Færslur

Sogin

Reykjanesfólkvangur hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; “Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang“.
Þar segir m.a. að “Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.”

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er “Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.

Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. “Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi“:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhella

Markhella.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.

Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: “Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins”. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.

Sog

Í Sogum.

Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

“Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.”

Valahnúkar

Valahnúkar og Helgafell.

Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Sveifluháls

Sveifluháls.

“Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.

Helgadalur

Helgadalur – Rauðshellir.

• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.

Seltún

Seltún.

• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.

2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.

3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.

Vetrarblóm

Vetrarblóm við Kleifarvatn.

• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.

Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.”

Í “Lögum um náttúruvernd” segir m.a. um landverði: “Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.”

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: “Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.”

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur “Reykjanesskagafólkvangs” skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.

Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Ægissíða

Á skilti við fisk- og beitningaskúrana við Ægissíðu, þ.e. þeirra sem eftir eru eða hafa verið gerðir upp, má lesa eftirfarandi texta undir yfirskriftinni “Gull úr greipum Ægis konungs“:

Ægissíða

Ægissíða – skilti.

“Langt fram eftir 20. öldinni var stundað útræði úr vörum á Reykjavíkursvæðinu. Flestar varirnar eru nú horfnar undir uppfyllingar og því fátt sem minnir á þennan þátt í atvinnusögu borgarinnar.
Grímstaðavör er ein af sjö vörum við Skerjafjörð og sú þeirra sem lengst var róið frá. Betri lending var talin vera í Grímstaðavör en í öðrum vörum við Skerjafjörðinn, meðal annars vegna skerja fyrir utan sem drógu úr öldunni. Vörin er kennd við bæinn Grímsstaði á Grímsstaðaholti.

Grímsstaðaholt

Grímsstaðaholt – Fremst á myndinni sjást Þormóðsstaðir en hvíta húsið t.v. er Garðarnir.

Grímsstaðaholtið afmarkast af Suðurgötu, Starhaga, Ægissíðu og Hjarðarhaga. Grímur Egilsson reisti sér býli á þessu svæði árið 1842 sem hann nefndi Grímsstaði. Fljótlega var farið að kenn aholtið við býlið. Síðasti Grímsstaðabærinn stóð nálægt gatnamótum Dunhaga og Ægissíðu.
Grímsstaðavörin var þekktust fyrir útgerð grásleppubáta síðustu áratugina en áður fyrr var ekki síður gert út á þorsk og ýsu. Þegar mest var voru 16 bátar gerðir út frá vörinni. Þrír til fjórir réru alltaf en hinir um helgar eða þegar tími gafst til frá öðru. Tíðarfarið réði því hvaða daga var hægt að róa. Björn Guðjónsson gerði síðastur út frá Grímsstaðavör eða allt til ársins 1998.

Varnargarður

Ægissíða

Uppdráttur af aðstöðunni við Ægissíðu.

Á kreppuárunum var veitt fé í atvinnubótavinnu við hafnargerð í Grímsstaðavör. Byrjað var að hlaða garð einn mikinn og atti hann að verða upphaf bryggjugerðar í vörinni. Hætt var við garðinn í miðjum kliðum vegna þess að menn höfðu ekki trú á höfn í vörinni vegna þess hversu mikið útfiri var við fjörðinn. Einnig að í vestanátt mundi flóðið standa beint upp á höfnina. Menn álitu því að vænlegra væri fyrir bátana í Grímsstaðavör að fá teina og sleða en bryggju.

Brautir

Ægissíða

Myndir úr Grímsstaðavör.

Eftir að hætt var við bryggjugerð í Grímsstaðavör voru settir niður teina í vörina. Teinarnir komu að góðu gagni. Meðal annars gat einn maður sjósett bát á eigin spýtur. Áður höfðu venjulega fjórir til fimm bátar farið í róður um svipað leyti á morgnana og hjálpuðust menn þá að við sjósetninguna.

Garðar, Lambhóll og Þormóðsstaðir
Í næsta nágrenni við Grímsstaðavörina voru býlin Garðar, Lambhóll og Þormóðsstaðir. Garðar eru við núverandi gatnamót Ægissíðu og Lynghaga. Byggð reis í Görðum um 1860. Sigurður Jónsson, sem frægur var fyrir umsvifamikla útgerð og fiskvinnslu, var ávallt kallaður eftir húsinu, en hann keypti það árið 1892. Núverandi íbúðarhús í Görðunum er talið vera frá 1881-1883.
Lambhóll var býli úr landi Skildingarness. Það er jafnvel talið að á þessum slóðum hafi verið lambhús frá Skildingarnesi. Núverandi hús í Lambhól eru fyrir neðan Ægissíðu, milli Þormóðsstaða og Garða en nær sjónum.

Ægissíða

Ægissíða – skilti.

Þormóðsstaðir eru rétt við Lambhól og Garðana. Í heimildum er fyrst getið um býli þar um 1850 en ekki er ljóst við hvern það er kennt. Á árunum 1912-1927 rak fiskveiðifelagið Alliance í samvinnu við aðra lifrabræðslu á Þormóðsstöðum. Lifrabræðsluhúsið, Brenneríið, var strýtulaga og setti mikinn svip á umhverfið. Á Þormóðsstöðum voru einnig fiskreitir og fiskhús. Timburhúsin þrjú við Starhaga tilheyra fyrrum Þormóðssstaðabyggðinni.

Hrognkelsi
ÆgissíðaHrongkelsið er klunnalegur fiskur, með stuttan haus, lítinn kjaft og smáar tennur. Augun eru lítil. Roðið er mjög þykkt og kallað hvelja. Hrognkelsi hefur enga rák. Grásleppan (kvk) er dögggrá að ofan en ljósari á hliðum og hvít eða ljósgræn að neðan. Rauðmaginn (kk) er dögkkgrár að ofan og grágrænn að neðan, en verður rauður að neðan um hrygingartímann. Hrognkelsavertíðin var frá mars til júlí.
ÆgissíðaRauðmagi og grásleppa þóttu sæmileg til átu en grásleppuhrogn þóttu aftur móti ólystug fæða lengi vel og voru aðseins etin ef ekki var annað að hafa. Um miðja 20. öldina urðu þau hins vegar eftirsótt útflutningsvara og breytti það stöðu hrognkelsaveiðanna mjög. Umdanfarna áratugi hafa grásleppuhrogn verið háttverðlögð. En neysla á rauðmaga og grásleppu hefur dregist saman.”

(Prentvillur á skiltinu hafa verið leiðréttar í meðfylgjandi texta.)

Á gafli austasta beitarskúrsins skammt frá skiltinu má lesa eftirfarandi á skilti:
Menningarminjar við Grímsstaðavör
ÆgissíðaBorgarsögusafn Reykjavíkur hefur umsjón með varðveislu minja við Grímstaðavör. Árið 2018 var gerð fornleifarannsókn á svæðinu, skipt var um jarðveg og möl sett í kring um skúrana til þess að halda gróðri í skefjum og svæðinu snyrtilegu. Stefnt er að því á næstu árum að gera við hvern skúr fyrir sig, styrkja þá og laga, en halda útliti þeirra að mestu óbreyttu. Skúrarnir verða fjarlægðir á eðan á viðgerðum stendur.
Frekari upplýsingar veitir Borgarsögusafn Reykjavíkur.”

Ægissíða

Ægissíða – menningarminjarnar 2024.

Laugarnes

Á Laugarnesi í Reykjavík er skilti. Yfirskriftin á skiltinu er; “Velkomin á Laugarnes“.

