Færslur

Þorsteinshellir

Lýsing á Þorsteinshelli og Dimmu (Dimmi) var sú að hellarnir ættu að vera norðaustan við Hólmsborgina (Sauðaborgina) í Hrossabeinahæð sunnan Hólmshlíðar og austan Gráhryggjar. Þeir, sem einhvern tíma hafa komið á svæði, vita að þar er eitt hraunhaf svo langt sem augað eygir. Þrjár fyrri ferðir á svæðið hafa reynst árangurslausar. Því var ákveðið að nota að þessu sinni léttvopnaða og fótfráa sérsveit FERLIRs. Sveitin getur farið hratt yfir og ef eitthvað markvert er að finna þá finnur hún það, það er a.m.k. reynslan.

Dimmir

Við opið á Dimmi.

Þegar búið var að leita af sér allan grun á Hrossabeinshæðum, var haldið inn á Gráhrygg. Farið var hratt yfir, en þegar komið var í austanverðan hrygginn skammt norðvestan við Selfjall var ákveðið að umkringja líklegt svæði og grandskoða það. Eftir stutta leit fannst Þorsteinshellir og síðan Dimmir í kjölfarið. Við skoðunina fannst einnig annar hellir, sem bíður betri tíma.
Hlaðið er (sjá mynd) við op Þorsteinshellis. Þrep er niður og síðan tekur við heil hraunrás, u.þ.b. 8-10 metra löng. Hellirinn hefur greinilega verið notaður sem skjól fyrir þann eða þá, sem setið hafa yfir ánum. Krikinn, sem þótti svo líklegur, hefur þá að öllum líkindum verið notaður sem nátthagi. Sennilegt er að aðstaða þessi hafi m.a. verið notuð frá seljunum í Lækjarbotnum (Örfiriseyjaseli og Reykjavikurseli) og frá Hólmi.
Skammt norðan við Þorsteinshellir fannst opið á Dimmi (sjá mynd). Hellirinn er u.þ.b. 30 metra langur, heil hraunrás, en tiltölulega lág.
Frábært veður.

Þorsteinshellir

Í Þorsteinshelli.

Esjuberg

Í Úrskurði Óbyggðarnefndar, máli nr. 3-4/2004 um  Kjalarnes og Kjós frá 31. maí 2006 má lesa eftirfarandi fróðleik um “Landnám í Kjós“:

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

“Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli
ok Öxarár, ok öll nes út.
Eins og getið er um varðandi Kjalarnes var Mýdalsá (nú Miðdalsá og Kiðafellsá) takmark landnáms Helga bjólu. Norðan Mýdalsár var landnám Svartkels hins katneska: Svartkell hét maðr katneskr; hann nam land fyrir innan Mýdalsá milli <ok> Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri.

Kiðafell

Kiðafell.

Svartkell hét maðr; hann fór af Englandi til Íslands ok nam land fyrir innan Mýdalsá ok millum Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri. Eilífsdalá heitir nú Dælisá eða Bugða.
Gera má ráð fyrir að landnám Svartkels hafi náð upp í Esjuna, milli upptaka Mýdalsár og Eilífsdalsár. Valþjófr, son Örlygs hins gamla frá Esjubergi, nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli; frá honum eru Valþjóflingar komnir.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Valþjófr, er fyrr var getit, son Örlygs at Esjubergi, hann nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli. … Valbrandr hét annarr son Valþjófs, faðir Torfa, er fyrst bjó á Möðruvöllum. Þeir feðgar gerðu félag við Tungu-Odd; af því bjöggu þeir síðan á Breiðabólstað í Reykjardal hinum nörðra. Landnám Valþjófs hefur því náð yfir Kjós vestan Laxár og ofan Bugðu.
Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár ok Forsár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refr enn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Son Þórólfs smjörs var Sölmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðaströnd; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfúss Elliða-Grímsson.
Landnámugerðum ber ekki saman um mörk landnáms Þorsteins Sölmundarsonar, hvort þau miðast við Botnsá eða Bláskeggsá. Er hér komið út fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar sem náði til Brynjudalsár eins og segir í upphafi.

Brynjudalur

Brynjudalur. Tóftir Múla.

Bústaður Þorsteins Sölmundarsonar er ekki nefndur, en í Þórðarbók Landnámu segir að Refur sonur hans hafi búið í Múla. Sá bær þekkist ekki og hafa menn velt vöngum yfir líklegum stað án niðurstöðu.
Maðr hét Ávangr, írskr at kyni; hann byggði fyrst í Botni; þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip.  Ávangr hét maðr írskr, er bjó í Botni fyrstr manna, ok bjó þar allan aldr sinn; þá var þar svá stórr skógr, at hann gerði þar hafskip af ok hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamarr. Hér er átt við Stórabotn í Botnsdal, sem á land báðum megin Botnsár. Ekki kemur fram, hversu stórt land Ávangur hefur haft til umráða. Haraldur Matthíasson telur hann hafa numið allan Botnsdal.”

Heimild:
-Úrskurður Óbyggðarnefndar, mál nr. 3-4/2004 – Kjalarnes og Kjós; 31. maí 2006.

Brynjudalur

Í Brynjudal.

Flórgoði

Flórgoðinn er fallegur fugl. Hann mætir á vötnin ofan höfuðborgarsvæðisins; Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Urriðavatn, Vífilsstaðavatn, Rauðavatn o.fl., í kringum 15.-20. apríl eftir vetrardvöl s.s. við strendur Islands, Noregs og Skotlands, verpir um miðjan maí og liggur á 3-6 eggjum í u.þ.b. 21-25 daga. Ef varpið misferst getur hann verpt aftur og aftur uns allt um þrýtur. Á síðustu árum hefur flórgoðapörum fjölgað mjög á Reykjanesskaganum og er það vel.

Í Tímanum árið 1991 segir um flórgoðann:

Flórgoði

Flórgoðapar.

“Flórgoði (Podiceps auritus) er andarættar og heldur sig við tjarnir og síki. Höfuðið er gljásvart, fiðurmikið og úfið. Nefið er stutt, rýtingslaga og stélið er örstutt. Fæturnir eru með sundblöðkur á tánum.

Flórgoði

Flórgoði.

Frá höfði um aftanverðan háls, bak og vængi er fjaðurhamur svartur en á flugi koma fram áberandi hvítir vængspeglar. Flórgoðinn er hálsgrannur og búkurinn kubbslegur. Hann fellir fjaðurskúfa að vetri og litauðugt fiðrið tekur á sig dökkan lit. Röddin er lík væli nema á mökunar- og varptíma, þá er hún margvísleg. Flórgoðinn verpir 3-6 eggjum í flothreiður við sefgrónar grynningar. Á veturna dvelur hann á sjávarvogum.”

Í Morgunblaðinu árið 1993 fjallar Guðmundur Guðjónsson um flórgoðann undir fyrirsögninni “Flórgoðinn á “hættulistann”” (kynning á tegundinni í Bæjarbíói og á Ástjörn).

Flórgoði

Flórgoði með unga.

“Flórgoði, eða sefönd, heitir einn af fallegustu og sérstæðustu varpfuglum landsins. Hvergi hefur fugl þessi verið áberandi utan á Mývatni og svo ef til vill á einhverjum einstökum vötnum hér og þar án þess þó að magnið hafi verið mikið. Nú hefur brugðið svo við, að flórgoða hefur snarfækkað síðustu tvo áratugi. Ævar Petersen fuglafræðingur segir að flórgoðinn sé einn af þeim fuglum sem visindamenn hérlendis hafi sett á hættulistann.
Flórgoðinn er tiltakanlega algengur, það hafa verið þetta 300 til 400 pör og rúmlega helmingur þeirra á Mývatni en afgangurinn dreifður um landið.
Ástjörn er eini staðurinn á landinu að Mývatni undanskildu þar sem talandi er um flórgoðabyggð. Þó eru nú aðeins 6 til 8 pör á tjörninni sem er með mesta móti.

Ýmsar orsakir…

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Ástæður fyrir svo mikilli fækkun flórgoða geta verið ýmsar og þeir aðilar sem rætt var við töldu að samspilandi þættir væru hér á ferðinni. Flórgoðinn þarf mjög sérstætt umhverfi. Einungis grunn og gróskumikil vötn með starargróðri henta honum. „Allur fjandinn” hefur verið gerður við slík vötn hér á landi eins og menn sögðu. Minkur hefur lengi verið skaðvaldur í fuglaríkinu og vitað er að flórgoðinn er ein þeirra tegunda sem á sérstaklega erfítt með að varast minkinn og veldur því sameiginlegt kjörlendi og hættir fuglsins. Aðrir þættir geta og spilað inn í, þannig benti Ævar Pedersen á, að menn vissu lítið um vetrarheimkynni flórgoða. Þau væru talin vera um norðanverðar Bretlandseyjar, Írland, Suðureyjar og Shetlandseyjar. Eitthvað er auk þess af flórgoða við strendur landsins á veturna, að minnsta kosti kemur hann oftast fram í árlegri fuglatalningu sem fram fer nærri áramótum. Aðeins fimm sinnum hafa íslensk merki fundist á dauðum flórgoðum og eru allar heimturnar frá þessum slóðum. Hvernig fuglinum reiðir af á vetrarstöðvunum er lítið vitað og aldrei að vita nema að einhverja fækkunarorsökina sé að finna þar.

Flórgoðar

Flórgoðar á Hvaleyrarvatni.

Flórgoði hefur mikla sérstöðu í íslenska fuglaríkinu. Nægir þar að benda á skrautlegt og óvenjulegt útlit fuglsins, en margur álítur hann með fegurstu fuglum þessa lands. Þá er hann eina varptegundin af svokallaðri goðaætt, en goðarnir eru náskyldir svokölluðum brúsum, en himbrimi og lómur eru þekktastir þeirra og þekktir varpfuglar á Íslandi. En fleira er sérstætt en útlit fuglsins. Hann er eina íslenska tegundin sem gerir sér flothreiður. Hreiðurstaðurinn er í stör og öðrum vatnagróðri og hreiðurefnið nærtækur vatnagróður sem fuglinn hleður upp í dyngju. Eggin eru 3 til 5 og tekur útungun um 25 daga, en varptíminn hefst oftast í lok maí eða í byrjun júní og fer það eftir árferði. Kemur þá inn í myndina hvort varpstaðurinn er sunnanlands eða norðan. Þar sem flórgoðar eru á annað borð eru þeir mjög áberandi framan af sumri og er svo fyrir að þakka útliti þeirra og látbragði. Þá þykir mörgum falleg sjón að sjá ný- og nýlega klakta flórgoðaunga sitja á baki móður sinnar. Og það hefur sína kosti að notast við flothreiður þó svo að meinbugir séu þar einnig á. Þannig eru goðarnir næmir á veðurbreytingar eins og önnur dýr og til þeirra hefur sést „leysa landfestar” og draga hreiðrin á nýja bletti. Hefur þá ekki brugðist að vind hefur hert og nýi bústaðurinn til muna öruggari en sá fyrri.
Það væri sjónarsviptir af flórgoðanum úr íslensku fuglaríki og það er segin saga, að fuglastofn sem er strjáll fyrir þolir illa þegar samverkandi þættir ógna honum.

Flórgoði

Flórgoði – dans tilhugalífsins.

Flórgoðinn hefur aldrei verið áberandi fugl ef Mývatn er undanskilið, en nú fækkar honum þar ár frá ári. Fleiri fuglategundir á Íslandi stefna niður á við þótt almenningur verði ekki var við það þar sem stofnarnir eru enn stórir.
Áður hefur verið getið í fréttum Morgunblaðsins um fækkun steindepils og maríuerlu. Það sama gildir um hávellu og óðinshana. Þeim fækkar stöðugt og sérfræðinga okkar bíða þau verkefni að finna út hver vandinn er og stöðva hina óheillavænlegu þróun.” – Guðmundur Guðjónsson

Í Morgunblaðinu árið 2013 fjallar Ásgeir Ingi Jónsson um flórgoðan; “Saman á sumrin en óháð að vetri“:

Flórgoði

Úr skýrslu um fugla í Garðabæ 2018.

„Flórgoðar af sama vatninu, pör eða nágrannar sem höfðu búið sumarlangt hlið við hlið, eiga sér vetrarstöðvar hvorir á sínum stað. Þannig kom t.d. í ljós að pör fóru hvort í sína áttina að hausti og dvaldist annar fuglinn í Noregi og hinn við Skotlandsstrendur yfir veturinn. Svo komu þau aftur heim að vori, strengdu sín heit að nýju, gerðu sér hreiður á sama stað og ólu upp unga.“
Þannig greinir Þorkell Lindberg Þórarinsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, frá merkum niðurstöðum rannsóknar starfsmanna stofnunarinnar á vetrarstöðvum íslenskra flórgoða, en þær voru að mestu óþekktar. Niðurstöðurnar hafa nú þegar aukið þekkingu varðandi farhætti og vetrarstöðvar flórgoða.
Þorkell segir að það hafi til að mynda komið verulega á óvart hversu óháðir sambýlisfuglar eru hver öðrum í vetrarorlofinu. Við rannsóknina eru svokallaðir dægurritar (e. geolocator) festir á fætur fuglanna til þess að rannsaka farhætti og vetrarstöðvar. Verkefnið hófst árið 2009 og hafa nokkrir flórgoðar verið merktir á hverju ári.
Alls hafa 46 fuglar nú verið merktir með dægurritum, þar af tíu í fyrrasumar, og hafa 15 merki endurheimst nú þegar.

Nokkuð tryggir varpstaðnum
Flórgoðinn
Dægurritar safna upplýsingum um birtutíma. Út frá þeim er hægt að reikna staðsetningu á hverjum tíma, náist merkið aftur. Þessi tækni hefur einnig verið notuð til að skrá ferðir ritu, skúms og skrofu hér á landi. Fuglarnir voru veiddir og merktir á hreiðrum og er byggt á að þeir komi aftur á sama stað ári síðar. Þorkell segir að flórgoðinn virðist vera nokkuð tryggur varpstaðnum.
Niðurstöður rannsókna Náttúrustofunnar staðfesta vetrarstöðvar við Bretlandseyjar, Noreg og Ísland. Hér sjást flórgoðar í litlum mæli að vetrarlagi á suðvesturhorni landsins og á Austfjörðum.
Út frá upplýsingum sem fengust úr dægurritum má líka sjá hversu lengi flórgoðarnir voru að ferðast til og frá vetrarstöðvum. „Flórgoði hefur ekki þótt sérlega flinkur flugfugl,“ segir Þorkell. „Hann er vatnafugl af guðs náð og hálfankannalegur á flugi, stéllaus, með lappirnar aftur úr búknum. Það vafðist þó ekki fyrir honum að fljúga heim frá Skotlandi á aðeins einum sólarhring. Það finnst okkur vel af sér vikið.“

Fjölgað hratt á síðustu árum

Flórgoði

Flórgoði á flotdyngju.

