Færslur

Arnarhóll

Arni Óla skrifar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1958 um “Úr sögu Arnarhóls“:

Arnarhóll

Arnarhóll – fornleifarannsókn 1955.

“Nú er byrjað að grafa upp gömlu traðirnar í Arnarhólstúni. Er því ekki úr vegi að rifja upp gamlar minningar frá þessum stað.
Arnarhóls er fyrst getið í Landnámu, ekki sem jarðar, heldur sem örnefnis. Ingólfur Arnarson varpaði öndvegissúlum sínum fyrir borð, er hann var kominn í landsýn, og hét að byggja þar sem þær kæmi á land. Öndvegissúlurnar fundust síðar reknar „við Arnarhvol fyrir neðan heiði”. Heiðin, sem hér er átt við, er Mosfellsheiði.

Arnarhóll

Arnarhóll og nágrannajarðir 1703.

Út af orðalagi frásagnar Landnámu hafa ýmsir haldið því fram, að Ingólfur muni hafa reist bæ sinn á Arnarhóli. En það getur ekki verið rétt. Ari fróði kallar bæ hans Reykjavík, og það er sami bærinn, sem lengi var aðeins kallaður Vík og stóð undir brekkunni syðst í Aðalstræti, sem nú er. Auðvitað hefir bær Ingólfs verið höfuðbólið hér, og það sem tekur af allan vafa hér, er það, að Vík átti allt landið upphaflega. Af vitnisburði um landamerki Víkur, teknum um 1500, má glögglega sjá að bæirnir Hlíðarhús, Sel, Skildinganes og Arnarhóll voru allir byggðir í Víkurlandi. Hitt er ekki vitað hvenær þeir voru reistir, né heldur hvenær þeir urðu sjálfstæðar jarðir. En það hefir verið löngu fyr en þetta var og þó var enn óskipt beitiland.
Arnarhóll
Af Vík og bæunum þar um kring fara engar sögur um aldir. Veit því enginn hvernig stendur á því, að jörðin var brytjuð niður í mörg býli. En Arnarhóls er næst getið í gjafabréfi, dagsettu í Engey 27. marz 1534. Það bréf er svo: „Það geri eg, Hrafn Guðmundsson, heill að viti, en krankur á líkama, góðum mönnum kunnugt með þessu mínu opnu bréfi, að eg gef jörðina alla Arnarhól, er liggur á Seltjarnarnesi í Víkur kirkjusókn, heilögu klaustri í Viðey til ævinlegrar eignar, en mér til eilífs bænahalds, með þeim skilmála, að jörðin skal hvorki seljast né gefast frá klaustrinu, en tíundast ævinlega þar sem hún liggur, þeim mönnum hjáveröndum: húsfrúnni Þórey Narfadóttur, Guðbrandi Jónssyni og Ingjaldi Jónssyni. En ef guð gefur mér minn bata, heilsu og styrk, þá er fynefnd jörð, Arnarhóll, mín eign og í minni umsjá svo lengi sem guð gefur mér lífdagana, en eftir mína framferð skal hún klaustursins eign vera, sem fyr segir”.

Arnarhóll

Arnarhóll – býli 1787.

Ekki er víst að Hrafn hafi búið á Arnarhóli, en hann er seinasti bóndinn, sem á þá jörð. Nokkrum árum seinna kastaði konungur eign sinni á allar jarðir Viðeyarklausturs, og þá hafa verið rofnir þeir skilmálar, sem Hrafn setti fyrir gjöfinni, því að þá mun hafa verið lokið hinu „eilífa bænahaldi” fyrir sál hans. Um hitt skilyrðið, að jörðin mætti hvorki gefast né seljast, er að vísu það að segja, að hún var hvorki gefin né seld, heldur var henni bókstaflega rænt. Húsfrú Þórey Narfadóttir, sem var vitundarvottur að gjöf Hrafns, hefir sennilega verið mágkona Orms sýslumanns Jónssonar í Vík og móðursystir Narfa Ormssonar sýslumanns, sem var seinasti sjálfseignarbóndi í Vík. Narfi sýslumaður lét dóttur sína heita Þórey, og bendir það til skyldleikans.

Arnarhólsland

Reykjavík

Reykjavík 1801.

Það mun sennilega hafa verið um þetta leyti, eða þó öllu heldur fyr, að Arnarhólslandi var skipt úr Víkurlandi. Þykir líklegast að það hafi verið gert um leið og hjáleigurnar Skálholtsskot og Stöðlakot byggðust. Nafnið Stöðlakot bendir til þess, að þar hafi verið stöðull. Nokkru ofar, eða þar sem nú er lóð Ingólfsstrætis 9, var þá varða, sem kölluð var Stöðulvarða og bendir það nafn til hins sama. Efst á holtinu, þar sem minnisvarði Leifs heppna stendur nú, voru beitarhús frá Arnarhvoli, og allt holtið var þá kallað Arnarhólsholt, en Öskjuhlíðin Víkurholt. Þegar landamerki voru nú ákveðin milli Víkur og Arnarhóls, voru þau úr Stöðulvörðu og vestanhalt við beitarhúsin og þaðan upp í Breiðamýri að Rauðarárlæk, en síðan réði lækurinn landamerkjum til sjávar. Þetta var þá allt Arnarhólsland.

Skólavarðan

Skólavarðan á Arnarhólsholti.

Þegar beitarhúsin voru reist, hefir bóndinn á Arnarhóli sjálfsagt átt allmargar kindur. En nokkuru eftir að skiptin fóru fram, munu húsin hafa verið lögð niður, því að þess er getið 1777, að þau sé ekki annað en gamlar rústir. En upp úr þessum rústum munu skólapiltar hafaa tekið efni í Skólavörðuna, sem hlaðin var á árunum 1785—86. Þannig hafa beitarhúsin horfið. Og þær eru einnig horfnar Skólavarðan og Stöðulvarðan.
Arnarhóll hefir eflaust misst spón úr askinum sínum þegar landinu var skipt. Áður hefir hann haft kúahaga og hrossahaga suður í Vatnsmýri, í sameiginlegu beitilandi, en eftir það ekki aðra haga heldur en meðfram Rauðarárlæknum. Sennilega hafa þó verið sæmilegir sauðfjárhagar í holtinu um þær mundir. Annars missti Arnarhóll ekki öll sín hlunnindi af sambýli við Vík, því að hann átti enn um langt skeið torfristu, stungu og móskurð til eldiviðar í Víkurlandi, og er þess getið í Jarðabókinni 1703.

Arnarhóll um 1700

Arnarhóll

Arnarhóll – kaupstaðalóðin 1787.

Fyrstu glöggvar upplýsingar um Arnarhól er að fá í Jarðabókinni. Þá er þar tvíbýli og búa þar bræður tveir, Tómas og Jón Bergsteinssynir. Var heimilisfólk hjá öðrum 6 manns, en hjá hinum 5. En auk þess var hjá Tómasi tómthúsmaður, Guðni Eyólfsson að nafni, með konu og barn, og þar að auk húsmaður, sem Klemens Jónsson hét. Hjá Jóni var og tómthúsmaður, sem Guðlaugur Höskuldsson hét, og bjó hann með öðrum manni í kofa heima við bæinn. Heimilisfólk hefir því verið 17 manns. En svo voru löngum aðkomumenn þar, því að þaðan gengu 1—3 kóngsskip og fylgdi þeim engin verbúð, svo að bændur voru skyldaðir til að hýsa skipshafnirnar, hvort sem voru ein eða fleiri, og fengu ekkert fyrir nema soðningarkaup. Á þessu má sjá, að þarna hafa þá verið allmikil húsakynni.

Arnarhóll

Arnarhóll 1787.

Vatnsból var talið slæmt á Arnarhóli. Það var brunnur neðst í túninu rétt þar hjá sem Söluturninn stendur nú. Margir Reykvíkingar muna eflaust eftir honum, því að hann var þarna til skamms tíma, en nú hefir verið steypt stétt yfir hann. Við vitum ekki hve mikil eftirsjá er að þessum brunni, en þessi hafa orðið örlög margra gamalla minja hér — þær hafa verið afmáðar þegjandi og athugalaust. Það var ekki eina kvöðin á bændum að hýsa sjómenn kóngs, heldur urðu þeir sjálfir að kosta viðhald bygginga. Auk þess urðu þeir að flytja Bessastaðamenn, hvenær sem þeir kölluðu, annaðhvort sjóveg út í Viðey, eða upp á Kjalarnes, og svo landveg til Skildinganess. Enn urðu þeir að slá einn dag hvor úti í Viðey og gjalda tvo heyhesta til fálkanna, eftir að farið var að flytja þá út í Hólmi.

Arnarhóll

Arnarhóll 1850.

Bessastaðavaldið var sjaldan nærgætið við landseta konungs. Það hafði þó átakanlegast komið í ljós í fardögum 1681. Þá kom maður frá Bessastöðum og krafðist þess af einum ábúanda Arnarhóls, Ásbirni Jóakimssyni (sem líklega hefir búið á Litla-Arnarhóli en var þá að flytja sig búferlum þaðan), að hann ferjaði sig yfir Kollafjörð (eða inn í sund). Ásbjörn þóttist ekki skyldugur til þess, þar sem hann var að flytja burt af jörðinni. En fyrir þessa neitun var hann hýddur á Kópavogsþingi stórhýðingu, er næst gekk lífi hans. Og aldrei fékk hann leiðrétting sinna mála.

Tukthúsið kemur

Arnarhóll

Arnarhóll og tukthúsið um 1820.

Árið 1759 olli straumhvörfum í sögu Arnarhóls. Þá gaf konungur út skipun um að þar skyldi reist tukthús. Er mælt að Skúli Magnússon landfógeti hafi verið hvatamaður þess, og hafði hann ráðlagt stjórninni að leggja eignir Þingeyraklausturs til stofnunarinnar. Stjórnin fellst á þetta á þann hátt, að tekjur Þingeyraklausturs og Arnarhóll skyldi lagt tukthúsinu þangað til það gæti séð um sig sjálft. Þótti henni sem tukthúsið væri vel sett þarna, því að það gæti alltaf fengið ull hjá iðnstofnununum og látið fangana tæta úr henni, og þar að auki lægi jörðin svo vel við sjó, að ætíð væri hægt að fá fisk handa föngunum.

Arnarhóll

Arnarhóll 1874.

Magnús Gíslason amtmaður fann upp á því snjallræði, að nota skyldi íslenzka afbrotamenn til þess að vinna að byggingu tukthússins, og skyldu þeir með því kaupa sig undan Brimarhólmsvist. Þetta þótti stjórninni fyrirtak, því að með þessu móti mundi kostnaður við bygginguna verða minni. Var svo byrjað á því 1762 að láta hina sakfelldu grafa fyrir grunni og draga að grjót.
Tukthúsið mun hafa verið talið fullsmíðað árið 1764. Þótti þetta furðumikið hús, 44 alna langt og 16 alna breitt. Það hafði líka kostað 700—800 ríkisdali. Til tukthússins voru ráðnir tveir embættismenn, ráðsmaður (kallaður ökonomus) og fangavörður. Skyldu þeir hafa hálfar tekjur hvor af Arnarhóli, auk launa sinna.

Arnarhóll

Arnarhóll 1882.

Fyrsti „ökonomus” varð Guðmundur Vigfússon lögréttumanns Sigurðssonar í Hjörsey. Hafði hann stundað lögfræðinám við háskólann í Kaupmannahöfn í fjögur ár, en ekki lokið prófi. Var talið að hann hefði hlotið þetta embætti vegna þess, að hann var systursonur Þórunnar konu Magnúsar amtmanns Gíslasonar. Hann gegndi þessu starfi í 22 ár, eða fram til 1786.
Um þessar mundir bjó á Arnarhóli Gissur Jónsson lögréttumaður. Hann var kvæntur Silfu dóttur Jóns Oddssonar Hjaltalíns sýslumanns, sem var seinasti ábúandi í Vík (Reykjavík). Gissur var talinn meðal fremstu manna hér um slóðir á sinni tíð. Var hann hreppstjóri um 25 ára skeið og meðhjálpari í 20 ár. Hann var fæddur á Arnarhóli, ólst þar upp og fékk byggingarbréf fyrir jörðinni 1744, líklega lífstíðar ábúð.

Arnarhóll

Arnarhóll – Hafnarstræti og Reykjavíkurhöfn 1931.

Vorið 1768 byggði Guðmundur „ökonomus” honum út af jörðinni. Gissuri kom þetta mjög á óvart, og þóttist hart leikinn. Leitaði hann þá á náðir stiftamtmanns, ritaði honum bréf á alþingi við Öxará þá um sumarið og bað hann að styrkja sig til þess að hann fengi haldið jörðinni. En það bar engan árangur. Gissur varð að flæmast þaðan. Fluttist hann þá suður með sjó. Silfa kona hans var enn á lífi 1777 og átti þá heima í Kirkjuvogi í Höfnum.

Arnarhóli hrakar

Traðarkot

Traðarkot.

Nú tók Guðmundur „ökonomus” undir sig túnið á Arnarhóli, sem var stórt og gott og girt með ramefldum grjótgarði. Náði garður sá utan frá sjó um það bil er Klapparstígur kemur nú niður á Skúlagötuna og lá svo skáhalt uppeftir um það bil er nú stendur hús prentarafélagsins við Hverfisgötu, neðan við Traðarholt og að Laugavegi 3 sem nú er, en þaðan beint niður að læk, eins og gangstéttin norðan Bankastrætis liggur nú. En tún þetta skiptist í tvennt af tröðunum miklu, sem náðu frá Traðarkoti niður að lækjarósnum, og voru aldar 120 faðmar á lengd. Eftir að Gissur var hrakin frá Arnarhóli bjuggu þar tómthúsmenn, fyrst Sigurður Magnússon smiður frá Skálabrekku. Hann var jafnan kallaður timburmaður, og við hann var kenndur Timburmannsbærinn, nú Tjarnargata 5 B.

Traðarkot

Traðarkot.

Húsakosti jarðarinnar tók mjög að hnigna upp úr þessu, því að þurrabúðarmenn voru ekki skyldugir að sjá um viðhald húsa, og ekki mun Guðmundur „ökonomus” hafa hugsað um það. Þegar hann lét af ráðsmennsku tukthússins, voru húsin tekin út og voru „í mestu niðurlægingu” Baðstofan þar er þá talin 10 alnir á lengd, en ekki nema 3 3/4 alin á breidd. Þetta ár fluttist þangað Ólafur Valdason frá Rauðará og átti þar lengi heima. Hann var faðir Hróbjartar í Traðarkoti, sem var hinn efnilegasti maður í æsku, heljarmenni að burðum og syndur sem selur. En hann lagðist í óreglu og gat sér það orð, að hann væri mesti brennivínsberserkur bæarins. Ólafur Valdason drukknaði í mannskaðaveðrinu mikla 6. apríl 1830. Vegna þess manntjóns, sem þá varð, var efnt til samskota. En samskotafénu var ekki öllu úthlutað, heldur sumt af því sett á vöxtu, og síðan myndaður af því Fiskimannasjóður Kjalnesinga.

Málfríður Sveinsdóttir

Málfríður Sveinsdóttir.

Árið 1828 var bærinn á Arnarhóli orðinn svo hrörlegur, að hann gat naumast talizt mannabústaður. Þá lét Hoppe stiftamtmaður rífa hann og slétta yfir rústirnar. Sá, sem seinastur átti heima í þessu greni, hét Sveinn Ólafsson. En þótt vistarverurnar væri lélegar, ólst þarna upp sú stúlka, er talin var fegurst allra kvenna í bænum á sinni tíð. Hún hét Málfríður og var dóttir Sveins. Hún var framreiðslustúlka á klúbbnum þegar Gaimards-leiðangurinn var hér, og virðist svo sem þeim Frökkunum hafi litizt mætavel á hana, því að málarinn Auguste Mayer gerði af henni mynd í viðhafnarbúningi, en Xavier Marmier, sem þá var aðeins 26 ára, eignaðist barn með henni. Var það drengur og hét Sveinn Xavier. —

Marmier Xavier

Marmier Xavier.

Þegar Sveinn Ólafsson varð að fara frá Arnarhóli, reisti hann sér bæ, er hann kallaði Þingvöll, þar sem nú er Skólastræti. Á Arnarhóli var hjáleiga 1703 og nefndist Litli-Arnarhóll, stundum nefnd Arnarhólskot. Það fór í eyði um 1800. En þá var komið annað tómthúsbýli í túninu og hét Sölvahóll. Það reisti Einar Eiríksson, sem áður var í Þingholti. Sölvahól endurreisti Jón hreppstjóri Snorrason 1834, og var það talið snotrasta tómthúsmannsbýli í bænum um þær mundir. Seinna reyndu stiftamtmenn að koma Sölvahól burt, en þar var ekki hægt um vik, því að Hoppe hafði gefið lífstíðar ábúð. Seinna reisti Benedikt sótari bæ í Arnarhólstúni (1886) og kallaði Höfn. Stóð hann þar sem nú er hús Fiskifélags Íslands.

Tukthúsið verður að kóngsgarði

Tukthús

Tukthúsið – teikning. (Teikningin virtist glötuð, en fannst síðar á Þjóðskajalasafninu.)

Um sögu tukthússins er óþarft að skrifa, því að það hefir verið gert áður. Þess má aðeins geta, að árið 1813 rak Castenskjöld stiftamtmaður fangana burt og heim á sínar sveitir, en 1816 var tukthúsið lagt niður. Árið 1819 kom Moltke stiftamtmaður hingað og settist að í tukthúsinu; var því þá breytt svo sem hæfði bústað svo virðulegs embættismanns. Og þá skipti það auðvitað um nafn. Áður hafði það í daglegu tali verið nefnt „Múrinn”, en nú var farið að kalla það Kóngsgarð. Þarna var svo bústaður stiftamtmanna hvers fram af öðrum fram til 1873 og síðan bústaður landshöfðingja fram til ársins 1904, er innlend stjórn tók við. Þá var húsið gert að skrifstofu stjórnarinnar og hefir síðan verið kallað Stjórnarráð.

Helgi G. Thordersen

Helgi G. Thordersen, biskup.

Þess má ef til vill geta, að í tukthúsinu fæddist einn af nafnkenndustu mönnum þjóðarinnar. Þá var þar ráðsmaður Guðmundur Þórðarson frá Sámsstöðum, alltaf nefndur „Thordersen í Múrnum” á þeirrar tíðar reykvísku. Árið 1794 fæddist honum sonur, og var það Helgi Thordersen dómkirkjuprestur og síðar biskup. Eftir að tukthúsið lagðist niður höfðu stiftamtmenn og síðar landshöfðingjar Arnarhólstún til eigin nota endurgjaldslaust. Þóttu það mikil hlunnindi. Var þeim sárt um túnið og vildu ekki missa neitt af því undir byggingar. Aftur á móti leyfðu þeir tómthúsmönnum að reisa býli ofan garðs, og munu elztu býlin þar hafa verið Traðarkot og Skuggi. En við hið síðarnefnda býli var svo hverfið þarna kennt og kallað Skuggahverfi. Sjálfsagt má þakka það fastheldni stiftamtmanna í Arnarhólstún, að Arnarhóll er enn óbyggður. En á hinn bóginn varð þessi fastheldni Reykjavíkurbæ til mikils tjóns, eins og nú skal sagt.

Arnarhólstún lagt til Reykjavíkur

Sölvhóll

Sölvhóll mun hafa staði austan við húsið Sölvhólsgötu 4. Hjáleigan Sölvhóll mun hafa byggst úr landi Arnarhóls laust fyrir 1780. Nafnið Sölvahóll er einnig til í gömlum heimildum og kann að vera dregið af því að söl hafi verið breidd til þerris á hólnum. Upphaflega eru ábúendur tveir “grashúsmenn” en 1801 er Einar Eiríksson talinn einn ábúandi.
Ábúendur í Sölvhóli stunduðu útræði og var Sölvhólsvör beint niður undan bænum. Lítil vör var nokkru austar, nefnd Krummaskuð, var nauðlendingarvör. 

Fyrir 170 árum var ákveðið að stækka kaupstaðarlóðina og gæfi konungur land til þess. Hinn 12. febrúar 1789 framkvæmdi svo Vigfús Thorarensen sýslumaður útmælingu á þessum viðauka við kaupstaðarlóðina, ásamt Jóni Guðmundssyni hreppstjóra og Pétri Bárðarsyni vefara og í viðurvist Lewetzows stiftamtmanns. Sést á útmælingunni hvaða land það er sem konungur hefir ákveðið að gefa Reykjavík, en það er m.a. allt Arnarhólstúnið fyrir norðan traðirnar (því að tukthúsið mátti ekki missa þá lóð, sem það stóð á). Þessi hluti Arnarhólstúns mældist 12.000 ferfaðmar. Segir í útmælingargerðinni að þetta land sé Reykjavík mjög hagkvæmt, einkum vegna þess að þá fái hún meira athafnasvæði við höfnina, góðar lendingar, nóg rúm fyrir sjóbúðir og fiskreita. Síðar segir: „Þar sem allt þetta áðurnefnda land, sem bætast á við kaup staðarlóð Reykjavíkur, er eign hans hátignar konungsins og hann hefir allra mildilegast gefið Reykjavík það, án þess að nokkuð komi í staðinn, þá verður hér ekki heldur um neina greiðslu til annara að ræða”.

Stöðlakot

Stöðlakot 1876.

Þessi útmæling var send Rentukammeri þá um veturinn, ásamt uppdrætti eftir R. Lievog stjörnumeistara, er hann hafði gert af kaupstaðnum og hinni fyrirhuguðu viðbót kaupstaðarlóðarinnar. Jafnframt var því skotið til stjórnarinnar hvort ekki væri rétt að allir úthagar væri lagðir undir bæinn, svo að íbúarnir bætti nota þá eftir þörfum. Stjórnin gaf þann úrskurð árið eftir, að úthagar skyldu fylgja bænum til sameiginlegra afnota. Þetta hefir líklega þótt ráðgjöf, því að stjórnin tekur Örfirisey af bænum aftur 1791. En þar er ekkert minnzt á Arnarhól og hann var aldrei tekinn aftur.

Stöðlakot

Arnarhóll – Stöðlakot. Tukthúsið er nr. 3.

Árið 1792 var svo kaupstaðarlóðin stækkuð þannig, að við hana var bætt Skálholtskoti og Stöðlakoti. Er þá tekið fram í útmælingu, að þetta sé viðbót við kaupstaðarlóðina, eins og hún var ákveðin 1787. Þar má sjá, að Reykjavík hafði eignazt Arnarhólstúnið. En Reykjavík fékk það aldrei. Fyrst mun hafa verið þumbast við að afhenda það, vegna þess að tugthúsið hafði nytjar þess. En eftir að tukthúsið var lagt niður, og stiftamtmenn sölsuðu undir sig túnið, mun það ekki hafa legið lausara fyrir. Um þetta segir Jón biskup Helgason (1916): „Afleiðingin hefir því orðið sú, að kaupstaður vor hefir nú í senn 130 ár verið látinn kaupa háu verði af landstjórninni hverja feralin í þessu túni, sem sannanlega var honum í upphafi gefið af konungi, og því kaupstaðarins ótvíræð eign”.

Mannvirki á Arnarhóli

Arnarhóll

Arnarhóll – virki um 1880.

Einn kaflinn í sögu Arnarhóls er um Batteríið. Honum hefi eg áður gert skil í greininni „Víggirðingar Reykjavíkur” (í bókinni Fortíð Reykjavíkur). En oft hefir verið talað um að byggja stórhýsi á Arnarhóli. Þegar latínuskólinn skyldi flytjast frá Bessastöðum til Reykjavíkur, vildu margir að hús yrði reist handa honum þar. Ýmsir smámunir réðu, að ekki varð úr því Þegar reisa skyldi alþingishúsið, var talsverður áhugi fyrir því, að það skyldi standa á Arnarhóli, og var fyrst ákveðið að setja það þar, en hætt við „eftir allskonar þref, deilur og undirróður”, segir Klemens Jónsson. Var svo byrjað á byggingu þess rétt fyrir ofan Stjórnarráðið, en þegar Bald yfirsmiður kom, harðneitaði hann að reisa það í halla. Varð það því úr, að því var „holað niður í kálgarð” niðri í miðbænum. Og þegar rætt var um byggingu landspítala, vildu sumir að hann stæði á Arnarhóli, en ekkert varð úr því.

Arnarhóll

Arnarhóll – stytta af Ingólfi Arnarssyni.

Það mun hafa verið í janúar 1863, að Jón Árnason þjóðsagnaritari hreyfði því fyrstur manna, að Íslendingar ætti að reisa Ingólfi Arnarsyni minnismerki, og skyldi það standa á Arnarhóli, þar sem öndvegissúlur hans komu á land. Þetta líkneski kom 1931 og stendur nú þar sem gamli bærinn var. Traðirnar og túngarðurinn Arnarhólstraðir og garðurinn mikli umhverfis túnið, eru samstæður, og verður ekki um annað skrifað án þess minnzt sé á hitt.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti um Arnarhólstraðir.

Í Grágás er svo fyrirmælt, að hver maður skuli gera löggarð um töðuvöll sinn. Og í Jónsbók segir: „En það er löggarður, er 5 feta þykkur er við jörð niðri, en þriggja ofan; hann skal taka í öxl þeim manni af þrepi, er hann er hálfrar 4. alnar hár”. Björn M. Ólsen færði rök að því í grein í Árbók Fornleifafélagsins 1910, að forn íslenzk alin hafi samsvarað 49.143 sentimetrum. Sá maður, sem var hálf fjórða alin á hæð, hefir því verið 172 sm hár, og mun þar vera miðað við meðalmann. En sé gert ráð fyrir að hæðin frá öxl á hvirfil sé 28 sm, þá hefir löggarður átt að vera 144 sm á hæð. Og slíkur garður hefir eflaust einhvern tíma verið um Arnarhólstún.
Nú segir enn í Jónsbók, að ef þjóðgata liggi um bæ manns, eða að garði, þá megi maður færa hana frá bæ sínum og gera aðra jafngóða, ef hún sé ekki lengri en 240 faðmar. En ef þjóðvegur liggur að garði, og verður ekki færður, þá á þjóðhlið að vera á garðinum, 4 1/2 alin á breidd, en þjóðgata er 5 alnir. Fyrir hliðinu skal vera hjaragrind og rimar í, svo að fé smjúgi ekki á milli, okar tveir á endum og krossband á. Það er löggrind og skal setja hana svo að hún falli sjálf aftur, ef ríðandi maður opnar hana. Ekki verður nú vitað hvort slík grind hefir verið í þjóðhliðinu á Arnarhólsgarði, né hvenær traðirnar hafa verið gerðar. En þær voru til þess að fé og gripir kæmist ekki í túnið, enda þótt inn fyrir hliðið færi. Traðirnar skiptu sem sé túni Arnarhóls í tvo afgirta hluta, eða svo hefir verið á seinni öldum. En auðvitað gat grind líka verið þar í þjóðhliði.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingar um elstu götu Reykjavíkur.

Engar upplýsingar eru til um það hvenær vörzlugarður var settur þarna fyrst, en það getur verið nógu gaman að reyna að geta í eyðurnar stundum. Og þá finnst mér líklegt, að mikið æðarvarp hafi verið á Arnarhóli, er Ingólfur kom hingað, eða eggver, eins og það var kallað. Reykjavíkurbændum hafi snemma þótt nauðsyn til bera að friða þetta eggver, einkum þar sem um það lá eina leiðin til bæarins. Eggver verður líka að friða fyrir búfé, ef varp á að haldast þar. Er því ekki ósennilegt, að þegar á fyrstu árum byggðarinnar í Reykjavík hafi verið hlaðinn vörzlugarður umhverfis hólinn og hafi hann náð utan frá sjó upp að þjóðveginum, og síðan meðfram honum niður að lækjarósnum. Þegar fram í sótti hefir svo varpið gengið úr sér, því að forfeðrum vorum hætti við að stunda rányrkju. Og eftir svo sem 100—200 ár, er svo komið, að varpinu er lokið, og þá hefir einhverjum litist það heillaráð að reisa bæ þarna innan girðingar og á túni, sem fuglinn hafði ræktað. Síðan bætir bóndinn við sig annarri skák og girðir hana löggarði frá þjóðveginum suðvestur að læknum og hleður svo garð samhliða þeim garði er lá meðfram þjóðveginum og þó svo langt frá, að þjóðvegarbreidd sé á milli. Hann mátti ekki loka þjóðgötunni, og ekki gat hann heldur fært hana. Þess vegna varð hann að hafa tvöfalda girðingu meðfram henni. Við þetta myndast svo traðirnar í gegn um Arnarhólstún.

Arnarhóll

Arnarhóll – Arnarhólstraðir á miðri mynd h.m.

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um, að vegurinn um þessar traðir er elzti þjóðvegur á Íslandi. Þessa leið hefir Ingólfur Arnarson komið til hins fyrirheitna staðar. Lækurinn úr Reykjavíkurtjörn, sem kallaður var Arnarhólslækur, hefir þá máske verið vatnsmeiri heldur en síðar varð, og hann var ófær alls staðar nema á vaðinu við ósinn. Þjóðleiðin til Reykjavíkur og vestur á Seltjarnarnes lá því þarna um nær 1000 ára skeið, eða frá landnámstíð fram til ársins 1866, þegar steinbrú var gerð á lækinn og Bankastræti rutt, svo að þar varð fær vegur.” – Á.Ó.

Í “Húsakönnun og fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn“, Minjasafn Reykjavíkur 2005, er fjallað um Arnarhól:

Arnarhóll

Arnarhóll – Arnarhólstraðir v.m.

“Arnarhóllinn hefur í gegnum aldirnar verið einn af miðpunktum Reykjavíkur. Sunnan í hólnum liggur fyrsti þjóðvegurinn til Reykjavíkur, Arnarhólstraðirnar. Af þykkum mannvistarlögum, sem er að finna á stórum hluta hólsins, má draga þá ályktun að þar hafi verið búið fljótlega eftir að Ísland byggðist. Elstu jarðlög sem gefa til kynna byggð á hólnum eru eldri en gjóska sem féll 1226.
Í rituðum heimildum er Arnarhóls og byggðarinnar þar sjaldan getið. Elsta frásögn af hólnum er frá 16. öld og virðist Arnarhólsjörðin þá vera sjálfstæð eign. Í heimildum kemur fram að jörðin er í eigu Hrafns Guðmundssonar bónda í Engey. Árið 1534 gaf Hrafn síðan Viðeyjarklaustri jörðina.

Reykjavík

Reykjavík 1936.

Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson skoðaði kirkjuna í Reykjavík og áhöld hennar árið 1642 kemur fram að Arnarhóll tilheyrði Reykjavíkursókn og að jörðin var þá eign konungs. Þetta kemur einnig fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703.
Árið 1786 var stofnaður kaupstaður í Reykjavík og uppmæling gerð á Reykjavíkurlóðinni 1787. Í skjalinu vegna uppmælingarinnar kemur fram að konungur hefur ætlast til að Arnarhóllinn skuli leggjast til kaupstaðarlóðarinnar. Þetta fórst þó fyrir og Arnarhóll lenti fyrir utan Reykjavíkurlóðina. Upp kom deilumál og þurfti Reykjavíkurborg síðar meir að kaupa jörðina. Bæjarlandið var stækkað í febrúar 1835 er ýmsum bújörðum í nágrenninu, þar á meðal Arnarhóli, var bætt við það. Upp frá því hefur Arnarhóll tilheyrt Reykjavík.

Arnarhóll

Klöpp.

