Færslur

Gunnuhver

Í “Íslenskar þjóðsögur og ævintýri” Jóns Árnasonar, sem bókaútgáfan Þjóðsaga gaf út 1954 eru fjórar sögur um Gunnuhver á Reykjanesi:

Gunnuhver

Gunnuhver

Gunnuhver.

Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður bjó á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi; hann dó 1706. Hann átti illt útistandandu við kerlingu eina sem hét Guðrún Önundardóttir, út af potti sem hann átti að hafa tekið af henni, líklega upp í skuld. Kerling tók sér það svo nærri að hún heitaðist við Vilhjálm.
Þegar hún var grafin var Vilhjálmur þar við, en leið hans lá um Skagagnn sem kallaður er fyrir utan Útskála. Hann fór heimleiðis um kvöldið, en fannst daginn eftir dauður á Skagagnum og var þá allur blár og beinbrotinn.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Lík hans var flutt í bænhúsið á Kirkjubóli og Gísli prestur á Útskálum fenginn til að vaka yfir því á næturnar, því allir þóktust vita að Gunna hafði drepið hann og væri nú afturgeingin. Þóktist prestur eiga fullt í fangi að verja líkið fyrir kerlingu að ei drægi hún það úr höndum sér. Afturgangan magnaðist síðan mjög og nú dó ekkja Vilhjálms snögglega; var Gunnu það kennt. Fólk sem fór um Skagann villtist sumt, en sumt varð vitstola. Varð allt af völdum Guðrúnar og sáu menn nú óvætt þenna fullum sjónum. Gjörði þá Gunna skaða mikinn svo ekki var viðvært mönnum né málleysingjum.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Þegar í slíkt óefni var komið og enginn gat stemmt stigu fyrir afturgöngunni, þá voru tveir menn nokkuð kunnandi sendir til fundar við séra Eirík á Vogsósum til að biðja hann hjálpar. En með því prestur var ekki altént vanur að taka slíkum málum greiðlega, þá voru þeir látnir færa honum nokkuð af brennivíni, því allir vissu að honum þókti það gott. Sendimenn fóru nú á fund Eiríks prests og gjörðu allt eins og og fyrir þá var lagt. Tók hann þeim vel, en þegar þeir fóru á stað aftur fékk hann þeim hnoða og sagði að þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á hnoðinu. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún ætti vera að ósekju.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Sneru sendimenn heim við þetta og gjörðu allt sem prestur hafði fyrir þá lagt. En undireins og Gunna hafði tekið í lausa endann á hnoðinu valt það afs tað, en hún fór á eftir. Sást það seinast til hvort tveggja, hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Hefir síðan ekki orðið meint af afturgöngu Gunnu.
Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverabarminum og trítlar hún þannig eintatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfborgin, því hún vill fyrir hvern mun síst fara ofan í vilpu þessa.

Guðrún Önundardóttir

Gunnuhver

Gunnuhver.

Vilhjálmur bjó á Kirkjubóli í Kirkjubólshverfi í Útskálasókn og Snjálaug kona hans. Landseti þeirra var bóndi í Sandhólakoti (nafn hans hefi ég ekki heyrt) og hét kona hans Guðrún Önundardóttir. Þau voru svo fátæk að þau áttu ekkert í landskuldina. Því tók Vilhjálmur pott upp í hana, þann eina sem þau áttu. Þessu varð Gunna Önundardóttir næsta reið, en vann ekkert á, gekk heim að Kirkjubóli og lagðist þar niður á bekk í dyrunum mállaus af reiði. Snjálaug færði henni messuvín. Hún saup á og spýtti síðan framan í Snjálaugu.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Síðan dó kerling og var smíðað utan um hana. Líkmenn báru kistuna á öxlunum eins og þar var þá siður; stundum var hún svo létt sem ekkert væri í henni, en stundum svo þung að þeir roguðu henni varla. Hún var flutt að útskálum og jarðsungin fyrir norðan kirkjuna. En á meðan verið var að moldausa hana sáu þeir sem skyggnir voru hvar hún var milli húsanna og hjá þangkestinum uppi á garði. Erfið eftir hana var haldið á Lambastöðum. Var Vilhjálmi boðið að fylgja honum suður yfir Skagann, en hann vildi ekki. Vilhjálmur var talinn vel tveggja maka maður. Um morguninn eftir fannst hann örendur þar á skaganum beinbrotinn og illa út leikinn.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Eftir þetta var Gunna á gangi þar á Skaganum og um hverfið og villti menn, en gerði ekkert annað til meins. Þá var síra Eiríkur á Vogsósum; var honum sagt af þessu og beðinn úrræða. Hann sendi vinnumann sinn suður og fekk honum hvítan trefil og bað hann rétta Gunnu annan enda; mundi hann hitta hana í bæjardyrunum í Hofi; skyldi hann passa að vera hennar á milli og veggsins svo hún kæmist ekki út um vegginn. Maðurinn fór og hitti hana þar sem síra Eiríkur sagði. En er hún tók í trefilinn rak hún upp hljóð mikið. Teymdi hann hana fram á Reykjanes – að fyrirsögn Eiríks – og að hver einum og sleppti henni þar,og gekk hún þar í kringum hann og sögðu menn hún hefði fallið ofan í hverinn; og er sá hver síðan kallaður Gunnuhver. – Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er.

Reykjanes-Gunna

Gunnuhver

Gunnuhver.

Kona hét Guðrún, nú almennt nefnd Gunna. Hún var ill í skapi og óvinsæl svo enginn vildi hafa hana nærri sér. Því bjó hún í einhýsi á Reykjanesi þar sem heitir í Grænutóft. Böndi í Höfnum hafði léð henni pott einn vetur og fór um vorið að sækja hann.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Gunna skammyrti bónda, en slepti ekki pottinum og fór bóndi heim svo búinn. Hann þurfti þó á pottinum að halda því enginn gat léð honum pott og fór hann þá aftur til Gunnu, en áður en hann fór bað hann menn að vitja sín ef hann yri lengi. Því var lofað. Bóndi kom ekki heim um kvöldið og var hans leitað um morguninn eftir og fundu hann ekki. Þeir komu að Grænutóft og lá Gunna í bæli sínu og var dauð, helblá og uppblásin. Þeir vöfðu hana rekkjuvoðum og létu hana liggja og fóru aftur. Á heimléiðinni fundu þeir bónda skammt frá veginum drepinn og sundurrifinn. Þar var hjá honum potturinn mölbrotinn. Þeir fluttu lík bónda heim og var hann jarðaður. Kista var smíðuð um Gunnu og var hún flutt í henni frá Grænutóft til Kirkjuvogs, en á leiðinni þóttust sumir sjá hana dansa fyrir líkfylgdinni.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Nú var kistan grafin, en Gunna gekk um allt eins og grár köttur og var engu óhætt fyrir henni. Þá var sent til Eiríks prests á Vogsósum og fékk hann sendimanni trefil og bað hann færa Gunnu og segja henni að þvætta hann. Sendimaður fer og færir Gunnu trefilinn og segir um leið og hann fleygði honum í hana: “Þetta áttu að þvætta”. “Hvur segir það?”, segir Gunna. “Eiríkur á Vogsósum,” segir maðurinn. Henni brá við og sagði: “Ekki var von á verra.” Hún fór strax af stað og að hvernum á Reykjanesi og kastaði enda trefilsins í hann, og varð hann fastur í hvernum, en hinum gat hún ekki sleppt og genur síðan kringum hverinn og er nú búin að ganga sig upp að knjám, segja menn. Nú á dögum er hverinn kallaður Gunnuhver.

Önundar-Gunnar

Gunnuhver

Gunnuhver.

Guðrún hefur kona heitið og mun hafa verið ekkja er þessi frásaga gjörðist. Hún mun hafa búið einhvörsstaðar suður með sjó, í Garðinum eða þar nálægt. Kort hét maður er búið hefur einhvörstaðar þar á Suðurnesjum; hann átti jörðina sem Guðrún bjó á.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Guðrún var heldur fátæk en rík og þó ekki betri til útláta en efna. kort var maður örlyndur og frjálslegur, nokkuð harður í lund, en fékk þó fremur gott orð. En Guðrún var almennt kölluð skaphörð og mjög óvinsæl. Svo var sagt að hún hafi verið almennt nefnd Önundar-Gunna (en af hvaða Önundi hún hafi tekið það nafn eða hvört það hefur verið maður hennar vita menn ekki) og með því nafni var hún alþekkt. Svo fóru skipti þeirra Korst og Önundar-Gunnu að hún galt ekki með skilum eftir ábúðarjörð sína, en Kort þoldi það illa og svo kom loks að Kort tók með kappi jarðargjald sitt. Eitthvört sinn tók hann pott af Gunnu, en hún vildi ekki láta hann lausan, en þó er þess ekki getið að hún hafi viljað láta annað af heni í hans stað; því tók Kort pottinn hvað sem Gunna sagði. En það fékk henni svo mikils að það dró henni snögglega til dauða.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Svo er sagt að þegar gunna var grafin þá hafi hún sést á gangi og verið að gægjast fram úr húsasundunum, og hafi hún þá ávarpað þá sem voru að taka gröfina með þessum orðum: “Ekki þarf djúpt að grafa því ekki á lengi að liggja”.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Efrisdrykkja skal hafa verið haldin eftir Gunnu og er svo sgat að Kort hafi verið einn meða borðsgesta, en er fólk fór að fara vildu menn að Kort færi ekki einn, því menn hugðu Gunna mundi vilja vitja hans og er þess þó getið að Kort hafi verið hið mesta karlmenni. Varð þá Kort samferða einhvörjum boðsmanni þar til hann átti allskammt heim til sín; var þá komin dimma og bauð maðurinn honum að fylgja honum alla leiðina heim, en Kort vildi ekki. Kort kom eigi heim um nóttina, en að morgni var hans leitað.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Sáust þá augljós merki til að Gunna hafi hitt hann þegar maðurinn var nýskilinn við hann. En það þóktust menn sjá að þau höfðu glímt fjarska lengi og loks fannst kort dauður og mjög illa útleikinn.

