Tag Archive for: Krýsuvík

Krýsuvík

Hér verður fjallað um „Krýsuvík“ út frá samantekt Óbyggðanefndar frá árinu 2004 um úrskurð vegna Grindavíkur og Vatnsleysustrandar. Samantektin felur í sér gagnlegar heimildir um búsetu í Krýsuvík sem og mörk jarðarinnar.

Í kirknaskrá frá árinu 1200 kemur fram að kirkja sé í Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1275 segir að kirkjan eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix. mæla land a þorkotlustödum“.
Í máldaga Krýsuvíkur frá því um 1307 segir að kirkjan eigi: „…heimaland allt. Herdysarvijk. ix. mæla land aa þorkotlustodum“.
Máldagi frá 1367 er samhljóða, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, III. b. s. 222.
Í máldaga Krýsuvíkurkirkju frá 1375 kemur fram að henni hafi verið ánafnaður fjórðungspartur í jörðinni Vatnsleysu [ekki kemur fram við hvaða Vatnsleysu er átt en ljóst er af öðrum heimildum að það er sú á Vatnsleysuströnd].

Krýsuvík

Krýsuvík á 18 öld.

Í visitasíu sem gerð var í Krýsuvík árið 1395 stendur eftirfarandi: „… Reiknadist svo micid goss kirkiunnar j Krýsuvijk ad auk fornra maldaga vc. portio vmm .ij. är hälf .xiiij. alin“ …
Máldagi frá því um 1477 er samhljóða máldagnum frá 1375, sbr. Íslenzkt fornbréfasafn, VI. b. s. 124.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: „… kirkian kryssvvik ætti þar j xc“ …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.
Máldagi frá 1553-54 var samhljóða þeim fyrrum, sbr. Íslenzkt, XII. b. s. 662.
Þann 27. september 1563 á Bessastöðum var sóknarkirkja í Krýsuvík lögð niður að beiðni Gísla biskups Jónssonar.
Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir að kirkjan í Krýsuvík eigi: „…heimaland alltt. Herdijsarvijk. ix mælaland ä Thorkøtlustödum.”

Fjallið eina

Fjallið eina.

Í kjölfar þess að ágreiningur reis um landamerki Krýsuvíkur í upphafi 17. aldar vitnuðu nokkrir aðilar um merkin síðla árs 1603 og snemma árs 1604. Tvö vitni gáfu samhljóða lýsingu á landamerkjum Krýsuvíkur sem byggð var á vitnisburði þriðja manns53 26. desember 1603. Lýsing vitnanna var svohljóðandi:

Lyngskjöldur

[Lyng]Skjöldur.

„… Krýsuvík ætti austur frá sér allt land að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum, og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Breiðdal og vestur í Markrakkagil. Úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina. Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett við Selatanga“. Tveir menn gáfu nánast samhljóða vitnisburð. Sá vitnisburður var efnislega á þessa leið: „Krýsuvík á land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og sjónhending þaðan suður í sjó. Síðan sjónhending úr Skildi og í miðjan Breiðdal, úr Breiðdal og vestur í Markrakkagil, úr Markrakkagili og vestur yfir Sliturin fyrir norðan Fjallið eina.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju og fram eftir Selsvallarhálsi [annar aðilinn segir Selsvallarhálsi en hinn segir Selsvallakálfi] og suður í Raufarklett sem stendur við Seltanga“.
Samkvæmt einu vitnanna: „á Krýsuvík austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“. Sem staðfestingu á framburði sínum greindi vitnið frá því að það hefði eitt sitt heyrt menn segja að: „… Krýsuvík ætti land allt austur yfir hvert hraun að liggur fyrir austan Geitahlíð“.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Sjötta vitnið greindi frá því að það kannaðist ekki við annað en að: „Krýsuvík ætti land allt austur á eystri hraunsbrún á hrauni því sem liggur fyrir austan Hlíðarhorn“. Til þess að styrkja frásögn sína greindi vitnið frá því að það hefði heyrt að á þeim tíma sem séra Guðmundur hélt Krýsuvíkurstað hefði það verið almæli allra manna að hraunið væri Krýsuvíkureign með réttu.
Að sögn sjöunda vitnisins átti Krýsuvík: „… land allt að steini þeim sem stendur uppá fjallinu hjá Skildi og þaðan sjónhending suður í sjó“.Sýslusteinn

Sýslusteinn: Steinninn.

Vitnið kvaðst einnig hafa heyrt að: „… Krýsuvík ætti land allt að Skildi og sjónhending suður í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði, hvert vatnsstæði, eður leirtjörn þó upp þornar á sumarið, og ættu þessir sömu steinar að standast á“.

Litla-Hraun

Krýsuvíkursel í Litla-Hrauni ofan Krýsuvíkurbjargs.

Einnig hafði vitnið heyrt að: „… það hefði ætíð verið almæli allra manna, að selstaða ætti að leggjast frá Krísivík til Herdísarvíkur en frá Herdísarvík skyldi koma skipstaða“.
Árið 1629 er vottað, að árið 1621 hafi Skálholtsbiskupi verið afhentir vitnisburðir þriggja vitna. Eru þeir meðal kirkjuskjala Staðar í Grindavík og hljóða svo: „… að Krísivík … ætti austur frá sér land allt að Skildi og þaðan sjónhending austur í sjó í þann stein sem stendur fyrir vestan þann hellir sem er framan í berginu við vatnsstæði eður leirtjörn, hvör leirtjörn þó uppþornar stundum. Og aftur sjónhending úr Skildi í miðjan Leirdal vestur í Markagil, úr Markagili vestur yfir Slitrin fyrir norðan Fjallið eina, þaðan sjónhending og í Dyngju, úr Dyngju þeirri og frameftir miðjum Selsvallahálsi, úr hálsinum og suður í Raufarklett [ofan Dágons] við Selatanga“.

Krýsuvík

Krýsuvík 1910.

Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var jörðin Krýsuvík vísiteruð. Hluti skýrslunnar sem unnin var eftir vísitasíuna fer hér á eftir: „Mariukyrkia ad Krÿsivÿk ä ad mäldógum heimaland allt Herdïsar vÿk 9 mæla land ad Þorkótlustodum … För þetta alltt framm i Krÿsivÿk Anno 1642“. (Undir þetta rita Þorsteinn Erlingsson, Hallur Árnason, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson).

Krýsuvík

Krýsuvík 1936.

Þrjátíu og sex árum eftir að Brynjólfur Sveinsson stóð fyrir vísitasíu í Krýsuvík var kirkjan vísiteruð af nýjum biskupi. Þá var Þórður Þorláksson biskup í Skálholti. Í vísitasíunni, sem fór fram 28. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: „… Mariæ kkia ad Krysivÿk hefur att ad fomngilldu … heima land allt Herdÿsarvyk …et, Enn er nu eigninn óll kominn undir Skalhollts domkkiu og henni til dæmd af hófudzmannj Pälj Stïgssyni og hr. Gisla Jonssyni med tilftardömi, huad þessi kyrkia hefur framar átt i rekum og i sókum utvysa maldagar sem eru i Skalholltj“. (Undir þetta rita Bjarni Jónsson, Eiríkur Magnússon, Bjarni Sigurðsson, Jón Jónsson og Árni Gíslason).
Jörðin Krýsuvík var metin árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Krýsuvík eigi hjáleigurnar Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Norðurhjáleigu, Suðurhjáleigu og Austurhús. Þar stendur einnig eftirfarandi: „Skógur lítill þó til kolagjörðar fyrir ábúendur og líka að nokkru leyti til eldiviðar. Afrjett fyrir jaðarinnar pening nægileg, en er þó öngvum burtu ljeð“.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Í kaflanum um Austurhús kemur eftirfarandi fram: „Selstöður tvær á jörðin, aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar. Og mega þær nýta hjáleigumenn og bóndi“.
Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Selstöðu brúkar jörðin og hefur lengi brúkað í Krýsivíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsivík, en Krýsivík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustaða landi. Er selstaðan að sönnu góð, en miklega lángt og erfitt til að sækja“.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Krýsuvík vísiteruð á nýjan leik 18. ágúst 1703. Í vísitasíubókinni er ekki að finna neinar gagnlegar upplýsingar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Krýsuvík þann 8. maí 1723. Í vísitasíunni er staðfest það sem fram kom í vísitasíunni árið 1642 um jarðeignir Krýsuvíkur: „Anno ut supra þann 8. Maji var visiterud kirkiann ad Krysuvik. Hún ä epter visitatiu herra Gisla Jónssonar heimaland allt, Herdysarvik, ix mäla land ä Þorkótlustódum“ … (Undir þetta rita Halldór Einarsson, Arngrímur Bjarnason, Jón Magnússon, Ólafur Gissursson og Jón Bjarnason).

Þótkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Rúmum 28 árum síðar, nánar tiltekið þann 10. júní árið 1751, var Krýsuvík vísiteruð af Ólafi Gíslasyni biskupi í Skálholti. Í visitazíunni er minnst á jarðeignir sem voru einnig í eigu Krýsuvíkur er vísitasíur voru gerðar þar árin 1642 og 1723 þ.e.: „… heimaland allt, Herdysarvÿk, 9 mæla land ad Þorkótlustodum“ … (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Sigurður Sigurðsson, Sigurður Ólafsson, Magnús Jónsson, Jón Sigmundsson).
Þann 28. maí 1758 var Krýsuvík vísiteruð af .Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „… visiterud kkian að Krysuvik Hun á efter þeim gomlu maldogium heimaland allt enn nu orden stols Jord. Efter Vilchins maldaga a hun, alla Herdysarvyk, ix mæla lands a Þorkotlustódum … Enn efter maldaga Gísla bps. á hun Herdysarvyk og ix mäla land á Þorkotlustodum …” (Undir þetta rita Finnur Jónsson, Jón Magnússon, Jón Sigmundsson og Sigurður Sæmundsson).

