Reykjavík

Hér á eftir verður fjallað um helstu minnismerkin í Reykjavík, m.a. tekið saman af Eiríki Þ. Einarssyni, bókasafnsfræðingi:

Reykjavík 200 ára afmæli

Reykjavík

Reykjavík – minnismerki; 200 ára afmæli.

Þann 18. ágúst 1986 var haldið upp á 200 ára kaupstaðarafmæli Reykjavíkur. Talið var að 70 – 80 þúsund manns hafi verið í miðbænum þegar mest var. Þar var í boði stærsta terta, sem sögur fara af á Íslandi, 200 metra löng. Íslenska ríkið gaf Reykjavíkurborg Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju í afmælisgjöf. Flugeldasýning var rétt fyrir miðnættið.

Dagskrá hátíðarhaldanna hófst með opinberri heimsókn forseta Íslands, Vigdísar Finnbogadóttur, til borgarinnar. Síðan voru haldnar hátíðaguðsþjónustur, langborðsveislan í Lækjargötu og kvöldskemmtun á Arnarhóli. Formaður afmælisnefndar var Davíð Oddsson borgarstjóri.

Í Hljómskálagarðinum var margt um manninn, enda ýmislegt til skemmtunar. Meðal annars var þar danssýning, dýrasýning, hástökkskeppni og leiðbeiningar í lyftingum. Var Hljómskálagarðinum skipt í svæði, sem nefnd voru eftir því sem þar fór fram, t.d. dýragarður, dansgarður, kraftagarður og brúðugarður.

Reykjavík

Reykjavik – minismerki; 200 ára afmæli.

Á Austurvelli var sögugarður og í Fógetagarðinum var djass- og djúsgarður.

Minnismerkið var reist til minningar um framangreindan atburð. Það er þunn hraunhella, lík laufblaði upp á endann. Á henni er koparskjöldur með tákni 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar; “Reykjavík – Sveitarfélögin á Suðurnesjum”.

Hraunhellan er á auðu svæði rétt við auglýsingaskilti vestan gatnamóta Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Fótstallurinn er nú eitthvað farinn að molna.

Agnar Lúðvíksson (1918-2013)

Agnar Lúðvíksson

Reykjavík – minnismerki um Agnar Lúðvíksson.

Knattspyrnufélagið Víkingur.

Til minningar um Agnar Lúðvíksson, heiðursfélaga og velgjörðarmann.
Minningarskjöldurinn var reistur 24.4.2014. Björn Einarsson, formaður Knattspyrnufélagsins Víkings og Ólafur Þorsteinsson, formaður fulltrúaráðs Víkings afhjúpuðu skjöldinn.
Skjöldurinn er á stúku knattspyrnuvallarins í Fossvogi.
Agnar var dyggur stuðningsmaður Víkings – allt til dauðadags.

Albert Guðmundsson (1923-1994)

Albert Guðmundsson

Reykjavík – Albert Guðmundsson; stytta í Laugardal.

Minnismerkið er til minningar um Albert Guðmundsson fyrsta íslenska atvinnumanninn í knattspyrnu.

Samvinnuskólapróf 1944. Verslunarnám 1944–1946 við Skerry’s College, Glasgow, Skotlandi.

Atvinnumaður í knattspyrnu árum saman og þá búsettur í Glasgow, London, Nancy, Mílanó, París og Nice. Heildsali í Reykjavík 1956–1989. Skipaður 26. maí 1983 fjármálaráðherra, lausn 16. október 1985, skipaður 16. október 1985 iðnaðarráðherra, lausn 24. mars 1987. Sendiherra Íslands í París 1989–1993.

Forseti Alliance Française í fjölda ára. Ræðismaður Frakka 1962–1989. Stjórnarformaður Tollvörugeymslunnar hf. 1962–1983. Formaður Knattspyrnusambands Íslands 1968–1973. Borgarfulltrúi í Reykjavík 1970–1986, í borgarráði 1972–1983, forseti borgarstjórnar 1982–1983. Formaður byggingarnefndar Sjálfstæðishúss (Valhallar). Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1976–1987 og í framkvæmdastjórn flokksins 1978–1987. Stofnandi Borgaraflokksins og formaður hans 1987–1989. Í bankaráði Útvegsbanka Íslands 1980–1983. Í flugráði 1980–1983. Stjórnarformaður Hafskips hf. 1978–1983.

Albert Guðmundsson

Reykjavík – Albert Guðmundsson; áletrun á minnismerki.

Albert Sigurður Guðmundsson var fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu og lék meðal annars með Val, Glasgow Rangers, Arsenal og AC Milan. Að íþróttaferlinum loknum fór hann út í stjórnmál og var þingmaður á Alþingi í 15 ár og gegndi embætti fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra. Hann bauð sig fram í forsetakosningunum 1980 en tapaði fyrir Vigdísi Finnbogadóttur.

Styttan, sem er eftir Helga Gíslason myndhöggvara, stendur framan við Íþróttaleikvanginn í Laugardal, aðalstöðvar KSÍ. Hún var afhjúpuð árið 2010 af Albert Guðmundssyni, barnabarni Alberts.

Bjarni Benediktsson (1908-1970)
Formaður Sjálfstæðisflokksins 1961-1970.

Bjarni Benediktsson

Reykjavík – Bjarni Benediktsson; minnismerki framan við Valhöll.

Bjarni Benediktsson var prófessor í lögum við Háskóla Íslands 1932–1940. Borgarstjóri í Reykjavík 1940–1947. Skipaður 4. febrúar 1947 utanríkis- og dómsmálaráðherra, fór einnig með verslunarmál, lausn 2. nóvember 1949, en gegndi störfum til 6. desember. Skipaður 6. desember 1949 utanríkis-, dóms- og menntamálaráðherra, lausn 2. mars 1950, en gegndi störfum til 14. mars. Skipaður 14. mars 1950 utanríkis- og dómsmálaráðherra, lausn 11. september 1953. Skipaður sama dag dóms- og menntamálaráðherra, lausn 27. mars 1956, en gegndi störfum til 24. júlí. Ritstjóri Morgunblaðsins 1956–1959. Skipaður 20. nóvember 1959 dóms-, kirkju-, heilbrigðis- og iðnaðarmálaráðherra, leystur frá þeim störfum 8. september 1961 frá 14. september til 31. desember að telja og jafnframt falið að gegna störfum forsætisráðherra þann tíma, tók við fyrri störfum 1. janúar 1962, lausn 14. nóvember 1963. Skipaður sama dag forsætisráðherra og gegndi því starfi til æviloka.

Minnismerkið hefur verið framan við Valhöll við Brautartún, en verið fjarlægt vegna framkvæmda [2024].
Sama minnismerkið er við fyrrum ráðherrabústaðinn á Þingvöllum er varð eldi að bráð 10. júlí 1970. Bjarni Benediktsson var 62 ára, er hann lézt.

Séra Bjarni Jónsson (1881-1965)

Bjarni Jónsson

Reykjavík – Bjarni Jónsson; minnismerki.

Dr. Theol. – Vígslubiskup, dómkirkjuprestur 1910-1951 og heiðursborgari Reykjavíkur.

Bjarni var í framboði til embættis forseta Íslands árið 1952.

Bjarni lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1902 og lauk embættisprófi í guðfræði árið 1907 frá Kaupmannahafnarháskóla. Samhliða námi kenndi Bjarni við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Kvennaskólann í Reykjavík. Haustið 1907 varð hann skólastjóri Barnaskólans á Ísafirði. Hann varð prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík árið 1910, var prófastur í Kjarlarnesprófastsdæmi 1932-1938 og dómprófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi frá 1945-1951. Hann varð vígslubiskup í Skálholtsbiskupsdæmi forna frá 1937 og til æviloka. Starfsferill Bjarna var langur og hann var starfandi prestur og vígslubiskup í rúmlega hálfa öld. Hann varð heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands árið 1941 og hlaut ýmsar orður og heiðursmerki m.a. stórkross Hinnar íslensku fálkaorðu og hina dönsku Dannebrogsorðu. Bjarni var heiðursfélagi í fjölda félaga og árið 1961 varð hann heiðursborgari Reykjavíkurborgar en Bjarni þótti með þekktari borgurum Reykjavíkur og vakti athygli vegfarenda þegar hann gekk hempuklæddur milli Dómkirkjunnar og heimilis síns að Lækjargötu 12b.

Minnisvarðinn stendur við Dómkirkjuna í Reykjavík og er eftir Sigurjón Ólafsson.

Björg C. Þorláksson (1874-1934)

Björg C. Þorláksson

Reykjavík – Björg C. Þorláksson; minnismerki.

Dr.Phil. frá Sorbonne háskóla París 17. júní 1926.

Björg Caritas Þorláksson (fædd 30. janúar 1874 í Vesturhópshólum í Húnaþingi, dó 25. febrúar 1934 í Kaupmannahöfn), var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsnámi.

Foreldrar Bjargar voru hjónin Margrét Jónsdóttir (1835-1927) húsfreyja og Þorlákur Símon Þorláksson (1849-1908) bóndi og hreppstjóri í Vesturhópshólum. Systkini Bjargar sem upp komust voru Sigurbjörg Þorláksdóttir (1870-1932) kennslukona, Jón Þorláksson (1877-1935) forsætisráðherra og Magnús Þorláksson (1875-1942) bóndi að Blikastöðum í Mosfellssveit.

Brjóstmyndin, sem eftir Ásmund Sveinsson, gerð í París 1928, er á háum stöpli. Á stöplinum er eftirfarandi áletrun: “Björg C. Þoráksson 1874-1934, Dr. Phil. frá Sorbonne Háskóla, París 17. júní 1926 – Maður, lærðu að skapa sjálfan þig.”
Minnisvarðinn var reistur að frumkvæði áhugamanna og stendur við Odda, hús félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940)
Bríetarbrekka (2007)

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Reykjavík – Bríet Bjarnhéðinsdóttir; minnismerki.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir (27. september 1856 á Haukagili í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu – 16. mars 1940 í Reykjavík) var íslensk baráttukona fyrir réttindum kvenna, útgefandi og ritstjóri. Hún var kosin bæjarfulltrúi í bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík 1908 (sjá Kvennaframboð í Reykjavík 1908-1916). Hún bauð sig fram til Alþingis, fyrst kvenna. Hefði ekki verið fyrir ný lög um útstrikanir hefði Bríet orðið fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi. Hún var gift Valdimari Ásmundssyni ritstjóra Fjallkonunnar. Á Kvenréttindadeginum, þann 19. júní 2011 var minning hennar formlega heiðruð af Reykjavíkurborg.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Reykjavík – Bríet Bjarnhéðinsdóttir; minnismerki.

Í hring í plötu á miðjum reitnum eru eru þessar línur: ,,Stígðu ófeimin stúlka upp og stýrðu klæði, yfir geiminn yfir græði, allan heiminn skoða í næði”.

Ríkisstjórnin fól Kvennasögusafni Íslands árið 2004 að gangast fyrir því að Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og íslenskri kvennabaráttu yrði reistur minnisvarði. Í góðri samvinnu við borgarstjóra, garðyrkjustjóra og forstöðumann Listasafns Reykjavíkur var hér útbúinn minningarreitur um íslenska kvennabaráttu. Á steini að reitnum er áletrun: “Minningarreitur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, kvenréttindakonu, 1856-1940”.
Þann 7. nóvember 2007 var „Bríetarbrekka“ afhjúpuð.

Briet Bjarnhéðinsdóttir

Reykjavík – Bríet Bjarnhéðinssdóttir; minnismerki.

Minningarreitinn og listaverkið í honum gerði listakonan Ólöf Nordal. Verkið er unnið út frá veggteppi er Bríet saumaði handa dóttur sinni, Laufeyju Valdimarsdóttur. Í það eru saumaðar eftirfarandi ljóðlínur sem taldar eru eftir Bríeti: „Stígðu ófeimin stúlka upp og stýrðu klæði, yfir geiminn, yfir græði, allan heiminn skoða í næði.“ Skriftin líkir eftir skrift Bríetar í bréfum hennar.
Bríetarbrekku er ætlað að heiðra minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sérstaklega, en um leið minningu þeirra fjölmörgu kvenna sem lögðu sitt af mörkum til kvenréttindabaráttunnar.

Verkið er eftir Ólöfu Nordal myndlistakonu og stendur á lóð Þingholtsstrætis 7 í Reykjavík.

Annar minnisvarði um Bríeti er í Vatnsdal.

Einar Benediktsson (1864-1940)

Einar benediktsson

Reykjavík – Einar Benediktsson; minnismerki.

Einar Benediktsson var skáld, ritstjóri, lögfræðingur, embættis- og mikill athafnamaður. Einar er talinn í hópi nýrómantískra skálda og samdi mikil ljóð með hátimbruðu yfirbragði. Orðin: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ eru úr ljóði hans Einræður Starkaðar, III.

Faðir Einars var Benedikt Sveinsson, alþingismaður og sýslumaður og móðir hans hét Katrín Einarsdóttir, húsmóðir. Einar gekk í Lærða Skólann í Reykjavík þaðan sem hann varð stúdent 1884. Hann fór því næst til Kaupmannahafnar og útskrifaðist sem lögfræðingur úr Hafnarháskóla 1892.

Einar stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn, og var sjálfur ritstjóri þess í tvö ár. Hann átti þátt í stofnun Landvarnarflokksins árið 1902 og gaf út blaðið Landvörn samhliða því. Einar átti þátt í því að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1905. Hann kom einnig að útgáfu blaðanna Þjóðin (1914–15), Þjóðstefna (1916–17) og Höfuðstaðurinn (1916–17).

Einar Benediktsson

Reykjavík – Einar Benediktsson; minnismerki.

Einar var mikill áhugamaður um virkjun fallvatna og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð.

Á árunum 1907–21 ferðaðist Einar mikið. Hann fór til Noregs, Edinborgar í Skotlandi, sneri aftur til Kaupmannahafnar (1908-10) en eyddi svo sjö árum í London (1910–17) áður en hann fór enn aftur til Kaupmannahafnar (1917–21), þess í milli hafði hann stuttar viðkomur á Íslandi.

Höfði

Reykjavík – Höfði.

Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík á Reykjanesskaga.

Einar lést í Herdísarvík 1940 og var grafinn í þjóðargrafreit á Þingvöllum.

Listaverkið er eftir Einar Jónsson og stendur við Höfða í Reykjavík.

Eiríkur Hjartarson (1885-1981)

Eiríkur Hjartason

Reykjavík – Eiríkur Hjartason; minnismerki.

Eiríkur Hjartarson hóf trjárækt í Laugardal árið 1929.
Minnisvarðinn er lágmynd í steinsteypu eftir Ragnar Kjartansson og stendur í Grasagarðinum í Laugardal. Börn Eiríks gáfu minnisvarðann.

Verkið er staðsett í Grasagarðinum í Laugardal. Verkið er lágmynd í steinsteypu til minningar um Eirík Hjartarson sem var mikill áhugamaður um skógrækt. Verkið sem hoggið er í stein sýnir Eirík að störfum við að planta tré. Myndin er gjöf barna Eiríks, en hann hóf árið 1929 trjárækt á landi sínu sem hann nefndi Laugardal og svæðið allt dregur nú nafn af. Eiríkur stofnaði ásamt konu sinni Garðyrkjustöðina Laugardal sem var ein af fyrstu garðplöntustöðvum í Reykjavík og var seld til borgarinnar árið 1955.

Eiríkur Hjartarson

Reykjavík – Eiríkur Hjartarson; minnismerki.

