Grindavík

Í Tímanum 1972 er fjallað um “Útvegsbæinn á hraunströndinni undir Þorbirni“:

Grindavík“Svo finnst ritað á fornar bækur að Molda-Gnúpur og hans kyn hafi endur fyrir löngu reist byggð í Grindavík. Þeir frændur bjuggu við geitfé, enda heitir Geitahlíð ei mjög fjarri þessum slóðum, og er sú sögn um son Gnúps, Hafur-Björn, að hafur einn, sem ekki var úr byggðum manna, heldur hergbúa eða huldufólks, hafi komið í geitur hans um fengitímann. Eftir það tímguðust þær með ólíkindum og undruðust menn stórum búsæld Grindavíkurhóndans.
Þessari sögu get ég vel trúað, ekki siður en Helgi á Hrafnkelsstöðum, og hef ég það einkanlega til sannindamerkis, að enginn skagi landsins er jafnhrjóstrugur og Reykjanesskagi og snauður að grænum gróðri. En geitfé gengur fast að mat sínum, þar sem það er margt, og hef ég að minnsta kosti fyrir satt, að þess finnist dæmi í veraldarsögunni, að það hafi sorfið í grjót niður stærri skaga en það horn Íslands, sem spyrnir fæti suðvestur í hafið.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Það getur að minnsta kosti hugsazt, að það hafi verið dálítið tvíeggjuð lukka, ef Björn heitinn Gnúpsson hefur átt svo miklar geitahjarðir, sem fornir sagnritarar gefa í skyn. Og einhvern veginn býður mér i grun, að kvikfjárbúskapur hafi ekki verið sá þátturinn, sem bezt hentaði á Suðurnesjum eða mest var í sómanum i Grindavík á liðnum öldum, og orð Jóns á Laxamýri hef ég fyrir því, að sauðfjárræktin þar syðra hafi verið heldur bágborin yfirleitt talsvert fram á þessa öld. Henni mun hafa verið þannig háttað, að sauðfé fullkomnaði það verk, sem geiturnar kunna að hafa hafið, enda ekki auðhlaupið að því að finna slægjur á Reykjanesskaga, svo að safna mætti heyi í garð til vetrarins. Auk þess var torfengið eldsneyti í fjölmennum verstöövum, þar sem enginn var svörður né heldur tað, svo að þurrka varð þang og þöngla í eldinn og rífa lyngtætlur á meðan þær fundust.

Gerði sig digran, en féll samt
GrindavíkLíf Grindavíkur hefur þess vegna fyrst og fremst verið sjórinn — miðin framundan hraunströndinni, þar sem matfiskurinn gekk svo grunnt, þegar vel lét, að stundum máttu heita fá áratog fram á fiskislóðir. Það eru sjálfsagt vænar kasir, sem búið er að draga á Klofi um Kónga og Húsum um Hnúðana, svo að ekki séu nefnd þau mið, sem utar liggja.
Og sagan um fiskinn á Grindavíkurmiðum er löng saga. Bretum og Þjóðverjum var mætavel kunnugt um fiskidrátt karlanna í Grindavík á kaþólskri tíð og litu þá skreið þeirra miklu girndarauga, svo að af spruttu bardagar og manndráp.

Grindavík

Leifar virkis Jóns breiða.

Á Járngerðarstöðum gerði til dæmis Englendingur einn sér virki, þegar i harðbakkann sló. Sá hét Jón breiði, og af því má ráða, að ekki er ný bóla, að Englendingar geri sig digra, þegar fiskurinn okkar er annars vegar. Hann neitaði líka að greiða hirðstjóranum toll, ekki fús á að láta sér neitt úr greipum ganga af því, sem hann hafði hremmt, og þess vegna gerði hirðstjórinn honum aðför með tilstyrk Þjóðverja, er væntanlega hafa fengið eitthvað fyrir snúð sinn, og þar féll Jón breiði eins og Gordon í Khartum mörgum öldum seinna.

Fógeti og kaupmaður flugust á um pundara

Grindavík

Járngerðarstaðir fyrrum.