Flórgoði er eini fulltrúi sinnar ættar, goðaættarinnar, sem verpir hér á landi en tegundin finnst víða á norðurhveli. Eins og aðrir goðar er hann sérstæður að byggingu og sérhæfður að vatnalífi. Hann fer aldrei á land, ekki einu sinni til þess að verpa, því hann byggir sér flothreiður á vötnum sem hann festir yfirleitt uppi í stör eða víðibrúskum sem slúta út í vötn af bökkum.

Flórgoði

Flórgoði.

Nú er talið að um þúsund pör séu í íslenska flórgoðastofninum.”

Heimildir:
-Tíminn, 16.02.1991, bls. 12.
-Morgunblaðið, 146. tbl., 02.07.1993, Flórgoðinn á “hættulistann” – Guðm. Guðjónsson, bls. 26.
-Morgunblaðið, 59. tbl. 12.03.2013, Saman á sumrin en óháð að vetri – Ásgeir Ingi Jónsson, bls. 16.

Flórgoði

Flórgoði með unga.

Jaðar

Í Skýrslu nefndar um “Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973″, þann 31. ágúst 2010 má lesa eftirfarandi um heimavistaskólann að Jaðri:

Jónas B. Jónsson

Jónas B. Jónsson.

“Reykjavíkurbær hóf starfsemi heimavistarskóla að Jaðri í Elliðavatnslandi hinn 5. febrúar 1946. Þingstúka Reykjavíkur hafði þá nýlega lokið við byggingu sumardvalar- og félagsheimilis að Jaðri og leigði Reykjavíkurbær húsnæðið yfir vetrarmánuðina. Á tíu ára starfsafmæli skólans árið 1956 hélt fræðslufulltrúi Reykjavíkur, Jónas B. Jónsson, ræðu þar sem hann lýsti aðdraganda stofnunarinnar og hver aðkoma fræðslufulltrúaembættisins hefði verið: “Haustið 1943 er ég tók við núverandi starfi mínu, var eitt fyrsta verk mitt að gera spjaldskrá yfir alla skólaskylda nemendur í barnaskólum bæjarins. Mér þótti sýnt, að þá fyrst væri hægt að sjá hvað væri af nemendum, sem þyrftu sérstakrar umönnunar við, hverjir sæktu illa skóla og hverjir kæmu alls ekki í skóla. Þegar þessi spjaldskrá var fullgerð og skólasókn barna var könnuð, kom í ljós, að allmargir drengir sóttu ekki skóla og aðrir mjög illa. Nánari eftirgrennslan hjá skólunum svo og hjá lögreglunni og barnaverndarnefnd sýndi að þeir drengir sem iðkuðu útigang og lausung á kvöldin komu ekki í skóla, þeir voru hnuplsamir, þeir reyktu og höfðu oftsinnis komist í kast við lögregluna. Um þetta gerði ég allítarlega skýrslu og sendi bæjarráði.”
Skýrsla fræðslufulltrúa sem minnst var á hér að ofan var send bæjarráði í janúar 1944 og þar var bent á að fyrir afbrotadrengi þyrfti að setja á stofn „nokkurs konar heimavistarskóla, helzt á einangruðum stað […] sem hafi sterk uppeldisleg áhrif, sem kenni drengjunum til munns og handa, skapi þeim verkefni, góða aðbúð og vellíðan […]“.

Jaðar

Jaðar á frumbýlisárinu.

Bæjarráð vísaði málinu til bæjarstjórnar og á fundi í febrúar 1944 samþykkti bæjarstjórn að stofna heimavistarskóla í nágrenni bæjarins fyrir þau börn á skólaskyldualdri, sem heimilin hafa ekki hemil á að dómi fræðslufulltrúa og barnaverndarnefndar.“ Fræðslufulltrúa var falið að vinna að athugun málsins og vorið 1944 kom hann með tillögu um að finna skólanum stað í Öxney á Breiðafirði. Tekið var vel í tillöguna í bæjarstjórn en ekkert varð þó úr því að heimavistarskólinn yrði stofnaður þar eða á annarri jörð í sveit.

Jaðar

Jaðar.

Í lok maí 1945 barst bæjarráði Reykjavíkur bréf frá formanni og ritara Landnáms Templara að Jaðri en svo nefndist stjórnin í Þingstúku Reykjavíkur sem fór með málefni Jaðars. Í bréfinu sagði: “Á síðastliðnu ári skoðaði Barnaverndarnefnd og fræðslufulltrúi Reykjavíkur, byggingu þá er við höfðum í smíðum að Jaðri, með tilliti til þess að bærinn tæki hana á leigu í sína þágu, þann tíma árs er við rekum ekki þar okkar eigin starfsemi. Mæltist Barnaverndarnefnd til þess að fá að sitja fyrir, ef húsið yrði leigt til afnota yfir vetrarmánuðina. Með tilvísun til þessa og með því að sýnt er að húsið verður fullgert innan skamms, leyfum við okkur að bjóða bæjarráði húsið til leigu. […] Við erum reiðubúnir til að leigja húsið 8-9 mánuði ársins fyrir sanngjarnt verð”.

Jaðar

Jaðar.

Bæjarráð óskaði eftir áliti barnaverndarnefndar Reykjavíkur og á fundi nefndarinnar hinn 1. júní 1945 var samþykkt að mæla með því að Reykjavíkurbær tæki tilboði Þingstúku Reykjavíkur um að leigja húsið að Jaðri fyrir heimavistarskóla. Á fundi bæjarstjórnar hinn 16. ágúst 1945 samþykkti bæjarstjórnin að heimila bæjarráði að leigja húsið að Jaðri og var fræðslufulltrúa falið, „í samráði við skólanefndir og borgarstjóra að annast rekstur skólans.“ Í janúar 1946 ritaði fræðslufulltrúi Reykjavíkur bréf til fræðslumálastjóra og tilkynnti um fyrirhugaða starfsemi á Jaðri: „Heimavistarskólinn á að vera fyrir skólaskyld börn, sem eiga ekki samleið með öðrum börnum í barnaskólum bæjarins. Tekin verða í fyrstu 10-16 börn, en síðan 24. Skólinn er aðallega ætlaður fyrir drengi.“

Jaðar

Jaðar.

Fyrstu önnina sem skólinn starfaði, vorið 1946, voru 14 nemendur og veturinn 1946-1947 voru nemendur 20. Næstu þrjá veturna voru 22-23 nemendur í skólanum og á sjötta og sjöunda áratuginum voru oftast á bilinu 25-30 nemendur sem dvöldu á Jaðri hvern vetur en nánar er fjallað um aldursskiptingu og námstíma nemenda á Jaðri í kafla 3.2 hér síðar. Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur hafði umsjón með því að ákveða hvaða drengir færu á Jaðar en þó í samráði við nokkra aðila, svo sem skólastjóra í viðkomandi barnaskólum, skólastjóra Jaðars og í sumum tilvikum barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Frá og með hausti 1961 fór Sálfræðideild skóla með það hlutverk að rannsaka þá drengi sem sótt var um vist fyrir á Jaðri og mæla síðan með því við skólastjóra Jaðars hverjir fengju vist.

Jaðar

Jaðar.

Fyrstu veturna starfaði heimavistarskólinn að Jaðri frá október og fram í maí en starfstíminn var lengdur skólaárið 1951-1952. Eftir það hófst kennsla um miðjan september og henni var lokið um miðjan maí. Stundaskráin var þétt skipuð alla daga með kennslu, útivist, heimanámi og kvöldvökum. Í skýrslu til fræðslufulltrúa Reykjavíkur vorið 1946 lýsti þáverandi skólastjóri, Loftur Guðmundsson, fyrirkomulaginu á eftirfarandi hátt: “Í skólastofu fór venjulega fram kennsla í 4-5 stundir á degi hverjum, en auk þess fylgdist skólastjóri með námsstarfi nemenda, er þeir voru komnir til herbergja sinna á kvöldin, og veitti þeim þá aðstoð eftir föngum. […] Hvað kennslu viðvíkur, var aðaláhersla lögð á lestrar-, reiknings- og skriftarnám. […] Ef til vill má þó segja, að mest áhersla hafi verið lögð á að bæta framferði barnanna og hegðun, og venja þau við að hlýta [sic] sanngjörnum aga”.

Jaðar

Jaðar.

Þegar Björgvin Magnússon tók við skólastjórn árið 1955 var nemendum skipt upp í tvær deildir, yngri og eldri deild. Í yngri deildinni voru ólæsir nemendur en í eldri deildinni hinir læsu. Björgvin gerði grein fyrir skiptingunni og daglegum störfum í skólaskýrslu fyrir veturinn 1959-1960: “Námið í vetur gekk annars vel, og varð árangur sæmilegur, í sumum tilfellum ágætur, þótt við erfiðar aðstæður sé við að etja, sem aðallega stafa af mismunandi aldri drengjanna. Aðeins er hægt að skipta í tvær deildir. Eru þeir læsu í annarri, en þeir ólæsu í hinni. – Áður en haldið er lengra vildi ég með fáum orðum lýsa dagskránni hjá okkur, hvernig dagurinn skiptist milli náms, leikja o.fl. Kl. 8 er vakið. Drengirnir klæða sig, þvo og snyrta, síðan er tekið til í herbergjunum. Að því búnu er farið í morgunverð. Þrisvar í viku er morgunleikfimi. Kl. 9-12 er kennsla. Kl. 12 miðdegisverður. Kl. 1-3 er útivist, þá eru drengjunum kenndir leikir ýmiss konar o.s.frv. Kl. 3:30 er drykkja. Kl. 4-6 er svo nám. Kl. 6:30 kvöldverður, kl. 7-8 nám aðallega lesið undir næsta dag. Kl. 8-9:30 eru svo leikir, framhaldssögulestur, kvikmyndasýningar og skátakvöldvökur. Kl. 10 kyrrð”.

Jaðar

Jaðar.

Á starfstíma Jaðars voru lagðar fram nokkrar tillögur um breyttar áherslur í starfsemi skólans. Fyrstu hugmyndirnar í þá veru komu frá Jónasi B. Jónssyni fræðslufulltrúa Reykjavíkur þegar árið 1950. Það ár rann út leigusamningur Reykjavíkurbæjar við Þingstúku Reykjavíkur og af því tilefni ritaði Jónas bréf til borgarstjóra og lagði til að starfsemin yrði færð að Laugarási í Biskupstungum: “Húsakynni þar [að Jaðri] hafa verið hin prýðilegustu, en aðstaða til starfa slæm. Það hefur því vart verið hægt að beina orku drengjanna til jákvæðra starfa, heldur hefur starf kennara mest megnis orðið kennsla og gæzla. Hefur því oftsinnis komið óyndi í drengina og þeir strokið í bæinn, enda hægt um vik sökum nálægðar og góðra samgangna. […] Segja má, að skilyrðifyrir heimavistarskóla [að Laugarási í Biskupstungum] fyrir þá drengi, sem áður hefur verið minnst á, séu þarna góð. Þarna má hafa fjölþætt starf, alls konar ræktun, alifuglarækt o.fl. Fjarlægðin frá bænum stuðlar að því, að umsjón með drengjunum verður minni og þeir því eðlilega óþvingaðri. Drengirnir geta fengið útrás fyrir orku sína við eðlileg og gagnleg störf”.

Jaðar.

Jaðar.

Hér enduróma upprunalegu hugmyndir fræðslufulltrúans um að best færi á því að heimavistarskóli á borð við Jaðar væri staðsettur í sveit þar sem drengjunum væri bæði kennt „til munns og handa […]“. Bæjarráð samþykkti á fundi í maí 1950 að fela fræðslufulltrúa að „leita samninga um framlengingu á leigumála um Jaðar, eða leigu á öðrum stað fyrir skólastarfið, sem til þessa hefir verið á Jaðri.“ Ekkert varð þó af fyrirhuguðum flutningi starfseminnar og leigusamningur um Jaðar var framlengdur síðar á árinu 1950.241 Vorið 1951 sendi Bragi Magnússon þáverandi skólastjóri á Jaðri skýrslu til fræðslufulltrúa um þá drengi sem verið höfðu í skólanum undangenginn vetur. Í niðurlagi skýrslunnar lét skólastjórinn það álit sitt í ljós að skóli sem Jaðar ætti ekki aðeins að starfa veturlangt heldur allt árið um kring þar sem margir nemendur hefðu ekki í góð hús að venda þegar skólastarfi lyki að vori. Mæltist hann því til þess að tilraun yrði gerð með sumardvöl fyrir drengi af Jaðri í heimavist Laugarnesskólans. Fræðslufulltrúi tók vel í tilmæli skólastjóra og kannaði möguleikana á því að hafa sumardvöl í heimavist Laugarnesskóla en þetta komst þó aldrei í framkvæmd.

Jaðar

Jaðar.

Fræðslufulltrúi Reykjavíkur ítrekaði þörfina fyrir heilsársstarfsemi á Jaðri í greinargerð um barnaheimili á vegum Reykjavíkurbæjar árið 1956. Þar sem skilyrði á Jaðri „til atvinnu og starfa [voru] nálega engin […]“ lagði fræðslufulltrúinn til að nýbyggingar fyrir barnaheimili og heimavistarskóla yrðu reistar „á kyrrlátum stað utan bæjar, þar sem landrými er nóg og staðhættir góðir.“ Barnaheimilanefnd tók undir þetta sjónarmið í tillögum sínum til borgarstjóra árið 1957 og þar var gert ráð fyrir tveimur heimavistarskólum fyrir 25 drengi hvor og einum fyrir 25 stúlkur sem starfa skyldu allt árið.

Jaðar

Á Jaðri.

Sumarið 1961 skrifuðu Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla og Símon Jóh. Ágústsson prófessor álitsgerð um vistheimili og barnaverndarmál í Reykjavík. Gerðu þeir athugasemd við það að í stað þess að á Jaðri „dveldust drengir, sem vanrækja nám og skólasókn […]“, eins og upphaflega var ætlast til, væri reyndin sú að „aðalástæðan til vistunar allmargra drengja þar [væru] vondar heimilisástæður, sem jafnframt hafa þá truflað nám þeirra.“ Töldu þeir æskilegt að Jaðri yrði ætlað skýrar afmarkað hlutverk og þar vistaðir drengir sem vanræktu nám og skóla og væru haldnir áberandi hegðunarvandkvæðum í skóla. Einnig var gagnrýnt í álitsgerðinni að allmargir nemendur dveldu þar í 3-4 vetur og var lagt til að dvalartíminn yrði yfirleitt eitt skólaár og að enginn dveldi þar lengur en tvö skólaár. Að lokum var lagt til að nemendur yrðu ekki teknir í skólann „nema á undan hafi farið athugun sérfræðinga á þeim, og sálfræðingur sé til ráðuneytis um rekstur skólans, sitji t.d. fundi með skólastjóra og starfsfólki tvisvar í mánuði“.

Jaðar

Jaðar.

