Færslur

Skötufoss

Árið 1704 bjó að hálfum Árbæ maður er Sæmundur hér, Þórarinsson, 41 árs gamall, grímsneskur að ætt. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir, 43 ára, og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Hjá þeim voru þrjú börn hennar af fyrra hjónabandi.

Skötufoss

Skötufoss.

Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason, 26 ára gamall, ókvæntur, og móðir hans. Kærleikar munu hafa verið með þeim Sigurði og Steinunni og eggjaði hún hann til að fyrirkoma bónda sínum með einhverju móti.

Sunnudagskvöld eitt í septembermánuði fóru þeir Sæmundur og Sigurður til veiða í Elliðaánum. Er þeir voru staddir við Skötufoss, sem er skammt fyrirneðan Ártún, gekk Sigurður aftur að Sæmundi, sló hann með trébarefli, sem hann hafði meðferðis og hratt honum fram í hylinn.
Daginn eftir lét Sigurður þau boð út ganga til sveitunga sinn að Sæmundar væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir er drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var nú grafið og leið síðan nokkur stund.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.

Smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri annaðhvort valdur að dauða Sæmundar eða byggi yfir vitneskju um endalok hans. Var nú gengið á hann og er hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var nú einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Fengu þau bæði líflátsdóm og voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. “Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við” segir í Vallaannál.

-Elliðaárdalur – ÁH, HMS og RV – 1998.

Elliðaárdalur

Skötufoss.

Elliðavatn

Elliðavatn (Vatn) var löngum ein þekktasta jörðin í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Bújörðin Elliðavatn er ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.

Elliðavatn

Elliðavatn – stífla.

Á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatn.
Allt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum.

Rauðhólar

Svona lítur eystri hluti Rauðhólanna út í dag.

Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir. Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ “er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn” hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, “síðan Kolfiðr hefir spillt henni”.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé “kóngl. Majestat.” Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með “iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola” (viðarkol).

Elliðavatn

Elliðavatn 1836.

Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, “tveir dagslættir” renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup “ef þeim heppnast afli.” Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta “til fálkafjár í Hólmskaupstað”.

Elliðavatn

Elliðavatn á 19. öld.

Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar “fer mjög í þurð”. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga “lök og lítt nýtandi”.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.

Elliðaár

Elliðaár.

Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist “mikil stofa” þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, “meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað”.

En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.

Elliðavatn

Elliðavatn í leiðangi Gaimard.

Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn.
Kirkja var aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið.

Þingnes

Þingnes – uppgraftarsvæði.

Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk.

Uppdráttur af minjum í Þingnesi

Minjasvæði við Þingnes.

Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett “at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú nes, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu”.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og “sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.”
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.

Lesbók Mbl. – GÍSLI SIGURÐSSON

Elliðavatn

Elliðavatn.

Jón Svaþórsson
Í Rjúpnadölum að Rauðuhnúkum virðist liggja gömul gata, sem að mestu er gróið yfir. Þó vottar fyrir henni sums staðar í gróðurræmum og í hraunum.
Gengið var frá Bláfjallavegi í átt að Rauðuhnúkum. Fljótlega var komið að götu í gegnum hraunið að Rauðuhnúkum (GPS N64 01 525 W21 36 724). Stutt ganga var í gegnum hraunhaftið og síðan framaf hraunbrún við hnúkana. Stefnt var á áberandi dæld í hnúkunum. Gengið í vestur frá Bláfjallavegi (GPS N64 01 585 W21 36 764) á götu, stutt í gegnum hraunið. Þegar komið var út úr því kom fljótlega í ljós mjög greinileg gata sem stefnir að hlíðinni framundan. Síðan var komið að hrauntungu og liggur gata inn í hraunið (GPS N64 01 731 W21 37 013 h.y.s 330m). Gatan verður ógreinileg þegar inní hraunið er komið. Ef gengið er niður með hraunkantinum, er komið að mjög greinilegri götu inn í hraunið (GPS N64 01 810 W21 36 958 h.y.s. 316m). Hér virðist vera stytst yfir hraunið. Þegar yfir er komið (GPS N64 01 832 W21 37 080 h.y.s. 314m) sjást götur sniðhallt upp hlíðina framundan, vestan við lága klettaborg. (GPS N64 01 984 W21 37 325). Gatan liggur svo niður með lækjarfarvegi og niður á rinda með leiðarvörðu sem áður hefur verið mynnst á. Ef farið er niður til hægri þegar komið er yfir hraunið. Liggur leiðin um grasivaxna hvamma og síðan hallalítið upp með klettaborginni austanverðri (GPS N64 02 066 W21 37 116 h.y.s 321m), síðan fram á brúnir og sést þá leiðarvarðan greinilega framundan, niðri á rindanum.
Héðan var gengið að Bláfjallavegi örstutta leið, þar sem farskjóti beið tilbúinn við kröppu beygjuna. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið gata á milli gömlu leiðarinnar til höfðustaðarins vestan Fóelluvatna og Selvogsgötu og/eða Heiðarvegar vestan í Heiðinni há. Með því hafa vegfarendur getað sparað sér talsverðan krók ef ferðinni var heitið milli Selvogs og Reykjavíkur eða lengra. Mikið jarðrask hefur orðið í Bláfjöllum, en votta ætti fyrir leiðinni syðst og vestast í þeim, ofan við Strompa. Þar eru, skv. annarri lýsingu af þessu svæði, nokkur vörðubrot er gætu hafa tengst þessari leið. Skammt norðan við Litla-Kóngsfell eru gatnamót sem og vestan við það. Bæði mótin eru merkt með þremur vörðum. Við syðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg (sem jafnan er talinn vera Selvogsgata) og síðan til norðausturs inn á heiðina. Við nyrðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg og einnig af henni yfir á Heiðarveginn.

Selvogsgata

Litla-Kóngsfell.

