Færslur

Kleifarvatn

Svo er talið, að Ögmundarhraun hafi runnið (eða brunnið, eins og Snorri goði mundi hafa orðað það) um miðja 14. öld.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Um stað þann, sem nú er kallaður Húshólmi, þar sem er miklu eldra hraun undir gróðrinum en Ögmundarhraun er, hefur hraunstraumurinn klofnað. Hefur önnur álman runnið fyrir vestan hólma þennan, en hin fyrir austan hann og báðar beint í sæ út. Rétt austan við vestari hrauntunguna eru bæjarrústir nokkrar, og er auðsætt, að eitthvað af húsunum hefur orðið undir hraunstraumnum.

Húshólmi

Vísan á Húshólmastíg.

Er og almennt álitið, að þarna hafi bærinn Krýsuvík upphaflega staðið, enda lítt hugsanlegt, að bænum hafi verið valið víkurnafnið, ef hann hefði frá öndverðu verið þar, sem hann nú er, nálega hálfa fimm kílómetra frá sjó, enda ekki um neina vík neins staðar að ræða. Bæjarrústir þessar eru og enn þann dag í dag jafnan nefndar gamla Krýsuvík eða Krýsuvík hin forna. Suður og suðvestur af bæjarrústum þessum verður lægð nokkur í hraunstrauminn, og álíta sumir, að einmitt þar hafi víkin sjálf verið, sú er bærinn dró nafn sitt af rétt vestan við Húshólmann við Húshólmafjöruna. Kirkjuflöt heitir og rétt hjá rústunum.

Húshólmi

Húshólmi – minjar.

Ráðleggja mætti þeim, sem skoða vildu tóftarbrot þessi og vinna sé það á sem auðveldastan hátt, að fara í bifreið úr Grindavík austur fyrir Ögmundarhraun, (akstur eins og vegurinn er nú), ganga síðan suður með austurjarðri hraunsins, þar til komið er að stíg þeim, sem liggur yfir eystri hraunálmuna út í Húshólmann, þar til komið er að bæjarrústunum. Mun ganga þessi vara eina klukkustund, þótt ekki sé allrösklega farið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér, enda ekki leikmönnum hent að leggja þar orð í belg.

Víti

Víti.

Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Nýjaland

Nýjaland.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland – tóft.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði.

Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetrarengi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Á korti herforingjaráðsins er nafnið Ketilstígur sett fram með Sveifluhálsi að norðvestan, en það er ekki nákvæmt, því að Ketilsstígur heitir aðeins sá hluti þeirrar leiðar, sem liggur upp á Sveifluháls að Norðanverðu, og er stígur þessi innan í gömlum gíg, sem kallast Ketill.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Austur og suðaustur af Arnarfelli er mýrarfláki, stór nokkuð, sem kallast Bleiksmýri, og var þar mikill áfangastaður á þeim tímum, sem þeir Árnesingar og Rangæingar fóru skreiðarferðir til verstöðvanna á Reykjanesskaga. Mátti einatt sjá marga tugi eða jafnvel nokkur hundruð hesta á Bleiksmýri í einu og fjöldi tjalda, þegar hæst stóðu lestaferðirnar. Mun og mörgum hestinum hafa þótt gott að koma í Bleiksmýri úr hagleysinu og vatnsskortinum á Reykjanesskaganum. Var og ekki óalgengt að menn lægju þar einn og tvo daga til þess að hestar þeirra fengju sem besta fylli sína, áður en lengra var haldið.

Víða í hraununum á Reykjanesskaga, eins og reyndar víðar á landi hér, getur að líta nokkuð djúpa götutroðninga í hraunhellunum eftir margra alda umferð. Má þar um segja: “Enn þá sjást í hellum hófaförin.”

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Í Ögmundarhrauni mynduðust holur með þröskuldum á milli, og var hver hola um eitt fet í þvermál og hnédjúp hestum, og í rigningatíð stóðu holur þessar fullar af vatni. Fyrir nokkrum áratugum var gerð vegabót nokkur í Ögmundarhrauni, og holur þessar fylltar upp. Í gamalli og alþekktri vísu segir svo:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
fáka meiða fæturna
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg vestast undir Geitahlíð.

Þrjá til fjóra kílómetra austur frá bænum í Krýsuvík er Eldborgin, og svipar henni að mörgu leyti til nöfnu sinnar í Hnappadalssýslu – þeirrar, sem Hendersen gerði víðfræga með teikningu sinni. Skarð það, er verður millum Eldborgar og Geitahlíðar, heitir Deildarháls, og liggur alfaravegurinn yfir hann.
Dr. Þorvaldur Thoroddsen taldi gíginn í Eldborg vera 500 fet að ummáli að ofan og 105 á dýpt, en hæð fellsins telur hann 172 fet. Meinaði hann þar eflaust hæð Eldborgarinnar yfir jarðlendinu umhverfis hana, því að á korti herforingjaráðsins er hæð hennar yfir sjávarmáli talin 180 metrar.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Efst í Geitahlíð er og gígur mikill, en hann er eldri en síðasta jökulöld, eins og reyndar hlíðin öll er. Barma gígs þessa ber hærra en aðra hluta Geitahlíðar, er heita Æsubúðir. Niður af Æsubúðum, en sunnan í Geitahlíð, verður hvammur sá, er kallast Hvítskeggshvammur eða Hvítskeifshvammur, og er til prentuð þjóðsaga um þessi örnefni, en eigi er sú sögn allsennileg.
Skammt fyrir austan Deildarháls og hvamm þennan eru Kerlingar (sagan um Krýs og Herdísi), Bálkahellir (lítt eða ekki kannaður), Gvendarhellir (bóndi í Krýsuvíkurhverfinu, Guðmundur að nafni, hýsti fé sitt í þessum helli þá er harðindi gengu, líklega á fyrri hluta 19. aldar), og Kerið á Keflavík (uppi á 6 metra háum hamri ofan við Keflavík er op, Kerið, niður í flæðamál).

