Færslur

Krýsuvíkurheiði

Jafnan, þegar heyra má spurninguna um hvaðan örnefnið Krýsuvík (Krísuvík) sé upprunnið, verður jafnan fátt um svör. Getgátur eru leiddar fram, en fáar áreiðanlegar. En hver er þá merkingin Krýsuvík og hvar er örnefnið Gullbringu að finna í sýslunni, sem hún dregur nafn sitt af?

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Við þessari spurningu svarar Svavar Sigmundsson hjá Örnefnastofnun Íslands með eftirfarandi hætti: “Alexander Jóhannesson skrifaði 1929: Über den Namen Krísuvík. Mitteilungen der Islandfreunde XVII:36-37. Ásgeir Blöndal er ekki trúaður á það sem A.J. heldur fram að nafnið sé dregið af nafni konu, sbr. fhþ. Crisa, heldur sé það tengt lögun víkurinnar og í ætt við krús (3) og krúsa; af germ. *kreu-s- ‘beygja’ og hann skrifar það Krýsuvík (Íslensk orðasifjabók, 512). Önnur Krísuvík er í landi Þorsteinsstaða í Grýtubakkahr. í S-Þing. en þar er engin Gullbringa. Ég hef skrifað eitthvað um Gullbringu á Vísindavefnum 13.3. 2002. Annað man ég ekki að nefna, en ég aðhyllist frekar skýringu Ásgeirs Blöndals en Alexanders.”

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Ef skoðaðar eru gamlar orðabækur og orðatiltæki kemur í ljós að “krýs” táknar einfaldlega grunn skora í ask, sbr. grunn vík. Þar mun og fyrrum, að öllum líkindum, hafa verið grunn vík neðan við þar sem nú eru tóftir “Gömlu Krýsuvíkur”, þaktar hrauni, en tóftir hinna gömlu bæjarhúsa standa þar enn, órannsakaðar að mestu.

Gullbringa

Gullbringa.

Aðrir hafa velt fyrir sér langsóttari skýringum sbr. vangaveltum Alexanders Jóhannessonar frá 1929 og jafnvel lýsingar Skugga (Jochums). Eins og fram kemur hjá Svavari þá áætlar Ásgeir Blöndal nafnið út frá lögun víkurinnar og nafnið sé í ætt við krús og krúsa (Íslensk orðasifjabók) og er það í ætt við aðrar fornar orðskýringar. Jarðfræðiathuganir á svæðinu benda til að þarna hafi fyrrum verið vík inn í landið, enda gamlir sjávarhamrar langtum ofar.

Bringur

Bringur í Mosfellssveit.

Áður en hraunið rann 1151 og fyllti víkina hefur landslagið litið öðruvísu út. Þarna hefur væntanlega verið góð landtaka undir hömrunum, gróið í kring þar sem nú standa Húshólmi og Óbrinnishólmi skammt vestar, upp úr. Stutt hefur verið í fiskimið og nægur fugl í björgum. Beit hefur og verið væn, bæði fjær og í fjöru, og nægt vatn í brunnum. Þarna hefur verið, og er reyndar enn, mjög skýlt í norðanátt og austanáttin, rigningaráttin, er ekki til vansa.

Krýsuvík

Grein Árna Óla um Krýsuvík í Lesbók Morgunblaðsins 1932.

Gullbringunafnið er til a.m.k. á tveimur stöðum í sýslunni, og það er einnig til í Kjósasýslu, sbr. Bringur eða Gullbringur norðaustan undir Grímarsfelli, efst í Mosfellsdal. Sumir telja Gullbringunafnið komið frá lágreistu keililaga sandfelli (Gullbringu) austan Kleifarvatns, en aðrir segja það vera á hlíðinni allri austan þess, “enda glói hún sem gull er kvöldsólin fellur á hana handan Hádegishnúks (Miðdegishnúks) [á Sveifluhálsi]. Þeir, sem komið hafa að austan snemmmorguns, með morgunsólina að baki, sjá þvert á móti Sveifluhálsinn gullglóandi við þær aðstæður. Sennilega getur allt landslag á Reykjanesskganum fallið undir framangreinda skilgreiningu því kvöldsólin, og reyndar morgunsólin líka, lita jafnan umhverfið gylltum litum undir þeirra síðustu morgna og kvölds þegar aðstæður haga þannig til. Raunverulegrar (upprunalegrar) nafngiftar er því sennilega að finna annars staðar á landssvæðinu og í öðru en sólargyllingunni, enda endurspeglast hún í sömu lögmálum sínum um allt land, óháð stað eða tilteknu svæði.

Á Vísindavef Háskóla Íslands má lesa eftirfarandi:
“Hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og bókum.

Húshólmi

Neðan við gamla Krýsuvíkurberg í Ögmundarhrauni.

Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512)”.

Krýsuvík eða Krísuvík?
Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og út í víkina fyrrum. Næsta vík austan við er nefnd Hælsvík en ekki er vitað hversu gamalt það nafn er eða hvort hún var hluti Krýsuvíkur.

Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna.” Öll tilvitnuð forn skrif fyrrum voru “krysuvik”.

Reyndar er til ein mjög líkleg skýring á nafngiftinni. Í dönsku er til orðið “krys”, sem merkti “grunn skora”, s.s. í ask. Orðið þýddi og “grunn”, t.a.m. grunn vík”, sem Krýsuvík var fyrrum. Fólk hefur gjarnan ruglað saman orðunum “krís” og “krýs”. Hið fyrrnefna stendur fyrir deilur eða ástand, en hið síðarnefnda fyrir vog eða skoru í ask.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun – http://www.ornefni.is/d_skoda.php
-Orðabók M&M.
-Orðsifjabókin.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6532

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Krýsuvíkurberg

Bergsendi eða Bergsendar eru algeng örnefni í sjávarbjörgum. Nöfnin skýra sig jafnan sjálf.
Endimörk Krýsuvíkurbjargs (-bergs) heita “Bergsendi” eystri og vestari. Frá Bergsenda eystri að Eystri-Læk á Strandarbergi heitir bergið “Krýsuvíkurbjarg”. Vestan Strandarbergs að Bergsenda vestari, stundum nefndir Ytri-Bergsendar, var það nefnd “Krýsuvíkurberg”. “Ytri” og “Innri” voru algeng viðmið á vestanverðum Reykjanesskaga fyrrum. Ytra þýddi nyrðra og Innra syðra.

Bergsendi

Bergsendi innri (eystri)- útsýni til vesturs.

Í Örnefnalýsingu sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði um Krýsuvík er m.a. fjallað um örnefni í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg).
“Nöfn í Krýsuvíkurbergi eru þessi: Austast er Strandaberg, vestan Bergsenda eystri, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju. Neðan undir Heimabergi er Skriða. Austan við hana er Ræningjastígur (nú horfinn).

Bergsendi

Bergsendi vestari.

Vestasta hornið á berginu heitir Bergsendi vestari. Vestan við Bergsenda er Hælsvík. Fyrir Krýsuvíkurlandi eru þessi rekapláss: Skriðurekar, Bergsendarekar og Miðrekar.” Þorsteinn nefnir bergið allt “Krýsivíkurberg”.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, sem Svanur Pálsson afritaði 2004 eftir eintaki, sem varðveitt er á Bókasafni Hafnarfjarðar, er fjallað um Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurbjarg. Aðalheildarmaður Gísla var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70. Lýsingin er frá austri til vesturs:

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg (Heinaberg).

“Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Heiðnaberg

Heiðnaberg – loftmynd.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.”

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík er jafnframt getið um Bergsenda:
“Þar sem Krýsuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi og Vestri-Bergsendi. Hluti Krýsuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða. Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg; þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg; það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg) – kort.

Svo er Heimaberg; þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar, Miðrekar og Skriðurekar. Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur; þar uppi á brún heitir Lundatorfa. Nýipallur er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef. Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón og Vestra-Selalón. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur. Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll, sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur í bergið.”

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”

Ofan við Ræningjastíg, sem sjórinn hefur nú náð að brjóta niður, eru minjar Krýsuvíkursels.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Á Bergsenda vestari (ytri).

Niðurganga á Bergsendana hvoru megin er auðveld. Frá þeim, til beggja átta, er ágætt útsýni út og inn með berginu (bjarginu) í góðu veðri.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Bergsendar eru einnig svo nefndir sitt hvoru megin við Staðarberg neðan Staðarhrauns vestan Grindavíkur.
Í Örnefnalýsingu sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Í lýsingunni er getið um “Ræningjasker” og tilnefnd þjóðsaga um Tyrki og komu þeirra að Staðarhverfi. Sagan er ekki ólík þeirri fyrri. Í báðum tilvikum koma prestar að lausn mála.
“Austast á Staðarbergi heitir Bergsendi. Fram af Staðarmölum er Ræningjasker, alltaf upp úr sjó. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker. Gekk þá Staðarprestur upp í Hæðirnar við Húsatóftir og hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um að á meðan í þeim stæði steinn yfir steini, skyldi Grindavík ekki verða rænd. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda standa vörður þessar að nokkru enn. Heita þær Nónvörður og eru eyktarmark frá Húsatóftum.
Áður en Mölunum sleppir er Bergsendasker, klettanibbur, sem skaga úr stórgrýtinu fram í sjóinn.

Hróarsbásar

Í Hróarbásum.

Staðarbergið er álíka langt og Malirnar. Um það farast Geir Bachmann svo orð í sóknarlýsingu sinni: “Það er tæp 1/4 míla á lengd. Lágt er það og að öllu leyti ómerkilegt, því hvorki er í því varp né fuglatekja, og eigi er það svo vel, að undir því geti fest nokkurt tré, þó ekki sé það heldur standberg í sjó.” (Landnám Ingólfs III, bls. 126). – Austast á Bergsendanum er gatklettur mikill, en ekki ber hann sérstakt nafn.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg fjær) – nafnlausi fossinn.

Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.”

Sjá skemmtilegt Youtube-myndband frá Krýsuvíkurbergi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti  um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Lýsing Gísla Brynjólfssonar fyrir Stað í Grindavík.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Vestari-Lækur

Í Krýsuvík eru tvær lækir; Vestari-Lækur (Vesturlækur/Krýsuvíkurlækur vestri/Fitjalækur) og Eystri-Lækur (Nýjabæjarlækur/Krýsuvíkurlækur/Eystrilækur). Sá fyrrnefndi á uppruna sinn í mýrinni sunnan við Gestsstaðavatn og sá síðarnefndi í Dýjakrókum ofan bæjarstæðis Stóra-Nýjabæjar. Krýsuvíkurtorfan hefur stundum verið nefnd “byggðin milli lækja”, en það getur ekki verið alls kostar rétt því sjálfur Krýsuvíkurbærinn, auk Suðurbæjar, Norðurbæjar og Snorrakots, eru vestan Vestari-Lækjar.

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn í “eðlilegu” ástandi.

Báðir lækirnir steypast fram af Krýsuvíkurbergi, sá eystri austan Bergsenda eystri og sá vestari neðan Fitja undir Selöldu. Vestari-Lækur hefur náð að grafa sig niður í móbergið áður en hann fellur niður í fjöruna, en Eystri-Lækur hefur þurft að sætta sig við ýmist að falla ofan af skarpri hárri hraunbrúninni eða falla niður í sprungur ofan brúnarinnar, allt eftir því hvernig hún hefur þróast af sjóbarningnum neðanverðum eða áhrifum jarðskjálfta hverju sinni.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – nafnlausi fossinn.

Eystri fossinn hafði ekki nafn fyrrum, en í seinni tíð hafa einstaka ferðamenn reynt að nefna hann “Krýsuvíkurfoss”, sem varla getur talist frumlegt örnefni. Lækurinn ofan bjargbrúnarinnar var áður einnig nefndur “Lækur á Bergi”. Vestari fossinn heitir Mígandi í örnefnaskrám.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um lækina: “Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn í víkina [Hælsvík] vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.
Vestur frá Litlahrauni [austan Bergsenda eystri] tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. Um hana rennur Eystri-Lækur og rennur í sjó á austanverðu berginu.”

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn þegar hann fellur niður um ofanverðar sprungumyndanir.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) segir m.a. um lækina og fossana í Krýsuvík: “Að austan var Nýjabæjarlækur. Hann átti upptök sín spölkorn fyrir ofan túnið í Dýjakrókum. Þegar nokkuð var komið frá Nýjabæjartúni, nefndist Nýjabæjarlækur, Krýsuvíkurlækur eystri eða Eystrilækur. Nokkuð niður með honum er Austurlækjarvað, liggur þar gata yfir um lítið holt er nefnist Reiðholt, en gatan lá heim milli garða heim til Krýsuvíkurbæjar. Svæðið sunnan Vesturlækjar og Austurlækjar mætti með réttu nefnast Milli lækja.

Vestari-Lækur

Vestari-Lækur, ónefndur foss ofan Míganda. Fallegur berggangur í rauðamölskriðunni.

Hér vestur undan fellinu [Bæjarfelli] er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði. Takmarkast að norðan af Hálsinum, en að sunnan af Krýsuvíkurlæk vestri eða Vesturlæk. Vesturlækur á uppruna sinn í mýrinni neðan undir Gestsstaðavatni. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist þá Fitjalækur.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Þegar haldið var vestur Bergið þá varð fyrst fyrir í sjónum Selasker og ofan við það Selalón. Vestar var komið að allmiklu viki eða vík, Keflavík. Þar var Keflavíkurkampur stórgrýttur, og þar voru Keflavíkurrekar. Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hér fellur Mígandi fram af berginu í skoruna nær.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er er undir Hei[ð]nabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri.”

Mígandagróf

Mígandagróf.

Nafngiftin “Mígandi” er einnig til á litlum fossi í Hvalfirði, háum fossi norður af Dalvík, myndarlegum fossi í Vatnsdal Austur-Húnavatnssýslu (einnig nefndur Hjallafoss), á fossi austur af Bjarnanúp á Vestfjörðum og auk þess má finna örnefnið Mígandagróf ofan Lönguhlíða á Reykjanesskaganum.

Sjá myndband um austanvert Krýsuvíkurberg HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn nafnlausi á góðum degi.

Krýsuvík

“Hvort er réttara að skrifa “Krýsuvík” eða “Krísuvík“? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og frásögnum.

Húshólmi

Húshólmi og Gamla-Krýsuvík.

Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512).

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans í Kerlingadal.

Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og í víkina. Næsta vík austan við er nefnd Hælsvík en ekki er vitað hversu gamalt það nafn er eða hvort hún var hluti Krýsuvíkur.

Krýsuvík

Krýsuvík – strandlínan fyrrum; tilgáta.

Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna. Þjóðsöguna má lesa með því að smella HÉR.”
Við þetta má bæta að danska orðið “krys” merkir vík eða skora, sbr. skora í ask.

Heimildir:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6532
-Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

/https://ferlir.is/landid-og-framtidin-krysuvik/

Reykjanesskaginn

Í Faxa árið 1998 fjalla nemendur FS á Suðurnesjum um “Áhugaverða staði í Reykjanesfólkvangi“. Frásögnin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að nemendurnir hafa að öllum líkindum lítið kynnt sér vettvangsaðstæður sem og hina fjölmörgu möguleika, sem Reykjanesskaginn hefur upp á bjóða innan fólkvangsins, en taka þarf viljan fyrir verkið því það er jú niðurstaðan hverju sinni er mestu máli skiptir þegar upp er staðið.

Faxi“Náttúran á Reykjanesi er frekar rýr ef bera á hana saman við náttúru annars staðar á landinu vegna þess að svæðinu hefur einfaldlega verið misboðið í svo langan tíma. Þó svo að ekki hafi alltaf verið farið vel með svæðið þá er ýmislegt að sjá ef áhuginn er fyrir hendi. Of margir Suðurnesjabúar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu leita oft langt yfir skammt þegar njóta á íslenskrar náttúru. Vill það gleymast að Reykjanesið er spennandi svæði að ferðast um og kynnast. Það er öðruvísi en margir staðir á landinu vegna þess að þar er hægt að sjá mjög greinilega hvernig Reykjaneshryggurin kemur inn í landið. Allt umhverfi okkar er mótað vegna Reykjaneshryggsins því þar hafa orðið mörg eldgos fyrr á tímum og enn í dag er þar mikil eldvirkni í jörðu þó svo ekki hafi gosið á þessu svæði í nokkurn tíma.