Mígandagróf

Mígandagröf.

J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að stólsjörðin Krýsuvík hafi verið seld þann 8. ágúst 1787. Þann 26. júní 1790 er gefinn vitnisburður um landamerki Krýsuvíkur. Þar greinir sá sem skrifar undir lýsinguna frá því að hann hafi: „… heyrt af vissum mönnum, sem hér í Krísivík hafa verið, um landamerki þau, sem heyrt hafa henni, Krísivík, til, eru svoleiðis: Úr Raufarklett á Selatöngum og í Trölladyngju, úr Trölladyngju og í Gráhellu, úr Gráhellu og í Markrakkagil, úr Markrakkagili og Mígandagröf á fjalli, úr Mígandagröf á fjalli og í stein á Herdísarvíkurfjalli, úr þeim steini og á Seljabótarnef við sjó“. Landamerkjalýsing þessi er staðfest af tveimur mönnum.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

Um mitt ár 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Krýsuvík vísiteruð. Í greinargerðinni sem samin var vegna þessarar eftirlitsferðar kemur eftirfarandi fram: „Anno 1800 þann 1sta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Krysevík; hun hefur ad fornu átt heimaland allt, sídann var hun i meir enn 200 ár, Skálhollts Biskupsstolls, égn, og er nu loks, asamt ödrum Biskupstólsins fastégnum, ásamt jördinni, af Kongl. Hátign burtuseld, svo hun er nu bónda egn – hún á alla Herdisarvik, ix Mælira lands á Þorkötlustodum“ … (Undir skrifa: Arne Nathanaelss., Geir Vidalin, B. Sveinson, Gudmundur Þorsteinsson).

Krýsuvík

Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Krýsuvík með hjáleigunum Suðurkoti, Norðurkoti, Stóra–Nýjabæ og Litla–Nýjabæ í jarðamati 1804 stendur að: „Jorden har god Udegang for Faar og Heste, af de sidste indtages nogle fra Fremmede mod Betaling 1 rdlr. aarlig. Tillige ejer den Sætter til Fiælds, hvoraf for nærværende, ogsaa 2 andre Jorde betjene sig, mod Betaling 20 al. aarlig af hver. Endelig findes her en god Svovelmine som dog ej benyttes, da ureenset Svovel ikke finder Afsætning, og kan dette derfore ikke evalueres“.

Stóribolli

Krýsuvík: Kóngsfell / Konungsfell / Stóri-Bolli.

Í athugasemdum um Krýsuvík segir, sem gilda mun um sýsluna í heild: „Paa Grund af at Udegang for Beder i Almindelighed her i Sysselet saa god, at disse Kreature, de fleste Vintere (undertiden endog Faar og Lam) blot eller da for det meste leve ved at gaae ude, haves desuden de færreste Stæder i nogen betydelig Mængde, uden hvor Udegangen er fortrinlig god, saa formeenes Nedsættelse af denne Herlighed ikke fornöden, uden i Fölge særdeles Omstændigheder, der da paa vedkommende Stæder skal blive anmærket“.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Þann 12. ágúst 1838 seldi Erlendur Jónsson á Brunnastöðum P.C. Knudtzon jörðina Krýsuvík. Henni fylgdu hjáleigurnar Stóri – Nýibær, Litli – Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Austurhús og Vesturhús og tvær nýlendur; Vigdísarvellir og Garðshorn.
Árið 1839 settist Einar Þórðarson að á nýbýlinu Bala sem var nálægt bænum Vigdísarvöllum en þar bjó bóndinn Jón Þorsteinsson. Hann var ósáttur við veru Einars á Bala og þann 20. maí 1840 samdist þeim Einari um að sá síðarnefndi myndi flytja frá Bala á næstu fardögum.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Bali: uppdráttur ÓSÁ.

Bali er þó talinn meðal hjáleigna Krýsuvíkur í Jarðatali Johnsens og Nýrri jarðabók eins og síðar verður nefnt en ekki hefur verið kannað í sóknarmannatölum hvernig búsetu var háttað þar.
Í sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er að finna lýsingu Páls Melsted, frá árinu 1842, á mörkum Árnessýslu annarsvegar og Gullbringu- og Kjósasýslu hinsvegar: „Sá syðsti punktur takmarkanna millum Árness- og Gullbringusýslu eru þeir svonefndu Sýsl[u]steinar undir Geitahlíð millum bæjanna Herdísarvíkur, sem heyrir til Árnessýslu og Krýsivíkur, sem tilheyrir Gullbringusýslu. Frá Sýslusteinum ganga sýslutakmörkin beina stefnu yfir fjallið nálægt Vífilfelli til ens stóra steins austan undir Lyklafelli, sem nefnist Sýslusteinn; þaðan beina stefnu í Borgarhóla á Mosfellsheiði; þaðan í Syðri – Moldbrekkur; þaðan í Rjúpnagil millum bæjanna Stardals í Kjósar- og Stíflisdals í Árnessýslu: þaðan í vörðu, sem hlaðin er á Stóra – Sauðafelli; þaðan í Sýsluhólma í Stóru – Laxá; þaðan í Steinkirkju; þaðan í Súlur“.

Garðar

Garðar um 1900.

Í lýsingu Garðaprestakalls í ritinu Landnám Ingólfs, Sýslulýsingar og sóknalýsingar, stendur eftirfarandi: Hverjir bæir eiga selstöður etc? Svar: Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit ég og, að nú brúkar enginn hér selstöður og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöður héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 til 60 ár.

Krýsuvík

Krýsuvík – Norðurkot (tilgáta ÓSÁ).

Samkvæmt bókinni Jarðatal á Íslandi, sem gefin var út 1847, fylgja Krýsuvík sjö hjáleigur Suðurkot, Norðurkot, Stóri – og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali og Lækur.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: „Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum ínytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu“.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq.brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Manntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Í bókinni „Ný jarðabók fyrir Ísland” frá árinu 1861 kemur fram að Krýsuvík fylgi átta hjáleigur; Suðurkot, Norðurkot, Stóri- og Litli – Nýibær, Vigdísarvellir, Bali, Lækur og Fitjar.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í byrjun janúar 1870 sendi sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps fyrirspurn um það hvort að tiltekin maður, sem sýslumaðurinn taldi búsettan á Vigdísarvöllum, væri heimilisfastur í Vatnsleysustrandarhreppi. Ástæða fyrirspurnarinnar var sú að téður maður hafði neitað að greiða tíund í Grindavík á þeirri forsendu að hann hefði greitt hana í Vatnsleysustrandarhreppi. Í svarbréfi til sýslumannsins greindi hreppstjórinn frá því að hann teldi manninn heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó hann flytti sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hefðu í seli á Selsvöllum.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki þessara tveggja jarða á Mosfellsheiðinni. Málið fór fyrir dóm og voru þar lögð fram margvísleg gögn. Þann 22. september 1873 var vitnisburður Árna Björnssonar, frá 9. september 1869, um sýslumörk milli Gullbringu- og Kjósarsýslu samhliða Borgarfjarðarsýslu annars vegar og Árnessýslu hins vegar lagður fram: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í hæst Vífilfell, þá yfir Lyklafell, Borgarhóla og í Rjúpnagil,“ …

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þá voru einnig lagðir fram vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, frá 29. júlí 1869, og Guðmundar Jakobssonar, frá 26. apríl 1871, um mörk Árnes- og Gullbringusýslu (og Kjósarsýslu).
Í vitnisburði Ingimundar stóð eftirfarandi: „Sýslusteinn í Krýsuvíkurbergi. Þaðan fjöll norður í Kóngs fell. Þá yfir Likla fell, (hvar stór steinn stendur norðanvert við fellið sem þeir kölluðu alt til sýslustein.)“ …

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Í vitnisburði Guðmundar kom eftirfarandi fram: … endamork, að sunnan, væri i svo kallaðan sislu stein, undir geitahlið, og beina stefnu eftir há fiöllum til Norðurs, sem þá væri um hærst Vifil fell …
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi.

Þann 20. nóvember 1886 var skrifað undir landamerkjalýsingu jarðarinnar Herdísarvíkur. Lýsingunni var þinglýst 3. júní 1889: „Maríu kirkja í Krýsuvík á í Arnessýslu samkvæmt máldögum jörðina Herdísarvík“.
Landamerki Herdísarvíkur eru þau er nú skal greina: … að vestanverðu, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur ræður mörkum stefnulína frá áður nefndu Kongsfelli í Seljabótarnef lágan hraunhnúk, vestast í Seljabót, við sjó fram. –
Kirkjan á … sömuleiðis allar landsnytjar innan hjer taldra ummerkja, með þeim takmörkunum, er síðar greinir (sbr. No 2). …
Landamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní s.á.:

Dágon

Dágon á Selatöngum.

1. að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan: úr Markhelluhól sjónhending, norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (= Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
3. að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, s: [þ.e.] sjónhending úr Kongsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. að sunnan nær landið allt að sjó.

Sogasel

Sogasel.

Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Þar stendur einnig: „Þess skal hjer getið, að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem jeg ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigendur orðið ásáttir um landamerki þau, sem hjer eru talin“.

Krýsuvík

Krýsuvík; brennisteinsnámur – Olafur Olavius. Tóftir eru merkar b og c. á uppdráttinn.

