Tag Archive for: Krýsuvík

Krýsuvík

Orkurannsóknir á vegum HS Orku eru hafnar á ný í Krýsuvík. Stór borpallur hefur verið gerður á svæði undir Hettu þar sem áður voru fornar tóftir námuvinnslunnar í Baðsofunámunum.

Þrjú skilti hafa verið sett upp við afleggjarann að Starfsmannahúsinu frá Krýsuvíkurvegi. Á þeim má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Í leit að orku

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Hér í Krýsuvík fer nú fram rannsóknarborun til að kanna möguleika á að nýta jarðvarma til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni á Krýsuvíkursvæðinu. Jarðfræðilegar rannsóknir benda til þess að Sveifluháls g Austurengjar geymi öfluga háhitaauðlind sem hægt verður að nýta til orkuvinnslu og hitaveitu til framtíður

Stefnuborun

Krýsuvík

Krýsuvík.

Við munum kanna svæðið niður á allt 2500 metra dýpi. Til að auka líkur á að orkuríkt jarðhitavatn finnist er stefnuborað undir hálsinn, þvert á sprungur sem oft geyma heitan jarðhitavökva.

Jarðvarmaver

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Frá árinu 1941 hafa farið fram umfangsmiklar jarðhitarannsóknir á Krýsuvíkursvæðinu með jarðborunum niður á allt að 260 metra. Hitastig í borholunum hefur mælst á bilinu 50-120°C. Nú er unnið að mun dýpri borunum til að meta nýtingarmöguleika svæðisins og grundvöllinn fyrir nýtt jarðvarmaver – það þriðja á vegum HS Orku.

Lífsggæði

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Verði nýtt orkuver að veruleika verður hér framleitt bæði rafmagn og heitt vatn. Markmiðið er að auka afhendingaröryggi á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu og mæta vaxandi raforkuþörf í landinu. Í framkvæmdunum verður rík áhersla lögð á að mannvirki falli vel að fegurð og sérstöðu svæðisins.

Auðlindagarður

Krýsuvík

Krýsuvík.

Hafnarfjarðarbær og HS Orka vilja vinna að hugmyndum um auðlindagarð með áherslu á útivist, ferðaþjónustu og vistvæna atvinnustarfsemi. Sjálfbær orkuvinnsla skapar óvenjulegt aðdráttarafl fyrir fyrirtæki og ferðalanga sem vilja njóta þessa einstaka svæðis.

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti.

Krýsuvík

Skátafélag var stofnað í Hafnarfirði þann 22. febrúar 1925. Starfsemin hafði því varað í eitt hundrað ár þann 22. febrúar s.l.

Skátar

Skátar – merki Hraunbúa.

Hreyfingin hefur allan þennan tíma átt dygga og trausta félaga og gott forystufólk hér í Hafnarfirði og víðar. Góður félagsskapur, þroskandi uppeldi, útivist, ríkur skilningur og þekking á umhverfi og samfélaginu hafa einkennt skátastarfið. Þetta eru þau gildi sem fylgja öllum sem verið hafa góðir félagar í skátastarfinu alla tíð.

Félagsskapurinn stuðlar að vexti og þroska ungmenna, bæði sem einstaklinga og sem samfélagsþegna, með verkefnum og frumkvæði að leiðarljósi. Í skátahreyfingunni fá ungmenni tækifæri til að læra, öðlast sjálfstæði, hafa frumkvæði, vera lausnamiðuð og verða góðir leiðtogar sem eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð og stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu. Starfið stuðlar að vexti, þroska og framförum ungmenna. Þau fá tækifæri til að læra í gegnum skemmtileg, ögrandi og þroskandi verkefni, útivist og samveru. Í þessum verkefnum öðlast þau sterkara sjálfstraust og hugrekki sem verður að þykja dýrmætt vegarnesti til undirbúnings framtíðarinnar.

SkátiFramangreind gildi hafa þó ekki einungs verið bundið við skráða félaga í bækur hreyfingarinnar. Starfsemin hefur náð langt út fyrir hana, þótt leynt hafi farið, og má því segja að hún eigi sér miklu fleiri velvildarmenn í bænum en í fljótu bragði virðist.

Sumarið 1953 var tekin upp sú nýbreytni, að Hafnarfjarðarbær kom á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Milli 40 og 50 drengir dvöldust að öllu leyti í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Þeir héldu til í starfsmannahúsi Krýsuvíkurbúsins. Þessi starfsemi naut mikilla vinsælda meðal Hafnarfirðinga, enda bætti hún úr brýnni þörf. Færri drengir komust að en vildu. Í skólanum kynntust þeir ýmsum hagnýtum vinnubrögðum, voru undir góðum aga, lærðu að bjarga sér og var kennt að meta gildi vinnunnar.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir.

Meðal verkefna innan dyra þurfti að búa um rúm, þvo þvott, skúra gólf, vinna við eldhússtörf, leggja á borð og vaska upp. Utan dyra var unnið að lagfæringu og snyrtingu á lóðum, vinnu í gróðurhúsum, ræktun kartaflna, aðstoð við ræktunarframkvæmdir og heyskap, viðgerðir á girðingum og margt fleira. Auk þess stunduðu þeir íþróttir og leiki og fóru í langar gönguferðir undir leiðsögn.

Á árunum eftir 1960 voru drengirnir í vinnuskólanum í Krýsuvík á aldrinum 8-12 ára. Var þá lögð sérstök áhersla á leiki, og var drengjunum t.d. veitt sérstök tilsögn í knattspyrnu. Nutu þá fleiri drengir dvalar en áður, því starfað var í tveimur flokkum, og dvaldi hvor flokkur fimm vikur í Krýsuvík. Þeir unnu venjulega fimm til sex stundir á dag, og var vinnan sem áður fyrst og fremst í þágu búsins og gróðrarstöðvarinnar í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn að störfum…

Sumrin 1959 og 1960 unnu drengirnir í unglingavinnunni í Krýsuvík að skógrækt í skógræktargirðingunni í Undirhlíðum og settu þar niður samtals 100.000 trjáplöntur. Þessi skógræktarstörf voru unnin í samvinnu við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.

Vinnudagurinn hófst með morgunkaffi. Síðan var yfirleitt unnið í flokkum hálfan daginn. Einn varð verkstjóri er hélt öðrum að vinnu og skráði hjá sér verðskulduð laun hvers og eins, allt eftir dugnaði og ástundun. Um var að ræða afkastahvetjandi launakerfi. Eftir hádegisverð var gengið um fjöll og fyrnindi. Um helgar voru leikir eða íþróttakeppnir.

Krýsuvík

Krýsuvík – kappleikur…

Á kvöldin, fyrir kvöldkaffið, voru kvöldvökur eða kvikmyndasýningar á ganginum á fyrstu hæðinni, sem lauk með samsöng vors- eða sumarlags. Fyrir svefninn var farið með Faðirvorið. Allir áttu jafnan auðvelt með svefn eftir erfiðan dag.

Starfsfólk vinnuskólans var í einu orði sagt frábært. Það hafði utanumhald um hlutina, hélt uppi hæfilegum aga en veitti jafnfram nægan stuðning ef á þurftu að halda. Það var leiðbeinandi og gerði kröfur, en það verðlaunaði alla þá er áttu það skilið með eftirminnilegum hætti. Þannig eiga flestir þátttakendur vinnuskólans enn a.m.k. eitt handunnið viðurkenningaskjal, sem þeir fengu fyrir hvaðanæva það er þeir gerðu vel – í lok hvers tímabils.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir…

Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands og svæðisleiðsögunám, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í nefndum og formaður nokkurra þeirra.

Sú „prófgráða“, sem hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn „útskrifaður“ frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnusklóadrengir við sundlaugagerð…

Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður 1964 vegna ómerkilegar þrætur stjórnmálamanna bæjarins sem og tilkomu nýrra skilyrða í heilbrigðisreglugerð af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.

Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar stýrðu starfseminni, en skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum og stýrðu nemendum til verka. Má þar t.d. nefna skólastjórnedurnar Helga Jónasson og Hauk Helgason og skátaforingjana Ólaf Proppe, Hörð Zóphanísson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson, Sævar Örn Jónsson, auk kennaranna Eyjólfs Guðmundssonar og Snorra Jónssonar o.fl.

Krýsuvík

Krýsuvík – sigurvegarar…

Framangreindir aðilar nutu mikillar virðingar hinna 550 ungu Vinnuskólanemenda á tímabilinu, langt umfram það sem ætlast var til, bæði vegna mannkosta þeirra sjálfra, en ekki síst vegna þeirrar aðferðarfræði sem þeir notuðu. Fræðin sú var í anda skátahreyfingarinnar. Segja má að allir stjórnendurnir, sem og hver og einn, hafi verið hreyfingunni til mikils sóma í hvívetna.

Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er skátaforinginn Hörður Zóphaníason:

:Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…:.

