Gullbringuhellir

Gengið var upp með Gullbringu yfir að Hvannahrauni og spölkorn norður eftir gömlu þjóðleiðinni að Vatnshlíð. U.þ.b. í miðju hrauninu var haldið til austurs upp hraunið og komið staðnæmst við op á löngum helli, sem þar er. Í honum er m.a. halið bæli er bendir til þess að hann hafi verið notaður sem athvarf, t.s. fólks sem átti leið um þessa gömlu þjóðleið.

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Hellirinn var ekki skoðaður að þessu sinni heldur haldið á hlíðina, austur með norðanverðu Vörðufelli og áfram upp að Eldborg. Staldrað var við á hrikalegri gígbrúninni með útsýni um svo til allt vestanvert Reykjanesið. Sást vel yfir að Hvirfli, Grindarskarðshnjúkum og Syðstubollum í norðri, Æsubúðum í suðri og yfir Sveifluhálsinn, Núpshlíðarhálsinn, Keilir, Fagradalsfjall, Þórðafell og Súlur í vestri. Haldið var niður með Eldborginni og í Brennisteinsfjöll austan við Kistufell. Á leiðinni blasti hinn formfagri Kistudalur við á vinstri hönd. Þegar komið var niður í hlíðina suðaustan undir Kistufelli sást flugvélabrak dreift um urðina, stór hreyfill, vænghluti og skrokkhluti skammt frá. Í hraunrás sáust skrúfublöðin í mosanum. Sagt er frá flugslysi þessu í Flugsögu Íslands.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Skýjabakki stefndi inn yfir landið úr austri. Ákveðið var að halda suður með Brennisteinsfjöllum – með hlíðina á hægri hönd og hrikalegt hraunið á vinstri hönd. Morgunsólin varpaði þarna sérstakri birtu á umhverfið svo það var í rauninu engu líkt. Í einu orði sagt var frábært að standa þarna við þessar aðstæður. Áður en komið var á móts við Vörðufellið var haldið þaðan til vesturs og komið niður að Gullbringu í þá mund er regnið byrjaði að láta vita af sér.
Gangan tók rúmlega 4 klst. Frábært veður.

Gullbringuhellir

Í Gullbringuhelli.