Lónakot

Gengið var til norðurs á ská niður hraunið frá gatnamótum Lónakotsafleggjara við Reykjanesbraut. Eftir stutta göngu var komið í hraunlægð á milli hóla skammt norðan við landamarkagirðingu Óttarsstaða. Þar suður undir þeim, suðsuðaustan Sjónarhóls, var hlaðið myndarlegt fjárskjól, gjarnan nefnt Óttarsstaðahellir, en í örnefnalýsingu er það nefnt Sjónarhólsskjól. Stígur liggur frá því til norðurs í átt að Óttarsstöðum.

Lónakot

Tóftir Lónakotsbæjarins.

Haldið var áfram suðvestur hraunið að Lónakoti. Komið var að suðurgarðinum og inn fyrir gerðið. Inni í því er heillegt tótt af húsi. Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt þar myndalegt sumarhús, sem nú er fallið. Lónin voru yfirfull vegna háflæðis. Ferskvatn var efst í lónunum. Gengið var framhjá hlöðnum nátthaga og áfram yfir túngarðinn að Lónakotsbæjarstæðinu. Austan þess mátti sjá Krumma, klofinn hraunhól, en lónið sunnan undir bænum, þar sem brunnurinn er. Var það svo yfirfullt að hvergi sást í skeljasandsstrandmyndina undan bænum. Tóttir fjóss mátti greina norðar í túninu og sauðakofa norðaustan á því. Víða eru þarna garðar og tóttir.
Gengið var vestur með ströndinni, framhjá hlöðnu gerði eða rétt og áfram yfir hraunhaft. Áður en gengið er upp hraunhaftið mátti sjá greinilegan flóraðan veg og annan hluta þess vestan við haftið. Þarna eru garðar og gerði, tóttir o.fl. í fögru umhverfi. Sækindin var þarna á beit við tjörn skammt vestar, en þegar hún varð mannaferða vör, tók hún strikið í átt að hafinu og hvarf sjónum enn á ný.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gengið var spölkorn lengra til vesturs og var þá komið inn í fallega hrauntjörn, Dulu, með skjól á allar hliðar. Innan um hraunklettanna var tendraður varðeldur og var síðan sest við guðsveigainnlegg um stund, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sólin skein frá hafi og lognið speglaðist í tjörninni.
Loks var haldið suðaustur upp hraunið með viðkomu í Lónakotsfjárhelli. Norðan hans er Réttartangi eða Réttarklettar. Umhverfis þá eru garðhleðslur, hlaðinn stekkur eða rétt og tóftir undir klettum. Talið er að annað hvort hafi svæðið verið nýtt sem heimaselstaða frá Lónakoti eða hreinlega að gamli Lónakotsbærinn hafi staðið þarna, en verið færður fyrir nokkrum öldum vegna ágangs sjávar. Þá er og hermt að bærinn hafi heitið Svínakot.
Þegar gengið hafði verið enn lengra upp hraunið var komið að tveimur fyrirhleðslum undir gjávegg á mót suðaustri. Frá hólnum mátti sjá roðagyllta sólina setjast á sléttan hafflötinn. Útsýnið var eins og að horfa á málverk skapandi listamanns.
Frábært veður. Gangan 1. klst. og 11. mín.

Lónakot

Lónakot – sjóhús.