Hér kemur svolítil, en forvitnileg lýsing, úr “Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um Reykjanesskaga 1752-1757“:
“-Sunnan við Reykjanes er Grindavíkurhöfn, en Bátsandar, sem farmenn kalla Bátssanda, fyrir norðan.
-Sagt er að nykur sé í ýmsum stöðuvötnum. En þetta er allt of alvanalegt, og höfum við áður skýrt skoðun okkar á því efni.
-Grænavatn er í grennd við Krýsuvík. Það er ekki aðeins merkilegt sakir dýptarinnar, sem valda mun litnum á vatninu, sem það dregur nafn af, heldur einnig af því, að þeir, sem búa þar í grennd, segja, að þeir hafi oft séð furðuleg kykvendi koma upp úr því, en þau hafa þó ætíð verið mjög skamma hríð ofan vatns.
Maður nokkur fullyrti við okkur, að hann hefði eitt sinn sjálfur séð slíka skepnu. Hún hafi verið smávaxin, á stærð við hnísu, en hún hvarf skjótt aftur. Í Kleifarvatni eru greinilegri frásagnir. Árið 1755 sagði maður einn okkur, að hann hefði þá fyrir skemmstu séð einhvers konar skepnu synda í vatnsborðinu. Að lögun og lit líktist hún skötu, en var geysileg fyrirferðar. Öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu.
Þegar við vorum á þessum slóðum 1750, var okkur sagt margt um Kleifarvatn, aðallega þó það, að þótt menn vissu, að vatnið væri fullt af fiski, sem vakir þar sífellt í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða í því fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu.
Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli, eða 30-40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þenna, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annarra manna, því að oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tveimur mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig, að í ágústmánuðu 1749 hefi allmargt fólk, bæði karlar og konur, sem var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskini, séð orm þenna miklu betur en nokkur maður hefðu áður gert, því að hann hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það, og þar hefði hann legið í hart nær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný.
Fólkið var svo skeflt allan þenna tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land eða hvernig hann fór aftur út í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða hækkaði og skreið áfram, án þess að því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til. Við höfum tilgreint þess sögu til þess að bera hana saman við og treysta það, sem áður er sagt um Lagarfljót.
-Hverinn eini heitir kunnur hver, sem liggur nokkrar mílur norðaustur frá Reykjanesi, mitt á milli þess og Krýsuvíkur. Sagt er að hverafuglar, svartir á lit á stærð við smáendur, fiðurlausir með smávængjum, stingi sér í hverinn. (Rétt er að geta þess að hverafuglar verpa jafnan harðsoðnum eggjum, sbr. harðsoðnu eggin ofan við brennisteinstökusvæðið, skammt neðan búðartóftanna, í Brennisteinsfjöllum).
-Fyrir utan Eyrabakka er byggðalagið Flói. Þar búa Flóafífl.
-Magahúð dýra, einkum nautgripa, er skæni kallast, er að vísu notað í glugga, en algengt er það ekki og alls ekki í glugga íveruherbergja, því að það ber lélega birtu, enda þótt það sé sterkt og endingargott. Þess vegna er það mest notað í önnur hús, fjós og þess háttar.
Algengasta gluggaefnið er líknarbelgur. Er það hin tvöfalda fóstuhimna dýranna. Innri og fíngerðari himnan er kölluð sérstaklega vatnsbelgur. Einkum er teknar fósturhimnur úr kúm, en stundum einnig úr ám. Eru þær svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.”
-ÓSÁ tók saman.