Heimildir m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar – Krýsuvík.
-Saga Hafnarfjarðar.
-Alþýðublaðið 13. ágúst 1957, bls. 4.
-Alþýðublaðið 13. júlí 1962, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.
-Myndir tók Haukur Helgason.

-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-i/
-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-ii/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-i-krysuvik/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-rjomaterta-fyrir-goda-umgengni/

Krýsuvík

Krýsuvík.

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 2012 var viðtal við Ómar Smára Ármannsson um jarðrask það er fylgdi borunarframkvæmdum HS-orku á Reykjanesskaganum þar sem hvorki væri tekið tillit til umhverfissjónarmiða né minjaverndar.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaganum – fyrirliggjandi fornleifaskráning.

Viðtalið er að mörgu leyti merkilegt, ekki síst í ljósi þess að síðan það var tekið fyrir 13 árum hefur HS-orka hafið borun í Krýsuvík þar sem fyrirtækið byrjaði á því á fyrsta degi að eyðileggja fornar minjar, fyrrum brennisteinsnámuhús Krýsuvíkurbónda frá því á 18. öld, þrátt fyrir að athygli jarðfræðings fyrirtækisins hafði skömmu áður verið vakin á tóftunum, standandi á vettvangi. Auk þess hafði viðmælandi fornleifaskráð allar brennisteinsminjar á Reykjanesskaganum, án þess þó að HS-orka hefði sýnt þeirri fyrirliggjandi vinnu hinn minnsta áhuga.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði gefið leyfi til framkvæmdanna án þess að krefjast eðlilega áður fornleifaskráningar á svæðinu sem verður að teljast verulega ámælisvert. Ekki er vitað hvort sú sérstaka stofnun Fornleifavernd ríkisins hafi æmt hið minnsta eða skræmt vegna alls þessa. Og hvers vegna eiga verktaktar að fá að ákveða hversu mikið jarðsrask vegna einstakra framkvæmda verður hverju sinni? Hafa ber í huga að fæstar ákvarðanir þeirra hafa hingað til verða að teljast vitsmunalegar, enda, að því er virðist, einungis byggðar á eigin hagsmunum.

Minnka mætti rask með minni borteigum

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson Krýsuvík.

„Þetta snýst ekki um hvort það eigi að virkja eða ekki heldur að það verði gert þannig að menn geti verið sáttir við framkvæmdirnar,“ segir Ómar
Smári Ármannsson um fyrirhugaðar jarðhitaboranir á Reykjanesskaganum. Hann segir augljóst að við nýlegar og eldri virkjunarframkvæmdir á Suðurnesjum og víðar hafi ekki verið vandað nægilega vel til verka, hægt hefði verið að hafa borstæðin eða borteigana undir jarðborana mun minni, leggja vegi og pípur og reisa virkjanamannvirki þannig að minna beri á þeim í landslaginu.

Sogin

Sogadalur – efra borplanið.

Ómar Smári er vel þekktur fyrir áhuga sinn á náttúru og minjum Reykjanesskagans, einkum í tengslum við ferðahópinn Ferlir en einnig vegna þess að hann er aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. Morgunblaðið fór í vikunni með Ómari um þrjú svæði á Suðurnesjum; að Trölladyngju og Sogum, Eldvörpum og Krýsuvík. Á öllum þessum svæðum, og raunar víðar á Suðurnesjum, stendur til að virkja jarðhita og svæðin raðast öll í nýtingarflokk samkvæmt rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Sogadalur

Sogadalur – neðra borplanið.

Við Trölladyngju eru tvær nýlegar tilraunaborholur HS orku. Önnur þeirra og sú nýrri (frá 2006) er uppi í hlíð, við gönguleiðina að Sogunum sem er vinsælt útivistarsvæði og rómað fyrir náttúrufegurð. Þar var gert borplan sem Ómar og blaðamaður mældu að væri 45×70 metrar að stærð eða rúmlega 3.000 fermetrar. Það sem upp úr stendur af borholunni sjálfri – en hún reyndist reyndar ónothæf – er ekki nema 2,5×5 metrar.

Ómar Smári fylgdist með framkvæmdunum á sínum tíma og hann segir ljóst að planið hefði mátt vera mun minna, í það minnsta helmingi minna, ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Hægt hefði verið að leggja plan undir borinn en síðan flytja aðföng að honum eftir því sem þurfti.

Sogadalur

Sogadalur – hér má sjá óskráða selið ofarlega t.v. sem naumlega slapp við vegslóðann og efra borplanið neðst t.h.

Rafstöðina hefði mátt hafa annars staðar og leggja raflínu meðfram veginum. Pípur hefði mátt hafa á neðra borplaninu og flytja þær upp eftir og varahlutir og vinnuskúra hefði sömuleiðis mátt hafa þar. Þess í stað hefði jarðýta gert ljótt sár í hlíðina og síðan hefði hundruðum tonna af möl verið ekið á staðinn til að útbúa óþarflega stórt borplan.
Hafa yrði í huga að jafnvel þótt borholan hefði virkað væri endingartími jarðhitavirkjana ekki nema 50-60 ár. Illgerlegt eða ómögulegt væri að fjarlægja ummerki um holuna að þeim tíma liðnum. Þá minnir hann á að rökin með virkjunum séu gjarnan þau að þær skapi atvinnu. „En það fá ekki færri vinnu við að virkja þótt borstæðið sé lítið,“ segir hann.

Sést yfir fornminjar

Sogadalur

Sogadalur – seltóft skammt frá vegarlagningunni upp á efra borplanið.

Ómar Smári tekur fram að hann er ekki andvígur því að auðlindirnar séu nýttar. Vinnubrögðin við borholurnar við Trölladyngju og víðar séu á hinn bóginn þannig að þau hljóti að draga úr stuðningi við virkjanir.
„Hér sjá menn bara eyðileggingu og hugsa: Verður þetta allt svona?“ Hann bendir einnig á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að borstæðinu hafi ekki farið yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni. Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis þá og þegar hann var
lagður. Leyfið fékkst eftir á og þá hjá viðeigandi sveitarfélagi. Sjaldan eru allar tóftir skráðar.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Það gildir t.d. um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan, þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð.“
Þriðja svæðið sem farið var um var Eldvörp en þar vill HS Orka bæta við fimm borteigum, þar af tveimur sem eru á skilgreindu iðnaðarsvæði. Einn borteigur er þar fyrir, ríflega 3.100 fermetrar auk um 1.200 fermetra svæðis meðfram veginum sem var raskað.

Eldvörp

Eldvörp.

Ómar Smári segir að í Eldvörpunum verði að fara sérstaklega varlega enda sé svæðið ríkt af fegurð og sögu en um leið afar viðkvæmt. Ástundi menn sömu vinnubrögð og hingað til lítist honum hins vegar ekki á blikuna.

Ætla að fara varlega

Eldvörp

Eldvörp – borholuplan. Ekkert af nefndum borholuplönum á Reykjanesskaganum hafa komið framkvæmdaraðilum til góða úr því sem komið er.

Ásbjörn Blöndal, forstöðumaður þróunarsviðs HS Orku, segir að við Eldvörp standi til að fara eins varlega og framast sé unnt. Til standi að beita skáborun og bora í um 1.000-1.200 metra frá teigunum, miðað við lóðlínu, sem sé það mesta sem hægt sé að gera í jarðlögum sem þessum.
En hvað þá með stærð borteiganna? Ásbjörn segir að undanfarin ár og áratugi hafi menn reynt að taka sem minnst svæði undir borteiga. „Það er fyrst og fremst verktakinn sem ákvarðar hvað hann þarf til að hann geti unnið verkið sómasamlega. Það hefur allt kapp verið lagt á að hafa umfangið eins lítið og
kostur er.“

Eldvörp

Eldvörp – nýtt og nánast óþarfa borstæði.

Nokkuð frá Eldvörpunum er annar og mun stærri borteigur, um 6.000 fermetrar að stærð, samkvæmt lauslegri mælingu. Á honum eru tvær niðurdælingarholur fyrir Svartsengi og Ásbjörn segir að það hafi verið sú stærð sem þurfti fyrir tvær holur. Þá tekur Ásbjörn fram að HS Orka vinni náið með Grindavíkurbæ að undirbúningi framkvæmda við Eldvörp. Svæðið sé hverfisverndað og ekki verði hróflað við gígunum, enda séu þeir friðaðir. Teigarnir verði að mestu við núverandi veg og pípur og annað lagðar meðfram honum.

Eldvörp

Eldvörp – borplan. Hvenær skyldi „hraunhellur/hraungrýti verða lagðar þarna yfir? Hvers vegna ekki að minnka borteigana svo eftirkostnaðurinn verði minni en ella, af fenginni reynslu.

Meðal þess sem hefur verið rætt um að gera er að leggja hraunhellur/hraungrýti yfir þá borteiga sem ekki nýtast, þ.e. ef holurnar gefa ekki af sér orku. Þá megi nánast afmá ummerki um rask, líkt og hafi verið gert við hús Bláa lónsins. Slíkt sé ekki hægt að gera við vinnsluholur því þær þurfi að hreinsa reglulega með bortæki.
Deiliskipulagstillaga að framkvæmdum í Eldvörpum er nú til meðferðar hjá Grindavíkurbæ.

