Færslur

FERLIR

Í Morgunblaðinu árið 2001 er skemmtileg umfjöllun; “Að lesa landið – Ferðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík í 100. ferð sinni um Reykjanes“;

“Rannsóknarlögreglumenn sem beygja út af Reykjanesbraut og þramma skimandi um hraun og hlíðar, eru án efa að leita verksummerkja um glæpsamlegt athæfi. Eða hvað? Sigurbjörg Þrastardóttir og Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari, slógust í för með löggum sem leita fremur að félagsskap, náttúrufegurð og anda liðinna alda.

Selvogsheiði
Lögreglumennirnir snarast út úr bifreiðum sínum við kirkjugarðinn í Hafnarfirði, vasklegir í fasi og vel skóaðir. Við garðinn er upphafspunktur 100. Reykjanesgöngunnar í röðinni síðan Ferðahópur rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík (FERLIR) tók til starfa í fyrrasumar. Á bílastæðinu standa tveir af helstu göngugörpunum, Ómar Smári Ármannsson og Jóhann Davíðsson, en sá fyrrnefndi er ókrýndur forsprakki framtaksins.
Selvogsheiði„Þar sem fyrir höndum er lengsta gangan hingað til, voru menn skyndilega mjög uppteknir í kvöld,“ segja þeir félagar sposkir og vísa til þess að tiltölulega fáir eru mættir. Að meðaltali taka 5–15 manns í göngunni – rannsóknarlögreglumenn og gestir þeirra; börn, makar, vinir eða vinnufélagar af öðrum deildum. Nú standa átta manns ferðbúnir, sumir vanari en aðrir.
„Nýliðar fá oftast svona nýliðaprik til að styðja sig við,“ segja forsprakkarnir og lyfta gömlum kústsköftum. Sjálfir eru þeir með fallega útskorna stafi um hönd. „Ef einhver dregst aftur úr eða týnist, snúum við aldrei við til að leita þeirra. En ef nýliði týnist, verðum við að snúa við til að finna prikið. Þetta eru ómetanleg prik.“
Með þessum orðum er tónninn sleginn fyrir taktinn í ferðinni – allt er fyndið eða hóflega nákvæmt og ekki að ástæðulausu. „Þessar ferðir eru ekki síst ætlaðar til þess að dreifa huga manna frá vinnunni, sem oft er íþyngjandi. Hér reynum við að gleyma áhyggjum hversdagsins og því er eiginlega bannað að segja nokkuð af viti – það er nánast glæpur,“ segir Ómar Smári og glottir.

Landið fær nýja merkingu

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

Ekið er af stað á nokkrum bílum og á leiðinni segir Ómar Smári frá hugsjóninni að baki ferðahópnum, þar sem mæting er algjörlega frjáls og engar afsakanir nauðsynlegar. „Ef einhver hefur önnur plön, þá hefur hann önnur plön. Þetta er fyrir þá sem eru upplagðir, þá sem vilja, þá sem hafa tíma og þá sem nenna. Og það þarf ekki alltaf að vera sama fólkið. Fyrst og fremst eru þessar gönguferðir hugsaðar til skemmtunar og sem hreyfing. En um leið hjálpa þær okkur að kynnast landinu betur og gera okkur grein fyrir því hvernig kynslóðirnar á undan okkur lifðu af landsins gæðum.“
Leitin að minjum um búskap og mannvistir er einmitt það sem setur svip á ferðir FERLIR, og sker þær frá hefðbundnum gönguferðum um hóla og holt.

FEELIR

Jóhann Davíðsson – við öllu búinn í fyrstu FERLIRsferðinni.

Fyrir hverja ferð er sett upp áætlun, rissað er upp kort af fyrirhugaðri leið og merktar inn minjar sem sögur herma að séu á svæðinu. „Það geta verið hleðslur, réttir, fjárhellar, stekkir eða dysjar. Að ógleymdum þjóðleiðum sem sýna glöggt hvernig skór, hófar og klaufar hafa meitlað í berg eða troðið mýrar í gegnum aldirnar.

Við leitum gamalla heimilda, skoðum landabréf og bækur og höfum einnig talsvert rætt við gamalt fólk sem er alið upp á svæðinu. Í gönguferðunum svipumst við svo um eftir þessum minjum,“ segir Ómar og tekur fram að FERLIR kunni Reyni Sveinssyni, Helga Gamalíelssyni frá Stað við Grindavík, Fræðasetrinu í Sandgerði, Sigurði á Hrauni, Þórarni Snorrasyni í Vogsósum og Kristófer, kirkjuverði í Strandarkirkju, sem og ótal öðrum þakkir fyrir ómetanlega leiðsögn. Bætir svo við að á svæðinu milli Hafnarfjarðar og Voga séu um 40 sel með öllu sem þeim fylgir – brunnum, kvíum, fjárskjólum, hellum, nátthögum og smalabyrgjum – og að minnsta kosti 20 fjárborgir, en aðeins tvær þeirra séu almenningi vel kunnar. Það sé því miklu meira um áhugaverða staði á svæðinu en margan grunar.
Hellholt„Þegar ekið er út á Keflavíkurflugvöll, eins og flestir hafa gert, er óneitanlega skemmtilegra að hafa gengið um svæðin í kringum Reykjanesbrautina – landið fær allt aðra merkingu. Sjálf höfum við mjög gaman að því að svipast um eftir minjum og kennileitum, og punktum hjá okkur hvað finnst. Hins vegar finnst lítið með því einu að skima úr bílnum. Fólk verður að hreyfa sig til þess að finna eitthvað af viti.“ Hann bendir á að minjaleitin sé einmitt kjörið tilefni fyrir fólk að drífa sig í heilbrigða útivist. „Margir segjast vilja hreyfa sig en vantar til þess ástæðu. Hér er hún komin, minjaleitin getur verið slíkt markmið.“

