Tag Archive for: Reykjanes

Hraun

Dyngjur myndast á löngum tíma í þunnfljótandi flæðigosum þar sem kvikan streymir langar leiðir. Vísindamenn segja að stöðugt flæði þunnrar kviku af miklu dýpi, eins og í gosinu í Geldingadölum, sé sterk vísbending um að þar sé dyngja í mótun. Langflestar dyngjur á Íslandi mynduðust fyrir um það bil tíu þúsund árum. Eldvirknin getur staðið yfir í mörg ár, jafnvel áratugi.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja.

Íslenskar dyngjur eru á rekbeltum um allt land. Flestar eru ekki meira en þrír kílómetrar í þvermál og um 100 metra háar. Þekktustu dyngjurnar eru líklega Skjaldbreiður og Trölladyngja, en fleiri eru til dæmis Þráinsskjöldur, Sandfellshæð og Hrútagjárdyngja á Reykjanesskaganum.

Dyngjur eru sérstök gerð af eldstöðvum sem í fyrstu atrennu eru skilgreindar með útliti sínu – hringlaga skildir með gíg á toppi. Frægust þeirra er Skjaldbreiður, „Ógna skjöldur bungubreiður / ber með sóma réttnefnið“ með orðum Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Skjaldbreiður.

Dyngjur

Dyngjur á Reykjanesskaga frá síðustu 14.000 árum.

Myndun þeirra hér á landi hefur verið tengd ísaldarlokunum, því þær hafa flestar eða allar myndast fyrir meira en 6000 árum, og langflestar fyrir 8000-12000 árum. Því er sú hugmynd uppi að þær tengist risi landsins eftir að ísaldarjökullinn hvarf skyndilega, og hafi þrýstiléttir valdið mikilli bráðnun í jarðmöttlinum undir Íslandi. Rannsóknir benda til þess að fyrstu árþúsundin eftir að ísaldarjökullinn hvarf hafi eldvirkni, í rúmmáli á tímaeiningu talið, verið yfir 30 sinnum meiri en nú, og þar eiga dyngjurnar stærstan þátt.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Dyngjur eru bæði smáar og stórar – hinar smæstu eru 1/100 rúmkílómetri, til dæmis er Háleyjarbunga við Reykjanes 0,013 km3, en hinar stærstu eins og Skjaldbreiður og Trölladyngja kunna að vera allt að 50 km3 að rúmmáli. Sé aðeins miðað við rúmmál þessara dyngja ofan við flatlendið í kring, er það 15-20 km3, en þyngdarmælingar benda til þess að þykk hraun liggi undir þeim. Jafnframt má líta svo á að sumir stapar (til dæmis Herðubreið og Hlöðufell) séu í rauninni dyngjur sem urðu til í gosum undir bráðnandi jökli við lok ísaldar. Eiríksjökull er stærstur þeirra, 50 km3.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Talið er að stóru dyngjurnar, að minnsta kosti, hafi myndast í langvarandi, hægfara hraungosi úr einum gíg, því ella hefði hraunið runnið langar leiðir frá eldstöðinni eins og til dæmis varð í sprungugosum sem mynduðu Þjórsárhraun fyrir 8700 árum (25 km3), Eldgjárhraun um 934 (20 km3) og Skaftáreldahraun 1783 (15 km3). Þorleifur Einarsson (1968) lýsir dyngjum svo: „Flatir reglulegir hraunskildir úr þunnum hraunlögum sem myndast við flæðigos er þunnfljótandi hraunkvika streymir upp um kringlótt gosop mánuðum eða árum saman.“ Hliðarhalli dyngja er minni en 8° og oft er halli ekki meiri en 1-5°.

Dyngjur

Dyngjur – Jökull 1986.

Dyngjuhraun eru ætíð þunn og beltuð helluhraun. Nær ekkert hraunrennsli er á yfirborði, heldur rennur kvikan í göngum oft langar leiðir og vellur síðan upp hér og þar. Tæmist þessi göng liggja eftir hraunhellar, sumir mjög langir. Slíkir hraunhellar eru allalgengir í dyngjuhraunum.
Eftir að gígur Surtseyjar lokaðist fyrir aðgangi sjávar og hraun tók að renna hlóðst upp „dyngja“ ofan á túffsökklinum. Hins vegar má um það deila hvort Surtseyjargosið hafi verið raunverulegt dyngjugos, þótt langt væri, því það sker sig frá öllum öðrum dyngjum í efnasamsetningu bergsins — alkalískt en ekki lágalkalískt — og var auk þess ekki tengt landrisi. Hvort svo hafi verið, kann að vera deila um keisarans skegg, en kemur þó málinu við þegar því er spáð að við Upptyppinga austan við Öskju kunni að vera von á dyngjugosi í framtíðinni. Þar væri efnasamsetningin að vísu „rétt“ en tengsl við landris ekki.

Atlantshafshryggur

Reykjanesgosbeltið og Mið-Atlantshafshryggurinn.

Sé dyngjugos hins vegar skilgreint sem langvarandi basalt-hraungos á kringlóttum gíg, gætu komandi kynslóðir hugsanlega orðið vitni að slíku gosi, enda verða frægustu dyngjugosin á Hawaii, óháð áhrifum ísaldar. Vegna þess hve miklu stærri dyngjur Hawaii og fleiri Kyrrahafseyja eru en hinar íslensku, gera sumir fræðimenn mun á þeim — nefna hinar íslensku „lava shields“ (hraunskildi) en hinar stóru „shield volcanoes“. Í báðum tilvikum vísar orðið skjöldur (e. shield) til lögunar þessara eldstöðva eingöngu. Raunar má geta þess í lokin að nafngiftin dyngja fyrir hraunskildina byggist sennilega á misskilningi: Á ferð sinni um Ódáðahraun 1898 mun Þorvaldur Thoroddsen hafa talið Trölladyngjur vera nafn á eldstöð þeirri sem síðan nefnist Trölladyngja, en átti hins vegar við fjöll þau sem nú nefnast Dyngjufjöll.

Geldingadalir

Geldingadalir í Fagradalsfjalli – eldgos.

Dyngjugos á Reykjanesskaga byrja sennilega í flestum tilvikum sem sprungugos. Vísbendingar um slíkt má sjá í Fagradalsfjallskerfinu og víðar. Virknin færist síðan smám saman í einn gíg og þróast í sígos sem stendur lengi, jafnvel nokkur ár í stærstu dyngjunum. Hraunframleiðsla er talin lítil eða kringum fimm rúmmetrar á sekúndu. Líklegt er að lengri tími gefist til að bregðast við ógn af þeirra völdum en sprungugosa.

Hegðun og framgangur dyngjugosa eru allvel þekkt. Í aðalgígnum myndast oftast hrauntjörn, full að börmum, sem síðan tæmist út í rásir sem liggja frá honum (hellakerfi) þegar streymi að neðan hættir, eins og til dæmis í Sandfellshæð. Dæmi eru um að hraun stígi aftur upp og fylli gíginn. Ef hraunrásirnar eru þá stíflaðar, flæðir yfir gígbarmana (Þráinsskjöldur), en líka getur kvikan troðist sem innskot undir gígsvæðið og belgt það upp (Hrútagjá).

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Gee og fleiri töldu mikið hraunmagn og frumstætt berg hafa fylgt röskun á þyngdarjafnvægi sem varð við hraða bráðnun jökla í lok ísaldar. Hraunkvika sem þá leitaði upp úr möttli, gat náð til yfirborðs án þess að hægja á sér í skorpunni og breytast að ráði við kvikublöndun, uppbræðslu eða hlutkristöllun. Einkum gæti þetta átt við pikríthraunin og stærstu dyngjurnar, Sandfellshæð og Þráinsskjöld.
Pikríthraunin eða pikrítdyngjurnar eru eldri en ólivínbasaltdyngjurnar, þar sem afstaðan til þeirra sést. Elstu pikrítdyngjurnar eru samkvæmt því um og yfir 14.000 ára. Þær eru litlar, mega kallast ördyngjur, nema þrjár eða fjórar smádyngjur: Háleyjabunga, Lágafell, Vatnsheiði og Dimmadalshæð. Efnismagn í þeim er líklega innan við 0,1 rúmkílómetri. Pikríthraun eru ekki þekkt í Krýsuvíkurkerfinu.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Næst eftir pikrítgosin fylgdu tvö stór dyngjugos. Þá hlóðust Sandfellshæð og Þráinsskjöldur upp, auk nafnlausrar dyngju norðan við Hraunsels-Vatnsfell. Aðrar níu dyngjur dreifast á allan eftirjökulstímann (sjá töflu). Tvær af þeim eru af óvissum aldri, Selvogsheiði og Heiðin há, en eru þó meira en 7500 ára. Þær eru báðar í flokki stórdyngna, meira en einn rúmkílómetri. Næstu sjö dreifast á nokkur þúsund ára tímabil. Sú elsta þeirra er um 7000 ára, en sú yngsta, Stóribolli, líklega um 2500 ára. Auk þeirra dyngna sem hér hafa verið taldar upp og sýndar eru í töflunni, má nefna að Breiðdalshraun, sem líklega er frá tíundu öld, ber einkenni dyngju, en það er beltótt helluhraun og ólivínríkt, að minnsta kosti sú álman sem liggur frá gígnum norður í Breiðdal.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Allar dyngjurnar nema þrjár þær elstu og Hrútagjárdyngjan eru í Brennisteinsfjallakerfi. Ekki verður séð hvort dyngjugosin fylgi gosskeiðum sprunguhraunanna í tíma, til þess vantar fleiri og nákvæmari aldursgreiningar. Flestar yngri dyngjurnar eru tímasettar með hjálp öskulaga.

Ein dyngjan er ótalin hér að ofan, en það er nafnlaus slík á milli Stóra-Lambafells og Kleifarvatns í Krýsuvík. Sjá má barma hennar austan við veginn gegnt Hádegishnúk. Gígurinn hefur nú fyllst af sandi og leir.

Heimildir:
-https://nyr.ruv.is/frettir/innlent/2021-03-23-gaeti-ordid-fyrsta-nyja-dyngjan-a-islandi-i-3000-ar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=56348
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81329
-https://jokull.jorfi.is/articles/jokull1986.36/jokull1986.36.011.pdf

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga.

Jarðfræðikort

Gengið var um svæðið ofan við Voga á Vatnsleysuströnd – ofan Reykjanesbrautar. Ekki var ætlunin að skoða hinar fjölmörgu minjar á svæðinu heldur að skoða þau merkilegu jarðfræðifyrirbæri, sem þar eru; flekaskilin (landrekið/höggunina) og misgengin.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Eins og kunnugt er stendur landið á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Nýlega hefur verið reynt að gefa fólki kost á að kynnast þessu með einföldum hætti þar sem “brúnni á milli heimsálfa” hefur verið komið fyrir yfir eina gjána ofan við Stóru-Sandvík. Brúna hefði þess vegna mátt setja upp yfir eina gjána á Vogaheiði eða hvar sem er annars staðar á svæðinu.

Eldvirkni er að mestu bundin við flekaskilin sem liggja þvert yfir landið, frá Reykjanesi í suðvestri að Tjörnesi í norðaustri, en einnig á jaðargosbeltum. Fyrir vikið finnast yngstu jarðmyndanirnar á sömu svæðum og framleiðni gosefna er þar mest, þótt þess sjáist ekki endilega merki í Vogaheiðinni að undanskildum Þráinsskyldi. Merkin eru hins vegar gleggri beggja vegna. Jarðskorpuflekarnir fljóta á deigu möttulefni sem líkja má við það þegar ísjakar fljóta á vatni.

Stampar

Stampagígaröðin.

Með „landrekskenningunni“ er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1870-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenningin“ og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenningin“.
Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana.
Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.

Flekaskil

Eldsumbrot á jörðinni síðustu milljón árin.

Wegener reyndi að skýra kenningu sína um hreyfingu meginlandsflekanna um hnöttinn. Í fyrsta lagi benti hann á hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman. Og í fjórða lagi gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni.

Háibjalli

Háibjalli.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Árið 1960 setti bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Meginlandsflekarnir dragast ýmist eða fjarlægjast hvern annan. Dæmi um fleka, sem dragast að hvorum öðrum eru afleiðingar flóðbylgjunnar í Indlandshafi á annan dag jóla 2004. Hér á landi eru flekarnir að fjarlægjast eins áður hefur komið fram.

Wegener

Prof. Dr. Alfred Wegener, ca. 1924-1930.

Svo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Ekki er ólíklegt að hann hafi og skoðað hinar augljósu ummerki þessa á Reykjanesskaganum og á Þingvöllum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar.
Bruin-26Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands. Dæmi þess má einnig sjá syðst á Reykjanesskaganum, s.s. í Þorbirni.
Á Háabjalla, sem er ákjósanlegt skoðunarsvæði fyrir þá, sem hafa áhuga á að skoða misgengi. Á svæðinu eru misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Samtals eru þau 4 eða fimm á Vogasvæðinu, Stapinn þar með talinn. Brúnir mynda nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Hreyfingin er stöðug á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2.8 millimetrum á ári eða 28 cm á einni öld. Frá Háabjalla má vel sjá hvernig brotabeltið á flekaskilunum hefur færst til beggja átta og sigið. Gjárnar, Hrafnagjá að norðanverðu og Huldugjá, Klifgjá, Aragjár og aðrar slíkar að sunnanverðu gliðna og ekki er óraunhæft að ætla að á þessu svæði geti glóandi hraun hvenær sem er fundið sér leið upp á yfirborðið.
Þátttakendur gengu af einhverjum ástæðum mun hraðar til baka.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mínútur.

Heimild m.a. http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=749.