Hann var rafvirkjameistari, ræktaði matjurtir og fleira í Laugardalnum frá 1920, á reit sem hann kallaði Engidal. Hann byggði sér hús og settist að í Laugardalnum 1929 og hóf þegar trjárækt með fjölskyldu sinni og stundaði ræktunarstörf á jörð sinni í Laugardal til ársins 1955 þegar hann flutti úr Laugardalnum og Reykjavíkurborg tók við starfi hans og þar er síðan Grasagarðinn í Laugardal. Hann átti einnig jörðina Hánefsstaði í Svarfaðardal og gróðursetti hann tæplega 100.000 tré á jörðinni, tré sem hann flutti úr Laugardalnum þar sem hann hafði ræktað þau af fræjum. Jörðina gaf hann síðar Skógræktarfélagi Eyfirðinga.

Elín Pétursdóttir Blöndal – Elínarlundur

Elín Pétursdóttir

Reykjavík – Elín Pétursdóttir Blöndal; minnismerki.

Elín Pétursdóttir Blöndal bjó í Eddubæ við Elliðaárnar. Hún ræktaði þennan trjálund árin 1942 til 1960.

Við gróskumikinn trjálund í ofanverðum Elliðaárdal sunnan ánna er á stóran stein fest dálítil messingplata með svofelldri áletrun: “Elínarlundur”. Elín Pétursdóttir Blöndal bjó hér í Eddubæ. Hún ræktaði þennan trjálund árin 1942-1969.

Steinnin með skiltinu stendur rétt norðan við Vatnsveituveginn milli stíflu og brúarinnar fyrir neðan Árbæjarsundlaug. Við steininn er kofi sem nánast skyggir á steininn.

Friðrik Friðriksson (1868-1961)

Friðrik Friðriksson

Reykjavík – Friðrik Friðrikssin; minnismerki.

Leiðtogi KFUM og KFUK.

Minnisvarðinn sem er eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara og var reistur árið 1955, stóð við Lækjargötu í Reykjavík. Verkið hefur verið tekið niður.

Séra Friðrik Friðriksson (f. 25. maí 1868 á Hálsi í Svarfaðardal – d. 9. mars 1961 í Reykjavík) var íslenskur prestur sem einkum er minnst fyrir aðild sína að stofnun ýmissa félagasamtaka sem höfðu mikil áhrif á þjóðlífið á Íslandi á 20. öld. Hann kom að stofnun KFUM og KFUK 1899, Knattspyrnufélagsins Vals 1911, Karlakórs KFUM sem síðar varð Karlakórinn Fóstbræður 1911, skátafélagsins Væringja 1913 og Knattspyrnufélagsins Hauka 1931.

Í samstarfi við KFUM og KFUK stofnaði hann sumarbúðirnar Vatnaskógur. Þar samdi hann mörg lög sem eru enn sungin í dag.

Stytta af honum er eftir Sigurjón Ólafsson.

Friðrik Friðriksson (1868-1961)

Friðrik Friðriksson

Reykjavík – Friðrik friðriksson; minnismerki.

Síra Friðrik Friðriksson.
Brjóstmyndina gerði Ríkarður Jónsson árið 1924. Á stöpli undir brjósmyndinni er eftirfarandi áletrun: “Látið kappið aldrei bera fegurðina ofurliði”.

Minnisvarðinn stóð á Hlíðarenda, íþróttasvæði Knattspyrnufélagsins Vals sem séra Friðrik stofnaði árið 1911 ásamt nokkrum KFUM-drengjum.

Síra Friðrik var einn af stofnendum knattspyrnufélagsins Vals árið 1911.

Brjóstmyndin hefur nú verið fjarlægð, einkum vegna múgæsingar þar sumir hafa “látið kappið bera fegurðina ofurliði”. Kapellan, sem var reist í minningu síra Friðriks, hefur þó fengið að standa sem minnismerki um þennan merka frumkvöðul og leiðtoga.

Georg Schierbeck (1847-1911)

Georg Schierbeck

Reykjavík – Georg Schierbeck; minnismerki.

Hans Jakob Georg Schierbeck var  landlæknir á Íslandi 1883 og starfaði til 1894.

Schierbeck fæddist í Óðinsvéum, sonur málmiðnaðarmanns þar í borg. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði árið 1876 og sótti síðar framhaldsmenntun í París og víðar.

Árið 1883 var Schierbeck settur landlæknir á Íslandi og gegndi þá jafnframt forstöðu Læknaskólans. Hann sagði sig frá embætti árið 1894 og flutti þá alfarinn frá Íslandi. Hann gerðist síðar stiftsyfirlæknir á Norður-Sjálandi.

Koma Schierbecks til Íslands 1883 hafði í för með sér ýmsar jákvæðar nýjungar í íslenskum heilbrigðisvísindum. Hann vakti athygli lækna á mikilvægi aukins hreinlætis, en talsvert hafði skort á í þeim efnum. Hann gerði sömuleiðis miklar rannsóknir á holdsveiki, sem var þrálátari sjúkdómur hér á landi en víðast hvar annars staðar í Evrópu.

Hann var hvatamaður að gróðurrækt í Reykjavík og var fyrsti formaður Hins íslenska Garðyrkjufélags. Minnisvarðinn stendur (2016) í Víkurkirkjugarði við Aðalstræti í Reykjavík, en er þar ekki lengur (2022).

Rannsóknastöðin að Neðra-Ási í Hveragerði gaf minnisvarðann sem Helgi Gíslason myndhöggvari gerði.

Minnisvarðinn um H. J. Georg Shierbeck er nú í Fógetagarðinum við Víkurkirkjugarð.

Gísli Halldórsson (1914-2012)
Arkitekt.

Gísli Halldórsson

Reykjavík – Gísli Halldórsson; minnismerki.

Þökkum frábær störf – ÍSI, ÍBR, OL, KR Reykjavíkurborg.

Gísli Halldórsson arkitekt var afar afkastamill á langri ævi. Hann lést 8.október 2012 þá 98 ára gamall. Hann teiknaði fjölda bygginga um ævina, svo sem Tollstöðina, Laugardalshöll, flugstöðvar og félagsheimili auk fjölda íbúðarhúsa. Fjallað var um Gísla í útvarpsþættinum Flakki 17. október 2015 á Rás 1.

Gísli var pólitíkus og íþróttafrömuður og vann ötullega að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Auk þess var hann afkastamikill í íþróttahreyfingunni.

Margrét Leifsdóttir arkitekt býr nú í húsi afa síns að Tómasarhaga 31. Mjög haglega hannað hús á tveimur plönum og stofan hvílir á mjóum súlum og svífur yfir garðinum. Súlur eru einkenni margra húsa Gísla.

Gísli rak teiknistofu sína í garðinum um tíma, en hann stækkaði bílskúrinn svo allir kæmust fyrir.

Gísli Einarsson

Reykjavík – Gísli Einarsson; minnismerki.

Enn er rekin þar teiknistofa. Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir og Hrefna Björg Þorsteinsdóttir reka Arkibúlluna í húsnæðinu og segja eins og Margrét sem nýlega gekk til liðs við þær, að Gísli hafa haft áhrif á störf þeirra, og þá sérstaklega heimilið sem ber fyrir augu þeirra alla daga.

Styttan af Gísla er eftir Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara og stendur við íþróttamiðstöðina í Laugardal.

Glitfaxi

Glitfaxi

Reykjavík – Glitfaxi: minnismerki.

Til minningar um þá sem farizt hafa í flugslysum – Flugmálafélag Íslands.

Minnisvarðinn stendur við Fossvogskirkju og er eftir Einar Jónsson myndhöggvara.

Annar minnisvarði um Glitfaxaslysið er í Fossvogskirkjugarði með nöfnum, þeirra sem fórust í slysinu.
Verkið er staðsett við austurenda Fossvogskirkju. Verkið er í eigu Flugmálafélags Íslands. Minnisvarðinn um Glitfaxa (1955) er eitt af síðustu verkunum sem Einar Jónsson gerði og hann samþykkti staðsetningu verksins skömmu fyrir andlát sitt. Minnismerkið stendur við hlið Fossvogskirkju og er til minningar um alla sem hafa farist í flugslysum. Glitfaxi er einnig tilvísun í þau sem fórust með áætlunarflugi Flugfélags Íslands, Glitfaxa, á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur 31. janúar 1951. Flugmálafélag Íslands lét setja verkið upp þann 15. október 1955. Minnisvarðinn stóð ómerktur fram til ársins 2006 en þá lét Flugmálafélag Íslands setja minningarplötu á fótstallinn. Nú má því lesa nafn verksins og listamannsins ásamt áletruninni: „Til minningar um þá sem farizt hafa í flugslysum.“

Guðmundur Magnússon (1881-1958)
Skálavörður í Lækjarbotnum.

Guðmundur Guðmundsson

Reykjavík – Guðmundur Magnússon; minnismerki.

Eitt sinn skáti ávallt skáti.
Reist fyrir hönd Skátafélags Reykjavíkur af foringjaklúbb S.F.R. í september 1966.

Guðmundur Magnússon hafði jafnan “skáti” að viðurnefni.

„Það sem best er varðveitt um Guðmund Magnússon klæðskera er að eftir að hann gerðist skáti á fullorðins aldri var hann umsjónarmaður með Væringjaskálanum í Lækjarbotnum og tók þar alltaf vel á mótu ungu skátunum. Sá skáli er nú í Árbæjarsafni, en brjóstmynd af Guðmundi er þar sem skálinn stóð í Lækjarbotnum. Afsteypa af henni er í heimili skátafélagsins Landnemar í Háuhlíð 9, R. Þar sem Guðmundur er með íslenska fánann á búningnum sínum er líklegt að hann hafi farið á Jamboree í Englandi 1929.“ (AK 2017)

Minnisvarðinn stendur í Lækjarbotnum þar sem jarðneskar leyfar Guðmundar hvíla.

Gunnar Bjarnason (1915-1998)

Gunnar Bjarnason

Reykjavík – Gunnar Bjarnason; minnismerki.

Fáksins dunandi hófahljóð
á hrynjandi guðlegs máls.

Af eldmóði með orðsins list kynnti Gunnar íslenska gæðinginn fyrir þjóðum heims.

Minnisvarðinn er sagður standa við höfuðstöðvar Hestamannafélagsins Fáks við Elliðaár. Nefndar höfuðstöðvar hafa nú [2024] verið fluttar upp í Víðidal. Við leit að minnismerkinu á nefndum stað fannst það ekki, enda svæðinu verið raskað vegna niðurrifs og framkvæmda. Minnismerkið fannst heldur ekki við leit hjá hinum nýju höfuðstöðvum Fáks.

Annar minnisvarði um Gunnar er á Hvanneyri í Borgarfirði.

Gunnar Thoroddsen (1910-1983)

Gunnar Thoroddsen

Reykjavík – Gunnar Thoroddsen; minnismerki.

Brjóstmynd af Gunnari Thoroddsen (1910-1983) fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra hefur nú verið komið fyrir á ný í borgarlandinu. Verkið er eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara (1908-1982) og stendur nú í Hallargarðinum við Fríkirkjuveg 11. Fasið og líkamsreisnin voru einkenni sem Sigurjón lagði mikla áherslu á ekki síður en höfuðlagið eitt eða andlitssvipur.

Brjóstmynd af Gunnari Thoroddsen (1910-1983) fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra hefur nú verið komið fyrir á ný í borgarlandinu. Verkið er eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara (1908-1982) og stendur nú í Hallargarðinum við Fríkirkjuveg 11. Fasið og líkamsreisnin voru einkenni sem Sigurjón lagði mikla áherslu á ekki síður en höfuðlagið eitt eða andlitssvipur.

Brjóstmyndin var fyrst sett upp við við æskuheimili Gunnars að Fríkirkjuvegi 3 árið 1985. Þegar húsið var selt var verkið tekið niður og því komið fyrir í geymslum Listasafns Reykjavíkur. Fjölskylda Gunnars gaf Reykjavíkurborg verkið og er það í umsjón Listasafns Reykjavíkur.

Gunnar Thoroddsen

Reykjavík – Gunnar Thoroddsen; minnismerki.

Það er vel við hæfi að brjóstmyndin standi í Hallargarðinum enda beitti Gunnar sér fyrir því í sinni borgarstjóratíð að gera almenningsgarð á þessum stað. Í skýrslu Braga Bergssonar um almenningsgarða í Reykjavík segir: „Sú uppbygging markaði kaflaskil í garðyrkjusögu landsins og olli straumhvörfum í hugsunarhætti almennings varðandi skipulag garða. Aðrar eins garðyrkjuframkvæmdir höfðu aldrei áður sést þar sem fjórir garðar voru sameinaðir í einn með allskyns bogalaga göngustígum, gróðurbeðum og tjörn.”

Garðurinn var formlega opnaður á kaupstaðarafmæli Reykjavíkur þann 18. ágúst árið 1954 og þótti mikil bæjarprýði. Garðurinn hefur hlotið nokkra andlitslyftingu samhliða endurgerð hússins við Fríkirkjuveg 11, sem Thor Jensen lét byggja árið 1908.

Minnisvarðinn er við Fríkirkjuveg 11.

Halldór Laxness fæddist á Laugavegi 32 – (1902-1998)

Halldór Laxnes

Reykjavík – Halldór laxnes; minnismerki.

„Fróðir menn segja mér að ég muni ekki hafa fæðst í timburhúsinu uppí lóðinni á Laugavegi 32 þar sem stelpan misti mig útum gluggann, heldur muni það hafa gerst í steinbænum fast við götuna þar sem kötturinn stökk uppí vögguna til þess að læsa klónum í andlitið á barninu meðan það svaf; og var heingdur fyrir vikið.“ [Í túninu heima.]

Halldór (Kiljan) Laxness var íslenskur rithöfundur og skáld, jafnan talinn einn helsti íslenski rithöfundurinn á 20. öld. Halldór hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955.

Minnismerkið á gangstéttinni framan við Laugarveg 32.

Hallgrímur Pétursson (1614-1674)
Hallgrímsharpan.

Hallgrímur Péturson

Reykjavík – Hallgrímur Pétursson; minnismerki.

Hallgrímsharpan er eftir Júlíus Schou og stendur við Dómkirkjuna.

Styttan var reist fyrir tilstilli Gríms Thomsens skálds og bónda á Bessastöðum og var hún afhjúpuð 2. ágúst 1885. Stöpull minnismerkisins er úr íslensku grágrýti, gerður af Juliusi Schou steinsmið í Reykjavík. Harpan er úr steyptum málmi, er erlend smíð og á að minna á list skáldsins, „er svo vel söng, að sólin skein í gegnum dauðans göng,“ en svo orti Matthías Jochumsson. Á framhlið varðans er nafn Hallgríms ásamt fæðingar- og dánarári letrað á ljósa marmaraplötu. Þar eru einnig letruð þessi orð úr Passíusálmunum:

„Fyrir blóð lambsins blíða
búinn er nú að stríða
og sælan sigur vann.“ (Ps. 25. 12.)

Árni Gíslason leturgrafari gróf áletrunina en hún var orðin illa farin og ólæsileg og því nauðsynlegt að grafa nýja plötu. Leturgerðin sem Árni notaði tíðkast ekki lengur og því hafi þurft að leita í handverksaðferðir liðinna tíma. Í bók Þóris Stephensen, Dómkirkjan í Reykjavík, er að finna mikinn fróðleik um kirkjuna og umhverfi hennar, þ.m.t. minnisvarða sr. Hallgríms. Þar segir að um 1500 til 2000 manns hafi verið viðstaddir afhjúpun styttunnar og hlýtt á ræðu Péturs Péturssonar biskups. Við athöfnina var sungið og hlýtt á leik lúðraflokks. [Mbl. 7/4/01]

Þessi minnisvarði er sennilega elsti minnisvarði á Íslandi.

Hannes Hafstein (1861-1922)
Skáld og ráðherra.

Hannes Hafstein

Reykjavík – Hannes Hafstein; minnismerki.

Fyrsti íslenski ráðherrann í dönsku ríkisstjórninni með aðsetur á Íslandi 1904-1909.