Austurengjahver

Austurengjahver.

Leirhverin mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, virðist ekki þurfa að velkja það lengi fyrir sér, að endur fyrir löngu hafi þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist, haustið 1924. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurnegjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.

Arnarfellstjörn

Arnarfellstjörn.

Ekki skal hér rætt um breinnisteininn í Krýsuvík né þann í Brennisteinsfjöllunum, enda eru Brennisteinsfjöllin austan sýslumarkanna og því í Herdísarvíkurlandi.
Þess hefur orðið vart, að sumir menn halda, að örnefnið Víti sé hver, en svo er eigi. Víti er hraunfoss, sem fallið hefur vestur af hálendisbrún þeirri, sem verður norður af Geitahlíð, og er hraunfoss þessi sennilega á svipuðum aldri og Ögmundarhraun. Hann er nú storknaður fyrir löngu og allur gróinn þykkum grámosa.

Dysjar

Dysjar Herdísar, Krýsu og smalans í Kerlingadal.

Eiríksvarða á Arnarfelli er vel þekkt úr þjóðsögum, sem segja, að séra Eríkur Magnússon, hinn fjölkunnugi Vogsósaklerkur, hafi hlaðið hana og mælt svo um, að aldrei skyldu Tyrkir koma í Krýsuvík meðan varðan stæði uppi. Nú er varðan hrunin, næstum í grunn, en Bandaríkjamenn komu í Krýsuvík, þegar seta þeirra í landinu hófst.
Vestan í Geitahlíð og skammt fyrir neðan fjallsbrúnina sjálfa leggur jafnan á vetrum þykka fönn, langa en ekki breiða. Er fönn þessi sjaldan horfin með öllu fyrr en um Jónsmessu, og dregur hún nafn sitt af því.
Krýsuvík hefu lengi verið talin einhver mesta útigöngujörð fyrir sauðfé á landi hér, einkum þó þeirra jarða, sem ekki hafa fjörubeit, og ekki var það ótítt að sumt féð þar lærði aldrei átið.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.
Mótak er þar sums staðar í mýrunum, en ekki þykir mórinn þar góður til eldsneytis. Er hann allur mjög blandinn hveraleir, svo að af sumum kögglunum leggur brennisteinslyktina, þegar þeim er brennt.
Fremur þykir vera þokusamt í Þrýsuvík og lengi hefu verið við brugðið, hversu myrk þokan geti orðið þar. Er það haft eftir manni nokkrum, að eitt sinn hafi hann verið á ferð um Sveifluháls í svo miklu myrkviðri, að hann hafi séð þokuna sitja í olnbogabótinni á sér. Rigningasamt í meira lagi þykir og vera þar, svo einatt er þurrviðri í næstu byggðarlögum, þótt rigning sé í Krýsuvík.

-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.

Gullbringa

Gullbringa.

Gullbringuhellir

Gengið var frá Herdísarvíkuvegi að Geitahlíð og síðan áfram norður með henni að Vegghömrum. Hamrabeltið er bæði fagurt og skjólsælt. Grösugt er undir veggjunum, en hvergi bar á minjum eða tóftum.

 Vegghamar

Vegghamar.

Þegar yfir hálsinn norðan Vegghamars var komið tóku við “tunglummyndað” umhverfi. Þangað komu t.a.m. til æfinga fyrstu bandarísku geimfararnir er stigu fæti á tunglið og þarna var tekin íslensk kvikmynd í árdaga innlendrar kvikmyndaleikgerðar er gerast átti að hluta til á tunglinu. Í henni eru m.a. myndskeið þar sem börn flækjast í kóngulóarvef og dýrið, risastórt, sækir að þeim. Enn má sjá slitrur úr “vefnum”, sem var úr girni, á móbergsklöppunum við einn skútann.

Kleifarvatn

Á ferð við Kleifarvatn.

Kálfadalir tóku við eftir skamma göngu. Þeir skiptast í tvennt. Á milli þeirra er þröngt gil, sem auðvelt er að ganga um. Niður í syðri dalinn hefur runnið mikil og myndarlegur hraunfoss niður Kálfadalahlíðarnar að austanverðu og skipt þeim hluta dalsins svo til í tvennt. Hraunið kom úr gígunum norðan við Æsubúðir, en þeir eru nokkrir þarna uppi á hraunsléttunni austan við dalina. Gróðurrönd er með hlíðinni að vestanverðu, en annars fyllir hraunið syðri dalinn að mestu leyti. Nyrst er hann þó grósugur, enda hraunið ekki náð þangað. Þegar komið var í gegnum gilið tók við nyrðri hluti Kálfadala, gróðurvænn og skjólgóður.

Kálfadalir

Í Kálfadölum.

Framundan blasti Gullbringan við (eins og hún er merkt á landakortum) austan við Kleifarvatnið. Aðrir segja að Gullbringa sé heiti á hlíðinni austan og ofan við sandfjallið, sem ber þetta nafn. Nafnið hafi komið til vegna þess þegar sólin er að setjast á bak við Sveifluhálsinn slái stundum gylltum roða á hlíðina alla. FERLIRsfélagar hafa nokkrum sinnum orðið vitni af því í kvöldferðum sínum um svæðið.

Þegar upp á Gullbringu var komið sáust vel verksummerki eftir jarðskjálftan 17. júní árið 2000. Stórum steinum hafði verið kastað upp á kollinum og þeir snúist við á leið niður. Mosinn, sem eitt sinn hafði verið ofan á steinunum var nú ýmist undir þeim eða á hlið. Sólin var að setjast á bak við Hádegishnúk og bjarma sló á hlíðina að baki. Hárnákvæm tímasetning á toppnum. Kleifarvatn spegilslétt fyrir neðan.

