Færslur

Lónakot

Kornelíus Jónsson (1915) úrsmiður og gullsmiður í Reykjavík byggði fjárhús fyrir ofan Lónakot um 1960 þegar hann keypti hluta Lónakots jarðarinnar af Sæmundi Þórðarsyni kaupmanni. Sæmundur keypt jörðina 1939 af Guðlaugi Engilbert Sveinssyni (1883-1955). Guðlaugur sem ætíð var nefndur Laugi Lóna, flutti þá búferlum frá kotinu inn í Hafnarfjörð.
lonakot-245Guðlaugur tók við Lónakoti árið 1902, en þá hafði jörðin verið í eyði í tvö ár eftir að Hallgrímur Grímsson og seinni kona hans Rannveig Ólafsdóttir fluttu þaðan ásamt fjórum börnum sínum. Fimmta barnið höfðu þau misst úr skarlatsótt aldamótaárið 1900. Þeim var gert ókleift að búa í Lónakoti eftir að bæjarhúsin voru brennd í kjölfar farsóttarinnar sem kom upp á bænum. Þegar Guðlaugur tók við jörðinni hófst hann handa með að byggja nýjan bæ á Bæjarhólnum. Hann bjó í Lónakoti ásamt sambýliskonu sinni Guðríði Jónsdóttur og þeim fæddist dóttirin Jónína Björg 1904. Þegar Guðlaugur og Guðríður fluttu frá Lónakoti á þriðja áratug 20. aldar eins og svo margir aðrir Hraunamenn, héldu þau áfram að nýta jörðina fyrir búfénað sinn. Þau bjuggu þá í litlu bakhúsi við Krosseyrarveg.

Lónakot

Lónakot – yrðlingabyrgi.

Þegar einir 30 metrar eru eftir að Suðurgarði Lónakots, tvíhlaðið túngerði sem er að mestu fallið, er sprunga á vinstri hönd sem búið er að fylla af grjóti. Þetta er Yrðlingabyrgið sem Hallgrímur Grímsson útbjó til að ala upp tófuyrðlinga nokkru fyrir aldamótin 1900, væntanlega í þeim tilgangi að slátra þeim og selja skinnin. Hallgrímur var bóndi í Lónakoti frá 1888 til 1900, en stundaði einnig róðra frá Suðurnesjum, m.a. frá bænum Kalmannstjörn í Höfnum.

Rétt innan suðurhliðsins, austanvert við götuna er þúfnakargi og lítil fjárhústóft með hlöðnum einföldum garði umhverfis, Kotagarði. Þetta svæði nefnist Kofinn eða Dys í Koti og rétt austar er fjárgerði sem kallast Kotagerði.
lonakot-246Þarna mun gamli Lónakotsbærinn hafa staðið áður en Landlæknir lét brenna kotið eftir að skarlatssótt kom upp. Tveimur árum síðar voru bæjarhúsin byggð upp á Bæjarhólnum, sprungnum hól í miðju túni við Norðurtjörn.
Austur af Bæjarhólnum er Vökhóll, einnig nefndur Krumfótur og Sönghóll. Efst á honum er Vökhólsþúfa eða Sönghólsþúfa. Sunnan hólsins var syðra túngarðshliðið og frá því lá Lónakotsgatan syðri í áttina að Brunntjörn vestan Straums og suður á Alfaraleið. Nyrðra túnhliðið var norðan hólsins, milli hans og Norðurfjárhúsanna, en tóftir þeirra standa enn á sjávarbakkanum. Þar austur með sjónum lá Lónakotsgatan nyrðri að Óttarsstöðum, einnig nefnd Sjávargatan.

lonakot-247Fyrir ströndu eru Lónakotsfjörur og út frá Norðurfjárhúsum eru sléttar hraunklappir sem nefnast Lónakotsnef. Þar vestur af er Gráasker, sem áður var grasi gróið og þurfti að vakta fé sem þangað sótti svo það flæddi ekki í skerinu.
Til austurs frá Lónakotsnefi liggur Gjögur allt austur að Sönduvík eða Sandavík og Söndu, sem er sendinn kafli innan við lábarið stórgrýti sem sjórinn hefur slípað af mikilli einurð. Söndugrjót nefnist þessi stórgrýtti sjávarkampur og innan hans er Söndutjörn.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Innan við Söndugrjótið er Markhóll, krosssprunginn hóll með Markhólsþúfu. Markaklettur stendur fram í fjörunni þar sem mörkin milli Lónakots og Óttarsstaða eru. Þessi klettur er að mestu horfinn í grjótið. Línan liggur síðan í gegnum Markhólinn sem áður er nefndur, um austasta hluta Lónakotsvatnagarða rétt vestan Vatnagarðafjárskjóls og þaðan suður í Sjónarhól sem er áberandi sprunginn hraunhóll sem sést víða að. Þaðan er línan í kletta austan Lónakostssels og í Mið-Krossstapa.

Með sjávarbakkanum frá Norðurfjárhúsum til vesturs var mikill tvíhlaðinn grjótgarður nefndur Norðurtúngarður eða Sjóvarnargarður. Miklar skemmdir urðu á honum í stórflóði og áhlaupi veturinn 1958.

Lónakot

Lónakot – fjaran.

Þótt reynt hafi verið að halda honum við eftir það hefur sjórinn haldið áfram af seiglu sinni og nú er garðurinn að mestu horfinn og Norðurtúnið hefur spillst verulega af sjávargangi. Sunnan Norðurtjarnar er Suðurtúnið en vestan hennar Seltúnið. Þar eru tóftir fjárhúss Sæmundar Þórðarsonar, en þakið fauk af húsinu stuttu eftir að hann hætti að nýta það og nú er þar tóftin ein eftir.
Frá Norðurtúngarðshliði til vesturs lá Sjávargatan sem enn markar fyrir. Þessi gata var gerð vagnfær um 1920 til að hægt væri að sækja rekavið sem töluvert var af á þessum slóðum. Enn er hægt að sjá hvar gatan hefur verið hlaðin og rudd en hún er ekki vagnfær lengur því mikið stórgrýti þekur svæðið að stórum hluta.

nypuskjol-245

Lónakotsvör, sumarvörin var vestan túngarðsins, en hún var með öllu ófær í illviðrum og á vetrum. Nokkru vestar er Brimþúfa uppi á kletti en í fjörunni er Mávahella, þar sem Mávar og Skarfar viðra sig gjarnan þegar svo ber undir.
Þó nokkru vestar er strýtulagaður hraunhóll sem nefnist Nípa. Suðaustan Nípu er einskonar jarðfall með skúta sem snýr til suður. Þar var í eina tíð hlaðið fyrir og reft yfir því sauðfé var haldið til beitar á vetrum á þessum slóðum. Enn er hægt að sjá hleðslurnar og fúna rafta sem eru löngu fallnir, þar sem áður var fjárskjólið Nípuskjól. Nær sjávarbakkanum er Nípurétt, nátthaginn þar sem smalinn bældi fé sitt að næturlagi.
Þegar komið er framhjá Nípu blasa við klettar upp af ströndinni með grösugum bölum sem umkringdir eru hlöðnum túngörðum. Þar eru einnig hlaðnar réttir sem klettarnir bera nafn af því þeir kallast Réttarklettar. Sauðfé sækir mjög í fjörubeit á þessum slóðum þegar það er látið ganga sjálfala í hrauninu á vetrum.
Dulatjarnir-245Nokkru vestar er áberandi klettar sem nefnast Dulaklettar og umhverfis þá eru grastór og tjarnir sem kallast Dulatjarnir. Þar gætir flóðs og fjöru og þorna tjarnirnar þegar lágsjávað er. Duli er gamalt fiskimið í Lónakotsdjúpi sem Seltirningar notuðu gjarnan og þar þótti mjög fiskisælt. Miðið er Keilir um Dula, sem þýðir að menn tóku mið af strýtulöguðum kletti og þúfu á öðrum kletti ofan við hann í fjallið Keili.
Nokkru vestan við Dulakletta eru Selasteinar og þegar komið er steinsnar vestar er Markaklettur á innanverðu Hraunsnesi, sem gengur hér í sjó fram. Þar eru mörkin milli Lónakots og Hvassahrauns, sömuleiðis sveitafélagamörk milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Áður fyrr var varða á Markaklöpp og sjást enn merki um hana. Frá henni er stefnan í Markaklett sem er sprunginn klettur, þaðan í Skógarhól og síðan í Stóra-Grænhól suður um Grænhólsker í Hólbrunnsvörðu, þaðan í Skorásvörðu og suður í Mið-Krossstapa.