Gróður á Reykjanesi er í slæmu ásigkomulagi samanborið við það sem hann var fyrir landnám og þeir sem vilja sjá mikinn gróður fara því á aðra staði á landinu. Allir verða að kynnast auðninni til þess að geta gert sér það ljóst að ekki má halda áfram eins og fram horfir án þess að illa geti farið. Það vekur kannski ekki áhuga margra að ferðast um Reykjanesið en ef vel er að gáð má þó finna eitthvað fyrir alla. Skemmtilegar gönguleiðir eru víðsvegar um svæðið, hraunmyndanir og háhitasvæði eru víðsvegar og reyndar er hægt að finna þar mikinn gróður þó á takmörkuðum svæðum sé. Fuglabjörg eru einnig á svæðinu og einnig er hægt að komast í silungsveiði með alla fjölskylduna. Þegar fólk ætlar að njóta náttúrunnar er oftast farið á þá staði sem eru meira þekktir og þykja merkilegir s.s Þingvelli, Gullfoss og Geysi eða önnur þekkt svæði. Hér á eftir verður fjallað um þau svæði sem okkur þykja merkilegust í Reykjanesfólkvangi.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Þegar Reykjanesbrautin er ekin blasir Keilir við á hægri hönd ef komið er frá Keflavík. Ef beygt er til hægri og ekið sem leið liggur frá Kúagerði og upp að fjöllunum þá er þar komið að mikilli grassléttu. Þessi grasslétta heitir Höskuldarvellir og eru þeir stærsta samfellda graslendið í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Sogalækur

Sogalækur.

Í leysingum liggur lækur úr Sogunum fyrir sunnan Trölladyngju og er talið að lækurinn hafi smám saman borið jarðveg niður á sléttlendið. Frá Höskuldarvöllum eru margar skemmtilegar gönguleiðir t.d á frægasta fjall Suðurnesja, Keili. Einnig er hægt að ganga á Mávahlíðar en það er mjór hryggur sem er brattur á báða vegu og sést hann því vel í næsta umhverfi. Þegar komið er á staðinn er best að velja gönguleiðir um svæðið eftir áhuga og getu hvers og eins.
Mjög fallegt er í kringum Höskuldarvelli á sumrin þegar allt er í blóma en þó er ekki síðra þar á veturna þegar snjór liggur yfir öllu svæðinu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja er ekki langt frá Höskuldarvöllum og er því alveg tilvalið að ganga þangað og skilja bílinn eftir undir fjallshlíðinni við Höskuldavelli. Trölladyngja er móbergsfjall í Reykjanesfjallgarði norður af Núpshlíðum eða Vesturfjalli. Á Trölladyngju eru tveir móbergshnjúkar. Austan við Trölladyngju er annað móbergsfjall, Grænadyngja. Nefnast þær saman Dyngjunnar. Í dyngjunum eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Norðan og sunnan við dyngjurnar eru gígar og gígaraðir.

Sogin

Sogin.

Norður af Trölladyngju eru síðan gufuhverir sem vert er að skoða. Jarðhiti er mikill í Trölladyngju. Sunnan hennar er litskrúðugur skorningur, svokallað Sog. Gaman er að ganga um svæðið og virða fyrir sér þá sérkennilegu liti sem em í dyngjunum. Þar eru mörg litaafbrigði og eru þau breytileg eftir því hvernig veður- og birtuskilyrði eru. Lítill lækjarfarvegur liggur í gegnum dyngjurnar og hefur hann í tímans rás grafið sig sífellt neðar. Dýptin er sumstaðar komin yfir tvær mannhæðir.
Stórkostlegt er að litast þarna um og njóta þeirrar fjölbreytni sem náttúran hefur upp á að bjóða í litavali.
Slæmur vegur liggur áleiðis að Trölladyngju frá Höskuldarvöllum. Frá Trölladyngju er síðan hægt að aka að Grænavatni og Djúpavatni.
Víðsvegar á þessu svæði er jörðin illa farin eftir umferð og nýjar slóðir eru sífellt að myndast og jörðin er á mörgum stöðum uppspóluð. Þetta er til skammar fyrir Reykjanesið og þeir sem aka utanvega ættu að skammast sín fyrir að eyðileggja marga fallegustu staði á Suðurnesjum sem seinna meir gætu orðið ferðamannastaðir sem myndu skapa miklar tekjur fyrir Suðurnesjabúa. Best er að ferðast um svæðið gangandi þegar á það er komið því þannig fæst best yfirlit yfir svæðið, við það skemmist það ekki og einnig er ganga heilsusamleg og nauðsynleg.

Spákonuvatn

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Mjög skemmtileg gönguleið er eftir Vesturhálsi þegar gengið er til suðurs frá Sogunum. Þá er komið að vatni uppá fjallinu og heitir það Spákonuvatn. Vatnið hefur myndast við það að hraun hefur lokað dalverpi og það hefur orðið til þess að vatn safnaðist þar fyrir. Það er mjög sérkennilegt að sjá það með eigin augum hvernig hraunið hefur runnið þannig að dalurinn hefur lokast og vatnið myndast. Ekki er fiskur í Spákonuvatni.

Grænavatn

Grænavatn

Grænavatn.

Vegurinn sem liggur frá Trölladyngju að Grænavatni er aðeins fyrir jeppa því hann er erfiður yfirferðar. Grænavatn er í dalverpi sunnan við Trölladyngju. Það er frekar grunnt og lítið vatn en þó er einhver veiði í því. Umhverfið er allsérstætt og fallegt vegna þess hversu stórgrýttar hlíðarnar eru.

Djúpavatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Djúpavatn er sprengigígur sem hefur fyllst af vatni. Við Djúpavatn er skáli sem hægt er að gista í ef veiðileyfi er keypt. Þó nokkur veiði er í vatninu og hafa þar veiðst ágætlega vænir silungar. Það er því alveg þess virði að kaupa veiðileyfi í vatnið og fara með fjölskylduna og reyna að krækja í þann stóra. Ekki er síðra að dorga á veturna þegar ís er á vatninu. Vatnið er mjög djúpt og af því er nafnið dregið.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vigdísarvellir er dálítil grasslétta austan undir Núpshlíðarhálsi. Þar er oftast skjól af fjöllunum í nágrenninu. Á Vigdísarvöllum var byggður bær árið 1830 og búið þar fram til ársins 1905 en þá hrundu húsin í jarðskjálfta.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Bæjarrústirnar eru þó nokkuð stórar og þar sést einnig móta fyrir gömlum garði sem hefur verið hlaðinn til að halda skepnunum á sínum stað.
Það er athyglisvert að nokkur hafi lagt það á sig að búa svona langt frá byggð því að lífið hefur sjálfsagt verið erfitt þama eins og annarsstaðar á landinu á þessum tíma. Þó svo að þetta svæði sé langt upp í fjöllum þá er þar ótrúlega mikill gróður á þessu svæði og því er það kannski ástæðan fyrir því að menn vildu búa þarna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Hentugasta leiðin að Krísuvfkurbergi frá Vigdísarvöllum liggur meðfram Núpshlíðarhálsi. Þaðan er beygl til austurs eftir þjóðveginum og síðan er beygt til sjávar eftir auðsjáanlegum slóða. Krýsuvíkurberg er mesta fuglabjargið á svæðinu. Það er um 7 km langt og 40 – 50 metra hátt.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Áhugavert er að ganga um svæðið, einkum á vorin og snemma sumars þegar fuglalífið er áberandi mest. Hverjum manni væri það gagnlegt að sjá fuglana í sínu náttúrulega umhveifi og geta virt þá fyrir sér í ungauppeldinu og baráttunni við náttúrulega óvini. Tveir lækir falla til sjávar fram af berginu, Eystrilækur og Vesturlækur. Eystrilækur myndar háan foss sem steypist fram af berginu. Í berginu verpa um 57 þúsund sjófuglapör en það er um 65% allra bjargfugla á svæðinu.

Eldborgir

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Eftir að Krýsuvíkurberg hefur verið skoðað liggur leiðin að Eldborgum. Eldborgir eru undir Geitahlíð austan Krýsuvíkur. Þær eru tvær og heita Stóra og Litla Eldborg. Þjóðvegurinn liggur á milli þeirra.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Stóra Eldborg er einn allra fallegasti gígur á Suðvesturlandi, um 50 metra hár, hlaðinn úr hraunskánum og gjalli. Frá Stóru Eldborg liggur hrauntröð þar sem hraunið hefur runnið til sjávar. Vesturlækur fellur til sjávar í Hælsvík og myndar einnig fallegan foss.
Gróðureyðing fyrir ofan Krýsuvíkurberg er óvíða ljótari á Skaganum. Þar skiptast á blásnir melar og rofabörð.
Gróðurfar á þessu svæði er mjög slæmt vegna ofbeitar. Litla Eldborg er austar en hin og öllu fyrirferðanninni, Hún er hluti af stuttri gígaröð eins og Stóra Eldborg. Hraunið frá Litlu Eldborg hefur lagst yfir hraunið frá Stóru Eldborg að hluta og er gaman að virða þetta fyrir sér á góðvirðisdegi. Jarðvegur á þessu svæði er frekar rýr og er mosaþemba aðal gróðurinn á svæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Hverasvæðin á Krísuvíkursvæðinu eru mjög fallegur ferðamannastaður en því miður eru það fáir sem leggja leið sína um svæðið en þangað er fólksbílafært og ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu. Krísuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufuhverum og leirhverum. Á svæðinu eru tvö gígvötn, Grænavatn og Geststaðavatn, sitt hvoru megin við veginn. Vötnin eru merkileg fyrir þær sakir að þau eru gamlar eldstöðvar sem hafa fyllst af vatni í tímans rás. Grænavatn hefur mjög sérkennilegan lit vegna þess hversu mikill þörungagróður er í vatninu.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Fyrir þá sem þora er gaman að fara í hellaskoðun. Þægilegasta leiðin að hellinum er frá þjóðvegi 42 sem er vegurinn sem við förum á leið okkar austur með Kleifarvatni og þarf að ganga síðasta spölinn að hellinum. Gullbringuhellir er eini hellirinn sem er þekktur í hrauninu við Kleifarvatn. Hann er norðaustan við fjallið Gullbringu. Hellirinn er um 170 metra langur en frá opinu liggur hann í tvær áttir. Mjög athyglisvert er að skoða hellinn því að í honum eru hraunstrá og þar er vítt til veggja og hátt til lofts og því þægilegt að ferðast um hann. Þessi hellir er aðgengilegur og því ætti fólk á öllum aldri að geta skoðað hann.

Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt dýpsta stöðuvatnið á Íslandi um 97 metrar að dýpt. Það er á miðjum skaganum inn í Reykjanesfólkvangi. Kleifarvatn hefur írennsli en ekkert sýnilegt frárennsli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Vatnsmagnið í Kleifarvatni er breytilegt og breytist mest vegna úrkomu. Jarðhiti er syðst í vatninu og er stundum hægt að sjá hverina ofan af Vatnshlíð. Þeir eru öðruvísi á litinn og skera sig því út úr. Á veturna sér maður vakir vegna hitamismunar en annars staðar er vatnið ísi lagt. Silungsveiði er talsverð í vatninu og er gaman að fara með fjölskylduna að veiða í Kleifarvatni vegna þess hversu stutt er að fara úr amstri hófuðborgarinnar og einnig vegna þess að svæðið er öðruvísi en menn eiga að venjast. Það má kannski geta þess að einn af síðustu stórbændunum í Krýsuvík tók silung úr Elliðavatni og flutti yfir í Kleifarvatn svo að hann á heiðurinn af því að þarna er hægt að veiða silung. Við vatnið er fallegt útsýni en þar er mikið af sérkennilegum klettamyndunum.

Hellirinn eini

Maístjarnan

Í Hellinum eina.

Eftir að hafa skoðað Kleifarvatn höldum við áfram eftir þjóðveginum og stoppum hjá Fjallinu eina. Í næsta nágrenni við það eru tveir hellar, annar þeirra heitir Hellirinn eini og hinn heitir Híðið. Hellirinn eini er um 170 metra langur, hann er víða lágur til lofts en víðast hvar er hann þó manngengur. Það eru dropasteinar og hraunstrá í hellinum. Miklar sprungur skerast þvert á hellinn og mynda litla afhella. Jarðfræðilega séð telst þessi hraunrásarhellir merkilegur fyrir það að hann er skorinn af þessum mörgu og stóru sprungum. Mikil litadýrð er í hellinum sem gerir hann áhugaverðari fyrir vikið.

Híðið

Híðið

Í Híðinu.

Híðið er um 500 metra frá Hellinum eina og því getur verið gaman fyrir þá allra hörðustu að skoða hann líka. Híðið er um 155 metra langur hellir og þröngur, hæstur er hellirinn um 2 metrar að hæð en víðast hvar töluvert minni. Erfitt er að fara um hellinn því sums staðar þarf að leggjast niður og skríða. Mikið er um fallega dropasteina og hraunstrá í hellinum, dropasteinarnir eru nokkur hundruð og hraunstráin talsvert fleiri. Híðið er alveg ósnortið vegna þess að hingað til hafa aðallega hellaáhugamenn farið þangað. En það vill oft fara þannig að vinsælir ferðamannastaðir fara illa út úr mikilli umferð ferðafólks sem því miður gengur oft ekki nógu vel um fallega og athyglisverða staði.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fornar leiðir.

Þetta er síðasti viðkomustaður okkar á þessu skemmtilega ferðalagi um Reykjanesfólkvang og héðan er ekki löng keyrsla upp á Reykjanesbrautina aftur en þaðan ættu allir að rata heim til sín á ný. Þessi upptalning er ekki tæmandi fyrir allt það sem hægt er að skoða á svæðinu en við vonum að við lestur þessarar ritgerðar geti lesandi gert sér það ljóst að á heimaslóðunum leynist ýmislegt skoðunarvert í náttúrunni.
Sá misskilningur virðist vera allsráðandi að það þurfi að aka mörg hundruð kílómetra út fyrir höfuðborgina til að komast í spennandi landslag og fallega náttúru. Þetta svæði hefur upp á allt að bjóða sem íslensk náttúra getur á annað borð boðið upp á. Ef fólk gefur sér tíma til að skoða sitt nánasta umhverfi verður það alveg örugglega hissa á því að sjá hversu margt er í boði. Þarna má sjá bæði spillta og óspillta náttúru, gróðumikil svæði og auðnir, háhitasvæði, fuglavarp, hraunhella og vötn. Til þess að skoða svæðið þarf að vera með opinn huga því að mörgum finnst það í rauninni ekki vera neitt ferðalag að fara svona stutt frá heimahögunum. En eins og áður sagði vill það gerast með Íslendinga að þeir leiti langt yfir skammt.
Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verður það þannig að landinn taki við sér og sjái alla fegurðina sem er við bæjardyr höfuðborgarbúa. Kannski verður það þannig að innan fárra ára verði Reykjanesið eitt mest sótta ferðamannasvæði landsins.”

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 1998, Áhugaverðir staðir í Reykjanesfólkvangi, bls. 28-30.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Gvendarsel

Í “Byggðasögu Grafnings og Grímsness” eftir Sigurð Kristinn Hermundarson segir m.a. eftirfarandi um Guðmund Bjarnason, svonefndan Krýsuvíkur-Guðmund:

Gljúfur

Gljúfur

“Guðmundur hét maður Bjarnason, er bjó á Gljúfri í Ölfusi, en var síðar nefndur Krýsuvíkur-Guðmundur  (Krýsuvíkur-Gvendur). Hann var bæði stór vexti og sterkur, hagur til smíða og starfsmaður mikill. Gæfur var hann í byggðalagi, óáleitinn við aðra menn og kom sér í hvívetna vel við alla. Hann var fremur fátækur og var eins og margir aðrir, að hann þurfti að hafa sig allan við að vinna fyrir sér og hyski sínu.

Blóðberg

Blóðberg á fjalli.