Ekki er ólíklegt að þarna megi einnig finna áfanga af þessum götum til norðurs, niður með vestanverðum Bláfjöllum og niður með Draugahlíðum að austanverðu.
Ljóst er að fljótlega grær yfir götur, sem hætt er að nota. Gatan um Grindarskörð sést t.d. ógreinilega, nema þar sem hún skásker hlíðina að vestanverðu og hófar og fætur hafa markað för í klappir þar fyrir neðan. Vörðubrot geta einnig gefið ákveðnar vísbendingar um legu hinna gömlu gatna.
Skv. upplýsingum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, mun bæði Kóngsfellshraun (úr Bláfjalla-Kóngsfelli) og Rjúpnadalahraun (einnig úr Bláfjalla-Kóngsfelli) hafa runnið eftir landnám. Gamlar götur á þessu svæði gætu því einhverjar verið eldri en hraunin.

Frábært veður – gangan tók 2 klst og 2 mín.

-Jón Svanþórsson.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Elliðaárdalur

Eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins er Elliðaárdalurinn.

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, ekki til laxveiða heldur beislunar vatnsafls og rafstöðin var reist um 1920. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum en árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum, sem er eitt mesta aðdráttarafl dalsins.
Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.
Elliði sá sem Elliðaár eru nefndar eftir var skip Ketilbjörns gamla landnámsmanns.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur 1880 – Ben. Gröndal.

Í Landnámu segir: “Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar. Hann átti Helgu dóttur Þórðar skeggja. Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá [þ.e. sjó]. Hann hafði skip það er Elliði hét. Hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði”.
Ingólfur Arnarson, landnámsmaður í Reykjavík, er talinn fyrsti eigandi Elliðaánna. Eflaust hafa laxveiðar verið stundaðar í Elliðaánum allt frá upphafi byggðar í Reykjavík, þótt áður hafi það verið með öðrum hætti en nú. Fram eftir öldum áttu bændur og kirkjan veiðirétt í Elliðaánum, en við siðaskiptin lagði Danakonungur eignir kirkjunnar undir sig og eignaðist um leið veiðina í Elliðaánum. Í upphafi lét hann stunda veiðarnar fyrir sig en síðan voru þær leigðar út, fyrst árið 1757, að því er talið er.

Elliðaárdalur

Elliðaár.

Upp úr 1800 fór konungur að selja jarðir sem að Elliðaánum liggja. Átti hann laxveiðirétt í Elliðaánum í um 300 ár. Áður fyrr var laxinn veiddur ýmist með ádrætti í voginum við árósana, eða með stíflun árkvíslanna, annarrar í einu og var þá vatninu veitt í hina. Þannig var laxinn tíndur upp því sem næst á þurru. Reykvískur kaupmaður sem átti árnar um tíma gekk mjög nærri laxastofninum með því að veiða laxinn í kistur og voru báðar kvíslarnar þvergirtar með þeim búnaði. Laxinn fór ekki að rétta úr kútnum fyrr en Englendingur nokkur, Pyne að nafni, keypti árnar árið 1890. Þá hófust þar stangaveiðar með líkum hætti og nú eru stundaðar. Reykjavíkurborg keypti síðan Elliðaárnar árið 1906, sem fyrr sagði.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Elliðaárvirkjun var vígð árið 1921. Þremur árum síðar var hafizt handa við gerð miðlunarstíflu uppi við Elliðavatn. Henni var lokið 1926 og við þessar framkvæmdir fór Elliðavatnsengi ofan núverandi stíflu undir vatn. Fram að þeim tíma rann Bugða um engjarnar og sameinaðist Dimmu, sem var afrennsli Elliðavatns, sem var þá helmingi minna en það er nú. Neðan ármóta þessara þveggja áa fékk áin nafnið Elliðaár.
Líklegt er, að Ingólfur Arnarson hafi grafið fyrsta brunninn í Reykjavík. Um aldamótin 1900 voru 34 brunnar í Reykjavík og árið 1906 brauzt út taugaveikifaraldur vegna mengaðs vatns í mörgum þeirra. Árið 1909 var tekið neyzluvatn úr Elliðaánum til hausts en þá var vatnsveitan frá Gvendarbrunnum tilbúin.

Kristján X

Kristján X. sem var konungur Danmerkur frá 1912 til 1947 ásamt Alexandrínu af Mecklenburg-Schwerin drottningu.

Vesturfarinn Frímann B. Arngrímsson hvatti fyrstur manna til athugunar á möguleikum til virkjunar Elliðaánna til hitunar og lýsingar húsa í Reykjavík. Bæjarstjórn samþykkti þó ekki byggingu rafstöðvar þar fyrr en 26. september 1918. Steingrímur Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, var ráðinn rafmagnsstjóri í Reykjavík 1. júní. Kristján X og Alexandrína drottning hans vígðu stöðina 27. júní 1921.
Elliðaárnar falla úr Elliðavatni, þær kvíslast um miðbik dalsins og renna í tveimur kvíslum til sjávar. Er fleirtölumyndin Elliðaár dregin af kvíslum þessum..

Jarðfræði Elliðaárdals er stórkostleg vegna jarðfræðilegrar sundurgerðar. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi. Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla.

Viðeyjareldstöð

Viðeyjareldstöðin.

Í Elliðaárdal hafa fundist minjar sem tengjast nýsköpun í atvinnuháttum Íslendinga, en það eru leifar af byggingum sem reistar voru vegna ullarvinnslu Innréttinganna um miðja 18. öldina. Innréttingarnar, sem svo voru nefndar, höfðu það að markmiði að stuðla að framförum í atvinnulífi. Skúli Magnússon landfógeti hafði forgöngu um stofnun fyrirtækisins. Sögufrægasta byggingin frá tíð Innréttinganna er húsið við Aðalstræti 10.

Reykjavík

Þófaramylla við Elliðaár.

