Færslur

Lækjargata

Grjóthleðsla og torf, sem fannst við framkvæmdir nýs hótels á lóð Íslandsbanka við Lækjargötu, er talið vera ummerki eftir torfbæinn Lækjarkot sem byggður var árið 1799 og var fyrsta íbúðar­húsið sem reist var á þessum slóðum.

Lækjarkot

Uppgraftarsvæðið við Lækjargötu.

Bærinn á sér merka sögu, af honum eru til teikningar og málverk frá fyrri árum og Kristján konungur IX. kom þar inn í Íslandsheimsókn sinni 1874, að því er fram kemur í umfjöllun um uppgröft þennan í Morgunblaðinu.
Sýni voru tekin á svæðinu og eru þau nú til rannsóknar hjá Fornleifastofnun. Sé um bæinn að ræða, er líklegt að svæðið verði rannsakað og grafið upp, að mati Lísabetar Guðmundsdóttur, fornleifafræðings hjá Fornleifastofnun Íslands.

Fornleifagröftur við hornið á Lækjargötu og Vonarstræti, sem hófst í maí síðastliðnum vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar, hefur leitt í ljós það sem virðist vera skálabygging frá tímum landnáms. Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur, sem stýrir uppgreftrinum, segir þennan fund breyta miklu um það sem við töldum okkur vita um byggðasögu Reykjavíkur.

„Við höfum náttúrulega vitað um þessa elstu byggð í Reykjavík þar sem Aðalstrætið er,“ segir Lísabet, en þær bæjarrústir komu í ljós við uppgröft á áttunda áratugnum. „Við töldum okkur vita að aðalbyggðakjarninn hafi verið á því svæði, en okkur bara datt ekki í hug að það væri eitthvað þarna við Lækjargötuna. Og það var eiginlega það sem var svolítið skemmtilegt.“

Lækjarkot.Áfram var grafið í sólinni í dag.Vísir/Andri MarinóUppgröfturinn átti upphaflega að taka um fjórar vikur en sú áætlun breyttist skiljanlega þegar skálinn fannst í síðasta mánuði. Fyrir var vitað að bærinn Lækjarkot, sem byggður var árið 1799, hafði staðið á lóðinni, sem og timburhús sem reist var árið 1887.

„Þegar við vorum búin að klára að grafa þær byggingar upp, þá var náttúrulega slatti eftir,“ segir Lísabet. „Það var með svona ofsalega flottu landnámstorfi í veggjum, þannig að það virtist vera frekar gamalt. Við erum náttúrulega ekki komin með aldurinn á hreint ennþá,en það kemur bara þegar við förum í úrvinnsluna.“

Lísabet segist búast við því að uppgröfturinn muni standa yfir í um tvær til þrjár vikur til viðbótar. Hún telur ekki líkur á að áform um hótelbyggingu raskist nokkuð vegna fundarins en segir viðræður þegar hafnar við framkvæmdaraðila um varðveislu grjóts, hellna og varðeldar úr skálanum.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/06/merkur_baer_ur_felum_vid_laekjargotu/
-https://www.visir.is/g/2015314513d
-http://www.torfbaeir.com/Tomthus/T-Laekjarkot.html

Lækjarkot

Mynd Jóns Helgarsonar af Reykjavík árið 1836, trúlega máluð nálægt 1890. Lækjarkot sést lengst til vinstri á myndinni suðaustan við Dómkirkjuna. Efst á myndinni má sjá Hlíðarhús og torfbæi i Grjótaþorpi og við Vesturgötu. Lækjarkot var reist árið 1799 austast á Austuvelli. Runólfur forstjóri Innréttinganna bjó þar en drukknaði í Tjörninni 1811 “aðeins mjög lítið drukkinn” samkvæmt annálum. Meðal seinni ábúenda má nefna Þórð malakoff, sem var um margt sérkennilegur og bjó þar um 1870. Bærinn var rifinn árið 1887. Bærinn stóð þar sem nú er Lækjargata 10a sem er óbyggð lóð í dag. Fornleifauppgröftur árið 2015 sýndi ekki aðeins merki um bæinn Lækjarkot heldur einnig áður ókunnan landsnámsbæ.

Örfirisey

Garðar Svavarsson skrifar um örnefnið “Reykjanes” í Morgunblaðið 16. apríl 2006 undir fyrirsögninni “Nafngjafi Reykjavíkur”:

“Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið. Hér verður fjallað um uppruna og sögu örnefnisins.
Á norðurenda Örfiriseyjar handan olíustöðvar er örnefnið Reykjanes. Fleiri staðir á landinu bera þetta nafn og má þar nefna Reykjanes á Suðurnesjum, í Reykhólasveit og við Ísafjarðardjúp. Á þessum þremur síðasttöldu stöðum er jarðhiti, laugar eða hverir, og myndarleg nes svo augljóst er af hverju staðirnir draga nafn sitt. Hvorugu er til að dreifa í Örfirisey, þar er enginn jarðhiti og varla er hægt að kalla lítið klapparnef nes.

Örfirisey„Norðvestur í Effersey er nes, er kallað hefur verið Reykjanes, og er það gamalla manna sögn að þar hafi verið laug, sem sjór er nú genginn yfir. Ekkert kannast samt elztu núlifandi Reykvíkingar við þá sögn.“ (Örfirisey var alla jafnan kölluð Effersey fram undir miðja síðustu öld). Þótt Klemensi tækist ekki að finna neinn sem gæti staðfest sögnina um jarðhita í eyjunni hafnaði hann ekki þeim möguleika að þar hefðu verið heitar laugar við landnám. Hins vegar átti eftir að kom í ljós að einn úr flokki aldraðra Reykvíkinga vissi af eigin reynd hvar jarðhita var að finna í Örfirisey.

Í bók Þórbergs Þórbergssonar, rithöfundar, Frásagnir, sem kom út árið 1972, fjallar hann m.a. um Örfirisey, Grandann og Hólmann. Helsti viðmælandi hans í Reykjavíkurhluta bókarinnar var Ólafur Jónsson fiskimatsmaður. Ólafur var fæddur 1856 í Hlíðarhúsum, en það var húsaþyrping neðarlega við Vesturgötuna, og ól hann allan sinn aldur í Reykjavík. Hann var lengstum sjómaður eins og faðir hans og stundaði sjóinn frá Reykjavík og víðar. Þórbergur getur þess sérstaklega að þeir Ólafur hafi farið út í Örfirisey 30. mars 1935 til að skoða þá staði, sem Ólafur hafði nefnt í viðtölunum. Um Reykjanes farast honum svo orð í frásögn Þórbergs: „Í norðnorðvestur frá norðvesturhorni Örfiriseyjar eru tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Út í þau má ganga um stórstraumsfjöru. Þau voru í mínu ungdæmi kölluð Reykjarnes. Nokkurn spöl fyrir austan sker þessi, hér um bil mitt á milli þeirra og Hásteina og þar úti sem þarinn er þykkastur, var dálítil flöt flúð, sem var upp úr sjó um stórstraumsfjöru. Í flúðinni var glufa um hálf fingurhæð að breidd. Upp úr þessari glufu rauk um stórstraumsfjörur framan af ævi minni.“ (bls. 151).

Reykjanes

Reykjanes við Reykjavík.

Þetta er óneitanlega skilmerkileg frásögn og engin ástæða er til að draga hana í efa enda Ólafur margoft búinn að sýna í viðtölum um önnur efni að hann hafði traust og gott minni. Það er athyglisvert að hann kallar fjöruna á þessum stað með skerjunum tveim Reykjarnes, en á öðrum stað í frásögninni um Örfirisey og Hólmann segir: „Það er engum efa bundið, að land allt hefur sigið hér mjög í sjó á síðari öldum. Einhvern tíma hefur Hólminn verið allstór eyja grasi vaxin, og þar sem Vesturgrandi og Örfiriseyjargrandi stóðu aðeins upp úr sjó um fjöru sem nakin malarrif, þar hafi fyrr á tímum verið grasi gróin eiði, sem hafi verið ofansjávar jafnvel í mestu stórstrauma.“ (bls.150).
Þessi lýsing hér að ofan um landsig og meðfylgjandi landbrot á að sjálfsögðu við um Örfirisey alla og þar með talið fjöruna sem nefnd var Reykjanes. Nú er vitað að land hefur sigið hér á Reykjavíkursvæðinu í mörg þúsund ár og telja fræðimenn á þessu sviði að land sé nú að minnsta kosti 2 m lægra en við upphaf landnáms. Þetta mikla landsig hefur valdið gríðarlegum breytingum á landi við
sjávarsíðuna. Klemens Jónsson ýjar að þessu í Sögu Reykjavíkur þegar hann segir að líklega hafi Effersey verið landföst við landnám. Nú er eyjan land umflotið vatni og því er landföst eyja ekki til frá náttúrunnar hendi. Hafi Örfirisey verið landföst við landnám hefur því verið um að ræða tanga eða nes, en ekki eyju.

