Færslur

Sogin

Hér á vefsíðunni má m.a. sjá ljósmyndir og uppdrætti af áhugaverðum svæðum Reykjanesskagans, fyrrum landnámi Ingólfs frá 874, hvort sem um er að ræða umhverfi eða minjar. Þá má t.d. sjá myndir af eldgosunum árin 2021, 2022 og 2023 í og við Fagradalsfjall. Eina sem áhugasamir/áhugasöm þurfa að gera er annað hvort að fara inn á flipann “Myndir” hér að ofan eða skrifa viðkomandi heiti í leitargluggann (stækkunarglerið).
Njótið…

Húshólmi

Skálatóft við Húshólma.

Ferlir

Eftirfarandi er hugmynd, sem fæddist nýlega í einni FERLIRsgöngunni. Hún er áhugaverð, bæði fyrir íbúa höfðuborgarsvæðisins og aðra, en engu að síður fyrir aðila ferðaþjónustunnar á Reykjanesskaganum.

Búrfellsgjá

FERLIRsfélagar í Búrsfellsgjá; Jóhann Davíðsson og Björn Ágúst Einarsson. Ágúst Einarsson.

Hugur felst í að gera eitthvað óhefðbundið, en hagkvæmt í sumafríinu; að breyta íbúðinni tímabundið í sumarbústað og gerast ferðamaður á heimaslóðum, skoða dagblöðin og Netið, sjá hvað er í boði og nýta sér það. Sú athugun kæmi áreiðanlega mörgum á óvart og víst má telja, þótt einhver vildi leggja sig allan fram við að komast yfir sem mest, að hann kæmist hann aldrei yfir allt, sem í boði er. Hægt er að spássera um einstök útivistarsvæði með bakpoka, skoða söfn eða kirkjur, kíkja í búðir (oft töluð útlenska), sóla sig á ströndinni með Cervaza (víða fallegar sandstrandir) eða jafnvel taka fram gönguskóna, útbúa nesti og halda á vit náttúrunnar og sögulegra minja skammt utan við byggðina. Allt er þetta meira og minna ókeypis (nema kannski nestið). Hagnaðinum er hægt að verja til að kaupa eitthvað sérstakt í nágrannabyggðalögunum eða jafnvel nýta í eitthvað þarf síðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Upplandið býður upp á falleg fjöll, dali, strandbjörg, eldborgir og hrauntraðir. Gróður er fjölbreytilegur (um 400 tegundir mosa) og landnemaplöntur á hverju strái.

Með því að skoða FERLIRssíðuna gætu vaknað hugmyndir um ferðir eða leiðir, sem hægt væri að nýta í þessu nýstárlega sumarfríi. Og ekki er verra að geta sofið í rúminu sínu á milli “ferðalaga”.

Til að komast að fallegum og fjölbreytilegum göngusvæðum þarf ekki að aka nema í innan við klukkustund (í mesta lagi) og þess vegna er hægt að nýta daginn vel. Einnig er hægt að breyta til og taka strætisvagn eða rútu á milli svæða eða byggðalaga.
Minna má á að bjart er svo til allan sólarhringinn og því hægt að njóta útiverunnar bæði vel og lengi hverju sinni. Fuglasöngur er ríkjandi, en umferðarniðurinn víkjandi. Og svo er ekkert sem mælir á móti því að setjast bara niður á fallegum stað, njóta umhverfisins og hvílast.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Þeir, sem best þekkja til, segja að á Reykjanesskaganum sé alltaf sól (reyndar er hún stundum á bak við skýin) og syðst á honum komi ferskt ónotað súrefnið fyrst hér að landi í öllum góðum áttum.
Með þessu fyrirkomulagi er hægt að gera góðar áætlanir með stuttum fyrirvara og fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að þær geti gengið eftir.
Njótið sumarsins, afslöppuð og upplýst, í fallegu umhverfi Reykjanesskagans (skrifað árið 2004).

Sogin

Horft yfir Sogin.

Snorri

Gengnar FERLIRsferðir um Reykjanesið eru nú um 3200 talsins. Hver ferð hefur að jafnaði verið 7 km. Skv. því hafa verið farnir 20. 700 km eða sem nemur u.þ.b. nokkrum hringferðum í kringum landið. Í þessum ferðum hafa verið skoðaðar:

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.

-90 fjárborgir,
-120 brunnar og vatnsstæði,
-283 gamlar göngu- og þjóðleiðir,
-60 greni,
-603 hellar og skútar,
-83 letursteinar,
-68 hlaðnar refagildrur,
-92 gamlar réttir,
-401 sel og nálæg mannvirki,
-32 skotbyrgi,
-193 sæluhús og sérstakar tóttir,
-23 vegavinnubúðir,
-17 vitar,
-320 vörður á sögulegum stöðum,

auk eldvarpa, eldgíga, gosrása, dala, fjalla, hóla, hæða, vatna, stranda, gjáa, hvera, gróðurs, hrauna, móa, mela, dysja, gatna, stíga, brúa, stekkja, kvía, vara, byrgja, nausta, sjóbúða, flóra og annarra mannvirka eða sögulegra staða.

Urriðakotsdalur

Gengið um Efri-Urriðakotsdal (þar sem nú er golfvöllur)

Ef gert er ráð fyrir að sérhver göngumanna hafi náð af sér um 0.5 kg í hverri ferð ætti 80 kg maður nú að hafa lést um 850 kg. Af því mætti draga þá ályktun að þeir, sem oftast hafa gengið, væru nú horfnir með öllu. En sem betur fer er það nú ekki svo. Þeir hinir sömu hafa fengið tækifæri til að næra sig á milli ferða og þannig tekist að vega upp þyngdartapið, en auk þess njóta þeir að einhverju leyti aukinna vistmuna, meiri vöðvabyggingar, efldrar notadrjúgrar þekkingar sem og aukins skilnings á landi og þjóð sem hverjum og einum er svo mikilvægur til enn meiri þroska og viðurværis. Með lögjöfnun má því segja að þeir, sem ekki hafa tekið þátt í FERLIRsgöngum, séu nú þeim fátækari því þær hafa hingað til ekki kostað þátttakendur neitt annað en milliferðir.

Húsfell - refagildra

Refagildra ofan við Húsfell.

Ferlir

Haldið var upp Mosaskarð með öflugri sveit HERFÍsmanna.
Á leiðinni var litið ofan í Mosaskarðshelli, en ekki farið niður í hann. Uppi við brún að vestanverðu fundu hinir vönu hellamenn strax lykt af opinni rás og fannst þá op (Mosaskarðshellir efri) er reyndist vera um 20 metra hellir í lítilli rás.

Ferlir

Í Ferli.

Gengið var beint upp hraunið yfir á jökulskjöldinn og þaðan á ská áleiðis í FERLIR. Hann var skoðaður í um 3 klst. Skoðaðir voru um 450 metrar af hellinum, en hann mun enn ekki vera fullkannaður. Kúbeinið góða var ekki með í för og takmarkaði það möguleikana að nokkru. Litið var á djásnin og ýmislegt fleira kom í ljós við nánari skoðun.
Björn Hóarsson lifir á reynslunni enda hefur hann ásamt félögum sínum skoðað flestalla hraunhella á Íslandi. Hann er ekki vanur að láta háfleyg lýsingarorð fylgja útlistunum á nýfundnum hellum, vill í seinni tíð hafa þá rúma og mikla um sig. Hann sagði þó litadýrðina í FERLIR vera sérstæðu hans, glerjunginn á veggunum og lengdina og þar með hliðarrásirnar.