Sálfræðideild skóla tók við síðastnefnda hlutverkinu en hún hafði verið sett á laggirnar árið 1960. Björgvin Magnússon skólastjóri á Jaðri gat þessa í skólaskýrslu fyrir skólaárið 1961-1962: “Í vetur varð sú breyting á hér í sambandi við skólann, að allir drengir, sem hingað koma, eru rannsakaðir og prófaðir af Sálfræðideild skóla, og hefur nú deildin ásamt fræðsluskrifstofunni ákvörðun um, hverjir eru sendir hingað í skólann. Forstöðumaður deildarinnar, Jónas Pálsson, sálfræðingur, kom svo hingað einu sinni í viku og hélt fund með kennurum og húsmóður skólans”.
Í nóvember 1962 settu Jónas B. Jónsson fræðslustjóri Reykjavíkur og Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla fram tillögur varðandi vistheimili og ráðstafanir vegna barna sem gátu ekki dvalist á heimilum sínum. Þar áréttuðu þeir að afmarka þyrfti hlutverk Jaðars skýrar: “Að því er stefnt, að heimavistarskólinn á Jaðri gegni því aðalhlutverki enn frekar en nú er, að vera heimili til enduruppeldis og sérstakrar meðferðar (milieu-behandling) á börnum, sem eru taugaveikluð; sýna hegðunarvandkvæði eða eru afbrigðileg að öðru leyti, en þó innan „normal“ marka að greindarþroska. Skróp, uppeldisvandræði og taugaveiklun eiga sér afar oft sameiginlegar rætur í lélegri heimilisaðstöðu barnsins, enda þótt um mörg þessara afbrigðilegu barna verði ekki sagt, að heimili þeirra í efnahagslegu né félagslegu tilliti séu léleg”.

Jaðar

Jaðar.

Af minnisblaði sem Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla ritaði árið 1967 má ráða að ekki hafi fyllilega gengið eftir að afmarka hlutverk Jaðars skýrar eins og lagt var til í álitsgerðinni árið 1961 og tillögunum frá árinu 1962. Í minnisblaðinu kom fram að ákvörðun um ráðstöfun drengja á Jaðar byggðist að „langmestu leyti á félagslegri og uppeldislegri aðstöðu barnanna, þ.e. hve þörf þeirra [væri] brýn fyrir bætta heimilis- og uppeldisaðstöðu.“ Af þessu leiddi að heimavistarskólinn að Jaðri gegndi fyrst og fremst hlutverki vistheimilis en ekki „hlutverki meðferðastofnana (milieubehandling hjem eða observationskole) nema að takmörkuðu leyti, enda [væru] engar beinar heimildir í lögum eða reglugerðum um rekstur slíkra sérkennslustofnana.“

Jaðar

Jaðar.

Árið 1970 tilnefndi Jónas B. Jónsson fræðslustjóri Reykjavíkur nefnd sem fjalla skyldi um starfrækslu heimavistarskólanna að Jaðri og Hlaðgerðarkoti og tengd verkefni. Í nefndinni sátu Þorsteinn Sigurðsson sérkennslufulltrúi, Ragnar Georgsson skólafulltrúi og Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla sem var formaður nefndarinnar. Í júní 1971 kynnti nefndin tillögur sínar ásamt greinargerð. Lagði nefndin m.a. til að innan skólanna á skyldustiginu í Reykjavík yrði komið á fót stuðningskennslu og meðferð í smáum hópum þar sem nemendur yrðu áfram kyrrir í almennum bekkjum en fengju hjálp sérmenntaðra kennara en einnig að þar yrðu sérbekkir, svokallaðir „observationsbekkir“.

Jaðar

Jaðar – stytta.

Þá var lagt til að utan skólanna yrðu á vegum fræðsluráðs og félagsmálaráðs sett á laggirnar skólaheimili, heimavistir fyrir vanrækt börn og unglinga og meðferðarheimili fyrir taugaveikluð börn og unglinga undir stjórn Sálfræðideildar skóla. Tillaga nefndarinnar varðandi Jaðar var á þá leið að skólaárið 1971-1972 yrði starfsemi skólans með svipuðu sniði og verið hefði en stefnt skyldi að því að flytja kennslu- og meðferðarþátt starfseminnar til borgarinnar jafnóðum og aðstaðan og úrræðin í framkomnum tillögum nefndarinnar væru komin í gagnið.

Jaðar

Jaðar 2020 (mynd; Hafsteinn Björgvinsson).

Tillögur nefndarinnar voru í anda svokallaðrar blöndunarstefnu sem ruddi sér til rúms á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar en með henni var leitast við að finna stöðugt fleiri börnum stað í almenna skólakerfinu og færa sérkennslu frá stofnunum og inn í skólana. Veturna 1971-1972 og 1972-1973 var starfsemi á Jaðri óbreytt nema að því leyti að nemendur voru færri en áður eða 18 og 17 hvorn vetur. Skólahald hófst með venjubundnum hætti haustið 1973 en skömmu síðar var ákveðið að hætta starfseminni frá og með 1. desember 1973 og var öllum starfsmönnum sagt upp.

Jaðar

Jaðar 2020 (mynd; Hafsteinn Björgvinsson).

Veturinn 1973-1974 var komið á fót sérdeild við Réttarholtsskóla fyrir nemendur með geðræna erfiðleika og hegðunarvandkvæði og tók hún við því hlutverki sem Jaðar hafði gegnt. Á árunum 1974-1979 voru samskonar sérdeildir stofnaðar við sex aðra skóla í Reykjavík, svonefnd skólaathvörf.”

Með framangreindum þrætum var starfseminni á Jaðri sjálfhætt.

Heimild:
-Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, Áfangaskýrsla nr. 2 – Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973, Reykjavík, 31. ágúst 2010.

Jaðar

Jaðar – framtíðarhugmyndir; líkan á Þjóðminjasafninu.

Silungapollur

Í Skýrslu nefndar um “Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973“, þann 31. ágúst 2010 má lesa eftirfarandi:

Gunnar Thoroddsen

Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri 1949.

“Hinn 1. júlí 1950 hóf Reykjavíkurbær starfsemi vistheimilis á Silungapolli sem staðsett var skammt frá Suðurlandsvegi í nágrenni Reykjavíkur. Þar átti Barnasumardvalarfélag Oddfellow húsnæði sem það hafði reist árið 1930 og þar sem það starfrækti sumardvalarheimili fyrir börn. Á hverju sumri dvöldu á vegum Oddfellow 40-60 börn á Silungapolli í 8-10 vikur en árið 1943 fékk Rauði kross Íslands afnot af húsnæðinu og rak þar sumardvalarheimili fram til ársins 1949. Borgarstjóri ritaði bréf til Barnasumardvalarfélags Oddfellow í september 1949 og spurðist fyrir hvort hægt væri að fá húsnæði þeirra að Silungapolli til afnota og þá með hvaða skilmálum enda hefði Reykjavíkurbær „sífellt aukna þörf fyrir húsnæði handa börnum sem ráðstafa [þyrfti] af hálfu hins opinbera.“ Stjórn félagsins tók vel þeirri málaleitan og bauðst til að semja um afnot hússins fyrir vistheimili fyrir börn en félagið áskildi sér rétt til að „geta haft allt að 60 veikluð börn í sumardvöl að barnaheimilinu, hvort sem sú starfsemi [yrði] rekin á vegum Barnasumardvalarfélags Oddfellowa eða á vegum R.K.Í. [Rauða kross Íslands].“ Þegar í kjölfarið ritaði borgarstjóri barnaverndarnefnd Reykjavíkur og óskaði eftir áliti nefndarinnar á málinu. Á fundi hennar hinn 5. október 1949 var bréf borgarstjóra Reykjavíkur lagt fram og af því tilefni gerði nefndin hlé á fundi sínum og fór og skoðaði húsakynni og aðra aðstöðu á Silungapolli. Að því loknu var fundi framhaldið og eftirfarandi samþykkt gerð: „Nefndin mælir eindregið með því, að húsið verði tekið á leigu með það fyrir augum, að þar verði rekin ársstarfsemi fyrir 25-30 börn, einnig telur nefndin mögulegt, að þar sé rekin sumardvalarstarfsemi fyrir allt að 60 börn.“

Silungapollur

Silungapollur.

Samningur milli Reykjavíkurbæjar og Oddfellow var undirritaður hinn 24. mars 1950 og var hann til 15 ára. Reykjavíkurbæ var látin í té afnot af húseign félagsins við Silungapoll í þeim tilgangi að bærinn ræki þar vistheimili allt árið um kring fyrir börn til allt að sjö ára aldurs. Félagið gat krafist þess að bærinn tæki til sumardvalar allt að 60 börn til viðbótar, þriggja til sjö ára gömul, eftir ákvörðun félagsins eða annarra aðila í umboði þess. Afnot fasteignanna voru veitt án endurgjalds en á hinn bóginn skyldi bæjarsjóður láta gera allar þær breytingar og endurbætur er nauðsyn krefði vegna heimilishaldsins á sinn kostnað, m.a. að tengja fasteignirnar við rafveitukerfi bæjarins, leggja fullnægjandi hitunarkerfi og endurbæta vatns- og skolpleiðslur. Allar endurbætur, viðbætur og breytingar á eignum og innanstokksmunum voru kvaðalaus eign Barnasumardvalarfélags Oddfellow að samningstíma loknum. Þá var bæjarsjóði skylt að kosta allt nauðsynlegt viðhald eignanna, greiða af þeim öll opinber gjöld og vátryggja hús og innanstokksmuni gegn eldsvoða.

Silungapollur

Silungapollur.

Silungapollur var þriðja vistheimilið sem Reykjavíkurbær stofnsetti á skömmum tíma. Árið 1945 hófst starfsemi á Kumbaravogi við Stokkseyri sem var vistheimili fyrir munaðarlaus börn og börn sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður. Heimilið var ætlað 20 börnum af báðum kynjum á aldrinum 7-14 ára. Starfsemin á Kumbaravogi fluttist að Reykjahlíð í Mosfellsdal árið 1956 eins og nánar er rakið í kafla 1 í VI. hluta skýrslunnar. Í október 1949 tók vöggustofan að Hlíðarenda til starfa. Þar var rúm fyrir 22 börn á aldrinum 0-18 mánaða og Silungapollur var ætlaður fyrir allt að 30 börn á aldrinum 3-7 ára. Um þessi tímamót segir í ársskýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur fyrir árið 1950: “Hefur því nefndin getað fullnægt að mestu þörfum þeirra, sem erfitt hafa átt, ef um góð börn hefur verið að ræða, en afbrotabörnin hafa mátt eiga sig og sýkja út frá sér, en samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna, ber ríkissjóði skylda til að láta reisa hæli fyrir slík börn, þegar fé er veitt til þess í fjárlögum, en það hefur ekki verið gert enn”.

Silungapollur

Silungapollur.

Eins og kveðið var á um í samningi Reykjavíkurbæjar og Barnasumardvalarfélags Oddfellow komu börn til sumardvalar á Silungapoll hvert ár. Sumardvölin var á vegum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og að jafnaði komu um 60 börn til tveggja mánaðadvalar. Fyrir á Silungapolli voru börn sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur ráðstafaði á heimilið og yfir hásumarið var heildarfjöldi barna því oft um 90-100 börn. Til að mæta þessu var starfsmönnum fjölgað tímabundið og voru 10-12 starfsstúlkur ráðnar yfir sumarið til viðbótar við þær sem fyrir voru en fastir starfsmenn voru að jafnaði 13 talsins. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafði á sínum tíma lýst sig samþykka þessu skipulagi en á fundi nefndarinnar hinn 4. maí 1960 var á hinn bóginn eftirfarandi bókað: „Af gefnu tilefni vill barnaverndarnefnd Reykjavíkur lýsa því yfir að hún telur mjög óheppilegt að á Silungapolli séu samtímis sumardvalarbörn og börn þau er þar dvelja yfir árið.“ Skömmu síðar ritaði Þorkell Kristjánsson fulltrúi nefndarinnar svohljóðandi minnisblað: “Á Silungapolli dvelja 30 börn allt árið á vegum Reykjavíkurbæjar. Þar eru aðeins vistuð börn, sem brýna þörf hafa fyrir vist og vegna þess að heimilin geta ekki látið börnunum í té næga aðhlynningu einhverra hluta vegna.
Helstu ástæður fyrir ráðstöfun barna á barnaheimilið eru: Vanhirða, heilsuspillandi húsnæði, fátækt, veikindi, drykkjuskapur, hrottaskapur, munaðarleysi og önnur óholl uppeldisskilyrði. Barnaverndarnefnd hefur mestu ráðið um val barna á heimilið”.

Silungapollur

Silungapollur.

Mánuðina júlí og ágúst hefur Reykjavíkurdeild R.K.Í. 60 börn á Silungapolli. Ráðstöfun þessa tel ég mjög óheppilega, naumast mannlega gagnvart umkomulausum börnum og mun ég hér á eftir gera grein fyrir þessari skoðun minni.
1. Leik og föndurpláss langdvalarbarna er tekið fyrir svefnstofur handa sumardvalarbörnum.
2. Útiskáli, sem annars er ætlaður fyrir leiki barna í slæmum veðrum, er notaður til að geyma í 60 rúmstæði, dýnur og annað, er þarf til afnota fyrir sumardvalarbörnin. Skáli þessi er því notaður til geymslu 10 mánuði ársins.
3. Sumarbörnin eru þess valdandi, að ekki er hægt að sýna ársbörnunum eins góða umhyggju þessa tvo mánuði sem aðra og er það allmikið áfall fyrir börn, sem ekki eiga kost á því, að njóta móðurhlýju svo mánuðum eða árum skiptir.
4. Heimsóknir falla niður meðan sumardvalir standa, en heimsóknir umhyggjusamra skyldmenna er þeim andleg nauðsyn.
5. Venjulega er óyndi í sumardvalarbörnum fyrstu kvöldin eftir að þau koma, en þau lagast fljótt vegna þess að þau vita, að aðeins er um stuttan dvalartíma að ræða. Þetta er ekki langdvalarbörnunum sársaukalaust, þegar nýkomnu börnin eru að æpa á mömmu og pabba, sem hin eiga annaðhvort ekki til eða eru dæmd til að vera fjarvistum við. Þegar fer að líða á dvalartíma sumarbarna fara þau að tala um, að nú séu þau að fara heim til mömmu og pabba. Hvernig er þá líðan þeirra barna, sem eftir verða þarna, sem engar mæður eiga, eða veikar mæður og verða að dvelja á barnaheimilinu ófyrirsjáanlegan tíma? Margt fleira mætti telja, sem mælir á móti því að reka á Silungapolli árs- og sumarheimili og hæpið er að slíkt geti staðist ef hugsað er um velferð barnanna.

Silungapollur

Silungapollur.