Hvassahraun-245

Þegar komið er framhjá Markakletti tekur Hvassahraunsland við. Hér skerst vik inn í landið sem nefnist Hvassahraunsbót og er á milli tveggja nesja, Hraunsness að austan og Stekkjarness að vestan. Utar er Vatnsleysuvík sem nær milli Hvassahrauns og  Stóru-Vatnsleysu. Sjávargatan liggur ofan fjörunnar um Látur sem þykir merkilegt náttúrufyrirbæri og er friðað samkvæmt Náttúruminjaskrá. Gatan liggur ofan sjávarbakkans í áttina að Stekkjarnesi. Þegar þangað er komið er stekkurinn austan og neðan Stekkjarhóls sem er myndarlegur sprunginn hóll sem skartar áberandi fuglaþúfu, eins og svo margir hraunklettar á þessum slóðum. Stekkurinn er að mestu fallinn því löngu hætt að nota hann og viðhald ekkert. Lábarið sjávargrjót hefur hlaðist upp og er komið allnærri stekknum þar sem landbrot er töluvert á þessum stað.

Lónakot

Lónakot – fjárhús.

Hægt er að fylgja annarri leið sem liggur ofar í landinu en Sjávargatan, í áttina að Hvassahraunsbæjunum. Það var fjórbýlt í Hvassahrauni á 19. öld þegar hægt var að lifa að því að láta búsmalann ganga sjálfala um hagana árið um kring og drýgja tekjurnar með sjósókn. Bæirnir voru Hvassahraun I og II, auk kotanna Hvassahraunskots og Sönghóls.

Hvassahraun

Hvasssahraun – Bæjarvík.

Frá Stekkjarnesi blasir Bæjarvíkin við og vestan hennar er Fagravík. Enn standa bæjarhúsin í Hvassahrauni, en þar eru einnig þó nokkuð mörg sumarhús sem byggð voru um miðja 20. öldina og eitt heilsárshús sem byggt var í lok 20. aldar. Síðast var búskapur í Hvassahrauni um 1960, en í seinni tíð hafa frístundabændur haft sauðfé sitt í gömlu fjárhúsunum. Kornelíus í Lónakoti er nú eigandi Hvassahraunstúnsins en aðrir jarðapartar skiptast á margar hendur.

Lónakot

Lónakot – fjárhús.

Gengið er í áttina að Hvassahraunsbænum og snúið til baka þegar komið er að steinhlöðnum Norðutúngarði. Þar er gömlu Alfaraleiðinni fylgt að hluta til þar til hún sveigir til suðurs, þá er haldið beint af augum til austurs og í áttina að Lónakotsfjárhúsum og gömlu Vetrarleiðinni fylgt. Leiðin var vörðuð áður en Suðurnesjavegurinn var lagður uppúr aldmótunum 1900, en þegar hann var orðinn akfær voru vörðurnar á gömlu leiðinni felldar.

Hvassahraun

Hvassahraun – vörin.

Það getur því verið erfiðleikum bundið að rata þessa leið, sem er að mestu gróin upp. Ratvísum ferðalöngum ætti samt ekki að verða skotaskuld úr því að feta þessa fornu slóð og fylgja henni. Þegar komið er nokkurn spöl sést steypt Landmælingamerki rísa við sjóndeildarhring efst á Grænhól. – Jónatan Garðarsson.

Heimildir:
-Örnefnaskrá Lónakots, Gísli Sigurðsson, Ari Gíslason.
-Horfinn heimur – Árið 1900 í nærmynd, Þórunn Valdimarsdóttir.

Lónakot

Lónakotsbærinn undir það síðasta.

Lónakot

Gengið með ströndinni frá Hvassahrauni að Lónakoti. Byrjað var við gamla Keflavíkurveginn skammt ofan við gömlu Hvassahraunsréttina. Í þessari lýsingu er ekki ætlunin að lýsa örnefnum sérstaklega heldur fyrst og fremst því sem fyrir augu bar á leiðinni.

Hvassahraun

Hvassahraunsrétt.

Réttin er hlaðin, ferningslaga, norðaustan utan í hraunhól vestan í hæðinni þar sem vegurinn er hæstur austan Hvasshrauns. Gengið var skáhalt niður lyngvaxið hraunið. Lóuhreiður á mosa og þrastarhreiður í kjarri, en síðan blasti skyndilega við hinn blákaldi veruleiki; sundurtættur mávur og einungis fjaðrinar eftir. Refurinn þarf jú sitt til að geta skrimt.
Bergmyndanirnar með ströndinni eru bæði fjölbreytilegar og stórbrotnar. Sumstaðar eru þverfallnir stuðlar, annars staðar hefur hraunið runnið lagskipt í sjó fram. Aldan hefur síðan dundað við að brjóta það upp, hnoða það í grágrýtiskúlur og varpa upp á land. Víða má sjá holu- eða bráðnunarmyndanir í annars hörðu berginu. Fjölbreytileikinn virðist ótakmarkaður. Um er að ræða forsögulega hraunmyndun, líklega frá fyrra hlýskeiði, milli síðustu ísalda. Sjórinn hefur dundað sér við að brjóta upp hraunflekana og fagurgera hraunyndanirnar áður en hann skellti þeim upp á sjávarbakkann.

Réttarklettar

Réttarklettar- stekkur.

Hrafnklukka, lambagras, bláberja- og krækiberjalynd, ljónslappi og fleiri tegundir hafa tekið sér svæðisbundna búsetu; hver tengundin tekur við af annarri.

Á Hraunsnesi og ofan við það eru fallega lygnartjarnir milli stórbrotinna hraunhóla. Botninn er gróinn því þarna gætir fljóðs og fjöru. Græni liturinn undir blámanum setur sjarmerandi svip á svæðið. Þannig skiptast litirnir í tjörnunum eftir því hvernig birtan fellur til.
Á leiðinni var fjölmargt að sjá; hnyðjur, rekaviður, brúsar, kúlur, ryðgað járn, garða, fjárskjól, selsstaða, fjárskjól, flöskuskeyti og hvaðaneina er prýtt getur fallega fjöru.

Hraunsnesskjól

Hraunsnesskjól.

Fjárskjól er í Hraunsnesi og einnig skammt austar. Þar eru garðar, stekkur og tóftir. Grunur er um að þarna hafi Lónakot haft selstöðu um tíma, en að öllum líkindum hafa mannvirkin verið nýtt til útróðra þess á millum. Gerðið er afgirt hleðslugörðum og sæmileg lending er neðan við klettaborgina, sem selsstaðan hefur verið mynduð í kringum. Skammt suðvestan við hana eru hlaðið fjárskjól í hraunkrika.
Myndarlega hlaðið gerði er skammt austar. Þarna gæti verið um bátarétt að ræða er rennir enn frekar stoðum undir nýtinguna á svæðinu. Áður en komið er að Réttarklettum er farið með Dularklettum og -tjörnum, framhjá Grænhólsskjóli (fjárskjól) og Réttarklettum með allnokkrum görðum og gerðum umleikis, Nípa, Nípuskjól og Nípurétt eru skammt austar.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Lónakot er svolítið austar. Þegar svæðið var skoðað komu í ljós gerði, garðar, tóftir útihúsa, bæjarhóllinn og tóftir hans, brunnurinn sunnan við hann, heimagarðurinn og tjarnirnar (lónin) allt um kring.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Lónakot fór í eyði á 20. öldinni, en sumar minjanna gætur verið nokkuð eldri. Heimagarðurinn er líkur öðrum slíkum, en víða með tjörnunum má greina hleðslur og gömul mannvirki. Leiðir að Lónakoti eru varðaðar (sjá háar vörður ofar í hrauninu). Liggja þær að Straumi (til austurs) og að Hvasshrauni (til vesturs).

