Færslur

Huldur

FERLIR hafði nokkrum sinnum leitað að nákvæmri staðsetningu flugslyss er hafði orðið í austanverðum Stapatindum í Sveifluhálsi þann 19. desember 1944. Brak úr vélinni mátti bæði sjá í Huldum sunnan við Hulstur svo og vestan í hálsinum norðan við syðsta Stapatindinn.
Nú var stefnan tek

Canso

Áhöfnin.

in enn og aftur á austurhlíð Sveifluhálsins með stefnuna í skarð sunnan við Huldur. Neðan við skarðið eru skriður, en gróningar á millum. Sunnan þeirra er gróin hlíð, en skarðið sjálft, sem virtist aðgengilegt var gróðurlaust að mestu. Þegar komið var upp í efri hluta skriðu mátti sjá smálegt brak á dreif. Þegar ofar dró stækkuðu hlutirnir. Ofan við móbergsbrún, undir hábrúninni, voru leifar af leiðslum og smámálmhlutum. Efst voru nokkrir steinar á kletti og á millum þeirra ryðgaður “járnkross”, greinilega hlutur úr flugvélinni.
Kanadískur flugbátur, svonefndur “Canso” (systur Catalinaflugbátsins), fórst í Stapatindum á Sveifluhálsi þennan 19. desemberdag árið 1944 á leið til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. Átta manna áhöfn flugvélarinnar beið bana þarna á hálsinum þennan örlagaríka dag.
Brak ofarlega í hlíðinniFlugvélin var úr 162. flugsveit Hins konungslega kanadíska flughers, RCAF. Einkennisnúmer hennar var 11061 “L” Vélin var að koma úr eftirlitsflugi og áhöfnin var að búa sig undir lendingu á Reykjavíkurflugvelli þegar slysið varð. Talið var að flugvélin hafi lent í niðurstreymi við Fjallgarðinn. Flakið fannst dreift yfir snarbratta fjallshlíðina. Hafði vélin rekist utan í fjallið um það bil 80 metra frá fjallsbrúninni. Höggið var svo mikið að djúpsprengjurnar og eldsneytið hafði sprungið og brunnið og áhöfnin látist samstundis. Leitarflokkur fann lík áhafnarinnar, sem voru jarðsett með hernaðarlegri viðhöfn í Fossvogskirkjugarði.

Canso

Canso.

FERLIR hafði áður, sem fyrr sagði, gert leit að leifum vélarinnar í tindunum ofan við svonefnt Hulstur skammt sunnan við Huldur. Upp úr því liggur bjúglaga dalur (vinstra megin) svo til upp á toppa. Ofarlega (nær efst í gróðurþekjunni) í dalnum fundust þá leifar af vélinni. Annað, það litla, sem þar var, er komið undir mosa. Vitað var að varla væri mikið eftir af flugvélinni því í það var sótt mikið af hlutum eftir slysið, sem síðan voru notaðir í varahlut. Þá hefur fólk verið að taka með sér brot og þá getur veðrið verið slíkt á þessu svæði að þar þolir ekkert lauslegt við. Vélin gat því verið horfin öllum öðrum en þeim sem eru að leita sérstaklega að henni.

Slysstaðurinn efst í Sveifluhálsi

Auk þess var vitað að búkurinn var dreginn yfir hálsinn til Hafnarfjarðar og álið notað til að stansa úr hluti. Á leiðinni féll m.a. neyðarútgönguhurð af búknum. Hún fannst síðar við op hellis, sem nefndur var Neyðarútgönguhurðarhellir og er vestan við Hrútagjárdyngjuna.
Nú var stefnan tekið á hliðina sunnan við fyrrgreinda svæðið. Þá kom í ljós brak þess eðlis að nánast var hægt að ganga að slysstaðnum undir hamraveggjunum.
Góð ganga upp á við, en síðan niður aftur. Greiðfærast er að ganga upp Huldur og síðan til suðurs efst undir hamrabrúnunum. Þar er gróður og auðvelt að fylgja bergveggnum upp með gilinu að slysstað. (Sjá meira um Stapatinda hér).
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Sævar Þ. Jóhannesson

Huldur

Brak úr flugvélinni.

Austurengjar

Í Viðauka 66 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/04 – Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar, er fjallað um Austurengjar í Krýsuvík. Í Viðaukanum segir m.a.:

Austurengjar

Austurengjar.

“Austurengjar er hluti af mjög stóru jarðhitasvæði sem kennt hefur verið við Krýsuvík. Frá 2006 hefur HS Orka haft rannsóknarleyfi á öllu svæðinu til 10 ára. Margs konar yfirborðsrannsóknum má heita lokið. Næsta skref rannsókna er borun djúpra rannsóknarholna, en holurnar eru nauðsynleg forsenda fyrir mati á orkugetu svæðisins og til að afla upplýsinga um eðliseiginleika sjálfs jarðhitakerfisins eins og hita, þrýsting og lekt.
Austurengjar voru flokkaðar í biðflokk í Rammaáætlun 2, valkostur nr. 67 sbr. kort Rammaáætlunar. Miðað við núverandi skilgreiningu biðflokks er ekki unnt að bora rannsóknarholur á svæðinu, sem kemur í veg fyrir frekari rannsóknir þess.

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

HS Orka gerir ráð fyrir að nýta jarðvarma úr Austurengjum fyrir jarðvarmavirkjun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni. Gert er ráð fyrir að svæðið verði virkjað í áföngum, byggt á niðurstöðum jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknum, rannsóknarborunum og auðlindamati. Áætlaðar helstu kennistærðir slíkrar virkjunar eru í töflu 1. Ef vilji er til þess af hálfu sveitafélags eða sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald á svæðinu mætti gera ráð fyrir því í hönnun virkjunar að upphitun grunnvatns yrði möguleg fyrir staðbundna hitaveitu t.d. fyrir stóran notanda og/eða smærri notendur sem kysu nálægð við orkuver.

Jarðhiti

Viðnámsþversnið niður á 4 km dýpi frá Höskuldarvöllum, undir Trölladyngju, Móhálsadal, Sveifluháls og austur fyrir Kleifarvatn. Miðja háhitasvæðisins er undir Móhálsadal.

Umræða um heildstæða nýtingu Krýsuvíkursvæðisins hefur m.a. snúist um að á því væri unnt að byggja upp virkjanakerfi sem gæti framleitt heitt vatn fyrir notendur á höfuðborgarsvæðinu þ.e.a.s. því svæði sem Nesjavalla- og Hellisheiðavirkjun sjá fyrir heitu vatni. Með þessu fyrirkomulagi yrði afhendingaröryggi heits vatns aukið til muna komi t.d. til umbrota á Hengilssvæðinu.

Reykjanesskagi

Virkjanir og virkjanakostir á Reykjanesskaga.

Svæðið sem hér er kennt við Austurengjar er í lögsögu tveggja sveitarfélaga, Grindavíkur norðan til en Hafnarfjarðar sunnan til. Austurhluti svæðisins er undir Kleifarvatni sunnanverðu og þar suður af, undir Sveifluháls og Móhálsadal að Trölladyngjusvæðinu og þaðan suður af að mörkum þess svæðis sem við kennum við Sveifluháls. Krýsuvíkurvegurinn liggur með Sveifluhálsi austanverðum, fær hvers kyns farartækjum, en slóðar annars staðar.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Sveifluháls er um 15 km langur goshryggur, samsettur úr nokkrum móbergshryggjum sem gusu undir jökli. Þeir elstu sýna lítilsháttar jarðhitaummyndun á yfirborði en þeir yngri ekki nema þar sem virkur eða nýlega kulnaður yfirborðshiti hefur leikið um móbergið. Hveravirkni er við og í Kleifarvatni sunnanverðu og í sprungurein þar suður af kenndri við Austurengjar. Vestan Sveifluháls er lítilsháttar jarðhitaummyndun sjáanleg í Köldunámum og Folaldadal, um 10 m2 99°C, heit hitaskella finnst út í hrauni þar vestur af. Vegslóði liggur frá Undirhlíðum suður um Móhálsadal að Djúpavatni. Slóðinn er rútufær en þarfnast styrkingar til að flytja stærri tæki, s.s. bor. Vatn til rannsóknarborunar vestan við Sveifluháls mætti sækja í Djúpavatn, og leita mætti eftir köldu grunnvatni með 150-200 m djúpum holum í Móhálsdal norðanverðum. Austan megin er skolvatn til borana auðsótt í Kleifarvatn.

Seltún

Seltún.

Austurengjar eru innan marka Reykjanesfólkvangs. Í reglum um Reykjanesfólkvang sbr. Stjórnartíðindi B, nr. 520/1975, segir m.a.: „Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi“.
Stjórn fólkvangsins hefur látið vinna ágætis lýsingar á almennri jarðfræði, gróðurfari, dýralífi, mannvistarleifum og fleira innan fólkvangsins og er vísað til þeirra hér (Sigrún Helgadóttir, 2004; Hildur A. Gunnarsdóttir, ritsj. 2008). Mýrlendið austan þjóðvegar suður af Kleifarvatni hefur þar nokkra sérstöðu hvað gróður, dýralíf og verndargildi varðar, enda eina mýrlendið á Reykjanesskaganum. Þar eru hross frá Sörla höfð í sumarbeit í afgirtu landi.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Suðaustanvert við Kleifarvatn eru rofnir og hálfgrónir móbergshálsar og liggur slóði yfir þá næst Kleifarvatni. Vestan Kleifarvatns er norðurhluti móbergshryggjarins Sveifluháls mest áberandi, með háreista móbergskolla, skörðótta tinda, klettabelti og skriður, með stöku gróðurtorfum og lynghvömmum hér og þar. Vestan Sveifluháls í Móhálsadal er helluhraunsbreiða mest áberandi. Ekkert undirlendi er meðfram Kleifarvatni vestanverðu.
Í matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar um borteig fyrir rannsóknarboranir neðan Hveradals er aðstæðum lýst á svæðinu og þar sem Austurengjar eru í nágrenni þess svæðis eiga lýsingar á ýmsum umhverfisþáttum í fyrirspurninni við um svæðið við Austurengjar. Greinargerð matskyldufyrirspurnar er fylgiskjal með innsendum gögnum HS Orku hf.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Svæðið sem hér er kennt við Austurengjar nær yfir norðaustur hluta háviðnámskjarnans sem skilgreindur hefur verið með viðnámsmælingum á Krýsuvíkursvæðinu. Miðja svæðisins er í Móhálsadal.
Veruleg skjálftavirkni hefur verið á Krýsuvíkursvæðinu öðru hverju allt frá síðustu aldamótum og þaðan af fyrr. Umtalsvert landris og sig með miðju í Móhálsadal hefur komið fram. Skjálftarnir koma í hrinum sem vara í nokkra dag, en fjöldi þeirra hefur verið meiri austan til á svæðinu. Þar af voru nokkrir skjálftar yfir 5 að stærð. Nokkur virknibreyting hefur sést á hverasvæðunum, einkum ofan við Seltún, en jafnframt komu hverir við suðurenda Kleifarvatns undan vatni er vatnsborð Kleifarvatns lækkaði um nokkra metra í kjölfar aldamótaskjálftans. Ekki hefur tekist að tengja landris eða skjálfta við bráðið berg eða kvikuinnskot undir svæðinu.