Í febrúar 1961 afhenti Þorkell Kristjánsson borgarstjóra afrit af ofangreindu minnisblaði og lýsti borgarstjóri sig „mjög sammála þeim umræðum, sem þar [komu] fram […]“. Í kjölfarið fól hann Guðmundi Vigni Jósefssyni formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Jónasi B. Jónssyni fræðslustjóra að athuga hvort hægt væri að koma sumardvalarbörnum fyrir á öðrum stað. Leiddi þetta til þess að vistheimilamál borgarinnar voru tekin til endurskoðunar en um vorið 1961 fékk Jónas B. Jónsson þá Símon Jóh. Ágústsson prófessor og Jónas Pálsson forstöðumann Sálfræðideildar skóla til að taka til nýrrar athugunar tillögu barnaheimilanefndar frá árinu 1957 og hélt Jónas nokkra fundi með þeim ásamt formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur um málið á meðan álitsgerðin var í vinnslu.

Silungapollur

Silungapollur.

Álitsgerð Símonar Jóh. Ágústssonar og Jónasar Pálssonar um vistheimili og barnaverndarmál í Reykjavík var fullgerð í júní 1961. Um Silungapoll segir í álitsgerðinni: “Forstöðukona Silungapolls og barnaverndarnefnd Reykjavíkur eru sammála um, að ekki sé fært að reka barnaheimilið þar áfram öllu lengur með sama fyrirkomulagi og verið hefur undanfarin ár, þ.e. að hælið sé jafnframt rekið sem sumardvalarheimili á sumrin. Kemur þá tvennt til greina: a) að leggja niður sumardvalarstarfsemina og ársheimilið verði rekið áfram með sama sniði og áður, eða b) að ársstarfseminni verði fengið annað húsnæði. Allir virðast vera sammála um, að húsið á Silungapolli sé af ýmsum ástæðum (eldhætta, kuldi, herbergjaskipun) óhentugt til ársstarfsemi og ekki til frambúðar”.
Ennfremur bentu þeir á að ef leggja ætti niður starfsemina á Silungapolli þá þyrftu tvö vistheimili sem þeir höfðu gert tillögur um að vera til staðar, þ.e. annars vegar nýbygging á lóð vöggustofunnar á Hlíðarenda fyrir börn á aldrinum 1½-3 ára og hins vegar upptökuheimili fyrir 20-30 börn á aldrinum 3-7 ára. Lögðu þeir því til að framkvæmdir við þessi heimili skyldu hafa forgang og þeim yrði lokið innan tveggja ára. Á grundvelli álitsgerðarinnar gerði Jónas B. Jónsson tillögur að byggingu barnaheimila í Reykjavík næstu árin og sendi borgarstjóra. Lagði Jónas til að á árinu 1962 yrði veitt 2 milljónum króna til byggingar uppeldisheimilis fyrir 30-40 börn á aldrinum 3-7 ára. Bygging skyldi hafin árið 1962 og henni lokið vorið 1963 og vistheimilið að Silungapolli þá lagt niður og „aðeins höfð þar sumardvalarstarfsemi á vegum R.K.Í. eða annarra aðila.“ Sumarið 1963 kom enn fram á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur andstaða við sumardvalir barna á Silungapolli. Þá lét Gyða Sigvaldadóttir, fyrrverandi forstöðukona á Silungapolli og þáverandi nefndarmaður í barnaverndarnefnd Reykjavíkur, færa til bókar að hún áteldi að börn væru enn látin á Silungapoll til sumardvalar „þrátt fyrir að dvöl þeirra þar verði að teljast á allan hátt neikvæð fyrir þau börn, sem þar eru að alast upp.“

Jónas B. Jónsson

Jónas B. Jónsson.

Í nóvember 1962 voru að nýju settar fram tillögur um vistheimilamál í Reykjavík, að þessu sinni af þeim Jónasi B. Jónssyni og Jónasi Pálssyni. Þeir settu m.a. fram tillögur um að byggt yrði upptöku- og vistheimili fyrir 30 börn á aldrinum 3-16 ára, vistheimili fyrir 12-16 börn á aldrinum 2-7 ára og að keypt yrði íbúð fyrir fjölskylduheimili fyrir fimm börn, fjögurra ára og eldri. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók tillögurnar til umræðu á fundum nefndarinnar í febrúar 1963 og sendi borgarstjóra álitsgerð í mars 1963. Taldi barnaverndarnefnd að brýnust væri þörfin fyrir upptöku- og vistheimili fyrir börn á aldrinum 3-16 ára og jafnframt að gerð yrði tilraun með að starfrækja fjölskylduheimili. Í næsta áfanga taldi nefndin að nauðsyn væri á að reisa heimili fyrir 2-7 ára börn í stað þess sem þá var rekið að Silungapolli „við lélegan og óhagstæðan húsakost.“ Til nánari skýringar við ályktun nefndarinnar sagði: “Í þriðja lið ályktunarinnar er talið, að brýnust þörf sé fyrir vistheimili eða upptökuheimili. Er þá gert ráð fyrir að þetta heimili verði fyrst um sinn rekið jöfnum höndum sem vistheimili og upptökuheimili. Er slíkt heimili nú mjög aðkallandi, þar sem þau heimili, sem nú eru rekin, eru oftast yfir setin, en jafnvel á einni viku getur þurft að ráðstafa mörgum börnum, sem í rauninni er ekkert pláss fyrir. Rétt þykir að taka fram, að ekki er talið, að þetta heimili geti leyst af hólmi barnaheimilið að Silungapolli, sem þó er mikil þörf á að byggja upp. Er ekki talið fært að leggja það heimili niður, nema annað heimili komi í staðinn, fyrir þau börn, sem þar dvelja, og er lagt til, að það verði reist í næsta áfanga”.
Samkvæmt áætlun um byggingu vistheimila árin 1963-1968 sem fylgdi tillögunum og umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur var gert ráð fyrir að byrjað yrði á upptökuheimili við Dalbraut árið 1963 og því lokið árið 1964, því næst að fjölskylduheimili yrði byggt eða keypt árið 1965 og að árið 1966 hæfist bygging vistheimilis fyrir 12-16 börn á aldrinum 2-7 ára. Því ætti að vera lokið árið 1967 og kæmi þá í staðinn fyrir Silungapoll.

Silungapollur

Á Silungapolli.

Í samningi Reykjavíkurborgar og Barnasumardvalarfélags Oddfellow um afnot borgarinnar af Silungapolli var tiltekið að hann rynni út 1. nóvember 1964. Í nóvember 1962 ritaði stjórn félagsins bréf til fræðslustjóra Reykjavíkur og bauð eignina til kaups.
Fræðslustjóri mælti með því við borgarstjóra að eignin yrði keypt en lagði einnig áherslu á að húsnæðið væri óhentugt sem is og því væri réttast að flytja starfsemi vistheimilisins annað en nota Silungapoll áfram sem sumardvalarheimili á vegum borgarinnar. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur hinn 8. apríl 1965 var eftirfarandi tillaga Gyðu Sigvaldadóttur samþykkt: „Þar sem Reykjavíkurborg hefur keypt barnaheimilið Silungapoll og þar með létt af þeirri kvöð, að taka til sumardvalar börn á vegum R.K.Í., vill barnaverndarnefnd fara þess á leit við hlutaðeigandi aðila, að hún fái til ráðstöfunar öll þau pláss, sem þar er um að ræða enda ber til þess brýna þörf.“ Nokkuð dró úr fjölda sumardvalarbarna á Silungapolli á fyrri hluta sjöunda áratugarins, t.d. voru sumardvalarbörn á vegum Rauða krossins 35 árið 1962 og 20 árið 1964. Frá og með sumrinu 1965 lögðust sumardvalir á vegum félagsins á Silungapolli af. Eftir það ráðstafaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur alfarið börnum á Silungapoll.

Silungapollur

Á Silungapolli.

Ekkert varð af því að hafist yrði handa við framkvæmdir við vistheimili sem leysa myndi Silungapoll af hólmi, líkt og gert hafði verið ráð fyrir í áætlun um byggingu vistheimila árið 1963. Á hinn bóginn tók til starfa árið 1965 á vegum borgarinnar fjölskylduheimili að Skála við Kaplaskjólsveg sem ætlað var fyrir allt að átta börn sem ráðstafa þyrfti til lengri tíma. Þá hófust framkvæmdir við upptökuheimili Reykjavíkurborgar við Dalbraut árið 1963 og snemma árs 1966 tók það að nokkru til starfa í þeim hluta byggingarinnar sem þá var tilbúinn. Fullbúið skyldi heimilið á Dalbraut rúma 45 börn og átti þar að vera athugunarstöð fyrir börn og unglinga, áður en þeim var ráðstafað annað auk þess sem þar skyldu vistuð börn sem koma þyrfti fyrir um stundarsakir. Árið 1967 hófst undirbúningur að byggingu nýrrar álmu við Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins.

Silungapollur

Silungapollur.

Viðbótarálman átti að rúma 14 börn og var einkum ætluð þeim börnum sem orðin voru of gömul til að dveljast á þeim hluta Vöggustofunnar sem þá var í rekstri. Þá var einu fóstrunarheimili komið á fót árið 1967 og var það hið fyrsta sinnar tegundar. Í ársskýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur fyrir árið 1967 var fyrirkomulagi fóstrunarheimila lýst nánar og í framhaldinu hver stefnan væri í vistheimilamálum: “Samið er við einkaaðila, venjuleg hjón, að þau, gegn ákveðinni þóknun, taki að sér fáein börn í einu til skemmri dvalar. Kostir fóstrunarheimila eru einkum þeir, að vegna smæðar þeirra er hægt að búa börnum persónulegra og heimilislegra umhverfi en á stærri barnaheimilum. Þá er og dvalarkostnaður venjulega nokkru minni. Fyrirhugað er að koma upp fleiri fóstrunarheimilum á næsta ári”.

Silungapollur

Silungapollur.

Með stækkun upptökuheimilisins við Dalbraut, vöggustofunnar á Hlíðarenda og með fleiri fóstrunarheimilum ætti, í fyrirsjáanlegri framtíð, að vera unnt að fullnægja þörf vegna barna, sem vista þarf vegna tímabundinna heimilisástæðna.
Vistunarúrræði barnaverndarnefndar Reykjavíkur urðu fleiri og fjölbreyttari við þessar breytingar. Árið 1969 var ákveðið að leggja starfsemi Silungapolls af í þeirri mynd sem verið hafði. Fram kom í máli Sveins Ragnarssonar þáverandi félagsmálastjóra Reykjavíkur við skýrslutöku hjá vistheimilanefnd að það hefði verið meðal fyrstu verka Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, sem tók til starfa í ársbyrjun 1968 og hafði m.a. alla umsjón með rekstri vistheimila borgarinnar, að taka ákvörðun um að loka skyldi Silungapolli. Í árslok 1969 var rekstri Silungapolls hætt þar sem húsakynni voru ekki lengur talin til þess fallin að halda uppi rekstri þar allt árið. Í tilefni af því gerði barnaverndarnefnd Reykjavíkur félagsmálaráði kunnugt að hún teldi „brýna nauðsyn [vera] á að reka áfram sumardvalarheimili að Silungapolli, nema því aðeins að samskonar aðstaða fyrir sumardvöl barna [yrði] tryggð með öðrum hætti.“ Félagsmálaráð Reykjavíkur ákvað að reka í tilraunaskyni sumardvalarheimili á vegum borgarinnar fyrir 30 börn sumarið 1970. Þrátt fyrir góða reynslu af heimilinu þótti ekki rétt, með tilliti til mikils rekstrarkostnaðar, að halda uppi rekstri sumardvalarheimilis að Silungapolli sumarið 1971.

Silungapollur

Silungapollur.

Við gildistöku laga um vernd barna og ungmenna nr. 29/1947 var í fyrsta skipti með beinum hætti kveðið á um skyldu ríkisvaldsins að setja á stofn og reka vist- eða meðferðarheimili fyrir börn sem ratað höfðu á siðferðilega glapstigu eða framið höfðu lögbrot. Á hinn bóginn voru lög nr. 29/1947 fáorð um skyldu ríkisins, sveitarfélaga eða annarra varðandi stofnun og rekstur vistheimila fyrir börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður. Þrátt fyrir að lög nr. 29/1947 hafi ekki með beinum hætti kveðið á um skyldu tiltekins aðila til að setja á stofn og reka vistheimili fyrir börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður hefur vistheimilanefnd áður lagt til grundvallar að ráða megi af ákvæðum laganna að gert hafi verið ráð fyrir tilvist slíkra stofnana. Mælt var fyrir um skyldu sveitarfélaga til að hafa tiltæk úrræði fyrir þau börn og ungmenni sem vista varð utan heimilis ef orsakir voru annars eðlis en lögbrot eða ungmenni væru á siðferðilegum glapstigum, svo vísað sé til hugtakanotkunar laga nr. 29/1947.

Silungapollur

Á Silungapolli.

Með lögum um vernd barna og ungmenna nr. 53/1966 var í fyrsta skipti beinlínis kveðið á um verkaskiptingu ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar varðandi skyldur þeirra til að setja á stofn og reka vistheimili eða stofnanir fyrir börn. Ríkisvaldinu var samkvæmt 1. mgr. 39. gr. skylt að setja á stofn og reka vist- eða meðferðarheimili fyrir börn sem ratað höfðu á siðferðilega glapstigu eða framið höfðu lögbrot. Í 3. mgr. 39. gr. var kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að setja á stofn og starfrækja stofnanir fyrir börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður. Þá var sérstaklega mælt fyrir um í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 29/1947 og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 53/1966 um heimild menntamálaráðherra til að veita leyfi til reksturs vistheimilis eða annarrar slíkrar uppeldisstofnunar að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Hér að framan er rakinn aðdragandi að stofnun vistheimilisins Silungapolls og þær forsendur sem lágu til grundvallar starfseminni, en ljóst er að um var að ræða stofnun sem starfrækt var af Reykjavíkurborg, en ekki af ríkinu. Þá var stofnunin á tímabilinu 1950-1965 samhliða rekin sem sumardvalarheimili fyrir börn en eins og rakið er í kafla 1 hafði Rauði kross Íslands afnot af heimilinu á sumrin og vistaði að jafnaði um 60 börn hvert sumar á fyrrgreindu tímabili. Það er því afstaða vistheimilanefndar með vísan til fyrirliggjandi frumgagna að telja verði að vistheimilið Silungapollur hafi í merkingu laga nr. 29/1947 og laga nr. 53/1966 haft það hlutverk að vera stofnun þar sem vistuð skyldu börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður, einkum vegna háttsemi, veikinda og vanrækslu foreldra. Á heimilið átti því ekki að vista börn vegna atvika er vörðuðu háttsemi þeirra sjálfra. Þá hafi heimilið einnig verið starfrækt sem sumardvalarheimili. Þær efnisreglur sem fram komu í reglum nr. 31/1963 um sumardvalarheimili hafi því gilt um starfsemi heimilisins frá árinu 1963 er reglur um starfsemi sumardvalarheimila voru fyrst settar hér á landi, þ.m.t. reglur um aðbúnað, fjölda barna, heilbrigðiseftirlit.