Gengið var upp gamla veginn frá Lónakoti. Sjá mátti fallegar hleðslur utan í honum sumstaðar þar sem hann liggur um jarðföll og gjár.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 10 mín.

Lónakot

Lónakot – bæjartóftin.

 

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Hraunin og Hraunabæina svonefndu, s.s. Straum, Gerði, Þorbjarnastaði, Óttarstaði, Eyðikot og Lónakot.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin “Keili á og kotið Lóna” og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Stekkurinn.

Meðalbú var 18-20 kindur og 1-3 kýr. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Kúarétt

Kúarétt í Kúadal.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.
Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðavör.

Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem “brimið þvær hin skreipu sker”. Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.
Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum. En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Óttarsstaðaborgin

Óttarsstaðaborgin.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík.
Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju.

Hvasshraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krísuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurn veginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krísuvíkur.
Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt.

En hvað verður um Hraunin?
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður.
Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Við ramman reip verður þó að draga því áhugi ráðamanna í Hafnarfirði er að gera svæðið að hafnarsvæði, auk þess sem hluti þess fer undir fyrirhugaða stækkun álversins. Ef af verður mun merk saga og einstök náttúra fara fyrir lítið.

-Byggt á frásögn Magnúsar Jónssonar, fv. minjavarðar, Hafnarfirði.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Reykjanesbraut

Í “Fornleifaskráningu vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi”, Reykjavík 2020, er m.a. fjallað um minjar á jörðunum Lónakoti, Óttarsstöðum, Straumi, Þorbjarnarstöðum, Péturskoti, Stóra-Lambhaga og Litla-Lambhaga, auk Hvaleyrar. Hér verður vikið að nokkrum atriðum skráningarinnar.

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

1703: Jarðardýrleiki er óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 159.
1847: 10 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Í eyði frá því um 1930. Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðinni Lónakoti.
1917: Tún telst 0,9 teigar, slétt, garðar 500 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin í eigin landi, og eru hagar þar góðir, en þegar þurkur gengur, verður þar stórt mein að vatnsskorti. Skógur hefur til forna verið, og er það nú meira rifhrís, það brúkar jörðin til kolgjörðar og eldiviðar, og jafnvel til að fóðra nautpeníng um vetur.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Torfrista og stúnga í lakasta máta, valla nýtandi. Lýngrif er nokkurt og brúkast til eldiviðar mestan part og stundum til að bjarga á sauðpeníngi i heyskorti. Fjörugrasatekja nægileg heimilissmönnum. Rekavon lítil.
Sölvafjara hjálpleg fyrir heimamenn. Hrognkelsafjara gagnleg fyrir heimamenn. Skelfiskfjara naumleg og erfiðisssöm til beitu. Heimræði má ekki kalla að hjer sje, því lendíng er engin nema við voveiflega sjáfarkletta, og þarf ábúandinn á næsta bæ, Ottastöðum, skipsuppsátur ár og dag, og hefur haft það frí í fimmtíi ár fyrir tvö tveggja manna för, hvenær sem ábúandinn á Lónakoti hefur viljað sumar og vetur. Inntökuskip hefur hann engin fyrir utan þessa báta og hafa ei heldur verið. Engjar eru öngvar. Utihagar bregðast mjög skjaldan á vetur.“ JÁM III, 160.

Óttarstaðir

Óttarsstaðir

Óttarstaðakot – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 160.
1847: 20 5/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó að hvorki prestir né sýslumaður nefni hjáleiguna, er hún samt talin með, meðfram vegna ábúenda tölu sýslumanns, á öllum Óttarstöpum, enda var hún í byggð 1803.“
Hjáleiga 1703: Ónefnd.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

1917: Tún 4,7 teigar, garðar 2460 m2. Túnið hólótt og grýtt en þó mikið slétt og sléttað.
1703: „Skóg til kolgjörðar og eldiviðar sækir ábúandi í almenníng betalíngslaust, hver sá eyddur er, sem skamt sýnist að bíða. Er þar ekkert á eður í jörðunni til eldíngar fyrir utan fjöruþáng, sem þar er enn nú nægilegt, og verður þá ábúandinn kol út að kaupa. Lýngrif kann þar nokkuð að brúkast, tíðkast ei nema til eldkveikju. Rekavon af trjám er hjer mjög litil, þó festifjara. Fisk brotinn af sér rekur á stundum, so heldur er gagn að. Sölvafjara nægir heimilissfólki, en er örðug að ná. Hrognkelsatekja í lónum þá út fjarar er hjer oft að góðu liði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Fjörugrös eru þar nægileg fyrir heimamenn. Bjöllur í fjörunni eru þar nógar, en brúkast ekki nema i stærstu viðlögum. Heimræði er þar árið um kríng. Lending í meðallagi. Þar gánga skip ábúanda og nú engin fleiri. Til forna hafa þar irmtökuskip gengið fyrir undirgil’t, kynni og enn nú eins að vera, ef fiskgengdin yxi.
Hjer gengur eitt kóngsskip, tveggja manna far, undirgiftarlaust; ljær ábúandi skipshöfninni húsrúm í bænum betalíngslaust af umboðsmanns hendi. (Soðningarkaup gefa Þeir sjálfir). Þetta kóngsskip hefur i mörg fyrirfarandi ár stundum hjer verið, stundum ekki, eftir því sem umboðsmanninum litist hefur.

Straumur/Óttarrsstaðir

Straumur/Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Engjar á jörðunni öngvar. Selstöðu á jörðin í almenníngi, eru þar hagar góðir, en vatnslaust í þerrasumrum. Aðra selstöðu á jörðin í Lónakotslandi, so sem á mót þeim skipsuppsátrum, er Lónakotsmenn kafa við Óttarstaði. Peníngur og stórgripir ferst hjer oft i gjám, ef ei er vandlega aðgætt, helst á vetur þá snjóar yfir liggja. Kirkjuvegur er hjer í lengra lagi.
Torfstúnga er so gott sem engin til heyja, þaks og húsa.“ JÁM III, 161.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 114.

Straumur

Straumur

Straumur – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 163.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
1491, 10.05: Rætt um deilur Hansakaupmanna og Englendinga. Hansakaupmenn ráku m.a. þá ensku úr höfninni í Straumi. DI XVI, 449.; Sjá einnig sama bindi, 553.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1501, 11.10: Jörðin Straumur út í Hraunum er í Besstaðakirkjusókn. DI VII, 586.
Eyðibýli 1703: Lambhúsgerði.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt, garðar 560 m2.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Straumssel, þar eru hagar slæmir, en oft mein að vatnsskorti þá þurkar gánga. Skóg til kolgjörðar og eldiviðartaks brúkar jörðin í almenníngum, líka er stundum hrís gefið nautpeníngi. Torfrista og stúnga í skárra lagi. Lýngrif getur jörðin ogso haft í almenníngum. Rekavon nær engin. Hrognkelsafjara nokkur. Skelfiskfjara hjálpleg til beitu.
Heimræði er árið um kring og lendíng góð, og gánga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip eru hjer engin, en hafa þó áður verið og ábúandinn þegið undirgift af. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 164.
Hafnarfjörður keypti hluta úr landi jarðarinnar árið 1947 og áskildi sér forkaupsrétt á öðrum hlutum hennar árið 1966. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 108, 115.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.