Óskráðar fornminjar

Ómar Smári bendir á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að efra borstæðinu við Trölladyngju hafi ekki verið lagður yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni.

Krýsuvík

Krýsuvík – borsvæðið á upphafsdögum þess. Hér er búið að afmá fornminjar, bæði vegna ástæðu og án líklegra eftirmála.

Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis. [Bæjarstjórn Voga gaf út leyfið, en þegar bent var á að umráðasvæðið væri innan marka Grindavíkur gaf bæjarstjórn Grindavík út afturvirkt framkvæmdarleyfi án nokkurrar umhugsunar.] Þessar fornminjar hafi raunar hvergi verið skráðar. Hið sama eigi við um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan. Þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning sem unnin var af Fornleifavernd ríkisins. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð,“ segir Ómar Smári.

Krýsuvík

Krýsuvík. Grænavatn t.v. og Gestsstaðavatn t.h.

Þá mætti auðveldlega hafa borplanið á öðrum stað, aðeins nokkrum tugum metra frá séu ónýt útihús sem mætti rífa og nota svæðið sem borplan.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 105. tbl. 05.05.2012, Minnka mætti rask með minni borteig – Óskráðar fornminjar, texti: Rúnar Pálmason, bls. 12-14.

Sogasel

Selin í og við Sogagíg, Sogalækur og vegslóðinn upp að efra borstæðinu. – Uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Jarðfræðifyrirbærið „Sprengigígur“ er gígur þar sem sprengigos (gjóska) hefur komið upp. Gosefnin þeytast langt og hátt upp í loftið, en skilja lítið af jarðefnum eftir sig.

Sprengigígar

Sprengigígar – myndun.

Sprengigígar eins og Víti við Kröflu verða til við sprengivirk gos í megineldstöðvum eða (sjaldnar) á jöðrum eldstöðvakerfa. Gígar af þessu tagi kallast sprengigígar á íslensku, en hins vegar kallast þeir „maar“ í mörgum erlendum tungumálum. Það orð kemur úr þýsku, af því að mjög margir sprengigígar eru til á Eifelsvæðinu í Þýskalandi og eru kallaðir “Maare”.

Gígarnir eru í flestum tilvikum lágir, stundum með engum gígbörmum og oftast fullir af vatni. Gosopið líkist djúpu gati í jarðskorpunni og mest af rúmmáli gígsins er neðan þess. Aðeins lágir rimar úr gjósku ná að hlaðast upp á börmunum. Þar sem sprengigígarnir ná niður úr grunnvatnsfleti, safnast vatn fyrir í gígskálinni. Þvermál flestra sprengigíga á Íslandi er 50-500 m, en dýpið frá brún 10-100 m.

Sprengigígar

Sprengigígar – skýringar.

Gosvirknin verður þegar kvikuþrýstingur í eldstöð er mjög hár, eða kvikan inniheldur mjög mikið af lofttegundum og/eða vatnsgufu. Þá verða öflugar sprengingar. Þetta getur leitt til þess að hlutar eldstöðvanna hverfa í hamaganginum og lítið sést til eiginlegra gosopa eða gíga að gosi loknu. Í flestum tilfellum eru sprengivirk gos þó ekki svo öflug og stendur þá eftir greinilegur gígur eða gígar. Stundum eru þau þó allöflug, en yfirleitt stutt, gjóskugos. Hins vegar kemur fyrir að vatn í miklum mæli kemst að kvikunni og þá verður stutt en öflugt þeytigos með mikilli vatnsgufu, sem skilar einnig af sér lágum eða engum gígbörmum, sem fyrr sagði. Gjóskuframleiðslan getur verið frekar lítil, en brot úr berggrunninum berast upp í sprengingum og þeytast um allt umhverfið.

Sprengigígar

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Sprengigígur (e. maar) er eins og nafnið bendir til gígur sem verður til í sprengingu. Sprengingin verður oftast

vegna þess að kvika kemst í snertingu við vatn skammt undir yfirborðinu eða að gasrík kvika springur við yfirborðið.
Stórir sprengigígar eru til í Veiðivatnakerfinu eins og Ljótipollur og Hnausapollur. Fleiri dæmi eru líka þekkt eins og Víti við Öskju og Grænavatn við Krýsuvík.

Sprengigjá

Sprengigígar

Sprengigígar (-gjá) – Valagjá.

Sprengigjá (e. explosion fissure) er aflangur sprengigígur sem verður til þegar sprengingar verða á stuttri sprungu.

Valagjá norðaustan Heklu er tengt fyrirbæri, þar hafa a.m.k. þrír gígar tengst saman og úr orðið einhvers konar sprengigjá.

Sprengigos

Sprengigígar

Sprengigígar – sprengjugos.

Sprengigos (e. explosive eruption) teljast hvers konar gos þar sem kvika tætist í sundur í sprengingum. Oftast er það snerting við vatn sem veldur sprengingunum en stundum er spennu í sjálfri kvikunni um að kenna. Spennan stafar þá af gosgufum sem þurfa rými.

Víti í Kröflu og Víti í Öskju myndast sennilega við gufusprengingar. Sprengigos í Víti árið 1724 markaði upphaf stórrar hrinu eldsumbrota hjá Kröflu sem kölluð hefur verið Mývatnseldar.

Sprungugos
Sprungugos (e. fissure eruption) er eins og nafnið bendir til eldgos á sprungu.

Gosgígar
Gosgígar sem þróast hafa í sprengigíga koma fyrir á nokkrum háhitasvæðum. Þeir eiga rætur að rekja til eldgosa þar sem vatn úr jarðhitakerfi hefur leitað í gosrásina og soðið upp úr henni.

Sprengigígar

Sprengigígar (gos-) – Innstidalur.

Þar sem gossprungur liggja yfir háhitasvæði koma fyrir sprengigígar og meira gjall í gígum en utan við. Vatn úr jarðhitakerfi er þar einnig orsökin. Skýrust dæmi eru í Trölladyngju og Krýsuvík en það sama sést einnig í Innstadal í Hengli, Bjarnarflagi og e.t.v. víðar. Dæmin sem hér að framar er vitnað til eru öll frá nútíma, þ.e. eftir lok ísaldar. Á nokkrum háhitasvæðanna eru sprengigígar og jafnvel þyrpingar sprengigíga frá ísöld eða ísaldarlokum, t.d í Kröflu, Trölladyngju, Hengli og Kverkfjöllum. Þeir kunna að hafa myndast þegar þrýstiástand fór úr jafnvægi við hlaup eða við snögga lækkun grunnvatnsborðs í ísaldarlokin.

Minniháttar hverasprengigígar

Austurengjahver

Austurengjahver.

Minniháttar hverasprengigígar eru nokkuð algengir á háhitasvæðum. Þeir verða til þegar vatn hvellsýður á litlu dýpi. Hverabollarnir eru fáeinir metrar á dýpt og 30 til vel yfir 50 m í þvermál þeir stærstu. Nokkur nýleg dæmi eru um hverasprengingar sem allar hafa orðið í tengslum við jarðskjálfta (Hveragerði og Reykjakot þar ofan við, Austurengjahver í Krýsuvík) og þá á upptakasprungunum.

Kolsýrusprengigígar

Sprengigígar

Sprengigígar (kolsýru) – Súlufell.

Kolsýrusprengigígar eru sprengigígar af óvissum uppruna og koma fyrir á Hengilssvæðinu. Þeir eru í móbergsfjöllum norðaustur af Ölkelduhálsi og miklu yngri en fjöllin sjálf (Smjördalur í Súlufelli og Kattatjarnir). Gígarnir eru nokkur hundruð metrar í þvermál, kringlóttir, nema þar sem þeir grípa hver í annan, en ekkert úrkast verður rakið til þeirra. Bólstrabergshryggir mynduðust á eftir gígunum, líklega í sama gosi. Mikil kolsýra er í hverum á Ölkelduhálsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – sprengigígar.

Þeir sprengigígar sem helst líkjast loftsteinsgígum eru öskugígar eða „hverfjöll“ (eftir samnefndu felli í Mývatnssveit), en slíkir gígar myndast við það að bergkvikan kemst í snertingu við grunnvatn á leið sinni til yfirborðsins, hún freyðir og sundrast í smáar agnir; ekkert hraun myndast heldur einungis gjóska (aska og vikur). Séu gosin kraftlítil hlaðast gosefnin upp í kringum gosopið og myndast þá öskugígur. Efnið í gígnum er þá hraðkæld bergbráð sem á fræðimáli nefnist „hýalóklastít“, sambreyskja úr eldfjallagleri. Hér á landi liggja slíkir gígar á gossprungum.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Loftsteinsgígar tengjast auðvitað ekki sprungum (nema þá fyrir tilviljun), efnið í þeim er að vísu glerjað, en það er uppbrætt bergið sem loftsteinninn féll í. Kristallar í berginu, bæði í gígnum sjálfum og umhverfis, sýna oft merki um höggbylgju sem fór um efnið þegar loftsteininum laust til jarðar.
Meginmunurinn er samt sá, að gagnstætt loftsteinsgígum hafa eldgígar „rætur“, það er aðfærsluæð eða -æðar sem fluttu bergbráðina til yfirborðsins. Í annan stað eru loftsteinsgígar sjaldnast úr storkubergi, heldur myndast þeir í setbergi eða myndbreyttu bergi.