Hannes Hafstein var löfræðingur að mennt og var settur sýslumaður Dalamanna 1886, málaflutningsmaður við landsyfirrétt 1887 og 1890-1893, en á milli gegndi hann ýmsum lögfræðistörfum. Varð sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1896-1904. Ráðherra 1904-1909 og aftur 1912-1914. Bankastjóri Landsbankans 1909-1912 og 1914-1917. Hann gegndi einnig ýmsum nefndarstörfum fyrir þing og ríkisstjórn. Hannes er eitt af þjóðskáldum Íslendinga.

Verkið er staðsett við Stjórnarráð Íslands. Verkið er í eigu ríkisins. Þegar listamaðurinn Einar Jónsson kom fyrst til Reykjavíkur var ein stór stytta á almannafæri í Reykjavík, sjálfsmynd Bertels Thorvaldsens sem stóð á miðjum Austurvelli.

Hannes Hafstein

Reykjavík – Hannes Hafstein; minnismerki.

Það kom þannig í hlut Einars að móta styttur af mönnum sem þóttu hafa markað spor í sögu landsins, á fyrstu áratugum 20. aldar, og ber að líta á þau verkefni sem vitnisburð um ríkjandi þjóðernismiðaða orðræðu á Íslandi á þeim tíma. Höggmynd Einars af Hannesi Hafstein (1931), fyrsta íslenska ráðherranum var sannarlega í þeim anda. Hannes stendur hnarreistur á háum stalli vinstra megin fyrir framan Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu og horfir út yfir Reykjavíkurhöfn. Höggmyndin kallast á við höggmynd Einars af Kristjáni IX. Danakonungi sem stendur á sams konar stalli, hægra megin við innganginn að Stjórnarráðshúsinu.

Styttan frá 1923 er eftir Einar Jónsson og stendur fyrir framan Stjórnarráðið við Lækjartorg í Reykjavík.

Annar minnisvarði um Hannes Hafstein er á Ísafirði.

Héðinn Valdimarsson (1892-1948)

Héðinn Valdimarsson

Reykjavík – Héðinn Valdimarsson; minnismerki.

Héðinn Valdimarsson var fæddur í Reykjavík. Skrifstofustjóri Landsverslunar 1917-1926, meðal stofnenda Tóbaksverslunar Íslands hf. 1926 og var framkvæmdastjóri hennar til 1929, stofnaði Olíuverslun Íslands hf. árið 1927 og var framkvæmdastjóri hennar til æviloka. Bæjarfulltrúi í Reykjavík 1922-1928, formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1922-1924, 1927-1935, 1938-1940 og 1941, í landsbankanefnd 1928-1931, í bankaráði Landsbankans 1930-1934, formaður Byggingafélags alþýðu frá stofnun 1931, í skipulagsnefnd atvinnumála 1935, í samninganefnd við Ítali 1935 og við Breta 1936, formaður fiskimálanefndar 1935-1937, formaður Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins 1938-1939. Alþingismaður Reykvíkinga 1926-1942 (fyrir Alþýðuflokk, Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn og utan flokka).

Standmyndin var gerð fyrir Byggingarfélag alþýðu og er enn í eigu húsfélags alþýðu, en á sínum tíma var Héðinn einn helsti forystumaður byggingarsamtaka verkamanna.

Helgi Hóseasson (1919-2009)
Krossláfur

Helgi Hóseasson

Reykjavík – Helgi Hóseasson; minnismerki.

Helgi Hóseasson var íslenskur trésmiður, trúleysingi og sósíalisti sem er þekktastur fyrir mótmæli sín og var síðustu ár sín stundum nefndur Mótmælandi Íslands. Mótmæli Helga stóðu allt frá árinu 1962 til síðustu ára hans. Mótmælin beindust í fyrstu gegn meintum órétti, sem honum fannst hann hafa verið beittur af íslenska ríkinu allt frá fæðingu, en síðar einnig stuðningi íslensks ríkisvalds við stríð og ójöfnuð.

Bekknum var komið fyrir á horni Holtsgötu og Langholtsvegar af Vísindafélagi MS og versluninni BECO – anspænis þeim stað er Helgi stóð jafnan daglangt í öllum veðrum með mótmælaspjald sitt.

Dr. Helgi Pjeturss (1872-1949)

Helgi Pjeturss

Reykjavík – Helgi Pjeturss; minnismerki.

Hann opnaði nýja sýn á ísöldina og jarðmenjar hennar. Til minningar um framlag Helga til jarðfræði Íslands þegar öld er liðin frá því að hann varð doktor í jarðfræði, fyrstur Íslendinga.Minnisvarði reistur í desember 2005 fyrir atbeina afkomenda hans.Vangamynd gerði Ívar Valgarðsson eftir ljósmynd Jóns Kaldal.

Minnisvarðinn er bakatil utan á Öskju, húsi náttúrufræða við Háskóla Íslands. Hvers vegna minnisvarðanum var komið fyrir bakatilvið húsið er hulin raðgáta?

Aðrir minnisvarðar um Dr. Helga Pjeturss eru við bæinn Hlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og í Hellisholtum í Hreppum.

Hilmar Helgason (1941-1984)

Hilmar Helgason

Reykjavík – Hilmar Helgason; minnismerki.

Í minningu Hilmars Helgasonar fyrsta formanns SÁÁ frá þakklátum alkohólistum og fjölskyldum þeirra.
Höggmyndin er eftir Einar Jónsson og kallast Andi og efnisbönd.

„Á sínum tíma varð Hilmar Helgason landsfrægur sem formaður og aðaldriffjöður SÁÁ. Hann var eldhuginn, hugmyndabankinn og aðalhvatamaðurinn að breyttum hugsunarhætti hérlendis gagnvart sjúkdómnum alkóhólisma, sem áður hafði verið stimplaður sem aumingjaskapur og rónaháttur. En líkt og frami hans varð snöggur og mikill, varð fall hans hátt þegar hann „sprakk“ og fór erlendis um tíma.“

Hilmar Helgason var fyrsti formaður SÁÁ. Hann veitti samtökunum forystu fyrstu og erfiðustu árin. Afstaða almennings til áfengissjúkra var önnur þá en nú, þekking minni og dómharka meiri. Á brattann var að sækja og þá komu hæfileikar hans í ljós. Bjartsýni Hilmars og dugnaður fleytti félaginu í gegnum ótrúlegustu erfiðleika, enda hafði hann sérstakan hæfileika til að laða fólk til fylgis við hugmyndir sínar og áform.
Hilmar drukknaði að lokum í Bláa lóninu.

Minnismerkið er sunnan við aðkeyrsluna að Vogi.

Hjallavöllur
Hjálmar Kristinsson.

Hjallavöllur

Reykjavík – Hjallavöllur; minnismerki.

Í minningu Hjálmars Kristins Aðalsteinssonar (1954-2020) íþróttakennara og spaðaíþróttamanns.

Þann 4. september 2020 var afhjúpaður minningarskjöldur um Hjálmar Kristinn Aðalsteinsson fyrrverandi íþróttakennara í Hagaskóla á nýlegum tennisvelli við norðurhlið Íþróttahúss Hagaskóla. Hjálmar var ötull talsmaður spaðaíþrótta og margfaldur meistari, landsliðsmaður og þjálfari í borðtennis auk þess að vera góður tennisleikari og talsmaður þeirrar íþróttar.

Hópur úr 1954 árganginum í Vesturbæ Reykjavíkur hafði forystu um að setja skjöldinn upp í samráði við fjölskyldu Hjálmars, Hagaskóla og Reykjavíkurborg. [Hagaskóli.is].

Hirósima

Hirosima

Reykjavík – Hirosima; minnismerki.

Verkið er staðsett við Tjörnina. Friðarsteinn frá Hiroshima er staðsettur við grasflöt við suðvesturhorn Tjarnarinnar þar sem árleg kertafleyting fer fram til að minnast þeirra sem létust í kjarnorkusprengingum á Hiroshima 6. ágúst og Nagasaki þann 9. ágúst 1945. Verkið er gjöf frá Samtökunum Stone for Peace Association of Hiroshima sem stofnuð voru 1991 af fyrrverandi framkvæmdastjóra járnbrautalestanna í Hiroshima þegar sprengjunni var varpað. Verkið er gert úr steini sem var notaður í undirstöður járnbrautateinanna en skipt var út á sínum tíma og hafa hátt í hundrað ríki þegið slíka steina að gjöf. Í þá er höggvin gyðja miskunnseminnar, sem kallast “Kannon” á japönsku, auk letursins “From Hiroshima”. Steinninn lá 200 metra frá miðju sprengingarinnar. Sérstaklega er tilgreint í greinargerð um Friðarstein frá Listasafni Reykjavíkur að hann sé algjörlega hættulaus og að mælingar á geislavirkni sýni að hún sé langt innan þeirra marka sem miðað sé við.

Hólmfríður Guðjónsdóttir (1937-2015) – Valur Sigurbergsson (1940)

Hólmfríður Guðjónsdóttir

Reykjavík – Hólmfríður Guðjónsdóttur; minnismerki.

“Með þakklæti fyrir gott og farsælt starf í þágu Óháða safnaðarins”.

Hólmfríður var m.a. formaður Óháða safnaðarins í 15 ár.

Minnisvarðinn stendur fyrir framan kirkju Óháða safnaðarins.

Minnisvarðinn er steinn norðvestan við kirkjuna og á hann er áfastur skjöldur með framangreindri áletrun.

Ingibjörg H. Bjarnason (1867-1941)

Ingibjörg H. Bjarnason

Reykjavík – Ingibjörg H. Bjarnason; minnismerki.

Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kjörin til setu á alþingi. Hún var landskjörin og sat á þingi árin 1922-1930, fyrst fyrir Kvennalistann eldri, síðar fyrir Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Hún gegndi embætti 2. varaforseta efri deildar þingsins árin 1925-1927.

Höggmyndin (styttan) af Ingibjörgu H. Bjarnason afhjúpuð framan við Skálann, viðbyggingu Alþingishússins, 19. júní 2015, á hátíðarsamkomu þegar 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna var fagnað.

Myndhöggvarinn er Ragnhildur Stefánsdóttir og var frummyndin unnin í gifs á vinnustofu Ragnhildar frá ágúst 2014 til mars 2015. Hún var svo steypt í brons og patíneruð á bronsverkstæðinu Kunstgießerei Kollinger GmbH í Elchingen í Þýskalandi.

Á stöplinum er áletrun um Ingibjörgu: “Ingibjörg H. Bjarnason, 14. des. 1867-30.okt.1941. Fysrt kvenna kjörin til setu á Alþingi. Alþingismaður 1920-1930. Gjöf tilAlþingis á 100 ára afmæli korningarréttar kvenna 2015”.

Hugmynd listamannsins er að stöpullinn og verkið af Ingibjörgu kallist á við 100 ára gamalt verk af Jóni Sigurðssyni.

Ingibjörg H. Bjarnason

Reykjavík – Ingibjörg H. Bjarnason; minnsimerki.

Stöplarnir spegla hvor annan – kvenform og karlform. Stöpull Jóns er pýramídaform, lokað og karllægt, tákn um stigveldi, en þegar pýramídanum er snúið við verður hann opið form og kvenlægt, tákn um valddreifingu. Þó að Ingibjörg standi ein á sínum stöpli komast þó fleiri fyrir. Hún hefur ásamt mörgum öðrum konum leitt baráttuna fyrir konur. Hún var fyrst kvenna kjörin á þing. Hún var brautryðjandi rétt eins og Jón. Listamaðurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að stöplar Ingibjargar og Jóns kallist á. Formin speglast og Ingibjörg og Jón líta líka hvort til annars.

Gjöf til alþingis á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna 2015.

Verkið sem er eftir Ragnhildi Stefánsdóttur, var afhjúpað 19. júni 2015 og stendur við Alþingishúsið.

Ingólfur Arnarson

Ingólfur Arnarsson

Reykjavík – Ingólfur Arnarsson; minnismerki.

Ingólfur Arnarson fyrsti landnámsmaðurinn.
Styttan af Ingólfi stendur á Arnarhóli í miðbæ Reykjavíkur. Hana gerði Einar Jónsson myndhöggvari árið 1923.

Verkið er staðsett á Arnarhóli. Verkið er í eigu ríkisins. Eitt helsta kennileiti Reykjavíkur er styttan af landnámsmanninum Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Styttan sýnir mann í herklæðum sem stendur við öndvegisbrík, prýdda drekahöfði, og heldur um reistan atgeir. Hún var afhjúpuð þann 24. febrúar 1924. Styttan sem er úr bronsi var reist af Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík og kostaði 40 þúsund krónur sem töldust þá miklir fjármunir. Minnisvarðinn átti sér langan aðdraganda en grunnhugmyndina gerði Einar síðla árs 1902-1903 þegar hann mótaði litla styttu af Ingólfi. Hann hélt áfram að vinna að henni næstu ár og sýndi hana á sýningu De Frie Billedhuggere í Kaupmannahöfn vorið 1906.

Ingólfur Arnarsson

Reykjavík – Ingólfur Arnarsson; minnismerki.

Að lokum var Einar fenginn til að búa til styttu af landnámsmanninum en fjársöfnunin gekk ekki sem skyldi. Árin liðu og það var ekki fyrr en 1924 að bronsstyttan var afhjúpuð. Í upphafi vildi Einar að lágmyndir væru á öllum hliðum fótstalls styttunnar með titlunum Flótti guðanna til Íslands fjalla, Ragnarökkur, Nornir og Ingólfshaugur. Þar var Einar að vísa í hugmyndir sínar um landnámið í táknrænum búningi en menn skildu ekki lágmyndirnar og vildu þær burt og varð það niðurstaðan.

Afsteypa af þessu verki stendur í Noregi.

Jean Baptiste Charcot (1867-1936)

Jean Batista Charco

Reykjavík – Jean Batista Charcot; minnismerki.

Dr. Jean Baptiste Charcot.

Fæddur í París 15.7.1867, fórst með skipi sínu Pourqui pas? á Þormóðsskeri 16.9.1936.

Hann unni Íslandi og þar mun minningin um hann og skip hans lifa.

Vangamyndin er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Minnisvarðinn stendur við Öskju, hús náttúrufræða við Háskóla Íslands.

Vangamyndin er eftir Ríkarð Jónsson.

Minnismerkið er á steini baka til við Öskju, ásamt veggminnismerkinu af Helga Pjeturss.

Jón Sigurðsson (1811-1879)

Jón Sigurðsson

Reykjavík – Jón Sigurðsson; minnismerki.

Jón Sigurðsson leiðtogi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld.

Jón Sigurðsson var fæddur á Rafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811. Hann var frelsishetja og leiðtogi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld og bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Hann lést 7. desember 1879. Kona hans hét Ingibjörg Einarsdóttir, f. 9. október 1804 og lést 16. desember 1879. Þau voru barnlaus.

Styttan af Jóni Sigurðssyni forseta við Austurvöll er eftir Einar Jónsson myndhöggvara og upphaflega reist við Stjórnarráðshúsið árið 1911, á 100 ára ártíð Jóns Sigurðssonar, en flutt á Austurvöll, gegnt Alþingishúsinu, árið 1931. Íslendingar austan hafs og vestan söfnuðu fé til að láta gera styttuna. Afsteypa af henni er í Kanada.

Lágmyndina „Brautryðjandinn“ sem er á stalli styttunnar af Jóni Sigurðssyni, gerði Einar Jónsson myndhöggvari í tilefni af 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar 1911.

Jón Sigurðsson

Reykjavík – Jón Sigurðsson; minnismerki (lágmynd).

Verkið er staðsett á Austurvelli. Styttan af Jóni Sigurðssyni er á miðjum Austurvelli. Hún var flutt þangað árið 1931. Sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson stendur hnarreistur og horfir á Alþingishúsið. Styttan stóð fyrst fyrir framan Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu (afhjúpuð þar 10. apríl 1911 af Kristjáni Jónssyni ráðherra). Síðar tók hún við af sjálfsmynd Bertels Thorvaldsens á Austurvelli en hún var flutt í Hljómskálagarð. Einari líkaði illa við að styttan væri sett upp á pall. Honum fannst hún halla aftur á bak. Það kom í hlut Einars að móta styttur af mönnum sem þóttu hafa markað spor í sögu landsins, á fyrstu áratugum 20. aldar, og ber að líta á þau verkefni sem vitnisburð um ríkjandi þjóðernismiðaða orðræðu á Íslandi á þeim tíma. Styttan af Jóni Sigurðssyni er eitt skýrasta dæmi um slíkan minnisvarða.

