Grindarskörð

Ætlunin var að ganga frá Strandarhæð ofan Selvogs og fylgja Selvogsgötunni, Eystri leið, til norðurs, allt niður fyrir Grindarskörð.
Bergmyndin í HerdísarvíkurfjalliVið Strandarhæð er Útvogsskáli (Skálavarða) og Dalhólar austar. Á þeim er Árnavarða. Fornugötur liggja niður að Digruvörðu (götur, sem FERLIR hefur áður fetað um Selvogsheiði). Halda átti áfram framhjá Kökuhól og yfir Katlahraun, um Strandardal framhjá Sælubunu og upp í Hlíðardal þar sem bær Indriða lögmanns átti að hafa staðið á fyrri hluta 17. aldar. Ekki var talið með öllu útilokað að enn mætti sjá móta fyrir tóftum þar, ef vel væri gáð.
Þá var ætlunin að rekja götuna um Litla-Leirdal, framhjá Rituvatnsstæðinu, um Hvalskarð, Stóra-Leirdal, um Grafninga og niður Grindarskörð þar sem gangan endaði ofan við Mosa.
Á leiðinni að upphafsstað ráku þátttakendur augun í sérkennilega risastóra bergmynd í veggjum Herdísarvíkurfjalls; kindarhaus, líkt og Surtla heitin hefði rekið þarna hausinn út úr hamrinum (sjá meira HÉR og HÉR). Margt býr í berginu…
Áður en lagt var stað var farið yfir lýsingu af Suðurfararveginum (Selvogsgötunni).
Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar, sem hann tók saman árið 1993.
Selvogsgata - kort“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.
Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.
Hestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.
Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.
Lestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.

Útvogsskáli

Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.
Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.
Kökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni ogmeð góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:
Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar Strandarhellirfjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.
Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við. Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.
Útvogsskáli (Skálavarða)Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað. Tilgangur vörðubyggingarinnar hefu vafalaust verið slá að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.
Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum.

Selvogsgatan við Kökuhól - vörðubrot fremst

Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.
Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.
Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum. Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn. Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar haf verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.
Selvogsgata - loftmyndHestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.
Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna.  Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.
Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell. Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.

Selvogsgatan

Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.
Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu. Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.
Þegar lest okkar er komin á norðurbrún Grindarskarða rétt ofan við Kerlingarskarð blasir við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell. Og enn nær okkur hið mikla helluhraun sem verður illþyrmislega úfið neðan undir Kerlingarskarði. Það er í fyrsta sinn sem nú við 12 ára aldur lít augum hina kvöldfögru strandbyggð Faxaflóans og óraði ekki fyrir því að þar myndi um hálfraraldar skeið æfi minnar renna. Á háskarði höfðum við verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð.
Fyrir niðurgöngu Kerlingarskarðs er litið eftir klyfburði á hestum og gjarðir enn hertar. Við niðurgöngu var sýnt að gatan var vel valin í sveigum og nú vel rudd og vel tókst hinum vönu burðarhestum að spyrna framfótum sínum til móts við aðstæður.  Lestinni farnaðist því vel niður aðalbrattann. En þá tók við úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Hér er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð, þar til mesti hallinn er að baki og við taka sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu á Strandartorfur. Þegar komið var niður Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í norðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Vífilsfelli.
Selvogsgatan í GrafningumVel gekk lestarferðin niður Hellurnar og við taka lágholt eða hrantungur með grasgeirum og moldarrofum. Hér eru því bithagar og væntanlega þess vegna kallaðir Kaplatótur (þunnar torfur). Af landslagi þessu taka við Strandartorfur sem taldar eru hafa tengst ítökum þeirra höfðingja er sátu Strönd í Selvogi fyrr á öldum.
Lestragatan liggur nú bugðótt yfri allvel gróið, gamalt helluhraun með Húsfellið reista á hægri hönd ó norðausturátt. Austanmegin þess liggur úfið, þykk hraunbreiða og sveigist suður fyrir fellið allt niður undir Mygludali þar sem það 
stöðvast í húm hraunkambi.
Nú er kausptaðalestin komin niður úr gamalgróna hrauninu og niður í hina grösugu Mygludali er teygjast á átt til Búrfellsgjár. Þeir einkennast af nær sokknum hraunhólum niður í grassvörðinn. Hér var gjarnan áð á austurleið og klyfjar stundum teknar ofan en nú talin tímaeyðsla þar sem skammt var til ferðaloka. Þess vegna hélt lestin rakleitt áfram yfir dalina út á rauðamelinn slétta í átt til Valahnúka.
Valahnúkar eru norðaustur af Helgafelli og eru gróðurlausar svartmelhæðir með bergstrýtum uppúr. Norðan þeirra hefur fyrr verið gróið land í átt til Mygludala en er nú uppblásið. Norðan í vestasta Valahnúknum er vinalegur grashvammur er nær upp að helli inn í móberg og nefnist Músarhellir.