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Gengið var niður af Gullbringu að norðanverðu og kíkt ofan í helli, sem þar er (Gullbringuhelli). Í honum er hlaðið bæli. Rás liggur lengra inn eftir, en þrengist. Svo virðist sem hún víkki á ný þegar innar dregur. Hún var ekki skoðuð nánar að þessu sinni. Hellisopið er við gömlu þjóðleiðina frá Krýsuvík yfir Hvammahraunið (Hvannahraun). Götunni var fylgt yfir úfið hraunið á kafla, en hún er vel greinileg þangað til yfir er komið. Handan þess gerist hún ógreinileg vegna jarðvegseyðingar. Gengið var framhjá veglegum kletti, sem hafði margsprungið við skjálftann.

Fagridalur

Fagridalur.

Haldið var norður með hlíðinni og síðan haldið upp á háhæðina ofan við Vatnshlíðarhornið og stefnan tekin á Fagradal. Yfir grjótbarinn berangur er að fara sem og mosaþembur á stangli. Gatan niður hlíðina er í breiðum hraunfossi, sem runnið hefur þar niður í Fagradal. Fagradalsmúlinn er handan við, en leiðin niður liggur í hlykkjum og er nokkuð greiðfær. Þegar niður í dalinn var komið tók við gróið sléttlendi og síðasti spölurinn að endastöðinni því vel greiðfær yfirferðar.
Frábært veður. Sól og kyrrviðri. Gangan tók 7 klst og 21 mín.

Vegghamar

Vegghamar.

Gullbringuhellir

Gengið var upp með Gullbringu yfir að Hvannahrauni og spölkorn norður eftir gömlu þjóðleiðinni að Vatnshlíð. U.þ.b. í miðju hrauninu var haldið til austurs upp hraunið og komið staðnæmst við op á löngum helli, sem þar er. Í honum er m.a. halið bæli er bendir til þess að hann hafi verið notaður sem athvarf, t.s. fólks sem átti leið um þessa gömlu þjóðleið.

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Hellirinn var ekki skoðaður að þessu sinni heldur haldið á hlíðina, austur með norðanverðu Vörðufelli og áfram upp að Eldborg. Staldrað var við á hrikalegri gígbrúninni með útsýni um svo til allt vestanvert Reykjanesið. Sást vel yfir að Hvirfli, Grindarskarðshnjúkum og Syðstubollum í norðri, Æsubúðum í suðri og yfir Sveifluhálsinn, Núpshlíðarhálsinn, Keilir, Fagradalsfjall, Þórðafell og Súlur í vestri. Haldið var niður með Eldborginni og í Brennisteinsfjöll austan við Kistufell. Á leiðinni blasti hinn formfagri Kistudalur við á vinstri hönd. Þegar komið var niður í hlíðina suðaustan undir Kistufelli sást flugvélabrak dreift um urðina, stór hreyfill, vænghluti og skrokkhluti skammt frá. Í hraunrás sáust skrúfublöðin í mosanum. Sagt er frá flugslysi þessu í Flugsögu Íslands.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Skýjabakki stefndi inn yfir landið úr austri. Ákveðið var að halda suður með Brennisteinsfjöllum – með hlíðina á hægri hönd og hrikalegt hraunið á vinstri hönd. Morgunsólin varpaði þarna sérstakri birtu á umhverfið svo það var í rauninu engu líkt. Í einu orði sagt var frábært að standa þarna við þessar aðstæður. Áður en komið var á móts við Vörðufellið var haldið þaðan til vesturs og komið niður að Gullbringu í þá mund er regnið byrjaði að láta vita af sér.
Gangan tók rúmlega 4 klst. Frábært veður.

Gullbringuhellir

Í Gullbringuhelli.

Lambhagarétt

Gengið var frá Vatnsskarði og áleiðis umhverfis Kleifarvatn; um Sveifluháls, Hellutinda, Stapatinda, Miðdegishnúk (Hádegishnúk), gengið niður að Kaldrana, elstu minjum í ofanverðri Krýsuvík að talið er, austur með sunnanverðu vatninu ofan við Hvamma, undir Geithöfða, til norðurs vestan Gullbringu og yfir Hvammahraun með viðkomu í Gullbringuhelli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Þá var gengið með vatninu undir Vatnshlíðinni, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegur möguleiki. En skýring er þó á því, eins og flestu öðru. Þá var haldið vestur um Lambhaga, litið á rétt og athvarf smala fyrrum, og síðan gengið áfram eftir eyðinu milli Lambhagatjarnar og Kleifarvatns norðan þess, uns staðnæmst var við hellisskútann undir Hellunni. Fagurt útsýni var yfir Kleifarvatn alla gönguna. Á leiðinni var rifjaður upp ýmiss fróðleikur um vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli, a.m.k. ekki ofanjarðar. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, þannig að veiði (er) var um tíma ágæt. Sumir telja að besti veiðistaðurinn er syðst í vatninu þar sem heitt jarðvatn frá hverasvæðum sytrar út í vatnið, en reyndir veiðimenn vita að besti veiðistaðurinn er undan norðanverðu Hvannahrauni (Hvammahrauni) austan við vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hveravolgrur.

Kleifarvatn er mjög kalt frá náttúrunnar hendi, en volgrur þessar skapa bleikjunni ákjósanleg skilyrði. Eldbrunnið og hrjóstrugt umhverfi vatnsins er bæði sérstakt og fagurt. Í jarskjálftunum 17. og 21. júní 2000 opnuðust sprungur á vatnsbotninum og vatnsborðið lækkaði verulega, en byrjaði að hækka aftur árið 2004.