K-4

K-4

Leitað var að opnum ofar eftir stækkaðri loftmynd. Reyndust þar vera göt, sem skoðuð voru í maímánuði í fyrra. Þær rásir eru heldur ekki fullkannaðar.
Þá var haldið niður á K-hellasvæðið og það skoðað. Fundust enn fleiri op en í síðasta leiðangri. Nefnast þau K-4, K-5 og K-6. Þá fannst K-7, en hann er framhald af K-6. Á svæðinu virðast vera hellingur af hellum.

K-4 er með fallega niðurgöngu. Um er að ræða gasuppstreymisop að hluta og upp úr því er liggur um 40 metra rás. Grönn rás liggur þvert á hana, en niðurleiðin skiptist í tvær rásir. Reyndist önnur vera um 80 metra og hin um 120 metra. Hellirinn er því um 240 metra langur.
K-5 er 60-70 m langur.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

K-6 er víð og há rás. Liggur um 120 metra löng rás til hægri, en framundan er þverrás, bæði upp í hraunið og niður. Hliðarrásin opnast í jarðfalli og heldur síðan áfram niður um 60 metra. Þar er hann mjög hár og víður og var ís í botninum.
Ljóst er að hellasvæði þetta er að mestu ókannað, en þarna leynast áreiðanlega fjölmargar fallegar rásir sem og aðrar gersemar.
Í bakaleiðinni var gengið niður helluhraun, farið yfir fallega hrauntröð í apalhrauni og gróinni hlíð fylgt nokkra leið. Þá var gömlu girðingunni upp úr Mosaskaði henni fylgt áleiðis að skarðinu, farið yfir stóra og fallega hraunrás og síðan áfram niður skarðið. Á leiðinni niður voru nokkrar hraunbombur teknar til handargangs.
Hlýtt og bjart. Gangan tók 7 klst og 2 mín.

Mosaskardshellir

Í Mosaskardshelli. (BH)

Ferlir

Tveir fræknir FERLIRsfélagagar tóku að sér að kanna bestu hugsanlegar leiðir að FERLIR, m.a. til að undirbúa væntanlega för þangað með HERFÍsmönnum.

Ferlir

Í Ferli.

Skv. kortamælingum virtist vera jafn langt á svæðið frá öllum hugsanlegum nálgunarstöðum. En með því að fara upp Mosaskarð og síðan velja þaðan hentuga um tvo Óbrennishólma leið virtist nokkuð greiðfært að opinu. Gangan frá skarðinu tók um eina og hálfa klukkustund og tiltölulega greiðfært. Einnig er ætlunin að skoða hið nýfundna hellakerfi, auk þess sem næsta nágrenni FERLIRs verður gaumgæft.

Ferlir

Í Ferli.

Félagarnir skoðuðu hellinn, en ljóst er að í honum eru lágar rásir, sem virðast opnast inn í stærri rásir. Þær þarf að skoða nánar. Mikil litadýrð er í hellinum og virðist hann mjög viðkæmur fyrir ágangi, einkum vegna hins þunna glerjungslags, sem þekur svo til allar rásir.
Fleiri myndir úr hellinum munu birtast á næstunni (sjá HÉR).

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.

Skálafell

Eftirfarandi viðtal var tekið við einn FERLIRsfélaga og birtist í hinu virta dagblaði Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum:

Hvað er FERLIR?

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIR er FErðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Í hópnum eru auk starfsmanna deildarinnar fleira fólk, s.s. úr sektardeild embættisins, almennu deild, útlendingaeftirliti og fleiri deildum, allt eftir áhuga hvers og eins sem og á hollri og nauðsynlegri hreyfingu og vilja til að skoða áhugaverða staði eða minjar, sem virðast leynast víða. Þá hafa allir aðrir, áhugasamir, jafnan verið boðnir velkomnir í hópinn. Morgunblaðið ræddi á dögunum við einn forkólfa FERLIRs, Ómar smára Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjón í Reykjavík.

Hvar og hvað hafðið þið verið að skoða að undanförnu?

Almannavegur

Gengið um Almannaveg.

“Við höfum einbeitt okkur að Reykjanesinu. Ætlum okkur að klára það áður en við snúum okkur að öðrum svæðum. Á þessu svæði átti norrænt elsti hluti norræns landsnáms sér stað. Það eru elstu minjarnar – ef vel er að gáð. Það er svo til öll atvinnusaga landans – í landinu. Minjar eru svo til við hvert fótmál. Það eina sem þarft til er að fara út og skoða. Stundum þarf að leggja svolítið á sig og að leita, en það er allt þarna við fætur fólks, sem hefur áhuga. Þarna eru t.d. gömlu tóttir bæjanna, sem fólkið, er lagði drög að nútíðinni, húkti í öld fram af öld. Þarna eru sjóbúðirnar, naustin, varirnar, siglingamerkin, sundvörðurnar, brunnarnir, selin, selstígarnir, vatnsstæðin, stekkirnir, kvíarnar, fjárhellarnir, vatnsstæðin og vörðurnar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Jafnvel réttirnar, útilegumannahellarnir, aftökustaðirnir, dómhringirnir og lögrétturnar eða hvaðanaæva er tengdist lifnaði eða lifnaðarháttum fólks liðins tíma. Það er allt þarna úti – ef einhver hefur áhuga.
Refabyrgin, refagildurnar eða grenin – bara nefndu það. Eða hinir fjölmörgu hellar og skútar, sem tengjast einstökum sögum, s.s. Arngrímshellir, og Sængukonuhelli.
Eða drykkjasteinarnir, eða letursteinarnir eða…. Að ekki sé minnst á náttúruna sjálfa og allt sem hún hefur upp á að bjóða. Bara nefndu það. Það er engin afsökun til að skoða þetta ekki. Lítið sem ekkert af þessu hefur verið haldið að fólki”.

Hvað er verið að skoða?

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

“Allt, sem kann að vera áhugavert frá liðinni tíð. Leitað er í bókum, ritum, sögnum, lýsingum, minningarbrotum og örnefnaskrám og höfð viðtöl við eldra fólk, sem kann frá einhverju merkilegu að segja. Svo virðist sem þjóðsögurnar, sem gerast reyndar hlutfallslega fáar á Reykjanesi, eigi sér svo til allar tilvísun í staði eða staðhætti. Þannig má sannanlega sjá merki þeirra á Selatöngum, í Ögmundarhrauni, í Draughelli í Valahnjúk, í Arngrímshelli (Gvendarhelli) og í Bálkahelli í Krýsuvíkurhrauni, í Kerlingadal austan við Eldborg eða á Vörðufelli ofan við Selvog.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Á þessu landsvæði m.a. sjá ein elstu mannvirki landsins, s.s. Skagagarðinn mikla, Fornagarð Í Selvogi, skálann og tóttirnar í Húshólma og Óbrennishólma, minjarnar fyrir ofan Stórubót í Grindavík, kapelluna í Kapellulág við Hraun, dysjarnar við Hraun og víðar, grafirnar við Hafurbjarnastaði eða á Draughól við Garðskaga og svona mætti lengi telja. Þá eru ekki upptaldir letursteinar, sem víða má sjá og hafa skýrskoutun til gamalla heimilda, s.s. letursteinninn við Prestsvörðuna er sr. Sigurður Sívertssen lét höggva í eftir að hafa lifað að harðviðri, rúnasteininn í Kistugerði, áletranir í Másbúðarhóla, leturstein neðan við Kálfatjörn frá 1674, skósteininn í brúnni vestan kirkjunnar, vörðuáletranir, s.s. í Stúlknavörðunni (1777) ofan við Stapann, letur- og ártalssteinana á Vatnselysuströnd, t.d. við Knarrarnes og svona mætti lengi telja.