Silungapollur

Silungapollur.

Samkvæmt 1. gr. fyrrgreindra reglna um sumardvalarheimili nr. 31/1963 taldist hvert það heimili sumardvalarheimili sem tæki fimm börn eða fleiri til sumardvaldar.
Menntamálaráðherra veitti heimild til stofnunar eða reksturs slíks heimilis að fengnum meðmælum hlutaðeigandi barnaverndarnefndar og héraðslæknis og með samþykki Barnaverndarráðs Íslands. Umsóknum um heimild til að reka sumardvalarheimili skyldu fylgja nánar tiltekin gögn, þ.m.t. umsögn barnaverndarnefndar, heilbrigðisvottorð heimilisfólks, umsögn héraðslæknis um húsakynni, brunahættu o.fl. Samkvæmt því sem að framan er rakið telur vistheimilanefnd að atvik að baki stofnun Silungapolls og starfsemi stofnunarinnar leiði í fyrsta lagi til þeirrar ályktunar að heimilið hafi haft það hlutverk að vera úrræði fyrir barnaverndarnefndir þar sem vistuð skyldu börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður, einkum vegna háttsemi, veikinda og vanrækslu foreldra. Á heimilinu átti því ekki að vista börn vegna atvika sem vörðuðu hátterni þeirra sjálfra, s.s. vegna lögbrota. Vistun slíkra barna var á hendi ríkisins og var gert ráð fyrir því að sérstakar stofnanir hefðu það hlutverk.

Silungapollur

Silungapollur – loftmynd 1957.

Samkvæmt 3. gr. reglna nr. 31/1963 voru gerðar lágmarkskröfur um húsakynni sumardvalarheimila, þar sem m.a. var kveðið á um að drengir og stúlkur skyldu vera í sérherbergi, hvert barn skyldi sofa í sér rúmi, o.fl. Áður en starfræksla heimilisins hæfist skyldi fara fram læknisskoðun á heimilisfólki og starfsfólki og fylgja skyldi heilbrigðisvottorð hverju barni sem tekið yrði til sumardvalar. Ef slíkt vottorð fylgdi ekki bar forstöðumanni umsvifalaust að fá héraðslækni til að kanna heilbrigði þess. Þá var í 5. gr. sérstaklega kveðið á um eftirlitshlutverk barnaverndarnefnda. Bar þeim að fylgjast rækilega með rekstri barnaheimila í umdæmi sínu og heimsækja þau minnst tvisvar á sumri og oftar, ef þörf væri á, til þess að kynna sér sem best aðbúð og líðan barnanna og beita sér fyrir því að bætt yrði þegar úr ágöllum, ef í ljós kynnu að koma. Þá bar viðkomandi barnaverndarnefnd að tilkynna Barnaverndarráði ef hún yrði vör við alvarlegar misfellur í starfi barnaheimilis. Þá var í 7. gr. sérstaklega kveðið á um eftirlitsskyldu Barnaverndarráðs. Skyldi fulltrúi ráðsins a.m.k. einu sinni á sumri koma á sumardvalarheimili sem löggilt hefðu verið, til leiðbeiningar og eftirlits. Skyldi hann kynna sér allan aðbúnað barna á heimilum og gæta þess að fylgt væri í öllu lögum og reglum um barnaheimili.”

Með framangreindum þrætum var starfseminni á Jaðri sjálfhætt.

Heimild:
-Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, Áfangaskýrsla nr. 2 – Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973, Reykjavík, 31. ágúst 2010.

Silungapollur

Silungapollur 2020 – loftmynd.

Breiðholt

Í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur um “Borgarhluta 6 – Breiðholt”, segir m.a. um sögu bæjarins Breiðholts, Breiðholtssel og nágrenni:

Breiðholtsbærinn

Breiðholt
Landamerki Breiðholtsjarðarinnar lágu í vestri, suðri og suðaustri að nágrannajörðunum Digranesi, Hvammkoti (Fífuhvammi) og Vatnsenda, sem tilheyrðu upphaflega Seltjarnarneshreppi en síðar Kópavogshreppi. Í norðri og norðvestri lágu landamerki Breiðholts að jörðunum Bústöðum, Ártúni og Árbæ. Til norðausturs afmarkaðist land Breiðholts af Elliðaánum.
Elstu heimildir um jörðina Breiðholt eru frá 14. öld. Elsta örugga heimildin er skrá frá 1395 yfir jarðir sem Viðeyjarklaustur eignaðist í tíð Páls ábóta. Þó er talið líklegt að jarðarinnar sé getið í eldri heimild, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá 1313, þar sem talað er um jörðina „Holt“, en þar er sennilega átt við Breiðholt.

Breiðholt

Breiðholt og nágrenni – herforingjakort frá 1906.

Vísbendingar eru um að við bæinn hafi verið kirkjugarður og kirkja, en mannabein fundust nokkrum sinnum við jarðrask á bæjarhólnum og í nágrenni hans í lok 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar.
Kirkju í Breiðholti er ekki getið í kirknaskrá Páls biskups um 1200 en af frásögn um jarteikn í Þorláks sögu hins helga frá 1325 að dæma virðist hafa verið þar bænhús eða kirkja sem helguð var heilögum Blasíusi. Hann var verndari nautasmala og svínahirða, tóvinnufólks, vefara, skóara, steinhöggvara og skipasmiða og gott þótti að heita á hann gegn allskyns hálskvillum meðal annars. Frásögnin segir frá því að dag einn hafi Hallur smalamaður Snæbjörns bónda á „Bútsstöðum“ (Bústöðum) komið heim frá fé og fallið í öngvit. Þegar hann rankaði við sér hafði hann misst mál sitt og var mállaus í sjö daga.
Breiðholt
Snæbjörn bóndi hét þá á hinn heilaga Blasíus biskup að smalamaðurinn skyldi ganga í Breiðholt og gefa þangað lýsi ef hann mætti endurheimta heilsu sína, en þegar það dugði ekki til kallaði bóndi til Guð og Þorlák biskup. Litlu síðar sofnaði smalinn og komu þá biskuparnir báðir Blasíus og Þorlákur til hans í svefni. Eftir það vaknaði hann alheill lofandi Guð og hina blessuðu biskupa. Í öðrum heimildum kemur einnig fram að bænhús hafi verið í Breiðholti, en aflagt fyrir 1600. Rústir kirkjunnar og kirkjugarðsins eru nú horfnar, en líklegt er talið að kirkjan hafi staðið fast upp að bæ, jafnvel á eða við sjálfan bæjarhólinn og grafreiturinn umhverfis hana.
Breiðholt varð eign konungs við siðaskipti eins og aðrar jarðir Viðeyjarklausturs og kemur fyrir í Fógetareikningum frá 1547 til 1552. Árið 1580 var jörðin á meðal nokkurra konungsjarða í Skálholtsstifti sem ákveðið var að láta ganga til framfærslu eða stuðnings prestum í tekjurýrum brauðum, eins og kemur fram í opnu bréfi Jóhanns Bochholts lénsmanns til Gísla Jónssonar Skálholtsbiskups frá því ári. Jörðin var þannig afhent kirkjunni og heyrði eftir það undir Víkurkirkju og seinna Dómkirkjuna í Reykjavík.

Breiðholt

Breiðholt – örnefni.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er jörðin sögð lénsjörð fyrir prest sem þjónaði kirkjum á Seltjarnarnesi, honum til framfærslu eða uppihalds. Ekki er getið um að á staðnum hafi þá verið kirkja eða bænhús. Á jörðinni voru þá tveir ábúendur. Á öðrum helmingnum bjuggu hjónin Þórálfur Höskuldsson og Ásta Jónsdóttir og voru þar fimm í heimili. Bústofn þeirra var fjórar kýr, sjö ær, tvær gimbrar, einn sauður veturgamall, sjö lömb og einn foli þrevetur. Á hinum helmingi jarðarinnar bjó Loðvík Jónsson. Hjá honum voru þrír í heimili og bústofninn þrjár kýr, ein kvíga mylk, einn kálfur, þrjár ær, fjögur lömb og eitt hross. Til hlunninda töldust hrísrif, torfrista og stunga, mótaka og lyngrif nokkurt. Engjar spilltust af vatnságangi. Dýrleiki var óviss en landskuld var eitt hundrað sem skiptist jafnt á milli ábúendanna tveggja.
Breiðholt
Seint á 18. öld munu hafa búið í Breiðholti Hjörtur Eiríksson (um 1743-1793) og Rannveig Oddsdóttir (f. um 1744) ásamt börnum sínum, en þau fluttu þaðan 1788 að Bústöðum.
Prestar munu að jafnaði ekki hafa setið í Breiðholti, en þó bjó þar séra Árni Helgason sem var dómkirkjuprestur og biskup á árunum 1814-

Breiðholt

Breiðholt – túnakort 1916.

1825.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Breiðholt lénsjörð, dýrleiki ekki metinn en sýslumaður mat hana á 20 hundruð.
Árið 1856 fékk þáverandi ábúandi í Breiðholti, Árni Jónsson, sérstök verðlaun fyrir jarðabætur.

Á síðari hluta 19. aldar virðist jörðin hafa legið undir miklum ágangi ferðamanna því þá þurftu ábúendur þar oftar en ekki að auglýsa að bannað væri að nota Mjóumýri sem áningarstað eða til beitar, en Mjóamýri var lægðardrag suðaustarlega í landi Breiðholts, vestan undir Vatnsendahvarfi (á þeim slóðum þar sem gatan Jaðarsel liggur nú).

Breiðhol

Breiðholtsbærinn 1916.

Seint á 19. öld bjuggu í Breiðholti hjónin Björg Magnúsdóttir (1847-1930) og Jón Jónsson (1840-1898) ásamt börnum sínum þrettán. Í búskapartíð þeirra var allstórt bú í Breiðholti. Dóttir þeirra, Þóra Petrína Jónsdóttir (1891-1987), hefur sagt frá búskaparháttum, staðháttum og örnefnum í Breiðholti á þeim tíma. Samkvæmt frásögn hennar voru þá um sex til tíu kýr á býlinu, um 200 fjár og sex til átta hross. Einnig voru hross og naut Reykvíkinga tekin í hagagöngu yfir sumarið. Smjör, rjómi og skyr var selt til Reykjavíkur og stundum mjólk. Volg laug var í mýrinni fyrir neðan túnið í Breiðholti og var hella lögð út yfir laugina og þvottur þveginn þar. Mór var tekinn við Engjarnar svokölluðu í Breiðholtsmýri, niður undir Digraneshálsi. Þar þótti góður mór og fengu ýmsir að taka þar mó, m.a. kunningjar úr Hafnarfirði sem annars urðu að brenna mosa. Mikill umferð ferðamanna og gestagangur var í Breiðholti á þessum tíma, t.d. komu þar við bændur austan úr sveitum með fé sitt á leið til slátrunar á haustin og börn úr Reykjavík komu í berjamó.
Skömmu eftir lát Jóns árið 1898 keypti breskur maður, H.A. Payne að nafni, jörðina Breiðholt af kirkjunni fyrir 10.500 krónur, en Björg bjó þar áfram ásamt börnum sínum til ársins 1903. Í borgarhlutanum Breiðholti eru nú þrjár götur nefndar eftir þremur af dætrum Jóns og Bjargar: Maríubakki, Lóuhólar og Þórufell.

Breiðholt
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur Elliðaárnar af H.A. Payne ásamt jörðunum Breiðholti, Árbæ og Ártúni og eignaðist þannig allan veiðirétt í ánum. Breskir veiðimenn munu hafa haldið áfram að leigja Elliðaárnar fram að fyrri heimsstyrjöld en eftir það tóku íslenskir veiðimenn við. Árið 1925 fól bærinn Rafmagnsveitu Reykjavíkur umsjón með Elliðaánum en frá því að Stangveiðifélag Reykjavíkur var stofnað árið 1939 hefur það haft Elliðaárnar á leigu. Við Elliðaárnar er mikið af örnefnum sem tengjast veiðum í ánum.
Efri veiðihús Payne voru á árunum 1937-1940 lánuð Húsmæðrafélagi Reykjavíkur sem hafði þar sumardvalarstað fyrir efnalitlar mæður og börn þeirra en árið 1940 voru þau tekin til afnota af hernámsliðinu. Annað húsanna, líklega styttra húsið sem stóð sunnar og var vörslumannshús, hefur staðið fram yfir 1960 því það er sýnt á korti af svæðinu frá því ári, en líklega hefur það verið fjarlægt skömmu síðar, því það sést ekki á loftmynd.

Búskapur í Breiðholti á 20. öld
Breiðholt
Í upphafi 20. aldar komst jörðin Breiðholt í eigu Reykjavíkurbæjar, eins og áður segir. Með lögum árið 1923 var jörðin svo lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Búskapur var þó áfram stundaður í Breiðholti fram yfir miðja 20. öld.
Þegar bærinn keypti Breiðholt árið 1906 var jörðin leigð til ábúðar Guðna Símonarsyni, sama ábúanda og verið hafði þar, líklega frá því að Björg Magnúsdóttir flutti þaðan 1903, með þeirri kvöð að leggja mætti vatnspípur um landið og að ekki yrði tekinn meiri fénaður í það til hagagöngu en formaður bæjarstjórnar samþykkti.
Breiðholt
Bæjarhús og tún Breiðholtsbæjarins voru mæld upp og teiknuð á kort árið 1916. Á kortinu má sjá að þá stóðu sjö hús í samfelldri bæjarröð á hlaðinu. Húsin stóðu þar sem nú er opið svæði milli húsanna Grjótasels 21 (b. 1979) og Skógarsels 39 (b. 1992). Þar eru sjáanlegar rústir sem eru leifar af síðustu baðstofu eða íbúðarhúsi bæjarins.
Þrjú útihús stóðu sunnan við bæinn, þar sem nú er húsið Grjótasel 21. Fleiri útihús voru ofar í brekkunni austur af bænum, á þeim slóðum þar sem gatan Seljaskógar liggur nú vestan húsanna númer 20-24 við Akrasel. Tún bæjarins voru afmörkuð með túngörðum. Í gegnum hlaðið lá vegur frá nágrannabænum Fífuhvammi innst í Kópavogsdal, sem hélt svo áfram austur að Vatnsendavegi.
Eignin var brunavirt árið 1924 og voru húsin í bæjarröðinni þá enn sjö talsins auk þriggja útihúsa. Syðst í röðinni var geymsluhús eða skemma sem sneri göflum í norður-suður (5,5×3,3 m að stærð,), byggð úr bindingi en með torf- og grjótvegg við norðurgafl.
Breiðholt
Áfastur við austurhlið hennar var geymsluskúr úr sama efni (5,5×1,8 m að stærð,). Norðan við skemmuna var íbúðarhús eða baðstofa sem sneri göflum í vestur-austur (10×5 m að stærð), byggð úr bindingi og klædd utan á hliðum með torfi og grjóti, en stafnar klæddir borðum og járni. Geymslukjallari (1,6 m hár) var undir vesturhluta hennar og við vesturgaflinn var lítill inngönguskúr (sjá myndir 14 og 15). Við norðurhlið baðstofunnar var eldhússkúr (10 x 2,5 m að stærð), byggður úr bindingi með norðurhlið úr torfi og grjóti. Við norðurhlið hans var önnur eldhúsbygging (8×4 m að stærð), byggð úr torfi og grjóti. Eldiviðarhús úr torfi og grjóti (8×3 m að stærð) var við norðurhlið þeirrar byggingar.

