Færslur

Sogin

Reykjanesfólkvangur hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; “Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang“.
Þar segir m.a. að “Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – kort.

Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.”

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur

Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.

Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er “Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.

Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. “Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi“:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhella

Markhella.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.

Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: “Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins”. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.

Sog

Í Sogum.

Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

“Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.”

Valahnúkar

Valahnúkar og Helgafell.

Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.

Sveifluháls

Sveifluháls.

“Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.

Helgadalur

Helgadalur – Rauðshellir.

• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.

Seltún

Seltún.

• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.

2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð.

• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.

3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.

Vetrarblóm

Vetrarblóm við Kleifarvatn.

• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.

Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.”

Í “Lögum um náttúruvernd” segir m.a. um landverði: “Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.”

Selatangar

Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.

Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: “Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.”

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur “Reykjanesskagafólkvangs” skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.

Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Spákonuvatn

Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor í líffræði við Kennaraháskóla Íslands og formaður stjórnar Reykjanesfólkvangs 2002-20, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 2006 undir yfirskriftinni “Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin”:

Hrefna Sigurjónsdóttir

Hrefna Sigurjónsdóttir.

“Reykjanesfólkvangur var auglýstur sem friðland þegar hann var stofnaður fyrir rúmum 30 árum. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að taka frá land þar sem landsmenn, og þá einkum höfuðborgarbúar, gætu notið útivistar á svæði nálægt byggð sem væri lítt snortið og þar sem margt áhugavert væri að sjá. Sveitarfélögin sem stóðu að stofnun fólkvangsins, sem er um 300 ferkílómetrar að stærð, eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Grindavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Reykjanesbær. Grindavík og Hafnarfjörður eiga mestallt landið. Fulltrúar meirihlutans í hverju sveitarfélagi mynda stóm og hefur fulltrúi Reykjavíkur alltaf verið formaður. í auglýsingunni er kveðið á um að nýting jarðvarma sé undanþegin friðlýsingu og einnig að eignarréttur ráði þegar um framkvæmdir sé að ræða, en þó með því skilyrði að Náttúruverndarráð (nú Umhverfisstofnun) úrskurði að ekki sé um of mikið jarðrask að ræða.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – loftmynd.

Undirrituð tók við stjórn fólkvangsins seint á árinu 2002 sem fulltrúi R-listans. Þótt ég hafi farið töluvert um Reykjanesið fyrir þann tíma þekkti ég svæðið illa. Ég vissi ekki hver mörk fólkvangsins væru. Ég hafði komið nokkrum sinnum í Krýsuvík og skoðað hverina og kirkjuna og einu sinni keyrt um Vigdísarvelli. Einnig hafði ég komið á Selatanga. Nú, tæpum 4 árum seinna, þekki ég fólkvanginn mun betur og fullyrði að þarna er um að ræða fjársjóð sem við eigum að vernda fyrir komandi kynslóðir sem útivistarsvæði og miðstöð fræðslu.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Mig grunar að flestir höfuðborgarbúar séu í svipuðum sporum og ég var. Þeir þekkja ekki svæðið! Það eru væntanlega ýmsar ástæður fyrir þessari fákunnáttu en í mínum huga hefðu sveitarfélögin getað staðið sig betur í því að vekja athygli á svæðinu og byggja það upp sem útivistarsvæði.

Tíminn hefur verið nægur. Hvað veldur? í skýrslu um fólkvanginn, sem Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur vann fyrir stjórnina, er samankominn mikill fróðleikur. Höfundur bendir m.a. á að fulltrúar í stjórninni hafa svo til aldrei verið áhrifamenn í sveitarfélögunum og að fjárveitingar hafa alltaf verið skammarlega litlar.

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhugaðir borteigar.

Starfsemin hefur verið sú sama ár eftir ár og því miður hefur lítið miðað í að gera átak í málefnum fólkvangsins.

Núverandi stóm hefur hug á að hefja slíkt átak. Haldið var málþing í september 2005 um stöðu og framtíð svæðisins, opnuð var heimasíða og sótt hefur verið um hærri fjárframlög til sveitarfélaganna. Stefnt er að því að ráða landvörð næsta sumar. En hvað framtíðin ber í skauti sér er óljóst því eftir kosningar verður ný stjórn skipuð. Að mínu mati er þetta ekki gott stjórnarfyrirkomulag. Vonandi verður breyting þar á. Ein hugmynd er að stofna einskonar þjóðvang þar sem ríki og sveitarfélög ynnu saman og fagaðilar sætu í stóm. Eitt er víst – þegar á reynir eru völd þessarar stjórnar afar lítil.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Skilningur á gildi svæðisins sem friðlýsts lands virðist vera takmarkaður. Slæm umgengni er til marks um það. Vélhjóla- og jeppamenn sækja stíft inn í fólkvanginn og hafa valdið miklum skemmdum. Þessi ólöglega umferð um allar trissur er orðin gífurlegt vandamál og eykst jafnt og þétt samfara auknum innflutningi slíkra ökutækja. Stórn fólkvangsins hefur verið á einu máli um að akstur slíkra tækja fari ekki saman við það markmið að fólkvangurinn skuli vera griðland fyrir göngufólk og þá sem koma til að njóta kyrrðarinnar og náttúrunnar. Ofbeit hefur lengi verið vandamál og sú aðferð að loka féð innan beitarhólfa í fólkvanginum, sem landeigendur hafa gert í samvinnu við Landgræðsluna, hugnaðist sjórninni ekki. Engu að síður var það framkvæmt. Skort hefur á að gömul mannvirki séu fjarlægð en slíkt er á ábyrgð landeigenda. Skilti freista skyttna og síðastliðið sumar gáfu landeigendur heimsfrægum leikstjóra leyfi til að brenna gróður í einu fallegasta fjallinu. Og svo tekur steininn úr nú þegar fyrirætlanir Hitaveitu Suðurnesja um tilraunaboranir og nýtingu mjög víða um fólkvanginn eru ljósar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Reyndar fengu þeir leyfi árið 2000 til tilraunaborana við Trölladyngju, hafa borað þar eina holu og eru nýbyrjaðir á annarri við Sogin. Markmiðið er að stofna til allt að fjögurra 100 MW virkjana á miðju nesinu til að afla raforku fyrir álver. Enda þótt ákvæði um nýtingu jarðvarma hafi verið sett í friðlýsinguna getur engum heilvita manni að hafa dottið í hug að unnt væri að leggja allt svæðið undir í þeim tilgangi. Þegar ég skoða svona áform þá setur að mér hroll.

Hvernig stendur á því að okkur Íslendingum þykir ekki vænna um landið okkar?

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhuguð háspennulínulega u Sveifluháls.

