Færslur

Seltúnssel

Gengið var frá Seltúni að tóftum bæjarins Fells skammt sunnan Grænavatns.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Nafnið Seltún bendir til selstöðu frá einhverjum Krýsuvíkurbæjanna, en hvergi er hægt að greina ummerki eftir það svo glögglega megi teljast. Lítil tóft er á gróinni skák nálægt hverasvæðinu, en hún gæti einnig hafa verið eftir námumenn, sem unnu brennistein á svæðinu á 19. öld. Ágætt handunnið kort er til af námusvæðinu, sem reyndar voru þrjú, þ.e. upp í Baðstofu undir Hettu, utan í Hnakk og ofan við Seltún. Á síðastnefna svæðinu munu umsvifin hafa verið mest. Til eru ljósmyndir Englendinga er sýna háa brennisteinshrauka þar sem nú er bílastæði. Lækurinn var stíflaður með tréþiljum á nokkrum stöðum til að mynda þvottaþrær og má enn sjá leifar þeirrar neðstu austan þjóðvegarins. Frá Seltúni liggur Ketilsstígurinn upp á Austurháls.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Reyndar segir einnig af skrímsli í Kleifarvatni. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.

Krýsuvík

Fell í Krýsuvík.

Litið var á tóftir Fells, sem er í gróinni hvylft vestan í melhæð norðan Stóra-Nýjabæjar. Fáar sagnir eru til af bæ þessum, en hann mun hafa verið einn af fjórtán hjáleigum frá Krýsuvík. Aðrar má t.d. telja Eyri og Fitjar við Selöldu. Vigdísarvelli, Snorrakot, Suðurkot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ og Hnausa. Gestsstaðir suðvestan Gestsstaðavatns og Kaldrani suðvestan Kleifarvatns eru með elstu minjum bæja á svæðinu.
Litið var á Augun, tvo gíga er þjóðvegurinn liggur millum, Sefið er tengist sögunni af barnsmorði ólánskonu frá Stóra-Nýjabæ, brunn við Litla-Nýjabæ og strikið síðan tekið að Grjóthólsrétt utan í Gráhól. Því miður hafa bæjarstæði fyrrnefndu bæjanna verið afmáð og sama gildir um réttina. Þegar þjóðvegurinn var lagður var hún tekin í undirlagið. Norðan við hólinn má sjá gamla veginn áleiðis til Krýsuvíkur og enn móta þar fyrir steinbrú, sem á honum hefur verið.

Stínuskúti

Stínuskúti.

Gengið var yfir Vestari-læk, um bæjartóftir Lækjar og stefnan tekin á Arnarfell. Norðan við fellið er hlaðinn stekkur og upp í fellinu að norðauatsnverðu er lítill skúti er jafnan hefur verið nefndur Stínuskúti. Frá Norðuröxl Arnarfells sést vel yfir Krýsuvíkurtorfuna. Suðvestan við kirkjuna er áberandi hóll og tóft austan í honum. Hóllinn heitir Ræningjahóll og tóftin Ræningjadys.
Svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var um tóftir bæjarins undir Arnarfelli. Beinteinn var maður nefndur er bjó að Arnarfelli. Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna. Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan.

Krýsuvík

Arnarfell fjær.

Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.
Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.
Litið var á Arnarfellsrétt suðvestan undan fellinu. Um er að ræða fallega hlaðna rétt og er hún enn nokkuð heilleg.
Í bakaleiðinni var komið við í Krýsuvíkurétt, Krýsuvíkurkirkju og skoðaðar tóftir bæjanna að Hnausum, Norðurkoti og Snorrakoti, auk þess sem komið var í hinum fornu tóftum að Gestsstöðum, gengið með börmum Gestsstaðavatns og yfir á Seltún. Síðastnefndu stöðunum er lýst í annarri FERLIRslýsingu (sjá HÉR).

Seltúnssel

Seltúnsselið.

 

Brennisteinn

Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Bændur áttu brennisteinsnámurnar og unnu í þeim en vinnslan fór þó aðeins fram hluta af ári þar sem vinnuaflið var bundið við landbúnaðarstörf mikinn hluta ársins og hefur það væntanlega komið í veg fyrir að hægt væri að gera brennisteinsvinnslu að arðvænlegum iðnaði. Því varð brennisteinsvinnsla aðeins hliðarbúgrein bænda.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni á 19. öld.

Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279. Mest er af brennisteini á norðausturhluta og suðvesturhluta landsins og er þar að finna stærstu námurnar, t.d. í Reykjahlíð í Mývatnssveit á Norðausturlandi en í Krýsuvík á Suðvesturlandi. Fyrr á öldum voru heimildir um brennisteinsmagn hér á landi mjög misvísandi. Til dæmis segir í ferðasögu erlends ferðalangs að “nægtir séu svo miklar (af brennisteini), að það land eitt (Ísland) gæti gert allan heiminn birgan af brennisteini.”

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.

Í því landbúnaðarsamfélagi, sem var á Íslandi á fyrri öldum, sáu bændur um að vinna brennistein enda engin önnur stétt sem gat unnið þau störf þar sem mestallt vinnuaflið var bundið í sveitum landsins. Því var upptaka brennisteins venjulega í júnímánuði, eða frá þeim tíma sem hestarnir voru búnir að jafna sig eftir veturinn þangað til heyannir byrjuðu. Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:

Brennisteinsfjöll

Námur í Brennisteinsfjöllum – bræðsluofn.

“Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.”

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krýsuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.

Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini.

Kristjánsdalir

Tóft ofan Kristjánsdala í leið námumanna.

Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krísuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.