Seltún

Seltún.

Rannsóknir og boranir á Krýsuvíkursvæðinu hafa verið talsverðar gegnum tíðina og er þeim lýst nánar í lýsingu HS Orku á Sveifluhálsi fyrir Rammaáætlun 3. Eitt af því sem einkenndi hitaferlana í mörgum þessara holna var viðsnúningur þeirra þ.e.a.s. holurnar voru heitastar á 200-500 m dýpi en kaldari þar fyrir neðan og því ekki fýsilegar til virkjunar. Mælingarnar benda til þess að jarðhitakerfið hitni aftur þegar neðar dregur, einkum nær miðju uppstreymisrása. Rannsóknaboranir munu gefa upplýsingar um á hvaða dýpi kerfið byrjar að hitna aftur og hversu hratt það hitnar og þar með skapast grundvöllur til þess að meta vinnslugetu svæðisins. Eins og sjá má í töflu 2 voru fyrstu 4 holurnar sem boraðar voru á sínum tíma innan Austurengjareinar, 1941-1945, og ein 816 m djúp hola 1971.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Staðsetning og stefna 2-3 km djúpra rannsóknarholna HS Orku er ætlað að skera úr um hita og lekt á 1-3 km dýpi. Á Austurengjasvæðinu hefur HS Orka enn sem komið er einungis ráðgert boranir frá hugsanlegum borteigum fyrir stefnuboraðar rannsóknarholur, annar vegar við Kleifarvatn og hins vegar við Köldunámur. Skolvatn til borana yrði sótt í Kleifarvatn í fyrra tilvikinu. Algengt er að efstu 700-1000 m háhitasvæða séu fóðraðir af með steyptum stálfóðringum og að jarðhitavökvi sé unnin úr dýpri jarðlögum. Borun djúpra rannsóknarholna er frumforsenda hvers kyns orkunýtingar á Austurengjasvæðinu.

Austurengjar

Á Austurengjum.

Austurengjareinin sjálf er 5-6 km löng og um 1 km á breidd, eða um 6 km2 að flatarmáli í heild ef nýtanlegur jarðhiti væri eingöngu bundinn við þá rein. Óvissa er um stærðarmatið/orkugetuna án rannsóknarborana, en jarðhitaleit með borunum myndi þó klárlega beinast að reininni sjálfri fremur en jöðrum hennar. Vegna umhverfis- og verndarsjónarmiða væri auðveldast að skoða orkugetu Austurengjareinarinnar með því að teygja sig inn í reinina með stefnuboraðri holu frá vatnsbakka Kleifarvatns suður af Syðristapa. Vestan Sveifluháls væri eðlileg staðsetning fyrstu rannsóknarholu nærri Köldunámum.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Nýtingarsvæði Austurengja liggur að áætluðum nýtingarsvæðum Sveifluháls í suðri og Trölladyngju í vestri. Iðnaðarsvæði og framkvæmdasvæði yrðu innan nýtingarsvæðisins og lega þeirra háð samþykki skipulagsyfirvalda. Ekki er hægt að afmarka framkvæmda- og iðnaðarsvæðið á þessu stigi þar sem það ræðst af niðurstöðum rannsóknarboranna.
Áður en vinnsla hæfist úr jarðhitasvæði Austurengja yrði gert reiknilíkan fyrir jarðhitakerfið, byggt á þeirri þekkingu sem þá liggur fyrir. Spár verða gerðar um þrýstingslækkun í jarðhitakerfinu fyrir áætlaða vinnslu. Þessar spár verða bornar undir leyfisveitendur eins og Orkustofnun varðandi gildandi kröfur, til dæmis um sjálfbærni. Mögulegar mótvægisaðgerðir yrðu reifaðar í mati á umhverfisáhrifum, umsókn um nýtingar- og virkjunarleyfi og samráð haft við leyfisveitendur.

Austurengjar

Austurengjar.

Jarðhitavökvi á Austurengjasvæðinu er líklegast ferskvatn að uppruna og samsvarar því þeim jarðhitavökva sem algengur er á öðrum jarðhitasvæðum inn til landsins, rannsóknaboranir munu staðfesta það. Vegna staðhátta á Austurengjasvæðinu verður að vanda til vals á niðurdælingarsvæði. Ekki verður myndað lón við Austurengjar, en mögulega þyrfti þró á iðnaðar- og framkvæmdasvæði virkjunar sem gæti tekið við affalli við stýringu, prófanir eða bilun virkjunar.

Austurengjar

Austurengjar.

Líklega verður orkuvinnsla byggð upp í áföngum og holufjöldi því algerlega háður stærð hvers áfanga. Hér er miðað við að hægt yrði að reisa allt að 100 MWe virkjun á nýtingarsvæðinu, því þyrfti að reikna með að bora þyrfti minnst 20 vinnsluholur og 3-4 niðurdælingarholur fyrir virkjun þessa afls. Ef gert er ráð fyrir að einhverjar holur geti ekki nýst virkjun gæti holufjöldinn í byrjun hækkað um 3-5 holur miðað við almenna tölfræði fyrir rannsóknarboranir á Íslandi. Ómögulegt er að segja fyrirfram til um fjölda uppbótarholna sem þyrfti til að halda fullu afli virkjunar yfir ætlaðan líftíma hennar því það byggir á rekstrarforsendum virkjunar og viðbrögðum viðkomandi jarðhitakerfis. Þannig útreikningar verða hins vegar gerðir þegar niðurstöður rannsóknarborana liggja fyrir, framkvæmdalýsing sett í mat á umhverfisáhrifum og sótt verður um nýtingar- og virkjanaleyfi.

Austurengjar

Stóri-Stampur (sprengigígur) við Austurengjar.

Framkvæmdasvæði getur stækkað nokkuð þegar fjarlægð að niðurdælingarsvæði eykst. Fyrir Austurengjar er reiknað með að borholur yrðu á nokkrum afmörkuðum borteigum sem dregur úr yfirborðsröskun, en á móti gæti komið aukin fjarlægð til niðurdælingaholna. Vegna þessa er hér áætlað að framkvæmdasvæði gæti orðið allt að 6 km2.

Heimild:
-Austurengjar í Krýsuvík: Viðauki 66 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/04 – Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar.
Austurengjar

Austurengjar og nágrenni – jarðhitasvæði í Krýsuvík.

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um “Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

“Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.”

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni “Vanhugsað fálm“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

“Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar”, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg” — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa” á grundvelli misskilnings og „rannsóknar”, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels”, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður” eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.” – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog”, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, “Vanhugsað fálm”, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Reykjanesskagi

Í Morgunblaðinu 1984 er viðtal við Einar Sigurðsson í Ertu um  “Skrímsli í Kleifarvatni“:

Einar Sigurðsson

Einar Sigurðsson í Ertu.

„Ég sé enga ástæðu til þess að Kleifarvatnsskrímslinu sé minni sómi sýndur en Lagarfljótsorminum og tel að hér í Hafnarfirði þurfi að gera átak í þessum skrímslamálum hið fyrsta. Hvers vegna skyldi Kleifarvatnsskrímslið sætta sig við að það sé látið liggja milli hluta þegar alltaf er verið að hampa Lagarfljótsorminum? Ég skrapp norður á Egilsstaði á dögunum og þá sá ég að það var komin flannastór mósaíkmynd af Lagarfijótsorminum á einn útvegg Kaupfélags Héraðsbúa. Svona ættu Hafnfirðingar líka að hirða um sitt skrímsli og láta af að vanvirða það með þögn og þumbaraskap.”
Viðmælandi okkar er enginn annar en Einar frá Ertu og umræðuefnið skrímslið í Kleifarvatni í Krýsuvík. Einar Sigurðsson heitir hann fullu nafni, er múrarameistari og hefur um langt skeið búið í Hafnarfirði. Hann hefur hins vegar lengst af kennt sig við bæinn Ertu í Selvogi þar sem hann sleit barnskónum. Áhugi Einars fyrir Kleifarvatnsskrímslinu á sér langan aldur. Föðurbróðir hans bjó í Krýsuvík og var nokkur samgangur milli bernskuheimilis Einars, í Selvogi, og Krýsuvíkur. Þegar Krýsuvíkurfólkið kom í heimsókn að Ertu var það alltaf spurt: „Hafiði nokkuð séð skrímslið?” og virtist enginn efast um tilvist Kleifarvatnsskrímslisins.
Síðan Hafnarfjörður eignaðist Kleifarvatn álitur Einar að vegur skrímslisins hafi farið minnkandi og hafi Hafnfirðingar alls ekki gert nógu mikið til að halda merki þess á lofti. Einar vann í eitt ár að byggingu skólahússins sem reist var í Krýsuvík og þekkir þar vel til.

Skrímsli í hefndarhug

Skrímsli

Þekkt skrímsli á uppdráttum fyrri tíma.