Vilja menn sjá virkjanir, raflínur og verksmiðjur um allt? Eða eru ráðamenn að taka ákvarðanir sem almenningur er kannski ekki sammála? Sumar skoðanakannanir benda til að svo sé. Það er kominn tími til að fólk láti heyra í sér. Vonandi ber þjóðin gæfu til þess að snúa við blaðinu og átta sig á því að falleg og stórkostleg náttúra er auðlind sem okkur ber að vernda. Um leið þarf að tryggja að fólk hafi tækifæri til að njóta náttúrunnar og fræðast um undur hennar. Ljóst er að ýmis atvinnutækifæri felast í slíkri nýtingu.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 1.-2. Tölublað (2006), Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin, Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 58.

Sog

Í Sogum.

 

Draugshellir

Leitað var Valahnjúkshellis, en gamlar sagnir eru um mikinn draugagang í hellinum. Eftir að mikið timbur rak á Valahnjúksmalir á 18. öld voru vinnumenn Kirkjuvogsbónda við sögunarvinnu á mölunum. Þeir hlóðu byrgi og tjölduðu á mölunum.

Valahnúkar

Tröll á Valahnúkum.

Sagan segir að einn sögunarmanna hafi fundið þurran og rúmgóðan helli uppi í hnúknum og hafi þeir flutt sitt hafurtask þangað. Fyrsta kvöldið, eftir að hafa farið með bænir og sygnt sig, sofnuðu þeir, en vöknuðu fljótlega aftur við lætin í hundunum og raddir ósýnilegra manna. Kvað svo rammt að þessu að þeir urðu að flýja út í sunnanbálið, sem þá geisaði. Nokkru seinna komu tveir menn til sögunarvinnu frá Kirkjuvogi, en vildu ekki, þrátt fyrir beiðni heimamanna, að taka með sér tjald, því þeir höfðu ákveðið að gista í hellinum. Um nóttina kom annar mannanna aðframkominn heim að Kirkjuvogi.
Félaga hans var leitað og fannst hann á reiki um hraunssandinn. Aldrei fékkst upp úr þeim hvað gerðist í hellinum um nóttina. Hellirinn sést ekki nema þegar komið er alveg að opinu.

Valahnúkur

Valahnúkur – Draugahellir.

Skoðaður var upphlaðinn stígur, sem liggur frá Bæjarfelli að Valahnjúkum.
Hellisskútinn uppi í austanverðum Valahnúk er ekki verri Draugahellir en hver annar. A.m.k. fékkst hundkvikindi, sem var með í för, ekki til þess að fara þangað inn ótilneytt. Hafi hellirinn verið sunnan í hnúknum er hann löngu horfinn því aldan sverfur stöðugt af honum framanverðum.
Undir austanverðum Valahnúk má sjá sjá hleðslu undan búðum. Hún gæti hafa verið gerð þegar fyrsti vitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk 1878. Leifar vitans liggja nú neðan og norðan við hnúkinn.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaug.

Þá var skoðuð gamla hlaðna sundlaugin, sem Grindavíkurbörn lærðu að synda í um og eftir 1930.
Frábært veður.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanes
Sagt er að náttúran á Reykjanesi sé engu lík.
Reykjaneshryggurinn er kannski ekki þekktasta náttúruparadís Íslands en þar er hins vegar náttúran óviðjafnanleg. Reykjanesfjallgarðurinn í öllu sínu veldi með fjöll eins og Keilir, tignarlegt fjall í miðju hrauni, þar sem umhverfið milli fjallanna minnir helst á tunglið. Umhverfið er gráleitt og þar er gamalt mosavaxið hraunið í samspili við græn engi.

Stampar

Stampar – gígur.

Sandvík og svæðið þar í kring er skemmtilegt útivistarsvæði fyrir vini og vandamenn að koma saman og njóta náttúrufegurðar í góðu veðri. Þar er flott strönd þar sem m.a. er hægt að fara í strandblak og fleiri strandleiki ásamt ýmsu öðru.
Hafnarbergið er mjög tignarlegt og þar er fjölskrúðugt fuglalífið í miklum blóma í hrauninu og klettunum. Þar er einn besti fuglaskoðunarstaður á suð/vestur horninu og þar er stutt 40m gönguleið sem orðin er mjög vinsæl hjá göngufólki.
Ýmis hverasvæði eru á Reykjanesinu, s.s. Gunnuhver.

Skálafell

Gígur Skálafells – flugmynd.

Á Reykjanesvitasvæðinu eru ýmsar merktar gönguleiðir út á Reykjanestá og að Skálafelli og einnig frá Valarhnúk út á Önglabrjótsnef þar sem hægt er að fara í stuttar gönguferðir í fallegri og skemmtilegri náttúru en þess má geta að á Reykjanesinu er mikið um merktar gönguleiðir s.s. Prestastígur, Skipsstígur og Skógfellavegur sem eru mjög vinsælar leiðir.
Á Stafnesinu, frá Hvalnesi að Básendum sem er forn verslunarstaður frá tímum einokunarverslunar, má sjá rústir af húsum og festingar polla sem festir hafa verið í klappirnar þar sem verslunarskipin voru bundin.

Reykjanes

Reykjanes – uppdráttur ÓSÁ.

Bergið í Reykjanesbæ er einnig dæmi um fallegt útivistarsvæði og í góðu veðri er þaðan ómótstæðilegt útsýni til fjalla höfuðborgarsvæðisins.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver.

Þetta eru bara lítil dæmi um náttúrufegurð Reykjaness og væri hægt að telja upp endalaust af stöðum, s.s. Bláa-lónið, Garðskaga þar sem er fjara með hvítum sandi og einnig mætti nefna Þórkötlustaðanes í Grindavík og Þorbjörn frá fjallinu sést vítt yfir vestanverðan Reykjanesskaga og jafnvel víðar.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Húshólmi
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða.
Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála, skammt frá skálatóft.

Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum. Hann skipti síðan á því landi við Hrolleif Einarsson á landi í Þingvallasveit þar sem hann bjó að Heiðarbæ, en flutti síðan að Bæjarskerjum á Romshvalanesi. Ásbjörn Özurarson fékk land frá Hvassahrauni að Álftanesi og Þórður skeggi fékk land norðan við Ingólf þar sem nú er Mosfellsveit. Herjólfur fékk land frá Kotvogi að Reykjanestá, en Molda-Gnúpur þaðan að Selatöngum. Austar var Þórir haustmyrkur (Krýsuvík) og Álfur Egzki austan Selvogs að Ölfusárósum.

Í nýrri bók Trausta Valssonar “Skipulag byggðar á Íslandi” er kort af skiptingu landnámsins, auk korta af verleiðum og helstu samgönguleiðum á SV-landi skv. korti frá 1849.
Reykjanes

Á vefsíðunni eldey.is má lesa eftirfarandi fróðleik um Reykjanes:

Reykjanes – Stórbrotið hraun og eldstöðvar

Reykjanes

Reykjanes – Skálafell.

