Haldið var upp Mosaskarð með öflugri sveit HERFÍsmanna.
Á leiðinni var litið ofan í Mosaskarðshelli, en ekki farið niður í hann. Uppi við brún að vestanverðu fundu hinir vönu hellamenn strax lykt af opinni rás og fannst þá op (Mosaskarðshellir efri) er reyndist vera um 20 metra hellir í lítilli rás.
Gengið var beint upp hraunið yfir á jökulskjöldinn og þaðan á ská áleiðis í FERLIR. Hann var skoðaður í um 3 klst. Skoðaðir voru um 450 metrar af hellinum, en hann mun enn ekki vera fullkannaður. Kúbeinið góða var ekki með í för og takmarkaði það möguleikana að nokkru. Litið var á djásnin og ýmislegt fleira kom í ljós við nánari skoðun.
Björn Hóarsson lifir á reynslunni enda hefur hann ásamt félögum sínum skoðað flestalla hraunhella á Íslandi. Hann er ekki vanur að láta háfleyg lýsingarorð fylgja útlistunum á nýfundnum hellum, vill í seinni tíð hafa þá rúma og mikla um sig. Hann sagði þó litadýrðina í FERLIR vera sérstæðu hans, glerjunginn á veggunum og lengdina og þar með hliðarrásirnar.
Leitað var að opnum ofar eftir stækkaðri loftmynd. Reyndust þar vera göt, sem skoðuð voru í maímánuði í fyrra. Þær rásir eru heldur ekki fullkannaðar.
Þá var haldið niður á K-hellasvæðið og það skoðað. Fundust enn fleiri op en í síðasta leiðangri. Nefnast þau K-4, K-5 og K-6. Þá fannst K-7, en hann er framhald af K-6. Á svæðinu virðast vera hellingur af hellum.
K-4 er með fallega niðurgöngu. Um er að ræða gasuppstreymisop að hluta og upp úr því er liggur um 40 metra rás. Grönn rás liggur þvert á hana, en niðurleiðin skiptist í tvær rásir. Reyndist önnur vera um 80 metra og hin um 120 metra. Hellirinn er því um 240 metra langur.
K-5 er 60-70 m langur.
K-6 er víð og há rás. Liggur um 120 metra löng rás til hægri, en framundan er þverrás, bæði upp í hraunið og niður. Hliðarrásin opnast í jarðfalli og heldur síðan áfram niður um 60 metra. Þar er hann mjög hár og víður og var ís í botninum.
Ljóst er að hellasvæði þetta er að mestu ókannað, en þarna leynast áreiðanlega fjölmargar fallegar rásir sem og aðrar gersemar.
Í bakaleiðinni var gengið niður helluhraun, farið yfir fallega hrauntröð í apalhrauni og gróinni hlíð fylgt nokkra leið. Þá var gömlu girðingunni upp úr Mosaskaði henni fylgt áleiðis að skarðinu, farið yfir stóra og fallega hraunrás og síðan áfram niður skarðið. Á leiðinni niður voru nokkrar hraunbombur teknar til handargangs.
Hlýtt og bjart. Gangan tók 7 klst og 2 mín.