Grindavík varð ein helzta verstöð Skálholtsstaðar, er fram liðu stundir, og þangað sigldi Ögmundur Pálsson, þegar gott var orðið í sjóinn á vorin á biskupsjaktinni, sem hann hafði látið smíða í Vatnsfirði, svo að hann gæti séð með eigin augum, að ekkert væri undan dregið af því, sem heilög kirkja átti að hreppa af fiskmetinu. Í Grindavík var Marteinn Einarsson á vegum Mammons, kaupmaður á snærum Englendinga, áður en Kristján kóngur og lútherskan lögðu biskupskápuna á axlir honum og settu á hann mítrið.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Þá fór að styttast í því, að aðrir en þeir, sem kóngleg náð útvaldi, fengjust við verzlun á Íslandi, hvort heldur var í Grindavík eða annars staðar, og hafi karlarnir ekki áður kunnað að standa álútir með pottlokið sitt milli handanna, þá hafa þeir lært það þá. Ég get ímyndað mér, að þeir hafi fast að því fallið í stafi af forundran eftir hálfra aldar kynni af danska verzlunarvaldinu, þegar sá dagur rann, að Skúli fógeti reið grýttar slóðir suður í Grindavík og flaugst á við sjálfan kaupmanninn út af sviknum pundara hans í verzlunarhúsunum.

Margir fóru upp, en fáir út aftur

Grindavík

Grindavík fyrrum.

Þó að ég verði að gera ráð fyrir því, að Grindvíkingum gömlu hafi verið einn kostur nauðugur að gera sig bljúga andspænis kaupmanninum, hefur ósmá verið sú seigla, sem í þeim bjó, og mikil mannlifssaga væri öll þeirra sjósókn, ef einhvers staðar væri á vísan að róa, þar sem hún er. En það er eins með varsímann, sem bátarnir draga á sjávarflötinn, og það, sem í sand er skrifað: Það er horfið áður en við er litið. Eftir er aðeins það, sem má láta sig gruna eða óra fyrir. Í gulnuðum annálum má lesa örfáar línur um þennan eða hinn skipstapann, stökum sinnum jafnvel drepið á björgun úr þeim lífsháska, er vonlaust virtist að sleppa frá. En þögnin og gleymskan hylja sögur um mikinn garpskap og mikið æðruleysi hinna gengnu kynslóða i Staðahverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi — gömlu byggðarlögunum þrem í Grindavík.

Grindavík

Grindavík – bátar við bryggju.

Öll skipin, sem hafa skolazt upp að ströndinni, hvort heldur gömul og úr sér gengin eða svo ný, að þau höfðu flutt afla að landi, segja líka sína sögu um það, hversu víðsjárverður þessi staður var, jafnvel þeim, sem stærri fleytum réðu en Grindvíkingar sjálfir. Flökunum, sem brimið hefur tvístrað um hrauntangana, ægir þar saman af mörgum þjóðernum — enskum, frönskum og dönskum og guð má vita hvað: Fiskiskip frá Vidalínsútgerðinni og Duus, spekúlantsskip frá Eyþóri Felixsyni, franskarskútur frá Normandí, togarar frá Hull og Grimsby — hver getur talið það allt eða tíundað þau mannslíf, sem þar hafa slokknað.
Jú — við getum nefnt Karl Nilsson, veiðiþjófinn og óþokkann, sem drekkti mönnunum á Dýrafirði um aldamótin— hann lauk líka ævidögum sínum á þessum slóðum.

Grimmur leikur og djúp sár

Brim

Grindavíkurbrim.

Þó að örlög Karls Nilssonar hafi tæpast verið sárt hörmuð hérlendis, eftir það sem á undan var gengið, hafa margir, sem í landi sátu, hlotið mikil og djúp sár, sem seint greru, af völdum þeirra dætra Ægis, sem þreytt hafa grimman leik við þessa háskalegu strönd. Og af öllum þeim skipum, sem þarna hafa borizt upp, eru þau færri en fingur annarrar handar, er komizt hafa aftur á flot. En dæmi eru þess, að í svo rismiklum sjó hafi vélvana bátur lent, að bylgja bar hann yfir öll sker og grynningar langt upp á malarkamp, þar sem hann stóð á þurru við útsogið, svo að ganga mátti úr honum þurrum fótum.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.

Á slíkum stað má nærri geta, að oft hefur þurft að hlynna að sjóhröktum mönnum, sem naumlega sluppu af strandi — hjúkra þeim, fæða þá og klæða. Væru þeir margir klæðvana, var einna helzt að leita til Einars á Garðhúsum, eftir að mektardagar hans runnu upp. Þá urðu franskir strandmenn kannski að sætta sig við ívið færri flíkur en hentaði vexti þeirra, því að Fransarar á skútunum gömlu voru ekki nein tröll og talsvert smávaxnari en þeir, sem fatnaðar þörfnuðust í Grindavík endranær.

