Á Netinu er lýst sveitarfélögunum á Reykjanesi, þ.e. Grindavík, Reykjanesbæ, Höfnum, Sandgerði, Garði og Vogum. Sveitafélögin kynna sig yfirleitt sem hluta af Reykjanesinu. Um bergfræðina á Reykjanesinu segir m.a.:
“Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum Flest fjöll, t.d. Keilir, eru úr móbergi frá síðasta kuldaskeiði.”
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Stöðugar og hægfara hreyfingar hafa valdið miklum sprungum í þeim. Nýrri hraun ofan á fela líka eldri sprungur. Vogar (áður Kvíguvogar) og Vogastapi (Kvíguvogastapi; grágrýti). Stakksvogur á milli. Misgengi sunnan vegar við Vogastapa, Grímshóll með vörðu (75m). Lábarið grjót alls staðar meðfram vegi um Vogastapa. Vogastapi og Miðnesheiði eru gamlar dyngjur. Keflavíkurflugvöllur er á dyngju. Sandfellshæð er dyngja.
Stapafell myndaðist undir ís eða í sjó.
Arnarseturshraun (apal) er á leiðinni til Grindavíkur. Það er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík. Grindavík fær neyzluvatn frá Svartsengi en fékk áður 12°C heitt vatn, sem hafði flest einkenni hitaveituvatns. Sandey í Þingvallavatni er u.þ.b. 2000 ára. Leitarhraun, þar sem Raufarhólshelli er að finna, er u.þ.b. 4800 ára.”
Þarna er Reykjanesið teygt alla leið til Þingvalla, sem er reyndar það lengsta, sem tekist hefur að koma því hingað til.
Á nat. is er Reykjanesið sagt vera “yzti hluti Suðurnesja. Þar eru mikil ummerki eldvirkni og vart sést þar stingandi strá. Mest ber á dyngjum, s.s. Háleyjarbungu og Skálafelli, og gossprungum eða gígaröðum, sem eru mun yngri en dyngjurnar og hafa að öllum líkindum myndast á sögulegum tímum. Jarðhiti er mikill á skaganum, ekki færri en fimm háhitasvæði. Eitt þeirra er á Reykjanesi, þar sem sjá má leir- og vatnshveri.”
Á http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_reykjanes.htm eru taldir upp áhugaverðir staðir á Reykjanesi. Þar eru nefndir staðir frá Reykjanesvita upp í Brennisteinsfjöll og allt þar á milli, s.s. Selatangar, Þráinsskjöldur, Keilir og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Silungsveiði er sögð góð í vötnum á Reykjanesi, s.s. í Djúpavatni, Hlíðarvatni og Kleifarvatni. Söfn eru sögð nokkur, þ.á.m. Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Ljóst má af framangreindu að hin almenna túlkun á Reykjanesinu nær langt út fyrir Reykjanestána. Segja má að nú orðið sé svæðið vestan höfuðborgarinnar jafnan nefnt Reykjanes eða Reykjanesskagi í daglegu tali.
Reykjavík varð samheiti yfir alla byggðina ofan lítillar víkur, sem nú er horfin. Reykjanesbær varð samheiti yfir Keflavík, Njarðvíkur og Hafnir. Svona mætti lengi telja.
Mikilvægt er að aðilar noti Reykjaneshugtakið á sem jákvæðastan hátt þannig að sem best nýting megi verða á því sem flestum til hagsbóta.

Reykjanesskaginn.