Óbrennisbruni

Tiltölulega stutt er í Óbrennishólmann, þangað sem ferðinni var heitið. Hægt er að ganga inn í hólmann vestast í honum eða fylga stígnum uns komið er að þvergötu til vinstri. Hún liggur í gegnum hraunið og inn í suðaustanverðan hólmann.

Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg – að ætla mætti. Þegar betur er að gáð gæti þarna hafa verið um virki frá fyrstu tíð landnáms á svæðinu, nokkru fyrir landnám “hins fyrsta landnámsmanns”. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Hann hefur staðið að hæsta hól ofan við hina fornu Krýsuvík þar sem útsýni var yfir hafflötinn framundan.

Óbrennishólmi

Virkið (fjárborgin) í Óbrennishólma.

Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er tóft húss, sennilega topphlaðið hús að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar. Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn beinn og síðan bogadreginn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum. Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess. Ekki er óhugsandi að Óbrennishólmi hafi verið notaður sem selstaða eða til beitar um tíma því ofan hans má greina manngerða stíga.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu, skammt neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma. Af því að dæma er ekki fjarri lagi að álykta sem svo að líta verði á svæðið (Húshólmi/Óbrennishólmi) sem eina heild.
Gangan tók 2 klst og 11 mín. Frábært veður.

Óbrennishólmi

Fornir garðar í Óbrennishólma.