Eftir þetta gerði Gunna ýmsar óspektir svo eigi leið á löngu að maður var sendur til séra Eiríks á Vogsósum og skyldi hann biðja prest að sjá fyrir Gunnu. Prestur tók því vel og kvað nauðsyn til að bera að ráða bót á slíku. Bað hann þá sendimann bíða litla stund, fór inn og kom innan skamms aftur; fékk hann þá sendimanni hvítan trefil langan og var pappírsmiði festur á annan endann.

Sagði prestur svo fyrir að maðurinn skyldi rétta seðilinn að Gunnu; kvað hann Gunnu mundu við honum taka og skyldi hann síðan teyma hana á treflinum að hver þeim sér á Reykjanesi og sleppa þar. Kvað hann eigi mundi meira við þurfa.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Síðan fór sendimaður, fékk sér menn til fylgdar, færði Gunnu seðilinn og tók hún strax við, en mælti um leið og hún leit á: “Á helvíti átti ég von, en ekki þessu.” Var hún síðan leidd þangað sem ákveðið var; varð hún þar eftir æpandi og stökk einart kringum hverinn, dró eftir sér trefilinn, en hélt á seðlinum og komst aldrei burt þaðan, og þóktust margir menn sjá hana þannig á hlaupum kringum hverinn lengi síðar og sumur bættu því við að hún væri búin að ganga sig upp að knjánum.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, 3. bindi 1955, safnað hefur Jón Árnason III, nýtt safn; Bókaútgáfan Þjóðsaga 1954, bls. 508-510.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Reykjanesviti

Í Morgunblaðið 2003 ritaði Kristján Sveinsson, sagnfræðingur, um “Fyrsta vitann á Íslandi”:

Reykjanesviti

Reykjanesviti og vitavarðahúsið 1908.

“Um þessar mundir [2003] eru liðin 125 ár frá því að fyrst var tendrað vitaljós á Valahnúk á Reykjanesi. Kristján Sveinsson segir frá tildrögum vitabyggingarinnar, fyrsta vitanum og fólki sem við þessa sögu kom.

Næturmyrkrið lagðist yfir Reykjanesið og Valahnúkinn um nónbilið 1. desember 1878. Eins og um aldir og árþúsundir rökkvaði og kennileiti landsins máðust smám saman út í samfelldan sorta. En þetta var tímamótadagur á Reykjanesinu og þótt það væri ekkert um veisluhöld eða tilhald á Valahnúknum, svo langt sem hann nú var frá öllum byggðum bólum, hefur áreiðanlega verið hátíðarsvipur á Arnbirni Ólafssyni vitaverði einni klukkustund eftir sólarlag þegar hann stóð í ljóshúsi hins nýbyggða Reykjanesvita og kveikti á olíulömpunum 15 í ljóstæki hans, hverjum á eftir öðrum, því þetta var vígsludagur vitans og formlegt upphaf vitaþjónustu á Íslandi.

Íslensk síðþróun í vitamálum

Reykjanes

Reykjanes.

Vitar höfðu logað árhundruðum saman á ströndum Evrópulanda þegar Reykjanesvitinn var byggður og hvernig stóð á þessu seinlæti í vitamálum hinnar norðlægu eyjar?
Jú, landið var afskekkt, strjálbýlt og fámennt, efnahagur íbúanna oftast ekki ýkja beysinn og atvinnuhættir fábreyttir og frumstæðir. Þessar skýringar hafa oft heyrst og sést áður í mati á fortíðinni, jafnvel svo oft að þær hljóma gjarnan sem klisja, en hvað vitana áhrærir eru ekki aðrar nærtækari.

Reykjanesviti

Brunnur undir Bæjarfelli.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hversvegna stjórnvöld í Danmörku höfðu ekki frumkvæði að vitabyggingum á Íslandi því Danir voru meðal fremstu vitaþjóða í Evrópu. En áhrif og atbeini danskra stjórnvalda hér á landi voru í raun ætíð takmörkuð og það átti við á þessu sviði einnig. Og auk þess hafði stjórn danska ríkisins um langt skeið þá stefnu að byggja ekki vita fyrir almannafé annars staðar en þar sem þeir þjónuðu almennri skipaumferð og leit þá einkum til hinna fjölförnu skipaleiða um sund og belti við Danmörku.

Reykjanesviti

Upplýsingaskilti við Valahnúk.

Sveitarfélög í Danaveldi urðu að standa straum af innsiglingar- og hafnarvitum og vitum sem einkum komu fiskimönnum að notum. Það sem skýrir byggingu elsta Reykjanesvitans árið 1878 eru kröfur Íslendinga um siglingar millilandaskipa að vetrarlagi. Þær áttu sér rætur í því að efnahagur landsmanna fór batnandi á síðari hluta 19. aldar eftir því sem sjávarútvegur efldist og þróaðist og verslun jókst.

Þéttbýlisstaðir fóru að myndast og vaxa við ströndina þar sem þorskurinn í sjónum og krambúðir kaupmanna löðuðu til sín vaðmálsklætt sveitafólkið sem brá sér í skinnklæði sjómanna og sótti golþorska á fiskimiðin sem urðu að gullþorskum og síðan að kaffi, hveiti, silki, sirsi, tóbaki og tölum í krambúðum kaupmannanna. Eitt af meginöflum nútímans komst á kreik – tískan. Það var annað lag á dönsku skónum í ár en í fyrra. Gaberdínið með öðru móti í vor en síðasta haust svo ekki væri nú minnst á slifsin og hattana. Það var alveg orðið ólíðandi að þurfa að þrauka allan veturinn án þess að það kæmi nýr varningur í verslanirnar.

Reykjanesviti

Gata vitavarðar á milli bústaðar og gamla vitans á Valahnúk.

Það voru bæði kaupmenn og viðskiptavinir sammála um. Og það var ekki nóg að endurnýjast hið ytra með skæðum og klæðum. Sálartetrið þurfti líka sína hressingu og endurlífgun. Já, einmitt, fréttir. Umræðuefni. Það gat ekki náð nokkurri átt að það skyldu geta liðið þrír eða fjórir mánuðir án þess að tíðindi bærust utan úr þeim heimi handan úthafsins sem sífellt fleiri Íslendingar höfðu áhuga á. Það lá við að heilu stríðin færu fram hjá fólki og kóngar og keisarar gátu legið dauðir vikum og mánuðum saman áður en hægt var að segja svo mikið sem „jahá“ eða „jamm“ yfir því á Íslandi, hvað þá biðja vesalingnum fararheilla í eilífðina. Nei, það var ekki hægt að þola það lengur í þorpi og bæ að póstskipið sigldi ekki yfir veturinn.

En var þá ekki bara hægt að láta kaupskipin og póstskipið sigla á veturna? Nei. Norður í þetta órofa heimskautamyrkur stefndi enginn heilvita maður skipi.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn.

Jafnvel ekki þótt rausnarlegt endurgjald væri í boði því hvern fýsir að verða skipreika við úfna, illviðrasama, mannauða og koldimma strönd, en á því voru mestar líkur ef lagt var í svona háska töldu skipstjórar og forráðamenn skipafélaga. Þarna norðurfrá var hvergi ljósglætu að sjá og vindgnauðið oftast svo mikið að það heyrðist ekki í brimgarðinum fyrr en rétt áður en komið var í hann. Hvernig á að varast svo fláa strönd? Hvað ef það væri viti, spyrja kaupmenn og póststjórn. Jú, það myndi breyta málinu svara skipstjórar og útgerðarmenn. Þó að það væri ekki nema einn svo það sé í það minnsta hægt að finna þennan Faxaflóa sem flestir fara til þarna uppi.

Vitamál hefjast á Alþingi

Reykjanesviti

Merki Friðriks VIII, á Reykjanesvita.

Með setningu stöðulaganna árið 1871 og stjórnarskránni sem Kristján IX Danakóngur hafði með sér til Íslands í sumarheimsókn sinni árið 1874 fékk Alþingi fjárveitingarvald og gat farið að taka sjálfstæðar ákvarðanir um framkvæmdir í landinu. Fyrsta þingið sem þetta vald hafði kom saman í húsakynnum Lærða skólans í Reykjavík sumarið 1875 og þar hófust íslensk vitamál.
Þetta upphaf fólst á rökréttan hátt í því að tveir þingmenn, þeir Snorri Pálsson þingmaður Eyfirðinga og Halldór Kristján Friðriksson þingmaður Reykjavíkur, fluttu frumvarp til laga um vitagjald þótt enginn væri vitinn. Hinir varfærnu þingmenn vildu með þessu tryggja fjárhagslegan grundvöll vitabyggingar og vitareksturs áður en þeir legðu til að tekist væri á við þau verkefni. Frumvarp þeirra datt raunar upp fyrir á þessu þingi, en varð til þess að farið var að undirbúa byggingu á vita á Reykjanesi.
Vert er að veita þingmönnunum tveimur og bakgrunni þeirra nokkra athygli, en báðir komu þeir af þéttbýlustu svæðum landsins þar sem uppgangur var í sjávarútvegi og verslun.