Minjar Innréttinganna, sem enn sjást og færri vita um, eru rústir sem standa í árhólmanum nokkru neðan við rafstöðvarbygginguna, á móts við veiðistað sem nefnist Teljarastrengur. Þarna voru þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði, en vefsmiðjan var í Aðalstræti. Ástæða þess að þófaramyllunni og litunarhúsinu var komið fyrir í Elliðaárdal var sú að starfsemin þarfnaðist rennandi vatns. Tilgangur þæfingarinnar var að þétta ullarvoðir og gaf straumur árinnar drifkraftinn. Sneri hann vatnshjóli sem tengt var drifhjóli sem aftur tengdist búnaði sem hamraði ullina. Þegar ullin hafði verið þæfð, sem var mismikið eftir því til hvers átti að nota hana, var hún gjarnan lituð. Talið er að litunarhúsið hafi staðið skammt frá þófaramyllunni, en óvíst nákvæmlega hvar. Þó er talið að húsið hafi staðið nokkru neðan við mylluna. Tvennar aðrar rústir eru á þessum slóðum. Er talið að önnur hvor geti verið leifar sútunarverkstæðis.

Elliðaárdalur

Camp Ártún.

Stríðsárin, 1939-1945, settu mark sitt á íslenskt þjóðlíf og ekki síst Elliðaárdalinn. Eftir hernám Íslands og tilkomu setuliðs, skiptu hermenn þúsundum hér á landi, fyrst Bretar, en síðan Bandaríkjamenn. Voru víða reistir braggar þar sem setuliðið dvaldist, svonefndir kampar, og voru nokkrir slíkir í Elliðaárdal. Sjást ummerki þeirra á nokkrum stöðum. Alls voru kamparnir fimm talsins. Sá efsti, nefndur Camp Baldurshagi, var ofarlega í Elliðaárdal, við nyrðri enda skeiðvallarins. Sjást þar rústir hans. Fjórar þyrpingar voru neðarlega við ána, Camp Phersing, skammt frá rafstöðinni, Camp Battle var aðeins neðar, Camp Hickham var í Ártúnsbrekkunni þar sem jarðhýsin eru nú og loks Camp Fenton Street, en hann var þar sem nú er athafnasvæði fyrirtækisins Ingvar Helgason.

Elliðaárdalur

Camp Baldurshagi.

Fleiri braggaþyrpingar voru í næsta nágrenni, bæði á Ártúnshöfða og vestan Elliðaáa. Einu ummerki um hernaðarmannvirki við Elliðaárnar neðanverðar eru í Ártúnsbrekku. Annars vegar eru það dæld eftir sandpokavígi sem fallin er saman að mestu og hins vegar ummerki undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, en munni þess er hulinn jarðvegi.

Elliðaárnar voru síðasti farartálminn á leiðinni til Reykjavíkur þegar komið var til bæjarins úr austri. Lá þjóðbrautin um Ártún og yfir árnar á vaði rétt neðan við rafstöðina núverandi, eftir Bústaðahálsi, Öskjuhlíð og niður í Kvos. Er ekki að undra að fljótlega hafi þótt nauðsynlegt að brúa árnar og voru fyrstu brýrnar byggðar árið 1883. Nú er svo komið að Elliðaárnar eru sú á landsins sem flestar brýr eru yfir. Hafa glöggir menn talið yfir 20 brýr á ánum.

Elliðaárdalur

Letursteinn í Elliðaárdal.

Á 30 ára afmælisári Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 hófu starfsmenn fyrirtækisins undir stjórn Steingríms Jónssonar, rafmagnsstjóra, skógræktar- og uppgræðslustarf í Ellidaárhólma og lögðu þar með grunn að þeirri skógrækt sem þar er. Fyrsta árið voru gróðursettar 3000 plöntur. Upp úr 1970 var dalurinn friðaður fyrir beit en nokkru áður var skógrækt hafin í afgirtu hólfi í árhólmanum. Við friðunina tók gróður við sér og hófst þá gróðurframvinda sem enn á sér stað.

Í Elliðaánum lifa fjórar tegundir fiska sem kalla mætti nytjafiska, aðallega lax, urrið og bleikja, en einnig má þar finna ál í litlum mæli. Í ánum er auk þess fjölskrúðugt botndýralíf sem er mikilvægur þáttur í uppvexti seiðanna.

Elsta

Viðeyjareldstöðin.

Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann. Elsta bergið þarna er þó frá meginselstöð mun utar er gaf af sér hraunmyndun fyrir 3-4 milljón árum (sjá HÉR).

Heimildir m.a.:
http://www.rafheimar.is

Við Elliðaárnar

Við Elliðaárnar.

Álftanes - kort 1870

Eftirfarandi er yfirlit yfir sögu einstakra byggðalaga á Reykjanesskaganum vestanverðum:

Saga Reykjavíkur

Saga Reykjavíkur.

 -Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesnesið okkar. Kaflar úr sögu Bessastaðahrepps. Bessastaðahreppur 1998. 48 bls.

Þetta er kennsluefni í samfélagsfræði fyrir nemendur Álftanesskóla og er að nokkru stuðst við efni bókarinnar Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Efnið nær frá landnámi til loka 20. aldar.

-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Reykjavík 1996. 311 bls.

Ritið skiptist í þrjá meginhluta. Sá fyrsti nefnist „Frá landnámi til 1800. Kotin og kóngsmennirnir“.

Álftanessaga

Álftanessaga.

Þar er m.a. lýsing Bessastaðahrepps, fjallað um landnám og fyrstu aldirnar, Lénharð fógeta, hvalreka, Bessastaðakirkju, skipskaða og ofviðri og hinstu ferð Appolloníu Swartzkopf. Auk þess eru fjórir undirkaflar sem skiptast á einstakar aldir, þá fimmtándu, sextándu, sautjándu og átjándu. Annar meginhluti kallast „Nítjánda öldin. Blómaskeið sjósóknar á Álftanesi“. Þar er m.a. fjallað um mannlíf á Álftanesi í upphafi aldarinnar, aldarfar og afkomu, skiptingu hreppsins, menntun og menningu, sjósókn og landbúnað. Þriðji meginhluti nefnist „Tuttugasta öldin. Búskapur og upphaf þéttbýlis“. Rætt er m.a um íbúaþróun, samgöngur, búskap, sjósókn og fiskvinnslu, landþurrkun og sjávarvarnir, veitumál, framfærslumál, skipulag, félagsstarfsemi og listir og atvinnulíf almennt.

Saga Hafnarfjarðar

Saga Hafnarfjarðar.