Grænavatnseggjar

Sprengigígar – Grænavatnseggjar (Grænavatn fremst, Djúpavatn t.h. og Spákonuvatn efst).

Landslag á Reykjanesskaga, einkum þó í Krýsuvík, er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst, um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Augun eru lítil gígvötn beggja vegna þjóðvegarins. Í öllum þessum gígum er vatn. Sunnan við Grænavatn eru hins vegar tveir vatnslausir sprengigígar, Stampar (Litli-Stampur og Stóri-Stampur).

Sjaldgæft er að sprengigígar gjósi oftar en einu sinni. Þeir eru oft það djúpir að þeir ná niður fyrir grunnvatnsborð. Í sprengigosum er megingosefnið stundum aðallega vatnsgufa og gastegundir, en lítið af gjósku.

Sprengigígar

Sprengigígar í Grafningi (Álftatjörn, Litla-Kattartjörn, Stóra-Kattatjörn og Djáknapollur efst).

Kattartjarnir eru í Hryggjunum, suðvestan til í Grafningi. Neðri-Kattartjörn (Nyrðri-), Stóra-Kattartjörn er norður af Kyllisfelli, en Efri-Kattartjörn (Syðri-), Litla-Kattartjörn er norður og/eða norðvestur af fellinu. Tjarnir þessar hafa stundum verið nefndar Katlatjarnir (Neðri-Katlatjörn, Efri-Katlatjörn og eru nefndar svo í sameiginlegri skrá Hagavíkur-, Ölfusvatns- og Krókslanda, eftir Svein Benediktsson. Það er sennilega líkinganafn. Tjarnirnar eru mjög djúpar (gamlir sprengigígar) og dimmbláar og líkjast e.t.v. kattaraugum; það er sem maður líti í djúpblá kattaraugu, svo mikil er dýptin. Nafnið hefur líklega breytzt í Katlatjarnir, vegna þess að tjarnirnar eru gamlir gígar, katlar.

Önnur dæmi um sprengigíga á Reykjanesskaganum eru Grænavatn á Núpshlíðarhálsi, Djúpavatn, Spákonuvatn, Arnarvatn og Austurengjahver.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Sprengig%C3%ADgur
-https://isor.is/jardhiti/hahiti/sprengigigar/
-https://jardfraedi.vefbok.idnu.is/?id=32&tx_systimeglossary_pi1%5Bcharacter%5D=s&cHash=8bf0fc14952fadd54c0faf1ba759395c#c6
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1208

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Krýsuvík

Hér verður fjallað um „Krýsuvík“ út frá samantekt Óbyggðanefndar frá árinu 2004 um úrskurð vegna Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Samantektin felur í sér gagnlegar heimildir um búsetu í Krýsuvík sem og mörk jarðarinnar.

Í kirknaskrá frá árinu 1200 kemur fram að kirkja sé í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1275 segir að kirkjan eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix. mæla land a þorkotlustödum“.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1307 segir að kirkjan eigi: „…heimaland allt. Herdysarvijk. ix. mæla land aa þorkotlustodum“.
Máldagi frá 1367 er samhljóða, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, III. b. s. 222.
Í máldaga Krýsuvíkurkirkju frá 1375 kemur fram að henni hafi verið ánafnaður fjórðungspartur í jörðinni Vatnsleysu [ekki kemur fram við hvaða Vatnsleysu er átt en ljóst er af öðrum heimildum að það er sú á Vatnsleysuströnd].

Krýsuvík

Krýsuvík á 18 öld.

Í visitasíu sem gerð var í Krýsuvík árið 1395 stendur eftirfarandi: „… Reiknadist svo micid goss kirkiunnar j Krýsuvijk ad auk fornra maldaga vc. portio vmm .ij. är hälf .xiiij. alin“ …
Máldagi frá því um 1477 er samhljóða máldagnum frá 1375, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, VI. b. s. 124.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: „… kirkian kryssvvik ætti þar j xc“ …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.
Máldagi frá 1553-54 var samhljóða þeim fyrrum, sbr. Íslenzkt, XII. b. s. 662.
Þann 27. september 1563 á Bessastöðum var sóknarkirkja í Krýsuvík lögð niður að beiðni Gísla biskups Jónssonar.
Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir að kirkjan í Krýsuvík eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix mælaland ä Thorkøtlustödum.”

Fjallið eina

Fjallið eina.

Í kjölfar þess að ágreiningur reis um landamerki Krýsuvíkur í upphafi 17. aldar vitnuðu nokkrir aðilar um merkin síðla árs 1603 og snemma árs 1604. Tvö vitni gáfu samhljóða lýsingu á landamerkjum Krýsuvíkur sem byggð var á vitnisburði þriðja manns53 26. desember 1603. Lýsing vitnanna var svohljóðandi:

Lyngskjöldur

[Lyng]Skjöldur.

„… Krýsuvík ætti austur frá sér allt land að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum, og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Breiðdal og vestur í Markrakkagil. Úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina. Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“. Tveir menn gáfu nánast samhljóða vitnisburð. Sá vitnisburður var efnislega á þessa leið: „Krýsuvík á land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og sjónhending þaðan suður í sjó. Síðan sjónhending úr Skildi og í miðjan Breiðdal, úr Breiðdal og vestur í Markrakkagil, úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir Selsvallarhálsi [annar aðilinn segir Selsvallarhálsi en hinn segir Selsvallakálfi] og suður í Raufarklett sem stendur við Seltanga“.
Samkvæmt einu vitnanna: „á Krýsuvík austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“. Sem staðfestingu á framburði sínum greindi vitnið frá því að það hefði eitt sitt heyrt menn segja að: „… Krýsuvík ætti land allt austur yfir hvert hraun að liggur fyrir austan Geitahlíð“.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Sjötta vitnið greindi frá því að það kannaðist ekki við annað en að: „Krýsuvík ætti land allt austur á eystri hraunsbrún á hrauni því sem liggur fyrir austan Hlíðarhorn“. Til þess að styrkja frásögn sína greindi vitnið frá því að það hefði heyrt að á þeim tíma sem séra Guðmundur hélt Krýsuvíkurstað hefði það verið almæli allra manna að hraunið væri Krýsuvíkureign með réttu.
Að sögn sjöunda vitnisins átti Krýsuvík: „… land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“.Sýslusteinn

Sýslusteinn: Steinninn.

Vitnið kvaðst einnig hafa heyrt að: „… Krýsuvík ætti land allt að Skildi og sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði, hvert vatnsstæði, eður leirtjörn þó upp þornar á sumarið, og ættu þessir sömu steinar að standast á“.

Litla-Hraun

Krýsuvíkursel í Litla-Hrauni ofan Krýsuvíkurbjargs.

Einnig hafði vitnið heyrt að: „… það hefði ætíð verið almæli allra manna, að selstaða ætti að leggjast frá Krísivík til Herdísarvíkur en frá Herdísarvík skyldi koma skipstaða“.
Árið 1629 er vottað, að árið 1621 hafi Skálholtsbiskupi verið afhentir vitnisburðir þriggja vitna. Eru þeir meðal kirkjuskjala Staðar í Grindavík og hljóða svo: „… að Krísivík … ætti austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending austur í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum. Og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Leirdal vestur í Markagil, úr Markagili vestur yfir Slitrin fyrir norðan Fjallið eina, þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju þeirri og frameftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett [ofan Dágons] við Selatanga“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1910.

Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var jörðin Krýsuvík vísiteruð. Hluti skýrslunnar sem unnin var eftir vísitasíuna fer hér á eftir: „Mariukyrkia ad Krÿsivÿk ä ad mäldógum heimaland allt Herdïsar vÿk 9 mæla land ad Þorkótlustodum … För þetta alltt framm i Krÿsivÿk Anno 1642“. (Undir þetta rita Þorsteinn Erlingsson, Hallur Árnason, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson).

Krýsuvík

Krýsuvík 1936.