“Á Reykjanesskaga má finna allar tegundir eldstöðva sem gosið hafa á Íslandi. Talið er að um tólf hraun hafi runnið þar frá því að land byggðist eða að meðaltali eitt hraun á öld.
Á Reykjanesskaganum eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku. Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi þar sem jarðsjórinn er notaður til að hita upp kalt vatn fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Reykjanesskaginn er um 1.700 ferkílómetrar að flatarmáli og er þar að finna margvíslegar menjar um eldvirkni undanfarinna 200.000 ára. Reykjanes er til að mynda eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum.
Reykjanesskagi dregur nafn sitt af Reykjanesi á suðvesturhorni skagans. Mest af skaganum er innan gosbeltis Íslands og yst á skaganum skríður Mið-Atlantshafshryggurinn á land. Gosbeltið liggur eftir miðjum skaganum frá vestri til austurs þar sem það tengist svo aðalgosbeltum landsins.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sveimar.

Fjórar sprungureinar eru á skaganum: Reykjanes-, Krýsuvíkur-, Brennisteins-, fjalla og Hengilsreinar. Hver þeirra samanstendur af hundruðum opinna spungna. Þá er þar einnig fjöldi gíga og gígaraða. Önnur gerð af eldfjöllum á Reykjanesskaga eru dyngjur, skjaldarlaga bungur sem eru svipaðar og eldfjöllin á Hawaii nema mun minni.
Gosbergið er að mestu af tveimur gerðum. Annars vegar er móberg sem er samanþjöppuð gosaska sem myndaðist við eldgos þegar landið var að mestu hulið jöklum. Hins vegar eru hraun; apalhraun með úfnum karga á yfirborði og helluhraun sem eru slétt og oft með hraunreipum. Eldri hraun hafa verið slípuð af jöklum, og er yfirborð þeirra því jökulrákað.

Grindavík

Grindavík – skemmdir á Dvalarheimili aldraðra eftir jarðskjálftahrinu árið 2023.

Jarðskjálftar eru tíðir á svæðinu vegna eldvirkninnar og stöku sinnum valda þeir tjóni. Flestir eru þó minni háttar og finnast sem titringur.

Jarðsaga

Reykjanes

Reykjanes – Háleyjabunga.

Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.
Elsta bergið á skaganum er í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

Ísöld

Reykjanes

Reykjanes – Stóra-Sandvík.

Loftslag hefur verið mjög sveiflukennt síðustu þrjár milljónir ára. Á því tímabili hafa komið um 30 jökulskeið. Meðalhiti var þá 8 gráðum lægri en nú. Hvert jökulskeið stóð í um 100 þúsund ár en hlýskeiðin á milli aðeins í um 10 þúsund ár. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Tímabilið sem síðan er liðið nefnist Nútími.
Jöklarnir skófu og hefluðu landið sem þeir skriðu yfir og mýktu það. Þeir mynduðu U-laga dali, rispuðu berggrunninn sem undir var og skildu eftir sig hvalbök og jökulrispur.

Patterson

Lífstöðumyndanir (skeljar) við Pattersonflugvöll.

Á jökulskeiðunum var gríðarlegt vatnsmagn bundið í jöklum, og meðan þau stóðu yfir lækkaði yfirborð sjávar á jörðinni um allt að 130 m miðað við núverandi sjávarmál. Aftur á móti fergðu jöklarnir landið undir næst sér.
Jökulskeið enda snögglega og meðalhitastig hækkar undrahratt. Þá bráðna jöklar á tiltölulega stuttum tíma. Sjávarborð hækkar og sjór gengur á land. Fornar strandlínur eru því allhátt yfir núverandi sjávarmáli. Munar þar um 110 m á Suðurlandi. Skeljar og bein sávarspendýra finnast í gömlum sjávarsetlaögum. Einn slíkur staður er við Pattersonflugvöll á Njarðvíkurheiði.

Eldgos á Reykjanesi

Reykjanes

Reykjanes – Karlinn.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.

Eldgos

Eldgos á sprungurein ofan Grindavíkur 2024.

Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Eldgos á sögulegum tíma

Reykjanes

Reykjanes – eldgos ofan Grindavíkur 2024.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.

Jarðhiti

Jarðhiti er mjög algengur á íslandi. Jarðhitasvæðum má skipta í lág- og háhitasvæði. Á þeim fyrri eru volgar eða heitar uppsprettur sem nefnast laugar eða hverir sem sumir eru goshverir.

Gunnuhver

Reykjanes – Gunnuhver.

Einkenni háhitasvæða eru gufuaugu, leir- og brennisteinshverir. Á Reykjanesskaganum er mest af jarðhitanum háhiti. Í Krýsuvík eru bæði leirhverir og gufuaugu. Í gufuaugunum sést gulur brennisteinn.
Vatnið í hverunum er oftast upprunalega úrkoma sem hefur falið sem regn eða snjór. Það hefur síðan sigið niður í heit berglög á nokkurra kílómetra dýpi og hitnað þar upp í 200 – 300 gráður á Celsíus. Þegar vatn hitnar stígur það aftur upp á yfirborð jarðar, ýmist sem vatn eða gufa.
Á flestum háhitasvæðunum á utanverðum Reykjanesskaga er það hins vegar aðallega sjór sem sígur inn í berglögin og hitnar þar.

Gunnuhver

Við Gunnuhverá Reykjanesi.

Jarðhiti er ein aðalorkulind Íslands Nær 90% húsa eru beint eða óbeint hituð með hveravatni. Háhitasvæðin eru einnig noðuð til raforkuframleiðslu.
Önnur helsta orkulind Íslendinga er vatnsorka.

Brú milli heimsálfa

Mið-Atlantshafshryggurinn sem klýfur Atlantshafið í tvær úthafsplötur, sem rekur hvora frá annari, kemur í land á Reykjanesi. Þar eru glögg merki gliðnunar sem fólki gefst kostur á að upplifa með því að ganga yfir brú milli heimsálfa sem staðsett er við Sandvík.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa.

Skilin milli flekanna sem reka í sundur birtast ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem gígaraðir og er brúin staðsett við eina slíka en Reykjanesið er virkasti hluti gosbeltisins. Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi hafi „gengið milli heimsálfa“ á Upplýsingamiðstöð Reykjaness.

Áhugaverðir staðir
Víða er að finna áhugaverða staði á Reykjanesi. Þar eru mikil fuglabjörg og stutt er í ákjósanlega staði fyrir fuglaskoðun svo sem á Hafnabergi. Brimfjörur eru stórbrotnar, t.d. við Reykjanesvita. Árið 1878 var fyrsti viti á Íslandi byggður á Valahnúki skammt norðan við Reykjanestá.

Síðasti Geirfuglinn veginn

Geirfugl

Geirfugl á Náttúruminjasafninu.

