Færslur

Ferlir

Í Morgunblaðið árið 2008 er fróðleg grein undir fyrirsögninni “Í fótspor fjár og feðra“.

Lögreglumennirnir og -konurnar eru ekki á slóðum afbrotamanna, heldur forfeðranna þegar þau ganga á Reykjanesinu. Þar njóta þau líka útiverunnar, lesa í minjar lífs- og atvinnuhátta og kynnast kostum landsins frá nýju sjónarhorni.
Hallgrímur Helgi Helgason fór um Reykjanesskagann með göngugarpnum Ómari Smára Ármannssyni og Gönguhópnum Ferli.

Ferlir

Hraun, mosi og kargaþýfi Þegar gengið er utan troðninga liggur leiðin yfir hraun, mosa og kargaþýfi. Í hópnum voru að þessu sinni Ómar Smári Ármannsson, Jóhann Davíðsson, Jón Svanþórsson, Jóhanna Sveinsdóttir, Birgir Bjarnason og Eyþór Borgþórsson, auk blaðamanns. (Ljósm. Júlíus)

Gönguhópurinn Ferlir var stofnaður 1999 fyrir ferðahóp rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík, en síðan hafa margir slegist í hópinn. Reykjanesskaginn varð snemma fyrir valinu, bæði vegna nálægðar og þess að þorri fólks er þar ókunnugur. Þótt mörgum finnist svæðið bert og ófýsilegt, er reynsla hópsins sú að Reykjanesið sé einkar gjöfult og fjölbreytilegt til útivistar. Hópurinn hefur farið rúmlega 1.200 gönguferðir um skagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Selvogsgata

Selvogsgatan á Hellunum. Helgafell fjær.

Göngufólk hefur safnað þar kynstrum af efni, ekki síst um fornar götur sem liggja þar þvers og kruss og vitna um lífshætti og kjör fyrr á öldum, fornar byggðir og umferð sem þeim fylgdi. Slóðirnar sjást þó misvel í úfnu landslaginu; sumar eru löngu grónar en aðrar hafa lent undir hrauni eða síðari tíma framkvæmdum og raski.
Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, hefur verið í gönguhópnum Ferli frá upphafi. Hann segir að þeim sem gangi um fornar götur Reykjaness opnist einkar rík saga allt aftur til landnáms – og jafnvel lengur.

Listin að lesa veg

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

„Götur hafa myndast hér frá fyrstu tíð manna og búfénaðar og er oft erfitt að greina á milli, hvaða götur voru notaðar af hverjum, hvenær og í hvaða tilgangi. Sumar göturnar eru nú horfnar, en aðrar hafa verið endurheimtar. Á seinni tímum hefur gróður náð að hylja slóðirnar eða gróðureyðing hefur afmáð þær, jarðvegur hefur færst til, skriður og snjóflóð hlaupið, ár og lækir breytt farvegi sínum, vatn runnið í þeim og breytt, eldgosaaska hulið þær og hraun runnið yfir þær. Dæmi eru líka um að gamlar leiðir hafi færst til.“

Sandakravegur

Sandakravegur.

Allur gangur er á því hver lagði göturnar í upphafi: „Þegar við endurrekjum gamla leið setjum við okkur iðulega í spor þeirra sem fóru hana áður,“ segir Ómar Smári. „Það má greina götur eftir fólk frá götum eftir búfénað þótt stundum hafi leiðirnar legið saman. Kindurnar leita bithaga og skjóls og því liggja kindagötur eða fjárgötur oft utan í hlíðum, hæðum og hólum eða í lægðum. Þar sem féð hefur unað hag sínum vel er jafnan vel gróið. Fólk fór hins vegar greiðfærustu leiðina og hugsaði um að „halda hæð“. Þá var ekki farið upp og niður hæðir og dali að óþörfu. Þótt fólk þyrfti að taka á sig krók var það gert, því „betri var krókur en kelda“.
Um allt land má finna mikilvægar þjóðleiðir frá liðnum öldum, sem sumum hefur verið haldið við. Þá hafa verið búnar til nýjar gönguleiðir um fallega náttúrustaði. Nokkrar slíkar má finna á Reykjanesskaganum. Mikilvægustu leiðirnar áður fyrr eru ekki endilega vinsælustu gönguleiðirnar í dag. Sumar eru nýlegar, eins og Reykjavegurinn svonefndi milli Reykjaness og Nesjavalla.“

Til ýmiss brúks

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Ómar Smári segir að reyna megi að flokka leiðirnar eftir sennilegu notagildi þeirra áður fyrr. „Þjóðleiðir lágu milli byggðalaga, eins og Alfaraleiðin eða Almenningsleiðin milli Innnesja, nú Hafnarfjarðar, og Útnesja, þar sem nú er Reykjanesbær. Hún sést að mestu ennþá frá jaðri Brunans (Kapelluhrauns) til Innri-Njarðvíkur. Selvogsvegur eða Suðurfararvegur lá milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Hann sést vel frá Lækjarbotnum í Hafnarfirði að Strönd í Selvogi.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Þessar leiðir voru fjölfarnar allt til þess að vegagerðin fór að miðast við bifreiðar. Verleiðir má sjá við verin á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Leiðirnar ofan við Selatanga, verstöð, sem notuð var allt til byrjunar 20. aldar eru þrjár, hvort sem var heim til bæja, Skála og Krýsuvíkur, eða inn á þjóðleiðirnar. Byggðakjarnar á landsvæðinu, svo sem Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströndin, voru mikilvægar verstöðvar.
Lengri aðalleiðirnar lágu milli stjórnsýslustofnana, höfuðbóla og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, náttúrustaða, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása eða úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mjög mislangar. Segja má að fyrrum hafi allar leiðir um tíma legið til og frá Þingvöllum. Við þessar leiðir finnast víða misgamlar minjar, svo sem hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum og skútum eftir menn og hreindýr, og vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti, eða sögulega atburði. Dauðsmannsvörðurnar og dánarstaðir eru ófáir við og hjá götunum, en sem betur fer sluppu margir lifandi þrátt fyrir miklar raunir, eins og Prestsvarðan ofan við Leiru er til vitnis um.

Árnastígur

Árnastígur.

