Einn sunnudag í nóvember ákváðu félagar í Climbing.is að skreppa í hellaferð í Brennisteinsfjöll.
Fjallgarðurinn liggur suður-norður á Reykjanesskaga og er stysta leið að honum frá Kleifarvatni. Gengum við uppúr Gullbringu og haldið inn hraunið í átt að fjöllunum. Til að byrja með var gönguleiðin nokkuð slæm, þykkur mosi og miklar mishæðir en skánaði stórum þegar komið var upp á heiðina. Við gengum í talsverðum vindi en hita yfir frostmarki inn að fjöllunum og skoðuðum þónokkra smáhella á leiðinni en talsvert hellakerfi virðist liggja í austur-vestur en er þó mikið hrunið og grunnt.
Þegar komið er í Brennisteinsfjöll er nokkuð áberandi gígaröð til suðurs og gengum við upp á einn gíginn sem heitir Eldborg og er útsýni af honum mikið og fagurt eftir gígaröðinni og niður í Selvog. Um 1 kílómeter sunnan við gíginn er opið niður í hellinn Ferli sem var áætlunarstaður okkar. Í munnanum eru 2 op, annað beint áfram niður og annað til hægri og talsvert þrengra. Fyrst var valið að fara beint niður og mætti okkur þar smá gangakerfi með hraunflór í miðju sem er mjög rauðleitur og fallegur.
Eftir smá ljósmyndun þar var snúið við og farið í göngin sem liggja niður til hægri. Þau skiptast strax í tvennt, önnur liggja til hægri og enda mjög fljótt en fallegar myndanir eru í gólfi þar. Göngin til vinstri eru mun lengri en þrengri. Þar hefur þunnur hraunstraumur runnið og eru veggirnir ótrúlega fagrir með beinum rennslismyndunum og öðru megin er bakki sem er eins og bekkur. Þau göng eru cirka 40 metrar og enda svo snarlega.
Þegar við kláruðum að skoða það sem við fundum af hellinum var ljóst að stutt væri í myrkur og því haldið af stað til baka um 7 km leið að bílnum. Var myrkur skollið á á miðri leið en þar sem allir voru vel ljósum búnir reyndist það ekki vandamál, leiðsögutæki sett í hönd og haldið áfram að labba. Nokkuð lengri leið var valin til baka þar sem enginn nennti aftur að klöngrast um hraunið aftur og lá sú leið niður í lítinn dal rétt norðan Gullbringu en þar hefur stór og úfin hrauntunga runnið um. Við tókum stefnuna fyrir hana á þægilegum göngustíg sem liggur niður á veginn fyrir suðurenda Kleifarvatns.
Gangan reyndist vera 15 km samkvæmt GPS og er þetta frábært svæði að ganga um.