Hjáleiga 1703: Lambhagi.
1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefu r hún so bjarglega mikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.
Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einirberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundum að gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leib til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kríng. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertið. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðníngarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið i næstu þrjú ár.
lnntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi i næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 166.

Péturskot

Péturskot

Péturskot – túnakort 1919.

„Litlu norðar var Péturskotsstígur. Hann lá yfir að Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það,“ segir í örnefnaskrá. Bærinn er merkur fyrir rétt norðan við miðju túns á túnakort frá 1919. Þrjú hús voru á bæjarstæðinu samkvæmt túnakortinu og snéru stafnar bæjarins til VNV. Kjallari var líklega í húsinu. Lítið er eftir að gamla bænum á yfirborði þar sem mikið rask hefur orðið á svæðinu (á bænum og norðurhluta túnsins) vegna lagningar Reykjanesbrautar.

Péturskot

Péturskot – leifar kotsins.

Enn sjást þó rústir þar sem gamli bærinn stóð en enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur. Péturskot er rétt sunnan við Reykjanesbraut. Túnið er komið í órækt og er smáþýft. Gróður er nokkur innan túnsins en utan þess er einkum grýtt hraunlendi þar sem gróður er nokkur, mest mosi.
Tún Péturskots er 75×75 m að stærð.
Péturskot kemur fyrst fram í manntali 1880 og kemur fram í manntölum til 1910 en er ekki getið í manntali 1920. Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur þar sem gamli bærinn stóð en þar sést þó mikið hleðslugrjót úr hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Rétt austan við bæjarstæðið var útihús merkt inn á túnakort frá 1919. Á þessum stað er grjóthlaðin L-laga hleðsla. Lagning Reykjanesbrautar árið 1965 umturnaði heimatúni Péturskots og er norðurhluti þess kominn undir veginn.
Enginn eiginlegur bæjarhóll er greinilegur en þar sem gamli bærinn stóð er mikið hraungrýti á svæði sem er 8×6 m að stærð (VNV-ASA).

Péturskot

Péturskot.

Á þessu svæði er óljós tóft og í henni má greina tvö hólf. Það er Tóftir Péturskots, horft til norðurs. Veggir eru grjóthlaðnir. Í hleðslunni má greina 1-3 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti, en víða eru hleðslur mjög aflagaðar. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, og standa hæst til norðvesturs. Ekki er hægt að greina skýrt innra lag hólfsins þar sem veggir hafa hrunið inn í hólfið. Tóftin var betur varðveitt þegar Þjóðminjasafn Íslands skráði Péturskot um 1990.

Péturskot

Pétursspor.

Á túnakort frá 1919 er merkt útihús um 10 m austan við Péturskotsbæ. Þar sem útihúsið var má greina L-laga hleðslu. Hún er um 3,5 m á kant en 0,7 m há. Í hleðslunni eru 7 umför af stæðilegu hraungrýti. Hleðslan er í litlu innskoti í mosagrónum kletti sem er í austurhluta túnsins. Þéttur mosi er á efsta umfari hleðslunnar.

Péturskot

Péturshróf.

Pétursspor var stígur milli kotsins og Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn,“ segir í örnefnaskrá. Nyrsti hluti leiðarinnar frá Péturskoti og fram í Straumshólmana var kallaður Péturspor. Hlaðnar brýr eru á leiðinni í Straumstjörn, um 170 m ASA við Straumsbæ og rúmum 70 m norðan við Reykjanesbraut.

Péturskot

Péturskot árið 2000.

Brýr liggja yfir fremur grunna tjörn og í grasivaxna hóla. Víða sést þó í bert grjót á hólmunum. Á þessum hluta eru þrjár brýr sem tilheyra Pétursspori. Samtals ná þær yfir svæði sem er 60×40 m að stærð.
Péturshróf var naust neðan Péturskots. „Milli lands þessara jarða [Þorbjarnarstaða, og Stóra-Lambhaga, og jarðarinnar Straums ræður merkjum bein lína frá sjó úr grjótbyrgi í Hólmanum. Pétursspor var stígur, sem lá heiman frá bæ niður á Straumshólana og um Straumsrásirnar frá Straumstjörn.

Péturskot

Péturskot – könnunarskurðir er gefa áttu til kynna aldur kotsins.

Stígur þessi lá fram á Pétursbyrgi svokallað. Þar var Byrgisvör eða Pétursbyrgisvör. Í vörina sér enn djúpar skorir eftir bátskilina,” segir örnefnaskrá. Péturshróf er um 380 m NNV við bæ og rúmum 50 m norðan við Reykjanesbraut. Péturshróf er í Straumsvík, rétt sunnan við mosagróinn klettadranga.
Péturshróf er einföld tóft, 7,5×3,5 m að stærð og snýr hún norður-suður. Veggir eru grjóthlaðnir og nokkuð hlykkjóttir. Í hleðslum sjást mest 2-4 umför af stæðilegu hraungrýti í bland við smágrýti. Veggir eru 0,3-0,6 m á hæð, veglegastir að sunnan. Byrgið er breiðast til austurs en mjókkar aðeins eftir því sem vestar er farið. Byrgið er opið til austurs, að sjó.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

1703: Jarðardýrleiki óviss, hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 166.
1847: 4 1/6 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114
1919: Rún 0,6 teigar, slétt að mestu af náttúrunnar hendi, garðar 550 m2.
1703: „Selstöðu brúkar jörðin ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel, eru þar hagar góðir en vatn slæmt. Hríssrif hefur jörðin í Þorbjarnastaðarlandi þar sem heita almenníngar, er það haft til kolgjörðar og eldiviðar og til að fæða peníng í heyskorti.

Lambhagi

Lambhagi fyrir 1960.

Torfrista og stúnga er næsta því engin, og þarf ábúandinn til að fá með miklu erfiði. Fjörugrasatekja er til en brúkast ekki. Rekavon næsta því engin. Sölvafjara nokkur. Hrognkelsafjara gagnvænleg þegar vel árar. Skelfiskfjara valla til beitu. Heimræði er árið um kring, og lendíng í besta lagi, gánga skip ábúandans eftir hentugleikum; undir kóngsskipanafni hefur hjer áður oftastnær gengið bátur, tveggja manna far, og ábúandinti hýst áróðrarmenn og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af þeim; næstliðið ár var það ekki.

Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Inntökuskip hafa hjer engin gengið nema skjaldan um hausttíma bátar nágranna fyrir góðvilja eður einhverja þóknan. Túnin fordjarfast árlega af sjáfaryfirgángi meir og meir.
Engjar eru öngvar. Útigángur um vetur bágur fyrir fjarlægð haganna, en fjaran er mest til beitar köfð.“ JÁM III, 167–168.
Árið 1966 áskildi Hafnarfjarðarbær sér forkaupsrétt á jörðunum Litla Lambhaga og Stóra-Lambhaga, og var tekið eignarnám í landi Lambhaga vegna hafnargerðar í Straumsvík. ÁG: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I, 116.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

„Litli-Lambhagi stóð í Litla-Lambhagatúni. Lá túngarður tvíhlaðinn með allri norðurhlið þess,” segir í örnefnaskrá. Í fasteignamati frá 1917 segir: „Litli-Lambhagi: Hjáleiga frá Þorbjarnarst. […] Ekki virt til dýrleika […]. Hús á jörðinni fylgir eru: „Baðstofa 9×5 ál framdyr, Bæjardyr og eldhús, fjós fyrir 10 kú […]. Hús ábúenda eru: Heyhús, grjótveggir, járnþak. Geymsluhús, 3 fjárhús fyrir 120 fjár.“ Fjögur hús eru merkt innantúns á býlinu á túnakort frá 1919. Samkvæmt því var bærinn rétt norðan við mitt heimatúnið. Stafnar bæjarins sneru til suðvesturs.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – eldhús.

