Hvaleyri

 Í “Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005” segir m.a. um sögu Hvaleyrar:

“Hér er stiklað á stóru í sögu Hvaleyrar.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum.

Heimildir um nafnið Hvaleyri er að finna allt frá Hauksbók Landnámu frá því að Hrafna-Flóki fann hval á eyri einni og kallaði það Hvaleyri. Í Landnámu er síðan sagt frá að bróðursonur Ingólfs hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, ásamt öllu Álftanesi (ÍF I, Bls. 39, 394).
Í Jarðtei[k]nabók er Teitur sagður búa á Hvaleyri 1300-1325 (Biskupasögur. 1. Bls. 286).
Árið 1395 er Hvaleyri eign Viðeyjarklausturs og var leiga til klaustursins 4 hndr. (DI III. Bls. 597).

Hvaleyrartjörn

Hvaleyrartjörnin fyrrum.

Þá segir í heimildum frá 1448 að á Hvaleyri hafi verið kirkja (DI IV. Bls. 751).
Í Jarðabók frá 1703 segir að á Hvaleyri sé hálfkirkja og embættað þrisvar á ári (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170. Kaupmannahöfn 1923-1924).
Í Sögu Hafnarfjarðar frá 1933, segir m.a. að á Hvaleyri hafi verið kirkja í kaþólskum sið, en eigi er kunnugt hvenær hún hafi verið reist fyrst. Þessi kirkja hefur verið graftrarkirkja, því enn sést fyrir kirkjugarði í tún heimajarðarinnar á Hvaleyri (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 23, Reykjavík).
Jarðabókin frá 1703 segir m.a. að jörðin sé í konungseign.

Hvaleyri

Hvaleyri á 20. öld.

Þá er þess getið að Hvaleyrarkot sé aftur byggt eftir að ahfa verið í eyði svo lengi sem menn muna. Í Jarðabókinni er að finna greinagóða lýsingu á Hvaleyri þar sem segir frá búsetu, búháttum, landgæðum og hjáleigum. Þar segir m.a.:
Hvaleyri er kirkjustaður með annexíu til Garða á Álftanesi þar er ei nema hálfkirkja og embættar þrisvar á ári. Jarðadýrleiki er óviss því jörðin tíundast engum. Jörðin er í konungseign. Ábúandinn er Ormur Jónsson. Landskuld er eitt hundruð. Greiðist með sex vættum fiska í kaupstað síðan forpachtningin hófst en áður heim til Bessastaða. Áður til forna hefur landskuldin verið greidd í fríðu með einum hundraðasta. Við til húsabótar hafa ábúendur lagt uppbótarlaust yfir sextíu ár. Leigukúgildi eru þrjú. Leigur greiðist í smjöri heim til Bessastaða. Kúgildin uppyngir ábúandinn uppbótarlaust yfir sextíu ár. Kvaðir eru um mannslán um vertíð, að auki tveir hríshesatr heim til bessastaða með skyldu, en margoft þar fyrir utan einn hríshestur, tveir eða þrír eftir þörfum, en í tíð Heidmanns voru þeir sjö um árið að meðtöldum skylduhestum. Hér að auki tveir dagslættir árleg aheim til Bessastaða og fæðir bóndinn verkamennina sjálfur að auki skipsferðir hvenær sem umboðsmaðurinn á Bessastöðum þarf á að halda vetur eða sumar og er hægt að áætla hve margar þær geta verið. Fæðir bóndinn þann mann ávallt sjálfur, hvort sem ferðin er löng eða stutt.
Kvikfénaður eru þrjár kýr, einn kálfur, fjórar ær, þrír sauðir veturgamlir, fjögur lömb, einn hestur, eitt hross með fyli. Fóðrast geta fjórar kýr. Heimilismenn sex. Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Hrísrif nokkurt hefur jörðin í heimalandi og er það að mestu eytt, að öðru leyti hefur hún hrísrif til eldiviðar í almenningum og svo til kolagerðar. LLyngrif og stunga í lakasta mála nærri ónýt. Fjörugrastekja nokkur. Rekavon nokkur. Hrognkelsafjara nægileg til beitu líður ágang af öðrum jörðum.
Heimræði er árið um kring og lending góð og ganga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hér oft undir kongsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauridts Hansson Siefing var á Bessastöðum. Heidemanns vegna hefur það ekki verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – túnakort 1908.