Þá er ekki talað um allar þær fornu leiðir, sem farnar voru og enn má merkja ef ve er að gáð”.

Hafið þið skráð eitthvað af þessu?

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

“Við höfum fram að þessu notað upplýsingarnar sem ákveðið tilefni til útivsitar. Stundum höfðum við þurft að fara nokkrum sinnum á sama stað til að finna það sem lýst var. Stundum finnum við annað en það sem lýst var og merkilegt kann að þykja. En við höfum fram að þessu ekki skráð það sérstaklega. Teljum það hlutverk annarra, einkum þeirra sem fram að þessu hafa einungis fengið tækifæri til að skrá og varðveita minjar, sem sögulegar kunna að teljast. Annars er það okkar mat að minjar eigi að varðveitast á staðnum Þær á ekki að færa í eitthvert miðlægt munsteri – víðs fjarri – jafnvel þótt fjöldinn kunni að vera þar. Enginn hefur gott að því – síst sagan eða munirnir. Þeir halda einungis gildi sínu á þeim stað er sagan skóp þeim tilvist – eða öfugt. Aðalatriðið fyrir okkur er hreyfingin. Allt annað bætir um betur. Við þolum hins vegar enga linkennd. Annað hvort er fólk tilbúið til að takast á við það sem bíður þess eða ekki. Ekki er hlustað á kvartanir. Ef einhver gefst upp er leitað að því sem kann að nýtast öðrum til framtíðar, t.d. göngustafnum”.

Hversu margir hafa ílengst frá upphafi og ekki gefist upp?
“A.m.k. tveir”.

Er ætlunin að halda áfram?

Ferlir

Ferlir á ferð um Húshólma.

“Já, svo lengi sem eitthvað er eftir óskoðað. Við höfum þegar farið 317 ferðir á Reykjanesið, en sýnt er að við höfum einungis skoðað það að hluta. Við eigum eftir að skoða selin norðan og austan Búfells og sandana ofan Selvogs svo eitthvað sé nefnt. Og margir hellar eru enn óskoðaðir. Þetta svæði er geysilega víðfeðmt og hefur upp á ótrúlega margt og mikið að bjóða. Jarðfræði landsins er t.d hvergi eins opin og áberandi og þar. Lesa má svo til alla landsmótunina frá vitsmunalegu upphafi á svæðinu og mörg hraunanna hafa runnið eftir að norrænt landnám hófst. Líklega þarf hver og einn að þekkja a.m.k. svolítið til um fortíðina til að geta skilið betur framtíðina. Nútíðin, þ.e. dagurinn í dag, var framtíðin í gær, en verður fortíðin á morgun. Með því má sjá hversu fortíðin getur verið, ekki bara okkur, heldur og öðrum, sem á eftir koma, dýrmæt. Sá veldur, sem á heldur. Þeir sem ekkert gera, vanrækja framtíðina. Viljum við það”.

Hvað er framundan?

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

“Meiri hreyfing – í fallegu mhverfi innan um minjar forfeðra og –mæðra og sögu þeirra, sögu liðins tíma – okkar tíma í fortíð, nútíð og framtíð”.

Ljóst má vera að framangreint er einungis svör við framkomnum spurningum, en ef spurt hefði verið nánar um eigindlega möguleika fyrirliggjandi upplýsinga, hugsanlega greiningu eða túlkun þeirra, aðferðir eða aðferðafræðileg hugtök, mögulegra kenninga eða væntanlegar niðurstöður hefðu svörin án efa orðið önnur. Þannig mótast svörin jafnan af spurningunum.

Túlkun niðurstaðna út frá fyrirliggjandi upplýsingum er jafnan talin gild – þá og þegar hún er lögð fram – en hún er líka fljót að breytast þegar til lengri tíma er litið. Svo virðist sem jafnvægi aukist með fjarlægðum – því lengra sem líður frá túlkun gagna því líklegra er að hún nálgist áreiðanleikann fyrrum.

Arngrímshellir (gvendarhellir)

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Fálkageiraskarð

“Stórkostlegasti hellir, sem ég hef séð. Sáuð þið litadýrðina, skærgult, rautt, blátt, grænt og allt þar á milli. Ekki rykkorn á gólfinu, Óendanlegur. Hef ekki séð gulan björgunarbát í helli áður. Það tekur a.m.k. viku að skoða hann allan”. Þetta voru viðbrögð FERLIRs félaga og félaga úr HERFÍ eftir að hafa fundið helli í Brennisteinsfjöllum eftir langa göngu og allnokkra leit. Áður höfðu þeir fundið nokkra hella til viðbótar, reyndar heilt hellakerfi, en það reyndist einungis sýnishorn af því sem koma skyldi.

Fálkageiraskarð

Efst í Fálkageiraskarði.

Gengið var upp Fálkageiraskarð (Falskageiraskarð skv. örnefnalýsinigu) með það fyrir augum að kanna hvort um væri að ræða hellagöt á ókönnuðu svæði í Brennisteinsfjöllum. Áætlaðir voru þrír tímar í göngu og síðan tvo tíma í leit á svæðinu því ganga þurfti til baka sömu leið. Hálfa klukkustund tók að ganga upp skarðið, en það er í sjálfu sér ekki erfitt uppgöngu. Leiðin upp er þakin fjölskúðugum plöntum, og utan í því er fallegur hraunhóll, sem (þegar upp var komið) kom í ljós að hafði runnið í þunnfljótandi hraunæð fram af brúninni og storknað jafnóðum utan í og neðan við bergbrúnina.  Síðan hafði brotnað út hömrunum efst og þeir fjarlægst hraunstandinn, sem stendur þarna einn og tignarlegur. Efst í skarðinu er hár klettadrangur, Fálkaklettur. Undir honum eru grasbrekkur og jafnframt fyrir ofan þegar komið er upp.

Fálkageiraskarð

Standur efst í Fálkageiraskarði – Fálkaklettur.

