Reykjanes

Jón S. Guðlaugsson skrifaði B.Ed.-ritgerð um “Skólasögu úr sjávarplássi” í KHÍ 2007. Hér verður hún skoðuð að hluta með hliðsjón af sögu millistríðsáranna.
Hrönn GK 50 - 1935Í inngangi segir m.a.: “Til umfjöllunar er skólafyrirkomulag, uppeldi barna og atvinnuhættir á millistríðsárunum í tveimur sjávarþorpum á Suðurnesjum. Þorpin eru Grindavík og Hafnir. Hvað varðar atvinnuhætti þá snerist nánast allt um fiskveiðar og landbúnað í sjávarþorpum á þessum tíma. Stundaður var sjálfsþurftarbúskapur þar sem allir voru sjálfum sér nógir og þurftu lítið að sækja annað um aðdrætti. Menn nýttu sér náttúruna og hugurinn var við sjóinn. Börn voru fegin þegar skóli endaði á vorin og þau gátu hjálpað til við meðhöndlun á fiski, tekið þátt í sauðburði á vorin og síðar heyskap yfir sumarið. Skólaganga var ekki löng á þessum tíma. Börn sóttu skóla frá tíu ára aldri til fermingar en árið 1926 kom löggjöf sem leyfði sveitarfélögum að hefja nám barna við sjö ára aldur. Stundað var hefðbundið bóknám en lítil aðstaða var til kennslu í leikfimi, handmennt og smíði. Sund var kennt við mjög frumstæð skilyrði. Skemmtanir voru sjaldan haldnar. Svokallaðir flakkarar vöktu gleði og kátínu þegar þeir birtust. Á þessum tíma var þeirra skeið að renna út vegna breytts tíðaranda.”
Fyrsti barnaskólinnViðmælendur voru Sigurður Gíslason á Hrauni og Guðlaugur Eyjólfsson frá Höfnum.
“Bæði Hafnir og Grindavík eru sjávarþorp frá gamalli tíð. Afkoma fólks byggðist á fiskveiðum og landbúnaði. Algengt var að fjölskyldur hefðu eina til tvær kýr og nokkrar kindur til viðbótar. Að mestu var um að ræða sjálfsþurftarbúskap. Fólk lifði á því sem náttúran gaf. Vinnuaðferðir voru staðnaðar og höfðu nánast ekkert breyst í nokkrar aldir. En framfarir í landbúnaði komu fram í byrjun 20. aldar með tilkomu nýrrar tækni.
Börn á millistríðsárunum ólust upp við mjög ólík skilyrði miðað við í dag, í byrjun 21. aldar. Þeirra lífssýn var allt önnur en tíðkast hjá börnum í dag. Þau ólust upp í beinum tengslum við atvinnulífið. Fóru á unga aldri að fylgjast með hvað var um að vera bæði til lands og sjávar. Börn voru í náinni snertingu við náttúruna. Þeirra leiksvæði var náttúran sjálf, fjaran steinar, klettar og grjót. Þegar bátar komu að landi var fylgst með af áhuga og setið dreymandi um að einhvern tíma færu þau á sjóinn eins og pabbi og afi. Á þessum tíma var verkaskipting þannig að karlmenn fóru á sjóinn en konur voru heima að hugsa um barnauppeldi, sjá um heimilið og sinna þeim  skepnum sem til staðar voru. Fyrir börnin var þetta einn ævintýraheimur þar sem alltaf var eitthvað um að vera til að fylgjast með. Áhugi var á að fylgjast með og læra þau vinnubrögð sem fyrir augu bar. Báðir viðmælendur mínir, þeir Guðlaugur og Sigurður, eru sammála um að sjórinn og það sem tengdist honum hafi verið þeirra heimur.

