Færslur

Fagradalsfjall

Á Vísindavef Hákóla Íslands má lesa eftirfarandi svar Svavars Sigmundssonar, fyrrv. forstöðumanns Örnefnastofnunar um “Er Reykjanes sama og Suðurnes?”:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

“Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes:
“Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.”
Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes:
“Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.”

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: “Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu”.
Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Frá Suðurnesjum

Frásagnir frá liðinni tíð. Þessi bók fjallar að mestu um útgerð og sjósókn og ýmislegt þessu tengt frá Suðurnesjasvæðinu.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi.”

Áttir á Suðurnesjum voru jafnan tvær fyrrum; út (norður) og inn (suður). Þannig eru t.d. tilkomin örnefnin Út-Garður og Inn-Garður, Ytri-Njarðvík og Innri-Njarðvík.

Heimildir:
Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.

Heimild:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanesskagi

Fagradalsfjall verður seint talið á Reykjanesi – hvað þá á Suðurnesjum.

Reykjanesviti

Árið 1804 rak á land á svo nefndri Valahnjúksmöl á Reykjanesi geysistóran timburflota. Var hann alveg ein samfelld heild og gyrtur afardigrum járnböndum. Allt voru það ferstrend tré. Það var til marks um stærð flotans, að 10 metra löng tré stóðu upp á endann í honum. Töluvert hafði verið af fötum og fataræflum upp á flotanum, og var haldið, að skip það, sem hafði hann aftan í, hefði farist, en skipshöfnin komist á flotann, en skolast svo aftur af honum í ofviðrinu.

Valahnúkshellir

Valahnúskhellir.

Þegar mannfjöldi mikill hafði bjargað öllu timbrinu undan sjó, fór opinbert uppboð fram; voru þar mættir bændur úr allri Gullbringusýslu. Seldust trén á 4-8 dali hvert, sum þó nokkuð meira, allt upp að 12 dölum einstök tré. Allt voru þetta rauðviðartré, sem kallað var, og valinn viður. Til marks um gæði viðarins, þá var rifið hús eitt í Höfnum sumarið 1929, sem byggt var að mestu leyti úr Reykjanesstrandinu, og var mikið af viðnum alveg óskemmt eftir meira en heila öld. Mestan hluta trjánna keyptu Hafnahrepps- og Vatnsleysustrandarmenn á uppboðinu, dálítið lenti úti á Rosmhvalanesi, en minna í Grindavík og innhreppum sýslunnar. Ár eftir ár voru menn svo úr þessum sveitum að fletta trén í borðvið. Voru borðin svo flutt á hestum í dráttarklyfjum til eigendanna, og sjást vegslóðarnir inn Hafnaheiðina enn í dag, þar sem Strandarmenn og aðrir innan Stapa fóru með lestir sínar.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Hafnamenn einir söguðu lítið af trjánum suður frá, en reru þau aftan í skipum sínum, þegar logn og ládeyða var. Höfðu þeir oft 4-5 tré aftan í einu; var þá lagt af stað um háfjöru að sunnan og norðurfallið látið létta róðurinn með trén, og ef vel gekk, var lent í Kirkjuvogsvörinni um háflæði eftir 6 tíma þembingsróður. Engin byggð var þá á Reykjanesi og urðu sögunarmennirnir því að liggja í tjöldum eða grjótbyrgjum, er þeir hrófuðu upp og skýldu sér í yfir nóttina. En brátt urðu menn þess varir, að uppi á Valahnjúkshamrinum að sunnanverðu, beint upp af þeim stað, þar sem þeir voru að saga, var hellir; skoðuðu þeir hann, og leist þeim hann mjög girnilegur til hvíldar, því að þar var þurr, bjartur og hlýr bústaður fyrir hretviðrum haustsins. Hugðu nú margir gott til þessa staðar fyrir sjálfa sig og seppa sína.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur.

Næsta dag var svo hafinn krossmessuflutningur úr tjöldum og grjóthreysum upp í hellinn. Bjuggu menn um sig eftir föngum og gjörðust glaðir mjög; var svo etið og drukkið af kappi miklu, sungin kvæði og sögur sagðar og hlegið dátt, svo að hellirinn glumdi við. Loks voru þó lesnar bænir og lagst til hvíldar. Hvíldi nú grafarkyrrð og helgur friður yfir hellisbúum hálfrar eyktar stund. Allt í einu tóku hundarnir að urra og gelta, og í sama vetfangi var kallað:
“Rífið hann Jón upp; hann er að hengjast. Heyrði þið ekki korrið í honum? Og nú er það komið ofan á hann Brand og hann Gvend og ætlar þá alveg að drepa.”
“Komið með kerti fljótt og kveikið ljós.”

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Nú kom öll hundaþvagan þjótandi og skrækjandi upp í fangið á hellisbúum, og skriðu hundarnir titrandi upp fyrir húsbændur sína og þorðu sig ekki þaðan að hreyfa. Kertið fannst ekki í fátinu og myrkrinu, en úti var aftakaveður af landsuðri með úrfelli, en inni voru reimleikar þeir, sem sóttu að andfærum manna og dýra, og mátti því segja, að menn væru þarna milli steins og sleggju, því að hvorugur kosturinn var góður, að flýja út í veðrið eða reyna að haldast við í hellinum, þar til dagur ljómaði á lofti. Loks urðu hellisbúar ásáttir um að hreyfa sig ekki, en hafa við bænir og sálmasöng, það er eftir var nætur.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Var nú allt með kyrrum kjörum, á meðan allir voru vakandi, og hellirinn bergmálaði af bænahaldi og sálmasöng. En er lifa myndi þriðjungur nætur, gerðust sumir af hellisbúum svefnhöfgir mjög og hugðu á hvíld um stund; áttu þeir, er vöktu, að vera trúir í hinu andlega starfi og vera til taks, ef friður yrði rofinn eða korr heyrðist í hálsum hinna sofandi manna. En ekki var mönnum þessum fyrr siginn blundur á brá en sömu ósköpin byrjuðu aftur, hundarnir vitlausir með ýlfri og emji, en mennirnir með kyrkingshljóði og korri miklu þar til félagar þeirra voru búnir að fá þá til fullrar meðvitundar. En nú gekk vindur til vesturs og veðrið batnaði, og skammt var til morguns, fóru því mennirnir allir hið bráðasta út úr hellinum og kvöddu hinn ógestrisna hellisráðanda með ófögrum kveðjum.
Liðu svo full 50 ár, að enginn maður varð til þess að leita skjóls í helli þessum, en árið 1862 leigði presturinn að Stað í Grindavík bændum í Hafnahreppi nokkuð af rekalandi prestssetursins. Bóndinn í Kalmannstjörn leigði svonefndar Krossvíkur sem eru stuttan spöl fyrir austan Valahnjúkinn og nálægt landamerkjum Staðar og Kalmannstjarnar. Valahnjúkurinn fylgir Kalmannstjörn.