Ofan við skarðið tók við langt misgengi. Því var fylgt, haldið yfir apalhraun að ísaldarskyldi. Suðaustur úr honum lá þriggja metra breiður stígur áleiðis niður að Mosaskarði. Sennilega er hér um að ræða hluta leiðarinnar, sem Stakkavíkurbræður gengu þaðan yfir að Fagradalsmúla og niður í Hafnarfjörð með rjúpur á vetrum, sbr. frásagnir Eggerts og Þorkels undir viðtöl hér á vefsíðunni. Gengið var yfir ísaldarskjöldinn og síðan úfin apal- og helluhraun uns komið var í hraunið, sem átti að skoða. Strax fundust nokkur op. Rásirnar voru hverri annarri fegurri. Þunnfljótandi hraunlag hafði slétt út gólfin og myndað þunna skán á því. Afhellar voru hingað og þangað. Ein rásin lá þvert á meginrás og úr henni nokkrar aðrar. Fallegir bálkar með veggjum og litardýrð. Gljáfægðir separ í loftum.

Ferlir

Í Ferli.

Tvær hraunsúlur héldu loftinu uppi á einum stað og svona mætti lengi telja. Nokkrar 100 metra rásir voru þarna og fjölmargar styttri eða hringrásir. Þarna væri hægt að vera klukkustunum, eða jafnvel dögum saman og alltaf finna eitthv nýtt. GPS-punkar voru teknir af þremur opanna.
Á leiðinni til baka var haldið ofar í hlíðina og strikið þvert á hana því einn FERLIRsfélagi hafði veitt athygli gati þar á leiðinni upp eftir. Um er að ræða sæmilegt jarðfall. Sjá má lýsingarinnar á innihaldinu í upphafinu hér að framan. Hægt er að far niður rásina og þar greinist hún í margar nokkrar aðrar.

Ferlir

Í Ferli.

Fremst er bergið bláglerjað, hárrauð þverrás gengur inn úr henni og hægt er að ganga í hringi um ýmsa ganga. Ofar virðist rásin ekki mjög merkileg. Hún virðist enda eftir um 100 metra, en þegar betur er að gætt er rás upp undir lofti. Þegar skriðið er eftir henni opnast “konfektkassi” hellaháhugamanna í öllum litum og litbrigðum. Tvær fallegar súlur eru í rásinni. Allar rásir eru heilar og varla steinn á gólfi. Hliðarrásir ganga inn úr hverjum gangi, stundu í allar áttir. Sá litur, sem sker sig mest úr er skærgulur, en jafnframt má sjá silfurliðar berg. Þegar þessi hluti verður skoðaður þarf að hafa spotta er merkilínu.

Ferlir

Storknun í Ferli.

Varið var tveimur klukkustundum í skoðun á hellinum, en sýnt er að gefa þarf sér góðan tíma til að skoða hann allan.
Stungið var upp á nafni á hellinn og gengur hann framvegis undir vinnuheitinu FERLIR (beygist eins og HELLIR).
Gengið var niður með ísaldaskyldinum og austan misgengisins, en síðan var bjargbrúninni fylgt að Fálkageiraskarði. Blankalogn var svo auðvelt var að fylgjast með fýlnum í berginu og tilburðum hans. Sauðamergur, geldingahnappur, ljónslappi og burknategundir eru dæmi um jurtir í gilinu.

Ferlir

Í Ferli.

Skammt ofan við jökulskjöldinn fyrrnefnda fannst skarlatbikar (cladonic borealis), en hann vex á jarðvegi og mosa, oft yfir klettum og er algengur um land allt, en askhirslurnar, skærrauðar, sem voru á þessari einu litlu plöntu víðáttunni, eru fremur sjaldséðar.
Áætluð er fljótlega fer með HERFÍ á hellasvæðið. Þá verður farið með allan nauðsynlegan búnað og ljós, sem og það markmið að reyna áætla umfang þess nýfundna hellis. Mjög erfitt er að að koma auga á opið, auk þess sem það er á einu fáfarnasta svæði landsins. Slík svæði eru “veiðilendur” FERLIRs.
Það var vel við hæfi að ferð nr. 666 tengdust undirheimunum.
Gangan tók 8 klst og 12 mín, eins og áætlað var. Fábært veður – sól og blíða.
Sjá MEIRA.

Ferlir

Jarðmyndanir í hellinum Ferlir.

Ferlir

Í Morgunblaðið árið 2008 er fróðleg grein undir fyrirsögninni “Í fótspor fjár og feðra“.

Lögreglumennirnir og -konurnar eru ekki á slóðum afbrotamanna, heldur forfeðranna þegar þau ganga á Reykjanesinu. Þar njóta þau líka útiverunnar, lesa í minjar lífs- og atvinnuhátta og kynnast kostum landsins frá nýju sjónarhorni.
Hallgrímur Helgi Helgason fór um Reykjanesskagann með göngugarpnum Ómari Smára Ármannssyni og Gönguhópnum Ferli.

Ferlir

Hraun, mosi og kargaþýfi Þegar gengið er utan troðninga liggur leiðin yfir hraun, mosa og kargaþýfi. Í hópnum voru að þessu sinni Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson, Jón Svanþórsson, Jóhanna Sveinsdóttir, Birgir Bjarnason og Eyþór Borgþórsson, auk blaðamanns. (Ljósm. Júlíus)

Gönguhópurinn Ferlir var stofnaður 1999 fyrir ferðahóp rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík, en síðan hafa margir slegist í hópinn. Reykjanesskaginn varð snemma fyrir valinu, bæði vegna nálægðar og þess að þorri fólks er þar ókunnugur. Þótt mörgum finnist svæðið bert og ófýsilegt, er reynsla hópsins sú að Reykjanesið sé einkar gjöfult og fjölbreytilegt til útivistar. Hópurinn hefur farið rúmlega 1.200 gönguferðir um skagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Selvogsgata

Selvogsgatan á Hellunum. Helgafell fjær.

Göngufólk hefur safnað þar kynstrum af efni, ekki síst um fornar götur sem liggja þar þvers og kruss og vitna um lífshætti og kjör fyrr á öldum, fornar byggðir og umferð sem þeim fylgdi. Slóðirnar sjást þó misvel í úfnu landslaginu; sumar eru löngu grónar en aðrar hafa lent undir hrauni eða síðari tíma framkvæmdum og raski.
Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, hefur verið í gönguhópnum Ferli frá upphafi. Hann segir að þeim sem gangi um fornar götur Reykjaness opnist einkar rík saga allt aftur til landnáms – og jafnvel lengur.

Listin að lesa veg

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

„Götur hafa myndast hér frá fyrstu tíð manna og búfénaðar og er oft erfitt að greina á milli, hvaða götur voru notaðar af hverjum, hvenær og í hvaða tilgangi. Sumar göturnar eru nú horfnar, en aðrar hafa verið endurheimtar. Á seinni tímum hefur gróður náð að hylja slóðirnar eða gróðureyðing hefur afmáð þær, jarðvegur hefur færst til, skriður og snjóflóð hlaupið, ár og lækir breytt farvegi sínum, vatn runnið í þeim og breytt, eldgosaaska hulið þær og hraun runnið yfir þær. Dæmi eru líka um að gamlar leiðir hafi færst til.“

Sandakravegur

Sandakravegur.

