Gengið var frá Reykjanesbraut og haldið niður hraunið vestan fjárhúsanna ofan við Lónakot.
Vestan girðingarinnar liggur fjárgata niður eftir gróðurlænum við hærri hraunkant. Komið var niður að efri innsiglingavörðunni. Frá henni var gengið niður á heimatúnið, sem er umlukið Lónakotsvatnagarðinum (vörslugarðinum). Gengið var framhjá hlöðnu skjóli í hraunkvos, hlöðnu gerði, garði er lokaði af dalkvos og síðan yfir garðinn er umlykur heimatúnið. Innan hans er tótt, en heimreiðin legur inn á vestanvert túnið, í gegnum þvergarð og yfir hann aftur þar sem reiðin sveigir heim að bænum.
Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Neðar, nær sjónum er hústótt, garður og enn má sjá hluta varnargarðs á milli túnsins og sjávar. Fjaran neðan við bæinn er að hluta til sendinn. Suðvestan við bæinn er gerði, líklega matjurtargarður, en sunnan við bæjarhúsin er tjörn þar sem sjávarfalla gætir. Í vesturhorni hennar er lind þar sem ferskt vatn streymir upp á fjöru. Hlaðið er landmegin við brunnstæðið.
Nyrst á túninu eru heillegar tóttir og garðar, s.s. útvegshús og bátarétt (sem síðar varð fjárhús (Norðurfjárhúsin). Sunnar er klettahóllinn Gjögur. Ofar er sauðhústóft. Framhjá því liggur leiðin að Óttarstöðum. Suðvestan þeirra, innan garðs, má sjá fleiri tóttir. Utan garðs, landmegin, eru en fleiri tóttir, gerði í hraunlaut og stórt gerði (rétt) efst. Yfir gjá skammt suðvestan við túngarðinn er hlaðin brú. Til baka var gengið upp hraunið norðan fjárhúsanna.
Auðvelt er að sjá hvar Lónakotsselsstígur liggur upp hraunið í átt að selinu, sem er í u.þ.b. klukkustundar gang frá kotinu.
Gangan niður að Lónakoti tekur u.þ.b. 20 mínútur. Svæðið hefur bæði upp á fegurð og fjölbreytileika að bjóða. Fjörugt fuglalíf er í kringum lónin. Ströndin er sendin á kafla og vestar með henni eru fallegar tjarnir á milli hárra hraunhóla.
Tækifærið var notað og uppdráttur gerður af Lónakoti til hliðsjónar ef einhver áhugasamur skyldi leggja leið sína þangað síðar.
Frábært veður.