Brennisteinsfjöll draga nafn sitt af brennisteinssvæði því sem áður var unninn úr brennisteinn. Enn má sjá þar leifar námunnar sem og minjar eftir námumennina. Einnig á leið þeirra til og frá námusvæðinu, s.s. undir Kerlingarskarði við Grindarskörð (norðar) eða Bollaskörð, eins og þau voru einnig nefnd. Nefndir bollar eru ofan skarðanna þriggja, sem jafnan voru fær um hlíðarnarnar. Þverskarð er syðst þeirra.
Þegar gengið er áleiðis upp í Kerlingarskarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman – og væri þar enn ef einhver hefði ekki séð einhvern verðmæti í honum og/eða notagildi.
Ofan skarðsins blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum þar. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna.
Þegar haldið er inn í brennissteinsnámurnar sunnan í Brennisteinsfjöllum er þægilegast að halda til suðurs vestan Draugahlíða, yfir litlar gígaþústir, framhjá útdauðu hverasvæði á vinstri hönd og síðan suður eftir miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónar stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.
Þegar gengið er á ská niður gróna hlíð má fljótlega sjá nokkuð stóra tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni.
Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hefur hrunið yfir ofninn, en með því að skafa jarðveginn ofan af kemur hann í ljós.
Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fyrst fluttur út frá Íslandi á 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
“Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.”
Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.
Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. síðan tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.”
Þar með lauk áhuga manna á brennisteinsvinnslu hér á landi. Eftir standa námusvæðin, þ.á.m. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík, um þennan sérstaka þátt í atvinnu- og útflutningssögu landsins. Líkt og ofninn, námurnar og minjar námumanna eru enn sýnilegar í Brennisteinsfjöllum má enn sjá minjar brennisteinsnámsins við Seltún og í Baðstofu í Krýsuvík – ef vel er að gáð. Vonandi ber landsmönnum gæfa til að varðveita þessi svæði – þrátt fyrir stóriðju og “knýjandi” orkuþörf, sem verður óþörf innan skammrar fram framtíðar.
Augljóst þykir að landsmenn hafa þörf fyrir nútímaþægindi, s.s. rafmagn. Stóriðja er hins vegar tilbúin skammtímahagvaxtarvon. Þessi skammtímahagvaxtarvon er líklegasta og greiðasta leiðin að eyðileggingu hinnar ómetanlegu náttúru og hins óafturkræfa umhverfis til lengri tíma litið.
Landsfólk þarf að gera þá kröfu til stjórnmálamanna, am.k. þeirra, sem vænta má að hafi eitthvert vit í kollinum (hvort sem um er að ræða karla eða konur), að þeir gefi sér tíma, afli nauðsynlegra upplýsinga, meti síðan valkosti og taki “réttmæta” ákvörðun, líkt og dómarar þurfa að gera í “mannefnalegum” málum. Það er “kýrskýrt” (GÁS) að hinum síðastnefndu hefur oftlega mistekist að lesa skynsamlega út úr raunverulegu meginmáli einstakra viðfangsefna þeirra (kannski vegna tímaleysis eða “færibandslegra, kerfis-, laga- eða reglugerðalegra krafna” (forskrifta)) og niðurstöðurnar verið eftir því. Ákvörðunar um náttúruna og umhverfið má aldrei vega með sama viðmiði.
Auðvitað er niðurlagið raunamædd ræða – en nauðsynleg áminning samt sem áður. Staðreyndir segja að meðan 80% fólks er sama um hvað sem er (nema sjálft sig) er 20% fólks hugsandi um hið sama (um annað en sjálft sig).
Framangreint niðurlag er ekki gagnrýni eða vanmat – einungis “föðurleg” ábending til nálægrar framtíðar (og hefur vonandi skapað rými fyrir enn eina upplýsandi ljósmynd/uppdrátt).
Heimildir m.a.:
-http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html
-Saga Hafnarfjarðar.