Bruin-25

Misgengi á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Utan við nýuppgerða upplýsingamiðstöð á jarðhæð vitavarðarbústaðarins á Vatnsfelli á Reykjanesi eru tólf skilti. Á þeim eru upplýsingar um jarðfræði Reykjaness, vitann og nágrenni. Reyndar eru upplýsingarnar misvísandi og í einstaka tilfellum beinlínis rangar, en á skiltunum má lesa eftirfarandi fróðleik:

Heimili vitavarða

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

„Íbúðarhús vitavarða stóð alltaf hér á þessum stað frá því að fyrsti vitinn var reistur á Valahnúk árið 1878.

Núverandi hús var reist árið 1947 en hér stóð áður burstabær úr timbri og þar áður torfbær sem reistur var samhliða fyrsta vitanum. Það var langur spölur að fyrsta vitanum sem reistur var a Valahnúk. Enn síst héðan hlaðinn gönguleið vitavarðanna eftir hraunbreiðunni til suðvesturs að Valahnúk.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Þangað þurftu þeir að ganga í öllum veðrum til að halda ljósinu lifandi. Þeir vissu hvað var í húfi ef ljósgeislinn brást. Þegar vitinn var reistur hér á Bæjarfelli [á að vera Vatnsfelli] árið 1907 voru gerðar tröppur upp frá vitavarðarhúsinu að vitanum, sem enn eru nothæfar.

Það þurfti hetjudug til að búa á Reykjanesi og gæta vitans, víðs fjarri mannabyggð, þegar enginn vegarspotti lá yfir hraunbreiðuna í att að næstu samfélögum í Grindavík og Höfnum (15 km). Hvorki vegir né sími. Hér í vitavarðarhúsinu er skyggnst inn í sögu vitavarðanna.“

Gunnuhver

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Gunnuhver; skilti.

Gunnuhver er staðsettur austan við Reykjanesvita [og] er mikið jarðhitasvæði, eitt af mörgum á Reykjanesi.

Gunnuhver er þekktasti hverinn. Gunnuhver er talinn vera stærsti leirhver á Íslandi með gígop sem er 20 metrar í þvermál. Mikið gufuútstreymi er á háhitasvæðinu með fjölda gufu- og leirhvera sem hafa myndast. Gufan leitar til yfirborðsins í gufuaugum og hvínandi gufuhverum en þéttist líka í yfirborðsvatni og myndast með því leirhveri.

Gunnuhver

Gunnuhver á Reykjanesi.

„Gunnuhver“ mun draga nafn sitt af Guðrúnu nokkurri sem gekk aftur og olli miklum usla á svæðinu þar til að tókst að koma draugnum fyrir með því að senda hann í hverinn.

Jarðhitasvæðið er á hreyfingu. Á árinu 2006 hljóp mikill hamagangur í svæðið sem stækkaði mikið og eyðilagði þáverandi akveg og göngupalla. Nú hafa verið teknir í notkun nýri göngu- og útsýnispallar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Á svæðinu hafa dætur síðasta vitavarðarins sinnt hefðum vitavarðafölskyldna sem hafa í 140 ár grafið brauð í leirinn og bakað gott rúgbrauð. Hver veit nema þær eigi eitthvað til að smakka hér inni í vitavarðarhúsinu.“

Reykjanes Jarðvangur

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Jarðvangur; skilti.

Í Reykjanes „Jarðvangi“ er að finna margar merkilegar jarðminjar og eru sumar þeirra einstakar í sinni röð.

Þar er m.a. að finna fjölmargar tegundir eldstöðva í a.m.k. fjórum aðskildum gosreinum, með hundruðum opinna sprunga og misgengja. Hið einstaka nábýli íbúa jarðvangsins við náttúruna hefur mótað þá og lifnaðarhætti þeirra síðan land byggðist. Víða má finna ummerki um fornar minjar tengdar samgöngum, sjósókn og landbúnaði. Þá leynast víða kennileiti sem tóku á sig ýmsar myndir í myrkri og þoku sem urðu uppsprettur sagna sem lifa enn með íbúum svæðisins.

Reykjanes

Gunnuhver.

Í Reykjanes jarðvangi er að finna talsverðan jarðhita. Jarðhitinn er jarðsjór sem streymir gegnum funheitt berg og kólnandi kvikuinnskot innan gosreina. Íbúar svæðisins hafa gegnum aldirnar notið góðs af honum og er hann í dag m.a. nýttur til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Samspil jarðhitans, gufu-, vatns- og leirhvera, veðurfars, gróðurs og gróðurleysis skapar einstaka litadýrð sem yndi er á að horfa, þó rétt sé að gæta varúðar inni á sjóðandi hverasvæðum.

Jarðfræði

Gunnuhver

Gunnuhver.

Reykjanesskagi er framhald af Reykjaneshryggnum sem rís úr sæ yst á Reykjanesskaganum og liggur gegnum landið frá suðvestri til norðausturs.

Rekja má jarðsögu svæðisins nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann en flest jarðlög eru yngri en 100-200 þúsund ára. Síðasta goshrina á Reykjanesi hófst um árið 1000 og lauk um 250 árum síðar. Tíminn mun leiða í ljós hvort ný goshrina sé hafin þegar gaus í Fagradalsfjalli árið 2021 og 2022.

Móberg

Móberg.

Í Reykjanes jarðvangi má finna móbergsfjöll og móbergshryggi sem mynduðust í gosum undir jökli en einnig gígaraðir og stórar skjaldlaga dyngjur frá nútíma. Víða eru bergstaflar af hraunum sem mynduðust í sprungugosum þegar mikið magn hrauns kom upp úr gígum á sprungum. Gosum á Reykjanesi fylgir sjaldnast öskufall nema þar sem gossprungur lentu í vatni eða sjó.

Jarðskjálfar eru tíðir á svæðinu sökum landreks, en koma gjarnan upp í skjálftahrinum sem geta tekið nokkur ár. Flestir eru þeir smáir en stöku sinnum finnast þeir greinilega um allan Reykjanesskagann.“

Valahnúkur

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur; skilti.

Valahnúkur er samsettur úr móbergstúfflögum, bólstrabergi og bólstrabrotabergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en sýnir mismunandi ásýndir í virkni gossins. Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn.

Móbergstúff
Sambland af hraunmolum og harðnandi gosösku sem finnst í Valahnúk nefnist túff. Túff myndast þegar 1200°C heit bráð kólnar snögglega í vatni. Þá verður til glersalli þar sem kristallar hafa ekki tíma til að vaxa. Sallinn ummyndast fljótt í móberg.

Bólstrar

Bólstri.

Bólstrabrotaberg

Neðarlega í Valahnúk má sjá hallandi lag af bólstrabrotabergi. Bólstarbrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar. Einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna þá niður hallann, umlykjast gjóskusalla og mynda hið svokallað bólstabrotaberg.

Bólstaberg

Reykjanesviti

Valahnúkur.

Bólstraberg er algengasta hraunmyndun jarðarinnar þar sem hún er algengasta hraunmyndun úthafsskorpunnar. Þessir sérkennulegu bólstrar myndast í gosi undir vatni eða jökli. Oft er um að ræða gos þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Einnig geta bólstrarnir myndast þegar lítið eða ekkert gas er í kviku sem þrýstir sér hratt út úr flæðandi hraunmassa. Þar sem kvikan kólnar snögglega myndast svört glerhúð utan á bólstrunum.

Oft eru þeir nokkrir metrar á lengd en einungis 10-30 sentimetrar í þvermál. Þegar horft er á klettavegg með þversnið af bólstrunum þá lítur hver bólstri út eins og bolti eða koddi. Bólstrabergið í Valahnúk hefur að öllum líkindum orðið til í gosi undir jökli.“

Vitagata

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Vitagata; skilti.

„Þegar vitinn stóð á Valahnúk bjó vitavörðurinn við Bæjarfell [á að vera Vatnsfell], þar sem Reykjanesviti stendur í dag. Vitavörðurinn hlóð veg frá bústað sínum að vitanum.

Vegurinn var lagður í beinni stefnu frá bænum að turninum en þegar komið var að Valahnúk lá hann í krákustíg að turndyrunum,

Þeir sem þekkja íslenska veturinn vita að erfitt getur verið að fylgja slóðum í versu veðrum, sér í lagi þegar gengið er um hraun og sprungið væði.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Veginum var ætlað að auðvelda vitaverðinum að komast í vitann hvenær sem var sólarhrings og í hvaða veðri sem var.“

Eldey

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Eldey; skilti.

„Eldey er 77 metra há og þverhnípt gígey úr lagskiptu móbergi um 15 kílómetra frá landi. Eyjan myndaðist í gjóskugosi á Mið-Atlantshafshryggnum, en er mikið rofin og er í dag 0.03 km2. Eldey er jafnframt innsta skerið í skerjaklasa sem nær 95 km frá landi. Eldey var friðuð árið 1940 og síðan lýst friðland árið 1974 samkvæmt náttúruverndarlögum.

Fuglalíf í Eldey
Öldum saman var Eldey mikil matarkista. Þar er að finna bjargfugla í talsverðum mæli svo sem ritu, langvíu og stuttnefju, að ógleymdri súlunni sem stundum er nefnd drottning Atlantshafsins.

Eldey

Eldey.

Er horft er til Eldeyjar sést að hún er ljós í kollinn. Yfirborð eyjarinnar er þéttsetið af súluhreiðrum og milli þeirra er jörðin þakin gráleitu gúanói. Um 16.000 súlupör verpa í eyjunni sem gerir hana að einni stærstu súlubyggð við Atlantshafið.

Súlan er tignarlegur fugl og stærst sjófugla við Ísland. Hún heyrir ættbálki árfeta og hennar nánust ættingjar hér er skarfurinn. Súlan verpir einu eggi í apríl, útungun tekur 44 daga og er undinn í hreiðrinu í um 90 daga. Þeir yfirgefa eyjuna á hausti þegar þeir svífa fram af brúninni og þurfa að sjá um sig sjálfir þan í frá.“

Karlinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Karlinn; skilti.

„Karlinn (Karl) er um 50-60 metra hár klettur eða forn gígtappi sem stendur tignarlegur í hafinu úti fyrir Valahnúk þar sem sjávaraldan hefur rofið klettinn í áranna rás.

Hann [er] mikilfenglegur og sérstaklega þega aldan skellur á með miklum ofsa. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leita til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.“

Valbjargargjá – siggengið

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valbjargargjá; skilti.

„Mið-Atlantshafshryggurinn er rekhryggur sem rís úr sæ hér á Reykjanesi. Stórar plötur sem nefnast jarðskorpuflekar skiljast að um rekhrygginn. vegna togkrafta og gliðnunar við plötuskrið myndast opnar gjár og misgengi (siggengi) á Reykjanesskagnum. Hér hefur að líta eitt þeirra, Valbjargargjá. Í gjánni er m.a. að finna frumstæða sundlaug frá 1930.

Við vestari enda gjárinnar rís Valahnúkur sem samsettur er úr móbergstúff[f]lögum, bólstrabergi og bólstrabrotsbergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en samsetning han sýnir ólíka virkni gossins á meðan það stóð yfir.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn. Hnúkurinn hefur myndast í sjó við hærri stöðu hans undir lok síðasta jökulskeiðs. Upp að Valahnúk hefur runnið hraun sem nefnist Yngra-Stampahraun og er eitt af hraunum Reykjaneselda sem stóðu yfir frá 1210 til 1240.

Neðan við Valahnúk er að finna Valahnúksmöl, 420 metra langa stórgrýttan sjávarkamb sem liggur þvert á siggengið. Mölin er 80 metra breið og 10 metra há. Flestir hnullungarnir sem mynda kambinn eru 30 til 90 sentimetrar í þvermál. Uppruna grjótsins er ap finna í sjávarklettum milli kambsins og Reykjanestáar. Ströndin hér um slóðir er brimsöm og ber skýr merki um þunga úthafsöldunnar.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Gígurinn sem rís í fjarska nefnist Skálafell og hefur hann gosið a.m.k. fjórum sinnum á nútíma eða á síðustu 10.000 árum. Yngsta hraunið er um 3.000 ára gamalt út toppgígnum sm er eldborg, byggð úr hraunkleprum. Elsta hraunið er yfir 8.000 ára gamalt. Misgengin úr eldstöðinni marka austurjaðar sprungusveimsins á Reykjanesi, þ.e. þyrpingu af samsíða sprungum, en 5-6 km vestar marka siggegnin við Kinn hinn jaðarinn. Þar hefur verið reist táknræn göngubrú yfir eitt misgengið.“

Jarðskorpuflekar

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Jarðskorpuflekar; skilti.

„Jarðskorpan skiptist í sjö stóra fleka og rúman tug smærri fleka. Flekarnir hafa móta yfirmorð jarðar frá árdögum hennar. Flekarnir er um 50-200 kílómetra þykkir og fljóta ofan á möttlinum.

Ísland er að hluta til á svokölluðum Norður-Atlantshafsfleka og að hluta til að svokölluðum Evarsíufleka Á Norður-Atlantshafsflekanum er heimsálfan Norður-Ameríka en á Evrasíuflekanum heimsálfurnar Evrópa og Asía. Það má því segja að hér skiljir að austur og vestur.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

Flekarnir reka í gagnstæða átt, um 2 sentimetra á ári eða 2 metra á 100 árum. Þar sem flekarnir reka í sundur verða til rekbelti. Þessum átakasvæðum fylgja jarðskjálftar, myndun sigdala og fellingafjalla, eldgos og misgengi.

Flekaskil eru flest á botni úthafanna og mynda úthafshryggi, fjallgarða sem eru 2.000-4.000 metra háir og alls um 70.000 kílómetrar á lengd. Einn þessara hryggja, Mið-Atlantshafshryggurinn, rís úr sæ á Reykjanesi. Aðeins hér á Ísandi og í Austur-Afríku má sjá flekaskil á landi.“

Eldstöðvarkerfi

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Eldstöðvarkerfi; skilti.