Gróðrarstöðin Alaska í Breiðholti

Breiðholt

Breiðholtsfjósið – síðar Gróðrastöðin Alaska.

Jón H. Björnsson landslagsarkitekt (1922-2009), sem stofnaði og rak gróðrarstöðina Alaska við Miklatorg (Vatnsmýrarveg 20) frá 1953, keypti eignina Breiðholt árið 1960 og tók um leið við því leigulandi og erfðafestulandi sem henni fylgdi. Í Breiðholti kom Jón upp annarri gróðrarstöð undir nafninu Alaska og hafði þar jafnframt sumardvalarstað fyrir fjölskylduna. Þá stóðu á landinu íbúðarhúsið og steinsteyptu útihúsin sem byggð höfðu verið á fimmta áratugnum, en auk þess gömul bárujárnsklædd skemma og skúrbygging sem notuð var sem hænsnahús. Af loftmyndum að dæma virðist gamla baðstofan hafa staðið allt fram á síðari hluta áttunda áratugarins.
Jón girti allt svæðið af og flutti þangað alla trjáplönturækt sem hann hafði áður haft í Hveragerði. Þarna hafði Jón viðamikla ræktun og trjáplöntusölu til ársins 1963 en varð þá að gera hlé á rekstri stöðvarinnar vegna mikils tjóns sem varð á ræktuninni vegna vorhrets og var rekstur Alaska þá leigður út í nokkur ár. Eftir að Jón tók aftur við fyrirtækinu árið 1967 rak hann einnig teiknistofu í Breiðholti, í íbúðarhúsinu sem byggt hafði verið á fimmta áratugnum.

Breiðholt

Breiðholt – loftmynd 1957.

Í byrjun áttunda áratugarins missti Jón mikinn hluta landsins þegar ákveðið var að taka Breiðholtsblett I úr erfðafestu vegna skipulags og væntanlegra byggingarframkvæmda á svæðinu. Ræktunarlönd og fyrrum tún sem tilheyrðu Breiðholtsbletti I lentu vestan götunnar Skógarsels við skipulag og uppbyggingu Seljahverfisins á þessum tíma og voru á því svæði (Suður-Mjódd) sem afhent var Íþróttafélagi Reykjavíkur, sem byggði þar seinna upp aðstöðu sína. Eftir þetta færðist rekstur gróðrarstöðvarinnar meira í átt að verslunarrekstri í stað trjáplönturæktunar og árið 1975 innréttaði Jón fjósið og hlöðuna á staðnum sem verslunar- og geymsluhús og var verslun Alaska opnuð þar í nóvember það ár.

Breiðholtssel

Breiðholt

Breiðholtssel – uppdráttur ÓSÁ.

Selið var líklega ekki langt frá gatnamótum Heiðarsels og Hjallasels. Í örnefnaskrá Breiðholts segir: „Neðan við Mjóumýri er svo Selhryggur, sem er að mestu í Fífuhvammslandi, en upp af honum og norðan hans eru Selflatir og Selið. Það hvorttveggja er í Breiðholtslandi.“ „Frá Miðmundahæð og beina línu austur að Markakletti hét Selhryggur …“ . Upp af Selhrygg og norðan hans var Selið og Selflatir. Þóra [Jónsdóttir] man ekki eftir selrústum. Sel og Selflatir voru í Breiðholtslandi … . Selflatir voru á milli Selhryggs og Fálkhóls.“ Færikvíar voru notaðar í Breiðholti og í örnefnalýsingu er frásögn Þóru Jónsdóttur sem sat yfir ásamt systur sinni í mörg sumur: „Hinumegin við Rásina var blettur, þar sem færikvíar voru hafðar. Tæplega fimmtíu ær voru mjólkaðar í kvíunum. Þóra sat hjá mörg sumur með eldri systur sinni. Þær voru með ærnar á ýmsum stöðum, Hörðuvöllum, Kjóavöllum (sem mest voru í Vatnsendalandi) og víðar. Valdir voru beztu blettir, sem völ var á að beita ánum á, og var leyft að fara með þær í annarra lönd í því skyni.“
Breiðholt
Lýsing: Horfið, en greina má rúst á loftmynd af Breiðholti frá árinu 1970, norðan megin við Rásina. Þar má greina þriggja hólfa rúst sem gæti hafa verið selið og líklega sá blettur sem færikvíarnar voru á,
eins og kemur fram í örnefnaskrá.

Heimild:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 6 – Breiðholt, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2021.

Breiðholt

Breiðholtssel – loftmynd 2020.

Leiti

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 1971 um “Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun“. Hér er greinin birt að hluta:

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Allmörg hraun eru í nágrenni Reykjavíkur, en aðeins eitt þeirra hefur þó náð inn fyrir núverandi borgartakmörk. Þetta hraun hefur runnið niður eftir farvegi Elliðaánna og út í Elliðavog, þar sem það endaði í flötum tanga. Á þessum slóðum gengur hraunið undir nafninu Elliðaárhraun, en hefur annars ýms nöfn á ýmsum stöðum, eins og títt er. Jarðfræðilega er heppilegt að kenna hraun við eldvarpið eða eldvörpin, sem það er komið úr, sé þess kostur. Að sjálfsögðu felur slíkt ekki í sér að gömul og þekkt örnefni í hrauninu skuli felld niður. Þetta er aðeins til hægðarauka að nota eitt og sama nafn um sama hraunið. Nafnið er þá aðeins notað sem jarðfræðilegt hugtak, ekki sem nýtt örnefni.

Fyrstu rannsóknir
Leitarhraun
Ekki er mér kunnugt um, að neinar rannsóknir hafi verið gerðar á því, hvaðan hraun þetta er komið, fyrr en sumarið 1954, að við Tómas Tryggvason unnum að gerð jarðfræðikorts þess af Reykjavík og nágrenni, sem út kom 1958 (Tryggvason og Jónsson 1958).
Það kom þá í minn hlut að kortleggja suðurhluta svæðisins, og þá rakti ég þetta hraun alla leið austur fyrir austurtakmörk kortsins. Áður hafði mér verið sagt, að það væri komið sunnan af svæðinu við Kóngsfell. Þorvaldur Thoroddsen hefur auðsjáanlega gert sér gxein fyrir að hraun hafi runnið ofan frá Bláfjöllum niður hjallana og niður að Rauðhólum, en hann telur líklegast að Elliðaárhraunið sé úr Rauðhólum komið (Ferðabók I, bls. 123—124, Rvík 1958).

Fossvallaklif

Fossvallaklif.

Einn hluti þessa hrauns hefur öðrum fremur vakið athygli vísindamanna fyrir löngu, en það eru Rauðhólar við Elliðavatn. Þeir hafa verið rækilega skoðaðir af ýmsum, þó ekki væru menn á eitt sáttir varðandi uppruna þeirra. Voru þeir ýmist taldir raunverulegir eldgígir eða gervigígir, án þess að gerð væri grein fyrir á hverju niðurstaðan væri byggð. Einn af þeim fyrstu, sem skoðaði Rauðhóla, var Frakkinn Eugéne Robert, sem var jarðfræðingur í leiðangri Paul Gaimards 1835—1836. Telur hann hólana gervigígi, en getur ekki um, hvaðan hraunið sé komið. Skýring hans virðist þó hafa fallið í gleymsku í meira en 100 ár. Síðan hafa margir um þetta mál fjallað, og skoðanir verið skiptar, hvað snertir uppruna hólanna.
Þegar Þorleifur Einarsson (1960) vann að jarðfræðirannsóknum á Hellisheiði og á svæðinu austan við Bláfjöll, athugaði hann forna eldstöð suðaustan undir Bláfjöllum, skammt sunnan við Ólafsskarð. Þessir gígir nefnast Leitin, og komst Þorleifur að þeirri niðurstöðu, að þar væru upptök hraunsins og nefndi það því Leitahraun.

Leið hraunsins rakin

Leitarhraun

Leitarhraun – uppdráttur.

Ekki verður Leitahraun hér rakið lengra en austur að Draugahlíðum, en þaðan má rekja það óslitið alla leið út í Elliðavog. Það hefur fallið í þröngum fossum niður af Bolaöldum og Vatnaöldum, sem hvort tveggja eru misgengishjallar, en breiðst nokkuð út þar á milli, og niður á Sandskeið. Ekki verður séð, hvað langt það nær þar til suðurs, því sandlög hylja það, en líklegt virðist, að það sé undir svifflugvellinum a.m.k. Sandlög þessi eru framburður úr gili, sem liggur suður með Bláfjöllum að vestan. Tvö önnur hraun hafa og komið þar sunnan að og er hið eldra þeirra nyrzt líka hulið sandlögum úr þessu sama gili.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Mót þess hrauns og Leitahraunsins eru hulin og því ekki vitað, hvort er eldra. Norðurtakmörk Leitahrauns eru hins vegar nokkuð ljós á þessum slóðum. Það hefur fiætt um sléttuna alla norður með Vatnaási langleiðina norður að Stangarhól og Litla-Lyklafelli. Frá Sandskeiði hefur hraunið svo runnið áfram vestur eftir og myndar víðáttumikla og hallalitla hraunsléttu norðvestur af Fóelluvötnum. Er þessi hraunslétta á kortinu nefnd Mosar. Þegar hraunflóðið var búið að fylla þessa lægð hæðanna á milli, hefur það á ný fallið um þrönga farvegi, þar sem það er sums staðar aðeins fáir metrar á breidd og breiðist ekki út svo teljandi sé, fyrr en það kemur á sléttan flöt, Fossvelli, austan við Lækjarbotna. Þar breiðist það nokkuð út á ný, en suðurtakmörk þess eru hulin yngra hrauni, sem komið hefur sunnan að um skarðið milli Sandfells og Selfjalls. Það hraun endar í hárri brún rétt norðan við beygjuna á þjóðveginum, þar sem hann liggur upp úr Lækjarbotnum. Mun brekka sú heita Fossvallaklif.

Tröllabörn

Tröllabörn – gervigígar.

Hraunið, sem þarna endar og er svo áberandi, hef ég nefnt Hólmshraun II. Augljóst er af því, sem hér er sagt, að Hólmshraun II er yngra en Leitahraun. Fram af áður nefndri brún hefur Leitahraun fallið út á sléttar grágrýtisklappir rétt norðvestur af gamla gististaðnum Lögbegi. Þar er hraunið sums staðar aðeins 0,6—0,75 m þykkt (1. mynd). Má af því marka, hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið. Í þessu sambandi má geta þess, að ég lít svo á, að hér hafi verið um dyngjugos að ræða, og að líta beri á Leitin sem dyngju. Á áðurnefndum stað klofnar hraunið í tvær kvíslar, fellur meginkvíslin vestur, en hin norður með Fossvallaklifi og þekur þá sléttu, sem nú nefnist Nátthagamýri, en við norðurrönd hennar er grunn tjörn, Nátthagavatn. Þarna hafa í hrauninu myndazt nokkrir gervigígir, lágir og lítt áberandi. Hafa þarna verið tjarnir, þegar hraunið rann, og bólstraberg hefur myndazt þar. Megin hraunstraumurinn hélt áfram vestur og breiddist út um sléttlendið vestan við Lækjarbotna hæða á milli. Norðurtakmörkin eru víðast hvar greinileg, en suðurtakmörkin víðast hulin yngri hraunum og er svo allt vestur að Gvendarbrunnum. Þessi hraun eru Hólmshraunin og eru þau fimm að tölu.

Hómsborg

Hólmsborg í Hólmshrauni II.

Skammt vestan við Lækjarbotna koma fyrir gervigígir í hrauninu, eru þar nokkrir mjög snotrir katlar úr hraunkleprum báðum megin við þjóðveginn. Þeir eru nefndir Tröllabörn. Hraunsléttan er svo nær mishæðalaus, þar til kemur nokkuð vestur fyrir Geitháls, en þar eru nokkrir gervigígir við norðurrönd hraunsins í röð, sem nær vestur undir Hólm. Lítið eitt vestar hefur hraun sunnan að runnið því sem næst þvert yfir Leitahraun. Liggur vesturrönd þess hrauns fast að Gvendarbrunnum. Hraun þetta er mjög þunnt. Það hef ég nefnt Hólmshraun I og er það elzt þeirra hrauna. Þau eru komin af svæðinu við Kóngsfell.
Rauðhólar
Nokkru vestar eru svo Rauðhólar eða réttara sagt, það sem eftir er af þeim. Hefur hraunið þar án efa runnið út í vatn og því hafa gervigígarnir myndazt. Fyrir vestan Rauðhóla er hraunið slétt og takmarkar Elliðavatn að norðan og austan, þ.e.a.s. eins og vatnið var áður en Elliðaárnar voru virkjaðar. Það hefur svo runnið um þröngt sund norðan við Skyggni. Myndast svo enn ein hraunsléttan í því og nær hún norður með Selási að vestan. Nyrzt á því svæði þrengist enn á ný um hraunið, og er það mjög mjótt, þar sem vatnsveitubrúin nú er. Svo beygir það vestur, fellur fram af allhárri brún vestan við Árbæjarstíflu, beygir loks til norðurs og endar í flötum tanga í Elliðavogi, nálægt því 300 m norðan við þjóðveginn. Hefur það þá runnið því sem næst 28 km leið frá eldvarpinu.

Rauðhólar

Rauðhólar

Rauðhólar.