Þrjátíu og sex árum eftir að Brynjólfur Sveinsson stóð fyrir vísitasíu í Krýsuvík var kirkjan vísiteruð af nýjum biskupi. Þá var Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Í vísitasíunni, sem fór fram 28. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: „… Mariæ kkia ad Krysivÿk hefur att ad fomngilldu … heima land allt Herdÿsarvyk …et, Enn er nu eigninn óll kominn undir Skalhollts domkkiu og henni til dæmd af hófudzmannj Pälj Stïgssyni og hr. Gisla Jonssyni med tilftardömi, huad þessi kyrkia hefur framar átt i rekum og i sókum utvysa maldagar sem eru i Skalholltj“. (Undir þetta rita Bjarni Jónsson, Eiríkur Magnússon, Bjarni Sigurðsson, Jón Jónsson og Árni Gíslason).
Jörðin Krýsuvík var metin árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Krýsuvík eigi hjáleigurnar Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Norðurhjáleigu, Suðurhjáleigu og Austurhús. Þar stendur einnig eftirfarandi: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar. Afrjett fyrir jaðarinnar pening nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð“.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Í kaflanum um Austurhús kemur eftirfarandi fram: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“.
Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en miklega lángt og erfitt til að sækja“.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Krýsuvík vísiteruð á nýjan leik 18. ágúst 1703. Í vísitasíubókinni er ekki að finna neinar gagnlegar upplýsingar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Krýsuvík þann 8. maí 1723. Í vísitasíunni er staðfest það sem fram kom í vísitasíunni árið 1642 um jarðeignir Krýsuvíkur: „Anno ut supra þann 8. Maji var visiterud kirkiann ad Krysuvik. Hún ä epter visitatiu herra Gisla Jónssonar heimaland allt, Herdysarvik, ix mäla land ä Þorkótlustódum“ … (Undir þetta rita Halldór Einarsson, Arngrímur Bjarnason, Jón Magnússon, Ólafur Gissursson og Jón Bjarnason).

Þótkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Rúmum 28 árum síðar, nánar tiltekið þann 10. júní árið 1751, var Krýsuvík vísiteruð af Ólafi Gíslasyni biskupi í Skálholti. Í visitazíunni er minnst á jarðeignir sem voru einnig í eigu Krýsuvíkur er vísitasíur voru gerðar þar árin 1642 og 1723 þ.e.: „… heimaland allt, Herdysarvÿk, 9 mæla land ad Þorkótlustodum“ … (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Ólafsson, Magnús Jónsson, Jón Sigmundsson).
Þann 28. maí 1758 var Krýsuvík vísiteruð af .Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „… visiterud kkian að Krysuvik Hun á efter þeim gomlu maldogium heimaland allt enn nu orden stols Jord. Efter Vilchins maldaga a hun, alla Herdysarvyk, ix mæla lands a Þorkotlustódum … Enn efter maldaga Gísla bps. á hun Herdysarvyk og ix mäla land á Þorkotlustodum …” (Undir þetta rita Finnur Jónsson, Jón Magnússon, Jón Sigmundsson og Sigurður Sæmundsson).

Mígandagróf

Mígandagröf.

J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að stólsjörðin Krýsuvík hafi verið seld þann 8. ágúst 1787. Þann 26. júní 1790 er gefinn vitnisburður um landamerki Krýsuvíkur. Þar greinir sá sem skrifar undir lýsinguna frá því að hann hafi: „… heyrt af vissum mönnum, sem hér í Krísivík hafa verið, um landamerki þau, sem heyrt hafa henni, Krísivík, til, eru svoleiðis: Úr Raufarklett á Selatöngum og í Trölladyngju, úr Trölladyngju og í Gráhellu, úr Gráhellu og í Markrakkagil, úr Markrakkagili og Mígandagröf á fjalli, úr Mígandagröf á fjalli og í stein á Herdísarvíkurfjalli, úr þeim steini og á Seljabótarnef við sjó“. Landamerkjalýsing þessi er staðfest af tveimur mönnum.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

Um mitt ár 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Krýsuvík vísiteruð. Í greinargerðinni sem samin var vegna þessarar eftirlitsferðar kemur eftirfarandi fram: „Anno 1800 þann 1sta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Krysevík; hun hefur ad fornu átt heimaland allt, sídann var hun i meir enn 200 ár, Skálhollts Biskupsstolls, égn, og er nu loks, asamt ödrum Biskupstólsins fastégnum, ásamt jördinni, af Kongl. Hátign burtuseld, svo hun er nu bónda egn – hún á alla Herdisarvik, ix Mælira lands á Þorkötlustodum“ … (Undir skrifa: Arne Nathanaelss., Geir Vidalin, B. Sveinson, Gudmundur Þorsteinsson).

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Krýsuvík með hjáleigunum Suðurkoti, Norðurkoti, Stóra–Nýjabæ og Litla–Nýjabæ í jarðamati 1804 stendur að: „Jorden har god Udegang for Faar og Heste, af de sidste indtages nogle fra Fremmede mod Betaling 1 rdlr. aarlig. Tillige ejer den Sætter til Fiælds, hvoraf for nærværende, ogsaa 2 andre Jorde betjene sig, mod Betaling 20 al. aarlig af hver. Endelig findes her en god Svovelmine som dog ej benyttes, da ureenset Svovel ikke finder Afsætning, og kan dette derfore ikke evalueres“.

Stóribolli

Krýsuvík: Kóngsfell / Konungsfell / Stóri-Bolli.

Í athugasemdum um Krýsuvík segir, sem gilda mun um sýsluna í heild: „Paa Grund af at Udegang for Beder i Almindelighed her i Sysselet saa god, at disse Kreature, de fleste Vintere (undertiden endog Faar og Lam) blot eller da for det meste leve ved at gaae ude, haves desuden de færreste Stæder i nogen betydelig Mængde, uden hvor Udegangen er fortrinlig god, saa formeenes Nedsættelse af denne Herlighed ikke fornöden, uden i Fölge særdeles Omstændigheder, der da paa vedkommende Stæder skal blive anmærket“.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Þann 12. ágúst 1838 seldi Erlendur Jónsson á Brunnastöðum P.C. Knudtzon jörðina Krýsuvík. Henni fylgdu hjáleigurnar Stóri – Nýibær, Litli – Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Austurhús og Vesturhús og tvær nýlendur; Vigdísarvellir og Garðshorn.
Árið 1839 settist Einar Þórðarson að á nýbýlinu Bala sem var nálægt bænum Vigdísarvöllum en þar bjó bóndinn Jón Þorsteinsson. Hann var ósáttur við veru Einars á Bala og þann 20. maí 1840 samdist þeim Einari um að sá síðarnefndi myndi flytja frá Bala á næstu fardögum.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Bali: uppdráttur ÓSÁ.

Bali er þó talinn meðal hjáleigna Krýsuvíkur í Jarðatali Johnsens og Nýrri jarðabók eins og síðar verður nefnt en ekki hefur verið kannað í sóknarmannatölum hvernig búsetu var háttað þar.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er að finna lýsingu Páls Melsted, frá árinu 1842, á mörkum Árnessýslu annarsvegar og Gullbringu- og Kjósasýslu hinsvegar: „Sá syðsti punktur takmarkanna millum Árness- og Gullbringusýslu eru þeir svonefndu Sýsl[u]steinar undir Geitahlíð millum bæjanna Herdísarvíkur, sem heyrir til Árnessýslu og Krýsivíkur, sem tilheyrir Gullbringusýslu. Frá Sýslusteinum ganga sýslutakmörkin beina stefnu yfir fjallið nálægt Vífilfelli til ens stóra steins austan undir Lyklafelli, sem nefnist Sýslusteinn; þaðan beina stefnu í Borgarhóla á Mosfellsheiði; þaðan í Syðri – Moldbrekkur; þaðan í Rjúpnagil millum bæjanna Stardals í Kjósar- og Stíflisdals í Árnessýslu: þaðan í vörðu, sem hlaðin er á Stóra – Sauðafelli; þaðan í Sýsluhólma í Stóru – Laxá; þaðan í Steinkirkju; þaðan í Súlur“.

Garðar

Garðar um 1900.

Í lýsingu Garðaprestakalls í ritinu Landnám Ingólfs, Sýslulýsingar og sóknalýsingar, stendur eftirfarandi: Hverjir bæir eiga selstöður etc? Svar: Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 til 60 ár.

Krýsuvík

Krýsuvík – Norðurkot (tilgáta ÓSÁ).