Ábúendur Arnarhóls hafa verið margir í gegnum tíðina. Arnarhóll þótti hið myndarlegasta býli þar til tukthúsið var reist syðst á Arnarhólstúninu á árunum 1759-64. Þá fór að halla undan fæti og um það bil hálfri öld síðar var býlið orðið mjög hrörlegt. Ástæðurnar má rekja til þess að tekjur Arnarhóls voru lagðar til reksturs tukthússins og smám saman fengu einnig hinir ýmsu embættismenn tukthússins jörðina til eigin afnota.
Arnarhóll
Fyrstu ábúendur Arnarhóls, sem getið er í rituðum heimildum, voru Tómas Bergsteinsson, f. 1652 og Guðrún Símonardóttir. Þau bjuggu þar árið 1703 ásamt bróður Tómasar, Jóni Bergsteinssyni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns bjó Tómas á hálfri jörðinni og Jón hálfri. Heimilsmenn hjá Tómasi voru sex og fimm hjá Jóni. Innibúandi hjá Tómasi voru einhleypur húsmaður og tómthúsmaður með konu og barni. Hjá Jóni bjuggu tveir tómthúsmenn og húsi þeirra hélt Jón við. Samkvæmt þessu voru því íveruhúsin að minnsta kosti tvö á býlinu.
Kvaðir Arnarhólsbænda voru að flytja Bessastaðamenn til Viðeyjar og til baka hvenær sem þeim þóknaðist, jafnt á nóttu sem degi. Þessu til viðbótar komu tvær dagsláttur í Viðey á ári, einn á hvorn bónda, og skyldi bóndinn fæða sig sjálfur í þessum ferðum. Við til húsagerðar áttu bændur að útvega sér sjálfir en torf og eldivið sóttu þeir í land Reykjavíkur.

Arnarhóll

Arnarhóll – 17. júní 1948.

Sonur Tómasar og Guðrúnar, Jón Tómasson (f. 1687, d. 1754), bjó á Arnarhóli um nokkurt skeið eftir að foreldrar hans brugðu búi. Gissur lögréttumaður Jónsson (sonur Jóns Tómassonar), bjó síðan á Arnarhóli eftir föður sinn. Hann fluttist nauðugur af jörðinni árið 1768 að beiðni Guðmundar Vigfússonar, ráðsmanns í tukthúsinu, en eins og áður sagði fengu embættismenn fangelsisins býlið til ábúðar sem launauppbót. Fyrir utan embættismenn bjuggu ýmsar fjölskyldur á Arnarhóli upp frá þessu. Ábúendur sátu þar yfirleitt skamma hríð eftir þetta og voru fjölskyldurnar sjaldnast tengdar innbyrðis eins og áður. Guðmundur Vigfússon lét af ráðsmennsku tukthússins árið 1786 og við starfinu tók Gunnar Sigurðsson til bráðabirgða í eitt ár. Henrik Scheel tók síðan við ráðsmannstarfinu árið 1787.

Arnarhóll

Sölvhóll – teikning Jóns Helgasonar, biskups. Klöpp fjær.

Við ráðsmannsskiptin voru gerðar úttektir á Arnarhólsbýlinu, sú fyrri í maí 1786 og sú seinni í júní 1787. Úttektunum ber nokkurn veginn saman hvað varðar innihald en í þeim kemur fram að býlið var í mikilli niðurníðslu og ítrekað nefnt að viðgerð sé nauðsynleg. Baðstofan mældist við úttektina aðeins 10 álna löng og 3 3/4 álna breið. Göng frá baðstofu voru 3 álna löng og 2 álna breið. Skálinn mældist 12 álna langur og 4 álna breiður. Eldhúsið var 8 álna langt og 4 álna breitt, nokkuð viðgert. Íbúðarhúsið virðist því samkvæmt þessu hafa verið gangabær, sem var ráðandi byggingarstíll á Íslandi fram á 18. öld. Síðasti ábúandinn á Arnarhóli var Sveinn Ólafsson. Þar bjó hann til ársins 1828. Hann var faðir Málfríðar, sem þótti fríðust kvenna í Reykjavík um 1830 og er talin hafa verið fyrsta fyrirsæta á Íslandi.

Arnarhóll

Sölvhóll 1843.

Við upphaf 19. aldar þótti Reykjavík ekki bera neinn sérstakan höfuðborgarsvip og lítið bar einnig á fegurð staðarins. Landslagið þótti þó bjóða upp á ýmsa möguleika en húsakynni íbúa voru aftur á móti í mikilli vanhirðu. Fegrunarátak var þá sett í gang og eitt af byrjunarverkefnum var að rífa Arnarhólsbýlið. Það var Peter Fjelsted Hoppe stiftamtmaður sem stóð fyrir því árið 1828 og þótti það mikið og gott framlag til fegrunar Reykjavíkur. Arnarhólsbýlinu er lýst þar sem kofaþyrpingu eða rústum, sem voru til mikillar óprýði, þannig að ekki hafa bæjarhúsin verið ásjáleg þau seinustu ár sem þau voru í notkun. Oft var rætt um það í skipulagsnefnd Reykjavíkur hvort nota ætti Arnarhólinn sem byggingarlóð eða hvernig mætti nota svæðið.

Ingólfur Arnarsson

Ingólfur Arnarsson – stytta Einars Jónssonar.

Árið 1916 kom Guðmundur Hannesson með þá hugmynd að reisulegar byggingar nytu sín vel efst á hólnum. Þessi hugmynd fékk lítinn hljómgrunn hjá bæjaryfirvöldum í Reykjavík á þeim tíma. Um svipað leyti kom danski arkitektinn Alfred Raavad með þá hugmynd að reisa útsýnisskála á hólnum, áþekkum þekktum skála í Kaupmannahöfn. Þessi hugmynd fékk einnig litlar sem engar undirtektir. Ákveðið var síðan að stytta Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns skyldi standa efst á hólnum. Haustið 1923 var hafist handa við að reisa stall undir styttuna og í febrúar 1924 var styttan afhjúpuð að viðstöddu miklu fjölmenni. Styttuna gerði Einar Jónsson myndhöggvari. Hugmyndin var þó ekki ný því á fundi Kvöldfélagsins árið 1863 lagði Jón Árnason fram tillögu þess efnis að Ingólfi Arnarsyni yrði reistur minnisvarði á Arnarhóli. Sigurður Guðmundsson, málari vakti einnig máls á þessu í Þjóðólfi árið 1864 og vildi hann að þetta yrði framkvæmt árið 1874 í minningu þúsund ára byggðar á Íslandi.”

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 21.09.1958, Úr sögu Arnarhóls, bls. 457-462.
-Húsakönnun og fornleifaskráning vegna fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn, Minjasafn Reykjavíkur 2005.

Arnarhóll

Arnarhóll um 1930.

Öskjuhlíð

Í Morgunblaðinu árið 1997 er fjallað um “Öskjuhlíð – margþætta útivistarperlu“:

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð og nágrenni – örnefni.

Öskjuhlíðin er ein meginprýði Reykjavíkur, en samt mun staðreynd að tvö orð munu öðrum fremur koma upp í huga margra er nafnið ber á góma: Perlan og ólifnaður. Það er mikil einföldun, því Öskjuhlíðin er ein glæsilegasta útivistarperla höfuðborgarbúa, auk þess að vera lifandi og nærtæk kennslustofa í jarðfræði, fuglafræði og grasafræði íyrir fólk á öllum aldri. Guðmundur Guðjónsson fletti upp á ýmsum staðreyndum um Öskjuhlíðina.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

“Ímynd Öskjuhlíðarinnar hefur farið batnandi hin síðustu ár og má segja að ekki hafi veitt af, en margt hefur verið gert til að laða fremur fólk að í stað þess að fæla frá sem orðsporið gerði um skeið.
Ef litið er fram hjá Perlunni, er það skógurinn sem við mönnum blasir í Öskjuhlíð og gefur henni þann sterka svip sem raun ber vitni. Það er og skógurinn sem laðar að borgarbúa til útivistar, auk þess að þar er afar skjólsælt í sólaráttinni úr norðri.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Skógurinn er síðari tími fyrirbæri, en Öskjuhlíðin sjálf á sér allmiklu lengri sögu, en í rúnum hennar er rist fjölbreytt jarðsaga seinni hluta ísaldar á Íslandi. Þannig var Öskjuhlíðin eyja fyrir 10.000 árum er sjávarstaða var hærri en hún er í dag. Sæbarðir og slípaðir hnullungar og jökulurð sem liggur eins og baugur á þykkum fingri í 43 metra hæð yfir sjó er til vitnis um þær umbyltingar og breytingar sem orðið hafa á landinu í aldanna rás.
Bergrunnur Öskjuhlíðar er hið svokallaða Reykjavíkurgrágrýti sem er hraun sem rann úr eldstöðvum á Mosfellsheiði á síðari hluta ísaldar. Síðar meir sótti kuldinn í sig veðrið og jöklar huldu landið á nýjan leik og er þeir hopuðu með hlýnandi veðri skapaðist Öskjuhlíðin í þeirri mynd sem þekkt er í dag.

Jökulrispur

Jökulrispur.

Jökulskrapaðar grágrýtisklappir víða á svæðinu segja þessa sögu og annað kennileiti er til marks um nýjar breytingar með hlýnandi veðri. Þá hopaði jökullinn og elti. Mynduðust þá Fossvogsbakkarnir við norðanverðan Fossvog, en í þeim eru steingerðar leifar skelja, kuðunga og fleiri sjávardýra er þá voru uppi. Yfirleitt lifa sömu tegundir enn í dag þannig að ástandið til lands og sjávar á þessum tíma hefur verið líkt og nú. Álitamál er hins vegar hvort að þessi lög hafi orðið til á síðasta hlýskeiði ísaldar eða í lok síðasta jökulskeiðs sem hófst fyrir 70.000 til 120.000 árum og lauk fyrir um 10.000 árum. Land reis þegar jökullinn gaf eftir og þá færðust fjörumörkin heldur betur upp á við eins og frá var greint hér áðan.
Það hefði verið fróðlegt yfir Reykjavíkursvæðið að líta á þessum tímum. Þá voru Öskjuhlíð og Háaleyti eyjar og topparnir á Laugarási og Rauðarárholti sker! Á næstu þúsund árum lækkaði sjór hins vegar á ný og núverandi fjörumörk náðust. Við erum ekki að tala um langan tíma í jarðsögulegum skilningi þó mannsaldrarnir séu óteljandi og því er óhætt að segja að mikið hafi gengið á.

Tré, plöntur og fuglar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð 1946.

Á fimmta áratugnum fór að vakna til vitundar með þjóðinni nauðsyn á opnum svæðum, útivistarsvæðum, þar sem menn gætu unað, enda færðist mjög í aukana nokkuð sem áður var framandi með mönnum hér norður í höfum, þ.e.a.s. frístundir.
Heiðmerkursvæðið var friðað árið 1948 og menn létu ekki þar við sitja, heldur litu í kring um sig eftir fleiri valkostum. Ræktunarsaga Öskjuhlíðar hófst um þetta leyti og árið 1950 fór Einar G.E. Sæmundsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, með tilbúinn áburð og mokaði honum á melkoll einn ofarlega í Öskjuhlíðinni. Árangurinn lofaði góðu og í kjölfarið var farið að sá grasfræi og gera hinar og þessar athuganir á svæðinu. 1951 kom fyrsta ákvörðunin um ræktun trjáa og þá í norður- og vesturhlíðum Öskjuhlíðar. Fleira var og í farvatninu, m.a. göngustígagerð og verndun svæðisins. Frá upphafi hefur Hitaveita Reykjavíkur staðið straum af kostnaði við ræktunina, en Skógræktarfélag Reykjavíkur haft umsjón með henni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Hundruð þúsunda trjáa hafa verið gróðursett í Öskjuhlíð sem er að stórum hluta skógi vafin. Skilyrði virðast góð, enda reyndust hæstu plöntur við mælingu árið 1991 vera yfir 9 metrar. Var það sitkagreini, en bergfurur voru þá um 5 metrar og aspir um 7 metra háar. Auk þess er birki algengt og í góðri grósku. Alltaf eru að finnast nýjar plöntur í Öskjuhlíð, svona ein og ein, en árið 1993 höfðu fundist 135 tegundir háplantna sem er um þriðjungur íslensku flórunnar.

Brandugla

Brandugla.

Mikið fuglalíf þrífst einnig í hlíðinni, bæði í skóginum og á annars konar búsvæðum sem þar er einnig að finna. Hátt í 100 tegundir fugla hafa sést í Öskjuhlíð og um tugur verið árvissir varpfuglar. Sumir varpstofnarnir eru mjög stórir, s.s. stofnar skógarþrastar og auðnutitlings. Þannig voru um 120 þrastarpör er skarinn var talinn af kunnáttumönnum sumarið 1992. Þá voru auðnutitlingspör um 60 talsins. Sama sumar voru talin vera 5 stokkandarpör verpandi, tvö tjaldspör, þrjú sandlóupör, þrjú heiðlóupör, sjö til tíu stelkspör, tíu til fimmtán hrossagaukspör, fimmtán til tuttugu þúfutitlingspör og tvö til fimm starapör, auk þrasta og auðnutitlinga sem áður er getið um. Þá hefur hrafn oft verpt eða reynt varp. Hann er þó ekki árviss varpfugl.
Auk varpfugla má sjá margt skrítið og skemmtilegt. Þannig vita trúlega fáir að allt að 3-4 branduglur veiða mýs í Öskjuhlíð á vetrum, einkum í skóginum vestan í hlíðinni og algengt er að sjá kanínur á flækingi. Uppruni þeirra mun sá að gæludýraeigendur missa áhugann eða sjá aumur á dýrunum í prísundinni og gefa þeim frelsi með það að leiðarljósi að betra sé að lifa skemur í frelsi en lengi í prísund.

Minjar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Auk skóglendis með tilheyrandi fuglalífi og tækifæri til náttúruskoðunar á mjög víðu sviði er að finna á þessum slóðum margskonar minjar, ekki síst frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Má þar nefna skotgrafir, víghreiður og fleira sem átti að skjóta þýska hernum skelk í bringu ef hann vogaði sér að renna hýru augu hingað norður. Á þennan hátt mætti lengi halda áfram, því það er í raun ótæmandi að nefna hvað hægt er að skoða í Öskjuhlíð. Það er því ekki að undra þótt þeim fjölgi mjög frá ári til árs sem eyða æ fleiri auðnustundum í og við Öskjuhlíð.”

Í Morgunblaðinu árið 2013 er fjallað um “Stríðsminjar á hverju strái”:

Öskjuhlíðin er ævintýraland;  menningarsaga frá merkum tímum, skotbyrgi og niðurgrafin stjórnstöð. Hlíðin er vinsælt útivistarsvæði.

“Í Reykjavík eru sérstæðar söguslóðir inni í miðri borg. Stundum þarf nefnilega ekki að leggja land undir fót eða heimsækja staði þar sem hin opinbera saga hefur gerst eða er uppfærð á safni svo hverfa megi inn í nánast aðra og framandi veröld. Og það er gott innlegg í græna framtíð að labba um fallega staði í næsta nágrenni við sig og hverfa aftur til fortíðar og forvitnilegra sagna.

Til að verjast Þjóðverjum

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Þeir sem fara um Bústaðaveginn veita líklega ekki mikla athygli tveimur steyptum skotbyrgjum skammt fyrir vestan Veðurstofuna. En þarna blasa þau við og eru um 100 metra frá vegarbrún. Eru að hálfu niðurgrafin en undir steyptu skyggni er allstór rauf, þar sem byssumenn búnir til bardaga höfðu gott útsýni út yfir Fossvog og Skerjafjörð.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940. Herliðið með þúsundum dáta tók brátt til óspilltra mála við framkvæmdir, meðal annars við flugvallargerð í Vatnsmýri. Völlurinn var tekinn í notkun sumarið 1941 og hafði mikla þýðingu fyrir breska herliðið. Hlutverk þess var fyrst og síðast að verjast Þjóðverjum og í því efni var flugvöllur nauðsyn. Þó sást á stríðsárunum aðeins tvisvar til þýskra flugvéla frá Reykjavík. Eigi að síður þótti allur varinn góður. Því voru reist skotbyrgi víða um Öskjuhlíð og raunar víðar um bæinn.

Flóð brennandi eldsneytis

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – veggur til varnar olíuleka.

Á tveimur stöðum í Öskjuhlíð eru sérstaklega eftirtektarverðar stríðsminjar. Skammt fyrir ofan Keiluhöllina er stór steinsteypt virkisborg, að mestu niðurgrafin. Borgin er átta metrar á hvern kant og inn í byrgið er gengt um yfirbyggðar töppur sem eru hvorar á sínum gafli. Og þar inni ætlaði yfirstjórn herliðs Breta að hafast við ef kæmi til stórfelldrar árásar á flugvöllinn. Svo fór ekki, en rammgert byrgið stendur þó enn. Betra er þó að fara með gát smokri fólk sér þar niður og þá er nauðsynlegt að hafa vasaljós.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – neyðarstjórnstöð.

Stærsta mannvirkið frá stríðstímum, sem enn stendur í Öskjuhlíðinni, er grjótveggur sem er vestarlega í hlíðinni, út undir Nauthólsvík. Hann var reistur árið 1944, er nokkuð á annað hundrað metrar á lengd og tveir til þrír metrar á hæð. Er úr hlöðnu grjóti og steypt er milli steina. Virkið þurfti líka að vera traust, að baki því voru þrír stórir eldsneytisgeymar og áttu veggir þessir að koma í veg fyrir flóð brennandi eldsneytis niður hlíðina ef loftárás yrði gerð á takana. Þeir voru teknir niður fyrir margt löngu, en veggurinn stendur enn falinn inni í þykku skógarrjóðri. Væri vel þess virði að við hann yrði komið upp merkingum eða söguskilti sem og við aðrar stríðsminjar í Öskjuhlíð.”

Heimildir:
-Morgunblaðið 01.06.1997, Öskjuhlíð – margþætt útivistarperla, bls. 6B-7B.
-Morgunblaðið 25.04.2013, Stríðsminjar á hverju strái, bls. 9.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – upplýsingaskilti.

Klofasteinn

Eftirfarandi umfjöllun er dæmi um hversu litla virðingu nútímafólkið ber fyrir fortíðinni. Á einum mannsaldri hafa sögulegar minjar verið nánast afmáðar, ýmist vegna vanþekkingar og/eða hugsunarleysis:

Í “Fornleifaskrá Kópavogs – Endurskoðuð”, skráð af Bjarna F. Einarssyni 2019 segir m.a. um landamerkjasteininn Klofastein:

Klofasteinn vestri

Klofasteinn

Klofasteinn.

“Vestan í malarstíg, um 14 m N af Fossvogslæk. Innan skógræktargirðingar Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Steinn, um 1×1,6 m stór og 0,9 m hár. Mosavaxinn. Steinninn liggur í vegkanti og hefur efni í veginum runnið að steininum austanverðum.
Um 10 m N af steininum er austasti hluti Faxakeldu (Faxafens), sem teygir sig svo nokkra tugi metra til vesturs. Hún er um 50 m löng og 5 m breið það sem hún er breiðust í vestri. Skurðir hafa verið grafnir við kelduna og einkenna þeir hana nú. Mætast tveir skurðir þar sem hún er breiðust. Einnig kallaður Norðlingasteinn, Klofningssteinar og Klofningur.”
Klofasteinn er í skóglendi skammt norðan Fossvogslækjar.

Í Örnefnaskrá – Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess; safnað hefur Adolf J.E. Petersen – Handrit. Örnefnastofnun segir um Klofastein:
“Er í beinni merkjalínu milli Kópavogs – og Digranesjarða, þó innan skógræktargirðingarinnar”.

Faxafen

Faxafen (Faxakelda).

Í “Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi, eftir Guðlaug R. Guðmundsson segir: “Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur): “Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.” Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891.”
Faxafen (Faxakelda) hefur nú að mestu verið þurrkuð upp með fráveituskurði og fyllt upp með afklippungum frá Skógræktarstöðinni.

Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur)

Klofningssteinn

Klofningssteinn eystri.

“Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.” Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu eru klofasteinar eystri sýndir norðan við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland.”
Klofninssteinninn eystri er enn sunnan fráveituskurðar neðan Hörgslands. Skammt norðvestar eru svonefndir “Klofningar”.

Klofasteinar eystri

Benedikt Gröndal

Bendikt Grönddal (1826-1907).

Eru merktir á kort Benedikts Gröndals frá 1891 (sjá Klofastein vestri) um landamerki Bústaða, við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland. Hér gæti verið um sama landamerki að ræða og Eggert Guðmundsson nefnir í landamerkjalýsingu sinni árið 1826: “Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelum.” Vorið 1856 fluttist biskupsetrið frá Laugarnesi aftur til Reykjavíkur. Þá var gerð landamerkjalýsing jarðarinnar og segir þar m.a.: “…úr Hanganda uppí Faxakeldu; úr Faxakeldu uppí Klofningssteina, þaðan og í stein þann, sem stendur fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Bústaðaborg.” Nær samhljóða [er] landamerkjalýsing í Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359 með hendi Péturs Guðjónssonar. Þessar lýsingar hafa ættarmót landamerkjalýsinga 1605, 1747 og 1785. Vel má álykta af þessu að Klofasteinar eystri, Kaupmannsklettur og Klofningssteinar séu á svipuðum slóðum ef ekki sömu steinarnir.

Klofastein vestri

Klofningsstein

Klofningssteinn vestari.

“Er sýndur á korti Benedikts Gröndals frá árinu 1891 við Fossvogslæk neðanverðan, líklegast gamla landamerki Kópavogs og Digraness. Í flestum merkjalýsingum liggur línan frá Tjaldhóli fyrir austan Norðlingavað á Fossvogslæk og í stein þann sem er inni í Skógræktargirðingunni. Steinninn eða steinarnir sem miðað var við hafa fengið mörg nöfn í landamerkjadeilum. Ditlec Thomsen keypti Bústaði árið 1840. Sonur hans H.Th.A. Thomsen vildi færa sér í nyt hinar óljósu landamerkjalýsingar og stækka Bústaðaland. Hann hóf deilur um landamerki við bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1890. Í því máli fullyrtu vitni að steininn við vaðið á Fossvogslæk héti Norðlingasteinn og vaðið Norðlingavað. Thomsen taldi aftur á móti að steininn héti Klofningssteinn (Skjalas. Reykjavíkur. aðfnr. 1366). Bæjarstjórn Reykjavíkur dró fram fornar heimildir um landamerki, vitnisburði Örnólfs Sturlaugssonar og Þórhalls Odssonar frá 9. og 25. febrúar 1605. Samkvæmt þeim var Klofningssteinn fyrir norðan Faxakeldu, í Fossvogsmýri þar sem fer að halla upp hinum megin. (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359). Í landamerkjadeilunum 1891-1893 er landamerki þetta einnig nefnt Klofningar og Klofningssteinar. Benedikt Gröndal teiknaði og lagði fram uppdrátt þar sem þrætulandið er sýnt samkvæmt mælingum og teikningum Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu er Klofasteinn sýndur neðarlega við Fossvogslæk en Klofasteinar eystri ofar og austar. Til þess að rugla málið enn meira má geta þess að bræðurnir Guðmundur og Kristján Ísakssynir töldu að Tvísteinar innan skógræktargirðingarinnar væru hið forna landamerki. Í örnefnaskrá Adolfs J.E.P segir að Klofasteinn sé í beinni merkjalínu milli Kópavogs og Digranesjarðar, þó innan skógræktargirðingar.”

Klofasteinn (Klofningssteinar) – Klofasteinn vestri

Einbúi

Einbúi.

Í skrá Adolfs J.E.P. er fullyrt að Klofningssteinar séu nú horfnir en hafi verið austantil við Borgarspítalann. Á korti Benedikts Gröndals frá 1891 er merktur steinn á svipuðum slóðum og nefndur Einbúi.

Faxakelda (Faxafen) er í Fossvogsmýri”. Samkvæmt lýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826 (Skjalas. Reykjav.m aðfnr. 1359) nær keldan frá læknum vestanverðum að Kaupmannskletti (líklega Klofasteinum eystri). Um Faxakeldu segir Adolf J.E.P.: “Líka nefnd Faxafen. Það er lítil tjörn í Fossvogsdal, norðan við býlið Lund.”

Einbúi

Einbúi.

„Einbúi er austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil. Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg, en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936″.

Í Byggðakönnun Minjasafns Reykjavíkur fyrir Háleiti 2014 segir m.a.:

Bústaðir

Bærinn Bústaðir (túnakort frá 1916) staðsettur á nýlega loftmynd.

“Bústaðaborg: Samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum lágu vesturmörk jarðarinnar [Laugarness] frá steini nokkrum á Kirkjusandi að Ámundaborg, sem talin er hafa verið fjárborg milli Grensáss og Rauðarárholts, og þaðan suður yfir Kringlumýri og Mjóumýri ofan í klettinn Hanganda í botni Fossvogs. Þaðan munu mörkin hafa legið til austurs um Fossvogsmýri að upptökum Fossvogslækjar í Faxakeldu svokallaðri og þaðan til norðausturs eftir Bústaðamelum að Bústaðaborg, sem var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Frá Bústaðaborg lá landamerkjalínan norður um Sogamýri í svonefnda Þrísteina, sem munu hafa verið skammt frá þar sem nú eru gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs, og þaðan fram eftir Laugarási í Líkavörðu skammt sunnan við Vatnagarð.”
“Bústaðaborg, var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Talið er líklegt að býlið Brekka hafi verið síðar á sama stað”.

Í Landsyfirréttardómi og hæstaréttardómi í íslenskum málum 01.01.1895 má dóm nr. 47/1892: H. Th. A. Thomsen gegn bæjarstjórn Reykjavíkur:

Fossvogur

Fossvogur – landamerki.

“Mál þetta, sem er út af ágreiningi um landamerki milli Bústaða, eignarjarðar áfrýjandans, og Laugarness, er Reykjavíkurkaupstaður á, var dæmt í landamerkjadómi Kjósar- og Gullbringusýslu 7. desembr. 1891.
Samkvæmt fornum skjölum, lögfestum og vitnisburðarbrjefum, er legið hafa fyrir merkjadóminum og málsaðilar hafa báðir tekið gildi í því efni, eiga landamerki milli Laugarness og Bústaða að vera þessi: úr Þrísteinum sjónhending í Bústaðaborg, þaðan í stein fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Klofningssteina. Málsaðilar hafa einnig verið sammála um pað, hvar Þrísteinar sjeu og Bústaðaborg, en ágreiningurinn er um, hvar merkjasteinninn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg sje og hvar Klofningssteinar sjeu, og vill áfrýjandinn telja merki þessi töluvert vestar en hin stefnda bæjarstjórn. Merkjadómurinn hefur nú dæmt merkin vera um Klofningssteina þá, er hin stefnda bæjarstjórn telur vera hina rjettu Klofningssteina, þannig, að þeir myndi hornmark Laugarnesslands að sunnan og austan gegnt Bústaðalandi, og verður það ákvæði dómsins eigi átalið, þar sem full vitnasönnun virðist framkomin í málinu fyrir því, að örnefnið Klofningssteinar, sem er hið viðurkennda hornmark Laugarness að sunnan gegn Bústöðum, sje þar, sem dómurinn setur það.

Fossvogur

Fossvogur – Klofasteinn.

Að því er snertir hitt markið, sem þrætan er um, steininn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, þá hefur merkjadómurinn eigi getað fundið neinn stein í þeirri stefnu frá Bústaðaborg, er eðlilega geti talizt merkjasteinn, og áleit því eigi hægt að miða merkin við neinn slíkan stein, en þar sem byggja þótti mega á því, hvar Klofningssteinar hinir rjettu væru og hver væri aðalstefna markalínunnar upp úr voginum norður eptir, þá áleit merkjadómurinn rjettast, að draga stefnuna úr tjeðum Klofningssteinum, sem eru fyrir sunnan girðingar áfrýjandans, beint norður í Bústaðaborg.
Umboðsmaður hinnar stefndu hæjarstjórnar krafðizt þess fyrir merkjadóminum, að merkin væru ákveðin úr Bústaðaborg í stein, er hann tiltók og áleit vera fyrir vestan og sunnan borgina, og úr steininum í Klofningssteina. Áfrýjandinn heldur því nú, samkvæmt því sem áður er sagt, fram, að bein lína úr Bústaðaborg falli töluvert austar en um tjeðan markastein hinnar stefndu, og þannig liggi merkjalína dómsins lengra inn í sitt land heldur en krafa stefndu hafi verið til, en þessu er mótmælt af hálfu stefndu.

Fossvogur

Fossvogur – Klofningar.

Um afstöðu hjerumræddra örnefna og merkja sín á milli verður engin ályktun dregin af legu þeirra á uppdráttum þeim, er fram hafa komið í málinu, því að þeir hafa eigi verið álitnir nákvæmir að þessu leyti, hvorki af málsaðilum eða dómendum; en merkjadómendurnir hafa vottað það í dómi sínum 28. júní 1890, er þetta sama mál var fyrr dæmt, að steinn sá, er bæjarstjórnin miðaði merkin við og átti að hennar áliti að vera fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, væri því nær í hásuður frá borginni, og eptir uppdráttum beggja málsaðila, einkanlega uppdrætti þeim, er áfrýjandinn hefur lagt fram eru Klofningsteinar (eystri) nokkuð vestar en í hásuður frá Bústaðaborg; en ef þetta hvorttveggja er rjett, leiðir þar af, að bein lína úr Bústaðaborg í Klofningssteina verður fremur fyrir vestan en fyrir austan optnefndan markastein bæjarstjórnarinnar. Þegar á þetta er litið, og Þar sem áfrýjandinn hefur ekki fært neinar sannanir fyrir þessu kæruatriði sínu, verður eigi álitið sannað, að merkjadómurinn hafi gjört sig sekan í lögleysu í þessu efni, og með því að eigi eru aðrar ástæður til að ónýta dóminn, ber að staðfesta hann í öllum greinum.”

Trjáræktarsvæðið í Fossvogsdal

Fossvogur

Skógrækt Reykjavíkur í Fossvogi.

Svæðið sem um ræðir er milli lands Lundar í Fossvogsdal og svæðis sem Skógræktarfélag Reykjavíkur átti til skamms tíma. Erfðafestusamningur fyrir þetta land sem nefnt var Digranesblettur 8 var undirritaður árið 1945 af Geir Gunnlaugssyni í Eskihlíð (síðar Lundi) og Hermanni Jónassyni fyrrverandi forsætisráðherra. Áður hafði landið verið nytjað frá kaupstað og er þess getið í fasteignamati árið 1940. Hlutur Geirs var 10,98 ha en Hermanns 2,25 ha. Síðar eignaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur hlut Hermanns, norðurhluta svæðisins, en landið er nú í einkaeign. Á þessum slóðum rennur Fossvogslækurinn að mestu í sínum náttúrulega farvegi, en á kafla hafa bakkar hans verið hlaðnir úr grjóti. Umtalsverð trjárækt er á svæðinu, elsti hlutinn er verk Hermanns frá 5. áratug síðustu aldar.

Sem fyrr segir er Klofasteinn vestri sýndur á korti Benedikts Gröndals frá 1891 við Fossvogslæk neðanverðum (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1366). FERLIR óskaði eftir afriti af uppdrættinum við skjalas. Reykjavíkur fyrir nokkrum mánuðum síðan, en svar hefur enn borist.

Heimildir:
-Örnefnaskrá. Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess. Safnað hefur Adolf J.E. Petersen. Handrit. Örnefnastofnun.
-Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði og staðsetti örnefnin. Handrit. Örnefnastofnun. 1990.
-Byggðakönnun – Borgarhluti 5 – Háaleiti, Reykjavík 2014. Minjasafn Reykjavíkur, Skýrsla nr. 164, bls. 10-11.
-Guðlaugur R. Guðmundsson: „Örnefnalýsing Laugarness, Klepps og Rauðarár“, Reykjavík: miðstöð þjóðlífs, bls. 295-302 – Þorgrímur Gestsson: Mannlíf við Sund, bls. 16. – https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1393650
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, bls. 346-349. – https://timarit.is/page/3524089?iabr=on#page/n385/mode/2up
-https://is.wikibooks.org/wiki/Fossvogur
-Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Skógræktar Reykjavíkur í Fossvogi.

Klofasteinn

Klofasteinn – Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Garðræktar Reykjavíkur við steininn 2022.

Viðey

Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Gavin Lucas skrifa um “Þorpið í Viðey” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið  2014:

Elín Ósk Hreiðarsdóttir

Elín Ósk Hreiðarsdóttir.