Reykjanesviti

Hús fyrsta vitavarðarins.

Snorri Pálsson (1840–1883) hafði bæði fengist við verslunarrekstur og útgerð fiskiskipa við Eyjafjörð auk þess sem hann hafði verið forstöðumaður fyrir Siglufjarðardeild „Hins eyfirzka ábyrgðarfélags“ sem var tryggingarfélag fyrir fiskiskip við Eyjafjörð. Snorri var því vel kunnugur því hversu torvelt það var að fá skip til að sigla til Íslands að vetrarlagi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Hann var einnig vel kunnugur hættunum sem fylgdu því að sækja sjóinn við Ísland. Í lok maí 1875, aðeins nokkrum vikum áður en Snorri tók sæti á Alþingi í fyrsta skipti, fórst eitt af hákarlaskipum hans í aftakaveðri sem þá gerði við Norðurland og með því 11 menn. Alls fórust 25 manns úr nágrenni Snorra í þessu veðri, þar á meðal bróðir hans.

Halldór Kristján Friðriksson (1819–1902) var kennari og yfirkennari við Lærða skólann en auk þess bæjarstjórnarmaður í Reykjavík og alþingismaður um langt skeið. Áhugamál hans voru fjölþætt og hann lét víða að sér kveða í félagsmálum, meðal annars var hann lengi forseti „Húss- og bústjórnarfélags suðuramtsins“, en ef að líkum lætur voru það einkum afskipti hans af bæjarmálefnum í Reykjavík sem ollu því að hann gerðist talsmaður vitabygginga því siglingaleysið yfir veturinn stóð orðið atvinnulífi í bænum fyrir þrifum.

Reykjanesvitinn 1878

Reykjanesvit

Reykjanesviti 1878.

Vitagjaldsfrumvarp þeirra Snorra Pálssonar og Halldórs Kr. Friðrikssonar varð til þess að farið var að huga að byggingu vita á Íslandi fyrir alvöru. Ekki er að sjá að komið hafi til álita að reisa fyrsta vita landsins annars staðar en á Reykjanesi, enda komu langflest skip úr hafi upp að suðvesturhorni landsins. Málið var borið undir C.F. Grove, vitamálastjóra Dana, sem lýsti þeirri skoðun sinni að einmitt af fyrrgreindum ástæðum væri mikilvægt að hefja vitavæðingu Íslands á Reykjanesinu.
Alþingismenn reyndust áhugasamir um að byggja vita á Reykjanesi með hliðsjón af hugmyndum danska vitamálastjórans en sameiginlegir sjóðir landsmanna voru rýrir að vöxtum og þekking á vitatækni var engin í landinu. Því var leitað til Dana um aðstoð og það féll í hlut skáldsins Gríms Thomsens, sem var formaður fyrstu fjárlaganefndar Alþingis, að greiða úr álitamálum í samskiptum Dana og Íslendinga á þessu sviði. Vitamál heyrðu undir danska flotamálaráðuneytið (Marineministeriet) þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að danska ríkissjóðnum bæri engin skylda til að standa straum af kostnaði við vitabyggingu á Íslandi en þar sem áformaður viti myndi gagnast dönskum kaupskipum væri flotamálaráðuneytið tilbúið til að styrkja Íslendinga í þessari fyrirætlan. Varð sú niðurstaðan að hæfilegt framlag fælist í ljóshúsi úr eir og vitatæki, en vitabygginguna sjálfa yrðu Íslendingar að sjá um.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúkum.

Sumarið 1876 var notað til að kanna væntanlegt vitastæði á Reykjanesi og aðstæður til byggingar þar. Tveir undirforingjar af varðskipinu Fyllu fóru þangað í könnunarferð í lok maí og leist best á að byggja vitann á Valahnúk, yst á Reykjanesinu. Nóg var þar af hraungrjóti til byggingarinnar, skrifuðu undirforingjarnir í greinargerð sinni, og rekaviður í fjörum sem bæði mætti nota við vitasmíðina og til eldsneytis.
Vorið 1877 tilnefndi flotamálaráðuneytið danskan verkfræðing, Alexander Rothe, til að undirbúa vitabygginguna á Reykjanesi og fór hann þá um sumarið til Íslands og tvær rannsóknarferðir á Reykjanesið áður en hann afhenti tillögu sína að vita og vitavarðarbústað á Reykjanesi. Bæði Alþingi og danska þingið samþykktu fjárframlög til verksins og 10. apríl skrifaði Nellemann Íslandsmálaráðherra Hilmari Finsen landshöfðingja og tilkynnti honum að samið hefði verið við Alexander Rothe um byggingu steinhlaðins vita og vitavarðarbústaðar á Reykjanesi.

Reykjanesviti

Reykjanesviti 1908.

Rothe og vinnuflokkur hans tóku til starfa 6. júní 1878. Með verkfræðingnum kom danskur múrarameistari, Lüders að nafni, sem hafði annast byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg árið 1872, en aðrir starfsmenn voru Íslendingar. Vitastæðið hafði verið ákveðið á Valahnúk og Rothe gerði ráð fyrir að nota hraungrjótið sem þarna er gnótt af. En þegar Lüders múrarameistari tók að láta hamra og meitla gnauða á grjótinu molnaði það og reyndist alveg ónýtt byggingarefni.

Reykjanesviti

Gata niður að grjótnámu við Reykjanesvita.

Þá var tekið til bragðs að flytja stuðlaberg neðan úr fjörunni um alllangan veg sem ásamt ýmsum öðrum töfum varð til þess að vitabyggingin gekk nokkuð hægar en Rothe hafði gert ráð fyrir. Honum þótti til dæmis vinnukrafturinn helst til óáreiðanlegur því karlarnir áttu það til að þjóta fyrirvaralaust úr steinhögginu í fiskiróður eða heyskap, og svo var veðurfarið á þessum útkjálka með eindæmum örðugt og óhagstætt fannst honum.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Kannski var eitthvað til í því. Frásögn Gríms Thomsens bendir til þess, en fjárlaganefndarformaðurinn skáldmælti gerði sér ferð á Reykjanesið um sumarið að líta á vegsummerki og ritaði síðan í blaðið Ísafold sem hann ritstýrði um þessar mundir: Það er engin hægðarleikur að draga grjót að sjer upp á Valahnjúkinn og það steina sem 6–10 manns þarf til að hnosa þar upp; ekki er heldur ládeyðan þar dagslega, þegar lenda þarf með eitthvað, sem til vitans þarf, svo sem kalk og steinlím, vistir og áhöld. Þá gekk langur tími til að ná í vatn, gjöra brautir, höggva grjót niðri í fjöru, ef fjöru skyldi kalla, þar sem brimið beljar ár og síð, og verst af öllu hefur það reynzt, að margir dagar hafa fallið út, af því að ekki gat orðið úr verki uppi við vitaturninn fyrir stormi og óveðri. Það viðrar öðruvísi upp á Valahnúknum en niðri á Austurvelli.

Reykjanesviti

Persónur er komu við sögu fyrsta vitans.

Þótt Rothe yrði ýmislegt mótdrægt við byggingarframkvæmdirnar tókst að ljúka þeim um haustið og var þá risinn á Valahnúknum steinhlaðinn viti, límdur með steinlími sem í var Esjukalk, en á þessum tíma var kalknám í Esjunni og brennsluofn í Reykjavík sem Kalkofnsvegur dregur nafn sitt af. Einnig hafði verið byggður á Reykjanesinu bær fyrir vitavörðinn og fjölskyldu hans.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Reykjanesvitinn frá 1878 var áttstrendur, um 4,5 m í þvermál og 6,2 m á hæð. Turninn skiptist í tvær hæðir, jarðhæð og efri hæð þar sem vaktherbergi vitavarðarins var.
Ljóshúsið var úr steypujárni og umhverfis það svalagólf sem girt var með járnhandriði. Ljóstæki vitans var upphaflega samansett úr 15 olíulömpum og að baki hverjum þeirra var holspegill úr messing sem magnaði ljósið. Þremur lömpum með speglum var bætt í ljóstækið árið eftir að vitinn var tekinn í notkun til að bæta lýsingu hans. Þetta ljóstæki var í vitanum fram til ársins 1897, en þá var sett í hann 500 mm snúningslinsa, sem enn er til, og steinolíulampi með tveimur hringlaga kveikjum. Vitinn stóð fram til ársins 1908.
Eins og kunnugt er þá er Reykjanesið jarðskjálftasvæði og urðu jarðskjálftar og ágangur sjávar á Valahnúkinn til þess að laska svo vitann og undirstöðu hans að talin var hætta á að hann félli í hafið og vitavörður neitaði að standa þar vaktir.
Nýr viti, sá sem enn stendur, var reistur veturinn 1907–1908 og þann 16. apríl 1908 var gamli vitinn felldur með sprengingu.

Reykjanesviti

Arinbjörn Ólafsson, vitavörður.