„Gosbeltið á Reykjaneskaga er beint framhald Atlantshafshryggjarins sem gengur hér á land. Á skaganum eru fjögur eldstöðvakerfi og verða eldgos þar í eldgosahrinum á um 1.000 ára fresti. Hver hrina stendur í 200-350 ár.

Vestast eldstöðvakerfið nefnist Reykjaneskerfið. Það ær frá vestanverðu Reykjanesi að Grindavík í suðri og þaðan norðaustur yfir skagann með fram Vogum að Kúagerði. Kerfið er um 35 km langt á landi (40-45 kílómetrar með neðansjávarhluta) og 5-15 km breitt, breiðast í suðri. talið er að kerfið nái 5-10 km til suðvesturs á sjávarbotni.

Reykjanesviti

Reykjanessveimar.

Reykjaneseldar voru síðasta gos í kerfinu og stóðu þeir yfir frá 1210 til 1240. Síðustu gos þar á undan urðu fyrir 1.500-1.800 árum.

Á milli 40 og 50 goseiningar finnast í kerfinu úr nokkrum rek- og goshrinum, auk 14 dyngja og dyngjuhvirfla. Merktar gönguleiðir liggja að Háleyjabungu og Skálafelli. Við fyrrnefndu dyngjuna má m.a. finna píkrit, fágætt frumstætt basaltafbrigði sem líkist þeirri frumbráð sem verður til í möttli jarðar.

Myrkur um miðjan dag
Veturinn 1226-1227 er nefndur í Sturlungu og sumum annálum „sandvetur“ og mikill „fellivetur“. Þá gaus í sjó úti fyrir Reykjanesi og var öskufall svo mikið að sums staðar er sagt hafa verið myrkur um miðjan dag. Fjöldi búfjár á Íslandi féll, ma. á sagnaritarinn Snorri Sturluson að hafa misst hundrað naut sem hann átti í Svignaskarði í Borgarfirði. Í þessu gosi myndaðist Karlinn, 51 metra hár sjódrangur úti fyrir Reykjanesi.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

„Reykjanesviti er einn elsti viti landsins sem nú stendur við Íslandsstrendur. Vitill var reistur árið 1907 og tekinn í notkun 20. mars 1908. Vitinn var fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum 1. desember 1904.

Vitinn er sívalur turn, 9 metrar í þvermál neðst en 5 metrar efst. Hæð hans er 20 metrar og stendur hann á breiðri 2.2 metra hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4.5 metrar á hæð og er heildarhæð vitans 26.7 metrar. veggirnir eru tvískiptir. Ytra byrði er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði út steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3.2 metrar en efst er veggþykktin 1.2 metrar.

Reykjanes

Reykjanesviti á Reykjanesi. Bæjarfell t.v., Vatnsfell t.h. og Valahnúkar framundan. Eldey við sjóndeildarhringinn.

Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 millimetra snúningslinsu. þetta var snúningstæki, knúið ag lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.

Vitavörður var búsettur á Reykjanesi frá upphafi vitareksturs árið 1878 fram til ársins 1999. Íbúðarhúsið sem nú stendur við vitann var byggt árið 1947. Vitaverðirnir stunduðu búskap samhliða stari sínu og má víða sjá ummerki um búsetu þeirra m.a. tóftir eldri húsa og hlaðna garða.

Clam

Clam á strandsstað.

Hannes Sigfússon skál var aðstoðarmaður vitavarðar á Reykjanesvita um skeið og skrifaði þar skáldsöguna „Strandið“ sem byggir á mannskæðu strandi olíuflutningaskipsins Clam árið 1950 austan við Valahnúk. Hannes kom þá að björgun skipverja ásamt vitaverðinum Sigurjón Ólafsson.“

Fyrsti ljósavitinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Fyrsti ljósvitinn; skilti.

„Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 6.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. Ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með kopar-hvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaði á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúk.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar o speglar í vitanum féllu í gólfið. Næstu nótt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn. Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum að brúninni. Þá var ákveðið að reisa nýjan vita á Bæjarfelli [á að vera Vatnsfelli] og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908. Grjótið neðan Valahnúks eru leifar gamla vitans.“

Vélarhúsið

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Vélarhúsið; skilti.

„Vélarhúsið, (Radíóvitinn) er elsta húsið á svæðinu fyrir utan vitann sjálfan. Húsið var byggt árið 1936 sem radíóviti en hefur gegnt ýmsum hlutverkum einnig, m.a. fyrir ljósavélar og rafhlöður til að tryggja rafmagn fyrir vitann. Þar er enn þá virk ljósavél ef rafmagn fer af svæðinu. Í húsinu var einnig aðstaða fyrir veðurathuganir sem vitaverðir sáu um fyrir Veðurstofuna.

Skipsströnd og mannskæð sjóslys voru forðum óhugnanlega tíð hér við strendur Reykjaness og Íslands í heild. Þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa farist á sjó í gegnum aldirnar og sjómenn eiga skilið að þeirra fórna sé minnst. Þessi saga er bæði hrikaleg og erfið að meðtaka. Hér í Vélarhúsinu hefur verið sett upp sýning sem veitir innsýn í sögu sjóslysa og uppbyggingar á vitanum til að auka öryggi sjófarenda.“

-ÓSÁ tók saman.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti við upplýsingamiðstöðina.

Reykjanes

Í Alþýðublaðinu árið 1926 er fjallað um vegi og vegagerð á Reykjanesi:
„Umhverfis Reykjanessvita eru, eins og mörgum er kunnugt, mestmegnis hraun og sandar. Reykjanesvegir-221Götutroðningarnir þangað úr Grindavík og Höfnum hafa og lengi lélegir verið. Nú hefir Ólafi Sveinssyni vitaverði tekist að fá 500 kr. af fjallvegafé til að ryðja veg til Grindavíkur, og hafa orðið ótrúlega mikil not af þeim krónum í höndum hans. Hann hefir í sumar gert akfæran veg eftir sandinum austur á móts við vík þá, er Mölvík heitir. Var þar áður talin hálfnuð leið að Stað í Grindavík, en ruddi kaflinn er nú allmiklu styttri, því að hann er ólíku beinni en gamla gatan og liggur miklu lengra frá sjó. Því er honum og óhætt fyrir sjávarágangi, þar sem sjór flæðir í hafróti á köflum yfir gömlu götuna. Þó hefir ólafur enn eigi notað nema 300 kr., en býst við að koma brautinni nokkuð austur í Grindavíkurhraunið fyrir þær 200 kr., sem eftir eru, — austur fyrir svo nefnda Hróabása. Er ólíkt að ferðast ríðandi eftir rudda kaflanum eða hinum, sem óruddur er, ellegar gömlu götunni- vestur frá Mölvík, svo sem þeir, er ferðast þar um, geta komist að raun um.
Reykjanesvegir-222Þeir, sem fara út á Reykjanes nú næstu daga Grindavíkurleiðina, ættu að skygnast eftir brautinni þegar aðalhrauninu lýkur. Hún er lengra upp til heiðarinnar en gamla gatan, en blasir við í nokkrum fjarska. Er hestum fært þangað upp eftir frá Mölvíkinni, ef gætni er við höfð, þó að ógreitt sé, eins og víða á þeim slóðum, og ekki verra en sums staðar eftir gömlu götunni. Ólafur býst við, að geta gert veg að Stað í Grindavík, svo að fær sé bifreiðum, fyrir 2 þúsund krónur, þ. e. 1500 kr. í viðbót við þá fjárveitingu, sem þegar er fengin. Væri það mikið hagræði ferðamönnum, sem fara til Reykjaness, og þeir eru talsvert margir, að komast alla leiðina í bifreið í stað þess að verða að ganga langa leið eða fá hesta og ferðast á þeim eftir ógreiðum hrauntroðningi.

Reykjanesvegur

Vagnvegurinn millum Reykjaness og Grindavíkur forðum.

Sá hlutinn, sem nær er Grindavík, er næstum óslitið hraun, og því er seinlegra og erfiðara að ryðja þar braut en eftir sandinum, þó að miklu grjóti hafi orðið að ryðja þar burtu; en Ólafur Sveinsson hefir sýnt, að honum er trúandi bæði fyrir verkinu og peningunum. Alt of seinlegt er að draga vegarbótina í fjögur ár, með einna 500 kr. fjárveitingu á ári. Þær 1500 kr., sem eftir eru, þurfa að fást að vori, svo að brautin verði fær alla leiðina haustið 1927. Það eitt er hagkvæmt í þessu máli. —

Reykjanes

Reykjanesvegur áleiðis að Kerlingabás.

Enn fremur hefir Ólafur Sveinsson gert akfæra braut frá vitavarðarhúsinu út að svo nefndum Kerlingarbási, sem er nálægt sjávarklettinum Karli —, og niður í básinn, og lagað þar svo til við sjóinn, að þar má lenda báti. Hygst hann að nota básinn fyrir vör. Annar lendingarstaður, sem áður hefir verið lagður vegur að, — á Kistu —, er miklu lengra burtu, og einnig hagar svo til, að Ól. Sv. býst við, að oft megi lenda á öðrum þeim stað, þótt ófært sé á hinum.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 20. ágúst 1926, bls. 2.

Reykjanesvegir

Gamli-Reykjanesvegurinn til Grindavík; loftmynd 1954.

Brá

Ein algengasta spurningin um efni Reykjanesskagans mun vera „Er Reykjanes það sama og Suðurnes?“ Stutta svarið er „Nei“.
Lengra svarið er: „Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes: „Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi. Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes: Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.“

Reykjanes

Reykjanes – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: „Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.“ Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Þeir segja einnig að talið sé að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Á fyrri hluta 20. aldar taldist nafnið Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga. Síðan hefur þessi notkun fest sig í sessi.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var „hællinn“ á skaganum en það síðarnefnda „táin“, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.“
Skv. framangreindu teljast Grindvíkingar ekki til Suðurnesjamanna því Suðurnes virðast vera svæðið norðan og vestan bæjarmarkanna. Á Suðurnesjum hafa jafnan búið „kátir menn og frískir“, en í Grindavík „sjósæknir og fríðir“. Hvorutveggja á reyndar við enn í dag.
Hvað sem öllu þessu líður búa svæðin í heild yfir ótrúlegri fjölbreytni til handa fólki, sem vill og getur borið sig eftir henni. Grindavík hefur t.d. aldrei tilheyrt Suðurnesjum, en þó verið hluti að Innesjum.
Framangreint hefur ruglað margan „málsmetandi“ ráðamannininn í ríminu í gegnum tíðina.

Heimildir:
-Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
-Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

FERLIR

Í Morgunblaðinu árið 2001 er skemmtileg umfjöllun; „Að lesa landið – Ferðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík í 100. ferð sinni um Reykjanes„;

„Rannsóknarlögreglumenn sem beygja út af Reykjanesbraut og þramma skimandi um hraun og hlíðar, eru án efa að leita verksummerkja um glæpsamlegt athæfi. Eða hvað? Sigurbjörg Þrastardóttir og Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari, slógust í för með löggum sem leita fremur að félagsskap, náttúrufegurð og anda liðinna alda.

Selvogsheiði
Lögreglumennirnir snarast út úr bifreiðum sínum við kirkjugarðinn í Hafnarfirði, vasklegir í fasi og vel skóaðir. Við garðinn er upphafspunktur 100. Reykjanesgöngunnar í röðinni síðan Ferðahópur rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík (FERLIR) tók til starfa í fyrrasumar. Á bílastæðinu standa tveir af helstu göngugörpunum, Ómar Smári Ármannsson og Jóhann Davíðsson, en sá fyrrnefndi er ókrýndur forsprakki framtaksins.
Selvogsheiði„Þar sem fyrir höndum er lengsta gangan hingað til, voru menn skyndilega mjög uppteknir í kvöld,“ segja þeir félagar sposkir og vísa til þess að tiltölulega fáir eru mættir. Að meðaltali taka 5–15 manns í göngunni – rannsóknarlögreglumenn og gestir þeirra; börn, makar, vinir eða vinnufélagar af öðrum deildum. Nú standa átta manns ferðbúnir, sumir vanari en aðrir.
„Nýliðar fá oftast svona nýliðaprik til að styðja sig við,“ segja forsprakkarnir og lyfta gömlum kústsköftum. Sjálfir eru þeir með fallega útskorna stafi um hönd. „Ef einhver dregst aftur úr eða týnist, snúum við aldrei við til að leita þeirra. En ef nýliði týnist, verðum við að snúa við til að finna prikið. Þetta eru ómetanleg prik.“
Með þessum orðum er tónninn sleginn fyrir taktinn í ferðinni – allt er fyndið eða hóflega nákvæmt og ekki að ástæðulausu. „Þessar ferðir eru ekki síst ætlaðar til þess að dreifa huga manna frá vinnunni, sem oft er íþyngjandi. Hér reynum við að gleyma áhyggjum hversdagsins og því er eiginlega bannað að segja nokkuð af viti – það er nánast glæpur,“ segir Ómar Smári og glottir.

Landið fær nýja merkingu

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

Ekið er af stað á nokkrum bílum og á leiðinni segir Ómar Smári frá hugsjóninni að baki ferðahópnum, þar sem mæting er algjörlega frjáls og engar afsakanir nauðsynlegar. „Ef einhver hefur önnur plön, þá hefur hann önnur plön. Þetta er fyrir þá sem eru upplagðir, þá sem vilja, þá sem hafa tíma og þá sem nenna. Og það þarf ekki alltaf að vera sama fólkið. Fyrst og fremst eru þessar gönguferðir hugsaðar til skemmtunar og sem hreyfing. En um leið hjálpa þær okkur að kynnast landinu betur og gera okkur grein fyrir því hvernig kynslóðirnar á undan okkur lifðu af landsins gæðum.“
Leitin að minjum um búskap og mannvistir er einmitt það sem setur svip á ferðir FERLIR, og sker þær frá hefðbundnum gönguferðum um hóla og holt.

