Tag Archive for: Reykjavík

Hálogaland

Við göngustíg skammt vestan gatnamóta Skeiðarvogs og Gnoðarvogs er skilti um „Íþróttahúsið Hálogaland„. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Hálogaland

Hálogaland 1963.

„Fyrsta húsið sem hét Hálogaland var íbúðarhús byggt 1930 þar sem nú er bílastæði á milli blokkanna Sólheima 25 og 27. Á þeim tíma, fyrir seinni heimsstyrjöldina, var þetta svæði austan þéttbýlis Reykjavíkur og sóttust einstaklingar sem vildu stunda ræktun og búrekstur eftir að búa þar. Húsið brann árið 1972.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Árið 1940 var hluti Laugardals og nærliggjandi svæða leigður hernámsliði Breta og síðar Bandaríkjamanna. Þar risu heilu braggahverfin og einnig stór skáli sem setuliðið notaði sem íþróttahús, bíó og samkomusal. Skálinn var nefndur Andrews Memorial Field House í minningu Frank M. Andrews hershöfðingja sem fórst í flugslysi við Fagradalsfjall 1943. Í daglegu tali var skálinn kallaður Hálogaland. Skálinn var vígður í nóvember 1943.

Hálogaland

Loftmynd frá 1960. Á henni má sjá bæði íþróttahúsið Hálogaland og húsið Hálogaland sem stendur milli blokkanna í
Sólheimum 25 og 27.

Íþróttahúsið Hálogaland stóð hér, þar sem nú eru gatnamót Skeiðarvogs og Gnoðarvogs. Á stríðsárunum stunduðu hermenn þar körfubolta og aðrar íþróttir og lánuðu húsið einnig íslenskum íþróttafélögum. Jafnframt voru haldnar í húsinu ýmsar samkomur. Í september 1944 hélt söng- og leikkonan Marlene Dietrich til að mynda tónleika fyrir bandaríska hermenn og gesti þeirra í húsinu og einnig mun gamanleikarinn Bob Hope hafa komið hér fram á skemmtun um svipað leyti.
Í styrjaldarlok keypti Íþróttabandalag Reykjavíkur skálann af setuliðinu og var hann eftir það kallaður Hálogaland. Húsið varð nú miðstöð handknattleiks í landinu og vettvangur allra helstu kappleikja innahúss fram á 7. áratuginn, þegar Laugardalshöll tók við því hlutverki. Á tímabili var Hálogaland einnig íþróttahús Vogaskóla og notað undir guðsþjónustur fyrir Langholtssöfnuð.
Skálinn var rifinn árið 1970.“

Hálogaland

Loftmynd af Reykjavík árið 1946, séð til vesturs frá Elliðavogi. Fremst er braggahverfið Camp Monmouth og þar fyrir ofan, vestar, Hálogalandskampur, þar sem íþróttahúsið stóð.

Þvottalaugar

Á skilti í Reykjavík um „Laugaveg“ má lesa eftirfarandi fróðleik:

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar fyrir 1900.

„Laugavegurinn dregur nafn sitt af gömlu þvottalaugunum í Laugardal en þangað báru konur þvott frá Reykjavík til þess að þvo í heitu laugunum allt til ársins 1930. Árið 1885 var hafist handa við að leggja veg til þess að auðvelda fólki leiðina að laugunum og var vonast til að burður á þungum þvotti legðist af með bættum samgöngum. Margrét Jónsdóttir (1893-1971) skáld, sem er líklega þekktust fyrir kvæði sitt „Ísland er land þitt“, gerði aðstæðum þvottakvennanna góð skil í ljóðinu um Þórunni gömlu þvottakonu, sem þvoði þvott fyrir aðra en lifði sjálf við kröpp kjör. Hér er fyrsta erindi ljóðsins.
Þórunn gamla þvottakona / þrammar áfram köld og sljó, / eftir dagsins erfiðleika / á hún von á hvíld og ró. / Vetur yfir veginn breiðir / voð úr mjallahvítum snjó“.“

þvottalaugar

Þvottalaugarnar um 1930.

Hitaveitustokkar

Á skilti í Reykjavík um „Hitaveitustokkana“ má lesa eftirfarandi fróðleik:

Hitaveitustokkar

Hitaveitustokkurinn steyptur í útjaðri Reykjavíkur, um 1942-1943. Lengst til vinstri sést glitta í Korpúlfsstaði.