Vitavörðurinn

Bygging og starfræksla fyrsta vitans í óbyggðum Reykjanessins hafði það í för með sér að til varð ný starfsgrein á Íslandi – vitaverðirnir. Starf þeirra var bindandi því ekki varð hjá því komist að halda stöðugan vörð um vitaljósið á logtíma vitans meðan notaðir voru olíulampar. Þess utan þurfti vitavörður að fægja og þrífa, fylla olíu á lampa og gæta vitans í hvívetna. Stundum var gestkvæmt og þá var ekki annað en sjálfsagt að leyfa „mönnum er skýra frá nöfnum sínum og heimilum, og sem ekki er ástæða til að gruna um neina ósiðsemi, að skoða vitabygginguna“. Það sagði erindisbréf vitavarðarins, en ölvaðir menn, óuppdregnir dónar sem hræktu á gólfin og hundspott þeirra máttu ekki stíga fæti í vitann.

Reykjanesviti

Arinbjörn og Þórunn.

Fyrsti íslenski vitavörðurinn hét Arnbjörn Ólafsson, trésmiður að iðn og hafði unnið við byggingu vitans sumarið 1878. Hann var fæddur 24. maí 1849 og var því rétt að verða þrítugur þegar hann flutti búferlum á Reykjanesið ásamt Sesselju systur sinni, en hún hafði einnig starfað við vitabygginguna þar sem hún var ráðskona. Áður en Rothe verkfræðingur hvarf af landi brott hafði hann veitt Arnbirni einhverja tilsögn í umhirðu vitans og meðferð vitatækjanna, en það er af varðveittum bréfum vitavarðarins að sjá að þessi kennsla hafi verið hálfgert í skötulíki og hann taldi sig vanbúinn til starfans af þeim sökum. Alþingi brást við beiðnum Arnbjörns um frekari vitamenntun og lét honum í té fjárupphæð til Danmerkurfarar. Þangað hélt hann vorið 1879 og nam vitavörslu fram eftir sumri.

Reykjanes

Reykjanesviti og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesið var sannarlega afskekkt á þessum tímum og orðið nokkuð langt síðan þar var búið þegar vitavörðurinn settist þar að. Varla að það væri reiðvegur þangað út eftir og hægur vandinn að villast í hraunbreiðunni ef skyggni brást eitthvað. Jón Jónsson landritari og vitaeftirlitsmaður lét þetta þó ekki aftra sér frá því að takast á hendur heimsókn til vitavarðarins á jólunum árið 1880. Þessi ötuli embættismaður lagði upp frá Reykjavík á Þorláksmessu, gisti í Höfnunum og var kominn að vitanum síðdegis á jóladag. Þangað hafði hann fikrað sig í stjörnubjörtu veðri og skemmt sér við að telja vörðurnar á leiðinni. Þær voru alls 61 og á heimleiðinni kom sér vel að vita þetta því þá var snjóbylur og ágætt að geta talið vörður til að vita hvar maður var staddur. En það myndi ekki veita af einum 50 vörðum til viðbótar, taldi hann, ef menn ættu að geta verið vissir um að rata í hvaða veðri sem væri.

Reykjanes

Reykjanes – uppdráttur ÓSÁ.

Jón landritari sá vitaljósið við níundu vörðu frá Höfnum talið og var harla ánægður með hvað það var skært. Það var öryggi og staðfesta í þessu ljósi sem róaði landritarahugann, en aðkoman, þegar í vitavarðarbústaðinn kom um kvöldmatarleytið, kom heldur betur róti á embættismanninn. Það kom nefnilega í ljós að þar sat hvert mannsbarn á bænum og át sinn jólamat, hver sem betur gat, líka vitavörðurinn og aðstoðarmaður hans.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Arnbjörn vitavörður reyndi að afsaka sig með jólahátíðinni en landritari lagði ekki eyru við slíku hjali heldur benti honum á að „úr því eptirlitið ljeti ekki jólahátíðina aptra sjer að gæta skyldu sinnar væri vitaverðinum engin vorkunn að gera slíkt hið sama“. Hann fékk skriflega nótu og varð svo að skunda á vitavaktina.

Það var alla tíð gerð rík krafa um árvekni og samviskusemi vitavarða og flestir stóðu þeir vel undir því, einnig Arnbjörn Ólafsson þrátt fyrir jólamálsverðinn. Hins vegar hentaði ekki öllum sú mikla einangrun sem fylgdi búsetunni á vitavarðarstöðunum og það átti við um hann og fjölskyldu hans. „Það er annað vorhugi en vetrar,“ skrifaði Arnbjörn Jóni landritara haustið 1879 og vetrarkvíðinn er greinilegur í þessu bréfi hins unga vitavarðar sem hafði kvænst jafnöldru sinni, Þórunni Bjarnadóttur úr Skagafirðinum, um sumarið. Hvernig myndi ástinni reiða af í vetrarríki Reykjanessins?Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk

Það gekk bara vel því þau Arnbjörn og Þórunn héldu saman meðan bæði lifðu. En árið 1884 höfðu þau fengið nóg eftir sex ára dvöl á Reykjanesinu og Arnbjörn sagði upp vitavörslunni. Hann fluttist þá til Reykjavíkur en nokkrum árum síðar til Keflavíkur þar sem hann stundaði verslunarstörf og rak bakarí.
Um aldamótin 1900 átti Arnbjörn mikil viðskipti við enska togara og varð frumkvöðull í íslenskri togaraútgerð þegar hann fór fyrir hópi Íslendinga sem keypti fyrsta togarann, Coot að nafni, til Íslands árið 1905. Vegna viðskipta Arnbjörns áttu þau Þórunn heimili sitt erlendis um skeið, bæði í Danmörku og Englandi. Þórunn féll frá árið 1912 og Arnbjörn tveimur árum síðar.” -KS

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Morgunblaðið 30. nóv. 2003, Kristján Sveinsson – Fyrsti vitinn á Íslandi, bls. 20-21.

Reykjanesviti

Reykjanesvitar – fyrr og nú.

Örfirisey

Garðar Svavarsson skrifar um örnefnið “Reykjanes” í Morgunblaðið 16. apríl 2006 undir fyrirsögninni “Nafngjafi Reykjavíkur“:

“Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið. Hér verður fjallað um uppruna og sögu örnefnisins.
Á norðurenda Örfiriseyjar handan olíustöðvar er örnefnið Reykjanes. Fleiri staðir á landinu bera þetta nafn og má þar nefna Reykjanes á Suðurnesjum, í Reykhólasveit og við Ísafjarðardjúp. Á þessum þremur síðasttöldu stöðum er jarðhiti, laugar eða hverir, og myndarleg nes svo augljóst er af hverju staðirnir draga nafn sitt. Hvorugu er til að dreifa í Örfirisey, þar er enginn jarðhiti og varla er hægt að kalla lítið klapparnef nes.

Örfirisey„Norðvestur í Effersey er nes, er kallað hefur verið Reykjanes, og er það gamalla manna sögn að þar hafi verið laug, sem sjór er nú genginn yfir. Ekkert kannast samt elztu núlifandi Reykvíkingar við þá sögn.“ (Örfirisey var alla jafnan kölluð Effersey fram undir miðja síðustu öld). Þótt Klemensi tækist ekki að finna neinn sem gæti staðfest sögnina um jarðhita í eyjunni hafnaði hann ekki þeim möguleika að þar hefðu verið heitar laugar við landnám. Hins vegar átti eftir að kom í ljós að einn úr flokki aldraðra Reykvíkinga vissi af eigin reynd hvar jarðhita var að finna í Örfirisey.

Örfirisey

Örfirisey – letur á klöppum.

Í bók Þórbergs Þórbergssonar, rithöfundar, Frásagnir, sem kom út árið 1972, fjallar hann m.a. um Örfirisey, Grandann og Hólmann. Helsti viðmælandi hans í Reykjavíkurhluta bókarinnar var Ólafur Jónsson fiskimatsmaður. Ólafur var fæddur 1856 í Hlíðarhúsum, en það var húsaþyrping neðarlega við Vesturgötuna, og ól hann allan sinn aldur í Reykjavík. Hann var lengstum sjómaður eins og faðir hans og stundaði sjóinn frá Reykjavík og víðar. Þórbergur getur þess sérstaklega að þeir Ólafur hafi farið út í Örfirisey 30. mars 1935 til að skoða þá staði, sem Ólafur hafði nefnt í viðtölunum. Um Reykjanes farast honum svo orð í frásögn Þórbergs: „Í norðnorðvestur frá norðvesturhorni Örfiriseyjar eru tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Út í þau má ganga um stórstraumsfjöru. Þau voru í mínu ungdæmi kölluð Reykjarnes. Nokkurn spöl fyrir austan sker þessi, hér um bil mitt á milli þeirra og Hásteina og þar úti sem þarinn er þykkastur, var dálítil flöt flúð, sem var upp úr sjó um stórstraumsfjöru. Í flúðinni var glufa um hálf fingurhæð að breidd. Upp úr þessari glufu rauk um stórstraumsfjörur framan af ævi minni.“ (bls. 151).

Reykjanes

Reykjanes við Reykjavík.