Í Landnámu segir að Ingólfur Arnarson hafi komið hingað til lands tveimur til þremur árum áður en hann settist hér að. Vafalaust hefur hann verið að kanna hvort landið væri gott til búsetu og finna heppilegan stað til landnáms. Skip landnámsmanna, knerrirnir, voru ekki stór og því ljóst að ekki var hægt að flytja búpening til landsins nema í mjög smáum stíl. Því varð að treysta á veiðar fyrstu árin eða jafnvel í áratugi meðan bústofninn var að eflast. Ingólfur finnur staðinn sem hann leitaði að í Reykjavík og er nú best að vitna í orð Björns Þorsteinssonar í Íslenskri miðaldasögu: „– því að þar var allt að hafa sem hugur hans girntist: höfn, eyjagagn, veiðivötn og laxá, landrými og jarðhiti. Í rauninni jafnaðist hér enginn staður á við Reykjavík að fjölþættum náttúrugæðum.“ (bls. 27).

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes.

Þegar Ingólfur og áhöfn hans sigla skipi sínu inn í mynni Kollafjarðar, væntanlega fyrstir manna, blasa við þeim eyjar, sund og vogar og er ekki ósennilegt að þetta land hafi minnt þá á heimahagana í Vestur-Noregi. En eitt hefur þó ugglaust vakið sérstaka athygli þeirra og furðu. Upp af litlu nesi, sem teygði sig til norðurs frá meginlandinu, steig hvítur reykur til lofts, náttúrufyrirbæri sem þeir hafa tæpast séð áður. Nafnið á staðnum var sjálfgefið, Reykjanes. Víkin innan við nesið, sem er vel afmörkuð milli Reykjaness og Arnarhólstanga, hlaut einnig að draga nafn af hvernum á nesinu og kallast síðan Reykjavík.
Með fullri virðingu fyrir Þvottalaugunum er vægast sagt hæpið að Reykjavík dragi nafn sitt af þeim. Bæði er að Þvottalaugarnar eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá víkinni og leiti ber í milli svo að reykurinn frá þeim sást tæpast af hafi eða í víkinni nema við sérstök veðurskilyrði.

Örfirisey

Mynd SE tekin frá Skólavörðuholti um 1900.

En mótun landsins hélt áfram eins og hún hafði gert frá örófi alda. Á hverju ári nagaði sjórinn smáspildu af nesinu og þar kom að útsynningsbrimið braut sér leið gegnum nesið þar sem það var mjóst og Reykjanesið varð að eyju. Hvenær þetta átti sér stað veit enginn, en vafalaust var það nokkrum öldum eftir landnám. Vera má að þetta hafi átt sér stað í stórflóði sambærilegu við Básendaflóðið 1799, en þá gekk sjór yfir alla Örfirisey og lagðist þar af búseta um tíma. Þessar breytingar voru löngu um garð gengnar í upphafi átjándu aldar en í Jarðabókinni frá 1703 er eftirfarandi umsögn um býlið Erfersey: „Vatnsból í lakasta máta, þrýtur bæði sumar og vetur og þarf þá til lands á skipum að sækja eður sæta sjáfarfalli að þurt megi gánga um fjörurif það, sem kallað er Grandi.“ (Þriðja bindi, bls. 255).
Í þessari lýsingu er komin til sögunar eyja og grandi, en nes er ekki nefnt. Á þessum tíma er Geldinganes í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey, þ.e. eyja tengd við land með eiði sem sjór féll yfir á flóði, en þrátt fyrir það breytist nes ekki í eyju. Hvað veldur því að nafnið Reykjanes þokar til hliðar, en nafnið Örfirisey kemur í staðinn. Gæti verið að lausnar gátunnar væri að leita í nafni annarrar eyjar lítið eitt vestar?

Örfirisey

Örfirisey – loftmynd.

Akurey er yst eyja á Kollafirði og nafnið er vafalítið dregið af akuryrkju í eyjunni. Það er augljóst að þetta nafn fær eyjan löngu eftir landnám því að þó að akuryrkja hafi verið stunduð af landnámsmönnum frá upphafi hafa akrar verið nærri bæjum meðan þar var nægilegt landrými, en ekki í úteyjum. Einnig hefur Reykjanes verið góður kostur því að auðvelt var að girða nesið af og hindra þannig ágang búfjár. Var þá eyjan nafnlaus, jafnvel um aldir? Það er ákaflega ólíklegt því að eyjan er á þeim stað þar sem skip og bátar voru mikið á ferðinni eða við fiskveiðar og því brýn nauðsyn að kennileitum væri gefin nöfn. Leitum nú enn á ný í bókina Frásagnir. Steingrímur Steingrímsson frá Klöpp var einn af viðmælendum Þórbergs. Honum segist svo frá: „að Níels á Klöpp hafi sagt sér, að í hans ungdæmi hafði verið hægt að vaða úr Hólmanum og út í Akurey um stórstreymsfjörur, og hefði sjór þar ekki verið dýpri en svo, að komast hefði mátt þurrt í skinnbrók. En nú er þar óvætt dýpi um stærstu fjörur.“ (bls. 150).
Örfirisey
Það er til önnur heimild um þetta eiði eða granda milli Hólmans og Akureyjar. Í Sögu Reykjavíkur 870–1870, fyrra bindi, er birt mynd á blaðsíðu 62 af elsta korti sem til er af Reykjavík. Þetta kort er frá 1715 og nær yfir ytri hluta Kollafjarðar, suðurströnd Kjalarness og Seltjarnarnes vestan Laugarness. Örfirisey með verslunarhúsunum er á kortinu miðju og landtengingin, þ.e. Grandinn, sést greinilega. Sama má segja um grandann út í Hólmann, hann kemur skýrt fram, en það athyglisverða er að hann endar ekki í Hólmanum heldur liggur áfram út í Akurey. Mjög líklegt er að í upphafi átjándu aldar, þ.e á þeim tíma sem kortið er teiknað, hafi aðeins verið hægt að ganga þurrum fótum út í Akurey á stærstu fjörum. Við landnám hefur Akurey hins vegar verið í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey var mörg hundruð árum síðar, þ.e. eyja tengd við land með granda sem var ávallt á þurru um fjöru. Það fólk sem hér settist að við upphaf byggðar hefur líklega þekkt áþekk náttúrufyrirbæri frá fyrri heimkynnum sínum og gefur eyjunni því nafn við hæfi. Það nafn var sennilega Örfirisey.
Þegar Reykjanes breytist í eyju við landbrot eru eyjarnar orðnar tvær með áþekk náttúruleg einkenni, nánast hlið við hlið. Smám saman fer fólk að kenna ytri eyjuna við þá starfsemi sem þar er stunduð, þ.e. akuryrkju.
Örfiriseyjarnafnið flyst hins vegar yfir á Reykjanesið og ryður gamla nafninu út á norðurenda eyjarinnar þar sem það situr enn án staðfestu í landslagi. Þessi nafnasaga er að sjálfsögðu getgátur, en vert er að benda á að örnefnaflakk er ekki óþekkt hér á landi.

Örfirisey

Örfirisey 1958.