Jón Sigurðsson

Reykjavík – Jón Sigurðsson; minnismerki (á bakhlið).

Einar gaf íslenska ríkinu lágmyndina í bronsi þegar standmyndin af Jóni Sigurðssyni var afhjúpuð árið 1911 við Stjórnarráðið og var lágmyndin felld að stöplinum. Árið 1931 var standmynd Jóns færð á Austurvöll á nýjan og hærri stöpul og fylgdi Brautryðjandinn með. Brautryðjandinn er táknmynd um eiginleika Jóns Sigurðasonar og framlag hans til sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Á bakhlið stöpulsins er minningarskjöldur með eftirfarandi áletrun: “Jón Sigurðsson forseti 17.061811-7.12.1879. Leiðtogi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld. Styttuna og lágmyndina; Brautryðjandinn” gerði Einar Jónsson myndhöggvari í tilefni af 10 ára afmæli Jóns Sigurðssonar 1911. Íslendingar austan hafs og vestan gáfu styttuna. Hún var reist við Stjórnarráðshúsið 1911 en flutt á Austurvöll 1931.”

Jón Vídalín (1666-1720)

Jón Vídalín

Reykjavík – Jón Vídalín; minnismerki.

Jón Þorkelsson Vídalínvar biskup í Skálholti, lærdómsmaður, mikill prédikari og helsta latínuskáld sinnar tíðar.
Jón var sonur séra Þorkels Arngrímssonar, prests í Görðum á Álftanesi, sonar Arngríms lærða, og konu hans Margrétar Þorsteinsdóttur. Hann tók sér snemma nafnið Vídalín eins og margir afkomendur Arngríms. Bræður hans voru þeir Þórður Þorkelsson Vídalín, skólameistari í Skálholti um tíma en síðan bóndi í Þórisdal í Lóni, og Arngrímur Vídalín skólameistari í Nakskov í Danmörku. Systir þeirra var Guðrún prófastsfrú á Þingvöllum.

Hann stundaði skólanám hjá frænda sínum, Páli Björnssyni í Selárdal. Síðan sigldin hann og lærði við Kaupmannahafnarháskóla, samtíða Árna Magnússyni, og lauk þaðan guðfræðiprófi. Síðan var var um tveggja ára skeið sjóliði í danska flotanum og mun hafa átt von á að hækka fljótt í tign en þegar það varð ekki keypti móðir hans hann lausan með milligöngu Kristofers Heidemann landfógeta.

Jón Vídalín

Reykjavík – Jón Vídalín; minnismerki.

Hann kom svo heim til Íslands 1691, sagður fátæklega til fara. Árið eftir varð hann kennari við Skálholtsskóla og 1693 dómkirkjuprestur í Skálholti. Hann varð svo prestur í Görðum og var valinn biskup í Skálholti 1697 (vígður 1698), aðeins sex árum eftir að hann kom heim. Við það tækifæri færði hann Þingvallakirkju bjöllu sem nú hangir þar í klukkuturninum.

Jón Vídalín var mikill mælskumaður og kennimaður. Hann er þekktastur fyrir rit sitt Vídalínspostillu sem er húslestrarpostilla, með einni predikun fyrir hvern hátíðisdag ársins, ætluð til upplestrar á heimilum. Postillan var ein mest lesna bók á Íslandi um tveggja alda skeið og hafði veruleg áhrif á íslenska menningu, trúarlíf og bókmenntir fram á 20. öld. Jón var, auk Hallgríms Péturssonar, einn helsti fulltrúi lúthersku rétttrúnaðarstefnunnar (píetismans) á Íslandi.

Minnisvarðinn stendur við Dómkirkjuna í Reykjavík og er eftir Ríkarð Jónsson.

Jónas Hallgrímsson (1809-1845)

Jónas Hallgrímsson

Reykjavík – Jónas Hallgrímsson; minnismerki.

Jónas var sonur Hallgríms Þorsteinssonar aðstoðarprests og Rannveigar Jónasdóttur. Hann átti þrjú systkini. Á öðru ári fluttist Jónas ásamt fjölskyldu sinni til Steinsstaða í Öxnadal og var það árið 1809. Faðir hans drukknaði í Hraunsvatni árið 1816 og var Jónas þá sendur í fóstur að Hvassafelli í Eyjafirði, þar sem móðursystir hans bjó. Síðar var honum komið til náms hjá séra Jóni lærða Jónssyni í Möðrufelli. Þar hlaut hann kennslu veturinn 1819-20. Jónas var fermdur vorið 1821 heima í Öxnadal. Því næst fór hann í heimaskóla í Goðdölum í Skagafirði þar sem hann stundaði nám veturna 1821-1823 hjá séra Einari H. Thorlacius, tengdasyni Jóns lærða. Þaðan lá leið hans til Bessastaðaskóla og þar var hann við nám í sex vetur til 1829.

Að loknu stúdentsprófi starfaði Jónas sem skrifari hjá Ulstrup bæjar- og landfógeta í Reykjavík þar sem hann bjó einnig. Þá starfaði hann sem verjandi í nokkrum málum fyrir landsrétti. Segir sagan að Jónas hafi beðið Christiane Knudsen veturinn 1831-32, en hún hafi hafnað honum.

Jónas Hallgrímsson

Reykjavík – Jónas Hallgrímsson; minnismerki.

Jónas hélt til Kaupmannahafnar til náms árið 1832. Hann lagði í fyrstu stund á lögfræði, en skipti síðar yfir í bókmenntir og náttúrufræði og er þekktur fyrir störf sín á þeim sviðum. Hann lauk svokölluðu fyrsta og öðru lærdómsprófi, báðum með 1. einkunn. Jónas fékk styrk úr ríkissjóði til rannsókna á náttúrufari Íslands og vann að því verki árin 1839-1842. Eftir það hélt hann til í Danmörku. Hann fékk styrk til að skrifa landlýsingu Íslands. Einnig ritstýrði hann Fjölni, sem hann hafði stofnað ásamt nokkrum öðrum Íslendingum á námsárunum. Voru þeir kallaðir Fjölnismenn.

Jónas lést í Kaupmannahöfn 26. maí 1845. Löngu seinna voru bein hans flutt til Íslands og þau jarðsett í þjóðargrafreit á Þingvöllum

Stytta af Jónasi eftir Einar Jónsson var afhjúpuð 1907 við Lækjargötu en var síðan færð árið 1947 í Hljómskálagarðinn þar sem hún stendur í dag.

Annar minnisvarði um Jónas er í Öxnadal.

Jónas Jónsson frá Hriflu (1885-1968)

Jónas Jónsson

Reykjavík – Jónas Jónsson; minnismerki.

Brjóstmyndin á minnisvarðanum er eftir Einar Jónsson myndhöggvara og stendur [stóð] minnisvarðinn á horni Sölvhólsgötu og Ingólfsstrætis í Reykjavík.

Jónas frá Hriflu fæddist á Hriflu í Bárðardal og lést í Reykjavík.
Hann var kennari og síðar skólastjóri Samvinnuskólans. Var í nefndum og bankaráðum um árabil.
Þingmaður og ráðherra 1922-1949.

Hann var einnig afkastamikill rithöfundur og skrifaði greinar og bækur. Ævisaga hans kom út á árunum 1991-93 eftir Guðjón Friðriksson, Indriði G. Þorsteinsson ritaði viðtalsbók við Jónas 1977 og Jónas Kristjánsson sá um útgáfu á bók um Jónas sem kom út árið 1965.

Við leit að minnisvarðanum 2024 á framangreindum stað fannst hann hvergi.

Kjartan Sveinsson (1913-1998)

Kjartan Sveinsson

Reykjavík – Kjartan Sveinsson; minnismerki.

Kjartanslundur.
Til heiðurs Kjartani Sveinssyni starfsmanni Rafmagnsveitu Reykjavíkur fyrir þrotlausa umhyggju í áratugi fyrir trjárækt í Elliðaárdalnum.

Rafmagnsveita Reykjavíkur 1995.

Minnisvarðinn stendur í Elliðaárdalnum skammt fyrir neðan félagsheimili Rafveitunnar. Á skildi á steini má lesa eftrifarandi: “Kjartanslundur – Til heiðurs kjartani Sveinssyni starfsmanni Rafmagnsveitur reykjavíkur fyrir þrotlausa umhyggju í áratugi fyrir trjárækt í Elliðadalnum. Rafmagnsveitur Reykjavíkur”.

Kristján IX

Kristján IX

Reykjavík – Kristján IX; minnismerki.

Kristján IX. konungur Danmerkur og Íslands.
Styttan stendur fyrir framan Stjórnarráðið við Lækjartorg í Reykjavík.

Kristján 9. var konungur Danmerkur 1863 – 1906.
Verkið er staðsett fyrir framan Stjórnarráðið. Þann 26. september 1915 var minnisvarði um Kristján IX. Danakonung afhjúpaður við Stjórnarráðshúsið í Reykjavík. Styttan sýnir konung með stjórnarskrána í framréttri hendi. Það hefur verið mörgum ráðgáta hvers vegna Íslendingar hafa kosið að stilla upp styttu af Danakonungi fyrir framan Stjórnarráðið. Kristján IX sýndi sjónarmiðum Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni alla tíð lítinn áhuga en meginrökin fyrir því að styttan sé þarna niður komin eru væntanlega þau að hann hafi gefið Íslendingum stjórnarskrá. Nú hefur verið upplýst að Kristján afhenti Íslendingum aldrei stjórnarskrána þegar hann kom í heimsókn til Íslands árið 1874. Hún kom ekki til landsins fyrr en árið 1904 og var send aftur utan árið 1928.

Kristján IX

Reykjavík – Kristján IX; minnismerki.

Því má segja að styttan sé sögufölsun. Að öðru leyti er styttan lík öðrum styttum sem Einar gerði af karlmönnum sem höfðu áhrif á sögu landsins. Kristján konungur er settur á háan stall og er upphafin eftirlíking.

Einar Jónsson gerði styttuna árin 1907-08. Er hún í eigu ríkisins.

Kona

Kona

Reykjavík – Kona: minnismerki.

Verkið er staðsett við Grund dvalar- og hjúkrunarheimili. Verkið er í eigu Grundar dvalar- og hjúkrunarheimilis. Í höggmyndinni “Kona” má sjá tákn um trúnaðarsamtal við Guð, konan heldur á krossi og leggur við brjóst sitt. Höggmyndin virðist fjalla um kærleikann og öryggi, sem táknræn eru fyrir hlutverk móður og móðurást sem Einari var hugleikin. Guðdómlegt eðli mannsins og andleg þróun voru meðal viðfangsefna í listsköpun Einars og má sjá slíka tengingu í yfirbragði höggmyndarinnar.
Ekki er um eiginlegt minnismerki að ræða er það miklu frekar von um slíkt. Það er í bogadregnum garði millum Grundar og Litlu-Grundar, matsal þess síðarnefndu.

Bæði starfsfólk og vistfólk Grundar hafa miklar mætur á “minnismerkinu”.

Lárus Sigurbjörnsson (1903-1974)
Skjala- og minjavörður.

Lárus Sigurbjörnsson

Reykjavík – Lárus Sigurbjörnsson; minnismerki.

Lárus Sigurbjörnsson (22. maí 1903 – 5. ágúst 1974) var íslenskur rithöfundur, leikskáld og minjavörður. Foreldrar Lárusar voru Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason og Guðrún Lárusdóttir. Móðir hans var kosin á Alþingi 1930 en lést í bílslysi árið 1938 með tveimur systrum Lárusar.

Á árunum 1954 til 1968 var hann forstöðumaður Minjasafns Reykjavíkur og varð sá fyrsti til að gegna því embætti. Hann beitti sér fyrir stofnun Árbæjarsafns. Árbæjarsafn var fyrsta útisafnið á Íslandi og var opnað árið 1957.

Hann lagði grunn að Árbæjarsafni.

Minnisvarðinn stendur í Árbæjarsafni, skammt frá Dillonshúsi.

Leifur Eiríksson

Leifur Eiríksson

Reykjavík – Leifur Eiríksson; minnismerki.

Leifur heppni Reykjavík.

Leifur heppni Eiríksson (um 980 — um 1020) var landkönnuður sem er sagður hafa komið til Norður-Ameríku fyrstur Evrópubúa.

Talið er að Leifur hafi fæðst um árið 980 á Íslandi, sonur Eiríks rauða Þorvaldssonar og Þjóðhildar konu hans. Hann flutti með foreldrum sínum til Grænlands ungur að árum, ásamt bræðrum sínum, Þorvaldi og Þorsteini.

Í Grænlendinga sögu segir frá því að Leifur keypti skip Bjarna Herjólfssonar sem hafði áður villst til Norður-Ameríku, en steig ekki á land.

Um árið 1000 sigldi Leifur frá Grænlandi og kom fyrst að Hellulandi (líklega Baffinsland). Hann sigldi því næst sunnar og kemur nú að skógi vöxnu landi (Marklandi), líklega Labrador. Að lokum er talið að hann hafi komið til Nýfundnalands. Leifur nefndi það Vínland eftir að hann fann þar vínber. Einnig voru þar ár fullar af fiski og grasið grænt árið um kring. Á Vínlandi byggðu Leifur og fylgismenn hans nokkur hús og höfðust við yfir veturinn.

Leifur Eiríksson

Reykjavík – Leifur Eiríksson; minnismerki.

Á heimleiðinni til Grænlands bjargaði Leifur 15 skipsbrotsmönnum af skeri og fékk upp úr því nafngiftina ‚hinn heppni‘.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli er kennd við Leif heppna.

Í Bandaríkjunum er 9. október ár hvert kallaður Dagur Leifs Eiríkssonar, og er til að minnast Leifs heppna og landafunda norrænna manna í Vesturheimi.

Í tilefni af Alþingishátíðinni 1930 gáfu Bandaríkjamenn Íslendingum minnismerki um Leif heppna, sem sett var upp á Skólavörðuholti. Styttan, sem er eftir myndhöggvarann Alexander Stirling Calder, var afhjúpuð 17. júlí 1932.

Verkið er eftir Alexander Stirling Calder og stendur á Skólavörðuholti framan við Hallgrímskirkju. Hann vann í samkeppni um styttuna. Eftirmynd stendur í bænum Newport News í Virgina í Bandaríkjunum.

Marteinn Meulenberg (1872-1941)
Biskup.

Marteinn Meulenberg

Reykjavík – Marteinn Meulenberg: minnismerki.

Marteinn Meulenberg S.M.M. biskup 1929-1941.

Brjóstmyndina gerði Guðmundur Einarsson frá Miðdal, listamaður.

Brjóstmyndin var afhjúpuð árið 1992.

Marteinn fæddist í Hillensberg í Þýskalandi. Faðir hans var þýskur en móðirin hollensk. Séra Meulenberg tilheyri Montfortreglunni sem er kaþólsk prestaregla og nefnist Societas Mariae Montfortana (skammstöfun: SMM) á latínu. Hann kom til Íslands árið 1903 og hafði þá verið tvö ár sóknarprestur í Danmörku.

Þegar Ísland varð fullvalda ríki, árið 1918, sótti séra Meulenberg fyrstur útlendra manna um ríkisborgararétt á Íslandi. Í samband við fullveldið stofnaði Páfastóll sjálfstæða trúboðskirkju fyrir Ísland og varð Marteinn Meulenberg yfirmaður hennar.

Martin Meulenberg

Reykjavík – Martin Meulenberg: minnismerki.