Krýsuvíkurland sunnan Kleifarvatns tilheyrir landi Hafnarfjarðar, sem í rauninni er forgangssök því í vitund landvætta vorra tilheyrir það umdæmi Grindavíkur. Núverandi ráðstöfun er afleiðing klækja mannanna í valdastöðum þess tíma.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Umhverfisráðuneytið ákvað ekki alls fyrir löngu að veita Náttúrufræðistofu Kópavogs 300.000 kr. styrk vegna fyrirhugaðra lífríkisrannsókna á Kleifarvatni. Ástæðan er sú að Kleifarvatn er afskaplega áhugavert vatn. Það er mjög djúpt og tært, í því er verulegur jarðhiti, það er án afrennslis á yfirborði og í því geta orðið verulegar vatnsborðssveiflur. Þrátt fyrir þetta hafa litlar rannsóknir farið fram á lífríki þess og vistkerfi. Fróðlegt verður að skoða niðursstöðurnar þá og þegar þær liggja fyrir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vatnsyfirborð 2000-2004 (Vatnamælingar Orkustofnunar).

Vatnið er (var og er þess á milli) þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97 m djúpt. Það hefur lítilsháttar aðrennsli en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Jarðhitinn er einkum syðst í vatninu og einnig út af Innristapa.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sést þar endrum og eins. Á það að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð.

Sveifluháls

FERLIR á Sveifluhálsi 17. júní 2000.

Síðan í jarðskjálftanum mikla (þeir reyndust vera tveir) í júní 200 lækkaði vatnsborð Kleifarvatns um 4 metra. Sprungur í vatnsbotninum opnuðust í Suðurlandsskjálftanum sem svo var nefndur og olli auknum leka úr vatninu. Við lækkaði vatnsborðið og flatarmál Kleifarvatns minnkaði um 20% eða úr 10 km2 í 8 km2, og sandur og leir, sem áður var undir vatnsborðinu, varð nú á þurru. Tanginn norðan í vatninu, undan Lambhagatanga, kom upp úr undirdjúpunum og þurrgegnt varð með vatninu að norðaustanverðu.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

FERLIR var staddur á Sveifluhálsi er jarðskjálftarnir riðu yfir 17. júni 2000 með nokkurra mínútna millibili. Fyrst heyrðist vaxandi hvinur úr suðri og siðan má segja með sanni að Sveifluhálsinn hafi risið undir nafni; hann gekk í bylgjum líkt og um öldugang væri um að ræða. Í kjölfarið fylgdi annar og öflugri jarðskjálfti, beint undir fótum. Þá var eins og lamið væri með sleggju upp undir yfirborðið. Grjót hrundi úr nærliggjandi hlíðum í báðum tilvikum, en þegar einn félaganna horfði niður á skóna sína tók hann eftir að þeir voru hálfgrafnir í sendinn jarðveginn.
Síðastliðið hálft ár hefur vatnshæð Kleifarvatns verið nokkuð stöðugt, en hefur þó sveiflast með veðurfari að venju, hækkað við úrkomu, en lækkað í þurrkatíð.
Ef til vill er Kleifarvatn að ná jafnvægi við grunnvatni en of snemmt er að fyllyrða að ekki lækki meira í Kleifarvatni að sinni. Vatnsborð Kleifarvatns mun smám saman þéttast á ný með leir og öðru seti, og vatnsborððið hækka. Það mun þó taka Kleifarvatn ár eða áratugi að ná þeirri vatnshæð, sem var fyrir Suðurlandskjálftann í júní 2000.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja í sprungustefnu landsins NA-SV. Við vatnsborðshæð 140 m y.s. er meðaldýpi þess 29,1 m, flatarmál Kleifarvatns 10 km2, sem fyrr sagði, og rúmmál þess er 290 Gl. Nú er vatnsborðshæðin 136,3 m y.s., flatarmálið er um 8 km2 og rúmmál þess hefur minnkað niður í um 255 Gl.
Aðrennsli í vatnið á yfirborði er nokkrir smá lækir að sunnanverðu. Auk þess rennur úr hlíðunum í kring í rigningu og er snjó leysir á vorin. Kleifarvatn er að öðru leyti afrennslislaust á yfirborði og gert hefur verið ráð fyrir að vatnsborðið falli saman við grunnvatnsflötinn í umhverfinu og sé háð sömu sveiflum og hann, en rannsaka þarf nánar tengsl þess við grunnvatn í nágrenninu. Kleifarvatn hefur um allnokkurt skeið verið notað sem úrkomumælir á suðvesturlandi. Mælirinn er (var) í litlu húsi vestan við vatnið, undir Hellunni.

Kaldrani

Kleifarvatn.

Kleifarvatn liggur í djúpri dæld milli tveggja móbergshryggja. Vatnsbotn Kleifarvatns hefur þéttst í áranna rás með leir og öðru seti. Lekt vatnsbotnsins var því minni en jarðlaganna í kring og því stóð vatnsborðið hærra en grunnvatnið. Þegar sprungur opnast í botni Kleifarvatns þá breytist lekt þ.e. viðnám jarðlaganna og vatnið hripar niður um sprungurnar. Smám saman nær Kleifarvatn á ný jafnvægi við grunnvatnið í kring, sem fyrr segir.
Af nálægum ummerkjum að dæma hefur Kleifarvatn einhverju sinni, jafnvel oftar en einu sinni, risið hærra en þekkist. Þegar grant er skoðað má lesa lækjarfarveg til suðurs frá vatninu. Fremst varð Nýjaland til með tilheyrandi afleiðingum fyrir hinn mikla dyngjugýg norðan Stóra-Lambafells. Farvegurinn hefur legið yfir núverandi Grænavatn og mótað landslagið allt niður á Krýsuvíkurberg.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indjáninn.