Leiðir á milli bæja eru jafnmargar og bæirnir voru margir – og þeir voru miklu fleiri en fólk gerir sér í hugarlund, t.d. voru 28 bæir í Staðarhverfi, sem er vestast Grindarvíkurhverfanna, en nú standa þar tóftir einar. Í Staðarhverfi var millilandaverslun um tíma, kirkjustaður og hreppstjórasetur. Frá hverfinu lágu samskiptagötur til Hafna, Njarðvíka og hinna byggðarkjarnanna í Grindavík. Þær sjást enn vel.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Selstígar lágu upp í selstöðurnar, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. T.a.m. má sjá leifar af um 250 slíkum á svæðinu.
Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og er Hvalsnesleiðin milli Ytri-Njarðvíkur og Hvalsness ágætt dæmi, en gatan var jafnframt notuð sem þjóðleið milli byggðakjarna og sem verslunarleið. Líklega er hluti leiðarinnar sá best varðveitti hér á landi því varnargirðing Varnarliðsins umlukti hana.“
Sumar slóðir frá því fyrir landnám Ómar Smári segir að sumar leiðirnar séu áfangaleiðir og tengist öðrum eða greinist út frá þeim. Dæmi um vinsæla gönguleið hópsins er leið í Ögmundarhrauni á suðurströnd nessins austur af Grindavík, en hraunið hefur runnið yfir bæ, garða og umlukið önnur mannvirki, s.s. fjárborg og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
„Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í harða hraunhelluna, svo sem sjá má á Sandakra- og Skógfellaveginum eða á Hellunum vestan Hlíðarvatns. Þar hefur yngra hraun runnið yfir eldra hraun, sem gatan er í. Gatan er ágætt dæmi um hversu mikil umferð hefur verið hér allt frá fyrstu tíð, sem reyndar gæti þess vegna hafa verið eldri en norrænt landnám segir til um.“
Hefurðu sjálfur mótað þér skoðanir á lífi í landinu fyrir landnám?

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

„Vísbendingar gefa til kynna að hér kunni að hafa verið önnur byggð en rannsóknir hafa enn ekki staðfest það með óyggjandi hætti. T.d. á eftir að rannsaka mannvistarleifar í og við Húshólma og Óbrennishólma í Ögmundarhrauni.“
En auðvitað hefur þróun byggðar og lífshátta í landinu leikið hina fornu vegi með ýmsum hætti. „Leiðakerfið hefur þróast og götur hafa verið lagfærðar eða færst til,“ segir Ómar Smári. „Þegar ferðast var á fótum, eigin eða hestsins, mótuðust göturnar af sjálfu sér. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Um tíma varð það hluti af þegnskylduvinnu eða atvinnubótavinnu.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur – vagnvegurinn.

Með tilkomu vagnsins voru gerðar vegabætur á mikilvægustu leiðunum og með bílnum mótuðust nýjar leiðir yfir holt og mela, og eldri leiðirnar voru lagfærðar. Þegar leiðin milli Grindavíkur og Krýsuvíkur var gerð ökufær 1932 var hin forna þjóðleið yfir Ögmundar-hraun, þar með talinn Ögmundarstígur, bæði breikkuð og lögð ofaníburði. Í dag er gjarnan farið beint af augum, ekki bara yfir fjöll og hálsa, heldur í gegnum hvort tveggja. “

Varðveisla mikilvæg
fótsporÓmar Smári segir mikilvægt að varðveita gömlu leiðirnar, en með því að ganga þær eru minni líkur á að þær falli í gleymsku. En hvaða hætta steðjar þá einkum að þeim?
„Það er áhugaleysi sveitarstjórnarfólks, skipulagsaðila og verktaka. Við nýtt hverfi í Sandgerði var ekkert tillit tekið til þess að Sandgerðisvegurinn gamli liggur um svæðið og er enn mjög greinilegur. Grindvíkingar ákváðu hins vegar að hafa göngustíg í gegnum Hópshverfið nýja og leyfðu Skógfellaleiðinni þannig að halda sér um bæjarhlutann. Í Reykjavík og víða eru dæmi um að hús hafi verið byggð á gömlum þjóðleiðum, en fólki ekki orðið svefnsamt í þeim vegna mikillar umferðar fólks að næturlagi.“
Í ljósi þess að saga Reykjanessins er átakamikil, fá frásagnir af slysum, mannsköðum og afturgöngum nýtt líf í ferðum ykkar?
„Sérhver saga og sérhvert atvik tengist óhjákvæmilega ákveðnum leiðum og stöðum. Merking þeirra verður önnur fyrir vikið líkt og leiðin og/eða staðurinn. Helsti skaðvaldur þessara gömlu leiða er virðingarleysið sem birtist m.a. í vegagerð og utanvegaakstri. Nýrri vegir hafa af misgáningi verið lagðir yfir þær og stórvirkum vinnutækjum ekið eftir og yfir leiðirnar, rusli hent á þær, námur settar þvert á leiðirnar og trjám plantað í þær. Með svolítilli hugsun mætti koma í veg fyrir þessa eyðileggingu.“

Að aka minna en ganga meira

Ferlir

FERLIRsganga að vetrarlagi.

Farið þið annars á Reykjanesið á öllum árstímum og í öllum veðrum?
„Veðrið hefur aldrei stöðvað för. Hægt er að undirbúa og velja göngustað á Reykjanesskaganum eftir áttum og veðri. Hálsarnir skipta oft veðrum. Þótt það sé rigning og rok hér þá getur verið sól og jafnvel logn handan við hæðina.“
Eru hraunsprungurnar ekki varasamar ef snjór er yfir jörðu?
„Við förum ekki um sprungusvæði þar sem snjór þekur jörð og ekki er augljóst hvernig landið liggur. Enda óþarfi þar sem nægir aðrir kostir eru í boði. Svæðið býður upp á ótrúlega útivistarmöguleika. Fólk getur gengið hinar gömlu leiðir, skoðað landmótun á flekaskilunum og jarðmótunina frá upphafi með a.m.k. 15 hraun frá sögulegum tíma, gengið um hraunhellana, virt fyrir sér litaskrúð hverasvæðanna og notið ómótstæðilegrar náttúrufegurðar. Fótspor
Fána og flóra eru fjölbreyttari en ætla mætti.
Það er mjög gott fyrir byrjendur að ganga með öðrum sem geta leiðbeint þeim til að glöggva sig á umhverfinu og lesa það. Síðan fer fólk að rekast á minjar við hvert fótmál.
Á þessum síðustu tímum aðhalds og ráðdeildar ættu áhugasamir borgarbúar að spyrja sig: Hvers vegna ekki að aka í 15 mínútur og nýta svo 1-5 tíma til göngu í þessu margbreytilega og stórkostlega umhverfi í stað þess að aka í 1-5 klukkustundir og hafa síðan einungis tíma til að ganga í 15 mínútur?“
Gönguhópurinn heldur úti vefsíðunni ferlir.is.

Heimild:
-Morgunblaðið, 162. árg. 15.06.2008, Í fótspor fjár og feðra, bls. 24-25.

FERLIR

FERLIRsfélagar í Bálkahelli. (Ljósm. Júlíus)

FERLIR

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og jafnvel kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta svolítið í kringum sig – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta náttúrulega umhverfi.

FERLIR

FERLIR – elsta vefsíðan.