Árið 1929 var trúboðskirkjan gerð að postullegu umdæmi og séra Meulenberg stjórnandi. Hann var vígður biskup í nýju kaþólsku dómkirkjunni, Landakotskirkju í Reykjavík, í júlí sama ár. Það gerði yfirmaður trúboðsdeildarinnar í Róm, „De Propaganda Fide“, kardínálinn William van Rossum, og varð Marteinn þar með fyrsti biskupinn í hinni endurreistu kaþólsku kirkju á Íslandi og sá fyrsti eftir siðaskipti, frá því Jón Arason var biskup. Hann var Hólabiskup. Meulenberg dó árið 1941.
Minnismerkið er við Kaþólsku kirkjuna.

Nína Tryggvadóttir (1913-1968)

Nína Tryggvadóttir

Reykjavík – Nína Tryggvadóttir; minnismerki.

Í minningu Nínu Tryggvadóttur.

Nína Tryggvadóttir, skírð Jónína, var íslensk myndlistakona og ljóðskáld. Hún vann á ýmsum miðlum en málaði aðallega abstraktverk.

Móðir Nínu hét Gunndóra Benjamínsdóttir, húsmóðir, og faðir hennar Tryggvi Guðmundsson, kennari að mennt en hann rak verslun á Seyðisfirði, þar sem Nína fæddist, fram að 1920 þegar fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur. Nína átti tvo bræður, Ólaf fæddan 1910 og Viggó fæddan 1918 auk þess átti hún fimm hálfsystkin. Þegar til Reykjavíkur var komið hóf Nína nám við Barnaskóla Reykjavíkur og svo seinna við Kvennaskóla Reykjavíkur.

Ásgrímur Jónsson, listmálari, var nágranni fjölskyldunnar og hefur hann líklegast leiðbeint Nínu um meðferð og beitingu olíulita. Um þetta leyti hefur þó lítið borið á menningu og listum. Listvinafélagið var stofnað 1919 og heldur fyrstu formlega listaverkasýninguna sama ár.

Nína var ekki viss í sinni sök hvað hún ætti að gera. Foreldrar hennar hvöttu hana til þess að læra matseld en þá þegar var ljóst að hún hneigðist heldur til listrænnar tjáningar. Árið 1933 hóf Nína að læra listmálun hjá Finni Jónssyni og Jóhanni Briem listmálurum og tveimur árum seinna hélt hún til Kaupmannahafnar þar sem hún stundaði listnám á árunum 1935-39.

Nína Tryggvadóttir

Reykjavík – Nína Tryggvadóttir; minnismerki.

Að námi sínu loknu og stuttri dvöl í París undir lokin sneri Nína aftur heim til Íslands. Seinni heimsstyrjöldin skall á og Nína varð því áfram hér á landi þótt hana langaði aftur út. Þá hélt hún sína fyrstu einkasýningu í atvinnuhúsnæði kunningja árið 1942, níu árum áður en Listasafn Íslands var stofnað.

Á árunum 1943-46 dvaldi Nína í New York með styrk frá íslenska ríkinu. Þar stundaði hún, og annar Íslendingur, Louisa Matthíasdóttir, nám hjá þýskum listamanni, Hans Hofmann, sem flúið hafði stríðið. Á meðan á námi hennar stóð var Nínu boðið að sýna við listagallerí og sömuleiðis að vinna leikmynd við Macmillan leikhúsið við Columbia háskólann í New York sem þótti mikill heiður.

Verkið er eftir Sigurjón Ólafsson og stendur framan við Kjarvalsstaði.

Ólafur Thors (1892-1964)
Alþingismaður og ráðherra.

Ólafur Thors

Reykjavík – Ólafur Thors; minnismerki.

Styttan er eftir Sigurjón Ólafsson og stendur framan við Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu í Reykjavík.

Framkvæmdastjóri togarafélagsins Kveldúlfs hf. í Reykjavík 1914–1939. Skipaður 14. nóvember 1932 dómsmálaráðherra, lausn 23. desember 1932. Skipaður 17. apríl 1939 atvinnumálaráðherra, lausn 7. nóvember 1941, en gegndi störfum til 18. nóvember. Skipaður 18. nóvember 1941 atvinnumálaráðherra að nýju, lausn 16. maí 1942. Skipaður 16. maí 1942 forsætis- og utanríkisráðherra, lausn 14. nóvember 1942, en gegndi störfum til 16. desember. Skipaður 21. október 1944 forsætis- og utanríkisráðherra, lausn 10. október 1946, en gegndi störfum til 4. febrúar 1947. Skipaður 6. desember 1949 forsætisráðherra og félagsmálaráðherra, lausn 2. mars 1950, en gegndi störfum til 14. mars. Skipaður 14. mars 1950 sjávarútvegs- og iðnaðarmálaráðherra, lausn 11. september 1953. Skipaður sama dag forsætis- og sjávarútvegsmálaráðherra, lausn 27. mars 1956, en gegndi störfum til 24. júlí. Skipaður 20. nóvember 1959 forsætisráðherra, lausn 14. nóvember 1963.

Ólafur Thors

Reykjavík – Ólafur Thors; minnismerki.

Formaður Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda 1918–1935. Formaður Sjálfstæðisflokksins 1934–1961. Skipaður 1925 í gengisnefnd. Kosinn 1926 í alþingishátíðarnefnd, en skoraðist undan að taka sæti í henni. Sat í landsbankanefnd 1928–1938 og í samninganefnd við Norðmenn um kjöttoll 1932. Í dansk-íslensku ráðgjafarnefndinni 1937–1942, orðunefnd 1939–1944. Í skilnaðarnefnd 1944, í bankaráði Landsbankans 1936–1944 og frá 1948 til æviloka. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1947 og 1948.

Óþekkti embættismaðurinn

Óþekkti embættismaðurinn

Reykjavík – Óþekkti embættismaðurinn; minnismerki.

Verkið er staðsett fyrir utan Iðnó. Verkið er tveggja metra hár skúlptúr úr bronsi og basalti. Verkið er bæði fígúratívt og abstrakt þar sem efri hluti verksins er hreinlega klöpp en sá neðri eftirlíking af líkama embættismanns í viðeigandi fatnaði, þ.e. jakkafötum með skjalatösku í hönd. Skjalataskan er nú á dögum táknræn fyrir skrifstofumann liðins tíma en verkið er táknmynd sem er í eðli sínu tímalaus. Embættismaðurinn virðist tiltölulega afslappaður, með aðra hönd í vasa, þrátt fyrir að hafa byrðar og ábyrgð heimsins á herðum sér. Hér hefur Magnús leikið sér bæði að ólíkum efnum og efnistökum og útkoman í senn kómísk og áhrifarík.

Verkið stóð frá upphafi í garði fyrir aftan Hótel Borg, nánar tiltekið milli Lækjargötu og Pósthússtrætis, en hefur fengið mun sýnilegra heimili fyrir framan Iðnó. Flutningurinn átti sér stað árið 2012 fyrir tilstilli Listasafns Reykjavíkur til að gera verkið sýnilegra og Magnús sagði sjálfur um óþekkta embættismanninn við afhjúpunina fyrir framan Iðnó: „Nú er hann kominn af stallinum og niður á jörðina.“

Sigurjón Óskar Gíslason (1910-1986)

Sigurjón Óskar Gíslason

Reykjavík – Sigurjón Óskar Gíslanson; minnismerki.

Ofan við Grímsstaðavör.

Á sjávarkambinum framan við húsin er gamalt spil. Á spilið er fest lítil plata, sem aðeins sést ef vel er að gáð. Platan er merkt grásleppukarlinum Sigga í Járnhúsinu, Sigurjóni Óskari Gíslasyni. Járnhúsið var járnklætt timburhús við Fálkagötu 14 en þar bjó hann ásamt foreldrum sínum um tíma. Sigurjón var járnsmiður og sjómaður. Hann réri helst úr Grímsstaðavör.

Þetta er sennilega ein minnsta minningarplata sem um getur.

Við skoðun 2024 hafði platan, því miður, verið fjarlægð af spilinu.

Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946)

Sigvaldi Kaldalóns

Reykjavík – Sigvaldi Kaldalóns; minnismerki.

Minnisvarðinn er eftir Helga Gíslason og stendur í Grjótaþorpi.

Sigvaldi Kaldalóns (Stefánsson) var íslenskt tónskáld og læknir.

Meðal þekktustu laga Sigvalda eru t.d. Ísland ögrum skorið; Á Sprengisandi; Suðurnesjamenn; Svanasöngur á heiði; Erla, góða Erla; Ave María; Draumur hjarðsveinsins, Þú eina hjartans yndið mitt og Ég lít í anda liðna tíð.

Sigvaldi nam læknisfræði við Læknaskólann í Reykjavík og hélt að því loknu í framhaldsnám til Kaupmannahafnar. Þar kynnti hann sér danska og erlenda tónlist. Í Kaupmannahöfn kynntist hann einnig verðandi eiginkonu sinni, Karen Margrethe Mengel Thomsen.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldur Kaldalóns í Grindavík.

Þegar heim kom starfaði hann vetrarlangt sem læknir á Hólmavík en fékk síðan veitingu fyrir læknishéraði við Inn-Djúpið og bústað á Ármúla í Nauteyrarhreppi nálægt Kaldalóni vorið 1911. Hann hreifst mjög af náttúrunni þar í kring og tók síðar upp ættarnafnið Kaldalóns árið 1916. Frostaveturinn mikla 1917-18 veiktist Sigvaldi af taugaveiki og náði sér aldrei fyllilega eftir það. Hann fluttist frá Ármúla 1921. Hann dvaldist á Vífilstaðahæli og fór síðan utan til Kaupmannahafnar á heilsuhæli. Þegar honum hafði batnað sótti hann um Flateyjarhérað árið 1926 og var veitt það. Þar samdi hann lagið við ljóð Eggerts Ólafssonar, Ísland ögrum skorið .

Aðrir minnisvarðar um Sigvalda Kaldalóns eru í Grindavík, í Flatey á Breiðafirði og í Kaldalóni, Nauteyrarhreppi.

Skúli Magnússon (1711-1794)

Skúli Magnússon

Reykjavík – Skúli Magnússon; minnismerki.

Skúli Magnússon  lærði lögfræði í Kaupmannahöfn án þess þó að taka próf, fékk Austur-Skaftafellssýslu og síðar vestursýsluna líka,1734-1736. Fékk Hegranesþing í Skagafirði 1737, var ráðsmaður Hólastóls 1741-1746. Fór síðan til Reykjavíkur og varð landfógeti 1749 fyrstur Íslendinga og bjó í Viðey frá 1751. Hann var helsti hvatamaðurinn að stofnun Innréttinganna í Reykjavík og um umbætur í verslunarrekstri meðal annars. Hann fékk lausn frá embætti 1793 og lést árið eftir. Kona hans var Guðrún Björnsdóttir Thorlacius og áttu þau 7 börn.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur gaf Reykjavíkurbæ styttu þessa til minningar um 100 ára frjálsa verslun á Íslandi 1954. Styttan er eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal og stendur í Víkurkirkjugarði við Aðalstræti, skammt frá þeim stað er Innréttingar Skúla voru byggðar.

Minnisvarðinn um Skúla Magnússson er í Fógetagarðinum (Víkurkirkjugarði) í miðborg Reykjavíkur.

Annar minnisvarði um Skúla Magnússon er í Skúlagarði, S-Þing. og í Stóru-Ökrum, Skagafirði.

Stanislas Bohic (1948-2012)

Stanislas Bohic

Reykjavík – Stanislas Bohic; minnismerki.

Vinabekkur í Laugardal.
Áletrun: “Til heiðurs föður okkar Stanislas Bohic 1948-2012”.
Friðrik og Arnór Bohic.

Stanislas Michéle André Bohic, landslagsarkitekt, fæddist 12. febrúar árið 1948 í Bordeaux í Frakklandi. Hann fluttist frá Frakklandi til Íslands árið 1978 og bjó hér alla tíð síðan. Stanislas lærði við háskólann La Ferte de Milton og útskrifaðist sem landslagsarkitekt árið 1971.

Hann vann til margra verðlauna fyrir hönnun sína. Margir fallegir garðar eftir Stanslas prýða götur borgarinnar. [Mbl.]

Bekkurinn er í Laugardal, skammt frá Grasagarðinum.

Steingrímur Jónsson (1890-1975)

Steingrímur Jónsson

Reykjavík – Steingrímur Jónsson; minnismerki.

Rafmagnsstjóri í Reykjavík 1921-1960.
Brjóstmyndin, eftir Aage Nielsen-Edwin Sculpteur Danois 1952, er við rafstöðina í Elliðaársdal.

Segja má að Steingrímur Jónsson sé „stóri maðurinn“ í rafvæðingarsögu Íslands á tuttugustu öld. Hann kom til sögunnar um það leyti sem Íslendingar voru að stíga sín fyrstu meiri háttar skref við virkjun náttúruaflanna, vatnsorkunnar og jarðvarmans, en undir hans forystu voru stigin risaskref sem miðuðu að því að koma Íslandi í röð iðnvæddra ríkja.
Hann lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Kaupmannahöfn fyrstur Íslendinga árið 1917.

Skömmu síðar tóku stjórnendur Reykjavíkurbæjar ákvörðun um að stofna rafmagnsveitu og ráðast í virkjun Elliðaánna. Var það langstærsta verkefni Íslendinga við beislun rafmagns, en fram að því var Seyðisfjörður eini bær landsins sem teljast mátti rafvæddur.

Steingrímur Jónsson

Reykjavík – Steingrímur Jónsson; minnismerki.

Steingrímur var ráðinn til að stýra þessu óskabarni Reykvíkinga. Rafmagnsveitan tók formlega til starfa um leið og Elliðaárstöðin árið 1921 og Steingrímur gegndi stöðu rafmagnsstjóra (forstöðumanns Rafmagnsveitunnar ) til sjötugs. Á þeim tíma urðu miklar breytingar á orkumálum Reykvíkinga. Elliðaárstöðin var stækkuð og kannað var hvort virkja mætti jarðvarmann í Þvottalaugunum til raforkuframleiðslu. Boranir í Laugunum hófust undir stjórn Steingríms, en síðar varð úr að nýta heita vatnið beint til húshitunar með því að koma upp hitaveitu í Reykjavík.

Sverrir Runólfsson (1831-1879)
Skólavarðan.

Reist í minningu Sverris Runólfssonar fyrsta steinsmiðs Íslands.

Skólavarðan

Reykjavík – Skólavarðan; minnismerki.

Sverrir Runólfsson steinhöggvari var fæddur á Maríubakka í Hörgslandshreppi í Skaftafellssýslu 9. júní 1831. Foreldrar hans voru hjónin
Runólfur Sverrisson hreppstjóri og Guðrún Bjarnadóttir. Runólfur, faðir Sverris, var orðlagt karlmenni og einhver mesti og djarfasti vatnamaður í Skaftafellssýslu. Synir hans voru hinir fræknustu menn. Nægir í því sambandi að benda á ferð þeirra bræðra, Runólfs og Eyjólfs, að fjallabaki árið 1958. Var þá annar þeirra 21, en hinn 19 ára. Ráku þeir bræður fjárrekstur og lögðu af stað um Mikjálsmessu um naustið frá Maríubakka til Krýsuvíkur í Gullbringusýslu og fóru Fjallabaksleið. Lentu þeir í hinum mestu mannraunum. Má um ferð þessa lesa í Gráskinnu, og er þáttur Jóns Þorkelssonar landsskjalavarðar.

Grásteinn ehf og Steinkompaníið byggðu Skólavörðuna.

Þakkir til Verkís. B.M. Vallá, Viðhald og nýsmíði.
Þór Sigmundsson.

Sveinbjörn Beinteinsson (1924-1993)
Allsherjargoði og skáld.

Sveinbjörn Beinteinsson

Reykjavík – Sveinbjörn Beinteinsson; minnismerki.

