Gengið var upp með Gullbringu yfir að Hvannahrauni og spölkorn norður eftir gömlu þjóðleiðinni að Vatnshlíð. U.þ.b. í miðju hrauninu var haldið til austurs upp hraunið og komið staðnæmst við op á löngum helli, sem þar er. Í honum er m.a. halið bæli er bendir til þess að hann hafi verið notaður sem athvarf, t.s. fólks sem átti leið um þessa gömlu þjóðleið.
Hellirinn var ekki skoðaður að þessu sinni heldur haldið á hlíðina, austur með norðanverðu Vörðufelli og áfram upp að Eldborg. Staldrað var við á hrikalegri gígbrúninni með útsýni um svo til allt vestanvert Reykjanesið. Sást vel yfir að Hvirfli, Grindarskarðshnjúkum og Syðstubollum í norðri, Æsubúðum í suðri og yfir Sveifluhálsinn, Núpshlíðarhálsinn, Keilir, Fagradalsfjall, Þórðafell og Súlur í vestri. Haldið var niður með Eldborginni og í Brennisteinsfjöll austan við Kistufell. Á leiðinni blasti hinn formfagri Kistudalur við á vinstri hönd. Þegar komið var niður í hlíðina suðaustan undir Kistufelli sást flugvélabrak dreift um urðina, stór hreyfill, vænghluti og skrokkhluti skammt frá. Í hraunrás sáust skrúfublöðin í mosanum. Sagt er frá flugslysi þessu í Flugsögu Íslands.
Skýjabakki stefndi inn yfir landið úr austri. Ákveðið var að halda suður með Brennisteinsfjöllum – með hlíðina á hægri hönd og hrikalegt hraunið á vinstri hönd. Morgunsólin varpaði þarna sérstakri birtu á umhverfið svo það var í rauninu engu líkt. Í einu orði sagt var frábært að standa þarna við þessar aðstæður. Áður en komið var á móts við Vörðufellið var haldið þaðan til vesturs og komið niður að Gullbringu í þá mund er regnið byrjaði að láta vita af sér.
Gangan tók rúmlega 4 klst. Frábært veður.