Sérstaklega samið um gott gönguveður
Á ferðum sínum hafa félagarnir í FERLIR orðis ýmiss vísari og sumar uppgötvanir verið næsta sögulegar. Þeir hafa fundið hella sem jafnvel Hellarannsóknafélagið hafði ekki hugmynd um að væru til, og þeir hafa komist að því að örnefni á gömlum landabréfum eru ekki öll nákvæmlega staðsett. „Þarna eru til dæmis Hnúkar,“ segir Ómar og bendir í austurátt, „en þeir eru á kortum ranglega nefndir Kvennagönguhólar. Kvennagönguhólar eru að vísu til, en eru neðar.“ Hann bendir í gegnum framrúðuna þar sem rúðuþurrkurnar tifa. Veðrið lítur ekki vel út, en Ómar er pollrólegur. „Við semjum með fyrirvara um gott veður og það stenst undantekningarlaust. Höfum aldrei þurft að hætta við ferð vegna veðurs.
Gönguferðirnar áttu í fyrra til dæmis aðeins að vera til hausts, en sökum þess hve veturinn reyndist mildur hefur göngum verið haldið áfram óslitið þar til nú.“ Hann bendir líka á að sjaldnast sé að marka veðurútlitið úr glugga í heimahúsi. Það sem gildi sé veðrið á því svæði sem förinni er heitið um, og það geti verið alls óskylt borgarveðrinu. „Sjáðu til dæmis rofið í skýjabakkanum þarna niðurfrá. Þangað erum við einmitt að fara.“ Ekki þarf að orðlengja um að veður lék við göngumenn alla sex tímana sem gengið var. Samningurinn við veðurguðina hélt, sem fyrr.

Skyggnishúfur með jarðskjálftavörn

FERLIR

FERLIR – einkennismynd.

Við dysjar tröllskessanna Herdísar og Krýsu við Herdísarvíkurveg, er bílalestin stöðvuð og Ómar Smári rekur þjóðsöguna af þeim stallsystrum, sem deildu um landamerki og enduðu með því að berast á banaspjót. „Það er eitt að heyra þessa sögu, en annað að hlýða á hana við dysjarnar sjálfar. Þá sér maður að þetta er að sjálfsögðu allt satt,“ segir Ómar og hinir kinka kolli til samþykkis. Þeir benda á að með FERLIR-húfurnar á höfði öðlist þeir nefnilega einstakan hæfileika til skilnings og samþykkis á þjóðsögum og öðru slíku – þetta séu engar venjulegar húfur. „Eftir fimm ferðir fær fólk FERLIR-húfu að launum fyrir afrekið. Þessar húfur eru framleiddar í austurvegi og búa ekki bara yfir eldfjalla- og jarðskjálftavörn, heldur áhættuvörn líka. Einu sinni misstum við mann ofan í gjá og það varð honum til happs að vera með húfuna. Hann hékk á derinu.“ Ýmsum fleiri tröllasögum um húfurnar er kastað á milli og menn greinilega vanir að gera að gamni sínu í góðum hópi. Jóhann bætir við nokkrum sögum af sprungum og gjám af svæðinu og klykkir út: „Strandagjá er sú dýpsta af þeim ölllum. Einu sinni var ég staddur á brúninni, henti niður steini og hlustaði. Tveim dögum síðar heyrði ég skvampið. Þetta er alveg rosalega djúp gjá.“

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

Þegar gangan loks hefst er fimmtíu kílómetra akstur að baki og búið að koma tveimur bílum fyrir við áætlaðan lokapunkt ferðarinnar. Þangað eru 19 kílómetrar frá upphafspunkti við Geitafell og því ekki seinna vænna en haska sér af stað. „Við munum skoða nokkra fjárhella, líta eftir gömlum réttum og skoða gamlan stein með krossmarki sem sögur herma að liggi á litlu holti.
Svo leitum við að Ólafarseli, Þorkelsgerðisseli, Eimubóli og skoðum Strandarhelli…“ byrjar Ómar Smári en orð hans hætta smám saman að berast til öftustu manna. Hann er nefnilega rokinn af stað á talsverðu blússi, eins og áköfum göngustjóra sæmir.

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

Krækt er fyrir Geitafellið og innan skamms er fyrsti stekkur fundinn. Göngumenn þefa hann uppi, en eru raunar í fyrstu ekki vissir hvort hann muni liggja í hlíð upp af Seljavöllum eða við holt að neðanverðu. Þeir stansa og litast um. Beita svo lögregluþjálfuninni með því að setja sig í spor „glæpamannsins“ – hugsa eins og sá sem kom stekknum fyrir. „Já, reynsla úr starfinu getur gagnast, nema hvað að hér erum við ekki að fást við glæpamenn. Bændurnir hér voru heiðursmenn og því er ekki síður auðvelt að setja sig í þeirra spor.“

Lækjarbotnar

Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.

Spurt er hvort þeir hafi aldrei á ferðum sínum rekist á sönnunargögn um alvöru sakamál, en þeir segja svo ekki vera. „Það er helst að við höfum rannsakað aðsetur útilegumanna, sem voru jú sakamenn. En það eru ekki margir óupplýstir, nýlegir glæpir sem hér liggja í loftinu. Það eru þá frekar fyrnd mál eða þjóðsagnakenndir atburðir,“ svara þeir. Segjast hins vegar hafa komist að ýmsu misjöfnu um búskaparhætti, sönnu en varla sakhæfu. Til að mynda hafi eldhús í seljum verið afspyrnu lítil sem bendir til lítils skilnings á starfi kvenna. „Kannski er það satt sem einn kunningi okkar segir, að konan hafi hér á öldum fyrrum verið meðhöndluð sem eitt af húsdýrunum. En það hefur nú sem betur fer mikið lagast,“ segir einn kæruleysislega og gjóir augum stríðnislega til kvenna í hópnum. Þær láta sem vind um eyru þjóta og hugsa upp skeyti á móti.

Fagridalur

Í Fagradal.