Þann 3. júní 1844, voru tveir síðustu geirfuglanir í heiminum drepnir á syllu í Eldey, suðvestur af Reykjanesi.
Geirfuglinn var allt að 70 cm hár, vóg um 5 kg og var ófleygur. Í útliti líktist geirfuglinn nokkuð mörgæsum, en er ekki af sömu ætt. Geirfuglinn var góður sundfugl og nærðist einkum á fiski. Útbreiðslusvæði geirfuglsins voru strandsvæði Norður-Atlantshafsins.

Geirfuglinn var algengur víða í Norður-Atlantshafinu allt fram á 16. öld, en veiði gekk grimmt á stofninn. Lengst lifði geirfuglinn af við Ísland, en eins og áður segir voru síðustu tveir geirfuglarnir voru drepnir í Eldey.
Einhverjar sögur fara af því að til geirfugls hafi sést eftir það, einkum á Grænlandi allt fram á sjötta áratug 19. aldar, en óvíst er um áreiðanleika þeirra sagna.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson í Norðurkoti með geirfugla, sem hann hannaði eftir frummyndinni.

Framan af var geirfugl veiddur til matar, en þegar fuglinum fór að fækka verulega fóru safnarar og náttúrugripasöfn að borga háar fjárhæðir fyrir fuglinn og má segja að það hafi verið hinn endanlegi dauðadómur tegundarinnar. Um 80 uppstoppaðir geirfuglar hafa varðveist til dagsins í dag. Einn þeirra má finna á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Kjörlendi göngufólks

Reykjanes

Reykjanes – Sandfellshæð.

Segja má að Reykjanesskaginn sé kjörlendi göngufólks en þar er fjöldi merktra gönguleiða frá fornu fari. Á gönguleiðum má skoða merka jarðfræðisögu eða menjar um gamla búskaparhætti.”

Á vefsíðu Markaðsstofu Reykjaness; “Visit Reykjanes“, er hún sögð vera “samstarfsverkefni sveitarfélaga og fyrirtækja í ferðaþjónustu á Reykjanesi. Megin hlutverk stofunnar er að vinna að markaðssetningu fyrir svæðið á innlendum markaði og erlendis og stuða að samstarfi innan greinarinnar á þeim vettvangi. Markaðsstofan vinnur einnig að ýmsum verkefnum sem styðja við rekstarumhverfi greinarinnar og uppbyggingu innviða í landshlutanum“.

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn er “lifandi” eldfjallagarður.

Rétt er að vekja athygli á að nefnd “stofa” eða “stofnun” á Reykjanesskaganum hefur aldrei, hvorki reynt að eiga samstarf við þátttakendur gönguhópsins né vefsíðuna www.ferlir.is, sem u.þ.b. 800.000 manns heimsækja á hverju ári í leit að fróðleik um möguleika svæðisins – bæði innlendir og erlendir.

Heimild:
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanes
-https://www.visitreykjanes.is/is/thjonusta/markadsstofa-reykjaness

Eldgos

Eldgos vekja jafnan mikla athygli. Eldgos í Fagradalsfjalli ofan Grindavíkur 2023.

Reykjanesviti

Í Wikipedia.org má lesa eftirfarandi um Reykjanesið:

Reykjanes

Reykjanes – skilgreiningar á viðurkenndum hugtökum.

“Reykjanes er hællinn, suðvestasta táin, á Reykjanesskaga. Nesið er eldbrunnið, þar eru lág fjöll og hnúkar úr móbergi, jarðhiti, klettótt strönd og hraun runnið í sjó fram. Á Reykjanesi ber mest á Skálafelli, sem er hæsta fellið, og Valahnúkum, sem eru ystir. Mikið brotnar úr Valahnúk á hverju ári, enda brýtur hafaldan úr honum nánast í hverju roki. Yst á tánni eru svokallaðar Skemmur. Þar hefur sjór brotið hella undir efsta hraunlagið og hafa hellisþökin sums staðar brotnað niður. Þetta veldur því að þegar hvasst er og álandsvindur (suðvestan) þá brotnar hafaldan með miklum dyn inn í hellana og standa svo gosstrókar upp um götin. Er þetta oft mikið sjónarspil.

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1910.

Sunnan og austan við Valahnúk er gjá nokkur, sem nefnd er Valborgargjá. Í henni er hraungjóta nokkur eða sprunga með vatni, sem áður var volgt. Yfir hana var byggt hús eða skúr snemma á 20. öld og þar kennt sund áður en sundlaugar komu til sögu í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaga og man enn margt eldra fólk eftir því er það var að læra að synda þar. Á ströndinni utan við Valbjargargjá er Valahnúkamöl, stórgrýtt fjara þar sem allir steinarnir eru lábarðir og núnir. Margir telja að nafnið Valbjargargjá sé afbökun, því að Valahnúkur heitir líka Valabjörg, og gæti gjáin þá augljóslega heitið Valabjargagjá, sem hefði afbakast í Valbjargargjá og Valborgargjá.

Á Reykjanesi var fyrsti viti á Íslandi reistur árið 1878. Hann var uppi á Valahnúk. Árið 1896 urðu jarðskjálftar sem röskuðu undirstöðu vitans og varð þá ljóst að byggja varð nýjan vita. Hann var reistur á Bæjarfelli, 1908, um 400 m frá Valahnúk. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti úti á Skemmum og kalla sumir hann hálfvitann. Frá Reykjanesi er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins.”
Nýrri vitinn á Reykjanesi var reyndar reistur á Vatnsfelli.

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanes

Valbjargargjá

Valbjargargjá.

Reykjanesviti

Í Vísi 1967 er fjallað um “Eldgos í vændum” á Reykjanesi:

Sigurjón Ólafsson

Sigurjón Ólafsson; 29. ágúst 1909 – 12. október 1997.
Sigurjón var aðstoðarmaður á Reykjanesvita þjá Jóni Guðmundssyni 1931-1933, og var síðan sjómaður í
Reykjavík og Höfnum. Hann
vann við hafnarmál í Hafnarfirði, en var vitavörður á Reykjanesi, 1947-1976. 

“Á hverasvæðinu á Reykjanesi hafa orðið það miklar breytingar, að þær benda tvímælalaust til að eldgos geti verið í aðsigi. Öll einkenni benda til þess að gos geti hafizt með stuttum fyrirvara. — „Ef breytingarnar halda áfram og hverirnir verða öflugri á svæðinu á næstu dögum má telja fullvíst að gos hefjist”, sagði Jón Jónsson jarðfræðingur, sem mest hefur rannsakað jarðfræði Reykjanessins. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur, sagði í viðtali við Vísi, að óneitanlega væri breytingar mjög líkar undanfari seinasta Öskjugoss, og það staðfesti Jón Jónsson. Jón benti þó á þann grundvallarmismun á breytingunum á hverasvæðinu og undanfara Öskjugossins, að á hverasvæðinu hafa ekki myndazt nýjar sprungur, heldur hefur öll hreyfingin orðið eftir gömlum sprungum. Öllu alvarlegra væri, ef nýjar sprungur hefðu myndazt eins og gerðist í Öskju, þar sem landsig varð og nýir hverir komu upp fjarri þeim, sem fyrir voru. —

Tveir nýir hverir, sem hafa myndazt á hverasvæðinu á Reykjanesi, komu upp þar sem áður var svokallaður Reykjanesgeysir, en hann varð óvirkur árið 1918, þegar nýr leirhver myndaðist, sem var kallaður „1918“. – Hverinn „1918” hefur hins vegar orðið að mestu óvirkur eftir að breytingarnar hófust aðfaranótt laugardagsins og er nú aðeins gufuhver.

