Krýsuvík

Í “Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998” segir m.a. um Gestsstaði og Kaldrana í Krýsuvík.

Gestsstaðir

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

“Gestsstaðir skal hafa verið jörð heitið nálægt Krýsuvík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenningsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsuvíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsuvíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tíma í eyði legið, en engi veit til nær hún hafi bygð verið.”

Gestsstaðir

Tóft vestan við Gestsstaði.

“Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. …Fram undan Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað.”
“Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – vestari tóftin (skáli).

Bæjartóftin er 10 ft löng frá austri til vesturs, hefur engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhlið hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum nér norðurhliðinni. Skammt austar er fjóstóft, 5 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir verið umgirt, er það víða komið í sand af frárennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið í eign Krýsuvíkurkirkju. Hefur bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir [jarð]eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið að nýta hjáleigur í nytum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.”

Kringlumýri

Kringlumýri undir Móhálsum.

Fram kemur að Gestsstaðir hafi fyrst, eftir eldana, sem lögðu Gömlu Krýsuvík í og við Húshólma í eyði, verið “Fram undan Hverafjalli, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað”. Sunnan undir Hverafjalli, nú Hettu, er að finna minjar, mjög fornar, í svonefndri Kringlumýri. FERLIRsfélagar fundu rústirnar árið 2010 og töldu að þar hefði verið selstaða frá Húshólmabæjunum fyrrum. Selstígurinn liggur til suðurs í átt að Krýsuvíkur-Mælifelli. Minjarnar, sem eru miklar umleikis, verulega fornfálegar, eru í grasi gróinni hlíð ofan mýrardraga. Neðan þeirra er ágætt vatnsból í grónum gígbotni.

Kringlumýri

Minjar í Kringlumýri. – uppdráttur ÓsÁ.

Minjar þessar hafa nánast ekkert verið metnar,  hvergi skráðar (annars staðar en hér á vefsíðunni – sjá HÉR), en þær eru augljóslega eldri en þær fornu minjar,  sem nú má sjá sunnan við Gestsstaðavatn.

Kaldrani

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

“Inn við Kleifarvatn er svo kallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarðu úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhál.” “Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafði eyðst vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilungi verða, en hann á óætu að vera, samanber vísuna sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafi étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi.”. Vísan er svona:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana
utan ein niðurseta
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Kaldrani – garður.

“Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleifarvatn. Og líka er sagt að þar hafi fólk dáið af loðsilungsáti. Örnefnið Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fm langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það verið leifar af bæ. Því garðsspottinn sýnir að þar hafi menn búið á sínum tíma.”

Því miður hefur vegur nú verið lagður yfir meint bæjarstæði Kaldrana. Mönnum hefur löngum verið meint að sjá fyrir gildi þess, sem raunverulega skiptir máli…

Það er ávallt gaman að uppgötva eitthvað nýtt (reyndar er allt slíkt nýtt nú orðið gamalt).

 

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Hér kemur fram að Gömlu Gestsstaðir hafi verið vestan við Móhálsa, en í dag er þeirra minnst austan þeirra, sunnan undir Gestsstaðavatni, sem fyrsta byggð Krýsuvíkur eftir eldanna 1151. Eldri bústaðurinn er sagður týndur í heimildum.
Vestan hálsanna eru reyndar óskráðar tóftir, sem að öllum líkindum voru framhald byggðarinnar í Húshólma og því líklega eldri en elstu heimildir eru um byggð í þeirri Krýsuvík, sem við þekkjum í dag.

Sjá meira um Krýsuvík og Kaldrana HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, 1998.
-JÁM III, 7; Ö-Krýsuvík, 8 15; Árbók 1903, 50.
-Ö-Krýsuvík, 8-9; Árbík 1943-48, 92, Árbók 1803, 59.

Gestssaðir

Gestsstaðir – uppdráttur – ÓSÁ.