Kleifarvatn er án afrennslis á yfirborði. Fyrir jarðskjálftana árið 2000 rann lækur úr vatninu norður í Lambhagatjörn og seig vatnið þaðan í gegnum móbergshryggina og hraunin til sjávar norður í Straumsvík. Sumarið 2000 opnaðist 20-40 cm víð sprunga við norðurenda vatnsins og þar streymir vatnið niður. Tvö hverasvæði hafa síðan komið í ljós suðurenda vatnsins og nú er manngengt í hella í Syðristapa sem áður voru í vatnsborðinu

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Í gegnum tíðina hefur Kleifarvatn verið vinsæll köfunarstaður. Í vatninu eru nefnilega góðar aðstæður fyrir þá sem eru að læra eða hafa lokið námskeiði og vilja æfa sig. Vatnið er frekar tært svona 10-15 metrar og skyggnið breytist ekki líkt og það gerir í sjónum. Þess vegna geta kafarar nánast alltaf gengið að aðstæðum vísum. Þó bera að geta þess að í miklum vindum og þá sérstaklega í austanátt getur vatnið átt það til að gára og öldurnar verða þó nokkuð háar í slíkum aðstæðum. Gallinn við vatnið er sá að dýralíf í því er fábreytt. Þarna eru stangveiðar algengar en að sjá fiska undir ydirborðinu er sjaldgæfara. Köfurum finnst það því hálfpartinn skrítið að nokkuð veiðist þarna yfirleitt.
Eflaust er besti köfunarstaðurinn staðsettur við Indjánann en það er auðþekkjanlegur steinstapi sem stendur við Stefánshöfða. Indíáninn fer ekki á milli mála þegar komið er á staðinn því ef hann er grannt skoðaður má sjá andlitsmynd í honum sem svipar til indíána. Piltar á leið í Vinnuskólann í Krýsuvík um og eftir 1960 höfðu jafnan það að venju að reka upp indíánaöskur í rútunni þegar ekið var fram hjá steinstöpli þessum – svona til að minna á að nú væri komið að því að takast á við viðfangsefni sumarsins.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – köfun.

Botn vatnsins er sandbotn og þegar komið er u.þ.b 60 metra frá landi fer þessi botn að breytast í gróðursælan botn allt að brekkunni sem liggur niður á hyldýpi eða um 97 metrana, en hún er aurbrekka sem auðvelt er að þyrla upp.
Fræg skáldsaga ber nafn vatnsins. Kleifarvatn er áttunda skáldsaga Arnaldar Indriðasonar. Bækur hans hafa notið gríðarlegra vinsælda og verið þaulsætnar á mestöluslistum hér heima og erlendis á undanförnum árum og tvö ár í röð hlaut Arnaldur Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina og Grafarþögn. Kleifarvatn gefur bestu bókum hans ekkert eftir. Hún fjallar m.a. um beinagrind, sem fannst í vatninu er lækkaði í því í kjölfar jarðskjálfta.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Um Kleifarvatn gengu þó enn þá fleiri sögur. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni. 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

Kleifarvatn

Kleifarvatn að kvöldi.

Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Stefánshöfði

Stefánshöfði – minningarskjöldur.

Stefán Stefánsson var kunnastur leiðsögumaður útlendra ferðamanna á landi hér. Hann gerþekkti landið af löngum ferðalögum á hestum hvert einasta sumar. Þó mun Krýsuvík hafa verið honum kærari en flestir aðrir staðir. Við Kleifarvatn hefur skjöldur verið felldur í klett til minningar um hann og höfði, áður Innristapi, verið nefndur eftir honum. Á þeim stað var ösku hans dreift út á vatnið að fyrirlagi hans sjálfs.
Kaldrani er talinn elstur bæja í Krýsuvík. Honum tengist þjóðsagan af Herdísi og Krýsu, sem gerð hefur verið góð skil í annarri leiðarlýsingu um svæðið sunnan og austan undir Stóru-Eldborg. Enn má sjá móta fyrir garðlagi og jafnvel tóftum undir lítilli hæð neðan við einn gíganna, sem þarna eru. Í þeim er friðlýsingarmerki Þjóðminjasafnsins.

Kleifarvatn

Ytristapi, öðru nafni Stefánshöfði.

Stefán Stefánsson sagði í skrifum sínum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.
Sá hluti af Krýsuvíkurengjunum, sem lægst liggur og næst vatninu að sunnan, heitir Nýjaland (hið inna og fremra). Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjasvæði þessi liggja oft svo árum skiptir í senn undir ágangi Kleifarvatns, en mjór malarhryggur, sem gengur til vesturs frá norðurenda Hvammholtsins, skiptir Nýjalandinu í tvennt, hið innra og fremra, og kallast tangi sá Rif.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Vestan við Fremralandið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, er nefnist Ós inn á Innralandið og í vatnið sjálft. Á Ósinn upptök sín að mestu á Vesturengjunum og í Seltúnshverfunum, en smálindir koma þó í hann af Austurengi, úr Hvömmunum og Lambafellum.

Nýjaland

Nýjaland.

Svo er landslagi háttað, að Fremralandið var miklu lengur slægt en hið innra, og nam sá tími einatt nokkrum sumrum. Mátti í góðu grasári heyja um sex hundruð hestburði á hvoru Nýjalandi, þegar vatnið var svo þorrið, að unnt var að slá þau bæði. Ekki er það fátítt, að stararstráin á Nýjalandi verði rúmlega álnarhá, því að oftast nær flæðir Ósinn yfir að vetraræagi, hvað sem vexti Kleifarvatns líður.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Hverir eru í vatninu, og sjást reykir nokkrir leggja upp úr því í logni, en á vetrum eru þar jafnan vakir. Sjaldan leggur vatnið fyrir vetrarsólstöður.
Þegar lítið var í vatninu, var jafnan “farið með því”, þá er sækja þurfti til Hafnarfjarðar. Lá sú leið eftir allri vesturströnd vatnsins, milli þess og Sveifluháls, þar sem seinna var gerður akvegur. Er sá vegur greiðfærari miklu og talsvert skemmri en sá að fara Ketilsstíg og síðan “með hlíðunum”.

Hellurhellir

Smiðjuhellir undir Hellunni.

Það mun mega teljast hæpið hvort örnefnið Gullbringa sé sýnt á alveg réttum stað á korti herforingjaráðsins, þar sem það er sett á hæð eina, 308 metra háa, sunnarlega í Vatnshlíðinni. Þeir, sem kunnugir eru á þessum slóðum, hafa jafnan kallað Gullbringu lyngbrekku þá, sem er vestan í Vatnshlíðinni og nær niður undir austurströnd Kleifarvatns. Ýmsir telja, að sýslan dragi nafn sitt af þessari brekku. Mætti í því sambandi benda á það, að ekki eru þeir allir fyrirferðarmiklir staðirnir á Íslandi, sem heilar sýslur draga nafn sitt af.
Leirhver mikil í Krýsuvík, sá er myndaðist við sprengjugosið, er þar varð haustið 1924 og olli landskjálftum nokkrum víða um Surðurland, er þar, sem áður var vatnshver lítill og hét Austurengjahver. Virðist svo, að leirhverinn megi og vel halda sama nafninu. Austurnegjahver, eða Stórihver, eins og hann er stundum nefndur, sést vel frá sunnanverðu Kleifarvatni.
Fúlipollur er næstum á miðjum Vesturengjum, og er hann eitthvert stærsta hverastæðið, sem til er í Krýsuvík, við Seltún. Endur fyrir löngu mun hafa þarna orðið sprengigos líkt því, er varð þá, er Austurnegjahver endurmagnaðist. Auðsætt er, að hverinn er á hrörnunarskeiði. Ýms merki virðast og benda til þess, að Austurengjahver muni ekki heldur verða neinn Ókólnir.
Vægar jarðhræringar voru ekki sjaldgæfar í Krýsuvíkurhverfinu og voru þær kallaðar hverakippir þar.”

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Árni Óla fjallar um nýja Krýsuvíkurveginn undir Hellunni. Þar segir hann m.a. að “hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.
Hér á Íslandi er vegagerð svo dýr, að nauðsyn er á að hver vegarspotti komi sem flestum að notum. En með þessu vegi virðist sú stefna þverbortin, því að þessi dýri vegur liggur um óbyggðir einar. Á allri leiðinni frá Hafnarfirði og austur í Selvog – um 50 km. – er engin byggð nema Herdísarvík. Frá Selvogi og inn í Ölfus er svo 20 km. Alls verður þá þessi nýja Suðurlandsbraut rúmir 70 km., eða snöggum mun lengri heldur en leiðin yfir Hellisheiði. En þetta á að verða vetrarvegur þegar Hellisheiði er ófær. Sumir hafa ekki mikla trú á því, að það sé miklum mun snjóléttara þarna suður í fjöllunum heldur en á Hellisheiði, og verður reynslan að skera úr því hvort réttara reynist.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

En hitt er öllum ljóst, að þetta verður dýrasta vegargerð hér á landi, þar sem ekki eru brýr á leiðinni. Í Vatnsskarðinu verður vegurinn að Keifarvatni lang dýrastur og örðugast að leggja hann. En þó voru örðuleikarnir ekkert á móts við það, sem tekur við, þegar farið er að leggja veginn meðfram vatninu að vestan.
Rétt innan við norðurlónið hefur verið reistur veitingaskáli, og það er fyrsta framkvæmdin í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Þangað sækir fólk skemmtanir um helgar á sumrin, eða safnast þar saman til að skemmta sér. Þar við vatnsbotninn þrýtur hinn lagða veg.
En þar eru tjöld í brekkunum, og hafast þar við vegavinnumenn þeir, sem vinna að því að halda veginum áfram suður með vatninu. Taka þarna þegar við klettar við vatnið og gangur ekki á öðru en sprengingum. Er klettunum rutt niður í vatnið og hafðir fyrir undirstöðu vegarins. Þetta er erfitt verk og seinlegt, því að það er svo sem ekki að það sé almennilegt grjót þarna.
Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Er það að vísu ekki nema 3 km. Leið, en þarna er eitthvert hið argvítugasta vegarstæði, sem hugsast getur.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Innristapi.

Víðast hvar er hliðhalli og verður að höggva veginn niður í móberg og móhellur, annars staðar verður að hlaða hann upp margra mannhæða háan, svo að hann verður tilsýndar þegar búið er að hlaða grjóti utan að honum, líkastur brimbrjóti eða hafnargarði. Móhellan er ekki lambið að leika sér við. Hún virðist í fljótu bragði ósköp auðunnin þar sem hægt er að tálga hana með hníf og mylja hana undir fæti. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar hún blotnar má hún heita óvinnandi. Það er svo sem sama hvaða verkfæri er þá beitt á hana. Það er eins og hún verði ólseig. Og þess vegna stendur móhellan í vegavinnumönnunum, þar sem grágrýti hefði ekki staðið þeim snúning.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Landnám 2002; Litla Grindavík numin.

Það er von að mörgum ofbjóði þessi dýra vegarlagning, Og það er hreint ekki von að mönnum geti skilist það, að samgönguerfiðleikar yfir “fjallir” á vetrum geti réttlætt það, að ráðist er í svo dýrt og tvísýnt fyrirtæki, sem þetta, allra helst þegar góður vetrarvegur er kominn yfir Mosfellsheiði og frá Þingvöllum niður í Grímsnes.”
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Gullbringa er nafn á “fjalli” austan við Kleifarvatn. Aðrir segja að það sé nafnið á hlíðinni að baki henni, enda er hún er jafnan roðagylt af kvöldsólinni þar sem hún gæist yfir og til hliðar við Miðdegishnúk á fögru sumarkvöldi. Gamla þjóðleiðin lá um Hvannahraun (Hvammahraun). Við hana er Gullbringuhellir, gott skjól í vondum veðrum. Í hellinum er flórað bæli.

Kleifarvatn

Vatnshlíðarhorn.

Í Vatnshlíðinni eru sérstakar jarðmyndanir, s.s. hraunfoss, sem “frosið” hefur efst í einu gili hennar svo undrum sætir. Undir Lambhaga er hlaðin rétt og hvíluskúti smalanna er þeir komu með féð af fjalli. Lambhagatjörni er sérstakt jarðfræðifyrirbæri, sem og skútinn undir hellunni. Hann er til kominn, líkt og skútinn bak við Indíánann, vegna ágangs vatnsins. Þeir, sem og aðrir skúta við norðanvert vatnið, eru ágætir vitnisburðir um fyrrum hærri vatnsstöðu þess, en skútarnir eru tilkomnir vegna ágangs vatns á móbergið til lengri tíma.
Skútinn undir Hellunni er brotabergskenndur, en þar mun Þorsteinn frá Hömrum við Húsatóftir haft smiðju um tíma. Smíðaði hann það fyrir vegavinnumenn og aðra það er þeir þurftu. Þá var skútinn um nokkurt skeið afdrep veghefilsstjóra, er unnu að því að bæta Krýsuvíkurveginn, enda ekki vanþörf á oft á tíðum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 05 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is/
-http://www.reykjanes.is/
-http://www.os.is/
-http://www.natkop.is/
-Úr sunnudagsblaði Tímans 2. júlí 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Sunnudagsblaði Tímans 25. júní 1967 – Stefán Stefánsson.
-Úr Landið mitt er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.
-Dulheimar 97.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – norðurljós.

Mosfellsbær

Í Sunnudagsblaðinu árið 1957 er sagt frá “Hrakningum á Mosfellsheiði fyrir einni öld“:

“Fyrir réttum hundrað árum, eða 6. marz 1857, lögðu fjórtán menn upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum og Vatnskoti og ætluðu þeir til sjóróðra hér syðra. Þegar þeir höfðu skammt farið skall á stórhríð, og urðu sex af mönnum þessum úti, en hinir komust við illan leik til bæja, aðframkomnir af þreytu, kulda og vosbúð.

Mosfellsheiði

Leirvogsvatn og nágrenni.

Frá atburði þessum er skýrt í Þjóðólfi 18. apríl 1857, og er þar birt skýrsla séra Magnúsar Grímssonar á Mosfelli um hrakninga mannanna. Fer hér á eftir skýrsla séra Magnúsar Grímssonar um þennan atburð, on hún ber yfirskriftina: “Skýrsla um hrakning og harðar farir hinna 14 sjóróðrarmanna er lögðu vestur á Mosfellsheiði 6. f.m.” — í skýrslu þessari eru að vísu ekki nafngreindir nema 13 menn.
Laugardaginn 6. marzmán. lögðu upp frá Þingvöllum og Vatnskoti, suður á leið á Mosfellsheiði, þessir menn: Egill Jónsson, bóndi á Hiálmsstöðum, Ísak bóndi á Útey. Þiðrik Þórðarson, vinnumaður á Útey, Guðmundur Pálsson bóndi á Hjálmsstöðum, Bjarni Bjarnason, vinnumaður úr Austurey, Gísli Jónsson, vinnumaður á Snorrastöðum, Jón Sigurðsson á Ketilvöllum — allir úr Miðdalssókn; úr Úthlíðarsókn: Einar Þórðarson, vinnumaður á Austurhlíð, Kristján Snorrason, vinnumaður á Anarholti, Sveinn Þorsteinsson, vinnumaður á Strillu; úr Haukadalssókn: Pétur Einarsson Jónsen og Guðmundur Jónsson vinnumenn á Múla; úr Torfastaðasókn Þorsteinn Guðmundsson, bóndason frá Kervatnsstöðum.

Mosfellsheiði

Leirvogsvatn og nágrenni.

Lögðu allir þessir 14 menn saman á heiðina og fóru frá Kárastöðum í Þingvallasveit um dagmál, í logni og sokkabandsdjúpri lausamjöll. Héldu þeir síðan áfram og voru vissir um að vera óvilltir út að Þrívörðum. Úr því kom í Vilborgarkeldu, fengu þeir langan skafrenning vel ratljósan, en skall á með þreifandi bil á norðan, eða útnorðan, við Þrívörður. Ætluðu þeir þá að hitta sæluhúsið, en gátu ekki. Vissu þeir nú ekki hvar þeir voru, en héldu þó áfram nokkuð, Oft ætluðu sig komna suður undir Gullbringur. En af því þeir voru þá orðnir villtir og þreyttir, staðnæmdust þeir þar á flatri fönn, skjóllausri, og héldu þá vera um nón. Með ófærðinni tafði það ferð þeirra á heiðinni, að sumir fóru svo fljótt að gefast upp; Guðmundur Pálsson á Hjálmsstöðum gafst fyrst upp, þegar fyrir utan Moldbrekku, af máttleysi og fótakulda. Var þá enginn svo fær að geta borið bagga hins að neinum mun, nema Sveinn, sem bar hann mikið af leið. Hinir voru þá og að smá gefast upp: urðu við það biðir á og dvalir, sem mest olli því, að þeir týndu áttunum og villtust.

Þrívörður

Þrívörður – a.m.k. ein þeirra.

Þegar um kyrrt var sezt, stóðu þeir fyrst lengi, og væntu að lygna myndi veðrið og batna, en þegar það varð ekki, fóru flestir til og grófu sig niður í fönnna, og skýldu að sér með farangrinum. Um dagsetursbil um kvöldið héldu þeir að Þorsteinn frá Kvervatnsstöðum mundi hafa dáið í fönninni af kulda og þreytu. Flestir munu hafa sofnað; aldrei þó Guðmundur, og Pétur varla neitt. Að áliðinni nóttu var farið að reka þá á fætur, sem í fönninni lágu, og gekk Pétur bezt fram í því að grafa þá upp sem mest voru fenntir og dýpst lágu, og ekki voru sjálfbjarga. Kól hann þá og skemmdist á höndum, og allir þeir, sem að þessu voru með honum. Þegar allir voru komnir upp úr fönninni, nema Þorsteinn, gátu þeir staðið með veikan mátt sumir, og fóru þá að detta niður og urðu ekki reistir upp. Voru þeir frískari þá lengi að stumra yfir hinum, sem ekki gátu bjargað sér, þangað til loks að 9 tóku sig til að fara af stað og leita byggða, en vera ekki lengur yfir hinum 5, er þeir sáu þá ekkert lífsmark með. Þeir, sem hér urðu eftir við farangurinn, voru þeir: Þorsteinn, Egill, Ísak, Jón og Þiðrik.

Illaklif

Illaklif – hellisskjól.

Eftir að þeir höfðu lengi gengið eitthvað áfram í villunni, dó Guðmundur frá Múla í höndunum á þeim. Varð þá enn staða og töf, er þeir Pétur voru að stumra yfir honum og reyna að koma honum með sér áleiðis. Þá tóku sig 5 frá og komust við veikan mátt ofan að Gullbringum til Jóhannesar Jónssonar Lúnd. Var þá enginn þeirra svo fær, að geta staðið upp hjálparlaust, þegar þeir duttu. Jóhannes tók þeim, sem föng voru á. Þegar hann frétti hvað um var, hljóp hann þegar, er hann hafði hjálpað þessum 5 úr fötunum, móti þeim 3, sem eftir voru: Pétri, Einari og Gísla á Snorrastöðum. Gekk. hann þá í braut þessara 5 inn á Geldingatjarnarhæðir, og tafðist honum að finna mennina bæði sökum kafalds, og þess, að þeir voru komnir í aðra átt en hann vænti, eftir brautinni. Loks kom hann auga á þá niður með Geldingatjarnarlæk. Stefndu þeir þá suður beint um austurhalann á Grímsmannsfelli. — Voru þeir þá mjög af sér komnir, er Jóhannes kom til þeirra, og varð hann að ganga undir Pétri heim til sín.

Illaklif

Illaklif – varða.

Af þeim 8, sem til Jóhannesar komust var Pétur lakast á sig kominn, hann var rænulaus þegar í bæinn kom, og þekkti þá ekki lagsmenn sína. Hjálpaði Jóhannes nú þessum úr fötunum, og setti þá niður í vatn og snjó að þörfum, og veitti þeim allan beina, sem hann gat. Að því búnu fór hann þegar ofan til bæja að fá menn og hesta, sem þurfti.
Um eða undir hálfbirtu á sunnudagsmorguninn lögðu mennirnir af stað þaðan sem þeir lágu um nóttina. Kl. nálega 6 komust þeir 5 til Jóhannesar, en kl. hér um bil 10 hinir 3, sem hann sótti, að því er hann segir sjálfur, en um hádegið kom hann ofan að Mosfelli.

Gamli Þingvallavegur

Sæluhúsið norðan við Þrívörður.

Allan þennan tíma, sem mennirnir voru á heiðinni, frá Þrívörðum, var hörku kafalsbilur með brunafrosti og ofsalegum vindi. Á laugardaginn sá lengi fram eftir öðru hverju til sólar, og til dags sást á sunnudagsmorguninn, þegar dagur var nokkuð hátt á loft kominn, en batnaði það, að ratljóst varð á heiðinni fram úr dagmálum. Síðan batnaði veðrið alltaf, og gjörði gott veður, nærri kafaldslaust og lygnt, fram úr hádeginu.
Undir miðmunda á sunnudag voru 8 manns neðan úr Mosfellsdalnum komnir með Jóhannesi upp í Gullbringur með 7 hesta, og þurr klæði til að sækja mennina, er þar voru. Voru þá þegar fluttir þaðan 6. Sveinn og Gísli voru langminnst kaldir; Sveinn varla neitt, Gísli helzt á kinn og eyra. Bjarni og Guðmundur þóttu ekki flutningsfærir og voru kyrrir um nóttina á Gullbringu. Á mánudaginn voru þeir fluttir til byggða.”

Gluggavarða

Gluggvarðan á gömlu leiðinni um Mosfellsheiðina.

Séra Magnús Grímsson skýrir því næst frá því í niðurlagi skýrslu sinnar að 3 Mosfellsdalsmenn hafi þegar á sunnudaginn verið sendir með duglega hesta frá Gullbringum til að finna hina látnu og farangurinn, að þeir hafi brátt “fundið lík Guðmundar frá Múla skammt frá Smalaskála hinum eystri”, þar næst hafi þeir fundið Ísak nokkru norðar „með mjög litlu lífsmarki; fluttu þeir hann strax að Stardal, því þangað var skemmst, en hann dó á leiðinni og varð ekki lífgaður”; því næst sneru þeir 3 byggðarmanna aftur upp á heiðina og fundu þá „farangurinn og hina fjóra mennina sunnan til við Leiruvogsvatn í Lómatjarnarlæk. Höfðu þeir lagzt rétt í lækinn”. Jón frá Ketilsvöllum var þá enn með lífsmarki, og „fluttu þeir hann að Stardal, en hann dó á leiðinni og var ekki lífgaður.”
— Séra M.G. skýrir loks frá hversu allar tilraunir hafi verið við hafðar eítir réttum lækna reglum til að meðhöndla líkin og reyna að kveikja aftur líf með með þeim — og frá greftrun þeirra.”

Heimild:
-Sunnudagsblaðið, 9. tbl. 03.03.1957, Hrakningar á Mosfellsheiði fyrir einni öld, bls. 129-130.

Bringur

Bringur – tóftir bæjarins.

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík (nálægt Stóra-Nýjabæ) að Vegghamri og áleiðis inn í Kálfadali.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, “Tunglið, tunglið, taktu mig”, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.
Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.