Allur gangur er á því hver lagði göturnar í upphafi: „Þegar við endurrekjum gamla leið setjum við okkur iðulega í spor þeirra sem fóru hana áður,“ segir Ómar Smári. „Það má greina götur eftir fólk frá götum eftir búfénað þótt stundum hafi leiðirnar legið saman. Kindurnar leita bithaga og skjóls og því liggja kindagötur eða fjárgötur oft utan í hlíðum, hæðum og hólum eða í lægðum. Þar sem féð hefur unað hag sínum vel er jafnan vel gróið. Fólk fór hins vegar greiðfærustu leiðina og hugsaði um að „halda hæð“. Þá var ekki farið upp og niður hæðir og dali að óþörfu. Þótt fólk þyrfti að taka á sig krók var það gert, því „betri var krókur en kelda“.
Um allt land má finna mikilvægar þjóðleiðir frá liðnum öldum, sem sumum hefur verið haldið við. Þá hafa verið búnar til nýjar gönguleiðir um fallega náttúrustaði. Nokkrar slíkar má finna á Reykjanesskaganum. Mikilvægustu leiðirnar áður fyrr eru ekki endilega vinsælustu gönguleiðirnar í dag. Sumar eru nýlegar, eins og Reykjavegurinn svonefndi milli Reykjaness og Nesjavalla.“

Til ýmiss brúks

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Ómar Smári segir að reyna megi að flokka leiðirnar eftir sennilegu notagildi þeirra áður fyrr. „Þjóðleiðir lágu milli byggðalaga, eins og Alfaraleiðin eða Almenningsleiðin milli Innnesja, nú Hafnarfjarðar, og Útnesja, þar sem nú er Reykjanesbær. Hún sést að mestu ennþá frá jaðri Brunans (Kapelluhrauns) til Innri-Njarðvíkur. Selvogsvegur eða Suðurfararvegur lá milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Hann sést vel frá Lækjarbotnum í Hafnarfirði að Strönd í Selvogi.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Þessar leiðir voru fjölfarnar allt til þess að vegagerðin fór að miðast við bifreiðar. Verleiðir má sjá við verin á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Leiðirnar ofan við Selatanga, verstöð, sem notuð var allt til byrjunar 20. aldar eru þrjár, hvort sem var heim til bæja, Skála og Krýsuvíkur, eða inn á þjóðleiðirnar. Byggðakjarnar á landsvæðinu, svo sem Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströndin, voru mikilvægar verstöðvar.
Lengri aðalleiðirnar lágu milli stjórnsýslustofnana, höfuðbóla og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, náttúrustaða, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása eða úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mjög mislangar. Segja má að fyrrum hafi allar leiðir um tíma legið til og frá Þingvöllum. Við þessar leiðir finnast víða misgamlar minjar, svo sem hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum og skútum eftir menn og hreindýr, og vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti, eða sögulega atburði. Dauðsmannsvörðurnar og dánarstaðir eru ófáir við og hjá götunum, en sem betur fer sluppu margir lifandi þrátt fyrir miklar raunir, eins og Prestsvarðan ofan við Leiru er til vitnis um.

Árnastígur

Árnastígur.

Leiðir á milli bæja eru jafnmargar og bæirnir voru margir – og þeir voru miklu fleiri en fólk gerir sér í hugarlund, t.d. voru 28 bæir í Staðarhverfi, sem er vestast Grindarvíkurhverfanna, en nú standa þar tóftir einar. Í Staðarhverfi var millilandaverslun um tíma, kirkjustaður og hreppstjórasetur. Frá hverfinu lágu samskiptagötur til Hafna, Njarðvíka og hinna byggðarkjarnanna í Grindavík. Þær sjást enn vel.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Selstígar lágu upp í selstöðurnar, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. T.a.m. má sjá leifar af um 250 slíkum á svæðinu.
Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og er Hvalsnesleiðin milli Ytri-Njarðvíkur og Hvalsness ágætt dæmi, en gatan var jafnframt notuð sem þjóðleið milli byggðakjarna og sem verslunarleið. Líklega er hluti leiðarinnar sá best varðveitti hér á landi því varnargirðing Varnarliðsins umlukti hana.“
Sumar slóðir frá því fyrir landnám Ómar Smári segir að sumar leiðirnar séu áfangaleiðir og tengist öðrum eða greinist út frá þeim. Dæmi um vinsæla gönguleið hópsins er leið í Ögmundarhrauni á suðurströnd nessins austur af Grindavík, en hraunið hefur runnið yfir bæ, garða og umlukið önnur mannvirki, s.s. fjárborg og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
„Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í harða hraunhelluna, svo sem sjá má á Sandakra- og Skógfellaveginum eða á Hellunum vestan Hlíðarvatns. Þar hefur yngra hraun runnið yfir eldra hraun, sem gatan er í. Gatan er ágætt dæmi um hversu mikil umferð hefur verið hér allt frá fyrstu tíð, sem reyndar gæti þess vegna hafa verið eldri en norrænt landnám segir til um.“
Hefurðu sjálfur mótað þér skoðanir á lífi í landinu fyrir landnám?

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

„Vísbendingar gefa til kynna að hér kunni að hafa verið önnur byggð en rannsóknir hafa enn ekki staðfest það með óyggjandi hætti. T.d. á eftir að rannsaka mannvistarleifar í og við Húshólma og Óbrennishólma í Ögmundarhrauni.“
En auðvitað hefur þróun byggðar og lífshátta í landinu leikið hina fornu vegi með ýmsum hætti. „Leiðakerfið hefur þróast og götur hafa verið lagfærðar eða færst til,“ segir Ómar Smári. „Þegar ferðast var á fótum, eigin eða hestsins, mótuðust göturnar af sjálfu sér. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Um tíma varð það hluti af þegnskylduvinnu eða atvinnubótavinnu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur – vagnvegurinn.

Með tilkomu vagnsins voru gerðar vegabætur á mikilvægustu leiðunum og með bílnum mótuðust nýjar leiðir yfir holt og mela, og eldri leiðirnar voru lagfærðar. Þegar leiðin milli Grindavíkur og Krýsuvíkur var gerð ökufær 1932 var hin forna þjóðleið yfir Ögmundar-hraun, þar með talinn Ögmundarstígur, bæði breikkuð og lögð ofaníburði. Í dag er gjarnan farið beint af augum, ekki bara yfir fjöll og hálsa, heldur í gegnum hvort tveggja. “

Varðveisla mikilvæg
fótsporÓmar Smári segir mikilvægt að varðveita gömlu leiðirnar, en með því að ganga þær eru minni líkur á að þær falli í gleymsku. En hvaða hætta steðjar þá einkum að þeim?
„Það er áhugaleysi sveitarstjórnarfólks, skipulagsaðila og verktaka. Við nýtt hverfi í Sandgerði var ekkert tillit tekið til þess að Sandgerðisvegurinn gamli liggur um svæðið og er enn mjög greinilegur. Grindvíkingar ákváðu hins vegar að hafa göngustíg í gegnum Hópshverfið nýja og leyfðu Skógfellaleiðinni þannig að halda sér um bæjarhlutann. Í Reykjavík og víða eru dæmi um að hús hafi verið byggð á gömlum þjóðleiðum, en fólki ekki orðið svefnsamt í þeim vegna mikillar umferðar fólks að næturlagi.“
Í ljósi þess að saga Reykjanessins er átakamikil, fá frásagnir af slysum, mannsköðum og afturgöngum nýtt líf í ferðum ykkar?
„Sérhver saga og sérhvert atvik tengist óhjákvæmilega ákveðnum leiðum og stöðum. Merking þeirra verður önnur fyrir vikið líkt og leiðin og/eða staðurinn. Helsti skaðvaldur þessara gömlu leiða er virðingarleysið sem birtist m.a. í vegagerð og utanvegaakstri. Nýrri vegir hafa af misgáningi verið lagðir yfir þær og stórvirkum vinnutækjum ekið eftir og yfir leiðirnar, rusli hent á þær, námur settar þvert á leiðirnar og trjám plantað í þær. Með svolítilli hugsun mætti koma í veg fyrir þessa eyðileggingu.“

Að aka minna en ganga meira

Ferlir

FERLIRsganga að vetrarlagi.