Upphaf Þorpsins í Viðey má rekja til marsmánaðar 1907 þegar hlutafélagið A/S P.J. Thorsteinsson & Co. var stofnað í Kaupmannahöfn. Stofnfélagar voru átta og stærstu eigendur hlutafjár voru tveir þekktir athafnamenn á Íslandi, þeir Pétur Thorsteinsson, sem félagið var kennt við, og Thor Jensen. Þótt fimm menn væru í stjórn félagsins var það fyrstu árin að mestu rekið af þeim Pétri og Thor ásamt Aage Möller.
Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir að stofnfé félagsins yrði um 1 milljón króna og því var nýja fyrirtækið risi á íslenskan mælikvarða. Til samanburðar hefur verið nefnt að þessi upphæð var svipuð og allar tekjur landssjóðs þetta ár. Það var því ekki að undra að stofnun fyrirtækisins vekti mikla athygli og umtal. Félagið fékk fljótt viðurnefnið Milljóna(r)félagið og gekk sjaldnast undir öðru nafni hjá almenningi, jafnvel þótt síðar hafi komið í ljós að hlutafé náði aldrei þeim hæðum sem upphaflega var ráðgert.
Upphaflega höfðu hugmyndir gert ráð fyrir því að höfuðstöðvar fyrirtækisins yrðu í Gerðum á Reykjanesi en við stofnun fyrirtækisins á útmánuðum 1907 virðist þegar hafa verið fallið frá þeirri hugmynd og ákveðið að höfuðstöðvar, með tilheyrandi byggingum og hafnarmannvirkjum, yrðu í Viðey.

Gavin Lucas

Gavin Lucas.

Fyrirtækið tók í upphafi á leigu um 40 hektara svæði á suðausturenda Viðeyjar sem áður hafði að mestu verið nýtt fyrir beit og æðardúntekju. Aðeins ári seinna ákvað félagið hins vegar að falla frá hinum nýgerða leigusamningi sem var til 99 ára og kaupa þess í stað alla eyjuna og þ.m.t. Viðeyjarbúið sjálft með húsum þess og tækjum. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins var að sögn eigenda m.a. að auka framleiðni Íslands og bæta viðskiptatengsl milli Íslands og annarra landa.
Rekstur fyrirtækisins var nokkuð fjölþættur en megináhersla var lögð á stórfelldar fiskveiðar og -vinnslu, verslun og útflutning. Jafnhliða því veitti fyrirtækið margvíslega þjónustu til stærri skipa en í Þorpinu voru m.a. stórar kola- og olíugeymslur og var snemma komið upp stórum vatnsgeymi til að þjónusta skipin. Eignir íslensku stofnfélaganna tveggja mynduðu að stóru leyti hlutafé fyrirtækisins og tók það yfir margvísleg mannvirki og starfsemi þeirra í Gerðum, Hafnarfirði, á Bíldudal, Vatnseyri og víðar, sem og skuldir þeirra. Nýja fyrirtækið byggði því talsvert á þeim fyrirtækjum sem þeir Pétur og Thor höfðu átt og rekið en bætti mikið við starfsemina og rak m.a. botnvörpunga og þilskip. Stærsta nýjungin var þó án efa vinnslan og þjónustan í Viðey. Þar var gerð vegleg höfn og bryggjur og var stefnt að því að hafnaraðstaðan yrði með því besta sem þekktist á Íslandi. Höfnin í Viðey var fyrsta höfnin á Faxaflóasvæðinu þar sem ekki var búið að gera höfn í Reykjavík á þessum tíma.

Viðey

Margar búræktunartilraunir hafa verið gerðar í Viðey. Ein þeirra átti sér stað sumarið 1861. Þá fékk August Thomsen nokkra héra með gufuskipi frá Færeyjum, og hleypti þeim lausum í Viðey. Héragreyin voru upphaflega frá Noregi en voru fluttir til Færeyja til manneldis þar sem það hafði gefist vel. Sú var ekki raunin hér á Íslandi. Í raun virðist sem nær ekkert hafi getað þrifist á eyjunni sem var flutt þangað, fyrir utan kúmen og gras. Virðist sem allar aðrar tilraunir hafi farið fyrir bý.

Milljónafélagið var nokkuð umdeilt frá upphafi og virðist umfang þess og eignarhald hafa vakið nokkurn ugg hjá landsmönnum en margir töldu það aðeins erlendan lepp. Þegar félagið festi svo kaup á Viðey í heild árið 1908 var það enn til að auka á tortryggni landsmanna gagnvart því. Íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn rituðu m.a. undir yfirlýsingu stuttu eftir stofnun félagsins þar sem landsmenn eru varaðir við því að „erlent fjármagn“ geti hæglega kaffært íslenskt atvinnulíf og því þurfi landsmenn að vera á varðbergi.

Viðey

Um árabil stóð Sundabakkaþorpið á austurenda Viðeyjar, sem var jafnan bara kallað Þorpið. Þar var P. Thorsteinson og co., einnig kallað Milljónafélagið, meðal annars með fiskvinnslustarfsemi. Nokkrum áratugum síðar lagðist þorpið í eyði og húsin voru flutt í Skerjafjörð. Þegar Reykjavíkurflugvöllur var lagður voru húsin flutt austur í Teiga. Flest standa nú við Hrísateig. Á myndinni má sjá lifrarbræðslustöð á vegum Milljónafélagsins. Myndin var tekin um 1910.

Í dagblöðum á þessum tíma má finna margar greinar um stofnun félagsins og í Þjóðólfi segir m.a. í október 1907: Í sambandi við þetta mál hefði mátt minnast á annað því skylt, og það er stofnun hins svo nefnda miljónafélags, er hefur bækistöð sína í Viðey. Í því félagi eru að vísu tveir íslenzkir kaupmenn, en það mun að mestu leyti standa á dönskum fótum, og er að réttu lagi danskt félag, en ekki íslenskt,… […] Það er ekki ólíklegt að þetta danska miljónafélag fari að seilast hér eptir mikilsháttar jarðeignum, er liggja vel við fyrir verzlun þess. En Danir eru útlendingar fyrir oss eða eiga að vera það alveg á sama hátt, sem Englendingar og Þjóðverjar …

Viðey

Kaup Milljónafélags P.J Thorsteinssonar & Co á Viðey snemma á 20. öldinni vakti ugg hjá Íslendingum og fannst þeim hneisa að erlent félag ætti eyjuna (þó það væri að mestu í eigu Íslendinga). Lagðar voru fram tillögur á Alþingi árin 1907 og 1909 þess efnis að Sundbakki yrði gerður að verslunarstað því talið var að það væri mikilvægt skref fyrir þróun Þorpsins. Tillögurnar voru felldar í bæði skiptin því talið var að það myndi skaða Reykjavík í aðeins til að bæta hag „hálfútlends gróðafélags.“ – Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1 tbl, 2014.

Mörg helstu dagblöð þessa tíma birtu líka fréttir af sölu Viðeyjar og víða er varað við því að hið forna höfuðból sé nú „fallið“ og komið í eigu Dana og bent á að þeir einu sem græði á slíku séu hálfdanskir eða hálfíslenskir „spegúlantar“. Greinilegt er að sumir litu á umsvif Þorpsins sem hreina ógnun við höfuðborgina. Árin 1907 og 1909 voru lagðar fram tillögur á Alþingi um að gera Sundbakka að löggiltum verslunarstað enda var því haldið fram að slíkt væri mikilvægt skref fyrir þróun Þorpsins. Heitar umræður urðu um tillöguna og lauk þeim í bæði skiptin með því að tillagan var felld enda því haldið fram að slíkt myndi skaða Reykjavík í þeim eina tilgangi að bæta hag „hálfútlends gróðafélags“.

Viðey

Í bókinni Ágrip af sögu Íslands eftir Þorkel Bjarnason (1880) segir svo frá Skúla fógeta: „Skúla var mjög gramt í geði við einokunarverzlunina, og höfðu ýms félög leigt verzlunina frá 1706-1742. Frá 1. janúar 1743 fengu hörmangarar í Kaupmannahöfn verzlunina, og vóru þeir einhverjir hinir harðdrægustu landsmönnum. Skúli vildi fyrir hvern mun hnekkja verzlun þeirra, og sökum þess tók hann fyrir sig, að koma upp iðnaði í landinu sjálfu, svo að ullin yrði unnin á arðsamara hátt, stofna fiskiveiðar á þilskipum, og kenna landsmönnum að salta fisk sinn, o. s. frv., og hugði hann, að þetta myndi með tímanum verða vegr til að vinna svig á einokuninni.“ Má því segja að Innréttingar hans Skúla fógeta hafi verið eitt fyrsta skrefið til að afnema einokunarverslun Dana á Íslandi, en hún hófst árið 1606 og stóð til ársloka 1787.

Framkvæmdir í Viðey hófust strax nokkrum mánuðum eftir stofnun hins nýja félags, eða í upphafi sumars 1907. Á næstu mánuðum var byggt bólvirki, hafskipabryggja, grútarhús og -bryggja, verkamannabústaður, brunnar, salthús, geymsluhús fyrir verkaðan fisk, vörugeymsluhús, íbúðarhús fyrir stöðvarstjóra og járnbrautarteinar lagðir um bryggju, stöðvarplássið og fiskireiti.
Þorpið var frá upphafi tvískipt, annars vegar athafnasvæðið sem gjarnan var nefnt Stöðin eða Viðeyjarstöð og hins vegar íbúðabyggðin. Framkvæmdum og uppbyggingu á svæðinu var haldið áfram næsta árið en um verkið sáu bæði íslenskir og danskir smiðir. Samkvæmt heimildum taldist svæðið fullbyggt 1909.

Viðey

Klaustrið á Viðey, sem var starfrækt milli 1226 og 1550, var af Ágústínusarreglu. Allavega mestmegnis. Ágústínusarreglan kennir sig við Ágústínus frá Hippó (354-430) en hann var einn kirkjufeðranna. Bréfið sem reglan sækir fyrirmynd sína í er mjög almennt og því mikill sveigjanleiki í túlkun. Hinsvegar, árið 1344, var Ágústínusarreglan afnumin og Benediktsreglu komið á. Sú regla kennir sig við Benedikt frá Núrsíu og er ein stærsta og fjölmennasta klausturregla í kaþólskum sið. Hún entist þó ekki og var Ágústínusarreglu aftur komið á 8 árum síðar. Nokkur Benediktsklaustur voru á Íslandi, eins og til dæmis Þingeyrarklaustur, Munkaþverárklaustur og nunnuklaustrið á Kirkjubæ.

Fyrsta skipið lagðist að bryggju í Viðey í febrúar 1908 með saltfarm til fiskvinnslu en vinnsla fisks hófst þar í maí sama ár. Allar aðstæður í Þorpinu voru góðar, t.d. í samanburði við Reykjavík. Þar var hafskipabryggja og ofan við hana var stór vatnstankur og lágu vatnsleiðslur beint niður að höfn. Þetta var mun meira hagræði en í Reykjavík þar sem vatni var komið til skipa með því að dæla því á tunnur og ferja út til skipanna. Það sama gilti um olíuflutninga, kol og aðra birgðasölu til skipanna þar sem hægt var að landa öllum varningi beint í skipin í stað þess að sigla með hann á bátum frá skipum og í land eins og í Reykjavík.

Viðey

Nafnið Viðey bendir til þess að þar hafi verið skógur eða kjarr þegar eyjan fékk nafn. Fornleifarannsóknir á eyjunni hafa einmitt sýnt að þar hafi verið gróskumikið á landnámsöld og skógur eða kjarr hafi einkennt hana allt fram á 12. öld. Hér má sjá matjurtarrækt í Viðey.

Nýjungarnar í Viðey vöktu líka verðskuldaða athygli og á fyrstu starfsárum Milljónafélagsins skrifuðu forsvarsmenn þess undir fjölmarga samninga um þjónustu, geymslu og birgðasölu. Slíkir samningar voru m.a. gerðir við Danska olíufélagið um geymslu á allri olíu sem þeir flyttu til Íslands, við danska flotann um geymslu á kolum sem skip flotans notuðu hér á landi og við Sameinaða danska gufuskipafélagið um geymslu og afhendingu umhleðsluvara og kola til landsins. Stöðin þjónustaði einnig ensk, norsk og frönsk fiskveiðiskip og unnu hluta af þeim afla sem þau veiddu. Helstu útflutningsvörur Milljónafélagsins voru flattur þorskur þurrkaður í skreið, saltfiskur, freðýsa, steinbítur, lýsi, þurrkaðir sundmagar, söltuð hrogn, beitusíld og æðardúnn.

Viðey

Siðaskiptin á Íslandi voru heldur blóðug, líkt og á mörgum öðrum stöðum. Við höfum sagt frá því þegar Diðrik van Minden fógeti og menn á hans vegum réðust inn í Viðeyjarklaustur og ráku munkana út með mikilli hörku og ofbeldi. Þetta var sumarið 1539. Í ágúst það ár lést Diðrik en hálfum mánuði síðar var hann og menn hans dæmdir óbótamenn fyrir ýmsar sakir og þar með réttdræpir. Ekki var minnst á töku Viðeyjarklausturs í dómnum enda taldi sýslumaður að hún hafi verið með vilja konungs. Einhverjir gerðust þó svo djarfir að drepa fjóra menn sem höfðu farið til Viðeyjar með Diðriki. Í september 1539 höfðu 13 menn konungs verið drepnir og konungsvaldið var allt í uppnámi.

Sem dæmi um umfangið má nefna að saltfiskútflutningur fyrirtækisins var um 40% af allri saltfisksölu úr landi árið 1910. Árin 1910-1913 voru mikill uppgangstími í Þorpinu. Þá var að meðaltali eitt skip í höfn á dag, árlega landað 50-60.000 smálestum af vörum og mest verkuð um 9200 skipspund af fiski. Fyrirtækið skilaði gróða flest fyrstu árin og Þorpið í Viðey óx. Í upphafi gerðu forsvarsmenn stöðvarinnar ráð fyrir að vinnuaflið í Viðey yrði að stórum hluta farandverkamenn sem ynnu þar á vertíð en ættu sér þar ekki varanlegt heimili. Íbúafjöldi í Þorpinu jókst þó fljótt og árið 1912 hófst barnakennsla í einu af húsunum í Þorpinu fyrir börn starfsmanna Viðeyjarstöðvar.

Viðey

Á myndinni, sem tekin var 3. – 4. júlí 1910 má sjá Ólafshús, til vinstri, og Glaumbæ, til hægri, sem stóðu í Viðey og voru hluti af Þorpinu sem þar stóð. Ólafshús var byggt af Milljónafélaginu árið 1907. Húsið var upphaflega reist sem hús stöðvarstjóra hvalveiðistöðvarinnar á Framnesi við Dýrafjörð. Milljónafélagið keypti það, reif það niður og endurbyggði á Viðey. Húsið var rifið um 1940. Milljónafélagið reisti líka Glaumbæ árið 1907. Það var um 600m2 og var ætlað að hýsa aðkomufólk sem kom til eyjarinnar til að vinna í fiski yfir vertíðina. Húsið brann í desember, 1931.

Þrátt fyrir að flest gengi hinu nýja fyrirtæki í haginn á yfirborðinu fór fljótt að halla undan fæti. Fyrirtækið hafði fjárfest gríðarlega fyrstu starfsár sín og fyrir hvíldi starfsemi þess að stóru leyti á dýrum lánum. Eigið fé þess var frá upphafi takmarkað og olli það oft vandræðum við að halda fullum rekstri gangandi. Stjórn félagsins var dýr og dreifð og svo virðist sem ósamkomulag hafi snemma orðið á milli stjórnenda þess. Snemma árs 1909 var gert samkomulag þess efnis að Pétur Thorsteinsson viki úr stjórn og hætti öllum afskiptum af fyrirtækinu. Í ævisögu sinni segir Thor Jensen að hann hafi þegar þetta sama ár byrjað að huga að því hvernig hann gæti sagt skilið við fyrirtækið áður en það yrði gjaldþrota. Þó liðu enn þrjú ár þangað til hann sagði upp stöðu sinni við félagið en á þeim tíma tryggði hann sér eignir og togara til að hefja sinn eigin rekstur. Æ erfiðara reyndist að fjármagna fyrirtækið og svo fór að í upphafi árs 1914 voru greiðslur fyrirtækisins stöðvaðar og það því gjaldþrota. Félagið var hins vegar ekki formlega lýst gjaldþrota og því eru ekki til hefðbundin gögn um gjaldþrotaskipti. Stærstu kröfuhafar voru Handelsbanken og Nationalbanken í Kaupmannahöfn sem og Íslandsbanki. Í kjölfarið var mynduð skiptanefnd til að gera upp skuldir þrotabúsins og starfaði hún líklega í nokkur ár þótt lítið sé vitað um starfsemi hennar.

Viðey

Þann 24. október 1944 strandaði kanadíska herskipið HMCS Skeena í ofsaveðri við Viðey. Það eyðilagðist og var loks dregið upp í fjöru í Elliðaárvogi. 198 mönnum úr áhöfn skipsins var bjargað en 15 fórust. Myndin er tekin snemma á sjötta áratugnum.

Gjaldþrot Milljónafélagsins var þungt áfall fyrir Þorpið en það reyndist þó engan veginn dauðadómur yfir því. Það var einkum tvennt sem vann með Þorpinu á þessum tíma, annars vegar var þar eina hafskipabryggja svæðisins og í öðru lagi var þar góð aðstaða til þjónustu við skip sem og til vinnslu og verkunar sjávarafurða. Þetta hefur líklega ráðið mestu um það að ekki dró að ráði úr íbúafjölda í Þorpinu á þessum tíma ef frá er talið sjálft gjaldþrotsárið.
Árið 1918 var íbúafjöldi í Þorpinu orðinn meiri en fyrir gjaldþrot, þrátt fyrir að gerð hafnar í Reykjavík árið 1917 hafi dregið úr mikilvægi Viðeyjar fyrir svæðið. Af blaðaauglýsingum frá þessum tíma má sjá að auglýst er eftir starfsfólki til vinnu í Þorpinu flest árin fram til 1920.

Síðara blómaskeið Þorpsins

Viðey

Viðey.

Um 1920 hófst seinna blómaskeiðið í sögu Þorpsins. Fiskveiðahlutafélagið Kári, eða Kárafélagið eins og það var oftast nefnt var stofnað 1919. Á næstu árum nýtti það sér aðstöðuna í Viðey en árið 1924 keypti það Stöðina og færði höfuðstöðvar sínar út í eyjuna. Rekstur Kárafélagsins í Viðey byggði sem fyrr á fiskveiðum og -verkun ásamt því að vera birgða- og geymslustöð hafskipa.

Viðey

Í Viðey er eitt elsta berg höfuðborgarsvæðisins. Viðey er liggur á hluta megineldstöðvar sem var virk fyrir um tveimur til þremur milljónum ára og er hún ýmist kennd við Kjalarnes eða Viðey. Þessi eldstöð var virk í um eina milljón ára og var umfangsmikil á sínum líftíma. Kjarni hennar var að mestu rofinn af ísaldarjöklum og er nú komin undir sjó og yngri jarðlög. Á nokkrum stöðum er þó hægt að greina leifar eldstöðvarinnar á yfirborði, svo sem í Gufunesi, við Vatnagarða og yst á Kjalarnesi. Mestu ummerkin eru hinsvegar í sunnanverðri Viðey.

Samkvæmt heimildum höfðu mannvirki í Þorpinu látið nokkuð á sjá á þessum tíma og lýsir Magnús Blöndal Jónsson, einn forvígismanna Kárafélagsins, því sem svo að þegar hann kom á Stöðvarsvæðið árið 1924 hafi þar verið „samsafn nokkurra timburkofa, gamalla og illa meðfarinna og bryggjur með maðketnum og ónýtum undirviðum.“ Þegar Kárafélagið tók við rekstrinum var því þörf á viðhaldi og endurbótum. Forsvarsmenn félagsins beittu sér fyrir því að endurnýja hús og mannvirki auk þess sem þeir lögðu rafmagn í húsin í Þorpinu, komu upp götu- og bryggjuljósum og lögðu rennandi vatn í mörg af húsunum. Þetta var líklega m.a. gert til að gera Þorpið að fýsilegri búsetukosti fyrir fjölskyldur. Uppbygging í Þorpinu hafði tilætluð áhrif og það fylltist af lífi sem aldrei fyrr. Hvert húsrými var fullskipað og ný hús voru byggð.

Viðey

Skólahúsið á Viðey var reist árið 1928 og tilheyrði þá Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Síðasti ábúandi skólahússins var Steinn Steinarr sem bjó þar um skamma hríð, en sagan segir að hann hafi ekki fengið mikinn svefnfrið fyrir draugangi. Ljósmyndin sýnir skólahúsið í júní 1986 en það var endurbyggt snemma á tíunda áratugnum. Nú er það opið gestum og gangandi yfir sumarmánuðina og það er jafnvel farið að nýta það á ný til kennslu, en námskeiðið Viðey – Friðey fyrir 7-9 ára er haldið þar.

Árið 1928 var byggt skólahús í Þorpinu en áður hafði skólabörnum verið kennt í einu af íbúðarhúsunum. Um 1930 var íbúafjöldi í Þorpinu hærri en nokkru sinni fyrr – eða síðar – en þá voru skráðir þar 138 íbúar með lögheimili. Á vertíðinni var íbúafjöldi hins vegar miklu hærri og þegar mest var er áætlað að um 240 manns hafi haft aðsetur þar. Svo mikill rekstur í eyjunni var þó að mörgu leyti óhagkvæmur. Góð höfn var nú einnig í Reykjavík og mikill tími og kostnaður var fólginn í því að flytja fólk og varning á milli eyjunnar og Reykjavíkur. Um það hversu þungt sá tilkostnaður vó í að knésetja Kárafélagið er erfitt að fullyrða en snemma fór að halla undan fæti í rekstri þess. Árið 1931 krafðist Útvegsbankinn, sem var stærsti lánadrottinn þess, gjaldþrotaskipta og í kjölfarið voru eigur félagsins, stöðvarbyggingar, togarar, og margvísleg tæki og tól boðin upp í Viðey. Fulltrúar þorpsbúa gripu á það ráð að leigja reksturinn og halda starfseminni áfram en fyrir þeim rekstri reyndist ekki grundvöllur og lagðist hann því af árið 1933.

Frá sjálfsþurft til iðnvæðingar og til baka – Vitnisburður manntala og heimildamanna

Viðey

Árið 2006 komu upp hugmyndir í borgarstjórn um að flytja Árbæjarsafn í Viðey og þangað sem þorp stóð á austurenda eyjarinnar. Eins hefur hugmyndin um að flytja Árbæjarsafn í Hljómskálagarðinn skotið upp kollinum nokkrum sinnum síðustu 40 árin. Myndin sýnir Þorpið á Viðey milli 1935 og 1939.

Þrátt fyrir að hinn eiginlegi rekstur legðist að stóru leyti af í Þorpinu snemma á 4. áratug 20. aldar liðu enn meira en 12 ár áður en Þorpið fór endanlega í eyði. Ástæður þessa voru án efa margvíslegar en þungt hefur þó vegið sú staðreynd að hér á landi eins og víða annars staðar var kreppa á þessum tíma og því ekki hlaupið að því að finna vinnu eða húsnæði annars staðar.
Sóknarmanntöl eru til fyrir Þorpið fyrir öll þau ár sem búið var þar og af þeim má fá talsverðar upplýsingar um þorpsbúa. Manntölin veita upplýsingar um nöfn, störf og aldur íbúa og í sumum tilfellum einnig hvar þeir voru fæddir. Manntölin sýna m.a. að íbúar stöldruðu skemur við á fyrstu árum Þorpsins en síðar og hvernig samsetning íbúa breyttist, barnafólk varð meira áberandi og umskipti á íbúum með lögheimili í eyjunni urðu hægari. Á þeim má sjá hvernig Þorpið breyttist úr því að vera verstöð yfir í að vera fjölskylduvænn byggðakjarni. Af manntölum og viðtölum við þorpsbúa að dæma virðist stærstur hluti þeirra sem fluttu til Þorpsins hafa verið fæddir í sveitum landsins og flestir ólust án efa upp við hálfgerðan sjálfsþurftarbúskap.

Viðey

Fjósið sem sést hér á myndinni var eitt stærsta og nýtískulegasta fjós og heyhlaða landsins þegar það var byggt af Eggerti Briem stórbónda í byrjun 20. aldarinnar. Fjósið tók 48 kýr og var hægt að geyma gífurlegt magn af heyi í hlöðunni. Mjólkina frá kúnum flutti hann á hverjum degi á bátum yfir sundið til Reykjavíkur og svo á hestvögnum niður í Aðalstræti, þar sem hann var með mjólkurbú.

Þetta fólk hefur því lifað mikil umskipti á lífsháttum á ævi sinni. Á velmektarárum Þorpsins var það í raun í fararbroddi hvað varðar alla aðstöðu. Hafnaraðstaðan var til fyrirmyndar og sömu sögu er að segja um fiskvinnsluhús, járnbrautarteina og ýmsar aðrar tækninýjungar sem gerðu það að verkum að aðstaða fyrir verkafólk var þar í raun nýstárlegri en víða í Reykjavík. Sömu sögu er að segja um aðrar aðstæður í Þorpinu, sér í lagi eftir að rafmagn var leitt í húsin. Þetta og ýmislegt fleira olli því að Þorpið fékk á sig orð fyrir að vera vel búinn og nýtískulegur staður sem væri hentugur fyrir fólk með stórar fjölskyldur. Á velmegunartímabili Þorpsins var þar nóga vinnu að fá og jafnvel hægt að fá vinnu fyrir börn allt niður í 8-10 ára aldur. Af manntölum má sjá að fyrstu þrjú árin eftir að Kárafélagið leggst af fækkar fólki í Þorpinu umtalsvert (úr um 130 í um 50 manns) en næstu ár á eftir dró úr fólksflótta.

Viðey

Viðey 1930-1932.

Eftir endalok Kárafélagsins breyttist umhverfi Þorpsins talsvert. Raflýsingu var hætt og notast var við olíulampa í hennar stað og vatni var aftur dælt úr brunnum í Þorpinu. Einn heimildamanna mundi reyndar þegar fyrrverandi starfsmaður Kárafélagsins, sem séð hafði um rafstöðina, kom í Þorpið jólin eftir gjaldþrotið og kveikti á rafstöðinni yfir jólahátíðina, en svo var aftur slökkt og aldrei kveikt aftur.

Viðey

Viðey 1931.

Brottför Kárafélagsins markaði endalok umfangsmeiri vinnslu í Þorpinu og eftir hana var þar litla vinnu að fá. Íbúarnir sem áfram bjuggu í Þorpinu öfluðu sér lífsviðurværis á margvíslegan hátt. Olíutankur var enn í Stöðinni og Þorpsbúar sáu um að tappa olíu á tunnur og flytja til Reykjavíkur. Í Þorpinu var bóndi sem seldi mjólk til Reykjavíkur og flestir íbúar komu sér upp einhverjum bústofni s.s. hænum, kindum og kú. Þorpsbúar ræktuðu einnig kartöflur í stórum stíl og sumir seldu bæði kartöflur og rófur til Reykjavíkur á meðan aðrir seldu egg. Sumir þorpsbúa réru einnig til fiskjar til að afla sér matar. Í Þorpinu starfaði tilsjónamaður eigna bankans, barnaskólakennari og einn íbúi hafði það starf að kynda og ræsta skólabygginguna. En þrátt fyrir sjálfsbjargarviðleitni þorpsbúa eftir gjaldþrot Kárafélagsins fækkaði stöðugt á staðnum.

Viðey

Meðfylgjandi mynd var tekin milli 1908 og 1913 og sýnir seglsskútuna York við bryggju í Viðey og danskt flutningaskip fjær. Fyrsta skipið lagðist að hinni flunkunýju skipabryggju í Viðey í febrúar 1908. Það var ekki byrjað á Ingólfsgarði í Kvosinni í Reykjavík fyrr en 1913.

Þegar heimstyrjöldin braust svo út árið 1940 voru dagar Þorpsins endanlega ráðnir. Komu breska hersins til Íslands fylgdu mikil umsvif og aukin eftirspurn eftir vinnuafli. Íbúar Þorpsins gripu hver á fætur öðrum tækifæri á launaðri vinnu í landi. Árið 1941 var svo komið að Seltjarnarneshreppur, sem Viðey tilheyrði, sá sér ekki lengur fært um að halda úti skóla í Þorpinu og gerði það í raun út um möguleika þeirra sem eftir sátu til búsetu. Þótt nokkrar fjölskyldur byggju enn í eyjunni var það aðeins tímaspursmál hvenær þær gæfust upp. Árið 1943 fluttu síðustu fjölskyldurnar í land og Þorpið lagðist endanlega í eyði.
Síðustu ár Þorpsins í Viðey hafði Útvegsbankinn, sem enn átti þar talsverðar eignir, reynt að selja þær án árangurs. Einstaka þorpsbúar höfðu þó fest kaup á sínum íbúðum eða húsum. Á þessum tíma var tilfinnanlegur timburskortur í landinu og því fór það svo að flest húsin voru tekin niður og efniviðurinn nýttur í annað. Útvegsbankinn seldi bryggjur Þorpsins og mörg af mannvirkjum Stöðvarinnar til niðurrifs en íbúarnir tóku flestir niður hús sín og fluttu með sér í land. Á örskömmum tíma hvarf bæði fólkið og mannvirkin úr Þorpinu en eftir stóðu húsgrunnar og önnur óveruleg ummerki.

Viðey

Verslunarfélagið P. J. Thorsteinsson og Co. var stofnað í Kaupmannahöfn vorið 1907. Að félaginu stóðu ríkir kaupsýslumenn í Danmörku, Thor Jensen útgerðarmaður og Pétur J. Thorsteinsson. Félagið hóf starfsemi í Viðey, en það var allajafna kallað „Milljónafélagið“ þar sem fréttir hermdu að hlutafé félagsins hafði verið ein milljón króna. Thor sagði þó að innborgað hlutafé hafi verið aðeins 600 þúsund krónur og hann og Pétur hefðu lagt fram meirihluta þess.
Á meðfylgjandi mynd má sjá fiskvinnslufólk hengja upp saltfisk innandyra, mögulega í fiskþurrkunarhúsi Milljónafélagsins. Það var byggt um 1910 en brann til kaldra kola tveimur árum síðar.

Árin eftir að Þorpið lagðist í eyði urðu nokkur hröð umskipti. Húsin höfðu að mestu leyti horfið áður, en þau sem eftir stóðu féllu í niðurníðslu.
Árið 1963 eignaðist Reykjavíkurborg hluta Þorpsins sem hafði fram að þeim tíma tilheyrt bankanum. Tveimur áratugum síðar eignaðist borgin stærstan hluta eyjunnar og loks, árið 1986, það sem uppá vantaði þegar ríkið gaf Reykjavíkurborg skikann undir Viðeyjarstofu og kirkju.

Viðey

Dansleikir voru haldnir í Viðey líkt og annars staðar þar sem er byggð. Eitt sinn var haldið dansiball í þurrkhúsinu þegar danskt herskip lá við bryggju á þriðja áratug síðustu aldar. Á þessu skipi var Knútur prins, sonur Kristjáns X, sjóliðsforingi. Hann og aðrir áhafnarmenn tóku þátt í skemmtuninni en sagan segir að Knútur prins hafi dansað við einu og sömu stelpuna alla nóttina. Hann var svo hrifinn af henni að daginn eftir þegar hún hélt til vinnu að vaska fisk, þá stóð hann yfir henni og hélt henni félagsskap. Ólíklegt er að í þeim samkomutakmörkunum sem eru nú í gildi að einhver hitti sinn draumaprins, en það er þó aldrei að vita!

Síðan Þorpið lagðist í eyði hafa komið fram margar hugmyndir um framtíðarhlutverk þess, allt frá því að þróa íbúðarbyggð á sama stað, koma þar upp lifandi safni eða húsasafni, hafa aðsetur fyrir fræðimenn eða listamenn á svæðinu eða jafnvel koma þar upp heimili fyrir aldraða sjómenn. Gerðar hafa verið kannanir um hugmyndir fólks um framtíðarnýtingu á eyjunni, stýrihópar og nefndir stofnaðar án þess að endanleg niðurstaða hafi fengist um framtíðarhlutverk Viðeyjar eða Þorpsins á suðausturendanum. Á meðan standa leifar Þorpsins á sínum stað þó að veður, vindar og sjávarrof vinni talsvert á sumum þeirra.”

