Garðar Svavarsson skrifar um örnefnið “Reykjanes” í Morgunblaðið 16. apríl 2006 undir fyrirsögninni “Nafngjafi Reykjavíkur“:
“Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið. Hér verður fjallað um uppruna og sögu örnefnisins.
Á norðurenda Örfiriseyjar handan olíustöðvar er örnefnið Reykjanes. Fleiri staðir á landinu bera þetta nafn og má þar nefna Reykjanes á Suðurnesjum, í Reykhólasveit og við Ísafjarðardjúp. Á þessum þremur síðasttöldu stöðum er jarðhiti, laugar eða hverir, og myndarleg nes svo augljóst er af hverju staðirnir draga nafn sitt. Hvorugu er til að dreifa í Örfirisey, þar er enginn jarðhiti og varla er hægt að kalla lítið klapparnef nes.
„Norðvestur í Effersey er nes, er kallað hefur verið Reykjanes, og er það gamalla manna sögn að þar hafi verið laug, sem sjór er nú genginn yfir. Ekkert kannast samt elztu núlifandi Reykvíkingar við þá sögn.“ (Örfirisey var alla jafnan kölluð Effersey fram undir miðja síðustu öld). Þótt Klemensi tækist ekki að finna neinn sem gæti staðfest sögnina um jarðhita í eyjunni hafnaði hann ekki þeim möguleika að þar hefðu verið heitar laugar við landnám. Hins vegar átti eftir að kom í ljós að einn úr flokki aldraðra Reykvíkinga vissi af eigin reynd hvar jarðhita var að finna í Örfirisey.
Í bók Þórbergs Þórbergssonar, rithöfundar, Frásagnir, sem kom út árið 1972, fjallar hann m.a. um Örfirisey, Grandann og Hólmann. Helsti viðmælandi hans í Reykjavíkurhluta bókarinnar var Ólafur Jónsson fiskimatsmaður. Ólafur var fæddur 1856 í Hlíðarhúsum, en það var húsaþyrping neðarlega við Vesturgötuna, og ól hann allan sinn aldur í Reykjavík. Hann var lengstum sjómaður eins og faðir hans og stundaði sjóinn frá Reykjavík og víðar. Þórbergur getur þess sérstaklega að þeir Ólafur hafi farið út í Örfirisey 30. mars 1935 til að skoða þá staði, sem Ólafur hafði nefnt í viðtölunum. Um Reykjanes farast honum svo orð í frásögn Þórbergs: „Í norðnorðvestur frá norðvesturhorni Örfiriseyjar eru tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Út í þau má ganga um stórstraumsfjöru. Þau voru í mínu ungdæmi kölluð Reykjarnes. Nokkurn spöl fyrir austan sker þessi, hér um bil mitt á milli þeirra og Hásteina og þar úti sem þarinn er þykkastur, var dálítil flöt flúð, sem var upp úr sjó um stórstraumsfjöru. Í flúðinni var glufa um hálf fingurhæð að breidd. Upp úr þessari glufu rauk um stórstraumsfjörur framan af ævi minni.“ (bls. 151).
Þetta er óneitanlega skilmerkileg frásögn og engin ástæða er til að draga hana í efa enda Ólafur margoft búinn að sýna í viðtölum um önnur efni að hann hafði traust og gott minni. Það er athyglisvert að hann kallar fjöruna á þessum stað með skerjunum tveim Reykjarnes, en á öðrum stað í frásögninni um Örfirisey og Hólmann segir: „Það er engum efa bundið, að land allt hefur sigið hér mjög í sjó á síðari öldum. Einhvern tíma hefur Hólminn verið allstór eyja grasi vaxin, og þar sem Vesturgrandi og Örfiriseyjargrandi stóðu aðeins upp úr sjó um fjöru sem nakin malarrif, þar hafi fyrr á tímum verið grasi gróin eiði, sem hafi verið ofansjávar jafnvel í mestu stórstrauma.“ (bls.150).
Þessi lýsing hér að ofan um landsig og meðfylgjandi landbrot á að sjálfsögðu við um Örfirisey alla og þar með talið fjöruna sem nefnd var Reykjanes. Nú er vitað að land hefur sigið hér á Reykjavíkursvæðinu í mörg þúsund ár og telja fræðimenn á þessu sviði að land sé nú að minnsta kosti 2 m lægra en við upphaf landnáms. Þetta mikla landsig hefur valdið gríðarlegum breytingum á landi við sjávarsíðuna. Klemens Jónsson ýjar að þessu í Sögu Reykjavíkur þegar hann segir að líklega hafi Effersey verið landföst við landnám.
