Hamarskot

Í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983 eftir Ásgeir Guðmundsson er m.a. fjallað um bújarðir í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar:

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

“Helsta bújörð í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Hvaleyri. Lítið er vitað um hana fram til ársins 1703 annað en það, að hún var í eigu Viðeyjarklausturs fram að siðaskiptum, en þá sló konungur eign sinni á hana eins og annað í klaustursgóss. Í kaþólskum sið var kirkja á Hvaleyri, sem var annexía frá Garðakirkju á Álftanesi. Þessi kirkja var lögð niður árið 1765. Rækilegar upplýsingar um Hvaleyri er að fá í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar kemur fram, að jörðin var ekki mikil bújörð, en höfuðkostur hennar var góð lega til fiskviða, enda var útræði frá Hvaleyri allan ársins hring. Þó var útvegur Hvaleyrarbónda heldur lítilfjörlegur árið 1703. Á fyrri hluta 18. aldar varð túnið á Hvaleyri fyrir miklum skemmdum af völdum sandfoks og ágangs fugls og maðks. þegar Þorsteinn Jónsson varð ábúandi á Hvaleyri árið 1770, hófst hann handa um umbætur á jörðinni, og tók hún miklum stakkaskiptum. Frá árinu 1772 eru til tvær myndir af bæ Þorsteins á Hvaleyri, sem menn í leiðangri Sir Joseph Banks teiknuðu. Árið 1870 keypti séra Bjarni Sívertsen Hvaleyri af konungi, en að Bjarna látnum var jörðin seld, og gekk hún kaupum og sölum næstu áratugina. Árið 1870 keypti séra Þórarinn Böðvarsson heimajörðina á Hvaleyri, og nokkrum árum síðar gaf hann og kona hans jörðina ásamt tilheyrandi húsum, svo og Flensborgarlóðina, til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Heimajörðin á Hvaleyri var síðan í eigu Flensborgarskólans og síðar Gjafasjóðs séra Þórarins Böðvarssonar og konu hans, uns Hafnarfjarðarbær keypti hana árið 1956 með leyfi menntamálaráðuneytisins. Nú er golfvöllur á Hvaleyri.
Þorsteinn Egilsson kaupmaður eignaðist smám saman alla Hvaleyrartorfuna, að undanskilinni heimajörðinni. Hinn 12. desember 1912 seldu erfingjar Þorsteins Hafnarfjarðarbæ torfuna.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Önnur helsta bújörðin í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Jófríðarstaðir. Jarðarinnar er fyrst getið 1541, og var hún þá eign Skálholtsdómkirkju, en árið 1563 eignaðist konungur Jófríðarstaði og nokkrar aðrar jarðeignir í Gullbringusýslu. Árið 1804 keypti Bjarni Sívertsen jörðina af konungi og reisti þar skipasmíðastöð. Að Bjarna látnum gekk jörðin kaupum og sölum, uns kaþólska trúboðið (Campagnie de Marie) eignaðist hana alla árið 1922.
Þriðja bújörðin í landi Hafnarfjarðar var Hamarskot, sem dró nafn sitt af Hamrinum. Nafnið bendir til þess, að hér hefur ekki verið um stórbúli að ræða. Hamarskot er fyrst getið árið 1579, og var það þá í eigu Garðakirku. Síðar eignaðist landssjóður jörðina, en árið 1913 keypti Hafnarfjarðabær hana, að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarstúnbletti. Hafnarfjarðarbær keypti þessi tvö tún árið 1930, og hefur allt Hamarskotslandið því verið í eigu bæjarins frá þeim tíma.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Fjórða bújörðin í Hafnarfirði var Akurgerði norðanmegin fjarðarins. Búskap lauk þar á seinni hluta 17. alfar. Fram til 1677 var akurgerði hjáleiga frá Görðum á Álftanesi, en þá hafði Hans Nansen yngri makaskipti á Akurgerði og hálfum Rauðkollsstöðum í Eyjahreppi í Hnappadalssýslu. Um leið var verslunarstaðurinn, sem hafði verið á Háagranda á Hvaleyrarhöfða, fluttur í Aksurgerðisland. Einungis var um þurrabúðir að ræða í Akurgerði eftir 1677.
Af því, sem hefur verið rakið hér að framan, er ljóst að fram til 1677 voru fjórar bújarðir í Hafnarfirði, en þegar Akurgerði var tekið undir verslunarstað, voru þrjár eftir. Það var ekki fyrr en á fyrri hluta 19. aldar, að byggðin fór að aukast í firðinum og allmörg smámýli risu í lægðinni sunnan við fjarðarbotninn. Þessi smábýli voru upphaflega þurrabúðir, sem voru reistar í hinu forna Jófríðarstaðarlandi, þ.e. þeim hluta þess, sem firmað Jensen & Schmidt seldi Steingrími Jónssyni og Árna Hildibrandssyni árið 1848 og hlaut seinna nafnið Hamar. Hafnarfjarðarbær eignaðist Hamarsland árið 1915. Af nýbýlum í Hamarslandi er Óseyri elst.”

Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson – Bújarðir í Hafnarfirði, I. bindi, bls. 25-26.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.