Þá var títt, að menn fóru til afrétta að afla sér fjallagrasa, færu á grasafjall, sem kallað var. Voru það helst skæðagrös, sem sóst var eftir, eða þá klóungur; hann var smávaxnari og þótti ekki eins góð vara, en var þó notaður til grautargerðar og annars fleira.
Sumar það, sem nú var sagt frá, nálægt sláttulokum, fór Guðmundur að heiman í grasaferð og unglingspiltur með honum. Þeir voru báðir ríðandi og höfðu auk þess einn hest með reiðingi, er þeir ætluðu að bera klyfjar á. Fylgdarmaður Guðmundar var lítilsigldur og veikbyggður, einfaldur og áræðalítill, en trúr og vinnuþarfur húsbónda sínum í öllu, sem hann mátti við koma. En til harðræðna var hann ekki vel fallinn.

Hverahlíð

Hverahlíð.

Þeir Guðmundur riðu nú að heiman snemma morguns, og var veður hið besta. Fara þeir sem leið liggur og ætla vestur í Hverahlíð. En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsaslyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít. Fylgdarmaður Guðmundar vildi þá snúa aftur, sagði, að ferða þeirra myndi ekki verða til neins gagns, ef þannig færi að veðri. Guðmundur kvað veður ef til vill batna, þegar fram á daginn kæmi, og héldu þeir því áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerði þá sólskin og logn og hið besta veður.
Í framhaldinu sagði frá viðureign Guðmundar og Fjalla-Margrétar, útilegukerlingar í Henglinum, þegar hún ásældist nestið hans, sem endaði með því að Guðmundur beit í sundur á henni barkann. Bein Margrétar fann Sogns-Gísli síðar umorpið grjóti í Svínahrauni – að talið er.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Guðmundur Bjarnason var ættaður af Fellsströnd í Dalasýslu og fæddur þar um 1765. Á yngri árum sínum var hann um eitthvert skeið í Helgafellssveit, því að þar gerðist saga sú, er hér fer á eftir, er sýnir að snemma var Guðmundur kjarkmikill og áræðinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir Lækjar. Arnarfell fjær.

Þar í sveitinni hafðist við grimmur útileguköttur, sem reif sig inn í hús og hjalla og skemmdi og sleit það, sem hann náði til. Vildu menn gjarna losna við ávætti þessa, en fáir treystust til þess að ganga í berhögg við köttinn, svo grimmur og villtur sem hann var orðinn. Einu sinni var þess vart, að hann hafðist við í fjjárhúsi einu. Fóru einhverjir þá til og lokuðu dyrunum og byrgðu glugga alla vandlega, en enginn þorði að fara inn til högnans. Guðmundur lét þá sauma margfalda ullarflóka um höfuð sér og fór í þykk og sterk föt. Hann tók sér í hönd smíðatöng eina mikla og réðst síðan inn í húsið. Högninn sat þá innst í húsinu fyrir miðju gaflhlaði og horfði til dyra.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

En jafnskjótt og Guðmundur kom inn úr dyrunum, hljóp kötturinn í einu bogakasti og upp á höfuð Guðmundar og læsti að honum með klóm og kjafti af mikilli grimmd. Guðmundur tók þá til smíðatangarinnar og brá munna hennar um háls högnans og lagði fast að. Varð það hans bani. Svo hafði Guðmundur sagt frá síðar, að hann fynndi til klónna á kettinum í gegnum alla ullarflókanna, sem voru þó vel þykkir.

Ekki er nú kunnugt, hvenær Guðmundur fluttist suður á land, en á Gljúfri í Ölfusi býr hann á árabilinu 1805-1815 og þó sennilega ekki allt það tímabil. Á þeim árum varð viðureign hans við Margréti, sem fyrr er sagt frá. Árið 1816 býr hann á Miðfelli í Þingvallasveit, en farinn er hann þaðan 1820. Mun hann þá hafa flust að Ási fyrir sunnan Hafnarfjörð, en þar bjó hann í fáein ár.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Um það, sem Guðmundur hafðist að, er hann fór frá Ási, er til glögg og gagnorð frásögn síra Jóns Westmann prest í Selvogsþingum, og er hún á þessa leið: “Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan helli [Gvendarhelli í Klofningi í Krýsuvíkurhrauni, sbr. þjóðsöguna], en þar eð honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi af- og alþiljuðu með tveim rúmum, í hinum karminum geymsluhús.

Gvendarhellir

Hústóft framan við Gvendarhelli.

Byggði hann hús þetta framan við hellisdyrnar og rak féð gegnum göngin út úr og inn í hellinn, hlóð að honum þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum, gaf þeim þar, þá henta þótti, bjó til étur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellisins, gaf þar fullorðna fénu í innistöðum, sem verið mun hafa allt að tveimur hundruðum eftir ágiskun manna, flutti þangað talsvert hey og smiðju sína og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp yfir sjötugt og sagðist hafa verið smali, síðan hann hafði 6 ár að baki.”

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Eftir dvöl sína í Krýsuvíkurhverfi fluttist Guðmundur inn á Hraunabæi í Garðasókn, en eftir það var hann venjulega kallaður Krýsuvíkur-Guðmundur, og undir því nafni hefur hann gengið síðan. Á elliárum sínum var hann einhvern tíma í Straumi eða Straumsseli. Var hann þá orðinn allhrumur og staulaðist á milli bæja sér til skemmtunar, þegar gott var veður. Hafði hann jafnan prik í hendi og fór mjög hægt. Mannýg kýr, hvít að lit, var þar á næsta bæ. Lagði hún stundum í fullorðna menn og þótti allhvimleið. Einu sinni, þegar Guðmundur fór næja á milli, kom hvíta kýrin að honum að óvörum. Velti hún honum brátt um, og fékk hann ekki rönd við reist, náði þó taki á eyra hennar og gat rekið prik sitt upp í aðra nös kýrinnar. Hljóp hún á burt, en Guðmundur skreið heim. Um kvöldið fannst kýrin með prikið í nösinni. Eftir það fara engar sögur af Guðmundi. Síðast átti hann heima í Lambhaga í Hraunum, og þar dó hann 3. maí 1948, kominn á níræðisaldur.

Tjörvagerði

Tjörvagerði við Straum.

Tvo sonu átti Guðmundur Bjarnason, er ég heyrði nefnda, og hét hvortveggi Guðmundur. Var annar faðir Guðmundar Tjörva, sem margir kannast við, en hinn átti þrjá sonu; Halldór bónda í Mjósundi í Flóa, er var á lífi fram yfir 1880, og Ólafa tvo. Ólafur eldri bjó á Gamlahliði á Álftanesi. Hann var skurðhagur og skar meðal annars út mörg nafnspjöld á skip fyrir ýmsa menn, og þótti prýðisvel gert. Hann skar t.d. nafnspjald á teinæringinn á Hliði, sem fórst veturinn 1884. Hann hét “Sigurvaldi”. Það skip var aðeins tveggja ára gamalt, og var eigandi þess Þórður Þórðarson á Hliði, sjálfur formaður á því, er það fórst. Ólafur yngri var húsmaður á Hliði. Síðustu ár ævi sinnar var hann húsmaður í Haukshúsum, og þar andaðist hann, að mig minnir 1883. Þóra hét koma hans. Hún var dóttir Einars skans; var hann svo nefndur að því að hann bjó í Bessastaðaskansi. Þau Ólafur og Þóra áttu fjögur börn og voru mjög fátæk.
Ólafur þessi yngri sagði mér söguna um Helgafellsköttinn og hvítu kúna í Straumi. Hann sagði mér líka söguna um viðureign Guðmundar, afa síns, við Margréti.”

(Byggt á handriti Þórðar Sigurðssonar á Tannastöðum – Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur III, 1942)

Í Blöndu, 6. bindi 1936-1939, er fjallað um nefndan Krýsuvíkur-Guðmund. Frásögnunum ber að vísu ekki að öllu leyti saman:

Búrfellsgjá

Athvarf Guðmundar í Búrfellsgjá. Hústóft fremst.

Krýsuvíkur Guðmundur – eftir Friðrik Bjarnason, kennara.
“Guðmundur hét maður og var Bjarnason, ættaður úr Breiðafirði. Hann felldi ástarhug til stúlku einnar, er hann fékk ekki að eiga, og fór þá suður á land og létti eigi fyrri en suður kom í Gullbringusýslu, en þar hafðist hann við alla æfi upp frá því á ýmsum stöðum, lengst af í Krýsuvíkursókn.
Ekki er víst, hvenær Guðmundur kom fyrst suður, en í Krýsuvíkursókn mun hann hafa komið árið 1827. Þar byggði hann nýbýlið Læk frá stofni. Einnig bjó hann í Garðshorni nokkur ár. Á vetrum gætti hann fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju, og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og hakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. (Um Guðmund sbr. einnig Lýsingu Selvogsþinga 1840 eftir síra Jón Vestmann (Landnám Ingólfs III, 99—100).

Gvendarhellir

Gvendarhellir og húsið framan við hellisopið.

Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir, að aldrei brugðust.
Eitt sinn, er Guðmundur var í hellinum, kom til hans maður, a nafni Einar og var Sæmundsson, úr Biskupstungum, sem var að fara í verið til Grindavíkur. Guðmundur tók vel á móti Einari og veitti honum hangikjöt og brennivín. Einari leizt vel á fénaðinn og þótti vel um gengið í skemmu hans og helli. — Um þessar mundir flutti Einar að Stóra-Nýjabæ við Krýsuvík, og voru þeir Guðmundur því nágrannar lengi síðan.
Þegar Guðmundur bjó í Garðshorni, færði hann frá ám sínum á vori hverju og flutti lömbin eftir fráfærur inn í Lambatanga við Kleifarvatn. Eitt sinn eftir fráfærurnar sluppu ærnar í þoku og komust inn undir Lambatanga, þar sem lömbin voru. Þau heyrðu þá jarminn í ánum og fóru öll, öll að tölu, út í vatnið og drápust þar öll og rak þau síðan upp úr vatninu. Guðmundur reiddi lambskrokkana heim í Garðshorn, rak í þau fótinn, þar sem þau lagu á túninu og sagði: „Þar fóru þið að fara hægara, nú ræð ég við ykkur.”

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Það er enn sagt af Guðmundi, þegar hann bjó í Garðshorni, að hann batt ullina, óþvegna, í bagga og flutti hana þannig til kaupstaðar.
Úr Krýsuvíkurhverfi mun Guðmundur hafa farið inn í Garðahrepp, líklega að Setbergi, því öllum ber saman um það, að hann hafi haldizt við í Gjáarrétt með fé sitt, og sér enn merki þess. Einnig var hann um tíma með féð uppi í Bakhlíðum, og sér þar votta fyrir byrgi, sem við hann er kennt, Gvendarbyrgi. Og enn er þess að geta, að Guðmundur var um stundarsakir í Straumsseli í Hraunum, þá líklega búlaus. Þaðan seldi hann sauði sína í Bessastaðaskóla.
Guðmundur Bjarnason var talinn sérkennilegur í mörgu: einrænn og dulur í skapi, en kjarkmaður og einbeittur, skýr í hugsun og þrekmikill, og sumir töldu hann fjölkunnugan.
Hér kemur að lokum saga, sem sög er af Guðmundi. Kona nokkur [Fjalla-Margrét] hélzt við í Ólafsskarði og á Svínahraunsvegi og stundum í Jósefsdal; þar sást bæli hennar til skamms tíma, segja sumir. Hún; var mannskæð og réðst á ferðamenn, er um veginn fóru og rænti þá, því er þeir höfðu meferðis. Þessu framferði kunnu menn illa, og af því að nauðsyn þótti til að ráða hana af dögum, en enginn vildi reyna, var Guðmundur Bjarnason fenginn og fór hann við annan mann upp að Ólafsskarði. En er þangað kom, legst Guðmundur í leyni, en lætur fylgdarmanninn halda áfram eftir veginum, þar sem illkvendið var vant að hafast við. Að litlum tíma liðnum kom kerling, ræðst á manninn, en þá kom Guðmundur honum til hjálpar, vegur að henni, og varð þa hennar bani. Aðrir segja, að Guðmundur hafi ekki drepið flagðkonuna, en í þess stað afhent hana yfirvöldunum.”

Sjá meira um Blöndufrásögnina HÉR.

Heimildir:
-Grafningur og Grímsnes – Byggðasaga, Sigurður Kristinn Hermundarson, 2014, bls. 38-39.
-Blanda, Krýsuvíkur-Guðmundur, Friðrik Bjarnason, 6. bindi 1936-1939, bls. 187-189.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

 

Krýsuvíkurkirkja

Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrrum – tilgáta.

Er hún því samkvæmt heimildum ein elsta bændakirkja landsins, en bændakirkja er kirkja, sem taldist eign bónda, þ.e. bóndi eða einhver einstaklingur átti a.m.k. helming jarðarinnar, sem kirkjan stóð á, og fékk tekjur kirkjunnar, en annaðist viðhald hennar og rekstur. Hann var jafnframt eigandi jarða kirkjunnar og fasteignaréttinda hennar og bar ábyrgð á þeim og mátti ekki selja undan henni, en gat selt allar eignirnar í einu lagi og fylgdi kaupahluti jarðarinnar og ábyrgð á kirkjunni kaupinu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810.

Áður höfðu þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason komu til Íslands frá Noregi árið 1000 að boða kristna trú höfðu þeir með sér efnivið og fyrirmæli frá Ólafi konungi Tryggvasyni um að reisa skyldi kirkju á fyrsta stað sem að þeir „skytu bryggjum á land“, en í Kristnisögu kemur fram að þeir hafi haft viðkomu í Dyrhólaey á leið sinni. Kirkjan var reist á Hörgaeyri í Vestmannaeyjum, þar sem voru hörgar ( hörgur er heiðið blóthús eða blótstallur ), voru þar blót stunduð áður. Kirkjan var svonefnd stafkirkja, og var tileinkuð heilögum Klementi, verndardýrlingi sæfara og sjósóknara. Hörgaeyri er sandbanki sunnan í Heimakletti í Vestmannaeyjum sem stendur út frá Stóru-löngu.

Krýsuvík

Útlit Krýsurvíkurkirkja árið 1810 fyrir endurbyggingu árið 1857.

Fyrir Kristintökuna árið 1000, hafði Þorvarður Spak-Böðvarsson sem bjó á Ási í Hjaltadal seint á 10. öld gerðst kristinn, og reisti kirkju á bæ sínum sextán árum fyrir kristnitöku, eða árið 984 (983 ef miðað er við kristnitöku árið 999), þá er Þorvaldur Koðránsson frá Giljá og Friðrekur biskup komu “til Íslands er landið hafði verið byggt tíu tigu vetra og sjö vetur” þ.e. 981.
Þeir félagar voru fyrsta veturinn í Húnavatnsþingi en héldu síðan til Skagafjarðar.
Kristni saga greinir frá því að Þorvarður Spak-Böðvarsson hafi reist guðshúsið árið 984. “En kirkja sú var ger sextán vetrum áðr kristni var í lög tekin á Íslandi…”. Í Þorvaldar þætti er þess getið að þremur vetrum eftir útkomu þeirra hafi Þorvarður Spak-Böðvarsson byggt kirkju sína í Ási og kann það að hafa verið fyrsta kirkja sem reist var á Íslandi.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann 1151. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275, þá var kirkjan helguð Maríu mey.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kirkjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirkja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.

Málverkið hér að ofan sýnir nýja bæjarstæði Krýsurvíkurbæjarins 1801 við rætur Bæjarfells, sett inn í umhverfið eins og það er í dag. Krýsurvíkurbærinn var fluttur ofar í landið við rætur Bæjarfells norðvestur af Arnarfelli, eftir eldgosið 1151, þegar Ögmundarhraun rann, var hann reistur á svokölluðum Bæjarhól undir Bæjarfelli, má sjá fjallgarðinn vestan Kleifavatns t.d Sveifluháls og Miðdegishnjúk. Talið er að fyrstu kirkju landsins sé að finna í Húshólma þar sem Gamla-Krýsuvík var. Það mun hafa verið fyrir landnám norrænna manna.