ReykjanesÞegar tíðindamenn Vísis gengu um hverasvæðið í gær í fylgd með Sigurjóni Ólafssyni vitaverði í Reykjanesvita, var greinilegt, að mikil breyting hafði orðið á hverasvæðinu. —

Sigurjón, sem hefur verið með annan fótinn á þessum slóðum síðan 1931, sagðist aldrei hafa séð aðrar eins breytingar, þó að allmiklir jarðskjálftar hafi oft orðið á þessum slóðum.

ReykjanesSprungur höfðu myndazt í jörðina víða og rauk upp úr þeim víða um svæðið. — Hverirnir tveir, sem höfðu myndazt sunnanvert við veginn, sem liggur í gegnum – hverasvæðið, voru mjög virkir og Gunnuhver svo kallaður hafði sótt sig mikið í veðrið, en að því er vitavörðurinn sagði, hefur sá hver sífellt verið að minnka hin seinni ár.

Jón Jónsson jarðfræðingur sagði hins vegar, að hann hefði búizt við breytingum á þeim hver, þar sem jarðhitinn hefði í sífellu verið að aukast þar í sumar og verið í nokkurri sókn. —

Jarðskjálftarnir nú fyrir helgina hafi líklega rekið smiðshöggið á breytinguna og mætti því búast við að „Gunna“ yrði enn sterkari á næstunni. Hverinn ber nafn ódæls og erfiðs draugs, sem séra Eiríkur í Vogsósum kvað niður, en nú virðast jarðskjálftarnir hafa vakið drauginn upp aftur og óvíst að klerkar samtímans séu jafnhæfir til slíkra vandaverka sem að kveða draug niður og „kollegar” þeirra frá fyrri öldum.
ReykjanesSéra Eiríkur hafði þann háttinn á, þegar hann kvað Gunnu niður, að hann fékk hana til að elta hnoðra, sem valt niður í hver einn og hefur hún fram á þennan dag ekki getað unnið mönnum mein, fyrir utan það, að einstaka menn hafa brennt sig á fæti, þegar þeir hafa stigið niður úr hveraskorpunni.

Einkenni þess, að gos geti verið í aðsigi þarna á Reykjanesinu vom auk þess, sem að ofan er talið, miklir jarðskjálftar, sem jafnan koma á undan eldgosum, landsig, sem hefur orðið norðvestan megin við veginn. Jarðskjálftamir hófust um 10-leytið á föstudagsmorguninn og hafa staðið yfir síðan. Mestir urðu jarðskjálftamir aðfaranótt laugardagsins og var þá ekki svefnsamt i húsi vitavarðarins, sem er í aðeins nokkur hundmð metra frá hverasvæðinu. Þá um nóttina komu sprungur í vitann. Sprungunnar mynduðust allan hringinn rétt fyrir neðan miðjan vita, bæði að utan og innan. En þessar sprungur til marks um styrkleika jarðskjálftanna, því nokkuð þarf á að ganga, áður en slík smíð sem Reykjanesviti fer að haggast. Veggirnir neðst eru 3-4 metri á þykkt.

Gunnuhver

Við Gunnuhverá Reykjanesi.

Það verður athyglisvert að fylgjast með hvaða framvindu málin taka á Reykjanesinu næstu daga. Haldi breytingarnar áfram af sama krafti, má telja fullvíst, að gos hefjist, en það ætti að koma í ljós á næstu dögum eða vikum.”

Heimild:
-Vísir 02.10.1967, Eldgos í vændum?, bls. 18.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Brunntorfur

Í Þjóðviljanum helgina 23.-24. ágúst 1980 var viðtal við Björn Þorsteinsson undir fyrirsögninni “Landvinningar á Reykjanesi” um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap:

Fornasel

Hér reyndar um Fornasel ofan við Brunntorfur að ræða.

“Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. Björn Þorsteinsson prófessor hefur um áratugaskeið stundað skógrækt í Straumsheiðinni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um landgræðslu. Þar heitir í Straumsseli. Björn telur Reykjanesskagann vera hið mesta gósenland vegna margvíslegra landkosta og vill friða hann fyrir sauðfé og láta úthluta fólki þar ræktunarlöndum. Við áttum samtal við Björn fyrir skemmstu og þar útlistaði hann sjónarmið sín.
— Já, Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. — Eftir rækilega rannsókn á landkostum sló fyrsti landnámsmaðurinn tjöldum til frambúðar í Reykjavík. Þar var mikið undirlendi, varp- og akureyjar, þar var hægt að rækta bygg og brugga, góð fiskimið, laxár, veiðivötn, selalátur, hvalreki og geirfuglabyggðir skammt undan og fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður reki. Auk þess var beitiland sem aldrei brást á Reykjanesskaga.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Skaginn var skógi vaxinn og þar gekk sauðfé sjálfala frá upphafi vega uns Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum árið 1952 að mig minnir, sællar minningar. Hvergi var öllum þessum gæðum hlaðið jafn ríkulega á eitt hérað og af því býr þar nú nálega helmingur þjóðarinnar. Skaginn var síðar nefndur Gullbringusýsla, en það mun afbökun. Dönsku umboðsmennirnir hafa kallað Bessastaðaumboðið: Den guld indbringende syssel.
Menn sóttu hingað á Inn- og Suðurnes frá upphafi vega, keyptu sér land eða hótuðu hernaði fengju þeir ekki jarðnæði. Eyvindur í Kvíguvogum hrökklaðist t.d. til Heiðarbæjar undan Hrolleifi Einarssyni Ölvissonar barnakarls. Hér urðu menn að bindast samtökum, stofna til þinghalds og stjórngæslu til þess að verjast hvers konar ágangi. Upphafs allsherjarríkis mun að leita á Þingnesi við Elliðavatn.

Fornasel

Þetta er vatnsstæðið í Fornaseli.