Selvogsgatan í Grafningum

Kaupstaðalestin er nú kominm framhjá Valabóli og eftir nokkra hlykki á hestagötunni er hún komin á lágan melás er liggur til norðurs með grösugum brekkuhalla að sunnan sem endar niður í djúpum sérkennilegum dal. Þetta er Helgadalur með vinalegri tjörn vestast er nær upp að gjáarbergvegg. Hestagatan liggur niður brekkuna nyrst ú dalnum og kemur að nefndum bergveggofan við tjörnina. Þar liggur gatan upp hið illfæra klif upp á gjáarbergsbarminn. Þegar upp er komið tekur við slétt greiðfært helluhraun, Slétthraun.
Innan við stundarfjóðung var burðarlestin að komast yfir Séttuhraun sem markaðist vestanvert af Folaldagjá, ljótri sprungu í misháum gjáarvegg er lá í átt til Gjáarréttar í norðaustri. Þar allnokkru norðar Selogslestargötu reis upp allhár bergkambur vestan við gjána og ber nafnið Smyrlabúðir. Þar verptu smyrlar í áraraðir. Þegar burðarlestin var komin norðvestur yfir Folaldagjá tóku við uppblásin melholt og vel grónir lágmóar sunnan þeirra, ásamt kjarrbreiðum og nær bithagi þessi fram í átt til háhæðar Sléttuhlíðar.

Brátt fer hið úfna apalhraun á hægri hönd að láta meira til sín taka en hestagatan fær möguleika til þess að liðast eftir vinalegum grasgeirum sunnan undir hrikalegum hraunjarðrinum á hægri hönd. Endaði þessi sérkennilega vegferð í þríhyrndi grasflöt er teygðist suður á vestrubrún Sléttuhlíðar. Þar lá gatan yfir allgróið hraun í átt til austurenda Setbergshlíðar og lá í hallanum niður að hlíðinni fast að Kershelli. Kershellir opnast til suðurs í er bolli með botngróðri er nær upp að lestargötu þeirra Selvogsmanna. Þar var talið að hraktir vegfarendur hafi leitað skjóls fyrr á tímum, sem og í Músarhelli Valabóla.
Fleiri sigbollar með smáhellum eru sýnilegir á vinstri hönd á leið niður hallan frá Kershelli uns komið er niður á jafnlendið móts við austasta hluta Setbergshlíðar. Þar með hefst síðasti áfangi leiðarinnar eftir vel ruddri hestagötu milli hinar fögru kjarrivöxnu Setbergshlíðar á hægri hönd og Gráhelluhrauns á vinstri hönd en það er gamalgróið hraun, lungi og kjarri vaxið og geymir ótal hraunbolla grasi og skógi vaxna. Þar er einnig að finna minjar um sauðfjárbúskap Setbergsbænda.
Gráhelluhraun nær frá Setbergshlíð suður ap norðausturhlíðum Ásfjalls en það mjókkar og dulúð þess magnast er nær Selvogsgatan ofan Mosadregur byggð og á sín endimörk nyrst undir Hádegisholti (eyktamörk frá Setbergi).
Kaupstaðalestin úr Selvogi hefur nú að baki götuna ljúfu undir hinni fögru Setbergshlíð og slakkan norðvestan hennar og er nú undir nyrsta hluta Hádegisholts.
Þar má sjá hinar tæru bergvatns-uppsprettur sem streyma fram undan nyrsta hluta Gráhelluhrauns og verða að straumhörðum læk er hlykkjast milli hrauntungu og láglendis suðaustur af Setbergstúnjarðri uns hann mætir læk þeim sem rennur úr Urriðakotsvatni og fer síðan niður austan við Kaplakrika til suðausturs. Sameinaðir verða þeir að Hamarskotslæk er rennur til sjávar gegnum Hafnarfjarðarbyggð vestan Hamarsins.
Vegferð lestarinnar liggur frá Lækjarbotunum í átt til Mosahlíðar á vinstri hönd og fram hjá Hvíldarbörðum sem svo voru kölluð vegna þess að fyrri tíma Hafnfirðingar settust þar niður á göngu sinni með hrísbagga sína er ætlaðir voru til eldneytis. Síðar varð þarna hinn endanlegi hvíldarstaður þeirra, Kirkjugarður Hafnafjarðar. Þar rétt neðar komum við að Selvogsgötu sem svo er nefnd vegna hinna fastmótuðu lestarferða Selvogsmanna vor og haust um aldir.
Nú er ljóst að við höfum verið rúma fjóra tíma á leið okkar úr Kerlingarskarði og þar með á tíunda klukkutíma úr Selvogi, að frádreginni áningu í Stóra-Leirdal.”
Enn sést móta fyrir stekknum vestan við Útvogsskálavörðuna. Gatan liggur niður með stekknum og verður æ greinilegri eftir því sem húm fjarlægist gróningana á hæðinni.Í lýsingunni sleppir Konráð hins vegar Skarðsvatnsstæðinu, stuttu áður en komið er að Kerlingarskarði.
Fallnar vörður og vörðubrot eru við þennan kafla Selvogsgötunnar svo til alla leiðina, frá Útvogsskála á Strandarhæð að Mosum undir Grindarskörðum. Upplýsing um tóftir bæjar Indriða lögréttumanns Jónssonar í Hlíðardal er og verður tilefni sérstakra skrifa á vefsíðuna (sjá HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Sjá MYNDIR.
Heimild:
-Konráði Bjarnasyni – 1993.

Lambagras