Krýsuvík

Krýsuvík undir Bæjarfelli – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið við rætur Bæjafells norðvestur af Arnarfelli , og síðar var Krýsuvíkurkirkja formlega aflögð með bréfi 27. sept. 1563, þar sem Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, leggur niður sóknarkirkju í Krýsuvík 1563, en síðan er hún endurbyggð árið 1857 af Beinteini Stefánssyni smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar og hún friðuð, en þá hafði hún verið í mjög lélegu ástandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrir brunann.

Krýsurvíkurkirkja var reist úr rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið. Var Krýsurvíkurkirkja þá útkirkja frá Selvogi, og voru um 70 manns í sókninni, síðar var kirkjan aftur gerð upp og endurbyggð 1964, en það var svo hin 31. maí 1964 að Krýsuvíkurkirkja er vígð af biskupi landsins, en hann hefst síðan aftur 1986 við endurbyggingu Krýsurvíkurkirkju, þar sem hún er færð sem næst í upprunalegt horf.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-1870, Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Krýsuvíkurkirkja var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929. Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju teiknað árið 1810.

Hin 31. maí 1964 var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins eftir að hafa verið gerð upp og endurbyggð, viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.

Mynd sýnir útlit Krýsurvíkurkirkju fyrir brunan, en hún brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, ásamt Altaristöflu kirkjunar sem var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara; „himingulur bogi upprisunnar“, er talið að bruninn í Krýsuvíkurkirkju hafi verið óviljaverk, mögulega hafi gestur skilið eftir logandi kerti í kirkjunni. Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju tvisvar á ári. Kirkjan var í Hafnarfjarðarprestakalli.

Nýsmíðuð Krýsuvíkurkirkja var komin á grunn 10 október 2020. Helgistund undir handleiðslu séra Gunnþórs Þ. Ingasonar fór fram eftir að hún hafði verið hífð á grunn gömlu kirkjunnar, en formleg vígsla fer fram síða af biskupi Ísland.

Eins og flestum er kunnugt brann Krýsuvíkurkirkja til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010. Syndaraflausn Héraðsdóms Reykjavíkur fólst í að dæmda rúmlega tvítugan mann í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að leggja eld að kirkjunni og brenna hana til grunna.

Krýsuvíkurkirkja

Altari Krýsurvíkurkirkju sem brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010. Málverkið er eftir Svein Björnsson listmálara; himingulur bogi upprisunnar.

Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2011 – nýsmíði.

Ný kirkja var smíðuð af nemendum og kennurum Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, og lauk smíði hennar í sumar.
Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð. Hafnarfjarðarkirkja mun þá eiga og reka hana eftir það en Vinafélag Krýsuvíkurkirkju verður þá lagt niður.

Hafnarfjarðarkaupstaður gaf Krýsuvíkurkirkju 7.097 m² lóð.
Nú er kirkjan komin til Krýsuvíkur og verður hífð á sinn stað í Krýsuvík, við rætur Bæjarfells á morgun. Síðar verður hún vígð og afhent Hafnarfjarðarkirkjumun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja eftir brunann. Legsteinn Árna Gíslasonar, sýslumanns.

Ögmundarhraun stendur milli Latsfjalls og Krýsurvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsurvíkurberg er hraunbreiða á Reykjanesskaga sem rann árið 1151, sem komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, eða Krýsurvíkureldum og á upptök sín í norðurhluta gígaraða austan í Núpshlíðarhálsi.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – hraunakort.

Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gos virknin að mestu en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit. Eldgos í kerfinu verða að líkindum með svipuðum hætti og gerðist í Í Húshólma eru varðveittar húsarústir, og er talið að þar hafi Krýsuvík hin forna staðið. Í Kirkjulágum, smáhólmum í hrauninu skammt vestan við Húshólma eru húsarústir og er ein þeirra talin vera af kirkju og nafnið dregið af því, en samkvæmt munnmælasögum stóð Krýsurvíkurkirkja í kirkjulág og stóð löngu eftir að hraunflóð eyddi bænum. Leifar kirkjunnar sjást enn.

Kröflueldar, þ.e. í umbrotahrinum sem einkennast af gliðnun lands og kvikuhlaupum, oft jafnhliða eldgosum, en síðan verða hlé á milli.
Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum. Bóndi vildi ei gipta dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja.
Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann honum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.

Sjá meira HÉR.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 2022.

 

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Jón Valgeir Guðmundsson

Í Degi, Íslendingaþáttum, árið 1998 er fjallað um “Samgöngur hið forna“,  og er þar sérstaklega getið Ögmundarhrauns.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

“Forn gata um Ögmundarhraun. Þarna voru miklar samgöngur fyrr á öldum og hafa skeifur hestanna klappað götu í hraunhelluna.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni, frá Grindavík til Skálholtsstaðar.

Fyrr á öldum voru miklar samgöngur milli Suðurlandsins og verstöðvanna á Suðurnesjum. Þar voru vermenn á ferð og eins þurfti að koma varningi milli landshlutanna.
Sveitamenn að austan seldu sínar afurðir íbúum lítt búsældarlegra Útnesja og keyptu í staðinn skreið og annað sjávarfang. En erfiðir farartálmar voru á leiðinni, bæði á sunnanverðu nesinu og eins að norðanverðu, þar sem úfin hraun bönnuðu allar hestaferðir milli Útnesja og Innnesja. Örnefni eins og Hvassahraun vísa til landslagsins milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar.

Ögmundarhraun

Hraun á Reykjanesskaga.

Hraunin neðan Krýsuvíkur voru ekki síður torfarin, þannig að leiðirnar út á Reykjanes voru nánast lokaðar og alls ekki hestfærar og troðningar tæpast bjóðandi skólítilli þjóð. Hraunin á Reykjanesi eru bæði gömul og ný. Talið er að Kapelluhraun, þar sem álverið stendur, og Ogmundarhraun vestan Krýsuvíkur, hafi runnið úr miklu gosi skömmu eftir árið 1000. Undir þeim eru önnur og eldri hraun.
Um Ögmundarhraun liggur gömul gata, sem á sér svipaðan uppruna og vegurinn um Berserkjahraun vestra, og glöggt er sagt frá í Eyrbyggju hvernig sú samgöngubót var framkvæmd, og frægt er orðið fyrir löngu.
Í sóknarlýsingu séra Jóns Vestmanns í Vogsósum er sagt frá hverjir stóðu að vegaframkvæmdunum við Krýsuvík forðum daga, en vert er að gefa því gaum, að þar starfaði leysingi að, en þrælahald lagðist af á Íslandi á 11. öld. Er því vegurinn yfir hraunið þarna orðinn ærið gamall.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur í dag.

En hér fer á eftir lýsingin á vegagerðinni: Áður en það var rutt, varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni, þegar fara þurfti til Njarðvíkur eða Keflavíkur. Bóndinn í Njarðvík, að nafni Gissur, átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröftum.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Bóndi vildi ei gifta dóttur sína fúlmenni þessu, en treystist ei til að stand á móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlku þessari, ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja. Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega, en lagðist til svefns að loknu verkinu, austan við hraunbrúnina, en bóndi lá í leyni í hraungjótu, Ætlaði hann hinum stundir að sofna vært og drap hann sofandi. Þar er dys hans, sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.

Húshólmi

Húshólmi – gamla Krýsuvík – minjar í Ögmundarhrauni (rann 1151).

Í Dagblaðinu 1982 er spurt hversu gamalt Ögmundarhraunið sé? Þar segir m.a.: “Jón [Jónsson] hefur prófað lífrænar leifar í hrauninu með geislakolsaðferð og fær úr ártalið 1040. Staðfestir það niðurstöðu sem Þorleifur Einarsson jarðfræðingur hafði áður komizt að, en vildi láta prófa betur.
Sveinbjörn [Rafnsson] kannar hins vegar gömul skjöl með afar læsilegri röksemdafærslu færir hann líkur að því að Ögmundarhraun hafi runnið rétt fyrir 1563 og eyðilagt Krýsuvíkurkirkju. Má því segja að þarna skakki 500 árum á niðurstöðum raunvísinda og hugvísinda.

Geislakolsprófanir og kvennafarssögur

Sveinbörn Rafnsson

Sveinbjörn Rafnsson.

Listaskáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson liggur þarna mitt á milli því hann stakk upp á árinu 1340 eða þá 1390.
Þeir sem efast um að jarðfræðingarnir hafi rétt fyrir sér benda á að geislakolsprófanir gefa oft hærri aldur á Íslandi en annars staðar. Hafa menn gizkað á eldgos eða jafnvel sólblettir valdi vissum ruglingi í kolefninu. En þessi skekkja á þó ekki að vera meira en 100 ár og Jón er búinn að draga frá fyrir henni þegar hann velur ártalið 1040.
Þeir sem gagnrýna niðurstöðu Sveinbjörns segja hins vegar að ótrúlegt sé að eldgos hafi orðið á Reykjanesi um 1560, því á það er hvergi minnzt í ritum. Verður Sveinbjörn því að treysta á að viðkomandi heimildir hafi eyðzt, brunnið eða farizt í hafi, ef ekki endað í harðindum.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Hann byggir allmikið á því að Krýsuvíkurkirkja er formlega aflögð 1563 og skömmu seinna kemst undarleg saga á kreik. Sumsé að Skálholtsbiskup hafi lagt kirkjuna niður til að hefna sín á manni sem þar átti hagsmuna að gæta og vildi ekki gefa dóttur sína vildarmanni biskups. Þykir Sveinbirni sú skýring vafasöm. Raunar tilfærir hann í grein sinni aðra kvennamálasögu sem tengist hrauninu. Samkvæmt henni hafði Ögmundur nokkur lagt veg um þetta illfæra náttúrufyrirbrigði. Átti hann að fá bóndadóttur að launum, en faðir hennar sá sig um hönd og myrti Ögmund áður en af brúðkaupinu yrði. Þannig fékk hraunið nafn sitt. Telur Sveinbjörn þetta þjóðsögu og ekki ýkja gamla.”

JJón Valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Jón Valgeir Guðmundsson fæddist á Ísólfsskála í Grindavík, 4. júní 1921 og er því að verða 98 ára gamall. Sama dag bar kind lambi sem lifði í 14 ár. Jóni var gefið þetta lamb og sagði hann lambið hafa verið mikla happaskepnu. Það var grátt að lit og mjög eftirsótt var að fá gráa ull. Hann seldi móðursystur sinni reyfið og fékk tvær krónur fyrir það. Rétt eftir að Jón var fermdur drapst þó þessi happaskepna. Afi hans og amma létust með aðeins dags millibili, þann 19. og 20. apríl 1921. Hann hét Jón og hún Valgerður og því fékk hann nafnið Jón Valgeir. Jón átti 11 systkini, 5 hálf- og 6 alsystkin. Á langri ævi hefur Jón komið víða við, unnið vegavinnu, verið lengi á sjó og svo vann hann við að keyra vörubíl fyrir útgerðina í Þórkötlustaðahverfinu.

Byrjaði 12 ára í vegavinnu milli Ísólfsskála og Krísuvíkur

Jón valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Þegar Jón rifjar upp það sem á daga hans hefur drifið segir hann æsku sína hafa verið yndislega, „hún var mjög góð, ég fór snemma að vinna. Ég komst í vegavinnu hjá Einari Ben en hann var að gera veg frá Ísólfsskála upp að Krýsuvík. Hann átti bæði Krýsuvíkina og Herdísarvíkina. Ég fékk vinnu í gegnum föðurbróður minn sem kom að verkinu. Ég var þar um vorið 1933, þá var ég 12 ára. Ég var síðan sendur upp í skála til að elda fyrir mennina sem voru að vinna að veginum. Þetta gekk mjög vel, ég gat matreitt allt; kartöflur, rófur, kjöt eða fisk, matargerðin var einföld. Ég fékk 100 krónur fyrir sumarið,“ segir Jón.

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLi á Selatöngum 2004.

„Fjórtán ára fór ég á vertíð hérna í Grindavík. Ég var á trillu og fékk 150 krónur fyrir þá vertíð sem var frá febrúar fram í maí. Af því þurfti ég að borga stakk fyrir 10 krónur og stígvél fyrir 12 krónur. Ég fékk ekki nema hálfan hlut þar sem þetta var fyrsta vertíðin mín. Á næstu vertíð fékk ég 350 krónur.“

Jón fylgdi FERLIRsfélögum um Ögmundarstíg og Selatanga í maí 2004. Sjá má frásögn af ferðinni HÉR.

Út frá framangreindu má álykta að framangreind saga af meintum ágreiningi biskups og Krýsuvíkurbónda og aflögn Krýsuvíkurkirkju hafi ekki stafað af persónulegum ástæðum, heldur hagkvæmum. Lýsing Jóns Vestmanns styður það. Ögmundarhraun rann, skv. áreiðanlegustu heimildum, um 1150.

Þjóðsagan um Ögmund er að öllum líkindum yngri en vegagerðin.

Ísólfsskálii

Ísólfsskáli. Lyngfell og Festarfjall fjær.

Vegagerðin virðist hafa verið framkvæmd á 16. öld. Þjóðsagan er því líklega frá á 17. öld. Kirkjusóknin var á þeim tíma færð til Selvogssóknar, og síðar til Grindavíkursóknar, líkt og lesa má í heimildum. Slík tilfærsla sóknar var ekkert einsdæmi á þeim tilgreindu tímum, þótt ekki sé hægt að útiloka afskipti klerkaveldisins í einstökum persónulegum málum þess tíma.

Heimild:
-Dagur, Íslendingaþættir, 24.01.1998, Samgöngur hið forna, Ögmundarhraun, bls. 1.
-Dagblaðið-Vísir, 160. tbl. 17.07.1982, Hvursu gamalt er Ögmundarhraun?, bls. 15.
-https://grindavik.is/v/22455
-https://ferlir.is/isolfsskali-selatangar-med-joni-gudmundssyni/

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Jón valgeir Guðmundsson

Eftirfarandi umfjöllun um “Jón á Skála“, Jón Valgeir Guðmundsson, birtist á vefsíðu Grindavíkur árið 2020. Viðtalið við hann hafði áður birst í Járngerði.

Ég væri til í að lifa aftur allt það líf sem ég hef nú þegar lifað

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson 18 ára.

Jón á Skála, eða Jón Valgeir Guðmundsson, er elsti núlifandi Grindvíkingurinn og verður 98 ára í sumar. Ritstjóri Járngerðar hitti hann snemma í janúar og tók við hann viðtal sem við endurbirtum núna á heimasíðunni en það birtist áður í Járngerði.

Jón tekur á móti blaðamanni í notalegri íbúð í nýrri viðbyggingu við Víðihlíð rétt eftir áramótin. Jólaljósin eru enn tendruð og fallegur rauður jóladúkur þekur eldhúsborðið þar sem við fáum okkur sæti. Við byrjum á því að ræða flutninginn í Víðihlíð sem Jón er alsæll með, svo ánægður að hann hefur þegar nefnt kotið Sælustaði. Hann lýsir dvölinni í Víðihlíð sem „himnaríki á jörðu“.

Jón Valgeir fæddist á Ísólfsskála í Grindavík, 4. júní 1921 og er því að verða 98 ára gamall. Sama dag bar kind lambi sem lifði í 14 ár. Jóni var gefið þetta lamb og sagði hann lambið hafa verið mikla happaskepnu. Það var grátt að lit og mjög eftirsótt var að fá gráa ull. Hann seldi móðursystur sinni reyfið og fékk tvær krónur fyrir það. Rétt eftir að Jón var fermdur drapst þó þessi happaskepna. Afi hans og amma létust með aðeins dags millibili, þann 19. og 20. apríl 1921. Hann hét Jón og hún Valgerður og því fékk hann nafnið Jón Valgeir. Jón átti 11 systkini, 5 hálf- og 6 alsystkin. Á langri ævi hefur Jón komið víða við, unnið vegavinnu, verið lengi á sjó og svo vann hann við að keyra vörubíl fyrir útgerðina í Þórkötlustaðahverfinu.

Byrjaði 12 ára í vegavinnu milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLi á Selatöngum 2004.