Farið þið annars á Reykjanesið á öllum árstímum og í öllum veðrum?
„Veðrið hefur aldrei stöðvað för. Hægt er að undirbúa og velja göngustað á Reykjanesskaganum eftir áttum og veðri. Hálsarnir skipta oft veðrum. Þótt það sé rigning og rok hér þá getur verið sól og jafnvel logn handan við hæðina.“
Eru hraunsprungurnar ekki varasamar ef snjór er yfir jörðu?
„Við förum ekki um sprungusvæði þar sem snjór þekur jörð og ekki er augljóst hvernig landið liggur. Enda óþarfi þar sem nægir aðrir kostir eru í boði. Svæðið býður upp á ótrúlega útivistarmöguleika. Fólk getur gengið hinar gömlu leiðir, skoðað landmótun á flekaskilunum og jarðmótunina frá upphafi með a.m.k. 15 hraun frá sögulegum tíma, gengið um hraunhellana, virt fyrir sér litaskrúð hverasvæðanna og notið ómótstæðilegrar náttúrufegurðar. Fótspor
Fána og flóra eru fjölbreyttari en ætla mætti.
Það er mjög gott fyrir byrjendur að ganga með öðrum sem geta leiðbeint þeim til að glöggva sig á umhverfinu og lesa það. Síðan fer fólk að rekast á minjar við hvert fótmál.
Á þessum síðustu tímum aðhalds og ráðdeildar ættu áhugasamir borgarbúar að spyrja sig: Hvers vegna ekki að aka í 15 mínútur og nýta svo 1-5 tíma til göngu í þessu margbreytilega og stórkostlega umhverfi í stað þess að aka í 1-5 klukkustundir og hafa síðan einungis tíma til að ganga í 15 mínútur?“
Gönguhópurinn heldur úti vefsíðunni ferlir.is.

Heimild:
-Morgunblaðið, 162. árg. 15.06.2008, Í fótspor fjár og feðra, bls. 24-25.

FERLIR

FERLIRsfélagar í Bálkahelli. (Ljósm. Júlíus)

FERLIR

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og jafnvel kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta svolítið í kringum sig – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta náttúrulega umhverfi.

FERLIR

FERLIR – elsta vefsíðan.

Árni Torfason setti upp fyrstu, einfalda, vefsíðu FERLIRs árið 2000, með styrk frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans. Í styrknum fólst kaup á fartölvu. Vefsíðan var endurnýjuð árið 2007 í Webman hjá Nethönnun og síðan uppfærð í núverandi Word Pressútgáfu hjá Premis árið 2019 með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.
Fyrir þá, sem vilja hafa samband, er eftir sem áður bent á netfangið ferlir@ferlir.is.

Nálgast má elstu vefsíðu FERLIRs (dags. 15. nóv. 2006)  HÉR.

FERLIR

FERLIR – vefsíðan fyrir uppfærsluna 2019.

 

FERLIR

Í Morgunblaðinu árið 2001 er skemmtileg umfjöllun; “Að lesa landið – Ferðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík í 100. ferð sinni um Reykjanes“;

“Rannsóknarlögreglumenn sem beygja út af Reykjanesbraut og þramma skimandi um hraun og hlíðar, eru án efa að leita verksummerkja um glæpsamlegt athæfi. Eða hvað? Sigurbjörg Þrastardóttir og Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari, slógust í för með löggum sem leita fremur að félagsskap, náttúrufegurð og anda liðinna alda.

Selvogsheiði
Lögreglumennirnir snarast út úr bifreiðum sínum við kirkjugarðinn í Hafnarfirði, vasklegir í fasi og vel skóaðir. Við garðinn er upphafspunktur 100. Reykjanesgöngunnar í röðinni síðan Ferðahópur rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík (FERLIR) tók til starfa í fyrrasumar. Á bílastæðinu standa tveir af helstu göngugörpunum, Ómar Smári Ármannsson og Jóhann Davíðsson, en sá fyrrnefndi er ókrýndur forsprakki framtaksins.
Selvogsheiði„Þar sem fyrir höndum er lengsta gangan hingað til, voru menn skyndilega mjög uppteknir í kvöld,“ segja þeir félagar sposkir og vísa til þess að tiltölulega fáir eru mættir. Að meðaltali taka 5–15 manns í göngunni – rannsóknarlögreglumenn og gestir þeirra; börn, makar, vinir eða vinnufélagar af öðrum deildum. Nú standa átta manns ferðbúnir, sumir vanari en aðrir.
„Nýliðar fá oftast svona nýliðaprik til að styðja sig við,“ segja forsprakkarnir og lyfta gömlum kústsköftum. Sjálfir eru þeir með fallega útskorna stafi um hönd. „Ef einhver dregst aftur úr eða týnist, snúum við aldrei við til að leita þeirra. En ef nýliði týnist, verðum við að snúa við til að finna prikið. Þetta eru ómetanleg prik.“
Með þessum orðum er tónninn sleginn fyrir taktinn í ferðinni – allt er fyndið eða hóflega nákvæmt og ekki að ástæðulausu. „Þessar ferðir eru ekki síst ætlaðar til þess að dreifa huga manna frá vinnunni, sem oft er íþyngjandi. Hér reynum við að gleyma áhyggjum hversdagsins og því er eiginlega bannað að segja nokkuð af viti – það er nánast glæpur,“ segir Ómar Smári og glottir.

Landið fær nýja merkingu

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

Ekið er af stað á nokkrum bílum og á leiðinni segir Ómar Smári frá hugsjóninni að baki ferðahópnum, þar sem mæting er algjörlega frjáls og engar afsakanir nauðsynlegar. „Ef einhver hefur önnur plön, þá hefur hann önnur plön. Þetta er fyrir þá sem eru upplagðir, þá sem vilja, þá sem hafa tíma og þá sem nenna. Og það þarf ekki alltaf að vera sama fólkið. Fyrst og fremst eru þessar gönguferðir hugsaðar til skemmtunar og sem hreyfing. En um leið hjálpa þær okkur að kynnast landinu betur og gera okkur grein fyrir því hvernig kynslóðirnar á undan okkur lifðu af landsins gæðum.“
Leitin að minjum um búskap og mannvistir er einmitt það sem setur svip á ferðir FERLIR, og sker þær frá hefðbundnum gönguferðum um hóla og holt.