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1. tbl. 2014, Þorpið í Viðey – Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Gavin Lucas, bls. 5-18.
-https://borgarsogusafn.is/videy/fraedsla/fjarfraedsla/punktarnir-i-videy

Viðey

Dansleikir voru haldnir í Viðey líkt og annars staðar þar sem er byggð. Eitt sinn var haldið dansiball í þurrkhúsinu þegar danskt herskip lá við bryggju á þriðja áratug síðustu aldar. Á þessu skipi var Knútur prins, sonur Kristjáns X, sjóliðsforingi. Hann og aðrir áhafnarmenn tóku þátt í skemmtuninni en sagan segir að Knútur prins hafi dansað við einu og sömu stelpuna alla nóttina. Hann var svo hrifinn af henni að daginn eftir þegar hún hélt til vinnu að vaska fisk, þá stóð hann yfir henni og hélt henni félagsskap. Ólíklegt er að í þeim samkomutakmörkunum sem eru nú í gildi að einhver hitti sinn draumaprins, en það er þó aldrei að vita!

Hestbak

Skoðaðar voru minjar á og við Geitháls. Í bókinni Áfangar, ferðahandbók hestamannsins, segir m.a. um staðinn: “Gjótulág er á mörkum þeirrar jarðar í Mosfellssveit, sem áður hét Vilborgarkot, og Hólmsheiðar.

Vilborgarkot

Vilborgarkot – loftmynd 1953.

Þarna við norðaustanverð vegamót Suðurlandsvegar og vegar yfir Mosfellsheiði (lagður um 1887) reis býlið Geitháls. Veginum við Gjótulág var breytt 1984 og hann færður vestar.
LeifarBærinn í Elliðakoti stóð við brún Mosfellsheiðar. Þar komu saman ofan af heiðinni gamlar lestarleiðir bæði austan úr Grafningi og austan yfir Hellisheiði. Aðrar leiðir voru litlu norðar. Í Elliðakoti bjó um aldamótin og hafði lengi búið Guðmundur Magnússon (1842-1929). Hann var lærður smiður og einn af framámönnum í Mosfellssveit um sína daga. Haraldur Norðdahl telur og víst að afi sinn hafi jafnframt haft allnokkrar tekjur af ferðamönnum. Auk Elliðakots átti Guðmundur Vilborgarkot handan við Ósinn, eða Gudduós.
TröppurÍ ljósi nýrra ferðahátta færði Guðmundur Magnússon sig um set og byggði árið 1906 við krossgöturnar austan Gjótulágar reisulegt hús ásamt útihúsum, meðal annars fyrir hesta. Nefndi hann staðinn Geitháls eftir hálsinum eða ásnum fyrir ofan. Í ásnum átti áður að hafa verið geitakofi frá ábúanda í Vilborgarkoti. Enginn virðist veita nú hvar ásinn er. Norður af bæjarstæðinu og rétt austan vegar úr Gjótulág er þó ás eða háls með vallgróinni rúst, sem gæti verið Geithálsinn (Geitásinn).
Stuttu síðar lagðist byggð af í Vilborgarkoti og nytjaði Guðmundur landið frá Geithálsi. Festist það nafn svo við landið og jörðina. Guðmundur rak greiðasölu á Geithálsi til ársins 1919. Seldi hann þá landið og fluttist burt. Var Geitháls á þessum árum vinsæll áningarstaður manna, sem fóru um veginn í hestvögnum eða ríðandi.

Geitakofinn

Blómaskeið veitingareksturs að Geithálsi var um það bil tuttugu ár eða svo. Eftir því sem bílaumferð óx, eftir 1919, dró úr vægi slíkra veitingastaða og þeir áttu örðugar uppdráttar. Á Geithálsi skipti það svo sköpum er umferð til Þingvalla lagðist af yfir Mosfellsheiði eftir Alþþingishátíðina 1930. Vegurinn fékk þá nafnið gamli Þingvallavegur.
Geitháls lenti í hers höndum árið 1940. Tóku Bretar húsin og hlóðu þar garða mikla og höfðu birgðastöð. Þá tóku þeir efri hæðina af húsinu. Þeir byggðu og mikla braggaþyrpingu til norðurs beggja vegna við veginn úr Gjótulág. Eftir stríðið hélst þó enn um hríð greiðasala í gamla húsinu á Geithálsi. Ekki er okkur kunnugt um hvenær hún lagðist af, en húsið mun hafa verið rifið stuttu eftir 1955.

Geitháls

Geitháls.

Síðar reisti Olíuverslun Íslands skála á Geithálsi og var þar með bensínsölu og nokkra verslun og greiðasölu á árunum 1958-1972. Þá var kominn nýr vegur fyrir sunnan Suðurlandsveginn gamla og Geitháls [féll] aftur úr leið.
Á Geithálsi sér nú fyrri mannvirkja engan stað, ef undan eru skildir nokkrir grunnar og hleðslur. Það mannlíf, sem þar var í nær sjötíu ár, er nú þegar að miklu gleymt.

Geitháls

Geitháls 1907 – útihús.

Þegar Guðmundur Magnússon fluttist frá Geithálsi kom þangað Helgi Jónsson, sem oftast var kenndur við Tungu í Reykjavík. Var hann þekktur hestamaður og var mikið um að vera á Geithálsi í hans tíð. Helgi flyst frá Geithálsi að því best verður séð árið 1928. Sama ár kaupir Gunnar Sigurðsson kaupmaður í Von (1884-1956) Norðurhólma af eiganda Geitháls, væntanlega Helga Jónssyni, og reisti þar nábýli og nefndi Gunnarshólma. Ólafur Sigurjónsson frá Geirlandi segir þó að Gunnar muni hafa byrjað þarna framkvæmdir fyrr, á árunum 1926-1927.
Gunnar byggði á jörð sinni myndarleg íbúðarhús og peningshús, sem enn standa, og ræktaði mikinn töðuvöll svo sem sjá má. Þegar mest var bú á Gunnarshólma voru þar nær þrjátíu nautgripir, á annað hundruð fjár, mikið af fuglum og svínum, svo og minkar og refir. Var þetta mikið bú og mikið í lagt. Erfiðust var þó túnræktin.”

Geitháls

Geitháls.

Forvitni lék á staðsetningu nefnds “geitakofa” á Geithálsi. Auðvelt var að finna hann m.v. lýsinguna. Reyndar fellur hann nokkuð vel inn í ásinn, en þegar nær var komið mátti glögglega sjá minjarnar. Annars eru geitur skondnar kýr.

Geithals-26

Erla Norddahl sendi FERLIR eftirfarandi ábendingu um Geitháls frá Noregi:
“Bara smá upplýsingar um Geitháls, sem tilheyrði Kópavogi. Þótt ég hafi alist upp á Hólmi, fædd árið 1954, upplifði ég að fara inn i gamla veitingahúsið, sem langafi minn byggði. Veitingarekstri var hætt þar um 1960.
Sløkkvilið Reykjavíkur kveikti i gamla húsinu eitt dimmt vertarkvøld (1961) sem “æfingu”. Mikið hefur farið forgørðum, bæði hér og þar í nafni framfara.
Annars góður vefur hjá ykkur og þakkir fyrir það, en reynið endilega að leggja inn fleiri gamlar ljósmyndir.”

Heimild:
-Áfangar – ferðahandhók hestamanna, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Geitháls

Geitháls – minjar.

Árbær

Í Byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur 2017 er fjallað um “Borgarhluta 7 – Árbæ”. Þar segir m.a.:

Staðhættir og örnefni

Árbær
Svæðið sem hér er til umfjöllunar einkennist af holtum og ásum, árhólmum og ísaldaráreyrum. Á milli Árbæjar- og Breiðholts er Elliðaárdalur og um hann falla Elliðaárnar. Þær eiga upptök sín í Elliðavatni og falla til sjávar í Elliðaárvogi, en þessi örnefni eru dregin af nafni skips Ketilbjörns gamla landnámsmanns, sem kallað var Elliði samkvæmt Landnámabók.

ÁrbærVestast á svæðinu og sunnan við Ártún renna austur- og vesturkvíslir Elliðaánna og á milli þeirra eru Árhólmar, en áður fyrr hlupu árnar um hólmana í mörgum farvegum. Yfir Árhólmana lá gamla þjóðleiðin á milli Bústaða og Ártúns um Árúnsvað. Sunnar við árnar eru Blesugróf og Blesaþúfa. Austan við Elliðaárnar er bæjarstæði Ártúns á háum hól og þar norðan og austan við er Ártúnsbrekka og Ártúnsholt sem áður hét Árbæjarholt. Ártúnsbrekkan hefur lengi verið vinsæl skíðabrekka. Frá Ártúni lá gamla leiðin um Reiðskarð að Árbæ. Frá Árbæ lá leiðin síðan til austurs þar sem í dag er Rofabær. Þar voru Breiðumóar. Norðan við Bæjarháls voru Stekkjarmóar og Stekkjarurð. Sunnar voru Eggjar ytri, Eggjar innri og Pálsbyrgi, sem talið er að hafi verið býli einsetumanns.
Árbær
Milli Elliðaárkvíslanna, austan Árbæjarstíflu og að Þrengslum, er Blásteinshólmi. Talið er að nafnið sé dregið af dökkum steini í hólmanum, en önnur skýring er að hann hafi upphaflega heitið Blasíushólmi og sé þá kenndur við dýrling kirkjunnar (bænhússins) í Breiðholti sem var helgað heilögum Blasíusi. Við siðaskiptin hefur nafninu síðan verði breytt.

Árbæjarsel

Árbæjarsel í vestanverðum Selási, eitt af tveimur. Hitt var í Nónhæð ofan við Gröf.

Austar er Selás og þar suðaustan við er Sauðadalur. Talið er að sel hafi verið þar fyrr á tímum, en engar heimildir eru um það og engar seljarústir þekktar. Selið hefur þó líklega tilheyrt Árbæ. Sunnan við Sauðadal er lítill ás sem heitir Sauðaskyggnir. Syðst í Selásnum er Brekknaás.

Árbær
Efsti hluti Elliðaánna rann áður fram í tveimur farvegum að Þrengslum. Þeir voru annars vegar Bugða, sem rann að austan með Norðlingaholti, Brekknaási og Selási að Þrengslunum, og hins vegar Dimma, sem rann úr Elliðavatni að vestan. Á milli þessara áa var stór hólmi, Árbæjarhólmi, en syðst var hann nefndur Vatnsendahólmi. Við byggingu eldri Elliðavatnsstíflu á árunum 1924-1928 stækkað Elliðavatnið um tvo þriðju hluta og Elliðavatnsengjar og farvegur Bugðu fóru undir vatn. Því vatni sem eftir rann fram um eystri flóðgáttina um gamla farveg Bugðu var þá veitt í Dimmu um Skyggnislæk og Árbæjarhólmi varð þá ekki hólmi lengur. Það svæði kallast nú Víðivellir. Þar eru reiðvellir hestamannafélagsins Fáks og Víðidalur, þar sem austasta hesthúsahverfið er undir Brekknaási.
Árbær
Breiðholtsbraut liggur síðan eftir Markargrófinni en þar var áður fjölfarin gömul leið. Austan Breiðholtsbrautar eru síðan Klapparholtsmóar og Klapparholt en þar er í dag hverfið Norðlingaholt. Norðlingaholtið sjálft er mun sunnar eða þar sem Bugða rennur í dag í Elliðavatn. Baldurshagi var nálægt því þar sem bensínstöð Olís (Norðlingabraut 7) er nú.

Landsvæðið sem núverandi borgarland Reykjavíkur nær yfir skiptist á öldum áður upp í jarðir lögbýla og svæðið sem hér er til umfjöllunar, borgarhluti 7, tilheyrði að mestu fjórum jörðum, Bústöðum, Ártúni, Árbæ og Gröf, en lítill hluti Breiðholti. Allt voru þetta frekar smáar jarðir, nema Gröf. Jarðirnar voru lagðar til Viðeyjarklaustur en það var stofnað árið 1226. Klaustrið hafði mikil stjórnsýsluleg völd á þeim tíma. Við siðaskiptin 1550 urðu allar eignir klaustursins eignir Danakonungs. Konungur seldi síðan jarðirnar árið 1838 og komust þær þá í einkaeigu.

Bústaðir
Bústaðir
Vestasti hluti svæðisins tilheyrði að mestu jörðinni Bústöðum. Bústaðir hafa snemma verið byggðir. Jarðarinnar getur fyrst í Þorláks sögu, þar sem greint frá jarteinum sem áttu sér stað á bænum árið 1325 og tengdust kirkjunni í Breiðholti. Jón Bergþórsson var eigandi Bústaða árið 1535 en það ár kærði Alexíus ábóti í Viðey hann fyrir „að hann hafði farið í Elliðaá og haft klaustursins net og eignað Bústöðum fors í ánni eðr streing”.
Á Bústöðum fæddist um aldamótin 1500 Núpur nokkur Jónsson sem ásamt mörgum öðrum stóð að vígi Diðriks af Mynden. Frá þessu segir hann sjálfur í víglýsingarvitnisburði frá 10. nóvember 1539.
Árbær
Það landsvæði Bústaða eru Árhólmarnir, en hólmanir koma fyrir í heimildum frá seinni hluta 17. aldar þegar þar var aftökustaður. Um miðja 18. öld var vatnið úr Elliðaánum nýtt til að snúa hjólum þófaramyllu Innréttinganna, en þar á bakkanum voru einnig litunar- og sútunarhús sem tilheyrðu starfsemi Innréttinganna.
Reykjavíkurbær keypti Bústaði árið 1898 og árið 1923 var Bústaðaland lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Búskapur var stundaður að Bústöðum allt fram undir 1970.

Ártún

Artún

Ártún.

Austan við syðri Elliðaárkvíslina var jörðin Ártún en um kvíslina lágu sveitafélagsmörk til ársins 1929.
30 Einungis syðri hluti jarðarinnar er innan borgarhlutans en þar er hluti Ártúnsholts í dag. Bæjarstæði Ártúns er á háum hól vestan undir Ártúnsbrekkunni, en þar eru friðaðar fornleifar.
Jarðarinnar Ártúns er ekki getið í Íslensku fornbréfasafni en menn hafa getið sér þess til að jörðin Árland neðra, sem getið er um í Vilchinsbók frá 1379, þá eign kirkjunnar í Nesi, og í Gíslamáldaga frá 16. öld, sé umrædd jörð. Árbær
Ártún var lengi vel í alfaraleið og þar var stunduð greiðasala og gistiþjónusta á seinni hluta 19. aldar.
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jarðirnar Ártún, Árbæ og Breiðholt ásamt hluta úr Gröf, vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda, því fyrstu hugmyndir voru að taka neysluvatn úr Elliðaánum fyrir þéttbýli í Reykjavík. Á árunum 1920-1921 voru Elliðaárnar virkjaðar og mannvirki Elliðaárvirkjunar reist við Ártún.
Árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Árbær
Árbær
Austur af Ártúni var jörðin Árbær, en bæjarhúsin eru nú innan safnsvæðis Árbæjarsafns. Hluti núverandi byggðar í Ártúnsholti og neðrihluti Árbæjarhverfis eru byggðir í landi Árbæjar, en jörðin lá upp með Elliðaánum og tilheyrðu Blásteinshólmi og Árbæjarhólmi henni.
Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Árbær
Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.
Sá atburður sem eftirminnilegastur hefur þótt í sögu Árbæjar er sakamál sem átti sér stað árið 1704, en þá var tvíbýli í Árbæ og annar bóndinn varð hinum bóndanum að bana við Skötufoss í Elliðaánum.
Árbær
Síðustu ábúendur í Árbæ voru hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson sem bjuggu þar frá 1881 og dóttir þeirra Kristjana, sem tók við búinu árið 1935 og bjó þar til 1948, en þá fór bærinn í eyði. Í tíð Margrétar og Eyleifs var fjölsótt greiðasala í Árbæ, með svipuðu móti og verið hafði í Ártúni.
Saga Árbæjar eins og Ártúns er einnig samofin nýtingu Elliðaánna. Eins og áður segir keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina ásamt Ártúni og fleiri jörðum árið 1906 vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Gröf

Gröf

Gröf – bæjarstæðið.

Austur af Árbæ var jörðin Gröf. Austurhluti Árbæjarhverfis, Selásinn og allt Norðlingaholtið er í landi Grafar. Svæði þetta hefur verið beitiland að mestu á öldum áður. Austast, þar sem Norðlingaholt er í dag, voru áður nefndir Klapparholtsmóar en þar var býlið Klapparholt.
Norðlingaholtið sjálft er mun sunnar eða við Elliðavatn, en þar er talið að hafi verið þingbúðir Norðlendinga og tengist það sögu þingsins í Þingnesi við Elliðavatn.

Elstu skriflegu heimildir um jörðina Gröf eru í máldaga Maríukirkju á Bessastöðum sem tímasettur er til ársins 1352. Þá átti kirkjan “…gelldfiar rekstur j grafarlannd j lambatungur”
en ekki er tekið fram hver hefur verið eigandi jarðarinnar. Gröf var komin í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395. Þá var gerð skrá um kvikfé og leigumála á jörðum klaustursins.
Gröf virðist þó hafa verið komin í einkaeigu í byrjun 16. aldar, því þann 5. september 1503 seldu Guðmundur Þórarinsson og Ingibjörg Jónsdóttir Árna ábóta jörðina fyrir fjórtán hundruð í lausafé og kvittuðu fyrir andvirðinu.

Grafarkot

Grafarkot 2022.

Þann 10. desember sama ár (1503) var í Viðey gert skiptabréf Árna ábóta annars vegar og Halldórs Brynjólfssonar hins vegar, á jörðunum Strönd í Hvolhreppi og Gröf í Mosfellssveit. Þar með var Gröf aftur komin í einkaeigu. Ekki eru heimildir fyrir því hvenær Halldór seldi jörðina, en hann var nefndur hinn auðgi og hafði mikið umleikis. Svo mikið er víst að jörðin hefur aftur orðið klausturjörð einhvern tíma fyrir 1545 og hélst svo þar til klausturjarðir runnu til konungs um siðaskipti. Á árunum 1547–1552 er jarðarinnar svo getið í fógetareikningum Bessastaðamanna.
Árið 1907 var bærinn Gröf fluttur að Vesturlandsvegi og ný bæjarhús reist og nefnd Grafarholt.
Um aldamótin 1900 bjó þar Björn Bjarnason hreppstjóri og alþingismaður. Jörðin Grafarholt var ekki lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur fyrr en árið 1943, en meginhluti hennar var síðan tekinn eignarnámi 1944. Allt landsvæði austan Elliðaáa tilheyrði áður Mosfellssveit.

Norðlingaholt og Oddagerði
Árbær
Við Elliðavatn er landsvæði sem kallast Norðlingaholt og liggur það mun sunnar en núverandi íbúðahverfi með sama nafni. Þetta landsvæði tilheyrði jörðinni Gröf. Um uppruna örnefnisins Norðlingaholts eru nokkrar kenningar. Ein kenning er sú að vermenn sem komu af Norðurlandi (Norðlingar) og hugðust fara til róðra eða skreiðarkaupa á Suðurnesjum hafi áð við holtið og þar hafi einnig oft skilið leiðir þeirra á milli eftir því hvert á Suðurnesin átti að halda. Að sama skapi hafi þeir komið saman við holtið þegar haldið var heim norður. Hin kenningin, sem blaðamaðurinn Árni Óla hélt á lofti, er sú að holtið sé kennt við fornar þingbúðir Norðlinga sem sóttu hið forna Kjalnesingaþing við Þingnes og að Norðlingar hafi verið þeir sem komu frá Borgarfirði og jafnvel Hvalfirði.

Árbær
Búðirnar eru merktar inn á kort frá árinu 1880 sem talið er gert af Benedikt Gröndal. Árið 1897 sýndi Benedikt Sveinson alþingismaður fræðimanninum Daniel Bruun búðir í Norðlingaholti og taldi að búðirnar væru frá því áður en Alþingi var stofnað.
Fornleifafræðingarnir Guðmundur Ólafsson og Bjarni F. Einsson hafa skráð eina búð á svæðinu í Fornleifaskrá Reykjavíkur. Hvort um þingbúð er að ræða eða ekki er ekki vitað, þar sem engin eiginleg fornleifarannsókn hefur farið fram á þessum stað, en slík rannsókn væri nauðsynleg til að komast að aldri rústarinnar. Hins vegar er öruggt að þing var við Elliðavatn í Þingnesi og hugsanlega tengjast þessir staðir.
Á þessum slóðum var býlið Oddagerði eða Oddagerðisnes en nokkurs ruglings virðist gæta um nákvæma staðsetningu þess. Líklega hefur kort Benedikts Gröndal frá 1880 aflvegaleitt marga sem skrifað hafa um svæðið, en Benedikt merkir örnefnið Oddagerðisnes (Oddgeirsnes) inn á næsta tanga fyrir vestan Norðlingaholt. Oddagerði er nefnt í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem eyðibýli og þar sagt hafa farið í eyði fyrir löngu en nýtt af ábúendum Grafar og Árbæjar.54 Í örnefnaskrá sinni frá um 1900 lýsir Björn Bjarnason, hreppstjóri og ábúandi í Gröf, þar rústum og görðum og telur þessar minjar mjög gamlar. Björn staðsetur Oddagerði sunnan við Skyggni (Oddaskyggni). Það svæði fór undir vatn við gerð Elliðaárstíflu á árunum 1924-1928, en á loftmynd frá árinu 1954, sem hefur verið tekin þegar mjög lágt var í vatninu, má greina þar rústir og garða.

Fornar leiðir og greiðasala
Árbær
Elsta þjóðleiðin til og frá Reykjavík lá frá Skólavörðuholti um Öskjuhlíð og áfram austur Bústaðaholt á þeim slóðum þar sem Bústaðavegur er nú. Frá Bústöðum lá leiðin austur yfir vaðið á vestari kvísl Elliðaánna, um Árhólmann sunnan við Drekkjarhyl og rústirnar af húsum Innréttinganna og yfir eystri kvísl Elliðaánna á Ártúnsvaði, rétt austan við þar sem Toppstöðin er í dag og framundan bæjarhól Ártúns. Á meðan Ártún var í þjóðleið var rekin þar greiðasala. Þaðan lá leiðin að Árbæ um Reiðskarð en þar var skarð í gömlu ísaldaráreyrina og því greiðast að fara þar upp.
Leið þessi var aðalvegurinn austur úr bænum þar til byggðar voru tvær brýr yfir Elliðaárnar árið 1883 og nýr vegur var lagður í framhaldi af Laugavegi norður fyrir Grensás og í gegnum Sogamýri, sem ýmist var nefndur Suðurlandsvegur eða Suðurlandsbraut (núverandi Suðurlandsbraut). Fyrir austan brýrnar færðist vegstæðið norðar og eftir það var Ártún ekki í sömu alfaraleið og áður og greiðasala lagðist af þar. Um svipað leyti hófu ábúendur í Árbæ rekstur greiðasölu, eins og áður er nefnt, sem var rekin þar fram undir 1940.

Árbær
Um 1900 var búið að gera vagnveg frá Elliðaárbrúm að Árbæ og áfram austur. Þessi vegur (gamli Suðurlandsvegur) er þar sem gatan Rofabær er nú. Vegurinn hélt síðan áfram til austurs framhjá Rauðavatni og að Geithálsi.
Áður lá vegurinn hjá Rauðavatni aðeins sunnar, samanber kort sem til er af svæðinu frá 1902, en þar eru merktir nokkrir gamlir slóðar. „Gamli vegurinn“ er sennilega elsti slóðinn sem lá á milli Árbæjar og Hólms yfir Klapparholtsmóa og er líklega elsti forveri Suðurlandsvegar (merktur rauður á kortinu). Enginn örugg merki eru sjáanleg eftir hann nema hugsanlega nyrst við núverandi Norðlingabraut. Annar slóði lá suðvestur frá Rauðavatni inn Margrófina og inn að Norðlingaholti (merktur grænn á kortinu). Þessi vegur var forveri Breiðholtsbrautar og er nyrsti hluti hans nú notaður sem reiðvegur. Þá lá slóði yfir Klapparholtsmóa og Klapparholtsvað vestan við býlið Klapparholt yfir að Elliðavatni, merktur blár á kortinu). Inn á kortið er einnig teiknaður vagnavegurinn meðfram Rauðavatni eða fyrsti Suðurlandsvegurinn, merktur svartur á kortinu).

Herskálahverfi og aðrar herminjar
Árbær
Á stríðsárunum reistu hernámsliðin nokkur lítil braggahverfi austan Elliðaáa. Í landi Ártúns voru fimm herkampar reistir og stóðu þrír þeirra á því svæði sem borgarhlutinn Árbær nær til. Sunnan bæjarhóls Ártúns var Camp Alabaster sem var um tíma aðalbækistöð breska setuliðsins. Síðar tóku Bandaríkjamenn yfir herskálahverfið og nefndu það Camp Pershing. Í Ártúnsbrekku, norðan við bæjarhólinn, var Camp Battle og þar norðan við var Camp Hickam. Einu ummerkin sem eftir eru um hernaðarmannvirki á svæðinu eru í Ártúnsbrekkunni, þar sem er dæld eftir sandpokavígi á einum stað og neðanjarðarbyrgi sem búið er að byrgja fyrir á öðrum stað. Þar er einnig að finna jarðhýsi sem reist voru sem kartöflugeymslur árið 1946 en við byggingu þeirra var nýtt efni úr geymslum sem setuliðið hafði látið reisa á Íslandi.

Hernám

Ofarlega í Elliðaárdal, þar sem nú er skeiðvöllur Hestamannafélagsins Fáks, var nokkuð stórt braggahverfi, Camp Baldurshagi. Nafnið á kampinum er villandi vegna þess að hann er á allt öðrum stað en hinn upprunalegi Baldurshagi sem var við Suðurlandsveg (sjá að ofan). Í Camp Baldurshaga voru fyrst breskir hermenn en síðar landgönguliðar bandaríska sjóhersins. Þar má enn sjá braggagrunna upp með ánni. Eitt húsanna sem reist voru fyrir yfirmenn setuliðsins var síðar flutt í Seláshverfi og mun standa þar enn samkvæmt munnlegum heimildum, en líkt og víðar í borgarlandinu eru annars fá ummerki um mannvirki frá hernámsárunum á þessu svæði.

Austan við Baldurshaga við Suðurlandsbraut (austan við núverandi bensínstöð Olís í Norðlingaholti) var braggahverfið Camp Columbus Dump, sem var birgðageymsla. Þar voru lengi sjáanlegir braggagrunnar.
Á austurjaðri borgarhlutans, við Sandvík norðvestan Rauðavatns, er einnig að finna minjar frá hertíma en þar var Camp Buller, höfuðstöðvar strandvarna eða loftvarnastórskotaliðs.
Á staðnum eru steyptar undirstöður bragga auk bryggju, en Rauðavatn var töluvert stærra á hernámsárunum en nú. Sunnar, við lítinn tanga austan við Rauðavatn, er að finna hringlaga tóft, hugsanlega stríðsminjar.

Árbæjarsel II

Árbæjarsel

Árbæjarsel í vestanverðum Selási, eitt af tveimur. Hitt var í Nónhæð ofan við Gröf.

Tvær heimildir er að finna í örnefnalýsingum um sel frá Árbæ. Í annarri þeirra segir: „Sel hefur verið suðaustan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi“. [Hér er áttvið sel í Nónhæð fyrir ofan Gröf. Þar eru minjarsels, húsatóftir og stekkur.]
Í hinni segir: „Vestur af Markgróf er Sauðadalur. Þar byggði Jens Eyjólfsson (árið 1933). Þar vestur af er Selás, sem dregur nafn af því, að í Sauðadal vestan til var sel, líklega frá Árbæ.“ Hugsanleg staðsetning sels er þá norðan við gamla húsið Selásdal út frá þessum lýsingum, eða á því svæði þar sem í dag er Suðurás 16-24. Ef loftmyndir frá árinu 1956 eru skoðaðar má sjá rústarsvæði nær gamla farvegi Bugðu sem gæti hafa verið sel. Það eina sem styður þá staðsetningu frekar, er að sel eru oftast nálægt ám eða lækjum. Nú eru þarna hesthús Fáks.
[Vestur í Selási eru enn tóftir, bæði húsa og hlaðinn stekkur].

Heimild:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 7 – Árbær, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2017.
Árbær

Lögberg

Í Ísafold árið 1908 má lesa eftirfarandi um stofnun nýbýlis á Lögbergi: “Lögberg nefni eg greiðasöluhús mitt, nýtt og vandað steinhús, bygt við Fossvallaklif, fyrir ofan Lækjarbotnabæinn sem eg hefi lagt í eyði. – 15. des. 1908. – Guðni H. Sigurðsson.”
logberg 1958Í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins árið 1963 er fjallað um Lögberg: “Sögu Lögbergs er lokið. Síðustu árin hefur húsið staðið autt og yfirgefið, það hafa margir átt leið um veginn eins og áður, en enginn ber að dyrum, enginn á þangað erindi lengur. Ekki alls fyrir löngu átti ég leið þarna framhjá. Það var á sunnudegi. Veður var kyrrt og bjart og fagurt til fjalla. Þó mátti sjá, að haustið var á næstu grösumum. Lyngið í Selfjallinu var orðið eldrautt í brekkum og kvosum, grasviðurinn gulur, það sló brúnleitum blæ á ásana í heiðinni. Hengillinn og Esjan höfðu líka skipt um lit og fengið hvítan koll um nóttina. Undanfarnar vikur hafði verið unnið að. því að rífa Lögbergshúsið gamla. Verkinu var langt komið og þennan morgun hafði verið kveikt í tróði og rusli í hústóttinni og steig reykurinn frá rústunum hátt til lofts í góðviðrinu. Framundan dyrunum lá spýtna brakið úr húsinu í hrúgu. Sú var tíðin, að öðruyísi var hér um að litast og meiri reisn yfir staðnum, sól skein á þil og glugga, blár eldhúsreykur liðaðist vingjarnlega upp frá bænum undir Fossvallaklifinu, dyrnar stóðu opnar, en húsráðendur biðu á hlaði úti og fögnuðu gestum af alúð og innileik. Ei framar spyr að föllnum garði.
Strætisvagninn á Lögbergsleiðinni er auðkenndur Lækjarbotnar. Sumir hafa furðað sig á þessu. Þetta er þó. ekki út í hött. Býlið heitir Lækjarbotnar frá fprnu fari, og nafnið er líklega talsvert gamalt. Það er dregið af nokkrum lækjum og sytrum, sem eiga upptök sín þarna í heiðinni eða spretta fram undan hrauninu og sameinast í eina á, sem nokkru neðar liðast fram milli grænna bakka norðan og vestan við Rauðhóla og heitir Bugða. Lögbergsnafnið er hinsvegar nýtt af nálinni að kalla, orðið til eftir síðustu aldamót þegar íbúðarhúsið, sem nú er nýrifið, var reist. Hálfgerð tilviljun réði nafngiftinni.
Guðmundur Helgi Sigurðsson, sem lét reisa húsið, ætlaði upphaflega að kalla það Berg, enda á bjargi byggt og klappir allt um kring. Hann fékk Stefán nokkurn Eiríksson til að skera nafnið á fjöl til að festa á húsið. Stefáni mun hafa þótt nafnið stuttaralegt og stakk upp á því að kalla húsið Lögberg og á það féllst Guðmundur.  Saga Lögbergs hefst því í raun og veru ekki fyrr en eftir að Guðmundur flytur á jörðina og reisir húsið. Enda er það einmitt hann, sem gerir garðinn frægari.
logberg-2Leiðin suður yfir Hellisheiði og austur fyrir fjall er jafngömul byggð landsins. „Ingólfur fór um várit ofan um Heiði”, segir í Landnámu. Leiðin um heiðina þótti löngum erfiður og hættusamur fjallvegur að vetrarlagi í snjó og hríðarveðrum, áður en akvegur var lagður milli byggða, og ótaldir eru þeir, sem villzt hafa þar af réttri leið eða örmagnast í ófærðinni og sofnað á heiðinni svefninum hinum langa. En áreiðanlega hefur margur, sem af fjallinu kom, orðið skjólinu feginn, þegar hann náði Lækjarbotnum, sem var efsta byggt ból vestan heiðar, þangað til gistihús var reist á Kolviðarhóli. Þó mun vegurinn fyrrum hafa legið nokkru norðar og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.
Elzta heimild um sæluhús á þessum fjallvegi er hinsvegar frá 1703, en þá getur Hálfdán Jónsson lögréttumaður um sæluhús á norðanverðum Hvannadölum. Sæluhús þetta mun hafa staðið skamt framan við Húsmúlann við tjörn eina, sem nefnd er Draugatjörn! Átakanlegt dæmi úr slysasögu þessa fjallvegar er eftirfarandi saga, sem bundin er við þetta sælu hús og lifir hann í minnum manna austan fjalls. Skúli Gíslason hefur ekið hana upp í Kolviðarhólssögu sína og er hún þar á þessa leið:
logberg-3„Gömul sögn úr Ölyesi hermir að eitt sinn hafi ferðamaður um vetur í vondu veðri komið austan yfir Hellisheiði. Hann hafði náttstað í sæluhúsinu, lokaði dyrum að sér og lagðist til svefns. Áð nokkurri stundu liðinni heyrði hann að komið var við hurðina og gerð tilraun að komast inn. Sá, er inni var, hugði það draug ytra og opnaði ekki. Heyrði hann um hríð þrusk utan við hurðina, en svo þagnaði það. Um morguninn, þegar maðurinn leit út, brá honum ónotalega við. Utan dyra lá dauður maður. Var það sá, er um kvöldið hafði knúið hurðina og maðurinn haldið vera draug. —”þetta spurðist víða og þóttu hörmuleg mistök. Eftir það “hafði alvarlega yerið brýnt fyrir ferðamönnum að loka aldrei húsinu að sér um nætur.”
Nokkru fyrir 1840 var svo byggt sæluhúsið neðan við Sandskeið eða skammt frá Fóelluvötnum, sem ýmsir núlifandi menn muna og um svipað leyti var Hellukofinn reistur, sunnanvert á miðri heiðinni, þar sem áður stóð svokölluð Biskupsvarða og stendur hann enn í dag. Árið 1844 yar svo loks reist sæluhús á Kolviðarhóli undir Hellisskarði, en gistihúsið þar rís hinsvegar ekki af grunni fyrr en haustið 1877.