Blm.: Voru ekki útvegsbændur á Reykjanesskaga einhverjir ríkustu menn landsins hér fyrrum?
— Jú, fiskimiðin hafa verið svo stórgjöful við Reykjanes að þar hafa jafnan verið einhverjar bestu verstöðvar landsins. Allt frá því á 15. öld hafa stórveldi glímt um Reykjanesskaga. Ég vil einnig bæta því við að jarðhitinn á Reykjanesskaga er ómældur og lítið nýttur enn. Garðbæingar ættu að vita að laug var í Hliðstúni, en hefur aðeins komið upp síðustu aldir á blásandi fjöru. Volgra var norðan til við Arnarnesi undan Gvendarbrunni, en á Reykjanesskaga heitir fersk uppspretta Gvendarbrunnur. Um skagann liggja mörk skaparans milli austurs og vesturs. Þar skiptir hann veröldinni með eldsprungu sem er nú einna virkust norður í Gjástykki.
Brunntorfur—Skaginn er í rauninni ein af tilraunastöðvum skaparans í landasmíð. Þar æfir hann tilvonandi arkitekta sköpunarverksins áður en hann felur þeim stærri verkefni annars staðar í geimnum.
Þar er hvert náttúruundur öðru meira. Eitt er Kleifarvatn, ævintýravatn, sem menn nýta ekki til neinnar hlítar af því að í því er flóð og fjara, en láðst hefur að binda vatnsborðið. Það er auðgert með um 4 km skurði, en að honum gerðum opnast ómældir möguleikar til fiskræktar og annarrar ræktunar, búsetu og siglinga.
Blm.: Nú er Reykjanesskagi í vitund margra heldur hrjóstrugur. Ert þú á annarri skoðun?
— Já, skaginn er í raun mjög frjósamur, en gróðri var eytt þar gegndarlaust á 19. öld. Eftir 1820 hefur engin stórplága geisað hér landi og sveitirnar yfirfylltust af fólki. Þá flýði það hrönnum til verstöðva og á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir. Ég tel að mikill orkusparnaður yrði að því að veita ræktunarfúsu fólki landspildur á skaganum gegn ræktunarskyldu. Á þann hátt væri hægt að breyta skaganum í sígrænan gróðurreit á 10-15 árum. Fólk við Faxaflóa þarf ekki að æða norður í Aðaldal til þess að tjalda á hrauni. Skaginn er mjög fagur og fjölbreyttur og sökum orkukreppu er brýnt að Faxaflóaþjóðin kynnist því að þar eru dásemdir tilverunnar engu minni enn annars staðar á landinu.

Blm.: — Og því vilt sem sagt friða Reykjanesskaga fyrir sauðfé?
— Já, með því og að úthluta fólki þar ræktunarlöndum vinnst þrennt: Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyingar og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskagann. Síðast en ekki síst er óhemjukostnaði við girðingar létt af ræktunarmönnum.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hafið þið Straumsheiðingjar orðið fyrir tjóni af völdum sauðfjár í landi ykkar?
— Við erum líklega búnir að planta um hundrað þúsund trjáplöntum síðan við byrjuðum og þó að girðingin sé tvöföld, bæði gaddavír og vírnet, er tjónið ómælt. Það þarf ekki nema eina kind að brjótast inn til að valda miklum skaða. Ísland var og er eignarréttarins land. Hingað komu menn til þess að eignast land og hér voru engir frumbyggjar fyrir, —landið var numið til séreignar, en með því er ekki sagt að eignarrétturinn sé svo heilagur að leggja þurfi í auðn hans vegna heil héröð. Ég tel að eigendur sauðfjár eigi að gæta eigna sinna í heldum girðingum. Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir tjóni sem rollurnar valda hjá öðrum. — Það þættu skrýtin lög í landi ef innbrotsþjófar gætu afsakað gerðir sínar með því að læsingar væru ekki nægilega traustar. Hér hafa hirðingjasjónarmið ríkt um aldir og sauðfé verið friðheilagt enda hefur gróðurlendi eyðst  jafnt og þétt eins og hjá öðrum hirðingjum. Mál er að linni og gróðurinn verði friðhelgur.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hvað er til ráða? Hvernig á að breyta alda gamalli hefð?
— Í lögum er og hefur verið um aldir ákvæði um ítölu, ítölu búfjár í haga. — Ítala er ákvörðun eða öllu heldur áætlun um það hve margt búfé hver og einn megi hafa í sameiginlegu beitilandi. Ítala er leyfður fjöldi búfjár frá hverjum nytjanda beitar í sameiginlegt land. Nú mun um þriðjungi fullorðins sauðfjár ofaukið í haga hér á landi. Þennan bústofn verður að skera niður. Enginn, hvorki stétt manna né einstaklingur á minnsta rétt á því að eyða lífríki landsins, leggja gróðurlendi í auðn. Ítöluákvæðinu var framfylgt allstrangt oft á tíðum fram á öld véltækni og fóðurbætis, en eftir það hefur allt gengið úr skorðum. Vistfræðingar okkar eiga að vita nú orðið nákvæmlega hvað hektari gróðurlendis ber af búfé, og auðvitað þolir landið misjafnlega mikið eftir aðstæðum og gróðurfari. Þeir eiga að stjórna ítölu í landið undir forystu landgræðslustjóra með aðstoð stjórnvalda. Allt annað er stjórnleysi eða anarkismi. Útgerðarmenn verða að leggja skipum sínum af því að vernda þarf fiskistofna. Á sama hátt verða bændur að takmarka búsmala sinn af því að vernda þarf gróðurlendi. Landeyðing er höfuðglæpur og íslenskur sauðfjárbúskapur er víða vélvædd rányrkja.

Brunntorfur

Fjárskjólið í Brunntorfum.

Líttu á Grafninginn og uppsveitir Rangárvalla- og Árnessýslu, svo að dæmi séu tekin. Ég veit að núverandi landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, hefur beitt ítöluákvæðum til þess að draga úr ofbeit á einstökum svæðum en gróðurlendur eru samt á undanhaldi og því má alls ekki una. Menn hafa verið að amast við sumarbústöðum borgarbúa á ýmsum forsendum en þeim fylgir gróður, sauðfjárbúskap og auðn.
Ingvi Þorsteinsson sagði í Þjóðviljanum fyrir hálfum mánuði að Grænland væri ekki ofbeitt enda fallþungi dilka þar meiri en hér. Þetta stafar ekki af framsýni bænda þar í sveitum, heldur af því að þeir setja enn á guð og gaddinn og horfalla árlega, gjörfelldu 1968 og rollubúskapurinn hangir þar á horriminni. Þeir eru litlir ræktunarmenn, en hér er heyöflunin vélvædd og þar með er haldið lífi í hundruðum þúsunda sauðfjár á vetrum og þeim sleppt á úthagann þessa fáu mánuði, sem hér er þíð jörð.
Ef náttúran fær að vera í friði ríkir oftast einhvers konar jafnvægi innan hennar. Nútímabúskapur hefur rofið þetta jafnvægi hjá okkur. Hér eru milljarðar greiddir í verðbætur til bænda til þess að þeir geti eytt landinu, en aðrir milljarðar eru greiddir í landgræðslusjóð. — Þessi háttur skipulagsmála var eitt sinn kenndur við Bakkabræður.
Stórsektir þarf að leggja við landeyðingu — í stað þess að nú er hún verðlaunuð.