Nú er eyjan land umflotið vatni og því er landföst eyja ekki til frá náttúrunnar hendi. Hafi Örfirisey verið landföst við landnám hefur því verið um að ræða tanga eða nes, en ekki eyju.
Í Landnámu segir að Ingólfur Arnarson hafi komið hingað til lands tveimur til þremur árum áður en hann settist hér að. Vafalaust hefur hann verið að kanna hvort landið væri gott til búsetu og finna heppilegan stað til landnáms. Skip landnámsmanna, knerrirnir, voru ekki stór og því ljóst að ekki var hægt að flytja búpening til landsins nema í mjög smáum stíl. Því varð að treysta á veiðar fyrstu árin eða jafnvel í áratugi meðan bústofninn var að eflast. Ingólfur finnur staðinn sem hann leitaði að í Reykjavík og er nú best að vitna í orð Björns Þorsteinssonar í Íslenskri miðaldasögu: „– því að þar var allt að hafa sem hugur hans girntist: höfn, eyjagagn, veiðivötn og laxá, landrými og jarðhiti. Í rauninni jafnaðist hér enginn staður á við Reykjavík að fjölþættum náttúrugæðum.“ (bls. 27).
Þegar Ingólfur og áhöfn hans sigla skipi sínu inn í mynni Kollafjarðar, væntanlega fyrstir manna, blasa við þeim eyjar, sund og vogar og er ekki ósennilegt að þetta land hafi minnt þá á heimahagana í Vestur-Noregi. En eitt hefur þó ugglaust vakið sérstaka athygli þeirra og furðu. Upp af litlu nesi, sem teygði sig til norðurs frá meginlandinu, steig hvítur reykur til lofts, náttúrufyrirbæri sem þeir hafa tæpast séð áður. Nafnið á staðnum var sjálfgefið, Reykjanes. Víkin innan við nesið, sem er vel afmörkuð milli Reykjaness og Arnarhólstanga, hlaut einnig að draga nafn af hvernum á nesinu og kallast síðan Reykjavík.
Með fullri virðingu fyrir Þvottalaugunum er vægast sagt hæpið að Reykjavík dragi nafn sitt af þeim. Bæði er að Þvottalaugarnar eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá víkinni og leiti ber í milli svo að reykurinn frá þeim sást tæpast af hafi eða í víkinni nema við sérstök veðurskilyrði.
En mótun landsins hélt áfram eins og hún hafði gert frá örófi alda. Á hverju ári nagaði sjórinn smáspildu af nesinu og þar kom að útsynningsbrimið braut sér leið gegnum nesið þar sem það var mjóst og Reykjanesið varð að eyju. Hvenær þetta átti sér stað veit enginn, en vafalaust var það nokkrum öldum eftir landnám.
Vera má að þetta hafi átt sér stað í stórflóði sambærilegu við Básendaflóðið 1799, en þá gekk sjór yfir alla Örfirisey og lagðist þar af búseta um tíma. Þessar breytingar voru löngu um garð gengnar í upphafi átjándu aldar en í Jarðabókinni frá 1703 er eftirfarandi umsögn um býlið Erfersey: „Vatnsból í lakasta máta, þrýtur bæði sumar og vetur og þarf þá til lands á skipum að sækja eður sæta sjáfarfalli að þurt megi gánga um fjörurif það, sem kallað er Grandi.“ (Þriðja bindi, bls. 255).
Í þessari lýsingu er komin til sögunar eyja og grandi, en nes er ekki nefnt. Á þessum tíma er Geldinganes í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey, þ.e. eyja tengd við land með eiði sem sjór féll yfir á flóði, en þrátt fyrir það breytist nes ekki í eyju. Hvað veldur því að nafnið Reykjanes þokar til hliðar, en nafnið Örfirisey kemur í staðinn. Gæti verið að lausnar gátunnar væri að leita í nafni annarrar eyjar lítið eitt vestar?