Sjá meira undir Fróðleikur.

www.idan.is

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Sveifluháls

Þann 17. júní árið 2000 reið harður jarðskjálfti yfir Suður- og Suðvesturland (7,2 °R), sbr. FERLIR-008. Nú, skömmu seinna, var ákveðið að fara aftur um Sveifluhálsinn og skoða verksummerki eftir skjálftann.

Sveifluháls

Sveifluháls – Folaldadalir.

Gengið var yfir hálsinn skammt frá Norðlingahálsi og yfir í Folaldadali. Dalirnir eru sléttir sanddalir og greiðfærir yfirferðar. Vatn safnast í þá á vorin og stundum fram eftir sumri. Gengið var upp úr dölunum að sunnaverðu og áfram eftir dæld á hálsinum uns komið var að mosavaxinni hæð innan um móbergsklettana. Á hæð þessari eru fallegir skessukatlar og djúpur rúmgóður dalur neðan undir henni.

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

Þar niðri voru FERLIRsfélagar staddir þegar skjálftinn reið yfir. Þar voru þeir og þegar seinni skjálftinn kom upp svo til beint undir fótum þeirra. Þegar komið var niður mátti sjá hvar stór björg höfðu fallið úr hlíðunum, en stöðvast við rætur þeirra. Á undan skjálftanum hafði komið mikill hvinur, eins og þotu væri flogið yfir svæðið, en síðan gekk sveiflaðist hálsinn í bylgjum drjúga stund. Á meðan á því gekk tóku skriðutónarnir undir í látunum. Fögur tröllatónlist, en hljómaði ógnvekjandi í eyrum lítillar mannskepnu. Dvalið var nokkra stund innan um klettana, svona til að njóta þess augnabliks, sem fráhverfast hafði verið.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Gengið var áfram upp úr dalnum og yfir að Arnarvatni. Sprungur voru enn við vatnsborðið. Fagurt er við Arnarvatnið og gróðurmörkin eru hvergi skýrari en þar. Grátt að norðanverðu en grænt að sunnanverðu. Arnargnýpa trjónir hæst tinda Sveifluhálsins í austri.
Gengið var yfir á Hettustíg undir Hettu, en í því var þokan að læða sér niður hlíðarnar. Fagurt útsýni var þaðan yfir að Vigdísarvöllum þar sem sólargeislar gylltu gular flatir. Bleikingsdalur í suðvestri reis nú vel undir nafni.

Huldur

Gengið um Huldur.

Í stað þess að ganga til baka niður Ketilinn og niður í Móhálsadal var ákveðið að ganga sömu leið til baka, virða fyrir sér enn betur þá breytingu er varð þarna á landslaginu á svo skömmum tíma og stefna á Norðlingaháls. Ljóst er af fenginni reynslu að mótun landslagsins gerist bæði jafnt og þétt (vegna vatns-, frosts- og vindrofs) sem og í stökkum – um það verður ekki efast. Á einni svipan hrundu nokkur tonn af bergi úr “Hulstrum” sínum niður á jafnsléttu. Þegar horft er á hin háu fjöll, skriðurnar og aflíðandi hlíðarnar má ljóslega gera sér í hugarlund hvernig núverandi útlit hefur fengist smám saman með hinum ýmsu “kröftum” náttúraflanna í tímans rás. Ekki eru “nema” um 12.000 ár síðan jökul leysti síðast á landinu. Jökullinn á skriði sínu og leysingum hefur sorfið landið, náttúruöflin síðan sett mark sitt á það smám saman og jarðskjálftar og eldgos ýmist brotið það niður eða bætt um betur. Gangan niður Huldur gekk áfallalaust fyrir sig.
Mikið virðist hafa gengið á á skömmum tíma – og FERLIR fékk að vera hluti af því á Sveifluhálsi þann 17. júní árið 2000.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 31 mín.

Sveifluháls

Á ferð um Sveifluháls.

Lambafellsklofi

Gengið var frá Eldborg austan við Höskuldarvelli að Lambafelli. Ætlunin var að fara um Lambafellsklofa, misgengi og gjá svo til í gegnum fellið.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Eldborgin er ein hinna fallegu gíga á Reykjanesi, sem hafa orðið efnisflutningum að bráð. Aðrir slíkir eru t.d. Moshóll, sem Ísólfsskálavegur liggur nú þvert í gegnum sunnan Núpshlíðarhorns, Litla-Eldborg undir Geitahlíð og Rauðhóll norðn við Stampana á Reykjanesi. Einnig mætti nefna Rauðhól undir Sandfellshæðum norðan Vatnsskarðs, Óbrinnishólagíginn og Rauðhóla norðan Elliðavatns.
Ef þessi merkilegu og tignarleg jarðfræðifyrirbæri hefðu verið látin óhreyfð væri Reykjanesskaginn enn verðmætari fyrir bragðið. En því miður er nú of seint að snúa ofan af því, en hins vegar ættu þessar skemmdir að geta orðið áminning til framtíðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Um 15 mín. gangur er að Lambafellsklofa (sem sumir kalla Lambagjá). Þegar komið er að honum neðan frá opnast gjáin skyndilega og inn eftir henni sést í mjóan gang með háa hamraveggi á báðar hendur. Tófugras vex á brotabergsbörmum og þegar stillt er í veðri í ágústmánuði er gjáin venjulega full af fiðrildum.
Gengið var eftir gjánni og upp úr henni að sunnanverðu. Nokkuð bratt er upp en tiltölulega auðvelt ef rólega er farið. Uppi er fallegt útsýni yfir Dyngnahraunið og yfir að Trölladyngju (380 m.ys.). Sennilega er eitt fallegasta sjónarhornið að henni frá þessum stað.
Gengið var yfir Lambafellið, yfir úfið hraun sunnan þess og inn á jarðhitasvæði norðan Eldborgar. Þar eru hleðslur á einum stað. Munu þær eiga að vera skjól við gufubað í einu gufuuppstreyminu.

