Húshólmi

“Enskur sagnfræðingur, A. L. Rowse, segir á einum stað, að sá, sem vilji kynnast sögu lands síns, eigi ekki að byrja á því að lesa þykkar bækur. Hann eigi að fá sér góða gönguskó, blýant, vasabók og landabréf.
husholmi-267Um hverja helgi leita Reykvíkingar þúsundum saman úr bænum, og hafa einatt lítinn fróðleik upp úr ferðunum. Oftast vill brenna við, að menn fari sömu leiðina og þeir hafa farið ótal sinnum áður, (t.d. Þingvallahringinn), eða menn keppast við að komast sem lengst burtu, en þá vill allur tíminn fara í bílakstur. Af þessum sökum má búast við, að ýmsum yrði þökk á uppástungum og leiðsögn um skemmtilegar og fróðlegar bíl- og gönguferðir um nágrenni bæjarins.
Að þessu sinni skulum við halda af stað í bíl kl. 1 e.h. á laugardegi eða sunnudegi og aka sem leið liggur til Krýsuvíkur, beygja út af þjóðveginum til hægri og aka heim að gamla bænum í Krýsuvík. Þaðan er unnt að aka spölkorn suður fyrir túnið eftir melum, allt að braggarúst einni frá stríðsárunum. Síðasta spottann verður þó að fara varlega vegna stórgrýtis.
Hér förum við út bílnum og göngum í suðvesturátt, meðfram bæjarlæknum í Krýsuvík. Þarna er hægt að fylgja bílförum, en þau liggja þó í fullmiklum krókum. Þegar komið er suður undir fellið Stráka og bæjarlækurinn beygir í hásuður, höldum við þvert í vestur frá læknum og göngum í áttina að Ögmundarhrauni, yfir mela og móa. Þegar við komum að hraunjaðrinum, verðum við að gæta vel að til að finna stíginn, sem  liggur inn í hraunið. Hann er merktur með tveimur litlum vörðum í hraunbrúninni.
Stígurinn er fallega grænn í gráum husholmi-345mosanum, og er greiðfær fárra mínútna gangur eftir honum, þar til komið er í Húshólma, grænan óbrennishólma inni í hrauninu.
Við göngum í suðvestur yfir hólmann. Í jaðri hans að suðvestan sjáum við glögglega mikla túngarða forna, sem hverfa undir hraunið. Skammt sunnan við þá sjáum við tvo græna bletti lítið eitt inni í hrauninu. Þar heita Kirkjulágar. Þegar þangað er komið, rekum við upp stór augu, því að hér eru afar greinilegar bæjarrústir, sem hraunið hefur hlaðizt allt í kringum og sums staðar runnið inn í. Í syðri rústunum er austasta tóftin e.t.v. kirkjurúst, en í nyrðri rústunum er vesturtóftin sennilega skáli með setum meðfram báðum veggjum (sjá Árbók Fornleifafélagsins 1903, bls. 49).Talið er, að hér hafi upphaflega verið höfuðbólið Krýsuvík, þar sem Þórir haustmyrkur nam land, enda er staðurinn stundum nefndur Gamla Krýsuvík. En bærinn hefur verið fluttur, þegar Ögmundarhraum rann. Jónas Hallgrímsson telur það hafa gerzt árið 1340, en það er óvíst. Getið er um eldsumbrot á Reykjanesskaga í fornum heimildum bæði á 12. og 14. öld.
Ef við göngum nú niður að sjónum, sjáum við ljóslega, hvað gerst hefur. Ofan frá fjöllunum (frá gígum skammt sunnan við Vigdísarvelli, sbr. Ferðabók Þorvalds Thoroddsens I, 187) hefur ógurlegt  hraunflóð runnið suður til sjávar og breiðzt austur Og vestur yfir feiknamikið flæmi. Það helfur umlukt bæinn í Krýsuvík, en skilið eftir allstóran hólma austan hans og annan allmiklu vestar (Óbrennishólma).
Framan við bæinn hefur krysuvik-teikninghraunflóðið náð saman og steypzt fram af sjávarbökkunum alllangt út í sjó og fyllt hina gömlu Krýsuvík. Þar með hefur útræði frá víkinni verið úr sögunni. Má enn sjá hinn gamla sjávarkamb syðst í Húshólma. Margur num nú spyrja, hvort ekki væri vert að rannsaka fræðilega hinar fornu rústir Krýsuvíkur. Það væri sjálfsagt mjög forvitnilegt og verður eflaust gert, áður en langt um líður. Þangað fóru fundarmenn „víkingafundarins” í Reykjavík í fyrra til að athuga rústirnar. Óþarft er að taka fram, að óheimilt er almenningi að hreyfa við rústunum.
Frá Húshólma er greiðfærast að ganga sömu leið til baka, eftir hraunstígnum. Aðrir mundu vilja klöngrast yfir hraunið með sjónum, en það er mjög ógreiðfært og betra að vera á góðum skóm með gúmsólum. En hvor leiðin sem farin er, er sjálfsagt að ganga nú austur á Krýsuvíkurberg. Það er allt að 30—40 metra hátt fuglabjarg, þar sem verpir svartfugl og ryta. Þarna með sjónum má víða sjá kynlegar klettamyndir, og stórfenglegt getur verið að sjá brimið þeytast tugi metra upp um alls konar glufur í hrauninu. Að þessu sinni látum við nægja að ganga þangað austur, sem bæjarlækurinn fellur í litlum fossi fram af berginu. Síðan höldum við upp með læknum, fram hjá eyðibýlinu að Fitjum, vestan við Stráka, og loks sömu leið til baka vestan með læknum.
Hæfilegt mun að ætla fjóra tíma til þessarar gönguferðar með hvíldum, en gönguleiðin er alls 12—13 km, og er þá klukkan orðin 6 þegar komið er að bílnum aftur. Gott er að hafa með sér nesti til að borða í Húshólma. Þeir, sem í ferðina leggja, ættu að klippa þennan leiðarvísi og hafa með ser. Góða ferð! – H.”

Heimild:
-Frjáls þjóð 31. ágúst 1957, bls. 4

Húshólmi

Húshólmi – skálar.