Gerðavellir

Í bókinni “Frjálsa glaða líf” lýsir Guðmundur Bjarnason fyrrum bóndi í Innri-Lambadal í Dýrafirði, vertíðum í Grindavík, nánar tiltekið á Þórkötlustaðanesi. Hér er útdráttur úr frásögn hans:
Grindavík“Eftir áramótin 1933-1934 fór ég suður í atvinnuleit…” Í Reykjavík hitti hann Guðjón Jónsson [í Höfn, faðir Péturs] frá Grindavík. Hann réði Guðmund sem vertíðarmann. Fjórar vertíðir hjá Guðjóni fylgdu í kjölfarið.
“Í Grindavík vóru allir menn ráðnir upp á kaup en ekki aflahlut. Kaupið var þrjú til fjögur hundruð krónur yfir vertíðina og frítt fæði og húsnæði. Vertíðin stóð frá 1. febrúar til 11. maí, það er að segja um 100 daga.
Við fórum suður til Grindavíkur seinni part næsta dags. Að Höfn í Grindavík komum við í myrkri um kvöldið. Byggðin var þá í þremur hverfum; Þórkötlustaða-, Járngerðarstaða- og Staðarhverfi og í raun var hvert hverfi sjálfstæð verstöð. Guðjón átti heima í Þórkötlustaðahverfi, það er austasta hverfið, næst fjallinu Festi.
Brimasamt var í Grindavík og innsiglingin að Þórkötlustöðum um þröng sund á milli boða. Þegar sundið var tekið, var farið eftir innsiglingarvörðum, en þegar braut yfir sundið frá landi að sjá, var “flaggað frá”. Því starfi gegndi fullorðinn maður og fyrrum sjósóknari sem allir báru traust til. Þegar innfyrir var komið var landtakan eftir og þurfti að hafa gát á, sérstaklega ef vont var í sjó.
Bátarnir í Nesinu

Allur fiskur var þá seilaður upp á færi og látinn útbyrðis jafnóðum, þar til báturinn var tómur. Þá var lendingin tekin og bátnum bjargað undan sjó. Því næst vóru seilurnar dregnar að landi og aflinn borinn upp úr fjörunni. Kom þá hver maður með sína seilaól. Var hún tengd við enda færisins og hæfilega mörgum fiskum rennt af færinu yfir á seilaólina og fór magnið eftir því hver bera átti. Lyftu menn síðan byrðunum hver á annars bak og lá seilaólin yfir öxlina þannig að borið var í bak og fyrir.
Seilað

Við þórkötlustaðahverfi þótti landtaka öllu betri en við Járngerðarstaðahverfi. Sagt var að aldrei hefði farist bátur á Þórkötlustaðasundi en nítján á Járngerðarstaðasundi og ætti enn einn eftir að farast þar.
Fyrsta morguninn minn í Grindavík vaknaði ég snemma og við sjávarhljóð. Nálægðin við hafið fór vel í mig.
Eftir hádegi þennan fyrsta dag minn í Grindavík fór að snjóa. Ekki hafði áður á þessum vetri fest snjó í Grindavík, þótt vestur í Dýrafirði væri búið að ganga á með hríðarbyljum. Þða var eins og snjókoman væri Grindvíkingum einhver himnasending. Menn þustu að ofan úr hverfi og tóku til við að velta snjóboltum hver um annan þveran. Mikið kapphlaup var um stærstu sléttu blettina í hrauninu.
Ískofi

Þegar ég var genginn í bardagann rann smám saman upp fyrir mér hvað um var að vera. Þarna í hrauninu vóru einir tíu kofar, næstum ósýnilegir og að töluverðu leyti niðri í hraungjótum faldir með torfsneplum sem hvíldu á bárujárni. Inn í þessa kofa báru menn snjóboltana, ýmist í fanginu eða á handbörum. Þetta stóð yfir í á þriðja klukkutíma, þá hættia ð snjóa og var snjórinn fljótur að bráðna niður í hraunið, þar sem sjórinn var skammt undir og gaf því yl. Kofarnir tíu, vóru íshús þeirra 11 skipa sem réru úr hverfinu. Tveir bátar vóru saman um einn kofann og var hann helmingi stærri en heinir. Það var kofi þeirra Einlandsfeðga. Í kofunum var beitan geymd og svo einnig lóðabalarnir eftir að búið var að beita til næstu sjóferðar.
Snógeymslan var í öðrum enda kofans en í hinum endanum fór frystingin fram. Þar hafði verið smíðaður stór kassi og svo annar minni úr blikkplötum sem var látinn standa innan í þeim stærri og í hann sett það er frysta átti. Var þá um fimm tommu rými á milli kassanna allt í kring.