Þegar Jón rifjar upp það sem á daga hans hefur drifið segir hann æsku sína hafa verið yndislega, „hún var mjög góð, ég fór snemma að vinna. Ég komst í vegavinnu hjá Einari Ben en hann var að gera veg frá Ísólfsskála upp að Krísuvík. Hann átti bæði Krýsuvíkina og Herdísarvíkina. Ég fékk vinnu í gegnum föðurbróður minn sem kom að verkinu. Ég var þar um vorið 1933, þá var ég 12 ára. Ég var síðan sendur upp í Skála til að elda fyrir mennina sem voru að vinna að veginum. Þetta gekk mjög vel, ég gat matreitt allt; kartöflur, rófur, kjöt eða fisk, matargerðin var einföld. Ég fékk 100 krónur fyrir sumarið,“ segir Jón.

„Fjórtán ára fór ég á vertíð hérna í Grindavík. Ég var á trillu og fékk 150 krónur fyrir þá vertíð sem var frá febrúar fram í maí. Af því þurfti ég að borga stakk fyrir 10 krónur og stígvél fyrir 12 krónur. Ég fékk ekki nema hálfan hlut þar sem þetta var fyrsta vertíðin mín. Á næstu vertíð fékk ég 350 krónur.“

Strandaði á síldarveiðum

Jón valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

„Árið 1938 fór ég á síld á Ægi frá Sandgerði og fékk 850 krónur fyrir sumarið, þá var róið út á árum. Við köstuðum þar á torfu við Skjálfanda.
ÆgirVið náðum að fylla Ægi og héldum í land á Siglufirði. Um nóttina, meðan við erum á siglingu, gerist það að það heyrist skruðningur, svo heyrði ég voða læti í vélinni og svo kom dauðaþögn. Það var svarta þoka, sást ekki út úr augunum, sjórinn var spegilsléttur. Við höfðum fengið í skrúfuna og báturinn strandað. Um nóttina erum við allir komnir upp á dekk. Klukkan hálf sex um morguninn var komin fjara og þá gátum við náð úr skrúfunni og svo biðum við bara eftir því að það félli að aftur. Svo líður og bíður og ekkert gerist en báturinn stóð milli tveggja kletta. Klukkan 14:00 daginn eftir losnar báturinn og í því kemur Muninn, bátur frá sömu útgerð og Ægir, sem er þá þegar búinn að landa síldinni sem hann var með og skipstjórinn kallaði: „Hvernig fórstu að því að stranda í svona góðu veðri?“ Okkur gekk í kjölfarið vel að veiða, eltum bara múkkann og fylltum báða bátana.

Dreymdi fyrir sjávarháska við Færeyjabanka

JJón Valgeir Guðmundsson

Jón Valgeir Guðmundsson.

Jón segir að lífið hafi alltaf gengið vel hjá honum, „alla tíð, það hefur alltaf verið bjart í kringum mig. Ég er berdreyminn, á sjó og landi, og mig dreymir oft fyrir vandræðum. Ég hef verið heppinn, sloppið úr háska vegna aðvarana sem ég fékk í draumi.“
MuninnJón heldur áfram að rifja upp atvik þar sem hann dreymdi fyrir sjávarháska. „Árið 1959 gerðist ég útgerðarmaður og keypti bát. Við fengum leyfi til að byggja bát í Þýskalandi. Við fórum að sækja bátinn, fórum tveir úr Grindavík, ég og Guðmundur Helgason, en nokkrir voru komnir út. Báturinn átti að leggja af stað heim þremur dögum fyrir jól. Þegar við erum að sigla Eystrasaltið þá dreymir mig að tvær konur ætli að drepa mig. Ég var hálf vankaður þegar ég vakna enda leiðinlegur draumur, svo ég segi við skipsfélaga mína að mig hafi dreymt ljótan draum í nótt og ég túlkaði drauminn á þann veg að litlu myndi muna að við færumst með skipinu. Þegar við erum komnir á Færeyjabankann, þá er hífandi rok og suðaustan 12 vindstig. Ég var skráður annar vélstjóri, en ég var uppi um 10 um morguninn. Þá sé ég þennan voða sjó koma á eftir bátnum, alveg himinháar öldur. Ég stoppa strax vélina til að taka ferðina af bátnum. Þá kemur siglingamaðurinn, Jón Pétursson, og segir: „Hvern djöfulinn, af hverju erum við að hægja á?“ Og ég segi við hann: „Hvað, sérðu ekki hvað er að ske?“

„Þessi 75 tommu trébátur, sem við vorum á, hann stakkst bara á nefið. Ef ég hefði ekki slegið af þá hefði honum bara hvolft. Og þetta hefur fylgt mér alla tíð, bæði á sjó og landi, ég fæ þessar aðvaranir. Mig dreymdi oft fyrir afla og eins þegar ekkert fékkst. Ef það var von á afla þá var báturinn á kafi í draumnum, en ef ekkert fékkst þá var hann bundinn við bryggju í draumnum. Svona hefur þetta verið allt mitt líf, alltaf eitthvað verið til að bjarga mér. Mig dreymdi þó ekki fyrir strandinu á Ægi og það er vegna þess að þá var rennisléttur sjórinn og gott veður.“

„Þú verður ekki gamall maður“

JJón valgeir Guðmundsson

Jón valgeir Guðmundsson.

„Einu sinni dreymdi mig að ég var úti í Hælsvík, ég var á trillu sem var nánast sokkin, sást ekkert í hana nema lestarborðið. Þetta var á sunnudegi og við förum út að Hælsvík og þar er ekkert að hafa. Síðan klukkan ellefu um kvöldið vænkaðist staðan og við fengum fullt af fiski. Drógum fullan bát eða um tvö tonn.“ Jón segir að þegar þeir hafi komið í land á mánudagsmorgni, hafi Þórarinn Pétursson, sem sá um reksturinn í Þórkötlustaðavinnslunni, komið til hans og sagt að nú ætti að skipa út 6000 kössum af fiski. „Hann sagði við mig að ég yrði nú ekki upp á marga fiskana ef ég ætlaði að vinna svona, „þá verður þú nú ekki gamall maður,“ en ég svaraði því til að það besta sem maður gerði væri að vera vinnandi. Svo fór að hann dó því miður úr krabbameini um sextugt og hér er ég, lifandi enn þá!

Berserksgangur í Kvennó

Grindavík

Kvenfélagshúsið.

Gamli tíminn er rifjaður upp og skemmtanir sem oft voru haldnar í Kvennó berast í tal, hvernig nýi tíminn mætir þeim gamla þegar kemur að slíku. Jón rifjar þá upp skemmtun í Kvennó sem haldin var á laugardegi fyrir páska, fyrir töluvert mörgum árum. Félagsheimilið Festi var a.m.k. ekki risið. „Yfirleitt var dansað á neðri hæðinni í Kvennó, setið var á bekkjum og konum boðið upp í dans. Þó var hópur sem hélt sig á efri hæðinni, oftast karlmenn sem sátu og drukku.“ Jóni var minnisstætt atvik þegar Kalli í Karlsskála var búinn að fá sér aðeins of mikið, losaði borðfætur undan borði og gekk svo berserksgang og lamdi alla þá sem fyrir voru. Jón sagði að svo mikil hafi lætin verið að hann hafi hlaupið eins og byssubrandur niður, út og heim. Hann hafi eftir þetta ekki verið mjög spenntur fyrir að sækja skemmtanir sem þessar. Menn hefðu orðið svo lemstraðir í átökunum að þeir gátu ekki róið eftir páskastoppið, „en það hefur aldrei verið stuggað við mér og ég ekki við neinum,“ bætir Jón við.

Mikilvægt að vera heilbrigður á líkama og sál

Ísólfsskálii

Ísólfsskáli.

Talið berst að langlífi en nokkur systkina Jóns hafa lifað nokkuð lengi. „Það besta við að vera langlífur er að hafa nóg að gera og nóg að starfa. Og vera heilbrigður á líkama og sál. Það að trúa á almættið skiptir miklu máli. Það styrkir mann svo að vita af því að það er einhver sem lætur mann vita af vandræðum. Þetta hefur fylgt mér alla daga. Ég reri nú einn um nokkurt skeið en aldrei hef ég óttast neitt eða verið hræddur um að nokkuð komi fyrir mig. Þetta er alveg æðislegt að fá að lifa svona lengi og fá að vera svona heilbrigður. Ég væri til í að lifa allt það líf, sem ég hef nú þegar lifað, aftur. Það hefur ekkert komið fyrir mig og ég hef verið látinn vita ef hættur eru framundan. Draumarnir hafa alltaf fylgt mér,“ segir Jón að lokum.

Jón dó ári seinna, líkt og allra núlifandi má vænta.

Heimild:
-https://grindavik.is/v/22455

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Húshólmi

Í Dagur-Tíminn 1996 er fjallað um “Frumbyggja Íslands – Krýsana“. Þar er og m.a. skrif um höfundinn; “Skugga”, Jockum M. Eggertsson.

Uppruni Skugga og ferill

Jochum M. Eggertsson

Jochum M. Eggertsson.

Hugmyndir um búsetu á Íslandi fyrir daga Ingólfs Arnarsonar eru mörgum hugleiknar og eru víða til. Meðal þeirra sem sett hafa fram kenningar um efnið er Jochum M. Eggertsson, sem tók sér höfundarnafnið Skuggi.

Hér á síðunni er leitast við að gefa nokkra hugmynd um kenningar hans um Krýsa, sem vöktu talsverða athygli á sínum tíma, en hafa nú fallið í skuggann fyrir enn öðrum kenningum, sumum miklu ótrúlegri, en margir taka samt sem góðar og gildar.
Jochum M. Eggertsson fæddist á Ísafirði 1896, sonur Eggerts Jochumssonar, bróður Matthíasar skálds og Einars trúmálahöfundar og margra fleiri systkina. Móðir hans var seinni kona Eggerts, Guðrún Kristjánsdóttir frá Gullbringu.
Eggert faðir hans var um tíma skrifari hjá Jóni Þ. Thoroddsen, sýslumanni og rithöfundi, sem þá sat í Haga á Barðaströnd. Annars var hann vitavörður á Naustum, gegnt Ísafirði, en var lengstum ævinnar heimiliskennari hér og þar um Vestfirði og síðar á Ísafirði við barnaskólann. Skáldmæltur, fjölfróður og ritfær, en gaf lítið út. Jochum kallaði sjálfan sig Skugga og gaf út bækur undir því heiti.

Skógar

Skógar í Þorskafirði.

Hann varð búfræðingur frá Hvanneyri, fór síðan til Norðurlanda ungur maður og lærði ostagerð og fleiri hagnýt fræði. Heimkominn snéri hann sér þó ekki að sérgrein sinni, heldur skriftum, afar fjölbreyttum. Þýddi hundruð ljóða eftir þekkta erlenda höfunda, gaf út Galdraskræðu um hvíta- og svartagaldur, ritaði Syndir guðanna 1-3, magnað ádeilurit um samtíð sína, samdi fyrsta kvikmyndahandrit á íslensku, þýddi Rubayat Ómars Khajjam og gaf út kenningar sínar um margvísleg efni. Þar á meðal um landnám Krýsa, sem leita verður uppi í fleiri bókum, því svo virðist sem nokkuð skorti á skipulag í framsetningu Skugga. Alls eru útgefin rit hans um 30 talsins.

Skógar

Trjárækt að Skógum.

Skóga í Þorskafirði keypti Jochum 1950 og stundaði þar skógrækt og víðfeðmar hugsanir. Síðustu árin gekk hann til liðs við Baháisöfnuðinn og arfleiddi hann að Skógum. Þar ólst faðir hans upp ásamt systkinum sínum, þar á meðal Matthías skáld Jochumsson.
Jochum Magnús Eggertsson (1896-1966) var einn af fyrstu bahá’íunum á Íslandi.  Jochum má telja til frumkvöðla skógræktar á Íslandi. Hann arfleiddi íslenska bahá’í samfélagið að landinu eftir sinn dag.
Jochum var rithöfundur og skáld. Hann skrifaði jafnan undir höfundarnafninu Skuggi.

Jochum M. EggertssonÍ Vikunni 1963 er grein um Skugga; “Krýsar, Nýjar kenningar um landnám Íslands, Var Ingólfur Arnarsson gabbaður til Reykjavíkur.” Þar segir m.a.:

 

JOCKUM EGGERTSSON (SKUGGI) ER ALLRA HÉRLENDRA MANNA FRÓÐASTUR UM GALDRALETUR FRÁ FORNRITÍÐ. HANN HEFUR KOMIST YFIR GALDRASKRIF, SEM SEGJA FRÁ KRÝSUM, SEM BJUGGU í KRÝSAVÍK OG NÁGRENNI ÁÐUR EN LANDNÁMSMENN KOMU. ÞAR SEGIR EINNIG FRÁ ÞVÍ, AÐ ÞEIR SKRÁÐU SÍÐAR ÍSLENDINGASÖGUR, EN KOMUST í ANDSTÖÐU VIÐ KIRKJUVALDIÐ OG VAR NÁLEGA EYTT MEÐ AÐFÖR ÁRIÐ 1054.

ÞEIR SÁU FYRIR LANDNÁMIÐ OG KOMU VÍKINGA. ÞEIR FUNDU SÚLUR INGÓLFS FYRIR SUNNAN LAND OG FLUTTU ÞÆR Á DRAUGI VESTUR FYRIR HEIÐI. ÞEIM LEIST VEL Á INGÓLF OG HELGUÐU HONUM ÞAÐ LAND ER HANN LYSTI.

Skuggi

Brísingarmen Freyju.

“Fyrir skömmu síðan bárust mér í hendur bækur nokkrar sjaldséðar, en að sama skapi merkilegar. Þær eru skrifaðar af Jochum Eggertssyni, skáldi og fræðimanni. Hann er einn af þeim sjaldséðu ágætismönnum, sem troða ekki hefðbundnar slóðir, heldur ryðja nýjum skoðunum rúm í samfélagi mannanna. Hann hefur varið miklum hluta ævi sinnar til rannsókna á íslenzkum bókmenntum, rúnaletri og náttúru landsins. Það sem ég geri hér að umtalsefni er þáttur Papanna, sem bjuggu að Krýsavík, í sköpun fornsagnanna samkvæmt þeim heimildum, sem koma fram í einu ritverki Jochums er hann nefnir “Skammir”. Jochum Eggertsson hefur ferðazt mikið um Vestfirði og víða um landið og hefur komizt yfir gömul handrit og handritaafrit, sem hann telur fjalla um frumlandnám Austmanna og einnig um dvöl Vestmannanna eða Papanna, sem hingað voru komnir miklu fyrr.

Galdraskræða

Úr Galdraskræðu Jockums.

Aðalheimildarritið er Gullbringa eða Gullskinna, sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum á undangengnum rúmum 900 árum síðan hún var færð í letur af Kolskeggi Ýrberasyni frá Krýsavík, má þar meðal annars nefna Gráskinna, Rauðskinna og ýms önnur nöfn, sem yið galdra eru tengd. Eigendur bókarinnar eða handhafar þóttu og jafnan fjölkunnugir, að undanteknum biskupum þeim er fyrst varðveittu hana að Skálholti eftir víg Kolskeggs Ýrberasonar árið 1054. í galdrakveri, sem er í einkaeign, afrituðu eftir skinnbókarslitri frá 13. öld stendur eftirfarandi málsgrein með „brimrúnum”, opnuðum með dverglykli, III. skerðingar, og hér færð til nútímamáls.

Skuggi

Landnámsmenn” nálgast landið.

