Komið hefur verið fyrir þjónustu- og salernishúsi við Seltún í Krýsuvík.
Það mun hafa verið Grindvíkingurinn Óskar Sævarsson, forstöðumaður Saltfiskseturs Íslands og fulltrúi Grindavíkur í Reykjanesfólksvangsnefnd, sem af einskærri atorkusemi stuðlaði manna helst að uppsetningu húsanna.
FERLIR var við Seltúnið þegar komið var með þau á tveimur pallbílum frá Grindavík í dag kl. 10:35, laugardaginn 29. maí, en formleg opnun hefur verið ákveðin þriðjudaginn 15. júní n.k.
Hafnarfjarðarbær og Óskar Sævarsson, fyrir hönd stjórnar Reykjanesfólk-vangs, hafa gert samkomulag um reksturinn. Reykjanesfólkvangur tók að sér að koma upp þessari bættri aðstöðu fyrir ferðamenn við Seltún. Annað húsanna er 40 fermetra skáli og hitt er salernishús þar sem verða fjögur salerni. Áður voru hús þessi staðsett á „Reykjavegi“ gönguleið frá Reykjanestá til Þingvalla og hugsuð sem aðstaða fyrir göngufólk. Húsin voru smíðuð með tilliti til þess að falla vel að náttúrulegu umhverfi. Fólkvangurinn mun næstu þrjú sumur samkvæmt samkomulaginu sjá um rekstur á mannvirkjunum og þjónustu við gesti staðarins. Starfsmaður Reykjanesfólksvangs mun m.a. hafa aðstöðu þarna.
Ferðamálastofa styrkti flutninginn og standsetningu húsanna. Hafnarfjarðarbær greiðir síðan á samningstímanum ákveðna upphæð á ári til Reykjanesfólkvangs sem sér um allan rekstur á umræddum húsum og nýtir þau til umbóta fyrir ferðamenn á Seltúnssvæðinu með áherslu á hreinlætis- og salernisaðstöðu. Reykjanesfólkvangur sér um viðhald á húsunum og ber kostnað vegna skemmda. Framlag Hafnarfjarðarbæjar byggir m.a. á núverandi rekstarkostnaði vegna þurrsalerna sem fram að þessu hafa verið flutt til svæðisins á hverju sumri. Skemmdarvargar hafa leikið þau grátt, en vonir standa til að allir leggi sig fram við að umgangast þessa stórbættu aðstöðu með vinsemd og virðingu. Seltúnið er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.
Næsta verkefni verður væntanlega að ganga frá í kringum húsin, fjölgera stíga um svæðið og lagfæra merkingar, sbr. Seltúnsselið og námutóftirnar.
Á meðfylgjandi myndum má m.a. sjá þegar húsin voru flutt á vettvang.