Laugarnes

Laugarnes – skilti.

Á skiltinu má lesa eftirfarandi texta: “Laugarnes er ein af útivistarperlum Reykjavíkur. Hér er eina náttúrumyndaða fjaran sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi. Fjaran er mikilvæg fyrir fuglalíf, þar sem á svæðinu verpa nokkrar fuglategundir.
LaugarnesMenningarlandslagið í Laugarnesi hefur mótast af búsetu í margar aldir og hver kynslóð hefur markað sín spor í landið.
Búið er í fjórum húsum á svæðinu auk þess sem Listasafn Sigurjóns Ólafssonar er starfrækt hér.

Hernámið
LaugarnesBreski herinn gekk á land í Reykjavík þann 10. maí 1940. Hann lagði undir sig ýmsar byggingar fyrir starfsemi sína auk þess sem reistar voru tjaldbúðir víðsvegar um bæinn.
Síðar voru reistir hermannaskálar eða svokallaðir braggar á vegum hernámsliðsins. Í Reykjavík risu um 80 braggahverfi sem hýstu um 12.000 hermenn. Eitt þeirra var hér vestast á Laugarnesi, Laugarneskampur.
LaugarnesÁrið 1941 tók síðan bandaríska seturliðið við Laugarneskampi sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum.
Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns.
Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganum bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans.”

Skammt frá skiltinu er annað upplýsingaskilti um fyrrum holdveikraspítalann á Lauganesi – sjá HÉR.

Laugarnes

Laugarnes – búsvæði Hrafns Gunnlaugssonar.

 

Viðeyjarborg

Í nokkrum FERLIRslýsingum er vitnað til umráða og yfiráða Viðeyjarklausturs á jörðum á Reykjanesskaganum. Til frekari fróðleiks og samhengis verður hér fjallað um upphaf Viðeyjarklausturs og umsvifa þess.

Viðey

Klaustrið á Viðey, sem var starfrækt milli 1226 og 1550, var af Ágústínusarreglu. Allavega mestmegnis. Ágústínusarreglan kennir sig við Ágústínus frá Hippó (354-430) en hann var einn kirkjufeðranna. Bréfið sem reglan sækir fyrirmynd sína í er mjög almennt og því mikill sveigjanleiki í túlkun. Hinsvegar, árið 1344, var Ágústínusarreglan afnumin og Benediktsreglu komið á. Sú regla kennir sig við Benedikt frá Núrsíu og er ein stærsta og fjölmennasta klausturregla í kaþólskum sið. Hún entist þó ekki og var Ágústínusarreglu aftur komið á 8 árum síðar. Nokkur Benediktsklaustur voru á Íslandi, eins og til dæmis Þingeyrarklaustur, Munkaþverárklaustur og nunnuklaustrið á Kirkjubæ.

“Klaustrið hefur trúlega verið sett á messudegi heilags Ágústínusar, 28. Ágúst 1225, en máldagi þess hefur svo sennilega verið kynntur á næsta Alþingi, sem ekki var fyrr en sumarið 1226. Þá var Snorri lögsögumaður og hefur því væntanlega lesið máldagann upp til þinglýsingar. Þorvaldur Gissurarson frá Haukadal var þar fyrst forstöðumaður án titils, en fyrsti spríor er Styrmir Kárason hinn fróði, lögsögumaður og mikill sagnamaður.

Magnús Gissurarson var biskup í Skálholti árin 1216-37. Af bréfi, sem hann ritaði bændum og prestum í Kjalarnesþingi árið 1226 um gjafir til hins nýstofnaða Viðeyjarklausturs, má ráða, að þeim höfðingjum Sunnlendinga hefur þótt það nokkur niðurlæging fyrir fjórðung sinn, að þar skyldi ekkert klaustur vera. Verður að telja víst, að oft hafi verið um þetta rætt. Ekki eru kunnar aðrar ástæður klausturstofnunarinnar en þær, sem Magnús biskup nefnir í bréfi sínu.
ViðeyFleira gæti þó hafa komið til. Á slíkum stað reis jafnan upp andleg miðstöð, sem hlaut að efla trúarlíf á svæðinu. Meinlæta- og kausturstefna var hið algenga svar kirkjunnar, þegar veraldarhyggjan varð of mikils ráðandi í hugum manna. Á síðustu áratugum 12. aldar höfðu íslenskum veraldarhöfðingjum og biskupum borist ítreklaðar áminningar frá erkibiskupi, sem og páfaboðskapur, þar sem höfðingjar voru alvarlega gagnrýndir fyrir siðlaust líferni. Þeir voru sagðir “lifa búfjárlífi” og ásakaðir fyrir margvísleg brot á kirkjuaga.
Meðal þeirra, sem þar voru nefndir, voru Jón Loftsson í Odda og Gissur Hallsson í Haukadal. Klausturstofnun í Viðey gæti verið eðlileg afleiðing þeirrar umræðu.
ViðeyjarstofaAllnokkrir fjármunir fóru út úr landsfjórðungnum í áheitum, sálugjöfum og fleiru, meðan menn gátu ekki leitað þörf sinni farvegar í þeim efnum í heimabyggð. Þá hefur höfðingjum litist það góður kostur að eiga á því möguleika á efri árum að “setjast í helgan stein” með hægu lífshlaupi. Um þessar mundir lögðust af skólarnir í Odda og Haukadal og gæti það einnig hafa verið hvati til klaustursstofnunarinnar.
Þorvaldur fékk sjálfdæmi eftir dráp sonar hans, Björns, á hendur Kolskeggi hinum auðga undir Eyjafjöllum, sem þá var talinn ríkastur manna á Íslandi. Fór hann eftir hinum stærstu gerðum, sem höfðu verið hér á landi. Kolskeggur andaðist 1223, áður en kom til þess að Þorvaldur fengi fébætur. Þorvaldur varð þá fjárhaldsmaður tengdardóttur sinnar, Hallveigar, sem var eini erfingi Kolskeggs, en hann var barnlaus.

ViðeyÞegar Snorri Sturluson hafði sagt sagt skilið við Herdísi Bersadóttur á Borg, kom hann suður um heiðar þeirra erinda að biðja Hallveigar sér til handa. Hét Þorvaldur honum liðsinni við kvonbænirnar og fékk á móti af fé Kolskeggs, sem hann þurfti til klausturstofnunar. Var þetta árið 1224. Keypti Þorvaldur þá Viðey og var þar efnt til klausturs. Vinátta þeirra Snorra og Þorvalds voru tryggð með því að Gissur, sonur Þorvalds, skyldi fá Ingibjargar, dóttur Snorra. Nefndur Gissur stóð síðar yfir höfuðsvörðum Snorra, þá fyrrum tengdarföður síns.
Þorvaldur virðist hafa verið fljótur að tengja saman sonarminninguna og stofnun heilags klausturs. Sú hugmynd var og þekkt á hans tíð að minnast látinna að andlegum leiðum.

Viðey

Viðeyjaklaustur – uppgröftur.

Hvað sem framangreindum ástæðum líður má segja að stofnun Viðeyjarklausturs hafi verið dýrmæt með tilliti til framtíðar íslenskrar menningar.”
Sturla Þórðarson segir, að Viðeyjarklaustru hafi verið sett að vetri en þeir Þorvaldur og Snorri gerðu samkomulag sitt 1225. Bæði annálar og saga Guðmundar biskups hins elsta telja, að Viðeyjarklaustur hafi verið sett 1226 og til þess árs er talinn máldagi klaustursins. Við það ár hafa sagnfræðingar miðað.