Þetta er óneitanlega skilmerkileg frásögn og engin ástæða er til að draga hana í efa enda Ólafur margoft búinn að sýna í viðtölum um önnur efni að hann hafði traust og gott minni. Það er athyglisvert að hann kallar fjöruna á þessum stað með skerjunum tveim Reykjarnes, en á öðrum stað í frásögninni um Örfirisey og Hólmann segir: „Það er engum efa bundið, að land allt hefur sigið hér mjög í sjó á síðari öldum. Einhvern tíma hefur Hólminn verið allstór eyja grasi vaxin, og þar sem Vesturgrandi og Örfiriseyjargrandi stóðu aðeins upp úr sjó um fjöru sem nakin malarrif, þar hafi fyrr á tímum verið grasi gróin eiði, sem hafi verið ofansjávar jafnvel í mestu stórstrauma.“ (bls.150).
Þessi lýsing hér að ofan um landsig og meðfylgjandi landbrot á að sjálfsögðu við um Örfirisey alla og þar með talið fjöruna sem nefnd var Reykjanes. Nú er vitað að land hefur sigið hér á Reykjavíkursvæðinu í mörg þúsund ár og telja fræðimenn á þessu sviði að land sé nú að minnsta kosti 2 m lægra en við upphaf landnáms. Þetta mikla landsig hefur valdið gríðarlegum breytingum á landi við sjávarsíðuna. Klemens Jónsson ýjar að þessu í Sögu Reykjavíkur þegar hann segir að líklega hafi Effersey verið landföst við landnám.

Örfirisey

Örfirisey- letur á klöppum.

Nú er eyjan land umflotið vatni og því er landföst eyja ekki til frá náttúrunnar hendi. Hafi Örfirisey verið landföst við landnám hefur því verið um að ræða tanga eða nes, en ekki eyju.

Í Landnámu segir að Ingólfur Arnarson hafi komið hingað til lands tveimur til þremur árum áður en hann settist hér að. Vafalaust hefur hann verið að kanna hvort landið væri gott til búsetu og finna heppilegan stað til landnáms. Skip landnámsmanna, knerrirnir, voru ekki stór og því ljóst að ekki var hægt að flytja búpening til landsins nema í mjög smáum stíl. Því varð að treysta á veiðar fyrstu árin eða jafnvel í áratugi meðan bústofninn var að eflast. Ingólfur finnur staðinn sem hann leitaði að í Reykjavík og er nú best að vitna í orð Björns Þorsteinssonar í Íslenskri miðaldasögu: „– því að þar var allt að hafa sem hugur hans girntist: höfn, eyjagagn, veiðivötn og laxá, landrými og jarðhiti. Í rauninni jafnaðist hér enginn staður á við Reykjavík að fjölþættum náttúrugæðum.“ (bls. 27).

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes.

Þegar Ingólfur og áhöfn hans sigla skipi sínu inn í mynni Kollafjarðar, væntanlega fyrstir manna, blasa við þeim eyjar, sund og vogar og er ekki ósennilegt að þetta land hafi minnt þá á heimahagana í Vestur-Noregi. En eitt hefur þó ugglaust vakið sérstaka athygli þeirra og furðu. Upp af litlu nesi, sem teygði sig til norðurs frá meginlandinu, steig hvítur reykur til lofts, náttúrufyrirbæri sem þeir hafa tæpast séð áður. Nafnið á staðnum var sjálfgefið, Reykjanes. Víkin innan við nesið, sem er vel afmörkuð milli Reykjaness og Arnarhólstanga, hlaut einnig að draga nafn af hvernum á nesinu og kallast síðan Reykjavík.
Með fullri virðingu fyrir Þvottalaugunum er vægast sagt hæpið að Reykjavík dragi nafn sitt af þeim. Bæði er að Þvottalaugarnar eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá víkinni og leiti ber í milli svo að reykurinn frá þeim sást tæpast af hafi eða í víkinni nema við sérstök veðurskilyrði.

Örfirisey

Mynd SE tekin frá Skólavörðuholti um 1900.

En mótun landsins hélt áfram eins og hún hafði gert frá örófi alda. Á hverju ári nagaði sjórinn smáspildu af nesinu og þar kom að útsynningsbrimið braut sér leið gegnum nesið þar sem það var mjóst og Reykjanesið varð að eyju. Hvenær þetta átti sér stað veit enginn, en vafalaust var það nokkrum öldum eftir landnám.

Örfirisey

Áletrun í Örfirisey.

Vera má að þetta hafi átt sér stað í stórflóði sambærilegu við Básendaflóðið 1799, en þá gekk sjór yfir alla Örfirisey og lagðist þar af búseta um tíma. Þessar breytingar voru löngu um garð gengnar í upphafi átjándu aldar en í Jarðabókinni frá 1703 er eftirfarandi umsögn um býlið Erfersey: „Vatnsból í lakasta máta, þrýtur bæði sumar og vetur og þarf þá til lands á skipum að sækja eður sæta sjáfarfalli að þurt megi gánga um fjörurif það, sem kallað er Grandi.“ (Þriðja bindi, bls. 255).
Í þessari lýsingu er komin til sögunar eyja og grandi, en nes er ekki nefnt. Á þessum tíma er Geldinganes í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey, þ.e. eyja tengd við land með eiði sem sjór féll yfir á flóði, en þrátt fyrir það breytist nes ekki í eyju. Hvað veldur því að nafnið Reykjanes þokar til hliðar, en nafnið Örfirisey kemur í staðinn. Gæti verið að lausnar gátunnar væri að leita í nafni annarrar eyjar lítið eitt vestar?

Örfirisey

Örfirisey – loftmynd.

Akurey er yst eyja á Kollafirði og nafnið er vafalítið dregið af akuryrkju í eyjunni. Það er augljóst að þetta nafn fær eyjan löngu eftir landnám því að þó að akuryrkja hafi verið stunduð af landnámsmönnum frá upphafi hafa akrar verið nærri bæjum meðan þar var nægilegt landrými, en ekki í úteyjum. Einnig hefur Reykjanes verið góður kostur því að auðvelt var að girða nesið af og hindra þannig ágang búfjár. Var þá eyjan nafnlaus, jafnvel um aldir? Það er ákaflega ólíklegt því að eyjan er á þeim stað þar sem skip og bátar voru mikið á ferðinni eða við fiskveiðar og því brýn nauðsyn að kennileitum væri gefin nöfn. Leitum nú enn á ný í bókina Frásagnir. Steingrímur Steingrímsson frá Klöpp var einn af viðmælendum Þórbergs. Honum segist svo frá: „að Níels á Klöpp hafi sagt sér, að í hans ungdæmi hafði verið hægt að vaða úr Hólmanum og út í Akurey um stórstreymsfjörur, og hefði sjór þar ekki verið dýpri en svo, að komast hefði mátt þurrt í skinnbrók. En nú er þar óvætt dýpi um stærstu fjörur.“ (bls. 150).
Örfirisey
Það er til önnur heimild um þetta eiði eða granda milli Hólmans og Akureyjar. Í Sögu Reykjavíkur 870–1870, fyrra bindi, er birt mynd á blaðsíðu 62 af elsta korti sem til er af Reykjavík. Þetta kort er frá 1715 og nær yfir ytri hluta Kollafjarðar, suðurströnd Kjalarness og Seltjarnarnes vestan Laugarness. Örfirisey með verslunarhúsunum er á kortinu miðju og landtengingin, þ.e. Grandinn, sést greinilega. Sama má segja um grandann út í Hólmann, hann kemur skýrt fram, en það athyglisverða er að hann endar ekki í Hólmanum heldur liggur áfram út í Akurey.

Reykjavík

Reykjavík – kort 1787.

Mjög líklegt er að í upphafi átjándu aldar, þ.e á þeim tíma sem kortið er teiknað, hafi aðeins verið hægt að ganga þurrum fótum út í Akurey á stærstu fjörum. Við landnám hefur Akurey hins vegar verið í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey var mörg hundruð árum síðar, þ.e. eyja tengd við land með granda sem var ávallt á þurru um fjöru. Það fólk sem hér settist að við upphaf byggðar hefur líklega þekkt áþekk náttúrufyrirbæri frá fyrri heimkynnum sínum og gefur eyjunni því nafn við hæfi. Það nafn var sennilega Örfirisey.
Þegar Reykjanes breytist í eyju við landbrot eru eyjarnar orðnar tvær með áþekk náttúruleg einkenni, nánast hlið við hlið. Smám saman fer fólk að kenna ytri eyjuna við þá starfsemi sem þar er stunduð, þ.e. akuryrkju.
Örfiriseyjarnafnið flyst hins vegar yfir á Reykjanesið og ryður gamla nafninu út á norðurenda eyjarinnar þar sem það situr enn án staðfestu í landslagi. Þessi nafnasaga er að sjálfsögðu getgátur, en vert er að benda á að örnefnaflakk er ekki óþekkt hér á landi.

Örfirisey

Örfirisey 1958.

Nú eru liðnir rúmir sjö áratugir síðan Þórbergur og Ólafur gengu um Örfirisey og rifjuðu upp örnefni á og í nágrenni eyjunnar. Á þeim tíma var eyjan að mestu eins og náttúran hafði mótað hana, en nú er fátt sem minnir á Örfirisey þess tíma. Þó má enn finna staði sem Þórbergur fjallar um, svo sem klappirnar á norðurenda eyjunnar með gömlum áletrunum. Vestasti hluti klappanna er í raun norðvesturhorn hinnar eiginlegu Örfiriseyjar og sé horft þaðan í norðnorðvestur má á fjöru greina tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Þessi sker kallaði Ólafur frá Hlíðarhúsum, Reykjanes. Lítið eitt austar í fjörunni, þar sem þarinn er þykkastur, leynist lítil flöt flúð með glufu sem er um hálf fingurhæð að breidd. Þetta eru síðustu leifar hversins sem gaf tveim stöðum nafn.