Sogin

Sogin. Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

Haldið var eftir slóða austur fyrir Trölladyngju og síðan beygt til hægri inn kvos á milli hennar og Grænudyngju. Kvosinni var fylgt upp aflíðandi hlíðina milli dyngnanna. Þegar upp var komið tók við grasi gróin skjólsæl laut, sennilega hluti af hinum forna gíg, en dyngjunar eru að mestu móbergsfjöll. Jökullinn hefur síðan sorfið sig niður milli kollana.

Sunnan Grænudyngju er einstaklega fallegt klettabelti, sem auðvelt er að ganga upp með þegar komið er upp frá Lækjarvöllum norðan Djúpavatns. Frá því er fallegt útsýni yfir Sogin, Fíflavallafjall, Hörðuvallaklof og Hörðuvelli, Hrútafell og Sveifluháls. Tiltölulega auðvelt er að ganga niður með norðanverðri Grænudyngju og í kvosina, sem fyrr var nefnd.

Sog

Í Sogum.

Gengið var áfram niður hlíðina til vesturs, að Sogaselsgíg. Fallegt útsýni er á Söðul, upp Sogin þar sem litadýrðin ræður ríkjum, yfir að fagurlituðu Oddafellinu, sem myndar þarna sérstæðan forgrunn fyrir Keili, sem og yfir að Selsvöllum vestan við Núpshlíðarháls. Í Sogunum er jarðhiti og eftir Sogadal rennur lækur. Höskuldavellir og Sóleyjarkriki eru meira og minna mynduð úr jarðvegi þaðan úr hlíðunum. Í læknum má finna litskrúðuga smásteina, hvíta, rauða og græna, ef vel er að gáð.
Í Sogaseli eru tóftir þriggja seljahúsa og a.m.k. tveir stekkir. Auk þess er ein tóft utan gígsins.
Slóða var fylgt niður með Trölladyngju og að Eldborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 2 mín.

Grænadyngja

Grænadyngja. Sogin framar.

Brennisteinsfjöll

Gengið var upp Selvogsgötuna um Kerlingaskarð.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.

Áður en komið var efst í skarðið var beygt til austurs að tótt brennisteinsmanna undir hlíðinni. Enn sést móta vel fyrir hleðslum umhverfis húsið, sem þar var. Efst í skarðinu var staðnæmst við drykkjarsteininn, sem er vinstra megin við stíginn. Skálin var full af tæru vatni. Ofan skarðsins var beygt til vesturs ofan Tinda og haldið inn eftir sléttu helluhrauni Stórkonugígs norðan Draugahlíða. Á móti blasti Draugahlíðagígurinn, en rauði liturinn utan á honum gerir hann frábrugðinn öðrum gígum, sem eru fjölmargir, á svæðinu. Vatn er í gíg á hálsinum vestan Stórkonugígs. Gengið var niður hann að vestanverðu, eftir sléttum dal norðan hálsanna þar sem brennisteinsnámurnar eru sunnan undir.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Fast undir þeim að sunnanverðu eru tóttir af húsi námumanna. Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin var um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Þegar komið var í hallann upp að Kistufelli var byrjað að leita að niðurföllum, sem þar áttu að vera. Í ljós komu þrjú op á stórri rás, sem lá NV-SA í brekkunni. Rás er upp í fyrsta opið, en þó ekki nema um 5 metra löng.

Kistufellshellar

Einn Kistfellshellanna.

Þriðja opið er stærst. Niður úr því liggur stór rás, en mikið hrun er í henni. Hún endar í hruni eftir um 20 metra. Í neðsta opinu er einnig rás niður á við, um 15 metra löng. Hún virðist lokast í hurni. Alls virðist rásin vera vel á annað hundrað metra á lengd. Engin merki voru í rásinni.
Skoðaður var hellir norðaustan við Kistufellsgíg. Þar eru nokkar lágar rásir, en ein virtist þeirra stærst. Hún lofaði góðu, en lokaðist stuttu síðar.
Jarðföllin norðvestan við Kistufell voru skoðuð næst. Um er að ræða gríðarstóra katla. Í nokkrum þeirra eru hellar (geimar) og rásir. Í þeim geimum, sem kíkt var inn í, var merki HERFÍ. Á þeim stóð, auk nr. hellanna, “Hér voru á ferð Björn Símonarson og Sverrir P. Símonarson, 30. 08. 1997”.

Kistufell

Jökulgeymir í Kistufellshrauni.

KST-1, sem fékk staðarnafnið “Ískjallarinn”, er í vesturenda efsta jarðfallsins, sem hellar eru í. Gatið liggur um 10 metra niður á við. Hægt er að komast ofan í hellinn með því að fara vinstra megin niður með niðurfallinu og þaðan af stórum steini á botninn. Rásin þar niður í er um 15 metra löng. Á leiðinni þarf að fara yfir ísfoss og síðan niður ísbrekku. Gæta þarf varúðar.
KST-2 fékk viðurnafnið “Jökulgeimur”. Þegar komið er niður í geiminn blasir ísgólf við. Það fyllir gólfið á milli veggja. Dropar falla úr loftinu og hafa þeir mótað bolla í ísinn. Bollarnir eru fullir af vatni og myndar samspil dropanna hljómkviðu í hellinum. Undir niðri heyrist í læk, sem rennur undir ísnum. Um 15 metrar eru á milli veggja og lofthæðin er mikil. Innar í hellinum er talsvert hrun. Inni á milli í hruninu eru glærir ísklumpar. Þegar komið er yfir hrunið tekur við rás áfram. Í henni er einnig allnokkur ís. Innst í hellinum er fallegur rauður litur í lofti. Alls er þessi hellir um 60 metra langur.