-Ásgeir Guðmundsson: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I-III. Hafnarfjörður 1983-1984. 446 bls., 446 bls., 557 bls.
Verkið er efnisskipt:

Í fyrsta bindi er einkum fjallað um stjórnmál, skipulagsmál, fjármál, höfnina og atvinnumál almennt.
Í öðru bindi er rætt um veitustofnanir, slökkvilið og löggæslu, skóla- og íþróttamál, heilbrigðismál og kirkjumál.
Í þriðja bindi er sjónum beint að stéttarfélögum, félagsstarfsemi, menningarmálum, félags- og æskulýðsstarfsemi, húsnæðismálum, verslun og viðskiptum, vegamálum og samgöngum og loks er hugað að fáeinum bæjarstofnunum. Í ritinu er einnig æviágrip bæjarfulltrúa og bæjarstjóra.

Álftanes

Álftanes – örnefni og bæir. (ÓSÁ)

Bessastaðahreppur í hundrað og tuttugu ár. Afmælisrit. Umsjón með útgáfu Soffía Sæmundsdóttir. [Bessastaðahreppur] 1998. 36 bls.
Í ritinu er einkum að finna stuttar frásagnir af skólamálum, kirkjustarfi, kórstarfi og félagslífi.
Einnig eru ávörp og viðtöl við yngri og eldri íbúa Bessastaðahrepps.

-Bjarni Guðmarsson: Saga Keflavíkur I-III. Keflavík 1992, 1997, 1999. 302 bls., 371 bls., 448 bls.
Fyrsta bindið tekur til tímabilsins 1766-1890. Greint er frá upphafi þéttbýlis en meginhluti ritsins fjallar um verslun og sjávarútveg á ýmsum tímum, en jafnframt er rætt um íbúa og atvinnuhópa, alþýðuhagi og lífið í þorpinu sem og bjargræði af landi.

Saga Keflavíkur

Saga Keflavíkur.

Annað bindið fjallar um tímann 1890-1920 og skiptist í sautján ólíka kafla. Rætt er um strandsiglingar og vegasamband, umhverfi og bæjarland, fólksfjölgun og húsbyggingar, heimilishald, kaup og kjör launafólks, útgerð og fiskiskip, verslun og viðskipti, heilbrigðismál, trú og kirkju, skólahald, bindindismál, félagslíf og menningarstarf, sveitarstjórn og lífið í Keflavík í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þriðja bindið nær yfir tímabilið 1920 til 1949 og skiptist í 23 meginkafla og hefur hver og einn að geyma nokkra undirkafla. Rætt er um íbúaþróun, rafmagnsmál, vatnsveitu, samgöngur og fólksflutninga, útgerð og fiskveiðar, áhrif kreppunnar í Keflavík, verkalýðsmál, bryggjur og hafnarmannvirki, iðnað, verslun, skipulag og húsbyggingar, vöxt þéttbýlisins, lög og reglu, símamál, samkomuhald, félags- og menningarlíf, íþróttir, félagsmál, heilbrigði og velferð, skólastarf, áhrif seinna stríðs og breytingar á sveitarfélaginu.

Seltirningabók

Seltirningabók.

-Heimir Þorleifsson: Seltirningabók. Seltjarnarnes 1991. 320 bls.
Bókin skiptist í sex meginhluta og spannar að mestu tímann frá því um 1800 til 1991. Hver meginhluti skiptist í fjölda undirkafla, en aðallega er fjallað um hreppinn og stjórnsýslu, jarðir og ábúendur á Framnesi, útgerð, Mýrarhúsaskóla, Framfarafélagið og annað félagsstarf og loks kirkjuna í Nesi.

-Jón Þ. Þór: Gerðahreppur 90 ára. 13. júní 1908-1998. Gerðahreppur 1998. 293 bls.

Ritið skiptist í níu meginhluta og er hver þeirra yfirleitt með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt. Síðan tekur við kafli þar sem er m.a. fjallað um landnám, mannfjölda í Garðinum fyrir 1908 og eignarhald á jörðum í Garði og Leiru. Því næst er rætt um Garðinn sem verstöð. Stofnun Gerðahrepps er því næst gerð að umtalsefni og þar næst fjallað um starfsemi í Gerðahreppi á árunum 1908 til 1939, mannfjölda þar og byggðaþróun, sjávarútveg, verslun, kirkju og skóla. Þá er kafli um málefni hreppsins á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Því næst er greint frá vaxtarskeiði og velmegun á árunum 1946 til 1998 og m.a. rætt um mannfjölda, sveitarstjórn, veitustofnanir, skipulag, hafnarmál, skólamál og samstarf við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Að því búnu er kafli um atvinnulíf og loks er kafli um félagslíf.

Saga Grindavíkur

Saga Grindavíkur.

-Jón Þ. Þór: Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800. Grindavík 1994. 282 bls.
Jón Þ. Þór og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir: Saga Grindavíkur. Frá 1800 til 1974. Grindavík 1996. 386 bls.
Fyrri bókin greinist í tíu meginhluta og eru flestir með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt og sagt frá örnefnum. Því næst er fjallað um landnám í Grindavík og upphaf byggðar. Þá eru kaflar um mannfjölda, bólstaði og búendur og búskapar- og lífshætti í Grindavík fyrir 1800. Næst er fjallað um sjávarútveg, síðan tengsl Grindavíkurjarða og Skálholtsstóls og þar á eftir um verslun. Loks eru kaflar um Tyrkjaránið 1627 og sölu stóls- og konungseigna.

Grindavík

Grindavík 2023.

Seinni bókin skiptist í níu meginhluta og eru flestir með fjölda undirkafla. Greint er frá Grindavík á öndverðri 19. öld og fólkinu þar árið 1801 í fyrsta hluta. Í öðrum hluta er fjallað um mannfjölda í Grindavíkurhreppi 1801-1974. Því næst er rætt um hverfabyggð og þorpsmyndun. Fjórði meginhluti tekur til sveitarstjórnar. Sá fimmti fjallar um atvinnuvegi almennt og sá sjötti hefur að geyma þætti úr verslunarsögu. Í sjöunda meginhluta er rætt um menningar- og félagsmál en í þeim áttunda um skólamál. Loks er fjallað um kirkju og trúmál.