FEELIR

Jóhann Davíðsson – við öllu búinn í fyrstu FERLIRsferðinni.

Fyrir hverja ferð er sett upp áætlun, rissað er upp kort af fyrirhugaðri leið og merktar inn minjar sem sögur herma að séu á svæðinu. „Það geta verið hleðslur, réttir, fjárhellar, stekkir eða dysjar. Að ógleymdum þjóðleiðum sem sýna glöggt hvernig skór, hófar og klaufar hafa meitlað í berg eða troðið mýrar í gegnum aldirnar.

Við leitum gamalla heimilda, skoðum landabréf og bækur og höfum einnig talsvert rætt við gamalt fólk sem er alið upp á svæðinu. Í gönguferðunum svipumst við svo um eftir þessum minjum,“ segir Ómar og tekur fram að FERLIR kunni Reyni Sveinssyni, Helga Gamalíelssyni frá Stað við Grindavík, Fræðasetrinu í Sandgerði, Sigurði á Hrauni, Þórarni Snorrasyni í Vogsósum og Kristófer, kirkjuverði í Strandarkirkju, sem og ótal öðrum þakkir fyrir ómetanlega leiðsögn. Bætir svo við að á svæðinu milli Hafnarfjarðar og Voga séu um 40 sel með öllu sem þeim fylgir – brunnum, kvíum, fjárskjólum, hellum, nátthögum og smalabyrgjum – og að minnsta kosti 20 fjárborgir, en aðeins tvær þeirra séu almenningi vel kunnar. Það sé því miklu meira um áhugaverða staði á svæðinu en margan grunar.
Hellholt„Þegar ekið er út á Keflavíkurflugvöll, eins og flestir hafa gert, er óneitanlega skemmtilegra að hafa gengið um svæðin í kringum Reykjanesbrautina – landið fær allt aðra merkingu. Sjálf höfum við mjög gaman að því að svipast um eftir minjum og kennileitum, og punktum hjá okkur hvað finnst. Hins vegar finnst lítið með því einu að skima úr bílnum. Fólk verður að hreyfa sig til þess að finna eitthvað af viti.“ Hann bendir á að minjaleitin sé einmitt kjörið tilefni fyrir fólk að drífa sig í heilbrigða útivist. „Margir segjast vilja hreyfa sig en vantar til þess ástæðu. Hér er hún komin, minjaleitin getur verið slíkt markmið.“

Sérstaklega samið um gott gönguveður
Á ferðum sínum hafa félagarnir í FERLIR orðis ýmiss vísari og sumar uppgötvanir verið næsta sögulegar. Þeir hafa fundið hella sem jafnvel Hellarannsóknafélagið hafði ekki hugmynd um að væru til, og þeir hafa komist að því að örnefni á gömlum landabréfum eru ekki öll nákvæmlega staðsett. „Þarna eru til dæmis Hnúkar,“ segir Ómar og bendir í austurátt, „en þeir eru á kortum ranglega nefndir Kvennagönguhólar. Kvennagönguhólar eru að vísu til, en eru neðar.“ Hann bendir í gegnum framrúðuna þar sem rúðuþurrkurnar tifa. Veðrið lítur ekki vel út, en Ómar er pollrólegur. „Við semjum með fyrirvara um gott veður og það stenst undantekningarlaust. Höfum aldrei þurft að hætta við ferð vegna veðurs.
Gönguferðirnar áttu í fyrra til dæmis aðeins að vera til hausts, en sökum þess hve veturinn reyndist mildur hefur göngum verið haldið áfram óslitið þar til nú.“ Hann bendir líka á að sjaldnast sé að marka veðurútlitið úr glugga í heimahúsi. Það sem gildi sé veðrið á því svæði sem förinni er heitið um, og það geti verið alls óskylt borgarveðrinu. „Sjáðu til dæmis rofið í skýjabakkanum þarna niðurfrá. Þangað erum við einmitt að fara.“ Ekki þarf að orðlengja um að veður lék við göngumenn alla sex tímana sem gengið var. Samningurinn við veðurguðina hélt, sem fyrr.

Skyggnishúfur með jarðskjálftavörn

FERLIR

FERLIR – einkennismynd.

Við dysjar tröllskessanna Herdísar og Krýsu við Herdísarvíkurveg, er bílalestin stöðvuð og Ómar Smári rekur þjóðsöguna af þeim stallsystrum, sem deildu um landamerki og enduðu með því að berast á banaspjót. „Það er eitt að heyra þessa sögu, en annað að hlýða á hana við dysjarnar sjálfar. Þá sér maður að þetta er að sjálfsögðu allt satt,“ segir Ómar og hinir kinka kolli til samþykkis. Þeir benda á að með FERLIR-húfurnar á höfði öðlist þeir nefnilega einstakan hæfileika til skilnings og samþykkis á þjóðsögum og öðru slíku – þetta séu engar venjulegar húfur. „Eftir fimm ferðir fær fólk FERLIR-húfu að launum fyrir afrekið. Þessar húfur eru framleiddar í austurvegi og búa ekki bara yfir eldfjalla- og jarðskjálftavörn, heldur áhættuvörn líka. Einu sinni misstum við mann ofan í gjá og það varð honum til happs að vera með húfuna. Hann hékk á derinu.“ Ýmsum fleiri tröllasögum um húfurnar er kastað á milli og menn greinilega vanir að gera að gamni sínu í góðum hópi. Jóhann bætir við nokkrum sögum af sprungum og gjám af svæðinu og klykkir út: „Strandagjá er sú dýpsta af þeim ölllum. Einu sinni var ég staddur á brúninni, henti niður steini og hlustaði. Tveim dögum síðar heyrði ég skvampið. Þetta er alveg rosalega djúp gjá.“

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

Þegar gangan loks hefst er fimmtíu kílómetra akstur að baki og búið að koma tveimur bílum fyrir við áætlaðan lokapunkt ferðarinnar. Þangað eru 19 kílómetrar frá upphafspunkti við Geitafell og því ekki seinna vænna en haska sér af stað. „Við munum skoða nokkra fjárhella, líta eftir gömlum réttum og skoða gamlan stein með krossmarki sem sögur herma að liggi á litlu holti.
Svo leitum við að Ólafarseli, Þorkelsgerðisseli, Eimubóli og skoðum Strandarhelli…“ byrjar Ómar Smári en orð hans hætta smám saman að berast til öftustu manna. Hann er nefnilega rokinn af stað á talsverðu blússi, eins og áköfum göngustjóra sæmir.

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

Krækt er fyrir Geitafellið og innan skamms er fyrsti stekkur fundinn. Göngumenn þefa hann uppi, en eru raunar í fyrstu ekki vissir hvort hann muni liggja í hlíð upp af Seljavöllum eða við holt að neðanverðu. Þeir stansa og litast um. Beita svo lögregluþjálfuninni með því að setja sig í spor „glæpamannsins“ – hugsa eins og sá sem kom stekknum fyrir. „Já, reynsla úr starfinu getur gagnast, nema hvað að hér erum við ekki að fást við glæpamenn. Bændurnir hér voru heiðursmenn og því er ekki síður auðvelt að setja sig í þeirra spor.“

Lækjarbotnar

Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.