„Kolskeggur Krýs orti Hávamál, var heiðinn sagður, fordæmdur af helgum mönnum og kirkjustoðum. Hans nafni var útskúfað. Kristinn mun þó Kolskeggur verið hafa. Mestur var hann kunnáttumaður; lifði eftir þann tíma er upp var tekinn Christum og sankti Maríá. (þ. e. kristni lögtekin) aflífaður áður en Ísleifur vígðist.
Stórvitur var Kolskeggur og langglygginn, hans sporningar ógengilegir. Marga hluti hann fullfurðulega gerði, svo sem af litum, letur og stafi, að eigi kunni fölna eður aflýsast. Af kunnáttu (sinni) sauð hann efni saman af jurtum og dýrum og svo af steinum og málmi; rauð á skinn og gerði af bækur að eigi kunni granda feyskja, vatn eður eldur. Þá bók (eina) hafði hann fullkomna, þá hann aflézt, þar á öll hin fornustu fræði, og svo vitur að biskupar og fróðustu klerkar fá eigi af numið. Sú bókin segir um alla landsbygging og sköpun og skifting jarðarinnar, nafngiftir og örnefni og áttvísi, frá Krýsum og Vestmönnum og landvættum þeirra, þá Austmönnum öllum, þeirra áttum og uppákomu. Helgir menn vilja eigi þessa bókina upp taka vegna villu og galdurs. Nú er þessi bókin Kolskeggs sögð undir Skálholtsbiskup og afturreirð, að eigi uppljúkist. Snorri (Sturluson í Reykholti) fékk hana eigi léða eður keypta þó margleitaði til með miklum fjármunum. Þessi Krýsabókin Kolskeggs vitra, hefur Arinbjörn prestur mér sagt, að héti Gullbringa eður Gullskinna.

Öndvegissúlur Ingólfs.

Skuggi

Flutningur öndveigissúlna Ingólfs vestur fyrir land.

Í Gullbringu skýtur nokkuð öðru við í frásögnum af landnáminu heldur en kemur fram í síðari tíma afritum á Landnámabókum. Í Landnámabók þeirri, sem Guðni Jónsson sá um til prentunar segir: „Þá Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum til heilla. Hann mælti svá fyrir, at hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.” Í næsta kafla segir: „Þau misseri fundu þeir Vífill ok Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvál fyrir neðan Heiði.”

Fornagata

Fornagata (Hellugatan) við Krýsuvík.

Enda þótt Ingólfur Arnarson yrði fyrstur norrænna víkinga til að staðfesta ráð sitt á þessu landi, verður þó, sannleikanum samkvæmt, varla hægt að kalla hann landnámsmann í þessa orðs fyllstu merkingu. Suðvesturströnd landsins var löngu numin af Vestmönnum og margar kynslóðir lifað og dáið í „Landnámi Ingólfs” á undan honum. Hér var fyrir friðsamt fólk og vopnlaust, en úrval af mannkostum. Hér voru fyrir framsýnir menn og vitrir, er sáu þann kostinn vænstan, að taka þeim víkingum, er setjast vildu að, með opnum ömrum, gera þá að höfðingjum sínum og allan veg þeirra sem virðulegastan.
Allt Norðurlandið ásamt Vestfjörðum og Austfjörðum var enn óbyggt, er norrænir víkingar komu hér fyrst, þá landshluti höfðu Vestmenn að vísu kannað fyrir löngu síðan, en töldu þá lakari að gæðum og lítt byggilega.
SkuggiVíkingar fengu því venjulega með sér Vestmenn, er voru landinu kunnir, er þeir hugðu til könnunarferða og voru þessir Vestmenn venjulega þaulkunnugir siglingamenn og jafnframt trúnaðarmenn Krýsa.
Frumlandnáma segir frá ferðum Ingólfs Arnarsonar og staðfestu hans í Reykjavík, á allt annan hátt en núverandi gerð. Þeir Vífill Kormáksson og Karli Njálsson, systursonur Vífils, voru EKKI ÞRÆLAR Ingólfs, heldur leiðsögumenn hans og trúnaðarmenn Krýsa. Vífill var siglingagarpur mikill. Og þegar Ingólfur kom hingað til lands könnunarferðina, áður en hann afréð að setjast hér að, þá fylgdu þeir honum út, Vífill og Karli, að ráðum Krýsa. Ingólfur dvaldi vetrarlangt við suðurströndina og ræddi við þá, er fyrirmenn voru innbyggjanna, og sögðu þeir honum allt landið betra suður en norður. Krýsar voru forvitrir menn og framsýnir og sáu fyrir þjóðflutninginn og það los, er komið var á víkinga í Noregi. Þeim leizt Ingólfur gæfusamlegur og höfðu þegar ákveðið að setja hann yfir bezta landshlutann og allt það land, er hann fýsti.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Vífill og Karli fóru svo út með Ingólfi og komu með honum aftur til landnámsins. Þeir Hjörleifur höfðu samflot lengst af, en er nálgaðist suðurströndina, skildi með þeim. Ingólfur varpaði þá öndvegissúlunum. Vindar og straumar stóðu vestur með landi og hrakti Hjörleif langt vestur í haf, en þeir Vífill kunnu betur til segla og vissu af ágætri höfn sem beir náðu (Ingólfshöfða).
Vífill og Karli fóru svo út með Ingólfi og komu með honum aftur til landnámsins. Þeir Hjörleifur höfðu samflot lengst af, en er nálgaðist suðurströndina, skildi með þeim. Ingólfur varpaði þá öndvegissúlunum. Vindar og straumar stóðu vestur með landi og hrakti Hjörleif langt vestur í haf, en þeir Vífill kunnu betur til segla og vissu af ágætri höfn sem beir náðu (Ingólfshöfða).
Vífill var kunnur suðurströnd landsins allri og þekkti þar voga alla og svo vötnin. Fóru þeir Karli jafnan tveir saman vestur með landi og höfðu fengið drauga stytting úr drómetar, þ. e. úlfalda, af Krýsum og svo prjám (léttur skinnbátur).

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Þá er Ingólfur hafði verið að Hjörleifshöfða einn vetur, en þangað fluttist hann með farangur sinn og skip eftir víg Hjörleifs, fundu þeir Vífill aðra súlu hans að landi komna en hina hvergi. Þar voru fyrir opnir sandar. Færðu þeir súlu þá vestan allra vatna, vestur fyrir Ölvésósa, festu við armtré og reistu upp og jarteinuðu Kristikross. Þeir voru menn kristnir. En þá Ingólfur frétti af þeim, að fundið hefðu þeir aðra súlu hans, en hina hvergi, þá líkaði honum stórum illa tiltektir. Hélt hann þá skipum sínum vestur með landi og inn í ósa og kallaði Arnarbæli, þar, er hann lagðist með skip sín. Reisti Ingólfur skála að Arnarbæli, en aðrir af liði hans höfðu skipin að skjóli. Voru þá með Ingólfi konur þeirra Hjörleifs, svo og skip hans. Ingólfur gekk á fellið, hvaðan bezt varð séð af. Honum leizt landið gott, bæði gnóglegt og fagurt. Þar heitir síðan Ingólfsfell og er Ingólfur heygður þar á fellinu. En þar, sem heitir að Reykjum bjó Ingólfur vé og setti þar völvur tvær og fretti. Þar voru vötn heit og svo jörðin um kring. Lét Ingólfur búa þar til gerði og færa niður sæði og melti þar kornið og hafði þar ölhitu. Heitti hann á Æsi, þá Óðinn og Frey.

Ölfusölkelda

Ölfusölkelda.

Vötn voru heit, að eigi þurfti að elda. Er þar Ölvé kallað og vötn þar við kennd. En það er af þeim Vífli að segja, að þeir hlupu á prjám og létu í haf tveir saman. Lintu þeir eigi fyrr en þeir tóku Suðureyjar. Þar var þá fyrir frændfólk þeirra Ingólfs og svo Vífils. Sagði Vífill þeim Herjúlfi og Steinúði innilega um för þeirra Ingólfs og svo um andlát Hjörleifs. Lofaði Vífill landið mjög og bað Steinúði og svo Herjúlf upp að koma og hafa land með Ingólfi. Þau höfðu þá bæði kristni tekið. Varð það að ráði. En þeir Vífill létu aftur í haf það sama sumar og komu að landi við Krýsavík. En Krýsar höfðu þá séð allt fyrir. Tóku þeir þá súlu Ingólfs og færðu á draugi og fluttu á landi vestur fyrir Reykjanes og allt þangað er heitir Reykjavík og reistu upp á hóli einum og gáfu nafnið Arnarhvoll, en það land átti Vífill.

Arnarhóll

Arnarhóll.

Það mun hafa vafizt fyrir mörgum að trúa því að hlutur, sem settur er í haf suð-austur af Íslandi ræki vestur með ströndinni fyrir Reykjanestangann og upp á fjörur þar sem landkostir voru beztir. Hitt er mikið líklegra að öndvegissúlurnar hafi rekið einhversstaðar upp á suðurströndina og verið hreinlega fluttar á þann stað sem Reykjavíkurborg stendur nú á.
Krýsar helguðu Ingólfi svo mikið land, er hann lysti og settu hann yfir það allt og voru þá þar eftir í hvor annars vernd og forsjá og svo hans afkomendur. Krýsar einir höfðu alla ströndina frá Reykjanesi til Ölvésósa og öll fjöll þar yfir. Þar heitir Arnarnes, og víkin Arnarnesvík, er þeir Ingólfur geymdu skipa sinna. Vífill fór utan á skipum Ingólfs, er eigi fór heill af holund, er hann ungur hlaut í orrustu og deyddi hann ógamlan 49 ára eða árið 899.

Krýsar

Kringlumýri

Kringlumýri – hinir fornu Gestsstaðir?

Kolskeggur vitri þ. e. kölski samkv. þjóðtrúnni var 5. liður frá Vífli Kormákssyni, þeim er með Ingólfi var, en þó ekki í beinan karllegg, því Vífill átti engan son, en 4 dætur, sem upp komust.
Kolskeggi var veitt það bezta uppeldi og sú hæsta menntun, semhugsanleg var. Kolskeggur var í frændsemi við þá Njálssonu á Bergþórshvoli og í búð með þeim á Þingvelli þegar rætt var um vígsmálin, vorið á undan Njálsbrennu. Hann segist hafa verið 16 ára þá um haustið, er brennan var framin. Ætti þá Njálsbrenna að hafa gerzt haustið 1012.

Þingvellir

Örn yfir Lögbergi á Þingvöllum.

Segir Kolskeggur að það hafi verið í annað sinn er hann hafi komið á Lögberg á Alþingi, en var þá búinn að vera nokkra vetur í klausturskóla á eynni Iona á Suðureyjum.
Árið eftir Njálsbrennu fór Kolskeggur til Suðureyja aftur og þaðan til Skotlands og Englands. Eftir það fór hann til Frakklands og var í Svartaskóla næstu árin. Síðan hélt hann til Miklagarðs, Grikklands, Egyptalands og Jórsala. Um Danmörk, Garðaríki, Bjarmaland og Norðurveg fór hann á heimleiðinni. Er hann kom úr þessum miklu leiðöngrum af Austurvegi, lét hann þó ekki staðar numið, heldur brá sér til Vesturheims, til Grænlands og Vínlands og var þar á skipi, er hann stýrði sjálfur. Var hann tvö ár í þeim leiðangri. En að því loknu hóf hann margra ára ferðalag um Ísland, þvert og endilangt. Var hann þá að afla sér gagna og staðfæra ýmislegt viðkomandi frumlandnámu og fornsögu.

Strandardalur

Strandardalur. Talið er að séra Eiríkur á Vogsósum hafi komið Gullskinnu fyrir í Kálfsgili í enda dalsins.

Árið 1044 hafði hann fullgert frumlandnámu sína („Gullbringu”, „Gullskinnu”) og tekur þá til óspilltra málanna að skrá fornsagnirnar, fornkvæðin, konungasögur o. m. fl. jafnframt því sem hann stjórnaði stórum skóla og stórbúi í Gömlu-Krýsavík og hafði yfirumsjón með öllum ritstörfunum og samræmdi þau, bæði í Krýsavík og Vífilsstöðum. Allar voru sögurnar settar saman úr fjölda þátta og skiptu þeir hundruðum. Ætt og uppruni og lífshlaup hvers einastalandnámsmanns og afkomenda þeirra allt fram til 1030, var skráð í þáttum og svo vísur, sem ortar höfðu verið um atburðina. Allt var þetta skráð á papyrus og biblos, og því allt sem nokkurs konar uppköst, en tilætlunin að koma öllu á kodex (bókfell, skinn), þegar fullsamið væri og fullkarrað og til þess hafði Kolskeggur mikinn útbúnað síðustu misserin, en entist ekki aldur til að koma því í verk.

Húshólmi

Húshólmi (Gamla-Krýsuvík) – tilgáta.

Sigrún, móðir Kolskeggs, stóð fyrir búi með honum í Gömlu Krýsavík og sýndi hann móður sinni jafnan slíka kurteisi og virðingu, sem væri hún konungborin. Hún er sögð hafa bjargað öllum handritunumog komið þeim í jarðhýsi eitt um leynigöng, neðanjarðar, en látið sjálf lífið í reyknum og svælunni og fundist dauð í þessum undirgangi, löngu síðar; því þeir, sem að sóttu létu sér ekki nægja minna, en brenna staðinn til kaldra kola, áður en frá var horfið. En þessari miklu dáð þessarar stórbrotnu konu var þó ekki meira á lofti haldið en það, að hún var, að minningum verka sinna, kölluð: „Sigrún kelling”, eða „Krýsa kelling, sú er í svælunni kafnaði”.
Helztu samstarfsmenn Kolskeggs vitra, voru fyrst og fremst fyrirrennari hans, meistarinn Ioan „inn gamli” Kjarualarson, höfundur Völuspár og Land-Erna-Sögu, þríleiksins mikla, sem var afmáður eftir að norræna höfðingja-, kirkju- og konungsvaldið náði tókum og yfirráðum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi.

Ioan „inn gamli” var sagður hafa legið dag og nótt við arineld, er vaktaður var, að aldrei kulnaði. Hann neytti engrar fæðu utan lítið eitt fuglaeggja og sýrðrar mjólkur, en drakk jurtaseyði. Engum manni veitti hann áheyrn eða viðtal nema Kolskeggi einum og var enginn viðstaddur samræður þeirra. Þjóna sína ávarpaði hann aldrei, en gaf allt til kynna með táknum og merkjum. Hann mun hafa verið orðinn mjög gamall, er hann orti Völuspá, og var þá enn í gömlu Krýsavík.
En þeir Krýsar og aðalrithöfundar, sem næstir gengu Kolskeggi voru þeir Grímur Hrafnsson og Rymskati Asklaugarson. Grímur Hrafnsson tók saman Egils-Sögu Skallagrímssonar og fleiri sögur og þætti og orti skáldkvæði. Hann var fæddur árið 999, af Mýramannaætt, laungetinn. Var ungur tekinn í fóstur af Krýsum og naut þar kennslu og menntunar. Það var Grímur þessi, er reit fræðimikil með tánum fóta sinna, að Bæ í Borgarfirði, eftir að hann hafði verið fluttur þangað og búið að tunguskera hann og handhöggva.

Húshólmi

Gamla Krýsuvík eftir að hraunið rann 1151.

Rymskati Asklaugarson var sagður mesta hamhleypa til ritstarfa og efnilegasta skáld allra þeirra yngri krýsostómasa (gullmunna). Réðst ungur á kaupskip Krýsa og í siglingar með kaupmönnum þeirra. Fór uppkominn í skóla til þeirra Krýsa og reyndist afburðamaður aðnámsþroska og gáfum. Hann var örlagatrúarmaður meiri en Grímur Hrafnsson, draumamaður mikill og dulspakur, Rymskati setti saman Grettis-sögu, Gísla-sögu Súrssonar, Fóstbræðrasögu, Snorra-sögu goða (þ.e. Eyrbyggju), Kormáks-sögu, Vatnsdælu, Heiðarvíga-sögu, Hallfreðar-sögu o.fl. auk fjölda þátta og lausavísna, er hann orti fyrir munn persónanna, bæði í sínar sögur og hinna.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Rymskati ferðaðist mest allra um sögusvæðin, ræddi við aðstandendur söguhetjanna og aðra fróða og minnuga, er séð höfðu eða heyrt frásagt, staðhæfði efnið, safnaði vísum, er ortar höfðu verið um atburðina eða orti þær sjálfur eftir munnlegri umsögn. Rymskati var sá, er valdist til að flytja þeim „Bandamönnum” Ófeigs-sögu bragðakarls (nú Bandamannasaga), en var þá þegar tunguskorinn. Hann var ekki fluttur að Bæ í Borgarfirði með þeim Grími Hrafnssyni og öðrum limlestingum, er af lifðu aðförina, haustið 1054. Hann var hafður í haldi einn sér annars staðar og geymdur vendilega. En árið 1056, undir eins á fyrsta stjórnarári Ísleifs biskups í Skálholti, var hann fluttur þangað og handhöggvinn. En biskup þorði samt sem áður ekki að eiga hann yfir höfði sér, og var hann þar skamma stund í gæzlu, en síðan líflátinn.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi við Gömlu Krýsuvík – fjárborg/virki.