Brennisteinsfjöll

Hellisop í Brennisteinsfjöllum.

KST-3 var nefndur “Kistufellsgeimur”. Um er að ræða vítt gat í nýlegra hruni í minna jarðfalli ofan við eldra og stærra jarðfall. Þegar komið er inn og niður er komið í stóra hvelfingu.
KST-4 fékk nefnuna “Loftgeimur. Nafngiftirnar eru aðallega skráningarlegs eðlis m.t.t. GPS-punkta. Hellirinn er austan í miklu jarðfalli. Opið er stórt, en innan við það hefur loftið fallið í einu lagi ofan á hellisgólfið. Innar er grágrýtisgeimir. Hellirinn er ekki nema um 20 metrar.
Norðvestan við jarðföllin er mikil fallin hraunrás. Yfir hana liggur breið steinbrú. Greinilegt er að fallið hefur nýlega úr steinbrúnni beggja vegna. Í rásinni eru einnig mikil jarðföll og höft á milli. Stór op eru sumstaðar, en hellarnir eru stuttir. Þeir lokast yfirleitt með hruni. Gjá þessi er allöng og endar þar sem helluhraun hefur runnið í enda hennar þar sem hún er opin á móti nýja hrauninu.

Brennisteinsfjöll

Einn Kistufellshellanna.

Skammt austan við þessa miklu hraunrás eru nokkur op á rásum. Kíkt var inn um eitt opið, sem nýlega virtist hafa fallið niður. Hellirinn var nefndur Nýhruni, en þessi hluti hans var stuttur. Hann lokaðist í hruni eftir einungis nokkra metra. Hins vegar má sjá hraunrásina liggja áfram til austurs og á þeirri leið eru allnokkur op.
Norðan við Kistufell er alllöng gróin hraunrás. Víða í henni eru op og hellar innundir. Síðast er FERLIR var á ferð á þessum slóðum var gengið fram á a.m.k. tvö göt í hrauninu norðan við þessa grónu rás. Götin voru u.þ.b. 2-3 metrar í þvermál og virtust um 12-15 metra djúp.

Brennisteinsfjöll

Einn Kistufellshraunshellanna.

Opið var þrengst og vítkuðu rásirnar niður. Snjór var í botninum á annarri þeirra. Þessi op sáust ekki fyrr komið var alveg að þeim. Þau urðu á vegi FERLIRs þegar gengið var frá Kerlingagili með beina stefnu á skarðið vestan við austustu hæðina norðan Kistufellsgíg. Þau eru ekki allfjarri brún hinnar nefndu hraunrásar. Opin fundust ekki að þessu sinni, en ætlunin er að ganga síðar sömu leið og fyrrum til að freista þess að finna þau aftur.
Skoðaðir voru á annan tug hella á Kistufellssvæðinu, en enginn var þó öðrum fremri.
Á leiðinni til baka var gengið yfir mikla hraunrás er lá til norðvesturs. Hún var um 10 metra breið og um átta metra há, slétt og gróin í botninn. Hvergi virtist vera þak á þessari rás.
Gengið var ofan hamrana í átt að Hvirfli, síðan niður í dalina og til baka ofan Draugahlíða. Í stað þess að fara niður Grindarskörð var farið niður skarðið vestan Grindarskarðstinda og síðan niður dalinn norðan þeirra. Það er mjög falleg leið. Þrjár rjúpur.
Gengið var tæplega 15 kílómetra. Veður var með ágætum – logn og hlýtt.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Snorri

Gengið var í þoku upp girðingaveg á mótum Árnessýslu og Gullbringusýslu við Sýslustein.

Slóðaketill

Við Slóðaketil.

Veður var að öðru leyti milt og hlýtt. Í miðri hraunhlíð var litið ofan í hraunketil, sem nefndur hefur verið Slóðaketill. Ofan í honum er um 6 metra gat virðist hraunrás liggja þar inn undir. Rás þessa þarf að skoða betur síðar. Slóðanum var fylgt upp á hraunbrúnina og áfram upp grónar hlíðar melhóla uns komið var á efstu brún. Inni í þokunni í austur eru Sandfjöllin og fjær Vesturás og Austurás. Í suðaustur er Herdísarvíkurfjallið og í góðu skyggni sést þaðan inn yfir Svörtubjörg og alveg að Hnúkum. Í suðvestri eru Æsubúðir á Geitahlíð. Í vestri er Sveifluhálsinn, en nær má sjá gíga, bæði austan í Geitahlíð og eins ofan við Kálfadalahraunið, sem rann þarna til vesturs ofan í Kálfadalina. Þar liggur slóðinn til norðurs inn á hraunbreiðu, en beygir fljótlega til vesturs. Vinstra megin er fallegur hraungígur.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufell framundan.

Áð var þegar komið var út úr hrauninu eftir tæplega klukkustundar gang. Þar í austur á að vera hægt að sjá Vörðufell og inn að Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Austan við Vörðufell er Eldborgin, röð fallegra hraungíga og mikilla hraunrása. Þar vestan við rann Hvammadalshraun niður í Hvammadal austan Kleifavatns. Í suðurjaðri þess er m.a. Gullbringuhellir.
Hraunkantinum var fylgt til suðurs. Austan við hraungíga Kálfadalshrauns var haldið til suðsuðausturs inn á mosahraunið og þar fylgt háum hraunkanti á hægri hönd. Þegar komið var út úr hrauninu var komið í gróið hraun úr eldborgunum austan Geitahlíðar. Þeim kanti var fylgt til suðausturs þangað til hann mætti eysti hluta Geitarhlíðar. Þar rann hluti gróna hraunsins niður svonefndan Sláttudal, á milli hlíða. Hallar þar undan til suðurs. Hlíðin er nokkuð brött efst, en jafnar sig fljótlega. Neðar er hraunið mjög gróið. Hamrar eru á vinstri hönd og mikil hraunrás á þá hægri.