Reykjanes

Reykjanes – brim.

Veturinn 1865 rak stórt, ferkantað tré á Krossvíkum. Sendi bóndinn vinnumenn sína og sjómenn marga til þess að koma trénu undan sjó og undir sögun, því að hann ætlaði að láta saga tréð þar suður frá. Lá svo tréð allt vorið og sumarið fram yfir höfuðdag á sögunarpallinum, en seint í september voru tveir vinnumenn, Þorleifur og Eyjólfur, sendir suður eftir að saga tréð. Voru þeir útbúnir með nesti og nýja skó, sængurföt og fleira. Loks var tjaldið og tjaldsúlurnar tekið niður af háalofti.
“Hvað eigum við að gera við þetta?” spurði Leifi gamli.
“Auðvitað liggið þið ekki undir beru lofti,” var honum svarað.

Reykjanes

Brim við Reykjanes.

“Það ætla eg ekki heldur að gera,” segir Leifi. “Eg ætla að lofa Valahnjúkshellinum að hýsa okkur”. Þá var Leifi minntur á ósköpin, sem á gengu, þegar Reykjanesstrandið var, en Leifi svaraði með því einu, að lygaþvættingur, heimska og hjátrú vitlausra manna hefði engin áhrif á sig.
Og svo lögðu þeir Þorleifur og Eyjólfur af stað með hund og hest og tjaldlausir. Eyjólfur var með afbrigðum blótsamur, og mátti segja, að hann tæki ærið oft upp í sig.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Næsta morgun um fótaferðartíma er Eyfi kominn á Blágrána gamla að sækja tjaldið. Nú átti auðvitað að spyrja Eyfa spjörunum úr; en það hafðist ekkert annað upp úr honum en hinar óttalegustu formælingar og helv… hann Kolur, og þóttust sumir hafa heyrt tóninn frá Eyfa suður um allt tún, er hann lagði af stað með tjaldið. En víst er, að Þorleifur þjappaði að Eyjólfi með að láta aldrei uppi við neinn, hvernig þeim reiddi af þessa einu nótt í Valahnjúkshellinum og aldrei hafðist neitt frekara upp úr þeim félögum um dvöl þeirra í hellinum.
Sjá meira um strandið við Valahnúkamöl HÉR.

Heimild:
-Rauðskinna I 161.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Reykjanes

Hugtakið Reykjanes hefur löngum verið á reiki meðal fólks. Á gömlum landakortum er Reykjanesið sagt vera vestan línu sem draga má milli Sandvíkur í suðri og Stóru-Sandvíkur í norðri vestast á Reykjanesskaganum.

Reykjanes

Reykjanes – kort 1952.

Jón Th. fjallar um Reykjanesskaga í ferðalýsingum sínum og á þá jafnan við Landnám Ingólfs, þ.e. vestan línu, sem dregin er milli Ölfusárósa og Hvalfjarðar (Kollafjarðar). Eggert og Bjarni lýsa Reykjanesinu og Reykjanesskaga og eiga þá yfirleitt við svæði vestan línu milli Ölfusárósa og Kópavogs.
Á Netinu er lýst sveitarfélögunum á Reykjanesi, þ.e. Grindavík, Reykjanesbæ, Höfnum, Sandgerði, Garði og Vogum. Sveitafélögin kynna sig yfirleitt sem hluta af Reykjanesinu. Um bergfræðina á Reykjanesinu segir m.a.:
“Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.”

Reykjanes

Reykjanes – kort.

Þá segir um Reykjanes: “Jarðskjálftar tíðir. Fjögur til fimm söguleg gos á Reykjanesi á tímabilinu 875 – 1340 og hraun u.þ.b. 16 talsins. Hraun við Hlíðarvatn frá 1340. Ögmundarhraun frá 1150. Hraun efst í Heiðmörk og Í Bláfjöllum u.þ.b. 1000 ára. Svínahraun gæti verið kristintökuhraunið frá 1000. Svartahraun við Bláa lónið frá 1226. Kapelluhraun frá 1150. Afstapahraun frá sögulegum tíma. Stampahraun og Arnarseturshraun frá 1226. Búrfellshraun er ca. 7200 ára (C14), gæti verið eitthvað yngra vegna skekkjuvalds C14 aðferðarinnar, sem er óþekktur. Kapellu- eða Nýjahraun rann á fyrri hluta 11. aldar (1010-1020). Heilög Barbara, verndari ferðamanna, jarðfræðinga og málmbræðslumanna. Lindir austan álvers gáfu Straumsvík nafn (nú listamannamiðstöð). Einnig miklar lindir austan Straumsvíkur. Hrútagjárdyngjuhraun ná frá Hvaleyrarholti að Vatnsleysuströnd (Vatnsleysuvík). Þar taka við Þráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefndt Arnstapahraun. Eldra Hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því).

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára).

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Þráinsskjöldur er bunga austan Fagradalsfjalls (9000-10000 ára). Erfitt er að ákveða hvenær kuldaskeiði lauk hér, áætlað fyrir 9000-10000 árum.
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Stöðugar og hægfara hreyfingar hafa valdið miklum sprungum í þeim. Nýrri hraun ofan á fela líka eldri sprungur. Vogar (áður Kvíguvogar) og Vogastapi (Kvíguvogastapi; grágrýti). Stakksvogur á milli. Misgengi sunnan vegar við Vogastapa, Grímshóll með vörðu (75m). Lábarið grjót alls staðar meðfram vegi um Vogastapa. Vogastapi og Miðnesheiði eru gamlar dyngjur. Keflavíkurflugvöllur er á dyngju. Sandfellshæð er dyngja.
Stapafell myndaðist undir ís eða í sjó.

Reykjanes

Reykjanes – kort.

Arnarseturshraun (apal) er á leiðinni til Grindavíkur. Það er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík. Grindavík fær neyzluvatn frá Svartsengi en fékk áður 12°C heitt vatn, sem hafði flest einkenni hitaveituvatns. Sandey í Þingvallavatni er u.þ.b. 2000 ára. Leitarhraun, þar sem Raufarhólshelli er að finna, er u.þ.b. 4800 ára.”
Þarna er Reykjanesið teygt alla leið til Þingvalla, sem er reyndar það lengsta, sem tekist hefur að koma því hingað til.
Á nat. is er Reykjanesið sagt vera “yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri.”

Reykjanes

Reykjanes – kort.