Landamerkjabréfið er samþykkt af eigendum Ísólfsskála, Hrauns og Vatnsleysulands, eigendum og umboðsmönnum Knarrarnesja og Ásláksstaða, eigendum og umráðamönnum Brunnastaðatorfu, eiganda Þórustaða og Landakots og eiganda og umboðsmanni Auðnahverfis og 1/3 Breiðagerðis auk umboðsmanns skólasjóðsins. Það er einnig samþykkt af forráðamönnum Óttarsstaða og Strandarkirkju og umboðsmanni Hlöðunesstorfu svo og Garðapresti. Nokkrir þeirra sem skrifuðu undir gerðu athugasemdir við landamerkjabréfið. Umboðsmaður jarðanna Staðar og Húsatópta skrifaði: „Hinsvegar skráðum landamerkjum Krýsuvíkur verð jeg að mótmæla hvað 1. tölulið snertir um sjónhending úr Dagon í Trölladyngju fjallsrætur að vestan þar jeg hefi aldrei annað heyrt frekar, en Krýsuvík ætti land úr Dagon, eptir Núpshlíð og vesturfjallgarði áfram N – austur eptir, en að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu” að vestanverðu“.

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið. Á honum er mosagróin varða.

Eftirfarandi athugasemd kom frá eigendum og umboðsmönnum Hvassahrauns: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfis leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sje settur „Markhelluhóll”. Að öðru leyti samþykkt“.

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.

Fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands lét líka skrá niður athugasemd: „Framanskráðu landamerkjaskjali er jeg samþykkur sem fjárráðandi Kálfatjarnarkirkjulands, að undanskildum tölulið 2. í ítökum Kirkjunnar þ.e. Krýsuvíkurkirkju, þar eð Kálfatjarnarkirkju er í máldögum eignaður allur reki á Selatöngum; mótmæli eg þessvegna nefndum tölulið 2“.
Í lok landamerkjabréfsins er eftirfarandi athugasemd: „Af ókunnugleik mínum hef jeg látið sýna landamerkjalýsingu þessa sumum, sem engan eignarrjett hafa yfir landi við landamerkin að vestan (jeg vildi vera viss um að engum yrði sleppt, sem land ætti að), t.d. Grindavíkurpresti, eigendum Brunnastaðatorfunnar o.fl., svo ekki verður af undirskriptunum einum ráðið, að hinir undirskrifaðir eigi allir land að landamerkjum Krýsuvíkur, og verður það bezt sjeð á merkjalýsingum þeirra þegar þær koma í ljós, svo hinar óþörfu undirskriptir þurfa engan vafa eða misskilning að gjöra. Á. Gíslason.

Markhelluhóll

Markhella.

Landamerkjabréf fyrir Garða var undirritað 7. júní 1890 og þinglýst tveimur dögum síðar. Í því kemur eftirfarandi fram: „þaðan til austurs landsuðurs í miðt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakagil) í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar- og Áslönd í Steinhús“.

Kringlumýri

Kringlumýri – áður óþekktar minjar í beitarlandi Krýsvíkinga.

Á hreppsnefndarfundi Grindavíkurhrepps, sem haldinn var 9. mars 1895, var ákveðið að hafna kröfu eiganda og ábúanda Krýsuvíkur um að hrossa- og sauðfjáreigendur í Grindavík greiddu sér hagatoll fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandareign. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að sárafátt fé Grindvíkinga hefði beit í Krýsuvíkurlandi enda hefðu þeir nóg upprekstarland.
Árið 1911 sendu ábúendur Krýsuvíkur hreppsnefnd Grindavíkur bréf þar sem þeir kröfðust greiðslu fyrir sumarbeit í Krýsuvíkurlandi. Þann 25. júní 1911 tók hreppsnefnd Grindavíkur þetta bréf fyrir. Á fundinum kom fram óánægja með kröfuna því að Grindvíkingar hefðu í mörg ár hjálpað Krýsuvíkingum við smölun vor og haust og sú aðstoð hlyti að teljast nægileg greiðsla fyrir sumarbeitina. Eftir að hafa rætt málið komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að þeir væru tilbúnir að greiða fyrir beitina en þá myndi hreppurinn líka draga úr þjónustu sinni. Hreppsnefndarmenn voru tilbúnir að greiða ábúendum Krýsuvíkur 50 kr, en þá myndi falla niður hjálp við haustsmölun, eða 30 kr auk aðstoðar við smölun á Vigdísarvöllum.

Krýsuvík

Stóri Nýibær í Krýsuvík.

Í fylgiskjali nr. 8. b. með hreppsreikningi 1910 – 1911 kemur fram greiðsla fyrir sumarbeit í Krýsuvík, 50 kr.
Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Krýsuvík kemur fram að útbeit sé heiðarland og hraun og að jörðinni fylgi hjáleigan Stóri – Nýibær.
Fasteignabók 1921 minnist ekki á að Krýsuvík fylgi nein hjáleiga þótt enn hafi verið búið í Stóra-Nýjabæ.

Seltún

Mynd frá hverasvæðinu í Seltúni í bók McKanzie.

Í kaflanum um Krýsuvík í fasteignamati árið 1932 kemur m.a. fram að þar sé ekkert beitarland nema heimaland jarðarinnar. Þar segir einnig að á jörðinni sé góð mótekja og að þar séu hverir og jarðhiti. Einnig kemur þar fram að landamerki séu ágreiningslaus.
Í fasteignamati 1932 er sérkafli um jörðina Stóra–Nýjabæ sem er hjáleiga frá Krýsuvík. Meðal þess sem þar er greint frá er að býlið hafi ekkert upprekstrarland enda hafi jörðin næg beitilönd. Þar kemur einnig fram að býlið hafi mótak og að hverir séu í landi jarðarinnar. Síðan segir að býlið hafi eggjatekju og fuglaveiði á litlum parti í Krýsuvíkurbjargi. Í kaflanum er einnig greint frá því að býlið hafi óskipt beitiland við Krýsuvík og að merki séu glögg á engjum og túnum. Stóri–Nýibær hefur engin ítök og landamerki býlisins eru óumdeild.

Seltún

Seltún 1977.

Íslenska ríkinu var heimilað með lögum nr. 11 1936 að taka jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ eignarnámi. Var skipuð sérstök matsnefnd til þess að ákvarða bætur. Skilaði nefndin matsgerð dagsettri 4. nóvember 1936. Í matsgerðinni er litið til landamerkjaskrár 14. maí 1890 og segir nefndin landamerkin virðast ágreiningslaus.
Um jörðina segir nefndin: „Jörðinni Krýsuvík hafa fyrrum fylgt 7 hjáleigur (sbr. Jarðatal Johnsens bls. 84), en allar hafa þær verið lagðar undir aðaljörðina, nema Stóri-Nýjabær, sem verið hefur í sjálfstæðri byggingu fram á síðustu ár, en er nú í eyði, eins og segja má, að sjálft aðalbólið, Krýsuvík, sé líka.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Um óræktanlegt land Krýsuvíkur segir: „Það er, sem fyrr er sagt, að miklu leyti fjöll, hraun og sandar“. [Áður sagt í matsgerðinni að það yrði aðeins notað sem afréttarland]. En það er þó víða dágott sauðland, enda hafa ábúendur á jörðum þessum verið sauðmargir löngum, miðað við það, sem hér á landi hefur tíðkazt. En auk fjár ábúenda Krýsuvíkurtorfunnar hafa víst ýms eða flest byggðarlög þar syðra haft not landsins til sumarhaga fyrir sauðfé sitt, enda er svo látið um mælt í 1. málsgr. 2. gr. laga nr. 11/1936, að afhenda skuli Gullbringusýslu lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé, þegar ríkið hafi tekið lönd þessi eignarnámi.

Krýsuvík

Krýsuvík – Seltúnssel sett inn á mynd (ÓSÁ).

Óræktanlega eða lítt ræktanlega land jarðanna er því vitanlega nokkurs virði. Það, sem næst Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ liggur, en það virðist vera gott sauðland víða, mundi að sjálfsögðu verða notað til vetrar- vor- og hausthaga fé því, er nytjendur þeirrar byggðar, sem þar mundi rísa upp, kynnu að hafa. En það af landi þessu, sem fjær liggur, til upprekstrarlands fyrir sauðfé ýmsra hreppa Gullbringusýslu. Það er um þenna hluta lands Krýsuvíkurtorfunnar sem önnur gögn hennar, að erfitt er að ákveða verð þess. En kunnugt er það, að upprekstrarlönd hafa verið seld hér á landi fyrir meðaljarðir eftir því, sem þá tíðkaðist, og þekkir einn okkar undirritaðra slíkt dæmi. Þess skal getið, að Vigdísarvellir eru hér með taldir. Er þar að vísu gamalt túnstæði, talið 5 ha., en annars er þar ekki eða lítt ræktunarhæft land. Óræktanlega eða lítt ræktanlega landið þykir mega áætla 5000,00 -fimm þúsund- króna virði. Matsnefndin ákvað landamerki land þess, sem selja skyldi Hafnarfjarðarbæjar, á fundi 1. maí 1939 og var það selt samkvæmt þeim mörkum árið 1941.

Vesturengjar

Vesturengjar.