Hann telur jafnvel að skrímslið hafi spillt fyrir framkvæmdum í Krýsuvík oftar en einu sinni, og sé þar að finna skýringu þess hve flestum fyrirtækjum hefur gengið illa þar á liðnum árum. Ég byrja á því að spyrja Einar hvort hann trúi því virkilega að það sé skrímsli í Kleifarvatni.
Mér hefur verið sagt að þetta skrímsli sé til og sé ekki neina ástæðu til að vera með efasemdir, sagði Einar. Það er nefnilega þannig með skrímsli að þau eru til þangað til einhver afsannar þau eða útskýrir þau vísindalega. Og þannig verður Kleifarvatnsskrímslið til þangað til einhver afsannar það eða útskýrir það.
— En hefurðu séð skrímslið?
Nei, en það afsannar ekkert. Ég fór einu sinni í ferð til Sovétríkjanna en þó sá ég ekki Bréfsnef — og samt getur vel verið að hann hafi verið til og kannski hefur hann séð mig. Eins er þetta með skrímslið — kannski sér það okkur þó við höfum ekki auga fyrir því.
— En er þá ekki alveg nóg fyrir skrímslið að vera til, þarf nokkuð að vera að dedúa í kringum það sérstaklega?

Kaldrani

Kleifarvatn.

– Já, Kleifarvatnsskrímslið á alveg sama rétt á viðurkenningu og Lagarfljótsormurinn. Og það er engum blöðum um það að fletta að Hafnfirðingar bera ábyrgð á skrímslinu — Hafnarfjarðarbær keypti Krýsuvík árið 1941 og þá hefur skrímslið auðvitað fylgt með í kaupunum. Það er ekki lítill búhnykkur að komast yfir slíka skepnu — máttarvöldin hér í Hafnarfirði hafa bara alls ekki gert sér ljóst hversu mikið gagn má hafa af skrímslinu og þeir hafa ekki sýnt því þá virðingu sem það á skilið.
Það þykir mikill skaði ef fiskur hverfur úr vatni eða á, en það er miklu meira áfall að tapa skrímsli — það er reyndar alveg óbætanlegt tjón að missa skrímsli, skal ég segja þér, því það verður ekki endurnýjað.
— Meinarðu þá að Hafnfirðingar gætu hugsanlega komið skrímslinu í peninga?
Það er ekki nokkru vafi á því, ef maður hefur það í huga hvernig aðstæðurnar eru við Kleifarvatn, landslagið meina ég. Þarna er „mánalandslag” og hverir, og þegar skrímslið í vatninu bætist við gefur augaleið að þarna er tilvalinn ferðamannastaður. Það mætti með öðrum orðum trekkja upp ferðamannastraum með skrímslinu.

Miklir möguleikar með skrímslið

Sveinshús

Bústjórahúsið í Krýsuvík, nú Sveinshús.

Hafnfirðingar gætu jafnvel haft full not af Krýsuvíkurskólanum — honum mætti breyta í ferðamannahótel fyrir þá sem kæmu til að forvitnast um skrímslið. Það mætti leigja út sjónauka og selja ferðamönnunum teikningar og bækur með skrímslinu. Það mætti hafa upp úr þessu stóra peninga! Ferðaskrifstofurnar ættu að taka skrímslið upp á sína arma og auglýsa það erlendis — þá myndi ekki standa á ferðamannastraumnum hingað.
Þetta hafa Skotarnir gert með þessu Loch Ness-skrímli sínu, sem í alla staði er þó miklu ómerkilegra en Kleifarvatnsskrímslið — það hefur aldrei sést í sólbaði og það eru ekki til neinar merkilegar sögur um það. Það fer ekki á milli mála að Hafnfirðingar gætu haft stóra peninga upp úr skrímslinu — þess vegna verður að viðurkenna það hið bráðasta og sjá til þess að það drepist ekki út.
— Heldurðu sumsé að skrímslið sé óánægt með þetta ræktarleysi Hafnfirðinga og hyggi jafnvel á hefndir?

Krýsuvík

Krýsuvíkurbúið. Bústjórahúsið h.m.

Já, ég er ekki fjarri því. Það er að vísu ekki auðvelt að gera útaf við skrímsli en það – er hægt að þegja þau í hel, eða nærri því. Maður getur hugsað sér að skrímslið sé óánægt með þá þögn sem um það hefur verið og hafi verið að hefna sín á Hafnfirðingum með því að láta flest mistakast sem gert hefur verið í Krýsuvík. Það er a.m.k. ekki einleikið hvernig allt hefur gengið fyrir sig þar. Hugsaðu þér bara kúabúið sem þar var reist á sínum tíma með miklum tilkostnaði — það hafa aldrei komið kýr í fjósið og bústjórinn flutti aldrei inn í einbýlishúsið sem reist var handa honum.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

Þarna var reistur einhver stærsti skóli landsins en hann hefur aldrei verið brúkaður til neins. Þarna er kirkja sem varla hefur verið messað í, o.s.frv. Það hefur fátt heppnast sem átt hefur að gera í Krýsuvík.
Nei, þarna hlýtur eitthvað dularfullt að hafa gripið inní og skrímslið hefur fulla ástæðu til að vera óánægt, því Hafnfirðingar hafa aldrei sýnt því neinn sóma.
— Veistu til að einhver hafi orðið var við þetta skrímsli?
Já, hér áður fyrr sýndu menn því tilskylda virðingu og það má muna fífil sinn fegri. Í ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna segir um Kleifarvatnsskrímslið árið 1749 á þessa leið:

Skrímslið í sólbaði

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Á Kleifarvatni hefur lengi legið það orð, að þar sé ormur svartur á lengd við stórhveli af meðalstærð, og þykjast ýmsir hafa séð hann, þótt ekki sé hans vandi að vera uppi nema stutta stund í einu. Nú fyrir skemmstu bar það við, að fólk, sem var á engjum sunnan við vatnið í sólskini og kyrrviðri, sá þetta skrímsli betur en nokkur hefur áður talið sig sjá það, því að það skreiddist, að sögn fólksins, upp á sandrif, sem gengur út í vatnið. Bakaði það sig þar í sólskininu í meira en hálfa eykt, en hvarf síðan aftur í vatnið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indiáninn.

Engjafólkið varð svo skelkað, að enginn í hópnum þorði að nálgast ófreskjuna. Lá við, að það hlypi í ofboði frá amboðum sínum í besta þerri, en með því að ófreskjan bærði ekki á sér, eftir að hún var komin upp á eyrina, harkaði það af sér. Þó var það þvílíkri skelfingu lostið, að enginn getur lýst því að neinu gagni, hvernig þessi kynjavera hagaði sér.
— Veist þú um einhvern sem telur sig hafa orðið varan við skrímslið nýverið?

Grétar Þorleifsson

Grétar Þorleifsson, formaður byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði.

Ég þekki mann sem segist hafa séð skrímslið — hann heitir Grétar Þorleifsson og er formaður Félags byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði. Hann var þarna við Kleifarvatnið að degi til og sá þá einkennilegar hræringar í vatninu og einhverja stóra skepnu, að honum sýndist. En ef til vill hefur það verið skrímslið eða það sem fólk í gamla daga kallaði skrímsli. Hann er vel kunnugur þarna við vatnið en hefur enga haldbæra skýringu á þessu — nema þá að þarna hafi skrímslið verið á ferð.
Annars er margt dularfullt við Kleifarvatn, skal ég segja þér. Enginn veit t.d. hvers vegna hækkar og lækkar í vatninu til skiptis á tuttugu ára fresti. Jarðvísindamenn hafa rannsakað þetta árum saman en ekki fundið viðhlítandi skýringu.
En mér hefur sjálfum dottið í hug að ef til vill mætti skýra þetta með skrímslinu — það hækkar auðvitað í vatninu þegar skrímslið er í því, rétt eins og gerist í baðkeri.

Göng frá Kleifarvatni til Snæfellsness

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Ég hef líka heyrt að til séu gamlar sagnir um göng sem liggi úr Kleifarvatni alla leið til Snæfellsness. Það er hugsanlegt að skrímslið noti þessi göng og sé stundum á Snæfellsnesi. Hafnfirðingar mega þá vara sig á að Snæfellingar taki sig ekki til og ræni af þeim skrímslinu, með því að hæna það að sér.
— En er þetta nú ekki heldur ótrúlegt með göngin?
Jú, það getur svo sem vel verið og ég er ekki að biðja neinn að trúa þessu. Ég er orðinn langþreyttur á að halda mig við raunveruleikann — því er einhvern veginn þannig varið að það trúir mér enginn ef ég geri það. Trúir þú því t.d. þegar ég segi að Hafnfirðingur sem ég þekki hafi skriðið eins og ormur alla leið frá Hafnarfirði upp í Kaldársel og aftur til baka afturábak, um 10 kílómetra leið?
-Nei!

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Þetta er nú satt engu að síður. Hann skreið alla leiðina í pípum. Hann var að yfirfara samskeytin. Það þarf enginn að trúa þessu frekar en hann vill — það trúa manni fæstir þegar maður segir satt. Trúirðu því að ég fer til Reykjavíkur til þess að viðra hundinn minn, hér í Hafnarfirði má hann ekki vera til frekar en skrímslið. Þetta er nefnilega grínistaþjóðfélag sem við lifum í, það hef ég alltaf sagt. Jafnvel þó maður sé ráðherra má maður ekki eiga hund — en svo er alltaf verið að tala um frelsi. En hvar er svo þetta frelsi?
Um daginn heyrði ég að talað var um ófrjálsar kartöflur í útvarpinu — úr því að það eru til ófrjálsar kartöflur hljóta líka að vera til frjálsar kartöflur. Þessar frjálsu kartöflur eru áreiðanlega það eina sem er frjálst hér á landi, ef þær eru þá til. En ætli það séu íslenskar kartöflur, þessar frjálsu kartöflur, — það hljóta að vera góðar kartöflur sem eru frjálsar. – bó.

Heimild:
-Morgunblaðið, 142, tbl. 24.06.1984, Skrímsli í Kleifarvatni – rætt við Einar Sigurðsson frá Ertu, bls. 66-67.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

TF-VEN

Í Morgunblaðiðinu 1.07.1995 segir frá flugslysi í Geitahlíð; “Flugmaðurinn látinn þegar að var komið”:

Partenavia P68

Partenavia P68.