Saga Njarðvíkur

Saga Njarðvíkur.

-Kristján Sveinsson: Saga Njarðvíkur. Reykjavík 1996. 504 bls.
Ritið skiptist í sautján meginhluta og hefur hver hluti nokkra undirkafla. Rætt er um umhverfi, staðfræði og náttúrufar; landnám og fyrstu þekkta byggð; búsetu og hagi á fyrri öldum, fram um 1700; íbúa Njarðvíkur og afkomu þeirra á 18. öld; atvinnuhætti og byggðarþróun á 19. öld; menntunar-, félags- og heilbrigðismál á 19. öld; ómagaframfæri, efnahag sveitarsjóðsins og þróun fólksfjölda í Vatnsleysustrandarhreppi á 19. öld; Njarðvíkurhrepp 1889-1908; Njarðvík í Keflavíkurhreppi 1908-1942; fólksfjöldaþróun og atvinnumál 1942-1994; uppbyggingu hafnarmannvirkja; uppbyggingu almenningsfyrirtækja og ýmis verkefni sveitarfélagsins 1942-1994; skipulagsmál, íbúðabyggingar og gatnagerð 1942-1994; skóla og bókasöfn frá 1942; stjórnmál, stjórnkerfi og fjárhag sveitarfélagsins 1942-1994, Njarðvíkurkirkjur á 20. öld; félagsstarf, skemmtanalíf og íþróttir 1942-1994.

Saga Garðabæjar

Saga Garðabæjar.

-[Ragnar Karlsson]: Garðabær. Byggð milli hrauns og hlíða. Safn til sögu Garðabæjar. Umsjón með útgáfu Erla Jónsdóttir. Garðabær 1992. 73 bls.
Farið er nokkrum orðum um þróun byggðar í landi Garðabæjar í aldanna rás, rætt um náttúrufar og umhverfi, fjallað um jarðfræði Garðabæjar, greint frá kirkjustaðnum Görðum, Bessatöðum, Vífilsstöðum, fjallað um byggð og búsetu í Álftaneshreppi, rætt um upphaf Garðahrepps og breytinguna í kauptún, sveitarstjórnarmál, bæjarbrag og félags- og menningarmál.

-Ragnar Karlsson: Keflavíkurbær 1949-1989. Fjörutíu ára kaupstaðarréttindi. Stiklur úr sögu og byggðarþróun. Keflavík 1989. 60 bls.
Ritlingurinn hefur að geyma upplýsingar um bæinn í máli og myndum frá ýmsum tímum í sögu byggðarlagsins.

Kópavogur

Kópavogur – jarðir.

Saga Kópavogs. Frumbyggð og hreppsár 1935-1955. Safn til sögu byggðarlagsins-1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J. E. Petersen. Kópavogur 1983. 247 bls. Bókin var endurútgefin árið 1990.
Í ritinu eru greinar og viðtöl sem tengjast sögu Kópavogs á umræddu tímabili. Ein grein er langlengst, „Kópavogur 1936-1955“ eftir Lýð Björnsson. Í henni er sagt frá því helsta sem snertir uppbyggingu Kópavogs á þessum árum.

Saga Kópavogs. Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Safn til sögu byggðarlagsins-1985. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjórar Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson. Kópavogur 1990. 271 bls.

Kópavogur

Kópavogur 1965.

Í ritinu er greint frá upphafi kaupstaðarsögu Kópavogs, sagt frá bæjarstjórum og bæjarriturum, fjallað er um kosningaúrslit og meirihlutasamstarf, kirkju og söfnuði, bókasafnið, skipulags- og byggingamál, heilbrigðismál, félagsmálastofnun, æskulýðs- og íþróttamál og skólamál. Einnig er greint frá listastarfi, almenningssamgöngum, hafnargerð, götuheitum og mannfjölda, löggæslu, tengslum við vinabæi, stórafmælum Kópavogs og kjörnum fulltrúum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Sigurður Skúlason: Saga Hafnarfjarðar. [Hafnarfjörður] 1933. 707 bls.
Bókin spannar tímabilið frá 874 til 1933. Langur kafli er um sögu verslunarstaðarins en síðan koma sjö efnisskiptir kaflar; upphaf Hafnarfjarðarkaupstaðar, landeign og skipulag, stjórnmál sem er að mestu bæjarfulltrúa- og bæjarstjóratal, atvinnumál, heilbrigðismál, kirkjumál, skóla- og menningarmál. Loks er yfirlitskafli. Í upphafi bókarinnar er fjallað um umhverfi Hafnarfjarðar og hinar fornu bújarðir í Firðinum.

http://www.hi.is/~eggthor/thettbyli.htm#9

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1913.

Reykjavík - Grasagarðut

Á vefsíðu Grasagarðsins í Laugardal segir m.a.:

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn í Laugardal.

“Grasagarðurinn í Laugardal var stofnaður 1961 þegar Reykjavíkurborg fékk að gjöf 200 íslenskar plöntur frá þeim hjónum Jóni Sigurðssyni og Katrínu Viðar. Plöntunum var komið fyrir við Ræktunarstöð borgarinnar í Laugardal.
Sigurður Albert Jónsson var fyrsti forstöðumaður garðsins frá 1961 allt til 1999 og byggði garðinn upp frá grunni. Hann hóf einnig strax skráningu og merkingu plantna, fræskipti við útlönd og ýmsar ræktunartilraunir.”
Bærinn Laugatunga féll garðinum í skaut árið 1970.

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn í Laugardal – kort.

Garðurinn hefur stækkað í áföngum, hægt og rólega frá upphafi fram til 1990, þegar trjásafnið opnaði, og aftur 2011 þegar garðurinn stækkaði um 2,4 ha og er nú um 5,5 ha.
Lystihús var flutt í garðinn árið 1980 og gróðurhúsið reis nokkrum árum síðar en þar er kaffihúsið Café Flóra til húsa.”Upplýsingarnar stemma ekki við aðrar heimildir.
Jafnframt segir: “Grasagarðurinn er lifandi safn undir berum himni. Hlutverk garðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Hann stendur fyrir fjölbreyttri fræðslu fyrir almenning og skólahópa.