Akurey er yst eyja á Kollafirði og nafnið er vafalítið dregið af akuryrkju í eyjunni. Það er augljóst að þetta nafn fær eyjan löngu eftir landnám því að þó að akuryrkja hafi verið stunduð af landnámsmönnum frá upphafi hafa akrar verið nærri bæjum meðan þar var nægilegt landrými, en ekki í úteyjum. Einnig hefur Reykjanes verið góður kostur því að auðvelt var að girða nesið af og hindra þannig ágang búfjár. Var þá eyjan nafnlaus, jafnvel um aldir? Það er ákaflega ólíklegt því að eyjan er á þeim stað þar sem skip og bátar voru mikið á ferðinni eða við fiskveiðar og því brýn nauðsyn að kennileitum væri gefin nöfn. Leitum nú enn á ný í bókina Frásagnir. Steingrímur Steingrímsson frá Klöpp var einn af viðmælendum Þórbergs. Honum segist svo frá: „að Níels á Klöpp hafi sagt sér, að í hans ungdæmi hafði verið hægt að vaða úr Hólmanum og út í Akurey um stórstreymsfjörur, og hefði sjór þar ekki verið dýpri en svo, að komast hefði mátt þurrt í skinnbrók. En nú er þar óvætt dýpi um stærstu fjörur.“ (bls. 150).
Það er til önnur heimild um þetta eiði eða granda milli Hólmans og Akureyjar. Í Sögu Reykjavíkur 870–1870, fyrra bindi, er birt mynd á blaðsíðu 62 af elsta korti sem til er af Reykjavík. Þetta kort er frá 1715 og nær yfir ytri hluta Kollafjarðar, suðurströnd Kjalarness og Seltjarnarnes vestan Laugarness. Örfirisey með verslunarhúsunum er á kortinu miðju og landtengingin, þ.e. Grandinn, sést greinilega. Sama má segja um grandann út í Hólmann, hann kemur skýrt fram, en það athyglisverða er að hann endar ekki í Hólmanum heldur liggur áfram út í Akurey.
Mjög líklegt er að í upphafi átjándu aldar, þ.e á þeim tíma sem kortið er teiknað, hafi aðeins verið hægt að ganga þurrum fótum út í Akurey á stærstu fjörum. Við landnám hefur Akurey hins vegar verið í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey var mörg hundruð árum síðar, þ.e. eyja tengd við land með granda sem var ávallt á þurru um fjöru. Það fólk sem hér settist að við upphaf byggðar hefur líklega þekkt áþekk náttúrufyrirbæri frá fyrri heimkynnum sínum og gefur eyjunni því nafn við hæfi. Það nafn var sennilega Örfirisey.
Þegar Reykjanes breytist í eyju við landbrot eru eyjarnar orðnar tvær með áþekk náttúruleg einkenni, nánast hlið við hlið. Smám saman fer fólk að kenna ytri eyjuna við þá starfsemi sem þar er stunduð, þ.e. akuryrkju.
Örfiriseyjarnafnið flyst hins vegar yfir á Reykjanesið og ryður gamla nafninu út á norðurenda eyjarinnar þar sem það situr enn án staðfestu í landslagi. Þessi nafnasaga er að sjálfsögðu getgátur, en vert er að benda á að örnefnaflakk er ekki óþekkt hér á landi.
Nú eru liðnir rúmir sjö áratugir síðan Þórbergur og Ólafur gengu um Örfirisey og rifjuðu upp örnefni á og í nágrenni eyjunnar. Á þeim tíma var eyjan að mestu eins og náttúran hafði mótað hana, en nú er fátt sem minnir á Örfirisey þess tíma. Þó má enn finna staði sem Þórbergur fjallar um, svo sem klappirnar á norðurenda eyjunnar með gömlum áletrunum. Vestasti hluti klappanna er í raun norðvesturhorn hinnar eiginlegu Örfiriseyjar og sé horft þaðan í norðnorðvestur má á fjöru greina tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Þessi sker kallaði Ólafur frá Hlíðarhúsum, Reykjanes. Lítið eitt austar í fjörunni, þar sem þarinn er þykkastur, leynist lítil flöt flúð með glufu sem er um hálf fingurhæð að breidd. Þetta eru síðustu leifar hversins sem gaf tveim stöðum nafn.
Annað nafnið, Reykjanes, er nú að mestu gleymt, en hitt nafnið, Reykjavík, hefur farið víðar en nokkurt annað staðarnafn íslenskt.
Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið.”
Emil Hannes Valgeirsson bloggaði um örnefnið “Reykjarvík”:
“Það er dálítið sérstakt að lögheimili fyrsta landnámsmannsins hafi verið akkúrat á þeim stað þar sem höfuðborg landsins stendur í dag. En hvar var hún þessi Reykjarvík sem sá merki maður á að hafa byggt sér ból? Og þá meina ég Reykjarvík með erri eins og staðurinn er nefndur í Íslendingabók. Ýmist er talið að um sé að ræða víkina sem afmarkast af Örfirisey og Laugarnestanga eða víkina þar sem gamla höfnin er. En kannski er þriðji möguleikinn til staðar?