Þórkötlustaðabót

Hrært var saman snjó og dálitlu af salti og bilið á milli kassanna fyllt með því. Hljóp að allt í gadd og gat þetta verið afbragðs frystigeymsla, ef þess var gætt að endurnýja frostið þegar með þurfti. Alltaf var notað úrsalt við ísgerðina.
Mér þótti eftirtektarvert hvað margir eldri Grindvíkinga töluðu með mikilli virðingu um bátana og nefndu þá jafnan skipin, svo sem Hraunsskipið, Einlandsskipið, Klapparskipið, Vesturbæjarskipið, Austurbæjarskipið, Miðbæjarskipið, Þórkötlustaðaskipið, Buðlunguskipið og svo framvegis.
Spilið

Bátur Guðjóns hét Stígandi, en Einlandsbáturinn Sæfari. Á línuvertíðinni vóru fjórir landmenn og fimm á sjónum á hvorum báti. Alls vóru því átján sjómenn á báðum bátunum. Aðeins á tveim dögum á vertíðinni mátti ekki róa. Það var á föstudaginn langa og páskadag. Oft var ekki sofið nema tvo til þrjá tíma á sólarhring þegar gæftir vóru. ég heyri oft talað um páskahrotur, fiskihlaup komið upp í landsteina og þá landburð af fiski sem stæði í nokkra daga og þá oftast rétt fyrir eða alveg um páskana. Alltaf var róið þegar gaf á sjó þrátt fyrir tregfiski en brátt leið að páskavikunni og þá kom hlaupið. Línan var dregin uns fullhlaðið var og enn var borð fyrir báru. Allir gengu í að landa aflanum og var eins og kapp færðist í hvern mann þegar aflahrotan var komin. Mikilvægt var að eiga nóg beitt í næstu lögn áður en farið var að gera að aflanum. Ekki var lagst til svefns fyrr en allur fiskur var kominn í salt.
Veðurblíðan hélst alla páskavikuna. Það var eins og sjórinn væri fullur af fiski, alveg upp í landsteina. Á annan í páskum drógu menn hins vegar dauða línu. Fiskhlaupið var gengið hjá.

Höfn

Á þriðja í páskum var enn róið en þá þóttu líkur að hann væri að breyta veðri. Birtingin var undarleg þennan dag. Meðan enn var dimmt ljómaði austurloftið og Eyjafjallajökull stóð uppljómaður í hillingum og nálægur eins og hann væri aðeins smáspöl í burtu. “Nú er hann heldur betur að ganga í landátt”, sagði innfæddur Grindvíkingur. Það varð orð að sönnu, því framundan var hálfs mánaðar landlega.
Svo kom smá hrota rétt fyrir lokin, sem Grindvíkingar kölluðu lokahrotuna.
Í lok vetrarvertíðar réði ég mig sem vormaður fyrir orð Guðjóns. Gott þótti mér að vera í Grindavík þetta vor. Ég gekk á fjallið Festi með nokkrum vinum mínum á Jónsmessunótt. Daginn eftir fór ég heim í Dýrafjörð með 600 krónur í vasanum, en það þótti nokkuð mikill peningur í þá daga þegar kreppan var í hámarki.
Og ég hélt áfram að fara suður á netavertíð næstu árin. Eitt sinn hafði brimað upp en lognbrim var og enginn bátur fór á sjó.
VörinÁ þriðja degi var ennþá brim. Þá var ákveðið að manna út annan bátinn og reyna að ná netarossunum frá bátum 
bátunum. Harðar hendur voru hafðar við að draga netin. Töluvert bætti í brimið á meðan. Þegar komið var aftur að sundinu var um það bil orðið ófært.
Sundið var tekið eftir að búið var að bíða stund fyrir utan eftir lagi. Sjórinn saup upp með skutnum eins og gos þars em báran var við það að mynda hvolf. Smástund leið, aðeins brot úr mínútu og báturinn var kominn inn á sundið áður en aldan fellur. Skipstjórinn glottir við tönn. Sjá var sem skaflinn sæti á herðum hans á leiðinni inn sundið. Í fjörunni voru ótal hendur tilbúnar með spilstrengi til þess að hífa skipið upp. Það var allþungt þar sem mikið af farminum var í því og tíma tók að tæma það af sjó.
Litlu áður en ég fór til róðra í Grindavík, var uppsátrið flutt fram í nesið og byggð þar bryggja, eða réttara sagt byrjun á bryggju, því hún stóð á þurru um stærstu fjörur. Áður hafði lendingin verið heima í hverfinu í Buðlungavör sem er klettaskora þar sem klappir liggja að. Þar er aðdjúpt og stuttur setningur. Allur fiskur var þar seilaður út og borinn á bakinu upp klappirnar.
Austasta jörðin í Grindavík heitir Hraun. Þar bjuggu bræður tveir, Gísli og Magnús Hafliðasynir. Þeir gerðu út bát er ávallt var nefndur Hraunsskipið.
ÞórkötlustaðagataLöng sjávargata er frá Hrauni og fram í Nes. Gísli var töluvert farinn að reskjast en Magnús til muna yngri og formaðurinn á bátnum. Mjög vóru þeir bræður samrýmdir og á göngunni milli skips og bæjar gekk Magnús ávallt á undan en Gísli fast á hæla hans.  Alltaf vóru þeir bræður í hrókasamræðum en aldrei sammála. Fræg er sagan um riflildi þeirra um sporðinn og þunnildið.
Hraunsskipið var minnsti báturinn í Grindavík en Magnús sullaðist alltaf á sjó, ekki síður en aðrir ef fært var. Stundum sullaðist sjórinn upp úr stígvélum Magnúsar eftir að hafa haldiðs kipinu frá landi, jafnvel í tólf til fimmtáns tiga frosi. Ég spurði Magnús einu sinni hvort honum væri ekki kalt á fótunum þegar hann færi stígvélafullur á sjóinn. “Nei”, sagði Magnús, “það er bara um að gera að hafa alltaf ferskan sjó í stígvélunum.”

Heimild:
-Guðmundur Bjarnason, Frjása glaða líf, Reykjavík 1993, bls. 88 – 102.

Veðrabrigði