Reykjavík

Reykjavík – kort Björns Gunnlaugssonar 1834.

Annað nafnið, Reykjanes, er nú að mestu gleymt, en hitt nafnið, Reykjavík, hefur farið víðar en nokkurt annað staðarnafn íslenskt.
Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið.”

Emil Hannes Valgeirsson bloggaði um örnefnið “Reykjarvík”:

“Það er dálítið sérstakt að lögheimili fyrsta landnámsmannsins hafi verið akkúrat á þeim stað þar sem höfuðborg landsins stendur í dag. En hvar var hún þessi Reykjarvík sem sá merki maður á að hafa byggt sér ból? Og þá meina ég Reykjarvík með erri eins og staðurinn er nefndur í Íslendingabók. Ýmist er talið að um sé að ræða víkina sem afmarkast af Örfirisey og Laugarnestanga eða víkina þar sem gamla höfnin er. En kannski er þriðji möguleikinn til staðar?

Örfirisey

Örfirisey 1960.

Á þeim rúmu 1100 árum sem liðin eru síðan Ingólfur Arnarson var og hét hafa orðið miklar breytingar á landsháttum á strandlengjunni hér við sundin blá vegna ágangs sjávar en ekki síður vegna þess að hér suðvestanlands er landið stöðugt að síga vegna nálægðarinnar við gosbelti Reykjanesskagans. Talið er að þetta landsig gæti hafa verið allt að tveimur metrum frá landnámi og strandlengjan því á stórum svæðum allt önnur en hún er í dag, eyjar og sker hafa sokkið í sæ og nes hafa orðið af eyjum.

Skólavörðuholt

Skólavörðuholt – mynd Sigfúsar Eymundssonar 1877.

Á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin er frá Skólavörðuholtinu árið 1877, sést hvernig aðstæður voru þarna fyrir 132 árum. Örfirisey er tengd landi með mjóum granda og annar grandi liggur frá honum í sveigju að skerjum sem ná langleiðina að Akurey en í sameiningu má sjá út úr þessu vísi að stórri skeifu. Í dag eru skerin við Akurey ekki nema svipur hjá sjón, eru oftar en ekki í kafi og tengjast ekki landi nema kannski í mestu stórstraumsfjörum. Uppfyllingar hafa svo að sjálfsögðu gerbreytt stöðu Örfiriseyjar sem er í dag ekkert annað en nes, eins og það hefur væntanlega verið fyrr á tímum.

Örfirisey

Örfirisey 1970.

Ef landshættir hafa verið einhvern vegin svona á tímum Ingólfs Arnarsonar, sést að þarna hefur verið allstórt nes eða tangi sem hefur náð alla leið út í Akurey. Þarna hef ég merkt inn bláan punkt sem merkir hverasvæði en nokkuð víst þykir að þarna hafi verið heit laug eða hverasvæði sem í dag er sokkið í sæ. Ysti hluti Örfiriseyjar er reyndar enn í dag kallaður Reykjarnes. Sennilega hefur allt þetta nes sem Örfirisey tilheyrir í dag, verið kallað Reykjarnes og miðað við sjávarstöðu nú, er líklegt að lítil vík hafi gengið inn í landið þarna rétt vestur af hverasvæðinu og ef einhver hefur viljað kalla þá vík eitthvað hlýtur nafnið Reykjarvík óneitanlega að koma upp í hugann.

Skólavörðuholt

Skólavörðuholt 2022.

Sú hugmynd að nafnið á höfuðborg landsins, Reykjavík, sé dregið af lítilli vík sem fyrir löngu er sokkin í sæ er ekki endilega minn eigin hugarburður. Mig rámar nefnilega í að hafa lesið um þetta í Lesbókinni fyrir einhverjum árum en hef þó ekki fundið þá grein aftur. Örnefnið eða bæjarnafnið Reykjavík virðist ekki hafa verið verið notað öldum saman því landnámsjörðin var lengst af kölluð „Vík“ á Seltjarnarnesi en það heiti er dregið af Seltjörn við Gróttu sem hefur staðið fyrir opnu hafi frá því Básendaflóðið gekk þar yfir 1799. Það var ekki fyrr en þéttbýli fór að myndast í kvosinni að staðurinn fékk nafnið Reykjavík. Þar hafa fundist elstu mannvistarleifar hér á landi og því kemur einnig vel til greina að Reykjarvík sé einfaldlega bara víkin þar sem gamla höfnin er nú, eins og gjarnan er talað um.

Örfirisey

Örfirisey 1985.

Hugmyndin sem ég minntist á hér fyrr um að Reykjavíkin afmarkist af Örfirisey og Laugarnestanga hefur sennilega orðið til vegna heitu lauganna í Laugardal enda inniheldur sú stóra vík tvö reykjasvæði. Mér finnst þó sú vík vera full víðáttumikil, þar að auki er Laugardalur hvergi sjáanlegur frá kvosinni og í nokkurra kílómetra fjarlægð. Hverasvæðið á Reykjarnesi hefur örugglega þótt alveg nógu merkilegt eitt og sér til að nota í örnefni og ef Reykjarvík hefur verið skrifað með erri hlýtur það að vísa í einn ákveðinn reyk, en ekki fleiri.

Að lokum má svo benda á að þótt örnefnið Örfirisey hafi verið til frá fyrstu tíð, er ekki víst að það nafn hafi alltaf átt við sama stað og í dag. Það er nefnilega vel þekkt að þar sem landshættir eru stöðugt að breytast geta örnefni farið á flakk og aðlagast nýju landslagi eins og gæti verið raunin með Reykjarvíkina”.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. apríl 2006; Garðar Svavarsson, Nafngjafi Reykjavíkur, bls. 22.
-https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/883564/

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes framar.

Hellisheiði

“Frá örófi alda gengu menn að mestu þangað sem þeir þurftu að fara, það má því segja að tveir jafnfljótir hafi verið fyrsta samgöngutæki mannkynsins. Svo var farið að nýta hesta og önnur dýr til að bera menn á milli staða og loks komu annarskonar samgöngutæki, svo sem hestvagnar og bílar komu enn síðar.

Fornagata

Fornagata í Selvogi – hluti leiðar.

Eitt af sérkennum samgangna á Íslandi er að það urðu almennt ekki til vegir sem gátu annað umferð vagna fyrr en fyrir rúmri öld síðan. Á meðan að góðir, vagnfærir vegir voru í nánast öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við, voru hér troðningar sem eingöngu voru færir gangandi og ríðandi umferð.
Vegir sem hlykkjuðust á milli hrauntraða eða þræddu sig eftir þægilegustu leiðinni á milli bæja. Stærri flutningar, sem ekki var hægt að flytja á hestbaki, fóru nánast alfarið fram á sjó.
Fyrsti grunnur að skipulagðri vegagerð á Íslandi varð til með tilskipun árið 1861. Það var svo árið 1904 sem fyrst var hafist handa við að leggja það sem kallast gæti akvegur til Suðurnesja, en það var ekki fyrr en árið 1912 sem Suðurnesjavegurinn var tilbúinn og hægt var að fara með hestvagn frá Reykjavík til Keflavíkur.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu. Fyrsti vagnvegurinn milli Hafnarfjarðar og Voga.

Ári síðar tókst að koma bíl eftir þeim vegi í fyrsta sinn. Allt fram að því voru ekki vagnfærir vegir sem heitið gat á milli byggðarlaga á Íslandi þrátt fyrir rúmlega þúsund ára búsetu.
Út um allar jarðir má finna gamlar götur sem lágu um langan eða skamman veg, sumar voru á milli húsa og til nausta og selja, meðan aðrar lágu á milli landshluta. Á Reykjanesskaganum er margar slíkar götur að finna, en þar liggur ein megingata, í daglegu tali kölluð almenningsvegurinn, meðfram sjónum að norðanverðu og Krýsuvíkurleiðin að sunnanverðu. Það er þó ekki svo einfalt að einungis sé um tvær götur að ræða því að net gönguleiða liggur um öll Suðurnes. Í raun má skipta þessum gömlu götum í tvennt, annars vegar eru það götur sem urðu til á milli bæja og upp til selja. Hins vegar eru verleiðir, götur sem lágu á milli verstöðva víðsvegar um nesið. Þegar skoðuð eru kort af þessum gömlu götum sem lágu á milli verstöðva virðast þær flestar liggja til Grindavíkur.

Kristborg Þórsdóttir

Kristborg Þórsdóttir.

Í ritverkinu “Fornar leiðir á Íslandi” skilgreinir Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur, meðal annars að gömul leið sé „Leið [sem] er hverskyns skilgreinanleg leið milli tveggja staða sem farin var að jafnaði“.
Kristborg segir í grein sinni hvaða skilyrði leið þurfi að uppfylla til þess að teljast til fornleiða. Þær leiðir sem talist geta til fornleiða eru leiðir sem farnar voru fótgangandi og ríðandi fyrir tíð bílsins og mannvirkja tengdum honum. … Leiðir þurfa ekki að vera sýnilegar og þær þurfa ekki að hafa verið farnar oft til að geta talist til fornleiða. Til þess að hægt sé að skrá fornar leiðir þarf samt eitthvað að gefa vísbendingu um þær. Vísbendingarnar geta verið ýmist á kortum, í rituðum eða munnlegum heimildum, sýnilegar slóðir eða mannvirki á leiðunum. Ef leiðar er getið í heimildum á þann hátt að legu hennar er lýst, staðirnir sem hún tengir eru nefndir eða nafns hennar er getið, er um skilgreinda leið að ræða sem telja ætti til fornleifa. Ekki er hægt að skrá leið sem byggir eingöngu á vitnisburði um stakar samgönguminjar án þess að sjá hvert leiðin hefur legið – milli hvaða staða.
Minjarnar gefa til kynna að þær séu hluti af arfleifð.”