Á þeim rúmu 1100 árum sem liðin eru síðan Ingólfur Arnarson var og hét hafa orðið miklar breytingar á landsháttum á strandlengjunni hér við sundin blá vegna ágangs sjávar en ekki síður vegna þess að hér suðvestanlands er landið stöðugt að síga vegna nálægðarinnar við gosbelti Reykjanesskagans. Talið er að þetta landsig gæti hafa verið allt að tveimur metrum frá landnámi og strandlengjan því á stórum svæðum allt önnur en hún er í dag, eyjar og sker hafa sokkið í sæ og nes hafa orðið af eyjum.
Á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin er frá Skólavörðuholtinu árið 1877, sést hvernig aðstæður voru þarna fyrir 132 árum. Örfirisey er tengd landi með mjóum granda og annar grandi liggur frá honum í sveigju að skerjum sem ná langleiðina að Akurey en í sameiningu má sjá út úr þessu vísi að stórri skeifu. Í dag eru skerin við Akurey ekki nema svipur hjá sjón, eru oftar en ekki í kafi og tengjast ekki landi nema kannski í mestu stórstraumsfjörum. Uppfyllingar hafa svo að sjálfsögðu gerbreytt stöðu Örfiriseyjar sem er í dag ekkert annað en nes, eins og það hefur væntanlega verið fyrr á tímum.
Ef landshættir hafa verið einhvern vegin svona á tímum Ingólfs Arnarsonar, sést að þarna hefur verið allstórt nes eða tangi sem hefur náð alla leið út í Akurey. Þarna hef ég merkt inn bláan punkt sem merkir hverasvæði en nokkuð víst þykir að þarna hafi verið heit laug eða hverasvæði sem í dag er sokkið í sæ. Ysti hluti Örfiriseyjar er reyndar enn í dag kallaður Reykjarnes. Sennilega hefur allt þetta nes sem Örfirisey tilheyrir í dag, verið kallað Reykjarnes og miðað við sjávarstöðu nú, er líklegt að lítil vík hafi gengið inn í landið þarna rétt vestur af hverasvæðinu og ef einhver hefur viljað kalla þá vík eitthvað hlýtur nafnið Reykjarvík óneitanlega að koma upp í hugann.
Sú hugmynd að nafnið á höfuðborg landsins, Reykjavík, sé dregið af lítilli vík sem fyrir löngu er sokkin í sæ er ekki endilega minn eigin hugarburður. Mig rámar nefnilega í að hafa lesið um þetta í Lesbókinni fyrir einhverjum árum en hef þó ekki fundið þá grein aftur. Örnefnið eða bæjarnafnið Reykjavík virðist ekki hafa verið verið notað öldum saman því landnámsjörðin var lengst af kölluð „Vík“ á Seltjarnarnesi en það heiti er dregið af Seltjörn við Gróttu sem hefur staðið fyrir opnu hafi frá því Básendaflóðið gekk þar yfir 1799. Það var ekki fyrr en þéttbýli fór að myndast í kvosinni að staðurinn fékk nafnið Reykjavík. Þar hafa fundist elstu mannvistarleifar hér á landi og því kemur einnig vel til greina að Reykjarvík sé einfaldlega bara víkin þar sem gamla höfnin er nú, eins og gjarnan er talað um.
Hugmyndin sem ég minntist á hér fyrr um að Reykjavíkin afmarkist af Örfirisey og Laugarnestanga hefur sennilega orðið til vegna heitu lauganna í Laugardal enda inniheldur sú stóra vík tvö reykjasvæði. Mér finnst þó sú vík vera full víðáttumikil, þar að auki er Laugardalur hvergi sjáanlegur frá kvosinni og í nokkurra kílómetra fjarlægð. Hverasvæðið á Reykjarnesi hefur örugglega þótt alveg nógu merkilegt eitt og sér til að nota í örnefni og ef Reykjarvík hefur verið skrifað með erri hlýtur það að vísa í einn ákveðinn reyk, en ekki fleiri.
Að lokum má svo benda á að þótt örnefnið Örfirisey hafi verið til frá fyrstu tíð, er ekki víst að það nafn hafi alltaf átt við sama stað og í dag. Það er nefnilega vel þekkt að þar sem landshættir eru stöðugt að breytast geta örnefni farið á flakk og aðlagast nýju landslagi eins og gæti verið raunin með Reykjarvíkina”.
Heimild:
-Morgunblaðið 16. apríl 2006; Garðar Svavarsson, Nafngjafi Reykjavíkur, bls. 22.
-https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/883564/