FEELIR

Jóhann Davíðsson – við öllu búinn í fyrstu FERLIRsferðinni.

Fyrir hverja ferð er sett upp áætlun, rissað er upp kort af fyrirhugaðri leið og merktar inn minjar sem sögur herma að séu á svæðinu. „Það geta verið hleðslur, réttir, fjárhellar, stekkir eða dysjar. Að ógleymdum þjóðleiðum sem sýna glöggt hvernig skór, hófar og klaufar hafa meitlað í berg eða troðið mýrar í gegnum aldirnar.

Við leitum gamalla heimilda, skoðum landabréf og bækur og höfum einnig talsvert rætt við gamalt fólk sem er alið upp á svæðinu. Í gönguferðunum svipumst við svo um eftir þessum minjum,“ segir Ómar og tekur fram að FERLIR kunni Reyni Sveinssyni, Helga Gamalíelssyni frá Stað við Grindavík, Fræðasetrinu í Sandgerði, Sigurði á Hrauni, Þórarni Snorrasyni í Vogsósum og Kristófer, kirkjuverði í Strandarkirkju, sem og ótal öðrum þakkir fyrir ómetanlega leiðsögn. Bætir svo við að á svæðinu milli Hafnarfjarðar og Voga séu um 40 sel með öllu sem þeim fylgir – brunnum, kvíum, fjárskjólum, hellum, nátthögum og smalabyrgjum – og að minnsta kosti 20 fjárborgir, en aðeins tvær þeirra séu almenningi vel kunnar. Það sé því miklu meira um áhugaverða staði á svæðinu en margan grunar.
Hellholt„Þegar ekið er út á Keflavíkurflugvöll, eins og flestir hafa gert, er óneitanlega skemmtilegra að hafa gengið um svæðin í kringum Reykjanesbrautina – landið fær allt aðra merkingu. Sjálf höfum við mjög gaman að því að svipast um eftir minjum og kennileitum, og punktum hjá okkur hvað finnst. Hins vegar finnst lítið með því einu að skima úr bílnum. Fólk verður að hreyfa sig til þess að finna eitthvað af viti.“ Hann bendir á að minjaleitin sé einmitt kjörið tilefni fyrir fólk að drífa sig í heilbrigða útivist. „Margir segjast vilja hreyfa sig en vantar til þess ástæðu. Hér er hún komin, minjaleitin getur verið slíkt markmið.“

Sérstaklega samið um gott gönguveður
Á ferðum sínum hafa félagarnir í FERLIR orðis ýmiss vísari og sumar uppgötvanir verið næsta sögulegar. Þeir hafa fundið hella sem jafnvel Hellarannsóknafélagið hafði ekki hugmynd um að væru til, og þeir hafa komist að því að örnefni á gömlum landabréfum eru ekki öll nákvæmlega staðsett. „Þarna eru til dæmis Hnúkar,“ segir Ómar og bendir í austurátt, „en þeir eru á kortum ranglega nefndir Kvennagönguhólar. Kvennagönguhólar eru að vísu til, en eru neðar.“ Hann bendir í gegnum framrúðuna þar sem rúðuþurrkurnar tifa. Veðrið lítur ekki vel út, en Ómar er pollrólegur. „Við semjum með fyrirvara um gott veður og það stenst undantekningarlaust. Höfum aldrei þurft að hætta við ferð vegna veðurs.
Gönguferðirnar áttu í fyrra til dæmis aðeins að vera til hausts, en sökum þess hve veturinn reyndist mildur hefur göngum verið haldið áfram óslitið þar til nú.“ Hann bendir líka á að sjaldnast sé að marka veðurútlitið úr glugga í heimahúsi. Það sem gildi sé veðrið á því svæði sem förinni er heitið um, og það geti verið alls óskylt borgarveðrinu. „Sjáðu til dæmis rofið í skýjabakkanum þarna niðurfrá. Þangað erum við einmitt að fara.“ Ekki þarf að orðlengja um að veður lék við göngumenn alla sex tímana sem gengið var. Samningurinn við veðurguðina hélt, sem fyrr.

Skyggnishúfur með jarðskjálftavörn

FERLIR

FERLIR – einkennismynd.

Við dysjar tröllskessanna Herdísar og Krýsu við Herdísarvíkurveg, er bílalestin stöðvuð og Ómar Smári rekur þjóðsöguna af þeim stallsystrum, sem deildu um landamerki og enduðu með því að berast á banaspjót. „Það er eitt að heyra þessa sögu, en annað að hlýða á hana við dysjarnar sjálfar. Þá sér maður að þetta er að sjálfsögðu allt satt,“ segir Ómar og hinir kinka kolli til samþykkis. Þeir benda á að með FERLIR-húfurnar á höfði öðlist þeir nefnilega einstakan hæfileika til skilnings og samþykkis á þjóðsögum og öðru slíku – þetta séu engar venjulegar húfur. „Eftir fimm ferðir fær fólk FERLIR-húfu að launum fyrir afrekið. Þessar húfur eru framleiddar í austurvegi og búa ekki bara yfir eldfjalla- og jarðskjálftavörn, heldur áhættuvörn líka. Einu sinni misstum við mann ofan í gjá og það varð honum til happs að vera með húfuna. Hann hékk á derinu.“ Ýmsum fleiri tröllasögum um húfurnar er kastað á milli og menn greinilega vanir að gera að gamni sínu í góðum hópi. Jóhann bætir við nokkrum sögum af sprungum og gjám af svæðinu og klykkir út: „Strandagjá er sú dýpsta af þeim ölllum. Einu sinni var ég staddur á brúninni, henti niður steini og hlustaði. Tveim dögum síðar heyrði ég skvampið. Þetta er alveg rosalega djúp gjá.“

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

Þegar gangan loks hefst er fimmtíu kílómetra akstur að baki og búið að koma tveimur bílum fyrir við áætlaðan lokapunkt ferðarinnar. Þangað eru 19 kílómetrar frá upphafspunkti við Geitafell og því ekki seinna vænna en haska sér af stað. „Við munum skoða nokkra fjárhella, líta eftir gömlum réttum og skoða gamlan stein með krossmarki sem sögur herma að liggi á litlu holti.
Svo leitum við að Ólafarseli, Þorkelsgerðisseli, Eimubóli og skoðum Strandarhelli…“ byrjar Ómar Smári en orð hans hætta smám saman að berast til öftustu manna. Hann er nefnilega rokinn af stað á talsverðu blússi, eins og áköfum göngustjóra sæmir.

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

Krækt er fyrir Geitafellið og innan skamms er fyrsti stekkur fundinn. Göngumenn þefa hann uppi, en eru raunar í fyrstu ekki vissir hvort hann muni liggja í hlíð upp af Seljavöllum eða við holt að neðanverðu. Þeir stansa og litast um. Beita svo lögregluþjálfuninni með því að setja sig í spor „glæpamannsins“ – hugsa eins og sá sem kom stekknum fyrir. „Já, reynsla úr starfinu getur gagnast, nema hvað að hér erum við ekki að fást við glæpamenn. Bændurnir hér voru heiðursmenn og því er ekki síður auðvelt að setja sig í þeirra spor.“

Lækjarbotnar

Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.

Spurt er hvort þeir hafi aldrei á ferðum sínum rekist á sönnunargögn um alvöru sakamál, en þeir segja svo ekki vera. „Það er helst að við höfum rannsakað aðsetur útilegumanna, sem voru jú sakamenn. En það eru ekki margir óupplýstir, nýlegir glæpir sem hér liggja í loftinu. Það eru þá frekar fyrnd mál eða þjóðsagnakenndir atburðir,“ svara þeir. Segjast hins vegar hafa komist að ýmsu misjöfnu um búskaparhætti, sönnu en varla sakhæfu. Til að mynda hafi eldhús í seljum verið afspyrnu lítil sem bendir til lítils skilnings á starfi kvenna. „Kannski er það satt sem einn kunningi okkar segir, að konan hafi hér á öldum fyrrum verið meðhöndluð sem eitt af húsdýrunum. En það hefur nú sem betur fer mikið lagast,“ segir einn kæruleysislega og gjóir augum stríðnislega til kvenna í hópnum. Þær láta sem vind um eyru þjóta og hugsa upp skeyti á móti.

Fagridalur

Í Fagradal.

Svo færist alvara í talið og rifjaðar eru upp aðstæður barna sem látin voru vaka yfir ánum um nætur, oft í kulda, vætu og einsemd. Hræðsla og vinnuálag hljóti að hafa hindrað leikgleði og áhyggjuleysi ungviðisins; sálarástandið sé án efa fegrað mjög í hinum glaðlega söng um Tuma sem fór á fætur við fyrsta hanagal – til þess að „sitja yfir ánum lengst inni í Fagradal“.
Minna rannsakað en frumskógar Afríku Áfram er haldið og gengið fram á einar þrjár réttir, auk stekkja og fjárhella sem finnast.
Göngumenn benda líka á andlit og aðrar kynjamyndir í hömrunum í kring og eftir ýmsu öðru er tekið á himni og jörðu, skýjabökkum, fjöllum, vörðum og jafnvel sniglum. „Þessi lagði af stað frá Strandarkirkju árið 1967 og er ekki kominn lengra,“ kallar Birgir Bjarnason eftir að hafa þóst eiga orð við sveran, svartan snigil á þúfu.
„Það væri ljótt ef við snerum honum við og hann endaði aftur á upphafspunkti. Sá yrði fúll.“

Svörtubjörg

Við Stígshella í Svörtubjörgum.

Þegar komið er framhjá Svörtubjörgum opnast útsýni til hafs og enn er bjart sem á degi. Ómar Smári heldur áfram að romsa úr sér örnefnum og sögum sem tengjast stöðum í kring, Jón Svanþórsson kann líka ýmsar sagnir og Jóhann, sem er úr Þorlákshöfn, rifjar upp kynni sín af körlum úr sveitinni.
Og rannsóknarlögreglumennirnir virðast síður en svo þreyttir á Reykjanesinu, þótt hundrað ferðir séu að baki.
„Staðreyndin er sú að þetta land hér er minna rannsakað en frumskógar Afríku, eins og við segjum stundum. Fólk hefur á síðari tímum ekki átt hingað mörg erindi, og á fyrri tíð var skóbúnaður fólks þannig að það gat bókstaflega ekki gengið alls staðar um úfið hraunið. Gamlar þjóðleiðir liggja yfirleitt með hraunköntum en á milli eru ókönnuð svæði.
En fyrir utan að vera áhugavert svæði, er Reykjanesið líka svo þægilega innan seilingar, höfuðborgarbúar gætu gert mikið meira af því að koma hingað. Ef veður bregst er stutt að snara sér heim aftur, en annars er lítið mál að sjá veðrið fyrir með jafnvel tveggja daga fyrirvara – ef menn leggja sig eftir því að læra að lesa í veður. Fólk leitar oft langt yfir skammt. Ef maður spyrst fyrir á vinnustað, kemur kannski í ljós að allir hafa komið til Krítar en enginn hefur gengið á Kálffell, þótt þar séu líka bæði gjár og hellar.“

Sleikibrjóstsykur sem vex villtur

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Meðal þjóðsagnanna sem raktar eru, snýst ein um svonefndan Yngingarhelli, sem fullyrt er innan hópsins að svínvirki. „En það þarf að passa sig. Kannski kemur maður út úr honum og hefur þá skyndilega ekki aldur til þess að keyra bíl,“ bendir einhver á og allir skella upp úr. Ekki líður á löngu þar til fjárhellir verður á vegi hópsins og farið er inn með vasaljós. Út koma svo Ómar Smári og Jóhann með glænýjar húfur, en þeir höfðu lagt upp í ferðina með velktar húfur og upplitaðar. Það er ekki um að villast að þarna er Yngingarhellir kominn, þótt áhrifanna gæti ekki að ráði nema á fatnaði, að þessu sinni. Í ljós kemur að þetta er ekki í fyrsta sinn sem yfirnáttúrulegir hlutir eiga sér stað í ferðum FERLIR-hópsins.

Selatangar

ÁSelatöngum.

„Já, já, draugurinn Tanga-Tómas hefur birst mönnum fyrirvaralaust, gull hefur fundist í hrauni og litríkir sleikibrjóstsykrar hafa jafnvel sprottið á mosaskika. Í síðastnefnda skiptið var lítil stúlka með í göngunni og varð að vonum himinlifandi yfir fundinum – jafnvel þótt henni hafi fundist undarlegt að nýsprottnir pinnar væru allir í bréfinu,“ segja félagarnir kankvíslega.
Þannig verður ýmislegt skrýtið að veruleika í ferðunum og aldrei að vita hvað bíður á næsta holti eða leiti. Og ekki þarf að hinkra lengi eftir annarri óvæntri uppákomu í þessari ferð. Í Selvogsréttinni koma öftustu göngumenn að hinum við neyslu þjóðlegra rétta af hlaðborði á réttarvegg. Hákarli, reyktum rauðmaga, harðfisk og brennivíni hefur verið stillt upp í tilefni 100. göngu FERLIR, en sumir halda því reyndar fram að Selvogsbændur sem síðast réttuðu hafi skilið góssið eftir. „Já, þeir eru hugsunarsamir, bændur hér í sveitinni,“ verður einhverjum að orði.
Orkan úr kræsingunum dugar vel í næsta áfanga göngunnar og göngumenn valhoppa lipurlega milli þúfna, eins og þeir hafi aldrei þekkt sléttar gangstéttir.
Komið er talsvert fram yfir miðnætti og einhver nýliðinn spyr óvarlega hversu langt sé eftir enn. Loðin svör berast frá forsprökkum og talið berst fljótlega aftur að tröllum og útilegumönnum. Spurningin gleymist og enginn saknar svarsins.
Á ferðum FERLIR falla venjulegar klukkur nefnilega úr gildi, við tekur svokallaður FERLIR-tími sem lýtur allt öðrum lögmálum. Þá skipta mínútur og kílómetrar engu máli, það er náttúruupplifunin í hverju skrefi sem gildir.“

Heimild:
-Morgunblaðið 20.07.2001, Að lesa landið, bls. 4B-5B.