Sveinbjörn Beinteinsson var einn af stofnendum Ásatrúarfélagsins og fyrsti allsherjargoði félagsins frá stofnun þess 1972 til dánardags 1993.
Hann fæddist í Grafardal norðan við Botnsheiði þann 4. júlí 1924, en var jafnan kenndur við Dragháls í sömu sveit, þar sem hann bjó lengst af.
Sveinbjörn var skáld gott, kvæða- og fræðimaður, og eftir hann liggja nokkrar ljóðabækur og kver, auk bókarinnar Bragfræði og háttatal, sem er undirstöðurit kvæðamanna. Hann var skógræktaráhugamaður og mikið náttúrubarn. Sveinbjörn var stoð og stytta Ásatrúarfélagsins á mótunarárum þess og allt til dánardags og varð heimsþekktur fyrir. Sveinbjörn lést þann 23.desember 1993. [Ásatrú]

Dalahalur háu nærri fjalli
hreinn og beinn í háttum var
hlýr og skýr í spjalli. S.B.

Thor Jensen (1863-1947) – Margrét Kristbjörg Kristjánsdóttir (1867-1945)

Thor Jensen

Reykjavík – Thor Jensen; minnismerki.

Minnisvarði um Thor Jensen og konu hans Margréti Kristbjörgu Kristjánsdóttur.

Thor Philip Axel Jensen (f. 3. desember 1863 í Danmörku, d. 12. september 1947) var danskur athafnamaður sem fluttist ungur til Íslands og varð þjóðþekktur fyrir umsvif sín á fyrri hluta 20. aldar. Útgerðarfélag hans Kveldúlfur hf. var það stærsta á Íslandi á millistríðsárunum. Synir hans urðu þjóðþekktir sömuleiðis, Ólafur Thors var forsætisráðherra Íslands og Thor Thors var fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Minnisvarðinn stendur í Hallargarðinum við húsið sem Thor Jensen reisti í miðborg Reykjavikur, við Fríkirkjuveg. Minnisvarðann gerði Helgi Gíslason myndhöggvari.

Tómas Guðmundsson (1901-1983)

Tómas Guðmundsson

Reykjavík – Tómas Guðmundsson; minnismerki.

Tómas Guðmundsson skáld fæddist á Efri-Brú í Grímsnesi 1901. Segja má að Tómas hafi verið iðinn við útgáfustörf. Til að mynda var hann einn af frumkvöðlum útgáfu tímaritsins Helgafells og síðar Nýs Helgafells. Hans helstu verk eru meðal annars: Myndir og minningar 1956, Léttara hjal 1975 og Að haustnóttum 1976. Einnig skrifuðu þeir Tómas og Sverrir Kristjánsson og gáfu út tíu binda verk með æviþáttum fólks frá liðinni tíð. Árið 1960 kom út Svo kvað Tómas; samtalsbók Matthíasar Johannessens og Tómasar. Samtalsbókin var seinna gefin út árið 1990 í bókinni Vökunótt fuglsins. Þýðingarstörf Tómasar eru talsverð. Tómas Guðmundsson er þó fyrst og fremst þekktur sem ljóðskáld og er hann talinn eitt af stórskáldum Íslands á 20. öldinni.

Tryggvi Gunnarsson (1835-1917)

Tryggvi Gunnarsson

Reykjavík – Tryggvi Gunnarsson; minnismerki.

Minnisvarði um Tryggva Gunnarsson þingmann og bankastjóra í Alþingisgarðinum sem var Tryggva hjartans mál að rækta og gera fallegan.

Tryggvi var stofnandi og kaupfélagsstjóri Gránufélagsins á Akureyri en átti að mestu heima í Kaupmannahöfn frá 1873 þar til hann tók við bankastjórastöðu Landsbankans 1893. Hann var þingmaður flest ár frá 1869 til 1907 og gegndi ýmsum nefndastörfum og embættum þinsins. Tryggvi gegndi ýmsum félagsstörfum í Reykjavík og var í bæjarstjórn. Hann sá um byggingu Ölfusárbrúar 1891.

Tryggvi lést 21. október 1917 og er hann jarðsettur í Alþingisgarðinum.

Minnisvarðinn er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara og stendur á leiði Tryggva í Alþingisgarðinum.

Þorsteinn Einarsson (1858-1914)
Íþróttafulltrúi.

Þorsteinn Einarsson

Reykjavík – Þorsteinn Einarsson; minnismerki.

Brjóstmynd Þorsteins Einarssonar er í Laugardal.

“Ég eignaðist ungur það hugfang að fylgjast með fuglum og leggja hlustir við raddir þeirra. Ég varð bergnuminn (Fuglahandbókin Þ.E. 1987).”

“Á sínum efri árum gengu Þorsteinn og kona hans Ásdís daglega um Laugardalsgarðinn og gáfu fuglunum á þessari flöt. Þetta var þeirra unaðsreitur.”

Minnisvarðinn stendur í Laugardalnum og brjóstmyndina gerði Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari árið 2002.

Jeg trúi því sannleiki,
að sigurinn þinn
að síðustu vegina jafni.

Hann orti mikið og er ádeila á kirkju og ríkjandi hefðir í þjóðfélaginu ríkur þáttur í skáldskap hans. Að öðrum þræði var hann mikill unnandi þjóðlegra hefða og náttúru landsins og speglast hvort tveggja í ljóðum hans.

Meðal þekktra ljóða eftir hann eru Í Hlíðarendakoti („Fyrr var oft í koti kátt“) og Snati og Óli („Heyrðu snöggvast, Snati minn“) sem flest skólabörn syngja


Þórbergur Þórðarson (1888-1974)

Þórbergur Þórðarson

Reykjavík – Þórbergur Þóraðarson: minnismerki.

Í þessu húsi bjó og starfaði rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson 1943-1974.
,,Ég fagna aldrei svo ljósi dagsins að ég tárist ekki yfir heimsku og mannúðarleysi”.

Þórbergur Þórðarson (12. mars 1888 á Hala í Suðursveit – 12. nóvember 1974 í Reykjavík) var íslenskur rithöfundur. Hann ólst upp í sveit og fór ungur til Reykjavíkur til að vinna á skútu. Árið 1924 kom út fyrsta stóra bók hans, Bréf til Láru, sem olli gríðarlegu uppnámi og gerði Þórberg þjóðfrægan og illræmdan á einni nóttu.

Þórbergur Þórðarson

Arnarhólstraðir

Reykjavík – Arnarhólstraðir; minnismerki.

Arnarhólstraðir
“Arnarhólstraðir eru gamla þjóðleiðin ofan til Reykjavíkur og mótar enn fyrir þeim hér á Arnarhóli. Leiðin lá frá Arnarhólsholti, sem síðar nefndist Skólavörðuholt, að vaðinu við ós Arnarhólslækjar. Þegar nýir stígar voru lagðir á hólnum 1993 var ákveðið að varðveita gamla stíginn frá 1924 þar sem hann liggur yfir þessa fornu þjóðleið. Traðirnar eru á fornleifaskrá Reykjavíkur og eru friðaðar samkvæmt þjóðminjalögum.”

Flugstuðull

Reykjavík

Reykjavík – minnsimerki; Flugstöðull.

“Fyrsta flug á Íslandi 3.9.1919”.

Minnisvarðinn er stuðlabergsstandur. Á honum er koparskjöldur með framangreindri áletrun.
Minnisvarðinn er austan Njarðargötu skammt norðan Sturlugötu.

Flugslys árið 2000
Flugslys Reykjavík
Minnisvarði þessi er reistur í minningu þeirra sem létust af völdum flugslyssins í Skerjafirði 8. ágúst 2000.

Gunnar Viðar Árnason f. 16.10.1977 – d. 8.8.2000
Heiða Björk Viðarsdóttir f. 19.6.1980 – d. 10.8.2000
Jón Börkur Jónsson f. 24.1.1983 – d. 16.6.2001
Karl Frímann Ólafsson f. 7.9.1965 – d. 7.8.2000
Mohamed Jósef Daghlas f. 20.8.1971 – d. 7.8.2000
Sturla Þór Friðriksson f. 10.5.1983 – d. 1.11.2001

Sólin settist í líf þeirra en geislarnir lifa áfram með okkur.
Minnisvarðinn er innst á Skeljanesi, vestan götunnar.

Flugslys í Skerjafirði

Minnisvarði um norska flugmenn

Reykjavík – Minnisvarði í Nauthólsvík; minnismerki.

Norskir flugliðar á Íslandi.

Liðsmenn úr 330. flugsveit þakka íslensku frændþjóðinni hjálp og aðstoð sem þeim var veitt á Íslandi.

Reist til minne om den norske 330 squadron som fra april 1941 til april 1943 opererte fra Reykjavik, Akureyri og Budareyri.

Minnisvarðinn stendur í Nauthólsvík.

Minningarorð er beggja vegna á minnisvarðanum.

Staðsetningin er áhugaverð með hliðsjón að fortíðinni.

Wirta ,,Sykurskipið“

Wirta

Reykjavík – Wirta; minnismerki.

Skipið hét Wirta (áður; NIPPON) og strandaði það á Leirboða í Skerjafirði 24. janúar árið 1941 nánar tiltekið um klukkan 11 um morguninn. Það var u.þ.b. 7.000 smálestir.

Samkvæmt samtíða heimildum var talað um það meðal sjómanna við Faxaflóa að kolareykur frá Reykjavík hafi byrgt áhöfn skipsins sýn á leið þess til Reykjavíkur og orðið þess valdur að skipinu var siglt í strand. Sjómenn sögðu að þessi mikli kolareykur hafi einnig nokkru áður gert það að verkum að áhöfn bresks togara sigldi skipi sínu í strand á sama stað. Svo virðist sem þeim togara hafi verið bjargað af strandstað.

Minnismerkið er við hús Sundkafarafélagsins í Nauthólsvík.

 

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavík – Reykjavíkurflugvöllur: minnismerki.

– vagga flugs á Íslandi –

Endurbyggður 1999-2002.

Formlega vígður af Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra
1. nóvember 2002.

Minnisvarðinn er á Reykjavíkurflugvelli.

Gróðrarstöðin í Reykjavík

Jarðrækt

Reykjavík – Jarðrækt: minnismerki.

Steinn þessi er reistur þegar 100 ár voru liðin frá upphafi samfelldra jarðræktartilrauna á Íslandi.

… brauð veitir sonum móðurmoldin frjó (Hannes Hafstein)

Búnaðarfélag Íslands hóf á þessum stað tilraunir í jarðrækt
undir stjórn Einars Helgasonar árið 1901.

Minnisvarðinn stendur í garði Gróðrarstövarinnar við Laufásveg, þar sem saman koma gamla Hringbautin og Laufásvegur.

Höfði – Minningarlundur
Nicholas Ruwe.

Höfði

Reykjavík – Höfði; minnismerki.

Trees planted in memory of U.S. Ambassador Nicholas Ruwe (1985-1989). Diplomat, Benefactor and Life-long Friend of Iceland Whose idea to host the Summit meeting between Ronald Reagan and Mikhael Gorbachev at Hofdi house on October 11-12 1986 made it the setting for a decisive moment in the ending of the Cold War and earned it a lasting place in the History of mankind.

Höfði er hús í Borgartúni í Reykjavík byggt 1909, Franski konsúllinn Jean-Paul Brillouin átti upprunalega aðsetur þar. Seinna átti Einar Benediktsson skáld húsið um nokkurt skeið og bjó í því með fjölskyldu sinni. Árið 2015 var styttan af Einari eftir Ásmund Sveinsson, sem staðið hafði á Miklatúni, flutt að Höfða og sett upp austanmegin við húsið.

Höfði

Reykjavík – Höfði; minnismerki.

Íslandsfundurinn á milli Ronalds Reagan og Mikhaíls Gorbatsjev átti sér stað þar 1986. Fáni Bandaríkjanna og fáni Sovétríkjanna hanga þar til minnis um fundinn.

Í ágúst 1991 komu utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna til fundar í Höfða, en þá var sjálfstæðisbarátta ríkjanna á lokastigi. Hittust þeir í Höfða ásamt Jóni Baldvin Hannibalssyni, þáverandi utanríkisráðherra og Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra. Á þessum fundi í Höfða viðurkenndu Íslendingar sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna fyrstir allra þjóða.

Snarfari

Snarfari

Reykjavík – Snarfari; minnismerki.

Snarfari var stofnaður 1975.
Framkvæmdir hófust hér vorið 1985.
Á minnisvarða við aðalstöð félagsaðstöðuna má lesa eftirfarandi; “Guð blessi þetta bátalægi og alla þá sem hingað koma og héðan fara.”
Gamlir félagar.

Minnisvarðinn stendur á svæði siglingaklúbbsins Snarfara við Elliðavog.

Ekkert er getið um tilefni eða tilurð minnismerkisins.

Minnismerkið stendur vel fyrir sínu, en virðist nútíma félagsmönnum lítt áhugavert.

Til að greiða fyri næstu skráningu minnismerkja á vefsíðunni reynist mikilvægt að innfella þessa setningu.

Knattspyrnufélagið Víkingur

Víkingur

Reykjavík – Víkingur; minnismerki.

Stofnað 21 apríl 1908.
Fulltrúaráð Víkings reisti steininn í minningu frumkvöðlanna í september 2011.

Minnisvarðinn stendur á félagssvæði Víkings í Fossvogsdal.

Knattspyrnufélagið Þróttur

Hér var Knattspyrnufélagið Þróttur stofnað, 5. ágúst 1949.

Reist af velunnurum 5. ágúst 2009.

Minnisvarðinn stendur í Grímsstaðavör í Reykjavík.

 

Kirkja í Breiðholti

Breiðholt

Reykjavík – kirkja í Breiðholti; minnismerki.

Hér stóð kirkja fyrr á öldum.
Rotary-klúbburinn Reykjavík – Breiðholt

Elstu heimildir um jörðina Breiðholt eru frá 14. öld. Elsta örugga heimildin er skrá frá 1395 yfir jarðir sem Viðeyjarklaustur eignaðist í tíð Páls ábóta. Þó er talið líklegt að jarðarinnar sé getið í eldri heimild, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá 1313, þar sem talað er um jörðina „Holt“, en þar er sennilega átt við Breiðholt.

Vísbendingar eru um að við bæinn hafi verið kirkjugarður og kirkja, en mannabein fundust nokkrum sinnum við jarðrask á bæjarhólnum og í nágrenni hans í lok 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar.
Kirkju í Breiðholti er ekki getið í kirknaskrá Páls biskups um 1200 en af frásögn um jarteikn í Þorláks sögu hins helga frá 1325 að dæma virðist hafa verið þar bænhús eða kirkja sem helguð var heilögum Blasíusi. Hann var verndari nautasmala og svínahirða, tóvinnufólks, vefara, skóara, steinhöggvara og skipasmiða og gott þótti að heita á hann gegn allskyns hálskvillum meðal annars.

Kirkja í Laugarnesi

Laugarneskirkja

Reykjavík – Laugarneskirkja; minnismerki.

Laugarneskirkja.
Hér stóð kirkja til ársins 1794.
Samkvæmt munnmælum var þúst suðaustur af bænum nefnd eftir henni og kölluð Hallgerðarleiði og um hana sagt að hún væri græn jafnt vetur sem sumur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er þó aðeins dregið úr þeirri trú og segir þar: „ekki er það satt að leiði hennar sé jafngrænt vetur og sumar, þó sögur segi svo, en seinna fölnar þar gras á haustin, en annarstaðar á Laugarnestúnum …“
Laugarnes – stasetning holdveikraspítalansÞessi merkisþúfa er nú horfin undir Sæbrautina en þegar grafið var í hana fundust hleðslur og gjall svo líklegra er að þar hafi verið smiðja en að Hallgerður sé grafin í kirkjugarðinum í Laugarnesi sem var fyrsti kirkjugarðurinn í Reykjavík. Laugarnes var forn kirkjustaður og samkvæmt kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 hefur kirkja þá þegar verið í Laugarnesi. Ekki er vitað hvenær fyrst var jarðað í kirkjugarðinum en síðast var það gert árið 1871. Þá voru grafnir þar 6 franskir sjómenn, sem létust úr bólusótt og ekki var talið fært að jarða þá “inni í borginni” vegna hættu á smiti. Þeir lágu í einangrun í gömlu biskupsstofunni í Laugarnesi. Kirkjan í Laugarbesi var rifin 1794 og sameinuð Reykjavíkurkirkju en glögglega sést enn móta fyrir veggjum kirkjugarðsins sem er friðlýstur samkvæmt þjóðminjalögum.