Lögberg

Lögberg – stríðsminjar norðan Suðurlandsvegar.

Ekki fara margar eða miklar sögur af Lækjarbotnum á fyrri tímum, enda ekki um stóran stað að ræða. Jörðin túnlítil og slægnalaus að kalla, reytiskot langt uppi í heiði. Þó er talið, að þar hafi verið a. m. k. sex eða sjö ábúendur á undan Guðmundi Sigurssyni, en upphaflega var kotið byggt sem nýbýli úr afréttarlandi Seltirninga. Hallbera nokkur byggði fyrst í Lækjarbotnum og stóð bær hennar allmiklu sunnan við ferðamannagötuna gömlu, sem lá af Sandskeiði meðfram Selfjalli og Hólshrauni og til Hafnarfjarðar. Er um stundarfjórðungsgangur þangað frá Lögbergi. Seinna var bærinn færður, þegar nýr vegur var lagður austur, og byggður sunnan vegarins á grasi grónum hól þar sem fjárhúsin nú standa.
Fróðlegt er að lesa frásögn Willam Lord Watts, Vatnajökulsfara, um ferðalag hans austur yfir fjall árið 1875, en þá liggur leið hans einmitt um Lækjarbotna. Hann segir m. a.:” „Fyrst er þá” farið um gömul hraun, þar sem kindaskjátur í tvennum reyfum voru að kroppa í sig reytingslegan gróður. Þær höfðu rifið af sér ullina á hraunnibbunum svo að hún hékk á þeim í óhreinum dræsum og gerði þær ámóta ömurlegar ásýndum og landið, sem þær gengu á, enda var mesta leiðindaveður þennan dag. Um hádegi bar okkur að örreytiskoti, sem kallast Lækjarbotnar. Þar var ekkert að sjá nema örbirgð, harðfisk og óhreina krakka.

Lögberg

Lögberg – loftmynd 1953.

Ég veit ekki, hverju það sætir, að öll býli í næsta nágrenni Reykjavíkur eru fátækari og niðurníddari en nokkru tali tekur. Að vísu eru heimalönd þeirra lélegri en gengur og gerist í öðrum héruðum en fólkið er líka allt öðruvísi. Enginn kemst hjá því að taka eftir hinni sinnulausu nægjusemi í svip þess, enda vart við öðru að búast, eins og högum þess er háttað, en hvergi hef ég séð eins bláskínandi armúð og á þessu heimili.
En allt um það, hestarnir okkar grípa niður, og við vözlum forina framan við þessi hrúgöld úr grjóti, torfi og grjóti sem virðist með öllu óhugsandi að kalla heimili, hvernig svo sem það hugtak væri teygt eða túlkað. Hestarnir urðu að feta niður bratta og sleipa forarbrekku, sem ekki gerir aðkomuna eða brottförina frá Lækjarbotnum aðgengilegri. Þannig létum við þetta aðsetur eymdarinnar að baki og lögðum á heiðina í þoku svækju og kuldastrekkingi, hvar sem smugu var að finna.”

lögberg

Lögberg.

Ég brá mér einn daginn nýlega upp að Lögbergi og hitti að máli Guðfinnu Sigríði Karlsdóttur, en hún hefur átt þar heima samfleytt í meira en hálfa öld, lengst af ráðskona Guðmundar eða þangað til að hann lézt fyrir tæpum sex árum. Nú býr hún í litlu, snotru húsi, sem stendur í hlýlegri brekku ofan við Fossvallakvíslina, örskammt frá Lögbergshúsinu gamla. Þarna er símstöð og endastöð strætisvagnanna, sem ganga í Lækjarbotna, og eiga vagnstjórar vísan kaffisopann hjá gömlu konunni, þegar uppeftir kemur, því að gestrisnin er enn hin sama og áður. En hún ber þeim líka vel söguna.
Guðfinna er fjölfróð um Lækjarbotna og Lögberg sem vænta má, og varð ég margs vísari um sögu staðarins og ábúendurna, meðan ég sat þarna yfir rjúkandi kaffibolla og kökum. Guðmundur Sigurðsson var fæddur að Gröf í Mosfellssveit 17. des. 1876. Foreldrar hans voru Sigurður Guðmundsson og Guðrún Þorleifsdóttir, bæði ættuð að austan. Hann var yngstur af sautján systkinum. Hann missti heilsuna á unglingsárum sínum og lá þá rúmfastur um sex ára skeið og beið þess aldrei bætur. Eftir að hann komst til sæmilegrar heilsu, fluttist hann til Reykjavíkur og fékkst þar við ýnis störf, m. a. blaðaafgreiðslu hjá Einari Benediktssyni skáldi og síðar Sig. Júl. Jóhannessyni skáldi, en eftir það lærði hann rakaraiðn og stundaði hana um skeið. En starfið átti ekki vel við hann, enda þoldi hann illa stöðurnar til lengdar, svo hann venti sínu kvæði í kross og keypti landspildu uppi við Rauðavatn með aðstoð góðra manna, reisti þar skála, sem hann nefndi Baldurshaga og rak þar kaffistofu um tveggja ára skeið. Árið 1907 leigði hann síðan Baldurshagann, en keypti Lækjarbotna af Erasmusi Gíslasyni bróður Gísla Gíslasonar silfursmiðs í Reykjavík.

Fossvallaklif

Fossvallaklif.

Guðmundur var alla tíð mikill áhuga- og framkvæmdamaður, þrátt fyrir vanheilsu sína. Hann hófst þegar handa um byggingu íbúðarhúss í Lækjarbotnum og aðrar jarðabætur, enda voru kofarnir að falli komnir og kotið túnlaust að heita mátti. Gömlu bæjarhúsin stóðu, eins og áður er sagt, á hólnum sunnan vegarins, en með tilliti til umferðarinnar ákvað hann að velja nýja húsinu stað norðan við veginn, á klöppinni rétt sunnan við Fossvallarkvíslina. Hann lét kljúfa grágrýti í veggina á húsinu og felldi þar síðan í steinlím í hleðslunni. Þetta var erfitt verk og seinunnið og kostaði mikið fé. En húsið reis af grunni og Lögberg blasti við öllum, sem um veginn fóru að sunnan og austan. Þetta varð allmikið hús áður en lauk méð endurbótum og viðbyggingum, í því voru hvorki meira né minna en tuttugu vistarverur, þegar allt var talið. Enda varð þetta fljótlega fjölsóttur staður. Kolviðarhóll og Lögberg voru á þessum árum fastir áningarstaðir flestra þeirra, sem um Hellisheiði fóru, og náttstaður margra. Erfitt er um túnrækt í Lækjarbotnum, samt tókst Guðmundi að tífalda töðufallið og koma því upp í um 150 hesta. En auk þess falaði hann sér heyja annarsstaðar að, m. a. austan yfir fjall enda hafði hann 12 kýr í fjósi og á annað hundrað fjár á jörðinni, þegar flest var. Jafnframt búskapnum rak hann svo greiðasölu.- Framan af búskapartíð Guðmundar var mikil gestakorma að Lögbergi.
raudholl-229Fjárrekstrarmenn kormu á haustin austan úr sveitum á leið til Reykjavíkur og vermenn á veturna og vorin. Þeir komu venjulega nokkrir saman, gangandi, með þungar byrðar á baki, í misjafnri færð og veðri, sumir hráktir og illa til reika, og áttu stundum líf sitt að launa húsaskjóli og aðhlynningu heimilisfólksins á Lögbergi. Varð bft iitið um svefriihn hjá heimafólkinu, þegar vakið var upp, stundum tvisvar þrisvar á nóttu. Mikið var líka um vöruflutningá um heiðina, en um helgar á sumrin brugðu bæjarmenn sér upp að Lögbergi á hestum og var þá stundum glatt á hjalla. Svo gekk bílaöldin í garð og með henni fækkaði þeim, sem viðkomu höfðu á Lögbergi. Snemma á hernámsárunum settust Bretar að 4 Lögbergi, en seinna Bandaríkjamenn við veginn, þegar komið er upp úr skarðinu.
Höfðu þeir þarna heljarmikið bakarí. Þeir tóku allmikla spildu af túninu undir byggingarnar, en annars fór vel á með þeim og heimafólkinu á Lögbergi. Þeir létu líka byggja skjólvegginn mikla, sem er norðan við húsin. Vann 40 manna flokkur að hleðslunni í fullar sjö vikur og er þetta talinn einhver dýrasti veggur sinnar tegundar sem hlaðinn hefur verið á Íslandi. En vel er veggurinn hlaðinn, svo að Steinar í Hlíðum undir Steinahlíðum hefði jafnvel verið fullsæmdur af verkinu, enda voru vegghleðslumennirnir íslenzkir og sjálfsagt ættaðir að austan. Samt hefur þessi veggur aldrei áunnið sér virðingu í hlutfalli við fyrirhöfn og tilkostnað. Enn standa þarna leifar af varðturninum og nokkrir ryðgaðir braggaskrokkar frá hernámsárunum.

Guðmundur var mjög heilsulítill síðustu árin, sem hann lifði, og leigði þá öðrum jörðina, en dvaldi þar þó áfram sjálfur til dauðadags. Hann andaðist 4. nóv. 1957, rúmlega áttræður að aldri. Hann var jarðsettur í heimagrafreit á túnhólnum sunnan við veginn, þar sem gamli Lækjarbotnabærinn stóð.

Tröllabörn

Tröllabörn – loftmynd 1953.

Fannveturinn mikla 1919—1920 var gífurlegur snjór á Hellisheiði sást hvergi á dökkan díl að kalla. Þá var allt í kafi á Lögbergi pg gengt af húsþakinu upp á hæðina fyrir ofan, en snjógöng grafin frá dyrunum. Í vorleysingunum verða þarna mikil umskipti. Bláar skúrir leiðir með fjöllunum og allt bráðnar og rennur sundur, nýtt líf kemur í Fossvallakvíslina, sem annars er gersamlega þurr, og fellur hún þá beljandi rétt meðfram bæjarveggnum á Lögbergi en neðar flæðir hún út yfir alla bakka og ber með sér aur og leir fram á jafnlendið fyrir neðan. Mörgum finnst sumarfrítt í Lækjarbotnum, þótt Vatnajökulsfaranfum gætist ekki allkostar að landinu, þegar hann fór þar um í þoku og rigningssudda, enda lætur það lítið vfir sér við fyrstu kynni. Þar eru þó margar hlýlegar og vinsælar dældir og kvosir, vaxnar grasi og lyngi, og mosagrænt hraunið lumir á ýmsri óvæntri fegurð. Þetta er ákaflega rólegt og notalegt landslag, enda er þarna krökkt orðið af sumarbústöðum út um allt. Ég er ekkert hissa á því, þótt gamla konan, sem bráðum hefur átt hér heima samfleytt í 54 ár, eigi erfitt með að slita sig héðan, og er henni þó ekki sársaukalaust að horfa upp á eyðileggingu gamalla mannvirkja á staðnum. En umhverfið er þó altént hið sama, Nátthaginn og Selfjallið, ám og hraunið og allt þetta nafnlausa í náttúrunni, sem yljar og hlýjar um hjartaræturnar. Það er ósköp auðvelt að skilja sjónarmið og tilfinningar gömlu konunnar. „Ég vil helzt ekki flytja héðan fyrr en ég fer alfarin.”

trollaborn-221

En Lækjabotnar eiga sér einnig aðra sögu en hér hefur verið rakin, miklu eldri sögu, sem skráð er á klappirnar og klungrin umhverfis Lögberg. Ísaldarjökullinn, sem á sínum tíma þakti meginhluta landsins hefur skriðið þarna fram um heiðina og sorfið og rispað grágrýtisklappirnar og loks skilið eftir heljarmikil grettistök á víð og dreif, þegar aftur tók að hlýna. Slíkar jökulminjar sjást víðsvegar á holtunum og hæðunum upp af Lögbergi, sunnan og norðan vegarins. Löngu seinna, eftir að ísöld lauk og jökullinn var horfinn eða fyrir um það bil fimm þúsund árum, hefur orðið mikið hraungos þarna austur með fjöllunum á báða bóga, til austurs og vesturs. Hraunelfan, sem til vesturs leitaði, hefur fundið sér farveg niður um skarðið milli grágrýtisholtanna ofan við Lækjarbotná, þar sem vegurinn nú liggur, og runnið allt til sjávar í Elliðavog. Í þessu hraunflóði er talið, að Rauðhólar haft myndazt og Tröllbörnin orðið til, en.svo heita nokkrir smágígar meðfram veginum rétt neðan við Lögberg. Þannig hafa eldur og ís á sínum tíma merkt og mótað landið í Lækjarbotnum eins og víða annarsstaðar á Íslandi. Bakgrunnurinn að sögusviði þeirrar f arsælu lífsbaráttu, sem gerði garðinn frægan og hér hefur verið lítillega lýst, er stórfenglegur og eftirminnilegur. En það er einnig ákveðin reisn yfir þeim, sem settust að þarna við veginn í trássi við öll afkomulögmál, græddu bera klöppina, reistu skála að segja um þjóðbraut þvera, af myndarskap, en litlum efnum, hýstu gest og gangandi og áunnu sér þakklæti og virðingu vegfarenda. Nú er sviðið autt og yfirgefið og spýtnabrakið á bæjarhellunni, hinni fimm þúsund ára gömlu klöpp, staðfestir í raun réttri einungis það, sem áður var nokkurn veginn ljóst, að sögu Lögbergs er lokið.” – Gestur Guðfinnsson.

Í Vísi árið 1962 er frétt: “Lögberg selt til niðurrifs“:

Lögberg

Lögberg 1931-1935. Í forgrunni er nokkuð stór fólksbíll af eldri gerð og er barn að hlaupa að honum. Í bakgrunni er stórt hús og viðbyggingar frá því, aðallega t.h. Á húsinu má lesa nafnið LÖGBERG. Á bakhlið myndarinnar er skrifað: Erik körte med Adam til Stokkesyer (Stokkseyri) med bilen fra mejeriet, skulle hente varer til mejeriet.

“Fyrir nokkru auglýsti bæjarverkfrœðingur Kópavogs bygginguna Lögberg að Lækjarbotnum til sölu til niðurrifs og brottflutnings.
Lögberg, eða Lækjarbotnar, eins og staðurinn hét forðum, er gamall áningar- og greiðasölustaður, en síðustu árin hefir staðurinn eiginlega ekki þjónað öðrum tilgangi en að vera endastöð fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, sem hafa þjón að íbúum í Kópavogskaupstað, er nær þarna upp eftir, með því að flytja þá úr bænum og í.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – Friðrik VIII. á för sinni um landið 1907.

Bæjarverkfræðingur Kópavogs, Páll Hannesson, hefir skýrt Vísi svo frá, að allmargir aðilar hafi látið í ljós áhuga á Lögbergi, er það var auglýst, en niðurstaðan verður sú, að tveir menn úr Kópavogi, Jóhann Kristjánsson og Sigurður Jakobsson, hafa hreppt húsið, og munu þeir fá húsið fyrir að rífa það og flytja á brott, en ætlun þeirra mun vera að nota efnið til innréttingar á vinnuskála, sem þeir nota.
Engin bygging mun koma í stað gamla hússins, sem þarna verður rifið, því að vegagerð ríkisins mun fá hússtæðið til sinna þarfa. Ætlunin er að gera breytingu á lagningu þjóðvegarins austur yfir fjall, þar sem hann kemur niður brekkuna við Lögberg, svo að vegarstæðið flytzt til og fer yfir þann stað, þar sem húsið stendur nú.”

Í Morgunblaðinu árið 1966 fjallar Guðmundur Marteinsson í Velvakanda um “Aðeins eitt Lögberg”:

Lögberg

Lögberg – athöfn.

“Í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins (25. 8.) er sagt frá nýbyggingu Suðurlandsvegar vestan Svínahrauns, og er skýrt frá því, að nýr vegur verði lagður frá vegarendanum við hraunið og niður að Lögbergi, og einnig að nýi og gamli vegurinn eigi að koma saman við Lögberg.
Það var fyrir rúmlega hálfri öld, að norðan við veginn, gegnt býlinu Lækjarbotnum, var reist hús, sem var gefið heitið Lögberg, rétt um svipað leyti og Lækjarbotnar fóru í eyði. Þetta hús var rifið fyrir nokkrum árum, og er því ekkert sem heitir Lögberg á þessum stað lengur.
Ráðamenn Strætisvagna Reykjavíkur breyttu fyrir nokkrum árum heitinu á strætisvagninum, sem fer þangað upp eftir, úr Lögberg í Lækjarbotnar, og þótti mörgum það smekkvíslega gert. Það var raunar gert áður en húsið Lögberg var rifið.
Ég sendi þér þessar línur, Velvakandi góður, og bið þig að koma þeim á framfæri. sem ábendingu til blaðamanna og amnarra um að afmá nafnið Lögberg á þessum stað. Það á aðeins heima á einum stað — á Þingvöllum.” – 27. 8. 1966; Guðmundur Marteinsson.

„Kirsten Henriksen einn gefanda er fædd 1920 og lést 2009.“ (VHP 2018)

Í Skátablaðinu árið 1985 segir Reynir Már Ragnarsson frá “Væringjaskálanum í Lækjarbotnum“, sem þá hafði verið fluttur á Árbæjarsafnið.

Lögberg

Lögberg – hestamenn á leið austur. Væringjaskálinn í bakgrunni.

“Einn er sá staður í nágrenni Reykjavíkur sem margir skátar eiga eflaust góðar minningar frá en það eru Lækjarbotnar. Þar hefur verið skátaskáli síðan 1920 og eru þeir því orðnir nokkuð margir skátarnir sem hafa verið þar í útilegu. Minningar tengjast oft skálanum, því andrúmslofti sem þar er og stemmingunni sem þar myndast. Oftar en ekki halda menn tryggð við skálann sem minningarnar eru tengdar við.

Væringjaskálinn

Væringjaskálinn á Lögbergi.

Líflaus og tómur með hlera fyrir gluggum í sumar fór ég að skoða Árbæjarsafn og tók þá eftir litlu húsi sem
stendur skammt frá safnhúsunum. þetta einmana hús reyndist vera gamli Lækjarbotnaskálinn – Væringjaskálinn. Hann má nú muna sinn fífil fegri. Söngurinn er þagnaður og leikir og ærsl eru víðs fjarri. Mætti hann tala hefði hann frá mörgu að segja. En nú er hann einn og yfirgefinn, hurðin læst og hlerar fyrir gluggum. Ég gisti þennan skála aldrei sjálfur en fyrir hönd þeirra sem það hafa gert og reyndar fyrir hönd skátahreyfingarinnar skammaðist ég mín. Af hverju er hann ekki opnaður og komið einhverju lífi í hann?

Væntanlegt útileguminjasafn eða tómur áfram?

Væringjaskálinn

Væringjaskálinn á Árbæjarsafni – mynd: Saga Væringjaskálans – Sumarið 1919 fór stjórn Vœringjafélagsins að leita að stað undirfyrirhugaðan skála. Eftir nokkra leit komst stjórnin að þeirri niðurstöðu að Lækjarbotnar vœru heppilegasti staðurinn. Þar hafði áður verið býli, sem var áningarstaður ferðamanna sem voru á leið austurfyrirfjall. Bygging skálans hófst snemma sumars 1920 og 5. september sama ár var hann vígður þótt byggingunni væri ekki að fullu lokið. Fáni var þá í fyrsta sinn dreginn að hún á stönginni við skálann.
Í byrjun voru hliðarveggir skálans hlaðnir úr grjóti og torfi, en það þótti slæmt til lengdar og voru því hlöðnu veggirnir rifnir burt. Sumarið 1929 var byrjað að girða lóðina kringum skálann og gróðursett voru tré og aðrar jurtir. Þessu verki var lokið 1931. Skálinn kostaði alls uppkominn nær 7000 krónum.

Ég hafði samband við Ragnheiði Þórarinsdóttur, borgarminjavörð og sagði hún að skálanum væri haldið við og áætlað væri að flytja hann nær safnhúsunum. Mikill áhugi væri fyrir að opna hann almenningi, en áður þyrfti að safna hlutum sem tengdust útilegustarfi fyrri ára og koma þeim fyrir í skálanum. Hún taldi best að skátarnir hefðu frumkvæði að þeirri söfnun. Árbæjarsafn væri tilbúið að varðveita hlutina og lagfæra ef með þyrfti.”

Heimildir:
-Ísafold 19. desember  1908, bls. 315
-Sunnudagsblað Alþýðublaðsins 20. október 1963, bls. 74-75 og  86-87.
-Vísir, 278. tbl. 10.12.1962, Lögberg selt til niðurrifs, bls. 7.
-Morgunblaðið, 199. tbl. 02.09.1966, Aðeins eitt Lögberg – Guðmundur Marteinsson, bls. 4.
-Skátablaðið, 1. tbl. 01.02.1985, Væringjaskálinn í Lækjarbotnum – Reynir Már Ragnarsson, bls. 34-35.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Víkingaskip

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 fjallar Árni Óla um “Skilnað Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps” í sögulegu samhengi. Spurning Árna er hvers vegna, þrátt fyrir allar tilfæringarnar á landamerkjum, geti landnámið Vík ekki verið í dag eitt og hið sama.

Árni Óla

Árni Óla.

“Upphaflega var Reykjavík stærsta jörð, sem nokkru sinni hefir verið á Íslandi. Land hennar náði yfir Kjósarsýslu, Gullbringusýslu og fjóra hreppa Árnessýslu, Wngvallasveit, Grafning, Ölfus og Selvogshrepp. En brátt saxast á land þetta, þyí að Ingólfur var óspar á að miðla öðrum af landnámi sínu. Eru táldir 18 landnámsmenn, er hann fekk lönd, og er þá svo komið að land Reykjavíkur nær ekki yfir meira en Seltjarnarneshrepp og vestasta hluta Mosfellssveitar. Og enn skerðist þetta land, því að sjálfstæðar jarðir rísa þar upp snemma, svo sem Nes við Seltjörn og Laugarnes. Örlyndi Ingólfs, sem kemur fram í því hvernig hann brytjar niður landnám sitt, verður trauðlega skýrt á annan veg en þann, að hann hafi ætlað sjer og afkomendum sínum að vera höfðingjar í þessu landi. En höfðingi gat enginn orðið nema sá, er hafði mannaforráð. Og að þeir feðgar hafi haft mannaforráð um alt landnámið, sjest á því er Þorsteinn Ingólfsson stofnar Kjalarnesþing.
Landnám Ingólfs
Reykjavík var enn góð jörð, þrátt fyrir alt, og höfuðból hefir hún verið fyrstu aldirnar. Hafa þar um ráðið hin miklu hlunnindi hennar, svo sem selalátur í Örfirisey, trjáreki, æðarvarp í eyjunum, laxveiði í Elliðaánum. Þá hafa og verið hjer ágæt fiskimið og fiskur oft gengið inn í Sundin. Þess vegna hefir jörðin getað framfleytt fjölda fólks og þess vegna rísa stöðugt upp nýar jarðir í landi hennar, þangað til svo er komið, að þetta höfuðból er orðið að kotjörð, hlunnindin hafa lent hjá öðrum eða farið forgörðum, og avo verður Danakonungur eigandi jarðarinnar. Niðurlægingarsagan er löng og ömurleg. Og þegar konungur gefur svo verksmiðjunum heimajörðina, þá er það ekki annað en kvosin, þar sem Miðbærinn stendur nú. Reykjavík var þá jörð í Seltjarnarneshreppi. En árið 1803 er hún gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi og fær sjerstakan bæjarfógeta. Lögsagnarumdæmið var miklu stærra en verslunarlóðin, því að innan þess voru Þingholt, Stöðlakot, Skálholtskot, Melshús, Melkot, Götuhús og Grjótaþorpið, og brátt bættist Landakot við.

Landnám Ingólfs

Landnám Ingólfs.

Þrátt fyrir þetta helst enn sambandið við Seltjarnarnes að nokkru leyti, því að fátækramálin voru sameiginleg og voru til þess alveg sjerstakar ástæður. Þegar eftir að verksmiðjurnar voru reistar hjer, og þó einkum eftir að verslunin var gefin frjáls og Reykjavík fekk kaupstaðar rjett indi, fór fólk að flykkjast þangað í atvinnuleit og margir settust þar að og komu sjer upp tómthúsbýlum, eða hinum svonefndu kotum. Margt af þessu fólki var blásnautt og upp á aðra komið hvenær sem versnaði í ári. Jukust því sveitarþrengsli óðum af þessum sökum.

Sölvhóll

Sölvhóll á Arnarhóli. Teikning eftir Árna Elfar.

Kotin voru ekki öll innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, því að mörg höfðu verið reist í löndum Hlíðarhúss, Sels og Arnarhóls, en þær jarðir voru í Seltjarnarneshreppi. Þeir, sem í þessum kotum bjuggu, höfðu aðalatvinnu sína hjá kaupfnönnum bæjarins, og það var sú atvinnuvon, sem hafði dregið þá hingað. En þegar nú þessir menn gátu ekki sjeð fyrir sjer og sínum og urðu bónbjargarmenn, þótti það ekki sanngjarnt, að Seltjarnarneshreppur kostaði framfærslu þeirra. Myndi það hafa orðið honum ofraun fjárhagslega, ef hann hefði orðið að setja þessu bjargþrota fólki farborða. Þótti því sanngjarnt að Reykjavík tæki þátt í framfærslu þess, þar sem hún naut vinnukrafta þess. Þessi var megin ástæðan til þess að bær og hreppur höfðu sameiginlegt fátækraframfæri um langt skeið.
Seltjarnarnes
Það er dálítið einkennilegt, að vaxandi bygð varð upphaflega til þess að þröngva svo kosti Reykjavíkur, að höfuðbólið varð að kotjörð. Og nú þegar Reykjavík er orðin sjerstakt lögsagnarumdæmi, þá er það vaxandi bygð, sem þröngvar enn kosti hennar. Óáran og fiskleysi hjálpaði þar einnig til. Og árið 1806, eða þremur árum eftir að bærinn var gerður að sjerstöku lögsagnarumdæmi, er ástandinu hjer lýst á þennan hátt: „Fjöldi tómthúsmanna er hjer allrar bjargar laus, jafnvel bændur og það ekki einn, heldur allur fjöldi, sem við vissum að fyrir fáum árum voru velmegandi og áttu drjúga peninga fyrirliggjandi, eru nú ekki alleina fjelausir, heldur komnir í stórskuldir. Verslun öll hin versta. Kaupmenn neita um lán og halda vörum sínum dýrum, sjer í lagi móti peningum, sem þeir nú hafa sett niður um 10—20% móti sveitar og sjávarvörum“. Þá voru innan lögsagnarumdæmisins 446 íbúar, þar af ekki nema 134 vinnufærir menn. Þótti forráðamönnum nú þunglega horfa og var gripið til þess ráðs, sem enn þykir hið mesta þjóðráð á ýmsum stöðum, að reyna að hefta aðflutning fólks, og þá einnig að koma þurfamönnum af höndum sjer.

Finnur magnússon

Finnur Magnússon.

Finnur Magnússon var þennan vetur settur bæjarfógeti í stað Frydensberg, sem var ytra. Hann gaf út auglýsingu í mars og var hún kynt almenningi með því að lesa hana í prjedikunarstóli kirljunnar. Þar er öllu útánveitarfólki í kaupstöðum og tilheyrandi kotum“ skipað að hafa sig á burt fyrir fardaga, ef það geti ekki sannað að það sje sjálfbjarga. Ennfremur er öllum húsráðendum í kaupstaðnum og kotunum stranglega bannað að hýsa utansveitarfólk, nema með samþykki bæjarfógeta. Afleiðingin af þessu varð sú, að á næstu tveimur árum fækkaði fólki hjer um 90 manns, eða rúmlega 20 af hundraði. En þrátt fyrir það jukust sveitarþyngsli meira en um helming.

Um þessar mundir var það að Gunnlaugur Briem sýslumaður kom frarn með þá uppástungu að leggja Seltjarnarneshrepp undir Reykjavík. Vildi hann að embættismenn fengi jarðirnar á Seltjarnarnesi til afnota, svo að þeir gæli haft þar búskap og framleitt landbúnaðarafurðir. Jafnframt yrði þá lokið allri óánægju út af fátækramálunum. En þeir Frydensberg bæarfógeti og Trampe stiptamtmaður snerust báðir öndverðir gegn þessari tillögu.

Gunnlaugur Briem

Gunnlaugur Briem.

Trampe var algjörlega mótfallinn því að embættismenn fengi bújarðir, en Frydensberg óttaðist að sveitarþyngsli mundu mjög aukast. Er líklegt að hann hafi þá borið fyrir brjósti hag hinna dönsku kaupmanna, því að þeir voru altaf að rífast út af því að þurfalingar settust hjer að. Er álit Frydensberg mjög í samræmi við álit kaupmannanna, að til Reykjavíkur og Seltjarnarness flykkist allskonar hrakmenni (Uuskud) þegar vel fiskast, hlaði þar niður börnum, og þar sem fæðingarhreppur hafi framfærslu skyldu, þá sitji hreppurinn og bærinn uppi með það alt þegar harðnaði í ári. Tveimur árum seinna hófst ófriðurinn milli Dana og Englendinga og var þá alt á hverfandi hveli hjer og menn höfðu um annað að hugsa en þessa smámuni, sem samband Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps um framfærslu þurfamanna. Dýrtíð og vöruskortur svarf meir og meir að fólkinu og eru þar um hörmulegar sögur.
Árið 1813 segir bæjarfógeti svo í skýrslu til stjórnarinnar, að þá gangi neyðin nær mönnum heldur en hann viti til af eigin reynd og nú stórsjái á 2/3 af íbúunum í Reykjavík. Castenskjöld var þá orðinn stiftamtmaður, og hóf hann nú máls á því, að rjett væri að slíta sambandi Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps. En bæjarfógeti var því andvígur og kvað það ekki geta komið til mála, því að aldrei hefði ástandið verið alvarlegra en nú. Og við það sat í það skifti.

Arnarhóll

Arnarhóll.