Svo færist alvara í talið og rifjaðar eru upp aðstæður barna sem látin voru vaka yfir ánum um nætur, oft í kulda, vætu og einsemd. Hræðsla og vinnuálag hljóti að hafa hindrað leikgleði og áhyggjuleysi ungviðisins; sálarástandið sé án efa fegrað mjög í hinum glaðlega söng um Tuma sem fór á fætur við fyrsta hanagal – til þess að „sitja yfir ánum lengst inni í Fagradal“.
Minna rannsakað en frumskógar Afríku Áfram er haldið og gengið fram á einar þrjár réttir, auk stekkja og fjárhella sem finnast.
Göngumenn benda líka á andlit og aðrar kynjamyndir í hömrunum í kring og eftir ýmsu öðru er tekið á himni og jörðu, skýjabökkum, fjöllum, vörðum og jafnvel sniglum. „Þessi lagði af stað frá Strandarkirkju árið 1967 og er ekki kominn lengra,“ kallar Birgir Bjarnason eftir að hafa þóst eiga orð við sveran, svartan snigil á þúfu.
„Það væri ljótt ef við snerum honum við og hann endaði aftur á upphafspunkti. Sá yrði fúll.“

Svörtubjörg

Við Stígshella í Svörtubjörgum.

Þegar komið er framhjá Svörtubjörgum opnast útsýni til hafs og enn er bjart sem á degi. Ómar Smári heldur áfram að romsa úr sér örnefnum og sögum sem tengjast stöðum í kring, Jón Svanþórsson kann líka ýmsar sagnir og Jóhann, sem er úr Þorlákshöfn, rifjar upp kynni sín af körlum úr sveitinni.
Og rannsóknarlögreglumennirnir virðast síður en svo þreyttir á Reykjanesinu, þótt hundrað ferðir séu að baki.
„Staðreyndin er sú að þetta land hér er minna rannsakað en frumskógar Afríku, eins og við segjum stundum. Fólk hefur á síðari tímum ekki átt hingað mörg erindi, og á fyrri tíð var skóbúnaður fólks þannig að það gat bókstaflega ekki gengið alls staðar um úfið hraunið. Gamlar þjóðleiðir liggja yfirleitt með hraunköntum en á milli eru ókönnuð svæði.
En fyrir utan að vera áhugavert svæði, er Reykjanesið líka svo þægilega innan seilingar, höfuðborgarbúar gætu gert mikið meira af því að koma hingað. Ef veður bregst er stutt að snara sér heim aftur, en annars er lítið mál að sjá veðrið fyrir með jafnvel tveggja daga fyrirvara – ef menn leggja sig eftir því að læra að lesa í veður. Fólk leitar oft langt yfir skammt. Ef maður spyrst fyrir á vinnustað, kemur kannski í ljós að allir hafa komið til Krítar en enginn hefur gengið á Kálffell, þótt þar séu líka bæði gjár og hellar.“

Sleikibrjóstsykur sem vex villtur

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Meðal þjóðsagnanna sem raktar eru, snýst ein um svonefndan Yngingarhelli, sem fullyrt er innan hópsins að svínvirki. „En það þarf að passa sig. Kannski kemur maður út úr honum og hefur þá skyndilega ekki aldur til þess að keyra bíl,“ bendir einhver á og allir skella upp úr. Ekki líður á löngu þar til fjárhellir verður á vegi hópsins og farið er inn með vasaljós. Út koma svo Ómar Smári og Jóhann með glænýjar húfur, en þeir höfðu lagt upp í ferðina með velktar húfur og upplitaðar. Það er ekki um að villast að þarna er Yngingarhellir kominn, þótt áhrifanna gæti ekki að ráði nema á fatnaði, að þessu sinni. Í ljós kemur að þetta er ekki í fyrsta sinn sem yfirnáttúrulegir hlutir eiga sér stað í ferðum FERLIR-hópsins.

Selatangar

ÁSelatöngum.

„Já, já, draugurinn Tanga-Tómas hefur birst mönnum fyrirvaralaust, gull hefur fundist í hrauni og litríkir sleikibrjóstsykrar hafa jafnvel sprottið á mosaskika. Í síðastnefnda skiptið var lítil stúlka með í göngunni og varð að vonum himinlifandi yfir fundinum – jafnvel þótt henni hafi fundist undarlegt að nýsprottnir pinnar væru allir í bréfinu,“ segja félagarnir kankvíslega.
Þannig verður ýmislegt skrýtið að veruleika í ferðunum og aldrei að vita hvað bíður á næsta holti eða leiti. Og ekki þarf að hinkra lengi eftir annarri óvæntri uppákomu í þessari ferð. Í Selvogsréttinni koma öftustu göngumenn að hinum við neyslu þjóðlegra rétta af hlaðborði á réttarvegg. Hákarli, reyktum rauðmaga, harðfisk og brennivíni hefur verið stillt upp í tilefni 100. göngu FERLIR, en sumir halda því reyndar fram að Selvogsbændur sem síðast réttuðu hafi skilið góssið eftir. „Já, þeir eru hugsunarsamir, bændur hér í sveitinni,“ verður einhverjum að orði.
Orkan úr kræsingunum dugar vel í næsta áfanga göngunnar og göngumenn valhoppa lipurlega milli þúfna, eins og þeir hafi aldrei þekkt sléttar gangstéttir.
Komið er talsvert fram yfir miðnætti og einhver nýliðinn spyr óvarlega hversu langt sé eftir enn. Loðin svör berast frá forsprökkum og talið berst fljótlega aftur að tröllum og útilegumönnum. Spurningin gleymist og enginn saknar svarsins.
Á ferðum FERLIR falla venjulegar klukkur nefnilega úr gildi, við tekur svokallaður FERLIR-tími sem lýtur allt öðrum lögmálum. Þá skipta mínútur og kílómetrar engu máli, það er náttúruupplifunin í hverju skrefi sem gildir.”

Heimild:
-Morgunblaðið 20.07.2001, Að lesa landið, bls. 4B-5B.

Sólsetur

Sólsetur í FERLIRsferð við Tvíbolla.

FERLIR

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.

Ferlir

Ferlir – fyrsta vefsíðan.

Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi, þ.e. Reykjanesskagans (fyrrum landnáms Ingólfs). Úr varð gönguhópur er líklega, með fullri virðingu fyrir öllum öðrum slíkum er á eftir komu, hefur stuðlað að meiri upplýsingu um fyrrum vitneskju um svæðið en allir aðrir þeir til samans. Fleira áhugasamt fólk slóst í hópinn, sem um leið varð fyrirmynda annarra slíkra er hvöttu til hreyfingar og útivistar í margbreytilegu umhverfi.