Nú eru liðnir rúmir sjö áratugir síðan Þórbergur og Ólafur gengu um Örfirisey og rifjuðu upp örnefni á og í nágrenni eyjunnar. Á þeim tíma var eyjan að mestu eins og náttúran hafði mótað hana, en nú er fátt sem minnir á Örfirisey þess tíma. Þó má enn finna staði sem Þórbergur fjallar um, svo sem klappirnar á norðurenda eyjunnar með gömlum áletrunum. Vestasti hluti klappanna er í raun norðvesturhorn hinnar eiginlegu Örfiriseyjar og sé horft þaðan í norðnorðvestur má á fjöru greina tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Þessi sker kallaði Ólafur frá Hlíðarhúsum, Reykjanes. Lítið eitt austar í fjörunni, þar sem þarinn er þykkastur, leynist lítil flöt flúð með glufu sem er um hálf fingurhæð að breidd. Þetta eru síðustu leifar hversins sem gaf tveim stöðum nafn. Annað nafnið, Reykjanes, er nú að mestu gleymt, en hitt nafnið, Reykjavík, hefur farið víðar en nokkurt annað staðarnafn íslenskt.
Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið.”

Emil Hannes Valgeirsson bloggaði um örnefnið “Reykjarvík”:

“Það er dálítið sérstakt að lögheimili fyrsta landnámsmannsins hafi verið akkúrat á þeim stað þar sem höfuðborg landsins stendur í dag. En hvar var hún þessi Reykjarvík sem sá merki maður á að hafa byggt sér ból? Og þá meina ég Reykjarvík með erri eins og staðurinn er nefndur í Íslendingabók. Ýmist er talið að um sé að ræða víkina sem afmarkast af Örfirisey og Laugarnestanga eða víkina þar sem gamla höfnin er. En kannski er þriðji möguleikinn til staðar?

Örfirisey

Örfirisey 1960.

Á þeim rúmu 1100 árum sem liðin eru síðan Ingólfur Arnarson var og hét hafa orðið miklar breytingar á landsháttum á strandlengjunni hér við sundin blá vegna ágangs sjávar en ekki síður vegna þess að hér suðvestanlands er landið stöðugt að síga vegna nálægðarinnar við gosbelti Reykjanesskagans. Talið er að þetta landsig gæti hafa verið allt að tveimur metrum frá landnámi og strandlengjan því á stórum svæðum allt önnur en hún er í dag, eyjar og sker hafa sokkið í sæ og nes hafa orðið af eyjum.

Á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin er frá Skólavörðuholtinu árið 1877, sést hvernig aðstæður voru þarna fyrir 132 árum. Örfirisey er tengd landi með mjóum granda og annar grandi liggur frá honum í sveigju að skerjum sem ná langleiðina að Akurey en í sameiningu má sjá út úr þessu vísi að stórri skeifu. Í dag eru skerin við Akurey ekki nema svipur hjá sjón, eru oftar en ekki í kafi og tengjast ekki landi nema kannski í mestu stórstraumsfjörum. Uppfyllingar hafa svo að sjálfsögðu gerbreytt stöðu Örfiriseyjar sem er í dag ekkert annað en nes, eins og það hefur væntanlega verið fyrr á tímum.

Örfirisey

Örfirisey 1970.

Ef landshættir hafa verið einhvern vegin svona á tímum Ingólfs Arnarsonar, sést að þarna hefur verið allstórt nes eða tangi sem hefur náð alla leið út í Akurey. Þarna hef ég merkt inn bláan punkt sem merkir hverasvæði en nokkuð víst þykir að þarna hafi verið heit laug eða hverasvæði sem í dag er sokkið í sæ. Ysti hluti Örfiriseyjar er reyndar enn í dag kallaður Reykjarnes. Sennilega hefur allt þetta nes sem Örfirisey tilheyrir í dag, verið kallað Reykjarnes og miðað við sjávarstöðu nú, er líklegt að lítil vík hafi gengið inn í landið þarna rétt vestur af hverasvæðinu og ef einhver hefur viljað kalla þá vík eitthvað hlýtur nafnið Reykjarvík óneitanlega að koma upp í hugann.

Reykjarvík. Sú hugmynd að nafnið á höfuðborg landsins sé dregið af lítilli vík sem fyrir löngu er sokkin í sæ er ekki endilega minn eigin hugarburður. Mig rámar nefnilega í að hafa lesið um þetta í Lesbókinni fyrir einhverjum árum en hef þó ekki fundið þá grein aftur. Örnefnið eða bæjarnafnið Reykjavík virðist ekki hafa verið verið notað öldum saman því landnámsjörðin var lengst af kölluð „Vík“ á Seltjarnarnesi en það heiti er dregið af Seltjörn við Gróttu sem hefur staðið fyrir opnu hafi frá því Básendaflóðið gekk þar yfir 1799. Það var ekki fyrr en þéttbýli fór að myndast í kvosinni að staðurinn fékk nafnið Reykjavík. Þar hafa fundist elstu mannvistarleifar hér á landi og því kemur einnig vel til greina að Reykjarvík sé einfaldlega bara víkin þar sem gamla höfnin er nú, eins og gjarnan er talað um.

Örfirisey

Örfirisey 1985.

Hugmyndin sem ég minntist á hér fyrr um að Reykjavíkin afmarkist af Örfirisey og Laugarnestanga hefur sennilega orðið til vegna heitu lauganna í Laugardal enda inniheldur sú stóra vík tvö reykjasvæði. Mér finnst þó sú vík vera full víðáttumikil, þar að auki er Laugardalur hvergi sjáanlegur frá kvosinni og í nokkurra kílómetra fjarlægð. Hverasvæðið á Reykjarnesi hefur örugglega þótt alveg nógu merkilegt eitt og sér til að nota í örnefni og ef Reykjarvík hefur verið skrifað með erri hlýtur það að vísa í einn ákveðinn reyk, en ekki fleiri.

Að lokum má svo benda á að þótt örnefnið Örfirisey hafi verið til frá fyrstu tíð, er ekki víst að það nafn hafi alltaf átt við sama stað og í dag. Það er nefnilega vel þekkt að þar sem landshættir eru stöðugt að breytast geta örnefni farið á flakk og aðlagast nýju landslagi eins og gæti verið raunin með Reykjarvíkina”.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. apríl 2006; Garðar Svavarsson, Nafngjafi Reykjavíkur, bls. 22.
-https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/883564/

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes framar.