„Þessir steyptu stokkar gegna stóru hlutverki í lífi Reykvíkinga. Í þeim er pípa sem flytur heitt vatn til borgarinnar en með því hita þeir upp híbýli sín. Ennfremur eru þeir mikilvæg gönguleið fyrir íbúana í hverfunum sem þeir liggja um, sérstaklega á vetrum því að ekki frýs á þeim.
Fyrir tíma hitaveitunnar voru hús í Reykjavík kynt með kolum eins og víðast hvar í Evrópu. Vegna hins kalda veðurfars kyntu bæjarbúar hús sín vel og lá oft þykkur kolamökkur yfir Reykjavík. Kolakyndingin var því bæði dýr og mengandi.

Hitaveitustokkar

Stúlkur með börn og barnavagna við hitaveitustokkinn í Smáíbúðahverfinu, 1959.

Hitaveita Reykjavíkur tók til starfa árið 1930 og sótti fyrst vatn í Þvottalaugarnar í Laugardal. Það reyndist vel en dugði aðeins fyrir lítinn hluta bæjarins. Aðrir bæjarbúar vildu þá ólmir tengjast hinni nýju veitu og til að anna eftirspurn var vatn sótt út fyrir bæinn, að Reykjum í Mosfellssveit. Reykjaveitan var tekin í gagnið árið 1943.
Einhver lengsta hitaveituæð í veröldinni á þeim tíma var lögð frá Reykjum, 17 kílómetra leið um holt og móa, yfir ár og læki, allt vestur í Öskjuhlíð.

Reykir

Borhola á Suðurreykjum í Mosfellssveit. Bæjarhúsin í baksýn voru hituð með hveravatni 1908, fyrst allra húsa á Íslandi.

Þar voru reistir tankar og úr þeim var vatninu veitt um bæinn.
Hitaveiturörin voru sett í stokk sem steyptur hafði verið á staðnum. Þau voru einangruð með torfi sem bundið var utan um rörin. Í stokkana var líka sóttur vikur úr Krýsuvík til einangrunar.
Hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Ávinningurinn af henni hefur verið margvíslegur. Hún bætti heilsufar bæjarbúa, kolarykið hvarf og kostnaður við heimilishald og atvinnurekstur minnkaði.
Sömuleiðis jókst hreinlæti því að þvottar og böð urðu ódýrari og aðgengilegri.“

Hitaveitustokkar

Séð yfir Smáíbúðahverfið og Sogamýri, um 1962. Hitaveitustokkurinn sést hér vel.

Háteigsvegur

Á horni Háteigsvegar og Rauðarárstígs er skilti um „Bújarðir í Reykjavík – Háteigur„. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Háteigur

Horft vestur frá Háteigsvegi um 1940. Fremst á myndinni er býlið Háteigur, eldri bæjarhúsin (Litli-Háteigur) vinstra
megin og yngra húsið hægra megin. Fjær til vinstri er býlið Klambrar og enn fjær húsaþyrping við Eskihlíðarbæinn.

„Í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. var farið að ræsa fram mýrarnar í landi Reykjavíkur og úthluta úr þeim ræktunarlöndum. Þessi lönd voru leigð með erfðafesturétti, sem þýðir að leigan gekk í erfðir. Á erfðafestulöndunum risu nýbýli þar sem hafin var túnrækt og búskapur í stórum og smáum stíl.
Á Norðurmýrarblettum, sem úthlutað var í Norðurmýri og á svæðinu milli Rauðarárholts og Öskjuhlíðar, risu allmörg erfðafestubýli. Tvö þeirra, Sunnuhvoll og Háteigur, voru hér í sunnan- og vestanverðu Rauðarárholti.

Bæjarhús Háteigs stóðu ofar í holtinu og á núverandi horni Háteigsvegar og Lönguhlíðar stendur enn íbúðarhús (Háteigsvegur 36) sem tilheyrði býlinu. Það er reisulegt steinshús í nýbarokkstíl, reist árið 1920 af hjónunum Halldóri Kr. Þorsteinssyni skipstjóra og útgerðarmanni (1877-1966) og Ragnhildi Pétursdóttur (1880-1961).

Háteigur

Skólagarðar á Klambratúni 1956. Húsið Háteigur er fyrir miðri mynd (grátt hús).