Heita má að hin forna fegurð og töfrablær Rauðhólanna sé nú horfinn, og ekki var með öllu ástæðulaust að lítil stúlka, sem fór þar um fyrir nokkrum árum, spurði, hvort þetta væru Rauðholur. Þar standa nú eftir gjall- og hraunstabbar, sem þó eru harla fróðlegir. Oft hef ég komið í þessa sundurrifnu Rauðhóla, en sjaldan farið þaðan án þess að hafa séð eitthvað nýtt.
Það eru tiltölulega fáir staðir til, þar sem skoða má innviðu gervigíga og er nokkurs virði að hafa slíkan stað nálægt höfuðborginni og hinum ört vaxandi háskóla. Ekki þarf að efa, að hraunið hefur þarna runnið út í vatn, og að það er megin orsök myndunar gervigíganna. Hitaveita Reykjavíkur lét bora rannsóknarholu í Rauðhólum 1962. Var þá borað í gegnum Leitahraun, sem á þessum stað reyndist um 7 m þykkt. Undir því var fyrst leirlag um 1 m þykkt, þar eftir jökulurð og loks grágrýti. Ekki náðist sýnishorn af þessum leir, en líklegt þykir mér, að um kísilgúr hafi verið að ræða og sé það botnset hins forna vatns. Þykk lög af því efni eru bæði í Elliðavatni og Vífilsstaðavatni og eru raunar í flestum ef ekki öllum stöðuvötnum hérlendis, þar sem hraun liggja að.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Víða má í gjallstáli Rauðhóla sjá gulnaðan, stundum rauðbrenndan leir, bæði innan í brotnum hraunkúlum og sem laus stykki í gjallinu. Þetta er kísilgúr, sem án efa á rætur að rekja til vatnsins, sem hraunið forðum rann út í og fyllti. Svona má og sjá í gervigígum víða um land, t.d. í Landbroti, við Mývatn og í Aðaldal. Þetta eru ferskvatnsmyndanir.
Fróðlegt er að sjá þarna göng eftir gas, vafalaust að mestu leyti vatnsgufu, og hversu þau eru frábrugðin gasgöngum í eldstöðvum. Í eldstöðinni eru gasgöngin brynjuð innan af hraunglerungi, semer endurbrætt hraun. Slíkt ætti að jafnaði síður að koma fyrir í gervigígum, enda þótt það sé sennilega til. Gæti þetta verið nokkur hjálp við að greina gervigíg frá eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Leitahraun er dæmigert helluhraun. Það hefur verið afar þunnfljótandi, runnið næstum eins og vatn, og vafalaust verið mjög heitt, þegar það rann. Dæmi, sem sanna þetta, má víða sjá í hrauninu. Áður er á það drepið, hvað þunnt það er, þar sem það hefur runnið út á grágrýtisklöppina við Lækjarbotna. Á nokkrum stöðum þar fyrir austan, þar sem vatn hefur grafið inn undir hraunröndina, má sjá hvernig það hefur runnið utan um grágrýtisbjörg og fyllt svo að segja hverja smugu. Loks má geta þess, að nokkuð er um hella í þessu hrauni, þó ekki séu þeir stórir í þeim hluta þess, sem hér um ræðir. Nokkrir eru austur á Vatnaöldum, rétt norðan við gamla þjóðveginn.

Aldur hraunsins

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar og Elliðavatn fjær.

Það eru nú bráðum 20 ár síðan fyrst var gerð aldursákvörðun á mó, sem Jóhannes Áskelsson (1953) fann undir Leitahrauni rétt ofan við brúna yfir Elliðaár. Samkvæmt C1 4 aldursákvörðun reyndist mórinn 5300 ± 340 ár.
Sumarið 1965 lagði Vatnsveita Reykjavíkur nýja vatnsæð til borgarinnar. Var þá sprengdur skurður í gegnum Leitahraun suður og vestur af Elliðaárstöðinni. Við norðurjaðar hraunsins nær beint suður a£ stöðvarhúsunum var hraunstorkan svo þunn, að hún brotnaði undan þungri jarðýtu. Kom þá í ljós, að undir hrauninu var mýri, sem vaxin hefur verið birkikjarri áður en hraunið rann. Mátti þarna tína búta af birkihríslum, sem nú voru orðnar að viðarkolum. Þótti mér rétt að nota þetta efni til nýrrar aldursákvörðunar, og var hún framkvæmd af dr. Ingrid U. Olsson á rannsóknarstofu háskólans í Uppsala í Svíþjóð (U-632). Sú aldursákvörðun sýndi, að gróðurleifarnar eru 4630 ± 90 ára, þ.e. töluvert yngri en samkvæmt fyrri aldursákvörðun. Hefur hraunið því runnið um 2680 árum fyrir okkar tímatal eða á þeim sömu árum og egypzkir verkamenn strituðu við byggingu hins mikla Cheops pýramída á Egyptalandi austur.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.11.1971, Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun – Jón Jónsson, bls. 49-63.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.

Rauðarárholt

Í Sjómannadagsblaðinu árið 2013 er m.a. fjallað um Reykjavíkurvita:

Engeyjarviti

Engeyjarviti.

“Allt frá því að þéttbýlismyndun hófst í landinu hefur Reykjavík verði í hópi stærstu verbúða landsins og er það enn. Sker og eyjar á Engeyjarsundinu hafa gegnum árin og aldirnar gert sjómönnum erfitt fyrir. Vitar og innsiglingarmerki hafa því skipt sjófarendur miklu máli.
Sögu Reykjavíkurvita, sem reyndar hefur gengið undir mörgum nöfnum, má rekja allt til ársins 1870. Þá kom Hafnarnefnd Reykjavíkur því til leiðar að sett var upp ljósker við Batteríið við Arnarhól, á svipuðum slóðum og Sænska frystihúsið reis síðar. Sama ár var ljósker sett upp í Engey.

Batteríið

Reykjavík – Batteríið lengst til vinstri.

Ljóskerið á Batteríinu þjónaði sæfarendum til ársins 1897 en þá ákvað Hafnarnefnd Reykjavíkur að reisa myndarlegan innsiglingarvita austarlega í Skuggahverfinu, á Helgastöðum við Lindargötu 65, skammt austan Bjarnaborgar. Vitatorg og Vitastígur draga nöfn sín af vitanum.

Rauðarárholt

Rauðarárholt 1946. Vatnsgeymarnir og vitinn.

Danska vitamálastjórnin teiknaði Skuggahverfisvitann og útvegaði þau tæki sem vitinn þarfnaðist. Vitinn var ferstrendur tveggja hæða turn. Jarðhæðin var hlaðin úr steini en efri hæðin var úr timbri, klædd listaþili. Olíugeymsla var á neðri hæð vitans en ljóshús og varðstofa á efri hæð. Á neðri stafninum var gluggi ljóshússins og járnsvalir framan við.
Í Skuggahverfisvitanum var í upphafi steinolíuljós, spegill og snúningstæki sem tók ljósið af með vissu millibili. Þar voru mislit ljóshorn, grænt, hvítt og rautt, sem voru samstillt ljóshornum Gróttuvita.

Sjómannaskólinn

Sjómannaskólinn – vitinn.

Árið 1911 var vitinn gasvæddur en þá fékkst skýrara ljós sem auðveldara var að greina frá öðrum ljósum bæjarins. Spegill vitans var fluttur í Engeyjarvita en snúningstækið í Arnarnesvita. Árið 1925 var vitinn endurbættur að nýju. Þá voru sett upp ný gasljóstæki með glóðarneti.
Eftir því sem byggðin í Reykjavík færðist austar á bóginn varð erfiðara að greina vitaljósið og því var Skuggahverfisvitinn lagður niður. Árið 1927 tók við annar viti, sá var uppi á vatnstönkunum á Rauðarárholti og var starfræktur til árisins 1944.
Ljóst var að finna þurfti innsiglingarvitanum varanlegan stað og þótti kjörið að koma honum fyrir í turni Sjómannaskólans sem þá var í undirbúningi. Þá var sagt að vitinn væri kominn á topp æðstu menntastofnunar sjómanna og mundi þaðan lýsa sjómönnum örugga leið í höfn og vera um leið yndisauki fyrir íbúa Reykjavíkur og stöðug áminning um mikilvægi sjómanna fyrir land og þjóð.
Vitinn er enn í Sjómannaskólanum en hann nýtist ekki sem skyldi því sjómenn sjá hann ekki lengur, háa turnhýsið við Höfðatorg byrgir þeim sýn. Og þá er spurning hvort nýr viti verði reistur í Reykjavík í framtíðinni.”

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 30.05.2013, Reykjavíkurviti, bls. 34.

Reykjavíkurviti

Skuggahverfisviti í Reykjavík var geislaviti sem ætlað var að lýsa leiðina inn á leguna við Reykjavík.

 

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar (Móskarðahnúkar) eru hnúkaröð fjögurra tinda og tengir saman Esju og Skálafell. Þeir eru að mestu úr líparíti. Austasti tindurinn er hæstur 807 metrar.

Tómas Einarsson

Tómas Einarsson (1929-2006).

Tómas Einarsson lýsti gönguleiðinni á “Móbergshnúka” í Morgunblaðinu árið 1982:
“Móskarðshnúkar nefnist sá hluti Esjunnar, sem austast liggur, en milli þeirra og Skálafellsins er Svínaskarð. Hnúkarnir sjálfir eru auðþekktir vegna lits og lögunar. Hinn ljósbleiki litur vekur athygli vegfaranda

ns en blekkir oft á tíðum því það er eins og sólin skíni alltaf á Móskarðshnúka, þótt veðurstofan segi annað.
Hnúkarnir eru fjórir en milli þeirra eru grunn skörð. Þunnur klettahryggur tengir þá við meginfjallið en hann liggur milli tveggja dalabotna, Þverárdals að sunnan og Eyjadals að norðan.
Fyrrum lá þjóðleiðin milli Kjósar og Mosfellssveitar um Svínaskarð og um skarðið fór fjöldi ferðalanga úr fjarlægum landshlutum, en það breyttist þegar akvegurinn var lagður vestur fyrir Esjuna skömmu eftir 1930.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Ganga á Móskarðshnúka er auðveld og er venjulegast gengið á þá að sunnan. Þá er ekið að Leirvogsá, hjá Hrafnhólum, og gengið þaðan eftir gömlu götunum áleiðis að Svínaskarði. Skammt fyrir norðan bæinn liggur leiðin yfir Skarðsána. Hún er ekki mikil að jafnaði svo auðvelt er að stikla yfir hana á steinum. Mörgum hættir til að taka stefnuna beint á hnúkana eftir að komið er yfir ána. Sú leið er vel fær, en þó er léttara að ganga áfram eftir götunni uns komið er að gili, sem liggur niður frá hnúkunum. Farið er yfir það, en síðan upp með því að austanverðu og stefnt beint í skarðið milli tveggja austustu hnúkanna.

Svínaskarð

FERLIRsfélagar við dys í Svínaskarði.

Úr skarðinu er létt að ganga á austasta hnúkinn, en hann er hæstur (807 m) og af honum er besta útsýnið. Ekki er mikið víðsýni af Móskarðshnúkum, nema helst til austurs og suðurs, því fjöll kreppa að til annarra átta, svo minna er þar að sjá en vænta mætti.
Um fleiri en eina leið má velja, þegar halda skal til baka. Sennilega liggur leið flestra af austasta hnúknum niður skriðurnar og ofan í Svínaskarð (það er í 481 m hæð) og ganga gömlu götuna til baka. Þetta er mjög þægileg leið og falleg. En ef tíminn er nægur er sjálfsagt að lengja leiðina nokkuð og ganga þá vestur hnúkana áleiðis að Esjunni.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Þá eru efstu brúnir hnúkanna þræddar og eykur það ekki síst á tilbreytinguna. Síðan er gengið yfir klettahrygginn milli Þverárdals og Eyjadals og vestur á Esjuna. Krækt fyrir botn Þverárdals, gengið á Hátind (909 m) og haldið síðan niður Þverárkotsháls að Hrafnhólum. Þessi leið er bæði fjölbreytt og falleg, og veitir víðari sjóndeildarhring en Móskarðshnúkar einir. Þó er rétt að hafa það í huga, að þessi gönguleið tekur meginhluta dagsins, ef farið er rólega og án alls óðagots.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

En hvernig mynduðust Mókarðshnúkar og hvers vegna eru þeir frábrugðnir öðrum nærliggjandi fjóllum bæði að lit og lögun? Jarðvísindamenn segja að Esjan sé mynduð við eldsumbrot fyrir 2 1/2-3 millj. árum. Fyrir um 2 milljónum ára var stór og mikil askja fyllt vatni á svæði sem nú er á milli Skálafells, Móskarðshnúka, Þverárkotsháls og allt suður undir Grimmannsfell. Á börmum þessarar öskju voru tíð eldgos og þá mynduðust Móskarðshnúkar. Þeir eru því fornar eldstöðvar myndaðir úr líparíti, en það berg gefur þeim ljósa litinn og gerir þá svo auðkennda, sem alkunnugt er. En síðan hafa ísaldarjöklarnir, frost, vatn og vindar máð burtu þessi fornu eldvörp að mestu og gefið fjallinu þá lögun, sem það hefur í dag. Með skarpskyggni sinni og nútímatækni hefur vísindamönnum okkar tekist að ráða þessar rúnir. En um leið hafa þeir veitt okkur óbreyttum leikmönnum tækifæri til að gefa hugarfluginu lausan tauminn meðan við fetum okkur áfram áleiðis að áfangastað.”

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar – gönguleið.

Tómas Einarsson fæddist 10. nóvember 1929. Hann lést 12. febrúar 2006. Eftir barnaskólapróf fór Tómas í Héraðsskólann í Reykholti, síðan í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi 1950. Íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni lauk hann 1952 og prófi frá Lögregluskóla Reykjavíkur 1954. Námsdvöl á vegum The Cleveland International Program í USA 1964 og Cambridge í Englandi 1974-75.
Hann var kennari við barna- og unglingaskóla 1950-53. Hóf störf í lögreglu Reykjavíkur 1953 og í rannsóknarlögreglunni (afbrot unglinga) 1955-1966. Kennari við Hlíðaskóla í Reykjavík frá 1966 og kennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis til starfsloka.

Heimild:
-Morgunblaðið, 159. tbl. 23.07.1982, Móskarðshnúkar – Tómas Einarsson, bls. 39.

Móskarðshnúkar

Móskarðahnúkar – herforingjaráðskort 1908.

Húshólmi

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1972 er umfjöllun með yfirskriftinni “Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?” þar sem nokkrir valdir einstaklingar eru spurðir svara:

“Enga íþrótt — ef íþrótt skyldi kalla — er eins auðvelt að iðka og gönguferðir — og þær eru sannarlega ekki síður skemmtilegar að vetri en sumri. Til þeirra þarf engan útbúnað annan en hlý föt og góða skó en hollustan af þeim er ómæld. Læknar hafa um árabil hvatt menn til gönguferða, ekki einungis vegna þess, að þær eru hollar líkamanum í heild, heldur og vinna þær gegn hjartasjúkdómum, sem eru eins og allir vita, einn tíðasti sjúkdómur meðal siðmenntaðra þjóða.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Margir hafa svo sem stundað gönguferðir án þess til þyrfti hvatningarorð lækna en enginn vafi er, að þær hafa orðið almennari á síðari árum eftir að fólk fór almennt að gera sér ljóst hvílíkir vágestir kransæðastífla og aðrir hjartakvillar er. Þannig hafa fjölmargir kynnzt umhverfi sínu á nýjan hátt, séð staði, sem voru þeim áður ókunnir og einnig séð gamalkunna staði nýjum augum.
Til gamans höfðum, við samband við nokkra menn og konur á höfuðborgarsvæðinu og báðum þau að segja okkur í fáum orðum, hvert þau mundu helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi, þegar þau ættu frí frá amstri og erfiði hversdagsins.