Leið nú og beið fram til ársins 1834. Á því ári öndverðu voru gefnar út reglur um fátækramálefni. Segir þar að hver hreppur skuli vera sjerstök framfærslusveit, með þeirri undantekningu að Reykjavík skuli vera í sambandi við Seltjarnarnesshrepp um fátækramál. Segir þó, að ef ráðlegt teljist að þessu sje breytt þá skuli amtmaður senda álit og tillögur um það til Kansellí.
Árið eftir gerist svo það, að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur er stækkað að mun. Er þá bætt við það Hlíðarhúsum, Ánanaustum, Seli, Örfirisey, Arnarhóli og Rauðará, ásamt öllum kotum í landi þeirra. Urðu þá takmörk lögsagnarumdæmisins þessi: Að vestan lönd Eiðis og Lambastaða, að sunnan Skildinganesland, að austan Laugarnessland. Með þessari breytingu fékk Reykjavík í sinn hlut flesta þá tómthúsmenn, er hjer höfðu sest að.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Reykjavík var nú orðin svo stór, að full ástæða þótti til að hún fengi reglugerð um bæjarmálefni sín. Því var það á öndverðu ári 1839 að amtmaðurinn í Suðuramtinu skrifaði Kansellíbrjef um þetta og sendi með frumvarp að slíkri tilskipun. Var hún alveg sniðin eftir tilskipun um bæjarmálefni í Danmörk, nema hvað gert var ráð fyrir því að enn heldist samband kaupstaðarins og hreppsins um fátækramálefni. Kansellí sendi frumvarpið til embættismannanefndarinnar, sem settist á rökstóla þá um sumarið, og bað um álit hennar. Nefndin varð sammála um að gera þá höfuðbreytingu á frumvarpinu, að sambandi Reykjavíkur og Seltjarnarness skyldi slitið og fjárskifti fara fram að bestu manna yfirsýn. Nefndin rökstyður þetta á þann hátt, að ástæðan fyrir fjelagi bæar og hrepps um fátækramál hafi fallið niður um leið og lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað. Áður hefði það ekki verið nema sanngjarnt að Reykjavík tæki þátt í fátækraframfærslu tómthúsmanna, sem bjuggu utan lögsagnarumdæmisins en stunduðu vinnu í bænum.

Landnámið

Landnám Ingólfs – sveitarfélög.

Áður en tillögur embættismannanefndar væri sendar Kansellí, leitaði stiftamtmaður álits bæjarstjórnar Reykjavíkur og hreppstjórans í Seltjarnarnesshreppi. Álit bæjarstjórnar fór í þveröfuga átt við skoðanir embættismannanefndarinnar. Segir svo í því: „Áður en lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað var fult af þurfamönnum á næstu bæjum, Hlíðarhúsum, Ánanaustum, Sauðagerði, Seli, Rauðará o.s.frv. Voru þeir aðallega hjer úr sýslunni, en þó víðs vegar að af landinu. Það gerði ekki svo mikið til á meðan fátækraframfærslan var sameiginleg, þótt lögsagnarumdæmi Reykjavíkur væri stækkað, en hefði menn þá grunað að aðskilnaður fátækramálefnahreppsins og bæjarins væri aðsigi, hlutu menn að sjá að stækkun lögsagnarumdæmisins yrði til tjóns fyrir bæinn og mjög þungbær, því að á þessu svæði býr fjöldi þurfamanna úr sýslunni.
Reykjavík
Það hefði því verið happadrýgst fyrir Reykvíkinga, að lögsagnarumdæmið hefði ekki verið stækkað, því að þótt hreppurinn tæki nú við öllum þeim þurfamönnum, sem þar eru, þá er hætt við að fátæktin verði þar svo arfgeng, að fjöldinn allur af þeim tómthúsmönnum, sem eftir verða, muni þurfa á mikilli fátækrahjálp að halda, einkum ef harðnar í ári. Vjer teljum því, að skilnaður bæjar og hrepps muni verða bænum mjög þungbær þegar fram í sækir, nema því aðeins að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur verði aftur minkað, og látið vera eins og það var fyrir breytnguna 1835“, Hjer kemur allgreinilega fram sú einangrunarstefna, sem þá ríkti hjer í bænum, og átti eflaust upptök sín hjá hinum dönsku kaupmönnum, sem sáu eftir hverjum eyri til almenningsþarfa, þótt þeir lifðu sjálfir í sukki og sællífi. Bænum var orðin hin mesta nauðsyn á því að færa út kvíarnar en samt vildi bæarstjórn nú vinna það til fyrir meðlag nokkurra þurfamanna að marka bænum sinn upphaflega bás á landi jarðarinnar Víkur. Þetta var þó aðeins fljótfærni hjá bæjarfulltrúunum, eins og þeir sáu síðar.

Arnarhóll

Arnarhóll og nágrannajarðir 1703.

Vegna þessarar afstöðu bæjarfulltrúanna þótti Kansellí viðsjárvert að fara fram á skilnað bæjar og hrepps. Sendi það því frumvarpið aftur til embættismannanefndarinnar og bað hana að taka það til athugunar að nýju. Jafnframt ljét Kansellí þess getið að það teldi að Seltjarnarneshreppur mundi bíða tjón af skilnaðinum, er Reykjavík græða á honum. Hœtta væri og ef til vildi á því, að Reykjavík reyndi að stjaka mönnum frá sjer og fá þá til að setjast að í Hreppnum, og geta þannig haft hagnaðinn af vinnu þeirra, en varpað framfærsluþunganum yfir á hreppinn.
Áður en stiftamtmaður lagði frumvarpið að nýju fyrir embættismannanefndina (1841), leitaði hann álits bæjarfulltrúa og fátækrastjórnar bæjar og hrepps. Og nú brá svo undarlega við, að þeir æsktu allir eftir skilnaði. Hafði fátækrastjórnin athugað útgjöld bæar og hrepps til þurfamanna seinustu 12 árin, og á þeim tíma höfðu Reykvíkingar greitt 5181 rdl., en hreppurinn 2220 rdl. Eftir því gæti skifting farið fram eftir hlutfallinu 26:11 og væri sú tala líka rjétt, ef tekið væri tillit um mannfjölda í hrepp og bæ.

Seltjarnarnes

Mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur árið 1700. Eiði og Örfirisey.

Með þessu var hnúturinn leystur að kalla, áður en málið kæmi til embættismannanefndarinnar. Ræddi hún því aðallega um hvernig skilnaðinn skyldi framkvæma að öðru leyti. Taldi hún víst að í fyrstu myndi rísa upp ýmis vafamál, en á hitt bæri fremur að líta, að eftir skilnaðinn yrði stjórn fátækramálanna einfaldari og óbrotnari og „stjórnendur fátækramálefnanna fengi meira ráðrúm og næði og meiri festu í störf sín en ella.“

Mosfellssveit

Mosfellssveit og Mosfellsheiði – mörk (rauð) 2022.

Eitt af vandamálum skilnaðarins var það, hvar ætti að lenda þeir þurfamenn, sem dvalist höfðu sitt á hvað í hreppnum og bænum. „Nefndin áleit að leysa mætti þetta þannig, að bæinn og hreppinn væri í tilliti til annara hreppa að álíta hin fyrstu árin eftir skiftin sem eitt, en að því leyti vafi væri á hvort hreppur eða bær ætti að annast einhvern þurfaling, þá skyldi þessi vera þar sveitlægur er hárin hefði dvalist hinn mesta hluta af 5 árum, ellegar þó heldur sjerhver þurfamaður verða sveitlægur þar sem hann væri, þó hann eftir skilnaðinn þyrfti á styrk að halda, þegar hann fyrir og eftir skilnaðinn hefði dvalist til samans í bænum og hreppnum um 5 ára tíma“. Lagði nefndin svo til að sjerstakri nefnd yrði falið að sjá um skilnaðinn og skiftin og ætti í henni að vera þáverandi fátækrastjórn og nokkrir dánumenn, sem amtmaður tilnefndi.

Reykjavík

FYRIR nær réttum 160 árum, í október, var kveðinn upp úrskurður sem leiddi af sér að torfbæir hurfu úr miðbæ Reykjavíkur. Það var Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti sem kvað upp þennan dóm í framhaldi af því að Jóhannes Zoëga ætlaði að laga hesthúskofa og torfbæ sinn. Faðir þessa Jóhannesar var Jóhannes Zoëga eldri sem að sögn Árna Óla í bókinni, Reykjavík fyrri tíma, var ættaður frá Slésvík. Frá honum og konu hans, Ástríði Jónsdóttur, er Zoëgaættin komin. Hinn 29. maí 1839 hafði Friðrik VI gefið út opið bréf um stofnun byggingarnefndar í Reykjavík, sem ekki var vanþörf á, því áður höfðu menn getað byggt þar sem þeim sýndist. Það var í verkahring byggingarnefndar að sjá um skipulag bæjarins, ákveða hvar götur og torg skyldu vera og úthluta lóðum undir byggingar. Í Suggersbæ Jóhannesar Zoëga, 90 ára torfbæ, var þakið tekið að leka og vildi eigandinn gera við það en hóf framkvæmdir án þess að bíða álits byggingarnefndar. Byggingarnefnd skaut málinu til yfirvalda sem kváðu upp fyrrnefndan úrskurð. Út af þessu máli var svo bannað að byggja torfkofa í miðbænum í Reykjavík og jafnframt ákveðið að uppistandandi torfbæir skyldu rifnir þegar þeir þörfnuðust viðgerðar.

Það er sennilega Stefáni Gunnlaugssyni mest að þakka að svo hljóðalítið náðist samkomulag um þetta mál. Hann var einn í þeirri nefnd er embættismannanefndin fól að athuga málið, og hann var einnig bæjarfógeti hjer og formaður bæjarstjórnar. Hann hafði frá öndverðu talið að báðir aðilar hefði hag af skilnaðinum og gat beitt áhrifum sínum í embættismannanefndinni og bæði gagnvart bæarfulltrúum og fátækrastjórn. Hitt hefir hann ekki látið sig neinu skifta hvað kaupmannaklíkan í bænum vildi.
Málið var nú aftur sent Kansellí. Það ráðgaðist við Rentukammer um það, og var Rentukammer því fylgjandi að skilnaður færi fram. En málið var þó saltað um sinn, vegna þess að nú stóð til að endurreisa Alþingi og mun Kansellí hafa þótt rjett að málið kæmi til þess kasts.
Alþingi kom svo saman sumarið 1845. Stjórnin lagði þá fyrir það frumvarp til reglugerðar um stjórn bæarmálefna í Reykjavík, og segir svo í 1. gr. þess: Kaupstaðurinn Reykjavík skal framvegis eins og áður eiga þing sjer með takmörkum þeim, sem þinghánni eru sett í konungsúrskurði 24. febr. 1835. Skal þó sambandi því, sem er á milli fátækrastjórnar kaupstaðarins og Seltjarnarnesshrepps slitið. Skal skilnaður þeirra hefjast um byrjun hins fyrsta reikningsárs eftir að þessi tilskipun vor er flutt til Reykjavíkur. Upp frá þessum tíma skal fátækramálefnum í Seltjarnarneshreppi stýrt á sama hatt, sem í öðrum hreppum, en í Reykjavík skal stjórn á fátækramálefnum löguð samkvæmt reglum þeim, sem settar eru í reglugerð um fátækrastjórnir hvorutveggja, þó skulu í nefnd þeirri, er stjórn hefir á hendi, einungis sitja dómkirkjuprestur, bæjarstjóri og 2 fátækrastjórar. — Fje því, er fátækrahrepparnir eiga saman, svo og álögum, skal skift eftir hlutfalli 26:11. — Þessi skifti skulu gerð af nefnd þeirri, er hefir haft sameiginlega fátækrastjórn í báðum hreppum, ásamt 5 dánumönnum, 2 úr Reykjavík og 3 úr Seltjarnarneshreppi og skal amtmaður kjósa þá.

Arni Helgason

Árni Helgason.

Þingið kaus þegar í upphafi nefnd 5 kunnugra manna til þess að athuga málið og voru í henni Þorgr. Thomsen skólaráðsmaður, Árni Helgason stiftprófastur, Helgi G. Thordersen prófastur, J. Johnsen assesor og Jón Sigurðsson stúdent. Var og farið fram á það að Jón Guðmundsson veitti nefndinni aðstoð sem sá maður er best vit hefði á þessu. Helstu breytingar sem nefndin gerði voru þær, að fátækrafulltrúar í Reykjavík, yrði þrír, og að amtmaður tilnefndi ekki menn í skilanefndina heldur yrði þeir kosnir af bæjarstjórn og hreppsbúum, „þar eð vjer getum ekki treyst amtmanni eins vel og hverjum þessara fyrir sig til að kjósa þá, sem best sje kjörnir til þessa starfa“. Konungsfulltrúi lagðist fast á móti því, að Seltirningar fengi sjálfir að kjósa fulltrúa sína, en því var ekki skeytt og frv. samþykt með þessum breytingum. Konungur staðfesti síðan frv. eins og Alþingi gekk frá því (27. nóv. 1846).

Helgi G. Thodrarensen

Helgi G. Thodrarensen.

Þá lá næst fyrir að kjósa skilanefndina. Reykvíkingar kusu þá Jón Markússon kaupmann og Sveinbjörn Jakobsen kaupmann, en Seltirningar kusu Helga G. Thordersen, Þórð Sveinbjörnsson háyfirdómara og Pjetur bónda Guðmundsson í Engey. Sjálfkjörnir í nefndina voru bæarfógeti, bæjargjaldkeri, Moritz Biering kaupmaður, Ásgeir Finnbogason í Bráðræði og Sigurður Ingjaldsson í Hrólfsskála, en þeir höfðu fram að þessu stjórnað sameiginlegum fátækramálum.
Nefndin hélt fyrsta fund sinn á Jónsmessu 1847 og varð þegar nokkurn veginn ásátt um það hvernig skiftum skyldi haga. Þá voru hjer 33 ómagar, en auk þess fengu 12 heimilisfeður nokkurn styrk. Alls var fátækraframfærið 106% tunna af rúgi, og tók Seltjarnarneshreppur að sjer ákveðna ómaga og heimilisfeður, sem fengið höfðu 32 tunnur af rúgi, en Reykjavík sat með hina. Um haustið (5. nóv.) fóru svo fullnaðarskifti fram. Sameiginlegar eignir voru taldar 2650 rdl. 12 sk. Urðu menn vel ásáttir um skiftin og komu 1862 rdl. 24 sk. í hlut Reykjavíkur, en 787 rdl. 84 sk. í hlut hreppsins. Var samningur þessi staðfestur af stjórninni og þar með var fullkomnaður skilnaður Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – herforningjaráðskort frá 1908.

En svo hafa örlög þeirra verið nátengd, að skiftingin hlaut að leiða til margskonar árekstra. Seltjarnarnesshreppur varð mesta uppgangssveit, en Reykjavík óx henni þó yfir höfuð og varð æ voldugri og ágengari nágranni, vegna þess að henni var lífsnauðsyn á útþenslu. Hefir þetta aðallega bitnað á Seltjarnarnesshreppi og er nú svo komið að manni verður á að spyrja hvort ekki hefði verið happadrýgst fyrir báða aðila að tillaga Gunnlaugs sýslumanns Briem um sameiningu kaupstaðar og hrepps hefði náð fram að ganga fyrir tæpum 150 árum. Eftir öllum sólarmerkjum hlýtur þessi sameining að fara fram. Viðburðarásin stefnir öll að því og skal hjer drepið á hið helsta.

Reykjavík

Reykjavík – lögbýli 1703.

Þegar hið forna Kjalarnesþing skiftist í tvær sýslur fengu þær ný nöfn og var önnur nefnd Gullbringusýsla en hin Kjósarsýsla. Sýslumörkin voru Elliðaár, Hólmsá upp í Vötn og þaðan í Lyklafell að sýslumörkum Árnessýslu. Halda margir enn í dag að þessi sje sýslumörkin og þar mætist þrjár sýslur. En svo er ekki. Sýslumörkin færðust vestur í Bláfjöll, vegna þess að Seltjarnarneshreppi var svo að segja rænt frá Gullbringusýslu og honum skeytt við Kjósarsýslu. En um það er þessi saga.
Sýslurnar höfðu um nokkurt skeið verið sameinaðar og var sýslunefnd þannig skipuð að í henni voru 3 fulltrúar frá Kjósarsýslu en 9 frá Gullbringusýslu. Urðu stundum ýmsar greinir í með fulltrúunum vegna þess hvað atvinnuhættir voru ólíkir í sýslunum. Í Kjósarsýslu stunduðu allir landbúnað, en í Gullbringusýslu var mest treyst á sjóinn. Og er nú kom að því að útlend skip spiltu svo veiðum í Faxaflóa að afli brást á opna báta og bágindi urðu meðal Suðurnesjamanna, þá tóku Kjósarmenn að ókyrrast. Út af því var það, að sjera Þórarinn Böðvarsson bar fram á Alþingi 1877, að þeirra ósk, frumvarp um skilnað sýslanna.

Mosfellsbær

Mosfellsbær.

Það féll í Neðri deild með jöfnum atkvæðum og varð því það að fótakefli að málið hafði ekki verið borið undir sýslunefnd. Tveimur árum seinna kom frv. aftur fram á Alþingi, en dagaði uppi. Þá var farið með málið til sýslunefndar og felst hún á það 1880 að skilnaðurinn færi fram og skyldi hin gömlu sýslumörk haldast. Enn kom málið fyrir Alþingi 1881 og var fyrst tekið til meðferðar í neðri deild. Þingmenn litu svo á að Kjósarsýsla yrði alt of lítil, aðeins 3 hreppar og bættu því inn í frumvarpið að Seltjarnarshreppur skyldi leggjast við Kjósarsýslu. Þegar til efri deildar kom var frumvarpið felt vegna þessarar breytingar og sýslunefnd tjáði sig einnig mótfallna því að hinum gömlu sýslumörkum væri raskað.

Kópavogur

Kópavogur – umdæmismörk 2020.

Nú lá málið niðri þangað til árið 1903. Þá bar Björn Kristjánsson fram frv. á Alþingi um skilnað sýslanna og skyldu ráða hin gömlu sýslumörk. En þá reis landshöfðingi og sagði að það væri fásinna að gera 3 hreppa að sýslu. Kvaðst hann mundu verða á móti frv. ef Seltjarnarnesshreppi væri ekki bætt við Kjósarsýslu. Var svo farið að vilja hans og málið afgreitt sem lög. Sýslunefnd var nú alls ekki spurð hvort henni þætti betur eða ver, og enginn mælti gegn frv. nema Skúli Thoroddsen. Vildi hann að hreppsbúar á Seltjarnarnesi væri að því spurðir hvort þeir vildu heldur vera í Kjósarsýslu eða Gullbringusýslu, en því var ekki sint.

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

Þannig skeði það rjettum 100 árum eftir að Reykjavík var gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi, að Seltjarnarnes, sem altaf hafði verið í Gullbringusýslu, var lagt undir Kjósarsýslu án þess að sýslunefnd og hreppsbúar fengi þar neitt um að segja.

Seltjarnarnes

Nes og Neskirkja fyrrum.

Upphaflega voru þrjár kirkjusóknir í Seltjarnarnessókn, Nessókn, Víkursókn og Laugarnessókn. Víkurkirkjan var aðalkirkja, hitt voru annexíur. Árið 1794, þegar byrjað var á dómkirkjusmíð í Reykjavík, var birt konungleg tilskipun um að leggja niður Laugarnesskirkju, vegna þess að hún væri komin að hruni, og bæta sókninni við Víkursókn. Þremurr árum seinna kemur svo annar Konunglegur úrskurður um það að Neskirkja skuli lögð niður og sókninni bætt við Víkursókn. Segir Jón biskup Helgason að Seltirningar hafi tekið þessu dauflega, en ekki fengið við ráðið, Neskirkja hafði þá verið endurbygð fyrir skömmu og var hið stæðilegasta hús. En í ofviðrinu mikla hinn 9. janúar 1799 (þegar sjávarflóð sópaði burt Básendakauptúni) fauk Neskirkja.
Upp frá því var Dómkirkjan eina guðshúsið á Seltjarnarnesi og þangað áttu allir hreppsbúar kirkjusókn upp frá því, svo að í kirkjumálum hefir samband hrepps og kaupstaðar haldist síðan.

Reykjavík

Reykjavík – Laugarnes 1836.

Næst er svo að segja frá útþenslu Reykjavíkur.
1894 voru sett lög um það, að jarðirnar Laugarnes og Kleppur skyldu lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur frá fardögum. Höfðu Seltirningar þó barist með hnúum og hnefum gegn því.
1923 voru sett lög um það, að jarðirnar Breiðholt, Bústaðir og Eiði skyldu lagðar undir lögsagnarumdæmi og bæarfjelag Reykjavíkur, og jafnframt heimilaðist Seltjarnarneshreppi vatn og rafmagn frá Reykjavík, gegn því að greiða kostnað við að koma því þangað. „Frá sama tíma var og rafmangsstöðin við Elliðaár ásamt íbúðarhúsi og lóð, svo og Elliðaárnar með árhólmanum, árfarvegunum og landi á austurbökkum ánna er þarf til byggingar þeirra mannvirkja, er þurfa þykir framvegis til hagnýtingar vatnsorkunnar að fullu og vegna laxveiðinnar og starfrækslu hennar, úr landi jarðanna Ártúns og Árbæjar í Mosfellssveit, lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur“.

Seltjarnarnes

Nesstofa – Esja í bakgrunni.

Eftir þessa breytingu var Seltjarnarnesshreppur orðinn einhver einkennilegasti hreppur á landinu, vegna þess hvað hann var í mörgum molum. Fyrst var nú Framnesið sjálft, svo var Skildinganes umlukt Reykjavíkurlandi, svo voru bæirnir Digranes, Kópavogur og Fífuhvammur á einni skákinni, á fjórðu skákinni voru bæirnir Vatnsendi, Elliðavatn, Hólmur og Lækjarbotnar, og svo voru eyjarnar hjer úti fyrir.
1929 voru svo jarðirnar Ártún og Árbær að fullu innlimaðar lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

1931 voru enn sett lög um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Þá voru undir hana lagðar jarðirnar Þormóðsstaðir og Skildinganes „ásamt öllum lóðum og löndum, sem seldar hafa verið frá þeim, svo og verslunarstaðurinn Skildinganes við Skerjafjörð“. Var svo ákveðið að fyrir árslok 1932 skyldu fara fram endanleg fjárskifti milli Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps, þar á meðal væntanleg skaðabótagreiðsla til hreppsins og Kjósarsýslu vegna laga þessara, og Reykjavík var gert að skyldu að kaupa vatnsveitu Skildinganesskauptúns.

Vatnsendi

Vatnsendi.

1942 voru sett lög um að Reykjavík mætti taka eignarnámi spildu af landi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarnesshreppi til þess að auka við fyrirhugað friðland Reykvíkinga á Heiðmörk.
1943 fer svo fram mesta stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Þá eru undir hana lagðar jarðirnar Elliðavatn og Hólmur í Seltjarnarnesshreppi, „ásamt lóðum og löndum, er úr þeim hafa verið seldar, svo og spilda sú úr landi Vatnsenda, er Reykjavík kann að taka eignarnámi“. Ennfremur jarðirnar Grafarholt (að svo miklu leyti sem eignarnámsheimild nær til), Gufunes, Keldur, Eiði, Knútskot, Korpúlfsstaðir, Lambhagi, nýbýlið Engi, Reynisvatn og jarðarhlutinn Hólmsheiði í Mosfellssveit ásamt öllum lóðum og löndum, sem seldar hafa verið úr þeim.

Landnám

Landnám Ingólfs – hluti af Íslandskorti 1550.

Skömmu eftir að þetta var, fer Digranesháls að byggjast, alt út á Kársnes. Ríkissjóður á þetta land og úthlutaði því til ræktunar, en ekki var til þess ætlast upphaflega að þar risi bygð, nema hreppsnefnd Seltjarnarness leyfði. Mikil eftirsókn var að löndum þarna og fengu færri en vildu. Sýnir það best hvað Reykvíkingar eru sólgnir í að fá land til ræktunar og komast í samband við gróðurmoldina, því að það voru Reykvíkingar, sem lögðu Digranesháls undir sig. Til þess að geta hagnýtt löndin urðu þeir að byggja þar skýli, og vegna húsnæðiseklunnar í Reykjavík, urðu brátt úr skýlunum íbúðarhús. Þau þutu þarna upp, hvað sem hreppsnefndin sagði, og hún rjeði ekki neitt við það hverjir fluttust inn í hreppinn á þennan hátt. Út af þessu varð svo óánægja, sem leiddi til þess, að nýbýlahverfið sagði sig úr lögum við Seltjarnarnesshrepp. Var þar stofnaður sjerstakur hreppur árið 1947 og heitir Kópavogshreppur, og undir hann lagðar jarðirnar Digranes, Kópavogur, Fífuhvammur, Vatnsendi, Geirland, Gunnarshólmi og Lögberg (Lækjarbotnar). Hreppur þessi er í þremur skákum, nesið sjálft, Vatnsendaland umkringt Reykjavíkurlandi og efst þrjú býli út af fyrir sig. En Seltjarnarnesshreppur er nú ekki orðinn annað en totan fyrir framan Lambastaði og svo eyjarnar.
Þess getur áreiðanlega ekki orðið langt að bíða, að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur verði látið ná yfir alt Seltjarnarnes, og hverfur þá Seltjarnarnesshreppur úr sögunni. En Kópavogshreppur hinn nýi á líka að sameinast Reykjavík. Hann er hvort sem er ekki annað en úthverfi Reykjavíkur og verður að byggja tilveru sína á Reykjavík. Þar eru engin atvinnufyrirtæki, er geti veitt íbúunum atvinnu. Hana verða þeir að sækja til Reykjavíkur. Þeir eru og algjörlega upp á Reykjavík komnir með vatn og rafmagn, og eðlilegast er að Reykjavík sjái þeim fyrir bættum samgöngum.

Íslandskort

Íslandskort (Nova et accurata Islandiæ delineatio) frá árinu 1670, gert af Þórði Þorlákssyni biskupi í Skálholti. Fyrir neðan Íslandskortið er Lofkvæði til Kristjáns konungs V, skrifað í fjóra dálka, á latínu, dönsku og íslensku með venjulegu letri og rúnaletri. Efst á kortinu eru myndir af sjávardýrum og skjaldarmerki Íslands, sem er flattur þorskur borinn af tveimur fuglum, í hægra horni, þar fyrir neðan er titill. Í neðra horni vinstra megin er skjöldur með táknmyndum og tileinkun til Kristjáns V. Danakonungs. 

Rás örlaganna verður ekki stöðvuð. Sá búhnykkur Magnúsar Stephensen landshöfðingja, að taka Seltjarnarnesshrepp af Gullbringusýslu og skeyta honum við Kjósarsýslu, hefir ekki reynst haldbært nje heppilegt fyrirtæki. Lögsagnarumdæmi Reykjavíkur er komið sem fleygur milli sýslanna, alt suður að takmörkum Árnessýslu í Bláfjöllum, en með smáblettum inn á milli, sem enn teljast sjerstakir hreppar. Að því hlýtur að koma, áður en langt um líður, að þessir blettir allir hverfi inn í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Innilokunarstefnan hefti mjög vöxt og viðgang Reykjavíkur fyrrum. Sumum finst nú nóg um frjálsræðið, þar sem svo virðist að hver sem vill geti sest hjer að. En þetta tímanna tákn hefir haft endaskifti á fyrri reynslu. Aðstreymi fólks og vaxandi bygð er áður kom Reykjavík í kútinn, hefir nú reist hana á legg til meiri virðingar en nokkuru sinni áður. Hún hefir þurft og þarf enn aukið alnbogarúm. Og alt bendir til þess, að þess verði ekki langt að bíða, að land hennar nái yfir alt land jarðarinnar Víkur, eins og það var á Ingólfs dögum, eftir að hann hafði skift landnámi sínu milli þeirra manna, er seinna komu.” – Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 4. tbl. 28.01.1951, Skilnaður Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps – Árni Óla, bls. 45-51.
Landnám

Skjaldarmerkið

Á vef Stjórnarráðsins er “Ágrip af byggingarsögu Stjórnarráðshússins” eftir Þorsteinn Gunnarsson:

“Hugmynd um byggingu hegningarhúss á Íslandi mun fyrst hafa komið fram árið 1734, þegar stiftamtmaður bauð amtmanni að reifa málið á alþingi í framhaldi af konungsbréfi um fangavist í stað líflátshegningar áður. Amtmaður taldi það annmörkum háð að koma hér á fót slíkri stofnun, og þegar lögmenn og sýslumenn vísuðu málinu frá vegna kostnaðar, féll það niður um sinn.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Á árunum 1751–58 fóru gripdeildir og þjófnaður mjög í vöxt vegna hallæris í landinu. Málið kom til kasta Magnúsar Gíslasonar amtmanns sem taldi að öruggasta ráðið til þess að losna við vandræði af völdum þjófa væri að reisa í landinu hegningarhús. Og í sama streng tók stiftamtmaður. Nokkrum árum áður hafði Skúli Magnússon landfógeti orðað sömu hugmynd í erindi til stjórnarinnar og lagt til að fangarnir yrðu látnir vinna að spuna og öðrum störfum fyrir innréttingarnar nýju.

Hinn 20. mars 1759 var gefinn út konungsúrskurður um byggingu tugthúss á Íslandi og tilgreindir tveir tekjustofnar til þess að standa undir kostnaði, annars vegar leiga af sakeyri, lögð fram af konungi, og hins vegar skattur af fasteignum, greiddur af eigendum. Þótt sjöttungur skattsins, sem Íslendingar kölluðu tugthústollinn, væri áætlaður af konungseign, var augljóst að landsmenn yrðu sjálfir að greiða ríflega helming byggingarkostnaðar.

Tugthúsið á Arnarhóli

Stjórnarráðshúsið

Tukthúsið 1820.

Þegar hér var komið sögunni, tók Magnús Gíslason að huga að framkvæmdum. Lagði hann til við stjórnina, að sakamönnum yrði gert að vinna að smíð hússins, og að henni lokinni, sem hann áætlaði að taka mundu fjögur ár, yrðu þeim gefnar upp sakir. Þá lagði hann einnig til að höfðu samráði við Skúla fógeta, að húsinu yrði valinn staður á Arnarhóli við Reykjavík. Þarf ekki að efa, að við staðarvalið hefur þeim Skúla gengið það helst til, að þeir sáu, að með því móti myndi auðveldast að nýta vinnu fanganna í þarfir innréttinganna.

Reykjavík

Reykjavík 1787 – Jón Helgason.

Vorið 1761 var hafist handa um undirbúning að byggingu hússins, aflað tækja og varnings og slegið upp skýli fyrir sakamenn, sem hófu þegar að draga að grjót og grafa fyrir veggjum, en umsjón með verkinu hafði Gissur Jónsson, lögréttumaður á Arnarhóli. Teikning að fangahúsinu hefur ekki varðveist, svo vitað sé, en fullvíst má telja, að hún hafi verið gerð af Georg David Anthon hirðhúsameistara. Í mars 1764 tók Anthon saman skrá yfir byggingarvörur til fangahússins og áætlaði kostnað við trésmíða- og snikkaravinnu að upphæð 1827 rd. og 16 sk. fyrir utan flutningskostnað til Íslands. Sigurður Magnússon trésmíðasveinn var ráðinn til að vinna tréverkið og Christopher Berger múrarasveinn, sem vann að múrverki á Bessastöðum, til að standa fyrir múrsmíðinni.