Á nat.is eru taldir upp áhugaverðir staðir á Reykjanesi. Þar eru nefndir staðir frá Reykjanesvita upp í Brennisteinsfjöll og allt þar á milli, s.s. Selatangar, Þráinsskjöldur, Keilir og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Silungsveiði er sögð góð í vötnum á Reykjanesi, s.s. í Djúpavatni, Hlíðarvatni og Kleifarvatni. Söfn eru sögð nokkur, þ.á.m. Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Ljóst má af framangreindu að hin almenna túlkun á Reykjanesinu nær langt út fyrir Reykjanestána. Segja má að nú orðið sé svæðið vestan höfuðborgarinnar jafnan nefnt Reykjanes eða Reykjanesskagi í daglegu tali.
Reykjavík varð samheiti yfir alla byggðina ofan lítillar víkur, sem nú er horfin. Reykjanesbær varð samheiti yfir Keflavík, Njarðvíkur og Hafnir. Svona mætti lengi telja.
Mikilvægt er að aðilar noti Reykjaneshugtakið á sem jákvæðastan hátt þannig að sem best nýting megi verða á því sem flestum til hagsbóta.

Reykjanesskagi

Reykjanesskaginn.

Sogin

Hér á vefsíðunni má m.a. sjá ljósmyndir og uppdrætti af áhugaverðum svæðum Reykjanesskagans, fyrrum landnámi Ingólfs frá 874, hvort sem um er að ræða umhverfi eða minjar. Þá má t.d. sjá myndir af eldgosunum árin 2021, 2022 og 2023 í og við Fagradalsfjall. Eina sem áhugasamir/áhugasöm þurfa að gera er annað hvort að fara inn á flipann “Myndir” hér að ofan eða skrifa viðkomandi heiti í leitargluggann (stækkunarglerið).
Njótið…

Húshólmi

Skálatóft við Húshólma.

Reykjanesskagi

Þann 27. apríl 2023 skrifaði Ásgeir Eiríksson áhugaverða grein á vefsíðu Víkurfrétta (Vf.is) undir fyrirsögninni “Reykjanes eða Reykjanesskagi“. Innihald og niðurstaða greinarinnar á erindi til allra er vilja eða hafa áhuga á að tjá sig réttilega um örnefni á Skaganum, en á það hefur verulega skort, ekki síst hjá sveitarstjórnarfólki, löggæsluyfirvöldum og fréttafólki einstakra fjölmiðla.

Ásgeir Eiríksson

Ásgeir Eiríksson.

“Ég er fæddur árið 1957. Í minni æsku var ekkert vafamál hvenær maður væri staddur á Reykjanesi og hvenær ekki. Að minnsta kosti var maður ekki í vafa þegar maður var staddur við Reykjanesvita að maður væri staddur úti á Reykjanesi. Hversu langt í norður og hversu langt í austur Reykjanesið nær var svo aftur meira vafamál. Ég starfaði í nokkra áratugi við sýslumannsembættið í Keflavík og hafði mikinn áhuga á landamerkjamálum. Rétt staðsetning örnefna skiptir þar sköpum en flest hafa þau verið búin til fyrir mörg hundruðum ára og koma fyrir í fornritunum. Það eru því hrein skemmdarverk á söguarfi þjóðarinnar að færa til örnefni eða breyta þeim á einhvern hátt þannig að henti hégómagirnd einhvers eða leti til að kynna sér rétt örnefni. Enn verra er að halda fram röngu örnefni gegn betri vitund.

Reykjanes

Reykjanes á Reykjanesskaga – kort 1952.

Örnefnið Reykjanes kemur nokkrum sinnum fyrir í Landnámu og segir þar um komu Hrafna-Flóka sunnan með landinu:
„Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið. En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnsföll stór.““

Hrafna-Flóki hefur sennilega ekki gefið nesinu nafnið Reykjanes en þegar Landnáma er skrifuð á fyrri hluta 12. aldar þá hefur nesinu verið gefið nafn. Af lýsingunni á siglingu Hrafna-Flóka mætti dæma að Reykjanesið næði allt til enda Garðskaga.

Reykjanes

Reykjanes.

Nafngiftin Reykjanes getur ekki verið dregin af öðrum stað en jarðhitasvæðinu á Reykjanesi sem hefur verið all sérstakt tilsýndar hjá mönnum sem sjaldan eða aldrei höfðu séð gufu frá jarðhitasvæði. Eftir stutta siglingu frá Reykjanesi hafa þeir séð Snæfellsjökul, ef bjart hefur verið yfir, a.m.k. þegar nær dró Sandgerði og mynni Faxaflóans opnast þegar þeir koma fyrir Garðskaga.

Á Vísindavefnum er ágæt umfjöllun um örnefna-ruglinginn undir heitinu „Er Reykjanes sama og Suðurnes?“ Þar segir m.a. í grein Svavars Sigmundssonar, fyrrverandi forstöðumanns Örnefnastofnunar:

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

„Áður fyrr var skýr munur á Reykjanesi og Suðurnesjum. Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica (um 1700). Hann segir um Reykjanes:

„Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (svo heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi.““

Árni Magnússon og Páll Vídalín gáfu út jarðabók og manntal á árunum 1702–1714 þar sem lýst er íbúum, ástandi, og búpeningi á flestum jörðum á landinu. Auk þess bjargaði hann sögu þjóðarinnar og flutti til Kaupmannahafnar í þokkalega geymslu að hann hélt. Ella hefðum við sennilega notað fornritin í vettlinga og sokka.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Reykjanesskagi er þakinn stórum hraunum og erfitt að tilgreina nákvæmlega hvar þetta eða hitt örnefnið er. Nokkrir áhugamenn hafa unnið þrekvirki í söfnun örefna og við staðsetningu þeirra. Vilhjálmur Hinrik Ívarsson frá Merkinesi safnaði örnefnum í Hafnahreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir gaf út bókina Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi og Ómar Smári Ármannsson heldur úti hinum stórmerka vef ferlir.is. Aðrir merkir menn hafa einnig haldið örnefnasögu Reykjanesskagans á lofti svo sem landeigendur og ýmsir fræðimenn.

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti. Stundum er örnefnið ritað “Krísuvík”, sem rangnefni.

Íbúar þéttbýlisins nota örnefni ekki síður, t.d. með því að tilgreina staði með götuheitum, en það er auðvitað mun auðveldara þar sem götuheitisskilti eru við hver gatnamót. Yrði einhver sáttur við að götuskilti í Keflavík yrði fært á einhverja aðra götu? Hafnargatan héti Hringbraut og Hringbraut héti Tjarnargata?

Örnefni skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið. Þau voru meðal annars notuð hér áður fyrr til að staðsetja menn og dýr og til að tilgreina landamerki á milli jarða o.s.frv. Örnefni á landi voru ómissandi fyrir sjómenn til að staðsetja góð fiskimið.