Slóðaketill

Slóðaketill.

Þegar komið er niður á þjóðveginn er hlaðið hrossaskjól undir hraunkantinum handan hans. Þar var áð uns haldið var að bílunum. Eða eins og einn þátttakenda sagði þegar niður var komið:
“Flestum þykir eigi miður,
komin niður,
um gil,
sem reyndar virtist ekki til
og að hafa sloppið heil,
um geil,
í fjalli
úr margra alda gömlu gjalli.
Þokan reyndist óvenjuþétt,
en gangan létt,
enda vanir menn,
sem þekkja og rata þetta enn.
Förum síðar aftur sömu leið,
gatan er greið.”

Gangan var um 7.7 km og tók um 3 klst. Ætlunin er að fara aftur upp girðingaslóðann, yfir hraunið ofan melhólanna og fylgja síðan hraunkantinum til austurs, í stað vesturs eins og nú var gert, og koma niður við suðaustanvert Kleifarvatn, þar sem bílar munu bíða göngufólks. Sú ganga mun líklega taka um 4 klst, en á þessu svæði er hægt að líta eitt mikilfengslegasta eldgosasvæði landsins.
Frábært veður.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Slóðaketill

Farið var aftur inn í hraunið austan Geitahlíðar til að leita að Snorra, jarðfalli sem upplýsingar höfðu fengist um að ætti að vera þar inni í hrauninu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Smali hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á mikið jarðfall, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.

Snorri

Á leið í Snorra.

Svarta þoka var á fjallinu þegar að var komið, en milt veður. Haldið var fyrst í um kílómetra til vesturs yfir hraunið, að brún Kálfadalahraunsins, síðan til suðausturs og loks til austurs. Jarðskálftinn 17. júní árið 2000 hafði greinilega leikið hraunhólana þarna illa. Margir þeirra voru klofnir, aðrir maskaðir. Ekki er ólíklegt að seinni skjálftinn þennan dag hafi átt upptök sín einhvers staðar þarna undir hrauninu. Þegar um 500 metrar voru eftir í vestari melhólinn birtist jarðfallið fyrirvaralaust framundan, djúpt og mikið um sig. Steinboginn var fallinn niður í jarðfallið, en hann hefur verið nokkuð stór.

Snorri

Leitin að Snorra.

Gríðarlegt gat var inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir voru sléttir og virtist rásin hafa verið nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”. Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu. Þá var farið inn í eystri rásina, sem eiginlega liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Á leiðinni til baka var aftur litið á Slóðaketilinn austan Geitahlíðar. Ekki verður hjá því komist að nota stiga til að komast ofan í neðri rásina í katlinum sjálfum til að kanna hvort og hversu löng neðri rásin kann að vera.
(Framhald í annarri lýsingu – Snorri sigraður – óvæntur fundur).

Snorri

Snorri – kort.

Snorri

Upplýsingar höfðu fengist um jarðfall austan Geitahlíðar. Jarðfallið átti að vera nokkrir metrar í ummál og um sex metra djúpt. Þar ofan í sást í rásir.

Snorri

Haldið upp í Snorra.

Haldið var upp slóða, sem liggur upp með girðingunni vestan Sýslusteins og honum síðan fylgt upp hraunhlíðina. Á slóðanum er einn og einn girðingastaur á stangli, en hann hefur verið ruddur þarna upp með það fyrir augum að leggja girðingu eftir fjallgarðinum. Þegar komið var upp á hæðina heldur slóðinn áfram uns hann beygir til vinstri við beygju á girðingunni. Úr hornstaurnum liggja strengir í henni áfram til norðurs, upp grasbrekkur. Ekið var slóðann upp brekkuna. Þegar komið var upp beygir girðingin og slóðinn enn til vinstri og heldur áfram yfir hraunbreiðu. Þarna vinstra megin, við hornið, er melhóll. Af honum á að taka mið á jarðfallið.

Snorri

Á leið í Snorra.

Ekið var áfram eftir slóðanum, en útsýni er þarna allfagurt; Geitahlíð til suðurs, fjórir fallegir eldgígar til vesturs, Sveifluháls norðar, Sandfell og Vörðufell til norðurs, Austurásar, Vesturásar og Herdísarvíkurfjall til austurs. Inni í hrauninu beygir girðingin enn í nær 45° til vinstri. Litið var á einn gíginn, næst slóðanum, en hann er mosagróinn og opnast til suðvesturs. Þegar komið er út úr hrauninu beygir girðingin til norðausturs með hraunkantinum. Slóðinn liggur þar að mestu í grasi og virðist liðast með honum langleiðina að Vörðufelli. Mikil vinna og mikill kostnaður hefur legið í bæði vegavinnunni og girðingavinnunni, en strengirnir liggja víðast hvar niðri og er girðingin því ónothæf með öllu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Haldið var aftur að melhólnum og gengið út frá honum til vesturs, eins og lýsingin sagði. Þarna er nýtt hraun á eldra hrauni á kafla, en nýja hraunið er mjög mosagróið. Jarðfallið átti að vera þarna í 50-100 metra fjarlægð frá melhólnum, en það fannst ekki þrátt fyrir leit.