Fornasel

Í Fornaseli (Brunnseli?).

Blm.: Þú minntist eitt sinn á það við mig að stofna þyrfti landvinningafélag til þess að herja á auðnirnar, endurheimta þær í ríki gróðursins. Hefurðu gert eitthvað í þeim málum.
— Ég er orðinn ónýtur í öllu félagsstarfi. Hins vegar þykir mér tímabært að gera menningarbyltingu á Íslandi. Hér verða menn að hverfa frá hirðingjamenningu og taka upp ræktunarmenningu. Þeir verða að hætta að trúa á heilaga sauði, og hver maður verður að vera ábyrgur fyrir eigum sínum og þar með sauðkindum, sem valda mér og öðrum óbætanlegu tjóni. Hirðingjar hafa ávallt skilið eftir sig sviðið land, hvort sem þeir búa austur í Mongólíu, suður í Arabíu eða norður á Íslandi.
Blm.: Eiga þá sauðfjáreigendur að girða af sauði sína?
Björn: Í ræktunarlöndum í grennd við þéttbýli á sauðfé ekki að líðast. Það er ómannlegt að leggja þá byrði á ræktunarmenn að girða af hvern skika vegna þess að nokkrir sauðfjárdýrkendur hafa það sér til dundurs að halda skemmdarvörgum til beitar í löndum þeirra. Allir sem vilja rækta land eiga að geta fengið erfðafestuskika að kostnaðarlausu gegn ræktunarskyldu á friðuðu landi. Erfðafestan á að falla úr gildi og landið að ganga aftur til fyrri eiganda, ef ræktunarskyldunni er ekki fullnægt.
Blm.: Þetta hljómar vel, en ríki og bæjarfélög eiga fæst mikið land til slíkra hluta.
Björn: Ef menn nýta ekki landið, eins og t.a.m. Reykjanesskagann, á ríkið að gera slík svæði upptæk til handa þeim, sem eru fúsir til þess að rækta þau. — Hér hefur ræktunarmálum verið mjög litið sinnt. Engin fræðsla er um þau mál innan hefðbundins skólakerfis. Eitt hið fyrsta sem gera þarf er að fræða fólk um það, hvernig hægt er að rækta landið. Ég get best borið um það sjálfur, að vanþekking mín á ræktunarmálum hefur verið mér dýr. —

Fornasel

“Brunnurinn” (vatnsstæðið) í Fornaseli (Brunnseli?).

Ræktunarfræðsla þarf að verða kjörsvið í öllum skólum. Þar á fólk að geta fræðst um undirstöðuatriði í garðrækt, ylrækt, trjárækt og skipulagningu garða og gróðursvæða, og margt annað kæmi til álita, ef mannafli og fræðslu væri til.
Hér er garðyrkjuskóli og útskrifar ágætlega menntað fólk, en þetta ágæta fólk fær mér vitanlega enga þjálfun í því að miðla öðrum af þekkingu sinni, kenna fræði sín. Þekking á lífríkinu í kringum okkur er hverjum manni dýrmætt veganesti. Fræðsla í margs konar náttúrufræðum hlýtur að vaxa í framtíðinni. Ræktunarfræðsla er mikið og vanrækt mál. — Það er ekki á okkar færi að fjalla um það sem skyldi. Menningarbylting verður að vera mjög róttæk ef hún á að standa undir nafni. – G.Fr

Rétt er að geta þess að sel það er fjallað er um í greininni er ekki Straumssel, heldur Fornasel ofan við Brunntorfur (sjá m.a. mynd af vatnsstæðinu við Fornasel, sem sagt er að sé við Straumssel). Fornasel er ofan við Gjásel (þessum seljum er stundum ruglað saman í skrifum), en það hefur einnig verið nefnt “Brunnsel”, sbr. “Brunntorfur”. Straumssel er mun vestar, í svonefnum Almenningum. – aths. ÓSÁ.

Heimild:
-Þjóðviljinn – 191.-192. tölublað (23.08.1980); Viðtal við Björn Þorsteinsson um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap á Reykjanesi, bls. 12-13.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Eldgos

Reykjanesskaginn er yngsti hluti Íslands en mjög eldbrunninn; um 2.000 ferkm að flatarmáli. 5-6 eldstöðvakerfi eru talin vera á skaganum eftir því hvort Hengilskerfið er talið með eða ekki.  Hér er það ekki talið með því landfræðilega er miðja Hengilskerfisins fyrir utan [sjálfan] Reykjanesskagann og að auki er Hengillinn mjög ólíkur öðrum eldstöðvakerfum á skaganum.

Jarðfræði
“Þessi fimm kerfi eru nátengd og það virðist gjarnan gjósa í þeim flestum í sömu hrinunum.  Þau eru 1. Reykjaneskerfið sem er vestast á skaganum, 2. Svartsengi sem er norður af Grindavík,  3. Fagradalsfjall sem er litlu austar, 4. Krýsuvíkurkerfið, kennt við Krýsuvík, 5. Brennisteinsfjallakerfið sem einnig er kennt við Bláfjöll.

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.

Reykjanesskaginn tilheyrir hinu svonefnda Vestara gosbelti sem nær frá Reykjanesi og norður fyrir Langjökul.  það belti er ekki eins virkt og Suðurlands- og Eystra gosbeltið en þó ganga yfir kröftugar  rek- og goshrinur á Reykjanesskaganum á 800-1000 ára fresti.  Síðast gekk slíkt tímabil yfir á árunum 950-1240 og þar áður fyrir um 1800-2500 árum.

Fagradalsfjall - Jarðfræði
Öll fimm kerfin eiga það sameiginlegt að í þeim eru ekki megineldstöðvar og í þeim öllum kemur eingöngu upp basalt. Gosin eru gjarnan sprungugos og magn gosefna í hverju gosi að jafnaði lítið eða innan við hálfur rúmkílómetri. Þó eru undantekningar frá þessu eins og nokkrar stórar dyngjur á skaganum sýna vel.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Mikil eldvirkni hefur verið á Reykjanesskaga á nútíma og yfir þúsund ferkílómetrar lands huldir nýju hrauni auk landauka í sjó. Gjall- og klepragígaraðir eru algengustu eldstöðvarnar en að auki eru fjölmargar dyngjur á skaganum.  Þær hafa þó flestar myndast á fyrrihluta nútíma, reyndar allar taldar yfir 4500 ára gamlar og myndun þeirra tengist væntalega hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins á skaganum. Gossprungur á skaganum á nútíma eru hátt í 200 talsins sem sýnir vel hve virkur skaginn hefur verið þrátt fyrir að engin staðfest gos hafi orðið síðan á 13. öld. Jarðskjálftar eru tíðir á skaganum og jarðhitavirkni mikil.