Keflavík

Í Keflavík – neðan Krýsuvíkurhrauns.

Enn þann dag í dag notum við örnefni til að staðsetja okkur og aðra og í ýmsum tilgangi. Í árdaga Neyðarlínunnar kom beiðni um aðstoð frá manneskju sem stödd var í Breiðholti án þess að tilgreina það nánar. Aðstoðin var send í Breiðholtið sem allir þekkja en viðkomandi var staddur í Breiðholti á Akureyri. Sama örnefnið getur verið til víða á landinu, t.d. Reykjanes og Keflavík. Mikilvægt er að allir séu sammála um hver staðsetning örnefnisins er í grófum dráttum til að ekki skapist ruglingur.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi. Reykjanesviti er réttnefndur á “Reykjanesi”.

Ef ég kalla eftir aðstoð lögreglu eða sjúkrabíls og er staddur á eða við veginn milli Grindavíkur og Hafnahrepps hins forna þá myndi ég líklega segjast vera úti á Reykjanesi. Þetta er hinn almenni skilningur flestra Suðurnesjamanna og Grindvíkinga á örnefninu Reykjanes að ég tel (margir Grindvíkingar telja sig ekki til Suðurnesjamanna og sá skilningur er virtur hér). Ef ég er austan Grindavíkur eða í Sandgerði, Garði eða á Vatnsleysuströnd dytti mér ekki í hug að tilgreina staðsetninguna Reykjanes. Ég skrapp nýlega út á Reykjanes og við Hafnir sló ég inn orðinu „Reykjanes“ í Google maps. Forritið vildi leiða mig áfram út á Reykjanes og halda þaðan í vestur til Grindavíkur og þaðan áfram að bifreiðastæðunum þar sem gengið er að gosstöðvunum! Hver ber ábyrgð á þessu?

Hafnarfjörður

Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

En hvenær byrjaði þessi örnefnaruglingur? Sumir telja að ruglingurinn hafi hafist þegar Reykjaneskjördæmi varð til árið 1959 (ferlir.is) og ekki hefur Reykjanesbrautin (1964) bætt úr þessum nafnaruglingi, né heldur þegar sameinað sveitarfélag tók upp nafnið Reykjanesbær. Sumir töldu ímynd okkar Suðurnesjamanna ekki upp á marga á þessum tíma og þótti ráðlegt að skipta um nafn á svæðinu og vonað að það bætti ímyndina. Við bjuggum því ekki lengur á Suðurnesjum heldur á Reykjanesi. Við vorum Reyknesingar en ekki Keflvíkingar, Njarðvíkingar eða Hafnamenn. Vitleysan heldur svo áfram og hver nefndin og stofnunin fær heitið Reykjanes þetta og hitt. Ein þessara nefnda eða stofnunar er Markaðsstofa Reykjaness sem rekur vefinn með útlenska heitinu visitreykjanes.is. Stofan er rekin af sveitarfélögum á Suðurnesjum og Grindavík og þar eru mætir menn í stjórn. Vefurinn veitir margar góðar upplýsingar um hvað er að sjá og hvers er njóta á Reykjanesskaga en sá meinbugur er á að staðir eru tilgreindir á Reykjanesi en eru í raun langt þar frá.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir. Ekkert þessa er á Reykjanesi.

Eldgosið í Meradölum er t.d. sagt vera á Reykjanesi. Ekki held ég að sá mæti maður, Sigurður heitinn Gíslason, bóndi á Hrauni í Grindavík, myndi segja að fjöllin hans og dalir væru úti á Reykjanesi.

En hvað er til ráða? Eigum við að láta þetta yfir okkur ganga og eftir nokkra áratugi hefur örnefnið Reykjanes allt aðra merkingu en hjá flestum Suðurnesjamönnum og Grindvíkingum í dag? Mitt álit er að við eigum að snúa þessari öfugþróun við og sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og í Grindavík hafa hér mikilvægu hlutverki að gegna. Ritstjórn Víkurfrétta gæti leitt þá baráttu með því að leiðrétta örnefnaruglinginn í blaði sínu.” – Ásgeir Eiríksson, Heimavöllum 13, Keflavík.

Heimild:
-https://www.vf.is/adsent/reykjanes-eda-reykjanesskagi – Reykjanes eða Reykjanesskagi?, Ásgeir Eiríksson, fimmtudagur 27. apríl 2023.

Reykjanesskagi

Raykjanesskagi – loftmynd.

Reykkjanes
Eftirfarandi frétt birtist á MBL.is fimmtudaginn 22. júlí 2004:
“Fjöldi smáskjálfta á Reykjanesi”.
Reykjanes

Jarðfræði Reykjaness.

Jarðskjálftahrinan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga heldur áfram. Eftir að hrinan náði hámarki í gær milli klukkan 14 og 16 minnkaði virknin fram til kl. 21 en þá jókst virknin aftur og náði hámarki á milli klukkan 2 og 3 í nótt. Á tímabilinu milli klukkan 1 og 4 í nótt mældust að jafnaði fleiri en 1 skjálfti á mínútu, að sögn Veðurstofunnar. Í morgun á milli klukkan 9 og 10 var virknin komin niður í 8 mælda skjálfta á klukkutíma, en eftir 10 virðist virknin vera að aukast aftur.”Við þetta má bæta að Fagradalsfjall er á einni af misgengisreinunum er ganga í gegnum Reykjanesskagann. Hver rein er virk í um 300 ár, en virknin liggur síðan niðri þess á milli.

Stampar

Stampagígaröðin.

Langar gígaraðir hafa myndast á reinunum, s.s. Stamparnir (4 gos), Eldvörpin, Sundhnúkarnir, Eldborgirnar, Vesturásagígaröðin, Brennisteinsfjöllin o.fl. Reinarnar eru að gliðna (um 1 cm að jafnaði á ári) og má t.d. sjá þess glögg merki í heiðinni ofan við Voga og einnig á Þingvöllum. Jörðin lyftist og hnígur. Gjárnar og misgengin bera þess einnig augljós merki. Misgengin má t.d. sjá þvert í gegnum Þorbjarnarfellið og á Hábjalla í Vogum, í sunnanverðu Helgafelli og víðar. Undirbergið (jarðskorpan) flýtur stöðugt niður í möttulinn á flekaskilum og verður að kviku, sem leitar á ný upp á yfirborðið. Möttulstrókur undir Vatnajökli heldur t.a.m. Íslandi á floti og viðheldur því. Þetta er lögmál jarðarinnar og gerist allt saman á lengri tíma en lifandi maður fær skynjað. Upphafið að sköpun alheimsins, eins og við þekkjum hann, er talið hafa átt sér stað með Miklahvelli fyrir 17 milljörðum ára. Síðan hefur þróunin haldið áfram og svo mun verða meðan tíminn verður til.