Haft var samband við upplýsingagjafann. Hann sagðist hafa farið að rifja staðsetninguna betur upp, en nokkuð er um liðið síðan hann var þarna á ferð. Sagðist hann hafa verið að koma frá Vörðufelli, komið að hæsta melhólnum vestan girðingarinnar og ætlað að stytta sér leið yfir hraunið því hann hafi ætlað niður í Sláttudal á milli Æsubúðar-Geitahlíðar og Geitahlíðar. Hann hafi gengið ofan hraunbrúnarinnar áður en hraunið tekur að halla undan til suðurs. Þegar hann hafi verið kominn 50, 100 eða 200 metra inn í hraunið hafi hann allt í einu staðið á barmi jarðfallsins. Hann hefði ekki séð það tilsýndar. Steinbogi er yfir því. Hann taldi að hægt væri að fara ofan í jarðfallið án búnaðar. Rétt væri því að ganga frá melhólnum með stefnu á Geitahlíð, þ.e. meira til suðvesturs og fara með hraunbrúninni.

Björn Hróarsson

Björn Hróarsson við Snorra.

Á leið til baka sást op vinstra megin við slóðann þar sem hann liggur niður hraunhlíðina. Þarna er um hraunrás í katli að ræða. Í katlinum er gat, ca. 3×4 metrar að ummáli og er um 6 metrar niður á botn. Ekki er hægt að komast þar niður nema á stiga eða síga. Rás virðist liggja þar til suðvesturs. Uppi liggur rás til norðurs, u.þ.b. 20 metra löng. Hún endar í hruni og lausu hrauni. Í katlinum má einnig sjá inn í reglulega fallega, en mjóa rás. Innan hennar sést í þrifalega hraunrás. Neðri rásina þarf að skoða síðar með viðeigandi búnaði.

Ætlunin er að gera aðra tilraun fljótlega með það fyrir augum að finna jarðfallið – FERLIR er þekktur fyrir allt annað en að gefast upp.

Snorri

Snorri – kort.

Fjárskjólshraunshellir

Krýsuvíkursvæðið er eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði hér á landi. Margir útlendingar, sem fara þar í gegn á leið úr ferðum sínum á Gullfoss og Geysi, minnast þeirrar ferðar lengur, en flest annað sem bar fyrir augu þeirra um landið. Boðið er upp á sérstakt, tilkomumikið og fjölbreytt landslag, hlaðið sögulegum minjum frá upphafi landnáms. Bæjarfell er nokkurs konar miðdepill þess. Út frá fellinu liggja allar leiðir, enda flestir Krýsuvíkurbæjanna á síðari öldum undir rótum þess. Ákjósanlegt er að staldra við á hæsta tindi fellsins, sem er einkar auðveldur uppgöngu, og virða fyrir sér svæðið allt í kring..

Krýsuvík

Krýsuvík – Augun.

Austan Bæjarfells eru tóttir bæjanna Snorrakots, Norðurkots, Lækjar, Suðurkots og Krýsuvíkurbæjarins á hólnum við Krýsuvíkurkirkjuna. Honum var því miður rutt um koll um og eftir 1960. Enn má vel sjá húsaskipan og bæjarlag þeirra þriggja fyrstnefndu. Snorrakot liggur nyrst bæjanna, utan garðs. Heimagarðurinn er beint fyrir framan bæinn og fallegir torfgarðar út frá honum. Inni á túninu er stór tótt Norðurkots og þar hefur einnig verið garður framan við bæinn. Við heimtröðina að norðan er tótt alveg við hana og önnur upp í brekkunni skammt sunnar. Svipað bæjarlag hefur verið á Læk, en þar eru þó enn fleiri tóttir, sem vert er að skoða. Á Vestari-læk, sem liðast til suðurs á milli kirkjunnar og Lækjar var eitt sinn kornmylla. Vestan við lækinn er Ræningjadys við Ræningjahól og ofar á hólnum er gamli bæjarhóll Suðurkots. Þessa kennileita er getið í sögunni af Tyrkjunum og séra Eiríki Vogsósapresti.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Norðan við Snorrakot var Litli-Nýibær og Stóri-Nýibær þaðan til austurs, handan þjóðvegarins. Enn má sjá bæjarhólinn í túninu. Sunnan undir brekku sunnan Gestsstaðavatns, neðan við Krýsuvíkurskóla, eru tóttir Gestsstaða, næstelsta bæjarins í Krýsuvík. Þær eru tvær. Önnur tóttin virðist hafa verið gripahús, en hin íbúðarhús. Austan utan í Sveifluhúsi skammt suðvestar er enn ein tóttin og virðist hún hafa verið hluti Gestsstaða. Frá hlíðinni ofan við bæjartóttirnar sést til sex vatna; Gestsstaðavatns næst í norðri og Kleifarvatns fjær, Grænavatns í austri, Augnanna sitt hvoru megin við þjóðveginn í suðaustri og Sefsins skammt sunnan af þeim. Tóttir bæjarins Fells er í hvammi í brekkunni sunnan Grænavatns og tóttir elsta bæjarins, Kaldrana er við suðvestanvert Kleifarvatn, rétt austan við þjóðveginn.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.

Gamla fjósið í Krýsuvík, norðan Grænavatns, stendur nú autt og yfirgefið, en áður var það tengt stórum draumum um mjólkandi rauðar kýr á básum. Bústjórahúsið norðan við Gestsstaðavatn varð síðar vinnustaður Sveins Björnssonar, málara, en er nú Sveinssafn að honum gengnum. Krýsuvíkursamtökin njóta góðs af stærri húsakosti, bæði í gamla húsinu og í því nýja sunnan við vatnið. Vinnuskólinn naut aðstöðu í Krýsuvík á síðari hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda, en þá undu ungir piltar frá Hafnarfirði sér þar vel sumarlangt. Gróðurhúsin vestan við húsin voru þá í notkun og mikið um að vera.

