Færslur

Herdísarvík

Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt.

Krýsuvík

Krýsuvík og Herdísarvík – herforingjaráðskort.

Krýsuvík mjög í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill.

Breiðivegur

Breiðivegur neðan Geitahlíðar.

Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð í Krýsuvík.

Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Heitir þar kerlingadalur, en Deildarháls ofar.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein.
Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið þótt ekki sé þess getið að neinn hafi af því bana beðið. Aftur var það einn vetur eftir þetta er sjómenn gengur til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemmst leið er að ganga til sjávar þaðan yfir tjörnina þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu. Um starengið í Krýsuvík er það enn í dag sannreynt að það lækkar smátt og smátt fram við tjörnina er það liggur að svo að hún gengur hærra upp eftir því unz hún er komin yfir allt engið eftir 20 ár, en þá fjarar tjörnin aftur smásaman svo engið kemur æ betur upp unz það er orðið jafngott og áður að öðrum 20 árum liðnum.

-Jón Árnason I 459.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Arnarvatn

Reykjanesið hefur margar fallegar gönguleiðir upp á að bjóða. Reykjanes Geopark í samstarfi við Þráinn Kolbeinsson hefur tekið saman 13 gönguleiðir af Reykjanesinu og nefnist verkefnið “Tindar Reykjaness“. Verkefnið var styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja.

Þorbjörn

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Norðan við Grindavík og rétt hjá Bláa lóninu liggur fellið Þorbjörn (Þorbjarnarfell). Fellið myndaðist á síðasta kuldaskeiði ísaldar, við gos undir jökli, og er að mestu úr bólstrabergi. Þrátt fyrir að vera aðeins 243 metra hátt býður það upp á skemmtilegar og nokkuð fjölbreyttar göngur sem ættu að henta flestum. Hægt að byrja gönguna á nokkrum stöðum, en einfaldast er að byrja við bílastæði við Grindavíkurveg. Þar liggur gamall vegur upp eftir mesta brattanum og tvístrast svo þegar upp er komið. Fjallið stendur á misgengissprungum sem hafa myndað grunnan sigdal.

Þorbjörn

Camp Vail á Þorbirni – uppdráttur ÓSÁ.

Þar má sjá ummerki og leifar frá seinni heimsstyrjöld en setulið Bandaríkjamanna setti upp bækistöð í skjóli dalsins. Við sprunguhreyfingar hefur orðið til mikil hamragjá á toppi fjallsins sem kölluð er Þjófagjá. Sagan segir að þar hafi falið sig 15 þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Það var ekki fyrr en bóndasyni frá Hópi tókst að svíkja þá er þeir böðuðu sig á Baðsvöllum, norðan við Þorbjörn, sem þeir náðust loksins. Meira má lesa um þjófana og afdrif þeirra hér. Þegar upp er komið er möguleiki á nokkrum mismunandi leiðum. Upp á topp, í gegnum Þjófagjá og umhverfis toppinn. Hvert sem farið er má búast við frábæru útsýni í allar áttir. Það tekur ekki langan tíma að skoða hina ýmsu kima Þorbjarnar og fyrir þá sem vilja síður ganga upp á fjallið.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur).

Vestan við Kleifarvatn liggur hinn fallegi Sveifluháls en á honum eru margir tindar sem bjóða upp á skemmtilegar göngur. Einn þeirra er Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur). Til að byrja gönguna er keyrt um Krýsuvíkurveg með fram Kleifarvatni og svo er þægilegt að leggja bílnum á litlum malar afleggjara. Þaðan er svo hægt að ganga beint upp. Þegar upp brattann er komið tekur við flatlendi umkringt stórbrotnum klettum. Haldið er áfram til norðausturs og eftir um 500 metra blasir tindurinn við. Þarna getur verið auðvelt að ruglast á tindum, en taka skal fram að til að komast upp á topp Miðdegishnúks þarf ekkert tæknilegt klifur.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Á leiðinni upp síðasta kaflann tekur á móti manni skemmtilegur hellir þar sem tilvalið er að borða nesti og njóta útsýnisins yfir Vigdísarvelli í vestri. Þegar toppnum er náð blasir við frábært útsýni í allar áttir, eftir hryggnum til suðurs og norðurs og einnig yfir Kleifarvatn og Vigdísarvelli. Til vesturs má svo sjá Trölladyngju, Grænudyngju, Keili og fleiri fallega tinda. Hægt að fara sömu leið til baka, en fyrir þá sem vilja aðeins meira brölt er hægt að beygja í átt að Kleifarvatni þegar komið er niður fyrir hellinn. Þar þarf að klöngrast aðeins meira.

Stapatindar

Stapatindar

Stapatindar.

Sveifluháls liggur vestan við Kleifarvatn og þar tróna Stapatindar hæst. Nokkrar leiðir liggja að toppnum og er hægt að leggja á ýmsum stöðum við Krýsuvíkurveg og fara þaðan upp á Sveifluháls og í átt að Stapatindum. Einfaldast er að leggja bílnum á bílastæði við Kleifarvatn og ganga beinustu leið upp á hálsinn. Á leiðinni eru flottir klettar og bergmyndanir sem gaman er skoða áður en mesti brattinn tekur við. Þegar upp á hrygginn er komið tekur við frábært útsýni eftir hryggnum til suðurs og norðurs og einnig er gaman að sjá Kleifarvatn úr þessari hæð. Í vestri blasa svo við Trölladyngja, Grænadyngja, Keilir og fleiri fallegir tindar umhverfis Sogin. Til að komast niður er eðlilega hægt að fara sömu leið og komið var upp, en einnig getur verið gaman að halda áfram eftir Sveifluhálsinum í suðvestur og vinna sig þaðan niður.

Grænadyngja

Grænadyngja

Grænadyngja.

