Kristinn Benediktsson

Í Víkurfréttum 1994 er stutt grein eftir blaðamanninn og ljósmyndarann Kristinn Benediktsson undir fyrirsögninni “Reykjanes; sækum það heim“:

Saga svæðisins

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

“Allur Reykjanesfólkvangur er í hinu upprunalega landnámi Ingólfs Arnasonar, en brátt komu aðrir til sem segir í Landnámu.
Þórir Haustmyrkur nam þá Krýsuvík ásamt Selvogi. Gamli bærinn þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni, sem eftir síðustu rannsóknum dæmist hafa runnið á fyrri helmingi 11. aldar. Þá hefur verið hörfað með bæjarhúsin uppundir Bæjarfellið þar sem þau stóðu öldum saman og þar stendur kirkjan enn. Bæjarrústir eru í Húshólma og rústir gamalla fjárborga í Óbrennishólma nokkru vestar í hrauninu.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Krýsuvík var höfuðból og kirkjustaður og fylgdu henni margar hjáleigur. Alls eru til heimildir um 13 býli í Krýsuvíkurlandi að höfuðbólinu meðtöldu.
Þetta var byggðahverfi og kirkjusókn um aldir. Krýsuvík var mikil jörð, beitiland mikið og heyskapur góður, að minnsta kosti þegar ekki var mikið í Kleifarvatni, sem átti það til að standa hátt í kvos sinni árum saman en lækka síðan, allt eftir áhrifum úrkomunnar- því afrennsli hélst jafnt og það eingöngu neðanjarðar. Hlunnindi voru mikil og telur jarðabók Arna Magnússonar og Páls J. Vídalín skóg til kolagerðar fyrir ábúendur, móskurð, fjörugrös sem ábúendum nægi, eggjatekju og fuglaveiði í bergi, selveiði, rekavon í betra lagi og sölvatekju nokkra og útræði fyrir heimamenn á Selatöngum. Selstöður eru taldar tvær, önnur til fjalla en hin niður við sjó.

Krýsuvíkurleið

Gamli Krýsuvíkurvegurinn.

Krýsuvík var öldum saman í alfaraleið. Þar lágu leiðir milli Suðurlands og Suðurnesja og Grindavíkur, um Móhálsa (Vigdísarvelli) og Selvelli á Suðurnes og Ketilsstíg (Sveifluháls norðan Arnarvatns) inn til kaupstaðanna við Faxaflóa. Þarna fóru m.a. miklir vöruflutningar fram, skreið og landafurðir.
Á Bleiksmýri austur af Arnarfelli var fastur áningastaður lestanna. Farið var um Deildaháls ofan Eldborgarinnar undir Geitahlíð, sem merki sjást um enn í dag. Svo fór þó að Krýsuvík gerðist afskekkt. Ný viðhorf komu til í samgöngum, búskap og sjávarútvegi og býlin fóru í eyði hvert af öðru. Nú er Krýsuvík aftur í þjóðbraut síðan akvegur var lagður þar um á árunum 1934-40 og 1944-48. Hafnarfjarðarbær keypti hluta af landi Krýsuvíkur 1941. Í vesturhlíðum Vesturháls (Núpshlíðarháls) og vestan undir honum og Trölladyngju liggja lönd Grindvíkinga og Vatnsleysustrandamanna.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta voru afréttalönd og löngum notuð til selstöðu. Í Þrengslum var sel frá Hrauni í Grindavík og á Selvöllum voru sel frá öðrum bæjum í Grindavík. Í Sogunum vestast voru sel frá Kálfatjörn og Bakka t.d. Sogasel og stóðu þau í Sogaselsgíg. Á þessum slóðum eru stærstu samfelld gróðurlönd á Reykjanesi svo sem Selvellir í fólkvanginum og Höskuldarveilir, sem liggja við vesturjaðar fólkvangsins. Norður frá löndum Vatnsleysustrandamanna og Krýsuvíkur tóku við afréttarlönd Álftaneshrepps, Undirhlíðar og landið umhverfis Helgafell norður undir Víðistaðahlíð.
Sjá má af heimildum, að á þessu landi hefur mikill skógur vaxið og af honum hafðar miklar nytjar og óspart á hann gengið, hann höggvinn og rifinn til kolagerðar og eldiviðar, ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs og beitar.

Geldingadalir

Geldingadalir í Krýsuvíkum.

Þarna gekk búpeningur mjög sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum á vetrum, þegar henta þótti. Heyskapur var lítill á þessum slóðum. Varð því að bjargast á vetrarbeitinni og kom það hart niður á þessu landi. Ekki bætti það úr skák að hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar og gekk svo, þangað til svo nærri var gengið að breyta varð hrískvöðinni í fiskikvöð.
Í dag eru helstu akvegir um fólkvanginn Krýsuvíkurvegur úr Vatnsskarði suður í Krýsuvík og áfram austur í Selvog, Nesvegur, sem er þjóðvegurinn milli Krýsuvíkur og Grindavíkur og Bláfjallavegur af Krýsuvíkurvegi við Óbrynnishóla og norður á Suðurlandsveg. Fyrir nokkrum árum var lagður vegur fær fólksbílum að Djúpavatni og áfram suður um Vigdísarvelli og á Nesveg, og opnast þannig hringleið um suðurhluta svæðisins. Af þessum akvegum má komast á fjölbreyttar gönguleiðir í fólkvangnum.”- KB

Heimild:
-Víkurfréttir, 28. tbl. 14.07.1994, Reykjanes; sækjum það heim, Kristinn Benediktsson, bls 11.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.