Krýsuvík

Krýsuvík – frá Vinnuskólanum.

Piltarnir stunduðu vinnu á afkastahvetjandi launakerfi hálfan daginn, en voru í annan tíma við leiki og gönguferðir um nágrennið. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur og kvikmyndasýningar. Vinnan var m.a. fólgin í skúringum, hreingerningum, matargerð, borðlagningu, uppvaski, umhirðu húsa og nágrennis, girðingum, heyskap, rakstri, málningu, gróðursetningu og vegagerð. Nýjar reglugerðir gerðu síðar þessa mannbætandi og uppbyggjandi starfsemi Vinnuskólans því miður ómögulega í framkvæmd.
Í hlíðum sunnanverðs Arnarfells eru tóttir Arnarfellsbæjarins. Suðvestan hennar er Arnarfellsréttin, hlaðin stór rétt í lægð í átt að Selöldu. Sunnan fellsins er Arnarfellsvatnið.
Talið er að Krýsuvíkurbændur hafi haft í seli, bæði til fjalla og fjöru. Krýsuvík hafði í seli um tíma á Vigdísarvöllum og á Seltúni í Hveradal, undir Hatti. Framan við Hveradal er timburþil, einu minjar gamla brennisteinsnámsins. Lækurinn var fyrst stíflaður á nokkrum stöðum í tengslum við brennisteinsnámið og síðar vegna borna og fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Einnig er gamalt sel sunnan undir austanverðri Selöldu. Þar eru líka tóttir bæjarins Eyri, rétt ofan við uppþornaðan lækjarfarveg, og tvö fjárskjól skammt sunnar. Annað er minna og virðist mun eldra en það stærra. Vestar eru svo tóttir bæjarins Fitja. Ofan við þær er heillegar hleðslur fjárhúss undir háum móbergsskletti á Strákum.
Sunnan við Bæjarfell er hlaðin rétt og norðan við fellið er hlaðin stekkur, Hafliðastekkur. Austar í hlíðinni er stór tótt og enn austar gamall stekkur. Varnargarður liggur upp úr engjunum í miðja hlíð fellsins. Hefur hann bæði átt að varna því að fé færi inn á túnin og auk þess stýra vatnsstreyminu um engi og mýrar.

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Aðrir varnar- og vörslugarðar liggja frá Bæjarfelli, bæði norðan Norðurkots og beggja megin Lækjar að Arnarfelli. Annar langur garður liggur á milli sunnanverðs Bæjarfells í Arnarfell neðan við bæinn og upp í öxina austan hans. Eldri garður er innan við þann garð og virðist hafa legið á milli Bæjarfells og Arnarfells, skammt ofan við Suðurkot. Í vestanverðu Bæjarfelli er fjárhellir og hlaðið fyrir opið að hluta. Skátar notuðu hellir þennan oft til gistinga áður en skáli þeirra að Skýjaborgum kom til. Austan í Arnarfelli er hlaðinn stekkur og upp í því er Dísuhellir.
Utar á Krýsuvíkurheiði er hlaðið hús, Jónsbúð. Skammt suðaustan þess, þar sem heiðin hallar til suðurs, er annað fallega hlaðið hús. Neðar, skammt ofan við austanvert bjargið er tótt utan í hraunhól í Litlahrauni og skammt sunnan við hann er hlaðið fyrir fjárskjól í skúta. Utan við Bergsenda er Krýsuvíkurhellir. Sést frá honum yfir að Skilaboðavörðu þar sem hún stendur hæst skammt austan og ofan við Keflavík. Endimörk Krýsuvíkurlands í suðaustri er í Seljabót. Í henni er hlaðið gerði.

Arngrímshellir

Gvendarhellir (Arngrímshellir) í Krýsuvíkurhrauni

Uppi í Klofningum er Arngrímshellir, öðru nafni Gvendarhellir. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu og Arngrími bónda. Fyrir framan fjárhellinn er tótt og inni í honum eru hleðslur. Skammt austan við hellinn er Bálkahellir, falleg hraunrás. Efst í jaðri Fjárskjólshrauns, neðan Geitahlíðar, er hlaðið hús, sem sést vel frá þjóðveginum skammt vestan Sýslusteins. Vestar, við gömlu leiðina upp Kerlingadal á leið um Deildarháls ofan Eldborgar, eru dysjar Herdísar og Krýsu, þeirrar er deildu um land og nytjar og getið er um í þjóðsögunni.

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Ofar Eldborgar er Hvítskeggshvammur þar sem sagt er að skipið Hvítskeggur hafi verið bundið við festar í bjarginu. Neðan Eldborgar, í formfallegri hraunrás, er gamla Krýsuvíkurréttin. Vegghamrar eru upp með vestanverðri Geitahlíð og innan þeirra eru Kálfadalir. Niður í syðri dalinn hefur runnið tilkomumikil hrauná. Norðanverður dalurinn er grasi gróin og svo er einnig nyrðri dalurinn. Norðan við Kálfadali er Gullbringa og gamla þjóðleiðin yfir Hvammahraun upp á Vatnshlíð og niður í Fagradal í Lönguhlíðum.

Í hrauninu eru hellar, sem vert er að skoða.

Litlahraun

Litlahraun – fjárhústóft.