Grasagarðurinn

Grasagarðurinn – skilti.

Markmið fræðslunnar er að nýta hin margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf, garðmenningu og grasnytjar sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu.”
Í garðinum sumarið 2023 hafa verið sett upp nokkur áhugaverð fræðsluskilti, án þess, að því er virðist, að nokkur tilraun hafi verið gerð til að vekja sérstaka athygli á þeim merkilegheitum.
FERLIR fór á vettvang og birtir hér með myndir af skiltunum og meðfylgjandi fróðleik:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Zeppilin yfir Reykjavík 17. júli 1930.

Þýska loftfarið Zepperlin kom nokkrum sinum við ofan Reykjavíkur á ferðum sínum milli Evrópu og Ameríku á fjórða áratug 20. aldar.
Fimmtudaginn 17. júlí 1930 um klukkan 11:00 horfðu Reykvíkingar t.d. undrandi upp til himins þegar hið glæsilega þýska loftskip Graf Zeppelin sigldi í átt að borginni.

Zeppilin

Zeppilin yfir nýbyggðum Landsspítalnuum.

Hægt og tignarlega nálgaðist það, grár líkami hans ljómaði í sólarljósinu. Það flaug mjög hægt yfir borgina í hringlaga mynstri og fegurð hennar heillaði alla sem urðu vitni að þessari miklu sjón. Þetta var sannarlega ógleymanlegt atriði þar sem Ísland hefur aldrei fengið betri fluggest. (Fálkinn, ágúst 1930)
Við lestur þessa texta í dag er eins og litla þorpið Reykjavík hafi fengið heimsókn frá geimskipi. Árið 1930 var Ísland enn mjög afskekkt og óljóst eyríki sem barðist við að halda í við nútímavæðinguna í Norður-Evrópu. Svartsýni var að aukast þar sem viðkvæmt hagkerfi Íslands hafði orðið fyrir alvarlegum áhrifum af upphafi kreppunnar miklu árið áður. Flugvélar voru sjaldgæf sjón, svo það hlýtur að hafa verið „sannlega ógleymanlegt atriði“ þegar þetta glæsilega þýska loftskip birtist fyrir ofan Reykjavík í júlí 1930.

Zeppilin

Zeppilin í Reykjavík 30. júlí 1930.

Zeppelinar sigldu um heiminn til að sýna og prófa loftskipin. Zeppelin-fjölskyldan flutti farþega og póst í flugi yfir Atlantshafið á þriðja áratugnum fyrir Hindenburg-slysið 1937 og önnur pólitísk og efnahagsleg álitamál, sem flýttu fyrir því að loftskipin féllu. Ísland var heimsótt a.m.k. í annað sinn árið 1931.

Forsætisráðherra Íslands sendi skipstjóra Zeppelin símskeyti í kjölfar heimsóknar hans 1930:
“Kommadant, Graf Zeppelin.

Zepperlin

Þróun Zepperin loftfaranna.

Í nafni íslensku þjóðarinnar býð ég þig, herra Kommandant, velkominn til Íslands. Ég bið ykkur að senda ríkisstjórn Þýskalands okkar innilegustu þakkir fyrir þann velvilja sem þeir hafa sýnt okkur með því að senda Graf Zeppelin til Íslands og bera því kveðjur Þýskalands á 1000 ára afmæli Íslands.

Hinar minnstu þýsku þjóða tekur náðarsamlega við þessari kveðju þeirrar stærstu. Heppnin fylgir þér, herra Kommandant, á ferð þinni til Íslands og heimferð til Þýskalands. Sendum bróðurkveðjur okkar frá Íslandi til Þýskalands”.

Yfirmaður Zeppelin var Ernst Lehmann. Hann lést daginn eftir að Graf Zeppelin hrapaði, af sárum.

Um klukkan 19:25 að staðartíma í New Jersey 6. maí 1937 kviknaði í þýska seppelfaranum Hindenburg þegar hann beygði sig í átt að viðlegukantinum á Naval Air Station í Lakehurst. Loftskipið var enn í um 200 fetum yfir jörðu.

Zeppilin

Zeppilin yfir New York 1933.

Um var að ræða LZ 129 Hindenburg (Luftschiff Zeppelin #129; Skráning: D-LZ 129), sem var þýskt loftskip sem flutti farþega í atvinnuskyni, aðalskip af Hindenburg flokki, lengsta flokki flugvéla og stærsta loftskip miðað við rúmmál. Það var hannað og smíðað af Zeppelin Company (Luftschiffbau Zeppelin GmbH) og var rekið af þýska Zeppelin flugfélaginu (Deutsche Zeppelin-Reederei). Það var nefnt í höfuðið á Paul von Hindenburg fieldmarshal, sem var forseti Þýskalands frá 1925 til dauðadags 1934. Það kviknaði í því og eyðilagðist þegar reynt var að leggja að bryggju við viðlegustöng sína á flotaflugstöðinni í Lakehurst. Slysið olli 35 bana (13 farþegum og 22 áhafnarmönnum) af 97 manns um borð (36 farþegar og 61 áhöfn) og til viðbótar banaslysi á jörðu niðri.

Hamfarirnar voru umfjöllunarefni fréttamynda, ljósmynda og hljóðritaðra sjónarvotta. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram bæði um orsök íkveikju fyrir eldsvoðann sem fylgdi í kjölfarið. Umfjöllunin braut traust almennings á risastóru, farþegaflutningastífu loftskipinu og markaði skyndilega endalok loftskipatímabilsins.

Zeppilin

Um klukkan 19:25. að staðartíma kviknaði í þýska seppelfaranum Hindenburg þegar hann beygði sig í átt að viðlegukantinum á Naval Air Station í Lakehurst, New Jersey, 6. maí 1937. Loftskipið var enn í um 200 fetum yfir jörðu.

Heimild m.a.:
-https://en.wikipedia.org/wiki/Hindenburg_disaster

Gufunes

Kristján H. Kristjánsson skrifaði eftirfarandi nýlega (2023) um Gufunesið á samfélagsmiðlunum:

Gufunes

Gufunes.