Viðey

Fornleifarannsóknir sýna að byggð var hafin í Viðey á 10. öld en árið 1225 var stofnað þar klaustur af reglu heilags Ágústínusar. Í meira en 300 ár var Viðeyjarklaustur mesta helgisetur í Sunnlendingafjórðungi af Skálholti frátöldu. Alþjóðleg hefð er fyrir því að klausturbyggingar myndi umgerð um klausturgarð. Túlka má rannsóknir á svæðinu á þann veg. Byggingar merktar A, B og C hafa verið grafnar upp og sýna langhús (stofu, skála og búr). Þar austur af er sennilega smiðjukofi (D). Aftur af langhúsinu eru lítið rannsökuð bakhús. Kirkjan (E) er tilgátuhús en fyrir myndir eru sóttar í kirkjur á Þingeyrum og á biskupsstólunum. Jarðsjármælingar sýna að fyrir framan Viðeyjarstofu og kirkju hafi verið byggingar, trúlega sjálf klausturhúsin (F), þau eru einnig tilgátuhús.

Snorri Sturluson átti bú beggja megin Viðeyjar, á Bessastöðum og á Brautarholti á Kjalarnesi. Hann dvaldi oft á Bessastöðum, en vitað er að hann dvaldi einnig í Viðey.
Áhrif Viðeyjarklausturs urðu mikil vegna aðstöðu þess og ríkidæmis. Eignaðist klaustrið m.a. flestar sjávarjarðir á norðanverðum Reykjanesskaganum mót jörðum Skálholtsbiskupsstólsins á honum sunnanverðum.

Viðey

Viðeyjarklaustur – tilgáta.

Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.
Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum og lýstu eigur þess konungseign.

Jón Arason

Minnismerki um Jón Arason og syni hans í Skálholti.

Jón Arason, Hólabiskup, síðasti katólski biskup landsins, fór í herför suður og lagði m.a. Viðey undir sig, endurreisti klaustrið og lét byggja virki í kringum það. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs.
Að honum látnum sama ár varð siðbótinni komið á um allt land og klausturlíf var endanlega lagt niður. Viðey varð að annexíu frá Bessastöðum og síðar aðsetur Skúla Magnússonar, landfógeta, sem lét byggja Viðeyjarstofu.

Viðeyjarstofa

Viðeyjarstofa er stórt, gamalt steinhús í Viðey á Kollafirði. Hún er elsta hús Reykjavíkur og jafnframt elsta steinhús Íslands, byggð á árunum 1753-1755 sem embættisbústaður fyrir Skúla Magnússon landfógeta.[1] Upphaflega átti húsið einnig að vera bústaður stiftamtmanns en af því varð þó ekki. Arkitekt Viðeyjarstofu var Daninn Nicolai Eigtved, sem meðal annars teiknaði Amalienborg í Kaupmannahöfn. Við hlið hússins stendur Viðeyjarkirkja, sem Skúli lét reisa nokkrum árum síðar.

Viðeyjarstofa er fyrsta steinhús landsins og var fullbyggð árið 1755.
Kirkjan var vígð árið 1774 og er hin næstelzta landsins, sem enn stendur.

Heimild m.a.:
-Erindi flutt í viðey á 750. ártíð Snorra Sturlusonar 23. sept. 1991 (Þórir Stephensen) – Lesbók MBL 17. desember 1991.

Viðey

Margar búræktunartilraunir hafa verið gerðar í Viðey. Ein þeirra átti sér stað sumarið 1861. Þá fékk August Thomsen nokkra héra með gufuskipi frá Færeyjum, og hleypti þeim lausum í Viðey. Héragreyin voru upphaflega frá Noregi en voru fluttir til Færeyja til manneldis þar sem það hafði gefist vel. Sú var ekki raunin hér á Íslandi. Í raun virðist sem nær ekkert hafi getað þrifist á eyjunni sem var flutt þangað, fyrir utan kúmen og gras. Virðist sem allar aðrar tilraunir hafi farið fyrir bý.

Blesugróf

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1966 skrifaði Ragnar Lár, myndlistarmaður, m.a. um “Blesugróf“:
BlesugrófÞeir gerast æ færri borgarbúarnir sem vita hvar Blesugrófin er, eða var. Enn færri munu þeir vera sem vita hvar Fjárborgin stóð. Þó eru þessi svæði innan borgar- og bæjarmarka Reykjavíkur og Kópavogs. Kannski er það ofsagt að fáir viti hvar Blesugrófin er að finna. Blesugrófin er á milli Breiðholtsbrautar, Smiðjuvegar og Fossvogsdalsins. Árið 1963 lá hlykkjóttur vegur upp frá Suðurlandsbraut, fram hjá gamla Fáksvellinum og upp á Vatnsendahæð. Þar sem vegurinn fór næst Elliðaánum lá afleggjari til austurs, inn í malargryfjur sem þar voru og mótar enn fyrir. Stálinu hefur verið jafnað niður og sáð í melinn og eru þar hólar og hæðir sem áður voru gryfjurnar.

Höfðaborgin

Höfðaborgin við Borgartún.

Fyrstu árin eftir stríð byggðu menn hús sín í óleyfi innan við bæinn, eins og það var kallað. Fólkið sem flutt hafði á mölina á stríðsárunum hafði holað sér niður á hinum ólíklegustu stöðum í bænum. Þegar hermenn yfirgáfu braggana var óðar flutt inn í þá. Húsnæðiseklan sá til þess að hvert rúm var skipað. Yfirvöld bæjarins unnu að því að útrýma því heilsuspillandi húsnæði sem braggarnir voru taldir vera.

„Höfðaborgin” reis í öllu sínu veldi, svokallað fátækrahverfi Reykjavíkur. En Höfðaborgin dugði ekki til lausnar húsnæðisvandanum. Þeir voru margir daglaunamennirnir sem þráðu það eitt að eignast sitt eigið húsnæði, byggja það með eigin höndum, en það var engar lóðir að hafa hjá bænum.
Blesugróf
Þá urðu Smálöndin til, þar sem nú standa stórbyggingar iðnaðar og verslunar, skammt fyrir neðan Grafarholt. í Smálöndum ólust upp margir ágætir þegnar þjóðfélagsins. Þar var einnig að finna fólk sem náði sér aldrei á það strik, sem kallast beint, samkvæmt mælikvarða þjóðfélagsútreiknaðra reglugerða. Sömu sögu var að segja um Blesugrófina.
Í Blesugróf byggði meðal annarra Tryggvi Emilsson, sá er ritað hefur einna beinskeyttastar bækur um ævi og kjör lítilmagnans á þessari öld. Í dag er Blesugrófin orðin að eftirsóttri vin í eyðimörk borgarinnar. Þar má í dag líta einhver indælustu hús höfuðstaðarins, í vinalegu og náttúrulegu umhverfi. En byggðin hófst með þeim er reistu sér híbýli á þessum stað, í óleyfi yfirvalda. Byggðu hús af vanefnum, yfir sig og sína og voru sjálfstæðir í örbirgðinni.
Blesugróf
Eins og gefur að skilja var byggingarstíllinn af ýmsum toga. Fæst voru húsin teiknuð fyrir fram og varla af dýrum teiknistofum byggingameistara. Það kenndi því ýmissa grasa í stíl og skipulagi. Smátt og smátt mynduðust götur og einfalt var að gefa þeim nöfn. A-gata, B-gata o.s.frv.