Nokkuð rask hefur verið í og við gamla bæinn. Búið er að leggja veg að álverinu í Straumsvík yfir austurhluta þess. Samkvæmt heimasíðu Hraunavina var einnig reistur sumarbústaður fast norðan við bæjarhólinn fyrir miðja 20. öld (af bræðrunum Marinó og Kristni Guðmundssonum). Á heimasíðunni kemur einnig fram að þegar þeir reistu sumarbústaðinn hafi staðið grjóthlaðið eldhús á gamla bæjarstæðinu, sem hefur verið hluti gamla bæjarins. Lítil ummerki um bæjarhól sjást á Litla-Lambhaga og engin ummerki bæjarhúsa. Þau hafa líklega horfið vegna sumarbústaðarframkvæmda og/eða í vegframkvæmdir við álverið í Straumsvík.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – bæjarhóllinn.

Gamli bærinn stóð rétt vestan við veg sem liggur að álverinu í Straumsvík. Hóllinn er umhverfis tún sem komið er í órækt. Túnið er smáhæðótt og mosi nokkur í sverði. Víða standa klettanibbur upp úr grasinu. Bæjarhólnum var mikið raskað þegar sumarbústaðurinn var byggður og ekki er útilokað að eitthvað grjót úr gamla bænum hafi verið endurnýtt í þá byggingu en frekari heimildir
skortir til þess að staðfesta það. Líklega leynist einhver mannvist undir sverði á þessum slóðum þrátt fyrir mikið rask.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – Steinbogi.

Steinbogi var garður upp í Aukatún; „Upp í Aukatúni lá gangbraut hlaðin sem garður, nefndist Steinbogi,“ segir í örnefnaskrá.
Steinbogi eða hlaðin brú liggur yfir litla tjörn í Aukatúni, um 110 m sunnan við Litla-Lambhaga. Hleðslan liggur yfir tjörn eða deiglendi í grónu hrauni.
Hleðslan er um 5 m löng en 2 m breið. Hún snýr NNA-SSV. Hleðslan rís 0,4 m hærra en umhverfið og er grjóthlaðin en mikið gróin. Ekki sést í umför í hleðslunni þótt víða standi stæðilegt grjót upp úr gróðrinum.

Hvaleyri

Hvaleyri

Hvaleyri – herforingjaráðskort 1903.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 168.
1847: 20 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110. Í neðanmálsgrein segir: „Þó jb. 1803 ein nefni 4 bygðar hjáleigur (Bindindi, Lönd, Lásastaði, og Ásgautstaði) og vorði þær allar til dýrleika, er þeim samt sleppt, bæði af presti og sýslumanni (sem nú líklega graslausum).“

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Samkvæmt Hauksbók Landnámu sigldi Hrafna-Flóki í Hafnarfjörð og fann þar hval á eyri einni og kölluðu það Hvaleyri. Í Landnámu segir að Ásbjörn Özzurarson, bróðursonur Ingólfs, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns og allt Álftanes og bjó hann á Skúlastöðum [sjá Garða]. ÍF I, 39, 394.
1284: Jarðarinnar getið í rekaskrá Viðeyjarklausturs (sjá jarðaítök hér neðar). DI II, 246.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni. Hvaleyrarbæinn frá 1772 í bakgrunni.

Um 1300 er getið um Hvaleyri í sögn af Teiti bónda þar í jarteinasögu Þorláks helga. Biskupa sögur I, 386.
1343 er minnst á Hvaleyri í Gottskálksannál. Isandske Annaler, 352.
1395: Þá á Viðeyjaklaustur Hvaleyri og var leiga 4 hndr. DI III, 597.
1395: Jarðarinnar getið í skrá Viðeyjarklausturs m kvikfé og leigumála. DI III, 597.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.

1448 [eða síðar]: „Vitnisburður Hafliða Gizurarsonar um landeign og landamerki Hvaleyrar við Hafnarfjörð […] kirkian aa hvaleyri ætti Þorlakstade og hravnvelle. hamranes ok grisanes ok allt firir svnnann vtann ok ofan ok vp vr hvaleyrar vatnni ok nordvr j kornstapa hravn. ok alltt vp med gotvnni firir svnnan ok vp yfer þormodz hofda nema litinn skog er lavgarnes kirkia aa vid landsydri j hvaleyrar hofda.” DI IV, 751–752..

Hvaleyri

Hvaleyri.

1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.
Hjáleiga 1703: Hvaleyrarkot. Enn fremur höfðu afbýlismenn heima við bæinn grasnyt. Bóndi jarðarinnar sá um að viðhalda þeim húsum sem þeir voru í.
Jarðaítök 1284: Viðeyjarklaustur á hálfan rekavið á jörðinni. Og skóg í hrauni út frá Hvaleyri. DI II, 246–277.
1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott. Hrissrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt. Item hefur hún hrisrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolgjði’ðar. Torfrista og stúnga í lakasta máta nærri ónýt.
HafnarfjörðurLýngrif hefur jörðin nokkurt. Fjörugrasatekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara að nokkru gagnvænleg. Skelfiskfjara nægileg til beitu, liður ágáng af öðrum jörðum. Heimræði er árið um kríng og lending góð, og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hjer oft undir kóngsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridtz Hansson Siefing var á Bessastöðum Heidemanns vegna hefur það ekki verið. Inntökuskip hafa hjer stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu. Túnin spillast af sandságángi. Engjar eru öngvar. Vatnsból er ilt og þrýtur bæði vetur og sumar.“ JÁM III, 169.

Stóravarða

Stóravarða 2023.

Stóravarða var landamerki Hvaleyrar og Lambhaga; „Þá liggur línan niður um Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem
alfaraleið lá upp á Kapelluhraunið,” segir í örnefnaskrá. Varðan var um 2 m á hæð og mjög stæðileg. Árið 1999 var gerður vegarslóði fast sunnan hennar og við þær framkvæmdir rak ýtumaður sig í vörðuna og hrundi hún við það. Í skráningu fornleifa vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá 2001 segir að frumkvæði þjóðminjavarðar var hluti vörðunnar hins vegar hlaðinn upp aftur. Þær leifar eru langt utan heimatúns Hvaleyrarbæjar, um 2 km suðvestan við bæ og rúmum 40 m sunnan við Reykjanesbraut. Varðan er á grýtti hæð rétt norðan við malarvegslóða. Varðan er sæmilega hlaðin, 1,5 m á hvorn veg og um 1 m á hæð. Hún er grjóthlaðin og úr blöndu af stæðilegu hraungrýti og smágrýti. Efst á vörðunni eru smásteinar.

Alfaraleið

Í fornleifaskráningum hefur Alfaraleiðin  millum Þorbjarnarstaða og Gerðis (rauð) ekki verið skráð (einungis sögð “óljós”).

Niðurstaða fornleifaskráningarinnar í heild var; “Innan svæðisins voru skráðari 56 fornleifar á 43 minjastöðum. Allir staðirnir teljast til fornleifa og njóta verndar sem slíkir en minjagildi þeirra er misjafnt. Í skýrslunni var gerð tilraun til að leggja mat á gildi hvers minjastaðar og voru niðurstöðurnar þær að þrír minjastaðir hefðu mjög mikið gildi, átta mikið gildi, 15 staðir töldust hafa nokkurt minjagildi og 17 lítið. Rétt er að ítreka að algengara er að margar fornleifar/minjaeiningar falli undir þá staði sem flokkaðir voru með mikið eða mjög mikið minjagildi heldur en þá sem töldust hafa lítið minjagildi sem oftast eru stakar fornleifar fremur en þyrpingar.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots.

Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um þrjú minjasvæði vegna mikils gildi sem stakar minjar eða minjaheildir. Þó að mögulegt sé að komast hjá raski á nokkrum fjölda minja innan úttektarsvæðins er ljóst að mörgum minjum verði raskað að hluta eða öllu leyti að óbreyttu. Niðurstaðan er því að áhrif framkvæmda við breikkun Reykjanesbrautar á svæði frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi muni hafa neikvæð áhrif á fornminjar”.

Ljóst er að fórna þarf nokkrum fornleifum sögunnar millum framangreindra bæja við tvöföldun Reykjanesbrautar á kaflanum frá ofanverðu Lónakoti að ofanverðu Hvaleyri. Samt ert leitt til þess að vita hversu skráningaraðilar hafa haldið illa á málum með því að horfa framhjá augljósum fyrirliggjandi heimildum er kynnu að hafa gert verk þeirra miklu mun markvissara, ekki síst til lengri framtíðar litið.”

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar framangreind skráning er skoðuð er ljóst að skráningaraðilinn hefur hvorutveggja haft takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu og ekki reynt að afla sér augljóslegra fyrirliggjandi gagna er koma gætu að gagni. Þá er leitt til þess að vita að starfsfók Minjastofnunnar skuli ekki hafa dug í sér til að gera viðhlýtandi athugasemdir við augsýnilega endurteknar vanskapaðar fornleifaskráningar, sem til þess berast.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.

Reykjanesbraut

Fyrirhugað vegastæði tvöföldunar Reykjanesbrautar ofan Straums.

 

Straumur

Gengið var frá Straumi að Þýskubúð og síðan að Jónsbúð um Tjörvagerði. Gerðið mun hafa verið notað sem nátthagi. Við Þýskubúð er talið að hafi verið verslunarhöfn á miðöldum og þangað sigldu þýzkir kaupmenn.

Straumur

Straumur 1935.

Straumshúsið var byggt árið 1926 af Bjarna Bjarnasyni, skólastjóra Barnaskóla Hafnarfjarðar, sem ætlaði að reka þar stórbú. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær húsið og leigði það til ýmisskonar starfsemi.
Tóftir Jónsbúðar eru lýsandi fyrir kot þeirra tíma. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur segir svo um Jónsbúð í fornleifaskýrslu sinni: “Rústirnar við Jónsbúð eru nær óspilltar af mannavöldum og vélvæðing nútímans hefur ekki náð að eyða eða fela mannvirki sem þar hafa staðið. Minjar af slíku tagi er ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því eru minjarnar við Jónsbúð mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti fyrri tíma og styrkur þeirra fellst fyrst og fremst í heildinni, þ.e.a.s. staðurinn geymir allar þær minjar sem búast má við að þurrabúð/hjáleiga geymi svo sem bæjarhús, túngarð, skeppnuhús, vör, vörslugarð, sólþurrkunarreit, vatnsból o.fl.

Jónsbúð

Jónsbúð – uppdráttur BE.

Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en þess ber að geta að þurrabúða er ekki heldur getið við jarðirnar Lónakot, Óttarstaði og Þorbjarnarstaði, þó að enginn vafi sé á því að þurrabúðir hafi verið við eitthvert þessara býla, ef ekki öll. Hins vegar er hjáleiga getið við Óttarsstaði, Þorbjarnarstaði og Straums. Ekki er víst að greinarmunur hafi verið gerður á hjáleigu og þurrabúð og kemur jafnvel til greina að þær hjáleigur sem voru í eyði í byrjun 18 aldar hafi í raun verið þurrabúðir.

Straumur

Straumur 1935.

Í Manntali árið 1845 er þess getið að tómthúsmaður hafi verið í Straumi, Björn Pálsson að nafni. Var hann giftur Margréti Snorradóttur og áttu þau árs gamlan son, Jón að nafni (Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982. :406). Bóndinn í Straumi hét þá Bjarni Einarsson. Ekki er tekið fram hvar Björn tómthúsmaður bjó nákvæmlega en vel getur verið að hann hafi búið í Jónsbúð.Â

Í manntali árið 1910 er Jónsbúð nefnd sem þurrabúð í landi Straums (Manntal á Íslandi 1910. IV. Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Reykjavík 1998.:228). Þá bjó þar Gunnar Jónsson, sjómaður á þilskipi, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau komu frá Meðalholti í Flóa árið 1882

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Í manntalinu er bæjarhúsum lýst og um Jónsbúð er sagt að þar hafi verið torfbær með einu heilþili og einu hálfþili.
Bæjarstæði Jónsbúðar er óspillt af seinni tíma athöfnum. Þar eru nær öll mannvirki byggð úr grjóti hvort sem um er að ræða bæjarhús, túngarð eða brunn. Grjótið er fengið úr næsta nágrenni, sérstaklega í hrauninu í kring, en yfirleitt ekki úr fjörunni eða sjávarkambinum. Sunnan við bæjarhúsinn er mikill og áberandi klettur og í gjótu við hann er sagt að hafi verið kolageymsla. Kletturinn er rakinn álfa- eða huldumannabústaður, þó ég þekki engar sögur af slíku um þennan klett.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Sennilega er ruslahaugurinn nokkra metra vestan við bæjarhúsið. Norðan megin við bæjarhúsið er rúst hjallsins (nr. 2) og austan við bæjarhúsið er sólþurrkunarreiturinn (nr. 3). Rúman metra vestan af bænum er garður (vörslugarður, nr. 4). Norðan við bæjarstæðið, í Jónsbúðartjörn sunnanverðri, er brunnur (nr. 7) og vatnsból (nr. 8). Skammt vestur af bænum er rúst, áfast við túngarðinn, sem er sennilega fjárhús (nr. 5). Vestan megin við túngarðinn hefur verið stekkur (nr. 9) og nátthagi umhverfis hann (ekki teiknað hér).
Austan við bæinn er vörin og þar má búast við að bátur eða bátar hafi verið dregnir yfir sjávarkambinn og hafðir á þurru vestan megin við sjávarkambinn.

Óttarsstaðir

Brunnur við Óttarsstaði eystri.

Gengið var um Óttarstaði, skoðaðar minjar, sem þar eru, s.s. útieldhús, útihús og brunnar. Yngsti brunnurinn er austan við Óttarstaði eystri (1944), annar sunnan við húsið og sennilega sá elsti norðan Óttarstaða vestri. Að sögn Bjarna eru eldri minjar verslunar norðan Óttarstaða. Sést móta fyrir útlínum húsa þar skammt ofan við fjörðugarðinn ef vel er að gáð. Miklir og fallegir grjótgarðar eru um Óttarstaðatúnin og fjárréttin er fagurlega formuð undir háum klapparhól sunnan vestari bæjarins.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gengið var með fjörunni yfir að Lónakoti, minjarnar þar skoðaðar sem og vatnsbólið, sem er í tjörninni fast sunnan við tóftir bæjarins. Skeljasandsfjara er í lóninu næst bænum og skemmtilegt er fyrir börn að busla þar á góðviðrisdögum. Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt þar myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Umhverfis túnið eru Lónakotsvatnagarðar. Nyrst í því eru Norðurfjárhúsin. Sunnan tóftanna er Gjögur.
Haldið var upp eftir Lónakotsselsstíg og síðan beygt til austurs eftir varðaðri götu áleiðis að Straumi. Við háa vörðu á Sigurðarhæð var beygt til hægri og gengið að Kúaréttinni, tilvöldum skjólgóðum áningarstað. Þaðan er stutt í Straumsréttina við Urtartjörn (Brunntjörn) og yfir að Straumi.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 31 mín.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Lónakot

Gengið var frá Reykjanesbraut og haldið niður hraunið vestan fjárhúsanna ofan við Lónakot.

Lónakot

Lónakot.