Gamla Krýsavík var, all-löngu fyrir landnám norrænna manna eða austmanna: þ. e. Dan-þjóðflutningakvíslarinnar, orðin höfuðstöð Iona-þjóðflutningakvíslarinnar, er voru sægarpar og siglinga og af austrænum uppruna eins og Dan-kvíslin (víkingarnir), aðeins stórum mun lengra komnir í vísindum, menningu og siðgæði. Lærðu mennirnir voru nefndir „Papar”, þ. e. feður, og skiptust á tvær deildir: Jóna og Kristjóna. Jónarnir skoðuðu Krist sem guðmenni, er hægt væri að líkjast og urðu umræðilega vitrir og máttugir. Kristjónar trúðu, aftur á móti, eingöngu á Krist sem guð, hafinn yfir allt mannlegt, sem aðeins væri hægt að elska og tilbiðja í auðmýkt og lotningu. Þeir urðu ofsatrúarmenn og ofstækisfullir og liggur fátt eftir þá af viti.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

Jónarnir tileinkuðu sér lífsskoðun Jóhannesar frá Antiochia er nefndur var Krýsostómas-gullmunnur. Þeir voru því kallaðir Krýsar og af þeim dregur Krýsavík nafn, því þar var höfuðbækistöð krýsostómosa, og búinn að vera það full 200 ár, áður en Ingólfur Arnarson kom hér að landi. Gamla Krýsavík var, fyrir miðja elleftu öld, eða þar til Krýsar voru drepnir, eitthvað mesta menntasetur veraldarinnar. Kristjónar hötuðu Jóna og Krýsa og skoðuðu þá sem heiðingja og andskota, en urðu að vera upp á þá komnir, því þá skorti alla þekkingu og manndáð til að geta bjargazt án þeirra. Heiðnum mönnum (Ásatrúar) og Krýsum kom, aftur á móti ágætlega saman, svo fremi, að ekki væri viðhöfð mannblót eða annað ódæði.

Óbrennishólmi

Garður í Óbrennishólma.

Vestmannaþjóðflutningakvíslin (þ. e. Jónar, Krýsar) voru því löngu búnir að kanna allt landið, skipa niður landvættum og gefa því nafn (Þýli) áður en austmannaþjóðflutningakvíslin: (Danirnir, víkingarnir) tóku að hefja hér landnám. Og það voru fleiri en einsetumenn, er hér höfðu aðsetur. Flestir „Papanna” voru fæddir hér á landi. Eins og hverjum skynbærum manni ætti að vera augljóst hafa ekki fornkvæði vor og fornsögur, konungasögur, ættartölur og frumlandnámssögur gert sig sjálfar, ort sig og skráð, heldur stendur þar afar harðsnúin, glöggskyggn, lærð, þrautþjálfuð og raunvísindalega skipulögð starfsemi bak við. Hvorki Ari prestur Þorgilsson fróði né Snorri Sturluson eiga þar frumkvæðið enda þótt Snorri endursemdi með vissu Heimskringlu og Egilssögu Skallagrímssonar.

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Það voru íslenzkir krýsostómasar-gyllinmynnar, er hér á á landi höfðu starfsemi sína og aðalbækistöð, löngu á undan landnámi norrænna víkinga og allt fram yfir miðja elleftu öld, er starfsemi þeirra stóð með mestum blóma, að þeir voru líflátnir og eignir þeirra lagðar undir eigna- og kirkjuvaldið. Fyrsti biskupsstóll landsins, Skálholtsstóll, var þá stofnaður og lagður undir hann mikill hluti af hinu svokallaða „Landnámi Ingólfs” auk margra stóreigna annarra, er allt var eign Krýsa. Meðal annars áttu þeir 9 hafskip (kaupskip) í förum, er þeir voru líflátnir, og sigldu skip þeirra til Grænlands, Vínlands (er þá var kölluð Albania), suður til Miðjarðarhafslanda og allt til Egyptalands og inn í Nílarósa. Út fluttu þeir íslenzka og grænlenzka grávöru og margt annað, þar á meðal hinar afar dýrmætu og eftirsóttu rostungaog náhvalatennur. Krýsar fluttu inn á skipum sínum margs konar varning og meðal annars fluttu þeir hingað inn bæði arabiska hesta og úlfalda. Gengu stórar úlfaldalestir undir klyfjum að og frá aðalbækistöð þeirra, Gömlu-Krýsavík. Þeir lánuðu og úlfalda langleiðir til skreiðarflutninga. Krýsar höfðu eingöngu tvíkryppuúlfalda og voru þeir kallaðir „drógir” og „draugar”, íslenzkun af heitinu „drómetar”. Draugalestirnar hafa verið ærið ferlegar undir skreiðarflutningi, enda eimdi eftir af því í þjóðtrúnni í margar aldir jafnvel fram í okkar tíma hafa Draugalestir sést á Krýsavíkurvegi.

Endalok Krýsa

Hallmundarhraun

Hallmundarhraun.

Krýsar voru nokkurskonar kristnir heiðingjar, örlagatrúar, frelisunnandi stjórnleysingjar, óháðir ríki og kirkju. Þeir urðu svo voldugir hér á landi, undir stjórn Kolskeggs, og andlegir yfirburðir þeirra svo stórkostlegir, að víkingahöfðingja- og kirkjuvaldið nötraði og riðaði.

Íslandskort

Íslandskort (Nova et accurata Islandiæ delineatio) frá árinu 1670, gert af Þórði Þorlákssyni biskupi í Skálholti. Fyrir neðan Íslandskortið er Lofkvæði til Kristjáns
konungs V, skrifað í fjóra dálka, á latínu, dönsku og íslensku með venjulegu letri og rúnaletri.
Efst á kortinu eru myndir af sjávardýrum og skjaldarmerki Íslands, sem er flattur þorskur borinn af tveimur fuglum, í hægra horni, þar fyrir neðan er titill. Í neðra horni vinstra megin
er skjöldur með táknmyndum og tileinkun til Kristjáns V Danakonungs. Í handritaskrá Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (AM 477 fol.) eru nefnd fleiri kort með þessu sem ekki finnast lengur í safni Árna Magnússonar.

Þeir voru að verða ríki í ríkinu og átökin jukust með kristinni og sameinuðu kirkjuvaldi, svo að hlaut að skríða til skarar. Þeir voru engum háðir nema sjálfum sér og því enn hættulegri höfðingjavaldinu og áttu auk þess mikinn kaupskipastól og bezta hérað landsins með ágætustu veiðistöðvunum. Það var löngu farið að slást í kekki milli kristnivaldsins og Krýsa, þegar höfðingjar loks sendu Kolskeggi úrslitakosti vorið 1054. En Kolskeggur svaraði með „Ófeigs sögu bragðakarls” (Bandamannasögu), er hann reit með latínuletri og sendi einn lærisvein sinn með hana til að „staðfæra” hana og færa hana hlutaðeigendum. En þeir svöruðu Kolskeggi með því að skera úr sendimanni tunguna og höggva af honum hægri höndina, en gerðu sendimenn á fund Kolskeggs og kváðu honum sæmra að rita níð sitt og rógburð á því letri er þeir læsu sjálfir og skildu. Kolskeggur reit þá söguna í annað sinn, og “þá á málrúnum, og gerði það á tveim dægrum, en sendimenn biðu á meðan.

Skuggi

Kolskeggur verst landvinngamönnum við Straum.

Eftir það skáru Bandamenn herör, söfnuðu liði um flest héruð landsins og fóru að Kolskeggi og þeim Krýsum, haustið 1054, með tvö þúsund vopnaðra manna. Ioan Kjarvalarson „inn gamli” var brenndur inni á Vífilsstöðum og margt manna með honum. Kolskeggur hafði víggirt Krýsavík og hafði þar harðsnúið lið, sem þó var ofurefli borið. En Kolskeggur slapp þó undan þar, á Brimfaxa, miklum hesti, hvítum af arabisku kyni og náðist ekki fyrr en í Straumrandahrauni, sunnan Hafnarfjarðar eftir að hafa sloppið gegnum mörg umsátur.

Mosi

Mosahraun.

Þar festist hestur hans í hrauni og brotnaði fóturinn, „inn vinstri afturfótur”, og sat hann þar fastur, en var þó svo sár af spjótalögum, að iðrin lágu úti.
Kolskeggur hraut af hesti sínum og kom niður standandi. Hesturinn var móður og blés mjög og þeyttist blóðgufa og froða úr vitum hans. Kolskeggur hafði aldrei annað vopna en rýting einn lítinn, gullrekinn, við belti sér, dró hann úr slíðrum, og varð það jafnsnemma að þeir þustu að, er eftir sóttu, og kom þá spjót eitt fljúgandi og stefndi á Kolskegg. Kolskeggur tók spjótið á lofti og lagði hest sinn í brjóstið, er mjög reisti höfuð til lofts, barðist um og prjónaði. En Kolskeggur mælti: „Sækja sóknhvattar sveitir háleitan”. Féll þá hesturinn dauður og Kolskeggur jafnsnemma, því að þá stóðu á honum mörg vopn. Hjuggu þeir þar höfuð af Kolskeggi og alla útlimi og stungu augun úr höfðinu og skáru úr tunguna; settu síðan höfuðið á stengur og svo útlimi. Lágu bein Kolskeggs og hestsins þar við reiðgöturnar næstu árin.

Kapella

Kapellan ofan Straums.

En er ferðamönnum öllum og vegfarendum stóð ógn og fordæming af þessum slóðum var svo fyrirskipað af hinum fyrsta biskupi í Skálholti, Ísleifi Gizurarsyni, að kapella skyldi reist á þessum stað yfir beinum Kolskeggs og þeirra félaga. Sést enn móta fyrir allri lögun kapellunnar, þó nýtt hraun hafi á hana runnið yfir hið gamla bungumyndaða helluhraun, sem undir var.
Krýsar voru ekki allir drepnir er aðförin var gerð að þeim hauslið 1054. Sumum var gefið líf að nafninu til, en voru ýmist blindaðir, tunguskornir eða handhöggnir, og síðan fluttir að Bæ í Borgarfirði, en þar áttu Krýsar mikið land og gengu nokkur kaupskip þeirra jafnan í Hvítá. Var svo látið heita að með þessu tiltæki hefði „munkaregla” stofnuð verið að Bæ í Borgarfirði. Þrír Krýsar komust þó undan ómeiddir og lögðust í óbyggðir, lágu í Hallmundarhrauni og Arnarvatnsheiði næstu missiri, en komust þá í skip með írskum kaupmönnum og af landi brott.

Um lærisveina Kolskeggs

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur.

Kolskeggur vitri hafði ritara sína og lærisveina í tveim flokkum. Var annar flokkurinn (helmingur liðsins) á Vífilsstöðum undir forustu Ioans Kiarualarsonar „inns gamla”, en hinn í Krýsavík undir forustu Kolskeggs sjálfs. En yfirumsjón með báðum stöðunum hafði Kolskeggur. Alls voru hinir lærðu Krýsar og nemar þeirra 26 talsins, 13 í hverjum stað. Kolskeggur og allir lærðir Krýsar fóru ávallt hvítklæddir. Sagður er Kolskeggur hafa átt 12 hvíta hesta, mikla fáka, blendinga af arabisku og norrænu kyn og báru allir Faxanöfn. Hafði Kolskeggur sex þeirra á Vífilsstöðum en sex í Krýsavík og skipti jafnan um, er hann reið í milli. Hundar tveir, hvítir og stórir, eltu hann og runnu með honum hvert er hann fór.

Dýralíf á dögum Kolskeggs

Sæskrímsli

Sæskrímsli utan við Reykjanes.

All fróðleg er frásögn Kolskeggs um dýralíf hér á landi, fyrir og eftir landnám norrænna manna. Hann segir, að enn sé mikið af villtum geitfénaði í fjöllum og skógum, einkum í Reykjanesfjallgarði og enn verði vart villisvína, sem norrænir menn hafa ekki flutt inn og hann veit engan uppruna að. Segist hvergi hafa séð þau á ferðum sínum utanlands. Þau temjist ekki og séu skæð viðureignar. Um það er sagt eitthvað á þessa leið: „Áður runnu dýr þessi í stærri og minni flokkum frá skógi og í fjörur og svo ill viðskiptis að víggirða varð nokkra bæi á Suðurnesjum fyrir ásókn þeirra. Þau voru eigi stórvaxin, en höfðu vígtennur eða skögultennur í kvofti og beittu þeim sem vopni.”
Kolskeggur gaf fyrstur Íslendingum stafróf, (latneska stafrófið). Kolskeggur orti Hávamál og reit sjálfur hina miklu bók: Brenna”, (Þrísögn. Gunnars, Höskuldar og Njálssaga).
Auk þess er Kolskeggur sagður hafa ritað með eigin hendi: Laxdælu, Gunnlaugssögu, Hrafnkelssögu og Ófeigssögu (Bandamannasögu), er var síðust ritverka hans og kostaði hann lífið.

Handrit

Handrit.

Eins og gefur að skilja hefur lítið sem ekkert varðveizt óbreytt af ritum Krýsa. Fornsögurnar, Íslendingasögurnar og fornkvæðin voru flestar endurritaðar og endursamdar um daga Snorra Sturlusonar, fyrir og eftir lok þjóðveldisins. En margt var þá þegar glatað eða affært og margt hefur misfarizt síðan.
Frásagnir af Krýsum hafa varðveitzt í gegn um aldirnar á mörgum tugum stafrófa af „galdrarúnum”. Jochum Eggertssyni hefur tekizt að finna lykla að og ráða nær 30 tegundir af dulrúnum af nær 100 stafrófum er hann hefur í sínum fórum auk allmargra „kerfa” af málrúnum, „viðkenndum” og „óviðkenndum”. Mun Jochum vera fróðastur allra núlifandi Íslendinga í þýðingu galdrarúna svonefndra. Það mun sennilega vera algjörlega ókannað mál, hvað Papar á Írlandi og Suðureyjum hafa ritað um Ísland og Íslendinga til forna og vissulega verðugt rannsóknarefni, og vissulega stendur íslenzka þjóðin í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem leggja fram annan eins skerf og Jochum Eggertsson hefur gert á þýðingu fornra rúna.” – Þór Baldurs.

Í Degi-Tímanum 1996 er fjallað um “Frumbyggja Íslands, Krýsana“.

Handrit

Handrit.

“Gullbringa” var rituð 100 árum á undan Landnámu, að sögn Jochums Eggertssonar. Í henni er mikill fróðleikur um hverjir námu Ísland og um menningarafrek Krýsa, sem voru búnir að búa á Íslandi í hundruð ára áður en Norðmenn komu til landsins. Um þá miklu sögu er hægt að fræðast í galdraskræðum og leynibókum. „Bók sjómanna” dró Jochum úr jörðu fimmtudaginn 6. október 1938 og voru þá 27 blöð heil. Engum vildi Jochum sýna þessi gögn né þau galdrakver, sem hann þóttist rýna í og lesa úr allt aðra Íslendingasögu en almennt er talin vera í gildi.
Um Ara fróða fer hann háðulegum orðum og segir hann aðeins hafa verið vesælt peð biskupa og alinn upp sem fugl í búri af þeim. Hann segir um hin frægu orð Landnámu, að hafa skuli það heldur sem sannara reynist, að þau séu einhver siðspilltustu orð og sannleikanum fjandsamlegustu sem nokkru
sinni hafi skráð verið.

Launhelgar Egyptalands

Hellugata

Helllugata (Fornagata) við Krýsuvík.