Þann 15. maí árið 1939 hafnaði sýslunefnd Gullbringusýslu beiðni Ingólfs Sigurjónssonar á Jófríðarstöðum um að fá að leigja land á gamla túninu á Vigdísarvöllum undir nýbýli. Rök sýslunefndarinnar voru þau að ekki væri hægt að minnka landið sem sýslunni væri ætlað til sauðfjárbeitar úr Krýsuvíkur- og Nýjabæjarlandi.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Þann 20. febrúar 1941 seldi ríkissjóður Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Krýsuvíkur og Stóra–Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfunni). Hið selda land afmarkaðist af eftirfarandi landamerkjum: „Að vestan, beina stefnu í norður úr Hælsvík í Borgarhól, þar sem hann er hæstur, úr Borgarhóli eftir Sveifluhálsi í vestustu vík Kleifarvatns, að ber í ysta odda Hvammholtstanga. Að norðan ræður Kleifarvatn, í syðsta odda víkur þeirrar, er gengur úr vatninu vestan við Geithöfða og að austan þaðan beina stefnu í rjettvísandi suður til sjávar, í Keflavík. Að sunnan ræður sjór þó þannig, að óhindraður umferðarrréttur áskilst Gullbringusýslu fyrir búpening og til annarar umferðar, um svæði upp frá sjó, er sé a.m.k. 60 metrar á breidd, enda séu engar girðingar eða umferðarhindranir á þeirri leið. Hafnarfjarðarkaupstaður fékk einnig eignarráð yfir hitaveituréttindum í allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til að notfæra sér þau, líka afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu. Hann mátti þó ekki setja girðingar meðfram vatninu nema fyrir sínu landi“.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal.

Einnig fékk Hafnarfjörður í hendur þau réttindi og skyldur sem fylgdu ítökum Krýsuvíkurtorfunnar í annarra manna löndum og ítökum annarra í löndum Krýsuvíkurtorfunnar. Þessu ákvæði fylgdi sú undantekning að eigandi námuréttinda á landssvæðinu hélt sinni eign og átti hann samkvæmt afsalsbréfinu að hafa óhindraðan umferðar- og afnotarétt af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar. Í afsalsbréfinu kemur einnig fram að ríkissjóður skyldi hafa rétt til að kaupa síðar þau hitaréttindi, sem hann kynni að þurfa í sambandi við námurekstur eða annað, og Hafnarfjarðarkaupstaður þyrfti ekki á að halda til sinna þarfa.

Krýsuvík

Krýsuvík; Starfsmannahúsið (gult) og Bústjórahúsið (Sveinssafn).

Landbúnaðarráðherra skrifaði þann 29. september 1941 undir afsalsbréf þar sem hann, fyrir hönd ríkisins, seldi sýslusjóði Gullbringusýslu allt lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra – Nýjabæjar (Krýsuvíkurtorfan) til sumarbeitar fyrir sauðfé. Undanskilið sölunni var land það sem ríkið hafi selt Hafnarfjarðarkaupstað þann 20. febrúar sama ár.
Kaupunum fylgdu heldur ekki önnur afnot af svæðinu, ítök og hlunnindi. Þeir sem áttu þau gæði höfðu samkvæmt afsalsbréfinu rétt á óhindruðum umferðarrétti á svæðinu og aðstöðu til að notfæra sér þau.

Markrakagil

Markrakagil.

Í Fasteignabók 1942-1943 er Krýsuvík með Stóra-Nýjabæ sögð í eign og ábúð eign Hafnarfjarðarbæjar, en beitilandið eign sýslunnar [þ. e. Gullbringusýslu].
Í lögum nr. 31 1959 um breytingu á lögum nr. 33 1929 um bæjarstjórn í Hafnarfirði. Í 1. grein er lýst takmörkum kaupstaðarsvæðisins: … 10. Þá lína í markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. 11. Þaðan í Lækjarbotna. 12. Þá í Gráhellu. 13. Þaðan í miðjan Ketshelli. 14. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplatór (Strandartorfur). 15. Þaðan bein lína í Markraka. 16. Þaðan bein lína um Melrakkagil (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. 17. Meðfram Krýsuvíkurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. …
Á sjöunda áratug síðustu aldar reis upp ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnafjarðarbæjar. Í þessu máli tókust á annars vegar Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla og hins vegar Hafnarfjarðarbær. Deila þessi fór fyrir landamerkjadóm Gullbringu- og Kjósarsýslu sem kvað upp dóm sinn 14. desember 1971. Niðurstaða dómsins var eftirfarandi:

Kóngsfell

Litla-Kóngsfell nær, Miðbolli fjær.

Norðurmörk jarðarinnar Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi skulu vera þessi: „Bein lína frá vörðu á Markhelluhól …. um punktinn M á uppdrætti af landinu, sem fylgir dómnum [fylgir ekki með], … að vesturmörkum Herdísarvíkur eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Suðurmörk lands Hafnarfjarðarkaupstaðar skulu vera þessi: Bein lína frá punkti D á meðfylgjandi uppdrætti af landinu [fylgir ekki með], … í punktinn M … og fylgja mörkin þaðan markalínu Krýsuvíkur að Krýsuvíkurvegi. …”
Í greinargerð sem samin var af sýslumanninum í Keflavík þann 25. júní 1979 kemur fram að svokallað Seljabótarnef á sunnanverðu Reykjanesinu er ekki þar sem menn höfðu talið. Þessi uppgötvun gerir það að verkum að fjörumörk Gullbringu- og Árnessýslu og jarðanna Krýsuvíkur og Herdísarvíkur færast til en þau voru bæði miðuð við Seljabótarnefið í landamerkjalýsingum. Í greinargerðinni kom einnig fram að árið 1832 ákváðu sýslumenn Árnes- og Gullbringusýslna að svokallaður Sýslusteinn væri merki milli sýslanna tveggja.

Markhella

Markhelluhóll – áletrun.

Þann 25. janúar 1980 var útbúið landamerkjabréf þar sem skráð voru mörk Árnessýslu og Grindavíkur. Mörk jarðanna Krýsuvík og Herdísarvík falla saman við þessi mörk. Samkvæmt bréfinu eru landamerkin eftirfarandi: „Mörk milli Árnessýslu og lögsagnarumdæmis Grindavíkurkaupstaðar eru bein lína úr hápunkti Litla Kóngsfells sunnan við Grindaskörð í Sýslustein undir Geitahlíðum og önnur bein lína úr Sýslusteini til sjávar um hraunstrýtu á Seljabótarnefi“.
Athugasemdir hafa verið gerðar um svokallaða Markhellu/Markhelluhól sem minnst er á í landamerkjabréfum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða frá árinu 1890: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu” sjé settur Markhelluhóll. Að öðru leyti samþykkt“. Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson.
Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.” Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eini sanni

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Markhelluhóll og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hann. Á hólnum er varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á þessari öld.
Steindranginn sem nefndur er í lýsingunni er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við hólinn út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhverntímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir því, við undirskrift bréfsins) að hægt var að ruglast á þessu tvennu og lögðu áheyrslu á örnefnið Markhelluhól sem er drjúgum ofar….

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krýsuvík

Krýsuvík 2020.

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík (nálægt Stóra-Nýjabæ) að Vegghamri og áleiðis inn í Kálfadali.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, „Tunglið, tunglið, taktu mig“, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.
Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.

Seltún

Verkefnið um Brennisteinsvinnslu í Krýsuvík er unnið 2010-2014 með það að markmiði að safna upplýsingum um minjar tengdar brennisteinsnámusvæðunum á Reykjanesskaganum; í Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík annars vegar og Brennisteinsfjöllum hins vegar, sem og að skrá og miðla fróðleiknum til annarra.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaga.

Meginviðfangsefnið er þó að reyna að gefa sem sögulegast yfirlit um brennisteinsvinnsluna, bæði í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum, með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fornleifaskráningu af svæðu, auk korta og örnefnaloftmynda á Krýsuvíkursvæðinu). Fylgt var leiðbeiningum Minjsstofnunar Íslands (Fornleifaverndar ríkisins) um fornleifaskráningu.
Eins og að framan greinir er Krýsuvíkursvæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum sem og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879-1883 og hins vegar Baðstofusvæðinu ofan svonefndra bústjórahúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík og verður því einnig lýst hér, enda hlutar af órjúfanlegri minjaheild.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum og getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þr sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll voru námusvæðin fyrrum í Krýsuvíkurlandi (sjá kort á bls. 4) og tilheyrðu því lögsagnarumdæmi Grindavíkur á meðan var. Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðinum allt frá 12. öd. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns þar var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.

Ritið í heild fæst hjá Antikva ehf í Garðabæ.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Brennisteinsfjöll.

FERLIR hefur safnað og skráð heimildir um brennisteinsnám í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Safnið er 68 blaðsíður þar sem getið er bæði um sögu brennisteinsnámsins og sögu.

1. Inngangur

Uppdráttur af brennisteinsnámusvæðinu í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Verkefnið var unnið sem áfangi í fornleifafræðinámi við Háskóla Íslands í samráði við skoraformann í sagnfræði- og heimspekideild, Steinunni. J. Kristjánsdóttur.

Meginviðfangsefnið er að gefa sögulegt yfirlit um brennisteinsvinnslu í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fylgiskjöl auk korta). Fylgt var leiðbeiningum Fornleifaverndar ríksins um fornleifaskráningu.

Í Krýsuvík er svæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879 til 1883 og hins vegar Baðstofusvæðið ofan fyrrverandi bústjórnarhúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þær sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll eru námusvæðin í Krýsuvíkurlandi.

Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðunum allt frá 12. öld. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns það var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.
Ritgerð – brennisteinsnam III

Heimildir:
-Fornleifaskráning. Skráningarstaðlar og leiðbeiningar. Fornleifavernd ríkisins 2008 – http://www.fornleifavernd.is/files/8/20080609105155104.pdf
-Frank Ponzi. Ísland fyrir aldamót, 1995, bls. 126-141 og Sveinn Þórðarson, Auður úr iðrum jarðar, 1998, bls. 113-129.
-Ólafur Olavius. Ferðabók, landshagir í norðvestur, norður- og norðaustursýslum Íslands 1775-1777, ásamt ritgerðum Ole Henchels um brennistein og brennisteinsnám og Christian Zieners um  surtarbrand, 1965, bls. 259-274.
-Ari Gíslason. Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík (ÖÍ) og Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík (ÖÍ).
-Gísli Sigurðsson. Örnefnalýsingi fyrir Krýsuvík (ÖÍ) og Ólafur Þorvaldsson, Selvogsgata og Krýsuvíkurleiðir, sérrit úr Árbók Ferðafélags Íslands 1999, 36 bls.
-Sveinn Þórðarson. Auður úr iðrum jarðar, saga hitaveitna og jarðhitanýtingar á Íslandi, 1998, bls. 113-127.
-Frank Ponzi. Ísland fyrir aldamót, 1995, bls. 126-141 og Sveinn Þórðarson, Auður úr iðrum jarðar, 1998, bls. 113-129.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Krýsuvík

FERLIR hefur um árabil upplýst um mögulegar minjar brennisteinsnáms í Krýsuvík, enn sýnilegar, með vísan til skráðra heimilda um slíkt allt frá því á 18. öld. Svörun viðkomandi stofnana eða einstaklinga hefur hingað til engin verið.

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Í óvæntri umfjöllun um löngu fyrrum uppljóstrun um efnið í Grindavík mátti lesa eftirfarandi;

Krýsuvík

Krýsuvík – Hetta, Hattur og Baðstofa ofan Hveradals.

 „Þetta kemur mér mjög á óvart og hlýtur að setja allt málið í talsvert uppnám,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði um upplýsingar um að neðan fjallsins Baðstofu í Krýsuvík séu baðstofuhverir, gamlar brennisteinsnámur og aðrar leyfar um mannvistir en HS orka hefur fengið leyfi til að bora á svæðinu.

,,Það hefur einungis verið veitt leyfi til tilraunaboranna og þá með hliðsjón af því að svæðinu hefur þegar verið raskað. Ég hef hinsvegar ekki heyrt um neinar fornminjar þarna.“

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Ómar Smári Ármannsson hjá gönguhópnum FERLIR upplýsti í desember árið 2010 um þessar minjar í fyrirlestri um byggð og brennistein í Krýsuvík á baðstofukvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hann vakti m.a. athygli á því að þeirra væri ekki getið í nýlegri fornleifaskráningu af svæðinu. 

Talið er að á árunum 1724 – 1729 hafi tveir Þjóðverjar, Holzman og Sechmann, byrjað að taka brennistein úr „Krýsuvík“. Þegar Innréttingar Skúla Magnússonar voru stofnaðar um miðja átjándu öld var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein á Íslandi og er síðan talið er að brennisteinsvinnsla hafi svo verið unnin í Krýsuvík, með hléum þó, allt til ársins 1885.Ómar Smári vísaði í skýrslu manns að nafni Ole Henchel sem ferðaðist um Krýsuvík árið 1775 og nefnir meðal annars hús sem tilheyrðu brennisteinsvinnslunni.

Krýsuvík

Krýsuvík; brennisteinsnámur – Ólafur Olavius (1741-1788). Tóftir eru merkar b og c. á uppdráttinn.

„Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði upp tekin brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo allt verður að gera að nýju, eins og hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Þar hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna bústetur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna…“

Árið 1942 fékk Hafnarfjörður svæðið sunnan Kleifarvatns til takmarkaðra afnota, meðal annars brennisteinsnámusvæðin.

Seltún

Seltún í Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúi, segist ætla að hafa samband við formann skipulags og bygginganefndar í Hafnarfirði vegna málsins. Hún segir þó undarlegt að ekki hafi komið fram neinar ábendingar fyrr en málið hafi verið í vinnslu frá árinu 2006. Hún segir engar framkvæmdir farnar af stað. Afgreiðslan gefi einungis leyfi til tilraunaboranna og feli ekki í sér fyrirheit um nýtingarrétt. Enn eigi eftir að móta umhverfis og auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið og endarleg niðurstaða hljóti að ráðast af því.“

Ekkert framangreint ætti að koma sæmilega upplýstu fólki, jafnvel einstökum bæjarfulltrúum, á óvart. Bygginga- og skipulagsfulltrúa gæti þó þótt viðfangsefnið óþægilegt.

Krýsuvík

Það hlaut að koma að því!. HS-orka hefur hafið framkvæmdir við borstæði í Krýsuvík undir Hettu og Baðstofu og byrjaði á því, að venju, að ganga um svæðið á „skítugum skónum“.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Fyrsta fórnalambið var, að venju, ein fornleif af tveimur frá 18. öld, eða jafnvel þeirri 17., þegar Krýsuvíkurbóndi flutti út brennistein úr námunum til tekjuauka. Stórvirkri vinnuvél hafði einfaldlega, af óskiljanlegri ástæðu, verið ekið rakleitt yfir sögulega tóftina, líkt og jafnan er gert við upphaf stærri framkvæmda á Reykjanesskaganum. Þetta virðist vera það fyrsta sem framkvæmdaraðilum dettur í hug við þegar þeir mæta á vettvang. Akstur vinnuvélarinnar nákvæmlega þarna er með öllu óskýrður. Svar hlutaðeigenda verður eflaust sem og svo oft áður við slíkar aðstæður; „Sorry, gröfustjórinn vissi ekki betur„. Fulltrúi Byggðasafns Hafnarfjarðar mun að öllum líkindum, líkt og vanalega, sverja af sér alla vitneskju um minjarnar þrátt fyrir að hafa, greinilega með mistækum árangri, talið sig hafa fornleifaskráð svæðið opinberlega. Þessar tilteknu minjar, þrátt fyrir skráðar fyrirliggjandi heimildir af svæðinu sem og vitneskju um þær, fóru bara, að venju, milli „skips og bryggju“ hlutaðeigandi yfirvalda.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Ef að líkum lætur mun Minjastofnun ekkert aðhafast vegna þessa, þrátt fyrir að vitað var um minjarnar eftir opinberlega birta ritgerð um brennisteinsnám á Reykjanesskaga frá 2011 á vefsíðunni ferlir.is sem og útgefna sérstaka sjálfstæða fornleifaskráningu af brennisteinsnámusvæðinu í Brennisteinsfjöllum, Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík frá árinu 2014 að frumkvæði fornleifafyrirtækisins Antikva, auk þess sem fulltrúi HS-orku, BÓF, hafði áður verið kvaddur á svæðið, honum bent sérstaklega á minjarnar, og hann beðinn, með fullri vinsemd, um að gæta þess að fornleifunum þeim yrði hlíft ef og þegar að kæmi að aðkomu stórtækra vinnuvéla.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Þrátt fyrir allar ábendingarnar var ekki talin ástæða, að mati ráðandi aðila, í aðdragandanum, að fornleifaskrá framkvæmdarsvæðið sérstaklega, sem verður nú að teljast einstaklega ámælisvert. Þarna hafa kjörnir fulltrúar ríkis, sveitarfélagsins og framkvæmdaraðilans augljóslega sofið á verðinum. Talandi um „græna vegginn“ í Mjóddinni??!!

Eyðileggingin er dæmigerð fyrir sofandahátt þeirra, sem fá greitt fyrir að eiga að vinna vinnuna sína, en virðast því miður vera allt of uppteknir við eitthvað allt annað en það sem þeim er ætlað….
Jónsbúð

Gengið var frá Arnarfelli í Krýsuvík til austurs yfir Krýsuvíkurheiði. Farið var yfir gróið þýfi, stigið yfir Eystrilæk og ekki staðnæmst fyrir en við stóra tóft efst á heiðinni; Jónsvörðuhús eða Jónsbúð, eins og hún er stundum nefnd. Þá var haldið yfir að öðru húsi skammt sunnar, þar sem heiðin tekur að halla undan áleiðis niður að Krýsuvíkurbjargi. Það hús er hlaðið og er nokkuð heillegt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Ætlunin var m.a. að skoða svæðið austan Arnarfells, en eins og kunnugt er staðnæmdust skreiðarlestirnar á leiðinni austur frá Grindavík við Arnarvatn suðaustan við fellið. Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var fjárhús eða sauðakofi. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Skammt suðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt hlaðið skjól og auk þess og vandlega hlaðið hús þar skammt sunnar.

Krýsuvíkurheiði

Tóft í Krýsuvíkurheiði.

Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Þó er ekki óraunhæft að ætla að þar hafi Magnús, eða einhver annar á undan honum, haft afdrep. Líklegast er að þarna hafi verið afdrep manna. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti líka hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær um 1930.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði. En þó er ekki svo langt síðan að svæðið varð mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp, heldur þraukaði þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður var nefndur Magnús Ólafsson.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

“Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið”, sagði hann eitt sinn í viðtali við Árna Óla, “en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var ég ánægður.”
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.
Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sá ekki á Magnúsi að hann hafði gugnað neitt við einveruna. Þó fór svo að lokum að einnig Magnús varð að yfirgefa sveitina. Síðan hefur sauðkindin ráðið þar ríkjum eða allt fram til þess. Nú er svo komið að einnig hún verður að víkja af svæðinu og verða færð í sérstakt beitahólf á og vestan við Núpshlíðarháls.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Krýsuvíkurheiði

Hús á Krýsuvíkurheiði.