Vestan girðingarinnar liggur fjárgata niður eftir gróðurlænum við hærri hraunkant. Komið var niður að efri innsiglingavörðunni. Frá henni var gengið niður á heimatúnið, sem er umlukið Lónakotsvatnagarðinum (vörslugarðinum). Gengið var framhjá hlöðnu skjóli í hraunkvos, hlöðnu gerði, garði er lokaði af dalkvos og síðan yfir garðinn er umlykur heimatúnið. Innan hans er tótt, en heimreiðin legur inn á vestanvert túnið, í gegnum þvergarð og yfir hann aftur þar sem reiðin sveigir heim að bænum.

Lónakot

Fjárskjól við Lónakot.

Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Neðar, nær sjónum er hústótt, garður og enn má sjá hluta varnargarðs á milli túnsins og sjávar. Fjaran neðan við bæinn er að hluta til sendinn. Suðvestan við bæinn er gerði, líklega matjurtargarður, en sunnan við bæjarhúsin er tjörn þar sem sjávarfalla gætir. Í vesturhorni hennar er lind þar sem ferskt vatn streymir upp á fjöru. Hlaðið er landmegin við brunnstæðið.

Lónakot

Tóft í túninu.

Nyrst á túninu eru heillegar tóttir og garðar, s.s. útvegshús og bátarétt (sem síðar varð fjárhús (Norðurfjárhúsin). Sunnar er klettahóllinn Gjögur. Ofar er sauðhústóft. Framhjá því liggur leiðin að Óttarstöðum. Suðvestan þeirra, innan garðs, má sjá fleiri tóttir. Utan garðs, landmegin, eru en fleiri tóttir, gerði í hraunlaut og stórt gerði (rétt) efst. Yfir gjá skammt suðvestan við túngarðinn er hlaðin brú. Til baka var gengið upp hraunið norðan fjárhúsanna.

Auðvelt er að sjá hvar Lónakotsselsstígur liggur upp hraunið í átt að selinu, sem er í u.þ.b. klukkustundar gang frá kotinu.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gangan niður að Lónakoti tekur u.þ.b. 20 mínútur. Svæðið hefur bæði upp á fegurð og fjölbreytileika að bjóða. Fjörugt fuglalíf er í kringum lónin. Ströndin er sendin á kafla og vestar með henni eru fallegar tjarnir á milli hárra hraunhóla.
Tækifærið var notað og uppdráttur gerður af Lónakoti til hliðsjónar ef einhver áhugasamur skyldi leggja leið sína þangað síðar.
Frábært veður.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Lónakot

Leitað var að og skoðaðir Grænhólsskjól og Hausthellir í landi Lónakots og Sjónarhólshellir í landi Óttarsstaða.

Sjónarhólshellir

Sjónarhólshellir eru nálægt mörkum jarðanna og Grænhólsskjól nálægt mörkum Hvassahrauns, en Hausthellir skammt vestan við heimatúnið í Lónakoti. Því hefur verið haldið fram að Sjónarhólshellir hafi einnig verið nefnt Smalaskálaskjól, en það er norðvestan í Smalaskálahæð, sbr. örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði: “Vestan við Rauðamel stóra er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.” Síðastnefnda skjólið hefur verið staðsett á fyrrgreindum stað. Einnig var reynt að staðsetja Magnúsardys í Lónakotslandi í þessari ferð.

Hausthellir

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot minnist hann m.a. á Hausthelli og Magnúsardys, sbr.: “Markaklettur [er] á innanverðu Hraunsnesi. Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé. En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól. Vestur [á væntanleg að vera austur því að vestan er land Hvassahrauns, auk þess Brunnhólar eru austan markanna, í Lónakotslandi] frá Sjónarhól var Brunnhóll. Í hrauninu niður frá Hádegishæð var sprungin klöpp, nefndist Magnúsardys. Maður að nafni Magnús varð þarna úti og var urðaður í sprungunni. Suður og upp frá Magnúsardys var Hraunsnesþúfa og Hausthellir, fjárskjól gott.

Grænhólsskjól

Örnefni þau, sem hér hafa verið nefnd, liggja öll neðan Suðurnesjavegar og nú Reykjanesbrautar og alfaraleiðar, sem áður er nefnd.”
Fram kemur að Hádegishæð er skammt ofan við túngarðinn: “Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra uppi í hrauninu var Hádegishæð.” Nokkrar sprungur eru neðan Hádegishæðar og því erfitt að staðsetja Magnúsardysina þar með einhverri vissu. Það var því ekki gert að þessu sinni.
 Vestan við heimatúnið er Hausthellir í gróinni kvos. Grónar hleðslur eru framan við opið og dyr á þeim. Hellirinn sjálfur er fremur lítill, en reft hefur verið yfir tóftina framan við hann. Skjólgóður nátthagi er suðvestan við hellinn og hlaðinn brunnur austan hans (í Brunnhóll).
Sjónarhólshellir-2Þegar leitað var að framangreindu var gengið fram á afvelta lamb. Reynt var að færa það á fætur, en þá lagðist það út af. Augun lýstu ótta og angist. Blóð virtist vera aftan við vinstri afturfót. Veikindi gætu einnig hafa verið orsökin.
Hugsanleg skýring kom í ljós í hrauninu skammt vestar. Skolli rak skyndilega út trýnið upp úr skúta og “hvopsaði” áður en hann hvarf inn. Eftir stutta bið sást hann á ferðinni innan við opið.
Haft var samband við Bjarnferð, fjárumsýslumann svæðisins, og honum kynnt ástand lambsins. Þá var Helgi Gam. í Grindavík fenginn til að takast á við dýrbítinn enda ekki forsvaranlegt að hafa hann þarna svona skammt frá fjárhúsunum í Lónakoti, vomandi yfir fénu nótt sem dag.
SkotbyrgiÍ örnefnalýsingu SG (með leiðréttingum) fyrir Óttarsstaði kemur eftirfarandi fram um Sjónarhólshelli: “Fyrir ofan fjörukampinn var uppgróinn sandbakki, sem nefndist Sandar. Þar vestast eru landamerki milli Óttarsstaða og Lónakots. Ofan við Sanda er Sandatjörn, skiptist milli Óttarsstaða og Lónakots. Úr Söndum liggur landamerkjalínan í Markhól, sprunginn klapparhól skammt fyrir ofan kampinn. Þaðan liggur línan suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónahólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður.

Hleðslur við Sjónarhólshelli, líkt og við Hausthelli, eru enn nokkuð heillegar. Gróið er framan við bæði skjólin og vatnsstæði í nágrenni beggja.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstari.
-Gísli Sigurðsson.

Lonakot

Lónakot.

Hvassahraun
Girðingu austan Hvassahrauns var fylgt til norðurs frá Skyggni. Skammt undan hólnum er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos.
Girðingin, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar.

Hraunsnesskjól

Hraunsnesskjól.

Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um. Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður.
Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum. Ofan hans eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra. Handan Markakletts var komið að nokkrum fallegum spegilsléttum tjörnum inn á milli Kindinhárra kletta. Við eina tjörnina var, að því er virtist, elliær sækind. Tókst að taka ljósmynd af kindinni með því að læðast að henni og koma að óvörum. Vel mátti sjá sauðasvipinn á henni ef vel var að gáð. Þegar hún varð mannaferða var stökk hún áleiðis til sjávar og hvarf sjónum.
Skammt austar eru háir klettar, Réttarklettar. Gróið er í kringum þá. Umhverfis eru hlaðnir garðar og mótar fyrir tótt norðan við klettana. Hlaðinn stekkur er utan í garði austan þeirra. Ekkert nafn virðist vera á þessu svæði því það virðist ekki vera til á kortum. Heimild er til um kot fyrrum á þessu vsæði, Svínakot. Í örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir m.a. um þetta svæði: “Úr Söndugrjóti lá landamerkjalínan í Markhól eða Hól, sprunginn, með Markhólsþúfu. Þar er enga áletrun að finna. Frá norðurtúngarðshliði lá Sjávargatan vestur með sjónum.
Gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum. Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig. Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar.  Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.”
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Ef fé hefur verið haldið þarna mátti draga þá ályktun að þar hlyti að vera einhver fjárskjól auk þessa vestan á nesinu. Þegar vel var skyggnst mátti greina hleðslu á hól í suðri. Stígur virtist liggja í þá áttina. Honum var fylgt og var þá komið að miklum hleðslum fyrir skúta, fjárhelli. Skútinn var í hárri hraunkvos og var vel gróið í kring. Ekki var að sjá merki mannaferða í eða við skútann, sem er vel hár og rúmgóður.
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Tækifærið var notað og mannvistarsvæðið rissað upp.
Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Lónakot

Gengið var til norðurs á ská niður hraunið frá gatnamótum Lónakotsafleggjara við Reykjanesbraut. Eftir stutta göngu var komið í hraunlægð á milli hóla skammt norðan við landamarkagirðingu Óttarsstaða. Þar suður undir þeim, suðsuðaustan Sjónarhóls, var hlaðið myndarlegt fjárskjól, gjarnan nefnt Óttarsstaðahellir, en í örnefnalýsingu er það nefnt Sjónarhólsskjól. Stígur liggur frá því til norðurs í átt að Óttarsstöðum.

Lónakot

Tóftir Lónakotsbæjarins.

Haldið var áfram suðvestur hraunið að Lónakoti. Komið var að suðurgarðinum og inn fyrir gerðið. Inni í því er heillegt tótt af húsi. Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt þar myndalegt sumarhús, sem nú er fallið. Lónin voru yfirfull vegna háflæðis. Ferskvatn var efst í lónunum. Gengið var framhjá hlöðnum nátthaga og áfram yfir túngarðinn að Lónakotsbæjarstæðinu. Austan þess mátti sjá Krumma, klofinn hraunhól, en lónið sunnan undir bænum, þar sem brunnurinn er. Var það svo yfirfullt að hvergi sást í skeljasandsstrandmyndina undan bænum. Tóttir fjóss mátti greina norðar í túninu og sauðakofa norðaustan á því. Víða eru þarna garðar og tóttir.
Gengið var vestur með ströndinni, framhjá hlöðnu gerði eða rétt og áfram yfir hraunhaft. Áður en gengið er upp hraunhaftið mátti sjá greinilegan flóraðan veg og annan hluta þess vestan við haftið. Þarna eru garðar og gerði, tóttir o.fl. í fögru umhverfi. Sækindin var þarna á beit við tjörn skammt vestar, en þegar hún varð mannaferða vör, tók hún strikið í átt að hafinu og hvarf sjónum enn á ný.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gengið var spölkorn lengra til vesturs og var þá komið inn í fallega hrauntjörn, Dulu, með skjól á allar hliðar. Innan um hraunklettanna var tendraður varðeldur og var síðan sest við guðsveigainnlegg um stund, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sólin skein frá hafi og lognið speglaðist í tjörninni.
Loks var haldið suðaustur upp hraunið með viðkomu í Lónakotsfjárhelli. Norðan hans er Réttartangi eða Réttarklettar. Umhverfis þá eru garðhleðslur, hlaðinn stekkur eða rétt og tóftir undir klettum. Talið er að annað hvort hafi svæðið verið nýtt sem heimaselstaða frá Lónakoti eða hreinlega að gamli Lónakotsbærinn hafi staðið þarna, en verið færður fyrir nokkrum öldum vegna ágangs sjávar. Þá er og hermt að bærinn hafi heitið Svínakot.
Þegar gengið hafði verið enn lengra upp hraunið var komið að tveimur fyrirhleðslum undir gjávegg á mót suðaustri. Frá hólnum mátti sjá roðagyllta sólina setjast á sléttan hafflötinn. Útsýnið var eins og að horfa á málverk skapandi listamanns.
Frábært veður. Gangan 1. klst. og 11. mín.

Lónakot

Lónakot – sjóhús.

Lambhagi

Þegar gengið var um Lónakot og Svínakot í Hraunum voru rifjaðar upp eftirfarandi upplýsingar um gömlu bæina og Suðurnesjaalmenning þar fyrir ofan í hraununum:

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er eftirfarandi lýsing: “ Það sem Suðurnesjamenn kalla Almenning tekur til suður við Hvassahrauns land og Trölladyngjur, gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til þar sem hann mætir Áslandi svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðaland og selstaða.
Þar fyrir norðan tekur til það, sem Innesingar kalla Kóngsland, gengur það norður og austur með fjöllunum inn að Elliðaám og upp undir Hellisheiði fyrir ofan Vífilsstaði, Urriðakot, Elliðavatn, og hina aðra bæina. Er þetta land eigi sérdeilis kóngsland, þó það svo kallað sé, heldur er það svo sem afréttur eður óskipt land þeirra kóngsjarðanna, sem liggja upp og inn undan Álftanesi.”
Í jarðabókinni er víða getið um Suðurnesjaalmenninga, sem ofangreind býli áttu rétt í. Auk jarða á Vatnsleysuströnd áttu öll lögbýli í Grindavíkurhreppi rétt til kolagerðar í almenningum eða Suðurnesjaalmenningum án þess að getið sé hvar þeir eru. Sama er um margar jarðir Í Rosmhvalaneshreppi og nokkrar í Álftaneshreppi.
Um jörðina Þorbjarnarstaði, sem er nú í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar þar sem Straumsvík er, segir þetta:

Réttarklettar

Réttarklettar- stekkur.

“Skóg hefur jörðin átt, en nú má það varla kalla nema rifhrís. Það hefur hún svo bjarglega mikið, að það er brúkað til kolagerðar og eldiviðar, og svo til að fæða pening á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annarra og eru þetta þau skógarpláss, sem almenningar eru kölluð.” Ennfremur segir í jarðabókinni um Hamarskot, að hrísrif hafi jörðin í Þorbjarnarstaðalandi, þar sem heita almenningar, er það haft til kolagerðar og eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot voru fyrrum nefndar Hraunjarðir og voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því kóngsjarðir við siðaskipti. Sá almenningur, sem hér er fjallað um er fyrir ofan (eða sunnan) lönd þessara jarða og einnig fyrir ofan Hvassahraun hvað þetta mál varðar. Svínakot mun hafa verið þar sem nú eru Réttarklettar vestan Lónakots. Hagar þar mannvirkjum svipað til og í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd, austan Kálfatjarnar.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Eftir að jarðir þessar voru seldar á árabilinu 1827-1839 reis upp ágreiningur um eignarheimildir á almenningnum ofan þeirra. Stiftamtmaður fól sýslumanni að skoða málið 1847 og fór áreið fram árið eftir með eigendum og ábúendum hraunsjarðanna,
sem liggja við almenninginn og helst hafa notað landið til beitar og skógaryrkingar sökum afstöðu þeirra og þess að þetta land tekur við, þar sem tún þeirra og Brunahraunsgirðingum um þau sleppa.
Í skoðunar- og áreiðargerðinni var mörkum lýst með þessum hætti:

Lónakot

Grænhólsskjól.

“Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfararveginum. Hennar botn og breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot.
Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kapelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu Eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum.
Yfirvöld mæltu eftir áreiðina fyrir um eins konar friðlýsingu svæðisins vegna lélegs ástands skógar og umsjón var falin einum Hraunjarðarbónda, en þeir einir máttu nýta landið án leyfis yfirvalda.
Segir síðan að allt þetta land álítist vera ein fermíla að stærð (dönsk míla var 7.5 km) eða 56 ferkílómetrar og er þetta svæði nú bæði innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar (29.71 ferkílómetri), en einnig upp af Vatnsleysustrandarhreppi, aðallega upp af Hvassahrauni.
Sjá MYNDIR.

Lónakot

Sjóbúð við Lónakot.