Það var á elleftu stundu
GrindavíkVið drápum aðeins á þá alla sögu, sem orðið hefur i Grindavík, án þess að hennar sjái nú stað. Þessi mikla og aflasæla verstöð var þannig sett, að þar var furðulega lengi mjög örðugt um vik um útgerð. Grindavík var að vísu lengi kaupstaður og Járngerðarstaðavíkin löggiltur verzlunarstaður. En þar flutu ekki í varir nema lítil róðrarskip, og þó vandfarið inn. Það var fyrst 1928 eða 1929, að þar var bryggja gerð milli tveggja vara. Þá fyrst féll það niður, að sjómennirnir bæru aflann sinn á bakinu upp úr bátunum, nýkomnir úr róðri.
GrindavíkVinnuhagræðingin komst á það stig, að kasta mátti fiskinum upp á bryggjuna og aka honum þaðan á handvögnum. En eftir sem áður urðu menn að bjarga bátum sínum undan sjó eftir hvern róður, setja þá sem kallað var, því að enginn vissi, nema sjór tæki að stæra áður en við var litið, og þá voru bátarnir í voða.
Úti fyrir Hópinu var rifið, og var svo grunnt á því, að yfir það flutu ei nema litlir bátar. En er skipastóllinn fór að taka stórbreytingu í öðrum verstöðvum, vofði sú hætta yfir Grindavík, að fólk færi að flýja þaðan á staði, þar sem lífið var léttara. Það var fyrst 1939, að byrjað var á því að gera vísi að bátaleið inn í Hópið.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Reynt var að dýpka svonefndan Miðós — með handverkfærum. Eftir það gátu tíu til fimmtán lesta bátar flotið inn á flóði. Árið 1945 var loks heldur betur tekið að beita tækninni: Dýpkunarskip kom til starfa, og það var ruddur gegnum rifið þrjátíu metra breiður skurður, sjö eða átta feta djúpur. Það var á elleftu stundu, því að óþreyja var komin í margan Grindvíkinginn við allt það, sem þar var við að stríða við sjósóknina.
Síðan hafa mikil tíðindi gerzt. Það er komin höfn í Grindavík og mikill og góður bátafloti, og þar er líf og önn og vöxtur — þúsund manna bær, sem leggur mikið í þjóðarbúið, og mun á komandi tíð bjóða upp á fjölbreyttari störf en hingað til, þótt sjórinn og aflinn verði jafnan undirstaðan.

Vísindamaðurinn og Gunna í kongungshúsinu

Grindavík

Til skamms tima hefur fátt manna úr Grindavík gengið þá braut, sem kölluð hefur menntavegur. Þaðan var þó Bjarni Sæmundsson, fiskifræðingurinn okkar fyrsti, og fleiri Grindvíkingar af gömlu kynslóðinni hafa orðið mörgum kunnir, þótt ekki hefðu þeir lært svo mjög til bókar. Mér dettur i hug hún Gunna gamla i Konungshúsinu, eins og við kölluðum hana hér fyrr meir — veitingakonan, sem átti langa sögu á Þingvöllum, erfingi hússins, sem reist var handa kónginum árið 1907. Öðrum finnst kannski, að heldur hefði átt að nefna aðra en hana, svona við hliðina á vísindamanninum Bjarna Sæmundssyni.

Sjóslysaskilti

Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi.

En gamla konan á líka sín ítök, þar sem hún liggur undir grænni torfu, svo margir drukku hjá henni kaffisopa. Það hefðu svo verið hæg heimantökin að tíunda einhvern harðfengan skipstjóra og veiðikló.
Ef við víkjum að listum í sambandi í Grindavík þá er skemmst að minnast nýja félagsheimilisins, sem Ragnar Kjartansson myndhöggvari hefur skreytt myndum í tengslum við hlutverk staðarins í þjóðlífinu og málverka Péturs Friðriks Sigurðssonar af gömlu húsunum, bátunum og höfninni.

Getið tveggja guðsmanna með góðan orðstír

Grindavík

Grindavík – innsiglingin.

Ekki má ljúka þessu spjalli, án þess að geta svo sem tveggja presta, sem lifðu og störfuðu á meðal Grindvíkinga, alllöngu áður en nýi tíminn hélt þar innreið sína. Þar var séra Kristján Eldjárn prestur um skeið, og var í minnum hafður sökum þess meðal annars, að hann taldi sig ekki ofgóðan til þess að skemmta sóknarbörnum sínum, þegar það átti við. Hann var maður, sem hafði margt dottið í hug — jafnvel ekki grunlaust um, að hann hafi eitthvað fitlað við smíði einhvers konar frumstæðrar flugvélar á æskuárum, og suður í Grindavík brá hann því fyrir sig að leika persónur úr Skugga-Sveini. Hann náði i skottið á þeim tima, er fyrirmenn áttu korða, og sjálfur eignaðist hann þvílíkan grip.

Staðarhverfi

Korði séra Kristjáns. (Úr Staðhverfingabók).