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforingjaráðskorti 1906.

Nyrst í Fagradalsfjalli er fallegur þverskorinn gígur. Víða í því eru ummerki eftir eldsumbrot og jarðskorpuhreyfingar. Stóri Hrútur og Kistufell er ágæt dæmi um umbrotin. Fjallið sjálft er geysilegur massi, sem mikla krafta þarf til að færa til. En þegar það gerist verða óneitanlega nokkur læti er vekja athygli, a.m.k. þeirra sem ekki hafa fengið tækifæri til að stíga ölduna. Umhverfis Fagradalsfjall eru fallegir eldgígar, s.s. Sundhnúkarnir og Vatnsheiðin, sem er gömul dyngja. Grindavík stendur t.d. á hrauni, sem kom upp úr þessum gígum fyrir nokkur þúsund árum. Þannig hefur mannfólkið hagnýtt sér þær hagstæðu aðstæður er sjóútrunnið hraunið hefur skapað með ströndum svæðisins. Fegurð þess er einstök (þá eru ekki talin með svæði, sem maðurinn hefur aflagað, t.d. með efnistöku); fallegir hraungígar, langar hrauntraðir, hellar og rásir, skjól fyrir gróður, dýr og menn, fjöll og dalir.

Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Þrátt fyrir að einstaka hraun sé umfangsmikið, s.s. Skógfellshraun og Arnarseturshraun, að ekki sé talað um Sandfellshæðina (sem reyndar er dyngja) þá hafa flest gosin á svæðinu gefið af sér lítil og nett hraun – og fagra gíga.
Jarðskjálftar á svæðinu geta gefið þrennt til kynna; 1. bólgan hjaðnar og ekkert sérstakt gerist, 2. gliðnun verður með tilheyrandi lokaskjálfta eða 3. hraun rennur úr jörðu.
Hæfilegar áhyggjur af hugsanlegu gosi eru sjálfsagðar, en ólíklegt er að það raski byggð miðað við legu hæða á þessu svæði (færi þó eftir hvar það kæmi upp).

Fagridalur

Í Fagradal.

Hraungos í eða í námunda við Fagradalsfjall myndi stefna til sjávar austan Grindavíkur (eða í versta falli áleiðis niður í Voga). Meiri áhyggjur þyrfti að hafa af því að birgðir verslana bæjarins myndu þrjóta þegar túrhestarnir kæmu í bæinn í löngum röðum með það fyrir augum að reyna að komast sem næst hraunstraumnum. Þá þurfa yfirvöld að vera snör í snúningum og setja upp alkunn varúðarskilti á völdum stöðum – “Ekki snetra”.
Rétt er að minna á að öll gos á Reykjanesi síðustu aldirnar hafa orðið úti fyrir ströndum þess.
FERLIR er búinn að skrá og mynda allar minjar nálægt Fagradalsfjalli svo til verða heimildir um það sem var – ef svo illa færi.
Frábært veður.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli. Nú er umhverfið þar breytt.

Litla-Botnssel

FERLIR hefur löngum fjallað um seljabúskap á Reykjanesskaganum – m.a. lýst öllum 401 seljunum, sem þar er að finna, gerð þeirra og sérstöðu, aldri m.t.t. heimilda o.s.frv.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í riti Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 131 skrifar Bjarni Guðmundsson um seljabúskap, bæði út frá staðbundinni athugun hans á seljum í Dýrafirði sem og almenn út frá sögum og sögnum. Þar segir m.a.:

„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“

Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum. Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga. Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi “Mig dreymir við hrunið heiðarsel”:

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Mig dreymir við hrunið heiðarsel: heyri ég söng gegnum opnar dyr, laufþyt á auðum lágum mel? Líf manns streymir fram, tíminn er kyr. Allt sem var lifað og allt sem hvarf er, það sem verður dvelur fjær ónuminn heimur, hulið starf; hús þessa dags stóð reist í gær.

Við göngum í dimmu við litföl log í ljósi sem geymir um eilífð hvað sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug framhjá er enn á sama stað. Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
Seljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu. Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi. Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars
Reinton um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: “Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden)”.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða. Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða. Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Cabouret benti á að það var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 191912 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur en úr þeim síðari til dæmis verk Eyfirðingsins Hólmgeirs Þorsteinssonar og Skaftfellingsins Einars H. Einarssonar. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum. Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Höfundur Laxdæla sögu notar heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar. Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:

Úr Grágás (tölur vísa til blaðsíðu)

20: Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur . . .

319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.

320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók.

Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .

330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.

Úr Jónsbók (tölur vísa til blaðsíðu):

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum. . .

147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.

En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.

186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]

Arasel

Ara(hnúka)sel – uppdráttur ÓSÁ.

186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] . . . Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er.”

Á vef HÍ 2020 má lesa eftirfarandi frétt:
“Flest þekkjum við og höfum sungið þetta kvæði Sveinbjarnar Egilssonar, fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík. Kvæðið vísar til horfins tíma á Íslandi, tíma þar sem kindur og kýr voru reknar á afskekkta staði fjarri bóndabæjum, í svokölluð sel, yfir sumartímann. Þar voru dýrin á beit og smalar eða vinnukonur höfðu það hlutverk að mjólka skepnurnar og hirða um þær.

Seljabúskapur tíðkaðist á Íslandi frá landnámi og fram á 19. öld líkt og víða í Evrópu. Þess konar búskapur er viðfangsefni Árna Daníels Júlíussonar, sérfræðings hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, og erlendra samsstarfsfélaga hans í rannsóknarverkefninu PECUS sem hlotið hefur styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

„Markmið PECUS-verkefnisins er tvíþætt: Annars vegar er viðfangsefni og hins vegar aðferð sem beitt verður til að fást við það. Viðfangsefnið er seljabúskapur í löndum Evrópu. Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“ og felst í að nota tölvuforrit til að greina og bera saman seljabúskap í löndunum fimm. Unnið verður með ókeypis forrit að svokallaðri „huglægri líkanagerð“ (e. mental modelling) með hin ýmsu seljakerfi sem viðfangsefni,“ útskýrir Árni Daníel sem hefur sérhæft sig í sögu íslenska bændasamfélagsins í rannsóknum sínum.

Nemendur og kennarar starfa saman að verkefninu

Lónakotssel

Lónakotssel.

