Fagridalur

Gengið var inn á Dalaleið, hina gömlu þjóðleið milli Kaldársels og Krýsuvíkur, í Fagradal, gatan rakin upp hlíðina og upp á og yfir næstum óendanlega Vatnshlíðina. Götunni var síðan fylgt þvert yfir Hvammahaunið auk þess skoðaður var hugsanlegur stígur vestar í hrauninu. Þar liggur kindagata/fjárgata um þykkt mosahraunið. Loks var gengið til baka með ofanverðri Vatnshlíðinni og niður Vatnshlíðarhorn þar sem gamla gatan austan við Sveifluháls var skoðuð og henni fylgt spölkorn í átt að Breiðdal. Við hana eru tóftir tveggja “smáhýsa”, sem ekki er gott að segja hvaða tilgangi hafi þjónað.

Gata upp úr Fagradal

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um Nesið. Flestar leiðirnar tengdu byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum. Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur, sem nefnist Drumbsdalastígur þar sem hann þræðir sig frá völlunum austur að Krýsuvík.
Dalaleiðin lá upp frá Kaldárseli um Kúastíg, sem enn er áberandi suðaustan sumarbúða KFUMogK, suður með Undirhlíðum, upp Kýrskarð, upp fyrir norðurhorn Gvendarselshæða, suður með þeim austanverðum og um Slysadali, Leirdal (áður hétu dalirnir báðir Leirdalir), framhjá vatnsstæðinu syðst undir Lönguhlíðum með stefnu inn Fagradal. Ef vel er að gáð má sjá mjög grónar tóftir norðvestan Leirdals og norðaustan Fagradals.
Hraunkarl Erfitt er að segja til um hvaða hlutverki þær hafa gegnt nema að undangenginni nákvæmri rannsókn. Í fjarlægð lítur svæðið út eins og bæjarhóll undir brattri hlíðinni.
Þeir, sem farið hafa þessa svonefndu Dalaleið um Fagradag hafa eflaust farið inn dalinn að norðanverðu. Þar er hann vel gróinn í vöngum, einkum á kjálkum. Dalurinn er aflíðandi og því auðveldur uppgöngu. Hrauntunga liggur ofan í dalinn, kominn alla leið úr Kistufellsgígunum. Fjárgata ligur með hraunkantinum að sunnanverðu. Uppi í dalsendanum sést gatan mjög vel þar sem hún liggur skáhallt upp hraunhlíðina til suðurs. Þegar gatan er gengin er ljóst að ekki hefur hún nú verið fjölfarin hestagata. Líklegt þykir að gatan hafi mest verið sótt af fé og tiltölulega fáu fólki, enda er hún miklu mun lengri en Undirhlíðavegurinn frá Kaldárseli með vestanverðum Undirhlíðum og Sveifluhálsi, upp á Ketilsstíg.
Uppi á brún greinist leiðin, annars vegar til suðurs og hins vegar til suðvesturs um veðurbarða og grýtta “hásléttuna”. Vörður eru ofan brúnar að norðvestanverðu. Ein þeirra, sem næst er, er landmælingavarða. Sú, sem nær er brúninni hefur líklega, líkt og aðrar vestar með henni, verið hlaðnar af fólki, sem afrekað hefur göngu þangað upp, fundist mikið til koma og viljað skilja eftir “minningu” um afrekið. Fólk ætti frekar að skilja eftir miða eða jafnvel geymsluþolinn mat fyrir aðra, sem á eftir koma. Vörður voru leiðarmerki hér fyrrum og höfðu því ákveðinn tilgang. Með nýjum vörðum brenglast sú mynd, sem upphaflega var máluð á þjóðleiðum sem þessari.
Gata Til að spara tíma var stefnan tekin beint, ofan gilja á frosnum mosanum (sem var eins og teppi undir fótum), á suðurbrún hásléttunnar þar sem útsýnið var stórbrotið yfir Hvammahraunið og Krýsuvíkurfjöllin. Á leiðinni lét hraunkarl á sér kræla. Reyndar kom mjög á óvart að hann reyndist vera hraunkona. Dalaleiðin sást þaðan þar sem hún lá um mjósta hraunhaftið í Hvammahrauni, yfir í óbrennishólman, sem þar er. Hún var rakin í gegnum hraunið. Innkoman er breið og leiðin skiptist stuttu síðar í tvennt, en kemur saman að nýju við endann hinum megin. Báðar eru þær ógreiðfærar og líklega verið 98,8% notuð af fé og því fáu fólki – og þá nánast eingöngu að sumarlagi.
Ólíklegt er að farið hafi verið með hesta þarna yfir hraunið. Óbrennishólminn er að mestu úr sandi, en þómá sjá móberg og brotaberg á stangli. Hann er sennilegast hluti af gömlu gosi, líklega frá þarsíðasta ísaldarskeiði, á sömu sprungurein og fæddi Gullbringu og sandfjöllin sunnan hennar (vestan Kálfadala).