Samkvæmt bókinni Jarðatal á Íslandi, sem gefin var út 1847, fylgja Krýsuvík sjö hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri – og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: „Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum ínytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu“.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq.brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Manntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Í bókinni „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá árinu 1861 kemur fram að Krýsuvík fylgi átta hjáleigur; Suðurkot, Norðurkot, Stóri- og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali, Lækur og Fitjar.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í byrjun janúar 1870 sendi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps fyrirspurn um það hvort að tiltekin maður, sem sýslumaðurinn taldi búsettan á Vigdísarvöllum, væri heimilisfastur í Vatnsleysustrandarhreppi. Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að téður maður hafði neitað að greiða tíund í Grindavík á þeirri forsendu að hann hefði greitt hana í Vatnsleysustrandarhreppi. Í svarbréfi til sýslumannsins greindi hreppstjórinn frá því að hann teldi manninn heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó hann flytti sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hefðu í seli á Selsvöllum.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki þessara tveggja jarða á Mosfellsheiðinni. Málið fór fyrir dóm og voru þar lögð fram margvísleg gögn. Þann 22. september 1873 var vitnisburður Árna Björnssonar, frá 9. september 1869, um sýslumörk milli Gullbringu- og Kjósarsýslu samhliða Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Árnessýslu hins vegar lagður fram: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í hæst Vífilfell, þá yfir Lyklafell, Borgarhóla og í Rjúpnagil,“ …

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þá voru einnig lagðir fram vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, frá 29. júlí 1869, og Guðmundar Jakobssonar, frá 26. apríl 1871, um mörk Árnes- og Gullbringusýslu (og Kjósarsýslu).
Í vitnisburði Ingimundar stóð eftirfarandi: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í Kóngs fell. Þá yfir Likla fell, (hvar stór steinn stendur norðanvert við fellið sem þeir kölluðu alt til sýslustein.)“ …

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Í vitnisburði Guðmundar kom eftirfarandi fram: … endamork, að sunnan, væri i svo kallaðan sislu stein, undir geitahlið, og beina stefnu eftir há fiöllum til Norðurs, sem þá væri um hærst Vifil fell …
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

Þann 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu jarðarinnar Herdísarvíkur. Lýsingunni var þinglýst 3. júní 1889: „Maríu kirkja í Krýsuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík“.
Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: … að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram. –
Kirkjan á … sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). …
Landamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní s.á.:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

1. að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan: úr Markhelluhól sjónhending, norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (= Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
3. að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, s: [þ.e.] sjónhending úr Kongsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. að sunnan nær landið allt að sjó.

Sogasel

Sogasel.

Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Þar stendur einnig: „Þess skal hjer getið, að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem jeg ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigendur orðið ásáttir um landamerki þau, sem hjer eru talin“.

Krýsuvík

Krýsuvík; brennisteinsnámur – Olafur Olavius. Tóftir eru merkar b og c. á uppdráttinn.

Landamerkjabréfið er samþykkt af eigendum Ísólfsskála, Hrauns og Vatnsleysulands, eigendum og umboðsmönnum Knarrarnesja og Ásláksstaða, eigendum og umráðamönnum Brunnastaðatorfu, eiganda Þórustaða og Landakots og eiganda og umboðsmanni Auðnahverfis og 1/3 Breiðagerðis auk umboðsmanns skólasjóðsins. Það er einnig samþykkt af forráðamönnum Óttarsstaða og Strandarkirkju og umboðsmanni Hlöðunesstorfu svo og Garðapresti. Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir gerðu athugasemdir við landamerkjabréfið. Umboðsmaður jarðanna Staðar og Húsatópta skrifaði: „Hinsvegar skráðum landamerkjum Krýsuvíkur verð jeg að mótmæla hvað 1. tölulið snertir um sjónhending úr Dagon í Trölladyngju fjallsrætur að vestan þar jeg hefi aldrei annað heyrt frekar, en Krýsuvík ætti land úr Dagon, eptir Núpshlíð og vesturfjallgarði áfram N – austur eptir, en að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu” að vestanverðu“.

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið. Á honum er mosagróin varða.

Eftirfarandi athugasemd kom frá eigendum og umboðsmönnum Hvassahrauns: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfis leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sje settur „Markhelluhóll”. Að öðru leyti samþykkt“.

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.

Fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands lét líka skrá niður athugasemd: „Framanskráðu landamerkjaskjali er jeg samþykkur sem fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands, að undanskildum tölulið 2. í ítökum Kirkjunnar þ.e. Krýsuvíkurkirkju, þar eð Kálfatjarnarkirkju er í máldögum eignaður allur reki á Selatöngum; mótmæli eg þessvegna nefndum tölulið 2“.
Í lok landamerkjabréfsins er eftirfarandi athugasemd: „Af ókunnugleik mínum hef jeg látið sýna landamerkjalýsingu þessa sumum, sem engan eignarrjett hafa yfir landi við landamerkin að vestan (jeg vildi vera viss um að engum yrði sleppt, sem land ætti að), t.d. Grindavíkurpresti, eigendum Brunnastaðatorfunnar o.fl., svo ekki verður af undirskriptunum einum ráðið, að hinir undirskrifaðir eigi allir land að landamerkjum Krýsuvíkur, og verður það bezt sjeð á merkjalýsingum þeirra þegar þær koma í ljós, svo hinar óþörfu undirskriptir þurfa engan vafa eða misskilning að gjöra. Á. Gíslason.

Markhelluhóll

Markhella.

Landamerkjabréf fyrir Garða var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Í því kemur eftirfarandi fram: „þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil) í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús“.

Kringlumýri

Kringlumýri – áður óþekktar minjar í beitarlandi Krýsvíkinga.

Á hreppsnefndarfundi Grindavíkurhrepps, sem haldinn var 9. mars 1895, var ákveðið að hafna kröfu eiganda og ábúanda Krýsuvíkur um að hrossa- og sauðfjáreigendur í Grindavík greiddu sér hagatoll fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandareign. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að sárafátt fé Grindvíkinga hefði beit í Krýsuvíkurlandi enda hefðu þeir nóg upprekstarland.
Árið 1911 sendu ábúendur Krýsuvíkur hreppsnefnd Grindavíkur bréf þar sem þeir kröfðust greiðslu fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandi. Þann 25. júní 1911 tók hreppsnefnd Grindavíkur þetta bréf fyrir. Á fundinum kom fram óánægja með kröfuna því að Grindvíkingar hefðu í mörg ár hjálpað Krýsuvíkingum við smölun vor og haust og sú aðstoð hlyti að teljast nægileg greiðsla fyrir sumarbeitina. Eftir að hafa rætt málið komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að þeir væru tilbúnir að greiða fyrir beitina en þá myndi hreppurinn líka draga úr þjónustu sinni. Hreppsnefndarmenn voru tilbúnir að greiða ábúendum Krýsuvíkur 50 kr, en þá myndi falla niður hjálp við haustsmölun, eða 30 kr auk aðstoðar við smölun á Vigdísarvöllum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Í fylgiskjali nr. 8. b. með hreppsreikningi 1910 – 1911 kemur fram greiðsla fyrir sumarbeit í Krýsuvík, 50 kr.
Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Krýsuvík kemur fram að útbeit sé heiðarland og hraun og að jörðinni fylgi hjáleigan Stóri – Nýibær.
Fasteignabók 1921 minnist ekki á að Krýsuvík fylgi nein hjáleiga þótt enn hafi verið búið í Stóra-Nýjabæ.

Seltún

Mynd frá hverasvæðinu í Seltúni í bók McKanzie.

Í kaflanum um Krýsuvík í fasteignamati árið 1932 kemur m.a. fram að þar sé ekkert beitarland nema heimaland jarðarinnar. Þar segir einnig að á jörðinni sé góð mótekja og að þar séu hverir og jarðhiti. Einnig kemur þar fram að landamerki séu ágreiningslaus.
Í fasteignamati 1932 er sérkafli um jörðina Stóra–Nýjabæ sem er hjáleiga frá Krýsuvík. Meðal þess sem þar er greint frá er að býlið hafi ekkert upprekstrarland enda hafi jörðin næg beitilönd. Þar kemur einnig fram að býlið hafi mótak og að hverir séu í landi jarðarinnar. Síðan segir að býlið hafi eggjatekju og fuglaveiði á litlum parti í Krýsuvíkurbjargi. Í kaflanum er einnig greint frá því að býlið hafi óskipt beitiland við Krýsuvík og að merki séu glögg á engjum og túnum. Stóri–Nýibær hefur engin ítök og landamerki býlisins eru óumdeild.

Seltún

Seltún 1977.

Íslenska ríkinu var heimilað með lögum nr. 11 1936 að taka jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ eignarnámi. Var skipuð sérstök matsnefnd til þess að ákvarða bætur. Skilaði nefndin matsgerð dagsettri 4. nóvember 1936. Í matsgerðinni er litið til landamerkjaskrár 14. maí 1890 og segir nefndin landamerkin virðast ágreiningslaus.
Um jörðina segir nefndin: „Jörðinni Krýsuvík hafa fyrrum fylgt 7 hjáleigur (sbr. Jarðatal Johnsens bls. 84), en allar hafa þær verið lagðar undir aðaljörðina, nema Stóri-Nýjabær, sem verið hefur í sjálfstæðri byggingu fram á síðustu ár, en er nú í eyði, eins og segja má, að sjálft aðalbólið, Krýsuvík, sé líka.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Um óræktanlegt land Krýsuvíkur segir: „Það er, sem fyrr er sagt, að miklu leyti fjöll, hraun og sandar“. [Áður sagt í matsgerðinni að það yrði aðeins notað sem afréttarland]. En það er þó víða dágott sauðland, enda hafa ábúendur á jörðum þessum verið sauðmargir löngum, miðað við það, sem hér á landi hefur tíðkazt. En auk fjár ábúenda Krýsuvíkurtorfunnar hafa víst ýms eða flest byggðarlög þar syðra haft not landsins til sumarhaga fyrir sauðfé sitt, enda er svo látið um mælt í 1. málsgr. 2. gr. laga nr. 11/1936, að afhenda skuli Gullbringusýslu lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé, þegar ríkið hafi tekið lönd þessi eignarnámi.