Eðlilega þurfti Jochum að gera Ara fróða Þorgilsson og skrif hans ómerk til að koma að sinni „Frumlandnámu”.
Í stuttu máli er kenningin sú, að Krýsar hafi numið hér land mörgum mannsöldrum á undan Norðmönnum og er Krýsuvík við þá kennd. Þeir bjuggu á gósenlandinu Krýsuvík, sem var drjúgur hluti Reykjanesskagans. Allt var þar skógi vaxið, gnægð flskjar í sjó og dýralíf fjölskrúðugt. Þeir þurftu ekki á meira landi að halda.
Krýsar voru upprunnir úr launhelgum Egyptalands, gáfaðir og mennilegir með afbrigðum. Höfundur Krýsakenningar gefur þeim heitið gullmunnar. Þeir dreifðust víða og voru afbragð annarra hvar sem þeir fóru. Meðal gullmunna má nefna Lao Tse og Jesú frá Nasaret, og má sjá að mannval var gott meðal þeirra.
Kolskeggur vitri, eða Kölski, var einnig Krýsi og var hann höfuðpaur íslensku nýlendunnar þegar aðkomnir landnemar gengu milli bols og höfuðs Krýsanna árið 1054. Síðar reyndu þeir að leyna ódæðisverkum sínum með sögufölsunum.

Stærðfræði og landnám

Völuspá

Úr Völuspá; Urður, Verðandi og Skuld.

Öll helstu bókmenntaafrek fornaldarinnar eignar Skuggi Krýsum. Völuspá, Hávamál, Njála og Egils saga eru samdar af nafnkenndum Krýsum, svo að eitt- og guð er í mannssálinni. Ef hvað sé nefnt. pelikani ætti sér guð, væri hann Gullmunnakerfið er fremur pelíkani, segir Jochum, og hina vísindastarfsemi en trúarbrögð djúpvitru Krýsa skapar hann auðvitað í eigin mynd, enda flestir afburðamenn af þeim komnir.
Ábendingar pýramídafræðinnar til Íslands eru vel kunnar og á okkar dögum eru uppi miklar kenningar um stærðfræðilega útreikninga á landnámi og byggð. Kenningar Jochums Eggertssonar um örlagabendingar frá Keopspýramídanum ti Íslands eru því alls ekki einstakar. En satt best að segja virðast þær byggjast eingöngu á hugmyndaflugi fremur en stærðfræðiþekkingu.

Flóttinn til Sóleyjar

Hávamál

Úr Hávamálum.

Leið gullmunna til Íslands kortleggur Skuggi á þessa leið í bók sinni „Brísingamen Freyju”: Á 5.-6. öld eftir Krist var aðal gullmunnastarfsemin með aðsetri á eynni Iona í gríska Eyjahafinu, en fluttist svo vegna uppreisna, óeirða og ágengni sjóræningja vestur á bóginn og var sett niður á Suðureyjaklasanum (nú Hebrideseyjar), sem þá töldust til Írlands (er nú kallað Skotland).
Allt var þetta gert samkvæmt örlagabendingum Keopsmerkisins í Egyptalandi, því gullmunnarnir þekktu alla leyndardóma, stærðfræðiútreikninga og örlagabendingar Khúfusar, sem fólgnar eru í pýramídanum mikla. En laust eftir aldamótin 700, þegar norrænir víkingar, er þá og síðar voru yfirleitt nefndir Danir, tóku að herja og ræna vestur á bóginn frá aðalbækistöð sinni á meginlandinu, er enn heitir Normandí í Frakklandi, var höfuðbækistöðin flutt norður til þessa óbyggða eylands, er nú heitir fsland — en hét þá Þúla eða Þýli, sem merkir Sóley, síðar Thule eftir að þ-ið hvarf úr engilsaxnesku stafrófi — og sett niður eftir bendingum Keopsmerkisins, sem enn heitir Krýsavík undir Gullbringum, er Gullbringusúsann (sýslan) ber enn í dag. Víkin við sjóinn,

Gullbringa

Gullbringa í Krýsuvík.

Gamla Krýsavík, er síðan kennd við Chrýsiana, eða gullmunnanna, og ber enn þeirra nafn, þótt nafn höfuðbólsins, Víkurinnar, flyttist síðar, eða nálægt 1340, sakir eldsumbrota, hraunrennslis og eyðileggingar alla leið upp í dalinn milli Gullbringnanna, en það er enn í dag eina óbrunna svæðið á öllu Reykjanesinu.

Vellauðugir og vitrir

Húshólmi

Húshólmi (Gamla-Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir eyðilegginguna var Krýsavík blómlegasta svæði landsins og víða vaxið stórskógi. Í Krýsavík var eftir þetta höfuðbækistöð Krýsanna og síðasta skipulagða starfsemi þeirra í veröldinni, starfandi vitandi vits og í vaxandi gengi allt til haustsins 1054, er gerð var fullnaðaraðför að þeim og þeir ýmist fangaðir eða drepnir. Það var Kolskeggur vitri (Kölski) er þá var aðalforystumaður Krýsa. Undir hans stjórn tók starfsemin öll þeirri stökkþróun, er einsdæmi er, hvar sem leitað er í veraldarsögunni.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Auðugir voru Krýsar sem vænta má: Krýsar áttu mestallt þetta svokallaða „landnám Ingólfs”, er þeir voru drepnir, og miklar eignir aðrar í löndum og lausum aurum, því þeir voru vellauðugir. Meðal annars voru níu hafskip af þeim tekin, en kaupskip þeirra sigldu mest til Suðurlanda og voru aðalviðskipti þeirra við Marseille í Frakklandi, en fóru þó stundum allt til Egyptalands og inn í Niflarósa. Aðalviðskiptastæði þeirra hér og skipalægi voru í Ölvésá við Arnarbæli og Hvítá í Borgarfirði.
Fyrsti biskupsstóllinn á Íslandi, Skálholtsstóll, var stofnaður af reytum þeirra skömmu eftir aðförina, eða nánar sagt árið 1056.

Leiðbeindu Norðmönnum

Hellugata

Forn gata við Krýsuvík.

Nokkrar frásagnir eru á víð og dreif í skrifum Skugga um hvernig Krýsar tóku norsku landnámsmönnunum og leiðbeindu þeim og aðstoðuðu við að taka sér bólfestu. Skýring er á þeim viðtökum: „Ungúlf Arnarson, fyrsta norræna landnámsmanninn, eða fyrsta „Danann”, settu þeir til höfðingja yfir „allan og einasta” byggða hluta landsins, og gerðu allan veg hans sem virðulegastan „til þess eins að þar yrði ekki síðar á leitað með ránum og hernaði”.
En kirkjan og annað erlent áhrifavald hafði horn í síðu Krýsa, sem voru sannkristnari er páfinn í Róm og konungur ránkristninnar, Ólafur digri, að áliti Skugga. Eigi að síður börðust þeir á móti kristninni á sína andlegu vísu og gerðu Ásadýrkun allt til vegs og sóma. Rétt er að reyna ekki að velta of mikið fyrir sér hvernig þetta kemur heim og saman, en í hugarheimi Skugga er kirkja og kristni ekki endilega hið sama og létt fer hann með að gera Jesúm Krist að Krýsa, hvað sem kenningum guðfræðinnar líður.

Kristnir heiðingjar

Sandakravegur

Sandakravegur millum Gömlu-Krýsuvíkur og Vífilsstaða.

Skuggi segir Krýsa hafa verið nokkurs konar kristna heiðingja, örlagatrúar, frelsisunnandi stjórnleysingja, óháða ríki og kirkju. Þeir urðu svo voldugir undir stjórn Kolskeggs, eða Kölska, og yfirburðir þeirra svo miklir að víkingahöfðingja- og kirkjuveldið nötraði og riðaði.
Þar kom að ráðist var að Krýsum, en þeir voru þá orðnir ríki í ríkinu. Höfðingjaveldið safnaði saman tvö þúsund manna liði og fór að Krýsum. Ion Kjarvalsson, sem orðinn var 200 ára gamall, var brenndur inni á Vífilsstöðum og Kolskeggur var ofurliði borinn í Krýsavík, þar sem hann varðist með vösku liði. Hann slapp þó undan á Brimfaxa sínum, arabískum gæðingi, og náðist síðan fyrir sunnan Hafnarfjörð, eftir að hafa sloppið gegnum mörg umsátur. Þar fótbrotnaði hesturinn í hrauni og þar var Kolskeggur veginn eftir vasklega framgöngu. Lík hans var smánað og steglt á stengur. Þar lét Ísleifur biskup Gissurarson síðar reisa kapellu og er hraunið síðan við hana kennt og heitir Kapelluhraun.

Kappella

Kapellan ofan Straums.

Ekki var guðshúsið reist Kölska til heiðurs, heldur vegna þess að þarna var felldur heiðingi, galdraskratti og holdi klæddur djöfull. Áttu vegfarendur að biðjast þarna fyrir.
Ekki voru allir Krýsar drepnir, en þeir sem lifðu voru ofsóttir og illa með þá farið. Samt kváðu hinir bestu menn á Íslandi vera af þeim komnir.
Eftir fall Krýsa varð alger kyrrstaða í hinu forna menningarstarfi, segir Skuggi, og lágu öll ritstörf niðri þar til loks að Ari fróði var orðinn svo ritfær, sextugur að aldri, að biskupar gerðu tilraun með að láta hann gera bók, og þykir höfundi Brísingamens Freyju og fleiri ævintýralegra athugana lítið til koma.

Furðudýr á fjöllum og í sjó

Skrímsli

Skrímsli.

Það land sem Krýsar byggðu var land ævintýra og hefur Skuggi eftirfarandi lýsingu frá Kolskeggi: Hann segir að enn sé mikið af villtum geitfénaði í fjöllum og skógum, einkum í Reykjanesfjallgarði, og að enn verði vart villisvína, sem norrænir menn hafi ekki flutt inn og hann veit engan uppruna að. Segist hvergi hafa séð þau á ferðum sínum utanlands. Þau temjast ekki og séu skæð viðureignar. Um það er sagt eitthvað á þessa leið: „Áður runnu dýr þessi í stærri og minni flokkum frá skógi og í fjörur og svo ill viðskiptis að víggirða varð nokkra bæi á Suðurnesjum fyrir ásókn þeirra. Þau voru eigi stórvaxin, en höfðu vígtennur eða skögultennur í hvofti og beitu þeim sem vopni.”

Thule

Thule.

Þá segir að Krýsar hafi ferðast með ströndum fram og jafnvel yfir höfin í skinnbátum, sem kallaðir voru „briamar”. Það er sama og Brjánn, Brjánslækur og ættarnafnið Briem er þaðan dregið. Brian (bátur) er algengt mannsnafn á Írlandi.
Skinnbátana gerðu Krýsar af húðum sædýrs af spendýrakyni, er þeir nefndu þangkú, hafmær eða sírenu, en Austmenn nefndu skrumsl (skrýmsli). Segir Kolskeggur mikið af þessum dýrum hafa verið við landið, en þau séu horfin á hans dögum og harmar það mjög.
Dýrið var búið öllum þeim kostum sem voru mönnum gagnlegri til flestra hluta en nokkurt annað dýr sem í sjónum býr.

Thule

Thule?

Dýrið var svo gæft að það kunni ekki að hræðast og hafðist við á grunnsævi við sker og flúðir og lifði eingöngu af þangi og fjörugróðri. Dýr þetta hafði tvenn húðlög og var hvítt fitulag, betri en öll önnur feiti, milli húðlaganna. Ytri húðin var miklu þykkari og ekki ósvipuð trjáberki, en seig og óslítandi.

Var þessi ytri húð tekin af dýrinu í heilu lagi og réð stærð dýrsins bátsstærðinni. Var baklína dýrsins höfð fyrir kjöllínu bátsins, en sporðurinn, er látinn var fylgja, gerði stýrið.
Skuggi lýsti ágæti þessa farartækis í löngu máli, sem hafði yfirburði fram yfir aðra þekkta báta eða skip.
Fleiri dýr koma við sögu, því Krýsar fluttu með sér arabíska hesta til landsins og úlfalda notuðu þeir til að flytja varning á landi.

Kellingar varðveita bókmenntir

Galdrahver

Galdrahver – galdrastafir.

Faðir Kolskeggs hins vitra var Úrban Colombos, sem var ráðsmaður flota Krýsa og sat hann á Vífilsstöðum. Móðirin hét Sigrún og var 14 ára gömul ambátt, þegar hún ól sveininn, en faðirinn var þá orðinn aldraður. Sigrún var afbragð annarra kvenna að mannkostum og atgjörvi og var aldrei við karlmann kennd eftír að hún ól Kölska. Varð hún mikil virðingarmanneskja og stóð fyrir búi í Gömlu Krýsavík. Þegar aðförin var gerð að Krýsum, var hún sögð hafa bjargað öllum handritunum og þar með norrænni menningararfleifð. Hún kom þeim í jarðhýsi eitt um leynigöng, neðanjarðar, en lét sjálf lífið í reyk og svælu er bærinn var brenndur af innrásarmönnum. Fannst hún dauð löngu síðar í undirganginum. En þessari miklu dáð hinnar stórbrotnu konu var þó ekki meira á lofti haldið en svo, að hún var í minningum verka sinna kölluð: „Sigrún kelling” eða „Krýsa kelling, sú er í svælunni kafnaði”, skrifar Skuggi af mikilli foragt.

Galdrastafur

Galdrastafur.

Hér má minna á að annar höfundur lætur kellingu varðveita bókmenntalegan dýrgrip í frægu skáldverki. Það er þegar móðir Jóns Hreggviðssonar dregur blöð úr sjálfri Skáldu upp úr bosi sínu á Rein. Hvar Skálda er núna niðurkomin veit enginn og ekki annað um það sem í henni stóð, en ævintýralegar sögur, sem voru fremur draumsýnir en sagnfræði, eða jafnvel skáldskapur. Enginn spyr um sannfræði þeirrar sögu, en á sínum tíma var heimtað að Skuggi legði fram gömul skinnhandrit og rúnir til að sanna sinn skáldskap, annars væri hann ómerkur.
En Jochum Eggertssyni var sama. Hann þurfti ekki að sanna sitt mál fyrir öðrum en sjálfum sér. Töflur þær og skinnpjötlur, sem hann segist hafa fróðleik sinn úr, eru hvergi finnanlegar og ekki til nema í hans eigin hugarheimi. Þær eru draumar sveitapiltsins að vestan um fagurt mannlíf í landi þar sem lífsbaráttan var ljúf og andlega lífið nærri fullkomnun.” -OÓ tók saman.

Krýsa og Herdís

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

“Fleiri sagnir eru til um landnám Krýsuvfkur og hvernig örnefnið er til komið. Hér fer á eftir útgáfa Brynjúlfs Jónssonar: Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á landnámstíð, því að fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögu, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það, sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs. Þó hefur það verið sagt.

Dysjar

Dysjar Herdísar og Krýsu við götuna um Kerlingadal.

Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein, er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefur spúið eldi, því í honum er gígur ekki alllítill og úr honum hefur runnið hraun það, er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust (höfðu í heitingum), og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður, þó hvorug hefði vel. Þangað til hafði verið veiði mikil í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni. Herdís mælti svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur. Þá lagði Krýsa það á, að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja, að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.

Herd´siarvík

Herdísarvík – tóftir elsta bæjarins undir Búrkletti..

Þetta gekk allt eftir. Bærinn í Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn, svo hann varð að flytja úr stað, og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís. Þá komu sjómenn með skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana, þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi, og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.
Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og. Herdísar) eru tveir steinar, sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.”

Heimildir:
-Dagur-Tíminn, 200. tbl.- Íslendingaþættir, 19.10.1996, Frumbyggjar Íslands, Krýsanir, bls. 4.
-Vikan, 36. tbl. 05.09.1963, Krýsar, Nýjar kenningar um landnám Íslands, Var Ingólfur Arnarsson gabbaður til Reykjavíkur, Þór Baldurs tók saman, bls. 6-9 og 36-37.
-Dagur-Tíminn, 200. tbl.- Íslendingaþættir, 19.10.1996, Frumbyggjar Íslands, Krýsanir, bls. 4-5.
-http://hreinberg.is/?p=1277

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi.