Gullbringuhellir

Gengið var frá Herdísarvíkuvegi að Geitahlíð og síðan áfram norður með henni að Vegghömrum. Hamrabeltið er bæði fagurt og skjólsælt. Grösugt er undir veggjunum, en hvergi bar á minjum eða tóftum.

 Vegghamar

Vegghamar.

Þegar yfir hálsinn norðan Vegghamars var komið tóku við “tunglummyndað” umhverfi. Þangað komu t.a.m. til æfinga fyrstu bandarísku geimfararnir er stigu fæti á tunglið og þarna var tekin íslensk kvikmynd í árdaga innlendrar kvikmyndaleikgerðar er gerast átti að hluta til á tunglinu. Í henni eru m.a. myndskeið þar sem börn flækjast í kóngulóarvef og dýrið, risastórt, sækir að þeim. Enn má sjá slitrur úr “vefnum”, sem var úr girni, á móbergsklöppunum við einn skútann.

Kleifarvatn

Á ferð við Kleifarvatn.

Kálfadalir tóku við eftir skamma göngu. Þeir skiptast í tvennt. Á milli þeirra er þröngt gil, sem auðvelt er að ganga um. Niður í syðri dalinn hefur runnið mikil og myndarlegur hraunfoss niður Kálfadalahlíðarnar að austanverðu og skipt þeim hluta dalsins svo til í tvennt. Hraunið kom úr gígunum norðan við Æsubúðir, en þeir eru nokkrir þarna uppi á hraunsléttunni austan við dalina. Gróðurrönd er með hlíðinni að vestanverðu, en annars fyllir hraunið syðri dalinn að mestu leyti. Nyrst er hann þó grósugur, enda hraunið ekki náð þangað. Þegar komið var í gegnum gilið tók við nyrðri hluti Kálfadala, gróðurvænn og skjólgóður.

Kálfadalir

Í Kálfadölum.

Framundan blasti Gullbringan við (eins og hún er merkt á landakortum) austan við Kleifarvatnið. Aðrir segja að Gullbringa sé heiti á hlíðinni austan og ofan við sandfjallið, sem ber þetta nafn. Nafnið hafi komið til vegna þess þegar sólin er að setjast á bak við Sveifluhálsinn slái stundum gylltum roða á hlíðina alla. FERLIRsfélagar hafa nokkrum sinnum orðið vitni af því í kvöldferðum sínum um svæðið.

Þegar upp á Gullbringu var komið sáust vel verksummerki eftir jarðskjálftan 17. júní árið 2000. Stórum steinum hafði verið kastað upp á kollinum og þeir snúist við á leið niður. Mosinn, sem eitt sinn hafði verið ofan á steinunum var nú ýmist undir þeim eða á hlið. Sólin var að setjast á bak við Hádegishnúk og bjarma sló á hlíðina að baki. Hárnákvæm tímasetning á toppnum. Kleifarvatn spegilslétt fyrir neðan.

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Gengið var niður af Gullbringu að norðanverðu og kíkt ofan í helli, sem þar er (Gullbringuhelli). Í honum er hlaðið bæli. Rás liggur lengra inn eftir, en þrengist. Svo virðist sem hún víkki á ný þegar innar dregur. Hún var ekki skoðuð nánar að þessu sinni. Hellisopið er við gömlu þjóðleiðina frá Krýsuvík yfir Hvammahraunið (Hvannahraun). Götunni var fylgt yfir úfið hraunið á kafla, en hún er vel greinileg þangað til yfir er komið. Handan þess gerist hún ógreinileg vegna jarðvegseyðingar. Gengið var framhjá veglegum kletti, sem hafði margsprungið við skjálftann.

Fagridalur

Fagridalur.

Haldið var norður með hlíðinni og síðan haldið upp á háhæðina ofan við Vatnshlíðarhornið og stefnan tekin á Fagradal. Yfir grjótbarinn berangur er að fara sem og mosaþembur á stangli. Gatan niður hlíðina er í breiðum hraunfossi, sem runnið hefur þar niður í Fagradal. Fagradalsmúlinn er handan við, en leiðin niður liggur í hlykkjum og er nokkuð greiðfær. Þegar niður í dalinn var komið tók við gróið sléttlendi og síðasti spölurinn að endastöðinni því vel greiðfær yfirferðar.
Frábært veður. Sól og kyrrviðri. Gangan tók 7 klst og 21 mín.

Vegghamar

Vegghamar.