Heiðmörk

Sigurður málari Guðmundsson kom fyrstur fram með hugmyndina um friðun Heiðmerkur árið 1870. Hann taldi nauðsynlegt að Reykvíkingar gætu notið útivistar í geðfelldu umhverfi í nágrenni bæjarins. En góðir hlutir gerast hægt – nú sem fyrrum.
Upplýsingaskilti í Heiðmörk - saga og tilurðÞað var þó ekki fyrr en 1936 að Hákon Bjarnason skógræktarstjóri kynnti hugmyndina opinberlega, en hann taldi svæðið ákjósanlegt til útivistar fyrir almenning. Árið 1946 var Skógræktarfélag Reykjavíkur stofnað og fékk þá svæðið í vöggugjöf. Heiðmörk var friðuð í nokkrum áföngum á árunum 1950-1958 frá Elliðavatni að Vífilsstaðahlíð. Nú er Heiðmerkursvæðið rúmir 3000 ha. að stærð, að Rauðhólum, en þeir voru friðlýstir árið 1961. Þann 25. júní 1950 var Heiðmörk vígð, en þá gróðursetti Gunnar Thoroddsen borgarstjóri, greniplöntu á Vígsluflöt.
Fyrsta gróðursetningin fór þó fram vorið 1949 þegar starfsmenn Skógræktarfélagsins gróðursettu 5000 greniplöntur í svæði sem nú heitir Undanfari. Árangur skógræktarstarfsins er greinilegur og vex nú upp á 800 ha. Svæði með yfir 60 tegundum trjá og runna. Nokkur trjánna hafa náð 20 m hæð. Mikil tilraunastarfsemi með mismunandi trjátegundum og ræktunaraðferðum hefur farið fram undanfarna áratugi en nú er aðallega gróðursett sitkagreni, stafafura og birki. Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur, landnemafélög og vinnuhópar Vinnuskóla Reykjavíkur og Landsvikjunar hafa séð um gróðursetninguna. Nú hafa verið gróðursetta yfir 5 milljón plöntur í svæðið.
Upplýsingar á vefsíðu HeiðmerkurEn aðdragandinn var kannski ekki eins auðveldur og virðist skv. framangreindu. Náttúruvernd og markviss nýting umhverfisins hefur jafnan verið að frumkvæði fárra er séð hafa tilganginn umfram aðra. Þegar skilningurinn verður öðrum augljós skapast þó jafnan grundvöllur fyrir jákvæðari þróun þessa til lengri framtíðar.
Sigurður Nordal skrifaði grein í Lesbók MBL 11. maí 1941 sem hafði fyrirsögnina HEIÐMÖRK. Um var að ræða erindi sem hann hafði flutt á útvarpskvöldi Skógræktarfjelagsins 2. maí s.á. Erindið var síðar gefið út í safnriti Sigurðar, List og lífsskoðun, 3. bindi, bls. 317-323. Af þessu tilefni sagði Sigurður m.a.: “Til ills fórum vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta” – er í Landnámu haft eftir Karla, þræli Ingólfs Arnarssonar, þegar fyrst var numið hér land. Mörgum manni, sem fer um aðalþjóðveginn til Reykjavíkur, austan yfir Fjall, mun koma eitthvað svipað til hugar. Það eru mikil umskipti að láta að baki sér hið grösuga víðlendi þar eystra og fara um Svínahraun og Sandskeið. Og svo má heita, að því nær sem dregur höfuðstaðnum, þegar komið er niður á Árbæjarmela og yfir Elliðaár, því óyndislegri verði þessi leið frá náttúrunnar hendi, mýrar og hrjóstug holt á víxl. Að vísu er margvíslega fegurð að sjá úr Reykjavík og í nánd við hana… Raun ber því líka vitni, að næsta nágrennið laðar ekki bæjarbúa til sín.
Nýlegar framkvæmdir í Heiðmörk - ólíkt því er áður hafst var aðÞað getur vakið hreinustu furðu að ganga á fögrum sunnudegi, hvort sem er um vetur eða sumar, út á Seltjarnarnes, inn með Viðeyjarsundum eða suður í Fossvog. Á þessum leiðum er oftast örfátt fólk á gangi, líkt og í grennd við ofurlítið þorp. Hvar eru tugir þúsundanna, sem kúldrazt hafa sex daga vikunnar við vinnu sína í bænum, innan húss og utan, og nú ættu að leita frá göturykinu, kolareyknum og húsaþvögunni, draga að sjer hreint loft, liðka sig, styrkja og hressa með eðlilegri hreyfingu, njóta fegurðar lofts, láðs og lagar? Hvar er allt fólkið?
Nú skulum við hugsa okkur, að göngumaðurinn leggi leið sína dálítið lengra frá bænum, upp á Vatnsendahæð, suður með Hjöllum, upp á Búrfell, Helgafell, upp í Grindaskörð. Þar er hægt að vera á ferð heila sunnudaga, í dásamlegasta veðri, án þess að sjá nokkura tvífætta skepnu á sveimi.
Eg hef einstöku sinnum tekið með mér kunningja mína, sem bornir og barnfæddir eru í Reykjavík, um þessar slóðir… – alveg gagntekinn af því að horfa yfir þetta land, eyðilegt að vísu, en með svo undarlega heiðan og sterkan svip í einfaldleika sínum. Það var ekkert annað en mjúkar, boðamyndaðara línur langra ása, einstöku lítil vötn, fáein fell, sem tóðu upp úr, og fjallasveigurinn frá Vífilsfelli til Keilis eins og skjólgarður um þessa friðarsýn. Mér fannst þá í svip, að þeta væri fegursta útsýni, sem eg ef séð. Það hafði áhrif á mig með einhvers konar persónulegum mætti, tilhaldslaust, alvarlegt, sefandi og styrkjandi í senn. Eg hafði ekkert af því skoðað, nema það sem séð varð frá þjóðveginum.
Nokkrum árum síðar, þegar eg kom heim til langdvalar í Reykjavík, byrjaði eg að kynnast því. Það voru ekki ferðalög, sem í frásögur eru færandi; sunnudagsgöngur með nestispoka á baki upp að Gvendarbrunnum, suður í Kaldársel, smám saman til nýrra og nýrra staða, sem náð varð til með því að ganga alla leið, fram og aftur, á einum degi. Þær kostuðu ekkert annað en skóslitið, og þær heimtuðu ekki önnur afrek en að taka hvorn fótinn fram fyrir annan. Eg er enginn göngugarpur, liðónýtur að klífa fjöll, hef aldrei lagt í að ganga upp á Esju, kann ekkert til þess að fara í öræfaferðir né útilegur. Mér dettur ekki í hug að efast um, að þeir menn, sem hafa dug og tækifæri til þess að ferðast um hálendi Íslands og liggja þar við, finni þar enn meiri hressingu, eflingu og æfintýri.
Þjóðhátíðarlundurinn frá 1974 illa farinn - afkomendur virðast bera takmarkaða virðingu fyrir frumkvöðlastarfinuVið skulum ganga fyrir vesturenda Elliðavatns, fram hjá beitarhúsunum og suðaustur yfir ásana. Allt í einu komum við niður í langan og mjóan dal, sem liggur til suðurs. Vestan megin er klettabelti með dálitlu skógarkjarri. Það eru Hjallarnir. Dalbotninn er víðast eggléttar grundir, aflíðandi móaflesjur að austan. Þarna er fjallaloft og fjallró, svo að ótrúlegt má þykja, að við séum ekki nema rúma 10 kílómetra frá borginni. Við göngum með Hjöllunum, beina leið að Gjáarrétt. Þar er einkennilegt um að litast, stór hellir, djúpar hraunsprungur, ein þeirra með vatnsbóli í botni og þrep gerð niður að því. Við höldum upp eftir Gjánni, sem hefur myndazt við að hraunstraumur hefur runnið þar fram, jaðrarnir storknað, en bráðin hraunleðjan í miðjunni skilið eftir auðan farveg. Gjáin er undrasmíð, með íhvolfum skjöldum beggja vegna, sem væru þing að að hafa bak við ræðupall í samkomuhúsi. Þegar hærra dregur, þrengist hún  og grynnist. Hraunsteinarnir verða rauðir, víða með víravirki af steinþráðum, eins og þeir væru nýstorkanðir. Og allt í einu sjáum við niður í stóran eldgíg, sem tæmt hefur allt hraunið úr sér niður Gjána. Hann heitir Búrfell.”
Þá fjallar Sigurður um næsta nágrenni, s.s. Kaldársel, Vatnsenda, Gvendarbrunna, Vífilsstaðahlíð, Húsfell, Helgafell og svæðið ofan Hafnarfjarðar.
Upplýsingar um Þjóðhátíðarlundinn - 1974“Ástæðan til þess, að eg hef gert þessar stöðvar að umtalsefni, er fyrirætlun Skógræktarfjelagsins að fá þær girtar og friðaðar. Það er tvennt, sem fyrir forystumönnum félagsins vakir; að klæða þetta landssvæði smám saman fjölbreyttum skógargróðri, ferga það og prýða, að laða fólkið af mölinni til þess að leita þar athvarfs og hressingar. Maggi Magnús yfirlæknir skrifaði hugvekju í Morgunblaðið, er hann nefndi Sumarland Reykvíkinga. Og Hákon Bjarnason skógræktarstjóri mun síðar í kvöld gera nánari grein fyrir málinu. Þetta er fyrirætlun sem á skilið óskiptan stuðning Reykvíkinga, bæði bæjarfélags og einstaklinga, og æskilegast væri, að nágrannabæirnir tveir, [Kópavogur] og Hafnarfjörður, tækju höndum saman að framkvæma hana af stórhug og myndarskap.
Þessum þjóðgarði þarf að velja nafn, sem honum í senn sæmir vel og minnir á takmark hans og tilgang. Eg vil stinga upp á því, að hann verði kallaður Heiðmörk. Heiðmörk er fornt heiti á einu fylkinu á Upplöndum í Noregi. Mörk er skógur. Allir finna, hversu vel það fer í nöfnum eins og Þórsmörk og Þelamörk. Í því er fólginn draumur voru um að klæða landið aftur íturvöxnum trjágróðri. Heiður er bjartur, og Heimörk; hið bjarta skóglendi. – er heiti, sem vel mun fara þessu friðsæla landi með tæru lofti og litum.
Heiðmörk á að verða okkar sólskinsblettur í heiði í réttri merkinu; þar eigum við að njóta heiðríku lands og lofts betur en unnt er að gera á götum bæjanna, heiðríkju hugans, heiðríkju einverunnar.”

(Sjá Heiðmörk – kort).