Korðar hafa að líkindum verið lítið notaðir í Grindavík síðan gengið var af Jóni breiða dauðum, nema hvað Tyrkir hafa eflaust brugðið þess kona vopni. En af því er saga, að sér Kristján greip einu sinni til korða síns. Það bar til að steypireyður á flótta undan háhyrningatorfu hljóp á land í Grindavík. Presturinn tók sér þá korðann i hönd og stytti þjáningarstundir skepnunnar, sem brauzt um í fjörunni, með því að reka hann á kaf undir bægslið.

Grindavík

Árabátur neðan verbúðar.

Hinn presturinn, sem við getum ekki gengið fram hjá, var séra Oddur Gíslason frumherji í björgunarmálum á Íslandi og bindindishetja að auki á mikilli drykkjuöld, þegar brennivín var bæði ódýrt og auðfengið. Hann leitaðist við að kenna mönnum að nota bárufleyg í sjávarháska, láta lýsi eða olíu lægja öldurnar. Hann gaf af fátækt sinni út tímaritið Sæbjörgu i eitt ár, og mun tímariti ekki hafa verið stjórnað úr Grindavik í annan tíma, og hann lagði sig fram um að kenna sund. Sjálfur hafði hann bjargað sér og dreng, er með honum var, á sundi úr bráðum háska, er báti hvolfdi undir þeim.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Því er ekki að leyna, að meðal Grindvíkinga hafa verið þeir, sem þótti dropinn góður, og er þar til marks, að einu sinni fór harðmannlegur sægarpur að hágráta, þegar hreppstjórinn velti um einu víntunnunni, sem borizt hafði að landi ósködduð úr strönduðu skipi, og er þó þeim, er þreyta ævi langan leik við hafið, sízt öðrum táragjarnara að jafnaði. Bindindisboðskapur séra Odds kann þess vegna að hafa fallið í grýtta jörð hjá sumum í sókninni. Hvenær gerir boðskapur það ekki? En séra Oddi var svo farið, að hann var maður síns fólks, sjálfur sjómaður, og formaður af bezta tagi, og jafnvígur, hvort sem hann var í skinnklæðum á miðum úti í rismiklum sjó eða hempu í kirkju sinni eöa annars staðar í ræðustóli. Og um hann lék frægðarljómi sökum þess, að hann hafði ungur rænt sér brúði úr húsum þess og höndum, sem ríkastur var og mestur fyrir sér meðal margra ráðríkra útvegsbænda á Suðurnesjum.

Sitthvað úr náttúrunnar ríki

Grindavík

Grindavík – höfnin.

Við höfum látið móðan mása og hlupið úr einu i annað. Og þó er næsta fátt sagt. Það er að svo mörgu að hyggja í Grindavík. Þar eru vatnsgjár, sem álar ganga í neðanjarðar, og þar vex þistill á bletti, og segir þjóðsagan, að hann hafi komið upp af blóði manns, sem Tyrkir drápu. Fuglum, sem annars eru sjaldséðir hérlendis, bregður oft fyrir í Grindavík. Einkum bar nokkuð oft við, að hegrar sæjust þar, og áttu þeir að minnsta kosti fyrr á árum fast náttból undir hraunjaðri utanvert við túnið á Járngerðarstöðum. Þetta eru sem sagt fuglar, sem hafa reiðu á sínu.

Grindavík

Grindavík – Í Norðurvör.

Ekki síður bregður þar fyrir mörgu sérkennilegu og fágætu úr sjónum. Þannig er það í minnum haft, að rétt fyrir aldamótin skaut Helgi i Húsatóftum rostung með framhlaðning. Þeim þótti vont af honum kjötið, Grindvíkingum, en húðin var aftur á móti hreinasta þing í reipi. Það voru þess konar reipi, er nefndust svarðreipi áður fyrr. Þorradag nokkrum árum fyrr rak upp svo mikið af karfa, að fjaran var öll rauð yfir að líta.
Þá var ekki búið að skarka með botnvörpur um allan sjó. En meðal sjaldgæfra fiska, sem rekið hafa þar syðra, má nefna gljáháf 1917, tunglfisk 1931 og umfram allt Bretahveðni, sem er svo sjaldgæfur, að það ætti að halda uppi á daginn, þegar hann fannst, 7. marz 1905, ekki síður en afmæli kóngsins á meðan sú persóna var og hét.
En svona nokkuð þýðir ekki að þylja, því að það myndi æra óstöðugan. Það er ekki seinna vænna að slá punkti aftan við.” — JH.

Heimild:
-Tíminn, 248. tbl. 29.10.1972, Útvegsbærinn á hraunströndinni undir Þorbirni, JB, bls. 10-11.

Grindavík

Grindavík.