Blesugróf

Blesugróf.

Áður en Breiðholtshverfin fóru að byggjast, áður en algengt var að menn legðu leið sína inn og upp fyrir bæ, þá áttu fáir aðrir erindi í Blesugróf en þeir, sem áttu þar heima, eða erindi við íbúana. Sá er línur ritar ók þó nokkrum sinnum leiðina upp að Rjúpnahæð, eða Vatnsenda. Einn dag í október 1963, var raupari á ferð um þessa margræddu leið. Hann hafði nokkru áður tekið eftir sérkennilegu húsi sem stóð vinstra megin við Vatnsendaveginn, þá farið var upp eftir. Reyndar lá afleggjarinn upp í malargryfjurnar skammt frá þessu húsi, upp Elliðaárdalinn og með fram húsum á stangli, sem sum standa enn.

Blesugróf

Blesugróf 2020 – loftmynd.

Upphaflega höfðu sum þessara húsa verið sumarbústaðir, en eru heilsárshús í dag, þ.e.a.s. þau sem enn standa. Húsið fyrrnefnda var afar sérkennilegt. Það virtist byggt í nokkrum áföngum. Að nokkru leyti var það úr torfi og grjóti en að öðru leyti úr steinsteypu, eða múrhúðuðu timbri. Ekki var nokkur leið að segja til um þann tíma sem húsið var byggt. Það gæti svo sem verið að það hefði verið byggt á dögum Krists, ef maður vissi ekki af lestri bóka og kennslu úr skóla að engin bygging hafði risið á íslandi á þeim dögum.

Blesugróf

Börn í Blesugróf í bílaleik.

En myndir þær sem sjá má í biflíusögum renna stoðum undir þessa ályktun. Eitt var þó ólíkt með byggingarlaginu á Blesugrófarhúsinu og húsunum í biblíusögunum. Upp með sumum veggjum Blesugrófarhússins teygðu sig grasreinar, allt upp undir þak sums staðar. Já, þetta var mjög sérkennilegt hús. Í því voru að minnsta kosti tveir kvistgluggar, en erfitt að átta sig á því hvort húsið sjálft væri ein, tvær eða þrjár hæðir, vegna þess að engir tveir gluggar voru í sömu hæð. Kannski var húsið úr timbri og múrhúðað, en óslétt var það að utan og sérkennilegt.

Blesugróf

Blesugróf – Kastalinn 1972 (SÞ).

Á þessum tíma, 1963, gerði raupari rissu af þessu húsi og birtist hún með þessum línum. Löngu seinna komst hann að því, að listvefarinn Óskar Magnússon hafði búið í þessu húsi ásamt konu sinni. Óskar hafði byggt húsið með eigin höndum,eins og svo margir aðrir sem byggðu á þessum slóðum. Þegar byggðin færðist nær og allt bannsetta skipulagið byrjaði að eyðileggja bæinn, sem nú er borg og áður var bær og þar áður þorp – og þar áður bær, var Óskari og hans spúsu gert að flytja úr húsi sínu, til að rýma fyrir „skipulögðu” svæði. Óskar gerði sér lítið fyrir og byggði sér hús undir hraunkambi uppi á Hellisheiði, til þess að vera viss um að verða ekki fyrir næsta skipulagi. Þar hélt hann áfram að vefa sín þekktu teppi á meðan kraftar entust. Bæði eru þessi veraldlegu skjól alþýðulistamannsins fallin, en verkin sem hann vann í þessum skýlum, reistum af eigin höndum, þau lifa.

Blesugróf.

Gömul mynd af einýlishúsi í Blesugróf: Þetta var kallað Kastalin og bjuggu þar Óskar Magnússon og Blómey kona hans. Þau höfðu geitur þarna líka. Þetta var fyrir neðan núverandi Reykjanesbraut og sjást ennþá minjar þar.

Þessu línum fylgir rissteikning af „pósthúsi” þeirra sem í Blesugróf bjuggu. Þrátt fyrir allt virðist hið opinbera hafa séð fyrir því að það „utangarðsfólk” sem Blesugrófina byggði, skyldi njóta póstþjónustu sem annað fólk. Kannski hefur þetta verið ráðstöfun þess opinbera, til að geta örugglega komið opinberum rukkunum til skila. Þó það fólk sem átti sitt líf í þessum „afkima” borgarinnar, byggi í óleyfilegu húsnæði, greiddi það sín gjöld til bæjarins. Sumir unnu hjá sjálfum bænum, sumir á Eyrinni og aðrir annars staðar. Það var auðséð á „pósthúsinu”, að það hafði fleiri hlutverkum að gegna. í húsinu voru greinilega íbúðir, tvær, þrjár eða fjórar. Múrhúðað timburhús, tveggja eða þriggja hæða. Það var ekki svo gott að segja til um það. Gluggarnir á hæðunum stóðust ekki á. En gamla „smelti” skiltið sagði ótvírætt „Pósthús”. Fyrir utan þetta hús stóð gamall pallbíll og mátti muna sinn fífil fegri. Hann hafði greinilega staðið þarna lengi og sást það best á því, að hjólin voru byrjuð að sökkva í jörðu, eða þá að móðir jörð var byrjuð að klæða þau grænum feldi. Hvar skyldi sá gamli pallbíll vera í dag?
Skammt ofan og sunnan við Blesugrófina var Fjárborgin.

Blesugróf

Garðstunga í Blesugróf.

Þar sem hún stóð eru nú virðuleg einbýlishús og tilheyra Smiðjuvegi í Kópavogi. Þarna áttu þeir athvarf með rollur sínar, sem ekki gátu slitið sig frá búskaparvenjum sveitanna, en höfðu tilneyddir flutt á mölina.

Almannadalur

Almannadalur og Fjarborg séð til suðurs, Reykjavík.

Þarna byggðu þeir fyrir nokkrar skjátur, hrófatildur úr ýmsum efnum. Daglega fóru þessir „fjáreigendur” inn eftir að huga að sínu fé. Á vetrum var leiðin oft löng fyrir þá sem bjuggu lengra frá. Þeir létu það ekki á sig fá. Sannir fjárbændur setja ekki fyrir sig langan veg að beitar- eða fjárhúsum.

Þegar voraði iðaði allt af lífi í Fjárborg. Margur bæjarbúinn lagði leið sína inn í Fjárborg með börnin sín til að sýna þeim litlu lömbin. Margur, núna miðaldra, borgarbúinn komst þarna í sín fyrstu kynni við litlu lömbin og það líf sem skapast í lífsins fjárhúsum. – Höfundur er myndlistarmaður og kennari.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 14. tölublað (13.04.1996) – Texti og teikningar: Ragnar Lár, bls. 10.

Blesugróf 1954

Blesugróf 1954.

Breiðholtshvarf

Í bókinni “Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur” er m.a. fjallað um stríðsminjar í Elliðaárdal:

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – loftmynd.

“Elliðaárdalur er stærsta græna svæðið innan Reykjavíkur, hluti af umhverfi og menningarsögu borgarinnar og eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarinnar.
Í nýrri bók um Elliðaárdalinn, Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur, er fjallað um gróðurfar, fuglalíf og fjölbreytilega jarðfræði dalsins og einnig sögustaði og friðlýstar minjar. Í eftirfarandi kafla úr bókinni er í máli og myndum gerð grein fyrir ýmsum minjum frá stríðsárunum síðari.