Heimildir m.a.:
-Sigurður Nordal, safnritið List og lífsskoðun, 3. bindi, bls. 317-323.
-Lesbók MBL. 11. maí 1941, bls. 161-163.
-Skilti við Helluvatn í Heiðmörk – Saga Heiðmerkur.

Heiðmörk

Fjárborg í Heiðmörk.

Þingnes

Eftirfarandi úrdráttur úr dagbók eins FERLIRsfélaga á vettvangsnámskeiði fornleifafræðinema í Þingnesi dagana 17. 21. maí 2004 er birtur hér til að gefa áhugasömu fólki svolitla innsýn í “líf” fornleifafræðinnar, en hún er ein þeirra fræðigreina sem krefst mikillar þolinmæði, nákvæmni, ákveðins verklags og skilyrðislausrar þekkingar á viðfangsefninu.

Vettvangsnámskeið í Fornleifafræði á Þingnesi
17.-21. maí 2004.

Inngangur
Vettvangsnámskeiðið á Þingnesi er liður í námi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.
Nemendum hafði áður verið bent á fyrirlestur Guðmundar Ólafssonar, fornleifafræðings, um Þingnesið, sem hann hélt síðan í Kórnum, Safnahúsinu í Kópavogi laugardaginn 8. maí s.l. Þar gaf Guðmundur ágætt yfirlit um rannsóknirnar sem og helstu niðurstöður. Komið verður inn á þær í dagbókalýsingu fyrsta dagsins hér á eftir. Þá var nemendum gert að afrita Vettvangshandbók (Arcaelogical Field Manual) af vefnum og lesa hana vel fyrir námskeiðið. Í handbókinni er m.a. fjallað um undirbúning uppgraftar, uppgöftinn sjálfan og skráningaraðferðir, vettvangsskráningu, muni er finnast og sýnatökur. Hún er tekin saman af Gavin Lucas fyrir Fornleifastofnun Íslands.
Við undirbúning var einnig lesin rannsóknarskýrsla Guðmundar Ólafssonar um fornleifarannsókn og vettvangsæfingu fornleifafræðinema í Þingnesi árið 2003. Í henni kynnir Guðmundur m.a. helstu niðurstöður þeirrar rannsóknar.
Í rannsóknarskýrslunni lýsir Guðmundur aðdraganda vettvangsnámskeiðanna og hvernig hið fyrra gekk fyrir sig í megindráttum. Þar kemur fram að rannsóknin sé skráð í Sarp-menningarsögulegan gagnagrunn minjavörslunnar og hefur þar fengið rannsóknarnúmerið 2004-26. Við rannsóknina 2003 voru teiknaðar 19 flatateikningar og 2 sniðteikningar. Teknar voru tvær filmur, samtals 75 myndir og þær skráðar í Sarp. Opnuð voru tvö svæði til rannsóknar. Annað var um 28 ferm. svæði í suðausturhluta rústar nr. 9 á yfirlitskorti og hitt var um 7 m langt þversnið yfir rúst nr. 12 á yfirlitskorti.
Leiðbeinendur á vettvangsnámskeiðinu eru, auk Orra Vésteinssonar, þeir Guðmundur Óskarsson, Howell Roberts og Oscar Aldred.

DAGBÓK.

Dagur eitt – 17.05. – 09:00-16:30.
Orri Vésteinsson, lektor, tók á móti hópnum, kynnti Þingnesið, tóftirnar og söguna og fór yfir verkefni dagsins. Undirritaður naut þess að hafa skömmu áður farið á fyrirlestur Guðmundar Ólafssonar, fornleifafræðings, um sama efni í Listasafni Kópavogs, en þar lýsti hann mjög vel möguleikum Þingnessins sem þingstaðar, breytingum og hugsanlegri nýtingu svæðisins sem og helstu niðurstöðum fornleifarannsókna þar.
Um var að ræða fjóra hópa er hver um sig fengu ólík verkefni frá degi til dags. Undirritaður var svo heppinn að lenda í hópi nr. 2 þar sem fyrir voru fjórar valkyrjur til verka.
Verkefni hópsins þennan dag var uppgröftur í rúst nr. 12. Leiðbeinandi var Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur. Rústin er neðarlega í hallanum niður að vatninu um 6 m austan við rúst nr. 13. Hún er um 12 m löng og um 6 m breið og snýr í A – V. Rústin er allgreinileg á yfirborði og var mæld inn árið 1984 í mælikvarða 1:50 (1984-386-14). Af yfirborði virtist hún vera um 1,5 x 5.3 m að innanmáli. Við rannsókn 2003 var tekið 6.7 m langt og 75 cm breitt þversnið í gegn um rústina frá N – S. Það var í raun útvíkkun í litlum sniðskurði sem byrjað var á sumarið 1986, en var ekki kláraður og ekki teiknaður upp. Þverskurðurinn 2003 var teiknaður upp bæði í fleti og í sniði og kom þá í ljós að rústin er 2.4 m breið að innanmáli. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr torfi og grjóti og eru 1.3 m breiðir.
Neðst í veggjunum við innri og ytri veggjabrún er einföld röð steina. Þar ofan á eru torf og grjót til skiptis og á milli hefur verið fyllt upp með mold. Þrjár raðir steina voru hver upp af annarri, þar sem mest var. Efsti hluti veggjanna hafði hrunið til beggja hliða og lá ýmist innan í rústinni eða fyrir utan hana.
Innan í rústinni mátti greina óljóst mannvistarlag. Það var að sjá sem fjölmargar örþunnar brúnar, ljósbrúnar og dökkbrúnar rákir. Lagið er um 10 cm þykkt. Litabreytingar eru samt mjög litlar og reyndist mjög erfitt að greina lagið frá öðrum jarðlögum.
Í þversniði rústar 12 kemur uppbygging rústarinnar glögglega í ljós. Ytri og innri veggjarbrúnir eru hlaðanar grjóti og torf og moldarfylling þar á milli. Rist hefur verið torf innan úr rústinni og það sennilega lagt á veggina. Þá sést að steinar hafa verið að hrynja úr veggjum hússins á löngum tíma, og að það er löngu orðið að rúst þegar Katla~1500 fellur á svæðið. Í rannsóknarskýrslu Guðmundar Ólafssonar fyrir Þingnes árið 2003 er rannsókninni lýst sem og einstökum lögum í þversniði rústar nr. 12. Þar kemur m.a. fram að jarðlögin gefi til kynna að rústin sé líklega hlaðin og í notkun á 10. öld (900-1100). Hún hafi löngu verið komin úr notkun og hrunin þegar gjóskulagið Katla~1500 fellur. Samkvæmt innbyrðis greiningu mannvistarlaga megi ætla að rúst 12 hafi verið upphaflega hlaðin á fyrri hluta 10. aldar. Óvíst er hversu lengi hún var í notkun, en sennilega er það í mesta lagi um ein öld. Þunn og slitrótt mannvistarlög benda fremur til þess að ekki hafi verið um samfellda heilsárs notkun að ræða, heldur árstíðabundna notkun.
Ekki verði enn hægt að slá neinu föstu um hlutverk minjanna í Þingnesi, en eftir því sem meira hefur verið grafið hallast höfundur æ meir að því að þarna hafi verið þingstaður, fremur en t.d. sel eða útihús.
Þessi rannsókn hefur fengið rannsóknarnúmerið 2004-26 í SARPUR.
Byrjað var á því að taka upp frágang síðasta árs í þverskurði N – S. Einnig var tekið upp úr skurði A – V, hann breikkaður og grafið í hann. Ætlunin var m.a. að kanna hvort dyragat kynni að leynast á suðurveggnum, en yfirborðið bar ekki augljóslega með sér hvar það væri á rústinni. Skafið var með veggjum S – N skurðarins og sýndi Guðmundur og útskýrði jarð- og gjóskulögin, sem í þeim eru. Katla~500 er svart öskulag, nokkuð ofarlega, en landnámslagið ljósleitt og einnig dökkleitra neðst, ofan á óhreyfðum jarðvegi.
Þegar grafið var ofan af suðurveggnum kom Katla~500 í ljós ofarlega milli grjótsins. Eftir að hafa grafið þvert á suðurvegginn, hreinsað ofan af og grafið beggja vegna veggjarins, rúmlega meterlengd sunnan hans, komu í ljós slétthliða steinar neðst og aðrir, eru virtust vera hrun, ofan á. Ekki voru þó steinar á milli þeirra sléttu er sáust neðst, er bent gæti til þess að þar væri dyragat. Landnámslagið var sunnan við vegginn, ofan á óhreyfðu dekkra morldarlagi. Ofan á var ljósleitari fokmold. Síðan kom þunnt lag af ryðleitri mold er gæti hafa verið fyrrum mýrartorf. Ofan á því var fokmold, Katla~500 og síðan fokmold og torf. Dýpt skurðarins var um 60-70 cm og breidd um 70 cm.
Guðmundur leiðbeindi nemendum vel og vandlega hvernig haga ætti uppgreftinum og hvað þyrfti helst að varast, ekki síst er kæmi að hugsanlegum mannvistarlögum. Þá tók hann hæðarpunkt (78 m.y.s.) á línu með norðurbrún S – N skurðarins, snúraði rústina út skv. hniti og mælipunktum og lagði fyrir gerð þversniðs og flatarteikningar. Náðist að ljúka hvorri teikningu fyrir sig áður en vinnudegi lauk. Það verður síðan í höndum næsta hóps að lyfta grjótinu af suðurveggnum og rannsaka hvort dyragatið leynist þar. Einnig er ætlunin, ef tími leyfir, að grafa í suðausturfjórðung rústarinnar.
Áhugaverður og fróðlegur dagur.