Inntökuskip hafa hér stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu.
Túnin spillast af sandágangi. Engjar eru engar. Vatnsból er ekki gott, og þrýtur bæði vetur og sumar.
Hjá kvöðunum var gleymt að skrifa að á umliðnu hausti sendi umboðsmaðurinn Páll Beyer að Hvaleyri lamb í fóður, tók ábúandinn við því á launa, sama gjörði veturinn á undan umboðsmaðurinn sem þá var Jens Jurgensson, og hefur ábúandinn heldur ekki fengið fyrir það laun. Hafa þessar kvaðir aldrei áður verið, að auki var 1701 og nú í sumar heyhestur heimtur fyrir fálkaféð. Þetta hefur ekki fyrr eða síðar gert verið.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókaklöpp og nágrenni.

Hvaleyrarkot er gömul hjáleiga byggð eftir að hafa verið í eyði svo langt sem menn muna sem eru lifandi, og nú aftur komin í eyði fyrir þremur árum. Landskuld var meðan þar var búið 60 álnir og greiddist í fiski til heimabóndans, að auki eitt kúgildi og greiddust leigur í smjöri heim til bóndans. Gæti byggst aftur ef einhver þyrði að vera upp á sjávaraflann kominn, nú hefur heimabóndinn grasnytina þar sem með fylgdi (Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók III. Bls. 168-170, Kaupmannahöfn 1923-1924).
Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a. að Hvaleyri sé í Álftaneshreppi og jarðanúmer 168. Hvaleyri sé í bændaeign, dýrleiki sé 20 hundruð, landskuld sé 0.100, kúgildi séu 2, og eigandinn sé einn. Í skýringum segi rum Hvaleyri að í Jarðabók frá 1803 séu nefndar fjórar byggðar hjáleigur, Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir (J. Johnson, Jarðatal á Íslandi. Bls. 91, Kaupmannahöfn).
Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og má það vera ein ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust. Árið 1815 kaupir Bjarni Sívertssen jörðina af konungi, og síðan kaupir Jón Illugason snikkari jörðina árið 1834 af dánarbúi Bjarna riddara Sívertssens. Jón Illugason seldi síðan jörðina Jóni Hjartarsyni í Miðengi í Árnessýslu. Eftir lát Jóns tók ekkja hans , Þórunn Sveinsdóttir, við Hvaleyri, hún gaf síðan Sigríði frændkonu manns síns mestan hluta jarðarinnar 1868. Sigríður giftist síðan Bjarna Steingrímssyni hreppstjóra á Hliði. Jörðin var síðan seld síra Þórarni Böðvarssyni í Görðum árið 1870. Síra Þórarinn og kona hans gáfu síðan heimajörðina Hvaleyri til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla Flensborg í Hafnarfirði árið 1881 (Sigurður Skúlason 1933. Saga Hafnarfjarðar. Bls. 36-37 og 42-45. Reykjavík).
Elstu heimildir um náttúrfar á Hvaleyri eru frá árinu 1365, en þá er sagt af sandfjúki og sjávargangi á tún á Hvaleyri (Gísli Sigurðsson. Hvaleyri, Hafnarfjörður, Gullbringusýsla. Örnefnastofnun Íslands).

Hvaleyri

Málverk sem sýnir Hvaleyrina fyrir tímalandnáms Keilis. Myndina málaði sænskur málarisem bjó á Íslandi og gekk undir listamannsnafninuThy-Molander. Myndina gaf Magnús Guðmunds-son, barnabarn ÁrsælsGrímssonar fyrstastarfsmanns Keilis.Taliðer að myndin sé máluð íkringum 1950.

Frá árinu 1703 er sagt frá að hún hafi spillst af sandgangi, og engjar séu engar.
Árið 1730 voru Hvaleyrartún stórskemmd af grasmaðki og einnig herjuðu sandfor og fugl á það. Mikill lausamosi var í túninu. Túnið hélt áfram að skemmast og árið 1751 varð að slá tveimur vættum og einu kúgildi af afgjaldi jarðarinnar hvort sem það hefir eingöngu verið landskemmdum að kenna.
Á árunum 1754-1757 býr enginn á Hvaleyri, og má það vera ástæða þess að bæjarhús og tún spillast.
Á syðsta hluta Hvaleyrarholts mun hafa verið skógarítak Gufuneskirkju.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar, 2005. [Skráningin er að vísu mjög ófullkominn og erfitt að átta sig á staðháttum við lestur hennar.]

Hvaleyri

Hvaleyri í dag – 2021.

 

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.