Húshólmi

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1972 er umfjöllun með yfirskriftinni “Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?” þar sem nokkrir valdir einstaklingar eru spurðir svara:

“Enga íþrótt — ef íþrótt skyldi kalla — er eins auðvelt að iðka og gönguferðir — og þær eru sannarlega ekki síður skemmtilegar að vetri en sumri. Til þeirra þarf engan útbúnað annan en hlý föt og góða skó en hollustan af þeim er ómæld. Læknar hafa um árabil hvatt menn til gönguferða, ekki einungis vegna þess, að þær eru hollar líkamanum í heild, heldur og vinna þær gegn hjartasjúkdómum, sem eru eins og allir vita, einn tíðasti sjúkdómur meðal siðmenntaðra þjóða.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Margir hafa svo sem stundað gönguferðir án þess til þyrfti hvatningarorð lækna en enginn vafi er, að þær hafa orðið almennari á síðari árum eftir að fólk fór almennt að gera sér ljóst hvílíkir vágestir kransæðastífla og aðrir hjartakvillar er. Þannig hafa fjölmargir kynnzt umhverfi sínu á nýjan hátt, séð staði, sem voru þeim áður ókunnir og einnig séð gamalkunna staði nýjum augum.
Til gamans höfðum, við samband við nokkra menn og konur á höfuðborgarsvæðinu og báðum þau að segja okkur í fáum orðum, hvert þau mundu helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi, þegar þau ættu frí frá amstri og erfiði hversdagsins.

Hlíðar Heiðmerkur (Jónas Haralz, bankastjóri)
Jónas HaraldzVið sem búum í Reykjavík og nágrenni höfum þá einstöku aðstöðu að finna fagurt, tilkomumikið og marg breytilegt landslag eftir 10—15 mínútna akstursleið — og jafnvel- enn nœr bústöðum okkar. Þarna getum við verið algerlega út af fyrir okkur — er víða sem sjaldnast sést nokkur maður á vetrardegi. Við hjónin notum okkur þetta oft og eftirlætisstaður okkar er með hlíðunum í Heiðmerkurlandinu.

Á Helgafell eða fjörur (Halldóra Thoroddsen, skrifstofustjóri)
Það er vandi að velja á milli, því að margir skemmtilegir staðir eru í nágrenni Reykjavíkur og óþarfi að aka langt burt úr bænum til að finna fallegar gönguleiðir. Til dæmis er einkar gaman að ganga fyrir sunnan Heiðmörkina og Hafnarfjörð og minnist ég þá sérstaklega skemmtilegrar leiðar, sem Eysteinn Jónsson lýsti fyrir nokkrum áratugum, það er göngu ferð á Helgafell. Ég gekk einu sinni eftir hans fyrirsögn og er viss um að sú leið svíkur engan.
Halldóra Thoroddsen
Skemmtilegast finnst mér þó að ganga með sjó fram og þá er ekki langt að aka suður í Krýsuvík eða Grindavík — nú — svo standa fjörurnar á Stokkseyri og Eyrarbakka alltaf fyrir sínu. Þessum gönguferðum fylgir sá kostur, að maður þarf ekki að kjaga upp eða niður brekkur. Helzt mundi ég þó kjósa á góðviðrissunnudegi að setjastá hestbak og ríða inn með Esjunni og upp að Tröllafossi — það er mátuleg sunnudagsferð fyrir mann og hest.

Kaldársel (Gísli Sigurðsson, varðstjóri)
Ég hef haft þann sið frá þvi fyrir 1930 að ganga um nágrennið og upp úr 1950 fór ég að safna örnefnum hér í kring og hef verið að ganga á þessa staði. Það er því um margt að velja. Úr Reykjavík er til dæmis gott að ganga upp að Elliðavatni og Vatnsendavatni og þar um kring, m.a. i Heiðmörkinni. Svo ég tali nú ekki um að bregða sér í fjöllin í Mosfellssveitinni, þar er indælt að vera og horfa yfir sundin, eyjarnar og nesin.
Gísli SigurðssonÚr Garðahreppi er einfaldast að fara beint inn hjá Vífilsstöðum, inn á hálsana, inn með Vífilsstaðahlíð, inn í Grunnuvötn og inn á Hjalla.
Úr Kópavogi er sjálfsagt að ganga inn úr byggðinni, upp og umhverfis Vatnsenda hæð, inn í Selás, inn fyrir Geitháls, — ég tala nú ekki um að fara inn á Sandskeiðið og þar í kring.
Við Hafnfirðingar eigum ekki langt að fara, getum gengið umhverfis bæinn, um Urðarfosshraunið, Setbergshlíðina inn að Kaldárseli og kringum Helgafell, suður um Ásfjall og þar um kring. Þetta eru svona tveggja til þriggja tíma leiðir, sem er gott að ganga eftir hádegi. Þarna er víða ónumið land, sem er indælt til hvíldar og gönguferða. Mér finnst ekkert taka þeim fram.