Árni Daníel segir að frumkvæðið að rannsóknarverkefninu hafi komið frá Ítalíu, frá stofnun sem hefur sinnt ýmsum samevrópskum verkefnum á sviði skipulagsmála, landfræði og sögulegrar landfræði og nefnist U-space. Fulltrúar hennar hafi haft samband við rannsóknasamfélög í Grikklandi, Spáni, Bretlandi og Íslandi og leitað samstarfs og byggður hafi verið upp verkefnishópur.

Verkefnið hófst síðastliðið haust og stendur í tvö ár. „Hugmyndin er að fá kennara og nemendur til samstarfs í verkefninu. Nokkur námskeið og ráðstefnur verða haldin, í Newcastle á Englandi og Valencia og Sevilla á Spáni, og þangað verður kennurum og nemendum úr viðkomandi háskólum boðið til að vinna með viðfangsefni verkefnisins,“ segir Árni Daníel.

Hamrasel

Hamrasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“.

Seljabúskap hnignaði eftir Stórubólu
Ritaðar heimildir um seljabúskap er að sögn Árna Daníels að finna í íslenska fornbréfasafninu og víða í fornritum, eins Íslendingasögum og öðrum sögum. Þá megi finna ýmislegt um síðari alda seljabúskap mjög víða í ritheimildum og bendir Árni Daníel sérstaklega á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem gefi mjög nákvæmt yfirlit um ástandið í upphafi 18. aldar.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Hins vegar segir hann að seljabúskapur á Íslandi sé lítt rannsakaður. „Þó hefur ýmislegt komið í ljós um seljabúskap fyrr á tímum við fornleifaskráningu á síðustu áratugum og til er þýskt doktorsrit um seljabúskap á Íslandi frá 1979. Fornleifaskráning leiðir í ljós að seljabúskapur var miklu mun útbreiddari fyrr á öldum en t.d. 1702-1714 þegar miklar heimildir um seljabúskap voru skráðar í Jarðabók Árna og Páls. Við Eyjafjörð hefur komið í ljós að sel var nánast við hvert lögbýli til forna en þegar Jarðabókin var tekin hafði seljunum fækkað mjög mikið. Aðeins voru fá sel eftir í sýslunni miðað við það sem verið hafði. Svo er ekki vitað á hvaða tíma þessi sel störfuðu, hvort það var um skamman tíma eftir landnám eða hvort það var allar miðaldir. Þetta er mjög spennandi viðfangsefni sem vonandi verður unnt að ræða innan ramma þessa verkefnis,“ segir hann enn fremur.

Mjóanessel

Mjóanessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekkert er vitað um hvort íslenskum seljabúskap hafi svipað eitthvað til sams konar búskapar við Miðjarðarhaf en sá íslenski á rætur sínar að rekja til Noregs. „Norskur seljabúskapur er ekkert sérlega gamall í samhengi landbúnaðarsögunnar. Hann hófst þegar farið var að nýta land betur, að líkindum vegna aukinnar fólksfjölgunar um 200–300 e.Kr. Það kerfi var síðan flutt nær óbreytt hingað til lands en það liggur s.s. nær ekkert fyrir um það hversu lengi því var haldið við. Egon Hitzler gerir í doktorsritgerð sinni frá 1979 ráð fyrir að seljabúskap hafi hnignað eftir plágur 15. aldar og greinilegt er að seljabúskap hnignaði mjög eftir Stórubólu 1707. Þar var frekar um að ræða aðlögun að aðstæðum en hnignun því gróðurlendi á hvern íbúa er það mikið hér á landi að í rauninni var ekki þörf á seljabúskap eins og hann var stundaður í Noregi þar sem gróðurlendi er minna á hvern íbúa og þörf á að þaulnýta allan gróður,“ bendir Árni á.

Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við Miðjarðarhafssvæðið
Aðspurður segist Árni Daníel vona að verkefnið skili þekkingu á og færni í nýrri aðferðafræði í félags- og hugvísindum, sem hægt er að nota á breiðu sviði, ekki einungis í tengslum við seljabúskap. „Mikilvægt er þó að fjalla um og búa til gagnagrunn um rannsóknir og þekkingu á seljabúskap hérlendis sem gæti nýst til rannsókna á því sviði.”

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Alþjóðlegt samstarf verður sífellst stærri þáttur í starfi fræðimanna Háskólans sem skilar í senn nýjum hugmyndum inn í íslenskt vísindasamfélag og nýrri þekkingu og vinnuaðferðum innan fræðigreina eða í tengslum við afmörkuð viðfangsefni. „Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við lönd sem eru ekki svo nálægt okkur og tilheyra öðru svæði Evrópu, Miðjarðarhafssvæðinu. Nýjar aðferðir í akademískri vinnu eru alltaf velkomnar og mikil nauðsyn er á að kanna betur seljabúskap hér á landi”, segir Árni Daníel að endingu.”
Ástæða er til að vekja athygli á að “hnignun seljabúskapar í kjölfar farsótta fyrr á öldum” verður að teljast eðlileg í ljósi aðstæðna á hverjum tíma. Hins vegar munu breyttir búskaparhættir hafa haft mun meiri áhrif en hingað til hefur verið gert ráð fyrir.

Á vef Fornleifastofnunar Íslands 6. desember 2022 má lesa eftirfarandi:

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

“Í ár styrkti Rannís verkefnið „Þróun seljabúskapar á Íslandi 800-1800“ til þriggja ára. Í rannsókninni verður leitast við að svara spurningum um upphaf og hnignum seljabúskapar hér á landi og kannað hvaða vísbendingar seljabúskapur fyrri alda getur gefið um vist-, félags-, hag- og landbúnaðarkerfi á Íslandi frá 800 til 1800. Til að svara þessum spurningum verða nýtt ýmis verkfæri fornvistfræði, fornleifafræði og sagnfræði og eru aðferðir landsháttafornleifafræði í forgrunni. Sel voru eins konar útstöðvar frá bæjum. Þau voru gjarnan nokkurn spöl frá bæjum, inn til dala eða upp til fjalla og þar voru mjólkandi skepnur voru hafðar yfir sumartíma.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.

Á Íslandi voru vinna í seljum yfirleitt talin til kvennastarfa, a.m.k. á seinni öldum, en víða annars staðar í heiminum voru og eru það gjarnan karlar sem sjá um þessi verk, því þótt seljabúskapur hafi að mestu lagst af á Íslandi á 18.-19. öld er hann enn stundaður víðs vegar í heiminum. Margvíslegar athuganir hafa verið unnar á þessu fyrsta ári rannsókna.”
Framangreindar athuganir virðast ekki hafa skilað sér til áhugasamra um verkefnið.