“Flugvélin TF-VEN fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, síðdegis í gær.
Flugmaðurinn, sem lést, var einn í vélinni. Það var fjögurra manna leitarflokkur úr Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði sem fann vélina um kl. 19.00 í gærkvöldi. Leitarflokkurinn var um kyrrt á slysstað meðan beðið varstarfsmanna loftferðaeftirlits og rannsóknanefndar flugslysa, en óskaði ekki frekari aðstoðar.
Að sögn leitarmanns á svæðinu er flugvélarflakið efst í fjallinu. Hann sagði leitina hafa verið erfiða, skyggni ekki nema 40-50 metrar og stundum minna og að fjallshlíðin sé brött skriða. Flokkurinn lagði upp af þjóðveginum sunnan Geitahlíðar og leitaði einn og hálfan tíma þar til komið var á slysstaðinn.
Flugvélin fór frá Reykjavík kl. 14.10 og var ferðinni heitið til Selfoss. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn var flugmaðurinn reyndur en ekki með blindáritun. Hann áætlaði að fljúga Krýsuvíkurleiðina suður yfir fjöll og síðan austur til Selfoss í sjónflugi. Lágskýjað var á þessum slóðum í gær og versnaði skyggnið þegar leið á kvöldið.
Síðast var haft fjarskipta- og radarsamband við flugvélina kl. 14.15 þar sem hún var stödd við Kleifarvatn og amaði þá ekkert að. Flugvélin hafði flugþol til kl. 16.10.

Geitafell

Slysstaðurinn.

Þegar flugvélin kom ekki fram á tilsettum tíma hóf Flugstjórn þegar eftirgrennslan. Flugvél flugmálastjórnar hóf strax leit og sama gerðu þyrla Landhelgisgæslunnar og einkaflugmenn frá Selfossi. Allar tiltækar björgunarsveitir í Reykjavík, Reykjanesi og á Suðurlandi voru kallaðar út og leituðu 400-500 manns í kringum Krýsuvík og á Bláfjallasvæðinu.
Engin merki bárust frá neyðarsendi flugvélarinnar og gerði það leitina erfiðari en ella. Leitin beindist því ekki síður að vötnum en landi. Leitarmenn fóru á bátum bæði um Djúpavatn og Kleifarvatn og kafarar voru til reiðu.
TF-VEN var tveggja hreyfla af gerðinni Partenavia P68 og í eigu Flugfélags Vestmannaeyja. Flugvélin var nýyfirfarin og vel búin tækjum.”

Í Morgunblaðiðinu daginn eftir segir: “Orsakanna að leita í lélegu skyggni”.
“Flugmaðurinn, sem lést þegar flugvél hans fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, á föstudag, hét Gunnlaugur Jónsson, til heimilis að Heiðmörk 1 á Selfossi.
Gunnlaugur var þrítugur, fæddur 4. apríl 1965 og starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Vestmannaeyja. Hann lætur eftir sig unnustu og einnig níu ára dóttur.
Starfsmenn loftferðaeftirlitsins og rannsóknarnefndar flugslysa fóru á slysstað efst í Geitahlíð í gær. Sveinn Björnsson, sem sæti á í flugslysanefndinni, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að á þessu stigi rannsóknar benti ekkert til að slysið mætti rekja til bilunar í tækjabúnaði vélarinnar. Hins vegar hefði verið mikil þoka og afar lélegt skyggni og líklega væri orsakanna þar að leita.”

TF-VEN
Í skýrslu Flugslysanefndar, M-08595/AIG-07, segir m.a.:
“Slysstaður: NV-hlið Geitahlíðar við sunnanvert Kleifarvatn.
Skrásetning: TF-VEN; farþegaflug.
Farþegi: Enginn.
Dagur og stund: Föstudagur 30. júni 1995, kl. um 14:16.
Yfirlit: Föstudaginn 30. júní 1995 var ákveðið að ferja flugvélaina TF-VEN, sem er í eigu [yfirstrikað] frá Reykjavíkurflugvelli til Selfossflugvallar. Flugmaðurinn áætlaði að fljúga sjónflug og þar sem lágskýjað var hugðist hann fljúga um Kleifarvatn suður um Reykjanesfjallgarðinn og þaðan að Selfossi. Flugtak frá Reykjavíkurflugvelli var kl. 14:09.
Síðast heyrðist í flugmanni TF-VEN kl. 14:17:25, þegar hann taldi sig vera að komast yfir fjallgarðinn. Flugvélin kom ekki fram á Selfossi og leit hófst á áætlaðri flugleið hennar. Flak flugvélarinnar fannst í norðurhlíð fjallsins Geitahlíð, sem er sunnan Kleifarvatns. Flugmaðurinn hafði látist samstundist og flugvélin gerðeyðilagðist.
Rannsókn slyssins bendir til þess, að líklegasta orsök slyssins hafi verið sú, að flugmaðurinn hélt of lengi áfram sjónflugi við versnandi skilyrði, eða þar til í óefni var komið og ekki varð aftur snúið. Flugvélin var í klifri eða lágflugi, þegar hún rakst á fjallshlíðina.
Staðreyndir: Kl. 14:16:55 spurði flugumferðarstjórinn flugmanninn hvernig gengi. Flugmaðurinn sagði þá: “Það gengur bara mjög vel, ég er kominn yfir hálsinn og það er bara bjart hérna hinum megin”.
Slysstaður: 6352420-2200420. Flugvélin rakst fyrst á lítið barð, rétt ofan við klettabrúnina við efstu hjalla fjallsins. Flugvélin virtist hafa verið í klifri og báðir hreyflar gengið á miklu afli. Flugvélin kastaðist um 25 metra upp aflíðandi grýttan mel og stöðvaðist. Skrokkur vélarinnar lagðist saman, framendi hans vöðlaðist inn undir sig og framendinn með vængjunum var á hvolfi, en stélið var á réttum kili. Mikill eldur kom upp í flakinu og um 15o m2 svæði á jörðu, aðallega hlémegin eða til norðausturs frá flakinu, var brunnið og sótlitað.
Greining þátta: “Flugmaðurinn kom inn yfir Kleifarvatn í um 800 feta hæð yfir sjávarmáli, eða í 400 feta hæð yfir [Kleifarvatni]. Yfir vatninu var heldur bjartara að sjá, en ský voru það lítið eitt hærra yfir jörð en sunnan vatnsins og flugmaðurinn hélt sjónflugi áfram suður yfir vatnið. Skýjahæðin fór lækkandi til suðurs, mishæðir á borð við Geitahlíð voru umvafðar þoku að rótum og flugmaðurinn átti æ erfiðara með að staðsetja sig. Hann vissi að skýjatopparnir voru í 5000-6000 feta hæð. Því gaf hann hreyflunum mikið afl og hugðist klifra upp úr skýjunum, en flaug á fjallið Geitahlíð, í um það bil 320 m. (1050 feta) hæð yfir sjávarmáli – með framangreindum afleiðingum.”

Heimildir:
-Morgunblaðið, 146. tbl. 01.07.1995, Flugmaðurinn látinn þegar að var komið, bls.60.
-Morgunblaðið, 147.tbl. 0207.1995, Orsakanna að leita í lélegu skyggni, bls. 44.
-Skýrla um Flugslys, Flugslysanefnd, M-08595/AIG-07 – http://www.rnsa.is/media/4589/skyrsla-um-flugslys-tf-ven-thann-30-juni-1995-personuupplysingar-afmadar-af-rnsa.pdf

Æsubúðir

Geitahlíð.

Kleifarvatn

Í Morgunblaðinu 1967 fjallar Óttar Kjartansson um Kleifarvatn.

Reykjanesskagi

Sveifluháls á Reykjanesskaga.

“Að margra áliti er Reykjanesskaginn bæði ljótur og leiðinlegur. Þar dæmast fjöllin dökk og úfin, gróðursnauð og laus við alla formfegurð, nema þá kannski Keilir, en skaginn í heild nakinn grjótauðn, þurr og óbyggileg að mestu. Jú, rétt er það, víða er þar langt milli vatnsbóla, en ég held samt að margir sem sterk orð nota um eyðileika Reykjanessins séu þeir sem minnst hafa skoðað það. Því, við nánari athugun kemur í ljós að á skaga þessum finnst ótrúlega margt sem gleður augað; Göngumaðurinn uppvötvar grösuga velli og gróin heiðarlönd, fjallið reynist geyma bæði mosa og lyng, jafnvel fagra blómabrekku. Og þótt hraun og mosi þeki miklar víðáttur, og þótt móbergsfjöllin og skagarnir séu hvert öðru lík, langt að séð, er fjölbreytnin í smáatriðum óendanleg þegar betur er að gáð. Verði svo fyrir lækur eða stöðuvatn, eða máske aðeins lítil tjörn, sem raunar er allt helzt til fáséð á þessum slóðum, má ganga að því sem vísu að þar í nánd megi finna fornar hleðslur og veggjabrot sem segja utan og ofan af sögu selsins í heiðinni og lífsbaráttunni sem þar var háð. En nú á tímum traktora og mjaltavéla gleymist víst flestum að hugsa til þess hve raunvenulega er stutt síðan öldin var önnur.

Selalda

Vestari Lækur í Krýsuvík.