Heimild:
-Helgi Valdimar Viðarson Biering, MA ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun – Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga. Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir. HÍ 2024.
-www.ferlir.is
-Kristborg Þórsdóttir. “Fornar leiðir á Íslandi; tillaga að skilgreiningu, flokkun og skráningu, rit Fornleifafræðingafélags Íslands. (2012).

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu ofan Grindaskarða.

Sögukort

Á “Sögukorti Vegagerðarinnar um Suðvesturland” má lesa eftirfarandi:

Sögukort“Saga Suðvesturlands, frá Hvalfjarðarbotni að Reykjanestá og austur til Krýsuvíkur, er afar áhugaverð. Það var þar sem hið endanlega landnám Íslands hófst um árið 874 þegar Ingólfur Arnarsson nam allt svæðið og er talið að bær hans og Hallveigar Fróðadóttur, konu hans, hafi staðið í Reykjavík. Þar hefur verið grafinn upp skáli frá miðri 10. öld með einum elstu mannvistarleifum sem fundist hafa á íslandi. Má af því álykta að svæðið hafi byggst snemma. Helsti þingstaður þar eftir landnám var á Þingnesi við Elliðavatn og er svæðið einnig sögusvið Kjalnesinga sögu.

Sögukort

Sögukort Suðvesturlands.

Á miðöldum var Viðeyjarklaustur (1226-1539) ein helsta stofnun á þessu landsvæði og eignaðist það fjölda jarða við sunnanverðan Faxaflóa. Frá miðri 13. öld og fram til loka 18. aldar voru Bessastaðir á Álftanesi miðstöð norska og síðar danska konungsveldisins á Íslandi og þar sátu helstu embættismenn konungs. Frá stofnun íslenska lýðveldisins 1944 hefur þar verið aðsetur forseta Íslands.

Helstu verslunarstaðir Reykjanesskagans voru lengi Grindavík og Hafnarfjörður, þar sem Englendingar og Þjóðverjar börðust um verslunaryfirráð. Þeir urðu þó að lúta í lægra haldi fyrir Danakonungi sem náði valdi á allri verslun hérlendis í byrjun 17. aldar. í framhald af því sóru Íslendingar konungi eið á Kópavogsfundinum 1662 og erfðaeinveldi komst á. Hugur landsmanna stóð þó alltaf til sjálfstæðis þótt baráttan hafi lengi verið rislítil.

Sögukort

Samgöngukort Íslands.

Það var ekki fyrr en á 19. öld sem sjálfstæðiskrafan náði flugi með Jón Sigurðsson í fararbroddi og árið 118 var Ísland loks viðurkennt frjálst og fullvalda ríki með eigið þing og eigin ríkisstjórn. Bæði þingið og ríkisstjórnin sitja í höfuðborg Íslands, Reykjavík, sem festi sig í sessi sem höfuðstaður á 19. öld eftir nokkra samkeppni við Hafnarfjörð. Þar var, auk Alþingis, sem endurreist var 1845, biskupsstóll frá 1801 og þangað var Lærði skólinn fluttur frá Skálholti 1785 og síðar frá Bessastöðum 1846. Byggð á höfuðborgarsvæðinu ox jafnt og þétt alla 20. öldina og bjuggu þar um 2/3 hlutar landsmanna árið 2009.

SögukortÚtgerð hefur verið mikil á svæðinu frá fornu fari, einkum á Suðurnesjum, þar sem voru miklar útgerðarjarðir í eigu konungs og Skálholtsstóls og sóttu menn af landinu öllu þangað á vertíð öldum samna. Enn er útgerð mikilvæg atvinnugrein en iðnaður, landbúnaður, verslun, þjónusta og nú síðast stóriðja, eru ekki síður máttarstólpar atvinnu á svæðinu. Í seinni tíð hefur svo bæst við ferðaþjónusta, hátækni- og þekkingariðnaður.

Náttúra og jarðsaga Reykjanesskagans er einstök því að þar gengur eldvirkur goshryggur á land með gliðnandi pötuskilum á milli Evrópu og Ameríku. Skaginn er því mjög eldbrunninn og þar er jarðhiti víða mikill, einkum á Suðurnesjum en einnig í Reykjavík og Mosfellsdal. Mikið fuglalíf er við sunnan- og vestanverðan Reykjanesskagann, á Álftanesi, Seltjarnarnesi og víðar. Í Eldey er ein mesta súlubyggð í veröldinni. Þá eru góðar laxveiðiár í Kjósinni.

SögukortReykjanesskaginn, höfuðborgarsvæðið, Kjalarnes og Kjós eru rík af fjölbreyttum þjóðsögum, svo sem um álfa, drauga og skrímsli. Einna þekktust er saga af hvalnum Rauðhöfða í Hvalfirði og eins sagan af marbendlinum í Vogum. Einnig eru margar góðar gönguleiðir á svæðinu og margskonar afþreying í boði fyrir ferðamenn þar sem Reykjavík er helsta miðstöð menningar og lista. Þá er Bláa lónið einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi.”
Sögukort

Keilir

Helgi Valdimar Viðarsson Biering skrifaði ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun árið 2024 um “Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga – Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir”. Hér er vitnað í formála ritgerðarinnar:

Helgi Valdimar Viðarsson Biering

Helgi Valdimar Viðarsson Biering.

“Markmið þessa verkefnis er að skrifa gönguleiðabók um fornar leiðir Reykjanesskagans. Hugmyndin að þessu verkefni kviknaði þegar höfundur að ganga eftir gamalli þjóðleið yfir Vogastapa. Það var rökkur og hann fór að segja samferðafólki sínu draugasögur sem tengdust Stapagötunni svokölluðu. Þá barst í tal að það vantaði gönguleiðabók sem segði frá þessum gömlu leiðum og þeim sögum sem tengjast þeim. Sögur af Stapadraugnum, af hverju Prestastígurinn heitir Prestastígur og af hverju Skipsstígurinn fékk nafnið Skipsstígur? Er það satt að maður hafi fallið í sprungu við Skógfellsstíg og ekki fundist fyrr en mörgum árum síðar? En hvað með þær gömlu leiðir sem við höfum heyrt orðróm um, er hægt að gera þær að þekktum gönguleiðum?
Helgi Valdimar ViðarssonTil að byrja með varð hin gleymda leið um Brúnir fyrir valinu. Hún lá frá Grindavík og niður í Kúagerði en lagðist af sem alþekkt og fjölfarin leið fyrir rúmlega 150 til 200 árum síðan. Einhverjar heimildir voru til um hana í munnmælum gamalla bænda úr Vogum. Höfundi langaði að gera þessari fornleið einhver skil og athuga hvort að hann gæti staðsett hana nákvæmlega. Höfundur gekk hana ásamt tveim göngufélögum, gerði heimildarmynd um hana og gekk hana sem fararstjóri með 56 manna hóp. Höfundur gerði einnig útvarpsþátt þar sem fjallað var um Brúnaleiðina. Hugmyndin fór að taka á sig fastari mynd. Höfundur ætlaði að skrifa gönguleiðabók þar sem allar þessar gömlu leiðir á Reykjanesskaganum fengju sinn sess ásamt nokkrum nýrri. Í bókinni átti að vera, fyrir utan hefðbundnar upplýsingar; frásagnir, þjóðsögur og fréttir af atburðum sem tengjast hverri leið fyrir sig.

Reykjanes

Reykjanesskagi – fornar götur.

Höfundur er síður en svo fyrstur til að skrifa bók um gönguleiðir Reykjanesskagans, en mín er sú fyrsta sem tekur sérstaklega fyrir menningu og sögur sem tengjast hverri leið fyrir sig. Þetta er í fyrsta sinn sem ferðamaðurinn getur sótt sér fróðleik um viðkomandi gönguleið í bók sem studd er af tveim vefsíðum eins og komið er inn á síðar.
Heimildirnar sem höfundur fékkst við til að byrja með voru gömul herforingjaráðskort, loftmyndir og Örnefnasjá Minjastofnunar. Þegar höfundur fór síðan að ganga Brúnaleiðina fann hann vörður og vörðubrot sem ekki voru skráð í gagnagrunn Minjastofnunar.

Brúnavegur

Brúnavegur.

Því ákvað höfundur með sjálfum sér að þessu yrði að koma á framfæri í bókinni, sem hann er að vinna sem hluta af þessari ritgerðarsmíð. Það er ósk höfundar að þetta verkefni verði til þess að enn fleiri hafi áhuga á að ganga hinar fornu slóðir Reykjanesskagans. Að ferðamenn nær og fjær hafi gagn og gaman af, á sama tíma og þeir fræðast um horfinn heim hins gamla íslenska samfélags á Reykjanesskaganum.