Sólsetur

Sólsetur í FERLIRsferð við Tvíbolla.

Jón Jónsson

Vélritað og síðan ljósritað rit Jóns Jónssonar frá árinu 1978, útgefið af Orskustofnun, „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga„, er tvískipt. Annars vegar eru skýringar við jarðfræðikort, 303 bls., og hins vegar sjálf jarðfræðikortin.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

Hér verður gerður úrdráttur og samantekt skýringanna. Í formála segir: „Í skýrslu þessari er dreginn saman árangur af rannsóknum sem spanna yfir 18 ára skeið. Frá því dragast að vísu tvö ár þegar höfundur dvaldist í El Salvador og Nicaragua. Eins og vikið er að í skýrslunni var lengi um alger íhlaupaverk að ræða.

Kortlagningin er að mínu mati þýðingarmesti hluti þess verks og hef ég við hana notið aðstoðar einkum tveggja manna, sem hafa hreinteiknað kortin. Eru það þeir Sigmundur Einarsson og Jón Eiríksson.

Á sá fyrrnefndi þar langdrýgstan þátt og hefur auk þess aðstoðað við endurskoðun margra athugana í landslaginu, gert jarðlagasnið og teiknað sérkortin öll og fl. o.fl.

Engum getur það verið ljósara en mér að ýmislegt vantar í þessa skýrslu, sem æskilegt hefði verið að taka þar með en ég lít hana fyrst og fremst sem grundvöll fyrir nákvæmari rannsóknir í framtíðinni og sem slík ætti hún, og umfram allt kortið, að hafa sitt gildi. – Reykjavík í maí 1978, Jón Jónsson.“

Reykjanesskagi – nafnið

Jón Jónsson

Jón Jónsson – kortayfirlit af Reykjanesskaga.

„Það svæði, sem hér er nefnt Reykjanesskagi, er í stórum dráttum vestan við línu, sem hugast dregin því sem næst úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar. Nokkuð hefur verið á reiki um nafn þessa svæðis, en nafnið kemur fyrst fyrir, það ég veit, í Svarfaðardalsannál frá 1695. Oft er skaginn í heild nefndur Reykjanes og svo telur Sveinn Pálsson (1945, bls. 659) að hann heiti réttu nafni.

Hins vegar telja aðrir, að það nafn gildi aðeins fyrir vestasta tanga nessins og þá nánast um svæðið milli Stóru-Sandvíkur að norðvestan og Sandvíkur austan við Háleyjabungu sunnan á nesinu.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Reykjanes.

Allra vestasti tanginn er þá til áréttingar nefndur Reykjanestá. Þannig er þetta á korti herforingjaráðsins í mælikvarða 1: 50000 frá árin 1908, og flestum ygri kortum. Þorvaldur Thoroddsen (1958) notaði nafnið Reykjanesskagi um svipað svæði og hér er gert, en tiltekur ekki austurmörk svæðisins. nafnið Reykjanes kemur hins vegar snemma fyrir og þá oft í mjög afskræmdri mynd eins og t.d. á korti L. Benedicts frá 1568, þar sem það er nefnt Robenes (Thoroddsen 1902).

Um upprunna nafnsins er óþarft að fjölyrða. Það er án efa dregið af hverasvæðinu vestast á nesinu og er ekki ólíklegt að sjómenn hafi verið fyrstir til að nota það. Þingavallaskaga er getið í fornri heimild og gæti með því verið átt við Reykjanesskaga, en ekki er það ljóst.

Ekki er mér kunnugt um, að nema tveir höfundar hafi notað nafnið Suðurkjálkinn um þetta svæði, en það er Bjarni Sæmundsson (1936) og Guðmundur Kjartansson (1943). Bjarni telur það nafn oftast notað „manna á milli þar syðra“ og mun þá átt við Grindavík og Hafnir.

Kortlagning

Íslandskort

Íslandskort Guðbrandar Þorlákssonar 1590. Um eða eftir 1580 komst Ortelíus í samband við danskan mann, Anders Sörensen Vedel, sem fengizt hafði við kortagerð og sitthvað fleira. Vedel hafði fengið frá Guðbrandi biskupi Þorlákssyni kort af íslandi, og gerði nú eftirmynd af því fyrir Ortelíus. Ekki er kunnugt um nánari atvik þessara skipta, — nema hvað ýmislegt bendir til, að Otelíus hafði ekki fengið frumteikningu biskups og lík-lega ekki vitað, hvaðan Vedel fékk upplýsingar og fyrirmynd sína. Hefði hinn hollenzki meist ari án efa getið biskups, ef hann hefði þekkt alla málavöxtu. í þess stað fékk Vedel heiður af kortinu og var það tileinkað Friðriki konungi II.

Reykjanesskagi í heild komst að því er virðist fyrst á kort, sem gefið er út af A. Ortelíus í hans Additamentum IV Teatri orbis Terrarum 1590 (Nörlund 1944) og er þar mjög afbakaður. Á því virðist hins vegar ekki leika vafi, að kort það sé í raun réttri frá hendi Guðbrands Þorlákssonar biskups á Hólum (1542-1627), en ekki sýnist ljóst hvenær það var gert. Á yngri kortum fær svo Reykjanesskagi að vera með, meira eða minna afbakaður allt þar til Björn Gunnlaugsson mælir Skagann á tímabilinu 30. júní til 30. ágúst 1831. Mælingar hans voru grundvallaðar á strandmælingum þeim, er gerðar voru á árunum 1801-1819. Með mælingum Björns fæst fyrst að mestu rétt mynd af Reykjanesskaga í heild. Fyrta vísi að sérkorti yfir umrætt svæði verður líklega ða telja kort Magnúsar Arasonar frá 1721-22, (Nörlund 1944), en erfitt er að þekkja skagann á því korti. Á kortlagningu skagans verða svo ekki umbætur fyrr en Björn Gunnlaugsson kemur til skjalanna eins og áður er getið.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – Reykjanesskagi 1932.

Björn mun hafa gengið á flest fjöll á Reykjanesskaga, og er hann vafalaust fyrsti maður, sem fær gott yfirlit yfir landafræði skagans. Því miður virðist Björn ekki hafa skrifað neina dagbók aðra en mælingadagbók á ferðum sínu og er því ekki vitað hverjar aðrar athuganir en mælingarnar hann kann að hafa gert.

Aðrar rannsóknir á Reykjanesskaga

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Íslandskort 1906.

Telja verður rannsóknir þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar á árunum 1752-1757 fyrstu skipulögðu rannsóknir á náttúru Íslands í heild og ferðabók þeirra (1766, 1943) fyrsta nokkurn veginn alhliða heildaryfirlit yfir land og þjóð. Hvað jarðfræðinni víkur við eru athuganir og upplýsingar þeirra félaga þó harla sundurleitar sem von er til þar eð jarðfræðin var á þeim tíma á stigi frumbernsku. Hvað varðar Reykjanesskaga eru athuganir þeirra af skornum skammti og varða, það sem að jarðfræði lýtur, einkum eldgos, sem orðið hafa, eða sem talið er að hafi orðið frá landnámstíð og fram til þeirra daga. Er þar vitnað til skráðra heimilda í sögum eða annálum og til sagna, sem lifðu meðal fólks.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Lambafell; Kristnitökuhraun.

Sem fyrsta gos á sögulegum tíma nefna þeir gosið, sem getið er um í Kristnisögu (1946) að orðið hafi árið 1000 og talið að hafi verið á því svæði, sem nú gengur undir nafninu Hellisheiði og hefur lengi verið haft fyrir satt að svo væri. Síðar verður sýnt fram á að hér er málum blandað. Einnig geta þei um gos í Trölladyngjum, sem talið er að orðið hafi 1340 og er í annálum sagt að hraun frá því gosi hafi runnið ofan í Selvog. Thoroddsen (1958, 1925) hefur bent á þetta fái ekki staðist eins og raunar allir, sem kunnugir eru staðháttum hljóta að sjá. Af orðalagi Ferðabókarinnar er raunar ljóst að Trölladyngju-nafnið hefur ekki verið bundið við það fjall eitt, sem nú bera það nafn. Í Ferðabókinni segir svo: „Trölladyngjur – kaldes et af sammenstaaende Bjærge, norden til paa kaldes Undirhlíðar“. Ekki er auðgert að heimfæra þetta upp á það fjall, sem nú teitir Trölladyngja, enda bæta þeir við neðar á sömu blaðsíðu: „Det synes ogsaa, at man har udstrakt detta Navn til flere Bjærge her í Nærverelsen“. Með þessu móti verður frásögn annálsins skiljanleg. Verður nánar vikið að þessu síðar.

Trölladyngja

Trölladyngja, Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja á Reykjanesi er ekki eldfjall í venjulegum skilningi heldur móbergsfjall, en gosið hefur oftar en einu sinni við það eins og síðar verður sgat frá. Annað það, er varðar jarðfræði Reykjaneskaga, rúmast í frásögn þeirra félaga á tæpum 2 blaðsíðum. Sveinn Pálsson (1762-1840) virðist ekki hafa gert verulegar athuganir á þessu landsvæði og frá hans hendi er til aðeins stutt og ekki alls kostar fögur lýsing á Gullbringusýslu og greinarkorn um 4 bls., nefnt Reykjanesför 1796 í ferðabók hans.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Sá Íslendingur, sem næst kemur við sögu rannsókna á Reykjanesskaga, er Jónas Hallgrímsson (1807-1845). rannsóknir hans ná einkum til nágrennis Reykjavíkur og Krýsuvíkursvæðisins, en á síðarnefnda svæðinu dvaldi hann ásamt Japetus Streemstrup í átta daga vorið 1840 og munu rannsóknir þeirra þar aðallega verið í sambandi viðbrennisteinsnám og því beinst mjög að hverasvæðunum. Einnig skoðuðu þeir félagar Brennisteinsfjöll og Lönguhlíð, og það sama ár kemur nafnið Brennisteinsfjöll fyrst fyrir í skráðum heimildum.

Olavíus

Olavíus – Krýsvíkurnámur.

Þess má geta hér að um miðja 19. öld gerði Jón Hjaltalín (1807-1882) landlæknir ýmsar athuganir á Reykjanesskaga einkum hvað varða brennisteinsnámur og hveri og er frá því greint í ritgerð, er hann reit í Ný Félagsrit (XI 1851) og einnig eru ýmar upplýsingar að þessu lútandi að finna í bréfum frá honum til Jóns Sigurðssonar, og eru þau prentuð í sama riti (XII 1852).

Þorvaldur Thoroddsen (1858-1921) ferðaðist um Reykjanesskaga um þriggja mánaða skeið sumarið 1883 og hefur lýst jarðmyndunum þar nokkuð ítarlega í reitgerð í Geologiska foreningens förhandlinger (GFF í Stockholm 1884, Geografisk Tidskrift í Kaupmannahöfn 1903, í Lýsingu Íslands 1911, í „Island, Grundriss der Geografhie und Geologie“ 1905-1906 og í Ferðabík 1913-1915, og loks einnig í „Geschichte der Isländischen Vulkane“ 1926, sem kom út að honum látnum.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Íslandskort 1901.

Auk þess er jarðfræði Reykjanesskagans gerð skil á jarðfræðikorti hans yfir Ísland (1901) í mælikvarða 1:60000 og á öðru jarðfræðikorti, sem fylgir riti hans „Ísland, Grundriss der Geographie und Geologie“.

Guðmundur G. Bárðarson (1880-1933) tekur fyrstur manna til við nákvæma jarðfræðilega kortlagningu Reykjanesskaga í heild, en fékk því miður ekki lokið því verki. Sen undirlag notaði hann kort herforingjaráðsins frá 1908. Sonur Guðmundar, Dr. Finnur, hefur sýnt mér þá velvild að leyfa mér að athuga drög þau að jarðfræðikorti, sem til er frá hendi Guðmundar og geymt er í Náttúrufræðistofnun Íslands, og jafnframt lánað mér til yfirlestrar dagbækur þær, sem hann til eru um ferðir og rannsóknir hans á þessu svæði.

Guðmundur Kjartansson

Guðmundur Kjartansson (1909-1972).

Þorkell Þorkelsson (1867-1961) verður að teljast „Grand Old Man“ íslenskra jarðhitarannsókna, því hann er fyrstur manna hér á landi til að taka jarðhita fyrir sem sérstakt rannsóknarefni, og raunar er hann í fararbroddi hvað snertir þó leitað sé út fyrir Ísland.

Jarðfræðikort Guðmundar Kjartanssonar yfir Suðvesturland kom út 1960 og er það hið nákvæmasta jarðfræðikort yfir svæðið í heild, það sem ennþá er til.

Tómas Tryggvason (1917-1965) er fyrsti Íslendingurinn með sérmenntun í bergfræði. Það er því eðlilegt að hann yrði fyrstu til að rannsaka og rita um gabbró hnyðlinga, sem fundist höfðu við Grænavatn í Krýsuvík.

Erlendir vísindamenn og rannsóknir þeirra á Reykjanesskaga

Gaimard

Gaimard – Hafnarfjörður 1834.

Á fyrri hluta 19. aldar taka ýmsir erlendi vísindamenn að leggja leiðir sínar til Íslands með rannsóknir á náttúru landsins fyrir augum. Meðal þeirra er allmargir, sem einkum hafa helgað sig jarðfræðirannsóknum eða rannsóknum í tengslum við jarðfræði. Talsvert er ritað um Ísland á þessu tímabili og margt af því er á sinn hátt merkilegt, en mikið er aðeins landlýsingar skrifaðar í ferðasöguformi.