Að sunnanverðu var vatn í grónum bolla og hægt var að fylgja götunni áfram með hraunkantinum að Gullbringu. Þar greinist hún í tvennt; annars vegar til vinstri upp sandbrúnir austan “hólsins” og hins vegar niður með honum að norðanverðu.
Miðvert Hvammahraunið var skoðað svolítið betur vegna hagstæðra aðstæðna (mosinn var frosinn). Fjárgata sást liggja yfir hraunið nokkru vestan leiðarinnar og eflaust er fleiri slíkar að finna víðsvegar um hraunið. Lílklegt þykir að fleiri götur leynist þarna yfir hraunið og þá vestar. Það verður skoðað betur síðar.
Gengið var að vestanverðri hraunbrúninni í norðanverðum Hvömmum. Sjá mátti hvar hraunið hafði runnið niður hlíðarnar. Þunnfljótandi hraun var austar í hlíðinum og undir úfnu apalhrauninu í dölunum, en grófara hraun vestar. Hið þunnfljótandi hraun hefur líklega komið úr Kistufellsgígunum, en grófara hraunið úr eldborginnii víðfeðmnu norðvestan Eldborgar í Brennisteinsfjöllum. Sjá mátti þessa lagskiptingu sumsstaðar ofan Vatnshlíðar.
Fagridalur Götu var fylgt upp með hraunbrúninni og á hásléttuna. Gatan var greinileg drjúgan spöl eða þangað til komið var niður í ílanga hvylft í hlíðina. Hún var vel gróin bæði efra og neðra (nær Kelifarvatni). Fjárgata lá í henni milli hinna grónu svæða. Þá sást gatan vel þar sem hún lá upp hlíðina að norðanverðu. Henni var fylgt áfram norður yfir hásléttuna, en ekki leið á löngu að hún hvarf sjónum þar sem rann saman gata og vindsorfið grjót.
Framundan og ofanvert (hægra megin) var varða, vandlega hlaðin hringlaga, en nýleg. Ofan hennar (austar) var varða á klapparhól, sem skoðuð hafði verið á suðurleiðinni. Í norðri sást til vörðu, sem og tveggja ofan brúnar norðvestar. Engin gata fylgdi með vörðunum svo spurning er í hvaða tilgangi þær hafi verið hlaðnar. Allar virtust þær tiltölulega nýlegar. Ein varðan gaf þó augljóslega til kynna hellisop í grunnri rás.
Þunnfljótandi helluhraun (það eldra sennilega frá Kistufellsgígunum) hafði runnið þarna niður eftir og síðan fram af brún Vatnshlíðar á mjög afmörkuðu svæði. Neðan frá er það hinn tilkomumesti hraunfoss á að líta.
Rjúpa sást á stangli, en einungis ein í hóp. Ofan við Vatnshlíðarhornið er nýlega hlaðin varða og önnur nær brúninni, við uppgönguna (eða niðurgönguna eins og í þessu tilviki). Landmælingavarðan ofan Fagradalsgötunnar sást í norðaustri.
Farið var fetið niður Vatnshlíðarhornið, skref fyrir skref, enda eins gott að fara varlega. Frosið var undir og yfirborðið laust í sér. Feykivindur úr norðri bætti um betur. Ekki þurfti mikið til að komast á skrið í miklum brattanum. Allt gekk þetta nú vel, sem betur fer.
Tóft Niðri var skoðaður grunnur, sem talinn er hafa verið af gamla veitingahúsinu norðan við Kleifarvatn. Það var í rekstri áður en vegurinn var lagður undir Helluna á fimmta áratug 20. aldar. Gamla þjóðleiðin sést enn ofan (norðan við grunninn), en húsið hefur kúrt undir fyrrum Vatnsskarði, í skjóli fyrir norðanáttinni. Vatnsskarð það sem nú er nefnt hefur áður að öllum líkindum heitir Markrakagil. Það færðist að einhverjum ástæðum nokkru norðar með Undirhlíðum. Ástæðurnar eru taldar hafa verið landamerkjalegs eðlis.
Ofan við grunninn eru a.m.k. fimm litlar tóftir af einhverju, sem ekki er vitað hvað var. Fróðlegt væri að fá einhvern sérfræðinginn til að skoða aðstæður. Ekki er þó raunhæft að ætla að tóftir þessar hafi tengst veitingarekstrinum og þá verið geymslur. Þjóðleiðin gamla var þá aflögð og kominn akvegur nokkru austar með hlíðunum, á þeim stað sem hann er nú.
Þegar gengið var yfir “hásléttuna” og götur þar skoðaðar, var stungið upp á því að nefna “Dalaleiðina” miklu fremur “Dalaleiðirnar” því við nákæma skoðun virtust þær mun fleiri en ein. Auk þess mun seint koma fram staðreyndir um hvar hún hafi í rauninni legið, ef hún hefur þá yfirleitt legið á einhverjum einum tilteknum stað.
Eftir að hafa elt fjárgötur í svo langan tíma var einungis eitt framundan – ofnbakaðar kótilettur.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.