Eitt ævintýralegasta göngusvæði Reykjaness felur sig við Grænudyngju og Trölladyngju. Grænadyngja er eldfjall sem myndaðist við gos undir jökli fyrir lok ísaldar og rétt við hana er Trölladyngja, en oft er talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. Til að komast að Grænudyngju er ekið eftir Reykjanesbraut og þegar komið er að gatnamótum Vatnsleysustrandar er sveigt út af brautinni og inn á malarveg sem merktur er Keili. Malarvegurinn er nokkuð grófur, en þó fær flestum bílum á sumrin en minni bíla þarf að keyra hægt. Þegar komið er að bílastæði fyrir Keili er haldið áfram til vinstri.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Eftir um 1 km er aftur beygt til vinstri þar til komið er að gígnum Eldborg þar sem hægt er að leggja bílnum. Beint suður frá Eldborg er lítið gil sem markar upphaf göngunnar. Gilið krefst ekki tæknilegs klifurs en ef einhver treystir sér ekki þar upp er einnig hægt að ganga upp hlíðarnar austan við það. Haldið er áfram niður í grunnan dal og loks upp eftir suðurhlíðum fjallsins. Þar uppi tekur á móti manni einstakt svæði, grasi gróið og yfirleitt skjólsælt. Gengið er aðeins lengra, þar til nokkuð brött skriða blasir við. Gengið er upp eftir henni þangað til toppi Grænudyngju er náð.

Sog

Sogin og Grænadyngja.

Aðeins sunnar er að finna eitt besta mögulega útsýni yfir háhitasvæðið Sogin og vötnin þar í kring. Ef tími og aðstæður leyfa er tilvalið að bæta við gönguna ferð niður í Sogin og Trölladyngju svo úr verði skemmtileg hringferð. Ef ætlunin er að fara niður í Sogin er haldið áfram eins og leið liggur niður suðurhlíðar Grænudyngju þar til Sogunum er náð. Ef ætlunin er að fara einnig upp á Trölladyngju aftur að bílastæðinu, er best að halda í vestur og ganga niður eftir grasi grónum hlíðum Grænudyngju og niður í dalinn sem liggur á milli fjallanna. Ef ætlunin er einfaldlega að komast ofan af Grænudyngju aftur á bílastæðið, er tilvalið að halda niður vesturhlíðar fjallsins, ofan í dalinn þangað til komið er aftur að gilinu sem farið var upp í upphafi göngu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Trölladyngja er tilkomumikið fjall sem gaman er að ganga upp og frábært útsýni sem bíður manns á toppnum. Gangan hentar flestum og engan sérstakan búnað þarf nema ef um ræðir vetrarferð í hálku og/eða snjó. Rétt hjá Eldborg er lítil malarbílastæði og við upphaf göngu er lítið gil sem er skemmtilegt að fara upp en einnig er hægt að ganga upp auðvelda brekku norð-austan megin við það. Það eru nokkrar útfærslur af heildargöngunni en þær taka flestar um 1-2 klst. og eru um 2-4 km með 260m hækkun. Það er tilvalið að tengja göngu upp Trölladyngju við Grænudyngju og Sogin. Á toppnum er einstakt útsýni yfir Reykjanesskagann (Keili, Grænudyngju, Sogin o.fl.) og alla leið til Reykjavíkur og Snæfellsness.

Selsvallafjall

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Selsvallafjall er staðsett á skemmtilegu svæði sem ekki margir fara um, en tindurinn liggur vestan hinna fögru Vigdísarvalla. Í vesturhlíðum fjallsins fá finna leifar af breskri stríðsflugvél sem fórst þar árið 1943 eftir að hafa verið í eftirlitsflugi vegna kafbáta suðvestan Íslands. Á leiðinni gerði svartaþoku sem varð til þess að flugmaðurinn brotlenti vélinni í hlíðum fallsins en hægt er að lesa meira um slysið hér. Enn má finna leifar af flugvélinni en við biðjum alla þá sem heimsækja staðinn að taka enga muni með sér heim.

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Gönguna upp Selsvallafjall er bæði hægt að hefja við Suðurstrandarveg (nr. 247), þar sem Vigdísarvallarvegur byrjar eða með því að keyra inn Vigdísarvelli. Ef byrjað er við Suðurstrandarveg er gengið norður í átt að Núpshlíðarhálsi og honum fylgt, þangað til Selsvallafjalli er náð. Stuttu eftir að lagt er af stað frá Suðurstrandarvegi má sjá nokkra gíga sem skemmtilegt getur verið að staldra við og skoða. Síðan er haldið áfram þar til við tekur gamall malarvegur sem liggur ofan á hluta hryggjarins. Um 700 metra frá toppnum eru svo leifarnar af flugvélarbrakinu fyrir þá sem hafa áhuga á því. Af toppi Selsvallafjalls er frábært útsýni í allar áttir og í góðu skyggni má m.a. sjá alla leið til Vestmannaeyja, Snæfellsjökuls og Eldeyjar.

Stóri-Hrútur

Stóri-Hrútur

Stóri-Hrútur.

Austan við gosstöðvarnar í Geldingadal stendur Stóri-Hrútur, 352 metra hátt keilulaga fjall. Ígegnum tíðina hafa örnefni svæða sem þykja sérlega torfarin stundum verið kennd við hrúta. Með núverandi slóða sem liggur upp eftir suðurhlíð hans er Stóri-Hrútur ekki sérlega torfarin en hann er þó brattur og grýttur svo áður fyrr hefur uppferðin verið mun erfiðari. Samkvæmt sögubókum ber Stóri-Hrútur víst fleiri en eitt nafn en Grindvíkingar hafa oft kallað hann Litla-Hrút og aðrir Syðri-Keilisbróður. Bæði nöfnin verða að teljast nokkuð viðeigandi þar sem hann er hvorki mjög hár í loftinu og er alveg í laginu eins og Keilir.

Stóri-hrútur

Stóri-Hrútur; útsýni yfir að gíg ofan Meradala.

Til að komast að Stóra-Hrút eru þrjár leiðir í boði og tilvalið að gera einhvers konar hringferð úr leiðinni. Þægilegaster að leggja bílnum hér og ganga þaðan. Ýmist er hægt að halda upp Langahrygg og ganga eftir honum eða öðru hvoru megin við hann, eftir Merardölum eða norður Nátthaga. Leiðirnar eru mislangar en heildar vegalengd getur verið um 7-10 km báðar leiðir. Nátthagi liggur vestan við Langahrygg en hann er meira og minna fullur af hrauni sem gaman getur verið að skoða. Þar hafa myndast magnaðir litir og getur gufa legið uppúr hrauninu í langan tíma eftir að gosi lýkur og því tilvalið að sjá svæðið á meðan enn er hiti í því. Langihryggur býður svo uppá skemmtilega útsýnisferð en gosstöðvarnar sjást vel þegar gengið er eftir hryggnum. Rúsínaní pylsuendanum er síðan uppi á Stóra-Hrúti sjálfum en þaðan sést einn stærsti gíganna hvað best.