Árið 1835 komu hingað til lands tveir franskir vísindamenn, þeir Paul Gaimard og Eugene Robert. Það varð til þess að þeir komu hingað aftur næsta ár og þá sem þátttakendur í leiðangri miklum, sem var undir stjórn Paul Gaimard.

MacKensie

MacKenszie – kort 1810.

Þremur árum síðar sendi ríkisstjórn Danmerkur (og Íslands) hingað til lands tvo danska jarðfræðinga, þá Japetus Streenstrup og J.C. Schythe, og dvöldu þeir hér 1839-1840. Með Streenstrup starfaði um tíma Jónas Hallgrímsson eins og áður er sagt.

Árið 1945 komu hingað þýskir vísindamenn, Sartoríus von Walterhausen og R.W. Bunsen. G.S. Mackenzie (1810) ferðaðist hér um og safnaði talsverðu efni varðandi jarðfræði landsins. Hann reit bók um ferð sína og hefur hún náð verulegri útbreiðslu og orðið til þess að vekja áhuga manna erlendis fyrir landi og þjóð.

Theodor Kjerulf

Theodor Kjerulf (1825-1888).

Norski jarðfræðingurinn og skáldið Theodor Kjerulf (1853) dvaldi hér á landi 1850 og skrifaði a.m.k. þrjár greinar um jarðfræði landsins og eru þær fyrir ýmsa hluti merkilegar. Geta má þess að þjóðberjar tveir, W. Preyer og R. Zirkel, ferðuðust jér á landi 1860, en ekki verður séð að þeir hafi gert nema fáeinar jarðfræðilegar athuganir á Reykjanesskaga og aðallega skoðað brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Sama ár dvaldi hér á landi nokkurn tíma skoskur efnafræðingur, W.L. Lindsay, og gerði ýmsar efnafræðilegar rannsóknir á hveravatni og útfellingum við hveri, m.a. við Þvottalaugarnar í Reykjavík og við hverina í Krýsuvík.

C.W. Paijkull (1866), sænskur jarðfræðingur, ferðaðist hér á landi 1865 og gerði af því öllu jarðfræðikort, sem að sjálfsögðu er afar ófullkomið, en er að því er ég best veit hið fyrsta í sinni röð. J.K. Johnstrup prófessor í bergfræði við háskólann í Kaupmannahöfn var sendur af stjórninni til Íslands (1871) til að athuga hér brennisteinsnámur, sem bretar höfðu sýnt áhuga á.

C.W. Paijkull

C.W. Paijkull – jarðfræðikort 1865.

Hann skoðaði m.a. Krýsuvíkurnámur, en mér er ekki kunnugt um að nokkuð hafi hann ritað um athuganir sínar. Með honum var sá maður, er síðar varð mikilvirkastur allra fyrr og síðar hvað varðar rannsóknir í landafræði og jarðfræði Íslands, Þorvaldur Thoroddsen, sem þá var stúdent í Kaupmannahöfn.

Mauric von Komorowicz (1912) rannsakaði sérstaklega Rauðhóla við Elliðavatn 1997 og gerði af þeim nákvæmt kort. Rit hans, sem kom út 1912, er frábærlega vel myndskreytt og frágengið. Uppdrátt gerði hann af Búrfellsgjá og Búrfelli, sem hann að hætti Þorvaldar Thoroddsen nefnir Garðahraunsstíg. Hans Reck (1910) hefur ferðast talsvert um Reykjanesskaga og gert ýmsar athuganir þar. Hann hefur skoðað gígaraðirnar Stampa yst á Reykjanesi og lýst hluta gígaraðarinnar allvel. Karl Sapper (1866-1945) er einn af öndvegismönnum eldfjallafræðinnar fyrr og síðar, og ótrúlega mikilvirku á því sviði. Hér á landi ferðaðist hann 1906.

Rauðhólar

Komorowicz – Rauðhólar 1912.

Rannsóknir Sappers snérust aðallega um Eldgjá og Eldborgaraðirnar á Síðuafrétti. Þýskur jarðfræðingur, Konrad Keilhack (1925), gerði jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni 1924 og reit jarðfræðilega lýsingu á því svæði. Mun kort hans vera fyrsta nokkurn veginn nákvæma jarðfræðikortið, sem til er af einum landshluta hér á landi og miklu nákvæmara en eldri kort.

Sama ár og Keilhack var hér einnig enskur leiðangur við jarðfræðirannsóknir. Voru það þeir G.W. Tyrell og Martin A. Peacock. Gerði sá síðarnefndu nákvæmt jarðfræðikort af Viðey.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Brennisteinsfjöll.

Á árunum 1934 og 1937 rannsakaði norskur jarðfræðingur, Tom R.W. Barth, síðar prófessor í Osló og víðar, íslensk jarðhitasvæði og safnaði upplýsingum um þau af öllu landinu. Sumurin 1935 og 1936 dvaldi svissneskur jarðfræðingur, R.A. Sonder (1941), hér á landi við rannsóknir, einkum á jarðhita og brotalínusvæðum landsins.

Árið 1943 kom út í Bratislava ritgerð eftir M.F. Kuthan nefnd „Die Oszillation, der Vulkanismus und die Tektonik von Reykjavik“. Ritgerð þessi er 74 bls. með 22 myndum og stóru jarðfræðikorti.

Tveir frakkar koma hér og lítillega við sögu, þeir P. Bout (1953) og P. Biays (1956), en mest af því, sem í bókum þeirra er, hefur verið til annara sótt, einkum Guðmundar Kjartanssonar og Guðmundar G. Bárðarsonar. Í heild er lítið á ritum þessum að græða ern góðar myndir eru í báðum.

Rannsóknir höfundar

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Krýsuvík.

Snemma sumar 1960 var hafist handa um nákvæma jarðfræðilega kortlagningu í Krýsuvík og nágrenni. Frumkvæði að þessu átti Dr. Gunnar Böðvarsson þáverandi forstöðumaður jarðhitadeildar, en djúpboranir í Krýsuvík voru þá í undirbúningi. Korlagt var fysrt svæðið suður af Kleifarvatni og suðurhluti Sveifluháls. Starfið sóttist seint, m.a. vegan þess að ekkert farartæki var að staðaldri til um umráða, en notast var við þær ferðir, sem féllust. Kom fyrir að fara varð fótgangdi af vinnustað til hafnarfjarðar ap loknu dagsverki. Af séstökum ástæðum voru teknar fyrir rannsóknir á jarðhitasvæðinu vestast á reykjanesi og umhverfi þess sumarið 1963.
Árangurinn af þeim rannsóknum kom einkum fram í jarðfræðikorti, sem náði yfir vestasta hluta Reykjanesskaga og gefið var út af Vermi s/f. Það nær vestan frá sjó, austur að Stað í Grindavík og lúitið eitt norður fyrir Kalmanstjörn. Vitað er nú um allmargar skekkjur á þessu korti en talsvert hefur verið notað í sabandi við ýmsar jarðvísndalegar rannsóknir á svæðinu.
Mest var unnið að rannsóknunum sumurin 1968 og 1969. Smásvæði var þó eftir að kortleggja og hefur verið unnið að því að fylla í þau síðan fram á þennan dag (ársbyrjun 1977).

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Þráinsskjöldur.

Í framhaldinu lýsir Jón eldri jarðmyndunum, s.s. Rosmhvalanesi og Vogastapa, Stapafelli, Súlum og Þórðarfelli, Sandfelli, Sýrfelli, Bæjarfelli og Valahnúkum, Þorbjarnarfelli, Litla-Skógfelli, Húsfelli, Fiskidalsfjalli, Festarfjalli, Lyngfelli, Fagradalsfjalli, Skála-Mælifelli, Hraunsels-Vatnsfelli, Keili, Móhálsum, Trölladyngju, Traðarfjöllum, Latsfjalli, Mávahlíðum, Krýsuvíkur-Mælifelli, Sveifluhálsi, Undirhlíðum, Valahnúkum, Húsfelli, Vífilsfelli, Helgafelli, Borgarhólum, Krýsuvíkurheiði, Selöldu, Skriðu, Bæjarfelli, Arnarfelli, Litla- og Stóra-Lambafelli, Geitahlíð, Lönguhlíðum, Vörðufelli, Herdísarvíkurfjalli, Vesturásum, Sandfelli, Krossfjöllum, Meitlum, Bláfjöllum, Stóra-Kóngsfelli, Þríhnúkum, Grindaskarðahnúkum, Rauðuhnúkum, Selfjalli og Skálafelli.

Þá tekur Jón fyrir jökulberg og aðrar jökulminjar, nútímahraun og eldstöðvar (dyngjurnar Skálafell, Háleyjabungu, Sandfellshæð, Langhól, Berghól, Lágafell, Vatnsheiði, Fagradal (D-11), Þráinsskjöld, Hraunsels-Vatnsfell, Hrútagjá, Brennisteinsfjöll, Leiti, Heiðina há, Selvosgheiði, Strompa, Búrfell í Ölfusi, Dimmadal og Ása).

Jón Jónsson

Jón Jónsson – misgengi og sprungur.

Gossprungum og öðrum eldstöðvum eru gerð góð skil, s.s. Vatnsfelli á Reykjanesi, Yngri- og Eldri-Stömpum, Rauðhólum við Skálafellsdyngju, Sýrfellsgígum, Klofningum, Eldvörpum, Þórðarfelli, Sundhnúkum, Baðsvöllum, Arnarsetri, Kálffelli, Hrafnshlíð, Borgarfelli, Höfða, Eldborg undir Trölladyngju, Sogum, Sveifluhálsi, Núpshlíðarhálsi, Lækjarvöllum, Kóngsfelli, Mávahlíðum, Móhálsum, Melrakka, Rauðamel, Rauðhól, Sandfellsklofa, Hraunhól, Óbrennishólum, Kötlum, Gvendarselshæð, Búrfelli, Bæjarfelli í Krýsuvík, Kaldrana, Stóru- og Litlu-Eldborg undir Geitahlíð, Kálfadölum, Vörðufelli, Eldborg í Brennisteinsfjöllum, Breiðdal, Kistu, Kistufelli, Tvíbollum, Stóra-Bolla, Svartahrygg, Þríhnúkum, Stríp, Eldborg við Drottningu, Rauðahnúkum, Vífilsfelli, Eldborgum við Lambafell, Litlahrauni, Sandfelli og Eldborgum undir Meitlum.

Allur er framangreindur hin áhugaverðasti. Jarðfræðikortin af Reykjanesskaganum í hluta II eru ekki síður áhugaverð.

Sjá Jarðfræðikort I í heild HÉR.

Sjá Jarðfræðikor II í heild HÉR.

Heimild:
-Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, Jón Jónsson, Orkustofnun; jarðhitadeild, apríl 1978.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga; samsett – Jón Jónsson.

Reykjanesskaginn

Í Faxa árið 1998 fjalla nemendur FS á Suðurnesjum um „Áhugaverða staði í Reykjanesfólkvangi„. Frásögnin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að nemendurnir hafa að öllum líkindum lítið kynnt sér vettvangsaðstæður sem og hina fjölmörgu möguleika, sem Reykjanesskaginn hefur upp á bjóða innan fólkvangsins, en taka þarf viljan fyrir verkið því það er jú niðurstaðan hverju sinni er mestu máli skiptir þegar upp er staðið.

Faxi„Náttúran á Reykjanesi er frekar rýr ef bera á hana saman við náttúru annars staðar á landinu vegna þess að svæðinu hefur einfaldlega verið misboðið í svo langan tíma. Þó svo að ekki hafi alltaf verið farið vel með svæðið þá er ýmislegt að sjá ef áhuginn er fyrir hendi. Of margir Suðurnesjabúar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu leita oft langt yfir skammt þegar njóta á íslenskrar náttúru. Vill það gleymast að Reykjanesið er spennandi svæði að ferðast um og kynnast. Það er öðruvísi en margir staðir á landinu vegna þess að þar er hægt að sjá mjög greinilega hvernig Reykjaneshryggurin kemur inn í landið. Allt umhverfi okkar er mótað vegna Reykjaneshryggsins því þar hafa orðið mörg eldgos fyrr á tímum og enn í dag er þar mikil eldvirkni í jörðu þó svo ekki hafi gosið á þessu svæði í nokkurn tíma.

Gróður á Reykjanesi er í slæmu ásigkomulagi samanborið við það sem hann var fyrir landnám og þeir sem vilja sjá mikinn gróður fara því á aðra staði á landinu. Allir verða að kynnast auðninni til þess að geta gert sér það ljóst að ekki má halda áfram eins og fram horfir án þess að illa geti farið. Það vekur kannski ekki áhuga margra að ferðast um Reykjanesið en ef vel er að gáð má þó finna eitthvað fyrir alla. Skemmtilegar gönguleiðir eru víðsvegar um svæðið, hraunmyndanir og háhitasvæði eru víðsvegar og reyndar er hægt að finna þar mikinn gróður þó á takmörkuðum svæðum sé. Fuglabjörg eru einnig á svæðinu og einnig er hægt að komast í silungsveiði með alla fjölskylduna. Þegar fólk ætlar að njóta náttúrunnar er oftast farið á þá staði sem eru meira þekktir og þykja merkilegir s.s Þingvelli, Gullfoss og Geysi eða önnur þekkt svæði. Hér á eftir verður fjallað um þau svæði sem okkur þykja merkilegust í Reykjanesfólkvangi.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Þegar Reykjanesbrautin er ekin blasir Keilir við á hægri hönd ef komið er frá Keflavík. Ef beygt er til hægri og ekið sem leið liggur frá Kúagerði og upp að fjöllunum þá er þar komið að mikilli grassléttu. Þessi grasslétta heitir Höskuldarvellir og eru þeir stærsta samfellda graslendið í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Sogalækur

Sogalækur.