En það verður víst ekki hrakið, að Reykjanesskaginn er þurrt land. Mig minnir að hafa megi eftir Sigurjóni Rist vatnsmælingamanni, að ef allt vatn afrennslissvæðis Elliðaánna rynni rétta boðleið ofanjarðar, yrði vatnsmagn þeirra sex til áttfallt það sem nú gefur að líta. Þegar svo vestar dregur á nesinu verða hlutföllin milli úrkomu, afrennslis og rennandi vatns enn óhagstæðari, því það er kunnara en frá þurfi að segja, að rekja má alla strandlengjuna frá Elliðaám, vestur fyrir Garðskaga og Reykjanestá, og þaðan allt austur að Ölfusárósum, án þess að fyrir verði nokkurt vatnsfall sem orð er á gerandi. Ferðast má tugi kílómetra með ströndinni án þess að finna svo mikið sem uppsprettulind. Þó eru þær ekki með öllu óþekktar. Á Vatnsleysuströnd eru til dæmis öflugar lindir í fjöruborðinu. Talið er að nafnið Vatnsleysa tákni ekki vatnsleysi, eða vatnslausan stað, heldur hið gagnstæða, það er að segja staðinn þar, sem vatnið losnar úr læðingi. En eins og rennandi vatn er fátítt á Reykjanesskaga, er þar einnig lítið af stöðuvötnum, þó finnast þau, jafnvel mörg ef allt er tíundað, en hér verður fjallað um hið stærsta þeirra, Kleifarvatn.
Kleifarvatn er stærsta stöðuvatn í næsta nágrenni Reykjavíkur. Það liggur inni í miðjum Reykjanesskaga, svo til beint í suðurátt frá höfuborginni, í um 25 km fjartægð mælt í beina línu. Hæð þess yfir sjávarmáli er um 140 metrar, og í eðli sínu og útliti er það sannkallað fjallavatn, fagurblátt á sólbjörtum degi.
Vatnið liggur í dalhvilft sem verður milli Sveifluháls að vestanverðu og mikillar heiðarbungu sunnan Lönguuhlíðar að austanverðu. Síðan bílvegur var lagður um Krýsuvík og meðfram Kleifarvatni hefur þar verið fjölfarin leið, en áður en það varð vatnið teljast afskekkt, þótt skammt væri það frá byggðu bóli, Krýsuvík. Fjölfarnasta leiðin milli Hafnarfjarðar var ekki með vatninu, eins og nú er, heldur vestan Sveifluhálsins. Þó var stöku sinnum fært meðfram vatninu þegar lágt var í því, á fjöru undan Stapanum, en það var fremur sjaldgjæft. Kleifarvatn er nokkuð ílangt norðaustur, suðvestur. Það eru röskir 5 kílómetrar að lengd. Flatarmálið er mjög nærri 10 ferkílómetrum.

Kleyfarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Samkvæmt dýptarmælingum, sem gerðar voru veturinn 1963—64, reyndist mesta mesta dýpi 97 metrar. Þetta var við lága vatnsstöðu, þannig að dýpið nær sennilega 100 metrum þegar vatnsborðið stendur hæst. Rúmtakið reyndist 200 gigalítrar þ.e.a.s. 290 milljónir teningsmetra, og meðaldýpið er samkvæmt því 29 metrar.
Nokkrir klettahöfðar ganga út í vatnið, að austanverðu og eru tveir nafngreindir, sá nyrðri heitir Lambhagi, norðan hans er Lambhagatjörn, nyrsti hluti Kleifarvatns. Syðri höfðinn við austanvert vatnið beitir Geithöfði og gengt honum að vesanverðu er Lambatangi. Aðrir tveir höfðar við vestanvert vatnið eru vel kunnir, þeir eru Syðri-Stapi og Innri-Stapi eða Stapinn syðri og Stapinn innri. Við bílveginn yfir Innri-Stapa er greypt í bergið málmplata með nafninu „Stefánshöfði “. Hvort það táknar að nafnið Innri-Stapi sé úr gildi fellt veit ég ekki, en ég vona þó að svo sé ekki. Staparnir tveir, svo og Sveifluhálsinn eru úr móbergi sem veðrast mikið og festir þar lítt gróður, en víða er bergið sérkennilega sorfið, og í Syðri-Stapanum eru skemmtilegir skútar og skvompur sem gaman er að skoða, þá eru staparnir báðir ágætir útsýnisstaðir, sér í lagi liggur vel við að stöðvabifreið á Innri-Stapanum, ganga fram á brúnina og njóta útsýnis yfir vatnið.
Í heiðinn í suðaustur af vatninu og ekki langt frá því er lítið fell, 306 metra hátt yfir sjávarmál, fell þetta heitir Gullbringa, og er talið, þótt ótrúlegt kunni að virðast, að Gullbringusýsla hafi nafn af þessu felli. Krýsuvíkurengjar ganga að vatninu sunnanverðu, þar eru tvö fell, Litla- og Stóra-Lambafell. Skammt austan Stóra Lambafells er hverasvæði sem breyttist mikið í jarðskjálftanum 1924, kom þar m.a. fram mikill gufuhver, sem nefndist Austurengjahver.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Þar til nú fyrir ekki mörgum árum, að fiskiræktartilraunir hófust í Kleifarvatni, hefur það verið talið dautt vatn, það er að segja, botngróður hefur verið þar í minnsta lagi og ekki hefur veiðst þar nytjafiskur. Fyrr á tímum hafa menn orðið að finna skýringar á þessu fyrirbæri sem öðrum, og hafa orðið til ýmsar þjóðsögur þar að lútandi. Nefna má til dæmis söguna um Krýsu og Herdísi sem í eina tíð bjuggu á þessum slóðum, Herdís í Herdísarvík, en Krýsa í Krýsuvík, en frá þeim segir svo í þjóðsögum Jóns Árnasonar; Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geithlíð alla og væru landamerki í stórum stein sem stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkru vestar en undir miðri Geithlíð og hefur spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefur runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til að þær báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkru m undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan því henni veitti miður þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið mikil veiði í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörninni í Herdísarvík. Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á tjörnina í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna. Þetta gekk allt eftir. Og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu stjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Fleiri þjóðsögur eru til sem, Kleifarvatn varða, til dæmis segja sumir að bærinn Kaldrani hafi staðið við suðurenda þess. En á þeim bæ dó fólk af að éta öfugugga sem veiðst hafði í vatninu, var Herdísu tröllkonu kennt um tilveru hans þar.

Herdísarvík

Herdísarvík – tóftir gamla bæjarins.

Þá eru einnig sagnir um skrímsli í Kleifarvatni. Eggert og Bjarni segja frá slíkum kynkvendum í ferðabók sinni í Grænavatn í við Krýsuvík og í Kleifarvatni, þeir segja: „öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu. Þegar við vorum á þessum slóðum árið 1750, var okkur sagt margt um Klelfarvatn, aðallega þó það, að vatnið væri fullt af fiski, sem var þar í sífellu í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða hann fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu. Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli eða 30—40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þennan, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annara manna, því oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tíu mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig að í ágústmánuð i 1749 hefði allmarg t fólk, bæði karlar og konur, sem þarna var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskinL séð o r m þennan miklu betur en nokkur maður hefði áður gert, því að hana hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það og þar hefði hann legið í hartnær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný. Fólkiið var svo skelft allan þennan tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land, eða hvernig hann fór aftur í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða stækkaði og skreið áfram, meðan þess að á því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til”.

Kleifarvatn

Indíánin í Kleifarvatni – kemst stundum á þurrt.

Menn hafa veitt því athygli að vatnsborð Kleifarvatns er mjög breytilegt, hækkar ýmist eða læklfar á löngum tíma, jafnvel svo að metrum skiptir. Þetta hafa menn að sjálfsögðu undrast alla tíð, og reynt að finna skýringu á. Eins og kunnugt er hefur vatnið ekki afrennsli ofansjávar, en menn hafa samt viljað meina að einhverskonar göng væru milli þess og sjávar, og bent á eitt og annað því til stuðnings.
Í þessum göngum átti svo að vera einhver dularfullur sogkraftur að verki sem ylli þeirri miklu lækkun sem orðið gat í vatninu.
Þorvaldur Thoroddsen kemur að þessu í ritum sínum, án þess þó að útskýra það frekar. Hann segir til dæmis í Lýsingu Íslands um Kleifarvatn: „Kleifarvatn liggur sem hvos milli Lönguhlíðar og Sveifluháls, menn þykjast hafa tekið eftir því, að vatnið vex og þverrar á víxl, og jafnvel mest þegar þurrkar ganga að því er menn segja; í því e r engin veiði, engin branda nema hornsíli. Á 18. öld gengu munnmæli um að þar hefði áður verið mikil silungaveiði, en menn þorðu þó ekki að reyna veiði sakir skrímsla, sem þeir þóttust hafa séð. Við jarðeldana 1663 er mælt að vatnið hafi orðið fyrir nokkrum breytingum”.
Sumarið 1930 dvaldi Pálmi Hannesson við Kleifarvatn í nokkurn tíma við þriðja mann, gerðu þeir allýtarlegar dýptarmælingar á vatninu og fleiri athugasemdir, eða eins og Pálmi segir sjálfur: „Tilgangur rannsóknanna var að afla nokkurrar vitneskju um lífsskilyrði í vatninu, eðli þess og gerð, en það vex og minnkar eins og kunnugt er og hafa menn verið harla ófróðir um orsakir þeirra breytinga”. Páll lýsir útbúnaði iþeirra félaga við rannsóknirnar, sem líklega mundi þykja helzt til frumstæður í dag, þegar t.d. vatnamælingamenn nota hraðskreiðan vélbát og sjálfritandi mæliæki við dýptarmælingar á vötnum. Árið 1930 var aðeins bílfært skammt suðurfyrir Hafnarfjörð, þannig að ærin fyrirhöfn var að koma nothæfum báti austur að Kleifarvatni.
Niðurstöður Pálma eru í skemmstu máli þær að vatnshæð Kleifarvatns stendur í beinu sambandi við hæð jarðvatnsborðs hverju sinni, en jarðvatnsyfirborðið breyttist í samræmi við úrkomumagn á hverjum tíma.
Í lok greinargerðarinar um þessar rannsóknir, sem birtist í Náttúrufræðingnum árið 1941 segir Pálmi: „Jarðvatnsborðinu hallar allstaðar að Kleifarvatni, nema að norðaustan, og hallinn er víðast hvar mikill. Úrkomuaukning á því greiða leið að vatninu, Aftur liggur afrennsli þess gegnum þröngt skarð, og eyks því ekki svo mjög, þó að vatnsborðið hækki, heldur stendur það fyrir líkt og stífla. Er eklki ósennilegt að þetta skýri það, að Kleifarvatn virðist hækka og lækka meira en önnur vötn”, segir Pálmi Hannesson.
Tíu árum síðar, eða árið 1940, eru aftur gerðar all ýtarlegar rannsóknir við Kleifarvatn. Fyrir þeim stóð Geir Gígja ásamt dr. Finni Guðmundssyni, en rannsóknar þessar vonu gerðar með sérstöku tilliti til athuguna á lífs skilyrðum fyrir silung í varninu, og samkvæmt ósk og að tilhlutan Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Rannsóknir þessar voru mjög alhliða og gerir Geir Gígja grein fyrir þeim í riti um Kleifarvatn sem út kom árið 1944. Niðurstöður hans varðandi fiskeldi í Kleifarvatni voru í stuttu máli þær, að þrátt fyrir allt væru tilraunir í þá átt ómaksins verðar, og leggur hann á ráðin um hvernig haga megi þeim.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Og þessi tilraun var gerð. Árið 1963 stofna Hafnfirðingar með sér veiðifélag sem strax í upphaf hafði á stefnuskrá sinni fiskiriækt á Kleifarvatni og fleiri vötnum í Reykjanesi. Samið var við Hafnarfjarðarbæ árið 1954 um afnot af Kleifarvatni til 30 ára, og þegar tekið til óspilltra málanna við framkvæmd áætlana um fiskirækt í vatninu. Þetta ár voru 14000 silungsseiði af Þingvallastofni flutt í vatnið, og síðan hafa bætst við tugir þúsunda seiða. Árið 1959 byrjuðu fyrst veiðar í vatninu og hafa haldið áfram síðan, hafa þær orðið í samræmi við vonir sem við þær voru bundnar í upphafi. Nokkurir tímabundnir örðugleikar hafa raunar gert vart við sig, vegna þess að nú stendur vatnsborð í Kleifarvatni óvenjulega lágt, en það hefur áhrif á botngróður. En fiskiræktarmenn við Kleifarvatn ráða væntanlega bót á þessum vanda sern öðrum.
Að lokum langar mig til að minnast í stuttu máli á mjög skemmtilega tilraun sem Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur gerði við Kleifarvatn árið 1949. Guðmundur segir frá þessari tilraun í Náttúrufræðingnum 2. hefti þetta sama ár, og kallar greinina „Lítil athugun við Kleifarvatn”.
„Sunnudaginn 20. marz síðastliðinn skrapp ég á reihjóli suður að Kleifarvatni til að viðra mig og stíga á skíði mér til skemmtunar. Auðvelt er að binda skíði á reiðhjól svo að vel fari. Ég gerði mér einnig vonir um að geta í þessari ferð gert dálitla athugun, sem mig hafði lengi langað til og hér verður sagt frá. Veður var ókjósanlegt, norðankaldi framan af degi, bjartviðri, hiti um frostmark og sólbráð, en lyngdi um hádegið og þykknaði upp, hvessti síðan af suðri með lítils háttar fjúki — byr báðar leiðir”.
Og Guðmundur segir frá athugunum annarra fræðimanna, sem ásamt hans eigin, bentu til að straumur væri úr aðalvatninu norður í Lambhagatjörn.