“Ég kannaði Gufunesið sem er ógeðslegasta svæði Reykjavíkur. Mikið af drasli og vond lykt enda er umhverfissóðinn SORPA með starfsemi þarna. Ég tók eftir krossi við hól skammt frá Sorpu og kom þá í ljós að þarna eru margar líkamsleifar grafnar skv. minnisvarða, sem voru áður í kirkjugarð Maríukirkju, þar sem áburðarverksmiðjan var. Í Þorláksmáldaga sem kenndur var við Þorlák Þórhallsson biskup og gerður árið 1180 segir að Maríukirkja sé í Gufunesi. Prestur í Gufunesi á þeim tíma var Ásgeir Guðmundsson en hann lést kringum 1180. Kirkjan var lögð niður 1886. Kirkjan stóð um nokkra hríð og var notuð sem skemma en var svo rifin og kirkjugarðurinn sléttaður. Staðsetning kirkjunar glataðist með tímanum en við byggingaframkvæmdir við Áburðaverksmiðjuna 1978 komu upp mannabein sem reyndust tilheyra gamla kirkjugarðinum.

Gufunes

Gufunes.

Ákveðið var að láta grafreitinn víkja fyrir framkvæmdum og voru beinin flutt í nýjan grafreit í túninu og hófst verkið 6. ágúst 1968. Mjög víða í garðinum voru “leiðin” hvert ofaná öðru. Sumsstaðar mátti greina 3 beinagrindur hverja niður af annarri. Einnig mátti sjá það að engin kista hafði verið utan um líkið, heldur bara “fjöl” undir. Líka leit svo út fyrir að ekkert hafi verið, annað en líkaminn lagður í moldina. Engin kista var heil, utan ein barnskista, sem náðist heilleg, en mjög fúin. Á öllum kistunum var lokið fallið niður að botnfjöl og yfirleitt voru þessar kistufjalir svo fúnar að þær duttu í sundur þegar hreyft var við þeim. Við uppgröftinn komu upp 748 mannabein eða höfuðkúpur, sem taldar voru, auk barnskistunnar.

Gufunes

Gufunes.

Beinin voru látin í 125 kassa, sem voru allir af sömu gerð og stærð. Ekki fundust legsteinar eða brot af þeim. Undir lokfjöl einnar kistunnar lá silfurskjöldur áletraður, Páll Jónsson, sýslumaður, Elliðavatni, settur sýslumaður Gullbringu- og Kjósasýslu 1801-1803 og síðar 1818, dáinn 1819. Og í annarri kistu fundust tvö silfurlauf af sömu gerð, en mismunandi stærð. Þessi lauf voru á höfuð- og fótagafli. Í þriðju kistunni lá naglbítur. Þessi gripir og bein Páls fóru í Þjóðminjasafnið. Varðveist hefur altari úr kirkjunni. Það barst að Úlfarsfelli eftir að kirkjan í Gufunesi var aflögð.

Gufunes

Gufunes.

Þar var það lengi notað sem búrskápur, þar til séra Hálfdán Helgason á Mosfelli rakst á það og flutti heim að Mosfelli og notaði það við hjónavígslur. Síðar var það flutt að Reykjalundi og gert upp af Magnúsi Ingvarssyni, sem málaði rósamynstur á það, sem hann lærði í Noregi og er það núna notað þar við guðþjónustur. Ég fékk leyfi til þess að taka þessar myndir af altrarinu. – Ég tel rétt að flytja beinin í Gufuneskirkjugarðinn vegna þess að þetta er allt of ógeðslegur staður fyrir látna.”

Heimild:
-Kristján H. Kristjánsson.

Gufunes

Gufunes.

Heiðarvegur

Haldið var eftir slóð upp og austur yfir Bláfjallahorn. Þar blasir við varða á Heiðarveginum, h.y.s 591m. Vörðubrot er sunnar út undir Bláfjallahorninu.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Gengið var austur framhjá stórri vörðu hlaðinni úr hraunhellum. Framundan eru leirsléttur og eru nokkrar grjóthrúgur á þeim (hugsanlega fallnar vörður). Síðan tekur við vörðuð leið austur fyrir Kerlingarhnjúk. Fljótlega kemur stikaða leiðin um Reykjaveg á Heiðarveginn og hafa vörðurnar verið hlaðnar upp á þeim kafla. Við 14. vörðu eða vörðubrot beygir Reykjavegurinn í norð-austur í skarð á milli Bláfjalla og Kerlingarhnjúks. Áfram var haldið þvert fyrir dalkjaftinn milli Bláfjalla og Kerlingarhnjúks og fram á brúnir austan við hnjúkinn. (Taldar voru 7 vörður og vörðubrot á þeim kafla). Vörðubrot er á brúninni.

Heiðarvegur

Varða á Heiðarvegi.

Vegalengd frá Bláfjallahorni er um 2 km. Héðan sést austur til jökla og suður til sjávar. Nokkuð bratt er beint niður brekkuna en meira aflíðandi rétt norðar utan í Kerlingarhjúk og einnig sunnar í hrauninu og er þar hugsanlega gata (steinar ofan á steinum). Mikið úrrennsli er hér og djúpir vatnsfarvegir í þykkum jarðvegi niður dalverpi í aflíðandi halla. Fljótlega sér fyrir götum í grasi og er mikið úrrennsli úr þeim. Lækjarfarvegur er hér með hraunbrún Heiðarinnar há og sjást götur norðan við farveginn. Virðist fylgja honum niður á Hrossahryggi og Hrossaflatir þar sem þær koma á Ólafsskarðsveginn.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Þegar neðar dregur verða göturnar greinilegri, liggja í vallendi á bökkum vatnsfarvegsins sem orðinn er að árfarvegi. Þessi farvegur virðist taka við miklu af leysingarvatni af Heiðini há og Bláfjöllum austanverðum. Nú er komið að vörðu. Gatan virðist skiptast nokkrum sinnum. Önnur fer áfram niður með ánni en hin fer stytting yfir móa og virðist þræða valllendisræmur í gegnum móana. (Getur verið að vallendið hafi myndast við umferðina?). Næst er komið fram á brekkubrún og sést þá klettaborg framundan með þrem vörðum. Tvær eru syðst á klettinum og ein á norðurbrún og er hún stærst. Stór hella er neðarlega í hleðslunni og skagar út úr henni og virðist hún vísa á götuna norðan með klettinum.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – Geitafell fjær.