Krýsuvík

Krýsuvík – Seltúnssel sett inn á mynd (ÓSÁ).

Óræktanlega eða lítt ræktanlega land jarðanna er því vitanlega nokkurs virði. Það, sem næst Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ liggur, en það virðist vera gott sauðland víða, mundi að sjálfsögðu verða notað til vetrar- vor- og hausthaga fé því, er nytjendur þeirrar byggðar, sem þar mundi rísa upp, kynnu að hafa. En það af landi þessu, sem fjær liggur, til upprekstrarlands fyrir sauðfé ýmsra hreppa Gullbringusýslu. Það er um þenna hluta lands Krýsuvíkurtorfunnar sem önnur gögn hennar, að erfitt er að ákveða verð þess. En kunnugt er það, að upprekstrarlönd hafa verið seld hér á landi fyrir meðaljarðir eftir því, sem þá tíðkaðist, og þekkir einn okkar undirritaðra slíkt dæmi. Þess skal getið, að Vigdísarvellir eru hér með taldir. Er þar að vísu gamalt túnstæði, talið 5 ha., en annars er þar ekki eða lítt ræktunarhæft land. Óræktanlega eða lítt ræktanlega landið þykir mega áætla 5000,00 -fimm þúsund- króna virði. Matsnefndin ákvað landamerki land þess, sem selja skyldi Hafnarfjarðarbæjar, á fundi 1. maí 1939 og var það selt samkvæmt þeim mörkum árið 1941.

Vesturengjar

Vesturengjar.

Þann 15. maí árið 1939 hafnaði sýslunefnd Gullbringusýslu beiðni Ingólfs Sigurjónssonar á Jófríðarstöðum um að fá að leigja land á gamla túninu á Vigdísarvöllum undir nýbýli. Rök sýslunefndarinnar voru þau að ekki væri hægt að minnka landið sem sýslunni væri ætlað til sauðfjárbeitar úr Krýsuvíkur- og Nýjabæjarlandi.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni). Hið selda land afmarkaðist af eftirfarandi landamerkjum: „Að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftir Sveifluhálsi í vestustu vík Kleifarvatns, að ber í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í rjettvísandi suður til sjávar, í Keflavík. Að sunnan ræður sjór þó þannig, að óhindraður umferðarrréttur áskilst Gullbringusýslu fyrir búpening og til annarar umferðar, um svæði upp frá sjó, er sé a.m.k. 60 metrar á breidd, enda séu engar girðingar eða umferðarhindranir á þeirri leið. Hafnarfjarðarkaupstaður fékk einnig eignarráð yfir hitaveituréttindum í allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til að notfæra sér þau, líka afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu. Hann mátti þó ekki setja girðingar meðfram vatninu nema fyrir sínu landi“.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Einnig fékk Hafnarfjörður í hendur þau réttindi og skyldur sem fylgdu ítökum Krýsuvíkurtorfunnar í annarra manna löndum og ítökum annarra í löndum Krýsuvíkurtorfunnar. Þessu ákvæði fylgdi sú undantekning að eigandi námuréttinda á landssvæðinu hélt sinni eign og átti hann samkvæmt afsalsbréfinu að hafa óhindraðan umferðar- og afnotarétt af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í afsalsbréfinu kemur einnig fram að ríkissjóður skyldi hafa rétt til að kaupa síðar þau hitaréttindi, sem hann kynni að þurfa í sambandi við námurekstur eða annað, og Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti ekki á að halda til sinna þarfa.

Krýsuvík

Krýsuvík; Starfsmannahúsið (gult) og Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Landbúnaðarráðherra skrifaði þann 29. september 1941 undir afsalsbréf þar sem hann, fyrir hönd ríkisins, seldi sýslusjóði Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra – Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfan) til sumarbeitar fyrir sauðfé. Undanskilið sölunni var land það sem ríkið hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað þann 20. febrúar sama ár.
Kaupunum fylgdu heldur ekki önnur afnot af svæðinu, ítök og hlunnindi. Þeir sem áttu þau gæði höfðu samkvæmt afsalsbréfinu rétt á óhindruðum umferðarrétti á svæðinu og aðstöðu til að notfæra sér þau.

Markrakagil

Markrakagil.

Í Fasteignabók 1942-1943 er Krýsuvík með Stóra-Nýjabæ sögð í eign og ábúð eign Hafnarfjarðarbæjar, en beitilandið eign sýslunnar [þ. e. Gullbringusýslu].
Í lögum nr. 31 1959 um breytingu á lögum nr. 33 1929 um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Í 1. grein er lýst takmörkum kaupstaðarsvæðisins: … 10. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. 11. Þaðan í Lækjarbotna. 12. Þá í Gráhellu. 13. Þaðan í miðjan Ketshelli. 14. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplatór (Strandartorfur). 15. Þaðan bein lína í Markraka. 16. Þaðan bein lína um Melrakkagil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. 17. Meðfram Krýsuvíkurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. …
Á sjöunda áratug síðustu aldar reis upp ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnafjarðarbæjar. Í þessu máli tókust á annars vegar Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla og hins vegar Hafnarfjarðarbær. Deila þessi fór fyrir landamerkjadóm Gullbringu- og Kjósarsýslu sem kvað upp dóm sinn 14. desember 1971. Niðurstaða dómsins var eftirfarandi:

Kóngsfell

Litla-Kóngsfell nær, Miðbolli fjær.

Norðurmörk jarðarinnar Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi skulu vera þessi: „Bein lína frá vörðu á Markhelluhól …. um punktinn M á uppdrætti af landinu, sem fylgir dómnum [fylgir ekki með], … að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Suðurmörk lands Hafnarfjarðarkaupstaðar skulu vera þessi: Bein lína frá punkti D á meðfylgjandi uppdrætti af landinu [fylgir ekki með], … í punktinn M … og fylgja mörkin þaðan markalínu Krýsuvíkur að Krýsuvíkurvegi. …”
Í greinargerð sem samin var af sýslumanninum í Keflavík þann 25. júní 1979 kemur fram að svokallað Seljabótarnef á sunnanverðu Reykjanesinu er ekki þar sem menn höfðu talið. Þessi uppgötvun gerir það að verkum að fjörumörk Gullbringu- og Árnessýslu og jarðanna Krýsuvíkur og Herdísarvíkur færast til en þau voru bæði miðuð við Seljabótarnefið í landamerkjalýsingum. Í greinargerðinni kom einnig fram að árið 1832 ákváðu sýslumenn Árnes- og Gullbringusýslna að svokallaður Sýslusteinn væri merki milli sýslanna tveggja.

Markhella

Markhelluhóll – áletrun.

Þann 25. janúar 1980 var útbúið landamerkjabréf þar sem skráð voru mörk Árnessýslu og Grindavíkur. Mörk jarðanna Krýsuvík og Herdísarvík falla saman við þessi mörk. Samkvæmt bréfinu eru landamerkin eftirfarandi: „Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi“.
Athugasemdir hafa verið gerðar um svokallaða Markhellu/Markhelluhól sem minnst er á í landamerkjabréfum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða frá árinu 1890: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sjé settur Markhelluhóll. Að öðru leyti samþykkt“. Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson.
Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.” Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eini sanni

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Markhelluhóll og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hann. Á hólnum er varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á þessari öld.
Steindranginn sem nefndur er í lýsingunni er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við hólinn út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhverntímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir því, við undirskrift bréfsins) að hægt var að ruglast á þessu tvennu og lögðu áheyrslu á örnefnið Markhelluhól sem er drjúgum ofar….

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krýsuvík

Krýsuvík 2020.

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík (nálægt Stóra-Nýjabæ) að Vegghamri og áleiðis inn í Kálfadali.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, „Tunglið, tunglið, taktu mig“, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.
Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.

Seltún

Verkefnið um Brennisteinsvinnslu í Krýsuvík er unnið 2010-2014 með það að markmiði að safna upplýsingum um minjar tengdar brennisteinsnámusvæðunum á Reykjanesskaganum; í Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík annars vegar og Brennisteinsfjöllum hins vegar, sem og að skrá og miðla fróðleiknum til annarra.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaga.

Meginviðfangsefnið er þó að reyna að gefa sem sögulegast yfirlit um brennisteinsvinnsluna, bæði í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum, með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fornleifaskráningu af svæðu, auk korta og örnefnaloftmynda á Krýsuvíkursvæðinu). Fylgt var leiðbeiningum Minjsstofnunar Íslands (Fornleifaverndar ríkisins) um fornleifaskráningu.
Eins og að framan greinir er Krýsuvíkursvæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum sem og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879-1883 og hins vegar Baðstofusvæðinu ofan svonefndra bústjórahúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík og verður því einnig lýst hér, enda hlutar af órjúfanlegri minjaheild.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum og getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þr sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll voru námusvæðin fyrrum í Krýsuvíkurlandi (sjá kort á bls. 4) og tilheyrðu því lögsagnarumdæmi Grindavíkur á meðan var. Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðinum allt frá 12. öd. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns þar var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.