Árni Torfason setti upp fyrstu, einfalda, vefsíðu FERLIRs árið 2000, með styrk frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans. Í styrknum fólst kaup á fartölvu. Vefsíðan var endurnýjuð árið 2007 í Webman hjá Nethönnun og síðan uppfærð í núverandi Word Pressútgáfu hjá Premis árið 2019 með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.
Fyrir þá, sem vilja hafa samband, er eftir sem áður bent á netfangið ferlir@ferlir.is.

Nálgast má elstu vefsíðu FERLIRs (dags. 15. nóv. 2006)  HÉR.

FERLIR

FERLIR – vefsíðan fyrir uppfærsluna 2019.

 

FERLIR

Í Morgunblaðinu árið 2001 er skemmtileg umfjöllun; “Að lesa landið – Ferðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík í 100. ferð sinni um Reykjanes“;

“Rannsóknarlögreglumenn sem beygja út af Reykjanesbraut og þramma skimandi um hraun og hlíðar, eru án efa að leita verksummerkja um glæpsamlegt athæfi. Eða hvað? Sigurbjörg Þrastardóttir og Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari, slógust í för með löggum sem leita fremur að félagsskap, náttúrufegurð og anda liðinna alda.

Selvogsheiði
Lögreglumennirnir snarast út úr bifreiðum sínum við kirkjugarðinn í Hafnarfirði, vasklegir í fasi og vel skóaðir. Við garðinn er upphafspunktur 100. Reykjanesgöngunnar í röðinni síðan Ferðahópur rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík (FERLIR) tók til starfa í fyrrasumar. Á bílastæðinu standa tveir af helstu göngugörpunum, Ómar Smári Ármannsson og Jóhann Davíðsson, en sá fyrrnefndi er ókrýndur forsprakki framtaksins.
Selvogsheiði„Þar sem fyrir höndum er lengsta gangan hingað til, voru menn skyndilega mjög uppteknir í kvöld,“ segja þeir félagar sposkir og vísa til þess að tiltölulega fáir eru mættir. Að meðaltali taka 5–15 manns í göngunni – rannsóknarlögreglumenn og gestir þeirra; börn, makar, vinir eða vinnufélagar af öðrum deildum. Nú standa átta manns ferðbúnir, sumir vanari en aðrir.
„Nýliðar fá oftast svona nýliðaprik til að styðja sig við,“ segja forsprakkarnir og lyfta gömlum kústsköftum. Sjálfir eru þeir með fallega útskorna stafi um hönd. „Ef einhver dregst aftur úr eða týnist, snúum við aldrei við til að leita þeirra. En ef nýliði týnist, verðum við að snúa við til að finna prikið. Þetta eru ómetanleg prik.“
Með þessum orðum er tónninn sleginn fyrir taktinn í ferðinni – allt er fyndið eða hóflega nákvæmt og ekki að ástæðulausu. „Þessar ferðir eru ekki síst ætlaðar til þess að dreifa huga manna frá vinnunni, sem oft er íþyngjandi. Hér reynum við að gleyma áhyggjum hversdagsins og því er eiginlega bannað að segja nokkuð af viti – það er nánast glæpur,“ segir Ómar Smári og glottir.

Landið fær nýja merkingu

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

Ekið er af stað á nokkrum bílum og á leiðinni segir Ómar Smári frá hugsjóninni að baki ferðahópnum, þar sem mæting er algjörlega frjáls og engar afsakanir nauðsynlegar. „Ef einhver hefur önnur plön, þá hefur hann önnur plön. Þetta er fyrir þá sem eru upplagðir, þá sem vilja, þá sem hafa tíma og þá sem nenna. Og það þarf ekki alltaf að vera sama fólkið. Fyrst og fremst eru þessar gönguferðir hugsaðar til skemmtunar og sem hreyfing. En um leið hjálpa þær okkur að kynnast landinu betur og gera okkur grein fyrir því hvernig kynslóðirnar á undan okkur lifðu af landsins gæðum.“
Leitin að minjum um búskap og mannvistir er einmitt það sem setur svip á ferðir FERLIR, og sker þær frá hefðbundnum gönguferðum um hóla og holt.

FEELIR

Jóhann Davíðsson – við öllu búinn í fyrstu FERLIRsferðinni.

Fyrir hverja ferð er sett upp áætlun, rissað er upp kort af fyrirhugaðri leið og merktar inn minjar sem sögur herma að séu á svæðinu. „Það geta verið hleðslur, réttir, fjárhellar, stekkir eða dysjar. Að ógleymdum þjóðleiðum sem sýna glöggt hvernig skór, hófar og klaufar hafa meitlað í berg eða troðið mýrar í gegnum aldirnar.

Við leitum gamalla heimilda, skoðum landabréf og bækur og höfum einnig talsvert rætt við gamalt fólk sem er alið upp á svæðinu. Í gönguferðunum svipumst við svo um eftir þessum minjum,“ segir Ómar og tekur fram að FERLIR kunni Reyni Sveinssyni, Helga Gamalíelssyni frá Stað við Grindavík, Fræðasetrinu í Sandgerði, Sigurði á Hrauni, Þórarni Snorrasyni í Vogsósum og Kristófer, kirkjuverði í Strandarkirkju, sem og ótal öðrum þakkir fyrir ómetanlega leiðsögn. Bætir svo við að á svæðinu milli Hafnarfjarðar og Voga séu um 40 sel með öllu sem þeim fylgir – brunnum, kvíum, fjárskjólum, hellum, nátthögum og smalabyrgjum – og að minnsta kosti 20 fjárborgir, en aðeins tvær þeirra séu almenningi vel kunnar. Það sé því miklu meira um áhugaverða staði á svæðinu en margan grunar.
Hellholt„Þegar ekið er út á Keflavíkurflugvöll, eins og flestir hafa gert, er óneitanlega skemmtilegra að hafa gengið um svæðin í kringum Reykjanesbrautina – landið fær allt aðra merkingu. Sjálf höfum við mjög gaman að því að svipast um eftir minjum og kennileitum, og punktum hjá okkur hvað finnst. Hins vegar finnst lítið með því einu að skima úr bílnum. Fólk verður að hreyfa sig til þess að finna eitthvað af viti.“ Hann bendir á að minjaleitin sé einmitt kjörið tilefni fyrir fólk að drífa sig í heilbrigða útivist. „Margir segjast vilja hreyfa sig en vantar til þess ástæðu. Hér er hún komin, minjaleitin getur verið slíkt markmið.“

