TF-VEN

Í Morgunblaðiðinu 1.07.1995 segir frá flugslysi í Geitahlíð; “Flugmaðurinn látinn þegar að var komið”:

Partenavia P68

Partenavia P68.

“Flugvélin TF-VEN fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, síðdegis í gær.
Flugmaðurinn, sem lést, var einn í vélinni. Það var fjögurra manna leitarflokkur úr Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði sem fann vélina um kl. 19.00 í gærkvöldi. Leitarflokkurinn var um kyrrt á slysstað meðan beðið varstarfsmanna loftferðaeftirlits og rannsóknanefndar flugslysa, en óskaði ekki frekari aðstoðar.
Að sögn leitarmanns á svæðinu er flugvélarflakið efst í fjallinu. Hann sagði leitina hafa verið erfiða, skyggni ekki nema 40-50 metrar og stundum minna og að fjallshlíðin sé brött skriða. Flokkurinn lagði upp af þjóðveginum sunnan Geitahlíðar og leitaði einn og hálfan tíma þar til komið var á slysstaðinn.
Flugvélin fór frá Reykjavík kl. 14.10 og var ferðinni heitið til Selfoss. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn var flugmaðurinn reyndur en ekki með blindáritun. Hann áætlaði að fljúga Krýsuvíkurleiðina suður yfir fjöll og síðan austur til Selfoss í sjónflugi. Lágskýjað var á þessum slóðum í gær og versnaði skyggnið þegar leið á kvöldið.
Síðast var haft fjarskipta- og radarsamband við flugvélina kl. 14.15 þar sem hún var stödd við Kleifarvatn og amaði þá ekkert að. Flugvélin hafði flugþol til kl. 16.10.

Geitafell

Slysstaðurinn.

Þegar flugvélin kom ekki fram á tilsettum tíma hóf Flugstjórn þegar eftirgrennslan. Flugvél flugmálastjórnar hóf strax leit og sama gerðu þyrla Landhelgisgæslunnar og einkaflugmenn frá Selfossi. Allar tiltækar björgunarsveitir í Reykjavík, Reykjanesi og á Suðurlandi voru kallaðar út og leituðu 400-500 manns í kringum Krýsuvík og á Bláfjallasvæðinu.
Engin merki bárust frá neyðarsendi flugvélarinnar og gerði það leitina erfiðari en ella. Leitin beindist því ekki síður að vötnum en landi. Leitarmenn fóru á bátum bæði um Djúpavatn og Kleifarvatn og kafarar voru til reiðu.
TF-VEN var tveggja hreyfla af gerðinni Partenavia P68 og í eigu Flugfélags Vestmannaeyja. Flugvélin var nýyfirfarin og vel búin tækjum.”

Í Morgunblaðiðinu daginn eftir segir: “Orsakanna að leita í lélegu skyggni”.
“Flugmaðurinn, sem lést þegar flugvél hans fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, á föstudag, hét Gunnlaugur Jónsson, til heimilis að Heiðmörk 1 á Selfossi.
Gunnlaugur var þrítugur, fæddur 4. apríl 1965 og starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Vestmannaeyja. Hann lætur eftir sig unnustu og einnig níu ára dóttur.
Starfsmenn loftferðaeftirlitsins og rannsóknarnefndar flugslysa fóru á slysstað efst í Geitahlíð í gær. Sveinn Björnsson, sem sæti á í flugslysanefndinni, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að á þessu stigi rannsóknar benti ekkert til að slysið mætti rekja til bilunar í tækjabúnaði vélarinnar. Hins vegar hefði verið mikil þoka og afar lélegt skyggni og líklega væri orsakanna þar að leita.”