Kennsla

Samgöngur voru frumstæðar miðað við það sem er í dag. Ýmist var gengið, farið á hestum eða sjóleiðin valin. Þeir efnameiri áttu hesta en aðrir þurftu að ganga. Ekki var auðvelt að ganga á þessum árum. Það voru langar leiðir í verslun. Ekki voru til vegir heldur vegslóðar sem voru grýttir og egglaga steinar voru á vegi fólks sem fóru illa með fætur. Leiðin var löng í verslun og gat verið hættuleg að vetri til enda kom fyrir að menn urðu úti í slæmum veðrum. Þetta stuðlaði að því að ekki var farið að heiman nema brýna nauðsyn bar til.
Allt fram til loka 18. aldar fór kennsla fram á  heimilum landsmanna. Kenndur var lestur, skrift og kristindómur. Yfirleitt voru það foreldrar barna sem sáu um kennsluna og eins og gefur að skilja var algjörlega undir þeim komið hvernig til tókst.
Í Grindavík hófst farkennsla hjá Jóni bónda í Krosshúsum árið 1883. Þar var kennt lestur, skrift og reikningur. Aðal hvatamaður að stofnun skóla var séra Oddur V. Gíslason prestur á Stað. Hann var ekki ánægður með menntun barna í sinni sveit. Hann lagði það á sig að safna fé til skóalgjalds með því að bændur legðu sitt af mörkum auk þess sótti hann styrk út Torkellisjóði. Kennsla hófst síðan á þremur stöðum í Grindavík árið 1888, það er á Stað í Staðarhverfi, Garðhúsum og Járngerðarstaðarhverfi og Hrauni í Þórkötlustaðahverfi.

Sundlaugin

Kennt var eina viku í senn á hverjum stað. Ráðinn var til kennslunnar maður að nafni Pétur Guðmundsson sem hafði kennt áður í barnaskólanum í Garði. Kenndi hann í tvo vetur. Fyrsta skólahúsnæðið í eigu Grindavíkur var hús byggt úr steini í Járngerðarstaðahverfi. Það var vígt 6. janúar 1913. Árið 1929 var skólasókn færð niður í sjö ára aldur. Þá voru nemendur 19 í eldri deild (12 og 13 ára) og 22 í ynrgi deild (10 og 11 ára) og 27 í ungbarnadeildinni (7 til 9 ára). Þá var bætt við einum kennara. Auk þess var nauðsynlegt að kenna í Þórkötlustaðahverfi. Það þótti ekki stætt á því að láta ung börn ganga á milli hverfa. Á tímabili var kennt á þremur stöðum. Í Þórkötlustaðahverfi þar sem skólastofan var í kjallarakompu (á Hrauni), í Járngerðarstaðahverfi í gamla skólanum og í Kvenfélagshúsinu, einnig í Járngerðarstaðahverfi.
Sigurður, heimildarmaður minn, hóf nám í Garðhúsm árið 1930, þá 7 ára gamall. Þá var búið að setja lög að sveitarfélögum væri heimilt að láta börn hefja nám 7 ára gömul. Meðal barnanna var skólinn kallaður Rollingaskóli. Eftir þrjá fyrstu veturna fór hann síðan út í hverfi og hóf nám 10 ára gamall í fyrsta skóla Grindavíkur sem var byggður árið 1912 úr steini. Fyrir þann tíma fékk hann kennslu heima hjá móður sinni.
Eftir að Sigurður var fermdur bauðst kennsla í kvöldskóla en hann var ekki tilbúinn að þiggja hana. Hann fór að vinna við sjómennsku, fékk réttindi sem vélstjóri og stýrimaður.
Sigurður lærði að synda í gjá sem er nálægt Reykjanesvita. Hún er nálægt sjó og er volg. Búið var að byggja yfir hana. Búningsklefar voru ekki til staðar þannig að strákar og stelpur skiptu um föt sitt hvou megin við vegg. Sundkennarinn var með aðstöðu inni í litlu húsi sem stóð við gjána.”

Heimild:
-Jón S. Guðlaugsson – Skólasaga ú sjávarplássi – KHÍ, B.Ed – 2007.

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.