Langihryggur

Langihryggur

Langihryggur og nágrenni.

Áður en gosið í Geldingadölum vatt upp á sig gat fólk nokkurn veginn farið hvaða leið sem er að gosstöðvunum og staðið hvar sem er til að upplifa eldgosið. Nokkrum mánuðum síðar var það ekki alveg jafn aðgengilegt og í kjölfarið varð Langihryggur óvart ein vinsælasta gönguleið landsins. Langihryggur er tæplega 300 metra hár hryggur sem liggur með fram Nátthaga, en það er einmitt dalurinn þar sem gosið náði sem næst sjónum. Leiðin er mjög aðgengileg og hægt að velja nokkra mismunandi upphafspunkta en við mælum með því að bílnum sé lagt á bílastæði 2 fyrir gosið eða bílastæði B.

Langihryggur

Langihryggur.

Frá báðum bílastæðum er auðvelt að fylgja stígum og stikum þar til Langihryggur blasir við, en hann ber nafn með rentu og er einmitt langur hryggur. Gangan er um 5-7 km báðar leiðir með nokkuð þægilegri hækkun. Áður en haldið er upp á hrygginn sjálfan getur verið gaman að ganga niður að hrauninu og skoða það. Þegar gengið er eftir hryggnum er stórbrotið útsýni yfir gosstöðvarnar þar sem einn af síðustu virku gígunum trónir vígalegur á toppnum í fjarska. Reykur og gufur geta sést löngu eftir að gosi lýkur og því er tilvalið að sjá svæðið á meðan enn er hiti í hrauninu. Ef tími og orka leyfa þá getur verið gaman að lengja gönguna aðeins og bæta við hana ferð upp á Stóra-Hrút, en hann tekur við í beinu framhaldi af hryggnum. Þar er einnig frábært útsýni yfir gosstöðvarnar og víðar.

Geitahlíð

Geitahlíð

Geitahlíð.

Geitahlíð er falleg grágrýtisdyngja rétt austan við Krýsuvík sem býður upp á skemmtilega og nokkuð greiðfarna göngu. Auðvelt er að komast að henni, annaðhvort um Krýsuvíkurveg (nr. 42) eða Suðurstrandarveg (nr. 247) og bílastæði er við upphaf göngu. Á láglendinu sunnan við Geitahlíð er gígurinn Stóra-Eldborg sem er tilvalið að kíkja á áður en haldið er upp Geitahlíð. Hægt er að ganga alveg upp á gígbrúnina og sjá ofan í gíginn sjálfan. Við hlið hans er Litla-Eldborg, en slóðinn upp Geitahlíð hverfur fljótlega eftir hana og ekki endilega augljóst hvert skal fara.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Tiltölulega einfalt er þó að vinna sig upp grýtta hlíðina. Þegar upp mesta hallann er komið liggur beint við að halda í átt að hæsta punkti Geitahlíðar, svokölluðum Æsubúðum. Æsubúðir eru nokkuð stór gígur á toppi fjallsins, en sagan segir að þar hafi eitt sinn verið verslunarstaður jötna. Á tímum þegar sjórinn náði upp að Geitahlíð hafi svo verið hægt var að leggja skipum við Hvítskeggshvamm (norðaustan við Eldborgirnar). Þegar upp er komið er skemmtilegt að ganga eftir brúnum Æsubúða og bæta þannig stuttri lykkju við ferðina. Af toppi Geitahlíðar er frábært útsýni til allra átta, sérstaklega yfir Kleifarvatn, Sveifluháls og Stapatinda.

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar. Grænavatn fremst, Djúpavatn t.h. og Spákonuvatn t.v.

Grænavatnseggjar bjóða upp á skemmtilega og þægilega göngu með frábæru útsýni yfir Djúpavatn, Sogin, Grænavatn o.fl. Eitt fallegasta göngusvæði Reykjaness er án efa í kringum Sogin, austan Vigdísarvalla, en þar má sjá einstakt háhitasvæði með tilheyrandi litbrigðum innan um fjölbreytta tinda og vötn. Grænavatnseggjar bjóða upp á skemmtilega og þægilega göngu um þetta svæði með skemmtilegu útsýni. Til að byrja gönguna er hægt að leggja bílum á þremur mismunandi stöðum: Við gamla borholu við Sogin og svo við sitthvorn enda Djúpavatns.

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar.

Leiðin er ekki stikuð, en fólki ráðlagt að finna sér sem þægilegustu leið upp á hrygginn og ganga svo eftir honum. Auðveldast er að komast upp á hann norðan við Djúpavatn. Á toppi Grænavatnseggja blasir við frábært útsýni til allra átta; yfir Djúpavatn og Vigdísarvelli, í átt að Grænavatni og svo í átt að Trölla- og Grænudyngju. Óháð því hvar byrjað er, þá er auðvelt að lengja gönguna með því að tengja við aðrar leiðir (Sogin, Grænudyngju o.fl.) og tilvalið að halda leiðinni áfram í kringum Grænavatn og aftur til baka í átt að Spákonuvatni með Keili í vestri.

Hverafjall

Hverafjall

Hverafjall.

Einn vinsælasti ferðamannastaður Reykjaness er Seltún við Kleifarvatn. Fjöldinn allur af hverum á litríku háhitasvæði gera staðinn að fullkomnum áfangastað fyrir þá sem hafa áhuga á einstakri og lifandi náttúru. Til að komast þangað er keyrt með fram Kleifarvatni um Krýsuvíkurveg (nr. 42) þar til skilti bendir manni á gott bílastæði. Rétt fyrir ofan Seltún er þó falin perla sem á það til að fara fram hjá þeim sem heimsækja svæðið, Hverafjall. Hverafjall er aðeins um 300 metra hátt og er gangan upp stutt og laggóð.

Hverafjall

Hverafjall.

Umhverfis fjallið er töluverður jarðhiti sem leiðir af sér mikla litadýrð og tilheyrandi gufustróka. Útsýnið á leiðinni og ofan af toppnum er mjög tilkomumikið en þaðan sjást m.a. Grænavatn og Kleifarvatn ásamt fleiri fallegum stöðum. Gangan þarf ekki að taka meira en klukkutíma, en skemmtilegt getur verið að halda áfram á næsta topp sem stendur beint fyrir ofan Seltún (norðan við Hverafjall). Þaðan er svo annaðhvort hægt að fara sömu leið til baka eða halda ferðinni áfram og koma niður að bílastæðinu hinum megin frá.

Keilir

Keilir

Keilir.

Keilir er frábær ganga fyrir fólk á öllum aldri en krefst þess þó að geta gengið upp þokkalega brattan kafla þar sem eitthvað um laust grjót er og laus sandur. Það tekur um 2-3 klst. að ganga frá bílastæði, upp á topp og aftur til baka en vegalengdin er 7-8 km með 280m hækkun. Á toppi Keilis er útsýnisskífa og frábært útsýni í allar áttir – ganga sem allir ættu að prófa.
Flestir hafa séð Keili þegar keyrt er eftir Reykjanesbrautinni, en ekki jafn margir hafa klifið hann. Gönguleiðin er skemmtileg og nokkuð greiðfarin og af toppnum er frábært útsýni í allar áttir. Keilir er móbergsfjall sem myndaðist á ísöld við gos undir jökli, án þess að gosið næði að brjótast upp úr jöklinum.

Keilir

Keilir – gestabókastandur á toppnum.

Leiðin að Keili er nokkuð einföld en keyrt er eftir Reykjanesbraut (nr. 41) og loks beygt af veginum á sama stað og ef ætlunin væriað fara Vatnsleysustrandarveg (nr. 420), en vegurinn að Keili er við sömu gatnamót en fer í gagnstæða átt. Áberandi skilti við veginn vísar á Keili. Þar tekur við malarvegur sem er í grófari kantinum, en þó fær flestum bílum á sumrin en á minni bílum er best að fara sér hægt. Eftir um 8 km blasir við bílastæði og upplýsingaskilti um gönguna á Keili. Gangan sjálf er skemmtileg og á flestra færi, en tvær leiðir að fjallinu eru í boði. Annars vegar eftir stikaðri leið í gegnum hraunið og hins vegar eftir hrygg Oddafells. Skemmtilegt getur verið að gera úr leiðinni hringferð. Upp eftir Keili liggur svo slóði sem á endanum leiðir mann að dýrindis útsýni yfir stóran hluta Reykjaness.

Fagradalsfjall – Langhóll

Langhóll

Á Langhól.

Það þarf eflaust ekki að minna marga á eldgosið sem hófst 19. mars 2021, kennt við Fagradalsfjall. Hæsti tindur þess svæðis heitir Langhóll og er um 390 metra hár. Þótt gangan hafi boðið upp á fallegt útsýni áður en gosið átti sér stað, þá varð útsýnið alls ekki síðra eftir það. Á leiðinni er gott útsýni yfir gosstöðvarnar og magnað að sjá hvernig hraunið hefur fyllt upp í botn Geldingadals. Til að komast að Langhóli er ýmist hægt að keyra Suðurstrandarveginn (nr. 427) um Krýsuvík eða Þorlákshöfn eða með því að fara í gegnum Grindavík. Gott er að byrja gönguna við bílastæði 1 fyrir gosstöðvarnar. Þaðan er gengið eftir merktum stíg í gegnum hraunið og í átt að gossvæðinu.

Langhóll

Langhóll – merkjastöpull.

Eftir rúman kílómeter skiptist stígurinn í tvennt, önnur leiðin liggur í átt að gosinu, en til að komast að Langhóli skal beygja til vinstri. Leiðin er stikuð og leiðir mann í átt að smá brekku brölti, en þar er þessi fíni kaðall sem gerir ferðina upp auðveldari. Þegar upp er komið halda stikurnar áfram og leiða mann stystu leið að útsýni yfir gosstöðvarnar. Þar sem engar stikur beina manni í átt að Langhóli getur verið þægilegt elta stikurnar þar til gígurinn og hinn nýlega hraunfyllti Geldingadalur blasir við og halda svo áfram með fram brúninni. Frá kaðlinum eru um 2,5-3 km að toppi Langhóls og þar sem hann er hæsti punktur svæðisins liggur beinast við að fara brattann og vinna sig hægt og rólega upp í móti. Þegar nær dregur toppnum ætti að glitta í útsýnisskífu. Á toppnum er svo frábært útsýni yfir Þráinsskjaldarhraun, Keili og til Grindavíkur. Skemmtileg ganga sem hentar flestum.

Heimild:
-https://reykjanesgeopark.is/is/tindar-reykjaness/

Arnarnýpa

Arnarnýpa. Hæsti tindur Sveifluhálsins.

Gullbringuhellir

Gengið var frá Herdísarvíkuvegi að Geitahlíð og síðan áfram norður með henni að Vegghömrum. Hamrabeltið er bæði fagurt og skjólsælt. Grösugt er undir veggjunum, en hvergi bar á minjum eða tóftum.

 Vegghamar

Vegghamar.

Þegar yfir hálsinn norðan Vegghamars var komið tóku við “tunglummyndað” umhverfi. Þangað komu t.a.m. til æfinga fyrstu bandarísku geimfararnir er stigu fæti á tunglið og þarna var tekin íslensk kvikmynd í árdaga innlendrar kvikmyndaleikgerðar er gerast átti að hluta til á tunglinu. Í henni eru m.a. myndskeið þar sem börn flækjast í kóngulóarvef og dýrið, risastórt, sækir að þeim. Enn má sjá slitrur úr “vefnum”, sem var úr girni, á móbergsklöppunum við einn skútann.

Kleifarvatn

Á ferð við Kleifarvatn.

Kálfadalir tóku við eftir skamma göngu. Þeir skiptast í tvennt. Á milli þeirra er þröngt gil, sem auðvelt er að ganga um. Niður í syðri dalinn hefur runnið mikil og myndarlegur hraunfoss niður Kálfadalahlíðarnar að austanverðu og skipt þeim hluta dalsins svo til í tvennt. Hraunið kom úr gígunum norðan við Æsubúðir, en þeir eru nokkrir þarna uppi á hraunsléttunni austan við dalina. Gróðurrönd er með hlíðinni að vestanverðu, en annars fyllir hraunið syðri dalinn að mestu leyti. Nyrst er hann þó grósugur, enda hraunið ekki náð þangað. Þegar komið var í gegnum gilið tók við nyrðri hluti Kálfadala, gróðurvænn og skjólgóður.

Kálfadalir

Í Kálfadölum.

Framundan blasti Gullbringan við (eins og hún er merkt á landakortum) austan við Kleifarvatnið. Aðrir segja að Gullbringa sé heiti á hlíðinni austan og ofan við sandfjallið, sem ber þetta nafn. Nafnið hafi komið til vegna þess þegar sólin er að setjast á bak við Sveifluhálsinn slái stundum gylltum roða á hlíðina alla. FERLIRsfélagar hafa nokkrum sinnum orðið vitni af því í kvöldferðum sínum um svæðið.

Þegar upp á Gullbringu var komið sáust vel verksummerki eftir jarðskjálftan 17. júní árið 2000. Stórum steinum hafði verið kastað upp á kollinum og þeir snúist við á leið niður. Mosinn, sem eitt sinn hafði verið ofan á steinunum var nú ýmist undir þeim eða á hlið. Sólin var að setjast á bak við Hádegishnúk og bjarma sló á hlíðina að baki. Hárnákvæm tímasetning á toppnum. Kleifarvatn spegilslétt fyrir neðan.

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Gengið var niður af Gullbringu að norðanverðu og kíkt ofan í helli, sem þar er (Gullbringuhelli). Í honum er hlaðið bæli. Rás liggur lengra inn eftir, en þrengist. Svo virðist sem hún víkki á ný þegar innar dregur. Hún var ekki skoðuð nánar að þessu sinni. Hellisopið er við gömlu þjóðleiðina frá Krýsuvík yfir Hvammahraunið (Hvannahraun). Götunni var fylgt yfir úfið hraunið á kafla, en hún er vel greinileg þangað til yfir er komið. Handan þess gerist hún ógreinileg vegna jarðvegseyðingar. Gengið var framhjá veglegum kletti, sem hafði margsprungið við skjálftann.

Fagridalur

Fagridalur.

Haldið var norður með hlíðinni og síðan haldið upp á háhæðina ofan við Vatnshlíðarhornið og stefnan tekin á Fagradal. Yfir grjótbarinn berangur er að fara sem og mosaþembur á stangli. Gatan niður hlíðina er í breiðum hraunfossi, sem runnið hefur þar niður í Fagradal. Fagradalsmúlinn er handan við, en leiðin niður liggur í hlykkjum og er nokkuð greiðfær. Þegar niður í dalinn var komið tók við gróið sléttlendi og síðasti spölurinn að endastöðinni því vel greiðfær yfirferðar.
Frábært veður. Sól og kyrrviðri. Gangan tók 7 klst og 21 mín.

Vegghamar

Vegghamar.

Æsubúðir

Gengið var upp hraunána að Stóru-Eldborg, yfir gömlu þjóðleiðina milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur um Deildarháls, áfram upp Hvítskeggshvamm og upp að gígnum á Geitahlíð. Þarna eru heimkynni þokunnar.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eftir stutta dvöl á gígbarminum, brá hún sér af bæ svo hið mikla og kyngimagnaða útsýni birtist þátttakendum í allri sinni dýrð. Í norðri birtust eldborgirnar fallegu austan við Kálfadalahlíðar, úfið mosahraunið, Vörðufell og Sveifluhálsinn.

Kleifarvatnið setti skarpan lit í landslagið. Sunnar lágu Klofningar, Litlahraun og Krýsuvíkurheiðin við augum, svo langt sem þau entust.

Hvítskeggshvammur

Hvítskeggshvammur. Stóra-Eldborg neðar.

Haldið var áfram upp að Æsubúðum í 382 metra hæð y.s. Í gömlum sögum er því haldið fram að Æsubúðir hafi verið gamall verslunarstaður jötna þá og þegar sjórinn náð upp að Geitahlíð og hægt var að leggja skipum við Hvítskegsshvamm. Í honum átti að vera járnkengur sem skipafesti, en lítið virðist vera á honum nú. Landslagið gaf ekki annað til kynna.
Af tindinum er eitt fegursta útsýni hér á landi yfir suðurströndina, fjöllin ofan Herdísarvíkurfjalls, Kleifarvatn, Sveifluháls, Krýsuvík og svæðið ofan Krýsuvíkurbjargs. Gengið var norður með Æsubúðum og síðan í hálfhring niður að brún Geitahlíðar ofan við Stóru-Eldborg.

Æsubúðir

Æsubúðir og nágrenni.

Þaðan sjást vel hinir þrír gígar borgarinnar, einnum þó sýnum stærstur, þ.e. Eldborgin sjálf. Geitahlíðin var skáskorin niður að Eldborginni og hún síðan skoðuð betur í nálægð. Auðvelt var að ganga niður gróna hrauntröðina að upphafsstað.
Huga þarf að umgengni við Eldborgina. Ferðamenn hafa sjálfir verið látnir um að að marka stíg upp um hlíðar hennar, en eðlilegast og án minnstu skemmda væri að ganga upp á hana frá gömlu þjóðleiðinni. Þaðan er stutt upp á brúnina og minnsta umhverfisraskið – just að proposal, eins og Norðmaðurinn sagði.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst. og 40 mínútur.

Æsubúðir

Æsubúðir efst á Geitahlíð.

Gvendarhellir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1954 má lesa eftirfarandi um hraunin við Herdísarvík og Krýsuvík undir fyrirsögninni “Aldargömul Íslandslýsing“.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

“Hinn 25. ág. 1838 skrifaði Jónas Hallgrímsson stjórn Bókmenntafjelagsins í kaupmannahöfn og stakk upp á því að fjelagið kysi nefnd manna til þess “að safna öllum fáanlegum skýrslum, fornum og nýjum, sem lýsi Íslandi eða einstökum hjeruðum þess, og undirbúa svo til prentunar nýja og nákvæma lýsing á íslandi, en síðan verði prentuð út af fyrir sig á fjelagsins kostnað”. Sama dag var þetta samþykkt á fundi Hafnardeildar Bókmenntafjelagsins og nefnd kosin 21. sept. s.á. Um veturinn sendi nefndin brjef til allra presta og sýslumanna. Fylgdu brjefunum til prestanna 70 spurningar og til sýslumanna fylgdu 12 spurningar. Jafnframt var biskupi, stiftamtmanni og amtmönnum skrifað og þeir beðnir um að lá málinu fylgi.
Ekki verður annað sagt, en að prestar og sýslumenn hafi brugðist vel við þessari málaleitan. Allar lýsingarnar eru geymdar í Landsbókasafninu, fjögur bindi í folio. Er hjer um að ræða eitt hið merkasta heimildarrit, eigi aðeins um landfræði Íslands, heldur einnig um búskaparháttu, atvinnuvegi, hlunnindi, tíðarfar, þjóðháttu, heilsufar, menningu o.s.frv.
Að vísu eru ekki allar lýsingarnar jafn fullkomnar eins og vænta má, og skara ýsmir prestar fram úr ís kilningi á því, hvernig svörin ættu að vera. Hjer skulu nú birtir stuttir útdrættir úr þessum sóknarlýsingum, sem sýnihorn af þessu handritasafni.

Úr sóknarlýsingu síra Jóns Vestmanns, Vogsósum:

Nes er austanvert við Selvog. Þar á stendur bær með sama nafni. Vestan til við voginn er annað nes. kallað Alnbogi, líkt bognum handlegg hvar Herdísarvík t.a.m. skyldi vera í alnbogabótinni og bærinn með sama nafni við víkurbotninn. Á milli tjeðra nesja er breið sjávarbugt, kölluð Selvogur, en stuttleiks vegna má hún ei fjörður nefnast.

Þau merkilegustu eldhraun eru:

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

a) Stakkavíkurhraun [kom] upp í gosi upp úr Kongsfelli (sem hefir nafn af því, að fjallkóngur í Selvogi skifti þar á haustum fólki í fjárleitir); er Kongsfell kringótt eldborg, með háum börmum og djúpri gjótu innanvert, samanluktri í botninn, svo þar er þó ekki gjá, en grjótið brunnið í sand og vikur, sumt útlits sem sindur. Þaðan liggur hraun þetta þvert um fjallið til útsuðurs og ofan yfir Stakkavíkur landeign, en stansaði rjett fyrir ofan sjálft túnið; er þó upp gróið með góðum högum, smáskógi, beiti- og sortulyngi. Á fjallinu framarlega hefir hraunrenslið skift sjer við grjóthæð nokkra og hlaupið fram af fjallsbrún þar sem heitir Mosaskarð og lýsir nafnið þess útliti. Þessi tangi hraunsins er svartur og gróðurlaus þegar frá fjalli dregst alt fram í sjó.

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir.

b) Herdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteinsfjöllunum og fram af fjallsbrún beggja megin Lyngskjaldar, en hefir runnið saman aftur á láglendinn fyrir neðan. Þetla hraun er sumsstaðar upp gróið með lyng, litlum skóg, gras, og góða haga í lágum og gjótum. Sums staðar er það svart og ávaxtarlaust, með gjám og stöndum og grámosabreiðum. Engir eru þar hellar eða stórgjár; þó er þar hellir kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn. Hellir þessi er annars ekki stór.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

e) Krýsuvíkurhraun [kom] upp í gosi úr Eldborginni í Deildarhálsi, austan til við Krýsuvík. Eldborg þessi er alt eins útlits og Kongsfell. Hraunið er upp gróið með gras, lyng og smáskóg í lautum og brekkum, en grámosaskóm, gjám og stöndum yfir alt þar sem hærra liggur.

Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir og besta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina,” svo alltíð má beita fje undir vind af hverri átt sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum, er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum.

Arngrímshellir

Arngrímshellir.

Fyrir hjer um bil 100 árum, eða máske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík að nafni Arngrímur, mig minnir Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hundruð. Hann hafði fje sitt við helli þenna, en skyldi hafa átt 99 ær grá kollóttar. Systir hans átti eina á einslita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni, en hún yfirljet honum ána sárnauðug. Sama veturinn seint gerði áhlaupabyl, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá alt hans fje fram af Krýsuvíkurbergi hjer og þar til dauðs og algjörs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið en vindurinn rak til hafs. Í hengisfönninni framan í bergsbrúninni stóð grákolla alein er hann fjekk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fjenu. Tekur hann ána þá og reynir í 3gang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún fœri niður fyrir. Og jafnótt og hann losnaði í hvert sinn við hendur hans, brölti hún upp að knjám honum. Loksins gaf hann frá sjer, og skal hafa sagt löngu seinna, að út af þessari á hefði hann eignast 100 fjár. Þetta hef jeg af sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og marði hann í sundur og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.

Arngrímshellir

Gvendarhellir í Krýsuvíkurhrauni.

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, bygði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fje, helt því við áðurnefndan helli. En þar honum þótti langt að hirða það þar, bygði hann þar annan bæ dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi alþiljuðu með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Bygði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak fjeð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð af honnm þvervegg, bjó til lambastíu, gaf þeim þar þá henta þótti, bjó til jötur úr tilfengnum hellum alt í kring. Í stærra parti hellisins gaf hann fullorðna fjenu í innistöðum (sem verið mun hafa alt að 200 eftir ágiskun manna), flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfelt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.

Gvendarhellir

Gvendarhellir og húsið framan við hellisopið.

Frá landnámstíð hafa menn engar sögur um breytingar á landslagi alt til l367 að Oddgeir biskup í Skálholti visiteraði kirkjuna á Strönd. Telst hún þar eiga 30 hndr. í heimalandi. Þaðan frá hafa menn enga vissu hjer um fyrri en um daga Erlends lögmanns Þorvarðssonar, sem eftir Árbókum Esphólíns bjó mektarbúi á Strönd í full 30 ár fyrir um og eftir trúarbragðaendurbótina. En hjer uum bil 1700 telur sveitarbragur Jóns bónda Jónssonar í Nesi 7 búendur á Strönd meinast þar sjálfsagt með hjáleigu býli. 1749 er hún (þessi jörð) með öllum sínum afhýlum öldungis eyðilögð “af sandfoki og þá þó fyrir nokkrum árum.

Æsubúðir

Geitahlíð.

Þar sem ekki er sandágangurinn, þar eru skriðuföll, blástrar; þar að lýtur saga Árna Þorsteinssonar, merkisbónda í Herdísarvík, og þannig hljóðar: ..Þegar jeg var 8 ára fór jeg fyrst með föður mínum út með Geitahlíð og sá jeg þá í einum stað eitt lítið flag blásið í aur hjertta austast í hlíðarhorninu en hvergi annarsstaðar, heldur einlægt graslendi og blóma yfir alt að líta”. Þessa sögu sagði hann mjer þá við eitt sinn urðum samferða með nefndri hlíð, af forundran yfir því hversu hrörleg hún var þá orðin er hann var sjötugur. Sáust þá í henni fáienir grasgeirar hjer og hvar að neðanverðu og einstakir fáir grasblettir einasta þar, sem hlje var við landnyrðingi. —

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Kirkjan á Strönd í Selvogi er kölluð heimakirkja; hún er enn á sama stað, einmana á eyðisandi, þar sem Strandarbær var meðan jörð þessi var bygð. — Hjer var þingabrauð þar til árið 1749 að ekkjufrú biskups Jóns Árnasonar keypti, eður þó hann áður andaðist, eyðijarðirnar Strönd og Vindás og gáfu til Selvogs prestakalls. Síðan hafa prestarnir verið kirknanna forsvarsmenn, en Vogósar hafa ætíð, eftir sem áður, verið prestsetur, en Krýsuvík annexia.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

d) Ögmundarhraun; lítið fyrir vestan Krýsuvík runnið vestan úr Amenningi, sem allar er líka hraun en þó grasi og skógi vaxið — er hann stórt óskipt landspláss hvar Krýsuvík á líka skógarítak. Ögmundarhraun er ekki upp gróið, heldur svart og ljótt útlits: gengur það heilt fram í sjó rjett fyrir austan Selatanga. Austan til við hraun þetta er kallaður Hríshólmi. Þar eru stórar húsatóttir niður sokknar og ein þeirra snýr eins og kirkjur vanalega; hefir það verið vel stórt hús; þó sjást ei tóftirnar allar því hraunið hefir hlaupið yfir þær að vestanverðu, hvað mikið veit maður ekki, þó til að geta eftir sjón á því sjáanlega, yfir fullan helming, því þar hefir vafalaust verið stórbygging. Þar eru 2 túngarðshringar; og hjer um bil 20 faðmar milli þeirra.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Meina menn að Krýsuvík hafi þar verið áður hraunið hljóp þar yfir, en við það tilfelli verið flutt upp í fjallavikið, sem þar er þó töluvert langt frá. Við sjóinn er vík, sem bærinn gat nafn af tekið, nl. Hælsvík nú nefnd.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg.

Í hrauni þessu, spölkorn hjer frá, er og óbrunninn hólmi og ófært; hraun alt um kring nema einn lítill stígur, sem síðar hefir verið ruddur. Hólmi þessi nefnist Óbrennishólmi. Þar er sagt smalinn hafi verið með heimilisfjeð meðan hraunið hljóp fram yfir heila plássið (þar eru og 2 misstórar fjárborgarústir) og að hann hafi ekki getað komist undan því annað en á hól þennan, sem hraunið umkringdi.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríksvarða; þó Eiríksvarða sje ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svo langa tíð. – Hún er einhlaðin, á mjög hárri fjallsbrún, 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, úr einhlöðnum steingarðsparti, er svo hver steinn lagður yfir annan; flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða; allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utan veggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt að norðan og sunnan. Þessi Eiríkur Magnússon var lengi prestur í Selvogi, þótti skrítinn í ýmsu, og dó 1716. Af hans langa prestskap má ráða að hann hafi aldraður orðið, og skyldi menn setja að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa 123 ár.

Krýsuvíkurberg 1972

Krýsuvíkurberg.

Arngrímur Bjarnason, sonarsonur Arngríms lærða, og hafði lengi verið ráðsmaður í Skálholti.
Hinn 9. ágúst 1724 fór hann á báti í sölvafjöru undir Krýsuvíkurbergi „og með honum karlmaður einn og kvenmenn tveir. Og er þau voru farin til að taka sölin, sprakk hella mikil fram úr berginu og kom á þau, svo að hún laust Arngrím í höfuðið til bana, og undir henni varð karlmaðurinn er honum fylgdi og önnur konan, en önnur komst lífs undan; tók hellan þó hælinn af öðrum fæti hennar, og skaðaði hana ekki að öðru. Var hella þessi 13 faðma löng og 11 faðma breið. Náðust lík allra þeirra þriggja, er ljetust” (Vallaannáll). Öðrum annálum ber saman um hve margir hafi farist þarna, en Hítardalsannáll segir: —
„Vinnukona hans mjög lömuð komst af og aðrir tveir sem af ofboði hlupu fram í sjó og náðu til skipsins”.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 49. tbl. 23.12.1954, Aldargömul Íslandslýsing, bls. 642-645.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg.

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.

TF-VEN

Í Morgunblaðiðinu 1.07.1995 segir frá flugslysi í Geitahlíð; “Flugmaðurinn látinn þegar að var komið“:

Partenavia P68

Partenavia P68.

“Flugvélin TF-VEN fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, síðdegis í gær.
Flugmaðurinn, sem lést, var einn í vélinni. Það var fjögurra manna leitarflokkur úr Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði sem fann vélina um kl. 19.00 í gærkvöldi. Leitarflokkurinn var um kyrrt á slysstað meðan beðið varstarfsmanna loftferðaeftirlits og rannsóknanefndar flugslysa, en óskaði ekki frekari aðstoðar.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – byrgi refaskyttu. Geitahlíð fjær.

Að sögn leitarmanns á svæðinu er flugvélarflakið efst í fjallinu. Hann sagði leitina hafa verið erfiða, skyggni ekki nema 40-50 metrar og stundum minna og að fjallshlíðin sé brött skriða. Flokkurinn lagði upp af þjóðveginum sunnan Geitahlíðar og leitaði einn og hálfan tíma þar til komið var á slysstaðinn.
Flugvélin fór frá Reykjavík kl. 14.10 og var ferðinni heitið til Selfoss. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn var flugmaðurinn reyndur en ekki með blindáritun. Hann áætlaði að fljúga Krýsuvíkurleiðina suður yfir fjöll og síðan austur til Selfoss í sjónflugi. Lágskýjað var á þessum slóðum í gær og versnaði skyggnið þegar leið á kvöldið.
Síðast var haft fjarskipta- og radarsamband við flugvélina kl. 14.15 þar sem hún var stödd við Kleifarvatn og amaði þá ekkert að. Flugvélin hafði flugþol til kl. 16.10.