Kleifarvatn

Tröllkerling í einum af Kleifarvatnshellunum.

Þegar svo Guðmundur kemur að vatninu í þetta skipti, eru aðstæður eins og hann óskar, vatnið ísi og lagt að msstu, þannig að hvorki vindur né uppgufun gat tnuflað tilraunina sem hann hsifði hugsað sér að gera, að ganga úr skugga um hvort álit manna um strauminn inn í Lambhagatjörn hefði við örugg rök að styðjast. Með einföldustu tækjum hefur svo Guðmundur tilraunina. Hann segir: „Tækin sem ég hafði til athugana minna, voru einföld í meira lagi: öxi, hönk af grönnu snæri, skíðabindin (stálgormur) sígarettur („Raleigh”), málband og úr með sekúnduvísi”. Hér verður þessari tilraun ekki lýst í smærri atriðum, en hún byggist í stuttu máli á því, að Guðmundur hjó vakir með jöfnu millibili þvert yfir ósinn inn í Lambhagatjörn, mældi dýpið í hverri vök, og lét síðan sígarettu pappír sökkva til botns í vðkinni, mældi tímann sem það tók og vik frá lóðréttri stefnu. Með þessu fann hann út með nokkurrn nákvæmni, að rennsli úr aðalvatninu inn í Lambhagatjörn voru fullir 200 lítrar á sekúndu þennan dag.
Að lokum segir Guðmundur: „Eftir þessa athugun tel ég fullsannaða þá kenningu, sem Ólafur Friðriksson hélt fyrstur fram og nánar var skýrð af Pálma Hannessyni, að vatn streymi stöðugt úr Kleifarvatni inn í Lamibhagatjörn (nema þegar hún er þurr), sígi þar niður og renni burt neðansjávar”.
Eins og Guðmundur Kjartansson nefnir, var það hinn merki áhugamaður um náttúruskoðun, Ólafur Friðriksson, sem fyrstur hélt opinberlega fram kenningu þeirri um afrennsli Kleifarvatns sem nú er viðurkennd. Var það í grein sem hann nefndi „Leyndist í sunnudagsblaði Vísis 29. október 1941.
Umhverfi Kleifarvatns er mjög vel fallið til gönguferða og útivistar, og þar eru ótal viðfangsefni fyrir náttúruskoðara. Sveifluhálsinn er ákjósanlegt verkefni fyrir þá sem vilja fara í stutta fjallgöngu, en kjósi menn lengri gönguferðir, er um að velja t.d. Grindaskörð eða Brennisteinsfjöll austan vatnsins eða t.d. Vesturháls og Trölladyngiu vestan þess. Sunnan vatnsins má nefna Krýsuvíkurberg, skemmtilegt fuglabjarg er nær Reykjavík en margur hyggur.”
Hafa ber í huga að ekki er allt satt, sem sagt er…[ritstjóri FERLIRs].

Heimild:
-Morgunblaðið 25.05.1967, Kleifarvatn eftir Óttar Kjartasson, bls. 7-8.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Gvendarsel

Í “Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998 er m.a. fjallað um gamlar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur; Vatns- eða Dalaleið, sem voru í raun sitthvor leiðin vestan og austan Kleifarvatns millum Krýsuvíkur og Kaldárssels.

Vatns- eða Dalaleið

Breiðdalur

Breiðdalur.

“Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki farið áður. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara [þessa] leið en áður var. …Það er þá fyrst, að þessi leið er stysta og beinasta lestarleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðastaða og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún er nokkrum annmörkum háð, – og hún gat verið hættuleg. Þessi leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar verið tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrfyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávalt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vega á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

…Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun vikið að. …Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrri suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðarbunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypst hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvammahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær er hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í henni við landið. Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar ufir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tildóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur upp á stöpunum, em milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjara. – eða lítið vaxið ef í vexti var. Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamrar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella. Þegar hátt er í vatninu, náði það upp í Helluna, er stórgrýtt er í botnin undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10-20 , ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir: Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. …Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn á Blesaflöt…. Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn í Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur, harðvellisgróður og sem tún yfir að líta. Upp úr norðurbotni Breiðadals er farið yfir allbratt malhaft, og þegar norður af því kemur, er komuð í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og svo má heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið. – Slysadal. …Þegar Slysadal sleppur, er komið í Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu. Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadali, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldárssels.”

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, Fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 271-272.
-Ólafur Þorvaldsson; Ábók 1943-48, bls. 91-94.

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Krýsuvík

Í “Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998” segir m.a. um Gestsstaði og Kaldrana í Krýsuvík.

Gestsstaðir

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

“Gestsstaðir skal hafa verið jörð heitið nálægt Krýsuvík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenningsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsuvíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsuvíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tíma í eyði legið, en engi veit til nær hún hafi bygð verið.” “Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. …Fram undan Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað.”
“Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Bæjartóftin er 10 ft löng frá austri til vesturs, hefur engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dys sjást ógjörla, en á suðurhlið hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum nér norðurhliðinni. Skammt austar er fjóstóft, 5 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir verið umgirt, er það víða komið í sand af frárennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið í eign Krýsuvíkurkirkju. Hefur bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið að nýta hjáleigur í nytum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.”

Kringlumýri

Kringlumýri undir Móhálsum.

Fram kemur að Gestsstaðir hafi fyrst, eftir eldana, sem lögðu Gömlu Krýsuvík í og við Húshólma í eyði, verið “Fram undan Hverafjalli, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað”. Sunnan undir Hverafjalli, nú Hettu, er að finna minjar, mjög fornar, í svonefndri Kringlumýri. FERLIRsfélagar fundu rústirnar árið 2010 og töldu að þar hefði verið selstaða frá Húshólmabæjunum fyrrum. Minjarnar, sem eru miklar umleikis, verulega fornfálegar, eru í grasi gróinni hlíð ofan mýrardraga. Neðan þeirra er ágætt vatnsból í grónum gígbotni.

Kringlumýri

Minjar í Kringlumýri. – uppdráttur ÓsÁ.

Minjar þessar hafa nánast ekkert verið metnar,  hvergi skráðar (annars staðar en hér á vefsíðunni – sjá HÉR), en þær eru augljóslega eldri en þær fornu minjar,  sem nú má sjá sunnan við Gestsstaðavatn.

Kaldrani

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

“Inn við Kleifarvatn er svo kallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarðu úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhál.” “Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafði eyðst vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilungi verða, en hann á óætu að vera, samanber vísuna sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafi étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi.”. Vísan er svona:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana
utan ein niðurseta
sem ei vildi eta.
“Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleifarvatn. Og líka er sagt að þar hafi fólk dáið af loðsilungsáti. Örnefnið Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fm langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bæ. Því garðsspottinn sýnir að þar hafi menn búið á sínum tíma.”

Því miður hefur vegur nú verið lagður yfir meint bæjarstæði Kaldrana. Mönnum hefur löngum verið meint að sjá fyrir gildi þess, sem raunverulega skiptir máli…

Það er ávallt gaman að uppgötva eitthvað nýtt (reyndar er allt slíkt nýtt nú orðið gamalt).

 

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Hér kemur fram að Gömlu Gestsstaðir hafi verið vestan við Móhálsa, en í dag er þeirra minnst austan þeirra, sunnan undir Gestsstaðavatni, sem fyrsta byggð Krýsuvíkur eftir eldanna 1151. Eldri bústaðurinn er sagður týndur í heimildum.
Vestan hálsanna eru reyndar óskráðar tóftir, sem að öllum líkindum voru framhald byggðarinnar í Húshólma og því líklega eldri en elstu heimildir eru um byggð í þeirri Krýsuvík, sem við þekkjum í dag.

