Keilir

Helgi Valdimar Viðarsson Biering skrifaði ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun árið 2024 um “Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga – Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir”. Hér er vitnað í formála ritgerðarinnar:

Helgi Valdimar Viðarsson Biering

Helgi Valdimar Viðarsson Biering.

“Markmið þessa verkefnis er að skrifa gönguleiðabók um fornar leiðir Reykjanesskagans. Hugmyndin að þessu verkefni kviknaði þegar höfundur að ganga eftir gamalli þjóðleið yfir Vogastapa. Það var rökkur og hann fór að segja samferðafólki sínu draugasögur sem tengdust Stapagötunni svokölluðu. Þá barst í tal að það vantaði gönguleiðabók sem segði frá þessum gömlu leiðum og þeim sögum sem tengjast þeim. Sögur af Stapadraugnum, af hverju Prestastígurinn heitir Prestastígur og af hverju Skipsstígurinn fékk nafnið Skipsstígur? Er það satt að maður hafi fallið í sprungu við Skógfellsstíg og ekki fundist fyrr en mörgum árum síðar? En hvað með þær gömlu leiðir sem við höfum heyrt orðróm um, er hægt að gera þær að þekktum gönguleiðum?
Helgi Valdimar ViðarssonTil að byrja með varð hin gleymda leið um Brúnir fyrir valinu. Hún lá frá Grindavík og niður í Kúagerði en lagðist af sem alþekkt og fjölfarin leið fyrir rúmlega 150 til 200 árum síðan. Einhverjar heimildir voru til um hana í munnmælum gamalla bænda úr Vogum. Höfundi langaði að gera þessari fornleið einhver skil og athuga hvort að hann gæti staðsett hana nákvæmlega. Höfundur gekk hana ásamt tveim göngufélögum, gerði heimildarmynd um hana og gekk hana sem fararstjóri með 56 manna hóp. Höfundur gerði einnig útvarpsþátt þar sem fjallað var um Brúnaleiðina. Hugmyndin fór að taka á sig fastari mynd. Höfundur ætlaði að skrifa gönguleiðabók þar sem allar þessar gömlu leiðir á Reykjanesskaganum fengju sinn sess ásamt nokkrum nýrri. Í bókinni átti að vera, fyrir utan hefðbundnar upplýsingar; frásagnir, þjóðsögur og fréttir af atburðum sem tengjast hverri leið fyrir sig.

Reykjanes

Reykjanesskagi – fornar götur.

Höfundur er síður en svo fyrstur til að skrifa bók um gönguleiðir Reykjanesskagans, en mín er sú fyrsta sem tekur sérstaklega fyrir menningu og sögur sem tengjast hverri leið fyrir sig. Þetta er í fyrsta sinn sem ferðamaðurinn getur sótt sér fróðleik um viðkomandi gönguleið í bók sem studd er af tveim vefsíðum eins og komið er inn á síðar.
Heimildirnar sem höfundur fékkst við til að byrja með voru gömul herforingjaráðskort, loftmyndir og Örnefnasjá Minjastofnunar. Þegar höfundur fór síðan að ganga Brúnaleiðina fann hann vörður og vörðubrot sem ekki voru skráð í gagnagrunn Minjastofnunar.

Brúnavegur

Brúnavegur.

Því ákvað höfundur með sjálfum sér að þessu yrði að koma á framfæri í bókinni, sem hann er að vinna sem hluta af þessari ritgerðarsmíð. Það er ósk höfundar að þetta verkefni verði til þess að enn fleiri hafi áhuga á að ganga hinar fornu slóðir Reykjanesskagans. Að ferðamenn nær og fjær hafi gagn og gaman af, á sama tíma og þeir fræðast um horfinn heim hins gamla íslenska samfélags á Reykjanesskaganum.

Um Reykjanesskagann allan liggur net gamalla gönguleiða sem lágu ýmist á milli bæja, verstöðva eða út af svæðinu og til annarra landshluta. Reykjanesskaginn hefur ekki allur verið vinsæll til útivistar og þá einna helst vegna vanþekkingar fólks á landsvæðinu. Eftir eldgosin við Fagradalsfjall 2021-2023 komst Reykjanesskaginn á útivistarkort landsmanna og erlendra ferðamanna sem nú lenda ekki einungis í Keflavík og mögulega fara í Bláa Lónið, heldur gera sér far um að skoða nágrenni flugvallarins og Reykjanesskagans.

Hemphóll

Hemphóll – áningastaður við Brúnaveg.

Kynningarstarf er hafið, en gera má betur. Höfundur mun leggja sitt af mörkum við að kynna sögu svæðisins með útgáfu gönguleiðabókar ásamt því að bjóða upp á sögugöngu, gera heimildarmynd og útvarpsþátt. Gönguleiðir bókarinnar eru tíundaðar hér, en ein þeirra, Brúnavegurinn, er tekin út fyrir sviga og kynnt sérstaklega.”

Framlag Helga Valdimars kann að verða kærkomin viðbót við fjölmargt það, sem áður hefur verið fjallað um þjóðleiðir Reykjanesskagans í gegnum tíðina. Grindvíkingar fóru um Brúnaveg allt fram á 20. öld. Sagnir lifandi grindjána herma að sú leið hafi jafnan verið farin að vetrarlagi og því eru fá jarðummerki að finna á leiðinni.

Heimild:
-Helgi Valdimar Viðarson Biering, MA ritgerð í Hagnýtri menningarmiðlun – Gamlar og nýjar götur á Reykjanesskaga. Samanburður á fornum þjóðleiðum og nýrri gönguleiðum með áherslu á leiðina um Brúnir. HÍ 2024.

Brúnavegur

Brúnavegur – kort.