Ferlir

FERLIR – síðasta gamla vefsíðan.

Árni Torfason, starfsmaður Morgunblaðsins, setti upp fyrstu vefsíðu FERLIRs árið 2000 að tilstuðlan Júlíusar Sigurjónssonar, hins ágæta ljósmyndara sama miðils. Með styrk frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans varð vefsíðan síðan að veruleika. Vefsíðan var endurnýjuð árið 2007, enda þá orðin tæknilega úrelt, og síðan uppfærð í núverandi útgáfu árið 2019 með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.
Fjölmargir hafa ljáð verkefninu stuðning. Má þar t.d. nefna sveitarfélögin á svæðinu. Þátttaka áhugasamra í FERLIRsferðunum, sem og miðlun efnis og nýting annarra á því, hefur jafnan verið öllum endurgjaldslaus.
Fyrir þá, sem vilja hafa samband og koma áhugaverðu áður óbirtu efni á framfæri, er þeim bent á netfangið ferlir@ferlir.is.

Hér má sjá gömlu vefsíðuna.

Stykkisvöllur

FERLIRsfélagar við Stykkisvöll.

Sveifluháls

Tilgangur Ferðahóps rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík (FERLIR) var að stuðla að, undirbúa og skipuleggja sjálfbærar hollferðir starfsmanna á fæti um helgar um sumar (þ.e.a.s. þeirra sem ekki voru á helgarvöktum) – hlutaðeigendum að kostnaðarlausu.

Ferlir

Jóhann Davíðsson var við öllu búinn í fyrstu FERLIRsferðinni.

Þátttakendur gátu einnig verið aðstandendur í boði starfsfólks (konur og börn) og í vissum tilvikum skjólstæðingar, auk útvalinna lögfræðinga. (Þeir, sem eingöngu voru að sækjast eftir félagsskap hinna síðastnefndu voru hvattir til að nota tímann í eitthvað annað. Ekki var ætlunin að ræða um vinnuna). Þátttökufjöldinn takmarkaðist einungis við þungatakmarkanir Vegagerðarinnar á hverjum stað. Einu kröfurnar, sem gerðar voru til þátttakenda, voru að þeir gætu hreyft sig, haft áhuga á hreyfingu eða haft gaman að því að sjá aðra hreyfa sig. Þeir þurftu þó að koma sér sjálfir á upphafsreit. Ferðahraðinn réðst af yfirferð þess síðasta í hópnum. Áhersla var lögð á að halda hópinn, en ekki var sérstaklega fundið að viðsnúningi í undartekningartilvikum. Gott skap var nauðsynlegt sem og vilji til að reyna svolítið á sig. Gengið var annað hvort á laugardegi eða sunnudegi yfir sumarið – svo starfsmenn gætu slappað vel af fyrir og eftir göngur í vinnunni.

Ferlir

Vel úbúinn FERLIRsfélagi á leið í Brennisteinsfjöll.

Fyrsta gönguferðin var farin laugardaginn 29. apríl. (Fólk hafði þá sunnudaginn þann 30. til að jafna sig). Mæting var fyrir kl. 13:55 innan við gatnamótin (beygt til vinstri) að sumarbústöðunum (Litla-Hraun) við Sléttuhlíð af Kaldárselsvegi fyrir ofan Hafnarfjörð (og beygt til hægri hjá bleiku blöðrunni). Ekið var inn á nefndan Kaldárselsveg við kirkjugarðinn sunnan við Keflavíkurveg á móts við gatnamót Öldugötu, af Flóttamannavegi, áleiðis að Sléttuhlíð.

Búnaður þurfti einungis að vera góðir skór, létt og fitusnautt nesti, bitjárn og vasaljós, auk hlífðarfatnaðar (sem var sjaldgæfur í Hafnarfirði í þá daga). Gengið var sumarbústaðaveginn ofan Sléttuhlíðar, yfir á Kaldárselsveg, að Kaldá (tærasta vatnsbóli á Íslandi), yfir ána að rótum Helgafells (ca. 250 m hátt). Þaðan var fetað beint af augum upp norðurhlíðina.

Ferlir

FERLIRsfélagar hafa mætt mörgu áhugaverðu á ferðum sínum um Reykjanesskagann.

Andinn var dreginn í dalverpi eftir fyrstu 92 metrana og síðan haldið áfram suðuryfir og upp vesturhlíðina uns toppnum var náð. Þar gafst kostur á að njóta útsýnisins yfir svo til allt Stór-Hafnarfjarðarsvæðið og krota upphafsstafi sína í nærtækt móbergið með bitjárni. Eftir það var haldið niður aflíðandi austurhlíðina og yfir að Valabóli. Þar var áð við Músarhelli með útsýni yfir að Búrfelli og Mygludali. Þar var nestið dregið fram.

Ferlir

FERLIRsfélagar fóru um öll þau svæði er þá lysti – þrátt fyrir boð og bönn.

Frá Valabóli var gengið eftir gömlum vegarslóða í norður að hraunsprungu þar sem falinn er undir hrauninu u.þ.b. 100 metra langur hellir. Þeir, sem ekki höfðu þá þegar týnt vasaljósunum, gátu skoða sig þar lítillega um.

Urriðakotsdalur

Gengið um Efri-Urriðakotsdal (þar sem nú er golfvöllur).

Þá var gengið eftir gömlu Selvogsgötunni, framhjá Smyrlabúðum að Kershelli. Þeir sem enn höfðu eitthvert þrek gátu skoðað Lambshelli í u.þ.b. 300 metra fjarlægð. Eftir stutta dvöl við hellana var gengið að bílunum, sem þá voru í innan við 570 metra fjarlægð. Þangað var komið fyrr en seinna (enda nánast enginn mótvindur).