Í leysingum liggur lækur úr Sogunum fyrir sunnan Trölladyngju og er talið að lækurinn hafi smám saman borið jarðveg niður á sléttlendið. Frá Höskuldarvöllum eru margar skemmtilegar gönguleiðir t.d á frægasta fjall Suðurnesja, Keili. Einnig er hægt að ganga á Mávahlíðar en það er mjór hryggur sem er brattur á báða vegu og sést hann því vel í næsta umhverfi. Þegar komið er á staðinn er best að velja gönguleiðir um svæðið eftir áhuga og getu hvers og eins.
Mjög fallegt er í kringum Höskuldarvelli á sumrin þegar allt er í blóma en þó er ekki síðra þar á veturna þegar snjór liggur yfir öllu svæðinu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja er ekki langt frá Höskuldarvöllum og er því alveg tilvalið að ganga þangað og skilja bílinn eftir undir fjallshlíðinni við Höskuldavelli. Trölladyngja er móbergsfjall í Reykjanesfjallgarði norður af Núpshlíðum eða Vesturfjalli. Á Trölladyngju eru tveir móbergshnjúkar. Austan við Trölladyngju er annað móbergsfjall, Grænadyngja. Nefnast þær saman Dyngjunnar. Í dyngjunum eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Norðan og sunnan við dyngjurnar eru gígar og gígaraðir.

Sogin

Sogin.

Norður af Trölladyngju eru síðan gufuhverir sem vert er að skoða. Jarðhiti er mikill í Trölladyngju. Sunnan hennar er litskrúðugur skorningur, svokallað Sog. Gaman er að ganga um svæðið og virða fyrir sér þá sérkennilegu liti sem em í dyngjunum. Þar eru mörg litaafbrigði og eru þau breytileg eftir því hvernig veður- og birtuskilyrði eru. Lítill lækjarfarvegur liggur í gegnum dyngjurnar og hefur hann í tímans rás grafið sig sífellt neðar. Dýptin er sumstaðar komin yfir tvær mannhæðir.
Stórkostlegt er að litast þarna um og njóta þeirrar fjölbreytni sem náttúran hefur upp á að bjóða í litavali.
Slæmur vegur liggur áleiðis að Trölladyngju frá Höskuldarvöllum. Frá Trölladyngju er síðan hægt að aka að Grænavatni og Djúpavatni.
Víðsvegar á þessu svæði er jörðin illa farin eftir umferð og nýjar slóðir eru sífellt að myndast og jörðin er á mörgum stöðum uppspóluð. Þetta er til skammar fyrir Reykjanesið og þeir sem aka utanvega ættu að skammast sín fyrir að eyðileggja marga fallegustu staði á Suðurnesjum sem seinna meir gætu orðið ferðamannastaðir sem myndu skapa miklar tekjur fyrir Suðurnesjabúa. Best er að ferðast um svæðið gangandi þegar á það er komið því þannig fæst best yfirlit yfir svæðið, við það skemmist það ekki og einnig er ganga heilsusamleg og nauðsynleg.

Spákonuvatn

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Mjög skemmtileg gönguleið er eftir Vesturhálsi þegar gengið er til suðurs frá Sogunum. Þá er komið að vatni uppá fjallinu og heitir það Spákonuvatn. Vatnið hefur myndast við það að hraun hefur lokað dalverpi og það hefur orðið til þess að vatn safnaðist þar fyrir. Það er mjög sérkennilegt að sjá það með eigin augum hvernig hraunið hefur runnið þannig að dalurinn hefur lokast og vatnið myndast. Ekki er fiskur í Spákonuvatni.

Grænavatn

Grænavatn

Grænavatn.

Vegurinn sem liggur frá Trölladyngju að Grænavatni er aðeins fyrir jeppa því hann er erfiður yfirferðar. Grænavatn er í dalverpi sunnan við Trölladyngju. Það er frekar grunnt og lítið vatn en þó er einhver veiði í því. Umhverfið er allsérstætt og fallegt vegna þess hversu stórgrýttar hlíðarnar eru.

Djúpavatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Djúpavatn er sprengigígur sem hefur fyllst af vatni. Við Djúpavatn er skáli sem hægt er að gista í ef veiðileyfi er keypt. Þó nokkur veiði er í vatninu og hafa þar veiðst ágætlega vænir silungar. Það er því alveg þess virði að kaupa veiðileyfi í vatnið og fara með fjölskylduna og reyna að krækja í þann stóra. Ekki er síðra að dorga á veturna þegar ís er á vatninu. Vatnið er mjög djúpt og af því er nafnið dregið.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vigdísarvellir er dálítil grasslétta austan undir Núpshlíðarhálsi. Þar er oftast skjól af fjöllunum í nágrenninu. Á Vigdísarvöllum var byggður bær árið 1830 og búið þar fram til ársins 1905 en þá hrundu húsin í jarðskjálfta.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Bæjarrústirnar eru þó nokkuð stórar og þar sést einnig móta fyrir gömlum garði sem hefur verið hlaðinn til að halda skepnunum á sínum stað.
Það er athyglisvert að nokkur hafi lagt það á sig að búa svona langt frá byggð því að lífið hefur sjálfsagt verið erfitt þama eins og annarsstaðar á landinu á þessum tíma. Þó svo að þetta svæði sé langt upp í fjöllum þá er þar ótrúlega mikill gróður á þessu svæði og því er það kannski ástæðan fyrir því að menn vildu búa þarna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Hentugasta leiðin að Krísuvfkurbergi frá Vigdísarvöllum liggur meðfram Núpshlíðarhálsi. Þaðan er beygl til austurs eftir þjóðveginum og síðan er beygt til sjávar eftir auðsjáanlegum slóða. Krýsuvíkurberg er mesta fuglabjargið á svæðinu. Það er um 7 km langt og 40 – 50 metra hátt.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Áhugavert er að ganga um svæðið, einkum á vorin og snemma sumars þegar fuglalífið er áberandi mest. Hverjum manni væri það gagnlegt að sjá fuglana í sínu náttúrulega umhveifi og geta virt þá fyrir sér í ungauppeldinu og baráttunni við náttúrulega óvini. Tveir lækir falla til sjávar fram af berginu, Eystrilækur og Vesturlækur. Eystrilækur myndar háan foss sem steypist fram af berginu. Í berginu verpa um 57 þúsund sjófuglapör en það er um 65% allra bjargfugla á svæðinu.

Eldborgir

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Eftir að Krýsuvíkurberg hefur verið skoðað liggur leiðin að Eldborgum. Eldborgir eru undir Geitahlíð austan Krýsuvíkur. Þær eru tvær og heita Stóra og Litla Eldborg. Þjóðvegurinn liggur á milli þeirra.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Stóra Eldborg er einn allra fallegasti gígur á Suðvesturlandi, um 50 metra hár, hlaðinn úr hraunskánum og gjalli. Frá Stóru Eldborg liggur hrauntröð þar sem hraunið hefur runnið til sjávar. Vesturlækur fellur til sjávar í Hælsvík og myndar einnig fallegan foss.
Gróðureyðing fyrir ofan Krýsuvíkurberg er óvíða ljótari á Skaganum. Þar skiptast á blásnir melar og rofabörð.
Gróðurfar á þessu svæði er mjög slæmt vegna ofbeitar. Litla Eldborg er austar en hin og öllu fyrirferðanninni, Hún er hluti af stuttri gígaröð eins og Stóra Eldborg. Hraunið frá Litlu Eldborg hefur lagst yfir hraunið frá Stóru Eldborg að hluta og er gaman að virða þetta fyrir sér á góðvirðisdegi. Jarðvegur á þessu svæði er frekar rýr og er mosaþemba aðal gróðurinn á svæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Hverasvæðin á Krísuvíkursvæðinu eru mjög fallegur ferðamannastaður en því miður eru það fáir sem leggja leið sína um svæðið en þangað er fólksbílafært og ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu. Krísuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufuhverum og leirhverum. Á svæðinu eru tvö gígvötn, Grænavatn og Geststaðavatn, sitt hvoru megin við veginn. Vötnin eru merkileg fyrir þær sakir að þau eru gamlar eldstöðvar sem hafa fyllst af vatni í tímans rás. Grænavatn hefur mjög sérkennilegan lit vegna þess hversu mikill þörungagróður er í vatninu.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Fyrir þá sem þora er gaman að fara í hellaskoðun. Þægilegasta leiðin að hellinum er frá þjóðvegi 42 sem er vegurinn sem við förum á leið okkar austur með Kleifarvatni og þarf að ganga síðasta spölinn að hellinum. Gullbringuhellir er eini hellirinn sem er þekktur í hrauninu við Kleifarvatn. Hann er norðaustan við fjallið Gullbringu. Hellirinn er um 170 metra langur en frá opinu liggur hann í tvær áttir. Mjög athyglisvert er að skoða hellinn því að í honum eru hraunstrá og þar er vítt til veggja og hátt til lofts og því þægilegt að ferðast um hann. Þessi hellir er aðgengilegur og því ætti fólk á öllum aldri að geta skoðað hann.

Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt dýpsta stöðuvatnið á Íslandi um 97 metrar að dýpt. Það er á miðjum skaganum inn í Reykjanesfólkvangi. Kleifarvatn hefur írennsli en ekkert sýnilegt frárennsli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Vatnsmagnið í Kleifarvatni er breytilegt og breytist mest vegna úrkomu. Jarðhiti er syðst í vatninu og er stundum hægt að sjá hverina ofan af Vatnshlíð. Þeir eru öðruvísi á litinn og skera sig því út úr. Á veturna sér maður vakir vegna hitamismunar en annars staðar er vatnið ísi lagt. Silungsveiði er talsverð í vatninu og er gaman að fara með fjölskylduna að veiða í Kleifarvatni vegna þess hversu stutt er að fara úr amstri hófuðborgarinnar og einnig vegna þess að svæðið er öðruvísi en menn eiga að venjast. Það má kannski geta þess að einn af síðustu stórbændunum í Krýsuvík tók silung úr Elliðavatni og flutti yfir í Kleifarvatn svo að hann á heiðurinn af því að þarna er hægt að veiða silung. Við vatnið er fallegt útsýni en þar er mikið af sérkennilegum klettamyndunum.

Hellirinn eini

Maístjarnan

Í Hellinum eina.

Eftir að hafa skoðað Kleifarvatn höldum við áfram eftir þjóðveginum og stoppum hjá Fjallinu eina. Í næsta nágrenni við það eru tveir hellar, annar þeirra heitir Hellirinn eini og hinn heitir Híðið. Hellirinn eini er um 170 metra langur, hann er víða lágur til lofts en víðast hvar er hann þó manngengur. Það eru dropasteinar og hraunstrá í hellinum. Miklar sprungur skerast þvert á hellinn og mynda litla afhella. Jarðfræðilega séð telst þessi hraunrásarhellir merkilegur fyrir það að hann er skorinn af þessum mörgu og stóru sprungum. Mikil litadýrð er í hellinum sem gerir hann áhugaverðari fyrir vikið.

Híðið

Híðið

Í Híðinu.

Híðið er um 500 metra frá Hellinum eina og því getur verið gaman fyrir þá allra hörðustu að skoða hann líka. Híðið er um 155 metra langur hellir og þröngur, hæstur er hellirinn um 2 metrar að hæð en víðast hvar töluvert minni. Erfitt er að fara um hellinn því sums staðar þarf að leggjast niður og skríða. Mikið er um fallega dropasteina og hraunstrá í hellinum, dropasteinarnir eru nokkur hundruð og hraunstráin talsvert fleiri. Híðið er alveg ósnortið vegna þess að hingað til hafa aðallega hellaáhugamenn farið þangað. En það vill oft fara þannig að vinsælir ferðamannastaðir fara illa út úr mikilli umferð ferðafólks sem því miður gengur oft ekki nógu vel um fallega og athyglisverða staði.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fornar leiðir.

Þetta er síðasti viðkomustaður okkar á þessu skemmtilega ferðalagi um Reykjanesfólkvang og héðan er ekki löng keyrsla upp á Reykjanesbrautina aftur en þaðan ættu allir að rata heim til sín á ný. Þessi upptalning er ekki tæmandi fyrir allt það sem hægt er að skoða á svæðinu en við vonum að við lestur þessarar ritgerðar geti lesandi gert sér það ljóst að á heimaslóðunum leynist ýmislegt skoðunarvert í náttúrunni.
Sá misskilningur virðist vera allsráðandi að það þurfi að aka mörg hundruð kílómetra út fyrir höfuðborgina til að komast í spennandi landslag og fallega náttúru. Þetta svæði hefur upp á allt að bjóða sem íslensk náttúra getur á annað borð boðið upp á. Ef fólk gefur sér tíma til að skoða sitt nánasta umhverfi verður það alveg örugglega hissa á því að sjá hversu margt er í boði. Þarna má sjá bæði spillta og óspillta náttúru, gróðumikil svæði og auðnir, háhitasvæði, fuglavarp, hraunhella og vötn. Til þess að skoða svæðið þarf að vera með opinn huga því að mörgum finnst það í rauninni ekki vera neitt ferðalag að fara svona stutt frá heimahögunum. En eins og áður sagði vill það gerast með Íslendinga að þeir leiti langt yfir skammt.
Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verður það þannig að landinn taki við sér og sjái alla fegurðina sem er við bæjardyr höfuðborgarbúa. Kannski verður það þannig að innan fárra ára verði Reykjanesið eitt mest sótta ferðamannasvæði landsins.“

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 1998, Áhugaverðir staðir í Reykjanesfólkvangi, bls. 28-30.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Ómar

Á MBL.is þann 11.6.2011 birtist eftirfarandi frétt; „Fornleifar fanga lögreglumann„.

Garður

Höfðinu stungið upp úr fornleifauppgreftri.

„Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, útskrifast í dag sem fornleifafræðingur frá Háskóla Íslands.