Landið keyptu þau árið 1914 af Guðmundi Jafetssyni (1845-1918) en hann hafði byggt þar lítið timburhús árið 1907 sem kallaðist Háteigur. Það hús stóð þar sem gatan Langahlíð liggur nú og var seinna kallað Litli-Háteigur. Gata sem lögð var frá Rauðarárstíg að Háteigi og áfram upp á holtið á þessum tíma var nefnd Háteigsvegur eftir býlinu. Halldór og Ragnhildur voru þjóðþekkt fólk, en Halldór var meðal annars skipstjóri á Jóni forseta, fyrsta togaranum sem smíðaður var fyrir Íslendinga.
Ragnhildur var landskunn fyrir afskipti sín af félags- og menningarmálum og að Háteigi stundaði hún kúabúskap um aldarfjórðungsskeið. Voru þar oftast um tíu gripir í fjósi og munu hafa verið með nytjahæstu kúm á landinu. Árið 1945 var landið tekið úr erfðafestu vegna skipulags íbúðarbyggðar í holtinu og lagningar Lönguhlíðar. Húsið Litli-Háteigur mun þá hafa verið flutt að Skipasundi. Skólagarðar voru síðan á hluta af túnum Háteigs og seinna urðu þau hluti af almenningsgarðinum Klambratúni.“

Háteigur

Loftmynd af Reykjavík 1946. Hér má sjá býlin Háteig, Sunnuhvol, Klambra, Reykjahlíð og Eskihlíð. Stýrimannaskólinn á
Rauðarárholti er til vinstri og Norðurmýri til hægri. Neðst til hægri er herskálahverfið Camp Vulcan og til vinstri er Camp
Sheerwood við Háteigsveg.

Ánanaust

Við Ánanaust í Reykjavík er skilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Ánanaust

Stakkstæði Alliance við Ánanaust um 1928. Lengst til vinstri er Ívarssel (Vesturgata 66b, nú á Árbæjarsafni). Einnig má sjá Ánanaustbæina, Alliance-húsið, Garðhús og hús og bæi við Bakkastíg.

„Ánanaust voru upphaflega naust þar sem Reykjavíkurbændur geymdu skip sín. Ennfremur var ávallt mikið útræði þaðan enda skilyrði góð og vel aflaðist í Faxaflóa lengst af. Til vitnis um það komu upp úr 1870 tveir þriðju hlutar alls útflutts sjávarafla á Íslandi frá verstöðvum í kringum Faxaflóa, einkum úr Gullbringuslýslu og frá Reykjavík.
Nafnið ánanaust færðist síðar yfir á kotbýli sem stóðu þar hjá þar sem nú er vestasti hluti Vesturgötu. Óljóst er hve langt aftur má rekja byggð þar. Til er kort af Reykjavík frá 1715 þar sem sjá má að þrír bæir tilheyra Ánanaustum og á 18. og 19. öld var þar oftast þríbýlt.

Ánanaust

Loftmynd af svæðinu árið 1946. Fyrir miðri mynd má sjá Ánanaustbæina og Alliance-húsið. neðst t.v. er Danílesslippur og Fiskiðjuver ríkisins í byggingu, seinna BÚR. Sjóminjasafnið í Reykjavík er nú til húsa í hluta byggingarinnar.

Síðasti torfbærinn sem tilheyrði Ánanaustum var rifinn árið 1930 og síðasta húsið á bænum árið 1940 vegna gatnaframkvæmda.
Íbúar Ánanausta tilheyrðu stétt tómthúsmanna sem voru sjó- og verkamenn þess tíma. Þeir sóttu sjóinn á opnum árabátum en höfðu jafnframt von um einhverja vinnu hjá kaupmönnum og bænum. Á sumrin gátu þeir brugðið sér upp í sveit í kaupavinnu. Flestir tómthúsmenn höfðu kálgara en fáir áttu skepnur.
Kjör tómthúsfólks voru misjöfn eins og gengur og misgóð frá einu ári til annars. Ef illa fiskaðist gat hungrið sorfið að. Þá var helst til bjargar að fá lán hjá kaupmanninum upp á væntanlegan fiskafla. Stundum var styrkur úr fátækrasjóði bæjarins eina vonin.“
Ánanaust

Jón Árnason

Á garðvegg húss nr. 5 við Laufásveg í Reykjavík er skilti um Jón Árnason, þjóðsagnasafnara. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Jón Árnason

Jón Árnason (1819-1888).