Ritið í heild fæst hjá Antikva ehf í Garðabæ.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Brennisteinsfjöll.

FERLIR hefur safnað og skráð heimildir um brennisteinsnám í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Safnið er 68 blaðsíður þar sem getið er bæði um sögu brennisteinsnámsins og sögu.

1. Inngangur

Uppdráttur af brennisteinsnámusvæðinu í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Verkefnið var unnið sem áfangi í fornleifafræðinámi við Háskóla Íslands í samráði við skoraformann í sagnfræði- og heimspekideild, Steinunni. J. Kristjánsdóttur.

Meginviðfangsefnið er að gefa sögulegt yfirlit um brennisteinsvinnslu í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fylgiskjöl auk korta). Fylgt var leiðbeiningum Fornleifaverndar ríksins um fornleifaskráningu.

Í Krýsuvík er svæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879 til 1883 og hins vegar Baðstofusvæðið ofan fyrrverandi bústjórnarhúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þær sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll eru námusvæðin í Krýsuvíkurlandi.

Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðunum allt frá 12. öld. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns það var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.
Ritgerð – brennisteinsnam III

Heimildir:
-Fornleifaskráning. Skráningarstaðlar og leiðbeiningar. Fornleifavernd ríkisins 2008 – http://www.fornleifavernd.is/files/8/20080609105155104.pdf
-Frank Ponzi. Ísland fyrir aldamót, 1995, bls. 126-141 og Sveinn Þórðarson, Auður úr iðrum jarðar, 1998, bls. 113-129.
-Ólafur Olavius. Ferðabók, landshagir í norðvestur, norður- og norðaustursýslum Íslands 1775-1777, ásamt ritgerðum Ole Henchels um brennistein og brennisteinsnám og Christian Zieners um  surtarbrand, 1965, bls. 259-274.
-Ari Gíslason. Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík (ÖÍ) og Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík (ÖÍ).
-Gísli Sigurðsson. Örnefnalýsingi fyrir Krýsuvík (ÖÍ) og Ólafur Þorvaldsson, Selvogsgata og Krýsuvíkurleiðir, sérrit úr Árbók Ferðafélags Íslands 1999, 36 bls.
-Sveinn Þórðarson. Auður úr iðrum jarðar, saga hitaveitna og jarðhitanýtingar á Íslandi, 1998, bls. 113-127.
-Frank Ponzi. Ísland fyrir aldamót, 1995, bls. 126-141 og Sveinn Þórðarson, Auður úr iðrum jarðar, 1998, bls. 113-129.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Krýsuvík

FERLIR hefur um árabil upplýst um mögulegar minjar brennisteinsnáms í Krýsuvík, enn sýnilegar, með vísan til skráðra heimilda um slíkt allt frá því á 18. öld. Svörun viðkomandi stofnana eða einstaklinga hefur hingað til engin verið.

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Í óvæntri umfjöllun um löngu fyrrum uppljóstrun um efnið í Grindavík mátti lesa eftirfarandi;

Krýsuvík

Krýsuvík – Hetta, Hattur og Baðstofa ofan Hveradals.

 „Þetta kemur mér mjög á óvart og hlýtur að setja allt málið í talsvert uppnám,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði um upplýsingar um að neðan fjallsins Baðstofu í Krýsuvík séu baðstofuhverir, gamlar brennisteinsnámur og aðrar leyfar um mannvistir en HS orka hefur fengið leyfi til að bora á svæðinu.

,,Það hefur einungis verið veitt leyfi til tilraunaboranna og þá með hliðsjón af því að svæðinu hefur þegar verið raskað. Ég hef hinsvegar ekki heyrt um neinar fornminjar þarna.“

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Ómar Smári Ármannsson hjá gönguhópnum FERLIR upplýsti í desember árið 2010 um þessar minjar í fyrirlestri um byggð og brennistein í Krýsuvík á baðstofukvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hann vakti m.a. athygli á því að þeirra væri ekki getið í nýlegri fornleifaskráningu af svæðinu. 

Talið er að á árunum 1724 – 1729 hafi tveir Þjóðverjar, Holzman og Sechmann, byrjað að taka brennistein úr „Krýsuvík“. Þegar Innréttingar Skúla Magnússonar voru stofnaðar um miðja átjándu öld var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein á Íslandi og er síðan talið er að brennisteinsvinnsla hafi svo verið unnin í Krýsuvík, með hléum þó, allt til ársins 1885.Ómar Smári vísaði í skýrslu manns að nafni Ole Henchel sem ferðaðist um Krýsuvík árið 1775 og nefnir meðal annars hús sem tilheyrðu brennisteinsvinnslunni.

Krýsuvík

Krýsuvík; brennisteinsnámur – Ólafur Olavius (1741-1788). Tóftir eru merkar b og c. á uppdráttinn.

„Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði upp tekin brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo allt verður að gera að nýju, eins og hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Þar hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna bústetur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna…“

Árið 1942 fékk Hafnarfjörður svæðið sunnan Kleifarvatns til takmarkaðra afnota, meðal annars brennisteinsnámusvæðin.

Seltún

Seltún í Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúi, segist ætla að hafa samband við formann skipulags og bygginganefndar í Hafnarfirði vegna málsins. Hún segir þó undarlegt að ekki hafi komið fram neinar ábendingar fyrr en málið hafi verið í vinnslu frá árinu 2006. Hún segir engar framkvæmdir farnar af stað. Afgreiðslan gefi einungis leyfi til tilraunaboranna og feli ekki í sér fyrirheit um nýtingarrétt. Enn eigi eftir að móta umhverfis og auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið og endarleg niðurstaða hljóti að ráðast af því.“

Ekkert framangreint ætti að koma sæmilega upplýstu fólki, jafnvel einstökum bæjarfulltrúum, á óvart. Bygginga- og skipulagsfulltrúa gæti þó þótt viðfangsefnið óþægilegt.

Krýsuvík

Það hlaut að koma að því!. HS-orka hefur hafið framkvæmdir við borstæði í Krýsuvík undir Hettu og Baðstofu og byrjaði á því, að venju, að ganga um svæðið á „skítugum skónum“.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Fyrsta fórnalambið var, að venju, ein fornleif af tveimur frá 18. öld, eða jafnvel þeirri 17., þegar Krýsuvíkurbóndi flutti út brennistein úr námunum til tekjuauka. Stórvirkri vinnuvél hafði einfaldlega, af óskiljanlegri ástæðu, verið ekið rakleitt yfir sögulega tóftina, líkt og jafnan er gert við upphaf stærri framkvæmda á Reykjanesskaganum. Þetta virðist vera það fyrsta sem framkvæmdaraðilum dettur í hug við þegar þeir mæta á vettvang. Akstur vinnuvélarinnar nákvæmlega þarna er með öllu óskýrður. Svar hlutaðeigenda verður eflaust sem og svo oft áður við slíkar aðstæður; „Sorry, gröfustjórinn vissi ekki betur„. Fulltrúi Byggðasafns Hafnarfjarðar mun að öllum líkindum, líkt og vanalega, sverja af sér alla vitneskju um minjarnar þrátt fyrir að hafa, greinilega með mistækum árangri, talið sig hafa fornleifaskráð svæðið opinberlega. Þessar tilteknu minjar, þrátt fyrir skráðar fyrirliggjandi heimildir af svæðinu sem og vitneskju um þær, fóru bara, að venju, milli „skips og bryggju“ hlutaðeigandi yfirvalda.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Ef að líkum lætur mun Minjastofnun ekkert aðhafast vegna þessa, þrátt fyrir að vitað var um minjarnar eftir opinberlega birta ritgerð um brennisteinsnám á Reykjanesskaga frá 2011 á vefsíðunni ferlir.is sem og útgefna sérstaka sjálfstæða fornleifaskráningu af brennisteinsnámusvæðinu í Brennisteinsfjöllum, Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík frá árinu 2014 að frumkvæði fornleifafyrirtækisins Antikva, auk þess sem fulltrúi HS-orku, BÓF, hafði áður verið kvaddur á svæðið, honum bent sérstaklega á minjarnar, og hann beðinn, með fullri vinsemd, um að gæta þess að fornleifunum þeim yrði hlíft ef og þegar að kæmi að aðkomu stórtækra vinnuvéla.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Þrátt fyrir allar ábendingarnar var ekki talin ástæða, að mati ráðandi aðila, í aðdragandanum, að fornleifaskrá framkvæmdarsvæðið sérstaklega, sem verður nú að teljast einstaklega ámælisvert. Þarna hafa kjörnir fulltrúar ríkis, sveitarfélagsins og framkvæmdaraðilans augljóslega sofið á verðinum. Talandi um „græna vegginn“ í Mjóddinni??!!

Eyðileggingin er dæmigerð fyrir sofandahátt þeirra, sem fá greitt fyrir að eiga að vinna vinnuna sína, en virðast því miður vera allt of uppteknir við eitthvað allt annað en það sem þeim er ætlað….