Eldstöðvakerfi raða sér svo til suðvesturs frá Reykjanesskaganum og vitað er um allmörg neðansjávargos á Reykjaneshrygg síðustu aldir. Öflugt gos varð suður af Eldeyjarboða árið 1783. Þá myndaðist eyja sem hvarf þó stuttu síðar vegna ágangs sjávar. Á 19. öld er vitað um 3 gos á þessum slóðum og á 20. öldinni varð nokkrum sinnum vart við ólgu í sjó og gjóskuþústir sem líklega hafa verið af völdum lítilla neðansjávargosa.

Reykjaneskerfið

Reykajnesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Vestasta eldstöðvakerfið á skaganum er Reykjaneskerfið. Nær það nokkurnveginn frá Reykjanestá að Grindavík og þaðan í norðaustur yfir skagann. Það nær einnig einhverja kílómetra í suðvestur á sjávarbotni og hafa margsinnis orði gos í sjó í kerfinu.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Mikil goshrina gekk yfir kerfið á árunum 1211-1240.  Hófst þessi hrina með gosi í sjá skammt frá landi en síðan urðu allmörg gos á næstu árum á svipuðum slóðum, þ.e. í sjó skammt undan landi. Eitt hefur verið áberandi mest, árið 1226 og skilur eftir sig gjóskulag sem hefur nýst vel í gjóskulagarannsóknum á Suðvesturlandi. Heimildir eru fyrir þessu gosi í Oddaverjaannál og er þar talað um “Sandfallsvetur á Íslandi”. Gos urðu svo uppi á landi á næstu árum.  Þessi gos eru nefnd einu  nafni Reykjaneseldar. Síðan þá hefur kerfið ekki bært á sér frekar en önnur eldstöðvakerfi á skaganum hvað gos varðar en jarðskjálftar eru þar tíðir.

Reykjanesskagi - jarðfræði
Svartsengi

Svartsengiskerfið, kennt við samnefnt háhitasvæði, var áður flokkað með Reykjaneskerfinu en þó þau séu um flest lík og nálægt hvort öðru þá eru þau flokkuð sem tvö aðskild kerfi nú. Þau fylgjast hinsvegar að hvað gos varðar og gýs í þeim báðum á svipuðum tíma. Þá rennur syðsti hluti kerfisins saman við Reykjaneskerfið vestan við Grindavík.

Reykjaneskagi - jarðfræði

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Dyngjurnar eru gular.

Allmargar dyngjur eru í kerfinu sem er um 7 km. breytt og amk. 30 km. langt. Gossvæðin eru þó í suðurhluta kerfisins.

Goshrina varð í kerfinu fyrir um 2000-2400 árum og rann þá m.a. svokallað Sundhnúkahraun ofan við Grindavík. Hluti Grindavíkur stendur á þessu hrauni.

Einnig gaus í kerfinu samhliða Reykjaneseldum í kringum árið 1226. Virðast þá hafa orðið í það minnsta þrjú gos, fremur lítil þó. Illahraun sem orkuverið í Svartsengi stendur á og er við Bláa Lónið rann í einu þessara gosa.

Reykjanesskagi - örnefni

Reykjanesskagi – örnefni.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – kort.

Kerfið heitir eftir samnefndu fjalli á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Þetta er lítið kerfi og ólíkt hinum eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaganum er það fremur lítt virkt hvað gos varðar, líklega hefur ekki orðið þar gos í um 6000 ár. Jarðskjálftar eru hinsvegar tíðir á svæðinu.

Krýsuvíkurkerfið

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Kerfið var áður nefnt Trölladyngjukerfið eftir samnefndri dyngju í kerfinu. Réttara þykir þó að kenna það við helsta kennileiti kerfisins og  það svæði í því þar sem er að finna vísi að megineldstöð.

Það er sennilega ekki ofsögum sagt að segja að Krýsuvíkurkerfið sé eitt hættulegasta eldstöðvakerfi landsins vegna nálægðar þess við höfuðborgarsvæðið. Nyrstu gossprungurnar eru rétt suðvestur af Hafnarfirði og hraun hefur amk. á tveimur stöðum runnið til sjávar örskammt vestan Hafnarfjarðar eftir landnám.

Um árið 1150 – 1180 urðu veruleg eldsumbrot í kerfinu og opnuðust nokkrar gossprungur í þeirri hrinu. Hafa þessi eldgos verið nefnd Krýsuvíkureldar. Hraun runnu þá til sjávar báðu megin við Reykjanesskagann. Þá varð  gos við Sveifluháls um 1180. Ekki virðist hinsvegar hafa gosið í kerfinu í Reykjaneseldunum á 13. öld þegar mikil goshrina gekk yfir vestar á Reykjanesskaganum.

Brennisteinsfjallakerfið
Reykjanesskagi - jarðfræðiSyðsti hluti kerfisins er við Krýsuvíkurbjarg og það teygir sig svo í norðaustur yfir Bláfjöll og inn á Mosfellsheiði. Líkt og í flestum eldstöðvakerfunum á skaganum urðu allmikil umbrot í kerfinu skömmu eftir landnám og reyndar öllu fyrr í Brennisteinsfjallakerfinu.  Nokkur gos urðu líklega í tveimur megingoshrinum á svæðinu frá Bláfjöllum að Hellisheiði. Þessi gos urðu rétt fyrir og rétt eftir árþúsundin. Þekktast er gosið sem Kristnitökuhraunið rann í árið 1000.

Framtíðarhorfur á Reykjanesskaga

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2023.

Það verður ekki undan því komist að fjalla örlítið um hve hættulega nálægt byggð eldstöðvakerfin á Reykjanesskaganum eru. Eldvirknin er lotubundin og gengur yfir á um 800-1000 ára fresti og stendur þá yfir í nokkur hundruð ár. Nú eru nálægt 780 ár frá síðustu staðfestu gosum á skaganum og alveg ljóst að frekar fyrr en síðar munu verða eldgos og það sennilega nokkuð mörg á skaganum.

Eldgos

Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.

Þessi gos eru ekki afkastamikil en þau eru mörg hver hraungos og geta eldsuppkomur orðið mjög nálægt byggð. Sérstaklega verður að telja hluta Hafnarfjarðar á hættusvæði hvað þetta varðar og einnig Grindavík. Það er því sérlega mikilvægt að fylgjast vel með öllum jarðskorpuhreyfingum á skaganum til að auka líkurnar á að hægt sé að segja til um gos með einhverjum fyrirvara og gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir.”

Heimild:
http://eldgos.is/reykjanesskagi/

Gunnuhver

Gunnuhver.