Dagur tvö – 18.05. – 09:00-16:30
Í dag fékk hópur 2 tækifæri til að læra á og nota hæðarmælikíki, leggja út hnitakerfi, draga upp minjasvæði og gera “örvateikningu” af því.
Orri Vésteinsson útskýrði hvernig setja ætti upp “TÆKIД, þ.e. hæðarkíkinn, stilla og nota, hvort sem er til hæðarmælinga, fjarlægðarmælinga eða hornamælinga (nota kíkinn sem gráðuboga). Einnig útskýrði hann meginmuninn á hæðarkíki og alstöð (sjá dagur 4). Síðarnefnda tækið er fjölhæfara, en bæði dýrara og vandmeðfarnara. Fram kom hjá Orra að ýmsar aðferðir væru notaðar til að mæla upp rústir, s.s. með alstöð, kíki eða málbandi. Að þessu sinni átti að gefa hópnum tækifæri til að reyna bæði hina fyrstnefndu sem og þá síðastnefndu.
Í framkvæmd var nemum kennt að að nota kíkinn til að lesa hæðarkvarða af mælistiku og færa punkt, í þessu tilviki frá vatnsborði Elliðavatns upp á gróið klapparholt allnokkru sunnar. Hæðarmismunurinn reyndist, skv. mælingunni, vera 18.48 m. Þurfti að mæla af stikunni 12 sinnum til að finna út hæðarmismuninn (3.34-0.13+3.21-0.29+3.91-0.28+3.84-0.13+3.97-0.70+1.56-0.40=18.48). Var það gert með því að leggja kerfisbundið saman og draga frá til skiptis þangað til “flutningum” var lokið.
Kennt var í framkvæmd að nota kíkinn til fjarlægðamælinga með því að draga neðri tölu frá efri tölu tveggja strika mælistikunnar ofan við miðjustrikið á kíkinum þegar horft er í gegnum hann og margfalda með tölunni 100. Þannig var miðjustrikið t.d. á 1.70, efra strikið á 1.76 og neðra strikið á 1.62. Þetta gaf töluna 0.14×100=14. Fjarlægðin frá kíkinum að stikunni var því 14 metrar.
Þá fékk hópurinn að aðstoða annan hóp, sem vann við rúst 9, til að hæðarmæla rústina, eins og hún leit út þá. Fyrst var hæðarpunkturinn fenginn af hæl undir alstöðinni (TH=0.93 (TBM á ensku)) og síðan var tekið mið af honum við mælinguna. Teknir voru 17 hæðarpunktar á skipulegan hátt í rústinni og færði leiðbeinandinn þá samviskusamlega inn á uppdrátt (sjá meðfylgjandi riss).
Hópurinn fékk æfingu í að setja út punkta (8×8), bæði með því að nota kíki og málbönd sem og nota Pýþagórsarregluna (langa línan á þríhyrningi þar sem 1×1=1.41 eða 8×8=11.28).
Þá fékk hópurinn það verkefni að setja út mælilínur og teikna upp minjasvæði með málbandi. Orri útskýrði framkvæmdina og sýndi dæmi, bæði við framkvæmdina og fráganginn, þ.e. notkun tákna. Hópnum var skipt í tvennt og fékku undirritaður það verkefni ásamt Ernu að mæla upp tvær rústir (14 og 15) á landföstum tanga á vestanverðu minjasvæðinu. Lögðum við út mælilínu eftir endurlöngum miðveggnum og mældum síðan rústirnar út frá henni (sjá meðfylgjandi riss (ekki í mælikvarða)) og gerðum uppdrátt í mælikvarðanum 1:100. Það gekk vel eftir að hafa komist upp á lag með að nota aðferðina.
Tækifærið var notað og kíkt af og til á gang mála ú rúst nr. 12. Þar var smám saman að koma í ljós dyradag, auk þess viðakolsleifar fundust við gröft.