Geitafell

Slysstaðurinn.

Þegar flugvélin kom ekki fram á tilsettum tíma hóf Flugstjórn þegar eftirgrennslan. Flugvél flugmálastjórnar hóf strax leit og sama gerðu þyrla Landhelgisgæslunnar og einkaflugmenn frá Selfossi. Allar tiltækar björgunarsveitir í Reykjavík, Reykjanesi og á Suðurlandi voru kallaðar út og leituðu 400-500 manns í kringum Krýsuvík og á Bláfjallasvæðinu.
Engin merki bárust frá neyðarsendi flugvélarinnar og gerði það leitina erfiðari en ella. Leitin beindist því ekki síður að vötnum en landi. Leitarmenn fóru á bátum bæði um Djúpavatn og Kleifarvatn og kafarar voru til reiðu.

Geitahlíð

Geitahlíð.

TF-VEN var tveggja hreyfla af gerðinni Partenavia P68 og í eigu Flugfélags Vestmannaeyja. Flugvélin var nýyfirfarin og vel búin tækjum.”

Í Morgunblaðiðinu daginn eftir segir: “Orsakanna að leita í lélegu skyggni”.
“Flugmaðurinn, sem lést þegar flugvél hans fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, á föstudag, hét Gunnlaugur Jónsson, til heimilis að Heiðmörk 1 á Selfossi.
Gunnlaugur var þrítugur, fæddur 4. apríl 1965 og starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Vestmannaeyja. Hann lætur eftir sig unnustu og einnig níu ára dóttur.
Starfsmenn loftferðaeftirlitsins og rannsóknarnefndar flugslysa fóru á slysstað efst í Geitahlíð í gær. Sveinn Björnsson, sem sæti á í flugslysanefndinni, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að á þessu stigi rannsóknar benti ekkert til að slysið mætti rekja til bilunar í tækjabúnaði vélarinnar. Hins vegar hefði verið mikil þoka og afar lélegt skyggni og líklega væri orsakanna þar að leita.”

TF-VEN
Í skýrslu Flugslysanefndar, M-08595/AIG-07, segir m.a.:
“Slysstaður: NV-hlið Geitahlíðar við sunnanvert Kleifarvatn.
Skrásetning: TF-VEN; farþegaflug.
Farþegi: Enginn.
Dagur og stund: Föstudagur 30. júni 1995, kl. um 14:16.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Yfirlit: Föstudaginn 30. júní 1995 var ákveðið að ferja flugvélaina TF-VEN, sem er í eigu [yfirstrikað] frá Reykjavíkurflugvelli til Selfossflugvallar. Flugmaðurinn áætlaði að fljúga sjónflug og þar sem lágskýjað var hugðist hann fljúga um Kleifarvatn suður um Reykjanesfjallgarðinn og þaðan að Selfossi. Flugtak frá Reykjavíkurflugvelli var kl. 14:09.
Síðast heyrðist í flugmanni TF-VEN kl. 14:17:25, þegar hann taldi sig vera að komast yfir fjallgarðinn. Flugvélin kom ekki fram á Selfossi og leit hófst á áætlaðri flugleið hennar. Flak flugvélarinnar fannst í norðurhlíð fjallsins Geitahlíð, sem er sunnan Kleifarvatns. Flugmaðurinn hafði látist samstundist og flugvélin gerðeyðilagðist.
Rannsókn slyssins bendir til þess, að líklegasta orsök slyssins hafi verið sú, að flugmaðurinn hélt of lengi áfram sjónflugi við versnandi skilyrði, eða þar til í óefni var komið og ekki varð aftur snúið. Flugvélin var í klifri eða lágflugi, þegar hún rakst á fjallshlíðina.
Staðreyndir: Kl. 14:16:55 spurði flugumferðarstjórinn flugmanninn hvernig gengi. Flugmaðurinn sagði þá: “Það gengur bara mjög vel, ég er kominn yfir hálsinn og það er bara bjart hérna hinum megin”.

Geitahlíð

Geitahlíð. Slysið var efst í fjallinu lengst t.v.

Slysstaður: 6352420-2200420. Flugvélin rakst fyrst á lítið barð, rétt ofan við klettabrúnina við efstu hjalla fjallsins. Flugvélin virtist hafa verið í klifri og báðir hreyflar gengið á miklu afli. Flugvélin kastaðist um 25 metra upp aflíðandi grýttan mel og stöðvaðist. Skrokkur vélarinnar lagðist saman, framendi hans vöðlaðist inn undir sig og framendinn með vængjunum var á hvolfi, en stélið var á réttum kili. Mikill eldur kom upp í flakinu og um 15o m2 svæði á jörðu, aðallega hlémegin eða til norðausturs frá flakinu, var brunnið og sótlitað.
Greining þátta: “Flugmaðurinn kom inn yfir Kleifarvatn í um 800 feta hæð yfir sjávarmáli, eða í 400 feta hæð yfir [Kleifarvatni]. Yfir vatninu var heldur bjartara að sjá, en ský voru það lítið eitt hærra yfir jörð en sunnan vatnsins og flugmaðurinn hélt sjónflugi áfram suður yfir vatnið. Skýjahæðin fór lækkandi til suðurs, mishæðir á borð við Geitahlíð voru umvafðar þoku að rótum og flugmaðurinn átti æ erfiðara með að staðsetja sig. Hann vissi að skýjatopparnir voru í 5000-6000 feta hæð. Því gaf hann hreyflunum mikið afl og hugðist klifra upp úr skýjunum, en flaug á fjallið Geitahlíð, í um það bil 320 m. (1050 feta) hæð yfir sjávarmáli – með framangreindum afleiðingum.”

Heimildir:
-Morgunblaðið, 146. tbl. 01.07.1995, Flugmaðurinn látinn þegar að var komið, bls.60.
-Morgunblaðið, 147.tbl. 0207.1995, Orsakanna að leita í lélegu skyggni, bls. 44.
-Skýrla um Flugslys, Flugslysanefnd, M-08595/AIG-07 – http://www.rnsa.is/media/4589/skyrsla-um-flugslys-tf-ven-thann-30-juni-1995-personuupplysingar-afmadar-af-rnsa.pdf

Æsubúðir

Geitahlíð.