Sérstaklega samið um gott gönguveður
Á ferðum sínum hafa félagarnir í FERLIR orðis ýmiss vísari og sumar uppgötvanir verið næsta sögulegar. Þeir hafa fundið hella sem jafnvel Hellarannsóknafélagið hafði ekki hugmynd um að væru til, og þeir hafa komist að því að örnefni á gömlum landabréfum eru ekki öll nákvæmlega staðsett. „Þarna eru til dæmis Hnúkar,“ segir Ómar og bendir í austurátt, „en þeir eru á kortum ranglega nefndir Kvennagönguhólar. Kvennagönguhólar eru að vísu til, en eru neðar.“ Hann bendir í gegnum framrúðuna þar sem rúðuþurrkurnar tifa. Veðrið lítur ekki vel út, en Ómar er pollrólegur. „Við semjum með fyrirvara um gott veður og það stenst undantekningarlaust. Höfum aldrei þurft að hætta við ferð vegna veðurs.
Gönguferðirnar áttu í fyrra til dæmis aðeins að vera til hausts, en sökum þess hve veturinn reyndist mildur hefur göngum verið haldið áfram óslitið þar til nú.“ Hann bendir líka á að sjaldnast sé að marka veðurútlitið úr glugga í heimahúsi. Það sem gildi sé veðrið á því svæði sem förinni er heitið um, og það geti verið alls óskylt borgarveðrinu. „Sjáðu til dæmis rofið í skýjabakkanum þarna niðurfrá. Þangað erum við einmitt að fara.“ Ekki þarf að orðlengja um að veður lék við göngumenn alla sex tímana sem gengið var. Samningurinn við veðurguðina hélt, sem fyrr.

Skyggnishúfur með jarðskjálftavörn

FERLIR

FERLIR – einkennismynd.

Við dysjar tröllskessanna Herdísar og Krýsu við Herdísarvíkurveg, er bílalestin stöðvuð og Ómar Smári rekur þjóðsöguna af þeim stallsystrum, sem deildu um landamerki og enduðu með því að berast á banaspjót. „Það er eitt að heyra þessa sögu, en annað að hlýða á hana við dysjarnar sjálfar. Þá sér maður að þetta er að sjálfsögðu allt satt,“ segir Ómar og hinir kinka kolli til samþykkis. Þeir benda á að með FERLIR-húfurnar á höfði öðlist þeir nefnilega einstakan hæfileika til skilnings og samþykkis á þjóðsögum og öðru slíku – þetta séu engar venjulegar húfur. „Eftir fimm ferðir fær fólk FERLIR-húfu að launum fyrir afrekið. Þessar húfur eru framleiddar í austurvegi og búa ekki bara yfir eldfjalla- og jarðskjálftavörn, heldur áhættuvörn líka. Einu sinni misstum við mann ofan í gjá og það varð honum til happs að vera með húfuna. Hann hékk á derinu.“ Ýmsum fleiri tröllasögum um húfurnar er kastað á milli og menn greinilega vanir að gera að gamni sínu í góðum hópi. Jóhann bætir við nokkrum sögum af sprungum og gjám af svæðinu og klykkir út: „Strandagjá er sú dýpsta af þeim ölllum. Einu sinni var ég staddur á brúninni, henti niður steini og hlustaði. Tveim dögum síðar heyrði ég skvampið. Þetta er alveg rosalega djúp gjá.“

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

Þegar gangan loks hefst er fimmtíu kílómetra akstur að baki og búið að koma tveimur bílum fyrir við áætlaðan lokapunkt ferðarinnar. Þangað eru 19 kílómetrar frá upphafspunkti við Geitafell og því ekki seinna vænna en haska sér af stað. „Við munum skoða nokkra fjárhella, líta eftir gömlum réttum og skoða gamlan stein með krossmarki sem sögur herma að liggi á litlu holti.
Svo leitum við að Ólafarseli, Þorkelsgerðisseli, Eimubóli og skoðum Strandarhelli…“ byrjar Ómar Smári en orð hans hætta smám saman að berast til öftustu manna. Hann er nefnilega rokinn af stað á talsverðu blússi, eins og áköfum göngustjóra sæmir.

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

Krækt er fyrir Geitafellið og innan skamms er fyrsti stekkur fundinn. Göngumenn þefa hann uppi, en eru raunar í fyrstu ekki vissir hvort hann muni liggja í hlíð upp af Seljavöllum eða við holt að neðanverðu. Þeir stansa og litast um. Beita svo lögregluþjálfuninni með því að setja sig í spor „glæpamannsins“ – hugsa eins og sá sem kom stekknum fyrir. „Já, reynsla úr starfinu getur gagnast, nema hvað að hér erum við ekki að fást við glæpamenn. Bændurnir hér voru heiðursmenn og því er ekki síður auðvelt að setja sig í þeirra spor.“

Lækjarbotnar

Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.

Spurt er hvort þeir hafi aldrei á ferðum sínum rekist á sönnunargögn um alvöru sakamál, en þeir segja svo ekki vera. „Það er helst að við höfum rannsakað aðsetur útilegumanna, sem voru jú sakamenn. En það eru ekki margir óupplýstir, nýlegir glæpir sem hér liggja í loftinu. Það eru þá frekar fyrnd mál eða þjóðsagnakenndir atburðir,“ svara þeir. Segjast hins vegar hafa komist að ýmsu misjöfnu um búskaparhætti, sönnu en varla sakhæfu. Til að mynda hafi eldhús í seljum verið afspyrnu lítil sem bendir til lítils skilnings á starfi kvenna. „Kannski er það satt sem einn kunningi okkar segir, að konan hafi hér á öldum fyrrum verið meðhöndluð sem eitt af húsdýrunum. En það hefur nú sem betur fer mikið lagast,“ segir einn kæruleysislega og gjóir augum stríðnislega til kvenna í hópnum. Þær láta sem vind um eyru þjóta og hugsa upp skeyti á móti.

Fagridalur

Í Fagradal.

Svo færist alvara í talið og rifjaðar eru upp aðstæður barna sem látin voru vaka yfir ánum um nætur, oft í kulda, vætu og einsemd. Hræðsla og vinnuálag hljóti að hafa hindrað leikgleði og áhyggjuleysi ungviðisins; sálarástandið sé án efa fegrað mjög í hinum glaðlega söng um Tuma sem fór á fætur við fyrsta hanagal – til þess að „sitja yfir ánum lengst inni í Fagradal“.
Minna rannsakað en frumskógar Afríku Áfram er haldið og gengið fram á einar þrjár réttir, auk stekkja og fjárhella sem finnast.
Göngumenn benda líka á andlit og aðrar kynjamyndir í hömrunum í kring og eftir ýmsu öðru er tekið á himni og jörðu, skýjabökkum, fjöllum, vörðum og jafnvel sniglum. „Þessi lagði af stað frá Strandarkirkju árið 1967 og er ekki kominn lengra,“ kallar Birgir Bjarnason eftir að hafa þóst eiga orð við sveran, svartan snigil á þúfu.
„Það væri ljótt ef við snerum honum við og hann endaði aftur á upphafspunkti. Sá yrði fúll.“

Svörtubjörg

Við Stígshella í Svörtubjörgum.