Dagur þrjú – 19.05. – 09:00-16:30
Howell Roberts, fornleifafræðingur, tók á móti hópnum um morguninn í Þingnesi. Verkefni dagsins var að fræðast um alstöðina, möguleika hennar og notkun.
Alstöð sú, sem notuð var (Fastmap 700 – DTM 750) er , að sögn Howells, flóknasta vettvangstækið við fornleifarannsóknir. Það mælir hæðir, fjarlægðir og horn, auk þess sem hægt er bæði að finna áður mælda staði og leggja út línur svo eitthavð sé nefnt. Alstöðin er jafnframt eitt viðkvæmasta tækið, sem notað er við vettvangsrannsóknir. Um er að ræða tiltölulega einfaldan tölvubúnað er gengur fyrir rafhlöðum og einnig er alstöðin viðkvæm og vandmeðfarin svo að mörgu þarf að hyggja. Einnig þarf að gæta varúðar við meðferð hennar, ekki síst við uppsetningu og upphafsstillingar. Alstöðin er fimm ára gömul og kostaði u.þ.b. tvær milljónir króna. Í dag eru til fullkomnari alstöðvar er hafa m.a. skynjara er fylgt getur sjálfvirkt þeim, sem staðmælir, og skráð mælinguna. Upplýsingarnar eru skráðar jafnóðum og afritaðar. Síðan er hægt að fara með minnisspjaldið í tölvu og vinna upplýsingarnar þar til frekari nota, samanburðar og úrvinnslu.
Howell leiðbeindi hópnum hvernig setja ætti alstöðina upp; staðsetja þrífótinn, sem hún hvílir á, með nákvæmni, koma alstöðinni fyrir á honum, grófstilla og fínstilla og hverjar hreyfingar eru mögulegar og hverjar takmarkanirnar eru.
Þá er mælt frá punkti (jörð), í þessu tilviki stöð (station) nr. 9004, upp í alstöðina með málbandi og upplýsingarnar skráðar í upphafsstillingu ásamt hæð á mælistikunni (1.5), staðsetningu (nr. stöðvar/staðsetningar), staðarheiti, því sem á að mæla og fleiri grunnupplýsingum eftir efnum og ástæðum.
Venjulega er mælt út frá uppgefnum hæðarpunktum í fyrirfram ákveðnu hnitakerfi, s.s. Reykjavíkurborgar (sveitarfélaga), Landmælinga Íslands eða Vegagerðar ríkisins. Í þessu tilviki var fastur punktur “sóttur” út í “stöð” 9006 á landfasta tanganum (E214.980 – N:562.250 – Z:081.265 þar sem E stendur fyrir austur og N fyrir norður). Stöng með “sól” eða kringlóttum spegli, staðsett á punktinum, endurkastar innfrarauðum geisla, sem alstöðin sendir frá sér, til baka og stöðin reiknar út fjarlægðina. Howell sýndi hvernig hægt var að mæla fjarlægðarpunkta, hæðarpunkta og gráður með því að hreyfa einstaka hluta tækisins. Tölvan sér síðan um útreikningana og birtir þá á skjánum.
Alstöðin mælir áttir fullkomlega. Við uppsetninguna kom í ljós að dagana tvo á undan hafði ekki verið tekið mið af höfuðáttunum af þeirri nákvæmni sem alstöðin gaf nú til kynna. Þannig lá svonefndur S-N skurður í rúst 12 ekki lengur í suður og norður, heldur fremur austur og vestur. Þarf að hafa hliðsjón af því er framangreint er lesið (dagbókinni verður ekki breytt þar sem hún er skrifuð jafnóðum – einungis leiðrétt).
Fram kom hjá Howell að hyggja þarf vel að áttum. Annars geta mælipunktar lent röngum megin við línu, sem síðan getur verið fyrirhöfn að leiðrétta síðar. Í alstöðina er hægt að safna nálægt 900 mælipunktum áður en upplýsingarnar eru afritaðar.
Howell sýndi hversu erfitt getur verið að ákvarða útlínur og innlínur gróinnar tóftar eða rústar. Sagði hann það vel geta verið matsatriði hjá hverju og einum hverjar hann telur útlínurnar vera. Í rauninni er ekkert til sem heitir ranglegra en annað í þeim efnum, en mikilvægt væri að reyna að átta sig á hvað kynni að tilheyra hverjum stað, sem mæla ætti. Þá skipti þéttleiki mælipunkta máli þegar kæmi að skjámyndinni, sem birtist á alstöðinni. Þéttleikinn mætti ekki vera og lítill (því þá tæki mælingin óþarflega langan tíma) og ekki heldur og mikill (því þá væri ónákvæmnin meiri). Fjöldi punktanna, þrátt fyrir tímalengdina, yki þó á nákvæmni mælinga. Beinar línur væri fljótlegra að mæla en t.d. hringi, bugður og beygjur. Ef einhver væri í vafa hvað ætti að mæla væri ávallt betra að taka fleiri punkta en færri. Það gæti sparað aðra ferð á vettvang. Punktmælingin kæmi með æfingunni eins og annað í þessu fagi.
Hægt er að stilla alstöðina þannig að hún dregur punktalínu, strikalínu eða sambland þeirra, á milli punktanna og getur þannig mynd af útlínum þess sem mælt er.
Tækifærið var nota, fyrst búið var að stilla alstöðinni upp á stöð 9004, að aðstoða við að taka tvo punkta á sýnastöðum í rúst 9 (find 9 and 10), en þar hafði fundist málmur og glerbrot (sennilega hvorutveggja frá 20. öld, en allur er varinn góður).
Þá var alstöðin tekin niður og sett upp að nýju yfir stöð 2007 á vestanverðum tanganum, vestan rústar nr. 16. Aftur var farið yfir grundvallaratriðin varðandi uppsetninguna og stillingar. Staðsetningin var nákvæmlega yfir stöðinni (hæll) og eftir fínstillingar varð skekkjan sú minnsta hugsanlega (eða 0.00). Gengið var með mælistikuna með útlínum rústar 16. Upplýsingarnar voru skráðar í alstöðina jafnóðum. Þá var innlínur mældar með sama hætti. Að því loknu sýndi Howell hvernig mæld rústin lítur út á skjámynd tækisins. Niðurstaðan var allsennileg.
Í framhaldi af þessu var, að beiðni Guðmundar, hafist handa við að staðsetja sumarbústaðinn í Þingnesi. Var það gert með því að setja mælistikuna á hvert sýnilegt horn hans (norðurhliðina) og mæla fjarlægðina.
Í framhaldi af þessu var ákveðið að færa stöð 9007 suður fyrir bústaðinn til að mæla horn á vestur og suðurhliðum. Áður þurfti að búa þar til nýja stöð (2008). Gengið var þangað, hæll rekinn niður og hann markaður. Hann var síðan mældur út með alstöðinni við stöð 9007. Alstöðin var síðan tekin niður, færð yfir 2008, sett upp að nýju, stillt og síðan fjarlægðin mælt frá henni í stöð 2007. Að því búnu var hinar hliðar sumarbústaðarins mældar og skráðar.
Howell útskýrði hvernig hægt er að nota alstöðina til að finna punkta og setja út línu. Tók hann æfingu með hópnum í því. Gekk það greiðlega. Loks var nálæg strönd Elliðavatns mæld, skráð og dregin með aðstoð alstöðvarinnar.
Gögn dagsins voru afrituð og Howell nýtti þann tíma, sem eftir var dagsins, til að fara yfir og útskýra skjámynd alstöðvarinnar og möguleika hennar.
Enn einn áhugaverður og fróðlegur dagur við fornleifarannsóknir í Þingnesi.

Dagur fjögur – 20.05. – 09:00-16:00
Oscar Aldred, fornleifafræðingur, tók á móti hópi 2 við rúst nr. 9. Framundan var uppgröftur í rústinni undir hans stjórn. Uppgraftarsvæðið er hluti tóftar. Sýnilegar voru útlínur miðveggs og hluti útveggjar. Ljósmynd var tekin frá norðvesturhorni uppgraftarsvæðisins til að bera saman við útlit þess að vinnudegi loknum (sjá mismuninn).
Oscar byrjaði á því að útskýra verkefnið framundan. Fram kom að grafið væri í svonefndri “single context”, þ.e. grafið lag eftir lag. Uppgraftarsvæðið var hluti stórrar tóftar og var það allt opið. “Fletta” átti lagi ofan af (context nr. 10) og skrá lagið, sem fjarlægja átti. Fyrra lagið (ofan á) hafði verið nr. 9. Gerður hafði verið uppdráttur (flatarteikning) af uppgraftarsvæðinu, eins og skilið hafði verið við það áður þar sem útlínur, steinar og annað, sem skipti máli, var sýnt. Lýsti Oscar hvað hafði verið gert á svæðinu fram að þessu, kynnti moldina, steinana og fyrri fundi til sögunnar og leiðbeindi um næsta skref, þ.e. að fjarlægja lausa steina úr vesturhluta rústarinnar.
Áður en kom að því að fjarlægja steinana fékk Oscar hópinn, sem var að æfa sig í notkun alstöðvarinnar, að taka 17 punkta í rústinni. Þar með voru mælipunktarnir orðnir 277 talsins. Hnitin voru færð á uppdráttinn og mælingarniðurstöðurnar skráðar. Bent var að betra væri að taka fleiri punkta en færri til öryggis ef eitthvað kynni að fara úrskeiðis.
Garfið var frá steinunum með múrskeið og mold fjarlægð þangað til þeir urðu lausir. Voru steinarnir teknir upp hver á fætur öðrum og komið fyrir í kesti við suðurenda rústarinnar. Oscar lýsti muninum á ljósari moldinni og þeirri dekkri, hvaða steinar teldust geta verið í “röð og reglu” og myndað útlínur og hvernig sjá mætti torflög og gjóskuna í þeim. Torfið er mýrartorf, en í því má sjá ljós og grænleit öskulög (landnámsöskulagið) og einnig ryðbrúna tauma (járn). Steinarnir í vesturhlutanum eru hrun úr veggjum og líkast til torfið einnig. Sást móta fyrir útvegg í norðausturhorni uppgraftarsvæðisins, en “veggurinn” í miðjunni virtist vera miðveggur eða gangur.
Sýnt var teikniblaðið og hvað myndi verða skráð á það. Þá sýndi Oscar graftæknina og benti á að ekki væri nóg að horfa á flötinn, sem verið væri að fjarlægja; einnig þyrfti að hlusta vel og reyna að finna þegar umskipti yrðu.
Við skafið fundust viðarkol (smáagnir og ein stærri) á víð og dreif, lítil beinbrot (gulbrún) og lítill ryðgaður málmhlutur (gat verið hluti úr spennu eða sylgju). Síðastnefndi hluturinn var mældur, skráður og fjarlægður, færður í poka, sem var merkturmeð uppgraftarnúmeri (ÞNG04, rústarnúmeri (9), fundarnúmeri (find number) (11), innihaldi (Fe) og tegund hlutar (óljóst í þessu tilviki). Jafnframt voru hnitin skráð á pokann. Hluturinn verður færður til sérfræðings svo fljótt sem verða má. Til að loft léki um gripinn gerði Oscar gat á plastpokann.
Oscar tók yfirlitsmynd og útskýrði jafnframt að ljósmyndnir í uppgrefti væru notaðar í mismunandi tilgangi. Þær geta verið með eða án fólks; til að sýna fólk að störfum eða til skráningar án þeirra og annars, sem því fylgir.
Eftir uppgröftinn skráði Oscar fyrirliggjandi upplýsingar á skráningarblað og færði nauðsynlegar upplýsingar inn á uppdráttarblað, sem ætlunin er að ljúka við á morgun. Ákvað hann að breyta contextnúmerinu úr 10 í 11 og gefa eystri hluta uppgraftarsvæðisins (austan við miðvegginn) sérstakt númer, sem er 10. Á skráningarblaðið færi hann m.a. contextnúmerin og tegund (surface). Oscar benti á að best væri að nota H4 blýant við skráninguna (máist síður og þolir bleytu).
Á uppdráttarblaðið skráði Oscar m.a. tengund teikningar (flatarteikning), uppgraftarnúmerið (ÞNG04), einingarnúmerið (context 11) og type (deposit). Benti hann á að mikilvægt væri að gera uppdráttinn eins fljótt og kostur er á vettvangi þar sem hægt væri að bera hann saman við fyrirmyndina.
Oscar sýndi og dró upp matrixinn af uppgraftarsvæðinu þar sem efsta torflagið er [1] og lagið, sem síðast var fjarlægt [11]. Ofan á því er [9] og ofan á því er [8]. Matrix nr. [10] er til hliðar. Matrixinn lýsir jarðlögunum, bæði innan og utan rústarinnar, í réttri röð. Um væri að ræða svonefndan “vinnumatrix”, sem gæti breyst, sbr. framangreint.
Þá lýsti Oscar með hópnum helstu einkennum uppgraftarins og skráði á uppgraftarblaðið (8 viðmiðunarliðir); 1. Þéttleiki jarðvegs (miðlungs), 2. Litur (dökkbrúnn, með ýmsum litbrigðum, s.s. ljósu, grænleitu og ryðbrúnu), 3. Samsteining (silt – sandleir/fínn), 4. Meðtalning (steinar, ávalir), 5. Þykkt – fjarlægt (10-15 cm), 6. Skil (greinileg, bein í miðvegg að austanverðu), 7. Samhengi (svipað yfir allt), 8. Röskun (erfitt að segja til um á þessu stigi).
Jafnframt þarf að lýsa eftirfarandi: Öskulögin, sem fundust eru að öllum líkindum landnámslagið (ljósleitt og grænleitt). Það var einkar áberandi í torfinu, sem fjarlægt var, ein og áður hefur komið fram. Hlutir, sem fundust; málmhlutur, viðarkolsagnir og smá beinbrot (ekki mælanleg). Sýni var einungis tekið af málmhlutnum. Svæðið var handgrafið og teiknað upp í matrix. “Innviðir” þess (uppgraftarsvæðisins) voru steinar og torf, sem hvorutveggja hafa hrunið inn úr veggjum (og hugsanlega þaki).
Enn einn lærdómsríkur dagurinn að síðdegi kominn.

