Nú er svo komið að efri innsiglingarvarðan við Hóp þarfast aðhlynningar.
Varðan laskaðist í jarðskjálfta fyrr á árinu og æ síðan hefur grjót verið að hrinja smám saman innan úr henni.
Innsiglingarvörðurnar inn í Hópið eru tvær, auk Hópsheiðarvörðu. Þær eru bæði miklar um sig og háar eftir því. Þegar Hópsrifið var grafið inn 1939 svo nota mætti Hópið sem lægi fyrir stærri skip (árabáta og vélbáta) voru vörðurnar hlaðnar. Þær hafa æ síðan verið eitt af meginkennileitum Grindavíkur – gulmálaðar í seinni tíð. Margir nafngreindir Gindvíkingar komu að hleðslunum. Þær er þó einungis ysta lagið, þ.e. það sýnilega, en að innanverðu eru vörðurnar kasthlaðnar. Það er ástæðan fyrir svo skjótri forfáun efri innsiglingarvörðunnar (skammt neðan við Austurveg). Í fyrstu hrundi ysta hleðslulagið og þá var ekki að sökum að spyrja – innvolsið fylgdi á eftir. Nú er svo komið að meir og meir hrinur innan úr vörðunni. Skammt er því að bíða að efri hluti hennar falli niður í heilu lagi – nema eitthvað verði að gert, t.d. með því að endurhlaða sárið og fylla að nýju.
Nokkru eftir að framangreint var skrifað hrundi úr neðri Hópsvörðunni, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan.