Ferlir

Sögulegt ferðalag hófst með tölvupósti eitt síðdegið; “Hér er einstaklingur, Þjóðverji, sem þarfnast leiðsagnar upp í Brennisteinsfjöll – í hellinn Ferlir. Getur þú bjargað því? Ég þekki engan, sem þekkir hann betur en þú.”

Brennisteinsfjöll

Efst í Kerlingarskarði.

Ég var nú ekki beinlínis að leiðsegja fólki þrátt fyrir að hafa gengið svæðið fram og aftur og auk þess lokið námi í svæðaleiðsögn á Reykjanesskaganum á vegum FSS.
En hvað gerir maður ekki fyrir vini sína. Svarið var: “Já, en þú þarft að sjá um innheimtu og tryggingar”. Sendandinn var Björn Hróarsson hjá Iceland Extreme, þaulreyndur í faginu (að ég hélt).
Sótti einstaklinginn, Carlottu, á hótel sitt í Reykjavík á umsömdum tíma. Með okkur í för var dyggur aðstoðarmaður, Alda; þaulkunnug í Brennisteinsfjöllum.
Í ljós kom að Carlotta hafði keypt ferð í Fjöllin í tilefni af fimmtugsafmæli sínu. Draumur hennar var að sjá “græna stöffið” í hellinum Ferlir. Hún hafði séð stöffið á myndum og langaði að berja það eigin augum. Sjálf væri hún leiðsögumaður og hefði um stund átt íslenskan kærasta (sem var reyndar aukaatriði).
Spurð hvort hún treysti sér í a.m.k. 10 tíma göngu svaraði hún: “Að sjálfsögðu. Tju, hvað heldur’u að ég sé? Ég hef meira úthald en það.”
“Græna stöffið er mun óaðgengilegra en þú heldur”, svaraði ég, “og það er og verður þitt vandamál þegar þangað kemur”.

Brennisteinsfjöll

Á leið í Brennisteinsfjöll.

Ekið var á tveimur bílum á Suðurstrandarveg, öðrum lagt við veginn neðan við Lyngskjöld og hinum ekið til baka að Bláfjallavegi og lagt neðan Kerlingarskarðs. Þaðan héldum við þrjú áleiðis upp skarðið, ég studdur af göngustafnum “Staðföstum” og Carlotta með bakpoka um axlir. Þegar komið var inn fyrir Kistufell skall á niðdimm þoka. Tekin var nestispása í skjóli undir stórbrotnum börmum gígsins.
Þokan var jafndimm sem fyrr. Að fenginni reynslu var ákveðið að feta sig blindandi áfram um kunnar lægðir Kistuhraunsins til suðurs uns ákveðið var að setjast niður um stund. Carlotta spurði hvort við værum villt.

Brennisteinsfjöll

Gígurinn í Brennisteinsfjöllum.

Svarið var: “Nei, við þurfum einungis að bíða hér stutta stund. Að baki okkar er hár gígur. Hann ekki sést núna, en þegar rofar til sjáum við hann og finnum við leiðina að hellinum Ferli.” Við höfðum gengið í þrjár klukkustundir.
Ekki var að sökum að spyrja; þokunni létti. Við sátum undir gígnum umtalaða.
Stefnan var tekin niður að hellisopinu. Þegar inn var komið tók Calotta upp vasaljós og myndaði innvolsið á Iphone og spurði: “Hvar er græna stöffið?”
Við horfðum á hana – og síðan hvort á annað. Hún virtist ólíkleg til árangursríks klifurs eða skriðs um þröngar rásirnar.

Ferlir

Ferlir – Carlotta skoðar sig um í hellinum.

“Græna stöffið er innan við rás á efri hæð hellisins. Til þess að komast þangað þarftu að klifra þangað upp og skríða síðan um þrönga rás uns hún opnast í neðanverðum gangi. Innan við hann er uppgangur. Í honum er stöffið.”
Eftir svolitla umhugsun kvaðst Carlotta hvorki treysta sér í klifrið né í skriðið. Samkomulag náðist loks um að Alda tæki með sér tölvuna hennar, klifraði upp í rásina og næði á hana eftirsóknarverðum myndum. Þetta gekk eftir með tilheyrandi biðtíma, enda ferðalagið um ofanverð göngin allt annað en auðvelt. “Græna stöffið” er lítill marglitur hraunfoss innst í einni rásinni, sem fyrr sagði. Nýbráðið bergið hafði náð að storkna þar áður en upprunalegu litir þess blönduðust og mynduðu hinn venjulega súpugráa hraunlit. Fyrirbærið er í rauninni einstakt á heimsvísu og vel þess virði að leggja á sig ferðalag til að berja það augum – treysti fólk sér til þess. Eitt er þó að rata inn og annað að finna leiðina til baka um ranghalana!

Ferlir

Hellisopið.

Þegar út úr hellinum var komið var um tvær leiðir að velja; að ganga til baka upp þokukenndar hlíðar Brennisteinsfjalla eða niður með augljósum hlíðum Vörðufells og Sandfells um Lyngskjöld að Suðurstrandarvegi.
Ákveðið var að halda áfram niður á við til suðurs. Eftir stutta göngu sagðist Carlotta ekki geta gengið lengra. Hún væri komin með gamalreyndan verk í mjöðm. Hún hefði fengið slíkan verk áður og þá fengið viðeigandi lyf er virkaði, en það gleymdist á hótelherberginu.

Ferlir

Leiðin að “græna stöffinu”.

Nú voru góð ráð rándýr. Tveir möguleikar voru í boði; annars vegar að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar eða halda áfram á fæti.
Ég byrjaði á að taka bakpokann af Carlottu. Sá virtist óvenju þungur. Kíkti í pokann. Í ljós kom m.a. stórt vasaljós og tugir þungra rafhlaða, sem hún hafði fengið í fararteski hjá ferðaþjónustunni. Ákvað að axla pokann á annarri og styðja Carlottu með hinni, fetandi sporið í rólegheitunum með hana kvartandi áleiðis niður að Lyngskyldi. Carlotta var nokkrum sinni komin að því að gefast endanlega upp. Þykkur mosinn í hæðum og lægðum var torfær og allt annað en auðveldur yfirferðar. Við settumst því niður með jöfnu millibili. Alda ákvað að taka þungan bakpokann á bakið og halda ein áfram áleiðis niður að bílnum utar við Suðurstrandarveginn og færa hann mun nær þeim stað á veginum sem okkar var að vænta.

Regnbogi

Hluti regnbogans.

Ég bauð Carlottu göngustafinn Staðfast til stuðnings. Hún var í fyrstu treg til en þáði loks boðið og studdi sig dyggilega við hann í framhaldinu. Saman tókst okkur þannig, fet fyrir fet, að komast yfir mosahraunið og niður að Lyngskyldi. Ofan af brúninni sást til sjávar á annars bjartri sumarnóttunni. Handan við ströndina lék marglitur regnbogi alls kyns listir í næturskímunni.
Carlotta sat um stund þegjandi yfir dásemdinni, stóð síðan upp á báðum fótum og sagði þetta vera óútskýranlegt tákn um að hún væri hólpin. Almættið hefði brosað til hennar.
Við komust niður af Lyngskyldi 12 klukkustundum eftir að við lögðum á Kerlingarskarðið handan fjallanna.
Bæði vasaljósi og öllum rafhlöðunum var skilað á skrifstofu ferðaþjónustunnar tveimur dögum síðar. Björn var ekki við.  Aldrei hefur verið rukkað fyrir ómakið. – ÓSÁ

Ferlir

“Græna stöffið”.