Hlíðar Heiðmerkur (Jónas Haralz, bankastjóri)
Jónas HaraldzVið sem búum í Reykjavík og nágrenni höfum þá einstöku aðstöðu að finna fagurt, tilkomumikið og marg breytilegt landslag eftir 10—15 mínútna akstursleið — og jafnvel- enn nœr bústöðum okkar. Þarna getum við verið algerlega út af fyrir okkur — er víða sem sjaldnast sést nokkur maður á vetrardegi. Við hjónin notum okkur þetta oft og eftirlætisstaður okkar er með hlíðunum í Heiðmerkurlandinu.

Á Helgafell eða fjörur (Halldóra Thoroddsen, skrifstofustjóri)
Það er vandi að velja á milli, því að margir skemmtilegir staðir eru í nágrenni Reykjavíkur og óþarfi að aka langt burt úr bænum til að finna fallegar gönguleiðir. Til dæmis er einkar gaman að ganga fyrir sunnan Heiðmörkina og Hafnarfjörð og minnist ég þá sérstaklega skemmtilegrar leiðar, sem Eysteinn Jónsson lýsti fyrir nokkrum áratugum, það er göngu ferð á Helgafell. Ég gekk einu sinni eftir hans fyrirsögn og er viss um að sú leið svíkur engan.
Halldóra Thoroddsen
Skemmtilegast finnst mér þó að ganga með sjó fram og þá er ekki langt að aka suður í Krýsuvík eða Grindavík — nú — svo standa fjörurnar á Stokkseyri og Eyrarbakka alltaf fyrir sínu. Þessum gönguferðum fylgir sá kostur, að maður þarf ekki að kjaga upp eða niður brekkur. Helzt mundi ég þó kjósa á góðviðrissunnudegi að setjastá hestbak og ríða inn með Esjunni og upp að Tröllafossi — það er mátuleg sunnudagsferð fyrir mann og hest.

Kaldársel (Gísli Sigurðsson, varðstjóri)
Ég hef haft þann sið frá þvi fyrir 1930 að ganga um nágrennið og upp úr 1950 fór ég að safna örnefnum hér í kring og hef verið að ganga á þessa staði. Það er því um margt að velja. Úr Reykjavík er til dæmis gott að ganga upp að Elliðavatni og Vatnsendavatni og þar um kring, m.a. i Heiðmörkinni. Svo ég tali nú ekki um að bregða sér í fjöllin í Mosfellssveitinni, þar er indælt að vera og horfa yfir sundin, eyjarnar og nesin.
Gísli SigurðssonÚr Garðahreppi er einfaldast að fara beint inn hjá Vífilsstöðum, inn á hálsana, inn með Vífilsstaðahlíð, inn í Grunnuvötn og inn á Hjalla.
Úr Kópavogi er sjálfsagt að ganga inn úr byggðinni, upp og umhverfis Vatnsenda hæð, inn í Selás, inn fyrir Geitháls, — ég tala nú ekki um að fara inn á Sandskeiðið og þar í kring.
Við Hafnfirðingar eigum ekki langt að fara, getum gengið umhverfis bæinn, um Urðarfosshraunið, Setbergshlíðina inn að Kaldárseli og kringum Helgafell, suður um Ásfjall og þar um kring. Þetta eru svona tveggja til þriggja tíma leiðir, sem er gott að ganga eftir hádegi. Þarna er víða ónumið land, sem er indælt til hvíldar og gönguferða. Mér finnst ekkert taka þeim fram.

Gamla Krýsuvík (Björn Steffensen, endurskoðandi)
Björn SteffesenFerðinni er heitið í Húshólma til þess að skoða tóftir „Gömlu Krýsuvíkur”: Ekið er sem leið liggur suður Reykjanesbraut þar til komið er suður fyrir Hvaleyrarholt að beygt er til vinstri, á Krýsuvíkurveg. Ekið um Kapelluhraun og austur jaðar Almennings, yfir Vatnsskarð að Kleifarvatni. Haldið áfram suður með vatninu; farið fram hjá hverasvæðinu við Ketilstíg og áfram fram hjá Grænavatni. Tæpum 1 kílómetra sunnar eru, til hægri handar, vegamót Grindavíkurvegar. Er ekið eftir honum gegjnum túnið í Krýsuvík og áfram, um 4 kilómetra í vestur, þá er komið að austurjaðri Ögmundarhrauns. Þá er Mælifell á hægri hönd.
Hér hefst gönguferðin og er þá fyrst farið niður með jaðri hraunsins. Auðvelt er að aka jeppa niður með hrauninu, en við förum þetta gangandi.
Þegar gengið hefur verið um 2 kílómetra niður með hraunjaðrinum verða fyrir tvö vörðubrot á hraunbrúninni. Hér liggur stígur upp á hraunið. Er þessum stíg fylgt yfir að hraunrima, sem er sem næst 1/2 kílómetri á breidd og er þá komið í Húshólma.
Húshólmi er gróin spilda, nokkrir tugir hektara að stærð, umlukt apalhrauni, nema við sjó er dálítil fjara.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Haldið er vestur yfir Húshólmann og stefnt dálítið ská hallt í átt til sjávar. Þegar komið er að hraunbrúninni vestan við gróðurspilduna er stefna tekin suður með hrauninu unz fyrir verður gróið túngarðsbrot, sem liggur skáhallt út undan hrauninu. Er þetta brot af túngarði „Gömlu Krýsuvíkur”. Sunnan við túngarðsbrotið er gengið upp á hraunið og verða þá fyrir tóftirnar af húsum „Gömlu Krýsuvíkur”.
Hér gefur á að líta tóftir af bæjarhósum, sem hraun (Ögmundarhraun) hefur runnið allt í kringum og að nokkru yfir. Ég held að hvergi á Íslandi sé hægt að sjá þessu líkt, nema ef vera kynni í Reykjahlíð við Mývatn. Talið er að Ögmundarhraun hafi runnið um miðja 14. öld.
Munnmæli herma að hér hafi Krýsuvík upphaflega verið. Þetta mun að vísu aðeins vera tilgáta til að skýra nafn bœjarins, sem eftir hraunflóðið á að hafa verið fluttur á þann stað, þar sem hann nú er, um 4 kílómetra frá sjó og engin vík í landi jarðarinnar. Krýsuvík er nú í eyði, bæjarhús fallin, en lítil timburkirkja stendur.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Orð fer af því hve nágrenni Reykjavíkur sé hrjóstrugt. Þar á móti kemur að kannski er hvergi á Íslandi jafn fjölbreytt náttúra. Auk þess eru hér á næstu grösum margvíslegar minjar frá liðnum öldum, sem gaman er að kynnast, svo sem seljatóftirnar í hrauntungunni milli Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar, sunnan Kapelluhrauns (Almenningur), festarjárnin digru á Básendum, sjóbúðatóftirnar og fiskbyrgin á Selatöngum, og fallegar fjárborgir á víð og dreif, svo að nokkuð sé nefnt. Er ómaksins vert fyrir þá, sem eiga ráð á bíl og eru rólfærir, að gefa þessu gaum.

Hlíðar Esjunnar (Áki Jakobsson, lögfræðingur)
Áki JakobssonÍ haust sem leið var tíðin rysjótt og fá tækifæri gáfust til þess að fara í gönguferð í þurru veðri.
Sunnudag einn hringdi til mín kunningi minn og spurði hvort ég væri ekki til í að koma í göngutúr. Ég játaði því með þökkum og fór í gönguskó og svo lögðum við af stað. Við ókum upp að Stardal og lögðum bílnum þar en lögðum land undir fót. Gengum við svo til vesturs frá Stardal meðfram undirhlíðum Esjunnar. Síðan sveigðum við til norðurs og stefndum að Móskarðshnúkum. Leiðin lá yfir allvíðlend an mýrarslakka, sem grafinn hefur verið í sundur með skurðum, sem virðist vera orðin árátta, þó að ekki eigi að fullrækta. Á leiðinni yfir mýrina, sem var mjög blaut eftir rigningarnar í sumar, og því ekki beint þægileg til göngu, rákumst við á mink, sem faldi sig i skurði. Þegar hann varð var mannaferða tók hann til fótanna og hafði sýnilega engan áhuga á að kynnast okkur frekar. Við veittum honum nokkra athygli og virtist augljóst, að þarna væri um hlaupagikk að ræða, nýsloppinn út, enda er þarna skammt frá eitt af hinum nýju minkabúum, sem stofnuð voru eftir að minkabannið var afnumið illu heilli. Við vorum ekki í neinum minkaveiðihugleiðingum og kvöddum hann því og héldum leið okkar. Stefndum við nú á vestasta Móskarðshnúkinn. Veður var bjart þessa stundina, þó ekki sól, en líparitið í hnúkunum gerði þetta að sólskinslandslagi og fjallasýnin var heillandi.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Stefndum við nú upp til fjallanna og ekki leið á löngu þar til við komum upp á veginn úr Kjósinni, sem liggur um Svínaskarð. Fylgdum við nú veginum til vesturs, þar til hann sveigir til suðurs við vestasta hnúkinn. Þá fórum við af veginum og stefndum upp á leið, upp á mjög einkennilega klettaborg, sem stendur upp úr skriðunum neðanvert í fjallinu. Nú gerði á okkur skyndilega rigningu og er ekki að orðlengja það, að við urðum holdvotir á nokkrum mínútum. Við létum þetta þó ekki aftra okkur og héldum áfram. Eg er nú ekki orðinn mikill fjallgöngumaður, en upp á klettaborgina komst ég þó. Þá bregður svo við, að það er eins og risahönd sópi burt rigningarskýjunum og við fáum sólskin. Við fengum alveg stórkostlega útsýn, einkum til Esjunnar, en þar blasir við auganu hæsti tindur hennar. Þessi fjallasýn var svo heillandi, að mér fannst við í henni einni fá ríkuleg laun fyrir erfiði okkar. Því hefur ekki einhver af málurum okkar sett þetta stórkostlega „motiv” á léreft, varð mér á að hugsa. Það get ur nú verið að það hafi verið gert, þó að ég hafi ekki séð þá mynd.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Sólskinið stóð ekki lengi. Þung rigningarský lögðust að á ný og aftur var komin hellirigning. Eftir þessa útsýn á hamraborgunum, gerði þetta að sól inni, fannst okkur ekki vera hægt að vænta nýrra ævintýra í þessari ferð og hröðuðum okkur nú niður og vildum komast úr rigningunni sem fyrst. Við fórum niður á veginn úr Kjósinni og fylgdum honum, en komum þá að girðingu, sem liggur meðfram veginum og beinir honum í aðra átt en við þurftum að komast.
Brugðum við nú á það ráð að fara yfir girðingu þessa, til þess að stytta okkur leið. En við höfðum ekki lengi gengið þegar við gengum fram á tvö heljarmikil naut. Við höfðum sem sagt lent í nautagirðingu. Við höfðum engan kjark til þess að fara að kljást við naut. Nautin höfðu ekki orðið vör við okkur, svo við læddumst til baka sömu leið og komum okkur út úr girðingunni. Við fórum svo krókinn af mestu þolinmæði og komum að bílnum aftur eftir röskra fjögurra tíma göngu. Við vor um að vísu holdvotir, en höfðum átt mjög skemmtilegan dag.

Yfir Sveifluháls (Bergþóra Sigurðardóttir, læknir)
Bergþóra SigurðardóttirSveifluháls eða Austurháls nefnist hæðardragið norðan Kleifarvatns og eru hæstu tindar hans tæpir 400 m á hæð. Er hann innan þess svæðis, sem Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur og borgarráð leggja til að verði fólkvangur.
Reyndar kæmi sér vel fyrir okkur gönguglöð, að fá til fylgdar einhvern fótfúinn, sem sætti sig við að aka okkur í átt að Djúpavatni og biða okkar síðan í Krýsuvík. Gætum við þá gengið þvert yfir hálsinn, sem er þarna um 2,5 km á breidd. En ekkert er á móti því að ganga í hring og koma niður sömu megin. Við ókum Krýsuvíkurveg í átt að Kleifarvatni, en beygjum til hægri áður en við komum í Vatnsskarð, þar sem heitir Móhálsaleið. Ruðningsvegur liggur yfir hraunið með nyrðri hlíð Sveifluháls í átt að Djúpavatni. Þar er silungsveiði og snoturt veiðihús stendur við vatnið. Yfirgefum við farartækin, þar sem vegurinn sveigir að Djúpavatni.
Sveifluháls er móbergshryggur, sem hlaðizt hefur upp í sprungustefnu (SV—NA) á siðasta jökulskeiði. Hann er því lítið rofinn og landslag tilbreytingaríkt. Aðallitir landsins þarna eru rauðbrúnn litur móbergsins og grámi gamburmosans. Göngum við suður og upp á við yfir urð og grjót. Í maí sjást þarna í mosa og móabörðum bleikar breiður sem minna fákunnandi á lambagras, en þarna skartar vetrarblómið sínum fegursta skrúða. Er upp á hálsinn er komið er fallegt að sjá til norðurs yfir hraunið og Djúpavatn, en handan þess Grænadyngja og Trölladyngja. Í suðaustri sjást gufustrókar frá hverum milli Hatts og Hettu, en það eru hæstu hnúkarnir á hálsinum í suðri.

Grænavatn

Grænavatn.

Á miðjum hálsinum er tjörn, sem Arnarvatn nefnist. Við göngum vestan hennar í sendnu fjöruborðinu, en reiðvegurinn til Krýsuvíkur liggur austan megin. Móbergskambur skýlir okkur á aðra hönd, en handan hans tekur við flatlent mýrlendi og norðaustan þess gnæfir Arnarnípa 340 m á hæð. Er yfir mýrina kemur tekur við holt, en síðan fer að halla undan fæti og við sjáum suður á sjálft Atlantshafið. Lítið fell, Arnarfell, sunnan Krýsuvíkur er fallegt til að sjá. Við sjáum að Grænavatn er réttnefni, en það glitrar eins og smaragður séð frá hálsinum.
Við fikrum okkur svo niður gilið að hverasvæðinu, þar sem hitaveita Hafnarfjarðar hefur um árabil bullað út í loftið.
Þar sem Grænavatn var svona fallegt til að sjá, hyllumst við til að skoða það nánar. Er það rétt sunnan við akveginn. Grænavatn er dýpsti sprengigígur á landinu, 44 m á dýpt og á barmi þess getum við fundið hnyðlinga úr gabbró. Gestastaðavatn, vestan vegarins er einnig í gömlum sprengigíg, en aðeins 2,6 m á dýpt. Enn sunnar eru tvær smátjarnir eru Augu nefnast og myndaðar á sama máta. Liggur veg urinn milli Augnanna og ljúkum við þar göngu okkar.”

Heimild:
-Morgunblaðið-sunnudagsblað 26.11.1972, Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?, bls. 36-37.

Arnarfell

Arnarfell.