Rússneska rétttrúnaðarkirkjan

Rússneska

Reykjavík – Rússneska rétttrúnaðarkirkjan; minnismerki.

Rétttrúnaðarkirkja Reykjavík
Hér stendur til að reisa rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna í Reykjavík. Verkið hefur tafist af ýmsum ástæðum og því hefur kirkjan ekki risið enn. Texti á varðanum er á rússnesku.

Borgarráð samþykkti 2019 að framlengja framkvæmdafrest rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi um fjögur ár vegna kirkjubyggingar á lóðunum Bræðraborgarstíg 2 og Bakkastíg 8.

Söfnuður Moskvu-patríarkatsins fékk lóðirnar úthlutaðar af Reykjavíkurborg í október 2008 en enn hefur ekkert gerst á reitnum þar sem fyrirhugað er að hin glæsilega kirkja rísi. Í skjölum málsins segir að framkvæmdafresturinn nú skiptist í tveggja ára frest til að hefja framkvæmdir annars vegar og tveggja ára frest til að ljúka við kirkjuna eftir að framkvæmdir hefjast hins vegar.

Víkurkirkjugarður í Reykjavík

Víkurkirkjugarður

Reykjavík – Víkurkirkjugarður; minnismerki.

Hér var kirkjugarður Reykvíkinga frá upphafi kristni til 1838. Síðast var jarðsett í garðinum árið 1883.

Hér stóð Víkurkirkja til 1798 þegar Dómkirkjan tók við af henni sem kirkja Reykvíkinga.

Steinarnir með höggmyndum eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli voru reistir til minningar um 1000 ára kristni á Íslandi árið 2000.

Kirkjugarðurinn var við Aðalstræti og Kirkjustræti.

 

Þvottalaugarnar í Laugardal

Þvottalaugar

Reykjavík – Þvottalaugar; minnismerki.

Þvottahús Thorvaldsensfélgsins 1888Hér stóð húsið sem Thorvaldsensfélagið lét reisa og færði bænum að gjöf. Það veitti kærkomið skjól þeim sem strituðu við erfiði þvottanna allt til 1930.

Þvottalaugarnar voru heitar laugar sem notaðar voru til þvotta af húsmæðrum og vinnukonum í Reykjavík frá því að þéttbýli myndast og allt fram á 20. öld. Þær voru staðsettar í Laugamýri sem var í landi hins forna býlis Laugarness. Afrennsli úr laugunum var í Laugalæk sem rann til sjávar á Kirkjusandi.

Þvottalaugarnar eru nú þurrar, en mjög dró úr notkun þeirra árið 1930 er Laugaveitan var virkjuð og markaði upphaf hitaveitu í Reykjavík.

Stendur við Þvottalaugarnar í Laugardal.

Kjalarnes
-Útialtari.

Kjalarnes

Reykjavík – útialtari; minnismerki.

Tilgangurinn með uppsetningu útialtaris og minnismerkis í landi Esjubergs er að vekja verskuldaða athygli á merkum kristnum sögustað. Útialtarið verður notað við kristið helgihald og ýmsar athafnir eins og brúðkaup og skírnir.
Fyrsta skóflustunga var tekin að altarinu 8. maí 2016 af biskupi Íslands, prófasti Kjalarnesprófastsdæmis, formanni Sögufélagsins Steina, formanni sóknarnefndar Brautarholtssóknar og einu fermingarbarni.
Altarið sjálft er sótt í Esjubergsnámur og upp úr því stendur tveggja metra keltneskur kross.

Altarið stendur í landi Esjubergs á Kjalarnesi.

Minnisvarðar í Kirkjugörðum Reykjavíkur

Hólavallakirkjugarður

Reykjavík – Minnisvarði um færiska sjómenn.

Færeyskir sjómenn.

Við föroyska fiskiskipinum Acorn brendust og doyðu þessir menn 20-3-1928

D. Debes – Gjógv
H.J. Joensen – –
N. Klein – – –
H.J. Biskopstö –
H. Jakobsen – Eiði
H.D. Morköre – –

Færeyskir sjómenn

Reykjavík – Færeyskir sjómenn; minnismerki.

Teir skoðaðu storverk harrans
og í dýpinum undur hans
í neyð síni heittu teir á harrann
og hann hjalpti úr tröngdum.

DS. 107-24-28

Minnisvarðinn er í Hólavallakirkjugarði.

Fossvogskirkjugarður

Sjómenn

Reykjavík – Drukknaðir sjómenn; minnismerki.

Minningaröldur sjómannadagsins.
Drukknaðir sjómenn.
Sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði reisti 2. júní 1996.

Nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig:
Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig
ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. [Jes. 43:1]

Minnisvarði um drukknaða
Minnisvarði óþekkta sjómannsins.

Sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði reisti 1938, og endurbyggði 1988.

Stríðsminnisvarði

Stríðsminnismerki

Reykjavík – stríðsminnismerki.

Til minningar um flugliða Bandamanna sem tóku þátt í orrustunni um Atlantshaf frá Íslandi 1940-1945. Minnisvarðinn var afhjúpaður af Hans kgl. tign Hertoganum af Kent 12. september 2007.
Gjöf Flugmálafélags Íslands.

Royal Air Force – United States Navy (USN)
Royal Navy Fleet Air Arm – United States Army Air Force (USAAF)
Royal Canadian Air Force (BCAF) – United States Coast Guard (USCG)

Minnisvarðinn er í Fossvogskirkjugarði.

Norskur minnisvarði

Og det er det stora
og det er det glupa
at merket det stend
um mannen han stupa

Minnisvarðinn er í Fossvogskirkjugarði.

Kristinn Rúnarsson

Reykjavík – Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson; minnismerki.

Kristinn Rúnarsson (1961-1988) – Þorsteinn Guðjónsson (1961-1988)

Í minningu vinanna Kristins Rúnarssonar f. 25.1.1961 og Þorsteins Guðjónssonar f. 10.4.1961.
Þeir klifu tind Pumari 7162 m í Nepal þann 19.10.1988 en komu aldrei til baka.

Fundnir 30 árum síðar – hvíla hér.

Þorfinnur karlsefni
Verkið er staðsett við Dvalarheimili aldraðra við Hrafnistu. Höggmyndin er af Þorfinni karlsefni, íslenskum landkönnuði sem var fyrstur Evrópumanna til þess að festa byggð í Bandaríkunum. Þorfinnur flutti síðar til Íslands þar sem hann bjó ásamt konu sinni, Guðríði, á föðurleifð Þorfinns á Reynistað en hjónin bjuggu síðar í Glaumbæ til æviloka.

Þorfinnur karlsefni

Reykjavík – Þorfinnur karlsefni; minnismerki.

Tildrög verksins voru þau að Einar tók þátt í samkeppni um höggmynd af Þorfinni karlsefni sem átti að standa í skemmtigarði í Fíladelfíu í Bandaríkunum. Hann sendi teikningu af framlagi sínu til Bandaríkjanna árið 1916 og var teikningin einróma valin og honum boðið að koma vestur að vinna að höggmyndinni. Höggmyndin stendur á stórum stöpli og sýnir Þorfinn standa teinréttan og líta til hliðar yfir farinn veg.

Agner F. Kofoed-Hansen (1869-1957)

Skógræktarstjóri 1908-1935.
Brautryðjandi í verndun og ræktun birkiskóga og sandgræðslu á Íslandi.

Kjörorð A.F. Kofoed-Hansen í upphafi starfs voru:
“Verndaðu vel og rétt kjarrið sem til er og það mun þroskast og verða skógur meðan þú sefur”.
Minnisvarði reistur 2014 af Skógræktarfélagi Reykjavíkur ásamt Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands.

Minnisvarðinn er í Heiðmörk.

Einar G. E. Sæmundsen (1917-1969)

Einar G.E. Sæmundsen

Reykjavík – Einar G.E. Sæmundssen; minnismerki.

Þennan sein reistu skógræktarmenn og hestamenn 1971 til minningar um Einar G. E. Sæmundsen.

Steinninn stendur í Heiðmörk.

Guðmundur Marteinsson (1894-1979)

Þennan stein reistu skógræktarmenn til minningar um Guðmund Marteinsson verkfræðing, formann Skógræktarfélags Rerykjavíkur frá 1946 -1979.

Steinninn er í Heiðmörk.

Hákon Bjarnason (1907-1989)
skógræktarstjóri 1935-1977.
Hann gaf landi sínu nýjan gróður.

Hákon Bjarnason

Reykjavík – Hákon Bjarnason; minnismerki.

Steinninn stendur í Heiðmörk.

Jóhannes Kolbeinsson (1906-1982)
Heiðmörk.
Jóhannes Kolbeinsson f. 1906 d.1982 stjórnaði landgræsðlu Ferðafélgs Íslands í Heiðmörk 1950-1976, félagið þakkar handtök hans við þennan skógarreit.

Minnisvarðinn er á kletti í Heiðmörk.

Páll Gunnarsson (1951-1999)
-líffræðingur

Stofnaður hefur verið Minningarsjóður Páls Gunnarssonar líffræðings. Stofnendur eru Ingileif Bryndís Hallgrímsdóttir, móðir Páls og systkini hans, Hallgrímur Gunnarsson, Gunnar Snorri Gunnarsson, Áslaug Gunnarsdóttir og fjölskyldur þeirra. Stofnframlag í sjóðinn er 14 milljónir króna. Systkini Páls skipa stjórn sjóðsins.

Páll Gunnarsson

Reykjavík – Páll Gunnarsson; minnismerki.

Vöxtum af stofnframlagi verður úthlutað ár hvert og verður vöxtum úthlutað 20. maí árið 2005 í fyrsta sinn og síðan árlega til helminga í tvo staði.
“Tilgangurinn er að ánafna helminginn til skógræktar. Með stofnun sjóðsins er heiðruð minning Páls en sem lítill drengur hafði hann orð á því við ömmu sína, Áslaugu og mömmu: “Ef ég verð ríkur, þegar ég verð stór, þá ætla ég að klæða Ísland skógi.”
Hinum helmingnum af arðinum er ánafnað til Klúbbsins Geysis eða annarra geðverndarmála. Veikindi sín bar hann með hetjuskap og drenglyndi og gerði sér fulla grein fyrir hvað þyrfti með til hjálpar.
Í Heiðmörk hefur verið komið upp skógarlundi, sem ber nafn Páls eða “Pálslundur”.”

Minnisvarðinn stendur í Pálslundi í Heiðmörk.

Þorsteinslundur í Heiðmörk

Akóges

Reykjavík – Akóges; minnismerki.

Akoges.
Í skógarreit í Heiðmörk sem merktur er Akóges stendur þessi minnisvarði:

Er félagið AKÓGES varð 50 ára höfðu félagarnir gróðursett í Heiðmörk í 40 ár, 1991.
Þá voru gróðursett 50 grenitré sem upphaf skógræktarlundar og hann nefndur
Þorsteinslundur er til heiðurs Þorsteini Einarssyni sem var forystumaður skógræktarfólksins.
Í dag, 2024, er skógræktarlundur orðinn að yndisreit fyrir alla er hans vilja njóta.

Minnisvarðinn er á steini við efra bifreiðastæðið við Heiðmerkurveg.

Laugarnes
Holdsveikraspítalinn.

Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var holdsveikraspítali í Laugarnesi starfræktur á árunum 1898-1943. Húsið stóð á grunni biskupsstofu sem þar stóð áður. Yfirlæknir var Sæmundur Bjarnhéðinsson.

Holdsveikraspítali

Reykjavík – Holdsveikraspítali; minnismerki.

Á fyrstu áratugum 20 aldarinnar var rekinn holdsveikraspítali í Laugarnesi í glæsilegu timburhúsi. Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var vígður 27. júlí 1898 og fyrstu sjúklingarnir komu á spítalann 10. október 1898. Holdsveikraspítalinn var gjöf dönsku Oddfellowreglunnar til íslensku þjóðarinnar. Hann var byggður fyrir gjafafé sem safnað var í Danmörku. Nokkru áður eða sumrin 1895 og 1896, ferðaðist hér um landið á vegum landstjórnarinnar danskur læknir dr. Edvard Ehler til að kynna sér útbreiðslu holdsveiki og meðferð sjúkra á Íslandi. Ehler skrifaði blaðagreinar og hélt erindi í Danmörku um bágborið ástand í heilbrigðismálum á Íslandi og lýsti holdsveiki sem smitsjúkdóm þar sem einangrun holdsveikra og hentug spítalavist væri áhrifamesta vörnin.

Holdsveikraspítali

Reykjavík – Holdsveikraspítali; minnismerki.

Laugarnesspítali var vígður 1898. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi­ og hann er stærsta timburhús sem nokkru sinni hefur risið hér á landi. Holdsveikraspítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi um 237 verið holdsveikir á Íslandi. Þegar holdsveikum fækkaði var hluti byggingarinnar tekinn til annarra nota. Spítalabyggingin brann til grunna 7. apríl 1943. Hernámsliðið hafði þá yfirtekið spítalann. Þeir fáu holdsveikisjúklingar sem enn voru á landinu höfðu nokkru áður verið fluttir á Kópavogshæli.

Vígsluflöt

Vígsluflöt

Reykjavík – Vígsluflöt; minnismerki.

Vígsluflöt í Heiðmörk er áningarstaður þar sem um fólk getur komið saman í hjarta friðlandsins. Flötin rúmar allt að 100 manns en umhverfis hana eru hávaxin tré sem mynda skjól og fagurt umhverfi.

Eitt þessara trjáa er sitkagreni sem gróðursett var af þáverandi borgarstjóra, Gunnari Thoroddsen, sumardag einn fyrir sjötíu árum. Þennan dag, 25. júní 1950, var mikið margmenni á og við Vígsluflöt – um 2.500 til 3.000 manns – til að fagna stofnun friðlands Reykvíkinga í Heiðmörk.

Árið 1950 var gróðursetning trjáplantna í Heiðmörk nýhafin. Við Vígsluflöt var mólendi og lágvaxið birkikjarr. Annars staðar í Heiðmörk var gróður víða illa farinn, talsvert um rofabörð og uppblástur úr Elliðavatnsheiðinni. Í Undanfara, rétt við Vígsluflöt, höfðu fyrstu trjáplönturnar verið gróðursettar árið á undan, um fimmþúsund talsins. Þá voru enn engir vegir í Heiðmörk og þurfti því að reiða plöntur og verkfæri á hestum.

Sjómenn

Sjómenn

Reykjavík – Sjómenn; minnismerki.

Ekkert banaslys varð til sjós við Ísland 2019. Þetta er þriðja árið í röð sem enginn ferst við störf um borð í íslensku fiskiskipi. Síðasta banaslys til sjós varð árið 2016, þegar tveir menn fórust. Ég hef bent á þetta nokkuð ítarlega í pistlum hér en það var fyrst árið 2008 sem enginn sjómaður lést við störf til sjós hér við land. Það vakti furðu litla athygli en þessi ánægjulegu tíðindi endurtóku sig árið 2011 og 2014 og nú hafa þrjú ár bæst við, 2017, 2018 og 2019. Fyrir ári síðan benti pistlahöfundur á þetta undir fyrirsögninni: „Stóra fréttin sem allir missa af.“ Það hefði mátt nota hana aftur núna.