Heimild:
-https://issuu.com/landbunadarhaskoli_islands/docs/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_lok/s/17199734
-https://www.hi.is/frettir/sameinast_um_ad_rannsaka_seljabuskap_i_evropu
-https://www.facebook.com/people/%C3%9Er%C3%B3un-seljab%C3%BAskapar-%C3%A1-%C3%8Dslandi-Transice/100083391214649/

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

ísólfs

Nútíminn hefur vaxandi áhuga á umhverfi og umhverfisvernd, útivist og ódýrri heilsueflingu, ekki síst nú á tímum hækkandi eldsneytisverðs og kröfu um ráðdeild.

Selatangar

Selatngar – verkhús.

En hvað með söguna, varðveislu og nýtingu hinna áþreifanlegu minja?
Á Reykjanesskaganum býr yfir helmingur Íslendinga, á einu fjölbreyttasta útivistarsvæði landsins, en jafnframt því vannýttasta. Á svæðinu er mikill fjöldi sögulegra minja. Lítill hluti þeirra hefur þó verið skráður og örfáar áhugaverðar minjar hafa beinlínis verið varðveittar með markvissum aðgerðum eða áætlunum um að gera þær aðgengilegar fólki. 

Flestar lýsa minjarnar sögu þjóðarinnar frá upphafi norræns landnáms, stig af stigi, menningu og búskaparháttum liðinna alda, t.a.m. tóttir gamalla bæja, sjóbúðir, sel og selstöður, stekkir, kvíar, nátthagar, hleðslur, fjárborgir og hellar, fjárskjól, þjóðleiðir, mörk og merkingar auk dysja, brunna, flórgólf, naust og varir.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Hvert sem farið er liggur sagan geymd – en ekki öllum gleymd. Ótaldar eru náttúruminjarnar á Reykjanesskagnum, sem margar hverjar eiga hvergi sína líka, svo og umhverfið og náttúrúran sjálf í hraunum, hlíðum, dölum, fjöllum, hálsum og við læki og vötn.
Lítill áhugi virðist hafa verið fyrir því að rannsaka og/eða endurgera minjar á svæðinu svo gera megi söguna aðgengilegri og um leið nýtanlegri.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Allir hafa í raun gott af því að vita af uppruna sínum og fá tækifæri til að gera sér grein fyrir hvar rætur þeirra liggja, hvernig forfeðurnir lifðu og við hvaða aðstæður þeir komust af. Jafnframt hvernig nýta megi arfinn sem best komandi kynslóðum til heilla.

Minjasagan lýsir ekki síst einkennum þjóðarinnar og hvernig hún nýtti landkosti og efni öðruvísi en aðrar þjóðir, hvernig dreifing útvegsbændabyggðarinnar var með ströndum landsins, nýting innlandsins og önnur hagnýting landsgæðanna. Hver var t.a.m. ástæðan fyrir því að landsmenn bjuggu í “moldarhólum” og hlöðnum byrgjum langt fram eftir öldum á meðan fólk víðast hvar annars staðar í Evrópu hafði búið í steinhúsum um árþúsundir?

Flekkuleiði

Flekkuleiði.

Á Reykjanesskaganum er hægt að sjá bæði þróun híbýlanna hér á landi og upphaf steinhúsabygginganna á 19. öldinni – ef vel er að gáð. Fyrsti viti landsins var reistur á Valahnjúk á Reykjanesi og svo mætti lengi telja. Um hann og ótalmargt annað, bæði fyrst og merkilegast, er fjallað á vefsíðu þessari.

Algengara er í seinni tíð að hópar eða jafnvel vinnustaðafélagar taki sig saman og skipuleggi stuttar gönguferðir starfsmanna. Um er að ræða ódýrt en hollt ráð til að bæta heilsu og líðan þeirra, sem hlut eiga að máli, en jafnframt kjörið tækifæri til að kynnast sögu, minjum og umhverfi svæðisins. Stutt er á þau mið sem og allt, sem til þarf. Frá Reykjavík tekur t.a.m. ekki nema innan við stundarfjórðunga að komast á flest áhugaverðustu svæði Reykjanessins.

Garður

Gengið um Garð.

Ástæða er til að hvetja fólk til að hreyfa sig umfram hið venjubundna og að áhugasamt fólki nýti sér nálægðina til að kynna sér hið margvíslega sem umhverfið og svæðið allt hefur upp á að bjóða.

Gönguhópurinn FERLIR hefur nýtt undanfarin misseri til að ganga um einstök svæði á Reykjanesskaganum. Upphaflega var markmiðið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta, en þrátt fyrir tæplega 1260 ferðir, sem að jafnaði hafa tekið 1-5 klst hver, eru enn stór svæði ógengin og óskoðuð.

Keflavík

Í Keflavík.

Hópurinn hefur á ferðum sínum um Reykjanesskagann leitað til fólks, sem fætt er eða uppalið á hinum ýmsu svæðahlutum. Hvarvetna hefur hópnum verið vel tekið og fólk verið ótrúlega áhugasamt og viljugt að miðla af fróðleik sínum og þekkingu. Berlega hefur komið í ljós að þetta fólk býr yfir bæði mikilli og ómetanlegri vitneskju um minjar og sögu staðanna. Þessu fólki fer því miður fækkandi og líklega kemur að því að margt af því, sem vitneskja er um í dag, hverfi með tímanum – nema eitthvað verði að gert til að varðveita það (umfram það ágæta sem þegar hefur verið gert).

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Komið hefur á óvart hversu ótrúlega mikið og margt Reykjanesskagasvæðið, bæði ofan og utan höfuðborgarsvæðisins, hefur upp á að bjóða útivistarfólki eða öðru því fólki, sem nennir að leggja svolítið á sig eða hefur áhuga á að fræðast, hreyfa sig eða skoða sig um.

Í ferðum FERLIRs hefur oft verið um að ræða gönguferðir utan alfararleiða og þá tækifærið verið notað og skoðaðar jarðmyndanir á svæðinu, fjöll, dalir, hæðir og lægðir, hellar, minjar, s.s. sel, fjárskjól og brunnar, nátthagar, gjár, gamlar þjóðleiðir, vötn, námur, hverir, brunnar, flugvélaflök, eldgígar, eldborgir, vitar, hleðslur og skógræktir. Jafnframt hefur verið reynt að setja sig í spor og kynnast lífi fólks og aðstæðum þess á öldum áður.

Festarfjall

FERLIRsfélgar ferðast um neðsta hluta “Festarinnar” undir Festarfjalli.

Sumir staðanna, sem gengið hefur verið á, eru mjög viðkvæmir fyrir átroðningi og því kannski ekki beinlínis æskilegt að hvetja margt fólk til að fara þangað, en ef það er gert þarf ávallt að gæta þess að fara um með varkárni og af tillitssemi. Ósnert náttúran verður æ verðmætari og á nokkurs vafa munu verðmætin margfaldast þegar fram líða stundir.

Til gaman má geta þess að þátttakendur hafa fram að þessu skoðað um fjögur hundruð selstöður á svæðinu frá Hvalfjarðarbotni að Reykjanestá (landnámi Ingólfs), auk allra mannvirkjanna, sem þeim fylgja, s.s. stekkir, kvíar, fjárskjól, gerði, brunnar, vatnsstæði og leiðir, gamlar hlaðnar réttir, um 600 hella og nafngreinda skúta, fjölmargar gamlar leiðir, gamla hlaðna brunna, letursteina og áletranir, vörður, sem tengdar eru einhverjum sögum, um 60 hlaðnar refagildrur, flugvélaflök frá stríðsárunum sem og margt annað er ætti að þykja áhugavert.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Mest um verð er þó sú innsýn, sem þátttakendur hafa öðlast á landssvæðið, breytingar á því í gegnum aldirnar, aðstæður fólksins og dugnað þess við takmarkaða möguleika og erfiðan kost. Þetta fólk á skilið mikla virðingu frá okkur afkomendunum. Mikilvægt er og að láta vitundina um það lifa áfram á meðal þeirra sem eiga að erfa landið – og umgangast með með sómasamlegum hætti.

Eldvörp

Gengið um Eldvörp.

Ferlir

Eftirfarandi er hugmynd, sem fæddist nýlega í einni FERLIRsgöngunni. Hún er áhugaverð, bæði fyrir íbúa höfðuborgarsvæðisins og aðra, en engu að síður fyrir aðila ferðaþjónustunnar á Reykjanesskaganum.

Búrfellsgjá

FERLIRsfélagar í Búrsfellsgjá; Jóhann Davíðsson og Björn Ágúst Einarsson. Ágúst Einarsson.

Hugur felst í að gera eitthvað óhefðbundið, en hagkvæmt í sumafríinu; að breyta íbúðinni tímabundið í sumarbústað og gerast ferðamaður á heimaslóðum, skoða dagblöðin og Netið, sjá hvað er í boði og nýta sér það. Sú athugun kæmi áreiðanlega mörgum á óvart og víst má telja, þótt einhver vildi leggja sig allan fram við að komast yfir sem mest, að hann kæmist hann aldrei yfir allt, sem í boði er. Hægt er að spássera um einstök útivistarsvæði með bakpoka, skoða söfn eða kirkjur, kíkja í búðir (oft töluð útlenska), sóla sig á ströndinni með Cervaza (víða fallegar sandstrandir) eða jafnvel taka fram gönguskóna, útbúa nesti og halda á vit náttúrunnar og sögulegra minja skammt utan við byggðina. Allt er þetta meira og minna ókeypis (nema kannski nestið). Hagnaðinum er hægt að verja til að kaupa eitthvað sérstakt í nágrannabyggðalögunum eða jafnvel nýta í eitthvað þarf síðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Upplandið býður upp á falleg fjöll, dali, strandbjörg, eldborgir og hrauntraðir. Gróður er fjölbreytilegur (um 400 tegundir mosa) og landnemaplöntur á hverju strái.

Með því að skoða FERLIRssíðuna gætu vaknað hugmyndir um ferðir eða leiðir, sem hægt væri að nýta í þessu nýstárlega sumarfríi. Og ekki er verra að geta sofið í rúminu sínu á milli “ferðalaga”.

Til að komast að fallegum og fjölbreytilegum göngusvæðum þarf ekki að aka nema í innan við klukkustund (í mesta lagi) og þess vegna er hægt að nýta daginn vel. Einnig er hægt að breyta til og taka strætisvagn eða rútu á milli svæða eða byggðalaga.
Minna má á að bjart er svo til allan sólarhringinn og því hægt að njóta útiverunnar bæði vel og lengi hverju sinni. Fuglasöngur er ríkjandi, en umferðarniðurinn víkjandi. Og svo er ekkert sem mælir á móti því að setjast bara niður á fallegum stað, njóta umhverfisins og hvílast.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Þeir, sem best þekkja til, segja að á Reykjanesskaganum sé alltaf sól (reyndar er hún stundum á bak við skýin) og syðst á honum komi ferskt ónotað súrefnið fyrst hér að landi í öllum góðum áttum.
Með þessu fyrirkomulagi er hægt að gera góðar áætlanir með stuttum fyrirvara og fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að þær geti gengið eftir.
Njótið sumarsins, afslöppuð og upplýst, í fallegu umhverfi Reykjanesskagans (skrifað árið 2004).

Sogin

Horft yfir Sogin.

Reykjanes

Drepið á örnefni:

Landnám

Landnám á Reykjanesskaga.

“Þegar sagt er í veðurfregnum, að djúp og kröpp lægð sé skammt undan Reykjanesi, vita sjómenn, hvað átt er við, en í máli fréttamanna og ýmissa, sem vilja þó fræða um landið, er Reykjanes alloft allur Reykjanesskagi. Ef menn vilja virða mál sjómanna og hefðbundið mál Suðurnesjamanna, segja þeir ekki, að Keflavík sé á Reykjanesi, heldur á Suðurnesjum, og ekki, að Keilir sé á Reykjanesi, heldur á Reykjanesskaga. Ég kom eitt sinn á bæ á Suðurlandi og var settur við borð með ungri konu af næsta bæ. Hún kvaðst vera frá Reykjanesi. Þetta reyndist vera nákvæm kynning; hún var nefnilega dóttir vitavarðarhjónanna á Reykjanesi. Þar undan er Reykjanesröst, og ekkert lamb að leika við fyrir sjófarendur.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Reykjanes í merkingunni Reykjanesskagi fór að tíðkast, eftir að Reykjaneskjördæmi varð til (það var árið 1959). Þá varð svæði þess umdæmi ýmissar opinberrar starfsemi, einnar af annarri. Ég nefni aðeins dómsmál, þar sem heitið varð Héraðsdómur Reykjaness. Heitið Dómur Reykjaneshéraðs á betur við. Brátt heyrir Reykjaneskjördæmi sögunni til, og mætti það vera tækifæri til að virða betur málfar Suðurnesjamanna í tali um Reykjanes.”

Fjölmiðlafólk fer oft villu vega og tala um Reykjanes þegar fjallað er um Reykjanesskagann. Skaginn nær yfir fyrrum landnám Ingólfs, sem úthlutaði síðan vinum og vandamönnum einstök svæði, þ.a. Herjólfi, sem fékk Reykjanes.
Þá er rétt að geta þess að Suðurnes nær einungis yfir norðvestanverðan Reykjanesskaga, en ekki Skagann allan vestanverðan.

-Björn S. Stefánsson
-http://www.simnet.is/bss/oernefni02.htm

Reykjanes

Reykjanes.