Þar sem þátttakan var bæði sæmileg og ágæt, var ákveðið að fara í fleiri slíkar sjálfbærar gönguferðir af og til um helgar um sumarið. Stefnt var m.a. að því að ganga á Þorbjörn (ca. 220 metra hátt) fyrir ofan Grindavík, horfa yfir þorpið og feta síðan niður Þjófagjá og yfir að Eldvörpum þar sem fyrir eru mannhlaðinn hraunbyrgi frá tímum Tyrkjaránins. Leiðsögumaður í þeirri för verðurSigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og formaður ferðanefndar rannsóknardeildar lögreglunnar í Grindavík (FERÐLEGIR).

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Ætlunin var og að ganga á Akrafjall fyrir utan Akranes undir leiðsögn. Þegar fólk væri komið í sæmilega þjálfun yrði e.t.v. gengið af Bláfjallavegi upp Grindarskörð (gömlu Selvogsgötuna) og litið á Tvíbolla eða Stóra-Bolla, gengið áfram með Draugahlíðum að brennisteinsnámunum, upp að Kistufelli og horft yfir Gullbringuna og Reykjanesið – sjáva á millum. (Hugsanlega yrði þá lögð lykkja á leiðina yfir á Kristjánsdalahorn til að kíkja niður í u.þ.b. 200 metra djúpan helli, sem þar er.)

Ferlir

Ferlir á Vatnsleysuströnd.

Tillaga kom fram að ganga frá Höskuldarvöllum á Keili. Þá var einnig stefnt að fjörugönguferð, t.d. um Straumsvík, Óttastaði og Lónakot sem og stungið var upp á göngu um Laugaveg að Lækjartorgi og áfram um og yfir gamla Grímstaðaholtið, þ.e.a.s. ef leiðsögumaður fengist til göngunnar.
Fleiri hugmyndir og tillögur komu fram um skemmtilegar gönguleiðir í nágrenninu, bæði um Hengilsvæðið, í Krýsuvík og á Reykjanesskaganum. Starfsfólk var hvatt til að skila inn tillögum. Farið yrði með þær sem trúnaðarmál þangað til þær yrðu auglýstar áhugasömum.

Framhaldið yrði undir þátttakendum komið. Tillit yrði ekki tekið til vilja einhverra varðandi fyrirkomulag gönguferðanna, en þeir myndu þó geta haft einhver áhrif á undirbúninginn, framkvæmdina og stemmninguna á hverjum tíma.

Helgafell

Á Helgafelli.

Ekki var um skyldumætingu að ræða og ekki var greidd aukavinna fyrir þátttökuna. Ekki einu sinni ferða- eða matarpeningar. Þátttakendur báru bæði ábyrgð á sjálfum sér og sínum birgðum. Eina ábyrgðin var tekin á góðu gönguveðri, a.m.k. í nágrenni Hafnarfjarðar. Þeir, sem missa máttu aukakílóin og höfðu gaman af að ferðast um torfærar slóðir, voru hvattir til að sýna gildandi jeppaeigendum hvernig fara mætti að því.

Í stuttu máli sagt – fyrsta FERLIRsgangan gekk að mestu eftir skv. framangreindri lýsingu. Hún tók 4 klst og 21 mínútu. Sól og blíða.

Sjá fleirri myndir frá fyrstur FERLIRsferðum.

-ÓSÁ skráði.

Ferlir

FERLIR á ferð um Selvog.

Ferlir

Gengið um Sveifluháls.

FERLIR

Frá upphafi hafa þeir þátttakendur FERLIRs, sem lokið hafa a.m.k. fimm ferðum áfallalítið eða sýnt af sér sérstaka hæfni, áræðni eða fundvísi geta hugsanlega fengið FERLIRshúfu því til staðfestingar.
FerlirHúfan hefur merkingu og á sér uppruna. Hún hefur þann eiginleika að aðlagast höfði viðkomandi. Í henni eru varnir og bjargir er bæði verja eigandann fyrir aðsteðjandi hættum og geta bjargað honum úr vanda, sem hann er þegar kominn í. Auk þess fylgja henni ótímasettar eldgosa- og jarðskjálftavarnir, en áhrifaríkust eru þeir eiginleikar hennar að geta gefið eigandanum kost á að sjá í myrkri – ef rétt er snúið.
Á fimmta tug manna og kvenna hafa þegar öðlast þessa viðurkenningu FERLIRs. Handhafarnir bera nú húfur sínar með stolti, enda eru þær til marks um einstaka hæfileika þeirra.

FERLIR

Laufhöfðavarða.

Til gamans má geta þess að tvær húfur, sem týndust, komu í leitirnar skömmu síðar. Aðra hafði eigandinn lagt frá sér í Brennisteinsfjöllum. Þremur dögum síðar var bankað upp á hjá honum og honum afhent húfan. Hina fann eigandinn á snaga í rakarastofu í borginni og uppgötvaði þá að húfunni hafði hann týnt á Bláfjallasvæðinu rúmri viku fyrr. Þriðja húfan týndist svo norðvestan við Einbúa, sunnan við Kastið, fyrir stuttu. Hennar er vænst í hús innan tíðar.
Lygilegasta sanna sagan er þó sú er segir af FERLIRsfélaganum, sem varð það á að stíga óvart með annan fótinn fram af snjóhengju á bjargbrún. Honum til happs náði hann að grípa í húfuderið og að hanga á því nógu lengi til að geta stigið skrefið til baka á fast. Síðan hefur hann jafnvel og sofið með húfuna – svona til öryggis…

Ferlir

Ólafur, bæjarstjóri Grindavíkur, í ferð með FERLIR á Háleyjum.

 

FERLIR

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.

Ómar

Ómar – fyrirhugaðar helgarferðir FERLIRs undirbúnar.

Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, öðrum en hugkrefjandi rannsóknum, s.s. vegna manndrápa, rána og fjársvika og jafnvel löngum kyrrsetum rannsóknanna á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta svolítið í kringum sig – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta náttúrulega umhverfi. Deildin hafði þá tekið við öllum verkefnum Rannsóknarlögreglu ríkisins, sem þá hafði verið lögð niður sem slík. Á þessum tíma tókst nýliðum rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík, með góðum stuðningi fyrrum starfsfólks RR, að leysa öll tilfallandi manndrápsmál, öll hinu fjölmörgu vaxandi ránsmál á þeim tíma og nánast öll áður óupplýst tilfallandi fjársvikamálin. Hvort framangreind útvistun í náttúruna hafi eitthvað með árangurinn að gera skal ósagt látið. Rannsóknardeildinn hafði reyndar á þessum tíma á að skipa sérstaklega hæfu starfsfólki, enda árangurinn í frásögu færandi.

Ferlir

FERLIRsfélagar í Bálkahelli.

Helgarferðirnar voru fyrirfram ákveðnar með það fyrir augum að upplýsa eitthvað áður sögulega óþekkt. Leiðtogarnir, sem og aðrir er að komu, unnu allir sína vinnu, bæði hvað varðaði undirbúning og framvæmd, í sjálfboðavinnu – öðrum þátttakendum að kostnaðarlausu.

FERLIR

FERLIR – elsta vefsíðan.

Árni Torfason setti upp fyrstu, einfalda, vefsíðu FERLIRs árið 2000, með styrk frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans. Í styrknum fólst helmingskaup á fartölvu, sem þá þótti ekki bara dýr, heldur rándýr – með hliðsjón af launum lögreglumanns á þeim tíma.
Vefsíðan var endurnýjuð árið 2007 í Webman hjá Nethönnun og síðan uppfærð í núverandi Word Pressútgáfu hjá Premis árið 2019 með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.
Fyrir þá, sem vilja hafa samband, er eftir sem áður bent á netfangið ferlir@ferlir.is. Allur fróðleikur um Reykjanesskagann er vel þeginn….

Nálgast má eldri vefsíðu FERLIRs (dags. 15. nóv. 2006)  HÉR.

FERLIR

FERLIR – vefsíðan fyrir uppfærsluna 2019.

FERLIRsvefsíðan var á sínum tíma sett upp af vanefnum og -þekkingu á síkri tækni, en með aðstoð hjálpsamra fjögurra handa og tveggja skilningsríkra huga var fræinu sáð.

Dropinn

Stoðhola í skála í Ögmundarhrauni er hraunið í eldgosahrinunni 1151-1153 rann yfir byggð landsnámsfólks.

Morgunblaðið lagði þar m.a. tvær hendur á plóg, auk tveggja annarra Árna Torfasonar er hannaði vefsíðuna með tíu fingrum sem og stuðningi þáverandi bæjarstjóra Grindavíkurbæjar, Ólafs Ólafssonar. FERLIRsvefsíðan hefur, þrátt fyrir góðan skilning margra, þurft að bregðast við aðstejandi vanda í umleitun stöðugrar þróunnar. Ótrúlegum fróðleik um afmarkað landssvæði hefur á skömmum tíma verið safnað á einn stað. Eitthvað sem fáum hefur áður tekist. En eitt er að leita uppi, vettvangsstaðfesta, skrá, ljósmynda, draga upp og safna efni inn á síðuna – og annað að viðhalda, uppfæra og skrá nýtt efni er varða nýjar uppgötvanir, upplýsingar, ábendingar og viðbætur um skrásett efni frá áhugasömum lesendum.

Ferlir

Þátttakandi í fyrstu FERLIRsferðinni, Jóhann Davíðsson, tilbúin í hvað sem er, enda aldrei að vita við hverju var að búast…

Nú eru liðinir a.m.k. kvart auk tveggja áratuga aukreitis frá upphafinu. Í nútímanum gera nokkur ár því miður (eða sem betur fer) tækin fljótt úrelt. Tíminn gerir því sífelldar kröfu um skjót og vakandi viðbrögð. FERLIR mun fagna endurnýjuðum áfanga þann 12. 01. 2009 n.k. kl. 12.01. Síðan mun smám saman taka ítrekuð par ár að uppfæra gamalt efni á nýjum vefsíðum.
Tilgangur upphafsins var einfaldur; að bjóða þaulsetnu skrifstofufólkinu upp á tilbreytingu er fælist í hreyfingu og hugeflingu. Málið er að þegar fólk, er felst til tiltekinna starfa, festist smám saman í hugarfari áráttu rannsóknanna. Stundum reynist mikilvægt að líta út fyrir “kassann” og skoða aðra möguleika utan hans.

Göngur og  hreyfing um ókunnar slóðir efla jafnan hugarþelið; draga viðkomandi út úr hversdagsleikanum; gera honum kost á skoða og meta söguna á annan hátt með hliðsjón að verkefnum líðandi stundar.
Fólk, hvort það eru bankastjórar, alþingismenn, ráðherrar, forseti, læknir, skrifstofumaður, verkamaður/-kona eða hreingerningarmaður/-kona hefur alltaf gott af hollri hreyfingu út í því sögulega umhverfi sem forferður allra þeirra hafa alist upp við í gegnum tíðina…

Ferlir

FERLIRsfélagar á góðri stundu um jól við Rauðshelli.

 

Sveifluháls

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.

Í Gvendarhelli

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli). Formaður Ferðafélags Grindavíkur, Erling Einarsson, skoðar aðstæður.

Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og stuttum kyrrsetum þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta svolítið í kringum sig – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi. Umræðan um svonefnt “Burn out”; úti í heimi, nú túlkað sem “kulnun í starfi”, hafði þá verið til umræðu, án þess þó að njóta sérstakrar athygli annarra stétta hér á landi á þeim tíma. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast).

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd í frábæru veðri.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, -bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar – kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða.

Forn

Húshólmi – skáli.

Allt frá fornum minjum um búsetu frá upphafi norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfagur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Ferlir

FERLIRsfélaga á göngu um ofanverð Hraunin í frábæru veðri.

Til að gera alllanga sögu mjög stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 3300 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Ferlir

Ferlir á ferð um vetur á Sveifluhálsi.

Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks, sem miðlar hefur fróðleik og sértæka vitneskju um einstök svæði. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar.

Ferð

Undirbúningur næstu ferðar.

Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð upplýsingar á afmörkuðum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið.

Ferlir

Reynir Sveinsson miðlar fróðleik við Hvalsneskirkju.

Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins, Ferðamálafélags Grindavíkur, kirkjuverði, skólastjórnendur, innfædda leiðsögumenn og margra fleiri á ferðum sínum. Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík. Ólafur Ólafsson, var sérstaklega áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar voru innan umdæmisins.

Uppgötvanir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjölum.

Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregin upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum.

Selatangar

FERLIRsfélagar á Selatöngum.

Ágætt samstarf var við Örnefnastofnun á meðan hún var og hét. Naut stofnunin góðs að því með því að fá afrit af örnefnakortum er gjörð voru. Viðtöl hafa og verið tekin við fólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar og hvað var gert á hverjum stað.
Afraksturinn má nú sjá hér á vefsíðunni… 

Ganga

Gengið um Sveifluháls – í frábæru veðri.

Ferlir

Sögulegt ferðalag hófst með tölvupósti eitt síðdegið; “Hér er einstaklingur, Þjóðverji, sem þarfnast leiðsagnar upp í Brennisteinsfjöll – í hellinn Ferlir. Getur þú bjargað því? Ég þekki engan, sem þekkir hann betur en þú.”

Brennisteinsfjöll

Efst í Kerlingarskarði.

Ég var nú ekki beinlínis að leiðsegja fólki þrátt fyrir að hafa gengið svæðið fram og aftur og auk þess lokið námi í svæðaleiðsögn á Reykjanesskaganum á vegum FSS.
En hvað gerir maður ekki fyrir vini sína. Svarið var: “Já, en þú þarft að sjá um innheimtu og tryggingar”. Sendandinn var Björn Hróarsson hjá Iceland Extreme, þaulreyndur í faginu (að ég hélt).
Sótti einstaklinginn, Carlottu, á hótel sitt í Reykjavík á umsömdum tíma. Með okkur í för var dyggur aðstoðarmaður, Alda; þaulkunnug í Brennisteinsfjöllum.
Í ljós kom að Carlotta hafði keypt ferð í Fjöllin í tilefni af fimmtugsafmæli sínu. Draumur hennar var að sjá “græna stöffið” í hellinum Ferlir. Hún hafði séð stöffið á myndum og langaði að berja það eigin augum. Sjálf væri hún leiðsögumaður og hefði um stund átt íslenskan kærasta (sem var reyndar aukaatriði).
Spurð hvort hún treysti sér í a.m.k. 10 tíma göngu svaraði hún: “Að sjálfsögðu. Tju, hvað heldur’u að ég sé? Ég hef meira úthald en það.”
“Græna stöffið er mun óaðgengilegra en þú heldur”, svaraði ég, “og það er og verður þitt vandamál þegar þangað kemur”.

Brennisteinsfjöll

Á leið í Brennisteinsfjöll.

Ekið var á tveimur bílum á Suðurstrandarveg, öðrum lagt við veginn neðan við Lyngskjöld og hinum ekið til baka að Bláfjallavegi og lagt neðan Kerlingarskarðs. Þaðan héldum við þrjú áleiðis upp skarðið, ég studdur af göngustafnum “Staðföstum” og Carlotta með bakpoka um axlir. Þegar komið var inn fyrir Kistufell skall á niðdimm þoka. Tekin var nestispása í skjóli undir stórbrotnum börmum gígsins.
Þokan var jafndimm sem fyrr. Að fenginni reynslu var ákveðið að feta sig blindandi áfram um kunnar lægðir Kistuhraunsins til suðurs uns ákveðið var að setjast niður um stund. Carlotta spurði hvort við værum villt.

Brennisteinsfjöll

Gígurinn í Brennisteinsfjöllum.

Svarið var: “Nei, við þurfum einungis að bíða hér stutta stund. Að baki okkar er hár gígur. Hann ekki sést núna, en þegar rofar til sjáum við hann og finnum við leiðina að hellinum Ferli.” Við höfðum gengið í þrjár klukkustundir.
Ekki var að sökum að spyrja; þokunni létti. Við sátum undir gígnum umtalaða.
Stefnan var tekin niður að hellisopinu. Þegar inn var komið tók Calotta upp vasaljós og myndaði innvolsið á Iphone og spurði: “Hvar er græna stöffið?”
Við horfðum á hana – og síðan hvort á annað. Hún virtist ólíkleg til árangursríks klifurs eða skriðs um þröngar rásirnar.

Ferlir

Ferlir – Carlotta skoðar sig um í hellinum.

“Græna stöffið er innan við rás á efri hæð hellisins. Til þess að komast þangað þarftu að klifra þangað upp og skríða síðan um þrönga rás uns hún opnast í neðanverðum gangi. Innan við hann er uppgangur. Í honum er stöffið.”
Eftir svolitla umhugsun kvaðst Carlotta hvorki treysta sér í klifrið né í skriðið. Samkomulag náðist loks um að Alda tæki með sér tölvuna hennar, klifraði upp í rásina og næði á hana eftirsóknarverðum myndum. Þetta gekk eftir með tilheyrandi biðtíma, enda ferðalagið um ofanverð göngin allt annað en auðvelt. “Græna stöffið” er lítill marglitur hraunfoss innst í einni rásinni, sem fyrr sagði. Nýbráðið bergið hafði náð að storkna þar áður en upprunalegu litir þess blönduðust og mynduðu hinn venjulega súpugráa hraunlit. Fyrirbærið er í rauninni einstakt á heimsvísu og vel þess virði að leggja á sig ferðalag til að berja það augum – treysti fólk sér til þess. Eitt er þó að rata inn og annað að finna leiðina til baka um ranghalana!

Ferlir

Hellisopið.

Þegar út úr hellinum var komið var um tvær leiðir að velja; að ganga til baka upp þokukenndar hlíðar Brennisteinsfjalla eða niður með augljósum hlíðum Vörðufells og Sandfells um Lyngskjöld að Suðurstrandarvegi.
Ákveðið var að halda áfram niður á við til suðurs. Eftir stutta göngu sagðist Carlotta ekki geta gengið lengra. Hún væri komin með gamalreyndan verk í mjöðm. Hún hefði fengið slíkan verk áður og þá fengið viðeigandi lyf er virkaði, en það gleymdist á hótelherberginu.