Gamla Krýsuvík (Björn Steffensen, endurskoðandi)
Björn SteffesenFerðinni er heitið í Húshólma til þess að skoða tóftir „Gömlu Krýsuvíkur”: Ekið er sem leið liggur suður Reykjanesbraut þar til komið er suður fyrir Hvaleyrarholt að beygt er til vinstri, á Krýsuvíkurveg. Ekið um Kapelluhraun og austur jaðar Almennings, yfir Vatnsskarð að Kleifarvatni. Haldið áfram suður með vatninu; farið fram hjá hverasvæðinu við Ketilstíg og áfram fram hjá Grænavatni. Tæpum 1 kílómetra sunnar eru, til hægri handar, vegamót Grindavíkurvegar. Er ekið eftir honum gegjnum túnið í Krýsuvík og áfram, um 4 kilómetra í vestur, þá er komið að austurjaðri Ögmundarhrauns. Þá er Mælifell á hægri hönd.
Hér hefst gönguferðin og er þá fyrst farið niður með jaðri hraunsins. Auðvelt er að aka jeppa niður með hrauninu, en við förum þetta gangandi.
Þegar gengið hefur verið um 2 kílómetra niður með hraunjaðrinum verða fyrir tvö vörðubrot á hraunbrúninni. Hér liggur stígur upp á hraunið. Er þessum stíg fylgt yfir að hraunrima, sem er sem næst 1/2 kílómetri á breidd og er þá komið í Húshólma.
Húshólmi er gróin spilda, nokkrir tugir hektara að stærð, umlukt apalhrauni, nema við sjó er dálítil fjara.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Haldið er vestur yfir Húshólmann og stefnt dálítið ská hallt í átt til sjávar. Þegar komið er að hraunbrúninni vestan við gróðurspilduna er stefna tekin suður með hrauninu unz fyrir verður gróið túngarðsbrot, sem liggur skáhallt út undan hrauninu. Er þetta brot af túngarði „Gömlu Krýsuvíkur”. Sunnan við túngarðsbrotið er gengið upp á hraunið og verða þá fyrir tóftirnar af húsum „Gömlu Krýsuvíkur”.
Hér gefur á að líta tóftir af bæjarhósum, sem hraun (Ögmundarhraun) hefur runnið allt í kringum og að nokkru yfir. Ég held að hvergi á Íslandi sé hægt að sjá þessu líkt, nema ef vera kynni í Reykjahlíð við Mývatn. Talið er að Ögmundarhraun hafi runnið um miðja 14. öld.
Munnmæli herma að hér hafi Krýsuvík upphaflega verið. Þetta mun að vísu aðeins vera tilgáta til að skýra nafn bœjarins, sem eftir hraunflóðið á að hafa verið fluttur á þann stað, þar sem hann nú er, um 4 kílómetra frá sjó og engin vík í landi jarðarinnar. Krýsuvík er nú í eyði, bæjarhús fallin, en lítil timburkirkja stendur.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Orð fer af því hve nágrenni Reykjavíkur sé hrjóstrugt. Þar á móti kemur að kannski er hvergi á Íslandi jafn fjölbreytt náttúra. Auk þess eru hér á næstu grösum margvíslegar minjar frá liðnum öldum, sem gaman er að kynnast, svo sem seljatóftirnar í hrauntungunni milli Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar, sunnan Kapelluhrauns (Almenningur), festarjárnin digru á Básendum, sjóbúðatóftirnar og fiskbyrgin á Selatöngum, og fallegar fjárborgir á víð og dreif, svo að nokkuð sé nefnt. Er ómaksins vert fyrir þá, sem eiga ráð á bíl og eru rólfærir, að gefa þessu gaum.