Mikil hraun hafa runnið um svæðið á sögulegum tíma. Má þar bæði nefna Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun.
Í Ögmundarhrauni er Húshólmi. Í honum eru margar minjar og sumar þeirra mjög gamlar. Þar er t.d. hluti af stekk þegar komið er niður úr Húshólmastígnum og enn vestar er gömul fjárborg. Sunnar er svo vörslugarður og grafreitur, tóttir af sjóbúð eða íveruhúsi og inni í hrauninu eru tóttir gömlu Krýsuvíkurkirkju og Gömlu-Krýsuvíkur. Þar rétt hjá eru leifar skála, sem hraunið hefur runnið allt í kringum. Ekki er óraunhæft að ætla að í Húshólma kunni að leynast minjar frá því fyrir norrænt landnám hér á landi. Austan undir Ögmundarhrauni er gömul rétt utan í hraunkantinum. Gamall stígur liggur suðvestur úr Húshólma, í átt að Brúnavörðum.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – tóft.

Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, önnur stærri og eldri. Þar ofarlega í hólmanum er veggur, sem hraunið, er rann um 1150, hefur runnið að og stöðvast. Neðst í suðaustanverðum hólmanum er nýrri hleðsla í hraunjaðrinum. Enn vestar í hrauninu, sunnan Lats, er fallega hlaðið fyrir skúta, sem líklega hefur verið sæluhús eða skjól vegavinnumanna á sínum tíma. Enn vestar eru svo Selatangar, en mörk Krýsuvíkur teigja sig að Dágon, klettastandi, sem þar er niður við sjó. Fjölbreytni Selatanga og saga eru efni í sjálfstæða frásögn.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Í austurjaðri Ögmundarhrauns, upp undir Mælifelli, er dys Ögmundar er segir frá í sögunni um þursinn er vildi giftast dóttir (Njarðvíkurbónda) Krýsuvíkurbónda. Gamli vegurinn liggur þaðan í gegnum hraunið, yfir að Latfjalli. Norðan þess er Stóri-Hamradalur. Undir vegg hans er gömul rúningsrétt. Í gýgunum, sem Ögmundarhraun rann úr, er falleg hleðsla fyrir fjárhelli og ofar eru Vigdísarvellir undir Bæjarfelli í Núpshlíðarhálsi. Þar voru tveir bæir og má vel sjá tóttir þeirra beggja. Frá Völlunum liggur Hettustígur austur yfir á Sveifluháls þar sem hann mætir Sveifluvegi frá Ketilsstíg og áfram niður að Gestsstöðum í Krýsuvík um Sveiflu. Drumbsdalavegur liggur yfir Bleikingsdal og áfram austur yfir sunnanverðan Sveifluháls við Drumb. Komið er yfir hálsinn skammt sunnan við Skugga, klettaborg austan Sveifluhálsar og síðan fylgt gömlu götunni beggja vegna þjóðvegarins að Bæjarfelli. Gatan sést enn vel, en vörðurnar við hana eru víðast hvar fallnar. Þó sést móta fyrir brú á götunni á einum stað sunnan vegarins. Skammt vestan við Borgarhól er enn ein fjárborgin.

Seltún

Seltún.

Falleg hverasvæði eru víða í Krýsuvíkurlandi. Má í því sambandi nefna hverasvæðið við Seltún, í Hveradal, upp undir Hettu og einnig svæðið vestan fjallið, á milli þess og Arnarvatns á Sveifluhálsi.
Í austurjarðri Krýsuvíkur er fjölbreytt göngusvæði, s.s. að Austurengjahver, Lambafellin og yfir að Hverahlíð þar sem skáli Hraunbúa er sunnan við Kleifarvatn. Fjölbreytnin á ekki síður við um Sveifluhálsinn, sem er einka fjölbreytilegur. Ef ganga á hann allan frá Einbúa eða Borgarhól að Vatnsskarði tekur það um 6 klst, en það er líka vel þess virði á góðum degi.
Eins og sjá má er Krýsuvíkursvæðið hið fjölbreytilegasta til útivistar. Hægt að er að ganga bæði stuttar og langar leiðir og mjög auðvelt er fyrir alla að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

Austurengjahver

Við Austurengjahver.

Sogaselsgígur

Bæirnir Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu áður í seli á Fornaselshæð, en fengu síðan selsstöðu í Sogaseli.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Þegar farið er til suðurs frá Höskuldavöllum upp Sogaselsdal eða Sogadal, er þar stór og víður gígur á vinstri hönd. Hann heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur. Op hans snýr til suðurs, að Sogalæk, sem rennur niður dalinn og áfram niður á vellina. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík um tíma. Margar kofatóttir eru í gígnum og a.m.k. ein utan hans til suðvesturs, handan lækjarins.

Sogasel

Sogasel.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað frá árin 2001 segir m.a. að “Sogaselsdalur sé grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík”, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls. Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: “Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka”.

Sogasel

Í Sogaseli.

Gígurinn er mjög skjólgóður og þar hefur verið góð selsstaða. Frá honum liggur selsstígur niður og norður yfir vellina og áfram á milli nyrstu hluta Oddafellsins þar sem farið hefur verið framhjá Oddafellsseli, yfir hraunið á Oddafellsselsstíg og áfram norður Þórustaðastíg heim að bæjum.

Sogasel er skjólsæl selstaða í grónum gíg. Utan hans eru einnig góðir gróningar, auk Sogalækjarins, sem hefur verið grundvöllur selstöðunnar. Skiljanlegt er að Krýsuvíkurbændur hafi gefið hana eftir fyrir útræði á Vatnsleysuströnd, enda selsstígurinn þaðan æði langur. Sogasels er getið í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík: “Vestast í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel”. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík er hins vegar ekki minnst á selstöðuna, einungis á örnefnið “Sogaselshrygg”.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.