Þegar komið er framhjá Svörtubjörgum opnast útsýni til hafs og enn er bjart sem á degi. Ómar Smári heldur áfram að romsa úr sér örnefnum og sögum sem tengjast stöðum í kring, Jón Svanþórsson kann líka ýmsar sagnir og Jóhann, sem er úr Þorlákshöfn, rifjar upp kynni sín af körlum úr sveitinni.
Og rannsóknarlögreglumennirnir virðast síður en svo þreyttir á Reykjanesinu, þótt hundrað ferðir séu að baki.
„Staðreyndin er sú að þetta land hér er minna rannsakað en frumskógar Afríku, eins og við segjum stundum. Fólk hefur á síðari tímum ekki átt hingað mörg erindi, og á fyrri tíð var skóbúnaður fólks þannig að það gat bókstaflega ekki gengið alls staðar um úfið hraunið. Gamlar þjóðleiðir liggja yfirleitt með hraunköntum en á milli eru ókönnuð svæði.
En fyrir utan að vera áhugavert svæði, er Reykjanesið líka svo þægilega innan seilingar, höfuðborgarbúar gætu gert mikið meira af því að koma hingað. Ef veður bregst er stutt að snara sér heim aftur, en annars er lítið mál að sjá veðrið fyrir með jafnvel tveggja daga fyrirvara – ef menn leggja sig eftir því að læra að lesa í veður. Fólk leitar oft langt yfir skammt. Ef maður spyrst fyrir á vinnustað, kemur kannski í ljós að allir hafa komið til Krítar en enginn hefur gengið á Kálffell, þótt þar séu líka bæði gjár og hellar.“

Sleikibrjóstsykur sem vex villtur

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Meðal þjóðsagnanna sem raktar eru, snýst ein um svonefndan Yngingarhelli, sem fullyrt er innan hópsins að svínvirki. „En það þarf að passa sig. Kannski kemur maður út úr honum og hefur þá skyndilega ekki aldur til þess að keyra bíl,“ bendir einhver á og allir skella upp úr. Ekki líður á löngu þar til fjárhellir verður á vegi hópsins og farið er inn með vasaljós. Út koma svo Ómar Smári og Jóhann með glænýjar húfur, en þeir höfðu lagt upp í ferðina með velktar húfur og upplitaðar. Það er ekki um að villast að þarna er Yngingarhellir kominn, þótt áhrifanna gæti ekki að ráði nema á fatnaði, að þessu sinni. Í ljós kemur að þetta er ekki í fyrsta sinn sem yfirnáttúrulegir hlutir eiga sér stað í ferðum FERLIR-hópsins.

Selatangar

ÁSelatöngum.

„Já, já, draugurinn Tanga-Tómas hefur birst mönnum fyrirvaralaust, gull hefur fundist í hrauni og litríkir sleikibrjóstsykrar hafa jafnvel sprottið á mosaskika. Í síðastnefnda skiptið var lítil stúlka með í göngunni og varð að vonum himinlifandi yfir fundinum – jafnvel þótt henni hafi fundist undarlegt að nýsprottnir pinnar væru allir í bréfinu,“ segja félagarnir kankvíslega.
Þannig verður ýmislegt skrýtið að veruleika í ferðunum og aldrei að vita hvað bíður á næsta holti eða leiti. Og ekki þarf að hinkra lengi eftir annarri óvæntri uppákomu í þessari ferð. Í Selvogsréttinni koma öftustu göngumenn að hinum við neyslu þjóðlegra rétta af hlaðborði á réttarvegg. Hákarli, reyktum rauðmaga, harðfisk og brennivíni hefur verið stillt upp í tilefni 100. göngu FERLIR, en sumir halda því reyndar fram að Selvogsbændur sem síðast réttuðu hafi skilið góssið eftir. „Já, þeir eru hugsunarsamir, bændur hér í sveitinni,“ verður einhverjum að orði.
Orkan úr kræsingunum dugar vel í næsta áfanga göngunnar og göngumenn valhoppa lipurlega milli þúfna, eins og þeir hafi aldrei þekkt sléttar gangstéttir.
Komið er talsvert fram yfir miðnætti og einhver nýliðinn spyr óvarlega hversu langt sé eftir enn. Loðin svör berast frá forsprökkum og talið berst fljótlega aftur að tröllum og útilegumönnum. Spurningin gleymist og enginn saknar svarsins.
Á ferðum FERLIR falla venjulegar klukkur nefnilega úr gildi, við tekur svokallaður FERLIR-tími sem lýtur allt öðrum lögmálum. Þá skipta mínútur og kílómetrar engu máli, það er náttúruupplifunin í hverju skrefi sem gildir.”

Heimild:
-Morgunblaðið 20.07.2001, Að lesa landið, bls. 4B-5B.

Sólsetur

Sólsetur í FERLIRsferð við Tvíbolla.

FERLIR
Ferlir

Í Morgunblaðinu 2006 fjallar Örlygur Steinn Sigurjónsson um “Hellana í Brennisteinsfjöllum“:

“Í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi er áhugavert útivistarsvæði sem státar af fjölmörgum hraunhellum, skrifar Örlygur Steinn Sigurjónsson að lokinni gönguferð um svæðið í fylgd kunnugra.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Það er alltaf sérstök og dulúðug stemmning að fara í hellaferð og hvernig gat mann grunað að hin margumræddu Brennisteinsfjöll lumuðu á talsverðum fjölda hella sem vert er að skoða? Fróðir ferðafélagar á borð við Ómar Smára Ármannsson frá gönguhópnum FERLIR og Einar Júlíusson frá Hellarannsóknafélagi Íslands eru nauðsynlegir á ferðum sem þessum en einnig má þess geta að bæði umrædd félög halda úti heimasíðu, www.ferlir.is og www.speleo.is. Ekki er úr vegi að geta þess einnig að Hellarannsóknafélagið hefur á heimasíðu sinni lýst yfir stuðningi við framtíðarsýn Landverndar undir yfirskriftinni „Reykjanesskagi – eldfjallagarður og fólkvangur“. Segir ennfremur að
framtíðarsýnin grundvallist á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri nýtingu á auðlindum Rekjanesskagans.
Hellarannsóknafélag Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við þetta verkefni og telur það sérstaklega ánægjulegt að vernda eigi stór hraun, hraunmyndanir og gíga sem eru einstakir á heimsvísu. Segir Hellarannsóknafélagið að Brennsteinsfjöllin og næsta nágrenni við þau sé stærsta ósnortna landsvæðið á Reykjanesskaganum og hafi að geyma ótal marga hella sem hafa verið lítt rannsakaðir. Gígarnir og hraunin séu ótalmörg og hvert og eitt einstakt út af fyrir sig og mikil þörf á að vernda þetta svæði í heild sinni.
Undir þetta getur hver sá sem skoðar sig um á svæðinu tekið heilshugar og víst er að af nógu er að taka. Bara í þeirri ferð sem farin var að þessu sinni var í senn farið í þekkta hella og leitað nýrra.