Stríðsminjar í Elliðaárdal
Í síðari heimsstyrjöldinni, 1940-1945, var kömpum, þ.e. braggaþyrpingum setuliðsins, komið upp nánast alls staðar í borgarlandinu þar sem því varð við komið. Þar á meðal voru nokkrir í Elliðaárdal.

Kampar og stríðsminjar í landi Ártúns

Camp Ártún

Camp Ártún 1942.

Fimm herkampar voru í landi Ártúns, þar af þrír á því landi sem nú er undir borgarvernd og einn í jaðri þess. Tveir kampar voru sitt hvorum megin við bæjarhólinn.
Camp Alabaster (Camp Pershing) var skammt frá Elliðaárstöð. Þar voru aðalstöðvar breska setuliðsins eftir að þær voru fluttar úr Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu. Alabaster var nafn á hernaðaráætlun Breta við töku Íslands. Þann 13. maí 1942 flutti bandaríska setuliðið hluta af aðalstöðvum sínum eða „Iceland Base Command HQ“ í þennan kamp. Breyttu þeir nafni hans í Camp Pershing.
Camp Battle var norðan við Camp Alabaster/Pershing, hinum megin við bæjarhól Ártúns.
Camp Hickham var í Ártúnsbrekku, þar sem jarðhýsin eru nú, reistur af bandaríska setuliðinu.
Camp Fenton Street var á þeim slóðum sem bílaumboðið BL er nú.

Fossvogur

Fossvogur; RCAF-Camp.

Þann 22. apríl 1942 tóku Bandaríkjamenn við yfirstjórn hers bandamanna á Íslandi úr höndum Breta. Af því tilefni fór herforingi Breta af landi brott en við yfirstjórn breska hersins hér tók fylkisforingi og voru aðalstöðvar hans í Camp Fenton Street.
Auk þessa var einn kampur á Ártúnshöfða (Camp Ártún) og tveir kampar voru vestan við Elliðaár, á móts við Ártún (Camp Pony og Camp New Mercur).
Eins og nærri má geta höfðu kamparnir mikil áhrif á líf fólksins á svæðinu. Til að mynda var öryggisgæsla svo ströng að jafnvel börnin þurftu vegabréf til að komast heim til sín.

Fossvogur

Fossvogur – braggi.

Eftirminnilegt þótti að Elliðaárstöðin var máluð í felulitunum á stríðsárunum, ekki hvít eins og alltaf. En svo var raunar um ýmis önnur mannvirki einnig.
Þegar setuliðið hvarf af landi brott í stríðslok fluttust íslenskar fjölskyldur inn í Camp Fenton Street og fékk hann þá nafnið Elliðaárhverfi. En nú hafa nær öll hernaðarmannvirki verið fjarlægð úr landi Ártúns. Einu ummerkin eru í Ártúnsbrekkunni. Annars vegar er það dæld eftir sandpokavígi sem nú er að mestu fallið saman. Hin ummerkin eru undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, sem búið er að hylja munnann á með jarðvegi.

Camp Baldurshagi

Fossvogur

Braggahverfi í Fossvogi.

Hann var þar sem nú er skeiðvöllur hestamannafélagsins Fáks á Víðivöllum. Þetta var stór kampur með um 100 bröggum sem breska setuliðið reisti. Fyrst voru þarna breskir hermenn úr Duke of Wellington hersveitinni. Síðar, þegar landgönguliðar bandaríska sjóhersins komu til landsins, 7. júlí 1941, fengu þeir þar inni. Bretarnir fluttust þá að Geithálsi þar sem þeir reistu nýjan kamp.
Ummerkin sem nú sjást eftir Camp Baldurshaga eru leifar af braggagólfum og sökklum. Ennfremur var eitt húsið úr kampinum flutt í Seláshverfi og gert að íbúðarhúsi. Nafnið á kampinum er raunar villandi því að hinn upphaflegi Baldurshagi er við Suðurlandsveg. Meðal íbúa í Camp Baldurshagaárið 1941 var Ralph Hannam, sem eftir stríðið settist að í Elliðaárdal.

Skotbyrgi
Í Breiðholtshvarfi, ofan við Árbæjarlón, er steypt skotbyrgi af þeirri gerð sem algeng var á stríðsárunum og finnast enn m.a. í Öskjuhlíð. Þetta er steinkassi, um 3 m á hvern veg, og hefur verið skotrauf framan á honum. Þakplata byrgisins er steypt og hefur lítið látið á sjá. Veggir eru hins vegar hlaðnir úr holsteini og eru þeir farnir að molna nokkuð.”

Heimild:
-Morgunblaðið – 294. tölublað, fimmtudagur 15. desember 2016, bls. 62.

Letursteinn

Letursteinn í Elliðaárdal.

Árbær

Á uppdrætti með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur, sést örnefnið “Árbæjarborg” skammt ofan (norðan) við bæjarhúsin í Árbæ. Ofan og vestan við hana er örnefnið “Borgarmýri”.

Árbær

Árbær – túnakort 1916. Tóftin er nr. 262-2.

Örnefnið “Árbæjarborg” er ekki að finna í takmarkaðri örnefnalýsingu af Árbæ, en í örnefnalýsingu Grafarholt eftir Björn Bjarnarson segir; “Borgarmýri, mest öll í Árb. landi, kennd við Árbæjarborg”.
Á uppdrættinum er Árbæjarborg staðsett þar sem í fornleifaskráningu fyrir Árbæ frá árinu 2017 segir; “Hænsnahús – tóft, 1900-1950. Á túnakorti Árbæjar eru merkt inn tvö hús um 60 m fyrir norðvestan Árbæinn. Nú eru þetta rústir. Hús þessi voru úr torfi og grjóti og sneru langveggjum saman. Nyrðra húsið var um 2×4 m að stærð, en syðra húsið 10x 6m. Dyr snéru í vestur á báðum húsunum en gluggi var í þilinu fyrir ofan dyrnar á nyrðra húsinu.” Árbæjarborgar er ekki getið í fornleifaskráningunni.

Árbær

Árbær – borgin var þar sem útihúsin v.m. eru á myndinni frá 1948.

Um Árbæ segir í fornleifaskráningunni:
“Austur af Ártúni var jörðin Árbær, en bæjarhúsin eru nú innan safnsvæðis Árbæjarsafns. Hluti núverandi byggðar í Ártúnsholti og neðrihluti Árbæjarhverfis eru byggðir í landi Árbæjar, en jörðin lá upp með Elliðaánum og tilheyrðu Blásteinshólmi og Árbæjarhólmi henni.
Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Árbær

Árbær 1911.

Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.
Síðustu ábúendur í Árbæ voru hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson sem bjuggu þar frá 1881 og dóttir þeirra Kristjana, sem tók við búinu árið 1935 og bjó þar til 1948, en þá fór bærinn í eyði. Í tíð Margrétar og Eyleifs var fjölsótt greiðasala í Árbæ, með svipuðu móti og verið hafði í Ártúni.

Árbær

Árbæjarborg?

Eins og áður segir keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina ásamt Ártúni og fleiri jörðum árið 1906 vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.”

Líklegt má telja að örnefnið “Árbæjarborg” sé miklu mun eldra en “hænsnahúsið” eða önnur útihús þar, þ.e. að það/þau hafi síðar verið byggt upp úr borginni. Gamla nafnið hafi verið látið halda sér enda ástæðan fyrir nálægum örnefnum, s.s. “Borgarmýri” og “Borgarholt”.

Árbær

Árbær og nágrenni. Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.

Uppmæling tóftanna ofan Árbæjar líkist óneytanlega að mörgu leyti útliti fjárborgar að grunni til.