Ferlir

Leiðin að “græna stöffinu”.

Nú voru góð ráð rándýr. Tveir möguleikar voru í boði; annars vegar að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar eða halda áfram á fæti.
Ég byrjaði á að taka bakpokann af Carlottu. Sá virtist óvenju þungur. Kíkti í pokann. Í ljós kom m.a. stórt vasaljós og tugir þungra rafhlaða, sem hún hafði fengið í fararteski hjá ferðaþjónustunni. Ákvað að axla pokann á annarri og styðja Carlottu með hinni, fetandi sporið í rólegheitunum með hana kvartandi áleiðis niður að Lyngskyldi. Carlotta var nokkrum sinni komin að því að gefast endanlega upp. Þykkur mosinn í hæðum og lægðum var torfær og allt annað en auðveldur yfirferðar. Við settumst því niður með jöfnu millibili. Alda ákvað að taka þungan bakpokann á bakið og halda ein áfram áleiðis niður að bílnum utar við Suðurstrandarveginn og færa hann mun nær þeim stað á veginum sem okkar var að vænta.

Regnbogi

Hluti regnbogans.

Ég bauð Carlottu göngustafinn Staðfast til stuðnings. Hún var í fyrstu treg til en þáði loks boðið og studdi sig dyggilega við hann í framhaldinu. Saman tókst okkur þannig, fet fyrir fet, að komast yfir mosahraunið og niður að Lyngskyldi. Ofan af brúninni sást til sjávar á annars bjartri sumarnóttunni. Handan við ströndina lék marglitur regnbogi alls kyns listir í næturskímunni.
Carlotta sat um stund þegjandi yfir dásemdinni, stóð síðan upp á báðum fótum og sagði þetta vera óútskýranlegt tákn um að hún væri hólpin. Almættið hefði brosað til hennar.
Við komust niður af Lyngskyldi 12 klukkustundum eftir að við lögðum á Kerlingarskarðið handan fjallanna.
Bæði vasaljósi og öllum rafhlöðunum var skilað á skrifstofu ferðaþjónustunnar tveimur dögum síðar. Björn var ekki við.  Aldrei hefur verið rukkað fyrir ómakið. – ÓSÁ

Ferlir

“Græna stöffið”.

Sogin

Hér á vefsíðunni má m.a. sjá ljósmyndir og uppdrætti af áhugaverðum svæðum Reykjanesskagans, fyrrum landnámi Ingólfs frá 874, hvort sem um er að ræða umhverfi eða minjar. Þá má t.d. sjá myndir af eldgosunum árin 2021, 2022 og 2023 í og við Fagradalsfjall. Eina sem áhugasamir/áhugasöm þurfa að gera er annað hvort að fara inn á flipann “Myndir” hér að ofan eða skrifa viðkomandi heiti í leitargluggann (stækkunarglerið).
Njótið…

Húshólmi

Skálatóft við Húshólma.

Ferlir

Eftirfarandi er hugmynd, sem fæddist nýlega í einni FERLIRsgöngunni. Hún er áhugaverð, bæði fyrir íbúa höfðuborgarsvæðisins og aðra, en engu að síður fyrir aðila ferðaþjónustunnar á Reykjanesskaganum.

Búrfellsgjá

FERLIRsfélagar í Búrsfellsgjá; Jóhann Davíðsson og Björn Ágúst Einarsson. Ágúst Einarsson.

Hugur felst í að gera eitthvað óhefðbundið, en hagkvæmt í sumafríinu; að breyta íbúðinni tímabundið í sumarbústað og gerast ferðamaður á heimaslóðum, skoða dagblöðin og Netið, sjá hvað er í boði og nýta sér það. Sú athugun kæmi áreiðanlega mörgum á óvart og víst má telja, þótt einhver vildi leggja sig allan fram við að komast yfir sem mest, að hann kæmist hann aldrei yfir allt, sem í boði er. Hægt er að spássera um einstök útivistarsvæði með bakpoka, skoða söfn eða kirkjur, kíkja í búðir (oft töluð útlenska), sóla sig á ströndinni með Cervaza (víða fallegar sandstrandir) eða jafnvel taka fram gönguskóna, útbúa nesti og halda á vit náttúrunnar og sögulegra minja skammt utan við byggðina. Allt er þetta meira og minna ókeypis (nema kannski nestið). Hagnaðinum er hægt að verja til að kaupa eitthvað sérstakt í nágrannabyggðalögunum eða jafnvel nýta í eitthvað þarf síðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Upplandið býður upp á falleg fjöll, dali, strandbjörg, eldborgir og hrauntraðir. Gróður er fjölbreytilegur (um 400 tegundir mosa) og landnemaplöntur á hverju strái.

Með því að skoða FERLIRssíðuna gætu vaknað hugmyndir um ferðir eða leiðir, sem hægt væri að nýta í þessu nýstárlega sumarfríi. Og ekki er verra að geta sofið í rúminu sínu á milli “ferðalaga”.

Til að komast að fallegum og fjölbreytilegum göngusvæðum þarf ekki að aka nema í innan við klukkustund (í mesta lagi) og þess vegna er hægt að nýta daginn vel. Einnig er hægt að breyta til og taka strætisvagn eða rútu á milli svæða eða byggðalaga.
Minna má á að bjart er svo til allan sólarhringinn og því hægt að njóta útiverunnar bæði vel og lengi hverju sinni. Fuglasöngur er ríkjandi, en umferðarniðurinn víkjandi. Og svo er ekkert sem mælir á móti því að setjast bara niður á fallegum stað, njóta umhverfisins og hvílast.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Þeir, sem best þekkja til, segja að á Reykjanesskaganum sé alltaf sól (reyndar er hún stundum á bak við skýin) og syðst á honum komi ferskt ónotað súrefnið fyrst hér að landi í öllum góðum áttum.
Með þessu fyrirkomulagi er hægt að gera góðar áætlanir með stuttum fyrirvara og fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að þær geti gengið eftir.
Njótið sumarsins, afslöppuð og upplýst, í fallegu umhverfi Reykjanesskagans (skrifað árið 2004).

Sogin

Horft yfir Sogin.