Þórkötlustaðarétt

Núverandi Þórkötlustaðarétt í Þórkötlustaðahverfi var hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að að einhverju leyti tekið úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og úr hraunhellunni umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt skömmu fyrir árið 2000. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – loftmynd 1954.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustaðarétt upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Borgarhraunsrétt var réttað frá því fyrir aldamótin 1800.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004):
„Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 2020 – uppdráttur ÓSÁ.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Þórkötlustaðir

Þórkölustaðir – meintur skáli.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.
Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Samantekt; ÓSÁ fyrir ferlir.is

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Krýsuvíkurkirkja

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969 var rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd undir fyrirsögninni „Daglegt brauð, sem drottinn gefur„. Í viðtalinu segir Þórarinn m.a. frá Árna Gíslasyni, sýslumanni í Krýsuvík, og Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað í Grindavík:

Þórarinn Einarsson„Að þessu sinni tökum við tali gamlan mann suður með sjó. Hann hefur lengst ævi sinnar sótt deildan verð í greipar Ægis, hið daglega brauð, sem drottinn gefur sjómanninum — brauðið, sem við hinir viljum eignast hlutdeild í og Íslendingar fá vart nægju sína af.
En ekki hefur bátur vaggað honum á bárum allar ævistundir, og þess vegna berst talið að mörgu öðru en sjómennsku og fiskidrætti.
Hann kiprar dálítið augun og hleypir í brýnnar, þar sem hann situr andspænis okkur, líkt og hann hefur oft gert, þegar rýnt var í sortann, allkeikur og hressilegur, þó að mörg séu árin, sem hann á að baki sér. Þórarinn heitir hann, Einarsson, og á heima á Höfða á Vatnsleysuströnd.
— Hvar fæddist þú, Þórarinn?
— Ég fæddist í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1884. Þetta er hálfníræður maður, sem þið eigið tal við. Faðir minn, Einar Einarsson, bjó í Stóra-Nýjabæ, og þá voru í Krýsuvík fjórtán bæir, þar sem nú er enginn. Sá, sem öllu réði þar á bernskuárum mínum — það var Árni sýslumaður Gíslason.
— Var hann búinn að vera þar lengi?

Þórarinn Einarsson

Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir Höfða ca. 1940.

— Nei, hann kom að austan nokkrum árum áður en ég fæddist. Hann var sýslumaður Skaftfellinga í tæp þrjátíu ár og bjó þá á Kirkjubæjarklaustri. En svo brá hann á nýtt ráð, sextugur maður.
Hann keypti Krýsuvík og Herdísarvík og gerðist sjálfur bóndi í Krýsuvík. Ég man vel eftir Árna. Hann var lítill vexti, rauðbirkinn og með kragaskegg og enskt kaskeiti aftan á hausnum. Það hefur komið í staðinn fyrir sýslumannshúfuna, sem hann lengi var búinn að bera.
— Hann var mikill fjárbóndi, minnir mig, að ég hafi heyrt?
— Það mátti nú segja — hann var um tíma fjárflesti bóndi á öllu landinu. Hann rak tólf hundruð fjár af Klaustrinu, þegar hann fluttist til Krýsuvíkur. En ekki komu nema sex hundruð fullorðnar kindur til skila fyrsta haustið sem hann var í Krýsuvík. Það leitaði austur aftur, féð, vildi komast í átthagana. Ég hef heyrt, að sex kindur kæmust alla leið austur að Klaustri. En leiðin er löng og vatnsföll mörg, og það fórst víst margt eða lenti í villum.

Stóri-Nýibær

Nýibær í Krýsuvík.

— Hvernig líkaði valdsmanninum bóndastaðan?
— Hann var nú ekki neinn venjulegur bóndi. Þeir voru vanir að ráða, sýslumennirnir í þá daga, og Árni var ráðríkur. Hann gat orðið bráðvondur, og þá rauk hann út eða burt frá þeim, sem hann reiddist við. En eftir nokkrar mínútur kom hann aftur, og þá var honum runnin reiðin. Hann var hjúum sínum ákaflega góður húsbóndi og hafði sama fólkið svo árum skipti. Skammaði það aldrei — rauk bara út.
— Lét hann mikið að sér kveða í byggðarlaginu?

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

— Hann vildi láta alla í Krýsuvíkurhverfi sitja og standa eins og honum þóknaðist. Hann átti þetta allt — þetta voru eintómar hjáleigur, sem fylgdu heimajörðinni, höfuðbólinu. Körlunum þótti sem þeir hefðu ekki sama frelsi og áður, enda fór fljótt að fækka í sveitinni eftir að hann kom. Faðir minn hafði verið formaður hjá séra Oddi Gíslasyni á Stað í Grindavík áður en Árni kom, en nú varð hann að gerast formaður hjá honum. Hann skyldaði karlana til þess að róa hjá sér. Já — hann átti þetta allt saman.
— Hafði hann mikinn sjávarútveg?
— Mig minnir, að hann gerði út þrjú skip, og þau lét hann ganga frá Herdísarvík. Þá voru gerð út sex skip þaðan, svo að þar var þó dálítil verstöð. Sex skipshafnir — það var ekki svo lítill hópur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær.

— Reri faðir þinn víða?
— Það var nú einkum í Grindavík. Í nokkur ár var hann hjá séra Kristjáni Eldjárn, afa forsetans okkar — hann var prestur á Stað í sjö eða átta ár. Það var vinsæll maður og skemmtilegur. Hann var ungur og glaðvær, þegar hann var í Grindavík, og ókvæntur — mig minnir, að hann hefði systur sína hjá sér ráðskonu. Frá Stað fór hann svo að Tjörn í Svarfaðardal, og þar ílentist hann. Séra Oddur tók við af honum, og hjá honum var pabbi formaður nokkrar vertíðir eins og ég sagði ykkur áðan.
— Var séra Oddur ekki formaður sjálfur?

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

— Hann reri tvær vertíðir með pabba, en seinna var hann sjálfur formaður. Hann sótti sjóinn, þó að hann væri prestur, eins og margir Grindavíkurprestar hafa gert. Og hann gerði út skip og báta. Frostaveturinn mikla, 1881, gaddagóuna svokallaða, var séra Oddur á bát með pabba. Eitt sinn sem oftar voru þeir á færum á sundinu fyrir utan Grindavík. Fiskurinn var ör, sílfiskur, en frostið hart og nokkur gjóla. Bátinn ísaði, svo að hann var orðinn allsokkinn. Þá vildi pabbi hætta að draga, en séra Oddur var ekki á því. „Daglegt brauð, sem drottinn gefur, Einar minn“, sagði hann. Frá því vildi hann ekki hlaupast fyrr en í fulla hnefana. Þó varð úr, að þeir hættu, og henti þá séra Oddur fiskinum, sem hann var með á önglinum. En ekki mátti tæpara standa, því að báturinn sökk, þegar þeir komu í vörina.
— Og þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi?

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

— Já, þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi. Og forvígismaður um margt. Hann hafði farið til Englands og átt þangað mörg erindi. Hann vildi læra enska tungu og komast í kynni við ensk kristniboðsfélög, og þar kynntist hann líka slysavörnum og lærði að gufubræða lifur. Með því bætti hann lýsisverkunina. Og svo fór hann að vinna að slysavörnum og ferðaðist í því skyni um landið, talaði við sjómenn, gaf út bæklinga um slysavarnir, meira að segja blað, sem hét Sæbjörg. Til þess naut hann styrks frá Alþingi — mig minnir að hann fengi þrjú hundruð krónur á ári. —

Oddur V. Gíslason

Oddur V. Gíslason.

Já, séra Oddi voru hugleiknir sjómennirnir, enda áttu sóknarbörn hans í Grindavík alla afkomu sína undir sjónum og hann sjálfur sjómaður. Og nógu voru sjóslysin mörg og átakanleg til þess, að eitthvað væri reynt að sporna við þeim.
— Bárufleygur — var það ekki eitt af því, sem Oddur vildi láta menn nota?
— Jú, bárufleyginn fékk hann frá Noregi. Það var belgur eða poki með lýsi eða olíu til þess að lægja úfinn sjó. Hann kostaði átta krónur, ef mér bregzt ekki minni.“

Þórarinn Einarsson fæddist 12. apríl 1884 og dó 7. apríl 1980.
Árni Gíslason, sýslumaður, ljóðskáld og skrifari fæddist 14. september 1820 og dó 26. júní 1898.
Árni kvað þetta t.d. einhvern tíma á búskaparárum sínum í Krýsuvík;

Vorið blíða lífgar lýð,
lengist óðum dagur.
Gyllir fríða Geitahlíð
geislinn sólar fagur.

Oddur Vigfús Gíslason, guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður fæddist 8. apríl 1836 og dó 10. janúar 1911.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 10. tbl. 16.03.1969, Daglegt brauð, sem drottinn gefur, rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd, bls. 228-232.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1880.

Sveifluháls

Sveifluháls eða Austurháls er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Það hverasvæði er kennt við Krýsuvík. Nokkrir þekktir móbergstindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur.

Á SveifluhálsiMóberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnir jöklarnir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ.
Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Á SveifluhálsiSurtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.