Hlíðar Esjunnar (Áki Jakobsson, lögfræðingur)
Áki JakobssonÍ haust sem leið var tíðin rysjótt og fá tækifæri gáfust til þess að fara í gönguferð í þurru veðri.
Sunnudag einn hringdi til mín kunningi minn og spurði hvort ég væri ekki til í að koma í göngutúr. Ég játaði því með þökkum og fór í gönguskó og svo lögðum við af stað. Við ókum upp að Stardal og lögðum bílnum þar en lögðum land undir fót. Gengum við svo til vesturs frá Stardal meðfram undirhlíðum Esjunnar. Síðan sveigðum við til norðurs og stefndum að Móskarðshnúkum. Leiðin lá yfir allvíðlend an mýrarslakka, sem grafinn hefur verið í sundur með skurðum, sem virðist vera orðin árátta, þó að ekki eigi að fullrækta. Á leiðinni yfir mýrina, sem var mjög blaut eftir rigningarnar í sumar, og því ekki beint þægileg til göngu, rákumst við á mink, sem faldi sig i skurði. Þegar hann varð var mannaferða tók hann til fótanna og hafði sýnilega engan áhuga á að kynnast okkur frekar. Við veittum honum nokkra athygli og virtist augljóst, að þarna væri um hlaupagikk að ræða, nýsloppinn út, enda er þarna skammt frá eitt af hinum nýju minkabúum, sem stofnuð voru eftir að minkabannið var afnumið illu heilli. Við vorum ekki í neinum minkaveiðihugleiðingum og kvöddum hann því og héldum leið okkar. Stefndum við nú á vestasta Móskarðshnúkinn. Veður var bjart þessa stundina, þó ekki sól, en líparitið í hnúkunum gerði þetta að sólskinslandslagi og fjallasýnin var heillandi.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Stefndum við nú upp til fjallanna og ekki leið á löngu þar til við komum upp á veginn úr Kjósinni, sem liggur um Svínaskarð. Fylgdum við nú veginum til vesturs, þar til hann sveigir til suðurs við vestasta hnúkinn. Þá fórum við af veginum og stefndum upp á leið, upp á mjög einkennilega klettaborg, sem stendur upp úr skriðunum neðanvert í fjallinu. Nú gerði á okkur skyndilega rigningu og er ekki að orðlengja það, að við urðum holdvotir á nokkrum mínútum. Við létum þetta þó ekki aftra okkur og héldum áfram. Eg er nú ekki orðinn mikill fjallgöngumaður, en upp á klettaborgina komst ég þó. Þá bregður svo við, að það er eins og risahönd sópi burt rigningarskýjunum og við fáum sólskin. Við fengum alveg stórkostlega útsýn, einkum til Esjunnar, en þar blasir við auganu hæsti tindur hennar. Þessi fjallasýn var svo heillandi, að mér fannst við í henni einni fá ríkuleg laun fyrir erfiði okkar. Því hefur ekki einhver af málurum okkar sett þetta stórkostlega „motiv” á léreft, varð mér á að hugsa. Það get ur nú verið að það hafi verið gert, þó að ég hafi ekki séð þá mynd.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Sólskinið stóð ekki lengi. Þung rigningarský lögðust að á ný og aftur var komin hellirigning. Eftir þessa útsýn á hamraborgunum, gerði þetta að sól inni, fannst okkur ekki vera hægt að vænta nýrra ævintýra í þessari ferð og hröðuðum okkur nú niður og vildum komast úr rigningunni sem fyrst. Við fórum niður á veginn úr Kjósinni og fylgdum honum, en komum þá að girðingu, sem liggur meðfram veginum og beinir honum í aðra átt en við þurftum að komast.
Brugðum við nú á það ráð að fara yfir girðingu þessa, til þess að stytta okkur leið. En við höfðum ekki lengi gengið þegar við gengum fram á tvö heljarmikil naut. Við höfðum sem sagt lent í nautagirðingu. Við höfðum engan kjark til þess að fara að kljást við naut. Nautin höfðu ekki orðið vör við okkur, svo við læddumst til baka sömu leið og komum okkur út úr girðingunni. Við fórum svo krókinn af mestu þolinmæði og komum að bílnum aftur eftir röskra fjögurra tíma göngu. Við vor um að vísu holdvotir, en höfðum átt mjög skemmtilegan dag.