Sjá meira um Krýsuvík og Kaldrana HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, 1998.
-JÁM III, 7; Ö-Krýsuvík, 8 15; Árbók 1903, 50.
-Ö-Krýsuvík, 8-9; Árbík 1943-48, 92, Árbók 1803, 59.

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.

Seltún

Á fjórum upplýsingaskiltum við Seltún í Krýsuvík má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesskaginn – myndun og mótun – jarðfræði

Seltún

Kort af eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, háhitasvæðum og rekbelti á upplýsingaskilti við Seltún.

Reykjanesskagi hefur verið í sífelldri myndun og mótun síðustu 6 milljónir ára, allt frá að rekbelti Atlantshafshryggjarins fluttist af Snæfellsnesgosbeltinu og Reykjanes-Langjökulsgosbeltið tók að myndast.
Á Reykjanesi má sjá hvernig rekbelti (flekaskil) Atlantshafshryggjarins gengur á land og fer þvert yfir landið til norðausturs. Það markar virk gosbelti landsins ásamt heita reitnum sem liggur undir miðju landsins. Á gosbeltið raðast virk eldstöðvakerfi ásamt háhitasvæðum landsins.
Fyrir sex til sjö milljónum ára lá rekbeltið um Snæfellsnes og fór eftir það að flytjast til austurs og við það myndaðist Reykjanes-Langjökulsgosbeltið. Síðan þá hefur Reykjanesskagi verið í sífelldri myndun og mótun með eldgosum neðansjávar, undir jöklum ísaldar og á þurru landi, auk þess sem landið hefur mótast af rofi sjávar, vatns og vinda.
Á reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Í hverju kerfi eru sprungusveimar með stefnu norðaustur-suðvestur og háhitasvæði sem raða sér eftir flekaskilum Atlantshafshryggjarins. Að Hengli undanskildum eiga kerfi það sameiginlegt að eingöngu kemur upp basaltkvika í eldgosum.
Goshrinur á Reykjanesskaga virðast að jafnaði verða á um 1000 ára fresti og geta þær staðið yfir í nokkur hundruð ár. Í goshrinum einkennist eldbvirkni af sprungugosum en í goshléum eru jarðskjálftar algengir í eldstöðvakerfunum. Eftir að ísöld lauk, eða síðustu 10.000 ár, hafa hátt í 200 gossprungur myndast á Reykjanesskaga og eru gjall- og klepragígaraðir algengastar. Auk þess hafa myndast níu dyngjur eftir ísöld en talið er líklegt að flest dyngjugosin hafi byrjað sem sprungugos.

Eldstöðvakerfið Krýsuvík

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Krýsuvíkurkerfið er um 8 km á breidd og um 50 km á lengd. Innan þess eru tvö gos- og sprungukerfi sem eru kennd við Trölladyngju og krýsuvík. Jarðfræði svæðisins einkennist af lágum móbergshryggjum, gígum og gígaröðum, hraunflákum og jarðhita.
Móbergshryggirnir Sveifluháls og Vesturháls mynduðust við eldvirkni undir jökli á ísöld og sýna glöggt ríkjandi sprungustefnu eldstöðvakerfisins norðaustur-suðuvestur. Á hryggjunum má greina sprungur, misgengi og sigdali. Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld og er sú goshrina nefnd Krýsuvíkureldar. Í goshrinunni opnuðust gossprungur frá syðsta hluta Núpshlíðarháls [Vesturháls], eftir endilöngum Móhálsadal og norðausturenda Undirhlíða. Gossprungurnar eru ekki samfelldar og sums staðar tvöfaldar, en fjarlægðin frá upphafi til enda þeirra er um 25 km. Í þessum eldum árið 1151 runnu Kapelluhraun og Ögmundarhraun. Kapelluhraun rann úr gosgígum í nyrsta hluta sprungunnar við Undirhlíðar og þaðan til sjávar á norðanverðum Reykjanesskaga. Ögmundarhraun kom upp í syðsta hluta gossprungunnar, fyllti Móhálsadal af hraunum og rann til sjávar á sunnanverðum Reykjanesskaga þar sem það fór yfir hina fornu Krýsuvík.

Seltún

Upplýsingaskilti við Seltún.

Í Krýsuvíkurkerfinu er háhitasvæði með gufuhverum og ummyndun á yfirborði. Ummerki jarðhita eru mest og samfelldust við Seltún í Krýsuvík. Jarðhitasvæðið við Austurengjar markar austurhluta háhitasvæðisins og teygir jarðhitasvæðið sig norður í Kleifarvatn. Jarðhitasvæðið við Trölladyngju nær frá Djúpavatni að Oddafelli og markar vesturhluta háhitasvæðisins. Við Sandfell eru smávægileg jarðhitaummerki á yfirborði.
Hverasvæðin eru síbreytileg og sjá má kaldar jarðhitaskellur á yfirborði sem bendir til þess að þar hafi áður verið virk hverasvæði. Hveravirkni svæðisins hefur oft breyst í kjölfar jarðskjálfta á svæðinu.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu með hlutaðeigandi nöfnum svo lesandinn geti áttað sig á umhverfinu, staðháttum og því sem um er fjallað.]

Háhitasvæði – almennt

Seltún

Háhitasvæðið við Seltún.

Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni er mest. Þau verða til vegna heitra innskota djúpt í jörðu sem geta verið allt að 1000-1200 °C heit í upphafi. Innskotin hita upp nálægt grunnvatn sem verður eðlisléttara og stígur upp til yfirborðsins sem djúpvatn eða gufa. Hluti grunnvatnsins kólnar á leið sinni upp og leita þá aftur niður. Við þetta myndast hringrásakerfi sem er eitt af einkennum háhitasvæða.
Kvikugös sem losna úr heitu innskotinu, eins og til dæmis brennisteinsveti (H25) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxíð (SO2) og koltvísýringur (CO2), blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs. Hitinn og súr efnasambönd valda því að berg grotnar, ummyndast og útfellingar myndast. Þetta kallast efnaveðrun. Háhitasvæði einkennast af fjölbreytilegum jarðhitafyrirbærum og mikilli litadýrð á yfirborði, sérstaklega þar sem berggrunnurinn er úr móbergi en þar er ummyndun meiri og hraðari en t.d. í hraunum.

Jarðhiti við Seltún og Baðstofu.
Jarðhitinn í Krýsuvík dreifist að langmestu leyti á aflangt svæði sem erum um 1500 m langt og um 500 m breitt með stefnu u.þ.b. ANA-VSV. Í austurhlíðum Sveifluháls, við Seltún og Baðstofu (Hveragil), er mest um jarðhita á yfirborði og ummyndanir.

Seltún

Leirhver við Seltún. Leirhverir myndast þar sem gufa streymir upp gegnum grunnvatn og súr vökvinn leysir upp berg og myndar leir sem oft sýður og vellur.

Gufa er ríkjandi á svæðinu en hún hitar upp yfirborðsvatn þannig að bæði leirhverir og gufuhverir eru algengir. Einnig finnast gufuaugu, brennisteinsþúfur og soðpönnur.
Í Krýsuvík er ummyndun mikil og litskrúðug sem sést best á fjölda leirhvera og mislitum leirflögum sem eru rauð, bleik, dökkgrá, blágrá, gulbrún, gul og hvít á lit. Algengustu útfellingar eru hverasölt, brennisteinn [mynd] og gifs. Dálítið hefur fundist af hverajárni.
Eggert Ólafsson náttúrfræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru fyrstir til að bora í jarðhitasvæði á ‘islandi og líkast til í heiminum öllum. Handsnúinn jarðbor var fenginn að láni hjá Konungslega danska vísindafélaginu. Tilgangur borunar var að leita að brennisteini í jarðlögum á hverasvæðum, en brennisteinn var verðmæt útflutningsvara á ófriðartímum í Evrópu. Fyrst var borað við Laugarnesið haustið 1755 og sumarið 1756 í Krýsuvík. Í Krýsuvík voru borðaðar tvær holur og náði sú dýpri 10 metrum. Borholan gaus og var þá bortilraunum hætt.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni 1882.

Brennisteinsnám var í Krýsuvík á árunum 1754-1763 og síðan 1858-1880, en eftir það var lítil eða engin námuvinnsla í Krýsuvík. Samvæmt samtímaheimildum voru flutt út 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík á 18. öld.
Ekki var reynt að bora aftur á svæðinu fyrr en 1941 þegar tilraunaboranir hófust í því skyni að nýta jarðhitann í Krýsuvík til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Árið 1947 lét Rafveita Hafnarfjarðar bora svokallaða Drottningarholu í Seltúni Þegar komið var niður á um 230 metra dýpi gaus holan og var þá borun hætt, holunni lokað, en henni leyft að blása vegna mikils gufuþrýstings. Í október 1999 hætti Drottningarholan að blása en nokkru seinn varð sprenging á borholusvæðinu og myndaðist gígur sem mældist 43 metrar í þvermál. Grjót og grá leirdrulla dreifðist í allt að 700 metra fjarlægð til norðurs frá gígnum. Talið er að Drottningarholan hafi stíflast eða hrunið saman sem olli því að sprenging varð.

Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga og eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun við Krýsuvík gott dæmi um slíka gíga. Sprengigígar (stærri en 50 metrar í þvermál) myndast viðs nögga suðyr grunnvatns, oft í tengslum við eldgos eða kvikuhreyfingar. Minni sprengigígar eru algengir á háhitasvæðum og myndast við að vatn hvellsýður á litlu dýpi, venjulega í tengslum við jarðskjálfta. Nær engin hraun myndast í sprengigosum en dálítið getur komið upp af gjalli og kleprum. Oftast er þó eingöngu að finna grjót og bergmylsnu úr gígveggnum sem getur dreifst hundruð metra frá gígnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Í Krýsuvík hófust rannsóknarboranir að nýju fyrir nokkrum árum og hefur komið í ljós að mestur jarðhiti er á um 300 m dýpi. Nú er til skoðunar að nýta háhita á fjórum svæðum í Krýsuvík en það er á Austurengjum, Sveifluhálsi, Trölladyngju og Sandfelli.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu þar sem m.a. má sjá hvar Drottningarholan var, nálægir sprengugígar sem og brennusteinsvinnslusvæðin.]