Heimildir:
-Byggðakönnun; Borgarhluti 7 – Árbær, Reykjavík 2017, bls. 12 og 81.
-Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða (1963).
-Örnefnalýsing Björns Bjarnarsonar um Grafarholt.

Árbær

Árbæjarborg?

Fitjakot

Fitjakot var upphaflega fornt býli í Kjalarnesþingi. Í “Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði” árið 2018 er m.a. fjallað um kotbýlið undir fyrirsögninni “Fitjakot, saga, minjar og örnefni“:

Fitjakot

Fitjakot í Kjalarneshreppi – túnakort 1916.

“Fitjakot er á norðanverðum bökkum Leirvogsár. Jörðin á mörk á móti Varmadal að austan en Víðinesi og Álfsnesi að vestan. Gamli bærinn í Fitjakoti stóð á Brunnhól um 70 metra suðaustan við núverandi íbúðarhús. Síðast stóð þar timburhús sem reist var um 1930 og þá lá þjóðvegurinn um hlaðið. Núverandi íbúðarhús, sem var byggt 1950, stendur aðeins vestar, á Húsaflötum, en þar voru áður fjárhús. Þar var Kaupfélag Kjalarnesþings stofnað 15. október 1950 og var þar fyrst til húsa.

Fitjakot

Fitjakot – MWL.

Athafnamennirnir Sturlubræður áttu Fitjakot um tíma og notuðu jörðina til sumarbeitar.
Fitjakot var áður nefnt Fitjar og var í eigu Viðeyjarklausturs 1395. Jörðin kemur fram undir eldra nafninu Fitjar, í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs 1395, en yngra nafninu Fitjakot í fógetareikningum frá 1548 til 1551.

Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarkirkju 1686 metin á 15 hundruð en á 10 hundruð 1695.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en dýrleiki óviss. Ábúandi var einn. Kvaðir voru meðal annars um mannslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar fimm kýr og tíu lömb. Torfrista, stunga og mótak til eldiviðar var sæmilegt. Leirvogsá var bæði til gagns og ógagns. Þar var hægt að veiða bæði lax og silung en hún spillti engjum og braut af túni. Stórviðri brutu stundum hey og hús.18 Þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 var Fitjakot í eigu konungs metið á 10 hundruð.19 Árið 1855 var jörðin konungseign metin á 10 hundruð.
FitjakotSamkvæmt manntölum frá 1703 var einn ábúandi í Fitjakoti nema 1850 voru þeir tveir.”

Í örnefnalýsingu segir um Fitjakot:
“Jörð í Kjalarneshreppi, næsta jörð fyrir suðvestan Varmadal. Upplýsingar eru frá Jóni Jónssyni Varmadal og eitthvað annars staðar frá. Merkin móti Varmadal eru úr Skrauta, sem er neðsti hylurinn í Leirvogsá, um Fitjakotsmel, sem er milli bæjar og upp undir þjóðveg, þaðan í Markagróf og áfram í Flóalæk. Flóalækur kemur saman í flóunum suður frá Völlum og rennur hér áfram. Rétt vestan merkjanna er á honum gamalt ferðamannavað, sem heitir Helluvað. Síðan eru merkin eftir læknum norður í Kollafjörð.
Að vestan móti Víðinesi og Álfsnesi eru merkin Selja-, eða heldur Selalækur ofan úr mýrum og niður í sjó, þar sem hann fellur í Leirvog.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Neðan við Fitjakotsmel nær bæ heitir Fitjakotskrókur, og vestan við bæ heitir Vesturmýri, sem nær að Selalæk, sem fyrr getur. Beint vestur af túni er holt eins og í miðju landi, sem heitir Vörðuholt. Upp frá bæ er holt, sem heitir Fitjakotsholt. Þar upp af er Mjóimelur, og mýri þar vestur af heitir Mjóamýri milli Álfsness og Fitjakots. Norður af Mjóumýri er Blásteinsholt, sem er suðvestur af Naustanesi. Kúalág nær niður að á. Vestan við hana tekur við Krókur, og þar vestur af er Mjóamýri.”

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Í Vöku 1929 er grein eftir Ólaf Lárusson; “Úr byggasögu Íslands“. Þar segir m.a. um kotbýlin fyrrum:

“Af 926 býlum með slíku nafni og með kotnafni, sem Jón Johnsen nefnir í jarðatali sínu, telur hann 649, eða 73,6%, vera hjáleigur. En, eins og áður var getið, telur Johnsen hjáleigurnar of fáar, enda hefir mér talizt til, að af jörðum, sem þessi nöfn hafa, i Rangárvalla-, Árnes-, Gullbringu- og Kjósarsýslum séu nálægt 90% taldar vera hjáleigur í jarðabók Árna Magnússonar. Þessi tala tekur af öll tvímæli um það, að nöfn þessi hafa fyrst og fremst verið valin handa hjáleigunum.

Fitjakot

Fitjakot – MWL.

En jafnvel þessi tala er of lág. Sum lögbýlin, er þessi nöfn bera, munu eflaust vera fornar hjáleigur, sem hækkað hafa i tigninni og orðið lögbýli. Í annan stað kemur það nokkuð víða í ljós, að lögbýli, sem heita hjáleigunafni, hafa áður borið annað nafn. Sérstaklega er þetta algengt um lögbýlin, sem heita kot-nöfnum.
Um mjög mörg þeirra verður það séð með vissu, að þau hafa áður haft annað nafn. Kot-nafnið hafa þau fengið tiltölulega seint, venjulega sem viðbót við hið fyrra nafn sitt. Eru nokkur glögg dæmi þessa hér í nágrenni Reykjavíkur.

Fitjakot

Fitjakot – óskráðar minjar.

Býlin Hvammkot í Kópavogi (sem á síðari árum hefir verið nafnt Fífuhvammur), Hagakot hjá Vífilsstöðum, Óskot og Helliskot (Elliðakot) í Mosfellssveit og Fitjakot í Kjalarneshreppi eru öll gömul lögbýli. Þau voru öll eign Viðeyjarklausturs. Í skrá um leigumála á jörðum klaustursins frá 1395 eru býli þessi nefnd Hvammur, Hagi, Ós, Hellar (þá í eyði) og Fitjar. Í fógetareikningum kringum 1550 eru þau þeirra, er þá voru byggð, ýmist nefnd þessum nöfnum, eða kotnafninu. Fitjar eru nefndar því nafni í reikningum 1547- 1548, en Fitjakot i reikningum næstu ára á eftir.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm (Hvamm) í Kópavogi.

Hvammur er nefndur því nafni i reikningunum 1547. Allt eru þetta gömul lögbýli. Stundum var nafnbreytingin þó ennþá stórkostlegri. Staðir urðu að kotum. Að lögbýli bera hjáleigunöfn sannar þó eigi, að þau nöfn séu gömul. Hitt, að sýnt verður, að mörg þessara býla hafa fengið nöfn þessi tiltölulega seint, er vottur þess, að hjáleigunöfnin tilheyri yfirleitt yngra stigi í byggingarsögu landsins, og það bendir aftur til þess, að hjáleigurnar séu flestar byggðar nokkuð seint. En hvernig stendur á þessum nafnbreytinguin lögbýlanna? Ég hygg, að þær hafi oftast stafað af því, að býlin hafa lagzt í auðn í bili. Einkum á þetta við um kot-nöfnin. Það hefir verið tíðkað í alþýðumáli, að nefna rústir „kot“, jafnvel rústir af fyrrum býlum.”