Spurt er hvort þeir hafi aldrei á ferðum sínum rekist á sönnunargögn um alvöru sakamál, en þeir segja svo ekki vera. „Það er helst að við höfum rannsakað aðsetur útilegumanna, sem voru jú sakamenn. En það eru ekki margir óupplýstir, nýlegir glæpir sem hér liggja í loftinu. Það eru þá frekar fyrnd mál eða þjóðsagnakenndir atburðir,“ svara þeir. Segjast hins vegar hafa komist að ýmsu misjöfnu um búskaparhætti, sönnu en varla sakhæfu. Til að mynda hafi eldhús í seljum verið afspyrnu lítil sem bendir til lítils skilnings á starfi kvenna. „Kannski er það satt sem einn kunningi okkar segir, að konan hafi hér á öldum fyrrum verið meðhöndluð sem eitt af húsdýrunum. En það hefur nú sem betur fer mikið lagast,“ segir einn kæruleysislega og gjóir augum stríðnislega til kvenna í hópnum. Þær láta sem vind um eyru þjóta og hugsa upp skeyti á móti.

Fagridalur

Í Fagradal.

Svo færist alvara í talið og rifjaðar eru upp aðstæður barna sem látin voru vaka yfir ánum um nætur, oft í kulda, vætu og einsemd. Hræðsla og vinnuálag hljóti að hafa hindrað leikgleði og áhyggjuleysi ungviðisins; sálarástandið sé án efa fegrað mjög í hinum glaðlega söng um Tuma sem fór á fætur við fyrsta hanagal – til þess að „sitja yfir ánum lengst inni í Fagradal“.
Minna rannsakað en frumskógar Afríku Áfram er haldið og gengið fram á einar þrjár réttir, auk stekkja og fjárhella sem finnast.
Göngumenn benda líka á andlit og aðrar kynjamyndir í hömrunum í kring og eftir ýmsu öðru er tekið á himni og jörðu, skýjabökkum, fjöllum, vörðum og jafnvel sniglum. „Þessi lagði af stað frá Strandarkirkju árið 1967 og er ekki kominn lengra,“ kallar Birgir Bjarnason eftir að hafa þóst eiga orð við sveran, svartan snigil á þúfu.
„Það væri ljótt ef við snerum honum við og hann endaði aftur á upphafspunkti. Sá yrði fúll.“

Svörtubjörg

Við Stígshella í Svörtubjörgum.

Þegar komið er framhjá Svörtubjörgum opnast útsýni til hafs og enn er bjart sem á degi. Ómar Smári heldur áfram að romsa úr sér örnefnum og sögum sem tengjast stöðum í kring, Jón Svanþórsson kann líka ýmsar sagnir og Jóhann, sem er úr Þorlákshöfn, rifjar upp kynni sín af körlum úr sveitinni.
Og rannsóknarlögreglumennirnir virðast síður en svo þreyttir á Reykjanesinu, þótt hundrað ferðir séu að baki.
„Staðreyndin er sú að þetta land hér er minna rannsakað en frumskógar Afríku, eins og við segjum stundum. Fólk hefur á síðari tímum ekki átt hingað mörg erindi, og á fyrri tíð var skóbúnaður fólks þannig að það gat bókstaflega ekki gengið alls staðar um úfið hraunið. Gamlar þjóðleiðir liggja yfirleitt með hraunköntum en á milli eru ókönnuð svæði.
En fyrir utan að vera áhugavert svæði, er Reykjanesið líka svo þægilega innan seilingar, höfuðborgarbúar gætu gert mikið meira af því að koma hingað. Ef veður bregst er stutt að snara sér heim aftur, en annars er lítið mál að sjá veðrið fyrir með jafnvel tveggja daga fyrirvara – ef menn leggja sig eftir því að læra að lesa í veður. Fólk leitar oft langt yfir skammt. Ef maður spyrst fyrir á vinnustað, kemur kannski í ljós að allir hafa komið til Krítar en enginn hefur gengið á Kálffell, þótt þar séu líka bæði gjár og hellar.“

Sleikibrjóstsykur sem vex villtur

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Meðal þjóðsagnanna sem raktar eru, snýst ein um svonefndan Yngingarhelli, sem fullyrt er innan hópsins að svínvirki. „En það þarf að passa sig. Kannski kemur maður út úr honum og hefur þá skyndilega ekki aldur til þess að keyra bíl,“ bendir einhver á og allir skella upp úr. Ekki líður á löngu þar til fjárhellir verður á vegi hópsins og farið er inn með vasaljós. Út koma svo Ómar Smári og Jóhann með glænýjar húfur, en þeir höfðu lagt upp í ferðina með velktar húfur og upplitaðar. Það er ekki um að villast að þarna er Yngingarhellir kominn, þótt áhrifanna gæti ekki að ráði nema á fatnaði, að þessu sinni. Í ljós kemur að þetta er ekki í fyrsta sinn sem yfirnáttúrulegir hlutir eiga sér stað í ferðum FERLIR-hópsins.

Selatangar

ÁSelatöngum.

„Já, já, draugurinn Tanga-Tómas hefur birst mönnum fyrirvaralaust, gull hefur fundist í hrauni og litríkir sleikibrjóstsykrar hafa jafnvel sprottið á mosaskika. Í síðastnefnda skiptið var lítil stúlka með í göngunni og varð að vonum himinlifandi yfir fundinum – jafnvel þótt henni hafi fundist undarlegt að nýsprottnir pinnar væru allir í bréfinu,“ segja félagarnir kankvíslega.
Þannig verður ýmislegt skrýtið að veruleika í ferðunum og aldrei að vita hvað bíður á næsta holti eða leiti. Og ekki þarf að hinkra lengi eftir annarri óvæntri uppákomu í þessari ferð. Í Selvogsréttinni koma öftustu göngumenn að hinum við neyslu þjóðlegra rétta af hlaðborði á réttarvegg. Hákarli, reyktum rauðmaga, harðfisk og brennivíni hefur verið stillt upp í tilefni 100. göngu FERLIR, en sumir halda því reyndar fram að Selvogsbændur sem síðast réttuðu hafi skilið góssið eftir. „Já, þeir eru hugsunarsamir, bændur hér í sveitinni,“ verður einhverjum að orði.
Orkan úr kræsingunum dugar vel í næsta áfanga göngunnar og göngumenn valhoppa lipurlega milli þúfna, eins og þeir hafi aldrei þekkt sléttar gangstéttir.
Komið er talsvert fram yfir miðnætti og einhver nýliðinn spyr óvarlega hversu langt sé eftir enn. Loðin svör berast frá forsprökkum og talið berst fljótlega aftur að tröllum og útilegumönnum. Spurningin gleymist og enginn saknar svarsins.
Á ferðum FERLIR falla venjulegar klukkur nefnilega úr gildi, við tekur svokallaður FERLIR-tími sem lýtur allt öðrum lögmálum. Þá skipta mínútur og kílómetrar engu máli, það er náttúruupplifunin í hverju skrefi sem gildir.”

Heimild:
-Morgunblaðið 20.07.2001, Að lesa landið, bls. 4B-5B.

Sólsetur

Sólsetur í FERLIRsferð við Tvíbolla.