Í Eimreiðinni árið 1900 birtist grein eftir Þorvald Thoroddsen um móberg á Íslandi. Hér kemur úrdráttur úr greininni er tekur einkum mið af jarðfræði Reykjanesskagans:
Á Sveifluhálsi„Í síðasta hefti Eimreiðarinnar hefir herra cand. mag. Helgi Pétursson skrifað grein, sem hann kallar »Nýjungar í jarðfræði Íslands«, og er aðalefni ritgjörðarinnar hugleiðingar um myndun móbergsins á Íslandi. Með því að grein þessi er stutt og höf. hefir farið nokkuð fljótt yfir sögu, leyfi ég mér að rita nokkur orð til skýringar. Þó get ég ekki, í alþýðlegu tímariti, skrifað eins ýtarlega um þetta mál, eins og þarf, ef það á að skýrast fullkomlega frá öllum hliðum.
Eins og flestum mun kunnugt, nær móberg og þussaberg yfir afarmikið svæði á Íslandi og tekur yfir alt miðbik landsins, að sunnan frá Faxaflóa austur fyrir Öræfasveit, að norðan frá Fnjóskadal austur í Þistilfjörð. Móbergið myndar þannig belti yfir landið þvert; það er mjög mismunandi að gerð og afarþykt, nokkur þúsund fet Á Sveifluhálsisumstaðar. Allir aðrir hlutar landsins eru aðallega myndaðir úr blágrýti (basalti) í þykkum hamrabeltum, sem bezt sjást í dalafjöllum og við sjóinn. Þessi blágrýtislög hallast víðast inn á við, inn undir móbergsbeltið. Í blágrýtis-héruðunum eru víða smáblettir af móbergi, og sumstaðar eru allþykk móbergs- og þussabergslög milli blágrýtislaga, og það sumstaðar djúpt í fjöllum, svo mörg hundruð feta blágrýtisberg liggur ofan á móberginu. Þó eru þessi móbergs-millilög tiltölulega lítil í samanburði við móbergið um miðbik landsins; þar eru aftur blágrýtislög innan um, en þeirra gætir minna, af því móbergið er þar í meirihluta. Af þessu sést, að móbergið er myndað á ýmsum tímum, þó miðbeltið sé auðsjáanlega yngra en hinar stóru blágrýtismyndanir.
Á SveifluhálsiÞetta er líka eðlilegt. Ísland er því nær alt myndað af eldgosum; blágrýtið er gamalt hraun, móbergið eldfjallaaska og gjall og sérhvert eldgos framleiðir hvorttveggja; bráðið hraungrjót rennur úr gígunum og mulið grjót kastast í loft upp, dettur niður og myndar móbergslög. Við öll eldfjöll um víða veröld eru hraun og móbergslög á víxl, en það er mismunandi og komið undir atvikum af hverju er meira á hverjum stað. Í Utah og víðar sunnan og vestan til í Bandarikjum eru 2000 feta þykkar móbergsmyndanir, er ná yfir afarstórt svæði, og móbergs- og hraunlög sjást um alla jörðina, þar sem eldgos hafa orðið, sum ný, sum frá ýmsum tímabilum jarðsögunnar.

Á Sveifluhálsi

Móberg kalla Íslendingar berg það, sem í útlöndum heitir »tuff«, en þussaberg það, sem menn annarsstaðar kalla »breccia«. Í móberginu eru yfirleitt sömu steinefni eins og í blágrýtinu, smámulin og orðin að dusti, en gleraðir og eldbrunnir hraunmolar innan um, stundum vikur, gjall og steinkúlur (bombur), alt þetta rusl loðir saman og er orðið að linu eða hörðu bergi; stundum er móbergið lagskift, stundum er engin skifting sjáanleg. Í hinu íslenzka móbergi eru óteljandi korn af gulleitu eða mórauðu steingleri, sem kallað er »palagonit< og af svörtu gleri (tachylyt); oft er þetta alt bráðið saman við öskuna og gjallið, og alt orðið einn eldbrunninn sori. Þussabergið er samsett af sömu efnum eins og móbergið, en í því eru stórir hraunsteinar á víð og dreif, hornóttir og ólögulegir. Í móberginu eru mjög víða uppskotnir gangar, hraunæðar með ótal greinum, sem hafa brotist gegnum bergið og kvíslast innan um það; í því eru enn fremur blágrýtislög, hnúðar og kleppar með skásettum og hringsettum (koncentriskum) súlum með bráðnu steingleri utan á; sumstaðar er svo mikið af þessu í móberginu, að blágrýtið verður aðalefnið, en móbergið að eins þunt tengiefni, svo sem t. d. í Botnsssúlum, og þar er ísnúið dólerít ofan á, og eins er í mörgum öðrum fjöllum um alt móbergssvæðið. Móbergið ber svo augljóslega með sér, að það er myndað af eldi, að ég gat ekki hugsað mér, að það dyldist nokkrum manni, sem skoðað hefir eitthvert móbergsfell. Ég varð því alveg hissa er ég sá, að höf. byrjar ritgjörð sína með því sannanalaust að fullyrða, að móbergið á Íslandi sé að miklu leyti fornar jökulurðir. Annað mál er það, að vel getur verið, að jökulurðir séu milli Á Sveifluhálsimóbergslaga og hraunlaga; á það munum vér síðar minnast. Um miðbik Íslands, í móbergshéruðunum, eru víðáttumikil grágrýtishraun (dólerít) af svipaðri gerð eins og grjótið í holtunum kringum Reykjavík, þau eru rispuð og ísnúin og auðséð, að jöklar hafa gengið yfir þau; hraun þessi hafa flest hagað sér eftir landslagi því, sem nú er, og runnið sumstaðar ofan dali (t. d. Flókadal), niður af Mosfellsheiði, kringum fellin í Mosfellssveit og í sjó fram, niður hlíðar og skörð á Reykjanesfjallgarði og Snæfellsnesfjallgarði. Það liggur í augum uppi, að þessi miklu hraun hafa ekki runnið öll í einu, heldur en aðrar nýrri hraunbreiður, enda sést það víða, að breytingar hafa orðið á landslagi frá því fyrstu dóleríthraunin runnu, en litlar eftir að hin síðustu mynduðust; það er t. d. algengt að dóleríthamrar eru í efstu brúnum þverbrattra fjalla, en ekkert dóleríthraun fyrir neðan, og hlýtur því mikið að hafa breytst síðan þau hraun mynduðust. Þetta sést á mörgum ritgjörðum mínum og jarðfræðisuppdráttum.
H. P. virðist ætla, að ég haldi öll dóleríthraun jafngömul, en slíkt hefir mér aldrei dottið í hug. Eftir að hin eldri dóleríthraun runnu hafa allvíða myndast ofan á þeim þykk móbergslög, t. d. við Laxárdal hjá Mývatni, við Kálfstinda og víðar; en langoftast liggja þó dóleríthraunin ofan á móberginu.
í móberginu eru hér og hvar hnullungalög (Conglomerat) með vatns- eða jökulnúnu grjóti, leir og sandi; þó þau séu víða allþykk, eru þau þó þunn og hverfandi í samanburði við móbergið alt. Slík hnullungalög hefi ég fundið kringum Suðurlandsundirlendið, við Mýrar, á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og víðar.

Á Sveifluhálsi

Móbergsmyndanirnar íslenzku eru mjög margbrotnar og eflaust myndaðar á ýmsan hátt og á ýmsum tímum, og vita jarðffæðingar enn nauðalítið um það, hvernig þær eru til orðnar; til þess þarf enn langar og miklar rannsóknir og samvinnu milli jarðffæðinga af ýmsu tægi; til þess þarf eldfjallafróða menn, jökulfróða og bergfræðinga; að rannsaka þetta alt til hlítar er einskis eins manns meðfæri. Þó er móbergið aðeins einn lítill liður í jarðfræði Íslands.
Á ferðum mínum varð ég að fást við margbrotin störf, kanna öræfi, landslag og fjallahæðir, undirbúa jarðfræðisuppdrætti, rannsaka jökla, eldfjöll, hraun og hveri, blágrýti, líparít, móberg, surtarbrand, sævarmenjar o. m. fl., til þess að fá yfirlit yfir þetta alt saman og búa svo í haginn fyrir eftirkomendurna. Rannsókn jarðlagaskipunar í hinum einstöku fjöllum tekur mikinn tíma, og gat
ég því miklu sjaldnar, en ég vildi, fengist við slíkt; þetta verður að bíða betri tíma og vona ég, að aðrir taki fyrir sig að kanna einstök svæði og einstaka liði í jarðfræði Íslands, eins og H. P. nú er byrjaður á, þar sem hann sérstaklega hefir lagt fyrir sig rannsókn jökulurða og ísmenja. Á þann hátt getum vér á endanum fengið fullkomna þekkingu um myndun og byggingu vors víðáttumikla og hrjóstruga föðurlands. Athuganir mínar um móbergið og aðrar jarðmyndanir Íslands hefi ég skrásett í ýmsum ritgjörðum, en sjaldan dregið ályktanir af þeim, nema þegar þær hafa verið mjög margar af sama tægi, því annars áleit ég, að þær hefðu ekki nægilegt sönnunarafl, fyr en fleiri bættust við.

Á Sveifluhálsi

Hér er ekki rúm til þess að geta um ýms málefni, er snerta jarðfræði móbergsins; en svo mikið er víst, að aldur ýmsra móbergslaga er mismunandi og að það er til orðið á öllum tímabilum, frá   því   snemma á hinum »tertíera« tíma fram á vora daga; en varla er enn byrjað að greiða sundur hinar einstöku deildir. Sumstaðar hefir eflaust myndast móberg og hraun milli ísalda. Það væri undarlegt, ef eldfjöll þá hefðu hætt að gjósa, og eins meðan jökull lá yfir öllu eða mestöllu landi, og hefir aska sú blandast saman við frammokstur jöklanna. I öðrum löndum hafa menn fundið rök fyrir nokkrum ístímabilum með tiltölulega hlýju loftslagi á milli, og svo hefir eflaust líka verið á Íslandi, enda hefir enginn efast um það.