Um Reykjanesskagann allan liggur net gamalla gönguleiða sem lágu ýmist á milli bæja, verstöðva eða út af svæðinu og til annarra landshluta. Reykjanesskaginn hefur ekki allur verið vinsæll til útivistar og þá einna helst vegna vanþekkingar fólks á landsvæðinu. Eftir eldgosin við Fagradalsfjall 2021-2023 komst Reykjanesskaginn á útivistarkort landsmanna og erlendra ferðamanna sem nú lenda ekki einungis í Keflavík og mögulega fara í Bláa Lónið, heldur gera sér far um að skoða nágrenni flugvallarins og Reykjanesskagans.

Hemphóll

Hemphóll – áningastaður við Brúnaveg.

Kynningarstarf er hafið, en gera má betur. Höfundur mun leggja sitt af mörkum við að kynna sögu svæðisins með útgáfu gönguleiðabókar ásamt því að bjóða upp á sögugöngu, gera heimildarmynd og útvarpsþátt. Gönguleiðir bókarinnar eru tíundaðar hér, en ein þeirra, Brúnavegurinn, er tekin út fyrir sviga og kynnt sérstaklega.”

Framlag Helga Valdimars kann að verða kærkomin viðbót við fjölmargt það, sem áður hefur verið fjallað um þjóðleiðir Reykjanesskagans í gegnum tíðina. Grindvíkingar fóru um Brúnaveg allt fram á 20. öld. Sagnir lifandi grindjána herma að sú leið hafi jafnan verið farin að vetrarlagi og því eru fá jarðummerki að finna á leiðinni.

Heimild:
-Helgi Valdimar Viðarson Biering, MA ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun – Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga. Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir. HÍ 2024.

Brúnavegur

Brúnavegur – kort.

Hafnaberg

Við bílastæði á Nesvegi ofan við Hafnaberg eru tvö skilti. Annað felur í sér upplýsingar um bjargið og íbúa þess og hitt eru nánari skil á hinum síðarnefndu. Reyndar er textinn orðinn allmáður, en með því að rýna í hann af gaumgæfni má lesa eftirfarandi á textaskiltinu:

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

“Bjargið er myndað úr basalt hraunlögum sem mynda syllur. Sökum þess hve vogskorið það er býður það upp á gott aðgengi til fuglaskoðunar og í því má sjá flestar tegundir íslenskra bjargfugla.

Efst með brúnum verpa fýlar á breiðum hraunsyllum og í litlum skútum. Flestir taka þó eftir ritunni, bæði er mest af henni og að auki er hún hávær fugl. Bjargið ómar af hástemmdum klið frá ritum, blönduðum lágstemmdari röddum svartfuglanna. Rituhreiðrin eru dreifð um allt bjargið og á mjóum syllum byggir ritan upp hreiður úr sinu og gróðri, sem límd eru saman með driti. Langvían er næst ritunni að fjölda. Langvían er frekar hnappdreifð og býr í þéttu sambýli á tiltölulega breiðum syllum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

Í bjarginu eru hellar með þéttri langvíubyggð. Stuttnefjan verpir á þrengri syllum en langvían og ekki í eins miklu þéttbýli. Stuttnefjum hefur fækkað mikið í Hafnabergi undanfarna áratugi. Eggjum langvíu og stuttnefju er verp beint á grjótsylluna og skurn eggjanna er frekar þykk. Litamynstur þeirra er fjölbreytt og talið að foreldrarnir þekki egg sitt á því. Lögum eggjanna er þannig að þau velta ekki beint undan halla, heldur í hring.

Meðal annarra fugla sem verpa í bjarginu er álkan, en erfitt getur verið að koma auga á hreiður hennar þar sem það er oftast inni í urðum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – textinn.

Lundinn verpir einnig í bjarginu í sprungum og holum, en pörin eru nokkuð fá. Sama er að segja um teistur sem verpa í urðum neðst í bjarginu.

Varp hefst í bjarginu seinni hluta maí og liggja svartfuglar á eggjum í rúma 30 daga. Ungar svartfuglanna hoppa svo ófleygir úr bjarginu um 20 daga gamlir og halda með foreldrunum á haf út. þegar ungarnir hoppa heyrast mikil hljóð í foreldrunum þegar þau hvetja ungana til dáða og tíst í unganum á móti. Þetta gerist helst um lágnættið þegar farið er að skyggja svo skúmar og aðrir ræningjar komi síður auga á ungana þegar þeir taka fyrstu skrefin.”

Hafnaberg

Hafnaberg – hreiður.

Eldey

Við Valahnúk á Reykjanesi er skilti skammt frá bronsstyttu af geirfugli. Á skiltinu er eftirfarandi texti:

Reykjanes

Reykjanes – stytta af geirfugli.

“Reykjanesbær er þátttakandi í alþjóðlegu lisverkefni “The Lost Bird Project”. Listamaðurinn Todd McGrain hefur í nokkur ár unnið að gerð skúlptúra af útdauðum fuglum m.a. geirfuglinum og vill þannig vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni.

Hann vinnur fuglana í brons og er hverjum fugli ætlaður staður víðs vegar um heiminn, allt eftir því hvar þeirra upprunulegu heimkynni voru. Verkið er gjöf listamannsins til Reykjanesbæjar.

Í tilefni þess að talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn í Eldey 3. júní 1844 hefur verið ákveðið að styttan afgeirfuglinum verði sett upp neðan við Valahnúk á Reykjanesi og mun fuglinn horfa til Eldeyjar og minna okkur um leið á sameiginlega ábyrgð allra þjóða á náttúru og umhverfisvernd.”

Reykjanes

Reykjanes – skilti.

Brú milli heimsálfa

Við “Brú milli heimsálfa” á vestanverðum Reykjanesskaganum, skammt ofan við Stóru-Sandvík eru tvö skilti, sitt hvoru megin við brúna.

Á vestari skiltinu stendur eftirfarandi:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Vestara skiltið.

“Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Norður-Ameríkuflekanum, sjötta stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. Fyrir um 200 milljónum ára var hann samfastur Evrasíu-, Afríku, og Suður-Ameríkuflekanum eða allt þar til risa meginlandið Pangea tók að klofna í sundur. Atlantshafið tók að myndast í suðri milli Afríku og Suður-Ameríku fyrir um 135 milljónum ára, en aðskilnaður Ameríku og Evrasíu flekana hófst hins vegar fyrir um 65 milljónum ára.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Ameríkuflekinn.

Í vestanverðri Norður-Ameríku má finna tiltölulega ung fjöll þar sem flekinn lendir í átökum við Kyrrahafsflekann. í austanverðri norður-Ameríku er að finna Appalaciafjöllin sem urðu til fyrir meira en 250 milljónum ára er risameginlandið Pangea var að myndast.

Mikill fjöldi fólks á Norður-Ameríkuflekanum býr í stórborgum. Þar er sömuleiðis að finna mikið landflæmi sem eru óbyggðir að kalla, t.d. á Kanadaskyldinum sem er gífurlega stór forngrýtisskjöldur sem var til fyrir um þremur milljörðum ára.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

New York er fjölmennasta borgin á Norður-Ameríkuflekanum (19.6 milljónir íbúa árið 2012). Hæsti tindurinn er McKinleyfjall í Bandaríkjunum (6.149 metra yfir sjávarmáli) en mesta dýpið er í Púertó Ríkó rennunni (6.648 metrar undir sjávarmáli).”

Á austara skiltinu stendur:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Austara skiltið.

“Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Evrasíuflekanum, stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. þar er að finna sumar elstu bergmyndanir jarðskorpunnar,nánar tiltekið í Austur-Síberíu á víðáttumestum sléttum jarðar.

Norður-Ameríkuflekinn fjarlægist Evrasíuflekann í vestri og Atlantshafið víkkar um leið. Í austri streyma Kyrrahafs- og Filippseyjaflekarnir inn undir Evrasíuflekann og mynda eldfjallaeyjaboga, s.s. Japan og Filippseyjar.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Evrasíuflekinn.

Í suðri reka Indlands- og Ástralíuflekana í norður. Við árekstur þessara fleka verður til hæsti fjallgarður í heimi, Himalajafjöll.

Um 75% mannkyns búa á Evrasíuflekanum en dreifing íbúanna er ákaflega mosjöfn. Flestir búa í Evrópu, Indlandi, Kína og í Suðaustur-Asíu. þessi svæði eru jafnframt þéttbýlustu svæði jarðar.

Tokyo er fjölmennasta borgin á Evrasíuflekanum (35.7 milljónir íbúa árið 2011). Hæsti tindurinn er Everestfjall í Nepal (8.850 metrar yfir sjávarmáli) en mesta dýpið í Galatheudjúpinu (10.540 metrar undir sjávarmáli).”

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – austurveggur gjárinnar.

Reykjanes

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Tvö þeirra eru um vitana, annars vegar á Valahnúk og hins vegar á Vatnsfelli. Um fyrrnefnda vitann segir:

Reykjanesviti

Vitinn á Valahnúk.

“Fyrsti ljósvitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 8.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með koparhvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaðu á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar og speglar í vitanum fóru í gólfið. Næstu nætt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum fram á brún. Því var ákveðið að reisa nýjan vita á Vatnsfelli og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjótið úr gamla vitanum á Valahnúk.

Grjótið hér til hægri eru leifar vitans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – leifar af geymsluskúrnum undir Valahnúk.

Hleðslan til vinstri eru leifar geymsluhússins sem þjónaði vitanum.”

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk – skilti.