Sveifluháls

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.

Í Gvendarhelli

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli). Formaður Ferðafélags Grindavíkur, Erling Einarsson, skoðar aðstæður.

Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og stuttum kyrrsetum þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta svolítið í kringum sig – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi. Umræðan um svonefnt “Burn out”; úti í heimi, nú túlkað sem “kulnun í starfi”, hafði þá verið til umræðu, án þess þó að njóta sérstakrar athygli annarra stétta hér á landi á þeim tíma. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast).

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd í frábæru veðri.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, -bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar – kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða.

Forn

Húshólmi – skáli.

Allt frá fornum minjum um búsetu frá upphafi norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfagur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Ferlir

FERLIRsfélaga á göngu um ofanverð Hraunin í frábæru veðri.

Til að gera alllanga sögu mjög stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 3300 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa.

Ferlir

Ferlir á ferð um vetur á Sveifluhálsi.

Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks, sem miðlar hefur fróðleik og sértæka vitneskju um einstök svæði. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar.

Ferð

Undirbúningur næstu ferðar.

Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð upplýsingar á afmörkuðum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið.

Ferlir

Reynir Sveinsson miðlar fróðleik við Hvalsneskirkju.

Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins, Ferðamálafélags Grindavíkur, kirkjuverði, skólastjórnendur, innfædda leiðsögumenn og margra fleiri á ferðum sínum. Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík. Ólafur Ólafsson, var sérstaklega áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar voru innan umdæmisins.

Uppgötvanir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjölum.

Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregin upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum.

Selatangar

FERLIRsfélagar á Selatöngum.

Ágætt samstarf var við Örnefnastofnun á meðan hún var og hét. Naut stofnunin góðs að því með því að fá afrit af örnefnakortum er gjörð voru. Viðtöl hafa og verið tekin við fólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar og hvað var gert á hverjum stað.
Afraksturinn má nú sjá hér á vefsíðunni… 

Ganga

Gengið um Sveifluháls – í frábæru veðri.