Þegar Morgunblaði 20. aldar er flett má segja að reglulega birtist forsíður með myndum af sjómönnum, sem farist höfðu í sjóslysum. Hér hefur áður verið vitnað til skrifa Steinars J. Lúðvíkssonar rithöfundar sem hefur rakið sögur af baráttu íslenskra sjómanna við Ægi í ritröðinni, „Þrautgóðir á raunastund“. Steinar hefur meðal annars tekið saman fjölda þeirra sem fórust í sjósköðum við Ísland á liðinni öld. Þeir eru á fimmta þúsundið. Bara árið 1959 fórust 59 sjómenn og á árunum 1966 til 1970 fórust alls 101 sjómaður.

Sjómenn

Reykjavík – Sjómenn; minnismerki.

Fjöldi látinna á sjó hefur dregist saman úr 25 á ári að jafnaði á árunum 1958-1967 í um það bil 1 á ári að jafnaði á árunum 2008-2017. Enginn hefur látist í sjóslysum á árunum 2017, 2018 og 2019. Helstu ástæður fyrir þessari fækkun eru raktar í skýrslu um öryggi sjófarenda eins og fjallað var um hér fyrir stuttu. Þar segir að ástæðurnar megi rekja til betri skipa og eftirlits, áhrifa fiskveiðistjórnunarkerfisins sem hefur dregið úr sjósókn í vondum veðrum, betri þjálfunar sjómanna með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna, tilkomu vaktstöðvar siglinga, eflingu Landhelgisgæslunnar, tilkynningaskyldu íslenskra skipa sjómanna, árangurs af öryggisáætlun sjófarenda og aukin öryggisvitund meðal sjómanna og útgerða.

Minnismerkið er við Miðbakka.

Miðpunktur Reykjavíkur

Miðjan

Reykjavík – Miðjan; minnismerki.

Merki í stétt.

Miðja Reykjavíkur er við húsið Vesturgötu 2, sem var byggt árið 1863. Það hefur verið kallað Bryggjuhúsið og hýst margvíslega starfsemi í tímans rás. Út frá miðju Reykjavíkur eru öll götunúmer miðuð. Sá endi gatna sem er nær Bryggjuhúsinu er upphafið og þá eru oddatölurnar vinstra megin við götuna og sléttar til hægri.

Minnismerkið er á gangstéttinni við gatnamót Aðalstrætis og Vesturgötu.

Höfði

Höfði

Reykjavík – Höfði; minnismerki.

Höfði er hús í Borgartúni í Reykjavík byggt 1909, Franski konsúllinn Jean-Paul Brillouin átti upprunalega aðsetur þar. Seinna átti Einar Benediktsson skáld húsið um nokkurt skeið og bjó í því með fjölskyldu sinni. Árið 2015 var styttan af Einari eftir Ásmund Sveinsson, sem staðið hafði á Miklatúni, flutt að Höfða og sett upp austanmegin við húsið.

Íslandsfundurinn á milli Ronalds Reagan og Mikhaíls Gorbatsjev átti sér stað þar 1986. Fáni Bandaríkjanna og fáni Sovétríkjanna hanga þar til minnis um fundinn.

Skilti á þremur tungumálum til minnis um leiðtogafundinn er framan við Höfða.

Lýðveldisgarðurinn

Lýðveldisgarðurinn

Reykjavík – Lýðveldisgarðurinn: minnismerki.

Á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs lét Reykjavíkurborg gera garð árið 1994 í tilefni af 50 ára lýðveldisafmæli Íslands og nefnist hann Lýðveldisgarðurinn. Garðurinn var vígður þann 15. júní 1994 og var vígsla hans eitt af fyrstu verkefnum sem nýkjörinn borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, leysti af hendi. Hönnuður garðsins er Yngvi Þór Loftsson landslagsarkitekt og samkvæmt skipulagshugmyndum er skírskotað til
jarðfræðilegra, sögulegra og landafræðilegra þátta tengdum þingstöðum til forna í garðinum. Það er gert með því að koma fyrir grjóthnullungum frá hverjum landsfjórðungi í réttri landfræðilegri afstöðu, þannig að hægt verði að gera sér grein fyrir hlutfallslegri fjarlægð milli staðanna.

Lýðveldisgarðurinn

Reykjavík – Lýðveldisgarðurinn: minnismerki.

Á hverjum hnullungi er áletrun á þeirri hlið sem snýr í suður með nafni bergtegundarinnar og stuttur texti um þingstaðinn. Einkennandi bergtegund fyrir Vestfirðingafjórðung er blágrýti úr Þórsnesi, fyrir Norðlendingafjórðung blágrýti úr Hegranesi, fyrir Austfirðingafjórðung granófýr úr Lóni og fyrir Sunnlendingafjórðung hraun frá Þingvöllum við Öxará. Þar að auki er Reykjavíkurgrágrýti sem einkennandi bergtegund fyrir núverandi þingstað þjóðarinnar. Í miðju garðsins er málmskjöldur með skýringum.
Hverfisgötumegin í garðinum stendur gamall silfurreynir sem gróðursettur var á árunum 1910 til 1920 en hann tilheyrði áður einu af húsunum sem þarna stóðu.
Lýðveldisgarðurinn stendur á lóðum Hverfisgötu 23 og Smiðjustígs 7 og 9 og er tæplega 700 fermetrar að stærð. Húsið að Hverfisgötu 23 var byggt árið 1906 og var flutt að Vesturgötu 5a árið 1994. Húsið að Smiðjustíg 7 var byggt árið 1904 og síðast virt árið 1941. Ekki er að finna heimildir fyrir því hvenær húsið var látið víkja. Húsið að Smiðjustíg 9 var byggt árið 1898 en borgarsjóður keypti húsið og lóðina árið 1964. Ekki er að finna heimildir fyrir því hvenær húsið var látið víkja.

Franskir sjómenn

Franskir sjómenn

Reykjavík – Franskir sjómenn; minnismerki.

Vopnahlésdagsins, 11.11., er jafnan minnst klukkan 11 í Frakklandi við gröf óþekkta hermannsins eða minnismerki um fallna hermenn. Hér hefur franska sendiráðið athöfn við minnismerki um franska sjómenn í Hólavallagarði.

Klukkan ellefu, ellefta dag, ellefta mánaðar ársins 1918 var samið um að ljúka afar mannskæðu stríði sem geisað hafði í Evrópu í rúm fjögur ár. Því er sá mánaðardagur jafnan haldinn hátíðlegur í Frakklandi, við gröf óþekkta hermannsins eða við minnismerki um fallna hermenn.

Hér á landi háðu franskir sjómenn orrustur við íslensk náttúruöf l og biðu stundum lægri hlut, þeir hvíla í nafnlausum gröfum víða um land. Í Hólavallakirkjugarði eru nokkrir tugir þeirra, flestir frá Bretagne í Frakklandi. Árið 1953 var settur þar upp stór steindrangur með áletrun. Sú fallega hefð hefur skapast að franska sendiráðið standi fyrir minningarstund í kirkjugarðinum klukkan 11 þann 11.11. við dranginn og sú hefð var haldin í heiðri þetta árið, að sögn Pálma Jóhannessonar, upplýsingafulltrúa sendiráðsins.

Franskir sjómenn

Reykjavík – Franskir sjómenn; minnismerki.

„Þessi athöfn hefur verið nokkurn veginn árleg, þó hefur komið fyrir að hún hafi fallið niður,“ segir hann. „En þetta finnst mér mjög góð hugmynd því hér á landi er enginn hermannagrafreitur franskur, enda engir fallnir hermenn hér af völdum stríðs en þessir látnu sjómenn eru ígildi þeirra.“

Pálmi segir allnokkurn hóp fólks hafa verið við athöfnina á mánudaginn. „Hún fór þannig fram að Graham Paul, sendiherra Frakklands, flutti ræðu, tveir starfsmenn sendiráðsins fóru með ljóð, annað íslenskt, hitt franskt, og síðan lagði sendiherrann blómsveig að minnismerkinu. Að því loknu var gestum boðin hressing í bústað sendiherrans,“ lýsir Pálmi.

Spurður nánar út í kvæðin segir hann þau vera Marin français eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld og Oceano Vox eftir Victor Hugo. Í gamla kirkjugarðinum var látlaus kross settur á leiði sjómannanna en þau voru nafnlaus. Þar stóð bara Marin français sem þýðir franskur sjómaður.
Minnismerkið er í Hólavallakirkjugarði.

Borgaraleg óhlýðni

Borgaraleg óhlýðni

Reykjavík – Borgaraleg óhlýðni; minnismerki.

Svarta keilan, listaverk um borgaralega óhlýðni, sem stendur fyrir framan Alþingi, heldur áfram að valda pirringi hjá þingmanni sem í þrígang hefur lagt til að það verði fjarlægt. Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, sem á verkið, segir að umræðan hjálpi verkinu að ná markmiðum sínum.

Svarta keilan, eftir spænska listamanninn Santiago Sierra var sett upp við Alþingi árið 2012. Verkið á að minna á mikilvægi borgaralegra réttinda og þann rétt þegnanna að neita að hlýðnast óréttlátum lögum og kröfum yfirvalda – og hefur farið í taugarnar á mörgum stjórnmálamanninum – þar á meðal Bergþóri Ólasyni úr Miðflokknum.

Bogaraleg óhlýðni

Reykjavík – Borgaraleg óhlýðni; minnismerki.

Verkið samanstendur af 180 sm háum steini sem hefur verið klofinn í tvennt með svartri keilu sem situr eftir í sprungunni. Keilan vísar til svartra keilulaga hatta sem spænski rannsóknarrétturinn lét sakfellda menn bera í háðungarskyni á 12. öld. Með verkinu vill listamaðurinn minna á mikilvægi borgaralegra réttinda í lýðræðissamfélagi og þann rétt þegnanna að neita því að hlýðnast óréttlátum lögum og kröfum yfirvalda. Á minnisvarðanum er plata sem á er letruð á íslensku og ensku setning úr Yfirlýsingu um réttindi manna og borgara sem birtist sem formáli að stjórnarskránni sem franska þingið samþykkti árið 1793: „Þegar ríkisstjórn brýtur á rétti þegnanna, þá er uppreisn helgasti réttur og ófrávíkjanlegasta skylda þegnanna sem og hvers hluta þjóðarinnar.“

Minnismerkið norðvestast á Austurvelli – gegnt Alþingishúsinu.

Berthel Thorvaldsen (1770-1844)

Bertel Thorvaldsen

Reykjavík – Bertel Thorvaldsen; minnismerki.

Bertel Thorvaldsen var dansk-íslenskur myndhöggvari. Bertel hér fullu nafni Albert Bertel Thorvaldsen.

Faðir hans var Gottskálk Þorvaldsson, tréskurðarmaður, fæddur að Reynistað í Skagafirði árið 1741. Síðar fluttist hann að Miklabæ í Blönduhlíð. Árið 1757 reið Gottskálk ásamt systkinum sínum til Hofsóss til þess að taka skip til Kaupmannahafnar. Eftir það átti Gottskálk heima í Kaupmannahöfn, og þar tók hann sér ættarnafnið Thorvaldsen að þeirrar tíðar hætti. Í heimahúsum hafði hann lært nokkuð til tréskurðar og í Kaupmannahöfn lærði hann myndskurð hjá formanni myndhöggvaragildisins í Kaupmannahöfn. Móðir Bertels hét Karen Dagnes og var fædd í Nørre Nissum á Jótlandi. Faðir Karenar var organisti og djákni í Lemvig á Jótlandi. Gottskálk og Karen gengu í hjónaband árið 1770. Þau voru ekki auðugt fólk og gekk Gottskálki erfiðlega að sjá fjölskyldu sinni farborða með tréskurði.

Bertel Thorvaldsen

Reykjavík – Bertel Thorvaldsen; minnismerki.

Á tólfta ári fékk Bertel fyrst að hjálpa föður sínum við tréskurð. Vinur föður hans benti á hæfileika Bertels og sannfærði föður hans um að senda Bertel í listaskóla. Bertel byrjaði ungur í fríhendisteikningu í undirbúningsdeild Fagurlistaskólans í Kaupmannahöfn árið 1781. Fljótlega vann hann til verðlauna skólans, minni silvurverðlaun fyrir mótaða mynd árið 1787. Í skólanum hlaut hann öll þau verðlaun sem í boði voru og þau æðstu, stóru gullverðlaunin, árið 1793 fyrir lágmynd sem tók fyrir efni úr Biblíunni. Þessum verðlaunum fylgdi utanfararstyrkur sem hann fékk þó ekki í hendur fyrr en nokkrum árum seinna. Í ágúst 1796 heldur hann til Rómar, ásamt hundi sínum, Hektori, kveður foreldra sína og sá þá aldrei aftur.

Vinarreitur Japans

Vinareitur Japans

Reykjavík – Vinarreitur; minnismerki.

Gestir söfnuðust saman í Hljómskálagarðinum 31. maí 2011 til að fagna því að Japansk-íslenska félagið færði Reykjavíkurborg 50 kirsuberjatré að gjöf,
Borgarstjóri, Jón Gnarr, undirbjó jarðveginn fyrir gróðursetningu. Hr. Wakita, formaður Japansk-íslenska félagsins, gróðursetti kirsuberjatré ásamt borgarstjóra með aðstoð formanns Íslensk-japanska félagsins. Hr. Natsume, Sendiherra Japans á Íslandi, aðstoðaði við gróðursetninguna.

Vinarreiturinn er norðvestast í Hljómskálagarðinum.

Súlur Ingólfs

Súlur Ingólfs

Reykjavík – Súlur Ingólfs; minnismerki.

Ingólfstorg (áður Hallærisplanið/Hótel Íslands-planið og Steindórsplanið) er torg í miðborg Reykjavíkur. Það var opnað 4. desember 1993. Torgið er nefnt í höfuðið á Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni. Torgið er staðsett við Aðalstræti þar sem einna lengst hefur verið byggð í Reykjavík.

Nú til dags er torgið oft notað til tónleikahalds, ræðuhalda og fjöldasamkomna af ýmsu tagi. Það er oft notað á hátíðisdögum og stórviðburðum eins og 1. maí, Menningarnótt og 17. júní. Torgið er einnig vinsælt meðal hjólabrettafólks. Eftir aldamótin 2000 hefur torginu oft verið breytt í skautasvell yfir jólahátíðina.

Á Ingólfstorgi eru tveir stuðlabergsstandar. Á þeim eru áletranir á bak og fyrir, m.a. tilvitnun í Landnámu um komu Ingólfs til Reykjavíkur.

Guðni Pétur Guðnason (1989-2021)

Reykjavík

Reykjavík – minnismerki; Guðni Pétur Guðnason.

Á stuðlabergsstandi á lóð Flókagötu 29 er áletrun: “Í minningu vinar – Guðni Pétur Guðnason, f: 10.11.1989, d: 21.01.2021.
Við þökkum fyrir kærleikann, umhyggjuna, gleðina og hláturinn.
Dýrmætar minningar lifa í hugum okkar og hjörtum”.

Steinninn er við Búsetukjarnann, í garði framan við húsið. Guðni Pétur var starfsmaður Búsetukjarnans er hann fékk fyrir hjartað í Sundhöll Reykjavíkur og drukknaði.

Guðna er minnst sem “gull af manni”.

Heimildir:
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/reykjavik-minn/
-Wicipedia
-https://www.althingi.is/thingmenn/althingismannatal/konur-a-althingi/hoggmynd-af-ingibjorgu-h.-bjarnason/
-https://heidmork.is/vigsluflot-1950-og-2020/
-https://husaskraning.minjastofnun.is/Husakonnun_28.pdf
-https://www.visir.is/g/20191699796d/franskra-sjo-manna-minnst-i-hola-valla-kirkju-gardi
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2022-06-16-svarta-keilan-er-a-rettum-stad
-https://safneign.listasafnreykjavikur.is/is/verk/H-007
-https://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/sigurdurmar/2244924/

Horfnir sjómenn

Reykjavík – Horfnir sjómenn; minnismerki.