Tukthús

Tugthúsið í Reykjavík var byggt á árunum 1761-1770. Þar var fangelsið til húsa til ársins 1816 er því var lokað vegna hallæris og neyðar í landinu og fangarnir sendir til sveitar. Húsið hefur síðan verið nýtt sem bústaður stiftamtmanns, Landshöfðingjahús, stjórnarráðsskrifstofur, ýmis ráðuneyti hafa haft þar aðsetur auk skrifstofu forseta og nú forsætisráðuneytið.
Margvíslegar breytingar hafa verið gerðar á húsinu í tímans rás en upprunalegar teikningar munu ekki vera varðveittar. Á Þjóðskjalasafni er uppdráttur af húsinu frá 1803.
Um aldamótin 1900 lýsti Benedikt Gröndal hafa húsinu á þennan veg: “Það er langt hús og lágt, úr steini, og alls ekki samboðið tímanum; seinna var settur á það kvistur, og prýkkaði það nokkuð við það, en annars er allt fyrirkomulagið svo lélegt, að ýms prívathús eru miklu betri, og mun lítil ánægja vera að vera skyldaður til að búa í þessu hreysi, sem danskir sjómenn kölluðu “Hytte” hérna um árið…”

Verulegur skriður komst ekki á byggingu fangahússins fyrr en sumarið 1765. Olli miklu um það, að innansleikjan við frágang Bessastaðastofu reyndist drýgri en Magnús áætlaði í fyrstu. En ekki var frágangi hennar fyrr lokið en Berger hóf að reisa fangahúsið ásamt tveimur af þeim Íslendingum, sem höfðu lært hjá honum múrverk á Bessastöðum. Þá réð hann tvo Íslendinga til viðbótar og hugðist kenna þeim steinhöggvaraiðn, en verkamenn hans og handlangarar voru tugthúslimir, eins og áður segir. Allt að einu miðaði verkinu hægar en Magnús gerði ráð fyrir. Þó mun það hafa verið trúa manna í ársbyrjun 1767, að þess yrði ekki langt að bíða, að fulllokið yrði. Hinn 17. ágúst 1767 finnur nýr amtmaður, Ólafur Stefánsson, sig knúinn til að tilkynna rentukammeri, að Berger múrsmiður verði enn eitt ár að vinna við fangahúsið. Sama ár var sent til landsins timbur í þakið, sem var þó ekki byrjað að reisa fyrr en 1769. Smíði hússins var að fullu lokið veturinn 1770–71.

Reykjavík 1836

Reykjavík 1836 – Uppdráttur Victors Lottin.

Ef að líkum lætur hefur stiftamtmaður látið fara fram skoðunargerð á húsinu fullsmíðuðu og sent rentukammeri, en það skjal hefur ekki varðveist, svo vitað sé. Með eftirfarandi lýsingu er reynt að bera í brestina: Húsið er 42 S alin að lengd og 16 álnir á breidd, ein hæð, með háu gaflsneiddu þaki. Það er byggt úr tilhöggnu grágrýti, veggir tvíhlaðnir og þakið timburklætt. Á framhlið eru átta gluggar og útidyr fyrir miðju; á bakhlið níu gluggar, þrír gluggar á hvorum gafli, einn niðri og tveir uppi, og sín útbyggingin (með kamri) á hvorum gafli. Allir gluggar eru með járnstöngum. Eftir endilöngu húsinu er múrveggur í miðju þess. Austan megin eru tvær stórar vinnustofur og milli þeirra lítill gangur og tvöfaldir kamrar, en í hvorum enda tveir klefar fyrir stórglæpamenn. Vestan megin er forstofa fyrir miðju með stiga upp á loft; í suðurendanum tvö herbergi og eldhús fyrir tugtmeistara og dyravörð, en í norðurendanum stórt eldhús og stofa fyrir ráðsmann. Uppi eru tvö herbergi í hvorum enda og tvískipt framloft með stiga upp á efra loft, þar sem eru geymslur. Á miðloftinu eru tveir litlir kvistgluggar og einn á efra loftinu. Í öllu húsinu eru timburgólf. Tveir múraðir reykháfar eru á húsinu og í því fimm veggofnar úr járni. Tugthúsið er talið geta rúmað 16 stórglæpamenn og 54 venjulega fanga.

Reykjavík

Reykjavík á 19. öld.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fljótlega eftir að Danir höfðu dregist inn í Napóleonsstyrjaldirnar 1807 gekk hagur Íslendinga allur saman vegna siglingateppu og vöruskorts. Þetta kom hart niður á föngum í tugthúsinu, og 1813 tilkynnti stiftamtmaður tugthússtjórninni, að til þess að bæta úr yfirvofandi neyð almennings hefði hann orðið að hætta rekstri tugthússins um sinn og ákveðið að limirnir, sem þar voru geymdir, skyldu sendast á sínar sveitir „inntil frekari ráðstöfunar“. Ári síðar staðfesti stjórnin þessa ákvörðun stiftamtmanns og 3. maí 1816 var tugthúsið formlega lagt niður með kóngsbréfi.

Kóngsgarður
Stjórnarráðshúsið
Árið 1819 bar það helst til tíðinda, að hér urðu stiftamtmannsskipti. Tók þá við embættinu Moltke greifi, 29 ára að aldri, og kom hingað út ásamt konu sinni að kynna sér aðstæður. Þótti honum yfirréttarhúsið, sem stjórnin hafði keypt fyrir embættið, bæði óhentugt og fátæklegt, og sótti því um leyfi til að breyta hinu „ónotaða tugthúsi“ í embættisbústað. Er skemmst frá því að segja að erindi hans fékk skjóta afgreiðslu: Í apríl var gefinn út konungsúrskurður, sem heimilaði breytingarnar, og í framhaldi af honum var gerður vandaður uppdráttur að nýrri herbergjaskipan. Ole Peter Möller, kaupmanni í Reykjavík, var falið að sjá um breytingarnar á húsinu og lét hann vinna verkið veturinn 1819-20. Hinn 2. mars 1820 taldist verkinu lokið með ítarlegri úttekt sem staðfesti að viðgerð og innrétting var í samræmi við tilgreind fyrirmæli.

Hilmar Finsen

Hilmar Finsen.

Íbúð stiftamtmanns var komið fyrir norðan megin í húsinu með stofu, svefnherbergi og vinnukonuherbergi að framanverðu en eldhúsi, búri og borðstofu baka til. Í suðurhlutanum voru aftur á móti skrifstofur stiftamtmanns að framanverðu en salur og vinnuherbergi baka til. Og til að gera húsaskipan haganlegri en áður var, voru settar þrennar nýjar dyr á múrvegginn í miðju húsi, einar milli eldhúss og vinnukonuherbergis, aðrar milli stofu og borðstofu og hinar þriðju milli salar og innri skrifstofu. Auk þess var settur á húsið bakdyrainngangur norðaustan megin. Þá voru allir gluggar hússins stækkaðir frá því sem áður var og gólfin lækkuð um eitt fet til þess að auka lofthæðina.

Nú segir ekki af neinum meiri háttar breytingum á húsinu á því tímabili, sem það var bústaður stiftamtmanns, öðrum en þeirri, að mikill kvistur var settur vestan á húsið sumarið 1866. Árið áður hafði Hilmar Finsen, sonarsonur Hannesar biskups Finnssonar, verið skipaður stiftamtmaður. Þótti honum skorta á húsrými í Kóngsgarði og hafði í fyrstu uppi ráðagerðir um að byggja eina hæð ofan á allan vesturhelming hússins, en þar eð hann óttaðist að stjórninni þætti það of kostnaðarsöm aðgerð, fór hann fram á til vara að byggja „kvist á hálft húsið“. Dómsmálaráðuneytið samþykkti tillöguna og næsta sumar var kvisturinn byggður, eins og frá er sagt, og gerður dyraumbúnaður í gotneskum sögustíl, hvort tveggja úr múrsteinum. Var kvisturinn notaður fyrir skrifstofur embættisins og skjalasafn. Einar snikkari Jónsson frá Brúarhrauni sá um verkið.

Landshöfðingjahús

Reykjavík 1786

Reykjavík 1786.

Hinn 1. apríl 1873 tók Hilmar Finsen við nýstofnuðu embætti landshöfðingja skv. konungsúrskurði 4. maí 1872. Meðan sú skipan stóð, eða á tímabilinu 1873–1904, var húsið við embættið kennt og nefnt Landshöfðingjahús.

Í bókinni Stjórnarráð Íslands 1904–1964 eftir Agnar Kl. Jónsson er svofelld lýsing á herbergjaskipun hjá Magnúsi Stephensen landshöfðingja síðustu árin sem hann var í húsinu:
„Á miðri vesturhlið hússins var aðalinngangurinn, svo sem alltaf hefur verið, og þar gengið inn í litla forstofu. Úr henni liggur stigi í sveig upp á efri hæðina. Inn úr forstofunni var gengið inn í borðstofu landshöfðingja, er var sæmilega stór stofa með tveimur gluggafögum til austurs … Suður úr borðstofunni var stærsta og veglegasta stofa hússins, enda nefnd salurinn. Voru á honum þrír gluggar til austurs … Innar af salnum var lítið herbergi með einum glugga til austurs … er nefndist kabinet í tíð landshöfðingja … Norðan megin við borðstofu landshöfðingja var eldhúsið … Voru þar tveir gluggar til austurs … Þarna í norðurenda hússins var líka brattur stigi upp á efri hæðina … Ennfremur voru þarna útgöngudyr (bakdyr) … Í vesturhelmingi hússins voru tvær stofur sunnanmegin við forstofuna og aðrar tvær stofur norðanmegin við hana, allar fjórar jafnstórar, og hver um sig með tveimur gluggum. Sunnanmegin var fyrst skrifstofa landshöfðingja og þar innar af svonefnt frúarherbergi. Var innangengt í báðar (sic) stofurnar úr salnum … Norðanmegin forstofunnar voru svefnherbergi landshöfðingja og fjölskyldu hans …Var innangengt í þessar stofur báðar úr eldhúsi landshöfðingja … Uppi á efri hæðinni, á suðurhelmingi kvistsins (vestanmegin), var hin almenna skrifstofa landshöfðingjaembættisins, og þar sátu landshöfðingjaritarinn (landritarinn, eins og hann var stundum nefndur) og skrifari. Norðanmegin í kvistinum voru skjalageymslur o.fl. … Í norðurenda þarna uppi … hafði landshöfðinginn … þrjú svefnherbergi auk þurrklofts.“

Reykjavík 1911
Sé lýsing þessi borin saman við lýsinguna frá 1820, þegar húsið var uppsmíðað og betrað fyrir Moltke greifa, og lýsingu frá 1837, þegar Bardenfleth tók við húsinu af Krieger, er auðvelt að draga upp skýra mynd af því, hvernig herbergjaskipuninni hefur verið breytt á þessu tímabili: Útbygging við norðurgafl er horfin, í norðausturhorni hússins hefur verið settur nýr stigi upp á efri hæðina í tengslum við bakdyrainngang, eldhúsið stækkað til suðurs, borðstofan minnkuð og svefnherbergi í norðvesturenda stækkað.

Aldamótaárið 1900 lýsir Benedikt Gröndal Landshöfðingjahúsinu með svofelldum orðum: „Það er langt hús og lágt, úr steini, og alls ekki samboðið tímanum; seinna var settur á það kvistur (eftir 1850), og prýkkaði það nokkuð við það, en annars er allt fyrirkomulagið svo lélegt, að ýms prívathús eru miklu betri, og mun lítil ánægja vera að vera skyldaður til að búa í þessu hreysi, sem danskir sjómenn kölluðu “Hytte” hérna um árið; og í þessu húsi er landshöfðinginn skyldaður til að taka á móti öllum útlendum herrum, sem hingað koma á snærum einhverrar stjórnar, og er þetta ekki til mikils sóma fyrir landið.“

Stjórnarráðshús

Hannes Hafstein

Hannes Hafstein.

Hinn 1. febrúar 1904 gekk ný stjórnskipun í gildi, er landshöfðingjadæmið var lagt niður en heimastjórnin tók við. Þá tók Hannes Hafstein, fyrsti íslenski ráðherrann, við stjórnartaumum úr hendi Magnúsar Stephensens, sem gegnt hafði landshöfðingjaembættinu í átján ár og flutti nú í nýbyggt hús sitt við Skálholtsstíg. Þar með var sögu hússins sem embættisbústaðar lokið. Samkvæmt stjórnskipunarlögunum, sem staðfest höfðu verið 3. október 1903, voru veittar 11.000 kr. „til að breyta hinum núverandi landshöfðingjabústað í stjórnarráðskrifstofur og búa þær út“. Magnús Th. S. Blöndahl trésmiður, síðar útgerðarmaður og alþingismaður og sá hinn sami og byggt hafði hús landshöfðingja við Skálholtsstíg (Næpuna), var ráðinn til að sjá um framkvæmd verksins.

Ekki hafa fundist nákvæmar lýsingar á verkinu, en það liggur í augum uppi að Magnús og menn hans hafa þurft að breyta meiru í norðurhluta hússins, þar sem áður var íbúð landshöfðingja, en í suðurhluta þess, þar sem voru skrifstofur embættisins og móttökusalur. Hinn 31. janúar 1904 birti blaðið Ingólfur svofellda lýsingu á Stjórnarráðshúsinu: „Hefur það nú verið skinnað upp og breitt til. Ráðherrann hefur salinn sem kallaður var og lítið herbergi þar innar af. Landritarinn er í eldhúsinu, en það er nú orðið að snoturri stofu. Firsta skrifstofa (kennslumála- og dómsmáladeild) veit niður að læknum og er þeim megin er landshöfðinginn hafði skrifstofu sína og dagstofu. Önnur skrifstofa (atvinnu- og samgöngumáladeild) er norðanvert við dirnar á sömu hlið. En borðstofan er orðin að biðstofu og diravarðarskíli. Þriðja skrifstofan (fjármála- og endurskoðunardeild) á að vera uppi. – Húsbúnaðurinn er fremur snotur og þó lítið í hann borið.“ Er þá í megindráttum lýst breytingum sem gerðar voru á húsinu 1904. Litla herbergið inn af salnum notaði ráðherra sem hvíldarherbergi, ef honum bauð svo við að horfa. Það var með einum glugga til austurs, en 1912 var bætt við öðrum glugga til suðurs.

Reykjavík 1846.
Í bók Agnars Kl. Jónssonar um Stjórnarráðið segir svo um næstu meiri háttar breytingu, sem gerð var á húsinu:
„Þegar ráðherrarnir urðu þrír árið 1917, varð að stækka Stjórnarráðshúsið, til þess að þeir gætu allir komizt þar fyrir, auk þess sem störf Stjórnarráðsins höfðu aukizt það mikið á stríðsárunum, að með réttu mátti segja, að veruleg þörf hafi líka af þessari ástæðu verið orðin á rýmra húsnæði fyrir skrifstofur þess. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árin 1916 og 1917 fór því stjórnin fram á sérstaka fjárveitingu til stækkunar á Stjórnarráðshúsinu, og segir svo um hana í athugasemdum við frumvarpið: „Húsrúmið í Stjórnarráðshúsinu hefur síðari árin verið af svo skornum skammti, að á sumum skrifstofunum hefur ekki verið rúm fyrir svo marga menn sem þurfti til að inna af hendi hin sívaxandi störf. Þegar ráðherrarnir urðu þrír – í stað eins ráðherra og landritara – skorti ráðherraherbergi og biðstofu handa einum þeirra. Stjórnin hefur því ekki séð sér annað fært en að stækka húsið með því að byggja kvist á austurhlið þess, sem samsvaraði kvistinum á vesturhliðinni, flytja dyravörðinn út í geymsluhúsið og breyta því í íbúðarhús fyrir hann. Með því móti fæst húsrúm, sem komizt verður af með um sinn fyrir Stjórnarráðið eitt saman. Breytingin er ætlazt á að kosti 27.000 kr.“

Reykjavík 1900

Séð yfir Tjörnina frá Hólavöllum um 1900. Torfbærinn Hólakot er í forgrunni. Á þessum tíma þótti Hólakot hálfgert hreysi nýtt af udirmálsfólki þess tíma. Drykkjuskapur loddi við marga íbúa torfbæjanna. Um aldamótin 1900 var rætt um óeirðamenn eins og Óla í Hólakoti, Jón sinnep og Stjána blá sem sagðir voru konungar götunnar í krafti ölæðis og ofstopa.

Alþingi samþykkti þessa fjárveitingu og sumarið 1917 var austurkvisturinn byggður. Guðmundur H. Þorláksson byggingameistari gerði teikningu að kvistinum en Sigurjón Sigurðsson trésmíðameistari var ráðinn til að standa fyrir verkinu. Smíðinni var að mestu lokið um haustið og var þá (10. nóvember 1917) gerð á húsinu ný og endurskoðuð brunabótavirðing. Er þá lýsing hússins sem hér segir: „Húseign þessi er töluvert endurbætt. Húsið er einlyft með kvisti í gegn og 8 S al. risi, bygt úr grásteini, cementsljettað utan og með helluþaki á 5/4″ borðaskarsúð. Niðri í því eru 9 herbergi og gángur, allt kalksljettað innan nema undir gluggum eru brjóstþil; allt málað. Þar eru 5 ofnar. Uppi eru 8 herbergi, gángur, geymslu-klefi og vatnssalerni; allt þiljað og m. striga og pappír, málað og betrekt. Þar eru 6 ofnar. Á skambitum eru 3 herbergi og framloft.“ Samsumars var rifinn timburskúr við bakdyrainngang á austurhlið hússins og reistur þar nýr og stærri skúr úr steinsteypu.

Stjórnarráðshúsið

Stjórnarráðshúsið – skjöldur.

Í kvistinum fengust tvö rúmgóð skrifstofuherbergi fyrir atvinnumálaráðherra og fjármálaráðherra, en milli þeirra, gegnt stiganum, var útbúið lítið herbergi, sem notað var sem biðstofa fyrir þá næstu árin. Á neðri hæðinni var landritaraskrifstofan gamla – sem fjármálaráðherra hafði haft – lögð undir II. skrifstofu, sem þar með hafði lagt undir sig allan norðurhelming hússins niðri.

Eins og frásögnin ber með sér, kom fljótt í ljós að húsnæðið í Stjórnarráðshúsinu var síst of mikið; ýmist voru færðir til veggir eða kompur og skot dubbuð upp, að þau mættu koma að notum. Það var þó látið duga allt fram til 1939, þegar farið var að flytja sum ráðuneytin yfir í Arnarhvol. Um svipað leyti voru gerðar breytingar á súðarherbergjunum tveimur á syðra lofti hússins, þar sem verið höfðu skjalageymslur; vestan megin var útbúið herbergi fyrir aðalendurskoðanda ríkisins 1933, og austan megin herbergi fyrir atvinnumálaráðuneytið 1939, eftir að fjármálaráðuneytið var flutt í Arnarhvol. Ráðherraherbergið sunnan megin í austurkvisti var stúkað sundur í tvö lítil herbergi og gang, en geymslu undir súð vestan megin á nyrðra lofti hússins breytt í vélritunarherbergi.

Stjórnarráðshúsið 1907

Konungskoman 1907, Friðrik VIII., Hannes Hafsteins og fylgdarlið á hestum neðst á Hverfisgötu á móts við
Stjórnarráðshúsið.

Um aðrar breytingar á húsinu segir svo í bók Agnars Kl. Jónssonar: „Árið 1943 lét Vilhjálmur Þór utanríkisráðherra flytja vegg í suðurhelmingi hússins vestan megin um eitt gluggafag, þannig að þar fengist ein stór stofa með forherbergi fyrir framan. Hefur skrifstofa utanríkisráðherra verið þarna upp frá því. Árið 1960 lét Ólafur Thors forsætisráðherra á sama hátt taka burt vegginn milli forsætisráðherraherbergisins og litla herbergisins innar af því, sem nefnt var kabinet, og þilja í staðinn af lítið herbergi fyrir framan ráðherraherbergið, eins og utanríkisráðherra hafði áður gert. Er því skipulagi í suðurhelmingi hússins niðri þannig fyrir komið nú (1969), að þar eru tvær rúmgóðar stofur, hvor fyrir sinn ráðherra, og smáherbergi fyrir framan þær fyrir starfsfólk þeirra“.

Jón Sigurðsson

Stytta Jóns Sigurðssonar framan við Stjórnarráðshúsið árið 1911 – „Verkin tvö og stöpullinn undir þeim eru eftir Einar Jónsson (1874-1954) myndhöggvara. Minna verkið heitir Brautryðjandinn. Eru nú á Austurvelli og voru flutt þangað árið 1931 þegar styttan af Hannesi Hafstein var reist á þessum sama stöpli fyrir framan Stjórnarráðið.“

Hér verður að lokum getið nokkurra helstu breytinga, sem gerðar hafa verið á húsinu á tímabilinu 1964-1996. Eftir að utanríkisráðuneytið flutti úr húsinu og skrifstofu forseta Íslands var komið þar fyrir 1973, var tekinn burt veggur milli skrifstofanna tveggja norðan megin í vesturhelmingi hússins og þiljað af lítið herbergi fyrir framan skrifstofu forseta. Eftir þá aðgerð var innra fyrirkomulag hið sama báðum megin forstofunnar í vesturhelmingi hússins. Herbergjum dyravarðar og deildarstjóra utanríkisráðuneytis var slegið saman og úr þeim gerð ein rúmgóð biðstofa, sömu stærðar og borðstofa landshöfðingja var á sinni tíð. Árið 1984 var hlaðið upp í glugga þann á suðurgafli hússins, sem settur var á húsið 1912. Um svipað leyti var skrifstofuherbergi norðan megin í austurhelmingi hússins stúkað sundur, þegar fjölgaði starfsfólki á skrifstofu forseta Íslands.

Stjórnarráðshúsið

Stjórnarráðshúsið.

Á efri hæð hússins var herbergjaskipan komið í betra horf, eftir að menntamálaráðuneytið flutti úr húsinu. Þeim breytingum verður ekki lýst í smáatriðum en 1996 var fyrirkomulagið sem hér segir: Nyrst var skrifstofa ráðuneytisstjóra, með tveimur gluggum, syðst skrifstofa skrifstofustjóra, með einum glugga; þar í millum var herbergi ritara, með tveimur gluggum, en grynnra en þau fyrrnefndu og nam mismunurinn rúmri breidd opsins við uppgöngu stiga. Þá var tveimur herbergjum syðst í austurkvistinum slegið saman í eina skrifstofu með tveimur gluggum.

Stjórnarráðshúsið

Stjórnarráðshúsið um 1920.

Enn er frá því að segja, að sumarið 1995 voru gerðar endurbætur á frágangi þaks. Þá var tekinn niður reykháfur, sem settur hafði verið á húsið í upphafi aldarinnar, en hinir tveir, sem verið hafa á húsinu frá öndverðu, voru klæddir flögusteini, eins og gert hafði verið þegar þakið var hellulagt laust upp úr miðri 19. öld.

Stjórnarráðshúsið

Stjórnarráðshúsið 1930-1950.

Eftir að skrifstofa forseta Íslands flutti úr húsinu, var ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á húsinu í þeim tilgangi að laga innra fyrirkomulag að breyttri notkun, endurskoða öryggismál og bæta tæknilegt ástand einstakra byggingarhluta. Sé gengið í bæinn eftir endurbætur, er fyrst komið í forstofu, sem eitt herbergja í húsinu hefur alla tíð haldist óbreytt að stærð og lögun. Þar eru veggir berir eins og jafnan áður og steinn á gólfi. Úr forstofu er gengið í biðstofu, sem ásamt tveimur forrýmum báðum megin forstofu er klædd brjóstþili og að ásýnd áþekk innri gerð hússins á tímabilinu 1873–1917. Inn af biðstofunni eru í suðurenda hússins skrifstofuherbergi aðstoðarmanns ráðherra og fundarherbergi ríkisstjórnar, en í norðurenda fundarherbergi og skrifstofa forsætisráðherra. Þessi herbergi eru nú heilklædd innan eins og 1820, þrjú þeirra með nýsmíðuðu brjóstþili og römmum, en hið fjórða og fyrstnefnda þiljað innan með leifum af klæðningum úr sal Moltke greifa. Á efri hæð hússins er frágangur allur einfaldari og með svipuðu sniði og tíðkaðist á fyrri hluta tuttugustu aldar.” – Þorsteinn Gunnarsson

Heimild:
-https://www.stjornarradid.is/raduneyti/forsaetisraduneytid/stjornarradshusid/byggingarsaga/

Stjórnarráðshúsið

Stjórnarráðshúsið.

Stjórnarráðshúsið

Á vef Stjórnarráðsins er rakin saga Stjórnarráðshússins við Lækjartorg:

Á fyrri hluta 18.aldar var tekin upp ný hagstjórnarstefna í Danaveldi sem byggði á svokölluðum kameralisma sem var afbrigði upplýsingarstefnunnar. Samkvæmt henni átti ríkið að vinna að hagsæld og velmegun þegnanna til þess að þeir gætu sem best þjónað heildinni og átti þar að líta til allra þátta, ekki bara atvinnuveganna heldur einnig uppeldis, fræðslu og menningar. Til þess að allir þegnar ríkisins væru iðnir og sparsamir og legðu sitt til almennrar velferðar ríkisins var m.a. talið nauðsynlegt að reisa betrunarhús og fangelsi. Þannig væri hægt að gera betlara, flækinga og sakamenn að nýtum samfélagsþegnum.

Stjórnarráðið

Stjórnarráðshúsið.

Það var í þessum betrunaranda sem tugthúsið í Reykjavík (nú Stjórnarráðshús) var reist á árunum 1761-1771. Þá skömmu áður höfðu verið byggð eða voru í byggingu fjögur vegleg steinhús á Íslandi, embættisbústaðirnir Viðeyjarstofa, Nesstofa og Bessastaðastofa ásamt Dómkirkjunni á Hólum í Hjaltadal. Fremstu arkitektar Dana voru fengnir til að teikna húsin sem voru fullkomin nýlunda á Íslandi þar sem nær allir mannabústaðir voru þá enn torfbæir.

Tugthúsið

Georg David Anthon

Georg David Anthon.

Tugthúsinu í Reykjavík, stundum nefnt Tyftunarhúsið, var valinn staður í landi konungsjarðarinnar Arnarhóls jafnframt því sem jörðin var lögð til stofnunarinnar. Hafist var handa um byggingarframkvæmdir árið 1761 en þær sóttust seint þannig að þeim var ekki að fullu lokið fyrr en 10 árum seinna. Auk danskra og íslenskra iðnaðarmanna unnu sakamenn að byggingu hússins en þeim var síðan, eftir að húsbyggingunni var lokið og þeir orðnir innanhússmenn, ætlað að vinna í þágu hinna nýju tau- og klæðaverksmiðja (svokallaðra Innréttinga) og aðra tilfallandi vinnu í hinum upprennandi höfuðstað Íslands.
Teikningar af tugthúsinu við Arnarhól hafa ekki varðveist en fullvíst er talið að arkitekt byggingarinnar hafi verið Georg David Anthon (1714-1781) hirðhúsameistari í Kaupmannahöfn og kennari við Listaakademíuna þar. Auk tugthússins teiknaði hann Viðeyjarkirkju og Landakirkju í Vestmannaeyjum og líklega einnig Bessastaðakirkju.
Húsið, sem er um 260 fermetrar að flatarmáli, var byggt úr tilhöggnu grágrýti, veggir tvíhlaðnir og þakið gaflsneitt og timburklætt. Gluggar, sem voru litlir með járnstöngum fyrir, voru settir samhverft um miðjudyr eins og algengast var um þær mundir. Þegar gengið var inn í húsið varð þar fyrir forstofa með stiga upp á loft. Til hægri handar var íbúð tugtmeistara en til vinstri stórt eldhús og stofa inn af því fyrir fangavörð. Aftan til í húsinu voru tvær vinnustofur, m.a. með tóskaparáhöldum fyrir spunakonur, en klefar fyrir stórglæpamenn í hvorum enda. Uppi á lofti voru fjögur fangaherbergi en yfir því var efra loft með geymslu fyrir ull og tóvinnu.

Reykjavík

Grunnteikning af Stjórnarráðshúsinu (Tukthúsinu) eftir Ohlsens árið 1803 sem sýnir skipulag á neðri hæð hússins, en x og y eru kamrar.

Tugthúsið var talið geta rúmað 16 stórglæpamenn og 54 venjulega fanga. Svo margir fangar sátu þar þó aldrei, þeir urðu flestir um 40. Bæði karlar og konur voru í fangelsinu og frjálslegur samgangur milli kynja, svo frjálslegur að nokkuð var um barneignir þar innan dyra.
Aðbúnaður fanganna mun þó hafa verið bágborin löngum, sérstaklega þegar illa áraði. Móðuharðindin dundu yfir landið eftir 1783 og dóu fangar þá úr hor og vesæld í húsinu. Ekki tók betra við eftir 1800 þegar siglingar til landsins strjáluðust mjög vegna Napóleonsstyrjalda og árása Breta á Danmörku. Mikill matvælaskortur varð þá í landinu sem kom hart niður á föngum í Múrnum eins og tugthúsið var gjarnan nefnt. Árið 1813, þegar danska ríkið varð í raun gjaldþrota, var rekstri tugthússins hætt og þeim föngum sem enn sátu inni sleppt. Þremur árum síðar var það formlega lagt niður.

Stiftamtmannssetrið – Ludvig Moltke

Ludvig Moltke

Moltke greifi – 1790-1864.

Frá árinu 1683 hafði stiftamtmaður verið æðsti embættismaður landsins. Þegar hér var komið sögu voru ungir danskir aðalsmenn oftast skipaðir í það embætti. Skipun þeirra var meðfram hugsuð sem fyrsti póstur á væntanlegri framabraut, eins konar manndómsvígsla því ekki þótti þá eftirsóknarvert fyrir aðalsborið fólk að búa á Íslandi.

Þannig var um Ludvig Moltke, 29 ára gamlan greifason af frægri aðalsætt, sem skipaður var stiftamtmaður Íslands árið 1819. Fyrri stiftamtmenn höfðu þá um skeið búið í litlu timburhúsi (nú Austurstræti 22) en hinum unga Moltke og konu hans, Reinholdine Frederikke Vilhelmine, fædd Bartenfleth, sem þótti nokkuð steigurlát, fannst slíkt hús ófullnægjandi fyrir sig og hið háa embætti. Þeim kom til hugar að gera mætti tugthúsið gamla, sem stóð þá tómt og ónotað, að verðugum embættisbústað. Nýi stiftamtmaðurinn sótti síðan um leyfi til þess gera húsið upp og breyta því og var fallist á það af stjórnvöldum í Kaupmannahöfn.

Reykjavík 1801

Reykjavík 1801. Tukthúsið lengst t.h.

Hafist var handa við framkvæmdir og húsinu gjörbreytt veturinn 1819-1820. Allir gluggar voru stækkaðir, gólfið lækkað til að fá meiri lofthæð og settur bakdyrainngangur á húsið nyrst og brattur stigi frá honum upp á loft. Íbúð stiftamtmanns var komið fyrir í sunnanverðu húsinu en til vinstri þegar gengið var inn voru stiftamtmannsskrifstofurnar. Salur og vinnuherbergi voru baka til, uppi herbergi vinnuhjúa og stofustúlkna. Að húsabaki voru útihús því stiftamtmaðurinn þurfti bæði hesta og kýr. Túnið hans var Arnarhóll.

Eftir þetta var húsið ýmist nefnt Stiftamtshúsið eða Stiftamtmannshúsið einnig þó Kóngsgarður eða Konungsgarður. Moltke greifi og frú hans hurfu af landi brott 1824 en Moltke átti eftir að eiga langan feril, lengst sem sendiherra í París og einnig var hann utanríkisráðherra Dana um skeið. Við af honum tók Peter Fjeldsted Hoppe en hann þótti atkvæðalítill í embætti.

Lorentz A. Krieger

Friðrik VII

Friðrik VII.

Sá sem tók við af Hoppe 1829 var öllu líflegri. Sá var Lorentz A. Krieger kammerjúnkeri, 32 ára og ógiftur. Hann lét mjög til sín taka, sérstaklega í Reykjavík þar sem hann vann að endurbótum á skipulagsmálum og stuðlaði að því nýmæli að kosin var byggingarnefnd í bænum. Hann lét m.a. endurhlaða Skólavörðuna á sinn kostnað sem eftir það var um tíma kölluð Kriegers-Minde. Hann bannaði byggingar á Lækjartorgi og Austurvelli og lagði veg meðfram Læknum sem var upphafið að Lækjargötu.

Krieger sat nýstofnað stéttaþing Dana 1835 sem fulltrúi Íslands og samdi síðan tillögur um breytingar á stjórn Íslands þar sem hann lagði til að landið fengi heimastjórn. Það var í fyrsta sinn sem slíkar tillögur voru settar fram og hefur því ekki verið mikið haldið á lofti af Íslendingum.