Dagur fimm – 21.05. – 09:00 – 16:30
Lokadagur vettvangsnámskeiðsins var að morgni kominn. Byrjað var við rúst 9, þar sem endað hafði verið daginn áður. Oscar leiðbeindi hópnum hvernig leggja ætti út mælilínur. Í þessu tilviki voru notaðir þrír hælar, sem aðrir höfðu áður notað, auk þess sem fjórði hællinn var settur niður til að mynda ferning (5×5). Þá voru hornpunktarnir staðsettir á mæliblaðið (frá neðst til vinstri) og undirbúin mæling í 1:20.
Mældar voru útlínur uppgraftarsvæðisins að vestan og norðanverðu, sem og steinar, sem höfðu uppgötvast við gröftin í vestanverðri rústinni daginn áður. Allt var þetta skilmerkilega fært inn á teikniblaðið. Þá var syðri og austari hlutar rústarinnar hæðarmældir. Settur var upp þrífótur, kíkirinn ofan á og hann stilltur. Þá var TBM mælt (80.74), BS skráð (0.88) sem og IH (81.82). Að því búnu fór mælingin fram. Mælt var á 18 stöðum í rústinni, ýmist gólf eða steinar. Punktarnir (1. 0.90, 2. 0.94, 3. 1.06, 4. 1.02, 5. 1.05, 6. 1.00, 7. 0.98, 8. 1.00, 9. 0.71, 10. 0.86, 11.1.05, 12. 0.87, 13. 1.05, 14. 0.93, 15. 0.89, 16. 0.86, 17. 1.13 og 18. 1.00). Gengið var frá uppdráttarblöðum, mælilínur teknar upp og gengið frá áhöldum.
Howell leiðbeindi hópnum um notkun ljósmyndavélar. Fór hann yfir helstu atriði er gæta þarf að, s.s. að hafa ekki fólk, fötur og annað inn á yfirlitsmyndum af einstökum rústum eða gripum. Jafnframt hversu mikilvægt væri að huga að mælikvarða og staðsetja hann rétt m.v. fyrirhugaða afstöðu myndar. Huga þyrfti að áttum, sólstöðu o.fl. Stillingar á myndavélinni væru og mikilvægar og fór hann yfir hvernig þær virkuðu.
Gengið var frá rústunum með því að leggja “drendúk” yfir uppgraftarsvæðin og þekja síðan með torfinu, sem tekið hafði verið upp úr þeim á fyrsta degi eða fallið hafði til síðar í uppgreftinum. Svæðið var snyrt og áhöld voru til handargangs, fötur, skóflur og skeiðar þvegnar og gengið frá eins og leiðbeiningar kveða á um.
Loks var haldið niður að Ægisgarði við Reykjavíkurhöfn. Þar fór Sirrý (kynnti sig sem slík) yfir það helsta er lítur að fleytingu. Í gámi við vinnusvæðið var fjöldi hvítra (10 lítra) plastfatna með mold í úr ýmsum uppgröftu, s.s. Sveigakoti, Hofstöðum og einnig frá uppgreftinum á Þingnesi 2003. Sérhver fata er m.a. merkt með uppgraftarstað, númeri, dags. og hlutatölu af heild. Áður en hvolft er úr fötunni í fínryðið net efst í vatnstunnu, hagalegu gerðu íláti (sjá mynd), eru upplýsingar á fötunni bornar saman við skráningarblað, merkt við og álnúmer í fötunni tekið (en það fylgir síðan með því sem verður eftir úr fleytingunni). Samviskusamlega er moldin hreinsuðu frá öðru (eða öfugt), grófari “afurðirnar”, s.s. þræðir, bein eða gripir, falla í fat með sigti í botninn, en fíngerðari “afurðir”, s.s. frjókorn, verða eftir í enn fíngerðara sigti þar undir. Eftir að skolun úr fötunni er lokið, eru “afurðirnar” skolaðar vel og síðan hvor um sig færðar í fínar grisjur þar sem númerið er tilheyrði fötunni, fylgir með eins og fyrr sagði. Þær eru síðan hengdar upp til þerris áður en innihaldið verður skoðað nánar af sérfræðingi. Sjá mátti m.a. bein, smásteina, gróðurleifar o.fl. verða eftir í sigtunum áður en innihaldinu var komið fyrir í grisjunum.
Sirrý benti á að jafnan þyrfi að taka lítið sýni úr hverri fötu, merkja það og geyma, ef eitthvað kynni að fara úrskeiðis.
Enn einum áhugaverðum degi lokið – fyrr en varði.

Lokaorð
Framangreind lýsing dagbókarinnar er fyrst og fremst yfirlit yfir það sem hópur nr. 2 fékkst við á vettvangsnámskeiðinu. Hvorki er farið út í einstök smáatriði eða einstöku verki lýst í smáatriðum. Skrifin voru færð inn eftir hvern dag þannig að innihaldið ætti að vera nokkuð nálægt lagi. Textanum fylgja nokkrar yfirlitsmyndir, en þeim er einungis ætlað til að gefa mynd af einstökum stað eða hlut án mælikvarða eða viðmiðana.
Kennararnir á námskeiðinu voru hver öðrum betri, yfirvegaðir, þægilegir og gefandi. Þeir miðluðu nemendum af reynslu sinni og fróðleik. Tímanum var vel varið til að fara yfir það sem máli skiptir, hvort sem það lítur að því sem þarf að gera á vettvangi eða að því hvers ber að varast við framkvæmd fornleifauppgraftar, sem er ekki síður mikilvægt.