Rannsóknarlögreglan neðanjarðar

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

Um gönguhópinn FERLIR er það að segja að hann stóð upphaflega fyrir Ferðahóp rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík og hefur vaxið fiskur um hrygg frá stofnun árið 1999. Segja má að félagsskapurinn sé nú orðinn ein helsta uppspretta þekkingar á hellum, seljum, letursteinum, skútum, fjárborgum og fleiru á Reykjanesskaganum. Lögð er nokkur áhersla á að fá staðkunnuga á hverjum stað til að fræða þátttakendur í hverri ferð og eru

Lýðveldishellir

Við op Lýðveldishellis.

Ferlisferðirnar nú orðnar vel yfir eitt þúsund talsins. Því fylgir nokkuð sérstök tilfinning að ferðast með rannsóknarlögreglumönnum í leit að hellum og guð hjálpi þeim heimska bófa sem dytti í hug að ramba inn á Reykjanesið með ránsfeng eða fíkniefni og telja góssið öruggt í fyrsta hellisskúta sem hann fyndi. Með þeirri aðferðafræði myndi skrattinn aldeilis hitta ömmu sína en það er önnur saga. Ferlisfélagar eru heldur ekki eingöngu rannsóknarlögreglumenn heldur fólk úr lögreglunni almennt og allir þeirra vinir eða vandamenn. Sérstök derhúfa er veitt sem viðurkenning fyrir fimm Ferlisferðir. En gönguhópurinn hefur nú nýtt undanfarin misseri til að ganga um hin einstöku svæði á Reykjanesi og var upphaflegt markmið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta. En þrátt fyrir ferðirnar þúsund eru enn stór svæði ókönnuð. Hafa Ferlismenn nú skoðað á fjórða hundrað hella og nafngreinda skúta svo fátt sé talið.

Kistuhellar

Í Kistuhellum.

Finna má urmul leiðarlýsinga á heimasíðu Ferlis og má samsinna fullyrðingum um að svæðið á Brennisteinsfjöllum, þ.e. Kistufell, Kista og Eldborg, sé ótrúlegur undraheimur með ósnertum litskrúðugum hellum og einstökum náttúrufyrirbærum er nauðsynlegt er að standa vörð um þessa einstöku veröld, segir þar.
Á liðnum árum hafa uppgötvast þarna langir hellar og enn er svæðið langt í frá fullkannað. Gangan yfir að hellasvæðinu í Brennisteinsfjöllum tekur 2–3 klukkustundir og er haldið frá bílunum við Breiðdal við Kleifarvatn. Upp úr Hvammadal er fylgt gömlum stíg sem áður var genginn milli Kaldársels og Krýsuvíkur. Þegar upp á brúnina er komið er beygt til vinstri til að fylgja stíg austur með brúninni yfir á slétta hraunhellu Kistuhrauns, sem liggur þar milli Kistufellshraunsins í austri og Eldborgarhraunsins í vestri. Undir hinu síðarnefnda og vestar sjást fleiri Eldborgarhraun. Gangan getur talist löng og sjálfsagt er að reikna með heilum degi í hana fram og tilbaka að meðtöldum hellaferðunum.

Duttu niður í Lýðveldishellinn

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Í vesturhlíðum Kistu er svokallaður Lýðveldishellir sem dregur nafn sitt af því að þann 17. júní árið 1994 fundu Guðmundur Löve og Þröstur Jónsson hellinn. Samkvæmt frásögn Ferlis voru þeir þarna á ferð í mikilli þoku og rigningu þegar þeir svo til „duttu“ niður um opið á hellinum. Er hann um 200 metra langur. Ferlismenn leituðu þessa hellis á sínum tíma en við þá leit uppgötvaðist annar hellir, sem fékk heitið Þjóðhátíðarhellir Norðmanna því hellisfundinn bar einmitt upp á 17. maí. Hellisopin eru ekki langt hvort frá öðru, en reyndar sinn í hvoru hrauninu, segir á Ferlisvef.
FerlirAð þessu sinni var farið ofan í annan helli sem Ferlismenn fundu líka og heitir sá FERLIR og er þarna í nágrenninu. Er þetta með litskrúðugri hellum landsins og ógleymanlegur þeim sem niður í hann fara. Lítil hraunbreiða sem þar er að finna er svo óveðruð að halda mætti að hraunið væri nýrunnið og -storknað. Þótt aldur þess sé talin í mörgun öldum virðist það samt svo glænýtt og það er töfrum líkast og horfa á þetta fyrirbæri sem gæti jafnast á við að hitta fyrir ungbarn úr grárri forneskju.
Í raun jafnast fátt á við góða hellaferð. Ljóst er að margfalt fleiri hellar en eingöngu Raufarhólshellir standa fólki til boða. Sjálfsagt er að taka með góð ljós og hlýjan fatnað sem má skemmast við mögulegan núning í hellunum. Nesti og ferðatilhögun þarf að ganga frá og sýna góða umgengni hvar sem farið er.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 350 tbl. 24.12.2006. Hellarnir í Brennisteinsfjöllum, bls. 52.

Ferlir

Skrautlegar jarðmyndanir í hellinum FERLIR.

Ómar

Í Fjarðarfréttum í janúar 2020 segir ritstjórinn, Guðni Gíslason, frá endurnýjaðri vefsíðu FERLIRs (www.ferlir.is) undir fyrir sögninni; “Vefsíða sem getur verið uppspretta að ókeypis leið til að hreyfa sig”.  Þar segir m.a.:

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason.

Í upphafi árs horfir fólk gjarnan til lýðheilsu sinnar fyrir reglubundna áeggjan fjölmiðla.

„Svo virðist sem fréttaflutningurinn sé fyrst og fremst runninn undan rótum líkamsræktarstöðvanna, sem er jákvætt, en með tilheyrandi kostnaði,“ segir Ómar Smári Ármannsson sem heldur úti fróðleikssíðunni www.ferlir.is og segir hann að til séu miklu mun ódýrari leiðir að sama marki.

FERLIR stóð upphaflega fyrir Ferðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagslegum önnum, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfstöðvanna – víkka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta úthverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði, „þótt undarlega megi teljast, þrátt fyrir fjölbreytileikann“ segir Ómar Smári.

Ný endurbætt vefsíða með hafsjó af fróðleik

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan.

Ómar setti upp vefsíðuna ferlir.is þar sem hann skráði inn fróðleik og ferðalýsingar sem söfnuðust saman eftir því sem ferðirnar urðu fleiri. Nýlega var síðan uppfærð og er nú betur aðgengileg í símum og öðrum snjalltækjum. Síðan verður uppfærð og fleiri myndir gerðar aðgengilegar en öll vinna við skráningu og innsetningu efnis á síðuna hefur verið unnin í sjálfboðavinnu.