Yfir Sveifluháls (Bergþóra Sigurðardóttir, læknir)
Bergþóra SigurðardóttirSveifluháls eða Austurháls nefnist hæðardragið norðan Kleifarvatns og eru hæstu tindar hans tæpir 400 m á hæð. Er hann innan þess svæðis, sem Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur og borgarráð leggja til að verði fólkvangur.
Reyndar kæmi sér vel fyrir okkur gönguglöð, að fá til fylgdar einhvern fótfúinn, sem sætti sig við að aka okkur í átt að Djúpavatni og biða okkar síðan í Krýsuvík. Gætum við þá gengið þvert yfir hálsinn, sem er þarna um 2,5 km á breidd. En ekkert er á móti því að ganga í hring og koma niður sömu megin. Við ókum Krýsuvíkurveg í átt að Kleifarvatni, en beygjum til hægri áður en við komum í Vatnsskarð, þar sem heitir Móhálsaleið. Ruðningsvegur liggur yfir hraunið með nyrðri hlíð Sveifluháls í átt að Djúpavatni. Þar er silungsveiði og snoturt veiðihús stendur við vatnið. Yfirgefum við farartækin, þar sem vegurinn sveigir að Djúpavatni.
Sveifluháls er móbergshryggur, sem hlaðizt hefur upp í sprungustefnu (SV—NA) á siðasta jökulskeiði. Hann er því lítið rofinn og landslag tilbreytingaríkt. Aðallitir landsins þarna eru rauðbrúnn litur móbergsins og grámi gamburmosans. Göngum við suður og upp á við yfir urð og grjót. Í maí sjást þarna í mosa og móabörðum bleikar breiður sem minna fákunnandi á lambagras, en þarna skartar vetrarblómið sínum fegursta skrúða. Er upp á hálsinn er komið er fallegt að sjá til norðurs yfir hraunið og Djúpavatn, en handan þess Grænadyngja og Trölladyngja. Í suðaustri sjást gufustrókar frá hverum milli Hatts og Hettu, en það eru hæstu hnúkarnir á hálsinum í suðri.

Grænavatn

Grænavatn.

Á miðjum hálsinum er tjörn, sem Arnarvatn nefnist. Við göngum vestan hennar í sendnu fjöruborðinu, en reiðvegurinn til Krýsuvíkur liggur austan megin. Móbergskambur skýlir okkur á aðra hönd, en handan hans tekur við flatlent mýrlendi og norðaustan þess gnæfir Arnarnípa 340 m á hæð. Er yfir mýrina kemur tekur við holt, en síðan fer að halla undan fæti og við sjáum suður á sjálft Atlantshafið. Lítið fell, Arnarfell, sunnan Krýsuvíkur er fallegt til að sjá. Við sjáum að Grænavatn er réttnefni, en það glitrar eins og smaragður séð frá hálsinum.
Við fikrum okkur svo niður gilið að hverasvæðinu, þar sem hitaveita Hafnarfjarðar hefur um árabil bullað út í loftið.
Þar sem Grænavatn var svona fallegt til að sjá, hyllumst við til að skoða það nánar. Er það rétt sunnan við akveginn. Grænavatn er dýpsti sprengigígur á landinu, 44 m á dýpt og á barmi þess getum við fundið hnyðlinga úr gabbró. Gestastaðavatn, vestan vegarins er einnig í gömlum sprengigíg, en aðeins 2,6 m á dýpt. Enn sunnar eru tvær smátjarnir eru Augu nefnast og myndaðar á sama máta. Liggur veg urinn milli Augnanna og ljúkum við þar göngu okkar.”

Heimild:
-Morgunblaðið-sunnudagsblað 26.11.1972, Hvert munduð þér helzt halda í gönguferð á góðum sunnudegi?, bls. 36-37.

Arnarfell

Arnarfell.