Eftirfarandi er frásögn Gísla Sigurðssonar um leiðir í Krýsuvík. Hér lýsir hann Drumbdalastígnum og leiðum að honum frá Krýsuvík…
“Við höfum verið við guðsþjónustu í Krýsuvíkurkirkju. Við höfum notið góðgerða á heimili kirkjuhaldarans. Við kveðjum þá alla með virktum. Komnir fram á hlað ráðum við ráðum okkar, því um tvær leiðir er um að ræða. Við tökum þá sem liggur austur úr túni, enda verðum við samferða Norðurkotsbóndanum. Við förum ofan traðanna og yfir Dalinn í Norðurkotstraðir og eftir þeim. Norðurkotsbóndinn fer heim til sín, en við höldum austur og innar með Bæjarfelli. Erum áður en langt um líður komin að garði er liggur ofan úr fellinu og út á Rauðhólsmýrina, er garður þessi átti að liggja norðan og ofan við Litla-Nýjabæ, en verkinu lauk þarna úti í mýrinni. Þegar komið er alveg norður fyrir fellið verður fyrir okkur steinn mikill og n okkrar rústir kringum hann. Hér er Hafliðastekkur, en hvenær sá Hafliði bjó hér og hafði hér stekk er ekki að vita. Héðan stefnum við svo norður og upp mýrina austan við Skugga og þar upp á hálsinn.
Við erum þá aftur stödd heima á hlaði í Krýsuvík. Og nú höldum við vestur um Dal í túninu og þar vestur úr Vesturtúngarðshliði og erum áður en varir komin á Alfaraleiðina gömlu, upp á Bæjarhálsi og höldum eins og leið liggur vestur yfir melana að Svartakletti, vestur frá honum norðan við Einbúa og þar upp á Hálsinn og erum þá komin að Stóra-Drumb.
Höldum svo norður um ofanverða Drumbsdali og yfir hálsinn hjá Litla-Drumb. Leið þessi nefnist Drumbsdalastígur. Þegar þangað kemur sveigir gatan nokkuð til norð-austurs og niður að læk. Þá er vert að staldra við. Ég var svo heppinn fyrir nokkru, að fá í hendurnar kort, sem út var gefið 1931 af Bókmenntafélaginu, eins og þar stendur “af Hinu íslenska bókmenntafélagi”.
Þegar ég leit á þetta kort og tók að lesa örnefni og fleira, hvað er það þá sem ég rekst á? Ekkert minna en að leiðin sem við erum að fara um, þegar kemur norður fyrir Litla-Drumb. Hún nefnist S V E I F L A: Og þá höfum við fundið hvers vegna Austurhálsinn er kenndur við, en eins og þið vitið nefnist hann SVEIFLUHÁLS: Vil ég einnig minna á að hálsarnir hér eru á korti Ólafs Ólavíusar, kallaðir Móhálsar og leiðin hér, kirkjugatan frá Vigdísarvöllum er þar nefnd MÓHÁLSASTÍGUR. Einnig eru hálsarnir nefndir Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) eins og áður greinir.
Við höldum svo niður af hálsinum að Kringlumýrarlæk og austur með honum að vaði yfir hann. En áður en við höldum áfram er ómaksins vert að koma við þar sem lækurinn fellur vestur af og niður. Þar fellur hann um móbergsklappir. Hefur hann, þó lítill sé, grafið gil í móbergið og skilið þar eftir sig þvílíkan skúlptúr að aðdáunarvert er. Brestur mig orð til að lýsa hvílíka fegurð þar er að finna. En sjón er sögu ríkari og komið þið með með og skoðið listaverk þessa litla lækjar.
Við höldum svo niður af Hálsinum í dalinn milli Móhálsanna og yfir að Vigdísarvöllum. Það er af Vigdísarvöllum að segja, að um aldir var þar selstöð frá Þorkötlustöðum í Grindavík. Var selstaðan látin í té fyrir skipsuppsátur á Þorkötlustöðum. 1834 segja kirkjubækur fyrst frá því, að þar sé ábúandi, leiguliði frá Krýsuvík. Bali aftur á móti er ekki byggður fyrr en 1845 og er í byggð fram til 1870. En Vigdísarvellir voru í byggð fram um aldamótin síðustu. Um æði margar gönguleiðir er að ræða frá Vigdísarvöllum.”
-Handrit Gísla Sigurðssonar – Landslag og leiðir – Útvarpið – Gönguleiðir út frá Krýsuvík.