Í fornleifaskráningum í Víðinesi og athafnasvæði Sorpu hefur hvergi verið getið þar um augljósar minjar, sem verðugar eru nánari skoðunnar, þ.á.m. minjar í tengslum við örnefnið “Seljalækur”…

Heimildir:
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði, Reykjavík 2018, bls. 9.
-Vaka, 3. tbl. 01.02.1929, Ólafur Lárusson, Úr byggasögu Íslands, bls. 361-363.

Fitjakot

Álfsnes – herforingjakort 1903. Hér eru merktar nokkrar fornleifar, sem ekki hafa ratað inn í fornleifaskráningar.

Reykjavík

Á uppdrætti, sem fylgir örnefnalýsingu fyrir Grafarholt og Korpúlfsstaði má sjá gamlar þjóðleiðir frá og til Reykjavíkur að norðan og austan, þ.e. “Norður- og Vesturlandsveg fyrir aldamótin 1900”, “Þingvallaveg hinn forna” og “Austurveg hinn forna”.

Vesturlandsvegur

Þjóðleið sem lá fyrir norðan Bústaði yfir vaðið í Árhólmana sunnan við Búrfoss, sunnan við Innréttingarhúsin í Árhólmanum yfir Ártúnsvað og áfram sunnan við túngarðinn og upp Reiðskarðið. Leiðin er teiknuð á kort Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831.

Í “Byggðakönnun 7 fyrir Árbæ” frá árinu 2017 m.a lesa eftirfarandi um “fornar leiðir og greiðasölu“:
“Elsta þjóðleiðin til og frá Reykjavík lá frá Skólavörðuholti um Öskjuhlíð og áfram austur Bústaðaholt á þeim slóðum þar sem Bústaðavegur er nú. Frá Bústöðum lá leiðin austur yfir vaðið á vestari kvísl Elliðaánna, um Árhólmann sunnan við Drekkjarhyl og rústirnar af húsum Innréttinganna og yfir eystri kvísl Elliðaánna á Ártúnsvaði, rétt austan við þar sem Toppstöðin er í dag og framundan bæjarhól Ártúns. Á meðan Ártún var í þjóðleið var rekin þar greiðasala. Þaðan lá leiðin að Árbæ um Reiðskarð en þar var skarð í gömlu ísaldaráreyrina og því greiðast að fara þar upp.
VesturlandsvegurLeið þessi var aðalvegurinn austur úr bænum þar til byggðar voru tvær brýr yfir Elliðaárnar árið 1883 og nýr vegur var lagður í framhaldi af Laugavegi norður fyrir Grensás og í gegnum Sogamýri, sem ýmist var nefndur Suðurlandsvegur eða Suðurlandsbraut (núverandi Suðurlandsbraut). Fyrir austan brýrnar færðist vegstæðið norðar og eftir það var Ártún ekki í sömu alfaraleið og áður og greiðasala lagðist af þar. Um svipað leyti hófu ábúendur í Árbæ rekstur greiðasölu, eins og áður er nefnt, sem var rekin þar fram undir 1940.

Elliðaár

Hluti úr korti eftir Sigurð málara 1869. Vaðið á Elliðaánum er merkt inn á kort eftir Sigurð málara frá árinu 1869 og hefur verið þekkt þá. Í örnefnaskrá segir „Almenningsvöð eru neðstu vöðin á ánum [Elliðaánum].“  

Um 1900 var búið að gera vagnveg frá Elliðaárbrúm að Árbæ og áfram austur. Þessi vegur (gamli Suðurlandsvegur) er þar sem gatan Rofabær er nú. Vegurinn hélt síðan áfram til austurs framhjá Rauðavatni og að Geithálsi.
Áður lá vegurinn hjá Rauðavatni aðeins sunnar, samanber kort sem til er af svæðinu frá 1902 en þar eru merktir nokkrir gamlir slóðar. „Gamli vegurinn“ er sennilega elsti slóðinn sem lá á milli Árbæjar og Hólms yfir Klapparholtsmóa og er líklega elsti forveri Suðurlandsvegar. Enginn örugg merki eru sjáanleg eftir hann nema hugsanlega nyrst við núverandi Norðlingabraut. Annar slóði lá suðvestur frá Rauðavatni inn Margrófina og inn að Norðlingaholti.
Þessi vegur var forveri Breiðholtsbrautar og er nyrsti hluti hans nú notaður sem reiðvegur. Þá lá slóði yfir Klapparholtsmóa og Klapparholtsvað vestan við býlið Klapparholt yfir að Elliðavatni. Inn á kortið er einnig teiknaður vagnavegurinn meðfram Rauðavatni eða fyrsti Suðurlandsvegurinn”.
Norður- og Vesturlandsvegur lá fyrrum yfir Elliðaár frá Bústöðum að Ártúni. Þar beygði vegurinn upp á brúninar og niður að botni Grafarvogs, upp með vestanverðum Keldum að Korpúlfsstöðum að vaði ofan ósa Blikdalsár.

Vesturlandsvegur

Vegirnir gömlu ofan Reykjavíkur er fjallað er um – færðir inn á nútíma loftmynd.

Þingvallavegur hinn forni og Austurvegur lágu yfir vaðið á Elliðaánum, upp ásinn að Árbæ að Selási. Þar skyldu leiðir. Fyrri vegurinn lá áfram um holtið að Bullaugum, áfram hvylftina ofan Grafarholt (þar sem nú er golfvöllur), upp að Reynisvatni, upp með því til austurs að norðanverðu með Langavatni, niður að austanverðu Hafravatni, upp með Búrfellskoti að Selvatni og áfram inn Seljadal. Síðari vegurinn fór suður fyrir Selásinn og áfram i gegnum Rauðhólanna. Þar skyldiu leiðir; önnur lá upp að Elliðakoti og áfram til austurs að norðanverðu Lyklafelli, hin upp Lækjarbotna um Bolöldur og upp með norðanverðu Svínahrauni. Þar mættust vegirnir til áframhalds upp Hellisskarð og yfir Hellisheiði.

Heimildir:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 7 – Árbær; Reykjavík 2017, bls. 17-19.
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá; Reykjavík 2021.

Bullaugu

Uppdráttur með örnefnum (1963)
Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.

Vatnsverndarsvæði

Skrifað var um “Bullaugu” í Morgunblaðið 3. mars árið 1962:

Bullaugu
“Þegar ljóst var, að ekki væri með auðveldu móti hægt að virkja vatnið í hrauninu hjá Jaðri, var fenginn jarðbor til borunar í Grafarlandi á landi því, sem Golfklúbbur Reykjavíkur hefur fengið úthlutað undir golfvöll.

Bullaugu

Bullaugu og nágrenni – loftmynd.

Ástæðurnar til þess, að boranir hófust þarna voru nokkrar m.a.:
1. Rannsóknir Jóns Jónssonar bentu til þess, að mikið jarðsig lægi um golfvallarlandið með tiltölulega opnum sprungum sitt hvoru megin við sigið.
2. Jón Þorláksson, fyrrv. borgarstjóri, benti árið 1907 á lindir í Grafarlandi. Hvaða fjarlægð er leyfileg milli borholanna er ekki vitað, en það mun koma í ljós við frekari rannsóknir á svæðinu.
c. Gerlarannsóknir á vatninu bæði úr lindunum og fyrrnefndu holunni var það góð, að Sigurður Pétursson gerlafræðingur lét þá athugasemd fylgja, að „vatnið væri óvenju gerilsnautt”. Efnagreining á sama vatni sýndi engin skaðleg efni og er vatnið svipað og Gvendabrunnavatnið, þó aðeins steinefnaríkara.