Kringlumýri

Kringlumýri – áður óþekktar minjar frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá því fyrir upphaf norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Yfir fjögur þúsund gönguferðir

Ferlir

FERLIR – síðasta gamla vefsíðan.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 4.000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks, því að kostnaðarlausu, á einstökum afmörkuðum svæðum og segir Ómar að því fólki verði seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni www.ferlir.is.

Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð merkilegar upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn og fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar.

Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið að sögn Ómars Smára. „Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágætan fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins, Björn Hróarsson, Ferðamálafélags Grindavíkur, Erling Einarsson, kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk frá elstu tíð, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum. Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið mjög áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert og gott fordæmi því talsverður tími hefur farið í ferðir um víðfeðmin umdæmin,“ segir Ómar Smári.

Minjar skráðar ásamt mikilvægum fróðleik

Ölfus

Selvogur – örnefna og minjakort (ÓSÁ).

Safnað hefur verið miklum fróðleik um Reykjanesskagann, skráðir GPS-punktar á minjar í sérstakar hnitaskrár, hellar, skútar, sel, sögulegir staðir, flugvélaflök frá stríðsárunum, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fróðleiksfólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað á hverjum tíma.

Sjá má því nánast óteljandi möguleika til ókeypis hreyfingar og heilsubótar á www.ferlir.is.

Ómar Smári Ármannsson er Hafnfirðingur, fæddur í Grindavík. Hann er fv. aðstoðaryfirlögregluþjónn og er lærður fornleifafræðingur og leiðsögumaður.

Fjarðarfréttir mun nánar segja frá fróðleik á www.ferlir.is.

Heimild:
-Fjarðarfréttir, Guðni Gíslason, 5. janúar 2020.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

FERLIR

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan.

Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi, þ.e. Reykjanesskagans (fyrrum landnáms Ingólfs). Úr varð gönguhópur er líklega, með fullri virðingu fyrir öllum öðrum slíkum er á eftir komu, hefur stuðlað að meiri upplýsingu um fyrrum vitneskju um svæðið en allir aðrir þeir til samans. Fleira áhugasamt fólk slóst í hópinn, sem um leið varð fyrirmynda annarra slíkra er hvöttu til hreyfingar og útivistar í margbreytilegu umhverfi.

Ferlir

FERLIR – síðasta gamla vefsíðan.

Árni Torfason, starfsmaður Morgunblaðsins, setti upp fyrstu vefsíðu FERLIRs árið 2000 að tilstuðlan Júlíusar Sigurjónssonar, hins ágæta ljósmyndara sama miðils. Með styrk frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans varð vefsíðan síðan að veruleika. Vefsíðan var endurnýjuð árið 2007, enda þá orðin tæknilega úrelt, og síðan uppfærð í núverandi útgáfu árið 2019 með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.
Fjölmargir hafa ljáð verkefninu stuðning. Má þar t.d. nefna sveitarfélögin á svæðinu. Þátttaka áhugasamra í FERLIRsferðunum, sem og miðlun efnis og nýting annarra á því, hefur jafnan verið öllum endurgjaldslaus.
Fyrir þá, sem vilja hafa samband og koma áhugaverðu áður óbirtu efni á framfæri, er þeim bent á netfangið ferlir@ferlir.is.

Hér má sjá gömlu vefsíðuna.

Stykkisvöllur

FERLIRsfélagar við Stykkisvöll.

Ferlir

2007 – 12. maí (fyrsta daginn eftir lokadag – upprifjun);

Strandarhæð

Gerði á Strandarhæð.

FERLIR-001: Helgafell. Fyrsta FERLIRsferðin. Þátttakendur mættu og voru við öllu búnir. Takmarkið var að komast fyrstu ferðina – allt til enda. Þegar öllum lúnum, og sumum mjög þreyttum, hafði tekist það, loksins, var markmiðið sett á a.m.k. eitt hundrað ferðir um Reykjanesskagann með það fyrir augum að skoða hann svo til allan – næstu mánuðina.

FERLIR-100 – ákveðið var að fara a.m.k. eitt hundrað FERLIRsferðir til viðbótar um Reykjanesskagann því ljóst var nú að mikið var enn óskoðað. Orðið þreyta var ekki lengur til í orðaforðanum. Öllum var nú meðvitað um að því meiri vitneskja sem fékkst því minna töldu þeir sig vita um svæðið.

Eldvörp

Mannvistarleifar í Eldvörpum.

FERLIR-200 – ákveðið að reyna að halda áfram og freysta þess að komast yfir sem flestar minjar og sögulega staði á Reykjanesi áður en skósólarnir væru allir. Svolítill styrkur fékkst frá Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar til að skrá og ljósmynda minjar og minjastaði á Reykjanesi. Gerðar voru exel-skrár yfir helstu tegundir minja og gps-punktar þeirra skráðir. (Gps-tæki var fengið að láni hjá Jóni Svanþórssyni, ljósmyndavél hjá ónafngreindu fólki og ljósmyndarinn hverju sinni kostaði framköllun).

FERLIR-300 – í ljós hafði komið að af ótrúlega miklu var af að taka. Listinn yfir óskoðuð svæði og áður fundnar, en týndar, og líklegar ófundnar minjar lengdist óðfluga. Ákveðið var að ganga a.m.k. eitt hundrað ferðir til viðbótar og reyna að “tæma” svæðið ” af “skráningarskyldum” minjum.

FERLIR-400 – skráning minja hafði gengi vel og ótrúlega margar minjar og minjastaðir fundist við “leitir” á einstökum svæðum. Til að varðveita samhengið var og ákveðið að rissa upp helstu minjasvæðin til varðveislu og sem hugsanleg gögn til varanlegri framtíðar. Í fyrstu umferð voru teiknuð upp um 100 svæði. Uppdrættirnir hafa verið varðveittir í Reykjanesskinnu, sem verður, um sinn a.m.k., einungis til í einu órafrænu eintaki.

Brunnur

Brunnur í Njarðvík.

FERLIR-500 – þátt fyrir að búið væri að ganga og fara yfir einstök svæði og skoða, leita og skilgreina, komu enn í ljós minjar, sem ekki hafði verið vitað um áður, s.s. garðar, refagildrur, gamla leiðir, borgir, fjárskjól, brunnar, vatnsstæði o.fl. Ákveðið var að halda áfram enn um sinn, en láta síðan staðar numið við FERLIR-600.

FERLIR-600 – ljóst var að ekki yrði komist yfir allt svæðið með það fyrir augum að skrá allt, sem þar væri að finna. Ákveðið var að fresta ferð nr. 600, fara beint í nr. 601, en beina athyglinni fyrst og fremst að áhugaverðustu svæðunum, s.s. í umdæmi Grindavíkur og Hafnarfjarðar, en önnur sveitarfélög á svæðinu hafa ekki sýnt fornum minjum sínum jafn mikinn áhuga og þau. Fyrir lá að hér var um mikil verðmæti til framtíðar að ræða. Áhugi á umhverfi, útivist og hreyfingu fóru greinilega stigvaxandi.