Í framangreindri grein Helga Péturssonar „Nýjungar í jarðfræði Íslands“ í Eimreiðinni árið 1900 segir m.a.: „Helzta nýjungin er skjótt aö segja sú, að móbergið á Íslandi er að nokkru leyti, eða ef til vill að miklu leyti, fornar jökulurðir, nú orðnar að einum  steini  og  talsvert umbreyttar á ýmsan hátt. Oss hefur kent verið um móbergið, að það hafi í upphafi verið eldfjallaaska, en innanum ýmislega lagaðir basaltmolar og hraunmolar«. Að því er mér skilst, hafa þó verið miklir erfiðleikar á að skýra nánar, hvernig sumt móberg hafi farið að myndast við gos. En ýms einkenni þessara móbergstegunda, sem erfiðleikana gera, verða auðskilin, þegar það er séð, að þetta grjót er í raun réttri undan jöklum, og má rekja þetta ýtarlega, þó að ekki verði það hér gert.

Á Sveifluhálsi

Frá tveim hliðum má skoða þetta mál. Að öðru leytinu sjáum vér, að bergtegund ein er alls annars eðlis, en talið hefur verið, og skal lítið farið út í það hér. En um hitt ætla ég að fara nokkrum orðum, hvers vér getum orðið vísari af þessari bergtegund, þegar hún er rétt þýdd.
Vitringur einn hefur komist svo að orði, að atburðirnir semji sína eigin sögu um leið og þeir verða, og á það ekki sízt heima í sögu jarðarinnar; hraunin segja frá eldgosum, einkennilega skafið og rispað grjót frá skriðjöklum o. s. frv. Hlutverk jarðfræðinganna er nú bæði að taka sem bezt eftir, hvernig jörðin fer að skrásetja sögu sína, og eins að finna og þýða rétt þau skjöl og skilríki, sem til eru.
Þar sem er móbergsmyndanin íslenzka, má nú svo að orði komast, að vér höfum auðugt skjalasafn, er lýtur að ýmsum atburðum í jarðsögu landsins, ekki ómerkum. En lykilinn að þessu safni hefur vantað, og þar af leiðandi hlýtur því yfirliti yfir jarðfræði íslands, sem fengist hefur enn sem komið er, að vera talsvert áfátt, ámóta og vera mundi þekkingu vorri á sögu þjóðarinnar, ef sagnfræðingarnir hefðu ekki haft neina vitneskju um Sturlungaöldina t. a. m. Nú er þessi lykill fundinn, og þó að lítið sé að gert um rannsóknir á þessu skjalasafni enn, þá er samt svo mikið séð, að stórum verðum vér að breyta skoðunum vorum á íarðfræði lands vors, og að ísland er ólíkt öllum öðrum löndum — að því er ég bezt veit —, hvað ísaldarmenjarnar snertir.

Á Sveifluhálsi

Enginn þeirra jarðfræðinga, sem ferðast hafa á Íslandi, minnist á, að hann hafi séð ísnúna steina í móberginu; en í tölu þessara manna hafa þó verið nafnkendir ísaldarfræðingar eins og t.a.m. dr. K. Keilhack frá Berlín. En Keilhack virðist hafa komist lengst í áttina að þessari uppgötvun, eins og nú skal greina. Keilhack fann fyrstur eitthvað af þessu hnullungabergi 1883 og getur þess, að sér hafi þótt það mjög sviplíkt íslenzkum jökulurðum. Ekki leyfir hann sér þó að ætla, að þetta séu jökulurðir mjög fornar, heldur álítur hann, að hnullungaberg þetta sé árgrjót frá tertieröldinni. Dr. Thóroddsen rannsakar þessi svæði 10 árum seinna en Keilhack, og ber þeim á milli um aldur þessara laga:
»Þessi jarðmyndun hefir myndast af rennandi vatni og er ekki ólíklegt, að hér á landi, sem í öðrum löndum, hafi úrkoma verið mjög mikil rétt á undan ísöldinni; af því varð vatnsrennsli miklu meira en áður og þá hafa hnullungalög þessi orðið til«. (Thóroddsen: s. st).
Ég hef ekki séð þetta hnullungaberg og þori því ekki að segja neitt með vissu um, hvað það muni vera; en síðan í sumar eð var, er ég fann ísnúna steina í móberginu, hefur mér dottið í hug, að eitthvað muni búa undir þeirri líkingu, er Keilhack sýndist vera milli þessa hnullungabergs og jökulurða, og að því muni ef till vill vera ísnúnir steinar. En ef svo væri, og hefði Keilhack komið auga á þessa steina, væri líklega margt óskráð af því, sem nú má lesa um jarðfræði íslands, eða á annan veg ritað.
Á SveifluhálsiÍ einu af síðustu ritum þess manns, sem vér eigum fyrst og fremst að þakka það, sem vér vitum um jarðfræði Íslands, stendur, að hann — og þá auðvitað heldur ekki aðrir — »hafi hvergi fundið jökulurðir eða ísrákaðar klappir undir ísnúnu hraununum«.
(Thóroddsen: Explorations in Iceland during the years 1881 — 98. From »The Geographical Journal« for March and May 1899, bls. 23).
Ég nefni þetta atriði vegna þess, að á því byggir dr. Thóroddsen mikilsvarðandi ályktanir í jarðfræði landsins. »Hraun þessi, sem runnið hafa rétt fyrir ísöld, sýna bezt, að aðallögun yfirborðsins hefur þá verið svipuð eins og nú, og flestir dalir myndaðir áður en ísöldin gekk yfir«. (Thóroddsen: Jarðskjálftar o. s. frv., bls. 13). Og á líkum ástæðum byggjast þessi orð: »Seint á »tertiera« tímabilinu er líklegt, að Suðurlandsundirlendið hafi myndast« (s. st, bls. 21).
Á SveifluhálsiÞað er enginn efi á því, að grjótið í fjöllunum, sem að Suðurlands-undirlendinu liggja, brotunum úr hálendinu, er forðum náði frá Reykjanessfjallgarði austur undir Eyjafjöll (Thóroddsen), er eldra heldur en undirlendið sjálft. Nú er það eins víst og að hraun hafa runnið úr Heklu, að ýms af þessum fjöllum eru að nokkru leyti bygð upp af hörðnuðum jökulurðum. Má nefna Hellisheiði, Hagafjall og Búrfell. Með öðrum orðum: Suðurlandsundirlendið, langstærsta dældin á landi voru, er ekki eldra en ísöldin.
En undirlendið er heldur ekki yngra en ísöldiu; hraun, sem hafa runnið ofan á það, eru fáguð og rispuð af jöklum. Hraun þessi geta ekki hafa runnið meðan land alt var undir ís, og verður þá niðurstaðan sú, að Suðurlandsundirlendið sé til orðið milli »ísalda«.
Á SveifluhálsiSíðan dóleríthraunin runnu hafa ekki orðið stórvægilegar breytingar á landslagi (Thóroddsen), en þareð landið hefur stórum breyzt eftir þá ísöld, sem fór á undan dólerítgosunum, liggur sú ályktun beint við, að sá tími, sem landið var >íslaust«, — en var alhulið jöklum áður og síðan, — hafi verið miklu lengri en sá tími, sem liðinn er frá því, að jöklarnir hurfu af Suðurlandsundirlendinu síðast.
Er þetta mjög vægt í farið. Því að nokkrar, eða jafnvel miklar, líkur eru til, að fyrir þetta »millijöklatímabil« hafi landið bæði verið stærra, en það er nú, og landslag mjög ólíkt. Þar sem svo er til orða tekið, að landið hafi verið »íslaust«, þá verður að geta þess, að engin sönnun er fengin fyrir því, að að alls ekki hafi verið jöklar til á Íslandi á þessu tímabili; en öll líkindi eru til, að miklu minna hafi verið um jökla, en nú er á landinu.
Þetta byggist á því, að ísnúin Norlingahálsdóleríthraun liggja sumstaðar inn undir Vatnajökul, að því er dr. Thóroddsen segir; en þessi ísnúnu hraun, sem, eins og rannsóknir Thóroddsens hafa sýnt, taka yfir svo stór svæði á landinu, eru ekki runnin fyrir ísöld, heldur milli »ísalda«, eins og áður er að vikið.
Það er alkunnugt jarðfræðingum, að Suðurlandsundirlendið hefur verið í sjó, um það er jökullinn (þ. e. síðasti jökullinn) var að hverfa og síðar. En hitt hafa menn ekki haft neina vitneskju um, að sjór hefur gengið upp á undirlendið áður en þessi síðasti jökull kom yfir.
Hingað til hafa náttúrufræðingar, eins og við er að búast, einkum veitt eftirtekt eldfjallamyndunum lands vors. Vonandi er að upp frá þessu snúi menn sér ekki síður að ísaldamenjunum, sem landið er að nokkru leyti hlaðið úr, og er það nú þegar séð, að slík athugun muni geta kent oss ýmislegt merkilegt um myndunarsögu Íslands — og líklega stærri svæða.“

Heimild m.a.:
-wikipedia.org
-Eimreiðin, Þorvaldur Thoroddsen, 3. tbl. 01.09.1900, bls. 161-169.
-Eimreiðin, Helgi Pétursson, 2. tbl. 01.01.1900, bls. 52-60.

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.