TF-VEN
Í skýrslu Flugslysanefndar, M-08595/AIG-07, segir m.a.:
“Slysstaður: NV-hlið Geitahlíðar við sunnanvert Kleifarvatn.
Skrásetning: TF-VEN; farþegaflug.
Farþegi: Enginn.
Dagur og stund: Föstudagur 30. júni 1995, kl. um 14:16.
Yfirlit: Föstudaginn 30. júní 1995 var ákveðið að ferja flugvélaina TF-VEN, sem er í eigu [yfirstrikað] frá Reykjavíkurflugvelli til Selfossflugvallar. Flugmaðurinn áætlaði að fljúga sjónflug og þar sem lágskýjað var hugðist hann fljúga um Kleifarvatn suður um Reykjanesfjallgarðinn og þaðan að Selfossi. Flugtak frá Reykjavíkurflugvelli var kl. 14:09.
Síðast heyrðist í flugmanni TF-VEN kl. 14:17:25, þegar hann taldi sig vera að komast yfir fjallgarðinn. Flugvélin kom ekki fram á Selfossi og leit hófst á áætlaðri flugleið hennar. Flak flugvélarinnar fannst í norðurhlíð fjallsins Geitahlíð, sem er sunnan Kleifarvatns. Flugmaðurinn hafði látist samstundist og flugvélin gerðeyðilagðist.
Rannsókn slyssins bendir til þess, að líklegasta orsök slyssins hafi verið sú, að flugmaðurinn hélt of lengi áfram sjónflugi við versnandi skilyrði, eða þar til í óefni var komið og ekki varð aftur snúið. Flugvélin var í klifri eða lágflugi, þegar hún rakst á fjallshlíðina.
Staðreyndir: Kl. 14:16:55 spurði flugumferðarstjórinn flugmanninn hvernig gengi. Flugmaðurinn sagði þá: “Það gengur bara mjög vel, ég er kominn yfir hálsinn og það er bara bjart hérna hinum megin”.
Slysstaður: 6352420-2200420. Flugvélin rakst fyrst á lítið barð, rétt ofan við klettabrúnina við efstu hjalla fjallsins. Flugvélin virtist hafa verið í klifri og báðir hreyflar gengið á miklu afli. Flugvélin kastaðist um 25 metra upp aflíðandi grýttan mel og stöðvaðist. Skrokkur vélarinnar lagðist saman, framendi hans vöðlaðist inn undir sig og framendinn með vængjunum var á hvolfi, en stélið var á réttum kili. Mikill eldur kom upp í flakinu og um 15o m2 svæði á jörðu, aðallega hlémegin eða til norðausturs frá flakinu, var brunnið og sótlitað.
Greining þátta: “Flugmaðurinn kom inn yfir Kleifarvatn í um 800 feta hæð yfir sjávarmáli, eða í 400 feta hæð yfir [Kleifarvatni]. Yfir vatninu var heldur bjartara að sjá, en ský voru það lítið eitt hærra yfir jörð en sunnan vatnsins og flugmaðurinn hélt sjónflugi áfram suður yfir vatnið. Skýjahæðin fór lækkandi til suðurs, mishæðir á borð við Geitahlíð voru umvafðar þoku að rótum og flugmaðurinn átti æ erfiðara með að staðsetja sig. Hann vissi að skýjatopparnir voru í 5000-6000 feta hæð. Því gaf hann hreyflunum mikið afl og hugðist klifra upp úr skýjunum, en flaug á fjallið Geitahlíð, í um það bil 320 m. (1050 feta) hæð yfir sjávarmáli – með framangreindum afleiðingum.”

Heimildir:
-Morgunblaðið, 146. tbl. 01.07.1995, Flugmaðurinn látinn þegar að var komið, bls.60.
-Morgunblaðið, 147.tbl. 0207.1995, Orsakanna að leita í lélegu skyggni, bls. 44.
-Skýrla um Flugslys, Flugslysanefnd, M-08595/AIG-07 – http://www.rnsa.is/media/4589/skyrsla-um-flugslys-tf-ven-thann-30-juni-1995-personuupplysingar-afmadar-af-rnsa.pdf

Æsubúðir

Geitahlíð.