„Jón Árnason (1819 – 1888) þjóðsagnasafnari og kona hans Katrín Þorvaldsdóttir Sívertsen (1829 – 1895) reistu húsið að Laufásvegi 5 árið 1880 og bjó Jón hér til dauðadags. Húsið er úr höggnu grágrýti sem sett er saman með kalki úr Esjunni. Það hefur stundum verið kallað Jónshús. Jón var frumkvöðull í söfnun þjóðsagna en hann segir frá því í endurminningum sínum að hann hafi snemma haft áhuga á að heyra sögur og enginn á æskuheimili hans slapp við að segja honum þær, jafnvel þótt drengurinn yrði svo hræddur að hann yrði að biðja móður sína að halda utan um sig í rúminu. Þjóðsagnasöfnunina hóf Jón árið 1845 ásamt Magnúsi Grímssyni og kom safn þeirra Íslenzk ævintýri út 1852. Magnús lést 1860 en Jón hélt söfnuninni áfram og kom safnið sem kennt er við hann, Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, fyrst út í tveimur bindum 1862 og 1864. Jón var fyrsti landsbókavörður Íslands og hvatamaður að stofnun forngripasafns ásamt Sigurði Guðmundssyni málara. Saman höfðu þeir svo umsjón með safninu, sem síðar varð Þjóðminjasafn Íslands.“

Laufásvegur 5

Laufásvegur 5.

Aðalstræti

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Landnám – Reykjavík„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

„Staðsetning elstu minja sem fundist hafa við fornleifarannsóknir í vesturhluta Kvosarinnar.

Reykjavík - skilti

Landnám – Reykjavík; skilti.

1. Veggjarbrot frá því fyrir 871 +/-2, elsta mannvirkið sem fundist hefur í Reykjavík.
2. Aflöng bygging, sennilega skáli, frá því eftir 871 +/-2.
3. Skáli frá því um 930-1000.
4. Skáli, viðbygging við nr. 3, frá því um 950-1000.
5. Skáli frá því eftir 871 +/-2.
6. Smiðja, sambyggð skálanum nr. 5.
7. Eldstæði og fleiri minjar, líklega frá 9.-10. öld.
8. Bygging frá 10. öld.
9. Túngarður úr torfi með landnámsgjósku í (971 +/-2).
10. Vinnusvæði frá 9.-10. öld þar sem timbur var unnið, dýrum slátrað og skinn sútað.
11. Tvær smiðjur frá 9. og 10. öld.
12. Járnvinnsluofnar og eldstæði frá 9.-10. öld.
13. Kolagröf frá 9.-10. öld.
14. Bygging frá 9.-10 öld.
15. Túngarður frá 9.-10. öld.
16. Brunnur og grjótgarður frá 9.-10. öld.
17. Byggingar frá 9.-10. öld.

Reykjavík - skilti

Landnám – Reykjavík; skilti. Staðsetningar minjastaða.

Elsta byggðin í Reykjavík var á svæðinu milli Tjarnarinnar og sjávar. Talið er að fyrstu húsin hafi risið þar á seinni hluta 9. aldar. Við Aðalstræti hafa fundist merkar minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þar fannst meðal annars veggjarbrot frá því fyrir 871 +/-2 og rústir skála, sem nú má sjá á Landnámssýningunni handan götunnar.
Fyrstu landnemarnir komu frá Noregi og Bretlandseyjum á 9. öld. Minjarnar í miðbænum gefa góð mynd af því samfélagi sem hér var fyrstu aldirnar. Fólk bjó í skálum, en það var algeng gerð torfhúsa í Skandinavíu á þeim tíma. Í nágrenni skálanna voru smiðjur þar sem málmur var unninn og svæði þar sem járn var unnið úr mýrarrauða.
Dýrabein sem fundist hafa við fornleifauppgröft sýna að landnámsmenn hafa veitt sér fugl og fisk til matar. Þeir stunduðu landbúnað og ræktuðu nautgripi og svín. Rostungur var veiddur vegna tannanna, sem voru verðmæt útflutningsvara, og skinnið af þeim var notað í reipi.“

Landnámssýning

Landnámsýningin í Aðalstræti. Langeldur í miðju skálans.

Reykjavík - skilti

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Fógetagarðinn frá 1893„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – Fógetagarðurinn; skilti.

„Þegar Schierbeck landlæknir fór af landi brott árið 1893 seldi hann Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta húsið sitt og afnot af gamla kirkjugarðinum fylgdi með í kaupunum. Anna, kona Halldóts, annaðsist garðinn af mikilli alúð næstu áratugina. Frá þessum tíma var komið nafnið Bæjarfógetagarðurinn, eða Fógetagarðurinn, sem enn loðir við hann.
Frá Anna Daníelsson var mjög virk í félagsmálum og átti meðal annars sæti í stjórn líknarfélagsins Hringsins og skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík. Hún tók einnig virkan þátt í starfsemi Garðyrkjufélags Íslands og átti sæti í sýningarnefnd vegna garðyrkjusýningar í tilefni 50 ára afmælis þess árið 1935. Anna lést árið 1940.