Ómar hefur starfað sem lögreglumaður mestallan sinn starfsferil eða í um 35 ár, en segist hafa hugsað til framtíðar þegar hann sótti um nám í fornleifafræði.

„Ég hef alltaf haft áhuga á fornleifum og einn daginn kom upp í huga mér hvað ég ætti að gera þegar ég hætti sem lögreglumaður, þá var ég áður búinn að skoða gamlar minjar á Reykjanesskaganum. Það kveikti í mér og kom lítið annað til greina en að skella sér í háskólann,“ segir Ómar.“

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan. 

„Þetta var nú ekki löng frétt, en merkileg út af fyrir sig“, svaraði Ómar er fréttamaður spurði; „ekki síst í ljósi þess að hafa fengið að taka þátt í að bæta samfélagið, síðan að móta samskiptamál lögreglunnar með verulega jákvæðum árangri, tækifæri til að upplýsa ásamt samstarfsfélögum mínum mörg hin flóknustu afbrotamál síðustu áratugina, gefið áhugasömum kost á að skoða merkilegheit þeirra nánasta umhverfis, og loks, eftir að hafa lokið 45 ára starfi í lögreglunni, innan lögskyldulegra marka, fengið að nýta mér háskólanámið, m.a. í „Hagnýtri menningarmiðlun“, til að stofna vefsíðuna www.ferlir.is með margbreytilegum fróðleik um sögu, minjar og möguleika Reykjanesskagans. Sagan okkar er jú mun merkilegri en líðandi stund.“
„Háskólanámið er í sjálfu sér ekkert merkilegt, margt er þar sem mætti bæta“, bætti Ómar við.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Vefsíðuna hefur, að sögn Ómars, þurft að uppfæra nokkrum sinnum m.t.t. breyttrar tækni og nýrra krafna, en innihaldið hefur þó, þrátt fyrir mótlæti með staðfestu að vopni, fengið að viðhalda sér að mestu, reyndar með mikilli fórnfýsi hverju sinni.

Markmið vefsíðunnar er að upplýsa áhugasama um sögu og minjar Reykjanesskagans í von um að innihaldið fái að lifa áfram meðal þeirra…

Sjá eldri vefsíður

Heimild:
-Morgunblaðið 11.06.2011 (mbl.is), Fornleifar fanga lögreglumann – janus@mbl.is.

Omar

Ómar – við útskriftina í Háskóla Íslands.

Gunnuhver

Í „Íslenskar þjóðsögur og ævintýri“ Jóns Árnasonar, sem bókaútgáfan Þjóðsaga gaf út 1954 eru fjórar sögur um Gunnuhver á Reykjanesi:

Gunnuhver

Gunnuhver

Gunnuhver.

Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður bjó á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi; hann dó 1706. Hann átti illt útistandandu við kerlingu eina sem hét Guðrún Önundardóttir, út af potti sem hann átti að hafa tekið af henni, líklega upp í skuld. Kerling tók sér það svo nærri að hún heitaðist við Vilhjálm.
Þegar hún var grafin var Vilhjálmur þar við, en leið hans lá um Skagagnn sem kallaður er fyrir utan Útskála. Hann fór heimleiðis um kvöldið, en fannst daginn eftir dauður á Skagagnum og var þá allur blár og beinbrotinn.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Lík hans var flutt í bænhúsið á Kirkjubóli og Gísli prestur á Útskálum fenginn til að vaka yfir því á næturnar, því allir þóktust vita að Gunna hafði drepið hann og væri nú afturgeingin. Þóktist prestur eiga fullt í fangi að verja líkið fyrir kerlingu að ei drægi hún það úr höndum sér. Afturgangan magnaðist síðan mjög og nú dó ekkja Vilhjálms snögglega; var Gunnu það kennt. Fólk sem fór um Skagann villtist sumt, en sumt varð vitstola. Varð allt af völdum Guðrúnar og sáu menn nú óvætt þenna fullum sjónum. Gjörði þá Gunna skaða mikinn svo ekki var viðvært mönnum né málleysingjum.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Þegar í slíkt óefni var komið og enginn gat stemmt stigu fyrir afturgöngunni, þá voru tveir menn nokkuð kunnandi sendir til fundar við séra Eirík á Vogsósum til að biðja hann hjálpar. En með því prestur var ekki altént vanur að taka slíkum málum greiðlega, þá voru þeir látnir færa honum nokkuð af brennivíni, því allir vissu að honum þókti það gott. Sendimenn fóru nú á fund Eiríks prests og gjörðu allt eins og og fyrir þá var lagt. Tók hann þeim vel, en þegar þeir fóru á stað aftur fékk hann þeim hnoða og sagði að þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á hnoðinu. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún ætti vera að ósekju.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Sneru sendimenn heim við þetta og gjörðu allt sem prestur hafði fyrir þá lagt. En undireins og Gunna hafði tekið í lausa endann á hnoðinu valt það afs tað, en hún fór á eftir. Sást það seinast til hvort tveggja, hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Hefir síðan ekki orðið meint af afturgöngu Gunnu.
Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverabarminum og trítlar hún þannig eintatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfborgin, því hún vill fyrir hvern mun síst fara ofan í vilpu þessa.

Guðrún Önundardóttir

Gunnuhver

Gunnuhver.

Vilhjálmur bjó á Kirkjubóli í Kirkjubólshverfi í Útskálasókn og Snjálaug kona hans. Landseti þeirra var bóndi í Sandhólakoti (nafn hans hefi ég ekki heyrt) og hét kona hans Guðrún Önundardóttir. Þau voru svo fátæk að þau áttu ekkert í landskuldina. Því tók Vilhjálmur pott upp í hana, þann eina sem þau áttu. Þessu varð Gunna Önundardóttir næsta reið, en vann ekkert á, gekk heim að Kirkjubóli og lagðist þar niður á bekk í dyrunum mállaus af reiði. Snjálaug færði henni messuvín. Hún saup á og spýtti síðan framan í Snjálaugu.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Síðan dó kerling og var smíðað utan um hana. Líkmenn báru kistuna á öxlunum eins og þar var þá siður; stundum var hún svo létt sem ekkert væri í henni, en stundum svo þung að þeir roguðu henni varla. Hún var flutt að útskálum og jarðsungin fyrir norðan kirkjuna. En á meðan verið var að moldausa hana sáu þeir sem skyggnir voru hvar hún var milli húsanna og hjá þangkestinum uppi á garði. Erfið eftir hana var haldið á Lambastöðum. Var Vilhjálmi boðið að fylgja honum suður yfir Skagann, en hann vildi ekki. Vilhjálmur var talinn vel tveggja maka maður. Um morguninn eftir fannst hann örendur þar á skaganum beinbrotinn og illa út leikinn.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Eftir þetta var Gunna á gangi þar á Skaganum og um hverfið og villti menn, en gerði ekkert annað til meins. Þá var síra Eiríkur á Vogsósum; var honum sagt af þessu og beðinn úrræða. Hann sendi vinnumann sinn suður og fekk honum hvítan trefil og bað hann rétta Gunnu annan enda; mundi hann hitta hana í bæjardyrunum í Hofi; skyldi hann passa að vera hennar á milli og veggsins svo hún kæmist ekki út um vegginn. Maðurinn fór og hitti hana þar sem síra Eiríkur sagði. En er hún tók í trefilinn rak hún upp hljóð mikið. Teymdi hann hana fram á Reykjanes – að fyrirsögn Eiríks – og að hver einum og sleppti henni þar,og gekk hún þar í kringum hann og sögðu menn hún hefði fallið ofan í hverinn; og er sá hver síðan kallaður Gunnuhver. – Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er.

Reykjanes-Gunna

Gunnuhver

Gunnuhver.

Kona hét Guðrún, nú almennt nefnd Gunna. Hún var ill í skapi og óvinsæl svo enginn vildi hafa hana nærri sér. Því bjó hún í einhýsi á Reykjanesi þar sem heitir í Grænutóft. Böndi í Höfnum hafði léð henni pott einn vetur og fór um vorið að sækja hann.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Gunna skammyrti bónda, en slepti ekki pottinum og fór bóndi heim svo búinn. Hann þurfti þó á pottinum að halda því enginn gat léð honum pott og fór hann þá aftur til Gunnu, en áður en hann fór bað hann menn að vitja sín ef hann yri lengi. Því var lofað. Bóndi kom ekki heim um kvöldið og var hans leitað um morguninn eftir og fundu hann ekki. Þeir komu að Grænutóft og lá Gunna í bæli sínu og var dauð, helblá og uppblásin. Þeir vöfðu hana rekkjuvoðum og létu hana liggja og fóru aftur. Á heimléiðinni fundu þeir bónda skammt frá veginum drepinn og sundurrifinn. Þar var hjá honum potturinn mölbrotinn. Þeir fluttu lík bónda heim og var hann jarðaður. Kista var smíðuð um Gunnu og var hún flutt í henni frá Grænutóft til Kirkjuvogs, en á leiðinni þóttust sumir sjá hana dansa fyrir líkfylgdinni.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Nú var kistan grafin, en Gunna gekk um allt eins og grár köttur og var engu óhætt fyrir henni. Þá var sent til Eiríks prests á Vogsósum og fékk hann sendimanni trefil og bað hann færa Gunnu og segja henni að þvætta hann. Sendimaður fer og færir Gunnu trefilinn og segir um leið og hann fleygði honum í hana: „Þetta áttu að þvætta“. „Hvur segir það?“, segir Gunna. „Eiríkur á Vogsósum,“ segir maðurinn. Henni brá við og sagði: „Ekki var von á verra.“ Hún fór strax af stað og að hvernum á Reykjanesi og kastaði enda trefilsins í hann, og varð hann fastur í hvernum, en hinum gat hún ekki sleppt og genur síðan kringum hverinn og er nú búin að ganga sig upp að knjám, segja menn. Nú á dögum er hverinn kallaður Gunnuhver.

Önundar-Gunnar

Gunnuhver

Gunnuhver.

Guðrún hefur kona heitið og mun hafa verið ekkja er þessi frásaga gjörðist. Hún mun hafa búið einhvörsstaðar suður með sjó, í Garðinum eða þar nálægt. Kort hét maður er búið hefur einhvörstaðar þar á Suðurnesjum; hann átti jörðina sem Guðrún bjó á.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Guðrún var heldur fátæk en rík og þó ekki betri til útláta en efna. kort var maður örlyndur og frjálslegur, nokkuð harður í lund, en fékk þó fremur gott orð. En Guðrún var almennt kölluð skaphörð og mjög óvinsæl. Svo var sagt að hún hafi verið almennt nefnd Önundar-Gunna (en af hvaða Önundi hún hafi tekið það nafn eða hvört það hefur verið maður hennar vita menn ekki) og með því nafni var hún alþekkt. Svo fóru skipti þeirra Korst og Önundar-Gunnu að hún galt ekki með skilum eftir ábúðarjörð sína, en Kort þoldi það illa og svo kom loks að Kort tók með kappi jarðargjald sitt. Eitthvört sinn tók hann pott af Gunnu, en hún vildi ekki láta hann lausan, en þó er þess ekki getið að hún hafi viljað láta annað af heni í hans stað; því tók Kort pottinn hvað sem Gunna sagði. En það fékk henni svo mikils að það dró henni snögglega til dauða.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Svo er sagt að þegar gunna var grafin þá hafi hún sést á gangi og verið að gægjast fram úr húsasundunum, og hafi hún þá ávarpað þá sem voru að taka gröfina með þessum orðum: „Ekki þarf djúpt að grafa því ekki á lengi að liggja“.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Efrisdrykkja skal hafa verið haldin eftir Gunnu og er svo sgat að Kort hafi verið einn meða borðsgesta, en er fólk fór að fara vildu menn að Kort færi ekki einn, því menn hugðu Gunna mundi vilja vitja hans og er þess þó getið að Kort hafi verið hið mesta karlmenni. Varð þá Kort samferða einhvörjum boðsmanni þar til hann átti allskammt heim til sín; var þá komin dimma og bauð maðurinn honum að fylgja honum alla leiðina heim, en Kort vildi ekki. Kort kom eigi heim um nóttina, en að morgni var hans leitað.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Sáust þá augljós merki til að Gunna hafi hitt hann þegar maðurinn var nýskilinn við hann. En það þóktust menn sjá að þau höfðu glímt fjarska lengi og loks fannst kort dauður og mjög illa útleikinn.

Eftir þetta gerði Gunna ýmsar óspektir svo eigi leið á löngu að maður var sendur til séra Eiríks á Vogsósum og skyldi hann biðja prest að sjá fyrir Gunnu. Prestur tók því vel og kvað nauðsyn til að bera að ráða bót á slíku. Bað hann þá sendimann bíða litla stund, fór inn og kom innan skamms aftur; fékk hann þá sendimanni hvítan trefil langan og var pappírsmiði festur á annan endann.

Sagði prestur svo fyrir að maðurinn skyldi rétta seðilinn að Gunnu; kvað hann Gunnu mundu við honum taka og skyldi hann síðan teyma hana á treflinum að hver þeim sér á Reykjanesi og sleppa þar. Kvað hann eigi mundi meira við þurfa.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Síðan fór sendimaður, fékk sér menn til fylgdar, færði Gunnu seðilinn og tók hún strax við, en mælti um leið og hún leit á: „Á helvíti átti ég von, en ekki þessu.“ Var hún síðan leidd þangað sem ákveðið var; varð hún þar eftir æpandi og stökk einart kringum hverinn, dró eftir sér trefilinn, en hélt á seðlinum og komst aldrei burt þaðan, og þóktust margir menn sjá hana þannig á hlaupum kringum hverinn lengi síðar og sumur bættu því við að hún væri búin að ganga sig upp að knjánum.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, 3. bindi 1955, safnað hefur Jón Árnason III, nýtt safn; Bókaútgáfan Þjóðsaga 1954, bls. 508-510.

Gunnuhver

Gunnuhver.