Grindavíkurvegur

Byrgi vegavinnumanna við Grindavíkurveg.

FERLIR-700 – minjar og saga eru ekki einu auðævi Reykjanesskagans. Jarðfræði, umhverfi, dýralíf, flóra sem og annað er lítur að áhugaverðum útivistarmöguleikum á svæðinu er í rauninni ótæmandi ef vel er að gáð. Svæðið nýtur nálægðar um 2/3 hluta þjóðarinnar, en þrátt fyrir það er það eitt hið vannýttasta á landinu. Mikill áhugi hefur verið á að reyn að “opinbera” minjar, minjasvæði og forn mannvirki á Reykjanesi og gera þær aðgengilegar áhugsömu fólki. Í byrjun árs 2004 var afráðið að sækja um styrk úr Þjóðhátíðarsjóði, sem er í vörslu Seðlabanka Íslands, með það fyrir augum að leggja drög að slíkri “opinberun”, hvort sem væri með rafrænum hætti eða blaðrænum. Þann 9. júní 2004 barst tilkynning frá sjóðsstjórninni um að FERLIR hafi verið veittur umbeðinn styrkur. Nú verður ekki aftur snúið. Stefnt var að opinberri og birtingu uppsafnaðra upplýsinga og fróðleiks (sem birtist nú lesendum hér á vefsíðunni).

Og enn er haldið áfram – á meðan að einhverju er að stefna. Síðasta FERLIRsferðin var nr. 2000. Nú er stefnt að því að ferðirnar um Reykjanesskagann, fyrrum landnám Ingólfs, verði a.m.k. 3999 talsins…

Ferlir

Ferlir á ferð í Selvogi.

Kind

Á vefsíðunni hefur af og til verið fjallað um einstaka staði, minjar eða minjasvæði á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). UmleitunTilgangurinn með umfjölluninni er hefur m.a. verið að fá viðbrögð fólks, sem hugsanlega kann að búa yfir vitneskju um hvorutveggja – og jafnvel ýmislegt umfram það. Með því hefur verið hægt að safna bæði ábyggilegum og áður óþekktum upplýsingum um sérhvert umfjöllunarefni. Hafa ber í huga að einstakir staðir hafa í gegnum tíðina verið nefndir fleiru en einu nafni og jafnvel þótt sumir telji það nafn, sem þeir þekkja, vera hið eina rétta, kann raunin að vera bæði önnur og hvorutveggja. Upplýsingar geta því stundum orðið misvísandi, en þó ávallt upplýsandi. Orð geta verið stafsett með mismunandi hætti. Óbrinnishólahraun hefur t.a.m. verið ritað sem “Óbrennishólahraun” og “Óbrynnishólahraun”. Þá þarf stundum bara að láta reyna á hvað kann að vera líklegast og réttast þótt nafnið sjálft geti í raun verið aukaatriði í öllu því, sem það hefur upp á að bjóða. Þess vegna er svo mikilvægt að sem flestir, sem búa yfir upplýsingum um efnið, láti í sér Vitneskjaheyra – þótt ekki sé fyrir annað en að fá “hugskeyti” frá fólki er veit um staði, sem öðrum eru nú gleymdir, en því þykir sérstaklega áhugaverðir.

FERLIR hefur þegar skoðað og safnað upplýsingum um 400 sel eða selstöður á Reykjanesskaganum, yfir 90 fjárborgir, um 140 brunna og vatnsstæði, um 240 gamlar leiðir, 60 hlaðnar refagildrur, um 660 hella, skúta og fjárskjól, um 80 letursteina, um 90 hlaðnar réttir, um 25 skotbyrgi, um 230 sæluhús og sögulegar tóttir, um 25 hlaðnar vegavinnubúðir, um 180 sögulegar vörður auk vara, nausta, grenja o.fl. o.fl. o.fl. o.fl. á svæðinu. Margt hefur og uppgötvast við eftirgrennslan og skipulegar leitir. Allt myndar þetta heildir búskapar- og atvinnusögu svæðisins. Miklar upplýsingar hafa fengist frá áhugasömu og margfróðu fólki á Reykjanesi, sem hefur skráð, gefið út og/eða þekkir til staðanna. Er því sérstaklega þakkaður skilningurinn og alúðin við miðlun efnis. Þessa fólks verður alls getið ef og þegar “Bókin mikla – Reykjanesskinna” kemur út.
Ef áhugasamir lesendur telja sig enn búa yfir upplýsingum um einstaka staði, sem ástæða er til að skoða, varðveita og skrá, eru þeir beðnir að hafa samband við netfangið ferlir@ferlir.is.
Handan

FERLIR

Frá upphafi hafa þeir þátttakendur FERLIRs, sem lokið hafa a.m.k. fimm ferðum áfallalítið eða sýnt af sér sérstaka hæfni, áræðni eða fundvísi geta hugsanlega fengið FERLIRshúfu því til staðfestingar.
Húfan hefur merkingu og á sér uppruna. Hún hefur þann eiginleika að aðlagast höfði viðkomandi. Í henni eru varnir og bjargir er bæði verja eigandann fyrir aðsteðjandi hættum og geta bjargað honum úr vanda, sem hann er þegar kominn í. Auk þess fylgja henni ótímasettar eldgosa- og jarðskjálftavarnir, en áhrifaríkust eru þeir eiginleikar hennar að geta gefið eigandanum kost á að sjá í myrkri – ef rétt er snúið.
Á fimmta tug manna og kvenna hafa þegar öðlast þessa viðurkenningu FERLIRs. Handhafarnir bera nú húfur sínar með stolti, enda eru þær til marks um einstaka hæfileika þeirra.

FERLIR

Laufhöfðavarða.

Til gamans má geta þess að tvær húfur, sem týndust, komu í leitirnar skömmu síðar. Aðra hafði eigandinn lagt frá sér í Brennisteinsfjöllum. Þremur dögum síðar var bankað upp á hjá honum og honum afhent húfan. Hina fann eigandinn á snaga í rakarastofu í borginni og uppgötvaði þá að húfunni hafði hann týnt á Bláfjallasvæðinu rúmri viku fyrr. Þriðja húfan týndist svo norðvestan við Einbúa, sunnan við Kastið, fyrir stuttu. Hennar er vænst í hús innan tíðar.
Lygilegasta sanna sagan er þó sú er segir af FERLIRsfélaganum, sem varð það á að stíga óvart með annan fótinn fram af snjóhengju á bjargbrún. Honum til happs náði hann að grípa í húfuderið og að hanga á því nógu lengi til að geta stigið skrefið til baka á fast. Síðan hefur hann jafnvel og sofið með húfuna – svona til öryggis…