var búinn að smíða sér viðtæki áður til að hlusta á erlendar stöðvar sem þá voru að senda út á morsi á neistasendum. 1923 heyrist fyrst í útvarpi talað mál eftir því sem ég best veit,“ segir Sigurður þegar við Karl Sigtryggsson kvikmyndatökumaður setjumst niður með honum í talstöðvasafninu í Skógum. „Eftir því sem ég kemst næst voru 475 tæki til í landinu þegar Ríkisútvarpið hóf starfsemi sína 1930.“

Útvarp
„Þau einföldustu kostuðu 175 krónur og upp í 550 krónur. Þetta voru hátalaralaus tæki þannig að þú þurftir að kaupa hátalara fyrir 90 krónur og rafhlöður fyrir 30 krónur. Þannig að ódýrasta tækið kostaði rúmlega 300 krónur. Þá hafði verkamaður um eina krónu á tímann þannig að hann var 3 mánuði að vinna sér fyrir útvarpi.“ Þannig að það hefur aðeins verið á færi ríka fólksins að kaupa sér útvarpstæki?. „Já bóndi þurfti að selja 7-800 kíló af gæða nautakjöti til þess að eiga fyrir útvarpi.“

Útvarp

Vestri og Sindri.

„Fyrsta gerðin sem var smíðuð var tveggja lampa einfalt tæki sem náði sendingum Ríkisútvarpsins. Sendingarnar komu frá Vatnsenda og náðust í Reykjavík og nágrenni en ekki úti á landi. Í framhaldi var tækið betrumbætt, gert næmara og einum lampa bætt við. Það tæki fékk nafnið „Vestri“ og eldri gerðin kölluð „Suðri“. Sigurður segir að 8 gerðir útvarpstækja hafi verið smíðaðar hjá Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins sem sett var á laggirnar 1933. „Þar voru framleidd einföld og ódýr útvarpstæki.”

Grunnurinn er alltaf sá sami í raun og veru? „Alltaf sá sami, það er það sem við höfum séð með því að opna þessi tæki og rífa þau í sundur og gera við þau. Tækin eru öll í lagi og virka eins og þau eiga að gera.”

Útvarp

Austri.

Draumur þinn er að búa til safn hér í Skógum? „Já til dæmis. Það er eiginlega ekkert húsnæði á landinu sem hýst safnið því þetta er svo mikið magn. Við erum búnir að vera að vinna í því ég og félagar mínir í upp undir ár að flokka þetta eftir ártölum og sögu tækjanna. Sum eru ómerkileg og önnur merkileg. Það hefur farið í þetta mikill tími og næsta skref er að finna einhvern stað undir safnið, við þurfum 3-400 fermetra húsnæði.”

Hefði það ekki verið agalegt að vita til þess ef þessu hefði ekki verið sinnt? „Jú það var nú ástæðan fyrir því að við fórum í þetta ég og félagar mínir. Þetta eru verðmæti sem eru ómetanleg. Það eru víða til í heiminum svona útvarpssöfn en ég held að án þess að geti alveg fullyrt það í þessu tilfelli núna sennilega nokkurn veginn þróunarsögu Íslendinga í útvarpstækjum. Alveg frá fyrstu gerðum sem voru þá kristaltæki notuð hérna og upp í þessar lúxusbublur eins og þetta var víða á heimilum,” segir eldhuginn Sigurður Harðarson.”

Heimild:
-Arnar Björnsson; https://www.ruv.is/frett/2021/10/28/verkamadur-thrja-manudi-ad-vinna-ser-inn-fyrir-utvarpi

Útvarp

Suðri.