[Brennisteinn myndast við oxun á brennisteinsvetni (H25) þar sem vatn er ekki til staðar. Hann er gulgrænn á litinn.]

Almennt um gróður

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróðurfar í Krýsuvík og nágrenni er mótað af langvarandi beit. Afleiðingar gróðureyðingar og jarðvegsrofs sjást víða sem lítið grónir melar, moldarflög og rofabörð. Þar má þó finna allmikið votlendi, grasgefna velli og algróin hraun.
Suðvestan Kleifarvatns er mikið votlendi í sléttum dalbotninum og hallamýrar í hlíðum. Á Reykjanesskaga er lítið um stór og samfelld votlendissvæði og því hefur þetta svæði mikið gildi. Vestan Sveifluháls eru grösugir vellir sem eru sérstæðir á landsvísu. Hraun sem hafa runnið yfir vellina á sögulegum tíma eru nú vaxin gamburmosa. Í hraungjótum má finna burknategundir sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi.
Jarðhiti mótar sérstæðar vistgerðir á afmörkuðum svæðum við hveri og laugar. Austan Sveifluháls er jarðvatnsstaða víða há, þar spretta fram heitir lækir og uppsprettur og finna má mýrahveravist. Laugasef vex víða í rakanum, ásamt öðrum tegundum af sefi og störum, og mosinn laugaslyðra vex í breiðum við hveri. Í þurrara landi má finna móahveravist þar sem mosar eru jafnan ríkjandi. Þar sem jarðhiti hefur ummyndað jarðveg og berg má finna ljósleitt eða rauðleitt yfirborð hveraleirsvistar.

Jarðtegundir og aðrar sjaldgæfar tegundir

Njaðurtunga

Njaðurtunga.

Laugadepla (Veronica anagallis-aquatica) vex einungis á örfáum jarðhitasvæðum hér á landi. Hún þrífst aðeins við laugar og í vogum lækjum. Plantan getur myndað þéttar breiður, stönglarnir eru uppréttir eða fljóta á vatni, laufblöðin fagurgræn og gagnstæð en blómin smá og ljósfjólublá. Laugadepla hefur takmarkað vaxtasvæði og á válista flokkast hún sem tegund í nokkurri hættu.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er sjaldgæf jurt sem vex einungs við jarðhita. Hún þrífst í þurrum, mosavöxnum hraunum en líka rökum, mosagefnum hveramýrum. Plantan er lágvaxin með lanfan og mjóan stöngul sem vex upp af einu til þremur fagurgrænum blöðum. Heiti plöntunnar, naðurtunga, vísar til einhliða gróax sem líkist tungu efst á plöntunni. Á válista flokkast tegundin í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði hennar er takmarkað. Hún finnst þó á mörgum jarðhitasvæðum landsins.
Laugaslyðra (Gymnocolia inflata) er mosategund sem má finna víða á jarðhitasvæðum hér á landi. Mosinn getur myndað þéttar breiður. Hann er breytilegur að lit, jafnan brúnn eða brúnleitur, stundum grænn eða gulleitur og getur jafnvel verið svartleitur eða rauðbrúnn. Hann vex í leirflögum við hveri og laugar en einnig í rökum jarðvegi við tjarnir og læki eða á kafi í vatni.
Vatnalaukur (Isoetes lacustris) er sjaldgæf vatnajurt að mestu bundin við Suðvesturland. Plantan hefur dökkgræn, upprétt og striklaga blöð. Hún er ekki tengd jarðhita og lætur lítið yfir sér þar sem hún vex á botni stöðuvatna og djúpra tjarna. Hún finnst við Krýsuvík og telst sem tegund í yfirvofandi hættu.

Lifandi náttúra

Austurengjahver

Austurengjahver.

Kyngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúröflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni í burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola strandbergið hvíldarlaust. Þetta er náttúran í öllu sínu veldi.

Krýs og Herdís deila um landamerki

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittast á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kyngimagn Krýsuvíkur.
[Hér gleymist að geta um hvernig samskiptum kvennanna lauk, en þær slógust og barst leikurinn til austurs niður í Kerlingardal þar sem þær drápu hvora aðra. Með í för voru smalar hvorrar um sig og laug viðureigninni með því að smali Krýsu drap smala Herdísar og dysjaði bæði þær og hann við gömlu þjóðleiðina milli bæjanna. Þar má enn sjá dysjarnar.]

Fornminjar

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, senilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
[Hér vantar nauðsynlega kort af staðsetningu þess, sem um er rætt.]

Dulúð regnsins

Austurengjar

Austurengjar.

Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð-austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvíkurkirkju er fysrt getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en [tré]kirkjuna byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1875. Þetta var lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns. kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálai [og lögreglumaður] jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðsutu greftrun þar. Á vorin var haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2020.
[Kennarar og nemendur Iðnskólan í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, hafa lokið endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju, eins og hún leit út í upphafi (1875). Hún er væntanleg á upprunanlegan stað fljótlega.]

Land í mótun

Seltún

Hveraútfellingar við Seltún.

Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er á milli landsreksflekanna sem kendnir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða, Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtsihraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ner mest á mó- og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hefur runnið frá. Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun (eiga) eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunna Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
[Hér vantar loftmynd af svæðinu þar sem sjá má m.a. hraunflæðin.]

Sprengigígar kallast á

Krýsuvík

Grænavatn og Stampar – sprengugígar í Krýsuvík.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýsmum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit frá sólu í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum.
[Stamparnir; Stóri-Stampur og Litli-Stampur eru vatnslausir sprengigígar sunnan Grænavatns væru vel umfjöllunarinnar virði – að ekki sé talað um minjar Gömlu-Krýsuvíkur í Húshólma.]

Fuglalíf og eggjataka

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Um 57.000 sjófuglapör verpa í krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var ekkjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóma, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
[Enn og aftur; á skiltið vantar kort af svæðinu þar sen nefndra örnefna er getið.]

Mannrækt við Krýsuvíkurskóla

Krýsuvík

Krýsuvík.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætluninn að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Var þar rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur um langt skeið.
[Hér er nálægra sýnilegra mannvirkja ógetið, s.s. fjóssins, starfsmannahússins, ráðsmannshússins, gróðurhúsanna o.fl., en við þau voru bundnar miklar framtíðarvæntingar við uppbyggingu Krýsuvíkursvæðisins. Þá var Vinnuskólinn í Krýsuvík sérstaklega merkileg viðeytni í lok sjötta og byrjun sjöunda áratuga síðustu aldar og er vel þess virði að vera getið á upplýsingaskilti þar sem fjallað er um Krýsuvík.]

ÓSÁ dró saman.

Seltún

Seltún – hverasvæði.

Kleifarvatn

Hér kemur svolítil, en forvitnileg lýsing, úr Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um Reykjanesið 1752-1757:

Krýsuvík

Krýsuvík – loftmynd.

-Sunnan við Reykjanes er Grindavíkurhöfn, en Bátsandar, sem farmenn kalla Bátssanda, fyrir norðan.
-Sagt er að nykur sé í ýmsum stöðuvötnum. En þetta er allt of alvanalegt, og höfum við áður skýrt skoðun okkar á því efni.
-Grænavatn er í grennd við Krýsuvík. Það er ekki aðeins merkilegt sakir dýptarinnar, sem valda mun litnum á vatninu, sem það dregur nafn af, heldur einnig af því, að þeir, sem búa þar í grennd, segja, að þeir hafi oft séð furðuleg kykvendi koma upp úr því, en þau hafa þó ætíð verið mjög skamma hríð ofan vatns. Maður nokkur fullyrti við okkur, að hann hefði eitt sinn sjálfur séð slíka skepnu. Hún hafi verið smávaxin, á stærð við hnísu, en hún hvarf skjótt aftur. Í Kleifarvatni eru greinilegri frásagnir. Árið 1755 sagði maður einn okkur, að hann hefði þá fyrir skemmstu séð einhvers konar skepnu synda í vatnsborðinu. Að lögun og lit líktist hún skötu, en var geysileg fyrirferðar. Öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Þegar við vorum á þessum slóðum 1750, var okkur sagt margt um Kleifarvatn, aðallega þó það, að þótt menn vissu, að vatnið væri fullt af fiski, sem vakir þar sífellt í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða í því fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu. Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli, eða 30-40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þenna, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annarra manna, því að oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tveimur mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig, að í ágústmánuðu 1749 hefi allmargt fólk, bæði karlar og konur, sem var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskini, séð orm þenna miklu betur en nokkur maður hefðu áður gert, því að hann hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það, og þar hefði hann legið í hart nær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný.

Herdísarvík

Í Herdísarvík.

Fólkið var svo skeflt allan þenna tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land eða hvernig hann fór aftur út í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða hækkaði og skreið áfram, án þess að því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til. Við höfum tilgreint þess sögu til þess að bera hana saman við og treysta það, sem áður er sagt um Lagarfljót.

Hverinn eini

Hverinn eini.

-Hverinn eini heitir kunnur hver, sem liggur nokkrar mílur norðaustur frá Reykjanesi, mitt á milli þess og Krýsuvíkur. Sagt er að hverafuglar, svartir á lit á stærð við smáendur, fiðurlausir með smávængjum, stingi sér í hverinn. (Rétt er að geta þess að hverafuglar verpa jafnan harðsoðnum eggjum, sbr. harðsoðnu eggin ofan við brennisteinstökusvæðið, skammt neðan búðartóftanna, í Brennisteinsfjöllum).
-Fyrir utan Eyrabakka er byggðalagið Flói. Þar búa Flóafífl.
-Magahúð dýra, einkum nautgripa, er skæni kallast, er að vísu notað í glugga, en algengt er það ekki og alls ekki í glugga íveruherbergja, því að það ber lélega birtu, enda þótt það sé sterkt og endingargott. Þess vegna er það mest notað í önnur hús, fjós og þess háttar. Algengasta gluggaefnið er líknarbelgur. Er það hin tvöfalda fóstuhimna dýranna. Innri og fíngerðari himnan er kölluð sérstaklega vatnsbelgur. Einkum er teknar fósturhimnur úr kúm, en stundum einnig úr ám. Eru þær svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.

ÓSÁ tók saman.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.