Meðan Krieger bjó í Stiftamtsmannshúsinu við Lækjargötu bar þar tignan gest að garði. Það var sjálfur Friðrik Kristján prins Dana sem sendur var til Íslands í refsingarskyni fyrir glaumgosahátt og fyrir að hafa hrakið frá sér eiginkonu sína, kóngsdótturina Vilhelmine. En Friðrik Kristján lét sér það í léttu rúmi liggja, dvaldi á Íslandi í þrjá mánuði, ferðaðist víða á hestbaki og skemmti sér vel. Þess á milli sat hann oftar en ekki í góðu yfirlæti og við góðan veislukost í Kóngsgarðinum við Lækjartorg hjá piparsveininum Krieger stiftamtmanni. Fjórtán árum síðar tók prinsinn við konungdómi í Danmörku og nefndist Friðrik VII.

Það er hins vegar af Krieger að segja að hann lét af stiftamtmannsembætti á Íslandi 1836 og varð stiftamtmaður í Álaborg en lést skömmu síðar, aðeins rúmlega fertugur að aldri.

Carl Emil Bardenfleth

Carl Emil Bardenfleth

Carl Emil Bardenfleth.

Næsti húsbóndi Stiftamtmannshússins var aðalsmaðurinn Carl Emil Bardenfleth sem var um þrítugt þegar hann tók við embætti. Hann var mágur Moltkes, fyrsta stitamtmannsins í húsinu, en uppeldisbróðir fyrrnefnds Friðriks Kristjáns Danaprins. Þess naut hann í ríkum mæli síðar. Bardenfleth var áhugasamur um íslensk málefni, lagði sig fram um að læra íslensku og lét son þeirra hjóna, sem fæddist í Reykjavík, heita Ingolf eftir Ingólfi Arnarsyni.

Mikið fjör var í kringum Bardenfleth í Reykjavík. Meðal annars efndi hann til leiksýninga í Stiftamtmannshúsinu, vafalaust í salnum baka til í húsinu. Stiftamtmaðurinn lék sjálfur og fór m.a. í kvenmannsgervi þegar hann lék Pernillu í leikritinu Misforstaaelse paa Misforstaaelse eftir Overskou en meðal annarra leikenda voru tveir frægir danskir náttúrufræðingar, Chr. Scythe og Japetus Steenstrup, sem þá voru við rannsóknir á Íslandi. Tvær íslenskar stúlkur, Sylvia Thorgrimsen og Þóra Melsted, tóku þátt í þessari sýningu og var það í fyrsta sinn sem konur voru orðaðar við leiklist á Íslandi.

Þóra Melsted

Þóra Melsted.

Stiftamtmannstíð Bardenfleths lauk fyrr en ætlað var. Eftir aðeins þriggja ára dvöl á Íslandi var hann kallaður til Danmerkur. Æskuvinurinn Friðrik Kristján var nú orðinn krónprins og vildi fá Bardenfleth til sín sem hirðmeistara. Bardenfleth átti þó eftir að koma mikið við sögu Íslands áfram. Þegar Alþingi kom saman í Reykjavík 1845, eftir að það var endurreist, var Bardenfleth sendur hingað sem fulltrúi konungs og aftur 1847.

Frami hans varð mikill og skjótur í Danmörku eftir að Friðrik VII tók við völdum 1848. Konungur skipaði þennan vin sinn þegar í ráðuneyti sitt. Bardenfleth gegndi lykilhlutverki sem dómsmálaráðherra í byltingarumrótinu 1848-1849 þegar einveldi var afnumið og Danir fengu stjórnarskrá. Þó að skoðanir féllu ekki alltaf saman var Bardenfleth sem konungsfulltrúi og ráðherra í góðu sambandi við Jón Sigurðsson og aðra Íslendinga í Kaupmannahöfn um málefni Íslands.

Stiftamtmaðurinn sem tók við af Bardenfleth var Torkild Abraham Hoppe, yngri bróðir P. F. Hoppe sem áður var stiftamtmaður. Áður hafði hann starfað í Rentukammerinu í Kaupmannahöfn og komið þar að málum Íslands, einkum verslunarmálum.

Mathias hans Rosenørn

Hans Mathias Rosenörn

Hans Mathias Rosenörn.

Og enn var skipaður nýr stiftamtmaður 1847 og átti heimili sitt og skrifstofur í Kóngsgarði við Lækjartorg. Sá var Matthias Hans Rosenørn, 33 ára gamall, og fór gott orð af honum þau tvö ár sem hann bjó í Reykjavík. Hann gaf m.a. öllum götum bæjarins ný nöfn, sem enn eru flest við lýði, og tölusetti hús. Árið 1849 var hann kallaður til Kaupmannahafnar og tók við embætti innanríkisráðherra. Tveir fyrrverandi stiftamtmenn Íslands, Bardenfleth og Rosenørn, sátu þá saman í ríkisstjórn Danmerkur. Eftir að hann lét af ráðherraembætti 1851 var hann löngum ráðunautur dönsku stjórnarinnar um íslensk málefni.

Jørgen Ditlev Trampe

Jørgen Ditlev Trampe

Jørgen Ditlev Trampe.

Árið 1850 var 47 ára gamall greifi skipaður stiftamtmaður á Íslandi og kom til Íslands með sína stóru fjölskyldu. Hann hét Jørgen Ditlev Trampe og þótti glaðlyndur náungi og viðkunnanlegur. Hann tók upp á því að láta rita embættisbréf sín á íslensku en þau höfðu jafnan verið á dönsku áður. Hann naut vinsælda til að byrja með þær hjöðnuðu allmikið við þá atburði sem gerðust á þjóðfundinum 1851 og í kjölfar hans. Fundurinn átti að færa Íslendingum nýja stjórnarskrá en Trampe sleit honum í miðju kafi. Lokaorð þjóðfundarins ‒ Vér mótmælum allir ‒ voru lengi í minnum höfð sem eins konar hápunktur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Reiðibylgja reis upp gegn Trampe og skírðu menn hunda sína eftir amtmanninum víða um land í óvirðingarskyni við hann. Hann gerði þó ekki annað en uppfylla embættisskyldu sína með því að fylgja fyrirmælum frá Kaupmannahöfn. Trampe sat í embætti til 1860 og var oft líflegt í kringum hann. Hann efndi til leiksýninga í Stiftamtmannshúsinu, eins og Bardenfleth áður, og lék sjálfur. Einnig tók hann upp á að hafa tombólu (hlutaveltu) fyrir almenning í Stiftamtmannshúsinu en slíku fyrirbæri höfðu Íslendingar ekki kynnst áður.

Veisluhöld

Frederick Dufferin

Frederick Dufferin.

Stiftamtmenn sem sátu í Kóngsgarði við Lækjartorg voru fremstu menn landsins, eins konar forsætisráðherrar síns tíma, og héldu uppi risnu fyrir hönd yfirboðara síns, Danakonungs. Eftir að Alþingi var endurreist bauð stiftamtmaður þingmönnum jafnan til veislu í húsi sínu og þegar virðulega erlenda gesti bar að garði var þeim að sjálfsögðu boðið heim til stiftamtmannsins. Í tíð Trampes var óvenjulega mikið um hátignarlega gesti, sérstaklega sumarið 1856. Í júní komu breski lávarðurinn Frederick Dufferin í heimsókn. Fræg er lýsing hans á veislu honum til heiðurs í Kóngsgarði sem helstu embættismenn landsins sátu. Þar reyndu Trampe greifi og Dufferin lávarður að drekka hvorn annan undir borðið milli þess sem þeir héldu ræður á bjagaðri latínu. Dufferin segist í ferðasögu sinni muna óglöggt eftir því hvernig veislan endaði.
Í sama mánuði kom franskur floti til Reykjavíkur og var fyrir honum Jerôme Napóleon prins, bróðursonur Napóleons mikla og frændi Napóleons III sem þá var við völd í Frakklandi. Danska blaðið Fædrelandet var mjög hneysklað á yfirgangi Frakka í þessari heimsókn. Það skýrir svo frá veislu sem Trampe greifi hélt Napóleons prins til heiðurs:

Jerôme Napóleon

Jerôme Napóleon.

„Í stærstu stofunni í bústað stiftamtmanns blöstu við tvö stór og glæsileg olíumálverk af franska keisaranum [Napóleon III] og keisaraynjunni. Sýna málverkin þau bæði standandi og í nær fullri líkamsstærð. Þessi sömu málverk höfðu áður skreytt danssalinn stóra í herskipinu Artemise, þegar veisla var haldin þar um borð 6. júlí. Heyrst hafði, að Napóleon prins hefði gefið Trampe greifa þessi málverk, en þegar boðsgestir spurðu nú Demas flotaforingja um þetta, þá var svar hans, að þau „hafi verið gefin stiftamtmannsbústaðnum“… Segja má að þessi stóru og verðmætu málverk hafi í veislunni sett sinn sterka svip á stofu greifans og það svo, að menn tóku varla eftir málverkinu af Kristjáni VIII Danakonungi, sem fært hafði verið úr Alþingissalnum og hengt upp á milli myndanna af Frakkakeisara og frönsku keisaraynjunni. Enn síður bar á myndinni af okkar núverandi konungi, Friðriki VII, en málverk af honum hékk í bakgrunni andspænis inngangi.“
Síðar þetta viðburðaríka sumar í Reykjavík kom Vilhjálmur prins af Óraníu, ríkisarfi Hollands, og var honum haldin mikil kvöldveislu í Stiftamtmannshúsinu og dansað í garðinum.

Hilmar og Olufa Finsen

Hilmar Finsen

Hilmar Finsen.

Staða Íslands var í óvissu á þessum árum og var enginn stiftamtmaður skipaður um fimm ára skeið eftir að Trampe hvarf á braut árið 1860. Þórður Jónassen landsyfirréttardómari gengdi þá stöðu setts stiftamtmanns og bjó í Stiftamtmannshúsinu ásamt fjölskyldu sinni.

Meðan Alþingi sat að störfum sumarið 1865 var nýr stiftamtmaður að koma sér fyrir í embættisbústaðnum fyrir austan læk. Hann hét Hilmar Finsen, 41 árs gamall, og átti eftir að sitja þar lengi. Hann var íslenskur að föðurkyni, sonarsonur Hannesar Finnssonar Skálholtsbiskups, en fæddur og uppalinn í Danmörku enda danskur að móðurkyni. Hann hafði verið bæjar- og héraðsfógeti í Sønderborg í Slésvík en hrakist þaðan þegar Prússar hernámu Slésvík árið 1864. Ísland hafði verið í stjórnskipunarlegu tómarúmi frá því að einveldi var afnumið 1849 og nú bundu dönsk stjórnvöld vonir við að Hilmar Finsen gæti haft áhrif á Íslendinga vegna íslensks ætternis síns og annarra hæfileika þannig að hægt yrði að festa Ísland örugglega innan vébanda Danaveldis.

Olufa Finsen

Olufa Finsen.

Um leið og Hilmar tók við embætti stiftamtmanns gerði hann ráðstafanir til að stækka Stiftamtmannshúsið sem honum þótti of lítið. Hann fór fram á að fá að hækka framhlið hússins um eina hæð en til vara að byggja stóran kvist. Stjórnvöld í Danmörku féllust á varatillöguna og sumarið 1866 var breiðkvisturinn, sem síðar hefur sett svip á framhlið hússins, bætt við en með honum stækkaði húsið verulega. Kvisturinn var notaður fyrir skrifstofur embættisins og skjalasafn en stiftamtmannshjónin tóku alla neðri hæðina undir íbúð sína. Við sama tækifæri var núverandi dyraumbúnaður í gotneskum stíl settur á aðalinngang hússins og hellur á þakið í stað timburþaks. Danski byggingarmeistarinn C. Klentz bar ábyrgð á þessum breytingum.

Stiftamtmannsbústaðurinn var mikið menningarheimili á dögum Hilmars og Olufu konu hans sem var dönsk. Hún var tónlistarmenntuð og beitti sér mjög í tónlistarlífinu í Reykjavík auk þess sem hún átti veigamikinn þátt í stofnun Kvennaskólans í Reykjavík. Sjálf kenndi hún á píanó og hafði milligöngu um að útvega þeim Íslendingum sem hugðu á tónlistarnám í Kaupmannahöfn góða kennara. Hún varð fyrst til að æfa blandaðan kór kvenna og karla í Reykjavik 1868 og samdi sjálf kantötu sem flutt var við útför Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttur vorið 1880.

Í kjölfar svokallaðra stöðulaga, sem sett voru einhliða af Dönum 1871, var sett á stofn embætti landshöfðingja í stað stiftamtmannsembættisins og var Hilmar Finsen skipaður fyrsti landshöfðinginn árið 1873. Þjóðfrelsisöflunum á Íslandi líkaði ekki þróun mála og að morgni þess dags sem landshöfðingi tók við embætti urðu menn þess varir að á fánastöng framan við Landshöfðingjahúsið, sem nú var svo kallað, hafði verið dregin upp tuska sem á var letrað „Niður með landshöfðingjann“. Sumar frásagnir herma að með tuskunni hafi hangið dauður hrafn. Einnig voru fest upp spjöld víða um bæinn með samhljóða áletrunum. Var þetta allt fjarlægt í skyndi.

Konungsheimsóknin 1874

Konungsheimsóknin 1874

Konungsheimsóknin 1874.

Árið 1874 var uppi fótur og fit í Reykjavík. Í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar ætlaði konungurinn sjálfur, Kristján IX, að heimsækja landið. Var það í fyrsta sinn sem konungur lét svo lítið að heimsækja þessa fjarlægu eylendu. Ekki var um mörg hús í Reykjavík að ræða sem gætu hýst konung og varð það úr að Hilmar Finsen landshöfðingi og Olufa kona viku fyrir konungi í Landshöfðingjahúsinu og fluttu sjálf upp á loft. Anna dóttir þeirra minntist þessa síðar í viðtali. Hún sagði:

Kristján IX

Kristján IX.

„Ég var að vísu ekki nema sex ára. En ég man eftir öllu umrótinu, sem var í húsinu, meðan verið var að undirbúa komu þeirra Kristjáns IX og Valdimars prins. Stiftamtmannshúsið eða Landshöfðingjahúsið, sem þá var kallað, því þá var faðir minn orðinn landshöfðingi, var allt fágað og prýtt. Íbúð okkar var á neðri hæð, en skrifstofur og skjalasafn uppi á lofti. Við urðum að flytja okkur upp á loftið, jafnvel inn í skjalakompuna, svo að hinir tignu gestir gætu haft íbúðina niðri. Þeir sváfu alltaf í íbúð okkar, meðan þeir dvöldu í Reykjavík og borðuðu morgun- og kvöldverð hjá okkur… Kristján konungur var mjög blátt áfram og lítilþægur í daglegri umgengni. Daginn, sem hann kom og fylgd hans, vorum við landshöfðingjabörnin í okkar fínu, nýju fötum. Við systurnar höfðum lært að hneigja okkur. Þegar konungur kom og ég hneigði mig fyrir honum, klappaði hann á kollinn á mér og sagði: „Vel hefur þú lært að hneigja þig, stúlka litla“. Eitt sinn spilaði hann kroket á vellinum við Landshöfðingjahúsið. Það þótti okkur ekki ónýtt.“

Eins og kunnugt er færði Kristján IX Íslendingum stjórnarskrá í þessari ferð og fer vel á því að stytta af honum með stjórnarskrána í hendi standi fyrir framan Stjórnarráðshúsið. Kristján IX var stundum kallaður tengdafaðir Evrópu því að síðar urðu bæði Bretakonungur og Rússakeisari tengdasynir hans og einn sona hans varð Grikkjakonungur. Má heita að allt kóngaslekti í Evrópu sé nú af honum komið.

Bergur Thorberg og Magnús Stephensen

Bergur Thorberg

Bergur Thorberg.

Hilmar Finsen lét af embætti landshöfðingja 1882 og varð síðan um skeið innanríkisráðherra Dana. Eftir hann gegndu tveir Íslendingar embætti landshöfðingja þar til heimastjórn komst á árið 1904. Þeir voru Bergur Thorberg sem tók við af Hilmari en lést í embætti 1886 og Magnús Stephensen, síðasti landshöfðinginn.

Til er lýsing á húsakynnum Landshöfðingjahússins á dögum Magnúsar Stephensen og er hún á þessa leið:

Frá útidyrum var fyrst komið inn í lítið fordyri. Til hægri handar var skrifstofa landshöfðingjans en inn af henni svokallað frúarherbergi. Þar hafði landshöfðingjafrúin afdrep eða vinnustofu. Baka til sunnan megin í húsinu var stærsta og veglegasta stofa hússins, svokallaður salur, og inn af henni í suðausturhorninu lítið herbergi sem gekk undir nafninu kabinet.

Magnús_Stephensen

Magnús_Stephensen.

Til vinstri handar við fordyrið var gengið inn í svefnherbergi landshöfðingjahjónanna en inn af því var barnaherbergi. Stórt eldhús var þar fyrir aftan í norðausturhluta hússins en bakdyrainngangur í bláhorninu. Í miðju hússins aftan til ‒ milli eldhúss og salar ‒ var borðstofa. Hægt var að ganga beint inn í hana úr forstofunni.

Úr forstofunni lá stigi í sveig upp á efri hæðina. Þar í suðurhelmingi kvistsins vestan megin var hin almenna skrifstofa landshöfðingja. Þar sátu landshöfðingjaritarinn og skrifari að störfum. Norðanmegin í kvistinum voru skjalageymslur. Í norðurenda uppi hafði landshöfðinginn þrjú svefnherbergi auk þurrklofts.

Stjórnarráð Íslands

Fálkamerkið

Fálkamerkið.

Við stofnun heimastjórnar 1. febrúar 1904 var ákveðið að Landshöfðingjahúsið yrði aðalaðsetur landsstjórnarinnar, síðar ríkisstjórnar Íslands, og hefur það síðan verið kallað Stjórnarráðshús. Jafnframt var ákveðið að gera það einvörðungu að skrifstofuhúsi. Fálkamerkinu, hinu nýja skjaldarmerki Íslands, var þá komið fyrir yfir höfuðinnganginum. Allmiklar breytingar voru einnig gerðar á húsinu.

Borðstofunni baka til, sem gengið var inn í beint úr fordyrinu, var nú skipt í tvö herbergi, annað var gert að biðstofu, hitt að herbergi dyravarðar. Skrifstofa Hannesar Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands, var í salnum baka til í sunnanverðu húsinu en kabinetið þar fyrir innan varð nú eins konar hvíldarherbergi ráðherrans. Eldhúsinu, sem áður var aftan til í húsinu norðanverðu, var breytt í skrifstofu Klemensar Jónssonar landritara en staða hans var ígildi ráðuneytisstjóra sem síðar varð.

Skjaldarmerkið

Skjaldamerkið var sett á Stjórnarráðshúsið á valdatíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Undir ráðherra Íslands voru þrjár skrifstofur sem hver um sig hafði afmörkuð verkefni, líkt og ráðuneytin síðar. Fyrstu skrifstofu, sem annaðist dóms- og kirkjumál, var komið fyrir í herbergjunum tveimur til hægri við innganginn þar sem áður var skrifstofa landshöfðingja og frúarherbergi. Þar réði ríkjum Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Önnur skrifstofa, sem annaðist atvinnu- og samgöngumál, var beint á móti í herbergjunum þar sem áður voru svefnherbergi landshöfðingjahjónanna. Þar réði ríkjum Jón Hermannsson skrifstofustjóri. Í kvistinum uppi var svo þriðja skrifstofa, sem annaðist fjármál. Þar var Eggert Briem skrifstofustjóri. Uppi á lofti var einnig íbúð dyravarðar í norðurendanum, skjalageymslur og fleira.

Þegar ráðherrar urðu þrír árið 1917 var óhjákvæmilegt að stækka Stjórnarráðshúsið. Var þá ráðist í að setja kvist á austanvert húsið, svipaðan þeim sem er á framhliðinni. Þeirri framkvæmd var lokið um haustið. Auk þess var innréttuð íbúð fyrir dyravörð í litlu timburhúsi sem stóð fyrir aftan Stjórnarráðið og hafði verið notað fyrir geymslur. Þar bjó dyravörður hússins allt til ársins 1958.

Stjórnarráðshúsið

Stjórnarráðshúsið.

Í nýja austurkvistinum voru útbúin tvö ráðherraherbergi og biðstofa á milli þeirra. Fyrstu ráðherrarnir sem sátu í þessum nýju skrifstofum voru Sigurður Jónsson atvinnumálaráðherra og Sigurður Eggerz fjármálaráðherra. Fjármálaráðuneytið hafði allan vesturkvistinn en atvinnu- og samgönguráðuneytið lagði undir sig norðurhelming hússins niðri. Jón Magnússon forsætisráðherra, sem auk þess fór með dóms- og kirkjumál, var með suðurhelminginn.
Starfsmenn Stjórnarráðsins, sem unnu í húsinu, voru 13 árið 1904 og fjölgaði ekki fyrr en á tímum fyrri heimsstyrjaldar en árið 1917 voru þeir þá taldir 23. Árið 1939 voru þeir orðnir 31. Eftir það varð ör fjölgun í mannahaldi auk þess sem húsið sprengdi af sér starfsemina.

Fullveldisathöfnin

Stjórnarráðshúsið

Fullveldishátíðin 1918.

Hinn 1. desember 1918 var Ísland viðurkennt fullvalda ríki. Í skugga Spænsku veikinnar og erfiðleika, sem fylgdu fyrri heimsstyrjöldinni, fór þá fram áhrifamikil og alvöruþrungin athöfn við Stjórnarráð Íslands. Veður var hið fegursta, heiðríkt og þurrt. Danska herskipið Islands Falk var í Reykjavíkurhöfn og var það fánum prýtt í tilefni dagsins. Stuttu eftir klukkan hálf tólf gengu sjóliðar af herskipinu í fylkingu með axlaðar byssur og bera byssustingi frá bryggju og upp á Stjórnarráðsblettinn. Jafnframt safnaðist þar fyrir nokkur mannfjöldi. Síðastir komu foringjar herskipsins, skrýddir einkennisbúningum og konsúlar erlendra ríkja sem þá voru í Reykjavík. Þeir gengu upp að dyrum Stjórnarráðshússins en þar var fyrir ríkisstjórn Íslands og helstu embættismenn og borgarar Reykjavíkur.
Stjórnarráðshús
Klukkan kortér i tólf hófst athöfnin með því að lúðrasveitin Harpa lék Eldgamla Ísafold. Sigurður Eggerz fjármálaráðherra hélt síðan ræðu en að henni lokinni var hinn nýi ríkisfáni Íslands dreginn í fyrsta skipti að húni á fánastöng sem komið hafði verið fyrir á vesturkvistinum. Karlmenn tóku ofan hatta sína en Islands Falk lét 21 fallbysskot ríða af í virðingarskyni við hina fullvalda þjóð. Sjóliðarnir hylltu síðan fánann og lúðrasveitin lék fánasönginn, Rís þú unga Íslands merki. Þegar þessu var lokið flutti Lorck skipherra ávarp og síðan var leikið Kong Christian á horn. Síðan hrópuðu allir nífalt húrra fyrir kónginum. Jóhannes Jóhannesson, forseti Sameinaðs þings, flutti minni Danmerkur með tilheyrandi húrrahrópum og danski þjóðsöngurinn var leikinn en athöfninni lauk með “Ó, guð vors lands” og húrrahrópum fyrir hinu nýja íslenska ríki.

Lýðveldishátíðin 1944

Lýðveldishátíðin 1944

Lýðveldishátín 18. júní 1944.

Hinn 18. júní 1944, daginn eftir lýðveldisstofnun, fóru fram mikil hátíðarhöld í Reykjavík. Í ritinu Lýðveldishátíðin segir:

„Stjórnarráðið – en svo heitir það í daglegu tali – var eins konar altari þessa mikla mannfundar. Það ræður enn, þó gamalt sé og ekki háreist, öllum svipnum á Lækjartorgi… En undir þess æruverðuga, gráa múr fór nú fram fyrsti þjóðfundur hins unga lýðveldis – eftir sjálfan stofndaginn – þar sem fyrsti forsetinn hélt sína fyrstu stórræðu og fulltrúar allra landsmálaflokka mættust einhuga um þann hornstein, sem nú væri lagður að framtíð þjóðarinnar.“

Ráðuneytin tínast í burtu ‒ forsetaskrifstofan

Stjórnarráðið

Stjórnarráðshúsið.

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg var látið duga fyrir ráðuneytin til ársins 1939 og þykir mörgum það kynlegt nú til dags, miðað við hversu umfang þeirra er orðið mikið. Arnarhvoll við Lindargötu var að vísu tekinn í notkun 1930 en í honum voru framan af eingöngu stofnanir og embætti á vegum ríkisins en ekki ráðuneytin sjálf.

Árið 1939 tók við völdum svokölluð þjóðstjórn en í henni voru fimm ráðherrar en höfðu aldrei verið fleiri en þrír fram að þeim tíma. Ljóst var að ekki var pláss fyrir fimm ráðherra í Stjórnarráðshúsinu. Var þá gripið til þess ráðs að flytja fjármálaráðuneytið í Arnarhvol en atvinnumálaráðuneytið flutti í húsnæði þess uppi á lofti Stjórnarráðshússins. Nýstofnað viðskiptaráðuneyti fékk og inni í Arnarhvoli. Á næstu árum jókst mannahald ráðuneyta óðum, eins og áður var vikið að, og ný voru stofnuð. Atvinnumálaráðuneytið var flutt í Arnarhvol árið 1943 en dóms- og kirkjumálaráðuneytið í Túngötu 18 árið 1946. Voru þá einungis forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og menntamálaráðuneytið eftir í gamla Stjórnarráðinu, það síðastnefnda uppi á lofti. Skrifstofa forsætisráðherra var í aftanverðu húsinu sunnan til en skrifstofa utanríkisráðherra til vinstri handar við fordyrið í húsinu framan til.

Vigdís Finnbogadóttir

Vigdís Finnbogadóttir forseti.

Menntamálaráðuneytið var flutt að Hverfisgötu 6 árið 1968 og utanríkisráðuneytið í húsakynni lögreglustöðvarinnar við Hlemm árið 1973.

Forsætisráðuneytið var þá eitt eftir ráðuneyta í gamla Stjórnarráðinu og hefur svo verið fram á þennan dag.
Þegar utanríkisráðuneytið hvarf á brott var skrifstofa forseta Íslands flutt í fyrri skrifstofur þess í framanverðu húsinu norðan til. Áður hafði skrifstofa forsetans verið í Alþingishúsinu. Þarna sátu síðan Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir í nábýli við skrifstofur framkvæmdavaldsins og í raun undir forsjá forsætisráðherra í húsnæðismálum. Árið 1996, áður en Ólafur Ragnar Grímsson tók við embætti forseta Íslands, ákvað ríkisstjórn Íslands að kaupa húsið Sóleyjargötu 1 fyrir forsetaskrifstofur og hefur forsætisráðuneytið síðan haft allt hið gamla og sögufræga Stjórnarráðshúsið til afnota. Forsætisráðherrar Íslands frá Hannesi Hafstein til þessa dags hafa allir með tölu setið í húsinu.
Allmiklar endurbætur og viðgerðir fóru fram á Stjórnarráðsbyggingunni eftir að skrifstofa forseta Íslands var flutt annað. Um húsakynni eftir þær úrbætur segir Þorsteinn Gunnarsson arkitekt:

„Sé gengið í bæinn eftir endurbætur, er fyrst komið í forstofu, sem eitt herbergja í húsinu hefur alla tíð haldist óbreytt að stærð og lögun… Úr forstofu er gengið í biðstofu, sem ásamt tveimur forrýmum báðum megin forstofu er klædd brjóstþili og að ásýnd áþekk innri gerð hússins á tímabilinu 1873-1917. Inn af biðstofunni eru í suðurenda hússins skrifstofuherbergi aðstoðarmanns ráðherra og fundarherbergi ríkisstjórnar, en í norðurenda fundarherbergi og skrifstofa forsætisráðherra. Þessi herbergi eru nú heilklædd innan eins og 1820, þrjú þeirra með nýsmíðuðu brjóstþili og römmum, en hið fjórða og fyrstnefnda þiljað innan með leifum af klæðningum úr sal Moltke greifa. Á efri hæð hússins er frágangur allur einfaldari og með svipuðu sniðir og tíðkaðist á fyrri hluta tuttugustu aldar.“

Stjórnarráðsbletturinn og stytturnar

Stjórnarráðshúsið

Tukthúsið 1820.

Árið 1787 var danskur maður, Henrik Scheel, skipaður ráðsmaður tugthússins. Hann var áhugamaður um garðrækt og gróðursetti m.a. tré á lóð hússins. Þau tré mörkuðu upphaf trjáræktar í Reykjavík. Hann var einnig með blóma- og matjurtagarða fyrir framan húsið og hafði þar vermireiti og listhús.

Stjórnarráðshúsð

Stjórnarráðshúsið.

Á dögum stiftamtmanna og landshöfðingja voru miklir matjurtagarðar í brekkunni og sjást þeir á elstu myndum af því. Bletturinn fyrir framan húsið náði alveg niður að Læknum og var brú yfir Lækinn gegnt húsinu með fallegu handriði báðum megin og veglegu hliði. Einnig var um tíma grindverk meðfram læknum fyrir framan blettinn. Grjótgarðar afmörkuðu lóðina við Bankastræti og Hverfisgötu ‒ eftir að hún kom 1905.

Þegar heimastjórnin komst á 1904 og húsið var gert að Stjórnarráði Íslands voru kálgarðar á Stjórnarráðsblettinum fljótlega aflagðir en ráðherrahestarnir voru gjarnan hafðir þar á beit meðan þeir voru við lýði. Lækurinn var byrgður árið 1912 og um það leyti var Stjórnarráðsbletturinn girtur af frá Lækjartorgi með steinstólpum og pottjárnsgirðingu. Árið 1925 var sams konar girðing sett meðfram Bankastræti en lengi var bárujárnsgirðing Hverfisgötumegin.

Stjórnarráðshúsið

Styttan af Jóni Sigurðssyni, leiðtoga sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld, var afhjúpuð við Stjórnarráðið 1911 þar sem hún stóð allt til ársins 1931 þegar hún var flutt á Austurvöll. Þar stendur Jón enn í dag og fylgist með alþingi og mannlífinu í miðbænum. Styttuna, og lágmyndina „Brautryðjandinn“ á stalli hennar, gerði Einar Jónsson myndhöggvari í tilefni af 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar (17. júní 1811 – 7.desember 1879) og var verkið gjöf frá Íslendingum austanhafs og vestan.

Stór flaggstöng var á Stjórnarráðsblettinum þar sem Dannebrog var flaggað í tíð stiftamtmanna, landshöfðingja og fyrstu ráðherranna. Þegar Íslendingar fengu eigin fána 1915 var önnur flaggstöng reist og var þá um þriggja ára skeið bæði Dannebrog og íslenska fánanum flaggað. Þessar stangir voru teknar niður eftir að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki 1918. Íslenska fánanum hefur síðan verið flaggað á vesturkvisti hússins.

Kristján IX

Sytta af Kristjáni IX. framan við Stjórnarráðshúsið.

Á 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar forseta 17. júní 1911 var höggmynd hans eftir Einar Jónsson myndhöggvara komið fyrir framan við Stjórnarráðsbygginguna og árið 1915 annarri af Kristjáni IX eftir sama mann.
Styttan af Jóni Sigurðssyni var flutt á Austurvöll 1931 en í stað hennar var afhjúpuð stytta af Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherranum, á þeim stað sem styttan af Jóni hafði áður staðið. Er hún einnig eftir Einar Jónsson.

Árið 1971 var Lækjargata breikkuð fyrir framan Stjórnarráðið og var þá Stjórnarráðsbletturinn minnkaður verulega og stytturnar fluttar ofar í lóðina. Girðingin fyrir framan húsið var þá tekin af en í stað hennar komu upphækkuð blómabeð með tröppum sem liggja að gangveginum að húsinu. Hefur svo verið síðan.

Heimild:
-https://www.stjornarradid.is/raduneyti/forsaetisraduneytid/stjornarradshusid/Stjórnarráðshúsið

Stytta af Hannes Hafstein framan við Stjórnaráðshúsið.