AÐRAR FRAMKVÆMDIR
BullauguVerði horfið að því ráði að virkja vatnið við Bullaugu verða aðrar framkvæmdir vatnsveitunnar vitaskuld við það miðaðar. Og er líklegt, að framkvæmdum yrði í stórum dráttum hagað sem hér segir á árinu 1962:
1. Haldið verður áfram og lokið við lagningu 24 þuml. aðalæðar í Kringlumýrarbraut frá gamla Sogavegi suður að Vallarleiti (Hamrahlíð). Nú þegar er meginhluta pípulagnar lokið á þessum kafla, en tengingum á brunnum verður lokið næsta sumar.
2. Lögn að geymi á Litlu Hlíð frá mótum Vallarleitis. Á korti því, sem hér fylgir, má sjá, hverjar eru þær vatnsveituframkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á næstu 2—3 árum. Á þessu ári verður lögð 32″ aðalæð meðfram Miklubraut, frá Kringlumýrarbraut austur fyrir Grensásveg og byggður vatnsgeymir á Litlu Hlíð. Á árinu 1963 verður svo sú æð tengd við aðra 32″ aðalæðina við Sogaveginn inni við Skeiðvöllinn. Og fyrir árslok 1963 á að vera búið að leggja æð frá hinu nýja vatnsbóli, Bullaugum í Grafarlandi, í þessar aðalæðar Oodds Th. Sigurðssonar, vatnsveitustjóra og leitaði hjá honum nánari upplýsinga um þessi mál, og fara þær hér á eftir.
Bullaugu
Eina vatnsból Reykvíkinga nú er Gvendarbrunnar, en núverandi rennsli þaðan er 700 1/sek. Það er fyrir alllöngu orðið ljóst, að á þeim er ekki hægt að byggja meiri aukningu, sem er þó óumflýjanleg. Þess vegna hefur á undanförnum 2 árum verið unnið við rannsóknir á lindum og vatnsbólum, sem til greina komu. Hefur vatnsveitan haft Jón Jónsson jarðfræðing í þjónustu sinni við þessar rannsóknir, en hann hefur rannsakað allt svæðið frá Kaldá norður að Úlfarsfelli og gert sprungukort aif svæðinu.
BullauguNiðurstaðan af þessum athugunum er sú, að til greina kem ur að virkja ýmsar lindir, sem allar hafa þó þann annmarka, að þær eru nokkuð langt frá núverandi aðalæðum nema svæðið í Grafarlandi. Þessi kortlagning jarðsprungnanna er sá grunnur, sem öll vatnsleit mun byggjast á í framtíðinni, og hlýtur að verða unnið áfram að tilraunaborunum, svo að kortleggja megi grunnvatnsrennsli heiðarlandsins fyrir austan borgina. Við rannsóknir á virkjunarmöguleikum á svæðinu milli Jaðars og Gvendarbrunna kom í ljós, að þar er mjög mikið vatnsmagn, og runnu á þurrkatímabilinu á s.l. sumri t.d. að minnsta kosti 500 1/sek. af mjög góðu drykkjarvatni undan hrauninu á þessu svæði út í Kirkjuhólmatjörn. Niðurstöður þeirra rannsókna, sem þarna fóru fram voru þær, að virkjun á þessum stað yrði mjög kostnaðarsöm, og er það skoðun mín, að fresta eigi framkvæmdum þarna í nokkur ár, þar sem boranirnar (sem hann nefnir Bullaugu) á þessum stað og telur þær koma til greina sem vatnsból fyrir Reykjavík, en hvarf frá þeim og valdi Gvendarbrunna vegna óhagstæðari hæðarlegu Bullaugnalindanna, en nú skiptir það atriði ekki lengur máli.
3. Golfvöllurinn verður væntanlega tekinn í notkun árið 1963, og af þeim sökum var æskilegt að fá vissu fyrir vatnsöflunarmöguleikum svæðisins í tíma og samræma aðgerðir V.R. gerð brautanna eftir föngum.

MJÖG GOTT VATN

Bullaugu

Uppdráttur (hluti) af nágrenni Grafarholts
Uppdráttur frá 1963 sem sýnir örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess.

Þarna voru svo boraðar 2 holur og varð árangur þeirra borana sá, að úr annarri holunni fást 120 1/sek., og úr hinni 70 1/sek., en núverandi sjálfsrennsli úr Bullaugum er samkvæmt laus legri mælingu a. m. k. 200 1/sek. Að svo komnu er of snemmt að fullyrða nokkuð um vatnsmagn það, sem unnt á að vera að vinna á þessum stað, en þó virðist ástæða til nokkurrar bjartsýni, og eru ástæðurnar til þess helztar:
a. Eftir athugunum Jóns Jónssonar á borsvarfinu virðist vera komið niður á sandsteinslag neðan við 20 m dýpi í fyrrnefndu holunni, og náði það í ca. 29 m dýpi. Við borun í Rauðhólum í sl. viku fannst svipað sandsteinslag á milli 12 og 22 m dýpi.
Þessi atriði benda til þess, að undir Hólms- og Reynisvatnsheiði sé sandsteinslag, sem ber grunnvatn til sjávar og virkar jafnframt sem mikið vatnsforðabúr, sem dæla má úr.
b. Sprungulengdin yfir dalverpið er um 600 m á lengd, og á því að leyfa dælingu úr nokkrum borholum samtímis.
3. Bygging vatnsgeymis á Litlu Hlíð, sumarið 1962.
4. Lögn 32″ (800 mm’) aðalæðar meðfram Miklubrautinni frá Kringlumýrarbraut austur fyrir Grensásveg. Efni í þessa lögn er að mestu komið til landsins og undirbúningsvinna til útboðs að verða lokið.
5. Bygging dælustöðvarhúss við Stóragerði.
6. Lögn 16″ aðalæðar í Rauðarárstíg milli Háteigsvegar og Laugavegar. Verk þetta er nú hafið og því lýkur væntanlega fyrir vorið.

HEILDARKOSTNAÐURINN 33,2 MILLJ. KR.

Bullaugu

Bullaugu.

Heildarkostnaðurinn við þessar framkvæmdir og virkjun Bullaugna yrði samkvæmt kostnaðaráætlun, sem gerð hefur verið um 33,2 millj. kr., en sjálf getur vatnsveitan lagt til þeirra 17,2 millj. kr. á árunum 1962—’63, svo að afla þyrfti 16 millj. kr. láns, ef ljúka á þessum framkvæmdum á næstu 2 árum. Ef ráðizt yrði út í framkrvæmdir þessar án lánsfjár tælki virkjun Bullaugna hins vegar ekki skemmri tíma en 5—6 ár, en ef fresta ætti framkvæmdum svo lengi mundi það vafalaust hafa í för með sér alvarlegan vatnsskort fyrir þá bæjarhluta, sem hæst standa. Það er þess vegna skoðun mín, að varhugavert sé að draga virkjun Bullaugna lengur en til ársloka 1963 og í lengsta lagi til ársloka 1964.”

Rétt er að geta þess að ekki varð að vatnsöflun fyrir Reykvíkinga úr Bullaugum.

Sjá meira um neysluvatnið HÉR og HÉR.

Heimild:
-https://timarit.is/page/1341853#page/n7/mode/2up

Bullaugu

Uppdráttur með örnefnum (1963)
Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.