Í holtinu er fallegt vatnsstæði eða drykkjarsteinn í berginu. Vörðurnar gætu hafa verið merki um það. Framundan sést steinn á kletti (varða) og er gatan sunnan við hana. Enn er varða á leið okkar nærri árfarveginum. Vegamót virðast vera á Hrossaflötum. Beint áfram er lækjarfarvegur sem hefur stefnu á Þúfnavelli austan við Geitafell. Hraun er hér undir og suður í átt að Geitafelli.
(Frá því að gengið var á brúnir í júní virðist eitthvað hafa verið átt við vörðurnar síðan þá).
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 2 klst og 20 mín.

Heiðarvegur

Varða við Heiðarveg.

Búahellir

Í Kjalnesingasögu segir frá Búa, sem hélt til í helli í Laugargnípu. Í viðræðum við Harald Jónsson í Varmadal fékkst staðfest að hellirinn væri til, nefndur Búahellir.

Kjalarnes

Kjalarnes – kort.

Hellirinn er ofarlega í Búa (Laugargnípu) og erfitt að komast upp í hann. Sjálfur hafi hann einu sinni reynt að klifra þangað upp en í upphafi skal endirinn skoða því erfitt getur reynst að komast niður aftur. Best væri að síga ofan frá, í hellinn og síðan fara áfram á bandinu niður fyrir.
Gengið er að skriðu fjallsins frá Grundará, sem kemur úr gili (Gljúfrinu) skammt norðar. Op hellisins horfir mót vestri.

Í Kjalnesingasögu segir t.d.. að Helgi bjóla hafi numið Kjalarnes og búið á Hofi. Hann átti Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins. Synir þeirra hétu Þorgrímur og Arngrímur.

Esjuberg

Búahellir?

Örlygur hinn írski leitaði á náðir Helga bjólu að ráði frænda síns, Patreks biskups á Írlandi. Fékk Helgi honum bústað. Þar reisti Örlygur kirkju. Andríður, Kolli og Esja koma síðar. Helgi tekur við þeim.

Kolli sest að í Kollafirði. Örlygur var þá háaldraður og gaf upp land og bú fyrir Esju en upp frá því heitir þar að Esjubergi. Andríður var á hinn bóginn hjá Helga á Hofi hinn fyrsta vetur og sórust hann og synir Helga í fóstbræðralag. Helgi gefur honum síðan land undir bú, Brautarholt, og bað einnig til handa honum konu, Þuríðar, systur Þormóðs í Þormóðsdal.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Þorgrímur, sonur Helga, fékk Arndísar á Skeggjastöðum og var því tvöfalt brúðkaup á Hofi.
Þegar Helgi andast tekur Þorgrímur við búinu á Hofi og mannaforráðum (goðorði) en Arngrímur reisir sér bæ sem hann kallar Saurbæ. Synir hans eru þeir Helgi og Vakur en sonur Þorgríms heitir Þorsteinn. Þorgrímur er blótmaður mikill og reisir sér stórt hof. Sonur hans, Þorsteinn, er sagður „uppivöslumaður mikill“. Sonur Andríðs og Arndísar, Búi, er aðalpersóna sögunnar. Hann er sagður einrænn. Kolfinnur er kynntur til sögu. Hann býr í skjóli móður sinnar, Þorgerðar á Vatni, og er ekki eins og fólk er flest. Hann er kolbítur, beit steiktan börk af viði og gætti katla móður sinnar.

Lauganýpa

Lauganýpa.

Búi er í fóstri hjá Esju. Hann vill aldrei blóta og er loks dæmdur sekur skógarmaður á Kjalarnesþingi fyrir „rangan átrúnað“. Hann er með öðrum orðum brottrækur úr mannlegu samfélagi og réttdræpur. Ákæruefnið bendir til þess að hann sé kristinn eins og raunar kemur skýrt fram í sögulok.

Búi fer allra sinna ferða eins og ekkert hafi í skorist. Hann hefur hnýtt um sig slöngu sem er eina vopn hans. Fram kemur að kærleikar eru með honum og móður hans. Þeir Þorsteinn hyggjast taka hann af lífi og veita honum eitt sinn eftirför. En Esja kemur honum til bjargar. Yfir þá lýstur svo miklu myrkri að þeir sáu ekki handa sinna skil. Síðar drepur Búi Þorstein og ber eld í hofið sem brennur til kaldra kola. Esja fær honum bústað, herbergi með baði í helli nokkrum undir Laugargnípu í fjallinu ofan við Esjuberg, þ.e. Esju.”

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Kjalarnesið er sagnaríkt. Margar minjar er þar að finna ef vel er að gáð sem og skírskotun til gamallar sögu og sagna fyrri tíðar.
Haraldur segir umhverfið þarna hafa breyst mikið á skömmum tíma. Um 1920 hafi t.d. áin breytt um farveg. Áður hafi hún runnið mun vestar. Þegar staðið væri uppi á Búa og horft yfir Esjuberg og nágrenni hefði fyrir 50 árum mátt sjá móta fyrir gömlum tóftum á túninu og þannig nokkurn veginn mátt átta sig á hvernig gamla bæjarstæðið hafi litið út. Nú væri þetta meira og minna horfið. Ef taka ætti mið af breytingunni á þessum rúmlega fimmtíu árum, sem hann hafi verið þarna, þá gæti svæðið og þar með fjallið hafa litið allt öðruvísi út fyrir einhverjum öldum síðan, hvað þá árþúsundi. En hellirinn væri þarna upp í klettunum.

Heimild fengin af:
-http://www.flensborg.is/sveinn/Skrar/handr/Kjalnesingas.htm

Esjuberg

Esjuberg um 1900.