Faðir Reykjavíkur
Árið 1954 var komið fyrir í garðinum styttu af Skúla Magnýssyni landfógeta (1711-94), sem kallaður hefur verið „faðir Reykjavíkur“. Þegar grafið var fyrir stöpli styttunnar komu í ljós leifar af suðurvegg kirkjunnar sem stóð þar áður.

Reykjavík

Aðalstræti 10.

Skúli stofnaði ásamt fleirum ullarverksmiðjur við Aðalstræti um miðja 18. öld, svokallaðar Innréttingar, og áttu þær mikinn þátt í því að Reykjavík óx og dafnaði sem kaupstaður. Enn stendur eitt hús Innréttinganna, Aðalstræti 10, en það er elsta húsið í miðbæ Reykjavíkur, reist 1762. Þar er nú sýning á vegum Borgarsögusafns Reykjavíkur.“

Auk þessa skiltis eru fimm önnur í Fógetagarðinum er lýsa m.a. Víkurgarði, Víkurkirkju, Byggð við Aðalstræti á 10. öld og Landnámi í Reykjavík.

Skúli fógeti Magnússon

Skúli landfógeti Magnússon. Stytta í Fógetagarðinum.

Georg Schierbeck

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Skrúðgarð frá 1883„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – Skrúðgarður frá 1883; skilti.

„Georg Schierbeck fæddist árið 1847 í Óðinsvéum á Fjóni og kom hingað sem landlæknir árið 1882. Schierbeck stundaði nám í garðyrkju áður en hann helgaði sig læknisfræði og hafði mikinn áhuga á henni. Eftir aað hann reisti sér hús við norðurnda gamla kikjugarðsins í Aðalstræti fór hann fram á að fá að stunda þar garðrækt. Hann fékk leyfi til þess að rækta tré og blóm í kirkjugarðinum, sem þá var aflagður, en var gert að reisa timburvegg umhverfis garðinn og greiða 25 kr. á ári fyrir afnotin. Hann mátti þó hvorki flytja neitt burt úr garðinum né reisa þar ný mannvirki. Schierbeck gróðursetti meðal annars silfurreyninn sem enn stendur og er talinn elsta tréð í Reykjavík.
Georg Schierbeck var einn af helstu hvatamönnum að stofnun Hins íslenska garðyrkjufélags árið 1885 og var fyrsti forseti þess.“

Í Fógetagarðinum eru auk þessa fimm önnur upplýsingaskilti um Víkurgarð, Víkurkirkju, Byggð við Aðalstræti á 10. öld, Landnámið o.fl.
Reykjavík - kilti.

Reykjavík

Í Fógetagarðinum í miðbæ Reykjavíkur er skilti um „Víkurkirkju„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjavík - skilti

Reykjavík – Víkurkirkja; skilti.

„Vitað er að kirkja var byggð í Reykjavík fyrir 1200. Elsti máldagi Víkurkirkju er frá árinu 1379 og er hún þar sögð helguð heilögum Jóhannesi.
Í Vík bjuggu höfðingjar af ætt Ingólfs Arnarssonar landnámsmanns. Þormóður langafabarn hans var allsherjargoði árið 1000 þegar kristni var tekin á Þingvöllum. Eftir kristnitökuna létu blndur og höfðingjar byggja kirkjur við bæi sína vegna þess að þeim var lofað því að þeir fengju pláss fyrir jafn margar sálir í himnaríki og rúmuðust í kirkjum þeirra. Kirkja gæti því hafa verið byggð í Reykjavík þegar á 11. öld.
Bóndinn í Vík lét reisa torfkirkju við bæinn árið 1724. Hálfri öld síðar var kirkjan endurbyggð og torfveggjunum skipt út fyrir timburveggi. Einnig var byggður klukkuturn framan við kirkjuna. Sú kirkja var notuð sem dómkirkja eftir að biskupsstóllinn var fluttur frá Skálholti til Reykjavíkur árið 1785, en þótti reyndar of lítil og ómerkileg sem slík. Eftir að Dómkirkjan við Austurvöll var vígð árið 1796 var gamla kirkjan rifin og grundin sléttuð.
Talið er að kirkjur í Vík hafi ávallt staðið á sama stað í kirkjugarðinum. Í stéttinni í miðjum garði má sjá skjöld sem sýnir hvar altari kirkjunnar er talið hafa verið.“

Reykjavík - Víkurkirkja

Reykjavík – minnismerki um Víkurkirkju.